Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

45/2017 Sólheimatunga Borgarbyggð

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 12. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2017, kæra á ákvörðun Borgarbyggðar frá 19. janúar 2017, um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2017 á fasteignina Sólheimatungu, fastanúmer 210-9850.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kærir H. J. Sveinsson ehf., Reykjavík, ákvörðun Borgarbyggðar frá 19. janúar 2017 um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2017 á fasteignina Sólheimatungu í Borgarbyggð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 29. maí 2017.

Málavextir: Álagningarseðlar fasteignagjalda í sveitarfélaginu Borgarbyggð fyrir árið 2017 eru dagsettir 19. janúar 2017. Var kæranda með slíkum seðli gert að greiða kr. 37.700 í sorpgjald vegna fasteignar sinnar Sólheimatungu í Borgarbyggð, sem ber fastanúmerið 210-9850. Er það árgjald samkvæmt gjaldskrá vegna hvers heimilis.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að sorpgjald sé þjónustugjald og því geti Borgarbyggð ekki innheimt gjaldið þar sem þjónustan sé ekki innt af hendi. Ekki hafi verið óskað eftir slíkri þjónustu frá sveitarfélaginu og hafi hún loks verið afþökkuð og henni hætt. Þetta sýni tölvubréf sem lagt sé fram í málinu. Borgarbyggð hafi verið beðin um að fjarlægja sorpílát sem komið hafi verið með óumbeðið að Sólheimatungu og hafi ekki verið í notkun, en ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni. Allt sorp frá Sólheimatungu sé keyrt til Reykjavíkur og fargað þar á kostnað eiganda fasteignarinnar.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að málinu verði vísað frá vegna þess að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran hafi verið lögð fram. Álagningarseðill fasteignagjalda sé dagsettur 19. janúar 2017, en kæran sé dagsett 26. apríl s.á., eða rúmum þremur mánuðum seinna. Í 11. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð komi fram að athugasemdum vegna álagningar eða innheimtu gjalda skuli beina til sveitarfélagsins innan mánaðar. Samskonar upplýsingar komi fram á álagningarseðli. Kærandi hafi aldrei haft samband við sveitarfélagið vegna sorpgjaldsins þrátt fyrir að hafa sannanlega fengið leiðbeiningar þar um.

Í erindi kæranda sé því sjónarmiði haldið á lofti að sorpgjald sé þjónustugjald sem ekki sé hægt að innheimta í ljósi þess að kærandi nýti sér ekki sorphirðu af hálfu sveitarfélagsins. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sé sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi og þá beri sveitarstjórn jafnframt ábyrgð á flutningi hans og skuli sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til falli í sveitarfélaginu. Til að standa undir þeim kostnaði sem hljótist af því að uppfylla framangreindar skyldur innheimti sveitarfélagið sorphirðugjald, sem sé lögboðið gjald, en gjaldið sé innheimt á grundvelli gjaldskrár fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Borgarbyggð nr. 1282/2016. Gjaldskráin sé sett á grundvelli samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð nr. 660/2016. Umrædd samþykkt, sem og gjaldskráin, séu settar með fullnægjandi lagastoð og á lögformlega réttan hátt og því sé eðlilegt að á þeim sé byggt við álagningu sorpgjalds í sveitarfélaginu.

Í 11. gr. áðurnefndrar samþykktar nr. 660/2016 komi fram að sveitarstjórn Borgarbyggðar skuli innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003. Skuli gjaldið standa undir þeim kostnaði sem á sveitarfélagið falli vegna móttöku úrgangs, sorpsöfnunar, annarrar meðhöndlunar og förgunar úrgangs í samræmi við áðurnefnd lagaákvæði en gjaldið skuli aldrei vera hærra en sem nemi þeim kostnaði sem falli til í sveitarfélaginu vegna framangreindrar starfsemi.

Mismunur á álögðum sorpgjöldum og kostnaði sveitarfélagsins af málaflokknum hafi verið eftirfarandi á síðustu árum í krónum talið:

Ár                                                  2016            2015               2014
Álögð gjöld                           6.159.794    11.374.048    7.780.275
Kostnaður v. sorphirðu    17.344.845    19.384.898    12.962.471
Tap                                       11.185.051      8.010.850       5.182.196

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að fellt verði niður sorpgjald á fasteign hans þar sem hann nýti sér ekki þá þjónustu sem verið sé að innheimta gjald fyrir. Kærufrestur til úrskurðarnefndar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kærð er, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála. Var kærufrestur því liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Hins vegar er hvorki að finna leiðbeiningar um kæruheimild né kærufresti á álagningarseðli og teljast leiðbeiningar um að athugasemdum við álagningu skuli beina til sveitarfélagsins ekki uppfylla slíka leiðbeiningarskyldu. Verður því að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málið verður því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Setur sveitarstjórn samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum samkvæmt þeim, sbr. 2. mgr. 8. gr., sbr. einnig þágildandi 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, nú 59. gr. laganna, sbr. lög nr. 66/2017. Borgarbyggð hefur sett sér slíka samþykkt og er hún nr. 660/2016.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Ákvæðinu var breytt með 11. gr. laga nr. 63/2014 um breytingu á lögum nr. 55/2003 og var heimild sveitarfélaga til innheimtu gjalds breytt í skyldu. Um nefnda breytingu segir í frumvarpi til laganna að greininni sé breytt til að uppfylla kröfu tilskipunar 2008/98/EB um að svokölluð greiðsluregla skuli vera lögð til grundvallar, en inntak hennar sé að sá borgi sem mengi. Samkvæmt 23. gr. er sveitarfélögum jafnframt heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, sbr. 3. mgr. 23. gr., og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr.

Borgarbyggð setti, með vísan til laga nr. 55/2003, gjaldskrá fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Borgarbyggð nr. 1282/2016, sem birt var 4. janúar 2017. Samkvæmt 1. gr. gjaldskrárinnar er sveitarstjórn heimilt að leggja á sérstakt sorpgjald vegna söfnunar, förgunar, móttöku og flokkunar á sorpi. Samkvæmt 2. gr. skal gjald á hvert heimili vera kr. 37.700 og skal það innheimt samhliða fasteignagjöldum. Samkvæmt þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram eru álögð gjöld að jafnaði ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og fullnægir gjaldið því áskilnaði áður tilvitnaðra ákvæða 23. gr. laga nr. 55/2003 og þágildandi 25. gr. laga nr. 7/1998, nú 59. gr. Með álagningarseðli, dags. 19. janúar 2017, var kærandi krafinn um sorpgjald fyrir heimili, en í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er Sólheimatunga skráð sem jörð þar sem m.a. er að finna íbúðarhús.

Í 11. gr. samþykktar nr. 660/2016 kemur fram að innheimta skuli gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003. Umrætt gjald, almennt sorphirðu- og sorpeyðingargjald, skuli standa undir þeim kostnaði sem á sveitarfélagið falli vegna móttöku úrgangs, sorpsöfnunar, annarrar meðhöndlunar og förgunar úrgangs í samræmi við nánar tilgreind lagaákvæði. Þá er skilgreint í 2. mgr. 2. gr. samþykktarinnar að hirðing almenns heimilsúrgangs teljist til sorpsöfnunar og að til meðhöndlunar úrgangs teljist m.a. söfnun, geymsla, pressun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting eða urðun. Í 3. mgr. 2. gr. er tekið fram að móttökustöð sé í landi Borgarbyggðar við Sólbakka í Borgarnesi og að grenndarstöðvar séu gámaplön sem starfrækt séu utan Sólbakka og sé ætlað að taka á móti úrgangi frá dreifbýli Borgarbyggðar. Loks er fjallað um fyrirkomulag söfnunar á heimilsúrgangi í 5. gr. samþykktarinnar, en samkvæmt henni er eigendum og umráðamönnum íbúðarhúsnæðis í Borgarbyggð skylt að nota þau ílát og þær aðferðir við geymslu og meðferð úrgangs sem sveitarstjórn ákveður. Í gjaldskrá nr. 1282/2016 er tiltekið að íbúar sveitarfélagsins geti komið með allt að 8 m3 af úrgangi frá heimilum á ári, á gámastöðina í Borgarnesi, án þess að þurfa að greiða fyrir.

Af gögnum málsins verður ráðið að til að koma í veg fyrir þungaakstur sorpbifreiða hefur kærandi afþakkað sorphirðu og hefur verið orðið við því af hálfu sveitarfélagsins. Kærandi tekur enn fremur fram að hann flytji sorp frá eign sinni til Reykjavíkur og fargi því þar á sinn kostnað. Hvað sem því líður stendur kæranda til boða að koma með ákveðið magn heimilisúrgangs á gámastöð í Borgarnesi án þess að sérstakt gjald komi fyrir, sem og að nýta sér grenndarstöðvar þær sem starfræktar eru í sveitarfélaginu.

Eins og lögð er áhersla á í lögum nr. 55/2003 er meðhöndlun sorps grunnþjónusta í sveitarfélagi og ber það ríkar skyldur til að tryggja að sú þjónusta sé í föstum skorðum. Þjónustan er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki, enda er sveitarfélagi beinlínis skylt að innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs, sbr. áður tilvitnað ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003. Er og að líta til þess að almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar. Hefur Borgarbyggð ekki nýtt sér þá heimild heldur valið þá leið að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, í samræmi við skýra heimild þar um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003. Var sveitarfélaginu heimilt, með vísan til framangreinds ákvæðis, að haga gjaldtöku svo að um væri að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Að sama skapi gat kærandi ekki komið sér hjá greiðslu sorpgjaldsins með því að afþakka þjónustuna, jafnvel þótt sorphirðu hafi verið hætt að hans beiðni, enda stóð hún honum enn til boða með þeim hætti sem áður hefur verið lýst.

Að framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ákvörðun Borgarbyggðar frá 19. janúar 2017, um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2017 á fasteignina Sólheimatungu, fastanúmer 210-9850, verði felld úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

65/2016 Númerslaus bifreið

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 3. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2016, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. maí 2016 um að fjarlægja bifreið af einkalóð í Grindavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 16. júní 2016, kærir A, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. maí 2016 um að fjarlægja ökutæki af lóð hennar, Garði í Grindavík. Kærandi krefst þess að fá kostnað af geymslu og flutningi bættan, alls kr. 72.282.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 18. júlí 2016.

Málavextir:
Hinn 10. maí 2016 límdi starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja miða á bifreið kæranda, þar sem fram kom að fjarlægja bæri bifreiðina hið fyrsta og var gefinn til þess vikufrestur. Bifreiðin var síðan fjarlægð 19. s.m. og komið fyrir í geymsluporti Vöku í Reykjavík. Kærandi sætti sig ekki við þetta og bar fram kæru sem móttekin var 16. júní s.á. Verður að skilja kæruna á þann veg að krafist sé ógildingar á framangreindri ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um fjarlægingu bifreiðarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafa flutt ökutæki af einkalóð hans. Samkvæmt 110. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hafi heilbrigðiseftirlitið ekki leyfi til þess að hirða bifreiðina af einkalóð hans án hans vitneskju, en þar segi að standi ökutækið á svæði, sem ekki sé ætlað til almennrar umferðar, skuli það því aðeins flutt á brott, að eigandi eða umráðamaður lóðar krefjist þess. Bifreiðin hafi staðið fyrir utan bílskúr og til hafi staðið að ryðbæta og gera hana tilbúna til sprautunar. Hún hafi verið í ökuhæfu ástandi og ekki hafi smitast frá henni nein spilliefni. Í samtölum við starfsmann heilbrigðiseftirlitsins hafi hann vitnað í lagagrein um úrgang sem ekki verði séð að eigi við í umræddu tilfelli. Þegar honum hafi verið bent á framangreint ákvæði umferðarlaganna hafi hann sagt að heilbrigðiseftirlitið túlkaði ekki lögin svona.

Kærandi kveður atvikið hafa valdið sér bæði andlegum og fjárhagslegum skaða og vilji hann fara fram á að fá að minnsta kosti endurgreiddan reikning frá Vöku að fjárhæð kr. 28.282, sem og flutningskostnað, kr. 44.000, alls kr. 72.282.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið kveður starfsmann á vegum embættisins hafa límt áminningarmiða á rúðu bifreiðar í Garði, Grindavík, 10. maí 2016. Hafi þar komið fram að gefinn væri einnar viku frestur til að fjarlægja bifreiðina en hún hafi verið númerslaus og mjög til lýta fyrir umhverfið að mati eftirlitsins. Eigendur bifreiðarinnar hafi ekki brugðist við tilmælunum innan gefins frests og hafi hún því verið fjarlægð 19. s.m. og komið fyrir í geymsluporti Vöku í Reykjavík.

Heilbrigðiseftirlitið telji sig hafa staðið löglega að því að fjarlægja umrædda bifreið með vísan til heimilda í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, ásamt 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Niðurstaða: Heilbrigðisnefndir starfa samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt þágildandi 13. gr. laganna, nú 47. gr., sbr. lög nr. 66/2017 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum þeirra og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Gilda og stjórnsýslulög nr. 37/1993 um störf nefndarinnar. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 15. gr. laga nr. 7/1998, nú 49. gr., ráða heilbrigðisnefndir á hverju svæði heilbrigðisfulltrúa til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla. Heilbrigðisfulltrúar starfa í umboði heilbrigðisnefndar samkvæmt sama ákvæði.

Ákvæði um valdsvið og þvingunarúrræði voru í VI. kafla laga nr. 7/1998, nú í XVII. kafla. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr., nú 60. gr., geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt eftirfarandi aðgerðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum með stoð í þeim: 1. veitt áminningu, 2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta eða 3. stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun, þar með lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra. Samkvæmt 2. mgr. skal aðeins beita síðastnefnda úrræðinu í alvarlegri tilvikum, við ítrekuð brot eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Samkvæmt framangreindu er ljóst að heilbrigðisnefndir og heilbrigðiseftirlit hafa lagaheimildir fyrir þvingunaraðgerðum, sem m.a. fela í sér haldlagningu á lausamunum og förgun þeirra vegna brota á lögum nr. 7/1998 eða reglugerðum settum með stoð í þeim. Valdheimildir þessar eru óháðar ákvæðum umferðarlaga.

Reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti er sett með heimild í 4. gr. laga nr. 7/1998 og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs með heimild í 4. og 5. gr. sömu laga, sem og  43. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Heimildir til að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök er að finna í ákvæðum 21. gr. reglugerðar um hollustuhætti og 17. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs. Í nefndri 21. gr. er að finna heimild heilbrigðisnefndar til að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Í áðurnefndri 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 segir m.a. að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun.

Samkvæmt gögnum málsins var umrædd bifreið kæranda staðsett á einkalóð og gat því ekki talist vera á almannafæri í skilningi 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Áðurnefnd 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 fjallar um almennan þrifnað utanhúss, m.a. á einkalóðum, og segir í 1. mgr. að umráðamönnum lóða sé skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Samkvæmt 5. mgr. er heilbrigðisnefnd heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og af samhengi ákvæðisins má ráða að framangreint gildi um númerslausar bifreiðar á einkalóðum. Ljósmynd, sem Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja lagði fram í málinu, sýnir að bifreið kæranda var númerslaus, ryðguð og í slæmu ástandi. Kemur fram í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins að miði var límdur á bifreiðina 10. maí 2016 og eiganda gefinn viku frestur til að fjarlægja hana. Kom fram á nefndum miða að yrði hún ekki fjarlægð að útrunnum fresti yrði hún tekin í vörslu í einn mánuð og síðan fargað á kostnað eiganda. Kom einnig fram að hægt væri að hafa samband við fulltrúa heilbrigðiseftirlits í ákveðið símanúmer og einnig að hægt væri að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja innan sinna valdheimilda þegar það lét fjarlægja bifreið kæranda. Andmælaréttar kæranda var gætt og fékk hann ráðrúm til að fjarlægja bifreiðina sjálfur áður en gripið yrði til frekari ráðstafana með tilheyrandi kostnaði. Verður ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun hafi stefnt að markmiðum 1. gr. laga nr. 7/1998 og 1. gr. reglugerðar nr. 737/2003 og þannig byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum. Var og málsmeðferð í samræmi við lög. Með vísan til þessa verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. Þá skal tekið fram að úrskurðarnefndin er ekki bær til að fjalla um fjárkröfur kæranda og koma þær því ekki til úrlausnar í máli þessu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. maí 2016 um að fjarlægja bifreið af einkalóð hans í Grindavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________________              __________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                                    Ásgeir Magnússon

162/2016 og 38/2017 Hvaleyrarlón – bátur

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 3. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 162/2016, kæra á synjun um leyfi fyrir stöðu báts við bátaskýli við Hvaleyrarlón, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Hellisgötu 30, Hafnarfirði, þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að synja um leyfi fyrir stöðu báts við bátaskýli við Hvaleyrarlón. Með bréfi, dags. 29. mars 2017, kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 16. mars s.m. að fjarlægja skuli sama bát á kostnað kæranda. Verður að skilja kröfur kæranda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðarnir verði felldar úr gildi.

Verður seinna kærumálið, sem er nr. 38/2017, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar.

Jafnframt er þess krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, um að fjarlægja skuli bát kæranda, verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa þar sem báturinn mun hafa verið fjarlægður skömmu eftir að kæra barst nefndinni.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 15. desember 2016 og 3. apríl og 23. ágúst 2017.

Málavextir: Við suðurbakka Hvaleyrarlóns í Hafnarfirði standa bátaskýli sem byggð voru á árunum 1978-1989 og eru þau í einkaeigu. Með auglýsingu umhverfisráðherra nr. 397/2009, um stofnun fólkvangs Hvaleyrarlóns og Hvaleyrarhöfða í Hafnarfirði, var lónið og nánasta umhverfi þess friðlýst, en umrædd bátaskýli eru á mörkum fólkvangsins. Með deiliskipulagsbreytingu, sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 22. maí 2013, var heimil notkun bátaskýlanna skilgreind nánar auk þess sem kveðið var á um heimilt útlit þeirra. Þá var bætt inn í skilmála skipulagsins að gert væri ráð fyrir bíla- og bátastæðum. Þau stæði eru nánar merkt inn á uppdrátt sem fylgir deiliskipulagsbreytingunni.

Hafnarfjarðarbær og Umhverfisstofnun gerðu með sér samning, dags. 18. ágúst 2015, um umsjón og rekstur fólkvangsins við Hvaleyrarlón og hefur hann það m.a. að markmiði að umsjón og rekstur svæðisins sé í samræmi við lög um náttúruvernd, sbr. þágildandi lög nr. 44/1999. Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 3. maí 2016 var umgengni um bátaskýlin við Hvaleyrarlón tekin til umfjöllunar vegna kvartana sem borist höfðu. Ráðið átaldi umgengnina í bókun sinni og lýsti jafnframt stuðningi við fyrirhugaðar aðgerðir byggingarfulltrúa til þess að koma umhverfi lónsins í sómasamlegt horf.

Byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar mun í kjölfarið hafa sent bréf til viðkomandi aðila þar sem farið var fram á að þeir fjarlægðu óleyfilega lausafjármuni, s.s. báta, ella yrðu þeir fjarlægðir á kostnað eiganda. Nokkur tölvupóstsamskipti urðu milli kæranda og byggingarfulltrúans af þessu tilefni og benti sá síðarnefndi m.a. á að ekki væri leyfilegt að vera með lausafjármuni á bæjarlandi.

Með tölvupósti 12. október 2016 hafnaði byggingarfulltrúi ósk kæranda um stöðuleyfi þar sem ekki væru veitt stöðuleyfi fyrir báta í Hafnarfirði og að aldrei væru veitt stöðuleyfi utan lóðar, t.d. ef um gáma væri að ræða. Kærandi óskaði eftir því með bréfi til formanns skipulags- og byggingaráðs Hafnarfjarðar, dags. 4. nóvember 2016, að bátur hans fengi að standa áfram á vagni við bátaskýli hans við Hvaleyrarlón til 1. maí 2017, en að öðrum kosti við vesturhlið skýlisins.  Var bréf þetta sent í kjölfar kröfu byggingarfulltrúa um að báturinn yrði fjarlægður af svæðinu. Kærandi vísaði til þess í bréfinu að löng hefð væri fyrir geymslu báta utanhúss við bátaskýlin. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs 29. nóvember 2016 og afgreitt með eftirfarandi bókun: „Skipulags- og byggingarráð synjar framlögðu erindi um stöðuleyfi fyrir bát á bæjarlandi. Ráðið styður byggingarfulltrúa í þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til á svæðinu og ítrekar bókun sína frá 3. maí sl. um stuðning á hverjum þeim aðgerðum til að sómi sé af umhverfinu við lónið.“ Hefur kærandi kært framangreinda synjun Hafnarfjarðarbæjar til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 16. mars 2017, var skorað á kæranda að fjarlægja bát sinn innan tveggja vikna, ella yrði hann fjarlægður á kostnað kæranda með vísan til gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hefur sú ákvörðun einnig verið kærð.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir aðallega á því að deiliskipulag svæðisins hafi ekki verið virt og að brotið hafi verið gegn ýmsum reglum stjórnsýsluréttar við málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar.

Krafa byggingarfulltrúa um að kærandi fjarlægði bátinn sé óskiljanleg í ljósi nýlegrar deiliskipulagsbreytingar sem skilgreini bíla- og bátastæði ofan við bátaskýlin. Hafnarfjarðarbær hafi látið hjá líða að leiðbeina um kæruleiðir vegna þeirrar ákvörðunar að báturinn skyldi fjarlægður. Þá hafi Hafnarfjarðarbær brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga með því að fjarlægja bátinn á meðan kæra og stöðvunarkrafa vegna ákvörðunar bæjarins hafi verið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Kærandi telji jafnræðisreglu hafa verið brotna með því að leyfa uppsátur á einum bát en ekki öðrum. Aðstæður við Hvaleyrarlón séu sambærilegar aðstæðum við smábátahöfnina í Hafnarfirði og vísi kærandi hvað það varði til mynda sem sýni fjölda báta í uppsátri við smábátahöfnina.

Rökstuðning skorti fyrir því að báturinn megi ekki standa á skipulögðu bátastæði við bátaskýlin og hafi ekki verið færð sérstök rök fyrir því að báturinn sé ógn við öryggis-, almanna- og heilbrigðishagsmuni. Sé það enda skýring sem ekki hafi verið haldið fram fyrr en eftir að báturinn hafi verið fjarlægður.

Loks skerði framganga byggingarfulltrúans í málinu mögulega nýtingu bátaskýlanna þannig að láti nærri eignaupptöku.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Hafnarfjarðarbær kveður kröfur kæranda ekki reistar á neinum haldbærum rökum. Í kjölfar samþykktar skipulags- og byggingarráðs frá 3. maí 2016 hafi verið farið í aðgerðir til að þrífa umrætt svæði og eigendum bátaskýlanna sent bréf þess efnis. Kærandi hafi geymt tvo báta á svæðinu og tvo gáma auk annarra lausafjármuna. Honum hafi verið gert að fjarlægja alla lausafjármuni, utan minni bátsins þar sem hann gæti auðveldlega verið á leið í viðgerð í bátaskýlinu. Stærri báturinn hafi hins vegar orðið að víkja þar sem hann kæmist aldrei inn í skýli kæranda auk þess sem hann hefði staðið óhreyfður um árabil. Kæranda hafi ítrekað verið send bréf, birtingarpóstur og tölvupóstur af þessu tilefni. Hann hafi sótt um stöðuleyfi fyrir bátinn 11. október 2016, sem hafnað hafi verið af byggingarfulltrúa. Í framhaldi af því hafi kærandi sent erindi til skipulags- og byggingarráðs, sem í kjölfarið hafi tekið hina kærðu ákvörðun.

Vísað sé til 55. gr. þágildandi laga nr. 44/1999 um náttúruvernd varðandi friðlýsingu fólkvangsins, sbr. og 5. gr. auglýsingar nr. 397/2009 um stofnun fólkvangs Hvaleyrarlóns og Hvaleyrarhöfða í Hafnarfirði. Í 5. gr. auglýsingarinnar komi fram að eigendum bátaskýla við Hvaleyrarlón sé heimilt að sigla að skýlunum en að þeim beri að tryggja að ekki hljótist mengun af vegna spilliefna.

Um heimild bæjarins til þess að fjarlægja umræddan bát sé vísað til 5. gr. samþykktar um umgengni og þrifnað utan húss í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, en hún sé byggð á 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar komi m.a. fram: „Óheimilt er að geyma báta, kerrur, skráningaskylt ökutæki án skráningamerkja, tæki, vinnuvélar eða aðra hluti á bifreiðastæðum sveitarfélagsins, við götur eða á almannafæri. Heimilt er að fjarlægja slíka hluti á kostnað og ábyrgð eiganda að undangenginni viðvörun t.d. með álímingarmiða.“ Einnig sé vísað til gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem fjalli um heimild til að fjarlægja lausafjármuni sem ekki hafi stöðuleyfi, sbr. gr. 2.6.1. í reglugerðinni. Hafnarfjarðarbær telji sig hafa beitt meðalhófi við umrædda þvingunarráðstöfun. Það hafi verið mat byggingarfulltrúa að lega bátsins hafi gengið gegn almannhagsmunum, sem og öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Það hafi enda verið skylda sveitarfélagsins að fjarlægja bátinn í kjölfar kröfu byggingarfulltrúans, sbr. 2. mgr. gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð.

Samkvæmt deiliskipulagi sé heimilt að vera með bíla og báta á ákveðnu stæði, en umræddur bátur hafi ekki verið á því stæði, svo sem sjá megi á loftmynd. Hugsunin með uppsátri sé að gera eigendum kleift að ditta að bátum, en ekki sé um geymslusvæði fyrir báta að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti synjunar Hafnarfjarðarbæjar á þeirri ósk kæranda að bátur hans fengi að standa við bátaskýli við Hvaleyrarlón, sem og lögmæti þess þvingunarúrræðis sem beitt var í kjölfarið til að framfylgja synjuninni.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu synjaði byggingarfulltrúi kæranda um stöðuleyfi 12. október 2016. Leitaði kærandi þá til skipulags- og byggingaráðs Hafnarfjarðar og óskaði þess að bátur sinn fengi að standa áfram á vagni við bátaskýli hans við Hvaleyrarlón til 1. maí 2017, en að öðrum kosti við vesturhlið skýlisins. Synjaði ráðið erindinu 29. nóvember 2016.

Samkvæmt 9. tl. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu í reglugerð vera ákvæði um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir ákveðna lausafjármuni. Skal þar einnig kveðið á um heimildir byggingarfulltrúa til að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir séu ákvæði reglugerðarinnar ekki uppfyllt. Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er leyfisveitandi skilgreindur sem það stjórnvald sem gefur eða á að gefa út byggingarleyfi samkvæmt reglugerðinni og er þar um að ræða byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags eða Mannvirkjastofnun, sbr. 48. tl. gr. 1.2.1. í nefndri reglugerð. Skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda skv. gr. 2.6.1. í reglugerðinni og er honum veitt heimild í gr. 2.6.2. til að krefjast þess af eiganda að hann fjarlægi þá lausafjármuni sem getið er um í gr. 2.6.1. og staðsettir eru án stöðuleyfis.

Er ljóst samkvæmt skýru tilvitnuðu orðalagi byggingarreglugerðar og mannvirkjalaga að byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar var einn bær til að samþykkja eða synja um stöðuleyfi vegna báts kæranda. Verður því að líta á ákvörðun byggingarfulltrúa frá 12. október 2016 sem hina kærðu ákvörðun. Kæra vegna þeirrar ákvörðunar barst hins vegar að liðnum kærufresti skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eigi að síður þykir þó rétt að taka hana til efnislegrar meðferðar, með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda verður að telja afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr þegar litið er til erindis kæranda til skipulags- og byggingarráðs og afgreiðslu þess.

Samkvæmt fyrrgreindri gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð skal sækja um stöðuleyfi fyrir lausafjármuni, þ. á m. báta, sem ætlað er að standa lengur en tvo mánuði utan svæða sem eru sérstaklega skipulögð og ætluð til geymslu slíkra muna. Með stöðuleyfisumsókn skal fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem lausafjármunurinn á að standa á. Meðal gagna málsins er loftmynd frá 2012, sem sýnir stöðu bátsins við umrætt skýli og mun hann hafa staðið þar óhreyfður allt þar til hann var fjarlægður. Af myndinni að dæma stóð báturinn í 10-15 m fjarlægð frá mörkum þess svæðis sem á deiliskipulagsuppdrætti er merkt bíla- og bátastæði og mun landið vera í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Var því þörf á stöðuleyfi og telst Hafnarfjarðarbær lóðarhafi í skilningi byggingarreglugerðar. Þar sem fyrir liggur að samþykki bæjaryfirvalda fyrir stöðu bátsins við skýlið lá ekki fyrir uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að til greina kæmi að veita honum stöðuleyfi. Var ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja kæranda um stöðuleyfi því byggð á lögmætum sjónarmiðum og er kröfu kæranda um ógildingu þeirrar ákvörðunar því hafnað.

Í kjölfar ákvörðunar skipulags- og byggingarráðs ákvað byggingarfulltrúi að umræddur bátur skyldi fjarlægður, eftir atvikum á kostnað kæranda. Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndarinnar hefur Hafnarfjarðarbær m.a. vísað til 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem fram kemur að sveitarfélög geti sett sér samþykktir um atriði sem falli undir lögin. Í 26. gr. sömu laga kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt slíkum samþykktum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi gripið til tiltekinna ráðstafanna. Þá segir í 6. gr. samþykktar um umgengni og þrifnað utan húss í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 251/2000 að heilbrigðisfulltrúi geti að tilteknum skilyrðum uppfylltum látið fjarlægja hluti sem getið er um í 5. gr. sömu samþykktar. Samkvæmt 39. gr. þágildandi samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 772/2013 er starfandi sameiginleg heilbrigðisnefnd fyrir Hafnarfjörð, Garðabæ og Kópavog og í umboði hennar starfa heilbrigðisfulltrúar fyrir sömu sveitarfélög. Samkvæmt því liggur fyrir að byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar var ekki til þess bær að beita þvingunarúrræðum tilvitnaðrar samþykktar. Honum voru hins vegar tiltækar heimildir skv. gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð til að krefjast þess að kærandi fjarlægði þá lausafjármuni sem getið er um í gr. 2.6.1. og staðsettir voru án stöðuleyfis, ef atvik málsins gáfu til þess tilefni.

Eins og rakið hefur verið beindi kærandi erindi til skipulags- og byggingarráðs í kjölfar synjunar byggingarfulltrúa um stöðuleyfi. Erindið var almennt orðað og óskaði kærandi annars vegar eftir upplýsingum um hvort honum væri heimilt að láta bát sinn standa áfram í tiltekinn tíma og hins vegar hvort báturinn mætti að öðrum kosti standa á öðrum tilteknum stað við bátaskýlin. Erindið snéri því öðrum þræði að því að fá leiðbeiningar um það hvort unnt væri að koma stöðu bátsins í lögmætt horf með því að færa hann til á svæðinu, enda mátti kærandi hafa réttmætar væntingar til þess, í ljósi þess að skipulagt bátastæði er á svæðinu, að fullnægjandi gæti verið að færa bátinn til innan svæðisins til þess að koma til móts við kröfur byggingarfulltrúa. Verður enda að telja að vafi leiki á um að uppsátur báta á skipulögðu bátastæði sé stöðuleyfisskylt, sbr. orðalag gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð. Með vísan til 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 bar Hafnarfjarðarbæ því að bregðast við þessari ósk kæranda um leiðbeiningar, en ekki verður séð af gögnum málsins að þessi hluti erindis hans hafi hlotið viðhlítandi afgreiðslu af hálfu bæjarins.

Af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga leiðir að gefa ber aðila hæfilegan frest til að koma málum í lögmætt horf áður en gripið er til þvingunarúrræða og að beita skuli vægasta úrræði sem að gagni getur komið til að ná markmiði þeirrar ákvörðunar sem er andlag þvingunarúrræðisins. Viðbrögð kæranda í átt að því að koma stöðu bátsins í lögmætt horf, eftir ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja um stöðuleyfi og síðar afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs, gátu ráðist af þeim leiðbeiningum sem hann fengi um mögulega tilfærslu báts síns. Að sama skapi gat lögmæti þvingunarráðstöfunarinnar, með tilliti til meðalhófs, ráðist af því hvort unnt væri að ná markmiði hinnar kærðu synjunar með því að færa bátinn um nokkra metra inn á skipulagt bátastæði í stað þess að flytja hann af svæðinu á ótilgreindan stað. Beiting þvingunarúrræða er í eðli sínu íþyngjandi og í þessu tilviki til þess fallin að valda kæranda kostnaði. Að teknu tilliti til þessa verður að telja að með því að beita þvingunarráðstöfunum án þess að sinna leiðbeiningarskyldu sinni hafi Hafnarfjarðarbær gengið lengra í aðgerðum sínum en tilefni var til. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun um beitingu þvingunarúrræðis slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 12. október 2016 um að synja um stöðuleyfi fyrir bát kæranda við bátaskýlin við Hvaleyrarlón í Hafnarfirði.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 16. mars 2017 um að fjarlægja skuli bát kæranda við bátaskýlin við Hvaleyrarlón í Hafnarfirði á hans kostnað.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

125/2014 Bjarnarflagsvirkjun

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 5. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 125/2014, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 7. nóvember 2014 um að endurskoða skuli matsskýrslu fyrir Bjarnarflagsvirkjun, 90 MW jarðvarmavirkjun í Skútustaðahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. desember 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Landsvirkjun, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 7. nóvember 2014 að endurskoða skuli matsskýrslu fyrir Bjarnarflagsvirkjun, 90 MW jarðvarmavirkjun í Skútustaðahreppi. Er þess aðallega krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi í heild sinni en til vara að hún verði felld úr gildi að hluta varðandi þá þætti sem ekki uppfylli skilyrði 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum um að forsendur hafi breyst verulega frá mati á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 12. febrúar 2015.

Málavextir: Í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi, er 3 MW jarðgufustöð til raforkuframleiðslu sem tekin var í notkun árið 1969. Hinn 17. desember 2003 lagði Landsvirkjun fram skýrslu um mat á umhverfisáhrifum til Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við 90 MW virkjun í Bjarnarflagi ásamt 132 kV Bjarnarflagslínu 1.

Í meginatriðum skyldi framkvæmdin felast í borun alls 17 nýrra vinnsluhola til gufuöflunar, uppsetningu skiljustöðva, lagningu safnæða, aðveituæða og fráveitu fyrir affallsvatn. Reist yrði stöðvarhús fyrir rafstöð og tengd mannvirki. Þá yrði lögð um 10 km háspennulína að Kröflustöð. Lagðir voru fram tveir möguleikar á staðsetningu virkjunarinnar. Kostur A gerði ráð fyrir að hún yrði sunnan þjóðvegar, meðfram vesturhlíð Námafjalls. Ef sá kostur yrði fyrir valinu yrði reist gestamóttaka í tengslum við virkjunina. Samkvæmt kosti B yrðu helstu mannvirki norðan við þjóðveg, á svipuðum stað og virkjun sú sem fyrir væri. Fyrirhugað væri að reisa virkjunina í tveimur til þremur áföngum. Borholur í fyrsta áfanga yrðu boraðar sunnan þjóðvegar og framhaldið myndi ráðast af árangri. Skiljuvatn frá borholum á svæðinu hefði verið losað á yfirborðið og við það hefðu myndast tvö affallslón, Bjarnarflagslón, norðan þjóðvegar, og baðlón við Jarðbaðshóla sunnan við veginn vestan við Námafjall. Samkvæmt matsskýrslunni yrði það áfram gert en til tals hafi komið að dæla affallsvatni aftur niður, með grunnlosun í 200-400 m djúpar holur og djúplosun á 1.200-2.000 m dýpi. Djúplosun affallsvatns væri þó ekki fyrirhuguð vegna kostnaðar, tímafrekra rannsókna og óvissu um árangur.

Með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum frá 26. febrúar 2004 féllst Skipulagsstofnun á framkvæmdina með ákveðnum skilyrðum. Þá taldi stofnunin að gera þyrfti ráð fyrir djúplosun á affallsvatni og að undirbúningur niðurdælingar hæfist um leið og rekstur virkjunar.

Ekki hefur verið sótt um framkvæmdaleyfi vegna greindra framkvæmda, en haustið 2004 hófst starfsemi Jarðbaðanna við Mývatn við fyrrnefnt baðlón. Árin 2006-2008 voru boraðar þrjár holur fyrir væntanlega gufuaflsstöð.

Með bréfi, dags. 30. október 2013, óskaði Landsvirkjun eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort þörf væri á endurskoðun áðurnefndrar umhverfisskýrslu á grundvelli 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fylgdi beiðninni rýniskýrsla þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væru þær breytingar á grunnástandi eða lagaramma sem kölluðu á endurskoðun matsskýrslunnar í heild sinni.

Í rýniskýrslunni kemur m.a. fram að samkvæmt upplýsingum kæranda sé ekki um að ræða breytingu á fyrirkomulagi virkjunarinnar nema hvað varði áfangaskiptingu, en nú séu áform um að byggja fyrst 45 MW virkjun og ekki verði tekin ákvörðun um viðbótaruppbyggingu fyrr en reynsla af þeim áfanga liggi fyrir. Fyrirtækið öðlist þannig betri þekkingu á svæðinu og áhrifum af rekstrinum, sem minnka ætti óvissu varðandi umhverfisáhrif af fullbyggðri virkjun og auka möguleika til viðbragða. Hvað varði loftgæði þá sé hagkvæmast að leysa brennisteinsvetnið upp og dæla því aftur niður í jarðhitageyminn. Ef iðnaðarferlar verði valdir til hreinsunar á brennisteinsvetni úr útblæstri megi líta á það sem breytingu á framkvæmdinni. Sú aðferð sem valin verði til hreinsunar kunni að vera tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu. Landsvirkjun hafi snúið áformum um að losa allt affallsvatn í Bjarnarflagslón yfir í að allt affallsvatn verði losað í niðurrennslisholur með grunnlosun, svo það blandist ekki grunnvatni sem berist til Mývatns, en djúplosun á síðari stigum ef nauðsyn krefji. Þetta sé í samræmi við nýtt deiliskipulag fyrir virkjunarsvæði og áherslur Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar. Umfjöllun um jarðskjálfta vegna djúplosunar hafi ekki verið ítarleg í matinu frá 2003 og það gæti talist tæknilega nægjanleg ástæða til að endurtaka þann hluta matsins.

Skipulagsstofnun fór fram á að Skútustaðahreppur, sem leyfisveitandi, óskaði eftir endurskoðun matsins, sem sveitarfélagið og gerði með bréfi, dags. 18. febrúar 2014. Í bréfi Landsvirkjunar sama dag kemur m.a. fram að fyrirhuguð framkvæmd miði við valkost A, en gestamóttaka verði byggð á lóð Jarðbaðanna. Áætlað sé að nota nýja gerð hljóðdeyfis, sem verði niðurgrafinn að hálfu og minnki þar með ásýnd hans ásamt því að fyrstu niðurstöður tilrauna gefi væntingar um að það leiði til betri hljóðdempunar. Tilhögun Bjarnarflagslínu 1 sé breytt og sé hún nú í höndum Landsnets. Vegna nýrrar reglugerðar frá árinu 2010 um mörk brennisteinsvetnis í andrúmslofti hafi verið settir upp mælar sem sýni að styrkur efnisins fari upp yfir leyfileg mörk við ákveðnar veðuraðstæður, þ.e. þar sem hitaskil myndist nálægt yfirborði, og komi í veg fyrir að lofttegundir frá jarðvegi stigi upp. Horft hafi verið til þeirra lausnar að losa brennisteinsvetni í gegnum kæliturna. Því til viðbótar sé verið að útfæra flutning brennisteinsvetnis upp á Námafjall, hreinsun á efninu og svo blöndun í affallsvatn í tengslum við niðurdælingu.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun álits Skútustaðhrepps, Byggðastofnunar, Ferðamálastofu, Fiskistofu, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, Minjastofnunar Íslands, Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar og Veðurstofu Íslands. Jafnframt var auglýst opinberlega eftir athugasemdum. Umsagnir bárust frá framangreindum aðilum, að undanskilinni Byggðastofnun, og að auki bárust athugasemdir frá fjórum öðrum aðilum. Landsvirkjun var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum vegna umsagna og athugasemda, auk þess sem Skipulagsstofnun óskaði frekari gagna. 

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 7. nóvember 2014, er tiltekið það mat stofnunarinnar að forsendur sem byggt hafi verið á við mat á umhverfisáhrifum hafi breyst verulega í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hafi af rekstri annarra jarðvarmavirkjana síðastliðin ár. Reynslan hafi sýnt að bygging og rekstur jarðvarmavirkjana hafi haft í för með sér áhrif sem ekki hafi verið fyrirséð og misvel hafi gengið að bregðast við þeim. Einnig hafi orðið breytingar á reglum um loftgæði og lögum um verndun Mývatns og Laxár í Þingeyjarsýslu og hafi verið unnin verndaráætlun á grundvelli laganna. Þá hafi orðið breytingar á öðrum forsendum, t.a.m. hafi ferðamannastraumur á áhrifasvæði virkjunarinnar stóraukist á síðustu árum. Virkjunin sé fyrirhuguð á og í nánd við svæði sem um gildi sérstök verndarákvæði. Um Mývatns- og Laxársvæðið gildi sérstök lög um náttúruvernd nr. 97/2004 og Mývatnssvæðið sé einnig skráð sem eitt af Ramsarsvæðum á Íslandi, en það séu svæði sem njóti verndar vegna alþjóðlegs gildis fyrir fuglalíf. Staðsetningin geri það að verkum að sérstaka aðgæslu þurfi að hafa við undirbúning stórra framkvæmda. Stofnunin telji því að við mat á því hvort verulegar breyttar forsendur kalli á endurskoðun matsskýrslu þurfi að horfa til reglna alþjóðlegs umhverfisréttar um varúðarnálgun og lágmarka óvissu um áhrif sem skapast geti af rekstri 90 MW Bjarnarflagsvirkjunar. Kemst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að endurskoða skuli að hluta matsskýrslu um 90 MW Bjarnarflagsvirkjun. Skuli endurskoðunin snúa að áhrifum á hljóðvist, loftgæði, gróður, landslag, ásýnd og ferðamennsku auk áhrifa á grunn- og yfirborðsvatn, niðurrennsli og skjálftavirkni og jarðhitakerfi og orkuforða.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur nánar fram um áhrif á loftgæði að stofnunin telji óvissu um magn og dreifingu á brennisteinsvetni (H2S) frá virkjuninni auk samlegðar frá allt að 210 MW virkjun í Kröflu. Þá virðist hreinsun efnisins vera óhjákvæmileg vegna ákvæða reglugerðar nr. 514/2010 um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti, en lausn á því liggi ekki fyrir. Aukin reynsla og þekking af rekstri jarðvarmavirkjana hafi beint sjónum að áhrifum þeirra á styrk efnisins og skaðsemi þess fyrir heilsu fólks og annarra lífvera, svo sem viðkvæms gróðurs. Þá hafi landnotkun nærri framkvæmdasvæðinu breyst frá því mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Í ljósi þessa þurfi að endurskoða áhrif brennisteinsvetnis í útblæstri á loftgæði.

Hvað hljóðvist varðar er tekið fram að með gerð ítarlegri hljóðvistargreiningar megi betur meta áhrif virkjunar í hefðbundnum rekstri á hljóðvist. Þrátt fyrir að ekki hafi orðið breytingar á reglugerðarviðmiðum um hávaða telji stofnunin að vegna þeirrar miklu fjölgunar ferðamanna sem heimsæki Mývatnssveit og nærsvæði virkjunarinnar, auk áforma um uppbyggingu ferðaþjónustu, verði að líta svo á að um breyttar forsendur sé að ræða og því þurfi að endurskoða matsskýrslu varðandi áhrif á hljóðvist.

Vegna áhrifa á grunn- og yfirborðsvatn er í ákvörðuninni bent á að ekki hafi farið fram tilraunir með grunnlosun á 200-400 metra dýpi eða djúplosun á því affallsvatni sem falli nú til (um 50 kg/s). Í rýniskýrslu komi fram að prófanir bendi til þess að eftir ákveðna meðhöndlun henti affallsvatnið vel til niðurdælingar og lítil hætta sé á útfellingum sem stíflað geti niðurdælingarholur. Skipulagsstofnun telji mikilvægt að horfa til reynslu af rekstri jarðvarmavirkjana á öðrum háhitasvæðum þar sem ýmsir erfiðleikar hafi komið upp við niðurdælingu. Þannig sé nú t.d. gert ráð fyrir möguleika á afrennsli til sjávar í Svartsengi. Lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár hafi tekið gildi eftir að mat á umhverfisáhrifum hafi legið fyrir. Í verndaráætlun 2011-2016 fyrir Mývatn og Laxá komi fram að vegna vinnslu háhita úr jörðu þurfi að hafa í huga að kísilrennsli til Mývatns raskist ekki vegna kælingar eða þynningar jarðhitavatnsins sem í það renni. Óvissa sé um áhrif 90 MW virkjunarinnar á niðurdrátt grunnvatns, með mögulegum breytingum á eðli og efni grunnvatnsstraumsins til Mývatns og á vistkerfi þess. Þá þurfi að greina hugsanleg samlegðaráhrif með Kröfluvirkjun. Á grundvelli framangreinds þurfi að endurskoða matsskýrsluna með tilliti til áhrifa á grunn- og yfirborðsvatn og tengsl við vistkerfi Mývatns.

Þegar kemur að áhrifum á jarðhitakerfi og orkuforða telur Skipulagsstofnun að leggja þurfi mat á sjálfbærni vinnslu 90 MWₑ virkjunar í ljósi endurkvarðaðs reiknilíkans fyrir jarðhitakerfið í Námafjalli og með hliðsjón af nýrri skilgreiningu um sjálfbæra vinnslu og nýtingu jarðhita. Í úrskurði stofnunarinnar frá 2004 hafi verið talið að fyrirhuguð virkjun kæmi ekki til með að hafa veruleg og óafturkræf áhrif á jarðhitakerfið, en ekki hafi verið tekið afstaða til þess hvort að vinnslan yrði sjálfbær. Í sérfræðiskýrslu Íslenskra Orkurannsókna (ÍSOR) frá 2013 komi fram að líta megi á 45 MW vinnslu sem sjálfbæra, en að niðurstöður um sjálfbærni 90 MW vinnslu séu ekki afgerandi. Þar af leiðandi þurfi að fara fram endurskoðun með tilliti til áhrifa 90 MW virkjunar á jarðhitaauðlindina, þótt ljóst sé að slíkt mat verði alltaf háð ákveðinni óvissu.

Stofnunin tekur fram að í úrskurði hennar frá árinu 2004 sé ekki fjallað sérstaklega um hættu á jarðskjálftavirkni sökum niðurrennslis. Af framlögðum gögnum að dæma tengist hætta á skjálftavirkni fyrst og fremst djúplosun á affallsvatni, en ekki sé fjallað um hana í gögnum mats á umhverfisáhrifum. Í rýniskýrslu sé gerð grein fyrir skjálftavirkni og þar komi fram að aðstæður og þekking hafi breyst hvað varði jarðskjálftavirkni vegna niðurrennslis. Telji Skipulagsstofnun að því þurfi að endurskoða matsskýrslu með tilliti til hættu fyrir menn og samfélag af skjálftavirkni vegna niðurrennslis affallsvatns.

Um ásýnd, ferðamennsku, landslag og jarðmyndanir telur Skipulagsstofnun mikilvægt að hafa í huga að Bjarnarflagsvirkjun hafi ákveðna sérstöðu umfram aðrar jarðvarmavirkjanir, en hún sé staðsett á svæði þar sem sé rótgróinn ferðamannastaður og hafi verið vinsæll áningarstaður fyrir tíma virkjunarinnar og uppbyggingar aðstöðu við Jarðbaðshóla. Stofnunin telji að í því mati sem lagt hafi verið á fyrirsjánleg áhrif virkjunarinnar á ferðamennsku hafi ekki verið séð fyrir það veigamikla hlutverk sem svæðið gegni í dag með tilliti til ferðamennsku og útivistar. Ferðaþjónusta á svæðinu sé mikilvæg atvinnustarfsemi sem skapi í dag fjölda starfa. Í verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxársvæðið komi fram að svæðið sé eitt af helstu ferðamannasvæðum á Íslandi. Stór hluti af upplifun fólks af Mývatnssvæðinu sé útsýni til vatnsins og fjallahringsins. Mannvirki geti haft truflandi áhrif á útsýni og haft í för með sér neikvæða upplifun af svæðinu. Því þurfi jafnframt að endurskoða matsskýrslu með tilliti til áhrifa á ásýnd, jarðmyndanir, landslag og ferðamennsku.

Í niðurstöðu stofnunarinnar um áhrif á gróður segir að í matsskýrslu komi fram að jarðhitagróðurinn í Jarðbaðshólum, vestan við svæði A, sé sérstæður með hátt verndargildi en með tilliti til áhrifa framkvæmdanna á gróður komi kostur A einna best út. Í mati á áhrifum virkjunarinnar á gróður hafi verið tekið mið af beinu raski við framkvæmdina en ekki gert ráð fyrir því að áhrif á gróður gæti náð út fyrir beint framkvæmdasvæði eða kæmi fram við rekstur virkjunarinnar. Frá því að umrætt mat hafi farið fram hafi reynsla af rekstri jarðvarmavirkjana og langtímaáhrifum þeirra á gróður aukist. Hafi komið í ljós nokkuð miklar gróðurskemmdir, þá aðallega mosaskemmdir, vegna efna svo sem brennisteinsvetnis í útblæstri frá borholum. Langtímarannsóknir hafi leitt í ljós gróðurskemmdir í allt að fjögurra km fjarlægð frá Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun. Þurfi því að endurskoða matsskýrslu með tilliti til áhrifa á gróður.

Í ákvörðuninni kemst Skipulagsstofnun jafnframt að þeirri niðurstöðu að ekki þurfi að endurskoða áhrif á menningarminjar og bein áhrif framkvæmdarinnar á fugla eða lífríki hverasvæða, enda hafi engar breytingar orðið á forsendum fyrri ákvörðunar. Þó þurfi að hafa í huga að mat á mögulegum afleiddum áhrifum sem breytingar á yfirborðs- og grunnvatni geti haft í för með sér á vistkerfi Mývatns geti falið í sér ákveðið mat á dýralífi.

Loks var í ákvörðun Skipulagsstofnunar tiltekið að kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála væri til 14. desember 2014 og barst kæra í máli þessu 12. þess mánaðar, svo sem áður segir.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að Skipulagsstofnun hafi við töku hinnar kærðu ákvörðunar ekki lagt til grundvallar þær forsendur sem tilgreindar séu í 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og hafi stofnunin í mörgum tilfellum byggt á allt öðrum forsendum. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að orðið hafi verulegar breytingar á fyrrgreindum forsendum. Jafnframt hafi stofnunin virt að vettugi umsagnir helstu fagstofnana eins og Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar, sem hafi talið að alls ekki hafi orðið verulegar breytingar á greindum forsendum. Loks hafi ekki verið tekið tillit til breyttra framkvæmdaáforma, sem felist í 45 MW í stað 90 MW virkjunar, er valda muni minni röskun á umhverfi svæðisins.

Með reglugerð nr. 715/2014, sem hafi tekið gildi 14. júlí 2014, hafi verið gerðar breytingar á reglugerð nr. 514/2010 um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti, en með henni hafi verið dregið úr þörf á mótvægisaðgerðum. Ákvæði um að ekki megi fara yfir heilsuverndarmörk hafi verið breytt í að heimilt sé að fara yfir mörk þrisvar á ári. Þá hafi verið fellt brott ákvæði um að tilkynna skuli þegar brennisteinsvetni hafi mælst yfir ákveðin mörk samfellt í þrjár klukkustundir. Boraðar hafi verið þrjár holur eftir úrskurðinn 2004 og bendi gögn til þess að losun verði minni en talið hafi verið fyrir tíu árum. Við mat á umhverfisáhrifum Kröfluvirkjunar II hafi verið lagt mat á hugsanleg samlegðaráhrif Kröfluvirkjunar og Bjarnarflagsvirkjunar varðandi styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti og áhrif þess að hreinsa efnið úr útblæstri jarðvarmavirkjana. Fram komi í matsskýrslu Kröfluvirkjunar II að í ljósi niðurstaðna geri kærandi ráð fyrir að grípa til viðeigandi ráðstafana í tengslum við fyrirhugaða 90 MW Bjarnarflagsvirkjun. Hafi verið gerð ný dreifingarspá fyrir efnið frá 45 MW virkjun við Bjarnarflag og 60 MW virkjun í Kröflu. Kærandi hafi lagt fram gögn um áætlað magn brennisteinsvetnis frá 90 MW virkjun í Bjarnarflagi byggt á mælingum síðastliðinna tíu ára og lagt mat á dreifingu frá Bjarnarflagsvirkjun, auk samlegðaráhrifa með Kröfluvirkjun, núverandi vinnslu og mögulegri stækkun. Sé það mat Umhverfisstofnunar, sem fari lögum samkvæmt með eftirlit með þessum málaflokki, að umrædd gögn séu fullnægjandi og að nýtt mat muni ekki bæta þá þekkingu sem nú sé til staðar. Ný reglugerð um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti feli í sér breytingar á forsendum með því að setja viðmið um leyfilegan styrk efnisins. Lagt hafi verið mat á samlegðaráhrif jarðvarmavirkjana á Norðausturlandi vegna útblásturs brennisteinsvetnis miðað við nefnda reglugerð. Niðurstöður sýni að mótvægisaðgerða sé þörf við Bjarnarflagsvirkjun til að uppfylla viðmið reglugerðarinnar. Umhverfisstofnun telji að sú forsendubreyting kalli ekki á endurskoðun matsskýrslu og vísi til útgáfu starfsleyfis varðandi útfærslu mótvægisaðgerða. Árið 2004 hafi verið þéttbýli í Reykjahlíð og áform uppi um uppbyggingu jarðbaða nálægt virkjanasvæði, sem nýtti affallsvatn frá virkjun í Bjarnarflagi. Rekstur Kísiliðjunnar hafi lagst af en svæðið sé enn skilgreint sem iðnaðarsvæði í Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023. Því sé ekki um verulegar breytingar á forsendum að ræða varðandi landnotkun og áhrif á loftgæði. Þá hafi Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra talið að ekki væri ástæða til að endurskoða matsskýrslu þar sem forsendur fyrir fengnum niðurstöðum hafi ekki breyst.

Umhverfisstofnun hafi í umsögn sinni ekki talið ástæðu til að endurskoða mat á umhverfisáhrifum vegna hljóðvistar þar sem kærandi hafi, að því er virðist, yfir að ráða aðferðum til að dempa hávaða frá borholum þannig að hljóðvist verði í samræmi við reglugerð nr. 724/2008. Reglugerðarviðmið um hávaða hafi ekki breyst og tekið hefði verið tillit til þess við mat á umhverfisáhrifum að ferðamönnum myndi líklega fjölga í Mývatnssveit. Bjarnarflagsvirkjun sé starfsleyfisskyld samkvæmt lögum nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun, þar með talið mengun vegna hávaða.

Mývatns- og Laxársvæðið hafi verið fyrsta svæðið sem skráð hafi verið samkvæmt Ramsarsamningnum hér á landi árið 1977 og staðfest 1978. Því sé ekki um að ræða forsendubrest varðandi gildi hans frá árinu 2004. Ný lög um verndun Mývatns og Laxár nr. 97/2004 hafi tekið gildi 1. október 2004 og fellt úr gildi lög nr. 36/1974. Breytingarnar feli ekki í sér verulega forsendubreytingu vegna mats á umhverfisáhrifum. Um sé að ræða breytingu á gildissviði laganna, þannig að ekki njóti lengur allur Skútustaðahreppur verndar laganna. Auk þess hafi í matsskýrslu verið tekið tillit til umræddrar lagabreytingar en hún hafi þá verið fyrirhuguð. Kærandi hafi um langt skeið staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum á grunnvatnsstraumum til Mývatns og fylgst reglulega með hitastigi og efnasamsetningu írennslis til að vakta hvort virkjun í Bjarnarflagi, sem nú sé í rekstri, og virkjun við Kröflu hafi áhrif á vatnasviði Mývatns. Umhverfisstofnun taki fram í umsögn sinni að haldbetri upplýsingar um áhrif á grunnvatn muni fyrst liggja fyrir þegar reynsla fáist af 45 MW virkjun.

Kærandi bendi á að niðurstaða Skipulagsstofnunar um niðurrennsli og skjálftavirkni gangi í berhögg við umsögn Orkustofnunar. Þar segi m.a: „Það er niðurstaða Orkustofnunar að förgun affallsvökva með grunnlosun niður fyrir 200 m og yfirborðslosun einvörðungu í neyð við stórfellda bilun og prófanir á djúplosun frá upphafi reksturs samræmist úrskurði Skipulagsstofnunar frá árinu 2003 og þarfnast ekki endurskoðunar enda ljóst að komist yrði að sömu niðurstöðu út frá þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir.“ Þá komi fram í greindri umsögn að nýjar upplýsingar um skjálftaástand á svæðinu og reynsla af djúplosun annars staðar gefi ekki tilefni til að endurmeta umhverfisáhrif af prófunum á djúplosun. Enn fremur hafi Orkustofnun talið að komist yrði að sömu niðurstöðu og úrskurðarorð Skipulagsstofnunar kvæði á um, þ.e.a.s. mikilvægi skjálftamælinga. Loks komi fram í umsögninni að við hugsanlega leyfisveitingu muni Orkustofnun taka á þessum þætti málsins þannig að úrskurðarorðum verði fullnægt. Um prófanir á djúplosun verði að ræða en ekki skilyrði fyrir rekstri virkjunarinnar, enda verði grunnlosun beitt.

Kærandi tekur fram að hann hafi vaktað skjálftavirkni á Mývatnssvæðinu um árabil og hafi verið ákveðið að fjölga þar skjálftamælum. Þrjár stöðvar hafi verið staðsettar við Námafjallssvæðið. Ekki sé hægt að segja til um áhrif djúplosunar á skjálftavirkni áður en hún hefjist, en kærandi hafi nokkra reynslu af djúplosun í Kröflu. Í fyrrnefndri umsögn Orkustofnunar sé bent á að stofnunin hafi nú þróað verklagsreglur sem almennt muni gilda um djúplosun jarðhitavökva í jarðhitakerfi. Þá taki Orkustofnun í umsögn sinni undir að aðstæður í Bjarnarflagi séu frábrugðnar aðstæðum á Hellisheiði, en spennulosun hafi átt sér stað á svæðinu við Kröfluelda og ekki sé mikil spennusöfnun á svæðinu. Líkt og fram komi í umsögn Orkustofnunar sé ekki unnt að vísa til reynslu af niðurdælingu á Hellisheiði þar sem allt aðrar jarðfræðilegar forsendur liggi þar að baki. Aðstæður í Bjarnarflagi geti ekki talist til verulegra breytinga á forsendum í ljósi þess að fyrir liggi upplýsingar um árangur í Kröflu þar sem jarðfræðilegar aðstæður séu mun líkari aðstæðum í Bjarnarflagi. Fylgst sé vel með áhrifum djúplosunar í Kröflu á skjálftavirkni. Byggt á þeirri reynslu sé ekki að vænta verulegra breytinga á skjálftavirkni vegna djúplosunar í Bjarnarflagi.

Kæranda sé kunnugt um þau áhrif sem komið hafi fram við jarðvarmavirkjanir á Suðurlandi, einkum á mosagróður, og hafi látið vakta gróður á svæðum kringum Þeistareyki og Kröflu síðan árið 2012. Við Bjarnarflag sé mun minni gróður en á áðurnefndum svæðum og hafi sambærileg vöktun ekki hafist þar fyrr en á árinu 2014. Hins vegar hafi fundarstaðir sjaldgæfra plantna við Bjarnarflag verið vaktaðir reglulega síðan árið 2012. Með þeirri tilhögum muni verða unnt að greina hvort og þá hver áhrif virkjunar verði á gróður. Engar breytingar hafi orðið á viðmiðum sem notuð séu við mat á umhverfisáhrifum og ekki séu vísbendingar um verulegar breytingar á gróðurfari. Niðurstaða Skipulagsstofnunar hvað varði áhrif á gróður gangi í berhögg við umsögn og álit fagstofnana, t.a.m. Umhverfisstofnunar.

Í umsögn Orkustofnunar komi fram að við veitingu virkjunar- og nýtingarleyfa ákvarði stofnunin skilyrði fyrir rekstri virkjunarinnar með tilliti til auðlindanýtingar. Endanlegt mat liggi fyrir hjá stofnuninni, sem hafi á að skipa sérfræðingum í þessum málefnum. Breyting á skilgreiningu um sjálfbæra vinnslu og nýtingu jarðhita hafi hér engin áhrif. Jafnframt hafi kærandi þegar látið endurmeta sjálfbærni vinnslu í samræmi við nýju skilgreininguna frá árinu 2013, en Skipulagsstofnun kalli eftir slíku mati í ákvörðun sinni. Stefna kæranda hafi verið að byggja upp jarðhitavirkjanir með varfærnum hætti og í samræmi við það yrði reynsla af rekstri 45 MW raforkuvers, sem metin sé sjálfbær vinnsla, höfð til hliðsjónar áður en tekin yrði ákvörðun um frekari nýtingu. Það heyri til undantekninga að hægt sé að leggja fram svo mikil gögn til að meta sjálfbærni vinnslu, sem raunin sé í tilfelli Bjarnarflagsvirkjunar, þar sem hún hafi verið svo lengi í rekstri.

Grunnurinn að breytingum varðandi útivist og ferðaþjónustu á svæðinu næst virkjuninni byggist m.a. á tilkomu Jarðbaðanna við Mývatn og nýtingu affallsvatns frá virkjun. Við hönnun hafi verið tekið tillit til aukinnar umferðar ferðamanna í nágrenni fyrirhugaðrar virkjunar. Í mati á umhverfisáhrifum hafi því verið spáð að fjöldi ferðamanna myndi aukast. Engar breytingar hafi orðið á lagaramma eða viðmiðum sem lögð hafi verið til grundvallar matinu frá árinu 2003. Með Evrópska landslagssáttmálanum hafi stjórnvöld lýst yfir vilja sínum til að stuðla að landslagsvernd, en með undirritun hans hafi ekki verið innleidd skilyrði eða skilmálar sem feli í sér breytingar eða forsendur umhverfismatsins. Enn á ný fari niðurstaða Skipulagsstofnunar í berhögg við álit og umsagnir fagstofnana og sé bent á umsögn Umhverfisstofnunar í því sambandi.

Hin kærða ákvörðun sé verulega íþyngjandi og feli í sér að kærandi þurfi að fara í mjög kostnaðarsama og umfangsmikla endurskoðun mats á umhverfisáhrifum þótt forsendur hafi ekki breyst verulega. Það sé skilyrði í stjórnsýslurétti að íþyngjandi ákvarðanir eigi sér skýra lagastoð og að gætt sé meðalhófs við töku þeirra. Hin kærða ákvörðun brjóti því í bága við lögmætisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé það ótvírætt brot á andmælarétti að kynna ekki fyrir kæranda slíka íþyngjandi ákvörðun áður en hún hafi verið endanlega tekin. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu hafi fyrst legið fyrir rúmu ári eftir að lögð hafi verið fram upphafleg beiðni um að tekin yrði ákvörðun um hvort þörf væri á slíkri endurskoðun. Í því felist verulegur annmarki á málsmeðferð og brot á 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Fljótlegra hefði verið að setja af stað nýtt matsferli. Sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að synja beiðni kæranda um að taka málið fyrir áður en tíu ár hafi verið liðin frá úrskurði um matsskýrslu eigi sér ekki lagastoð. Það sama eigi við um það skilyrði að leyfisveitandi verði að leggja fram beiðni um endurskoðun, einkum í ljósi þess að matsskýrslan falli undir gildissvið eldri laga, sem kveði á um að Skipulagsstofnun skuli þar eiga frumkvæði.

Alþjóðlegur umhverfisréttur hafi ekki tekið verulegum breytingum og sú varúðarregla sem vísað sé til í hinni kærðu ákvörðun sé frá árinu 1992 og hafi því verið í gildi við upphaflega matsskýrslu. Jafnframt sé það meginregla að ekki sé heimilt að beita varúðarreglunni í þessum tilgangi. Þá sé varúðarreglan skilgreind í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, sem ekki hafi tekið gildi.

Þetta sé fyrsta málið sem tekið sé til umfjöllunar þar sem óskað sé ákvörðunar um endurskoðun og óttist kærandi að hin kærða ákvörðun geti orðið fordæmi fyrir aðrar ákvarðanir um endurskoðun sambærilegra matsskýrslna.

Með beiðni um endurskoðun hafi fylgt rýniskýrsla verkfræðistofu þar sem, að beiðni kæranda, hafi verið lagt mat á þá umhverfisþætti sem að breyst hefðu frá árinu 2003 og á það hvort þær breytingar gæfu tilefni til endurskoðunar. Kærandi hafi vakið athygli á því að hugsanlega hefðu forsendur breyst hvað varði umfjöllun um jarðskjálfta vegna niðurdælingar affallsvökva, en slík umfjöllun hafi ekki verið ýtarleg í greindu mati. Í fyrrnefndri rýniskýrslu komi hins vegar fram að þó svo að þetta atriði geti talist tæknilega nægjanleg ástæða til að endurskoða umhverfisáhrif þess tiltekna þáttar þá séu líkur á neikvæðum umhverfisáhrifum litlar miðað við fyrirliggjandi gögn. Rýniskýrslan hafi verið unnin af óháðum úttektaraðila, sem ekki hafi komið að umræddu mati á umhverfisáhrifum árið 2003-2004. Í ljósi þessa hafi kærandi ákveðið að óska eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar áður en tíu ár hafi verið liðin frá úrskurði. Niðurstaða fagaðila hafi verið sú að ekki væri talin þörf á endurskoðun þessara þátta þar sem forsendur hefðu ekki breyst verulega. Í öðrum tilfellum sé hins vegar ljóst að engar forsendur séu fyrir endurskoðun.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Stofnunin skírskotar til þess að málsmeðferð vegna beiðni leyfisveitanda um endurskoðun matsskýrslu hafi farið fram á grundvelli 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þá hafi verið höfð hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennum málsmeðferðarreglum um matsskyldar framkvæmdir í IV. kafla laga nr. 106/2000, sbr. t.d. 2.-5. mgr. 10. gr. Þau efnisatriði sem tilgreind séu í 2. mgr. 12. gr. sömu laga feli ekki í sér tæmandi talningu á forsendum sem leitt geti til þess að tekin sé ákvörðun um endurskoðun, sbr. orðalag málsgreinarinnar, „svo sem“. Löggjafinn líti svo á að stofnunin geti byggt á öðrum atriðum en þeim sem komi fram með beinum hætti í nefndu ákvæði ef þau feli í sér að forsendur hafi breyst verulega. Samkvæmt 2. mgr. nefndrar greinar sé ljóst að ákvörðunarvaldið um það hvort endurskoða skuli matsskýrslu sé hjá Skipulagsstofnun en ekki hjá umsagnaraðilum. Álits umsagnaraðila sé almennt aflað sem hluta af rannsókn máls og séu umsagnir þeirra stjórnvalda sem leitað hafi verið til ekki bindandi fyrir stofnunina að lögum. Þótt í nýjum gögnum kæranda komi fram að í fyrstu sé stefnt að 45 MW virkjun, þá geri hann ráð fyrir að síðan verði farið í síðari áföngum í 90 MW. Í matsskýrslu frá 2003 komi fram að fyrirhugað hafi verið að reisa 90 MW virkjun í tveimur til þremur áföngum. Sú tilhögun framkvæmda sem nú sé stefnt að feli ekki í sér breytt framkvæmdaáform með tilliti til mögulegrar heildarstærðar virkjunarinnar.

Frá því að mat á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar hafi farið fram hafi komið fram áform um nýja 150 MW Kröfluvirkjun II sem geti, auk 60 MW Kröfluvirkjunar, haft samlegðaráhrif á loftgæði með Bjarnarflagsvirkjun. Mat á umhverfisáhrifum felist m.a. í því að gera grein fyrir sammögnuðum áhrifum, sbr. l-lið 3. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005. Til frekari skýringar sé vísað í úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 10. júní 2013 þar sem fram komi að viðmið 3. viðauka um sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum sé ekki bundið við aðrar mats- eða tilkynningarskyldar framkvæmdir heldur beri að vega saman umhverfisáhrif allra þekktra framkvæmda. Í nýrri dreifingarspá frá árinu 2013, sem gerð sé grein fyrir í rýniskýrslu, sé ekki tekið fullnægjandi tillit til þekktra framkvæmda á svæðinu. Þegar metin séu sammögnunaráhrif brennisteinsvetnis með tilliti til loftgæða verði að taka tillit til þekktra áforma á svæðinu þrátt fyrir að óvissa sé um hvort og hvenær full starfsemi hefjist. Fyrirhuguð framleiðsluaukning við Kröflu feli í sér breyttar forsendur frá því metin hafi verið umhverfisáhrif Bjarnarflagsvirkjunar. Frá því að matið hafi farið fram á árunum 2003-2004 hafi verið sett reglugerð nr. 514/2010, um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti, sem feli í sér breyttar forsendur. Þær breytingar sem gerðar hafi verið á reglugerðinni 2014 hafi ekki áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar um loftgæði. Í nýju aðalskipulagi Skútustaðahrepps séu skýr áform um að í Reykjahlíð verði gert ráð fyrir fjölgun íbúa og miðstöð ferðaþjónustu. Þá hafi orðið miklar breytingar í nágrenni fyrirhugaðrar virkjunar, þar sem rekstri Kísiliðjunnar hafi verið hætt og byggður upp fjölsóttur ferðamannastaður í Jarðböðunum.

Matsskýrslan frá 2003 geri ekki ráð fyrir þeim mikla fjölda ferðamanna sem raunin sé að heimsæki Jarðböðin. Í 12. gr. laga nr. 106/2000 segi að Skipulagsstofnun geti ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu ef forsendur hafi breyst verulega, svo sem vegna breytinga á landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til þeirra breytinga sem orðið hafi á landnotkun og áformum sveitarstjórnar um áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu. Á þeirri forsendu sé það niðurstaða stofnunarinnar að þörf sé á að endurtaka mat á áhrifum virkjunarinnar á hljóðvist.

Þegar matsskýrslan hafi verið unnin hafði verið lagt fram frumvarp á vorþingi sama ár til laga um verndun Mývatns og Laxár, sem hafi ekki hlotið afgreiðslu. Þegar matsskýrslan hafi verið samin hafi frumvarp til laga um verndun Mývatns og Laxár ekki verið lagt fram að nýju eða afgreitt sem lög. Sambærilegt ákvæði sem kveði með skýrum hætti á um mikilvægi grunnvatnsgæða og sé í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 97/2004, hafi ekki verið í eldri lögum nr. 36/1974. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er orðið hafi að fyrrnefndri 4. gr. komi fram að ákvæðið sé nýmæli. Verndaráætlun 2011-2016 fyrir Mývatn og Laxá hafi verið gerð á grundvelli 6. gr. laga nr. 97/2004, en sú grein sé einnig nýmæli. Megintilgangur slíkrar áætlunar samkvæmt núgildandi lögum sé að marka skýra stefnu á sviði náttúru- og umhverfisverndar á svæðinu með þátttöku allra hagsmunaaðila, koma í veg fyrir að náttúruvernd á svæðinu verði brotakennd og tryggja þannig samhengi í öllum verndar- og friðunaraðgerðum. Í 12. gr. laga nr. 106/2000 segi að Skipulagsstofnun geti ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu ef forsendur hafi breyst verulega, svo sem vegna breytinga á löggjöf um umhverfismál. Eins og að framan sé rakið hafi orðið breytingar á löggjöf um umhverfismál sem skipti máli varðandi mat á áhrifum virkjunar á grunnvatn. Þá skorti á skýringar og rökstuðning fyrir ályktun Umhverfisstofnunar um að ólíklegt sé að endurskoðun á mati á áhrifum framkvæmdarinnar á grunnvatn myndi leiða nýjar upplýsingar í ljós.

Lög nr. 106/2000 hafi að geyma form- og efnisreglur sem ætlað sé að tryggja að ákveðnar framkvæmdir fari í gegnum tiltekið upplýsinga- og rannsóknarferli, þannig að fyrir liggi nægjanlegar upplýsingar fyrir leyfisveitendur framkvæmda til að ákveða hvort leyfi verði veitt, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 4. mars 2009 í máli nr. 5081/2007. Því sé ekki hægt að útiloka fyrirfram að endurskoðun muni leiða nýjar upplýsingar í ljós sem mikilvægar séu fyrir ákvörðun um leyfisveitingar. Frá því að hin kærða ákvörðun hafi legið fyrir hafi einnig orðið vandræði með niðurdælingarholu kæranda á Þeistareykjum, þar sem vatn og gufa hafi gosið upp úr holunni. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að kæla holuna með því að dæla köldu vatni í hana í hálfan mánuð hafi sú tilhögun ekki skilað árangri og hafi þurft að loka henni. Þó svo að tæknilegir örðuleikar séu ekki taldir upp í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 beri að líta á þá reynslu sem orðið hafi af niðurdælingu við jarðhitavirkjanir undanfarin ár sem breytingar frá þeim forsendum sem hafi legið til grundvallar mati frá 2003.

Þótt það kunni að vera rétt að aðstæður á Hellisheiði séu ólíkar aðstæðum við Bjarnarflag og Kröflu þá geti upplýsingar frá öðrum stöðum á landinu en Bjarnarflagi gefið vísbendingu um mögulega jarðskjálftavirkni vegna niðurrennslis affallsvatns. Samkvæmt frétt af vef kæranda frá 16. september 2013 telji hann að vegna nálægðar Bjarnarflagsvirkjunar við Mývatn og íbúabyggð sé mikilvægt að meta betur umhverfisáhrif vegna mögulegra smáskjálfta samfara djúplosun á jarðhitavökva, en sá þáttur hafi verið vanreifaður í fyrra mati. Í umsögn Orkustofnunar komi m.a. fram að í ljósi nýrra upplýsinga um skjálftaástand á svæðinu, sem og reynslu af djúplosun, sé ekki tilefni til að meta umhverfisáhrif af prófunum á slíkri losun. Þær upplýsingar sem vísað sé til virðist vera frá árinu 2007 eða eldri og því sé ekki um nýjar upplýsingar að ræða.

Ný þekking á umhverfismálum, svo sem áhrif virkjana á gróður, geti valdið því að forsendur teljist breyttar frá mati á umhverfisáhrifum án þess að það sé tiltekið í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000. Vöktunartilhögun, eins og kærandi lýsi, hafi sem slík ekki áhrif á ákvörðun um hvort endurskoða skuli mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, heldur byggi ákvörðun á því hvort forsendur matsins teljist verulega breyttar. Mati á umhverfisáhrifum sé ætlað að spá fyrir um áhrif framkvæmda áður en leyfi séu veitt, en vöktun eftir að til framkvæmda hafi komið sé eingöngu til að staðreyna hver áhrifin verði.

Samkvæmt d-lið 3. tl. 18. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005 skuli í frummatsskýrslu m.a. greina frá niðurstöðum mats á líklegum umhverfisáhrifum framkvæmdar og áhrifum starfsemi sem henni fylgi vegna nýtingar náttúruauðlinda. Þrátt fyrir að endanleg ákvörðun um skilyrði við leyfisveitingu liggi hjá Orkustofnun takmarki það ekki mat á umhverfisáhrifum, sem í tilfelli jarðvarmavirkjana felist m.a. í að meta áhrif á þá mikilvægu náttúruauðlind sem felist í orkuforða jarðhitakerfa. Ákvörðun Orkustofnunar um veitingu virkjunar- og nýtingarleyfis og ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu byggist á ólíkum lagagrundvelli og sama markmið liggi ekki að baki þeim.

Í umsögn Umhverfisstofnunar hafi ekki verið tekið tillit til þess að það hafi orðið mikil aukning á ferðamönnum til landsins frá því að mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar hafi farið fram. Ljóst sé að forsendur séu verulega breyttar varðandi mat á áhrifum virkjunarinnar á ásýnd, ferðamennsku, landslag og jarðmyndanir. Aukning á ferðamannastraumi til landsins, og þær áskoranir sem því fylgi varðandi landnýtingu og mögulega árekstra við aðra landnýtingu, sé langt umfram það sem gert hafi verið ráð fyrir á þeim tíma þegar matsskýrslan hafi verið gerð.

Sú niðurstaða að endurskoða þurfi að hluta matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar sé í samræmi við b-lið 1. gr. laga nr. 106/2000 þar sem fram komi að markmið laganna sé að draga eins og kostur sé úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Þá gangi niðurstaðan ekki lengra en nauðsyn beri til. Í fyrrgreindum lögum sé ekki að finna ákvæði sem mæli fyrir um að stofnuninni beri að kynna kæranda drög að ákvörðunum og gefa honum kost á að tjá sig um þau áður en ákvörðun sé endanlega tekin. Ekki verði séð að sá dráttur sem orðið hafi á afgreiðslu málsins hafi haft efnisleg áhrif á niðurstöðu í því og valdi hann því ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Því sé hafnað að stofnunin hafi synjað beiðni um að taka málið fyrir áður en tíu ár hafi verið liðin. Stofnunin hafi getað tekið málið til meðferðar þótt tíu ár hafi ekki verið liðin á grundvelli 12. gr. áðurnefndra laga þegar umbeðin gögn hefðu borist, sem m.a. hafi falið í sér staðfestingu á ósk leyfisveitanda um ákvörðun um endurskoðun. Hins vegar hafi stofnunin ekki getað tekið efnislega ákvörðun um endurskoðun fyrr en tíu ár hafi verið liðin.

Stofnunin hafi byggt málsmeðferð sína á 12. gr. laga nr. 106/2000, eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 74/2005, enda hafi það ákvæði verið við lýði þegar erindið hafi borist stofnuninni. Hafi það ekki þýðingu þótt í núgildandi ákvæði sé vikið að áliti stofnunarinnar en ekki úrskurði. Í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið byggt á þeirri forsendu að verulegar breytingar hafi orðið á alþjóðlegum skuldbindingum. Það sérstaka svæði sem virkjunin liggi á og við geri það að verkum að sérstaka aðgæslu þurfi að hafa við undirbúning stórra framkvæmda. Við þær aðstæður þurfi að hafa í huga reglur umhverfisréttar um varúðarnálgun. Auk 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar komi varúðarreglan fram í inngangsorðum samningsins um líffræðilega fjölbreytni og í aðfaraorðum EES-samningsins. Þá hafi reglan verið útfærð í 2. mgr. 2. gr. OSPAR-samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins. Reglan komi fyrst og fremst til skoðunar þegar óvissa sé til staðar eða þekkingarskortur um afleiðingar ákvarðana sem áhrif kunni að hafa á náttúruna. Í hinni kærðu ákvörðun felist ekki stefnumörkun sem eigi að gilda um önnur mál sem lúti að endurskoðun matsskýrslu. Stofnuninni beri að meta aðstæður og atvik í hverju máli fyrir sig. Þá sé hún ekki bundin af því sem komi fram í rýniskýrslu einkaaðila og beri skylda til að meta með sjálfstæðum hætti öll gögn og allar upplýsingar sem lagðar séu fram í máli.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 7. nóvember 2014 að endurskoða skuli þá þætti matsskýrslu um 90 MW Bjarnarflagsvirkjun frá desember 2003, er lúta að áhrifum virkjunarinnar á hljóðvist, loftgæði, gróður, landslag, ásýnd og ferðamennsku, grunn- og yfirborðsvatn, niðurrennsli og skjálftavirkni, sem og jarðhitakerfi og orkuforða.

Í 7. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, eins og hún hljóðaði á þeim tíma er slíkt mat á áhrifum Bjarnarflagsvirkjunar fór fram og úrskurður Skipulagsstofnunar var kveðinn upp, sagði að hæfust framkvæmdir ekki innan tíu ára frá úrskurði stofnunarinnar skyldi hún ákvarða hvort mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar færi fram að nýju samkvæmt lögunum. Með breytingalögum nr. 74/2005 var áðurnefndum lögum breytt, m.a. hvað varðar nefnt ákvæði. Einnig var ákvæði II til bráðabirgða breytt og er nú kveðið á um það í 2. mgr. þess að í þeim tilvikum þegar matsferli framkvæmdar, sem undir lögin falli, hafi verið lokið samkvæmt eldri lögum, en ekki hafi verið veitt öll leyfi vegna hennar, skuli við leyfisveitingu fara samkvæmt þeim lögum. Ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu er ekki hluti af leyfisveitingu þótt hún geti verið hluti af undirbúningi hennar. Verður því við það að miða að lagaskil hafi orðið með þeim hætti að með málið hafi átt að fara samkvæmt lögum nr. 106/2000, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 74/2005.

Nú er fjallað um endurskoðun matsskýrslu í 12. gr. laga nr. 106/2000. Kemur þar fram í 1. mgr. að ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir skuli viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðun stofnunarinnar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu kæranda áður en leyfi til framkvæmda er veitt. Samkvæmt 2. mgr. getur stofnunin ákveðið að slík endurskoðun fari fram „ef forsendur hafa breyst verulega frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina“. 

Í inngangi ákvörðunar sinnar rekur Skipulagsstofnun efni tilvitnaðrar 12. gr. og tekur fram að þetta sé í fyrsta sinn sem fram fari málsmeðferð á grundvelli þessarar lagagreinar. Tekur stofnunin jafnframt fram að af þeim sökum hafi málsmeðferð orðið tímafrekari en vænta megi framvegis, enda hafi umfjöllun um málið falið í sér ákvarðanir um útfærslu málsmeðferðar. Um málsmeðferð er enn fremur tekið fram að í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi stofnunin leitað nánar tilgreindra umsagna og að þær ásamt athugasemdum hafi verið sendar kæranda, sem brugðist hafi við þeim. Auk þess hafi Skipulagsstofnun óskað frekari gagna frá kæranda, sem borist hefðu haustið 2014, en hin kærða ákvörðun lá fyrir 7. nóvember s.á.

Við undirbúning og töku ákvörðunar hvílir á Skipulagsstofnun, líkt og á stjórnvöldum almennt, sú almenna skylda að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga, sem og meginreglum stjórnsýsluréttar, þar sem ákvæðum laga sleppir. Af fyrrgreindri lýsingu stofnunarinnar, sem studd er gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni, má ráða að í meginatriðum hafi meðferð málsins tekið mið af nefndum lögum og reglum. Stofnunin leitaði umsagna í samræmi við rannsóknarregluna, veitti kæranda tækifæri til andmæla vegna þeirrar gagnaöflunar og gaf honum kost á að koma að frekari gögnum og skýringum. Enn fremur gerði stofnunin grein fyrir því að málsmeðferð sú sem fram hefði farið hefði að einhverju leyti verið á kostnað málshraða.

Lagagrundvöllur ákvörðunar Skipulagsstofnunar liggur fyrir í 12. gr. laga nr. 106/2000, sem áður er lýst, og var vísað til lagagreinarinnar í hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi, dags. 30. október 2013, óskaði kærandi eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um þörf á endurskoðun matsskýrslu sinnar á grundvelli nefndrar lagagreinar og með bréfi, dags. 20. desember s.á., óskaði Skipulagsstofnun eftir því að kærandi hlutaðist til um að einn eða fleiri leyfisveitandi óskaði eftir slíkri ákvörðun stofnunarinnar í samræmi við lagaákvæðið. Jafnframt kom fram að þegar umbeðin gögn hefðu borist stofnuninni myndi hún hefja málsmeðferð á grundvelli lagagreinarinnar, en að ákvörðun myndi fyrst geta legið fyrir þegar tíu ár væru liðin frá úrskurði stofnunarinnar. Beiðni Skútustaðahrepps barst með bréfi, dags. 18. febrúar 2014, og niðurstaða í málinu lá fyrir 7. nóvember s.á. Að áliti úrskurðarnefndarinnar átti hin kærða ákvörðun sér því stoð í lögum og var Skipulagsstofnun rétt að hlutast til um að réttur aðili óskaði eftir að tekin yrði ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu kæranda. Verður og ekki séð að óhóflegar tafir hafi orðið á meðferð málsins. Mál sem þessi eru viðamikil og fylgir þeim jafnan töluvert magn gagna. Tekur það því sinn tíma að afla umsagna og veita andmælarétt. Þá hvíldi ekki sérstök skylda á Skipulagsstofnun að kynna kæranda fyrirhugað efni ákvörðunar sinnar, enda hafði hann komið að sínum sjónarmiðum og gögnum.

Hvað rannsókn málsins varðar hefur kærandi m.a. mótmælt því að skilyrði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 hafi verið til staðar, enda hafi forsendur ekki breyst að neinu marki. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að niðurstaða Skipulagsstofnunar um ákveðin atriði hafi gengið í berhögg við umsagnir tiltekinna umsagnaraðila, s.s. Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar. Úrskurðarnefndin leggur áherslu á að Skipulagsstofnun er ekki bundin af umsögnum sem aflað er sem hluta af rannsókn máls heldur leggur stofnunin sjálfstætt mat á það hvort endurskoða skuli matsskýrslu kæranda, sbr. 12. gr. laganna. Í því felst að hún leggur jafnframt mat á efnislegt innhald og vægi þeirra umsagna sem leitað er eftir.

Í bréfi kæranda til Skipulagsstofnunar, dags. 18. febrúar 2014, voru dregin fram atriði sem lutu að breyttum áformum um framkvæmd frá því sem tilgreint var í matsskýrslu. Sagði þar m.a: „Megin breytingar á fyrirhugaðri framkvæmd snúa að áfangaskiptri uppbyggingu þar sem ekki verður ráðist í 2. áfanga fyrr en fyrir liggur reynsla af rekstri 1. áfanga. Landsvirkjun hefur ákveðið að byggja virkjun upp í tveimur aðskildum 45 MW áföngum. Miðað er við að uppbygging verði með varfærnum hætti þar sem nokkurra ára reynsla af rekstri fyrri áfanga virkjunar verði nýtt til að meta hugsanleg áhrif á umhverfið og jarðhitakerfið áður en ákvörðun um uppbyggingu seinni áfanga er tekin.“ Í matsskýrslu kæranda segir í kafla 1 um framkvæmdaáform að ráðgert sé að reisa 90 MW jarðvarmavirkjun, Bjarnarflagsvirkjun, og sé fyrirhugað að reisa hana í tveimur til þremur áföngum. Ákvörðun um hvern áfanga ráðist einkum af þörfum markaðarins. Af þessu orðalagi verður ekki annað ráðið en að áform kæranda séu enn þau að reisa 90 MW virkjun þó að í stað þess að uppbygging fari fram í tveimur til þremur áföngum eftir þörfum markaðarins verði hún í tveimur aðskildum áföngum, að teknu tilliti til umhverfisáhrifa.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum laganna og eiga þau m.a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Jafnframt er það markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Að teknu tilliti til þess að til stóð að taka ákvörðun um endurskoðun á matsskýrslu 90 MW virkjunar og að framkvæmdaáform höfðu ekki breyst hvað það atriði varðaði verður að telja að Skipulagsstofnun hafi almennt séð verið rétt að leggja til grundvallar við meðferð málsins að um 90 MW virkjun yrði að ræða, enda hefði greindum tilgangi laga nr. 106/2000 vart verið náð öðrum kosti.

Í matsskýrslu vegna Bjarnarflagsvirkjunar og Bjarnarflagslínu 1 frá 2003 var tilgreint að þeir umhverfisþættir sem yrðu fyrir áhrifum vegna mannvirkjagerðar á framkvæmdatíma væru gróður, hljóðvist, fornleifar og samfélag. Umfjöllun um umhverfisáhrif á rekstrartíma tæki til jarðhita og orkuforða, dýralífs, vatnafars, lofts, hljóðvistar, ásýndar og samfélags, þ. á m. útivistar og ferðamála. Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 26. febrúar 2004 tók til áhrifa á jarðhitakerfi og orkuforða, grunn- og yfirborðsvatn, landslag og jarðmyndanir, gróður, fugla, smádýr og lífríki hvera, sem og menningarminjar. Úrskurðurinn tók einnig til áhrifa á menn og samfélag og þar undir var fjallað um sjónræn áhrif, útivist og ferðamennsku, um hljóðmengun, sem og um loftmengun. Þá var fjallað um hættur og náttúruvá í úrskurðinum.

Svo sem áður greinir laut ákvörðun Skipulagsstofnunar að því að endurskoða skyldi matsskýrslu kæranda að því er varðaði sjö nánar tilgreinda þætti, þ.e. áhrif Bjarnarflagsvirkjunar á loftgæði, jarðhitakerfi og orkuforða, grunn- og yfirborðsvatn, niðurrennsli og skjálftavirkni, gróður, hljóðvist, sem og á landslag, ásýnd og ferðamennsku. Verður nú fjallað um niðurstöðu stofnunarinnar varðandi hvern þessara þátta, m.a. að teknu tilliti til þeirra laga og reglna sem áður hefur verið fjallað um.

Áhrif á loftgæði
Í úrskurði sínum árið 2004 taldi Skipulagsstofnun að aukin losun koldíoxíðs (CO2), metans (CH4) og brennisteinsvetnis (H2S) væri ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á loftgæði á svæðinu en búast mætti við að brennisteinslykt myndi finnast á stærra svæði en áður.

Í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum Kröfluvirkjunar II, allt að 150 MW jarðhitavirkjun í Skútustaðahreppi, fjallar Skipulagsstofnun í niðurstöðu sinni um áhrif á loftgæði. Segir þar: „Fyrir liggur að styrkur brennisteinsvetnis fer yfir heilsuverndarmörk reglugerðar í þéttbýlinu í Reykjahlíð, verði ekki ráðist í hreinsun útblásturs úr fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun sem er sú virkjun sem yrði staðsett næst þéttbýlinu. Um er að ræða dæmi um sammögnuð eða samlegðaráhrif vegna útblásturs brennisteinsvetnis frá Kröfluvirkjun II og núverandi Kröfluvirkjun, ásamt útblæstri frá Bjarnarflagsvirkjun og Þeistareykjavirkjun.“ Einnig telji stofnunin „að setja verði það sem skilyrði, við leyfisveitingar að tryggt verði að fyrirhugaður hreinsibúnaður útblásturs frá Bjarnarflagsvirkjun verði til staðar“ og loks að ljóst sé „að Landsvirkjun þarf að tryggja að styrkur H2S í þéttbýlinu verði ávallt innan heilsuverndarmarka“.

Í ákvörðun sinni um endurskoðun þessa þáttar vísar stofnunin til aukinnar þekkingar á áhrifum brennisteinsvetnis, til reglugerðar nr. 514/2010 um styrk þess í andrúmslofti og til þess að vandkvæði hafi verið á að mæta kröfum reglugerðarinnar til jarðvarmavirkjana. Unnið sé að þróun tæknilegra lausna. Í rýniskýrslu sé ályktað að án mótvægisaðgerða muni kröfum reglugerðarinnar ekki verða fullnægt fyrir 45 MW virkjun í Bjarnarflagi og telji Skipulagsstofnun erfitt að fullyrða út frá gögnum málsins, og að fengnum frekari athugasemdum kæranda, að útblástur brennisteinsvetnis verði mun minni en áður hafi verið gert ráð fyrir. Landnotkun nærri framkvæmdasvæðinu hafi breyst, rekstri Kísiliðjunnar hafi verið hætt, byggð hafi verið upp fjölsótt aðstaða Jarðbaðanna og fjöldi ferðamanna á svæðinu margfaldast. Þetta séu breyttar forsendur frá fyrra mati 2003-2004.

Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt því sem áður hefur verið rakið var samlegð áhrifa Bjarnarflagsvirkjunar með Kröfluvirkjunum þegar könnuð í mati á umhverfisáhrifum Kröfluvirkjunar II. Þá hefur þjónusta Jarðbaðanna verið byggð upp samkvæmt deiliskipulagi, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 31. mars 2003, og því vart um breytta landnotkun að ræða hvað það varðar. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að kærandi hyggst byggja 90 MW virkjun, sem nú gilda um ákvæði reglugerðar sem ekki var til staðar við mat á umhverfisáhrifum. Af gögnum málsins verður ráðið að mótvægisaðgerðir þurfi við rekstur virkjunarinnar til að umhverfismörkum reglugerðarinnar verið fullnægt, en þær mótvægisaðgerðir voru ekki að fullu ljósar við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Niðurstaða stofnunarinnar var að endurskoða þyrfti matsskýrslu virkjunarinnar varðandi áhrif brennisteinsvetnis í útblæstri á loftgæði. Í ljósi þeirrar skyldu leyfisveitanda að taka upplýsta ákvörðun um leyfisveitingu á grundvelli mats á umhverfisáhrifum verður að telja að mat Skipulagsstofnunar, þess efnis að um verulega breyttar forsendur væri að ræða frá úrskurði sínum 2004 hvað varðaði mat á áhrifum framkvæmdarinnar á loftgæði, hafi verið málefnalegt og til þess fallið að ná því markmiði að upplýsa leyfisveitendur um umhverfisáhrif framkvæmdar. Verður því fallist á niðurstöðu Skipulagsstofnunar hvað þennan þátt varðar. Það yrði svo Umhverfisstofnunar að setja skilyrði við veitingu starfsleyfis til að draga úr þeim umhverfisáhrifum, en eins og áður segir ríkti ákveðin óvissa um það hvernig best væri að því staðið.

Áhrif á jarðhitakerfi og orkuforða
Í því mati á umhverfisáhrifum sem fram fór vegna Bjarnarflagsvirkjunar var m.a. fjallað um áhrif virkjunarinnar á jarðhitakerfi og orkuforða og taldi Skipulagsstofnun í ljósi framlagðra gagna að fyrirhuguð 90 MW virkjun kæmi ekki til með að hafa veruleg og óafturkræf áhrif á jarðhitakerfið í Bjarnarflagi, en einnig að mikilvægt væri að vinnslan yrði ekki ágeng. Taldi stofnunin að fyrir lægi veruleg þekking á afkastagetu svæðisins en hins vegar ríkti nokkur óvissa um áhrif svo umfangsmikillar vinnslu á jarðhitakerfið vegna skorts á þekkingu og reynslu á langtímarekstri stórra jarðhitavirkjana. Væri því að erfitt að leggja mat á hver yrðu raunveruleg áhrif á nýtingu jarðhitakerfisins og um leið jarðhitans sem auðlindar.

Rýniskýrsla kæranda tók ekki til þessa atriðis og óskaði Skipulagsstofnun eftir nánari upplýsingum um þennan þátt. Í svari kæranda var greint frá því að frá úrskurði stofnunarinnar hafi hann borað þrjár nýjar holur og stundað rannsóknir sem enn hafi aukið þekkingu á jarðhitakerfinu í Námafjalli. Þá hafi ÍSOR unnið tvær skýrslur um endurgerð reiknilíkans af jarðhitakerfinu. Útdrættir skýrslnanna voru teknir upp í bréfið og var vísað til þess í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um að endurskoða þurfi matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar með tilliti til áhrifa á jarðhitaauðlindina. Var sú forsenda Skipulagsstofnunar fyrir þeirri niðurstöðu tilgreind að í sérfræðiskýrslu ÍSOR frá árinu 2013 kæmi fram að hermireikningar gæfu til kynna að niðurstöður um sjálfbærni 90 MW vinnslu væru ekki afgerandi. Vísaði stofnunin til úrskurðar síns um mikilvægi þess að vinnslan yrði ekki ágeng og til þess að horfa þyrfti til nýrrar skilgreiningar um sjálfbæra vinnslu og nýtingu jarðhita. Tók stofnunin jafnframt fram að ljóst væri að mat á áhrifum virkjunarinnar á jarðhitaauðlindina yrði alltaf háð ákveðinni óvissu.

Úrskurðarnefndin telur einsýnt af því sem rakið hefur verið að ákveðin óvissa hafi ríkt um áhrif Bjarnarflagsvirkjunar á jarðhitakerfi og orkuforða þegar mat á umhverfisáhrifum hennar fór fram. Einnig að óvissa hafi enn verið til staðar við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Stendur þá eftir hvort að fyrir hendi voru verulega breyttar forsendur í skilningi 12. gr. laga nr. 106/2000 sem réttlættu það mat Skipulagsstofnunar að endurskoða þyrfti matsskýrslu með tilliti til þessara áhrifa. Það að óvissa sé enn til staðar leiðir eitt og sér ekki til þeirrar niðurstöðu að áliti úrskurðarnefndarinnar. Þá er vandséð að breytt skilgreining um sjálfbæra vinnslu og nýtingu jarðhita hafi falið í sér verulega breyttar forsendur frá því sem áður var. Í því sambandi er rétt að benda á að í álitsgerð faghóps um sjálfbæra nýtingu jarðhita, sem vísað er til í hinni kærðu ákvörðun um breytta skilgreiningu, er tekið fram að sérfræðingahópur á vegum Orkustofnunar hafi árið 2001 lagt til skilgreiningu á hugtakinu sjálfbær vinnsla jarðhita á einu jarðhitasvæði. Jafnframt að faghópurinn hafi ákveðið að styðjast við þá skilgreiningu, með þeirri breytingu þó að lagt sé til að í stað þess að miða við 100-300 ár, eins og sérfræðingahópurinn hafi lagt til árið 2001, þá sé miðað við að lágmarki 100 ár vegna þeirrar miklu óvissu sem á allan hátt fylgi langtímaspám. Að teknu tilliti til framangreinds var tilefni til nánari athugunar af hálfu Skipulagsstofnunar um þetta atriði, t.a.m. með því að leita umsagnar Orkustofnunar um þær upplýsingar sem kærandi lagði fram, en Orkustofnun, rétt eins og ÍSOR, býr yfir viðamikilli sérfræðiþekkingu um sjálfbæra vinnslu og nýtingu jarðhita. Verður að telja að án frekari rannsóknar hafi ekki verið fyrir hendi lagaskilyrði fyrir þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar að endurskoða þurfi matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar með tilliti til áhrifa á jarðhitaauðlindina. 

Áhrif á grunn- og yfirborðsvatn
Í matsskýrslu kæranda frá 2003 er tekið fram að til að losna við skiljuvatn frá Bjarnarflagsvirkjun hafi verið litið til þriggja kosta, yfirborðs-, grunn- og djúplosunar. Er fjallað um þá kosti og komist að þeirri niðurstöðu að þar sem reynsla af yfirborðslosun sé góð og ekkert bendi til að hún hafi óæskileg áhrif á umhverfið sé gert ráð fyrir að nota hana áfram. Ef aðstæður skapist sem krefjist niðurdælingar yrði fyrsti kostur að notast við grunnlosun, en djúplosun væri talin sísti kosturinn vegna mikils kostnaðar og óvissu um árangur.

Í úrskurði Skipulagsstofnunar var komist að þeirri niðurstöðu að ekki yrðu veruleg og óafturkræf áhrif á grunnvatn við losun affallsvatns á yfirborði. Eigi að síður taldi stofnunin mikilvægt að gera ráð fyrir djúplosun og hefja undirbúning hennar um leið og rekstur virkjunarinnar, en einnig kæmi til greina að losa affallsvatn með grunnlosun yrði þess talin þörf.

Í rýniskýrslu kæranda er greint frá því að samkvæmt samþykktu deiliskipulagi virkjunarinnar frá 2011 séu gerðar kröfur um að farga affallsvatni með grunnlosun og/eða djúplosun, en á yfirborði aðeins í neyðartilfellum. Reikni kærandi með grunnlosun til að byrja með og á síðari stigum verði farið í djúplosun affallsvatnsins niður í jarðhitakerfið ef með þurfi.

Við mat á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar var þannig fyrst og fremst gert ráð fyrir losun affallsvatns á yfirborði frá virkjuninni, en ekki niðurdælingu nema þær aðstæður kæmu upp. Umfjöllun um niðurdælingu í matinu og möguleg áhrif hennar var því takmörkuð. Umsagnaraðilar, sem og kærandi sjálfur, lögðu á það áherslu við Skipulagsstofnun að vatnsrennsli til Mývatns myndi ekki raskast. Umsagnaraðilum bar þó ekki saman um hvort mat þyrfti að fara fram að nýju eða ekki. Veðurstofa Íslands benti á frekari rannsóknir sem fram gætu farið, Rannsóknarstöðin við Mývatn taldi að endurskoða bæri matsskýrsluna en Umhverfisstofnun taldi ólíklegt að slík endurskoðun myndi leiða til nýrra upplýsinga um vatnsrennsli til Mývatns og áhrif 45 MW virkjunar á vatnið, en taldi vera óvissu um áhrif 90 MW virkjunar. Benti kærandi á að ýmsum spurningum yrði ekki svarað af árangri niðurdælingar fyrr en reynsla væri fengin af 45 MW virkjun og væri það einnig skilningur Umhverfisstofnunar.

Mývatn og Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu hafa verið vernduð með lögum frá árinu 1974. Ný lög sama efnis, nr. 97/2004, voru samþykkt af Alþingi í maí 2004 og tóku þau gildi 1. október s.á., en mati á umhverfisáhrifum var lokið með úrskurði Skipulagsstofnunar í febrúar það ár. Í nýrri lögunum var lögfest nýmæli í 4. gr. þeirra sem kveður á um verndun vatnasviðs Mývatns og Laxár, en Bjarnarflag er þar innan. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 97/2004 er tekið fram um nýmæli þetta að vatnasvið Mývatns og Laxár sé geysistórt og ljóst að rask innan þess geti haft bein áhrif á lífríki vatnsins og árinnar. Þá er áréttað í athugasemdum með nefndu ákvæði að það eigi að koma í veg fyrir að spjöll verði unnin innan vatnasviðs Mývatns og Laxár og sé þar sérstaklega litið til rennslis grunnvatns, en grunnvatnsrennsli sé afar þýðingarmikill þáttur í vatnabúskap Mývatns.

Af hálfu kæranda hefur verið bent á að við gerð matsskýrslu hafi verið litið til nýrri laga, sem fyrirhuguð höfðu verið um nokkuð skeið. Það verður þó ekki hjá því litið að lögin tóku fyrst gildi eftir að mat á umhverfisáhrifum hafði farið fram auk þess sem ljóst er að tilhögun framkvæmdarinnar var nokkuð breytt við töku hinnar kærðu ákvörðunar frá því sem áður var. Er sú tilhögun bundin í skipulag. Má leiða að því líkur að neikvæð umhverfisáhrif minnki frekar en hitt við þá breytingu, en forsendur eru engu að síður breyttar. Er enda tiltekið sérstaklega í athugasemdum með ákvæði því sem varð að 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 að eitt dæmi um verulega breyttar forsendur sé að tækniþróun hafi breytt möguleikum til að minnka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdar. Að framangreindu virtu voru skilyrði nefnds lagaákvæðis uppfyllt og kröfu kæranda um ógildingu vegna þessa þáttar því hafnað.

Niðurrennsli og skjálftavirkni
Svo sem áður er greint frá eru nú gerðar þær kröfur samkvæmt skipulagi að affallsvatni verði fargað með grunnlosun og/eða djúplosun, en í undantekningartilvikum á yfirborði. Í mati á umhverfisáhrifum var hins vegar gert ráð fyrir yfirborðslosun affallsvatns að meginstefnu til samhliða rannsóknum á áhrifum djúplosunar. Í matsskýrslu er greint frá því að djúplosun krefjist ítarlegra rannsókna til að forðast dýrkeypt mistök, en ekki er vikið að möguleika á skjálftavirkni. Var ekki heldur fjallað um þann möguleika í úrskurði Skipulagsstofnunar eða sett skilyrði fyrir framkvæmdinni hvað það varðaði.

Leyfisveitendur taka ákvörðun um leyfisveitingu á grundvelli mats á umhverfisáhrifum sem þjónar þeim tilgangi að upplýst sé hver áhrif leyfðrar framkvæmdar séu, sbr. markmið 1. gr. laga nr. 106/2000, sem áður eru rakin. Orkustofnun er leyfisveitandi jarðvarmavirkjana á landsvísu og hefur stofnunin þróað verklagsreglur sem gilda um djúplosun jarðhitavökva í jarðhitakerfi. Einnig koma til framkvæmdaleyfi sveitarfélaga. Þar sem áhrif skjálftavirkni eru að mestu staðbundin þurfa sveitarstjórnir því að gera sér grein fyrir þeim áhrifum. Markmið laganna er einnig að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar og getur Skipulagsstofnun í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum sett fyrir henni frekari skilyrði eða mælt fyrir um aðrar og frekari mótvægisaðgerðir en fram koma í matsskýrslu, sbr. 2. mgr. 11. gr. nefndra laga.

Almennt séð getur skortur á grunnþekkingu ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að mat á umhverfisáhrifum fari ekki fram, enda væri það í andstöðu við grunnhugsunina að baki varúðarreglunni. Að sama skapi verður að telja að aukin þekking, rétt eins og tækniþróun, geti talist breytt forsenda. Á liðnum árum hefur þekking aukist mjög um tengsl niðurdælinga jarðvarmavirkjana og jarðskjálftavirkni. Þá liggur fyrir að tilhögun framkvæmdar er í nokkru breytt í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í skipulagi. Að teknu tilliti til framangreinds og atvika þessa máls verður að telja forsendur breyttar í svo verulegum mæli að Skipulagsstofnun hafi verið rétt að mæla fyrir um endurskoðun matsskýrslu kæranda með tilliti til hættu fyrir menn og samfélag af skjálftavirkni vegna niðurrennslis affallsvatns, enda yrði tilgangi laga nr. 106/2000 vart náð ella. Verður kröfu kæranda um ógildingu vegna þessa þáttar því hafnað. 

Áhrif á gróður
Af gögnum málsins er ljóst að mat á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar tók eingöngu til áhrifa á gróður á framkvæmdatíma við virkjunina, en ekki á rekstrartíma hennar. Var enda ekki talið að um slík áhrif yrði að ræða. Síðan matið fór fram hafa hins vegar komið fram gróðurskemmdir í kringum aðrar jarðvarmavirkjanir á landinu af völdum efna í útblæstri. Var því byggt á ónógri vísindalegri þekkingu við matið. Svo sem áður er vikið að er úrskurðarnefndin þeirrar skoðunar að þekkingaraukning geti talist verulega breytt forsenda skv. 12. gr. laga nr. 106/2000. Miðað við atvik málsins var Skipulagsstofnun þegar af þeirri ástæðu rétt að mæla fyrir um endurskoðun matsins að þessu leyti og verður ógildingarkröfu kæranda hafnað hvað þennan þátt varðar.

Áhrif á hljóðvist
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi orðið breytingar á reglugerðarviðmiðum um hávaða. Hins vegar telji Skipulagsstofnun að líta verði á þá miklu fjölgun ferðamanna sem heimsæki Mývatnssveit og nærsvæði virkjunarinnar, svo sem Jarðböðin og Námaskarð, og áforma um áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu í sveitarfélaginu sem breyttar forsendur. Þurfi því að endurskoða matsskýrslu kæranda varðandi áhrif á hljóðvist.

Stofnunin tiltekur að Jarðböðin hafi byrjað starfsemi í júní 2004 og að áhrif á viðskiptavini og starfsfólk þeirra hafi ekki verið viðfangsefni þegar mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Hafi tilkoma baðanna haft í för með sér mikla aukningu ferðamanna á svæði sem ekki hafi verið fjölsótt áður. Í þessu sambandi er rétt að benda á það sem áður hefur fram komið, þ.e. að þjónusta Jarðbaðanna var byggð upp samkvæmt deiliskipulagi sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 31. mars 2003. Lágu þau áform fyrir þegar mat á umhverfisáhrifum fór fram þó að fjöldi ferðamanna sé vissulega meiri en gert var ráð fyrir á þeim árum. Landnotkun hefur því ekki breyst, viðmið um hávaða eru þau sömu og ekki er fyrirséð að meiri hávaði muni berast frá framkvæmdum eða rekstri virkjunarinnar þó að fleiri verði e.t.v. fyrir áhrifum hans. Var því ekki grundvöllur fyrir þeirri ályktun Skipulagsstofnunar að um breyttar forsendur væri að ræða að þessu leyti. Þá leiðir ekki sérhver breyting á forsendu til þess að mat verði að endurtaka heldur þarf slík breyting að teljast veruleg. Að þessu virtu verður fallist á ógildingarkröfu kæranda vegna þessa þáttar.

Ásýnd, ferðamennska, landslag og jarðmyndanir
Í niðurstöðu úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 2004 er m.a. fjallað um landslag og jarðmyndanir í einum kafla og í öðrum um sjónræn áhrif, útivist og ferðamennsku. Byggist umfjöllunin á matsskýrslu kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun er fjallað sameiginlega um ásýnd, ferðamennsku, landslag og jarðmyndanir og komist að þeirri niðurstöðu að endurskoða þurfi matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar með tilliti til áhrifa á þessi atriði. Skipulagsstofnun leggur þar áherslu á þá fjölgun ferðamanna sem hefur átt sér stað, upplifun þeirra af svæðinu, þ. á m. ásýnd þess og landslagi, einkum jarðmyndunum. Er niðurstaða stofnunarinnar þannig byggð á samspili þessara þátta og mælt fyrir um endurskoðun matsskýrslu hvað þá alla varðar.

Í niðurstöðu úrskurðar Skipulagsstofnunar var tekið fram að framkvæmdasvæðið bæri þegar ýmis merki rasks og mannvirkja, s.s. vegna mannvirkja Kísiliðjunnar og núverandi Bjarnarflagsvirkjunar, og því væri ásýnd þess ekki ósnortin. Engu að síður taldi Skipulagsstofnun að ekki yrði komist hjá því að töluverðar ásýndarbreytingar yrðu á svæðinu til viðbótar þeim sem orðnar væru og myndu þær hafa áhrif á upplifun ferðafólks sem leið ætti um svæðið. Af orðalagi þessu er ljóst að tilvist Kísiliðjunnar hafði ekki úrslitaáhrif um mat stofnunarinnar varðandi ásýnd svæðisins og að tillit var tekið til ferðamennsku þar.

Þess sér ekki stað í gögnum málsins að framkvæmdin Bjarnarflagsvirkjun hafi breyst þannig að hún hafi önnur áhrif á ásýnd, landslag eða jarðmyndanir á svæðinu frá því að mat á umhverfisáhrifum fór fram. Aðstæður eru sambærilegar að öðru leyti en því að rekstri Kísiliðjunnar hefur verið hætt og ferðamönnum hefur fjölgað. Þannig var ekki til að dreifa verulega breyttum forsendum hvað varðaði ásýnd, landslag og jarðmyndanir og því ekki stoð fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að endurskoða skyldi mat á áhrifum á þá þætti. Ber því að fallast á með kæranda að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé haldin ógildingarannmarka vegna þessara þátta.

Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að óumdeilt er að fjölgun ferðamanna hefur verið miklum mun meiri en fyrirséð var. Að áliti úrskurðarnefndarinnar getur breyting á slíkum ytri aðstæðum talist verulega breytt forsenda í skilningi 12. gr. laga nr. 106/2000. Er þar enda ekki talið með tæmandi hætti hvaða forsendur geti komið til álita sem verulega breyttar. Verður að álykta að um slíka forsendu sé að ræða hér að teknu tilliti til margnefndra markmiða 1. gr. laganna. Með tilliti til þessa verður hafnað ógildingarkröfu kæranda vegna þess þáttar er lýtur að ferðamennsku.

——-

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun haldin ógildingarannmörkum hvað varðar nokkra þætti hennar. Þykir það þó ekki eiga að leiða til ógildingar hennar í heild sinni heldur verður hún, að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, eingöngu felld úr gildi að þeim hluta er annmarkarnir taka til. Er því felld úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að endurskoða þurfi matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar að því er varðar áhrif á jarðhitakerfi og orkuforða, hljóðvist, ásýnd, landslag og jarðmyndanir. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 7. nóvember 2014 um að endurskoða skuli matsskýrslu fyrir Bjarnarflagsvirkjun, 90 MW jarðvarmavirkjun í Skútustaðahreppi, að því er varðar áhrif á jarðhitakerfi og orkuforða, hljóðvist, ásýnd, landslag og jarðmyndanir.

Hafnað er kröfum kæranda um ógildingu sömu ákvörðunar varðandi loftgæði, grunn- og yfirborðsvatn, niðurrennsli og skjálftavirkni, gróður og ferðamennsku.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

______________________________              _____________________________
Þorsteinn Sæmundsson                                        Þorsteinn Þorsteinsson

93/2015 Kiðjaberg

Með
Árið 2017, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2015, kæra á samþykkt Grímsnes- og Grafningshrepps á breyttu deiliskipulagi Kiðjabergs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. september s.á. að samþykkja breytt deiliskipulag Kiðjabergs í nefndum hreppi. Tók sú ákvörðun gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. september s.á. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Grímsnes- og Grafningshreppi 15. desember 2015.

Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 2. júlí 2014 var tekin fyrir afgreiðsla á tillögu skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita BS frá 30. júní s.á. að endurskoða gildandi deiliskipulagi Kiðjabergs frá árinu 1990. Var sú afgreiðsla staðfest og samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna til kynningar með vísan til 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var tillagan auglýst 21. ágúst 2014 með athugasemdafresti til 3. október s.á. og bárust athugasemdir frá kæranda á kynningartíma.

Að kynningu lokinni tók sveitastjórn tillöguna fyrir að nýju á fundi sínum 6. maí 2015 og samþykkti hana samhljóða með eftirfarandi bókun: „Lögð fram að nýju að lokinni auglýsingu tillaga að endurskoðun deiliskipulags fyrir jörðina Kiðjaberg í Grímsnes- og Grafningshreppi. Tillagan var auglýst 21. ágúst 2014 með athugasemdafresti til 3.október. Tvö athugasemdabréf bárust á kynningartíma auk þess sem fyrir liggja nýjar umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Minjastofnun Íslands. Deiliskipulagsgögnin er lögð fram með minniháttar breytingum varðandi neysluvatn og fráveitu til að koma til móts við ábendingar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Þá liggja fyrir drög að umsögn um inn komnar athugasemdir. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða ofangreinda tillögu að deiliskipulagi með breytingum sem gerðar hafa verið í tengslum við ábendingar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og einnig með breytingu á byggingarreit lóðar nr. 78 sbr. samþykkt sveitarstjórnar frá 4. mars 2015. Ekki er gerð athugasemd við drög að umsögn um athugasemd og er skipulagsfulltrúa falið að klára hana í samvinnu við lögfræðing sveitarfélagsins.“

Með bréfi, dags. 26. júní 2015, var skipulagstillagan send Skipulagsstofnun til yfirferðar lögum samkvæmt. Tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 4. ágúst s.á., að hún gerði athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda þar sem skilmálum og framsetningu gagna væri ábótavant í nokkrum atriðum. Sveitastjórn tók deiliskipulagið fyrir á fundi sínum 2. september 2015 og samþykkti það að nýju með nokkrum breytingum sem ætlað var að koma til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun gerði kunnugt með bréfi, dags. 10. september, s.á. að ekki væru lengur gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að samráði og kynningu við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt með tilliti til 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Hvorki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila á skipulagssvæðinu né verið leitað eftir sjónarmiðum þeirra. Skipulagslýsing hafi ekki verið unnin vegna deiliskipulagsins svo sem mælt sé fyrir um í 1. og 2. mgr. 40. gr. laganna og tillagan hafi ekki verið kynnt með þeim hætti sem 4. mgr. 40. gr. þeirra gerir ráð fyrir. Meginforsendur skipulagsins hafi ekki legið fyrir í aðalskipulagi og því eigi undanþáguheimild vegna slíkrar kynningar ekki við. Þá telur kærandi að borið hefði að auglýsa skipulagstillöguna að nýju eftir að breytingar hafi verið gerðar á henni vegna athugasemda Skipulagsstofnunar. Auk þess hefði átt að gera húsakönnun, sbr. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Svör vegna athugasemda kæranda sem borist hafi með bréfi, dags. 26. júní 2015, hafi verið ófullnægjandi. Mörgum athugasemdum sé ekki svarað og snúið út úr öðrum. Lóð kæranda og byggingarreitur á henni hafi ekki verið stækkuð nægilega mikið samanborið við aðrar lóðir á svæðinu og með því sé farið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Skipti þar engu vilji eigenda landsins, enda sé skipulagsvaldið hjá sveitarfélaginu.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að á svæðinu sé í gildi aðalskipulag frá árinu 2010 þar sem gerðar hafi verið verulegar breytingar á stefnuákvæðum um frístundabyggðir. Í tengslum við gerð aðalskipulagsins hafi verið unnið umhverfismat þar sem niðurstaðan hafi orðið sú að breytt stefna og stækkun einstakra svæða hefði ekki veruleg umhverfisáhrif í för með sér. Þá væri tiltekið í greinargerð aðalskipulagsins að meðalstærð sumarhúsa færi vaxandi sem þyrfti að mæta með hærra nýtingarhlutfalli eða stærri lóðum. Hið breytta deiliskipulag sé í samræmi við stefnu aðalskipulags.

Umrædd deiliskipulagstillaga hafi verið auglýst og kynnt í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Óþarft hafi verið að taka saman skipulagslýsingu þar sem um breytingu á deiliskipulagi hafi verið að ræða og sama eigi við um framkvæmd húsakönnunar. Þær breytingar sem gerðar hafi verið á deiliskipulagstillögunni að beiðni Skipulagsstofnunar hafi ekki verið svo stórvægilegar að þurft hefði að auglýsa hana að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Þá hafi athugasemdum kæranda verið svarað með fullnægjandi hætti í bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 26. júní 2015.

Stærð lóðar kæranda sé í samræmi við stærð lóða í nágreninu og töluvert yfir viðmiði aðalskipulags um lágmarksstærð lóða. Lóðin hafi verið stækkuð úr 6.762 m2 í 7.561 m2 með deiliskipulagsbreytingunni. Í tilefni af fullyrðingu kæranda um brot á jafnræðisreglu sé vísað í dóm Hæstaréttar í máli nr. 80/2010. Þar hafi sjónarmiðum kæranda, sem hafi verið annar stefnanda í málinu, verið hafnað. Athugasemd kæranda um byggingarreitinn á lóð hans sé vísað á bug, enda hafi verið tekið tillit til athugasemda hans um það atriði áður en endanleg tillaga hafi verið samþykkt.

Loks verði að telja að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar í ljósi þess að hann sé einungis leigutaki á einni lóð á svæði sem taki til þriggja hverfa frístundahúsa. Þá verði ekki séð að gengið sé á grenndarrétt kæranda eða að hagnýtingarmöguleikar hans skerðist með breytingunni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti samþykktar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps á breyttu deiliskipulagi Kiðjabergs. Kærandi er handhafi leigulóðarréttinda á svæði því sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til. Breytingar á stærðum lóða og byggingarreita á svæðinu, sem m.a. taka til leigulóðar kæranda, geta snert hagsmuni hans með þeim hætti að hann telst eiga kæruaðild í máli þessu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Lóð kæranda á umræddu svæði er eftir fyrrgreinda deiliskipulagsbreytingu 7.561 m2 og því töluvert umfram 0,5 hektara lágmarksstærð frístundalóða samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Tilkall kæranda til stærri lóðar ræðst af samningi hans við landeiganda, en hvorki beinum né óbeinum eignarréttindum verður ráðstafað með deiliskipulagi. Samkvæmt skipulagsuppdrætti hins breytta deiliskipulags er stærð byggingarreits á lóð kæranda svipuð byggingarreitum sumra lóða í nágrenninu en heldur minni en á öðrum, en sveitarstjórn samþykkti stækkun byggingarreitsins til samræmis við samþykkt byggingaráform í tilefni af athugasemdum kæranda. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að jafnræðis hafi ekki verið gætt að þessu leyti við meðferð deiliskipulagsbreytingarinnar.

Fram komnar athugasemdir kæranda voru teknar fyrir á fundi sveitarstjórnar að lokinni kynningu deiliskipulagstillögunnar í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru honum send efnisleg svör við þeim athugasemdum jafnhliða því sem skipulagið var sent til Skipulagsstofnunar, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna. Þær breytingar sem gerðar voru á deiliskipulaginu eftir athugasemdir Skipulagsstofnunar snéru einkum að nákvæmari útfærslu tiltekinna atriða í greinargerð skipulagsins en fólu ekki í sér grundvallarbreytingu á efni tillögunnar í skilningi 4. mgr. 41. gr. laganna. Var því ekki þörf á að auglýsa hana til kynningar að nýju.

Í auglýsingu um gildistöku hinnar kærðu skipulagsákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda kemur fram að um endurskoðun á eldra deiliskipulagi Kiðjabergs frá árinu 1990 sé að ræða en það skipulag falli úr gildi við gildistöku hins nýja deiliskipulags. Í gr. 5.8.1 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er tekið fram að við heildarendurskoðun deiliskipulags, sem fellir eldri áætlanir úr gildi, skuli framsetning og málsmeðferð vera sem um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Hið kærða deiliskipulag fól í sér heildarendurskoðun eldra skipulags sem tók til stórs landsvæðis með nokkrum hverfum frístundabyggðar og með því var eldra skipulag fellt að öllu leyti úr gildi. Við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar bar því að fara eins og um nýtt skipulag væri að ræða.

Í 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga er veitt heimild til að víkja frá skyldu til að taka saman lýsingu við upphaf deiliskipulagsgerðar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagi. Í gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð er tekið fram að með meginforsendum sé átt við stefnu um áherslu og uppbyggingu landnotkunarreita, svo sem varðandi nánari notkun á einstökum reitum, þéttleika og byggðamynstur eða umfang auðlindanýtingar. Í greinargerð Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 er á bls. 50-51 ítarleg stefnumörkun um frístundabyggðir þar sem m.a. koma fram viðmið um lágmarksstærð og nýtingarhlutfall einstakra lóða. Stór hluti þess deiliskipulagssvæðis sem um ræðir er skilgreindur sem frístundabyggð í aðalskipulaginu, en nokkur hluti þess er skilgreindur sem opið svæði til annarra nota, þ.m.t. svæði sem í deiliskipulaginu og aðalskipulagi er tiltekið sem golfvöllur. Verður af framansögðu ráðið að allar meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í aðalskipulagi og því hafi sveitarfélaginu verið heimilt að nýta fyrrgreinda undanþáguheimild frá því að gera skuli skipulagslýsingu.

Í 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga er kveðið á um að við gerð deiliskipulags í þegar byggðu hverfi skuli framkvæma húsakönnun til að meta varðveislugildi einstakra húsa og svipmót byggðar. Á umræddu deiliskipulagssvæði var þegar allnokkur byggð frístundarhúsa og annarra bygginga sem hefði borið að leggja mat á með tilliti til varðveislugildis óháð því hvort málsmeðferðin fór eftir reglum um gerð nýs eða breytts deiliskipulags. Ekki verður séð að slíkt mat hafi farið fram og telst það annmarki á málsmeðferð deiliskipulagsins. Uppbygging frístundabyggðarinnar hófst upp úr 1990 og var því elsti hluti hennar yngri en 25 ára þegar deiliskipulagið var samþykkt. Deiliskipulagið gerir ekki ráð fyrir að mannvirki á svæðinu víki og að teknu tilliti til aldurs og eðlis byggðarinnar telst ólíklegt að hún hafi að svo stöddu á sér svipmót sem hafi byggingar- eða menningarsöguleg gildi. Að þessu virtu er nefndur ágalli ekki þess eðlis að hann geti haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. september 2015 um að samþykkja endurskoðað deiliskipulag Kiðjabergs í nefndum hreppi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

9/2016 Kalkþörungaset í Miðfirði

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 3. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. desember 2015 um að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Húnaþing vestra þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. desember 2015 að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 22. febrúar 2016.

Málavextir: Með umsókn, dags. 14. maí 2015, sótti Icecal ehf. um leyfi til Orkustofnunar fyrir hagnýtingu á 1.200 m³ af kalkþörungaseti á ári innan ákveðins svæðis í Miðfirði. Óskað var eftir nýtingarleyfi til 30 ára, eða frá 2015 til 2045. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins skal gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum við veitingu leyfa samkvæmt lögunum.

Framkvæmdin var talin falla í flokk C, samkvæmt lið 2.04 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Liðurinn tekur til efnistöku og/eða haugsetningar á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska minna en 25.000 m² svæði eða efnismagn er minna en 50.000 m³. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki C í 1. viðauka sé hún háð öðrum leyfum en samkvæmt skipulagslögum eða lögum um mannvirki eða háð leyfi Mannvirkjastofnunar.

Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu, með ákvörðun dags. 9. desember 2015, að umrædd framkvæmd væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Kærandi hefur nú kært þá ákvörðun með kæru, dags. 19. janúar 2016, eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst vera sveitarfélag við Húnaflóa þar sem hin fyrirhugaða nýting kalkþörungasets sé fyrirhuguð og að efnisnám úr sjó innan sveitarfélagsins, sem hafi áhrif á og raski svæðinu, varði eðli málsins samkvæmt hagsmuni þess. Kærandi hafi því ríka ástæðu og lögvarða hagsmuni af málinu og að fram fari mat á umhverfisáhrifum á áhrifum framkvæmdanna. Auk þess sé eitt af markmiðum laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafi hagsmuna að gæta eða láti sig málið varða, sbr. 1. gr. laganna.

Samkvæmt 2. viðauka laga nr. 106/2000 hafi Skipulagsstofnun, við ákvörðun sína, borið að taka mið af eðli framkvæmdanna, staðsetningu framkvæmdanna og eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdanna. Þetta hafi ekki verið gert með fullnægjandi hætti.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er því haldið fram að kærandi, sem sé sveitarfélag, eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Almennt hafi verið litið svo á í stjórnsýslurétti að stjórnvald sé ekki aðili máls. Við sérstakar aðstæður geti stjórnvald verið aðili þegar það eigi sambærilegra hagsmuna að gæta og einstaklingur eða fyrirtæki. Skipulagsstofnun fái ekki séð að framangreind rök kæranda geti leitt til þess að sveitarfélagið eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Það sé framkvæmdaraðili sem eigi hina lögvörðu hagsmuni og hann sem ákvörðunin varði. Staðsetning framkvæmdasvæðisins og markmiðsákvæði í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skapi kæranda ekki aðild. Í málinu séu ekki fyrir hendi sérstakar aðstæður, á borð við þær sem nefndar séu að framan, sem réttlæti það að sveitarfélagið eigi aðild.

Stofnunin hafi við ákvörðun sína tekið mið af þeim viðmiðum sem skylt sé að líta til samkvæmt 2. viðauka við lög nr. 106/2000, sem og öðrum viðmiðum.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að samkvæmt bráðabirgðaákvæði í 11. gr. laga nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, séu framkvæmdir þær sem falli í flokk C í 1. viðauka við lögin ekki háðar ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. laganna fyrr en 1. júní 2015. Varðandi aðra starfsemi á svæðinu þá sé þar engin starfsemi, sem framkvæmdaraðila sé kunnugt um, sem ætti að verða fyrir skakkaföllum vegna fyrirhugaðrar efnistöku, en við mat á slíku skuli líta til jafnræðis og meðalhófs.

Niðurstaða: Kæruheimildir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er að finna í ýmsum sérlögum, þ. á m. í 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt lagaákvæðinu sæta ákvarðanir skv. 6. gr. um matsskyldu framkvæmdar, sem tilgreind er í flokki B og flokki C í 1. viðauka við lögin, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Þau lög eru nr. 130/2011 og er fjallað um kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. þeirra. Þar er tekið fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta þó kært nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Kærandi í máli þessu er ekki slík samtök heldur sveitarfélag og er lögfesta kæruheimild honum til handa hvorki að finna í lögum nr. 130/2011 né lögum nr. 106/2000.

Í kæru vísar kærandi til þess að það svæði sem hið umdeilda leyfi til kalkþörungavinnslu taki til sé innan sveitarfélagins. Efnisnám sem þetta hafi áhrif og raski svæðinu og varði því eðli málsins samkvæmt hagsmuni sveitarfélagsins. Kærandi hafi því lögvarða hagsmuni í málinu sem og af því að fram fari mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna.

Samkvæmt meginsjónarmiðum stjórnsýsluréttarins um það hverjir geti átt aðild að stjórnsýslumáli hefur verið litið svo á að sá sem eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta sem beinlínis reyni á við úrlausn máls verði hann yfirleitt talinn eiga aðild að því. Sama máli gegni um lögaðila. Þeim hagsmunum sem sveitarfélagið telur sig eiga af úrlausn málsins er lýst hér að framan. Um almannahagsmuni er að ræða sem hvorki geta talist einstaklegir né sérstakir, enda er sveitarfélagið sjálfstætt stjórnvald, sbr. 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og ber því að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa þess, sbr. 7. gr. laganna. Slík almannahagsmunagæsla skapar kæranda ekki kæruaðild.

Að öllu framangreindu virtu er ljóst að kærandi á ekki aðild að kærumáli þessu og verður kæru hans af þeirri ástæðu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

 

87/2015 Selsund í landi Svínhaga

Með
Árið 2017, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2015, kæra á ákvörðun byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina SH-17 í landi Svínhaga.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2015, er barst nefndinni 9. s.m., kæra eigendur jarðarinnar Selsunds, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina SH-17 í landi Svínhaga. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en að auki var farið fram á að framkvæmdir sem þegar væru hafnar yrðu stöðvaðar. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 3. nóvember 2015.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu í maí og júlí 2017.

Málavextir: Í maí 2014 var auglýst tillaga að deiliskipulagi lóða úr landi Svínhaga, SH-17 og SH-21. Að loknum kynningartíma var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar Rangárþings ytra 7. júlí 2014 og hafði þá borist athugasemd frá landeigendum Selsunds þar sem lýst var ágreiningi um eignarhald á tilteknum landspildum. Samþykkti skipulagsnefnd tillöguna og færði til bókar að hún teldi sig ekki hafa forsendur til að vefengja eignarhald umsækjanda og rétt hans til að deiliskipuleggja land sitt þrátt fyrir framkomnar athugasemdir. Tók deiliskipulagið gildi hinn 14. október s.á. Fól það í sér heimild fyrir allt að 200 m² íbúðarhúsi og þremur gestahúsum á hvorri lóð. Aðkoma að lóðunum yrði af Þingskálavegi nr. 268 og um nýjan aðkomuveg.

Með bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til Rangárþings ytra, dags. 8. maí 2015, veitti ráðuneytið undanþágu frá gr. 5.3.2.14. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um 50 m fjarlægðar-mörk mannvirkja frá vötnum, ám eða sjó vegna byggingar íbúðarhúss á lóðinni SH-17. Í bréfi ráðuneytisins var m.a. vísað til þess að í bréfi sveitarfélagsins til ráðuneytisins, dags. 12. mars 2015, kæmi fram að búið væri að steypa hluta hússins, um 92 m² kjallara/geymslu í 36 m fjarlægð frá Selsundslæk sem ekki væri innan afmarkaðs byggingarreits samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Byggðist niðurstaða ráðuneytisins m.a. á því að bygging hússins væri þegar hafin og að verið væri að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi svæðisins í samræmi við staðsetningu byggingarinnar.

Eigendur jarðarinnar Selsunds komu á framfæri athugasemdum við byggingarfulltrúa Rangárþings ytra með bréfi, dags. 15. maí 2015, vegna afgreiðslu sveitarfélagsins á erindum sem vörðuðu skipulags- og byggingarmál á jörðunum Svínhaga og Selsundi. Vakin var athygli á því að þeir hefðu mótmælt á öllum stigum skipulagningar lands Svínhaga og tilkynnt sveitarfélaginu að verið væri að ganga á land þeirra. Jafnframt var í bréfinu bent á að samkvæmt fyrri bókunum sveitarstjórnar ætti að fá samþykki eigenda Selsunds fyrir ákveðinni deiliskipulagsvinnu er m.a. hafi tekið til lóðarinnar SH-17. Var skorað á sveitarfélagið að afgreiða ekki fleiri erindi á hinu umdeilda svæði og afturkalla þær ákvarðanir sem þegar hefðu verið teknar.

Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings ytra 8. júní 2015 var lagt til að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á umræddu deiliskipulagi vegna lóðarinnar SH-17. Fól tillagan í sér að aðkomuvegi innan lóðarinnar yrði breytt sem og bílastæðum og byggingarreitum fjölgað í tvo. Á byggingarreit B1 var gert ráð fyrir íbúðarhúsi sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafði veitt undanþágu fyrir vegna fjarlægðar þess frá Selsundslæk. Á byggingareit B2 var gert ráð fyrir þremur smáhýsum og yrði fjarlægð byggingarreits 50 m frá Selsundslæk. Var greind afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn Rangárþings ytra 10. s.m.

Kærendur komu á framfæri athugasemdum á kynningartíma tillögunnar og bentu m.a. á að nú lægju fyrir opinber gögn um sölu Svínhaga og kort og hefði skipulagsnefnd því forsendur til að meta hvort rétt væri að halda áfram með skipulagsvinnu á svæðinu gegn mótmælum eigenda Selsunds. Væri sveitarfélaginu skylt að stöðva skipulagsferlið. Skipulagsnefnd tók málið fyrir 17. ágúst 2015 og var eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Áréttað er að deiliskipulags-breytingin tekur til lóðarinnar Svínhagi SH-17, landnr. 218364 eins og hún er afmörkuð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og í þinglýstum gögnum. Eðli málsins samkvæmt verður skipulagsnefnd að leggja hina opinberu skráningu til grundvallar við meðferð skipulags-tillögunnar. Þá er rétt að líta til þess að fyrir liggur óáfrýjaður dómur Héraðsdóms Suðurlands frá 18. október 2010 í máli nr. E-189/2010 um landamerki milli Selsunds og Svínhaga. Í málinu voru eigendur landspildna úr jörðinni Svínhaga sýknaðir af dómkröfum eigenda Selsunds. Skipulagsnefnd tekur að öðru leyti enga afstöðu til þess ágreinings sem er uppi meðal landeigenda á svæðinu.“ Staðfesti byggðarráð afgreiðslu skipulagsnefndar 19. ágúst 2015 Í kjölfar þess var tillagan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og gerði stofnunin ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt tillögunnar. Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 5. október 2015.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fyrir liggi að landamerki Svínhaga og Selsunds hafi verið teiknuð upp á kort og samþykkt af kaupanda Svínhaga árið 2002. Leiði núverandi eigendur skipulagssvæðisins rétt sinn til lands úr landi Svínhaga til ofangreindra kaupa. Beri opinber gögn með sér að skipulagssvæðið liggi innan merkja Selsunds að nær öllu leyti. Geti sveitarfélagið ekki hundsað fram komin gögn og skorist undan því að hafa skoðun á málinu. Þurfi sveitarfélagið að taka rökstudda ákvörðun um það hvort halda eigi áfram með skipulags-ferlið á landi sem öll gögn bendi til að tilheyri ekki þeim er óski breytinga á skipulagi þótt viðkomandi hafi þinglýsta eignarheimild.

Skipulagsnefnd hafi áður samþykkt að halda ekki áfram með skipulag á því svæði sem núverandi breytingartillaga taki til nema samþykki landeigenda Selsunds lægi fyrir. Aldrei hafi verið leitað eftir nefndu samþykki.

Í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 sé umrætt svæði skipulagt sem landbúnaðar-svæði. Geri breytingartillagan ráð fyrir að reist verði einbýlishús og þrjú smáhýsi á lóðinni án þess að þar komi fram hvernig þær byggingar tengist landbúnaðarstarfsemi. Sé breyting þessi í andstöðu við fyrrnefnt aðalskipulag og samræmist ekki skilgreiningu þess. Hefði þurft að breyta skilgreiningu landsins í aðalskipulagi og afla samþykkis viðkomandi ráðuneytis fyrir lausn þess úr landbúnaðarnotum skv. II. kafla jarðalaga nr. 81/2004 áður en tillagan fengi samþykki.

Umrædd lóð liggi að veiðivatni og framkvæmdir séu hafnar á henni. Samkvæmt 33. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006 sé áskilið að sérstakt leyfi Fiskistofu þurfi áður en heimilaðar séu framkvæmdir á, í eða við veiðivatn. Hafi sveitarfélaginu borið að kanna hvort umrætt leyfi til framkvæmda hafi legið fyrir, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rotþró fyrir umrætt einbýlishús liggi utan byggingarreits. Hún sé í 16 m fjarlægð frá Selsundslæk og siturlögn um 7 m frá læknum. Leiða megi líkur að því að siturlögnin eða affall hennar sé í raun komið undir grunnvatnsstöðu vegna hæðar lagnarinnar miðað við yfirborð lækjar. Ekki liggi fyrir að undanþága sú er veitt hafi verið frá fjarlægð byggingarreits frá vatni heimili slíkt.

Málsrök Rangárþings ytra: Sveitarfélagið tekur fram að Hæstiréttur Íslands hafi í janúar 2017 vísað frá dómi máli kærenda er lotið hafi að landamerkjum milli Svínhaga og Selsunds. Ástæða þess sé sú að Héraðsdómur Suðurlands hafi sýknað eigendur Svínhaga af sömu dómkröfum árið 2010. Verði sá ágreiningur ekki borinn að nýju undir dómstóla. Sé því vart lengur ágreiningur um að umþrættar framkvæmdir séu allar innan merkja Svínhaga og að hið umdeilda deiliskipulag sé utan við merki Selsunds.

———-

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Fyrir liggur að með dómi í máli E-189/2010, uppkveðnum 18. október 2010, voru eigendur lands jarðarinnar Svínhaga sýknaðir af kröfu kærenda um tiltekin landamerki jarðanna Selsunds og Svínhaga og var þeim dómi ekki áfrýjað. Á árinu 2015 var máli vegna sama landamerkjaágreinings vísað frá Héraðsdómi Suðurlands og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar frá 13. janúar 2017 í máli nr. 837/2016. Var ástæða frávísunar málsins sú að um sama sakarefni væri að ræða og dæmt hefði verið í fyrrgreindu dómsmáli frá árinu 2010. Afmörkun skipulagssvæðisins og lóðarmörk samkvæmt hinni kærðu deiliskipulags-breytingu eru óbreytt frá eldra deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2014. Af framangreindum ástæðum, auk þess að eignarréttindum verður ekki ráðstafað með deiliskipulagi, verður í máli þessu einungis tekin afstaða til lögmætis þeirra breytinga sem hin kærða ákvörðun fól í sér en ekki tekin afstaða til annarra álitaefna vegna eldra deiliskipulags, svo sem um mörk lóða að landi kærenda og landamerki milli jarðanna Selsunds og Svínhaga.

Hin kærða ákvörðun lýtur einungis að breytingum innan lóðar SH-17 í landi Svínhaga sem fólust í nýjum byggingarreit vegna færslu íbúðarhúss, sem heimilað var að byggja samkvæmt eldra deiliskipulagi, auk breytinga á bílastæðum og aðkomu að húsi af því tilefni. Veitti umhverfis- og auðlindaráðuneytið undanþágu frá gr. 5.3.2.14. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 frá 50 m fjarlægðarmörkum mannvirkja frá vötnum, ám eða sjó vegna nýrrar staðsetningar íbúðarhússins í um 36 m fjarlægð frá Selsundslæk. Var sú undanþága veitt samkvæmt heimild í 12. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar.

Samkvæmt 33. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 er sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, háð leyfi Fiskistofu. Í 59. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna er hugtakið veiðivatn skýrt með þeim hætti að það sé „Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti í vera ef fiskur væri ræktaður þar.“ Fyrirliggjandi gögn og upplýsingar bera ekki með sér að Selsundslækur geti talist veiðivatn í skilningi fyrrgreindra laga og var af þeim sökum ekki þörf á að afla leyfis Fiskistofu fyrir staðsetningu fyrrgreinds íbúðarhúss.

Gert er ráð fyrir að staðsetning rotþróa sé sýnd á lóðaruppdrætti, sbr. gr. 4.4.4. í byggingar-reglugerð nr. 112/2012 sem er hluti byggingarleyfisteikninga. Um frágang og búnað rotþróa gilda lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og ákvæði laga um fráveitur nr. 9/2009 ásamt reglugerðum settum samkvæmt þeim. Við veitingu byggingarleyfis ber að ganga úr skugga um að farið sé að þeim reglum um rotþrær og frágang þeirra en ekki við gerð deiliskipulags.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þær ástæður sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina SH-17 í landi Svínhaga.

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________            ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                Þorsteinn Þorsteinsson

 

55/2015 Kvosin

Með
Árið 2017, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2015, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. maí 2015 um að breyta skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2015, er barst nefndinni 16. s.m., kærir Guðmundur Jónsson hrl., fyrir hönd Strjúgs ehf. og Hafnarstrætis 1 ehf., þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. maí 2015 að breyta skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar. Hin kærða ákvörðun tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. júní 2015, Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. janúar 2017.

Málavextir: Landnotkunarheimildir innan deiliskipulags Kvosarinnar voru skilgreindar með þeim hætti að þær færu eftir landnotkunarheimildum í gildandi aðalskipulagi hverju sinni. Hinn 6. maí 2015 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar tillögu að breytingu á landnotkunarskilmálum deiliskipulagsins og staðfesti borgarráð þá ákvörðun 21. s.m. Var breytingartillagan á þá leið að áfram var vísað til landnotkunarheimilda samkvæmt gildandi aðalskipulagi hverju sinni, en þó með þeim takmörkunum að hámarkshlutfall gistiþjónustu á deiliskipulagssvæðinu og hluta deiliskipulagsvæðis Grjótaþorps yrði 23% hlutfall af birtri stærð eigna. Við ákvörðun hámarkshlutfallsins var höfð hliðsjón af gististarfsemi sem fyrir var á svæðinu við samþykkt breytingatillögunnar, samkvæmt þegar útgefnum byggingarheimildum, og heimildum í þegar samþykktum deiliskipulagsáætlunum. Í greinargerð með tillögunni var vísað til markmiða aðalskipulags um fjölbreytileika miðborgarinnar og þess að marka eigi stefnu um hótel og gististaði samkvæmt aðalskipulagi.

Tillagan að breyttu deiliskipulagi var auglýst frá 16. febrúar með athugasemdafresti til 30. mars 2015. Hinn 26. s.m. sendi kærandi inn athugasemd fyrir hönd eigenda svonefnds Fálkahúss, sem stendur við Hafnarstræti 1-3, en húsið fellur innan umrædds deiliskipulagssvæðis Kvosarinnar. Með athugasemdinni var gerð sú krafa að „ekki verði án bóta gerð frekari inngrip í eignarrétt og afnotarétt af hálfu stjórnsýslunnar en þegar hefði verið gert með friðun hússins“, en elsti hluti þess var reistur 1868 og var það friðað árið 1991. Í húsinu hefur að sögn kæranda verið rekin verslun og veitingasala.

Skipulagsfulltrúi gerði umsögn um deiliskipulagstillöguna að loknum auglýsingafresti, dags. 4. maí 2015, og gat athugasemdar kæranda án þess þó að taka afstöðu til hugsanlegs tjóns kæranda. Í umsögninni var hins vegar bent á möguleika kæranda til að leita bóta í samræmi við 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga. Eftir beiðni fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði, frá 28. janúar 2015, gerði skrifstofa sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs lögfræðiálit um þær leiðir sem sveitarfélög hafa til að stýra starfsemi og uppbyggingu með þeim hætti sem tillagan gerði ráð fyrir. Í álitinu kemur meðal annars fram það mat að starfsemistakmörkunin sem tillagan snýr að sé almenn og því utan gildissviðs bótaákvæða skipulagslaga, enda sé þar gert ráð fyrir að eignatjón mögulegs tjónþola þurfi að vera umfram eignatjón sambærilegra aðila á deiliskipulagssvæðinu. Þá kemur í álitinu fram það mat að starfsemistakmarkanir sem miðast við tiltekinn fjölda fermetra á deiliskipulagssvæði sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Við afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs hinn 6. maí 2015 var tillaga um breytingu á skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Borgarráð staðfesti samþykktina hinn 21. maí 2015 og hefur þeirri ákvörðun verið skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Til stuðnings kröfu sinni bendir kærandi í fyrsta lagi á að lengra sé gengið í að takmarka eignarrétt en samrýmst geti eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár. Eign hans að Hafnarstræti 1-3 sæti þegar takmörkunum á umráðarétti vegna friðunar og takmarkaðra vínveitingaheimilda og að viðbættum takmörkunum á heimild til nýtingar undir gistiþjónustu láti nærri að möguleikar eigenda húsnæðisins séu að engu gerðir. Í það minnsta gangi þessar skerðingar á nýtingarheimildum lengra en lög leyfi án bóta.

Í öðru lagi uppfylli hin kærða ákvörðun ekki skilyrði um skýrleika skipulagsákvarðana þar sem ekki verði ráðið af greinargerð ákvörðunarinnar á hvaða heimild í aðalskipulagi hún byggi. Stafar þessi óskýrleiki að mati kæranda af tilvísun í ranga útgáfu aðalskipulags sem hefur öðruvísi blaðsíðuskipan en sú útgáfa sem miða ætti við.

Í þriðja lagi skorti hina kærðu ákvörðun stoð í gildandi aðalskipulagi. Að mati kæranda byggi breytingin á tvennskonar tilvísunum í aðalskipulag. Annars vegar á að ætlunin sé samkvæmt aðalskipulagi að vinna stefnu og úttekt á málefnum hótel og gististaða sem klára skuli áður en ráðist verði í gerð hverfisskipulags miðborgar. Hins vegar á tilvísun í starfsemiskvóta sem skilgreindir séu út frá götuhliðum húsa. Varðandi hið fyrra verði að telja að þessa boðuðu stefnumörkun þurfi að taka upp í aðalskipulag, eigi hún að geta orðið grundvöllur að deiliskipulagsbreytingu. Að öðrum kosti verði að fara með takmarkanir á gististarfsemi eftir svokölluðum starfsemiskvótum sem skilgreindir séu í aðalskipulagi, enda verða skerðingar af þessu tagi að eiga beina stoð í aðalskipulagi. Varðandi hið síðara sé á það bent að jafnvel þó aðalskipulag heimilaði skerðingu á gististarfsemi með þeim hætti sem hin kærða ákvörðun geri, fái aðferðin sem notuð sé við útreikning skerðingarinnar ekki staðist. Í ákvörðuninni sé miðað við samtölu á birtri stærð eigna á tilteknu svæði, en samkvæmt reiknireglum aðalskipulags skuli miða við hlutfall af skilgreindum götuhliðum. Reiknireglur hinnar kærðu ákvörðunar samræmist því ekki viðeigandi ákvæðum aðalskipulags.

Í fjórða lagi telur kærandi að í hinni kærðu ákvörðun felist ólögmæt mismunun sem fari gegn jafnræðisreglu. Með ákvörðuninni hafi heimildir til gistiþjónustu verið bundnar við þá starfsemi sem þegar sé í gangi, við útgefnar byggingarheimildir til slíkrar starfsemi og við samþykktar deiliskipulagsáætlanir sem geri ráð fyrir slíkri starfsemi. Með því að taka frá kvóta fyrir aðila sem hafa fengið samþykkt deiliskipulag sem heimili gististarfsemi sé verið að mismuna þeim eigendum húsnæðis sem fyrir breytinguna var heimilt að nota það fyrir gististarfsemi, en verði það ekki eftir hina kærðu ákvörðun.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld hafna fyrstu málsástæðu kæranda með vísan til þess valds sem sveitastjórnum er falið með skipulagslögum til að takmarka hagnýtingu fasteigna, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hin kærðu ákvörðun hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum sem hafi það að markmiði að tryggja fjölbreytta starfsemi í miðborginni, auk þess sem eigendur fasteigna geti búist við því að borgin bregðist við örri þróun sem stefni settum markmiðum í tvísýnu. Þá hafi ákvæðum skipulagslaga um málsmeðferð verið fylgt í einu og öllu við vinnslu málsins. Hafa verði í huga að með auknu byggingarmagni á deiliskipulagssvæðinu geti síðar myndast svigrúm til að taka fasteignir undir gistiþjónustu og hið sama eigi við ef núverandi gististaðir hætti rekstri. Telji kærandi sig hafa orðið fyrir tjóni umfram aðra vegna breytingarinnar sé honum tiltækt bótaákvæði 51. gr. skipulagslaga.

Rétt sé hjá kæranda að vísað hafi verið í rangt blaðsíðutal í aðalskipulagi í greinargerð hinnar kærðu ákvörðunar. Þau mistök geti hins vegar ekki talist ógildingarannmarki á kærðu ákvörðuninni, enda hafi í greinargerð verið vísað til viðeigandi umfjöllunar aðalskipulags, sem kærandi hafi getað fundið. Vísan til greinds blaðsíðutals hafi verið til hægðarauka en í þessu tilviki hafi tilvísun í blaðsíðutal aðalskipulagsins verið óþörf.

Heimild til takmarkana á tiltekinni starfsemi við deiliskipulagsgerð sé í aðalskipulagi. Bent sé á að tilvitnaður áskilnaður um stefnumörkun og úttekt á málefnum hótel og gististaða eigi við um gerð hverfisskipulags og að í öllu falli hafi aðalskipulag ekki kveðið á um skyldu að slík úttekt yrði gerð, heldur einungis að það væri mikilvægt að svo yrði gert. Fullt tillit hafi verið tekið til rétthæðar skipulagsáætlana, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Það sé í höndum stjórnvalds að velja leiðir til að ná markmiðum laga enda sé sérstakrar leiðar ekki getið í lögum. Það sé málefnalegt að miða við reiknireglu hinnar kærðu ákvörðunar enda gefi hún gleggstu mynd af nýtingu fasteigna á svæðinu og sé auk þess hentug almenningi til glöggvunar. Svonefnd götuhliðastýring eigi við um annars konar takmörkun á notkun fasteigna og á henni sé grundvallarmunur miðað við þá leið sem farin var með hinni kærðu ákvörðun.  Ákvörðunin mismuni ekki fasteignaeigendum á svæðinu og sé staðhæfing kæranda í þá veru tilhæfulaus og órökstudd.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort ákvörðun borgarráðs frá 21. maí 2015, um breytingu á skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar, sé haldin annmörkum sem varði ógildingu. Einnig er deilt um hvort að hin kærða ákvörðun hafi skert ótilhlýðilega eignarréttindi kæranda samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár og hvort fasteignaeigendum á svæðinu hafi með ákvörðuninni verið mismunað með ólögmætum hætti.

Í skilgreiningu á landnotkun í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 kemur fram að í miðborg og á miðsvæðum séu gististaðir almennt heimilaðir. Á landnotkunarsvæðinu M1a, sem tekur til umrædds svæðis, er lögð áhersla á að gistiþjónusta sé á efri hæðum bygginga. Til viðbótar þessari almennu skilgreiningu á landnotkun svæðisins, gilda sérstök ákvæði um hótel- og gistirými. Þar kemur fram að hótel og gistiheimili séu almennt heimil í miðborginni og á miðsvæðum nema annað sé sérstaklega tekið fram í töflu í greinargerð aðalskipulagsins sem vísað er til. Þar er tiltekið að á landnotkunarsvæðinu M1a sé heimilað að reka gististaði í flokki I-V án sérstakra skilyrða.

Samkvæmt 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er deiliskipulag „[s]kipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti innan sveitarfélags sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess.“ Í 7. mgr. 12. gr. laganna er kveðið á um að skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi og að aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag. Í þessu felst að heimilt er að skilgreina landnotkun þrengra í deiliskipulagi en í aðalskipulagi svo lengi sem hin þrengri landnotkun falli innan þess sem aðalskipulag heimilar.

Í miðborgarkafla Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 (bls. 191) kemur fram það stefnumið að vernda skuli miðborgina gagnvart ótakmarkaðri gistirýmauppbyggingu. Af því leiðir að takmörkun á starfsemi gististaða í miðborginni samræmist stefnu aðalskipulags. Landnotkunarkafli aðalskipulagsins skiptist í almennar skilgreiningar á landnotkun og sérstök ákvæði sem takmarka eða víkja frá hinum almennu skilgreiningum og gilda sérstök ákvæði um ýmsar tegundir starfsemi. Ákvæði um götuhliðar í miðborginni eru á meðal þessara sérstöku ákvæða um takmarkanir á tegundum starfsemi auk sérstakra ákvæða um hótel- og gistirými. Ákvæði um götuhliðar ná yfir skilgreindar götuhliðar í miðborginni og gilda á þeim svæðum starfsemiskvótar á jarðhæðum húsa sem snúa að þessum götuhliðum. Þær sérstöku takmarkanir sem aðalskipulag leggur við gististarfsemi koma fram í umfjöllun Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 á bls. 220. Þar er ekki tilgreind sérstök aðferð sem styðjast skuli við ef setja eigi takmarkanir á uppbyggingu gistirýma. Því er heimilt að útfæra nánar í deiliskipulagi aðferð til að stýra eða takmarka gistirýmauppbyggingu til að tryggja fjölbreytileika í starfsemi miðborgarsvæðis.

Í 5.5.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 kemur fram að í greinargerð deiliskipulags skuli geta um samræmi deiliskipulags við stefnu aðalskipulags og í 5.8.5.2. gr. reglugerðarinnar er tekið fram að í greinargerð með breytingu deiliskipulags skuli lýsa samræmi breytingarinnar við aðalskipulag. Af greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar má ráða að hún byggi á umfjöllun aðalskipulags um fyrirhugaða stefnu og úttekt um hótel og gististaði, auk markmiða um fjölbreytileika miðborgarinnar sem skuli stuðla að og viðhaldið með blandaðri miðborgarstarfsemi. Fram er komið að sú stefnumótun og úttekt liggi ekki fyrir og í greinargerðinni eru tilvísanir til tiltekinna blaðsíðna í aðalskipulagsgreinargerð rangar. Rökstuðningi um samræmi skipulagsáætlana, sem gerð er krafa um í gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð, er að þessu leyti áfátt. Þrátt fyrir annmarkan verður ráðið af greinargerð skipulagsbreytingarinnar við hvaða stefnumið aðalskipulags hún styðst líkt og að framan er rakið og bjuggu þau efnisrök að baki henni að takmarka frekari uppbyggingu gististarfsemi á viðkomandi svæði.

Í 51. gr. skipulagslaga er tekið á álitamálum vegna skerðingar eignarréttinda í kjölfar skipulagsákvarðana og í 2. mgr. 51. gr. a. sömu laga er kveðið á um hvernig haga skuli framlagningu bótakrafna í slíkum álitamálum. Telji fasteignaeigendur sig verða fyrir skerðingu eignarréttinda umfram aðra, geta þeir leitað til viðkomandi sveitarfélags um bætur. Það er hins vegar utan valdsviðs úrskurðanefndarinnar að taka afstöðu til bótaskyldu sem kann að skapast vegna skipulagsákvarðana eða um embættistakmörk yfirvalda við beitingu skipulagsvalds með tilliti til eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrár. Á slíkur ágreiningur eftir atvikum undir dómstóla.

Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í ákvörðunum. Í því felst að aðilar í sambærilegum aðstæðum skuli hljóta sambærilega afgreiðslu. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu voru settar takmarkanir á notkun fasteigna svæðisins fyrir gististarfsemi. Takmarkanirnar voru við það miðaðar að þeir sem þegar höfðu fengið samþykkt leyfi til rekstrar eða til uppbyggingar gistiþjónustu eða höfðu rétt til þess samkvæmt sérstakri heimild í deiliskipulagi, héldu þeim réttindum við skipulagsbreytinguna. Kærandi var ekki þar á meðal og því ekki í sambærilegri stöðu og þeir sem þegar höfðu öðlast rétt til að reka gististarfsemi á svæðinu við deiliskipulagsbreytinguna. Í ljósi þessa var jafnræðis gætt við hina kærðu ákvörðun.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. maí 2015 um breytingu á skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

102/2017 Nónhæð

Með
Árið 2017, föstudaginn 29. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 102/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. september 2017, kærir A, Foldarsmára 18, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. júní 2017 að auglýsa breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 og ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 10. ágúst s.á. um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Nónhæð. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Málsatvik og rök: Á fundi sínum 13. júní 2017 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins og á fundi 10. ágúst s.á., samþykkti bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Nónhæðar. Frestur til athugasemda beggja skipulagstillagnanna var auglýstur til 29. september 2017.

Kærandi telur auglýsingu tillögu að breyttu aðalskipulagi ólögmæta þar sem í skipulagslögum sé gert ráð fyrir endurskoðun þess að loknum sveitarstjórnarkosningum og að tilkynna skuli Skipulagsstofnun um þá endurskoðun. Hin auglýsta tillaga að breyttu deiliskipulagi Nónhæðar byggi á greindri aðalskipulagsbreytingu og beri því að afturkalla hana.

Bæjaryfirvöld Kópavogs benda á að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun í hinum kærðu málum. Bæði deiliskipulags- og aðalskipulagstillagan séu ennþá í auglýsingu með athugasemdafrest til 29. september 2017.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. málsl. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að lögum að staðfesta ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar, en það á við um hina kærðu aðalskipulagsbreytingu skv. 3. og 5. mgr. 32. gr. laganna.

Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun um að auglýsa fyrrgreinda deiliskipulagstillögu er er liður í málsmeðferð en ekki lokáákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar. Ákvörðun um deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingar um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Af framangreindum ástæðum  verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________________
Ómar Stefánsson

3/2016 og 8/2016 Kalkþörungaset í Miðfirði

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 3. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. desember 2015 um að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Veiðifélag Miðfirðinga og Kvísl ehf., eigandi Króksstaða og hluta Miðfjarðarár, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. desember 2015 að nýting kalkþörungasets í Miðfirði, 1.200 m³ á ári í 30 ár, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landssamband veiðifélaga fyrrgreinda ákvörðun. Er gerð sú krafa að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður það kærumál, sem er nr. 8/2016, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 22. febrúar 2016.

Málavextir: Með umsókn, dags. 14. maí 2015, sótti Icecal ehf. um leyfi til Orkustofnunar fyrir hagnýtingu á 1.200 m³ af kalkþörungaseti á ári innan ákveðins svæðis í Miðfirði. Óskað var eftir nýtingarleyfi til 30 ára, eða frá 2015 til 2045. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins skal gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum við veitingu leyfa samkvæmt lögunum. Orkustofnun leitaði umsagna Umhverfisstofnunar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, Húnaþings vestra, Minjastofnunar Íslands, Náttúrustofu Norðurlands vestra, Náttúrustofu Vestfjarða og Samgöngustofu. Umsækjanda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við framkomnar umsagnir og bárust þær Orkustofnun með bréfi, dags. 13. ágúst 2015. Í bréfi til umsækjanda, dags. 20. nóvember s.á., benti Orkustofnun á að tilkynna þyrfti um fyrirhugaða framkvæmd til Skipulagstofnunar og var það gert 4. desember 2015.

Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu 9. desember 2015 að umrædd framkvæmd væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum og var leiðbeint um kærufrest til 19. janúar 2016. Hafa kærendur kært þá ákvörðun, eins og áður segir.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast eiga þeirra hagsmuna að gæta að ekki verði stefnt í hættu lífríki Miðfjarðarár, ósa hennar og nánasta umhverfi til lands og sjávar, þar á meðal lífríki Miðfjarðar, sem áin renni í. Enginn viti hvaða áhrif fyrirhuguð námuvinnsla af botni Miðfjarðar, rétt fyrir utan ós Miðfjarðarár, geti haft á laxagöngur og bleikjugöngur í ána og annað lífríki vatnasvæðis árinnar og fjarðarins. Miðfjarðará sé í flokki mestu laxveiðiáa landsins og gæti verið í stórhættu ef af nefndri námuvinnslu yrði, með tilheyrandi uppróti og kalkþörungaskoli í firðinum. Sérstaklega hljóti sú hætta að eiga við á göngutíma seiða til sjávar og á göngutíma lax og silungs í ám.

Áður en til greina komi að heimila framkvæmdina sé brýn nauðsyn á að framkvæma margvíslegar rannsóknir á náttúru svæðisins og láta fara fram mat á umhverfisáhrifum hennar. Sérstaklega sé þar um vísað til varúðarreglu 9. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og 73. gr. EES-samningsins, þar sem fjallað sé um aðgerðir samningsaðila á sviði umhverfismála.

Framkvæmdaraðili hafi tilkynnt um vinnslusvæði rétt undir viðmiðunarmörkum flatarmáls námusvæðisins samkvæmt gr. 2.04 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sem fjalli um röskun hafsbotns á minna en 25.000 m² svæði, og flokki slíka röskun undir C-flokk framkvæmda. Samkvæmt 2. viðauka laganna skuli athuga eðli framkvæmdar, staðsetningu framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar. Samkvæmt framangreindu eigi ekki aðeins að taka tillit til stærðar námusvæðis, sem oft sé tilgreind rétt undir viðmiðunarmörkum. Þessi ákvæði laga nr. 106/2000 séu í samræmi við ákvæði 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 85/337/EBE, þar sem segi að gera skuli allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að áður en leyfi sé veitt sé þess krafist að framkvæmdir, sem haft geti í för með sér veruleg áhrif á umhverfið, séu háðar kröfum um leyfi til framkvæmda og mati á áhrifum þeirra.

Evrópudómstóllinn hafi jafnframt fjallað um framangreind ákvæði tilskipunar 85/337/EBE, nú tilskipunar 2011/92/ESB í nokkrum dómum sínum. Í dómum í málunum C-392/96, framkvæmdastjórnin gegn Írlandi, og C-435/09, framkvæmdastjórnin gegn Belgíu, bendi dómstóllinn t.d. á að lítil framkvæmd geti haft mikil áhrif á umhverfið ef framkvæmdin sé staðsett þar sem umhverfisþættir eins og dýralíf, jurtalíf, jarðvegur, vatn, loftslag eða menningarleg arfleifð séu viðkvæmir fyrir minnstu breytingum. Í dómi í máli C-87/02, framkvæmdastjórnin gegn Ítalíu, komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að hvaða aðferð sem aðildarríki ákveði að nota til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdar megi sú aðferð ekki grafa undan markmiðum tilskipunarinnar um að engin framkvæmd, sem sé líkleg til að hafa veruleg áhrif á umhverfið, verði undanþegin mati á umhverfisáhrifum nema að sú framkvæmd hafi á grunni víðfeðmrar skimunar ekki verið talin hafa slík áhrif.

Greinilegt sé af hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar að stofnunin hafi ekki rannsakað málið sérstaklega og með sjálfstæðum og víðfeðmum hætti, með tilliti til allra lögmæltra atriða, áður en hún tók ákvörðun sína. Ekki dugi, eins og stofnunin geri, að fullyrða um málið í ákvörðun. Ákvörðunin verði að bera það með sér að málið hafi verið rannsakað til hlítar.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að samkvæmt 5. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé Skipulagsstofnun heimilt að leita álits leyfisveitanda áður en hún taki ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar í C-flokki. Samkvæmt þessu sé stofnuninni ekki skylt að leita umsagnar leyfisveitanda, eins og gildi um framkvæmdir í B-flokki. Í almennum athugasemdum í greinargerð sem fylgt hafi frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000, komi fram að væntanlega muni stærstur hluti nýrra tilkynninga á grundvelli flokks C fela í sér umfangsminni framkvæmdir og/eða framkvæmdir á svæðum sem séu síður viðkvæm. Það leiði m.a. til þess að ekki verði þörf á umsagnarferli í öllum tilfellum. Framkvæmd sú sem hin kærða ákvörðun lúti að sé umfangslítil og hafi Skipulagsstofnun því ekki talið þörf á að leita umsagna leyfisveitanda.

Þótt Skipulagsstofnun hafi ákveðið að leita ekki umsagnar leyfisveitanda hafi hún fengið frá Orkustofnun umsagnir fagstofnana í tilefni af umsókn leyfishafa um breytingu á töku á kalkþörungaseti í Miðfirði. Stofnunin hafi, áður en hún hafi tekið ákvörðun sína, kynnt sér umsagnir sem borist hafi Orkustofnun frá Umhverfisstofnun, Hafrannsóknastofnun, Minjastofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra, Húnaþingi vestra og Fiskistofu. Í umsögn Fiskistofu komi fram að hin fyrirhugaða efnistaka sé fremur lítil að umfangi og til langs tíma, efnistökusvæðið sé afmarkað og nokkuð fjarri árósi Miðfjarðarár. Því sé ekki líklegt að hún myndi hafa mikil áhrif á afkomu laxfiska á svæðinu. Miðað við þetta sé ekki rétt það sem kærendur haldi fram að hin fyrirhugaða námuvinnsla sé rétt utan við ós Miðfjarðarár. Nefnd umsögn og aðrar umsagnir gefi ekki til kynna að Miðfjarðará geti verið í stórhættu og að hætta skapist á göngutíma seiða til sjávar og göngutíma lax og silungs í ána, eins og kærendur fullyrði.

Kærendur fari ekki rétt með efni 9. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, sem hafi að geyma varúðarreglu laganna. Eftir breytingu á efni ákvæðisins, sem gerð hafi verið með lögum nr. 109/2015, gildi reglan einungis um ákvarðanir sem teknar séu á grundvelli náttúruverndarlaga, eins og skýrt komi fram í orðalagi 1. málsl. 9. gr. Hin kærða ákvörðun sé tekin á grundvelli laga nr. 106/2000. Varðandi varúðarregluna, eins og hún komi fram í aðfararorðum EES-samningsins, þá skuli hafa hana í huga við beitingu 73. gr. samningsins. Reglan feli í sér að fyrir hendi þurfi að vera óvissa um hvaða áhrif framkvæmd hafi á umhverfið eða náttúruna. Með tilliti til þess sem komi fram í tilkynningu framkvæmdaraðila og í umsögnum Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra og Fiskistofu verði ekki séð að slík óvissa sé til staðar. Þá beri að líta til þess að beiting varúðarreglunnar sé yfirleitt íþyngjandi í garð framkvæmdaraðila.

Kærendur vísi í tiltekna dóma Evrópudómstólsins en þar sé m.a. vikið að þáttunum eðli, stærð eða staðsetningu. Að mati kærenda staðfesti dómarnir, ákvæði í 2. viðauka við lög nr. 106/2000 og ákvæði 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 85/337/EBE, að námuvinnslan á botni Miðfjarðar eigi að sæta mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun bendi á að áður en hún hafi tekið hina kærðu ákvörðun hafi hún litið til þeirra viðmiða sem fram komi í 2. viðauka, þ.e. til þeirra atriða sem falli undir eðli framkvæmdar, staðsetningu framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar. Með tilliti til þeirra, og að teknu tilliti til tilkynningar framkvæmdaraðila og umsagna framangreindra fagstofnana, hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að hin kærða framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þessi aðferðarfræði sé í samræmi við tilskipunina og umrædda dóma. Þar sem hin fyrirhugaða framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér veruleg umhverfisáhrif sé ekki verið að grafa undan markmiðum tilskipunarinnar.

Kærendur haldi því fram að Skipulagsstofnun hafi ekki rannsakað málið sjálfstætt með tilliti til allra þeirra atriða sem máli skipti. Stofnunin andmæli þessu. Í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 segi að við ákvörðun um matsskyldu skuli stofnunin fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laganna. Eins og nefnt sé að framan hafi stofnunin gert það. Hún hafi m.a. farið yfir umsagnir sem Orkustofnun hafi haft undir höndum í tilefni af umsókn framkvæmdaraðila um breytingu á töku á kalkþörungaseti í Miðfirði og rannsókn frá 2004, sem hafi lotið að kalkþörungaleit með endurvarpsmælingum í Miðfirði og Bitrufirði. Stofnunin hafi talið að framangreind gögn og tilkynning framkvæmdaraðila væru fullnægjandi og gæfu rétta mynd af atvikum málsins. Að mati stofnunarinnar hafi málið verið nægilega upplýst áður en hún hafi tekið ákvörðun. Þegar ákvörðunin sé lesin megi sjá að í henni sé m.a. vísað til umræddra umsagna. Það sé því rangt að ákvörðunin beri ekki með sér að málið hafi verið rannsakað.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að samkvæmt bráðabirgðaákvæði í 11. gr. laga nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, séu framkvæmdir þær sem falli í flokk C í 1. viðauka við lögin ekki háðar ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. laganna fyrr en 1. júní 2015. Varðandi aðra starfsemi á svæðinu þá sé engin starfsemi á svæðinu, sem framkvæmdaraðila sé kunnugt um, sem ætti að verða fyrir skakkaföllum vegna fyrirhugaðrar efnistöku, en við mat á slíku skuli líta til jafnræðis og meðalhófs.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en kærendur telja að slíkt mat skuli fara fram, enda óttist þeir áhrif framkvæmdarinnar á lífríki Miðfjarðarár. Byggja þeir aðild sína á því að þeim hagsmunum sé stefnt í hættu.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins er óheimilt að taka eða nýta efni af hafsbotni eða úr honum, sbr. 1. gr. laganna, nema að fengnu skriflegu leyfi Orkustofnunar. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skal leyfi til hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni bundið við ákveðið svæði og gilda til ákveðins tíma sem ekki má vera lengri en 30 ár. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skal við veitingu leyfa samkvæmt lögunum gæta ákvæða laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í 1. mgr. 13. gr. þeirra laga kemur fram að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar skv. 5. eða 6. gr. laganna fyrr en álit Skipulagstofnunar liggi fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld.

Í umsókn framkvæmdaraðila kemur fram að sótt sé um leyfi til hagnýtingar á 1.200 m³ af kalkþörungaseti á ári innan tiltekins svæðis í Miðfirði. Sótt er um leyfi til 30 ára og því nemur umsótt heildarmagn nýtts kalkþörungasets 36.000 m³. Samkvæmt lið 2.04 í 1. viðauka laga nr. 106/2000, sbr. breytingalög nr. 138/2014, fellur framkvæmdin því undir efnistöku og/eða haugsetningu á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska minna en 25.000 m² svæði eða efnismagn er minna en 50.000 m³ og á undir framkvæmdaflokk C. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 106/2000 tekur Skipulagsstofnun ákvörðun samkvæmt 6. gr. laganna um hvort aðrar framkvæmdir í flokki C í 1. viðauka en þær sem kveðið er á um í skipulagslögum og lögum um mannvirki, eða slíkar framkvæmdir sem háðar eru leyfi Mannvirkjastofnunar, skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Flokkur C kom til með lögum nr. 138/2014 um breytingu á lögum nr. 106/2000 og skv. 11. gr. breytingalaganna skyldu framkvæmdir þær sem falla í flokk C háðar ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum frá 1. júní 2015. Þar sem framkvæmd leyfishafa er háð leyfi Orkustofnunar, eins og áður sagði, og meðferð stofnunarinnar var ekki lokið fyrir framangreint tímamark, var framkvæmdaraðila réttilega leiðbeint um tilkynningarskyldu vegna framkvæmdarinnar og tilkynnti hann um hana, eins og nánar greinir í málavaxtalýsingu.
 
Framkvæmdir í flokki C urðu matsskyldar í kjölfar breytinga á lögum nr. 106/2000, sem til komu m.a. vegna dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins. Er nánar tiltekið í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að breytingalögum nr. 138/2014 að tilefni lagasetningarinnar séu athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA við innleiðingu Íslands á ákvæðum tilskipunar 85/337/EBE og að í flokki C séu þær framkvæmdir sem fallið hafi utan viðmiðunarmarka þeirra framkvæmda sem tilgreindar séu í 2. viðauka og nauðsynlegt þyki í ljósi athugasemdanna að bæta við gildandi lög. Varðandi þær framkvæmdir sem fallið hafi utan viðmiðunarmarka núgildandi laga, og gerð sé tillaga um að verði tilkynningarskyldar og falli í flokk C, sé í frumvarpinu gerð tillaga að einfaldari málsmeðferð en lagt sé til varðandi þær framkvæmdir sem falli í flokk B. Markmið einfaldari málsmeðferðar sé að stytta þann tíma sem taki að taka ákvörðun um matsskyldu. Varðandi þær framkvæmdir sem falli í flokk C verði gerðar vægari kröfur til framkvæmdaraðila um skil á gögnum með tilkynningu um framkvæmd til Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna og styttri tímafresti þessara aðila til að taka ákvörðun um matsskyldu en verið hafi varðandi þær tilkynningarskyldu framkvæmdir sem nú sé að finna í 2. viðauka laganna. Enn fremur verði Skipulagsstofnun og sveitarstjórnum heimilt en ekki skylt að leita umsagnar. Í athugasemdum með 4. gr. frumvarpsins, sem breytti 6. gr. laga nr. 106/2000, er áréttað að eins og með framkvæmdir sem falli í flokk B sé lagt til að sveitarstjórn og Skipulagsstofnun fari eftir viðmiðum þeim sem fram komi í 2. viðauka við ákvörðun um matsskyldu framkvæmda sem falli undir flokk C. Einnig að í samræmi við að gert sé ráð fyrir einfaldari og fljótlegri málsmeðferð framkvæmda sem falli í flokk C sé gerð lágmarkskrafa til þeirra gagna sem fylgja skuli tilkynningu um framkvæmd.

Um málsmeðferð Skipulagsstofnunar við mat á því hvort framkvæmdir í flokki C skuli háðar mati á umhverfisáhrifum er fjallað í 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. breytingalög nr. 138/2014. Í 1. mgr. segir að framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki B og flokki C í 1. viðauka við lögin skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í 5. mgr. 6. gr. segir að vegna framkvæmdar í flokki C, sem tilkynna beri til Skipulagsstofnunar, skuli stofnunin innan tveggja vikna frá því fullnægjandi gögn um framkvæmdina berist taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögunum. Við ákvörðun sína skal Skipulagsstofnun fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laganna. Stofnuninni er heimilt að leita álits leyfisveitanda og annarra aðila eftir eðli máls hverju sinni. Skal Skipulagsstofnun gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni og kynna hana almenningi. Eins og áður kom fram tók Skipulagsstofnun hina kærðu ákvörðun 9. desember 2015 og var það niðurstaða stofnunarinnar að framkvæmdin væri ekki matsskyld.

Viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000, sem fara skal eftir við ákvörðun um matsskyldu, eru talin upp í þremur töluliðum og varða eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Undir hverjum tölulið eru tilgreindir allt að sex aðrir töluliðir og undir tveimur þeirra stafliðir, annars vegar sex talsins og hins vegar tíu. Eru þannig talin fjöldi atriða sem taka skal mið af við matið. Skipulagsstofnun hefur útbúið eyðublað og sniðmát ákvörðunar um framkvæmd í flokki C. Þar skal koma fram heiti framkvæmdar, framkvæmdaraðili, sveitarfélag, tegund framkvæmdar og stutt samantekt framkvæmdalýsingar. Einnig hvort umsagna var leitað og þá frá hverjum, sem og hverjar helstu ábendingar þeirra séu sem áhrif hafi á ákvörðunina. Þá er gátlisti þar sem spurt er hvort framkvæmdin hafi áhrif á þætti sem taldir eru í 21 lið. Gert er ráð fyrir því að svarað sé já eða nei, spurt hvort áhrifin séu líkleg til að verða mikil og ætlast til þess að það sé skýrt nánar. Jafnframt er gert ráð fyrir dagsetningu ákvörðunar, hver hún sé, þ.e. matsskyld framkvæmd eða ekki háð mati, og hver kærufrestur sé.

Nefnt eyðublað var notað í máli þessu og sniðmátið fyllt inn, svo sem að framan er lýst. Um umsagnarferli er tekið fram að Skipulagsstofnun hafi ekki talið tilefni til að óska sérstaklega eftir umsögnum þar sem Orkustofnun hefði óskað eftir umsögnum og að Skipulagsstofnun hafi fengið þau gögn í hendur við meðferð málsins. Tók Skipulagsstofnun fram að Umhverfisstofnun, Hafrannsóknastofnun og Minjastofnun Íslands hafi ekki gert athugasemdir við leyfisumsókn framkvæmdaraðila. Rakti Skipulagsstofnun svo atriði úr umsögnum Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, Húnaþings vestra og Fiskistofu, sem og svör framkvæmdaraðila við þeim. Svaraði Skipulagsstofnun gátlistanum svo til að því var neitað að mestu að framkvæmdin hefði áhrif á þá þætti sem þar voru taldir. Þó var því játað að framkvæmdin hefði áhrif á svæði sem njóti verndar samkvæmt alþjóðlegum samningum og tekið fram að þar væri um OSPAR-samninginn að ræða, eða samninginn um verndun Norðaustur-Atlantshafsins. Einnig var játað að gróður og gróðurlendi yrði fyrir áhrifum af völdum framkvæmdarinnar og tekið fram að þar væri um að ræða rask kalkþörunga, en að umfang rasks væri óverulegt. Frekari texta eða tilvísanir var ekki að finna um mat Skipulagsstofnunar á því að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en um matskennda ákvörðun var að ræða um það hvort að einhver þau viðmið sem fram koma í 2. viðauka laga nr. 106/2000 gerðu það að verkum að umrædd framkvæmd teldist matsskyld.

Þau atriði sem talin eru upp í 21 lið í gátlista samsvara að meginstefnu til þeim atriðum sem fram koma í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Gátlistinn tekur þó ekki til allra þeirra þátta. Hann tekur t.a.m. ekki til eðlis framkvæmdar, að teknu tilliti til sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum og nýtingar náttúruauðlinda. Ekki heldur til staðsetningar framkvæmdar með tilliti til magns, gæða og getu til endurnýjunar náttúruauðlinda eða til eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar með tilliti til tímalengdar, tíðni og óafturkræfi áhrifa, sem og sammögnunar ólíkra umhverfisáhrifa á tilteknu svæði.

Umhverfisstofnun gerði ekki athugasemdir við framkvæmdina í umsögn sinni frá 5. júní 2015 en tók jafnframt fram að hún teldi að stærðarviðmið, sem ætlað væri að gefa vísbendingar um líkleg áhrif efnistöku á landi, ættu að öllum líkindum ekki við þegar um efnistöku á hafsbotni væri að ræða, sérstaklega þegar efni væri dælt upp af hafsbotni úr seti sem væri jafn viðkvæmt og kalkþörungar. Hafrannsóknastofnun gerði sömuleiðis ekki athugasemdir við framkvæmdina í sinni umsögn, dags. 11. s.m., en lagði áherslu á að vegna óvenju hægs vaxtar kalkþörunganna myndi það væntanlega taka hundruð ára fyrir þá og lífríkið tengt þeim að jafna sig. Það væri því ekki um að ræða sjálfbæra nýtingu þeirra.

Verður að telja að framangreindar athugasemdir umsagnaraðila hafi gefið Skipulagsstofnun tilefni til að taka afstöðu til þeirra, enda um að ræða atriði sem vörðuðu annars vegar tilefni breytingalaga nr. 138/2014, þ.e. að þó að framkvæmd væri undir viðmiðunarmörkum bæri að leggja mat á hana að teknu tilliti til viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000, og hins vegar atriði sem ekki komu til skoðunar með gátlistanum, s.s. nýting náttúrurauðlindar, endurnýjun hennar og óafturkræfi áhrifa. Ekki er vikið að þessu efni umsagnanna í hinni kærðu ákvörðun eða að áðurnefndum viðmiðum 2. viðauka. Varð ekki úr því bætt með því að tiltaka í ákvörðuninni að umfang rasks kalkþörunga sé óverulegt. Þá játar Skipulagsstofnun því í hinni kærðu ákvörðun að áhrif verði á svæði sem njóti verndar samkvæmt alþjóðlegum samningum og tilgreinir OSPAR-samninginn í því sambandi. Hins vegar er þar engin afstaða tekin til þess hvort og þá hvaða þýðingu sú vernd hefur. Loks er enga heimfærslu til laga eða annarra réttarreglna að finna í ákvörðuninni.

Samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar skal stjórnvaldsákvörðun fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald. Í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir um efni rökstuðnings að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds sé byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skuli í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Í athugasemdum við ákvæðið segir að um sé að ræða þau lágmarksskilyrði sem ávallt séu gerð til rökstuðnings.

Þrátt fyrir að ljóst sé að stefnt sé að einfaldari málsmeðferð við matsskylduákvarðanir vegna framkvæmda sem falla í flokk C verður ekki fram hjá því litið að lög nr. 106/2000 gera þá kröfu að lagt sé mat á það hvort þær framkvæmdir hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, að teknu tilliti til lögbundinna viðmiða 2. viðauka laganna. Slíkt mat getur aldrei orðið að fullu vélrænt og að mati úrskurðarnefndarinnar koma eyðublöð, sniðmát og gátlistar ekki í þess stað þótt slík verkfæri geti komið að góðum notum við matið og stuðlað að samræmi í ákvarðanatöku.

Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hvaða viðmið 2. viðauka laga nr. 106/2000 koma til skoðunar, en svo sem áður er rakið verður ekki ráðið af hinni kærðu ákvörðun og rökstuðningi hennar að mat Skipulagsstofnunar, þess efnis að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, hafi með fullnægjandi hætti farið fram samkvæmt nánar tilgreindum viðmiðum 2. viðauka. Er ekki hægt að útiloka að efni hinnar kærðu ákvörðunar hefði orðið annað ef svo hefði verið. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður því að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að ekki verði komist hjá ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. desember 2015 um að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon