Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2017 Esjugrund

Með
Árið 2017, mánudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2017, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 22. janúar 2017 um álagningu gjalds vegna endurvinnslustöðva fyrir fasteignina Esjugrund 28.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. febrúar 2017, er barst nefndinni 21. s.m., kærir A, Esjugrund 28, Reykjavík, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 21. janúar 2017 að leggja á gjald vegna endurvinnslustöðva fyrir fasteign kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 21. mars 2017.

Málavextir: Álagningarseðill fasteignagjalda hjá Reykjavíkurborg fyrir árið 2017 er dagsettur 22. janúar 2017. Var kæranda m.a. gert að greiða vegna fasteignar sinnar kr. 13.340 í gjald vegna endurvinnslustöðva. Er það árgjald fyrir hverja íbúð samkvæmt gjaldskrá.

Málsrök kæranda: Kærandi krefst þess að Reykjavíkurborg felli niður kröfu um gjald vegna endurvinnslustöðva fyrir árið 2017. Fasteign hans sé á Kjalarnesi en haustið 2010 hafi stjórn Sorpu bs. ákveðið að loka móttökustöð fyrir sorp á Kjalarnesi, sem hafi verið þvert á þau loforð sem íbúum þar hefðu verið gefin árið 1997, þegar Kjalarneshreppur hafi sameinast Reykjavík.

Búið sé að setja upp grenndarstöð á Kjalarnesi en hún komi ekki að gagni þegar komi að móttöku á garðaúrgangi eða byggingaúrgangi. Til að losa sig við þessháttar þurfi íbúar að keyra 30 km eða meira. Algengast sé að íbúar safni slíkum úrgangi saman á lóðum sínum og keyri á móttökustöð Sorpu í Mosfellsbæ. Þar sem um mikið magn sé að ræða þá þurfi þeir sem þetta geri að greiða rúmmetragjald, sem sé að lágmarki kr. 2.000. Niðurstaðan verði sú að margir keyri grófan úrgang upp í Esjuhlíðar, eða niður í fjöru, þar sem hann sé til lítillar prýði. Jafnframt sé algengt að íbúar brenni allt timbur sem til falli, hvort sem um sé að ræða hreint timbur eða ekki. Þetta valdi miklum umhverfisáhrifum á svæðinu.

Rök stjórnar Sorpu fyrir því að loka móttökustöðinni hafi verið að kostnaður við hana væri fjórar til fimm milljón króna á ári. Álagt gjald á Kjalarnesi vegna endurvinnslustöðva sé samtals kr. 2.668.000, en ekki sé veitt þjónusta fyrir gjaldið, eins og áður segi. Fram á mitt ár 2016 hafi verið tekið við skilagjaldskyldum umbúðum í Grundarhverfi, en því hafi verið hætt. Þetta hafi leitt til þess að farið sé að bera á brotnum glerflöskum og fjúkandi umbúðum í hverfinu, sem sé óviðunandi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að sjö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafi stofnað Sorpu bs. Tilgangur fyrirtækisins sé að annast meðhöndlun úrgangs fyrir sveitarfélögin, sbr. lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Sorpa sinni sínu hlutverki m.a. með því að reka sex endurvinnslustöðvar og u.þ.b. 80 grenndarstöðvar, þar sem úrgangi frá íbúum höfuðborgarsvæðisins sé veitt viðtaka. Reykjavíkurborg fjármagni kostnaðarhlutdeild sína í rekstri framangreindra stöðva með álagningu hins umdeilda gjalds, sbr. 4. mgr. 2. gr. gjaldskrár nr. 1191/2016 fyrir sorphirðu og meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg. Innheimt sé fast gjald af hverri fasteignareiningu sem standi þjónustan til boða, en mislangt sé í þjónustuna.

Nefna megi að 14 km séu frá Grundarhverfi á Kjalarnesi að endurvinnslustöð Sorpu við Blíðubakka í Mosfellsbæ. Íbúar á Álftanesi í Garðabæ þurfi t.d. að fara um svipað langan veg í næstu endurvinnslustöð. Síðustu fjögur árin hafi Kjalnesingum verið boðið að skila garðaúrgangi, trjágreinum og jarðvegi gjaldfrjálst yfir sumartímann við áhaldahúsið á Kjalarnesi og því sé það rangt að keyra þurfi 30 km til að losna við þann úrgang.

Grenndarstöð sé staðsett á Kjalarnesi þar sem yfir 80% íbúanna hafi aðgang að henni í 500 m fjarlægð eða minna. Þar sé tekið við pappír, plasti, gleri, klæðnaði og drykkjarumbúðum með skilagjaldi. Samanborið við aðrar grenndarstöðvar þá safnist minnsta magnið á Kjalarnesi. Úrvinnslusjóður greiði úrvinnslugjald fyrir pappírsefni og plast, sem standi að hluta undir rekstri grenndar- og endurvinnslustöðvanna. Minnstar tekjur fáist því úr sjóðnum á móti kostnaði vegna reksturs grenndarstöðvarinnar á Kjalarnesi. Kjalnesingum hafi einnig verið boðið upp á fræðslu um heimajarðgerð til að jarðgera garðaúrgang og annan lífrænan úrgang, en ekki hafi verið boðið upp á þá fræðslu í öðrum hverfum borgarinnar. Reykjavíkurborg hafi kostað leigu og losun á gámum í tengslum við hreinsunarátak á Kjalarnesi, m.a. fyrir grófan úrgang. Loks megi benda á að frá því í byrjun árs 2016 hafi hirða á pappírsefnum verið á 14 daga fresti á Kjalarnesi en ekki á 21 dags fresti eins og annarsstaðar í borginni. Sama gjald liggi þó að baki. Ákvörðun hafi verið tekin um framangreint vegna þess að íbúar þurfi nú að fara lengri veg með úrgangsefnin.

Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 sé sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi og beri hún ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs. Þá beri henni að sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang. Reykjavíkurborg hafi sett gjaldskrá nr. 1191/2016 fyrir sorphirðu í Reykjavík, sem birt hafi verið 28. desember 2016. Þar komi fram að gjald vegna reksturs grenndar- og endurvinnslustöðva sé kr. 13.340 á íbúð og sé því ætlað að standa undir kostnaðarhlutdeild Reykjavíkurborgar í rekstri grenndar- og endurvinnslustöðva Sorpu bs.

Mismunur á álögðum gjöldum og kostnaði vegna grenndar- og endurvinnslustöðva hafi verið eftirfarandi á síðustu árum í krónum talið:

Ár                                         2016                     2015               2014
Álögð gjöld                    397.447.000    343.847.000    322.028.000
Kostnaður v. stöðvar    427.811.000    384.580.000    334.287.000
Tap                                     30.364.000      40.733.000      12.259.000

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Setur sveitarstjórn samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum samkvæmt þeim, sbr. 2. mgr. 8. gr., sbr. einnig þágildandi 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, nú 59. gr. laganna, sbr. lög nr. 66/2017. Sú samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg, sem í gildi var þegar hið kærða gjald var lagt á, var nr. 228/2013.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Ákvæðinu var breytt með 11. gr. laga nr. 63/2014 um breytingu á lögum nr. 55/2003 og var heimild sveitarfélaga til innheimtu gjalds breytt í skyldu. Um nefnda breytingu segir í frumvarpi til laganna að greininni sé breytt til að uppfylla kröfu tilskipunar 2008/98/EB um að svokölluð greiðsluregla skuli vera lögð til grundvallar, en inntak hennar sé að sá borgi sem mengi. Samkvæmt 23. gr. laganna er sveitarfélögum jafnframt heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum þeirra, svo sem tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, sbr. 3. mgr. 23. gr., og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg er nr. 1191/2016.

Samanber áður tilvitnaða 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 skal sveitarstjórn sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu, eftir atvikum í samstarfi við aðrar sveitarstjórnir. Sorpa bs. er byggðasamlag í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt 2. gr. stofnsamnings Sorpu er tilgangur byggðasamlagsins að annast meðhöndlun úrgangs, sbr. lög nr. 55/2003, fyrir þau sveitarfélög sem eru stofnaðilar að því. Samkvæmt skilgreiningu í 3. gr. laga nr. 55/2003 telst meðhöndlun úrgangs vera söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim hefur verið lokað. Samkvæmt 6. mgr. 7. gr. samþykktar nr. 228/2013 og 2. gr. gjaldskrár nr. 1191/2016 er gjald fyrir rekstur grenndar- og endurvinnslustöðva lagt á allar íbúðir í Reykjavík og samkvæmt gjaldskránni er gjaldið kr. 13.340 fyrir hverja íbúð. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar. Hefur Reykjavíkurborg valið þá leið að jafna sínum hluta af kostnaði við grenndar- og endurvinnslustöðvar Sorpu niður á áætlaðan fjölda notenda, í samræmi við skýra heimild þar um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003. Þó að endurvinnslustöð sé ekki í næsta nágrenni við heimili kæranda eru sex endurvinnslustöðvar starfræktar innan starfssvæðis Sorpu á höfuðborgarsvæðinu, m.a. í Mosfellsbæ, og getur kærandi því ekki krafist þess að hið kærða gjald verði fellt niður á þeim forsendum að þjónusta komi ekki á móti því. Samkvæmt þeim gögnum sem Reykjavíkurborg hefur lagt fram eru álögð gjöld að jafnaði ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og fullnægir gjaldið því áskilnaði áður tilvitnaðra ákvæða 23. gr. laga nr. 55/2003 og þágildandi 25. gr. laga nr. 7/1998, nú 59. gr.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur tafist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 22. janúar 2017 um álagningu gjalds vegna endurvinnslustöðva fyrir fasteignina Esjugrund 28.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

77/2017 Hringvegur um Hornafjörð

Með
Árið 2017, mánudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2017, kæra á afgreiðslu Skipulagsstofnunar frá 4. júlí 2016 á beiðni um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hringveg um Hornafjörð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júlí 2017, sem barst nefndinni 10. s.m., framsendir umhverfis- og auðlindaráðuneytið erindi A, A og A, Seljavöllum, 781 Höfn í Hornafirði, og A, Dilksnesi, 781 Höfn í Hornafirði, dags. 3. október 2016, sem móttekið var sama dag hjá ráðuneytinu, þar sem kærð er afgreiðsla Skipulagsstofnunar frá 4. júlí 2016 um að vísa frá erindi kærenda varðandi endurskoðun matsskýrslu fyrir Hringveg um Hornafjörð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 18. júlí 2017.

Málavextir: Hinn 5. desember 2006 kynnti Skipulagsstofnun niðurstöðu sína um tillögu Vegagerðarinnar að matsáætlun um lagningu Hringvegar um Hornafjarðarfljót í Sveitarfélaginu Hornafirði. Matsskýrsla framkvæmdaraðila, frá apríl 2009, mun hafa verið send Skipulagsstofnun í júní s.á. þar sem óskað var eftir áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Lá álit Skipulagsstofnunar fyrir 7. ágúst 2009.

Með bréfi kærenda til Skipulagsstofnunar, dags. 25. apríl 2016, var þess óskað að Skipulagsstofnun tæki ákvörðun um hvort endurskoða þyrfti matsskýrslu framkvæmdaraðila vegna fyrrnefndra framkvæmda í samræmi við 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var skírskotað til þess að þar kæmi fram að Skipulagsstofnun gæti ákveðið að endurskoða skyldi matsskýrslu, í heild eða hluta, ef forsendur hefðu breyst verulega frá því að álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum lá fyrir. Teldu kærendur, sem eru landeigendur og stunda kartöflurækt á svæðinu, að skilyrði  ákvæðisins væri uppfyllt og að óhjákvæmilegt væri að endurskoða matsskýrsluna.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um framangreinda beiðni lá fyrir 4. júlí 2016. Þar var m.a. vísað til þess að mælt væri fyrir um það í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 að ef framkvæmdir hæfust ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lægi fyrir skyldi viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar stofnunarinnar um það hvort endurskoða þyrfti að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda væri veitt. Tók Skipulagsstofnun fram að hún teldi að gæta yrði innra samræmis milli 1. og 2. mgr. 12. gr. nefndra laga, þannig að túlka bæri og beita ákvæði 2. mgr. með hliðsjón af ákvæði 1. mgr. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar við Hringveg um Hornafjörð hefði verið kynnt 7. ágúst 2009 og væru því efnisskilyrði 1. mgr. 12. gr. laganna ekki uppfyllt. Með hliðsjón af framangreindu væri það ákvörðun Skipulagsstofnunar að vísa frá beiðni kærenda um endurskoðun matsskýrslu.

Málsrök kærenda: Kærendur mótmæla lögskýringu Skipulagsstofnunar. Við skoðun á 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé ljóst að 2. mgr. hennar sé algjörlega sjálfstæð og óháð tímaskilyrði því sem nefnt sé í 1. mgr. ákvæðisins. Rétt sé að í 2. mgr. sé sérstaklega vísað til 1. mgr., en ekki sé þó vísað sérstaklega til þess tímaskilyrðis sem þar komi fram, heldur þeirrar heimildar sem stofnunin hafi til að ákveða að matsskýrsla framkvæmdaraðila skuli endurskoðuð.

Með 2. mgr. 12. gr. laganna sé sleginn sá varnagli að Skipulagsstofnun geti ákveðið að endurskoðun skuli fara fram þegar forsendur framkvæmda hafi breyst verulega. Geti það gerst án þess að tímaskilyrði 1. mgr. sé uppfyllt. Sé í þessu samhengi bent á að ný lög um náttúruvernd hafi tekið gildi í nóvember 2015, sem séu víðtækari en eldri lög um náttúruvernd nr. 44/1999. Ísland hafi gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar og landnotkun á svæðinu hafi breyst að miklu leyti.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun telur að kæruheimild 1. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum eigi ekki við í máli þessu þar sem hún miðist við að stofnunin hafi tekið efnislega ákvörðun um það hvort endurskoða beri matsskýrslu í heild eða að hluta. Með ákvörðun sinni sé Skipulagsstofnun ekki að taka ákvörðun um endurskoðun heldur sé hún að vísa frá beiðni um endurskoðun. Sé þessu til hliðsjónar vakin athygli á athugasemdum við 7. gr. frumvarps er orðið hafi að lögum nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000. Afgreiðsla Skipulagsstofnunar sé stjórnvaldsákvörðun. Með hliðsjón af því, tilvitnuðum ummælum úr lögskýringargögnum og því að ekki verði ráðið með skýrum hætti af 1. mgr. 14. gr. laganna að hún gildi um frávísun á beiðni um endurskoðun, eigi kæruheimild 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við í málinu.

Stofnunin sé ósammála túlkun kærenda á 12. gr. laga nr. 106/2000. Í athugasemdum við 11. gr. frumvarps þess sem orðið hafi að lögum nr. 74/2005, sem breytt hafi 12. gr. í núverandi horf, komi m.a. eftirfarandi fram: „Þau skilyrði sem sett eru fyrir slíkri endurskoðun eru í fyrsta lagi að framkvæmdir hafi ekki hafist innan sex ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lá fyrir.“ Í meðförum Alþingis á framangreindu frumvarpi hafi árin orðið að tíu. Renni tilvitnuð orð stoðum undir þá afstöðu Skipulagsstofnunar að túlka og beita beri 2. mgr. 12. gr. með hliðsjón af 1. mgr. Löggjafinn hafi með þessum orðum ákveðið að endurskoðun matsskýrslu skuli háð ákveðnum tímaskilyrðum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sæta m.a. kæru til úrskurðarnefndarinnar ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 12. gr. um endurskoðun matsskýrslu. Með lögum nr. 74/2005 var lögum nr. 106/2000 breytt og þar m.a. bætt við nýrri 12. gr. um endurskoðun matsskýrslu. Kæruheimildum var jafnframt breytt og mælt fyrir um það í nýrri 14. gr. að ákvörðun Skipulagsstofnunar samkvæmt 12. gr. sætti kæru til ráðherra og í nýrri 15. gr. var kveðið á um kæruheimild til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfis fyrir matsskyldar framkvæmdir. Var tekið fram í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 74/2005 að með lögunum væri gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun gæfi álit sitt á matsskýrslu framkvæmdaraðila og að eftir þá breytingu væri óeðlilegt að það álit yrði kært til umhverfisráðherra eitt og sér heldur væri lagt til að það yrði borið undir úrskurðarnefndina í tengslum við kæru á ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu byggingar- eða framkvæmdaleyfis. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var sett á fót með lögum nr. 130/2011 og með 25. gr. laga nr. 131/2011, um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins, var 14. gr. laga nr. 106/2000 breytt á þann veg að ákvarðanir Skipulagsstofnunar sem þar voru nefndar skyldu framvegis sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í stað ráðherra. Var tekið fram í athugasemdum með grein þeirri í frumvarpi til laga nr. 131/2011 er varð 25. gr. laganna að þar sem þær réðu úrslitum um rétt almennings til frekari þátttöku í ákvarðanatöku vegna leyfisveitinga og til réttlátrar málsmeðferðar þætti rétt að ákvarðanir um matsskyldu fengjust endurskoðaðar fyrir óháðum og hlutlausum úrskurðaraðila. Ákvarðanir um endurskoðun matsskýrslu væru sömuleiðis mikilvægur þáttur í afmörkun málsmeðferðar. Enn var lögum nr. 106/2000 breytt með lögum nr. 138/2014, en efnislegar breytingar urðu ekki á kæruleið til úrskurðarnefndarinnar. Í  athugasemdum við 7. gr. frumvarps til laga nr. 138/2014 kemur m.a. fram að áfram séu ákvarðanir um matsskyldu framkvæmdar kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, einnig ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 5. gr. laganna ásamt 12. gr. þeirra. Aðrar ákvarðarnir sem teknar séu á grundvelli laganna séu hins vegar kæranlegar til ráðherra. Jafnframt er tekið fram að það sé meginregla í stjórnsýslurétti að ráðherra fari með yfirstjórn stjórnsýslunnar nema hún sé undanskilin í lögum. Til ráðherra verði því kærðar allar stjórnvaldsákvarðanir lægra settra stjórnvalda sem skýrlega hafi ekki verið undanþegnar valdi  hans. Samkvæmt 4. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum fari ráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka yfir.

Skipulagsstofnun tók þá ákvörðun að vísa frá beiðni kærenda um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hringveg um Hornafjörð og skírskotaði til þess að efnisskilyrði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 væri ekki uppfyllt. Leiðbeint var um að ákvörðunin væri kæranleg til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Fól ákvörðunin í sér þær lyktir málsins gagnvart kærendum að endurskoðun færi ekki fram á matsskýrslunni á grundvelli nefndrar 12. gr. Verður ákvæði 14. gr. laga nr. 106/2000 ekki skilið á annan veg en þann að hver sú ákvörðun Skipulagsstofnunar sem lýtur að endurskoðun matsskýrslu skv. 12. gr. sömu laga, sem áður sætti kæru til ráðherra, sé nú kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Annar skilningur á sér hvorki stoð í lagatextanum né í lögskýringargögnum þeim sem áður hafa verið rakin. Er og ekki sérstaklega tekið fram í 14. gr. laganna að undanskilin kæruheimild til nefndarinnar sé ákvörðun stofnunarinnar um að vísa frá beiðni um endurskoðun.

Að framangreindu virtu verður að líta svo á að kæruheimild 14. gr. laganna eigi við. Að þeirri niðurstöðu fenginni er ljóst að þegar kæra í málinu barst umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, tæpum þremur mánuðum eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar, var eins mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í ljósi þess að kærendum var leiðbeint um kæruleið til ráðuneytisins og þriggja mánaða kærufrest þykir afsakanlegt að kæra hafi borist að kærufresti liðnum og verður málið því tekið til efnislegrar úrlausnar í samræmi við ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í máli þessu er deilt um þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að vísa frá beiðni kærenda um endurskoðun matsskýrslu, með vísan til þess að ekki væru fyrir hendi skilyrði til endurskoðunar samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000, enda væru ekki liðin tíu ár frá því að Skipulagsstofnun veitti álit sitt á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Við setningu laga nr. 106/2000 kom til sögunnar nýmæli frá fyrri lögum um mat á umhverfisáhrifum þess efnis að hæfust framkvæmdir ekki innan tíu ára frá úrskurði Skipulagstofnunar skyldi stofnunin ákvarða hvort mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar skyldi fara fram að nýju, sbr. 7. mgr. 11. gr. laganna. Var tekið fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögunum að forsendur sem fyrra mat byggðist á kynnu að breytast með tímanum og því væri ákvæði þetta lagt til. Með lögum nr. 74/2005 var lögum nr. 106/2000 breytt og er nú í 12. gr. þeirra laga fjallað um endurskoðun matsskýrslu. Segir nú í 1. mgr. hennar: „Ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir skal viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt.“ Í 2. mgr. segir m.a. svo: „Skipulagsstofnun getur ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdaraðila skv. 1. mgr. ef forsendur hafa breyst verulega frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina.“ Var tekið fram í athugasemdum með greininni í frumvarpi til breytingalaga nr. 74/2005 að það væri að nokkru leyti byggt á ákvæði gildandi laga þar sem kveðið væri á um hvenær mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar skyldi fara fram að nýju. Einnig var tiltekið að þau skilyrði sem sett væru fyrir slíkri endurskoðun væru í fyrsta lagi að framkvæmdir hefðu ekki hafist innan sex ára frá því að álit Skipulagstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lægi fyrir. Jafnframt var tekið fram að í 2. mgr. væri kveðið á um í hvaða tilvikum Skipulagsstofnun væri heimilt að ákveða að endurskoða bæri matsskýrslu og tiltekið að forsendur þyrftu að hafa breyst verulega frá því að álitið hefði legið fyrir. Í meðförum Alþingis urðu nokkrar breytingar á frumvarpinu og var því m.a. breytt til samræmis við álit meirihluta umhverfisnefndar frá 4. maí 2005, þess efnis að í stað sex ára viðmiðsins yrði miðað við tíu ár, eins og væri í gildandi lögum.

Að virtri forsögu 12. gr. laga nr. 106/2000, og með hliðsjón af lögskýringargögnum þar um, er það álit úrskurðarnefndarinnar að beita beri 2. mgr. 12. gr. með hliðsjón af 1. mgr. ákvæðisins. Myndi önnur túlkun leiða til þess að Skipulagsstofnun gæti að öðrum kosti endurskoðað matsskýrslu án tillits til þess hversu langur tími væri liðinn frá því að álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum lá fyrir teldi hún skilyrði ákvæðisins fyrir endurskoðun uppfyllt. Verður ekki ráðið af þeim gögnum sem að framan eru rakin að það hafi verið ætlun löggjafans að lögfesta svo ríka heimild til endurskoðunar Skipulagsstofnun til handa. Þvert á móti benda gögnin til þess að stefnt hafi verið að ákveðinni festu, þótt svigrúm væri til endurskoðunar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Fullnægja þarf tveimur skilyrðum samkvæmt framangreindu áður en til þess kemur fyrir Skipulagsstofnun að meta hvort forsendur hafi breyst verulega frá því að álit hennar um mat á umhverfisáhrifum lá fyrir. Annars vegar að framkvæmdir hefjist ekki innan tíu ára frá áliti stofnunarinnar og hins vegar skal viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um það hvort þörf sé á því að endurskoða matsskýrslu framkvæmdaraðila. Eins og fyrr segir fóru kærendur en ekki leyfisveitandi fram á það við Skipulagsstofnun, með bréfi, dags. 25. apríl 2016, að stofnunin tæki um það ákvörðun hvort endurskoða þyrfti matsskýrslu framkvæmdaraðila vegna Hringvegar um Hornafjörð, en þá voru ekki liðin tíu ár frá því að álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir hinn 7. ágúst 2009. Samkvæmt því var hvorugu framangreindra skilyrða fullnægt og Skipulagsstofnun því óheimilt að taka um það ákvörðun hvort endurskoða þyrfti matsskýrslu framkvæmdaraðila. Var stofnuninni því eins og atvikum máls þessa er háttað rétt að vísa málinu frá.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. júlí 2016 um að vísa frá beiðni um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hringveg um Hornafjörð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

96/2017 Bæjargarður íþróttasvæði Garðabær

Með

Árið 2017, þriðjudaginn 7. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2017, beiðni um að úrskurðað verði um það hvort framkvæmdir við íþróttasvæði í Bæjargarði, Garðabæ, séu háðar byggingarleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, fór eigandi, Túnfit 1, Garðabæ, fram á að tekin verði afstaða til þess hvort framkvæmdir við íþróttasvæði í Bæjargarði, Garðabæ, séu háðar byggingarleyfi.

Mál þetta sætir meðferð skv. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Málsatvik og rök: Hinn 3. mars 2017 tóku gildi breytingar á deiliskipulagi skóla- og íþróttasvæðis við Ásgarð og deiliskipulagi Bæjargarðs í Garðabæ vegna tiltekinna íþróttamannvirkja. Í kjölfarið samþykkti bæjarstjórn hinn 18. maí 2017 umsókn bæjarverkfræðings um leyfi til framkvæmda við gerð tveggja nýrra æfingavalla og til breytinga á núverandi æfingavelli á Ásgarðssvæði og í Bæjargarði. Var framkvæmdaleyfi gefið út 19. s.m. Eru þar heimilaðar framkvæmdir við jarðvinnu, yfirborðsfrágang og gerð lagna. Í leyfinu er tekið fram að það nái ekki til breikkunar núverandi æfingavallar og tilfærslu ljósamastra, sem deiliskipulagsbreyting geri ráð fyrir.

Álitsbeiðandi bendir á að framkvæmdin sem um ræði sé bygging á upplýstum gervigrasvelli þar sem stundaðar verði skipulagðar knattspyrnuæfingar. Samkvæmt gr. 2.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2010 séu íþróttasvæði af þessu tagi byggingarleyfisskyld. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé það meðal skilgreindra markmiða laganna að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi, endingu, útlit og hagkvæmni bygginga og annarra mannvirkja sé fullnægt. Þar sem Garðabær hafi ekki aflað byggingarleyfis fyrir byggingu gervigrasvallarins sé kröfum um slíkt eftirlit ábótavant. Þá geri síðustu útboðsteikningar Garðabæjar ráð fyrir 2 m hárri girðingu umhverfis völlinn, en samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé slík girðing byggingarleyfisskyld, enda falli hún ekki undir undanþágu f-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð.

Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að umræddar framkvæmdir í Bæjargarði feli í sér mótun svæðisins fyrir íþróttaiðkun og almenna útivist með lagningu gervigrasvallar og blakvalla til almenningsnota. Framkvæmdirnar geti ekki talist byggingarleyfisskyldar samkvæmt lögum nr. 160/2010, enda sé ekki um það að ræða að verið sé að reisa mannvirki í þeim skilningi að á svæðinu verði jarðföst hús eða byggingar. Einstakir eða afmarkaðir hlutar framkvæmdanna séu ekki þess eðlis að afla þurfi byggingarleyfis vegna þeirra.

Þá sé bent á að í 2. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi komi fram að við veitingu framkvæmdaleyfis eigi m.a. að tryggja faglegan undirbúning framkvæmdanna, gæta þess að framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir og tryggja virkt eftirlit með því að framkvæmdir séu í samræmi við útgefið leyfi.

Niðurstaða: Í 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er mælt fyrir um að leiki vafi á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um það álitaefni. Samkvæmt texta ákvæðisins er aðild að slíku máli ekki bundin við umsækjanda og hlutaðeigandi sveitarstjórn, svo sem gert er í 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hvað varðar óvissu um framkvæmdaleyfisskyldu. Verður aðild að máli þessu því ekki einskorðuð við nefnda aðila heldur við þá sem hagsmuna eiga að gæta í tilefni af fyrirhugaðri framkvæmd. Málshefjandi býr í næsta nágrenni við umrætt íþróttasvæði og telst því hafa lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um mannvirki gilda þau um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofanjarðar eða neðan, innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar. Lögin gilda um alla þætti mannvirkja, þ.m.t. lagnir, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. Þau gilda einnig um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða, girðingar í þéttbýli, skilti, möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur, móttökudiska og tengivirki, gáma og leik- og íþróttasvæði. Í 1. mgr. 9. gr. nefndra laga er kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. sbr. 2. mgr., eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Undanþegin byggingarleyfi eru þó fráveitumannvirki, dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna, fjarskipta og breytingar á slíkum mannvirkjum. Auk þess getur ráðherra samkvæmt ákvæðinu kveðið á um það í reglugerð að minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar skuli undanþiggja byggingarleyfi.

Í 60. gr. laganna er tekið fram að ráðherra setji, að tillögu Mannvirkjastofnunar og í samráði við hagsmunaaðila, reglugerðir sem nái til alls landsins þar sem nánar sé kveðið á um framkvæmd laganna. Í reglugerðinni skuli kveðið á um tiltekin atriði, sem talin eru upp í þrettán tölusettum liðum. Í 10. töluliðnum er tekið fram að í reglugerðinni skuli kveðið á um frágang leiksvæða, íþróttasvæða og annarra opinna svæða.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2010 eru ákvæði um girðingar lóða í gr. 7.2.3., þar sem tekið er fram að afla skal byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðum nema framkvæmdirnar séu undanþegnar byggingarleyfi skv. f-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. reglugerðarinnar, en þar kemur fram að skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m séu undanþegin byggingarleyfi. Enn fremur girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum.

Þær framkvæmdir sem heimilaðar eru með umræddu framkvæmdaleyfi fela m.a. í sér að reist verður 2 m há girðing umhverfis íþróttavelli, svo sem fram kemur í verklið 6.6 í útboðslýsingu, sem vísað er til í leyfinu. Fellur sá hluti framkvæmdanna ekki undir undanþáguákvæði f-liðar 1. mgr. gr. 2.3.2. í byggingarreglugerð og er því um að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd. Aðrar framkvæmdir sem leyfið heimilar eru hins vegar ekki háðar byggingarleyfi samkvæmt framangreindum ákvæðum laga um mannvirki og byggingarreglugerðar, sbr. og 13. gr. skipulagslaga um framkvæmdaleyfisskyldu.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir við íþróttasvæðið í Bæjargarði, Garðabæ, skv. framkvæmdaleyfi útgefnu 19. maí 2017 eru ekki háðar byggingarleyfi, að öðru leyti en því að girðingar umhverfis íþróttavelli á íþróttasvæðinu eru háðar byggingarleyfi.

 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

86/2017 og 89/2017 Efri-Vík Skaftárhreppur

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 13. júlí 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir íbúðar- og frístundabyggð í landi Efri-Víkur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Syðri-Vík, Skaftárhreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 13. júlí s.á., sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 4. ágúst s.á., um að samþykkja deiliskipulag fyrir Efri-Vík í Landbroti vegna íbúðar- og frístundabyggðar. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 14. s.m. um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingu starfsmannahúsa á lóðinni Selhólavegi 1, nú Sólvöllum 1, úr landi Efri-Víkur. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir á grundvelli byggingarleyfisins verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Verður seinna kærumálið, sem er nr. 89/2017, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að kærunum.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Skaftárhreppi 23. ágúst, 7. september, 23. október og 9. nóvember 2017.

Málavextir: Um árabil hefur verið rekin ferðaþjónusta í landi Efri-Víkur sem staðsett er skammt sunnan Kirkjubæjarklausturs í Skaftárhreppi. Á hluta landsins er frístundabyggð sem var skipulögð með deiliskipulagi frá 1993. Í kjölfar aukinna umsvifa í ferðaþjónustu var unnið að gerð nýs deiliskipulags og að samhliða breytingu á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022.

Lýsing á aðalskipulagsbreytingunni var samþykkt til auglýsingar í júnímánuði 2016 og var aðalskipulagstillaga síðar auglýst með athugasemdafresti frá 16. febrúar til 3. apríl 2017.  Samkvæmt tillögunni skyldi landnotkun í landi Efri-Víkur breytt til að heimila nýtt íbúðarsvæði, opið svæði til sérstakra nota var fellt út og afmörkun frístundasvæðis breytt. Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti aðalskipulagsbreytinguna 5. apríl 2017. Skipulagsstofnun staðfesti breytinguna 15. júní s.á. og auglýsing þar um birtist í B-deild Stjórnartíðinda 30. s.m.

Á fundi skipulagsnefndar 18. október 2016 var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillögu vegna Efri-Víkur samhliða greindri aðalskipulagsbreytingu. Staðfesting sveitarstjórnar lá fyrir 10. nóvember s.á. og var deiliskipulagstillagan auglýst samhliða framangreindri tillögu að breyttu aðalskipulagi, þ.e. með athugasemdafresti frá 16. febrúar 2017 til 3. apríl s.á. Voru báðar tillögurnar kynntar á opnum fundi 2. mars s.á.

Gert var ráð fyrir því í deiliskipulagstillögunni að hluta skipulagðrar frístundabyggðar í landi Efri-Víkur yrði breytt í íbúðarsvæði. Að auki myndi deiliskipulagssvæðið stækka nokkuð frá eldra deiliskipulagi og bætast við íbúðarsvæði á nokkrum lóðum, m.a. þar sem áður hefði verið skilgreint opið svæði til sérstakra nota. Eftir sem áður tæki deiliskipulagssvæðið til svæðis vestan Landbrotsvegar, þjóðvegar nr. 204 eða svonefnds Meðallandsvegar, en einnig bættist við svæðið íbúðarlóð suðaustan vegarins þar sem ráðgert væri að reisa þrjú raðhús, samtals 600 m2, með allt að 4 m mænishæð.

Á fundi skipulagsnefndar Skaftárhrepps 4. apríl 2017 var deiliskipulag fyrir Efri-Vík lagt fram til samþykktar. Var bókað að engar athugasemdir hefðu borist vegna þess á auglýsingatíma en gerð hefði verið ein breyting eftir auglýsingu. Var bókað að mælst væri til þess að skipulagið tæki gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Á sama fundi voru lagðar fram til afgreiðslu tvær umsóknir um byggingarleyfi á deiliskipulagssvæðinu, annars vegar vegna íbúðarhúss og hins vegar vegna starfsmannaíbúða. Hinn 5. sama mánaðar fundaði sveitarstjórn Skaftárhrepps og staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar. Afgreiðslur byggingarleyfisumsóknanna voru báðar kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kæra á afgreiðslu vegna starfsmannaíbúða var síðar dregin til baka í kjölfar afturköllunar sveitarfélagsins og með úrskurði kveðnum upp 7. nóvember 2017 vísaði úrskurðarnefndin hinu kærumálinu frá, en það var nr. 73/2017.

Deiliskipulagstillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 20. júní 2017, en þá hafði borist umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands þar sem gerðar voru athugasemdir við fráveitu. Auk þess höfðu athugasemdir borist að liðnum fresti frá landeigendum Syðri-Víkur með bréfi, dags. 2. júní 2017. Bókað var um helstu athugasemdir landeigenda og þeim svarað af skipulagsnefnd. Einnig var bókað að nefndin hafnaði því að hætt yrði við deiliskipulag svæðisins, enda væri það í samræmi við aðalskipulagsbreytingu sem hefði fengið staðfestingu Skipulagsstofnunar. Mælst væri til þess að deiliskipulagstillagan tæki gildi með auglýsingu þar um í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eftir yfirferð Skipulagsstofnunar. Á fundi sínum 21. júní s.á. tók sveitarstjórn fyrir og staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar.

Skipulagið var enn tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 11. júlí s.á., en þá hafði Skipulagsstofnun sent umsögn sína og gert athugasemdir í allnokkrum liðum. Bókað var að brugðist hefði verið við athugasemdunum og að nefndin teldi viðkomandi breytingar ekki verulegar. Væri því mælst til þess að skipulagið tæki gildi í samræmi við 42. gr. skipulagslaga eftir aðra yfirferð Skipulagstofnunar. Sveitarstjórn staðfesti þá afgreiðslu á fundi 13. s.m. Skipulagsstofnun kunngerði með bréfi, dags. 28. júlí s.á., að ekki væru gerðir fyrirvarar við skipulagið eftir þær lagfæringar sem hefðu verið gerðar. Samþykkt deiliskipulagsins var loks auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 4. ágúst 2017 og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Með vísan til nýsamþykkts deiliskipulags samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Skaftárhrepps byggingarleyfi vegna starfsmannaíbúða á lóðinni Sólvöllum 1 í landi Efri-Víkur og var umsækjendum tilkynnt um það með bréfi, dags. 14. ágúst 2017. Var sú samþykkt einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem fyrr greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að vinnubrögð skipulagsyfirvalda í tengslum við uppbyggingaráform í landi Efri-Víkur hafi verið óvönduð og einkennst af fljótfærni.

Lögbundins samráðs hafi ekki verið gætt við málsmeðferð hins kærða deiliskipulags, sbr. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sé að auki vísað til þeirra markmiða nefndra laga að tryggja skuli samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda þar um, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Eign kærenda liggi að mörkum hins kærða deiliskipulagssvæðis, en sérstaklega sé mælt fyrir um það í 3. mgr. gr. 5.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að hafa skuli samráð við eiganda lands sem liggi að svæði sem deilisskipulagstillaga tekur til. Þótt kærendum hafi síðar verið gefið færi á að koma á framfæri athugasemdum þá komi það ekki í stað samráðs, sem skuli eiga sér stað þegar skipulagsferlið sé enn opið og raunhæf tækifæri enn til staðar til að hafa áhrif á framvindu skipulagsgerðar. Þá hafi athugasemdum kærenda ekki verið svarað á fullnægjandi hátt og þær að mestu verið virtar að vettugi.

Uppbygging samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi muni hafa umtalsverð grenndaráhrif í för með sér fyrir kærendur, sem fari út fyrir það sem þeir þurfi að sæta samkvæmt nábýlisrétti. Sjón- og hljóðmengun sé fyrirsjáanleg sem muni hafa neikvæð áhrif á not kærenda af jörð sinni. Jörð kærenda sé landbúnaðarjörð sem sé m.a. nýtt til beitar. Aukin umferð sé óæskileg þar sem búfé sé á beit. Fyrirhuguð uppbygging að Sólvöllum 1 muni skerða verulega útsýni kærenda til fjalla af heimili sínu. Uppbygging þar sé fyrirhuguð nálægt íbúðarhúsi kærenda og muni sveitafriðsæld sem þeim sé ómetanleg hverfa. Loks hafi ranglega verið staðið að breytingu á skipulagstillögunni í skipulagsferlinu.

Hvað hið kærða byggingarleyfi frá 14. ágúst 2017 varði sé á því byggt að það grundvallist á ólögmætu deiliskipulagi þar sem ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 2.-6. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þannig verði ekki séð að fyrir hafi legið aðal- og séruppdrættir sem áritaðir hafi verið af leyfisveitanda, að tilskilin gjöld hafi verið greidd, að yfirlýsingar byggingarstjóra og iðnmeistara hafi verið afhentar leyfisveitanda eða að skráð hafi verið í gagnakerfi Mannvirkjastofnunar að þeir hafi gæðastjórnunarkerfi í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga. Þá liggi ekki fyrir neitt yfirlit um innra eftirlit vegna hönnunarinnar og um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða. Feli framangreint í sér brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og ólögfesta rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Loks hafi hið kærða byggingarleyfi ekki verið tekið fyrir af skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps, líkt og áskilið sé í erindisbréfi nefndarinnar. Samþykkt þess og útgáfa sé af þessum sökum ólögmæt.

Málsrök Skaftárhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að ákvarðanataka vegna deiliskipulags íbúðar- og frístundabyggðar í landi Efri-Víkur hafi í hvívetna farið að reglum stjórnsýsluréttarins og skipulagslögum. Skipulagstillögurnar hafi verið kynntar og auglýstar, umfram það sem lögbundið sé, og hafi athugasemdum kærenda verið svarað efnislega þótt þær hafi borist utan athugasemdafrests. Aukning umferðar um svæðið verði hverfandi og muni undir engum kringumstæðum skerða not kærenda af jörð sinni til landbúnaðar.

Umhverfisáhrif verði lítil umfram þau áhrif sem þegar séu af frístundabyggð á svæðinu. Nýjar lóðir séu á gömlum aflögðum túnum og á fyrrum golfvelli. Engar líkur séu á mengun neysluvatns og eftir vettvangsskoðun hafi þótt sýnt að útsýni kærenda skerðist óverulega vegna þeirra bygginga sem heimilaðar séu í skipulaginu. Umferð og grenndaráhrif verði óveruleg umfram það sem fylgi núverandi hótelrekstri og frístundabyggð að Efri-Vík. Telja verði málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar lögmæta, bæði hvað varði efni og form.

Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við lögformlegt skipulag svæðisins, eins og því hafi þá verið breytt. Byggingarleyfið hafi ekki verið tekið sérstaklega til afgreiðslu af skipulagsnefnd og sveitarstjórn þar sem það hafi byggst á skipulagi sem þegar hefði verið afgreitt af sömu stjórnsýslueiningum. Leyfið hafi verið samþykkt með afgreiðslubréfi og hafi fullnægjandi gögn borist til samræmis við kröfur sem gerðar hafi verið í nefndu bréfi. Engin óvissa ríki um lögmæti skipulagsferlisins sem réttlætt geti stöðvun framkvæmda. Óvissa ríki hins vegar um það hvaða hagsmuni kærendur telji sig vera að vernda. Sé rökstuðningi áfátt um það atriði.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að starfsmannaíbúðir séu í þágu reksturs hans. Fyrirtækið hafi 45 manns í vinnu og sé með þeim stærri í Skaftárhreppi. Mikil nauðsyn væri á að koma upp íbúðum fyrir starfsmenn. Erfitt hafi reynst að fá úthlutað lóðum á Kirkjubæjarklaustri og hafi orðið úr að skipuleggja nokkrar lóðir í landi Efri-Víkur til slíkrar uppbyggingar. Allir hefðu haft tækifæri til að gera athugasemdir við skipulagið innan auglýsts frests. Þá hafi leyfishafi gert sér ferð til kærenda í tvígang vegna þessa, fyrst sumarið 2016 og síðan í mars 2017. Hann hefði lítil viðbrögð fengið. Því sé hafnað að starfsmannahúsin valdi sjónmengun eða hávaða, enda um að ræða lágreist hús fyrir starfsmenn, sem ferðist til vinnustaðar fótgangandi eða á örfáum smábílum. Þá sé íbúðarhús kærenda í um 400 m fjarlægð frá starfsmannaíbúðunum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags fyrir íbúðar- og frístundabyggð í landi Efri-Víkur í Skaftárhreppi, sem og um lögmæti byggingarleyfis vegna starfsmannaíbúða, samþykktu með stoð í því skipulagi.

Hið kærða deiliskipulag tekur til svæðis þar sem áður var deiliskipulögð frístundabyggð, Álfabyggð, og opið svæði til sérstakra nota, hvort tveggja vestan Landbrotsvegar, þjóðvegar nr. 204. Þá tekur deiliskipulagssvæðið til einnar íbúðarlóðar suðaustan vegarins, þar sem áður var skilgreint landbúnaðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022, en eldra deiliskipulag Álfabyggðar tók ekki til þeirrar lóðar.

Í auglýsingu um gildistöku hinnar kærðu skipulagsákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda kemur fram að eldra deiliskipulag innan svæðisins falli úr gildi með gildistöku hins nýja deiliskipulags. Í gr. 5.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er tekið fram að við heildarendurskoðun deiliskipulags, sem fellir eldri áætlanir úr gildi, skuli framsetning og málsmeðferð vera sem um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Hið kærða deiliskipulag tók til stærra svæðis en eldra skipulag og fól í sér töluverðar efnislegar breytingar. Bar því að fara að fyrirmælum 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um gerð deiliskipulagsins, kynningu og samráð, 41. gr. um auglýsingu og samþykkt þess, og 42. gr. um afgreiðslu þess.

Sveitarstjórn nýtti sér heimild 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga til að víkja frá þeirri skyldu að taka saman lýsingu við upphaf deiliskipulagsgerðar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagi. Í gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð er tekið fram að með meginforsendum sé átt við stefnu um áherslu og uppbyggingu landnotkunarreita, svo sem varðandi nánari notkun á einstökum reitum, þéttleika og byggðamynstur eða umfang auðlindanýtingar. Jafnframt nýtti sveitarstjórn sér heimild 2. mgr. 41. gr. laganna til að auglýsa og samþykkja breytingar á aðalskipulagi samhliða deiliskipulaginu. Í aðalskipulagsbreytingu þeirri sem gildi tók 30. júní 2017 fólust breytingar á greinargerð og sveitarfélagsuppdrætti gildandi aðalskipulags Skaftárhrepps. Eftir breytingarnar sýnir sveitarfélagsuppdráttur breytta landnotkun á skipulagssvæðinu, þannig að í stað tilgreiningarinnar Ú1, opið svæði til sérstakra nota, og F5, frístundabyggð, er nú að finna á uppdrætti tilgreininguna F5 með annarri afmörkun og ÍB1, íbúðarbyggð. Sést af uppdrættinum að íbúðarbyggðin er beggja vegna frístundabyggðarinnar og teygir hún sig yfir Landbrotsveg í átt að eign kærenda. Hluti íbúðarbyggðarinnar verður á svæði sem auðkennt var sem landbúnaðarsvæði á eldri aðalskipulagsuppdrætti. Þá var greinargerð aðalskipulagsins breytt þannig að við bættust skilmálar í kafla 2.1., Landbúnaðarsvæði neðan 200 m y.s., sem lutu að heimildum til að byggja frístundahús og íbúðarhús sem ekki tengjast búrekstri á landbúnaðarsvæðum bújarða. Einnig var breytt kafla 2.4., svæði fyrir frístundabyggð, og felldur út kafli 2.3., opin svæði til sérstakra nota. Loks var bætt við nýjum kafla 2.18,  íbúðarsvæði, þar sem gert var ráð fyrir nýju íbúðarsvæði í Efri-Vík, ÍB1, og breytt kafla 2.12, skilgreining vatnsgæða og flokkun vatns. Verður af framangreindu ráðið að meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í aðalskipulagi, svo sem því var breytt, og þar með að heimilt hafi verið að víkja frá þeirri lagaskyldu að gera deiliskipulagslýsingu.

Svo sem áður er vikið að var ekki gerð lýsing vegna hins kærða deiliskipulags. Var deiliskipulagstillagan auglýst og kostur gefinn á að koma á framfæri athugasemdum. Af auglýsingu verður ekki ráðið að sumar þeirra íbúðarlóða sem þar var ráðgert að skipuleggja yrðu staðsettar á áður ódeiliskipulögðu svæði, sem hafði verið til landbúnaðarnota, líkt og sú lóð sem skipulögð er handan Landbrotsvegar, næst bæjarstæði kærenda. Verður þetta ekki heldur ráðið með neinni nákvæmni af auglýsingu um tillögu að aðalskipulagsbreytingu, sem birt var á sama tíma, þótt þar kæmi fram að hluti landbúnaðarsvæðis færi undir íbúðarbyggð. Lýsingu vegna aðalskipulagsbreytingarinnar fylgdi ekki uppdráttur sem sýndi nýja íbúðarbyggð handan Landbrotsvegar, næst landamerkjunum við jörð kærenda, og mátti ekki ráða sérstaklega af lýsingunni að slík byggð væri fyrirhuguð.

Skipulagslög hafa það m.a. að markmiði að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sem og að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. c- og d-lið 1. gr. laganna. Sér þess stað í lögunum að á öllum skipulagsstigum er lögð áhersla á samráð við almenning og hagsmunaaðila. Í gr. 5.2. í skipulagsreglugerð er nánar fjallað um kynningu og samráð við gerð deiliskipulags og um samráð og samráðsaðila er sérstaklega fjallað í gr. 5.2.1. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, umsagnaraðila og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta og í 3. mgr. er m.a. tekið sérstaklega fram að ef tillaga að deiliskipulagi eða tillaga að breytingu á því tekur til svæðis sem liggur að landamörkum skuli haft samráð við eiganda þess lands áður en tillagan er samþykkt til auglýsingar. Fyrir liggur að umrætt deiliskipulagssvæði liggur að landi kærenda og því hefði borið að kynna þeim fyrirhugaða deiliskipulagbreytingu áður en endanleg tillaga var samþykkt af sveitarstjórn til auglýsingar. Það var ekki gert og er þar um annmarka á málsmeðferðinni að ræða.

Með hliðsjón af þeim breytingum sem urðu í nærumhverfi kærenda, við landamörk þeirra, má fallast á með kærendum að slíkt samráð hefði best þjónað markmiðum ákvæða skipulagslaga. Það verður þó ekki fram hjá því litið að allt að einu komu kærendur að athugasemdum sínum í málinu, þótt utan auglýsts athugasemdafrests væri. Skipulagið var tekið upp að nýju eftir samþykkt þess og athugasemdirnar teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar og fundi sveitarstjórnar. Athugasemdunum var þá svarað efnislega og tekið tillit til þeirra, að því marki að vegtenging var felld út innan lands þeirra. Auk þess var tekið til sérstakrar athugunar hvort sjónræn áhrif af byggingum næst bæjarstæði kæranda yrðu ótilhlýðileg. Að því búnu var hið kærða deiliskipulag samþykkt að nýju. Verður að öllu því virtu ekki talið að nefndur annmarki hafi verið svo verulegur að varði ógildingu deiliskipulagsákvörðunarinnar. Í þessu samhengi skal á það bent að það felst ekki í skyldu sveitarfélags til samráðs að fallist verði á allar þær athugasemdir sem í því samráðsferli kunni að koma fram, en sveitarstjórnum er að lögum ætlað víðtækt vald til ákvarðana um skipulag, sem eftir atvikum geta haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttindum að viðlagðri bótaskyldu.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar var að öðru leyti í samræmi við ákvæði 41. og 42. gr. skipulagslaga um auglýsingu, samþykkt og afgreiðslu deiliskipulags og teljast þær breytingar sem gerðar voru á deiliskipulagstillögunni eftir auglýsingu, að teknu tilliti til athugasemda Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Skipulagsstofnunar, ekki hafa breytt áður auglýstri tillögu í grundvallaratriðum, í skilningi 4. mgr. 41. gr. laganna. Var því ekki þörf á að auglýsa tillöguna að nýju.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að slíkir annmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar. Rétt er þó að benda á að telji kærendur sig verða fyrir grenndaráhrifum af skipulagsákvörðuninni sem verði þeim til tjóns geta þeir leitað til sveitarfélagsins eftir bótum með vísan til 51. gr. skipulagslaga.

Hið kærða byggingarleyfi tekur til byggingar starfsmannahúsa á lóð þeirri er liggur að jörð kærenda. Felur það í sér leyfi til að reisa þrjú raðhús með fimm smáíbúðum hvert og er það í samræmi við skilmála deiliskipulags þess efnis að á lóðinni megi byggja að hámarki þrjú raðhús með mænisþaki, samanlagt að hámarki 600 m², eða hvert um sig ekki stærra en 200 m², og hámarkshæð í mæni 4 m. Hefur úrskurðarnefndin og gengið úr skugga um að þau gögn sem nauðsynleg voru fyrir útgáfu byggingarleyfis skv. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki hafi legið fyrir.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga veitir byggingarfulltrúi sveitarfélags byggingarleyfi, eftir atvikum að undangenginni umfjöllun byggingarnefndar sveitarfélags, samkvæmt sérstakri samþykkt. Sé slík samþykkt til staðar í samræmi við 7. gr. mannvirkjalaga er heimilt að gera að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga. Skaftárhreppur hefur ekki sett sér slíka samþykkt en í erindisbréfi skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps kemur fram að innan verksviðs nefndarinnar sé „að fjalla um umsóknir um leyfi til bygginga og annara verklegra framkvæmda.“ Skipulagsnefnd Skaftárhrepps hafði fjallað um umsókn um byggingarleyfi á umræddri lóð hinn 4. apríl 2017. Afgreiðsla á þeirri umsókn var síðar afturkölluð. Við samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa á hinu kærða byggingarleyfi vegna lóðarinnar var vísað sérstaklega til þess að fyrri afgreiðsla hefði verið felld úr gildi. Má af því ráða að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi samþykkt byggingarleyfi er varðaði sömu byggingar á sömu lóð er áður hafði verið fjallað um í skipulagsnefnd. Var hann og til þess bær, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga.

Að þessu virtu eru ekki heldur efni til að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 13. júlí 2017 um samþykkt deiliskipulags fyrir íbúðar- og frístundabyggð í landi Efri-Víkur.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 14. ágúst 2017 um samþykkt byggingarleyfis fyrir starfsmannahúsum á lóðinni Sólvöllum 1 úr landi Efri-Víkur.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson
 

8/2017 Reykjanesvitabraut

Með
Árið 2017, föstudaginn 10. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 8/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 25. október 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir þjónustuskála að Reykjanesvitabraut 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Vitavörðurinn ehf., eigandi Reykjanesvitaíbúðarhúss, Reykjanesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 25. október 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir þjónustuskála að Reykjanesvitabraut 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 12. október 2017.

Málsatvik og rök: Auglýsing um gildistöku nýs deiliskipulags fyrir Reykjanesvita var birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. maí 2016. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu með það að markmiði að Reykjanesviti og nágrenni verði miðstöð ferðamannastaða á Reykjanesi. Hinn 25. október s.á. samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjanesbæ byggingarleyfi fyrir þjónustuskála að Reykjanesvitabraut 1.

Kærandi byggir kröfu sýna um ógildingu byggingarleyfisins á því að deiliskipulagið, sem leyfið sæki stoð sína til, sé haldið ógildingarannmörkum. Það sé skilyrði að byggingarleyfi styðjist við gilt skipulag, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki. Þegar ákvörðun hafi verið tekin af hálfu byggingarfulltrúa um samþykkt byggingaráforma hafi legið fyrir að lögmæti umrædds deiliskipulags væri vefengt.
 
Af hálfu bæjaryfirvalda kemur fram að byggingaráform hafi verið samþykkt 25. október 2016. Sú samþykkt veiti ekki heimild til framkvæmda og hafi engar framkvæmdir farið fram, enda hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út. Á fundi með bæjarstjóra og fulltrúum leyfishafa 9. október 2017 hafi komið fram að leyfishafi sé hættur við hin kærðu byggingaráform og séu þau því felld úr gildi.

Leyfishafi tekur undir sjónarmið bæjaryfirvalda.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir þá hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

127/2017 Sindragata Ísafjörður

Með
Árið 2017, mánudaginn 6. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 127/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðar frá 21. september 2017 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir Sindragötu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. október 2017, er barst nefndinni 26 s.m., kæra eigendur Aðalstrætis 8, Ísafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðar að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir Sindragötu 4, Ísafirði. Verður að skilja kröfu kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Ísafirði 31. október 2017.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 9. nóvember 2016 var tekin fyrir ósk um breytingar á deiliskipulagi vegna Sindragötu 4, Ísafirði. Bókað var að tillaga um að breyta deiliskipulagi fyrir lóðina hefði verið samþykkt 23. nóvember 2006, en deiliskipulagið hefði reynst ógilt vegna formgalla. Í breytingunni hefði falist að lóðinni yrði skipt í tvær lóðir, Sindragötu 4 og 4a. Væri óskað eftir því við nefndina að hún tæki málið upp að nýju og tæki afstöðu til slíkra deiliskipulagsbreytinga. Væntanlegar breytingar snéru að aukalóð sem bætt yrði við og yrði Sindragata 4a, hæð húsa yrði fjórar í stað þriggja og hálfra og yrði nýtingarstuðull lóða mögulega hækkaður væri þess þörf, m.t.t. 2000 fermetra byggingarmagns. Afgreiðslu málsins var frestað og skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram.

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 23. nóvember 2016 var lagt til að bæjarstjórn myndi heimila meðferð málsins skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var það og samþykkt á fundi bæjarstjórnar 1. desember s.á. Drög að deiliskipulagi fyrir Sindragötu 4 voru lögð fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd 24. febrúar 2017 og var lagt til á fundi nefndarinnar 7. júní s.á. að bæjarstjórn myndi heimila auglýsingu deiliskipulagstillögunnar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Var það samþykkt á fundi bæjarstjórnar 15. s.m. og tillagan auglýst með fresti til athugasemda frá 29. s.m. til 10. ágúst s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma og var þeim svarað með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 6. september s.á. Á fundi bæjarstjórnar 21. september 2017 var tillaga að deiliskipulagi fyrir Sindragötu 4 samþykkt.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi gert athugasemdir við tillögu að hinu kærða deiliskipulagi. Um sé að ræða þegar byggt hverfi og gefi nýtt aðalskipulag ástæðu til vandaðra vinnubragða og nýrra sjónarmiða. Vísað sé til aðalskipulagsins m.a. um það að mikilvægt sé að breytingar á eldri byggð falli vel að umhverfi sínu og heildarmynd byggðarinnar. Erfitt hafi verið að nálgast upplýsingar um tillöguna og framsetningu gagna hafi verið áfátt. Þá hafi rökstuðning fyrir bílastæðafjölda verið áfátt og geri kærendur þá kröfu að áfram verði tryggð aðkoma að bílskúr þeirra.
 
Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar hafi ekki verið birt, m.a. vegna athugasemda Skipulagsstofnunar við að svo verði gert. Sveitarstjórn eigi eftir að taka athugasemdir stofnunarinnar til umræðu og afgreiðslu. Sé kæra í máli þessu því ekki tímabær.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti samþykkis bæjarstjórnar Ísafjarðar frá 21. september 2017 á deiliskipulagstillögu vegna Sindragötu 4, Ísafirði. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Hin kærða ákvörðun hefur ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku hennar og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Þar sem lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru skilyrði fyrir því að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar ekki uppfyllt. Verður af þeim sökum að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

73/2017 Efri Vík – Skaftárhreppur

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 7. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2017, kæra á afgreiðslu byggingarleyfis fyrir íbúðarhúsi á lóðinni Selhólavegi 2, landnúmer 224927.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2017, er barst nefndinni 4. s.m., kæra eigendur Syðri-Vík, Skaftárhreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 5. apríl 2017 að staðfesta afgreiðslu skipulagsnefndar frá 4. s.m. um að gera ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis fyrir íbúðarhúsi á lóðinni Selhólavegi 2, landnúmer 224927.

Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar verði stöðvaðar á meðan málin eru til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Skaftárhreppi 11. júlí 2017.

Málavextir: Um árabil hefur verið rekin ferðaþjónusta í landi Efri-Víkur, sem staðsett er skammt sunnan Kirkjubæjarklausturs í Skaftárhreppi. Á hluta landsins er frístundabyggð samkvæmt deiliskipulagi frá 1993. Í kjölfar aukinna umsvifa í ferðaþjónustu var unnið að endurskoðun þess deiliskipulags og að samhliða breytingu á aðalskipulagi Skaftárhrepps. Nýtt deiliskipulag tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 4. ágúst 2017. Hafa kærendur kært þá deiliskipulagsákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er það kærumál nr. 86/2017. Á meðan á greindum skipulagsbreytingum stóð var sótt um byggingarleyfi vegna byggingaráforma á skipulagssvæðinu.

Byggingarleyfisumsóknir voru teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar Skaftárhrepps 4. apríl 2017. Þar var annars vegar afgreidd umsókn um byggingarleyfi vegna starfsmannaíbúða. Sú afgreiðsla var kærð af öðrum kæranda þess máls sem hér er til úrlausnar og hlaut það kærumál númerið 57/2017. Í kjölfar afturköllunar á þeirri afgreiðslu var sú kæra dregin til baka. Hins vegar var afgreidd umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á lóð að Selhólavegi 2, landnúmer 224927, sem stofnuð hafði verið úr landi Efri-Víkur. Tekið var fram að um væri að ræða 148 m² einbýlishús, fjögurra herbergja með einhalla þaki. Var bókað að deiliskipulag hefði ekki tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, en að nefndin gerði ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis á grundvelli deiliskipulags. Á fundi sveitarstjórnar 5. apríl 2017 var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest og var umsækjanda sent bréf verkefnastjóra skipulags- og byggingarmála þar um, dags. 18. s.m. Í bréfinu var tekið fram að byggingaráform teldust samþykkt, að tiltekin gögn þyrfti að afhenda byggingarfulltrúa fyrir útgáfu byggingarleyfis og að það teldist veitt þegar þau hefðu borist og tilgreind gjöld verið greidd. Hefur framangreind afgreiðsla verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að jörð þeirra Syðri-Vík sé aðliggjandi jörð Efri-Víkur þar sem í mörg ár hafi verið rekin ferðaþjónusta. Byggi þeir kröfu sína fyrst og fremst á því að hið kærða byggingarleyfi eigi sér ekki stoð í gildandi skipulagsáætlunum. Nýtt deiliskipulag íbúða- og frístundabyggðar í Efri-Vík hafi ekki tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. áskilnað þar um í 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leyfið samræmist ekki gildandi deiliskipulagi en það sé skilyrði fyrir samþykkt og útgáfu byggingarleyfis, sbr. fyrirmæli 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Málsrök Skaftárhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að byggingarleyfið sé í samræmi við breytt aðalskipulag svæðisins þar sem gert sé ráð fyrir íbúðasvæði á viðkomandi lóð. Lóðin standi utan gildandi deiliskipulags svæðisins er taki til frístundabyggðar. Sé vísað til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki talin ástæða til að fella úr gildi samþykkt byggingarleyfis sem sé í samræmi við aðalskipulag.

Kærendur hafi lítilla eða engra hagsmuna að gæta þegar komi að viðkomandi lóð. Hún liggi ekki að landamerkjum Syðri-Víkur og húsbygging þar geti hvorki haft áhrif á útsýni né skuggavarp, enda sé lóðin í tæplega kílómeters fjarlægð frá bæjarstæði Syðri-Víkur.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við nýlega samþykkt aðal- og deiliskipulag.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er skilyrði kæruaðildar í málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda viðkomandi ákvörðun nema að lög mæli sérstaklega á annan veg. Er það í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Úrskurðarnefndin óskaði eftir sjónarmiðum kærenda hvað varðaði lögvarða hagsmuni þeirra og barst bréf þeirra nefndinni 24. ágúst 2017. Taka kærendur þar fram að ekki hafi verið rétt staðið að deiliskipulagsgerð þeirri sem hið kærða byggingarleyfi grundvallist á. Ekki sé eðlilegt að hægt sé að byggja hús án þess að þau séu í samræmi við gildandi deiliskipulag. Kærendur séu mótfallnir þéttbýliskjarna sem gert sé ráð fyrir samkvæmt nýju deiliskipulagi. Ómetanleg sveitafriðsældin muni hverfa og þar með ánægja kærenda af því að vera í sveitinni. Íbúðarbyggðinni muni fylgja hljóðmengun og sjónmengun auk þess sem útsýni til fjalla muni hverfa. Hafi kærendur verulegra hagsmuni að gæta af því að ekki verið byggt áður en niðurstaða fáist í öðrum kærumálum er þeir reki fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærendur byggja þannig fyrst og fremst á því að rangt hafi verið staðið að gerð deiliskipulags, sem heimili uppbyggingu sem þeim hugnist ekki. Hafa kærendur lagt fram kæru til úrskurðarnefndarinnar vegna þessa og koma nefnd atriði eftir atvikum til skoðunar í því kærumáli, sem er nr. 86/2017. Það eitt og sér leiðir hins vegar ekki til þess að þeir eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í kærumáli því sem hér er til umfjöllunar, eða um öll þau leyfi sem kunna að vera gefin út á grundvelli nefnds deiliskipulags.

Lóðin Selhólavegur 2 liggur ekki að landi kærenda, auk þess sem þjóðvegur liggur á milli hennar og bæjarstæðis þeirra, sem er í um 700 m fjarlægð frá lóðarmörkunum. Eiga kærendur því ekki verulegra grenndarhagsmuna að gæta, s.s. vegna skuggavarps eða útsýnisskerðingar. Fyrirhugað er að reisa á nefndri lóð eitt íbúðarhús en á svæðinu er fyrir skipulögð frístundabyggð og aðstaða hestamanna. Að teknu tilliti til greindra atvika og staðhátta verður ekki séð að um nein þau áhrif verði að ræða á umhverfi kærenda, t.a.m. vegna aukinnar umferðar, að það skapi þeim einstaklega, lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kæru þeirra því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

95/2017 og 113/2017 Skotæfingasvæði á Blönduósi

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 12. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir voru tekin mál nr. 95 og 113/2017, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Blönduósbæjar frá 11. apríl 2017 á deiliskipulagi fyrir skotæfingasvæði á Blönduósi og kæra vegna leyfis frá 26. september s.á. til framkvæmda við riffilbraut, bogfimibraut og trap völl.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfur kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2017, sem barst nefndinni sama dag, kæra þinglýstir eigendur jarðarinnar Hjaltabakka í Húnavatnshreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Blönduósbæjar frá 11. apríl 2017, að samþykkja deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði á Blönduósi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á skotæfingasvæðinu þar sem fyrirhugað sé að gera riffilbraut.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. október 2017, sem móttekið var sama dag, kæra sömu aðilar veitingu leyfis, dags. 26. september 2017, til framkvæmda á grundvelli hins kærða deiliskipulags. Krefjast kærendur ógildingar leyfisins og þess að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Verður nú tekin afstaða til framkominna stöðvunarkrafna kærenda.

Málsatvik og rök: Hinn 11. apríl 2017 samþykkti sveitarstjórn Blönduósbæjar deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði á Blönduósi og var auglýsing um gildistöku þess birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. júlí s.á. Framkvæmdaleyfi var gefið út 26. september 2017. Eru þar heimilaðar framkvæmdir við riffilbraut, bogfimibraut og trap völl. Lengd og botnbreidd brautanna er lýst og er svo tekið fram um riffilbrautina að hún verði grafin niður um 2 m. Botnbreidd hennar verði um 6 m og veggir með 50 gráðu halla. Efni sem komi upp úr brautinni verði nýtt í manir sitthvoru megin og við enda hennar. Heildardýpt brautarinnar verði um 3,5-4 m og hærri fyrir austurenda hennar.

Kærendur byggja m.a. á því að sveitarstjórn hafi verið óheimilt að samþykkja hið kærða deiliskipulag þar sem það taki til svæðis utan sveitarfélagsins. Óásættanlega hávaðamengun stafi af skotsvæðinu sem geti fælt búfénað í landi kærenda. Þá sé óásættanlegt af öryggisástæðum að skotsvæðið sé á opnu svæði nálægt byggð og umferð bæði gangandi og ríðandi. Skurður á skotæfingasvæðinu muni leiða til óafturkræfra breytinga á landinu.

Af hálfu Blönduósbæjar er á það bent að bærinn hafi ráðstafað og skipulagt umrætt svæði í 86 ár án mótmæla frá eigendum Hjaltabakka. Því sé hafnað að stjórnsýslumörk sveitarfélagsins og Húnavatnshrepps séu óljós, enda hafi sveitarfélögin komið sér saman um mörkin, sbr. t.d. samþykkt aðalskipulag 1993-2013, 2010-2030 og svæðisskipulag 2004-2016. Blönduósbær hafi vandað til skipulagsferilsins, tekið tillit til umsagna eins og kostur hafi verið og bætt við mótvægisaðgerðum. Framkvæmdum við gerð og undirbúning riffilbrautarinnar sé að mestu/öllu lokið og sé ekki gert ráð fyrir frekari framkvæmdum á svæðinu fyrr en næsta vor. Stöðvun framkvæmda nú þjóni því engum tilgangi.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta þeim til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Krafa kærenda um stöðvun framkvæmda var fyrst sett fram í kæru vegna deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og síðan útgáfa á byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar. Af þessu leiðir að jafnaði að ekki er tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Kærendur komu sams konar kröfu að í kærumáli vegna framkvæmdaleyfis. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu mun framkvæmdum vera lokið að mestu eða öllu leyti. Þá liggur fyrir að framkvæmdir þær sem útgefið framkvæmdaleyfi tekur til fela einungis í sér jarðvegs- og yfirborðsframkvæmdir, sem einar og sér hafa óveruleg grenndaráhrif. Eru nefndar framkvæmdir þess eðlis að unnt er að koma umræddu svæði í fyrra horf.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða, atvika málsins, auk eðlis, umfangs og áhrifa umdeildra framkvæmda, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun þeirra. Verður kröfu þeirra þar að lútandi hafnað en bent er á að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdarleyfi eru á ábyrgð og áhættu leyfishafa.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða er hafnað.

___________________________
Nanna Magnadóttir

___________________________                     _________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

99/2017 Vegamótastígur

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 31. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 99/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli við Vegamótastíg 7.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Laugaverk ehf., eigandi Laugavegs 18b, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu á lóðinni Vegamótastíg 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn vegna málsins lágu fyrir í kærumáli nr. 70/2017 er varðaði sömu stjórnvaldsákvörðun.

Málsatvik og rök: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. maí 2017 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða sambyggðum byggingum á lóðum 7 og 9 við Vegamótastíg ásamt kjallara á tveimur hæðum. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 6. september 2017 í kærumáli nr. 70/2017, var framangreint byggingarleyfi fellt úr gildi.

Kærandi bendir á að á lóðinni Vegamótastíg 7 hvíli þinglýst kvöð þar sem gert sé ráð fyrir að byggingarreitur lóðarinnar sé takmarkaður um reit að stærð 3 m x 6,41 m frá 1. hæð upp að 5. hæð á bakhlið Laugavegs 18b í norðaustur horni lóðarinnar. Kvöðin hafi átt að tryggja að hægt væri að koma fyrir brunastiga upp á 5. hæð á bakhlið Laugavegs 18b með óhefta flóttaleið út á Vegamótastíg. Samkvæmt samþykktum teikningum hafi kvöðin verið virt að vettugi.

Í ljósi afdrifa kærumáls nr. 70/2017, sem varðaði sömu stjórnvaldsákvörðun, var Reykjavíkurborg ekki gefinn kostur á að tjá sig um kæruna.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir þá hefur hin kærða ákvörðun verið felld úr gildi með úrskurði í kærumáli nr. 70/2017 og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

45/2016 Oddfellowblettur Gunnarshólmi

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 12. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 um að synja beiðni um heimild til að vinna deiliskipulag fyrir Oddfellowblett úr landi jarðarinnar Gunnarshólma.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. maí 2016, er barst nefndinni 13. s.m., kærir Miklibær ehf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 að synja beiðni um heimild til að vinna deiliskipulag fyrir Oddfellowblett úr landi jarðarinnar Gunnarshólma. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 8. júní 2016.

Málavextir: Með bréfi, dags. 18. mars 2014, sendi kærandi fyrirspurn um hvort leyft yrði að byggja íbúðarhús ásamt hesthúsi á spildu sinni úr landi jarðarinnar Gunnarshólma, svonefndum Oddfellowbletti, með líku sniði og leyft hefði verið á sínum tíma á lóðum í landi Vatnsenda við Elliðavatn. Hinn 15. apríl s.á. var bréfið lagt fram á fundi skipulagsnefndar sem frestaði afgreiðslu málsins og óskaði eftir umsögn bæjarlögmanns. Með bréfi, dags. 26. mars 2015, var fyrirspurn kæranda ítrekuð og tekið fram að óskað væri eftir allt að 400 m2 íbúðarhúsi ásamt allt að 200 m2 hesthúsi. Með bréfi, dags. 28. maí s.á., voru af hálfu kæranda settar fram frekari röksemdir vegna erindis hans. Kom þar fram að vegna breytinga á skipulagslögum nr. 123/2010 yrði að vinna deiliskipulag að spildunni og væri kærandi reiðubúinn til þess fengi hann til þess heimild skipulagsyfirvalda. Væri ekkert því til fyrirstöðu að deiliskipuleggja umrædda spildu og heimila að því búnu byggingu þeirra mannvirkja sem áður hefði verið beðið um.

Á fundi skipulagsnefndar 24. ágúst 2015 var málið tekið fyrir og lögð fram umsögn bæjarlögmanns, dags. 29. maí s.á. Var það mat bæjarlögmanns að ekki væru þeir annmarkar fyrir hendi að ekki væri unnt að afgreiða umsókn kæranda. Á fundi skipulagsnefndar hinn 11. apríl 2016 var málið tekið fyrir að nýju og bókað að lagt væri fram að nýju erindi kæranda, dags. 18. mars 2014. Óskað væri eftir heimild til að leggja inn tillögu að deiliskipulagi Oddfellowbletts við Hólmsá og fælist í tillögunni að reisa mætti íbúðarhús ásamt hesthúsi á lóðinni. Hafnaði skipulagsnefnd beiðninni og vísaði málinu til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sínum 26. apríl 2016.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að svæðið sem um ræði sé skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Í gr. 4.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé fjallað um viðfangsefni og efnistök aðalskipulags. Segi þar að meginviðfangsefni aðalskipulags sé stefnumörkun sveitarstjórnar um landnotkun og byggðarþróun. Þá segi að í skipulagsgögnum skuli gera grein fyrir og marka stefnu um neðangreind málefni og setja þau fram með ákvörðunum um stakar framkvæmdir. Þar segi: „Hvernig farið skuli með stakar skipulagsskyldar framkvæmdir sem ekki sé talin þörf á að afmarka sérstaka landnotkun fyrir, enda sé um að ræða framkvæmdir sem ekki eru taldar líklegar til að valda verulegum áhrifum á umhverfið. Hér er átt við smávirkjanir, litlar spennistöðvar, minni háttar mannvirki, stök fjarskiptamöstur, stakar vindmyllur o.þ.h. Þetta getur einnig átt við um stök frístundahús, stök íbúðarhús og aðra mannvirkjagerð á landbúnaðarsvæðum án tengsla við búrekstur. Stefna um hvar eða við hvaða aðstæður framangreind mannvirkjagerð er heimil eða óheimil og aðrar skipulagsforsendur fyrir gerð deiliskipulags eða veitingu leyfa til framkvæmda.“ Samkvæmt þessu sé beinlínis gert ráð fyrir því að heimila megi á grundvelli aðalskipulags stök íbúðarhús á landbúnaðarsvæðum án tengsla við búrekstur.

Samkvæmt þessu hefði ekkert átt að vera því til fyrirstöðu að heimila kæranda þá uppbyggingu á umræddri spildu sem hann hafi falast eftir. Nægi að um sé að ræða landbúnaðarland samkvæmt aðalskipulagi og sé umrædd uppbygging hvorki háð lögbýlisrétti né heldur til þess fallin að rýra lögbýlisrétt Gunnarshólma. Einnig megi benda á að fordæmi sé fyrir heimild til íbúðarnota lands í nágrenninu, en í landi Geirlands, sunnan Gunnarshólma, sé skilgreint lítið svæði til íbúðarnota, sem væntanlega helgist af því að Geirland sé að öðru leyti skilgreint sem óbyggt svæði.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að fyrri framkvæmdir á sama svæði hafi ekki fordæmisgildi þar sem þær hafi verið í tengslum við landbúnað og ferðaþjónustu sem til staðar sé á landi sem skilgreint sé sem landbúnaðarsvæði. Um sé að ræða íbúðarhús lögbýlishafa, geymslu fyrir landbúnaðartæki og svo stækkun húss fyrir rekstur bænda/heimagistingar. Með nýju Aðalskipulagi Kópavogsbæjar 2012-2024 hafi verið fallið frá hugmyndum um að Gunnarshólmi og land þar í kring væri hugsanlegt framtíðar byggingarland sveitarfélagsins. Með nýju aðalskipulagi hafi verið hætt við framtíðaráætlun um að byggja út og markmiðið í dag sé að þétta byggð í sveitarfélaginu, en á svæðinu við Lækjarbotna sé víkjandi byggð.

Í gildandi aðalskipulagi sé landnotkun svæðisins skilgreind sem landbúnaðarsvæði og komi þar fram að reiknað sé með því að landnotkun verði óbreytt á skipulagstímabilinu. Það deiliskipulag sem óskað sé eftir sé ekki í neinum tengslum við þann landbúnað sem sé á Gunnarshólma. Markmið gildandi aðalskipulags sé að á þessu svæði sé víkjandi byggð og í stað þess komi útivistarsvæði. Sé það mat sveitarfélagsins að bygging íbúðarhúsnæðis og hesthúss væri í ósamræmi við markmið aðalskipulag sveitarfélagsins, en í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að við gerð deiliskipulags skuli byggt á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi reit eða svæði. Að mati sveitarfélagsins sé erindi kæranda í andstöðu við gildandi aðalskipulag Kópavogs.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er m.a. gert ráð fyrir því að sveitarstjórn geti veitt landeiganda eða framkvæmdaraðila, samkvæmt hans beiðni, heimild til að vinna sjálfur að gerð deiliskipulags, sbr. 14. gr. breytingalaga nr. 59/2014. Var erindi kæranda beint í þann farveg og er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs að synja honum um heimild til að láta vinna deiliskipulag fyrir svonefndan Oddfellowblett.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Í skipulagsáætlunum er sett fram stefna skipulagsyfirvalda um þróun byggðar og landnotkun og teknar ákvarðanir um samgöngur og mannvirki sem þeim tengjast. Sveitarstjórnum er því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags en við beitingu þess valds ber þeim þó að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað. Svo sem áður hefur komið fram er unnt að óska eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt. Einstakir aðilar eiga þó almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda.

Landbúnaðarsvæði er skilgreint svo í q-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að það sé svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengjast búrekstrinum, með áherslu á búfénað, matvæla- og fóðurframleiðslu. Í gr. 4.3.1. í reglugerðinni er fjallað um viðfangsefni og efnistök aðalskipulags og er tekið fram að þar skuli, eftir því sem við eigi, gera grein fyrir og marka stefnu og setja fram með ákvörðunum um landnotkun, m.a. um landbúnað, sbr. e-lið, og þá m.a. um helstu atriði sem varða mannvirkjagerð. Fjallað er um stakar framkvæmdir í k-lið sömu greinar, þ.e. að eftir því sem við eigi skuli gera grein fyrir og marka stefnu um hvernig farið skuli með stakar skipulagsskyldar framkvæmdir, sem ekki sé talin þörf á að afmarka sérstaka landnotkun fyrir, enda sé um að ræða framkvæmdir sem ekki séu taldar líklegar til að valda verulegum áhrifum á umhverfið. Gefin eru dæmi og tekið fram að þetta geti einnig átt við um stök frístundahús, stök íbúðarhús og aðra mannvirkjagerð á landbúnaðarsvæðum án tengsla við búrekstur.

Svæðið sem um ræðir er skilgreint sem landbúnaðarsvæði í Aðalskipulagi Kópavogsbæjar 2012-2024 og er reiknað með því að landnotkun þess verði óbreytt, sbr. kafla 2.1.3. Frekari fyrirmæli er ekki að finna um mannvirkjagerð á landbúnaðarsvæðum, hvort sem er með eða án tengsla við búrekstur. Hins vegar er í kafla 2. fjallað um byggð og segir nánar í kafla 2.2. að stefna aðalskipulags um byggð miði að því að takmarka útþenslu íbúðarbyggðar og horfa frekar til þess að þétta byggð sem mest innan skipulagðra svæða. Að teknu tilliti til þessa verður að telja að í skjóli skipulagsvalds síns hafi verið lögmætt af hálfu sveitarstjórnar að synja kæranda um heimild til að vinna deiliskipulag.

Kærandi hefur vísað til þess að jafnræðis hafi ekki verið gætt og að finna megi á svæðinu dæmi þess að mannvirki til íbúðarnota hafi verið heimiluð. Í næsta nágrenni við spildu kæranda er innan sveitarfélagsins að finna mannvirki sem ýmist eru tengd búrekstri eða frístundahús. Þá er að finna skilgreint íbúðarsvæði innan svæðis sem annars er skilgreint sem óbyggt svæði og voru mannvirki byggð þar á árunum 2001 og 2002 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, eða í tíð eldra aðalskipulags. Verður tilvikum þessum því ekki jafnað saman og gáfu nefndar framkvæmdir kæranda ekki réttmætar væntingar til jákvæðrar afgreiðslu erindis síns.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 um að synja beiðni um heimild til að vinna deiliskipulag fyrir Oddfellowblett úr landi jarðarinnar Gunnarshólma.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson