Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

94/2015 Suður Mjódd

Með
Árið 2017, miðvikudaginn 8. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 94/2015, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2015 um að samþykkja breytingar á deiliskipulaginu Suður- Mjódd.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir P, Réttarbakka 1, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2015 að samþykkja breytingar á deiliskipulaginu Suður- Mjódd. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. september 2016, er barst 20. s.m., gerir sami aðili þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem heimild til framkvæmda felst ekki í skipulagi þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda og verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.
 
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. desember 2015.

Málsatvik og rök: Hinn 15. apríl 2015 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Suður-Mjódd. Í tillögunni fólst heildarendurskoðun á eldra deiliskipulagi, m.a. uppbygging á frjálsíþróttavelli, íbúðum og stofnunum, ásamt auknu byggingarmagni. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 29. maí s.á. með athugasemdarfresti til 10. júlí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda.

Að lokinni kynningu var tillagan lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. september 2015 og hún samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 28. ágúst s.á, þar sem athugasemdum var svarað. Var afgreiðslan staðfest af borgarráði 17. s.m. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 12. október s.á., voru gerðar athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. nóvember s.á. var bréf Skipulagsstofnunar lagt fram auk umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 2. s.m., og uppdrátta, dags. 12. mars s.á., sem uppfærðir voru 2. nóvember s.á. Í umsögninni kom fram að greinargerð og uppdrættir hefðu verið lagfærðir í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunar og lagðir fyrir umhverfis- og skipulagsráð og borgarráð til samþykktar. Var umsögnin samþykkt á greindum fundi umhverfis- og skipulagsráðs og sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarrráðs 12. nóvember 2015. Deiliskipulagstillagan tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þar um 17. desember s.á.

Kærandi skírskotar til þess að á svæði ÍR sé gert ráð fyrir 250 bílastæðum, en áhorfendasvæði í fjölnota íþróttahúsi sé fyrir 1500 manns og sami fjöldi sé skráður í áhorfendastúku. Hafi ekki verið gefin haldbær rök fyrir svona fáum stæðum. aðeins sé talað um lágmarkskröfur á fjölda bílastæða, en raunin sé oft að það þurfi fleiri bílastæði en lágmarkskröfur geri ráð fyrir.  Jafnframt sé það fásinna að segja að Breiðholtsbraut sé utan skipulagssvæðis þar sem aukið byggingarmagn og starfsemi muni hafa mikil áhrif á umferð um Breiðholtsbraut og nærliggjandi götur. Þá sé stækkun elliheimilis vanhugsuð þar sem ekki verði hægt að uppfylla hljóðvist þar sem byggingin liggi með fram Breiðholtsbraut. Ekki sé getið um hvernig eigi að leysa hljóðvistarmál, enda segi ekkert um hver umferðarþunginn verði eða sé. Þá sé ekkert tillit tekið til tengingar Álfabakka við Hlíðardalsveg í Kópavogi.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að gerðar verði ráðstafanir vegna hljóðvistar til að uppfylla reglugerðarákvæði um hljóðvist innanhúss. Geri megi ráð fyrir einhverri aukningu á umferð vegna fyrirhugaðra framkvæmda, en erfitt sé að áætla umferð. Hvað varði bílastæði þá sé almennt lögð áhersla á samlegðaráhrif bílastæða á íþróttasvæðum og svæðum fyrir verslun og þjónustu. Sé því hægt að nýta bílastæði í Norður-Mjódd og á öðrum svæðum í göngufjarlægð frá íþróttasvæðinu. Tenging Álfabakka til Kópavogs sé óbreytt samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Að lokum sé á það bent að skipulagsvald sé hjá sveitarfélögum. Ekkert hafi komið fram í kæru sem bendi til þess að ekki hafi verið heimilt að skipuleggja svæðið með þessum hætti og sé vandséð hvaða hagsmuni sé verið að skerða með henni.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni.

Í kæru eru gerðar athugasemdir sem virðast að megni til byggja á gæslu almannahagsmuna, s.s. skorti á bílastæðum við íþróttasvæði og hljóðvist í fyrirhuguðum byggingum, svo og stækkun á byggingu fyrir þjónustuíbúðir aldraðra, sem kærandi telur að sé vanhugsuð. Jafnframt telur kærandi að umræddar breytingar muni hafa í för með sér aukna umferð. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands á kærandi lögheimili að Réttarbakka 1 í Reykjavík, sem staðsett  er norðan Breiðholtsbrautar. Hin kærða ákvörðun tekur hins vegar til svæðis sunnan við greinda umferðargötu og er í kæru ekki getið um nein þau mögulegu grenndaráhrif sem framkvæmd hinnar kærðu ákvörðunar gæti haft í för með sér á fasteign kæranda. Þá verður ekki séð að aukning umferðar í þéttbýli um fjölfarna umferðargötu geti haft í för með sér þau áhrif á kæranda umfram aðra íbúa Breiðholts að hann geti talist eiga beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsákvörðun snerti þá lögvörðu hagsmuni kæranda að skapi honum kæruaðild. Þá eiga undantekningartilvik nefndrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 ekki við í málinu. Þar sem ekki þykir sýnt fram á kæruaðild í málinu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

12/2017 Reykjanesvitabraut

Með
Árið 2017, miðvikudaginn 8. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 12/2017, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar um að veita framkvæmdaleyfi vegna fyrsta áfanga bílastæðis við Reykjanesvitabraut 1, Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Vitavörðurinn ehf., eigandi Reykjanesvita-íbúðarhúss, Reykjanesi, þær ákvarðanir skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar frá 18. janúar 2017 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis annars vegar og hins vegar að gefa það út vegna fyrsta áfanga bílastæðis við Reykjanesvitabraut 1 í Reykjanesbæ. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 7. febrúar 2017.

Málsatvik og rök: Auglýsing um gildistöku nýs deiliskipulags fyrir Reykjanesvita var birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. maí 2016. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu með það að markmiði að Reykjanesviti og nágrenni verði miðstöð ferðamannastaða á Reykjanesi. Hinn 18. janúar 2017 samþykkti skipulagsfulltrúi Reykjanesbæjar framkvæmdaleyfi fyrir gerð fyrsta áfanga bílastæðis á deiliskipulagssvæðinu og munu framkvæmdir hafa hafist samdægurs.

Kærandi bendir á að deiliskipulag það sem hið kærða framkvæmdaleyfi styðjist við hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar, en úrskurður hafi ekki verið uppkveðinn. Umrætt deiliskipulag fullnægi ekki lagakröfum að því er varði form og efni. Telji kærandi þá annmarka svo verulega að ógildingu valdi. Fallist úrskurðarnefndin á að rök standi til þess að ógilda deiliskipulagið leiði sú niðurstaða jafnframt til þess að síðari ákvarðanir, sem á því séu byggðar, séu jafnframt ógildar. Þá telji kærandi enga heimild til þess að gefa út framkvæmdaleyfi með áritun á umsókn um framkvæmdaleyfi. Ekki liggi fyrir að skriflegt leyfi hafi verið gefið út í samræmi við 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Sveitarfélagið tekur fram að vegna formgalla við samþykkt og útgáfu framkvæmdaleyfis 18. janúar 2017 hafi það verið afturkallað skv. heimild í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Áður en framkvæmdir hefjist að nýju beri að sækja aftur um framkvæmdaleyfi til bæjaryfirvalda. Þar sem kærandi eigi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins vænti sveitarfélagið þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Þess megi geta að ekkert hafi verið unnið á svæðinu síðustu tvær vikur.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir þá hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

31/2015 Hringbraut

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 2. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2015, um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna meintrar ólögmætar nýtingar á geymslurými í kjallara Hringbrautar 73.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. maí 2015, er barst nefndinni 8. s.m., kærir G, Hringbraut 73, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2015 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna ólögmætrar nýtingar geymslurýmis í kjallara hússins að Hringbraut 73. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt fyrir byggingarfulltrúa að koma í veg fyrir meinta ólögmæta nýtingu nefnds geymslurýmis.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 24. september 2015.

Málavextir: Fjöleignarhúsið að Hringbraut 71-73, skiptist í fjórar íbúðir. Kærandi er eigandi íbúðar á annarri hæð í húsi nr. 73 og er í máli þessu deilt um breytta hagnýtingu séreignar í kjallara sem fylgir íbúð á fyrstu hæð í sama húsi. Geymslurýmin í kjallaranum eru átta talsins auk sameignar og eru fjögur í séreign hvorrar íbúðar.

Málið á sér nokkra forsögu en það fór fyrir kærunefnd húsamála sem kvað upp álit sitt nr. 18/2013 hinn 14. október 2013. Kom þar og fram að nefndin taldi að eiganda fyrstu hæðar væri heimilt að leigja út séreign sína í kjallaranum, enda deili leigjandi salerni með leigusala í íbúð hans á fyrstu hæð. Kærunefndin tók þó fram að allt að einu þyrfti samþykki byggingarfulltrúa fyrir breyttri hagnýtingu herbergisins. Þá rataði málið einnig fyrir héraðsdóm Reykjavíkur, en í því máli, nr. E-2093/2014, gerði gagnstefnandi, kærandi í þessu máli, þá kröfu að viðurkennt yrði að óheimilt væri að nýta geymslurými í kjallara til íbúðar og að þeirri hagnýtingu yrði hætt þegar í stað að viðlögðum dagsektum. Með dómi uppkveðnum 26. febrúar 2015 var þeirri kröfu vísað frá þar sem samkvæmt 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé það hlutverk byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags að hafa eftirlit með því að ákvæðum um leyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis sé framfylgt, en ákvörðun byggingarfulltrúa lá ekki fyrir á þeim tímapunkti.

Hinn 14. mars 2013 tilkynnti skilmálafulltrúi byggingarfulltrúa honum að í kjölfar kvörtunar hafi verið farin vettvangsferð að Hringbraut 73 og í henni hafi komið í ljós að geymslur í kjallara hússins væru notaðar sem íbúðarherbergi. Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 væri það óheimilt, en kjallarinn væri niðurgrafinn með aðeins 2,1 m lofthæð og gluggar væru ekki gerðir með það í huga að vera flóttaleið. Með bréfi, dags. 9. apríl s.á., tilkynnti embætti byggingarfulltrúa eiganda umrædds kjallararýmis að við vettvangsskoðun hafi komið í ljós að geymslurými í kjallara væri nýtt sem íbúðarherbergi. Var honum veittur 14 daga frestur til að koma að skriflegum skýringum og athugasemdum vegna málsins og að framangreindum fresti liðnum yrði tekin ákvörðun um framhald máls með hliðsjón af 55. gr. laga um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Í málinu liggur ekki fyrir svarbréf frá eiganda kjallararýmisins vegna þessa. Þó kemur fram í tölvupósti frá starfsmanni Reykjavíkurborgar til lögmanns kæranda frá 13. febrúar 2014 að í bréfi frá eiganda sé upplýst að þegar hann festi kaup á geymslunum árið 2003 hafi allar breytingar þegar verið gerðar. Með bréfi, dags. 8. apríl 2015, var kæranda svo tilkynnt að embætti byggingarfulltrúa myndi ekki aðhafast frekar í málinu.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að samþykki byggingarfulltrúa þurfi fyrir hinni breyttu notkun umrædds geymsluherbergis, sbr. gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Geymsluherbergið uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar til að nýta megi það til íbúðar. Vísað sé til gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð varðandi úrræði þau sem byggingarfulltrúa beri að grípa til, liggi fyrir að ekki sé fengið leyfi til nýtingar geymsluherbergjanna til íbúðarnota.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að líkt og fram komi í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 20/2015 þá sé það í höndum byggingarfulltrúa að meta hvort tilefni sé til beitingar þvingunarúrræða samkvæmt ákvæðum laga um mannvirki og byggingarreglugerðar. Til að slíkt mat teljist málefnalegt verði það að byggja á almannahagsmunum þeim er búi að baki laga- og reglugerðarsetningu á þessu sviði, t.a.m. skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Ekki verði talið að greindu ákvæði laganna sé ætlað að tryggja lögvarinn rétt einstaklings til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða enda eigi önnur réttarúrræði að tryggja slíka vernd á einstaklingsbundnum hagsmunum.

—–

Eiganda kjallararýmisins var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er um það deilt hvort eiganda geymsluherbergis í fjöleignarhúsinu að Hringbraut 73 hafi verið heimilt að breyta því í íbúðarherbergi. Samkvæmt gildandi eignaskiptayfirlýsingu er kveðið á um að herbergið sé geymsluherbergi.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að leggja fyrir byggingarfulltrúa að beita þvingunarúrræðum vegna hagnýtingar fyrrgreinds kjallararýmis, verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt. Verður því ekki tekin afstaða til þess hluta kröfugerðar kæranda.

Hafi notkun mannvirkis verið breytt án lögboðins leyfis er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva þá notkun, loka mannvirkinu, krefjast úrbóta eða beita dagsektum sé leyfislausri notkun ekki hætt, samkvæmt 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við, sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Í gögnum málsins liggur fyrir að embætti byggingarfulltrúa telur notkun umrædds kjallararýmis til íbúðar vera ólögmæta svo sem fram kemur í bréfi embættisins, dags. 9. apríl 2013, til íbúa Hringbrautar 73. Í samskiptum embættis byggingarfulltrúa og lögmanns kæranda í febrúar 2014 kom m.a. fram að embættið telji sig ekki fært um að fullyrða hver raunveruleg notkun rýmisins sé. Þá liggi fyrir álit kærunefndar húsamála nr. 18/2013 þar sem komi fram að eiganda kjallararýmisins sé heimilt að leigja það út til íbúðar án samþykkis kæranda en afla þurfi samþykkis byggingarfulltrúa fyrir breyttri hagnýtingu herbergisins. Einnig hafi komið fram af hálfu eiganda geymsluherbergisins að hann hafi keypt geymslurnar árið 2003 og hafi engar breytingar verið gerðar á rýminu af hans hálfu. Byggingarfulltrúi hafi í öðrum málum freistað þess að gera kröfu um að látið sé af óleyfisbúsetu, t.d. í bílskúrum, og m.a. lagt á dagsektir, en verið gerður afturreka með slíkar ákvarðanir af æðri stjórnvöldum þar sem embættið hafi ekki þótt færa sönnur á búsetuna.

Í bréfi skilmálafulltrúa til byggingarfulltrúa, dags. 14. mars 2013, er staðfest að umdeild kjallarageymsla var notuð til íbúðar og að gluggar gætu ekki nýst sem flóttaleið. Ekkert var því í vegi að embætti byggingarfulltrúa gengi úr skugga um notkun húsnæðisins áður en hin kærða ákvörðun var tekin, sbr. 3. mgr. 37. gr. og 4. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og ekki virðist hafa verið litið til öryggishagsmuna svo sem vegna eldhættu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykja þeir ágallar vera á rannsókn máls og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði.
   
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur verulega dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að beita ekki þvingunarúrræðum vegna meintrar ólögmætrar nýtingar í kjallara á Hringbraut 73.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

79/2015 Kastalagerði

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 2. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2015, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 30. júní 2015 um að Ás styrktarfélag skuli afla starfsleyfis vegna reksturs sambýla við Kastalagerði 7 og Kópavogsbraut 5a og 5c, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. september 2015, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Ás styrktarfélag, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 30. júní 2015 að því væri skylt að hlíta eftirliti og starfsleyfisskyldu vegna reksturs sambýla við Kastalagerði 7 og Kópavogsbraut 5a og 5c, Kópavogi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 29. október 2015.

Málavextir: Kærandi rekur m.a. búsetuúrræði fyrir fatlað fólk við Kastalagerði 7 og Kópavogsbraut 5a og 5c í Kópavogi. Hinn 9. mars 2015 sendi starfsmaður heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis tölvupóst til kæranda þess efnis að við reglubundið eftirlit hefði komið í ljós að ekki væri í gildi starfsleyfi fyrir greind búsetuúrræði og var bent á að sækja þyrfti um slíkt leyfi. Bárust mótmæli frá kæranda samdægurs og í kjölfarið hófust tölvupóstsamskipti milli kæranda og starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins. Hinn 30. s.m. var á fundi heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis samþykkt að kanna hvort vafi léki á að íbúar Kópavogsbrautar 5 og Kastalagerðis 7 ættu rétt á hollustuháttaeftirliti og var bókunin tilkynnt kæranda með tölvupósti, dags. 31. s.m. Heilbrigðiseftirlit var framkvæmt 12. maí s.á. og var forstöðumönnum heimilanna tilkynnt um niðurstöður þess með bréfi, dags. 20. s.m., og þeim jafnframt gefinn kostur á að gera athugasemdir.

Á fundi heilbrigðisnefndarinnar 30. júní 2015 var lagt fram erindi umhverfisráðuneytisins frá 16. janúar 2004 þess efnis að sambýli þar sem veitt væri þjónusta allan sólarhringinn skuli hafa starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd. Einnig voru lagðar fram eftirlitsskýrslur, dags. 20. maí 2015, og bókað að ekki hefði verið sótt um starfsleyfi fyrir starfsemina að  Kastalagerði 7 og Kópavogsbraut 5. Loks var bókað að lagt væri fyrir rekstraraðila að sækja um starfsleyfi innan 14 daga að viðlögðum dagsektum. Var kæranda tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar með bréfi, dags. 1. júlí s.á., og ítrekað að kærandi skyldi afla starfsleyfis innan 14 daga. Í bréfinu var m.a. tekið fram að staðfest væri með eftirlitsferðum að á greindum stöðum væru rekin sambýli með þjónustu allan sólarhringinn. Jafnframt var kæranda gefinn frestur til að koma að andmælum við niðurstöðu nefndarinnar. Bárust mótmæli frá honum með bréfi, dags. 28. júlí s.á., og voru þau lögð fyrir heilbrigðisnefnd á fundi nefndarinnar 31. ágúst s.á. Var bókað á fundinum að hún ítrekaði fyrri afstöðu sína. Var bókunin tilkynnt kæranda með bréfi, dags. sama dag, og farið fram á að sótt yrði um starfsleyfi fyrir umrædd búsetuúrræði innan 14 daga. Var og tekið fram í bréfinu að færi rekstraraðili ekki að tilmælunum innan tilskilins frests væri heimilt að ákveða starfseminni dagsektir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ákvörðun um starfsleyfisskyldu sé íþyngjandi. Samkvæmt lögmætisreglunni verði allar ákvarðanir stjórnvalda að byggja á skýrum lagagrunni. Þegar kemur að íþyngjandi ákvörðun verði grundvöllurinn að vera afar skýr, því sé ekki fyrir að fara í máli þessu.

Því sé mótmælt að starfsemin falli undir hugtakið sambýli. Sambýlishugtakið sé hvergi lögfest og hvergi skilgreint í lögum. Hugtakið hafi því hvorki lagalega merkingu né merkingu í almennu máli. Hið lagalega hugtak sem löggjafinn og stjórnvöld hafi ákveðið að notast við sé heimili fólks, sbr. t.d. reglugerð nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu. Nálgun heilbrigðisnefndar byggi því á misskilningi. Einnig sé á það bent að heilbrigðisnefndin virðist gefa sér að ákvæðið um sólarhringsþjónustu sé uppfyllt án þess að það hafi verið skoðað sérstaklega. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri stjórnvaldi að rannsaka allan grunn málsins áður en ákvörðun sé tekin.

Ákvæðið sem byggt sé á sé „sambýli þar sem þjónusta sé veitt allan sólarhringinn“. Hið rétta sé að þjónusta sé ekki veitt allan sólarhringinn þó vera megi að fólk sé aðstoðað á heimili sínu. Grundvallar eðlismunur sé á því hvort þjónusta sé veitt eða aðstoð. Þegar grannt sé skoðað komi í ljós að ákvæðið sem um ræði sé matskennt og stjórnvaldið hafi ekki gætt að því. Ekki hafi verið talin þörf á að leggja starfsleyfisskyldu á umrædda starfsemi hingað til. Það hafi væntanlega verið á þeim grundvelli að horft hafi verið til þess að um heimili fólks sé að ræða og það gangi gegn almennum jafnræðisreglum að leggja starfsleyfisskyldu á heimili fatlaðs fólks sérstaklega. Engin efnisleg rök séu fyrir því að leggja starfsleyfisskyldu sérstaklega á heimili fatlaðs fólks. Þvert á móti megi færa rök fyrir því að heimili fatlaðs fólks skuli njóta sömu réttinda og beri sömu skyldur og önnur heimili.

Markmiði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir um að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felist í heilnæmu og ómenguðu umhverfi verði ekki náð með því að leggja starfsleyfisskyldu á umrædda staði. Hægt sé að ná markmiðunum með mun vægari hætti. Hafi verið farið offari gegn aðilum sem ávallt hafa verið með sín mál á hreinu. Hið sama gildi um ákvörðun heilbrigðisnefndar um dagsektir.

Um breytta stjórnsýsluframkvæmd gildi sérstakar reglur, t.a.m. um birtingu. Birting breyttrar stjórnsýsluframkvæmdar verði að vera með opinberum og almennum hætti. Slíkar reglur séu settar almenningi í hag. Af gögnum málsins verði ekki séð hvernig staðið hafi verið að hinni breyttu framkvæmd og hafi hvergi komið fram hvernig hún hafi verið birt með almennum hætti.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Af hálfu heilbrigðisnefndarinnar er vísað til þess að um langa hríð hafi verið fylgt þeirri framkvæmd að telja öll sambýli þar sem þjónusta sé veitt allan sólarhringinn háða eftirliti heilbrigðisnefndarinnar og að þau skuli hafa starfsleyfi í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sú frumafstaða heilbrigðisnefndarinnar, að starfsemi kæranda teldist til starfsleyfisskyldrar starfsemi, hafi verið kynnt kæranda 9. mars 2015. Á fundi heilbrigðisnefndarinnar 31. ágúst s.á. hafi því ekki verið tekin ákvörðun um starfsleyfisskyldu kæranda heldur aðeins verið svarað andmælum hans sem hefðu borist með bréfi, dags. 28. júlí s.á. Hafi ákvörðun um starfsleyfisskyldu verið tekin nokkrum mánuðum fyrr og margsinnis kynnt kæranda. Kæran sé því of seint fram komin.

Starfsemi kæranda geri mörgum fötluðum einstaklingum kleift að búa saman á heimili. Hafi lengi verið stuðst við hugtakið „sambýli“ til að lýsa búsetuúrræði fatlaðra, þar sem þeim sé gert kleift að búa saman á heimili og notið þjónustu og stuðnings sem hæfi þeirra þörfum. Í lögum hafi ekki komið fram afstaða löggjafans til þess að breyta inntaki orðsins sambýli. Þyki því óhætt að líta svo á að í starfsemi, sem felist í því að halda heimili fyrir fatlaða einstaklinga, feli í sér rekstur sambýlis í skilningi laga nr. 7/1998. Þá sé á það bent að eftirlit með aðbúnaði og heilbrigðismálum á slíkum heimilum sé beinlínis æskilegt, enda kunni fatlaðir einstaklingar að eiga erfiðara en aðrir með að sækja rétt sinn og krefjast úrbóta á húsnæði og aðbúnaði sem sé ábótavant. Eftirlit heilbrigðisyfirvalda tryggi aðhald í þeim málum.

Loks sé fullyrðingum um brot á jafnræðisreglu og meðalhófi hafnað. Allir þeir aðilar sem stundi starfsemi á borð við þá sem kærandi stundi séu starfsleyfisskyldir. Slíkt sé ákveðið af löggjafanum en ekki af stjórnvöldum og bjóði lögin ekki upp á vægari úrræði fyrir þá aðila sem stunda slíka starfsemi. Þá kunni að vera þörf á að skýra betur efni hinnar kærðu ákvörðunar, enda hafi þar hvorki verið kveðið á um álagningu dagsekta né upphæð slíkra sekta heldur einungis verið tilkynnt um að til stæði að taka ákvörðun um álagningu dagsekta til þess að kærandi myndi hlíta lögum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort að starfsemi búsetuúrræða fyrir fatlaða, sem kærandi rekur á tveimur stöðum í Kópavogi, sé starfsleyfisskyld og háð eftirliti heilbrigðisnefndar svæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. a. í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skulu stofnanir, fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin eru upp í fylgiskjali III með lögunum hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd viðkomandi svæðis. Eins og rakið er í málavöxtum var kæranda í marsmánuði 2015 bent á af starfsmönnum heilbrigðiseftirlits að hann þyrfti að sækja um starfsleyfi fyrir starfsemi sinni og í kjölfar frekari rannsóknar lagði heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis á fundi sínum 30. júní s.á. fyrir kæranda að sækja um slíkt leyfi. Verður að líta á það sem hina kærðu ákvörðun í máli þessu. Takmarkast því lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við ákvörðun þá sem um er deilt og koma athugasemdir kæranda vegna dagsekta því ekki til álita hér. Felur enda hin kærða ákvörðun heilbrigðisnefndar ekki í sér álagningu dagsekta heldur fyrirætlan þar um bregðist kærandi ekki við þeim fyrirmælum nefndarinnar að sækja um starfsleyfi.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Var sá frestur liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því að kæranda var gefinn kostur á að koma að andmælum við ákvörðun heilbrigðisnefndar frá 30. júní 2015 og að honum var hvorki leiðbeint um kæruleið né kærufrest fyrr en með bréfi heilbrigðiseftirlits fyrir hönd heilbrigðisnefndar, dags. 31. ágúst s.á., þar sem hin kærða ákvörðun var ítrekuð, verður að telja afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr. Verður hún því tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrir liggur að nokkur samskipti voru milli heilbrigðiseftirlits- og nefndar við kæranda í mars 2015. Af því tilefni var gagna aflað, þ. á m. upplýsinga um skráningu umrædds húsnæðis hjá fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands þar sem annað húsnæðið var skráð sem einbýlishús á íbúðarhúsalóð en hitt sem sambýli/vistheimili á viðskipta/þjónustulóð. Einnig var aflað bréfs umhverfisráðuneytisins frá 16. janúar 2004, þar sem fram kemur fram að ráðuneytið hafi verið beðið um afstöðu til þess hvort að sambýli fatlaðra teldust heimili og væru þar með undanskilin ákvæðum reglugerðar um hollustuhætti. Í svari sínu vísar ráðuneytið til 1. mgr. 4. gr. a. í lögum nr. 7/1998 og fylgiskjals III og tekur fram að það telji ljóst að sambýli þar sem þjónusta er veitt allan sólarhringinn skuli hafa starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd. Heyra lögin undir nefnt ráðuneyti. Vegna mótmæla kæranda um starfsleyfisskyldu fór heilbrigðiseftirlitið á vettvang til að meta aðstæður og var kæranda sent afrit eftirlitsskýrslna og boðið að koma að athugasemdum við þær. Lágu eftirlitsskýrslur auk annarra gagna fyrir heilbrigðisnefnd þegar hún tók hina kærðu ákvörðun og er m.a. tekið fram í tilkynningu til kæranda um ákvörðunina að staðfest hefði verið í eftirlitsferðum að rekin væru sambýli með þjónustu allan sólarhringinn í tilgreindu húsnæði.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 7/1998 ber heilbrigðisnefndum að sjá til þess að ákvæðum laganna sé framfylgt og var hin kærða ákvörðun tekin að lokinni málsmeðferð þar sem gagna var aflað, aðstæður voru kannaðar og kæranda gafst kostur að koma að andmælum. Meðferð málsins var þannig lögum samkvæmt, sbr. einnig 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svo sem áður er rakið skal starfsemi sem talin er upp í fylgiskjali III með lögum nr. 7/1998 hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd viðkomandi svæðis. Er þar m.a. tekið fram að „sambýli þar sem veitt er þjónusta allan sólarhringinn“ skuli háð starfsleyfi heilbrigðisnefndar, en aðila máls greinir á um hvort að starfsemi kæranda falli þar undir.

Kærandi rekur búsetuúrræði fyrir fatlað fólk þar sem þeim er veitt aðstoð og þjónusta, en hann mótmælir því að um sambýli sé að ræða. Bendir hann í því sambandi á að hugtakið sambýli sé hvergi skilgreint og hið lagalega hugtak sem sé notað sé heimili fólks. Þá gerir kærandi í kæru sinni greinarmun á hugtökunum þjónusta og aðstoð og tekur fram að ekki sé veitt þjónusta allan sólarhringinn þó vel megi vera að fólk sé aðstoðað á heimili sínu.

Kærandi starfar samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks og reglugerð nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu. Í f-lið 3. gr. reglugerðarinnar er rekstraraðili sá sem ber ábyrgð á framkvæmd þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu. Þjónusta á heimilum fatlaðs fólks er í a-lið sömu greinar skilgreind sem stuðningur eða aðstoð við fatlað fólk til þess að það geti lifað eðlilegu lífi til jafns við aðra og tekið þátt í samfélaginu. Verður þannig ekki séð að neinn sá greinarmunur sé gerður á aðstoð og þjónustu að máli geti skipt. Þá kom fram við eftirlit að í húsnæði því sem um ræðir búa saman á heimili annars vegar átta fatlaðir einstaklingar og hins vegar fimm. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið, og hvað sem líður breyttri hugtakanotkun varðandi búsetu fatlaðra frá setningu laga nr. 7/1998, þykir ekki varhugavert að leggja til grundvallar að það mat heilbrigðisnefndar sé réttmætt að kærandi reki starfsemi sem falli að lýsingunni „sambýli þar sem veitt er þjónusta allan sólarhringinn“ og sé þar með starfsleyfisskyld skv. 1. mgr. 4. gr. a. laga nr. 7/1998, sbr. fylgiskjal III með lögunum. Ljóst er að löggjafinn telur eðli þeirrar starfsemi sem tiltekin er í greindu fylgiskjali vera slíka að hún þurfi vera háð eftirliti sem falið er heilbrigðisnefnd viðeigandi svæðis. Þegar lög kveða á um slíka leyfisskyldu kemur meðalhóf ekki til álita, svo sem kærandi hefur haldið fram.

Þar sem ekki verður séð að neinir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að leitt geti til ógildingar hennar verður kröfu kæranda þar um hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 30. júní 2015 um að Ás styrktarfélag skuli afla starfsleyfis vegna reksturs sambýla við Kastalagerði 7 og Kópavogsbraut 5a og 5c, Kópavogi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

 

160/2016 Selvogsgata

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 2. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 160/2016, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 9. nóvember 2016 um að veita framkvæmdaleyfi til að steypa upp vegg í stígshæð frá Selvogsgötu að leikvelli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. desember 2016, er barst nefndinni 5. s.m., kæra S, Brekkugötu 25, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 9. nóvember 2016 að veita leyfi til að steypa upp vegg í stígshæð frá Selvogsgötu að leikvelli í Hafnarfirði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Hafa úrskurðarnefndinni borist upplýsingar um að framkvæmdum sé lokið og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 12. desember 2016.

Málavextir: Lóðirnar Selvogsgata 3 og Brekkugata 25 liggja saman við norðurmörk hinnar fyrri en suðurmörk hinnar seinni. Á eystri lóðarmörkum beggja lóða rís landið og eru þar stoðveggir. Lóðin Selvogsgata 3 er dýpri til austurs og tengist stoðveggur hennar við stoðvegginn á lóðinni Brekkugötu 25.

Hinn 29. maí 2013 var á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs samþykkt að steyptur yrði upp veggur í stígshæð frá Selvogsgötu að leikvelli. Þá var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 3. september 2014 að stækka lóðina Selvogsgötu 3 um 75,4 m² til austurs. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 9. nóvember 2016 var samþykkt að gefa út formlegt framkvæmdaleyfi, sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, til handa eiganda Selvogsgötu 3 vegna steypts veggjar við stíg, en framkvæmdir voru þá þegar hafnar að sögn kærenda.

Kærendur gerðu athugasemdir við framkvæmdirnar með bréfi til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 14. nóvember 2016, og með bréfi til bæjarstjóra Hafnarfjarðar, dags. 16. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að farið hafi verið í hinar umdeildu framkvæmdir án skriflegs framkvæmdaleyfis og hafi verið grafið frá steinsteyptum mannvirkjum þeirra við Brekkugötu 25. Grafið hafi verið frá garðskúr og garðvegg, auk þess sem rofinn hafi verið áfastur stoðveggur við garðvegginn með skurðgröfu og höggbor. Afleiðingar þessara framkvæmda séu þær að margar sýnilegar sprungur hafi myndast í garðveggnum. Jafnframt sé stór sprunga í gaflvegg garðskúrsins, að utanverðu, sem og sprungur á innanverðum gaflvegg. Hafi verið haft samband við byggingarfulltrúa og lögregla kölluð til þegar þetta hafi uppgötvast. Þá sé bent á að á fundi með bæjarstjóra 8. nóvember 2016 hafi komið fram að framkvæmdin sé á vegum bæjarins.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagins er vísað til þess að um sé að ræða endurgerð á stoðvegg milli lóðarinnar nr. 3 við Selvogsgötu og lóðar Flensborgarskólans. Ekki sé vitað nákvæmlega um aldur veggjarins en hann sé illa farinn og endurbætur því nauðsynlegar. Umræddur stoðveggur tengist stoðvegg að Brekkugötu 25, í hornpunkti þeirrar lóðar og lóðarinnar Selvogsgötu 3. Lóðarmörk og gönguleið séu samkvæmt skipulagi.

Fullyrða megi að umræddur stoðveggur falli undir e- og f-liði gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, þ.e. minni háttar framkvæmdir sem séu undanþegnar byggingarleyfi. Fullt samkomulag hafi verið á milli lóðarhafa Selvogsgötu 3 og Hafnarfjarðarbæjar um framkvæmdina. Þá beri að geta þess að veggur sá sem sé á lóðamörkum Brekkugötu 25 og Flensborgarskóla hafi verið reistur af Hafnarfjarðarbæ á sínum tíma til að leysa hæðarmun milli lóðanna. Við endurbygginguna verði veggurinn útfærður með þeim hætti að hann þoli betur jarðvegsþrýsting og nýjum jarðvatnslögnum verði komið fyrir til að draga úr vatnsþrýstingi. Ljóst sé að endurbættur veggur verði til bóta.

——-

Leyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig um málið en skriflegar athugasemdir hafa ekki borist af hans hálfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti framkvæmdaleyfis fyrir steyptum vegg á mörkum lóðarinnar nr. 3 við Selvogsgötu, en sú lóð liggur að lóð kæranda við Brekkugötu 25. Gerir kærandi aðallega athugasemdir við að ekki hafi verið haft samráð við hann sem lóðarhafa aðliggjandi lóðar og að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna hinna umdeildu framkvæmda.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku. Þá segir í sömu grein að ekki þurfi að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem eru háðar byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki. Í 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi segir að við mat á því hvort framkvæmd telst meiri háttar skuli hafa til hliðsjónar stærð svæðis og umfang framkvæmdar, varanleika og áhrif á landslag og ásýnd umhverfisins og önnur umhverfisáhrif. Er síðan í 5. gr. reglugerðarinnar útlistað nánar hvers konar framkvæmdir geti verið háðar framkvæmdaleyfi, s.s. umferðar- og göngubrýr, jarðgöng og flugbrautir. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir um gildissvið laganna að þau taki m.a. til allra mannvirkja sem reist séu á landi, ofan jarðar og neðan. Þá segir jafnframt að lögin gildi einnig um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða, girðingar í þéttbýli, skilti, möstur, gáma og leik- og íþróttasvæði.

Með hinu kærða framkvæmdaleyfi er veitt heimild til að steypa upp vegg á eystri lóðarmörkum Selvogsgötu 3. Verður ekki talið að framkvæmd þessi sé slík að umfangi að hún sé háð framkvæmdaleyfi, en slík framkvæmd er að jafnaði háð byggingarleyfi í samræmi við þau ákvæði mannvirkjalaga sem áður eru rakin.

Af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið haldið fram að um sé að ræða minni háttar framkvæmd sem sé undanþegin byggingarleyfi, sbr. e- og f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Greindir töluliðir taka m.a. til eðlilegs viðhalds lóðar og girðinga, sem og gerðar skjólveggja, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Fyrir liggur að stoðveggur úr steini var þegar til staðar og að hann þarfnaðist endurbóta. Hins vegar verður af gögnum málsins ráðið að þær breytingar hafi verið gerðar við endurgerð veggjarins að hann hefur verið styttur og að hann tengist nú við enda stoðveggjar á lóð kæranda en ekki við hann miðjan, eins og áður var. Var því ekki um að ræða venjulegt viðhald á stoðveggnum heldur breytta endurgerð hans. Verður því ekki séð að undanþáguákvæði gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð eigi við um framkvæmdina.

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að um byggingarleyfisskylda framkvæmd er að ræða, sem fer að mannvirkjalögum. Umdeilt framkvæmdaleyfi var gefið út með stoð í ákvæðum skipulagslaga og laut málsmeðferð þess þeim lögum. Var hin kærða ákvörðun því hvorki reist á réttum lagagrundvelli né gætt að réttri málsmeðferð við töku hennar. Af þeim sökum verður hún felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 9. nóvember 2016 um að veita framkvæmdaleyfi til að steypa upp vegg í stígshæð frá Selvogsgötu að leikvelli.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson 

69/2016 Hótel í landi Rauðsbakka

Með

Árið 2017, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 7. apríl 2016 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir hótel á jörðinni Rauðsbakka.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júní 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir V, eigandi Berjaness, Hvolsvelli, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 7. apríl 2016 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir hluta úr jörðinni Rauðsbakka. Með bréfi, dags. 26. júní s.á., er barst nefndinni 27. s.m., kærir H, eigandi Miðbælisbakka, Hvolsvelli, sömu ákvörðun Rangárþings eystra og er það mál nr. 72/2016. Verður að skilja málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, og bréfi, dags. 30. s.m., er barst nefndinni 1. desember s.á., kæra sömu aðilar jafnframt þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 1. júlí s.á. að samþykkja byggingarleyfi fyrir hóteli á deiliskipulagssvæðinu. Eru þau mál nr. 156/2016 og nr. 158/2016. Verður að skilja málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að jafnframt þessi ákvörðun verði felld úr gildi.

Verða greind kærumál, nr. 72/2016, 156/2016 og 158/2016, öll sameinuð máli þessu þar sem þau eru samofin og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Með tölvupósti 11. nóvember 2016 krefst annar kærenda þess að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Rangárþingi eystra 17. ágúst og 8. desember 2016.

Málavextir: Jörðin Rauðsbakki, landnúmer 163709, er um 58 ha að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þar af er 9,9 ha ræktað land og á jörðinni er véla- og verkfærageymsla frá árinu 1971 skráð sem eini húsakosturinn. Tiltekið er um landið að það sé jörð í byggð. Er jörðin og skráð sem lögbýli, en er ekki merkt sem eyðibýli í lögbýlaskrá. Þar kemur jafnframt fram að jörðin sé ekki í ábúð, en hún mun hafa verið í eyði síðan 1965. Jörðin er staðsett undir Eyjafjöllum og nær hið kærða deiliskipulag til 5,7 ha svæðis innan hennar, sem liggur um 1.600 m suður af þjóðvegi 1.

Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra, sem haldinn var 1. október 2015, var tekin fyrir umsókn eiganda Rauðsbakka um heimild til að vinna deiliskipulag fyrir hluta af jörðinni. Meðfylgjandi var lýsing fyrirhugaðrar deiliskipulagsáætlunar, dags. 10. september s.á. Samkvæmt lýsingunni var gert ráð fyrir gististað eða hóteli með 1-2 hæða húsum og allt að 1.500 m2 byggingarmagni á deiliskipulagssvæðinu. Skipulagsnefnd lagði til við sveitarstjórn að umsóknin yrði samþykkt og að framlögð lýsing yrði kynnt fyrir almenningi, Skipulagsstofnun og öðrum umsagnaraðilum skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi sínum 8. október s.á. samþykkti sveitarstjórn tillögu nefndarinnar. Kynningartími lýsingarinnar var frá 20. nóvember 2015 til 4. janúar 2016.

Að lokinni kynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar að nýju hinn 4. febrúar 2016. Umsagnir höfðu borist frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Veðurstofunni. Að þeim fengnum var unnin deiliskipulagstillaga og mælst til þess að hún yrði auglýst ásamt umhverfisskýrslu í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Hinn 11. s.m. samþykkti sveitarstjórnin að auglýsa deiliskipulagstillöguna og var athugasemdafrestur tillögunnar frá 16. febrúar til 29. mars s.á. Á sama fundi sveitarstjórnar var samþykkt að skipta svæði því sem deiliskipulagstillagan náð til, alls um 5,7 ha að flatarmáli, úr landi Rauðsbakka landnr. 163709.

Hinn 7. apríl 2016 samþykkti skipulagsnefnd svör við innkomnum athugasemdum, svo og breytta deiliskipulagstillögu m.t.t. til þeirra. Var þó gerður fyrirvari um jákvæða umsögn Fiskistofu, sem svo barst 4. maí s.á. Hinn 8. apríl s.á. samþykkti sveitarstjórn framangreind svör og breytta tillögu og jafnframt að breytt deiliskipulagstillaga yrði send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins að því tilskyldu að horfið hefði verið frá þeim landskiptum sem samþykkt hefðu verið í sveitarstjórn 11. febrúar s.á., enda næði 5,7 ha lóð ekki þeim stærðarmörkum lands sem aðalskipulag gerði kröfu um. Hinn 14. júní 2016 birtist svo auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir allt að 1.300 m2 byggingu með 7,0 m hámarkshæð og allt að 30 gistirými á jörðinni Rauðsbakka.

Hinn 1. júlí 2016 samþykkti byggingarfulltrúi Rangárþings eystra byggingarleyfi fyrir 28 herbergja, 1.235,7 m2, hóteli með stoð í hinu kærða deiliskipulagi.

Málsrök kærenda: Kærendur telja ljóst að fyrirhuguð bygging hins kærða hótels muni hafa verulega röskun í för með sér fyrir þá sem næst búi eða dvelji. Byggingin sé svo einkennilega staðsett að það trufli útsýni á svæðinu og sé líkast því að vinna hafi verið lögð í að velja þann stað þar sem byggingin myndi hafa mest truflandi áhrif gagnvart nágrönnum. Það sé sérstakt áhyggjuefni kærenda hversu mikið hótelið myndi rýra verðmæti Miðbælisbakka, en nefna megi að fyrir u.þ.b. ári hafi Rangárþing eystra veitt eiganda leyfi til að leigja bæinn út til ferðamanna. Rólegt umhverfi, kyrrð og fuglasöngur, ásamt útsýni til allra átta, sé aðalsmerki þessa staðar. Verði hótel hins vegar reist á þeim stað sem fyrirhugað sé að það rísi verði þetta liðin tíð og staðurinn missi aðdráttarafl sitt. Megi þá búast við umferð hópbifreiða og fólksbifreiða á öllum tímum sólarhringsins. Svo ekki sé minnst á að það færist í vöxt að þyrlur lendi við hótel í umræddri sveit. Byggingarreitur hótelsins sé áætlaður í rúmlega 200 m fjarlægð frá íbúðarhúsinu að Miðbælisbökkum.

Þá hafi verið bent á að með því að færa byggingarreitinn norðar, nær bænum á Rauðsbakka eða jafnvel norður fyrir bæinn, þá myndu þessi fyrirséðu vandamál hverfa að miklu leyti og sátt kæmist á. Fleira styðji nauðsyn þess. Fyrst megi nefna að aðkomuleiðir í lönd annarra landeigenda á svæðinu liggi um fyrirhugað byggingarstæði og fáist ekki séð á uppdrætti að ný leið komi í staðinn. Þarna sé einnig eina leiðin sem sé öllum hlutaðeigandi fær að Miðbælisfjöru, en fyrirhuguð bygging myndi loka þessum leiðum. Þá furði kærandi sig á því hve litlar kröfur byggingaryfirvöld geri til grunnþátta, svo sem neysluvatns og frárennslis. Um aldaraðir hafi verið erfitt að ná til neysluvatns á þessu svæði. Þá sé rotþró áhyggjuefni, en mikið vatn muni fara í hana frá hótelinu og jarðvegurinn taki svo við. Stutt sé í Svaðbælisá þar sem veiddur sé matfiskur.

Ekki hafi farið fram grenndarkynning og nágrönnum með því gert ljóst hvað væri á ferðinni, en sjö metra há bygging á mjög umdeildum stað gagnvart þremur nágrönnum hljóti að kalla á sérstaka kynningu. Gagnrýnivert sé að svör við athugasemdum séu tekin saman af fyrirtæki í Reykjavík, sem hafi sjálft séð um hönnun skipulagsins og gerð uppdrátta af staðnum. Þá beri að hafa í huga að þegar svona rekstur sé kominn á verði hann ríkjandi innan stórs radíuss frá hótelinu og það sem fyrir er víki. Græðgishyggjan meti einskis ræktun túna eða tilfinningar þeirra sem fyrir séu á svæðinu. Kærendum sé ekki kunnugt um að fram hafi farið athugun á því hvort álagablettir eða sérstakir sagnablettir séu á þessu svæði. Kærendur vísi aukinheldur til þess að svæðið sem um ræðir sé komið yfir þau 5 ha mörk sem fram komi í 6. gr. jarðalaga nr. 81/2004 og þurfi því að liggja fyrir leyfi ráðherra fyrir breyttri landnotkun.

Þá vísi kærendur til þess að byggingarstjóri framkvæmdanna hafi fullyrt að möguleiki væri á tvöföldun hótelsins. Það myndi hafa í för með sér enn frekari malartöku úr Svaðbælisá með tilheyrandi raski á lífríki hennar, og koma verður í veg fyrir það.

Óljóst eignarhald á landinu sem byggingarreiturinn sé á sé meginástæða þess að með öllu sé óþolandi að þarna verði gefið leyfi fyrir hótelbyggingu. Þó taki kærendur fram að þeir geri sér grein fyrir því að deilur um eignarhald á landi heyri ekki undir úrskurðarnefndina.

Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið telur málsmeðferð deiliskipulags Rauðsbakka hafa í einu og öllu verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.

Hvað varði samþykkt byggingarleyfis þá hafi það verið mat sveitarfélagsins að malartaka vegna framkvæmdanna úr Bakkakotsá hafi ekki verið leyfisskyld af hálfu sveitarfélagsins, þar sem um hafi verið að ræða efnistöku til eigin nota. Hins vegar hafi landeigandi Rauðsbakka sótt um leyfi fyrir efnistökunni til Fiskistofu, líkt og kveðið sé á um í 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Fiskistofa hafi heimilað efnistökuna með leyfi, dags. 22. júlí 2016.

Hvað varði umferðarleið um land Rauðsbakka að Miðbælisfjöru þá sé gert ráð fyrir henni bæði á deiliskipulagsuppdrætti og í greinargerð. Einnig komi fram í svörum til þeirra er gert hafi athugasemdir við deiliskipulagið á auglýsingartíma að framkvæmdaraðili hyggist halda aðgengi að strandlínu opnu og óhindruðu. Samkvæmt samtali við eiganda jarðarinnar Rauðsbakka hafi hann ekki í hyggju að loka aðgengi að Miðbælisfjöru. Þá hafi engar breytingar verið gerðar á samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið og bygging hótelsins sé í samræmi við samþykkt byggingarleyfi, dags. 11. júlí 2016, og aðaluppdrætti, dags. 13. mars s.á., samþykkta af byggingarfulltrúa 1. júlí s.á.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að fyrir liggi að hið kærða byggingarleyfi taki til byggingar 30 herbergja hótels. Í því sé vísað til samþykkts uppdráttar, dags. 18. mars 2016, þar sem stærð hótelsins sé sýnd og annað sem við komi skipulagi, þar með lega rotþróar og staðsetning vatnsbrunns. Hugleiðingar annars kærenda um hugsanlega stækkunarmöguleika komi þessu máli ekkert við. Byggingarleyfi og auglýst skipulag taki aðeins til 30 herbergja hótels og það sé sú framkvæmd sem unnið sé að.

Leyfishafi telji kæranda eiga ekki land að Svaðbælisá og eigi því engra hagsmuna að gæta vegna malartöku. Leyfi hafi verið fengið hjá Fiskistofu fyrir malartöku vegna núverandi framkvæmda í ánni í landi leyfishafa. Þá taki leyfishafi fram að ekkert liggi fyrir um stækkun umrædds hótels.

Leyfishafi mótmæli þeim staðhæfingum sem fram komi í kæru varðandi aðkomu að Miðbælisfjöru. Ekkert liggi fyrir um það hver réttur kæranda sé til nýtingar hlunninda í fjörunni eða að gömul þjóðleið hverfisins að umræddri fjöru liggi um lóð hótelsins. Hins vegar liggi fyrir að eigandi jarðarinnar Rauðsbakka muni eftir sem áður heimila umferð um land sitt eins og verið hafi þannig að hægt verði að komast að fjörunni. Liggi fyrir að allar jarðir í hinu svokallaða hverfi þarna í kring hafi sjálfstæðan aðgang að umræddri fjöru um lönd sín.

Niðurstaða: Með hinu kærða deiliskipulagi er gert ráð fyrir allt að 30 herbergja og 1.300 m2 hóteli á skika úr jörðinni Rauðsbakka. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 1. júlí s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hóteli með stoð í hinu kærða deiliskipulagi.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Hið kærða deiliskipulag gerir ráð fyrir byggingu hótels og hefur byggingarleyfi verið veitt fyrir því. Hótelið mun verða staðsett í um þriggja kílómetra fjarlægð frá íbúðarhúsinu á jörðinni Berjanesi, sem er í eigu annars kærenda. Liggja og aðrar jarðir á milli hótelsins og Berjaness. Sá kærandi vísar til almennra atriða varðandi efnistök og málsmeðferð deiliskipulagsins og breyttra forsendna byggingarleyfis, án þess að færa fram rök fyrir því hvernig hinar kærðu ákvarðanir hafi áhrif á hans einstaklegu lögvörðu hagsmuni. Þó rekur kærandinn atriði sem hann telur sýna fram á óljóst eignarhald á landi því sem deiliskipulagið tekur til. Úr slíkum ágreiningi verður ekki leyst fyrir úrskurðarnefndinni, eins og kærandi raunar tekur fram, og er ekki hægt að fallast á að mögulegur erfðaréttur hans veiti honum kæruaðild í máli þessu. Þá er ljóst að fasteign kæranda er ekki í þeirri nálægð við deiliskipulagssvæðið, og að aðstæður að öðru leyti eru ekki með þeim hætti, að framkvæmdir með stoð í hinu umdeilda deiliskipulagi geti haft þau áhrif á grenndarhagsmuni hans að skapi honum þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður máli þessu, hvað þann kæranda varðar, af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, en mál þess kæranda sem er eigandi Miðbælisbakka tekin til meðferðar.

Eins og fram kemur í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er stefna aðalskipulags bindandi við gerð deiliskipulags, sbr. 6. mgr. 32. gr. þeirra laga. Í gr. 4.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um viðfangsefni og efnistök aðalskipulags. Er meginviðfangsefni þess stefnumörkun sveitarstjórnar um landnotkun og þróun byggðar og skal í skipulagsgögnum gera grein fyrir og marka stefnu um tilgreind málefni og setja þau fram með ákvörðunum um landnotkun eftir því sem við á. Meðal þeirra málefna er landbúnaður, sbr. e-lið greinarinnar, og er þar átt við: „Þróun landbúnaðar og megináhrifaþættir. Helstu einkenni landbúnaðarsvæða, þ.e. búrekstrar sem þar er stundaður, þ.m.t. ferðaþjónusta og önnur atvinnustarfsemi sem tengist búrekstrinum. Helstu atriði sem varða mannvirkjagerð. Gera skal sérstaklega grein fyrir ræktuðum svæðum innan landbúnaðarsvæða. Stefna um hvar og hvernig þörfum landbúnaðarstarfsemi verður mætt. Stefna um hvaða atvinnustarfsemi önnur en hefðbundinn landbúnaður er heimil á bújörðum og viðmið um aðstæður og umfang.“ Í gr. 6.2. í reglugerðinni er nánar kveðið á um stefnu um landnotkun og skal hún sýnd með einum landnotkunarflokki. Skal sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi, en umfang annarrar landnotkunar tilgreint í skilmálum. Í greininni er landnotkunarflokkurinn landbúnaðarsvæði nánar skilgreint sem svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengjast búrekstrinum, með áherslu á búfénað og matvæla- og fóðurframleiðslu, sbr. q-lið greinarinnar.

Í samræmi við framangreind reglugerðarákvæði er í kafla 4.17.3 í Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024 fjallað um eðli og umfang annarrar atvinnustarfsemi á landbúnaðarsvæðum. Segir þar m.a: „Eins og fram hefur komið er á landbúnaðarsvæðum heimilt að nýta byggingar sem fyrir eru á jörðinni og reisa nýbyggingar fyrir atvinnustarfsemi, sem fellur vel að búrekstri og nýtingu viðkomandi jarðar og ekki hefur neikvæð áhrif á umhverfi sitt, án þess að gera þurfi grein fyrir þeirri landnotkun á aðalskipulagsuppdrætti. Fyrst og fremst er átt við atvinnugreinar sem eru eðlileg viðbót við búreksturinn og stoðgreinar við landbúnað, sem áfram verður meginlandnotkun á svæðinu. Þetta á t.d. við um almenna ferðaþjónustu s.s. „ferðaþjónustu bænda”, gistiaðstöðu og greiðasölu í tengslum við hana en einnig ýmsa athafnastarfsemi sem fellur vel að og er eðlileg viðbót við hefðbundna starfsemi á landbúnaðarsvæðum.“ Enn fremur segir: „Markmiðið er að gefa kost á nýtingu þess húsakosts sem fyrir er á viðkomandi bæjum með minni háttar viðbótum og breytingum án þess að breyta þurfi aðalskipulagi, auðvelda bændum að skjóta fleiri stoðum undir búreksturinn og tryggja áframhaldandi nýtingu jarðanna.“

Jörðin Rauðsbakki, sem hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi taka til, er á landbúnaðarsvæði í flokki I samkvæmt landnotkunarflokkun aðalskipulags sveitarfélagsins. Samkvæmt texta aðalskipulagsins er heimilað að reisa nýbyggingar fyrir atvinnustarfsemi, allt að 1.500 m2 að eldri húsum meðtöldum, á jörðum yfir 15 ha, ef starfsemin fellur vel að búrekstri og er þar fyrst og fremst átt við atvinnugreinar sem eru eðlileg viðbót við búrekstur og stoðgreinar við landbúnað.

Í hinu kærða deiliskipulagi er tekið fram að jörðin Rauðsbakki hafi verið í eyði síðan 1965. Tún séu hins vegar nytjuð og önnur svæði séu nýtt til beitar. Einnig er tiltekið að á jörðinni sé ein 56,1 m² verkfærageymsla. Eru upplýsingar þessar í samræmi við það sem fram kemur í fasteignaskrá Þjóðskrár, svo sem nánar er rakið í málavöxtum. Þykir því ljóst að á jörðinni sé ekki rekið bú. Þegar virt er hvernig hið kærða deiliskipulag samræmist ákvæðum aðalskipulags og skipulagsreglugerðar verður að líta til þess að framkvæmd skipulagsins felur sér í byggingu hótels og rekstur þess án nokkurra sýnilegra tengsla við búrekstur. Er enda vandséð að með því sé stutt við þann landbúnað sem stundaður er á jörðinni, þ.e. ræktun túna og búfjárbeit sem ekki er haldið á jörðinni. Þá er ekki um það að ræða að verið sé að nýta húsakost sem fyrir er, s.s. nefnt er sem markmið í nefndu aðalskipulagi. Verður að telja þá starfsemi komna út fyrir þau mörk sem setja verður um starfsemi á svæðum, sem fyrst og fremst eru ætluð til landbúnaðarnota, enda er önnur starfsemi undantekning frá þeirri meginreglu og lýtur hún þröngum skorðum eðli máls samkvæmt. Með vísan til þessa er ekki hægt að telja deiliskipulag fyrir hótel, sem er ekki í tengslum við starfræktan landbúnað og fyrirhugað er að byggja á jörð sem er í eyði, vera í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins, sbr. einnig ákvæði skipulagsreglugerðar.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hið kærða deiliskipulag slíkum annmörkum háð að varði ógildingu þess.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kæra eiganda Miðbælisbakka vegna byggingarleyfisins barst úrskurðarnefndinni 1. desember 2016, en hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa var tekin 1. júlí s.á. og byggingarleyfið gefið út 11. þess mánaðar. Hinn 19. júlí s.á. gerði byggingarfulltrúi úttekt á botnplötu, 30. ágúst s.á. gerði hann úttekt á sökklum og 13. september s.á. gerði hann úttekt á frárennslislögnum undir plötu. Með tilliti til þessa og nálægðar heimilis kæranda við verkstað getur honum ekki hafa dulist að byggingarleyfi hafði verið samþykkt og gefið út. Verður kæru hans vegna samþykktar byggingarleyfisins af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er þó að benda á, vegna athugasemda um malartöku úr árfarvegi Svaðbælisár í byggingarleyfiskæru eiganda Miðbælisbakka, að hið kærða byggingarleyfi tekur ekki til hennar. Önnur leyfi hafa ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, en undir rekstri málsins hefur komið fram að Fiskistofa hefur veitt leyfi til greindrar malartöku, sbr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Er sú ákvörðun eftir atvikum einnig kæranleg til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 36. gr. nefndra laga.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfum eiganda Berjaness.

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 7. apríl 2016 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir hótel á jörðinni Rauðsbakka.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu um ógildingu á samþykkt byggingarfulltrúans í Rangárþingi eystra frá 11. júlí 2016 á byggingarleyfi fyrir hóteli á jörðinni Rauðsbakka.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

170/2016 Hillusamstæða

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 170/2016, beiðni um að úrskurðað verði um það hvort uppsetning á manngengum hillusamstæðum sé byggingarleyfisskyld framkvæmd.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, fór A, f.h. Ferils ehf., fram á að tekin verði afstaða til þess hvort uppsetning á manngengu hillukerfi sé byggingarleyfisskyld framkvæmd skv. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Mál þetta sætir meðferð skv. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Málsatvik og rök: Í bréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2016, tekur bréfritari fram að umbjóðandi hans hafi tekið á leigu atvinnuhúsnæði og hyggist setja þar upp manngengt hillukerfi til þess að nýta betur lofthæð húsnæðisins. Um sé að ræða CE-merkt hillukerfi, sem sett verði upp og tekið niður aftur að leigutíma liðnum. Engar breytingar þurfi að gera á húsnæðinu til þess að koma hillukerfinu fyrir og muni það ekki tengjast burðarkerfi hússins að öðru leyti en því að það komi til með að standa á gólfi þess, rétt eins og hver annar búnaður sem settur sé inn í húsnæðið. Bréfritari telji að hillukerfið sé lausafé en ekki mannvirki og þar með sé uppsetning þess ekki byggingarleyfisskyld framkvæmd.

Með tölvupósti til bréfritara, dags. 22. desember 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um staðsetningu framangreinds húsnæðis og í hverju ágreiningur um byggingarleyfisskylduna fælist, ásamt gögnum um umrædda hillusamstæðu. Kom og fram að umbeðnar upplýsingar þyrftu að liggja fyrir svo hægt væri að setja fyrirspurnina í hefðbundið ferli.

Í svari bréfritara til úrskurðarnefndarinnar var tekið fram að enginn ágreiningur væri um þetta, en um það ríkti hins vegar óvissa/vafi og fyrir lægju misvísandi upplýsingar og túlkanir frá byggingarfulltrúum og Mannvirkjastofnun. Fylgdu í viðhengi myndir og upplýsingar um „dæmigert hillukerfi“. Loks var tekið fram að bréfritari teldi fyrirspurnina svo almennt orðaða að ekki skipti máli hvar umrætt húsnæði væri staðsett.

Niðurstaða: Í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er kveðið á um að leiki vafi á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi eða falli undir 2. eða 3. mgr. nefnds ákvæðis skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 59. gr., en samkvæmt þeirri grein sæta stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Í þessu máli er um að ræða almenna fyrirspurn um byggingarleyfisskyldu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um staðsetningu fyrirhugaðra framkvæmda og samkvæmt upplýsingum bréfritara er ekki uppi ágreiningur vegna málsins. Hlutverk úrskurðarnefndarinnar, samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsefna vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Falla lögspurningar, sem ekki tengjast tilteknum fyrirliggjandi ágreiningi, utan verksviðs úrskurðarnefndarinnar. Er málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

131/2016 Langholt Flóahreppi

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 26. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 131/2016, kæra á afgreiðslum sveitarstjórnar Flóahrepps frá 10. ágúst og 14. september 2016 á erindi kæranda um beiðni um aðgang að gögnum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2016, er barst nefndinni 11. s.m., framsendir innanríkisráðuneytið kæru H, Langholti 1, Flóahreppi, þar sem kærð er sveitarstjórn Flóahrepps „fyrir afgreiðslu erinda á fundum 10. ágúst 2016 og 4. september 2016.“ Er þess krafist að sveitarstjórn verði gert að  taka erindi kæranda til umfjöllunar og leiðrétti í bókun rangfærslur í málinu ásamt því að fela byggingarfulltrúa að afhenda kæranda umbeðin gögn.

Gögn málsins bárust frá Flóahreppi 24. október 2016 og í janúar 2017.

Málavextir: Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa Flóahrepps, dags. 6. september 2015, var gerð krafa um afhendingu nánar tiltekinna gagna. Umrædd beiðni var ítrekuð með bréfi til sveitarstjóra, dags. 23. mars 2016. Framsendi sveitarstjóri erindið til byggingarfulltrúa sama dag með tölvupósti. Með bréfi til sveitarstjórnar, dags. 5. maí 2016, er móttekið var 6. s.m., áréttaði kæranda enn beiðni sína um afhendingu umbeðinna gagna. Mun umrædd gagnabeiðni tengjast kærumáli nr. 17/2014 sem var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og lauk með uppkvaðningu úrskurðar 3. maí 2016, sem og kærumáli nr. 68/2016 sem enn er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Kærandi nefndra mála er jafnframt kærandi máls þess sem hér um ræðir.

Á fundi sveitarstjórnar 10. ágúst 2016 var tekið fyrir erindi kæranda, dags. 3. s.m. Óskaði sveitarstjóri eftir því að fært væri til bókar að innihaldi erindis, dags. 6. maí, hefði samdægurs verið komið til nýs byggingarfulltrúa til afgreiðslu. Hefðu umbeðin gögn ekki fundist en þau hafi síðar komið í ljós í skjalasafni embættisins og verið send  Hafi byggingarfulltrúi ítrekað reynt að ná sambandi við bréfritara, sem er kærandi í máli þessu, til að fá nánari skýringar varðandi umbeðin gögn, en án árangurs. Hann hafi einnig reynt að afhenda þau á heimili kæranda 8. ágúst 2016 en verið vísað frá.

Málið var aftur tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 14. september s.á. og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Lagt fram erindi frá [H] í þremur liðum. Liður 1: Fram kemur að [H] telur sig ekki hafa fengið frá Flóahreppi afhent umbeðin gögn, sem hann óskaði eftir 6. maí 2016. Þar sem virðist vera um misskilning að ræða varðandi afhendingu umbeðinna gagna óskar sveitarstjórn eftir því að [H] sendi að nýju inn skriflega beiðni þar sem fram komi hvaða gagna sé óskað. Beiðni skal send beint á embætti Skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita bs. Liðir 2 og 3 eru lagðir fram til kynningar. Sveitarstjórn samþykkir afgreiðsluna með 5 atkvæðum.“ Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu sveitarstjórnar með bréfi, dags. 21. september 2016.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að sveitarfélagið hafi í engu sinnt erindi hans fyrr en sveitarstjóra hafi borist kæra í málinu. Hafi verið færðar til bókar rangfærslur um málið sem og í fréttaflutningi. 

Málsrök Flóahrepps: Sveitarfélagið gerir kröfu um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Hlutverk úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði  umhverfis- og auðlindamála. Sé það ekki á valdsviði nefndarinnar að taka til skoðunar afgreiðslu erinda á sveitarstjórnarfundum.

Ekki liggi fyrir stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi hin kærða afgreiðsla aðeins falið í sér beiðni um nánari útskýringu á erindi kæranda um aðgang á gögnum, en beiðni hans hafi hvorki verið hafnað né hún samþykkt. Engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin í málinu. Þá verði stjórnvaldsákvörðun ekki skotið til æðra stjórnvalds nema hún feli í sér lokaákvörðun um mál, skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Niðurstaða: Líkt og að framan er rakið telur kærandi að sveitarfélagið hafi ekki enn afhent honum öll þau gögn sem hann hafi ítrekað óskað eftir. Var erindi hans þess efnis tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 14. september 2016 og þess óskað að kærandi myndi að nýju óska með skriflegum hætti eftir nánar tilgreindum gögnum, þar sem misskilnings virtist gæta í málinu. Telja verður að nefnd afgreiðsla sveitarstjórnar hafi verið þáttur í því að rannsaka málið svo sveitarstjórn væri unnt að bregðast við beiðni kæranda um afhendingu gagna, en leiki vafi á því eftir hvaða gögnum er óskað verður eðli máls samkvæmt að leita samráðs við kæranda í því skyni að upplýsa það. Í ljósi þess bjuggu efnislegar ástæður að baki þeirri afgreiðslu sveitarstjórnar að afgreiða ekki erindi kæranda að svo stöddu.

Að framangreindu virtu felur hin kærða afgreiðsla ekki í sér lokaákvörðun máls, en samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þarf svo að vera svo máli verði skotið til æðra stjórnvalds. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

115/2015 Kríunes

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. september 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda, svæði milli vatns og vegar, vegna Kríuness í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. desember 2015, er barst nefndinni 13. s.m., kærir E, , þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. september 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda, svæði milli vatns og vegar, vegna Kríuness. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 1. febrúar 2016.

Málavextir: Á lóðinni Kríunesi við Elliðavatn er nú starfrækt hótel. Þar er einnig aðstaða til fundahalda og bátaleiga er á staðnum. Árið 2001 var samþykkt breyting á deiliskipulagi Vatnsenda, svæði milli vatns og vegar, vegna Kríuness, er fól í sér heimild til stækkunar heimagistingar sem þar var þá starfrækt. Auk þess var gert ráð fyrir glerhýsi sem nýtast myndi sem almennt þjónusturými. Samþykkt var önnur breyting á nefndu skipulagi árið 2003, er gerði ráð fyrir kjallara undir hluta hússins, stækkun núverandi íbúðar þess og gerð þriggja annarra. Að auki var gert ráð fyrir sólskála. Starfsemi yrði óbreytt, þ.e. heimagisting með átta herbergjum, fundaaðstaða og bátaleiga. Enn var gerð breyting á umræddu deiliskipulagi árið 2009, en þá var samþykkt viðbygging við kjallara hússins. Mun heildarflatarmál hússins hafa verið 1.354 m² eftir stækkun þess.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs 20. apríl 2015 var samþykkt að auglýsa tillögu lóðarhafa um breytt deiliskipulag umræddrar lóðar, er gerði m.a. ráð fyrir stækkun hússins og fjölgun hótelherbergja vegna aukinnar heilsutengdrar ferðaþjónustu á staðnum. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 28. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar um miðjan maí 2015 og veittur frestur til 2. júlí s.á. til að skila inn athugasemdum. Hinn 1. júlí 2015 var haldinn kynningarfundur með íbúum í nágrenni Kríuness og í kjölfar þess var frestur til að koma að athugasemdum framlengdur til 4. ágúst s.á. Tillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar 24. s.m., ásamt framkomnum athugasemdum og greinargerð lóðarhafa. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til skipulags- og byggingardeildar. Málið var að nýju á dagskrá skipulagsnefndar 14. september 2015, þar sem tillagan var samþykkt ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar um málið, dags. sama dag. Staðfesti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi 22. s.m. Tillagan var í kjölfar þess send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og gerði stofnunin
ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt hennar. Birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. nóvember 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hluti hússins að Kríunesi hafi verið byggður út fyrir byggingarreit sem markaður hafi verið í deiliskipulagi, samþykktu árið 2003. Sé hin kærða ákvörðun aðlöguð þeim framkvæmdum. Jafnframt sé vakin athygli á því að svo virðist sem búið sé að reisa nyrsta hluti viðbyggingar D. Sú bygging sé reist í óleyfi og hafi hún verið í notkun nú á annað ár. Sé þess óskað að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess hvort m.a. ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið fylgt við meðferð málsins. Þá hafi ekki verið tekið tillit til framkominna athugasemda.

Málsrök Kópavogsbæjar: Sveitarfélagið fer fram á að kröfu kæranda verði hafnað. Öll málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Að auki hafi hún verið ítarlegri en kveðið sé á um í lögum þar sem haldinn hafi verið samráðsfundur með íbúum í nágrenninu og athugasemdafrestur framlengdur. Hvorki sé verið að breyta lóðarmörkum né stofna nýja lóð undir stækkun hússins að Kríunesi. Sé téð ákvörðun í fullu samræmi við Aðalskipulag Kópavogs 2012-2024, en þar sé umrætt svæði skilgreint sem svæði fyrir verslun og þjónustu. Hvað varði þær framkvæmdir sem kærandi tiltaki sé bent á að þær hafi verið heimilaðar með eldri breytingu á deiliskipulagi Kríuness og séu í samræmi við hana.

Athugasemdir lóðarhafa: Lóðarhafi tekur fram að hann hafi fundað í tvígang með kæranda máls þessa. Á fundunum hafi verið farið yfir teikningar og gengið um lóðina til að skoða staðsetningu fyrirhugaðra bygginga. Hafi kærandi ekki séð að þær myndu skerða útsýni frá heimili hans, enda verði stærstur hluti bygginganna neðanjarðar. Kærandi hafi bent á að hugsanlega myndi umferð aukast. Telji lóðarhafi að svo verði ekki þar sem fundarsalir verði færri en nú sé og herbergi fleiri. Þýði þetta minni umferð við hótelið en áður.

Niðurstaða: Samkvæmt hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu er markmið hennar að styrkja heilsutengda ferðaþjónustu að Kríunesi. Heimilar skipulagið að núverandi húsnæði verði stækkað, aðstaða bætt og gistirýmum fjölgað, en minni áhersla verði lögð á fundaaðstöðu og afþreyingu fyrir fyrirtæki og hópa en fyrir sé.

Gerir skipulagið ráð fyrir 80 m² viðbyggingu, merktri D á skipulagsuppdrætti, á einni hæð við norðausturhluta byggingarreitar. Auk þess er ráðgert að stækka veitingasali með 200 m² viðbyggingu, merktri E, í suðausturhorni byggingarreits, sem tengjast mun 800 m² viðbyggingu, merktri F, á einni hæð, en sú bygging er að stærstum hluta niðurgrafin. Þar er gert ráð fyrir 16 hótelherbergjum, ásamt setustofu sem tengjast mun aðalhæð hússins. Stendur nefnt jarðhýsi mest 1,1 m yfir gólffleti aðalhússins og verður það klætt torfi. Framan við hvert herbergi er lítil niðurgrafin verönd er snýr að Elliðavatni. Með innri breytingum á húsinu er gert ráð fyrir alls 30 hótelherbergjum, auk séríbúðar. Á vestanverðri lóðinni er gert ráð fyrir tveimur sérstæðum húsum. Annars vegar hesthúsi, sem er 90 m² nýbygging á einni hæð, merkt G, og hins vegar áhalda- og tækjahúsi, sem er 50 m² nýbygging á einni hæð, merkt H. Fram kemur í skipulaginu að eftir breytinguna verði brúttóflatarmál bygginga samtals 2.875 m².

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvald og annast gerð deiliskipulags og breytingar á því, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er lóðin Kríunes skilgreind sem verslunar- og þjónustusvæði og er það breyting frá Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 þar sem hluti lóðar Kríuness var á íbúðarsvæði. Gerir skipulagið m.a. ráð fyrir hótelum, gistiheimilum og skemmtistöðum á verslunar- og þjónustusvæðum og er það í samræmi við c-lið í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Meðal markmiða aðalskipulagsins á þeim svæðum er að stuðla að nýsköpun í atvinnumálum og skapa umhverfi og tækifæri fyrir frumkvöðla til að setjast að með starfsemi sína innan bæjarmarkanna. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við stefnu aðalskipulags, að þessu leyti, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna, um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana, sé jafnframt fullnægt.

Tillaga að deiliskipulagi Kríuness var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Hún var kynnt nágrönnum á svæðinu og tekin var afstaða til framkominna athugasemda í umsögn skipulags- og byggingardeildar, sem síðar var samþykkt af skipulagsnefnd og bæjarstjórn. Lutu athugasemdir meðal annars að því að aukin umferð yrði í kjölfar stækkunar á Kríunesi og að öryggi vegfaranda yrði ábótavant. Var á það bent í nefndri umsögn að gerðir hefðu verið lóðarleigusamningar um byggingarlóðir í landi Vatnsenda við Elliðavatn, í nágrenni Kríuness, en í þeim hefði sérstaklega verið tekið fram að frekari gatnagerðarframkvæmdir og lýsing á svæðinu væru á ábyrgð leigutaka. Lagði skipulags- og byggingardeild jafnframt fram tillögu til umræðu um gönguleiðir, lýsingu og aðgerðir til að draga úr umferðarhraða. Eftir að bæjarstjórn hafði samþykkt deiliskipulagstillöguna var hún send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda, eins og fyrr segir.

Hin kærða ákvörðun felur í sér töluverða aukningu á byggingarmagni umræddrar lóðar. Þrátt fyrir það verður ekki talið að samþykkt breyting muni að marki raska grenndarhagsmunum kæranda, svo sem vegna skerðingar á útsýni, aukinnar umferðar eða annars ónæðis. Er enda talsverð fjarlægð í næstu íbúðarhús, þ. á m. hús kæranda, auk þess sem fjölgun hótelherbergja um 16 felur ekki í sér meiri umferðaraukningu en búast má við á skilgreindu þéttbýlissvæði.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. september 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda, svæði milli vatns og vegar, vegna Kríuness í Kópavogi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

44/2015 Sunnubraut

Með
Árið 2017, föstudaginn 20. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 44/2015, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 4. maí 2015 um að synja umsókn um leyfi til að reisa parhús á lóðinni nr. 30 við Sunnubraut í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júní 2015, er barst nefndinni 15. s.m, kærir Viðskiptavit ehf., lóðarhafi Sunnubrautar 30 í Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 4. maí 2015 að synja umsókn um leyfi til að reisa parhús á lóð nr. 30 að Sunnubraut í Kópavogi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og leyfi til byggingar húss á umræddri lóð samþykkt.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 13. ágúst 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. maí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi  til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni að Sunnubraut 30, Kópavogi. Var erindinu vísað til skipulagsnefndar með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tók nefndin það fyrir á fundi 20. s.m., frestaði afgreiðslu þess og óskaði ítarlegri gagna. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 28. júlí s.á. og samþykkt að grenndarkynna það. Samkvæmt kynningarbréfi frá sveitarfélaginu fól erindið í sér að 102,0 m² íbúðarhús, byggt árið 1939 og bílskúr byggður 1966, yrði rifið og reist tveggja hæða parhús á umræddri lóð. Heildarbyggingarmagn yrði 385,2 m² og nýtingarhlutfall 0,49 eftir breytingu. Mænishæð fyrirhugaðrar nýbyggingar yrði sú sama og á núverandi íbúðarhúsi. Bárust athugsemdir á kynningartíma og á fundi skipulagsnefndar 15. september s.á. var skipulags- og byggingardeild falið að taka saman umsögn um þær.

Hinn 20. október 2014 var erindið tekið fyrir á ný á fundi skipulagsnefndar. Fært var til bókar að lögð væri fram breytt tillaga þar sem komið væri til móts við innsendar athugasemdir. Einnig væri lagt fram minnisblað frá samráðfundi sem haldinn hefði verið 8. október s.á., erindi frá íbúum Sunnubrautar 31 vegna fyrirhugaðra framkvæmda,  dagsett þann sama dag, og greinargerð byggingaraðila og lóðarhafa Sunnubrautar 30 vegna innsendra athugasemda, dags. 15. október 2014. Var afgreiðslu málsins frestað. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi nefndarinnar 4. maí 2015 og því hafnað á grundvelli innsendra athugasemda. Jafnframt var því vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 7. s.m. var erindinu vísað til bæjarstjórnar sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi 12. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hin kærða ákvörðun sé ekki rökstudd með fullnægjandi hætti. Sé vísað til svara kæranda við framkomnum athugasemdum. Þar komi m.a. fram að ekki verði séð að bygging parhúss á lóð Sunnubrautar 30 skapi fordæmi. Samkvæmt húsakönnun fyrir lóðir á Sunnubraut 21-56 sé nýtingarhlutfall fjögurra lóða svipað og sex lóða hærra en að Sunnubraut 30. Byggingarstíll húsa við götuna sé með ýmsu móti og þar af leiðandi erfitt að sjá að fyrirhuguð framkvæmd sé stílbrot á nokkurn hátt. Gert sé ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóð fyrir hvora íbúð, eins og byggingarreglugerð kveði á um. Ljóst sé af talningu bifreiða er fari um götuna kvölds og morgna að ekki sé sá skortur á bílastæðum sem haldið sé fram. Samkvæmt mælingum á götum í vesturbæ Kópavogs sé Sunnubraut ekki mjórri en aðrar sambærilegar götur þrátt fyrir fullyrðingar þess efnis. Þá sýni myndir að hús við götuna hafi ekki aðeins einbreiða heimkeyrslu.

Málsrök Kópavogsbæjar: Sveitarfélagið tekur fram að í kjölfar samráðsfundar, þar sem komið hafi fram mikil andstaða við fyrirhugaða uppbyggingu á lóðinni, hafi byggingaraðila verið gefinn kostur á að leggja fram breytta tillögu og koma til móts við innsendar athugasemdir. Lagt hafi verið til við byggingaraðila að verulega yrði dregið úr byggingarmagni á lóðinni og byggt einbýlishús í stað parhúss. Byggingaraðili hafi lagt fram breytta tillögu þar sem byggingarreitur hafi verið minnkaður um 70 cm á austur- og vesturhlið og bílastæði á lóð færð til. Að öðru leyti hafi tillagan verið óbreytt. Hafi skipulagsnefnd ekki talið að breytingarnar kæmu nægilega til móts við innsendar athugasemdir. Byggingaraðila hafi aftur verið gefið færi á því að gera frekari breytingar á tillögunni, en þrátt fyrir leiðbeiningar skipulags- og byggingardeildar þá hafi það verið ósk byggingaraðila að tillagan yrði lögð óbreytt fyrir skipulagsnefnd að nýju. Henni hafi síðan verið hafnað á fundi skipulagsnefndar og tekið undir framkomnar athugasemdir um að byggingarmagn á lóðinni væri of mikið og fjölgun íbúða á þessari lóð ekki ákjósanleg. 
                    ———

Úrskurðarnefndinni hafa borist athugasemdir íbúa að Sunnubraut 31 vegna framkominnar kæru.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis er að mannvirki og notkun þess sé í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 1.tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Leiki vafi á því skal byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa skv. 2. mgr. 10. gr. sömu laga, sem og ef ekki liggur fyrir deiliskipulag, sbr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir, líkt og hér háttar, getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda hafi áður farið fram grenndarkynning, sbr. þágildandi 44. gr. skipulagalaga nr. 123/2010.

Svo sem að framan er rakið var umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir byggingu húss að Sunnubraut 30 grenndarkynnt. Að henni lokinni var málið til umfjöllunar að nýju hjá skipulagsnefnd og var erindi kæranda synjað 4. maí 2015. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu og lá þar með fyrir ákvörðun um frekari meðferð málsins. Það verður þó ekki fram hjá því litið að í málinu liggur ekki fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn kæranda, en samkvæmt skýrum ákvæðum mannvirkjalaga er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis í höndum byggingarfulltrúa.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Að framangreindu virtu verður að telja að hvorki afgreiðsla skipulagsnefndar né afgreiðsla bæjarstjórnar hafi falið í sér lokaákvörðun í skilningi tilvitnaðs ákvæðis sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður málinu þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir