Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

153/2017 Fjörður 1, Fjarðabyggð

Árið 2018, föstudaginn 19. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 153/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. desember 2017, er barst nefndinni 24. s.m., kæra eigendur fasteignarinnar Fjörður 1 í Mjóafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 16. nóvember 2017 að krefjast þess að rafstöðvarhús og geymslubygging á Firði 1 verði fjarlægð ásamt því að vegur sem liggur frá Mjóafjarðarvegi að íbúðarhúsi Fjarðar 1 verði fjarlægður. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar 16. nóvember 2017 var samþykkt að eigendum jarðarinnar Fjörður 1 í Mjóafirði yrði gert skylt að fjarlægja rafstöðvarhús og geymslubyggingu af jörðinni og afmá jarðrask vegna þeirra með stoð í 55. og 56. gr. laga  nr. 160/2010 um mannvirki. Var einnig samþykkt að þeim yrði gert að fjarlægja veg sem liggur frá Mjóafjarðarvegi að íbúðarhúsi Fjarðar 1 og afmá jarðrask vegna hans á grundvelli 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Kærendur skírskota til þess að smáhýsi undir rafstöð, eins og hér um ræði, sé undanþegin byggingarleyfi en rafstöðin sé nauðsyleg þegar nota þurfi tæki sem gangi fyrir rafmagni. Það myndi rýra mjög notagildi umræddrar fasteignar yrði þetta ekki hægt. Þá sé hið svokallað geymsluhús ekki annað en tveir gámar í fjárhústóft. Sé því ekki um byggingu að ræða í skilningi laga eða mannvirki eins og það sé skilgreint í 3. gr. mannvirkjalaga. Þá sé hinn umþrætti vegur í raun ekki vegur heldur varnargarður við lækinn Beljanda sem gerður hafi verið af Vegagerðinni á mörgum undanförnum árum. Sú framkvæmd hafi verið gerð í þeim tilgangi að verja þjóðveg nr. 953, Mjóafjarðarveg, fyrir ágangi lækjarins. Með tíð og tíma hafi varnargarðurinn vissulega verið kominn í það horf að hægt hafi verið að aka bifreiðum á honum en það breyti því þó ekki að um varnargarð sé að ræða en ekki veg.

Af hálfu Fjarðabyggðar er ekki gerð athugasemd við frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvörðunar. Hins vegar sé bent á að til skoðunar ætti að koma að vísa frá hluta af kröfum kærenda. Krafa um að rafstöðvarhús fái að standa en rafstöð yrði fjarlægð, virðist ekki geta komið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni enda hafi sveitarfélagið hvorki tekið afstöðu til slíkrar kröfu né ljóst að slík ákvörðun geti fallið undir lög nr. 160/2010 um mannvirki og valdsvið úrskurðarnefndarinnar. Ákvörðun sveitarfélagsins hafi verið efnislega rétt, málsmeðferð í samræmi við reglur og í öllu falli séu engir slíkir annmarkað á ákvörðun Fjarðabyggðar að varði ógildingu. Hvað varði sjónarmið um nauðsyn, þá telji sveitarfélagið það ekki geta staðist. Hvað sem líði virðingu sveitarfélags fyrir hagsmunum þegna, liggi fyrrir að mannvirkið teljist óleyfisframkvæmd þar sem ekki liggi fyrir samþykki allra sameigenda Fjarðar 1 um heimild til stöðu þess. Ekki sé unnt að fallast á að bygging geymsluhúsnæðis sé ekki byggingarleyfisskyld þótt hluti mannvirkisins séu gámar. Þá sé vegalagningin framkvæmdaleyfisskyld að áliti sveitarfélagsins og ljóst að farið hafi verið í framkvæmdir vegna vegarins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr.

Hin kærða ákvörðun felur í sér beitingu þvingunarúrræða gagnvart kærendum á grundvelli ákvæða laga um mannvirki nr. 160/2010 og skipulagslaga nr. 123/2010  vegna rafstöðvarhúss, ætlaðrar geymslubyggingar og vegs á lóðinni Fjörður 1 í Mjóafirði. Fyrir liggur að ýmis álitaefni eru uppi í málinu sem áhrif geta haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar sem rannsaka þarf frekar og hefur stjórnvald það sem tók hina kærðu ákvörðun ekki lagst gegn því að réttaráhrifum hennar verði frestað meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið og að um verulega íþyngjandi ákvörðun er að ræða fyrir kærendur, þykir rétt að fallast á kröfu þeirra um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 16. nóvember 2017 er frestað á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.