Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

4/2016 Álver Grundartanga

Árið 2018, þriðjudaginn 6. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2016, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 16. desember 2015 um útgáfu starfsleyfis fyrir framleiðslu á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, þá er kærð ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 16. desember 2015 að veita Norðuráli Grundartanga ehf. starfsleyfi fyrir framleiðslu í álveri sínu á Grundartanga á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 14. mars 2016.

Málsatvik og rök: Umhverfisstofnun veitti 16. desember 2015 Norðuráli Grundartanga ehf. starfsleyfi fyrir framleiðslu í álveri sínu á Grundartanga á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs.

Með stefnu, sem birt var 19. apríl 2016, höfðaði kærandi dómsmál til ógildingar á starfsleyfinu og var meðferð kærumáls þessa frestað á meðan beðið væri niðurstöðu dómstóla.

Kærandi kveður Umhverfisstofnun ekki hafa aflað gagna til að ganga úr skugga um réttmæti framkominna ábendinga um áhrif flúors á heilsufar hrossa á Kúludalsá áður en hið kærða starfsleyfi hafi verið veitt. Stofnuninni hafi ítrekað verið bent á að þau umhverfismörk sem gilt hafi vegna flúormengunar utan þynningarsvæðis fyrir flúoríð séu umdeild og hafi flúor valdið skaða. Rannsaka hefði þurft ítarlega hversu mikið íslensk húsdýr, einkum hross, þoli af flúori áður en ákvörðun um starfsleyfi væri veitt. Mikilvægt sé að flúor sé mældur í andrúmslofti allan ársins hring. Óhæft sé að mengunarvaldur hafi sjálfur utanumhald með vöktun á áhrifum mengunar. Loks tryggi hið kærða starfsleyfi ekki öryggi íbúa í Hvalfirði komi til mengunarslyss þar sem hreinsibúnaður megi vera bilaður í þrjár klukkustundir án þess að íbúum sé gert viðvart.

Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á niðurstöðu Matvælastofnunar þess efnis að veikindi hrossa tengdust ekki áhrifum vegna flúors. Viðmiðunarmörk fyrir flúor í fóðri og fyrir loftgæði séu til staðar og hafi hvorki magn flúors í grasi né loftgæði mælst yfir viðmiðunarmörkum flúors. Ekki hafi komið fram mælingar eða vísbendingar um umtalsverða flúormengun sem gefi til kynna álag vegna mengunar. Þá standi yfir endurskoðun á vöktunaráætlun á Grundartangasvæðinu.

Heimild til losunar á heildarmagni flúors hafi verið haldið óbreyttri, losunarheimild á hvert framleitt tonn af áli sé lækkuð til mótvægis við framleiðsluaukninguna. Mikilvægt sé að umhverfisvöktun sé hluti af umhverfisstjórnun rekstraraðila en Umhverfisstofnun fylgi því eftir að mælingar séu áreiðanlegar og miðlun gagna skilvirk. Stofnunin geti ákveðið að breyta fyrirkomulagi umhverfisvöktunar ef ástæða sé til, sbr. grein 4.2 í starfsleyfi. Upplýsingagjöf um mengunarslys til almennings sé nauðsynleg og í því augnamiði sé ákvæði í starfsleyfinu, sbr. grein 2.7.

Af hálfu leyfishafa í málinu er tekið undir sjónarmið Umhverfisstofnunar.

Niðurstaða: Kærandi máls þessa höfðaði dómsmál til ógildingar á starfsleyfi því sem hér er um deilt. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2016 voru íslenska ríkið, Umhverfisstofnun og Norðurál Grundartanga ehf. sýknuð af þeirri kröfu kæranda. Dómurinn var staðfestur með skírskotun til forsendna hans af Hæstarétti, sbr. dóm í máli nr. 4/2017, sem kveðinn var upp 25. janúar 2018.

Í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er tiltekið að dómur sé bindandi um úrlausn sakarefnis milli aðila og þeirra, sem að lögum koma í þeirra stað, um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Standa res judicata áhrif því í vegi að úrskurðað verði um efni kærumáls þessa og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þeirra atvika sem að framan eru rakin.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.