Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

18/2016 Skógarás

Árið 2017, föstudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2016, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2016 um að leggja sorpgjald að fjárhæð 39.200 á fasteignina Skógarás 1, Reykjavík, fastanúmer 204-6554.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. janúar 2016, er barst nefndinni 8. febrúar s.á., kærir A, Skógarási 1, Reykjavík, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2016 um að leggja sorpgjald að fjárhæð 39.200 á fasteignina Skógarás 1, Reykjavík, fastanúmer 204-6554. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 17. nóvember 2016.

Málavextir: Kærandi er eigandi fasteignarinnar Skógarás 1, fastanúmer 204-6554. Samkvæmt fasteignaskrá samanstendur fasteign kæranda af íbúð sem er skráð 129,3 m² og þremur bílskúrum sem eru skráðir samtals 73,9 m². Sorpgjald var lagt á fasteign kæranda í samræmi við gjaldskrá nr. 1251/2015 fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg. Kærandi er krafinn um kr. 21.200 fyrir gráa tunnu með skrefagjaldi og kr. 9.520 fyrir bláa tunnu með skrefagjaldi. Þrjár gráar og þrjár bláar tunnur eru í húsinu og er gjaldið reiknað útfrá hlutfalli eignar kæranda af heildarflatamáli fasteignarinnar að Skógarási 1, húsið er 763,7 m² og skráð stærð fasteignar kæranda, fastanúmer 204-6557, er 203,2 m².

Málsrök kæranda: Kærandi kveður fasteign sína vera 203,2 m² samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár en inni í þeirri tölu séu bílskúrar í séreign sem séu samtals 73,9 m² og sé íbúðin því 129,3 m². Í samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík og á heimasíðu Reykjavíkurborgar komi fram að gjöldunum skuli skipt eftir hlutfallstölu eigenda í viðkomandi sameign og samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg sé „tunnugjald“ vegna fasteignar hans reiknað út frá heildarfermetra tölu en þar sem bílskúrarnir séu séreign með sérstakan eignaskiptasamning geti ekki staðist að þeir eigi að reiknast með.

Húsfélag fyrir bílskúrana sé með sér kennitölu og húsfélagið fyrir íbúðarhúsið með aðra kennitölu. Húsfélag bílskúra hafi ekkert með sameign húsfélagsins í Skógarási 1 að gera. Atkvæðisréttur kæranda í húsfélaginu Skógarási 1 miðist við stærðina á íbúðinni, 129,3 m² og breyti eign hans á bílskúrunum engu þar um. Samkvæmt þinglýstum eignarskiptayfirlýsingum annars vegar fyrir bílskúrana og hins vegar fyrir Skógarás 1 þá séu bílskúrarnir ekki með neinn aðgang að sameign húss nr. 1 við Skógarás. Sé það því fullkomlega óeðlilegt og engin lagaheimild fyrir því að nota bílskúrana við útreikning hlufallstölu vegna sorpgjalda.

Í B-lið 45. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús sé talinn upp kostnaður sem skiptist að jöfnu á milli eignarhluta og í 5. tölulið sé talað um allan sameiginlegan rekstrarkostnað. Tunnuleiga og sorphirða hljóti að falla þar undir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg bendir á að kærandi sé þinglýstur eigandi fasteignar með fastanúmer 204-6554, sem taki til matshluta 01-0302, 04-0102, 04-0105 og 04-0106. Hver og einn matshluti eigi hlutdeild í sameign og hafi sameiginleg hlutdeild allra matshluta verið lögð til grundvallar álagningu. Matshluti 01 sé íbúð kæranda en matshlutar 04 séu þrír bílskúrar í eigu kæranda.

Í kæru sé vísað til þess að verið sé að kæra álagningu „tunnugjalds“ og sé við það miðað að með því sé verið að kæra álagningu gjalds vegna blandaðs úrgangs skv. 2. gr. gjaldskrár nr. 1251/2015 fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavík. Í kæru komi fram að álagning miði við að fasteign kæranda sé 203,2 m² að stærð en hið rétta sé að íbúðin sé 129,3 m² og kærandi telji að miða eigi álagninguna við þá stærð.

Gjaldtökuheimild sé í 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs en í 4. málslið 2. mgr. ákvæðisins segi að sveitarstjórn megi ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Hugtakið fasteignareining sé ekki skilgreint í lögunum og ekki sé að finna skýringu á því í öðrum lögum. Hugtakið gefi þó til kynna að verið sé að miða við einhverja heild fasteignar, þ.e. fleiri en eina fasteign eða matshluta, sem samkvæmt ákvæðum laga, reglna eða eðlis máls eigi að teljast sem ein eining. Í því samhengi verði að líta til ákvæða laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, en í 10. tölulið 1. mgr. 5. gr. laganna segi að séreign teljist m.a. aðrir hlutar húss eða lóðar, bílskúr á lóð húss eða búnaður og lagnir sem þinglýstar heimildir segi séreign. Í 22. gr. sömu laga sé fjallað um bílskúra og ráðstöfun þeirra. Í 1. mgr. segi að bílskúr, m.a. þeir sem standi sjálfstæðir á lóðum, skuli fylgja ákveðnum séreignarhlutum í húsinu og sérstök sala þeirra sé óheimil. Í 3. mgr. segi að óheimilt sé að aðskilja bílskúr við sölu á séreignarhluta. Af þessum ákvæðum megi draga þá ályktun að þegar fjallað sé um fasteignareiningu geti séreign í fjölbýli og bílskúr á sameiginlegri lóð talist fasteignareining. Bílskúr geti ekki verið sjálfstæð séreign og skipti þar engu þótt sérstakt húsfélag taki til bílskúra, enda sé þar einungis verið að nýta heimild til sérstaks húsfélags samkvæmt fjöleignarhúsalögum.

Í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fyrir Skógarás 1-5, bílgeymslur, sé fjallað um bílskúra á sameiginlegri lóð fasteignanna nr. 1,3 og 5 við Skógarás. Bílskúrar, sem séu 11 talsins, á sameiginlegri lóð, séu taldir sem sér matshluti (04) gagnvart öðrum matshlutum á lóðinni. Í eignaskiptayfirlýsingunni komi fram að hver og einn bílskúr eigi hlutdeild í sameiginlegri lóð, aðgreint frá hlutdeild í matshluta 04. Þessi skilgreining á stöðu bílskúranna renni enn fremur stoðum undir skilgreiningu þá á fasteignareiningu sem áður hafi komið fram. Með vísan til þess leiki enginn vafi á því að íbúð kæranda og bílskúrar í hans eigu teljist fasteignareining í skilningi laga nr. 55/2003. Í því samhengi skipti engu máli hvort bílskúrar séu reknir í sérstöku húsfélagi sem sérstök deild innan þess á sér kennitölu. Slík ráðstöfun sé gerð í hagræðingarskyni til að einfalda stjórn fasteignarinnar. Bílskúrunum fylgi aftur á móti eignarhlutdeild í lóð og teljist því hluti hennar.

Í 45. gr. fjöleignarhúsalaga sé fjallað um skiptingu sameiginlegs kostnaðar. Álagning sorphirðugjalda fari eftir A-lið ákvæðisins, sem kveði á um að sameiginlegum kostnaði skuli skipt eftir hlutfallstölu, sbr. 14. gr. laganna. Skipting sameiginlegs kostnaðar samkvæmt hlutfallstölu sé meginregla laganna en undantekningar sé að finna í B- og C-lið ákvæðisins.

Rétt sé að geta þess að eigendum fasteigna beri að greiða gjald fyrir meðhöndlun úrgangs fyrir allar fasteignir og skipti þar ekki máli hvort fasteign sé skilgreind sem bílskúr. Við álagningu gjalda sé keyrð saman heildarstærð fasteignareiningar samkvæmt skráningu í fasteignaskrá Þjóðskrár. Hlutdeild kæranda í sameign með vísan til þinglýstrar eignaskiptayfirlýsingar hafi verið grundvöllur álagningar á sameiginlegum kostnaði við sorphirðu. Álagning sorphirðugjalda á fasteign kæranda sé í fullu samræmi við þær reglur sem gildi um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík og hafi borginni verið rétt og skylt að miða við samtölu hlutfallstölu allra séreignarhluta hans í fasteigninni.

Mismunur á rekstrartekjum og rekstrarkostnaði hafi verið eftirfarandi á síðustu árum í krónum talið:

Ár                                                    2016                 2015                 2014
Rekstrartekjur                      915.612.709    859.334.530    810.552.372
Rekstrarkostnaður              952.812.768    923.969.922    881.010.101
Rekstrarhalli                           37.200.059       64.635.392      70.457.729

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli 2. mgr. sömu lagagreinar skal sveitarstjórn setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig heimild í þágildandi 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, nú 59. gr. Samþykkt sú er í gildi var er umrætt gjald var lagt á kæranda var nr. 228/2013 um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. mars 2013.
 
Sveitarfélög skulu skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er þeim heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn og gerð úrgangs, losunartíðni og frágang úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. síðasta málsl. 2. mgr. 23. gr. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Er gjaldskrá sú sem hin kærða álagning byggir á nr. 1251/2015 og var hún birt 6. janúar 2016.

Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Hefur Reykjavíkurborg valið þá leið að jafna kostnaði vegna meðhöndlunar sorps með því að innheimta fast gjald á hverja fasteignareiningu samkvæmt afdráttarlausri heimild þar um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003. Fasteignir eru skráðar í fasteignaskrá samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Hugtakið fasteignareining er ekki skilgreint í lögunum, en fasteignir, hluta þeirra og einstök mannvirki skal skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá, sbr. 2. mgr. 3. gr. sömu laga. Er og í b-lið ákvæðisins tekið fram að skrá skuli séreignarhluta í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 6/2001 skulu fasteignir í fjöleign skilgreindar með hlutfallstölu og fer um skráningu fasteigna í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús.

Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. samþykktar nr. 228/2013 er sorphirðugjöldum fyrir heimilissorp í fjöleignarhúsum skipt eftir hlutfallstölum eigenda í viðkomandi sameign, sbr. 43. og 45. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Samkvæmt 45. gr. þeirra laga skal allur sameiginlegur kostnaður, hverju nafni sem hann nefnist, skiptast á eigendur eftir hlutfallstölum eignarhluta í viðkomandi sameign nema kostnaðurinn falli ótvírætt undir nánar tilgreind tilvik. Í 7. gr. samþykktar nr. 228/2013 segir jafnframt að útreikningur hlutfallstölu skuli byggður á flatarmáli eignarhluta hvers eiganda. Fasteign kæranda að Skógarási 1 er með fastanúmerið 204-6554 samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og er íbúðareignin skráð 203,2 m² að flatarmáli. Samkvæmt skránni skiptist eignin í íbúð sem er 129,3 m² og þrjá bílskúra sem eru alls 73,9 m² að flatarmáli. Bílskúrarnir eru samkvæmt þessu hluti af eignarhluta kæranda í fasteigninni og er hans eignarhlutfall í fjöleignarhúsinu um 27%. Greiðir hann fyrir afnot af tunnum fyrir heimilissorp og pappír í samræmi við þá hlutfallstölu. Verður með hliðsjón af greindum ákvæðum laga nr. 6/2001 að telja að viðhlítandi lagaheimildir hafi legið að baki þessari tilhögun gjaldtöku Reykjavíkurborgar.

Séu rekstrartölur fyrir sorphirðu í Reykjavíkurborg fyrir árin 2014, 2015 og 2016 skoðaðar sést að rekstrarkostnaður er hærri en rekstrartekjur fyrir öll árin og er sú niðurstaða í samræmi við áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um að álögð gjöld megi ekki vera hærri en kostnaður af rekstri heilbrigðiseftirlits.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2016 um að leggja sorpgjald að fjárhæð 39.200 á fasteignina Skógarás 1, Reykjavík, fastanúmer 204-6554.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir