Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2016 Golfvöllur Blikastaðanesi

Árið 2018, fimmtudaginn 1. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2016, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blikastaðaness, Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, þá er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 3. febrúar 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blikastaðaness í Mosfellsbæ. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi sama aðila til nefndarinnar, dags. 4. maí 2016, er móttekið var sama dag hjá úrskurðarnefndinni, er jafnframt kærð ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. apríl 2016 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við golfvöllinn á Blikastaðanesi og aðkomuvegar að þeim. Krefst kærandi þess að sú ákvörðun verði einnig felld úr gildi. Kærandi fór jafnframt fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 24. maí 2016.

Verður síðara kærumálið, sem er númer 43/2016, sameinað máli þessu og er það nú tekið til efnislegrar meðferðar.

Gögn málsins bárust 29. mars og 11. maí 2016.

Málavextir: Árið 2005 öðlaðist gildi deiliskipulag Blikastaðaness í Mosfellsbæ. Samkvæmt greinargerð þess var á skipulagssvæðinu gert ráð fyrir níu holu golfvelli, golfskála, áhaldahúsi/efnisgeymslu og höggæfingasvæði. Skipulagssvæðið væri um 45 ha að stærð. Afmarkaðist það af sjó til norðurs og vesturs, Úlfarsá og væntanlegri byggð á Blikastaðalandi til suðurs og núverandi golfvelli til austurs. Aðkoma að lóð golfskálans væri frá Baugshlíð um safngötu á Blikastaðalandi utan skipulagssvæðisins. Reiknað væri með að allt að 140 bílastæðum yrði komið fyrir utan skipulagssvæðisins og yrði gerð grein fyrir þeim í deiliskipulagi þess svæðis. Umframstæði yrðu leyst innan lóðar. Á skipulagsuppdrætti voru sýnd lóðamörk og byggingarreitur golfskála norðvestan við íbúðarbyggð að Þrastarhöfða. Einnig var færður inn á uppdráttinn, sunnan við byggingareit golfskála og vestan við lóðir að Þrastarhöfða, texti um að bílastæði golfskála yrðu nánar útfærð utan skipulagssvæðisins. Þá var tekið fram í greinargerðinni að staðsetningin væri sýnd til skýringar en væri ekki bindandi. Yrði endanleg staðsetning og frágangur unninn í samráði Mosfellsbæjar og golfklúbbsins. Á árinu 2007 tók gildi breyting á umræddu deiliskipulagi, er fól m.a. í sér að byggingarreitur golfskála var stækkaður og hann færður fjær byggð við Þrastarhöfða.

Með kynningarbréfi Golfklúbbs Mosfellsbæjar, dags. 19. maí 2015, til íbúa í nágrenni golfvallarins var upplýst um nokkur atriði er lytu að aðstöðu klúbbsins. Var tekið fram að til stæði að færa hana frá núverandi staðsetningu við Hlíðavöll á nýja lóð fyrir ofan Blikastaðanes. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 18. ágúst 2015 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi golfvallarins um að lóð og byggingarreitur golfskála færðist til vesturs. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 26. s.m. Breytingartillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar 1. september s.á. með þeirri viðbót að skipulagssvæði golfvallarins var stækkað og áformuð bílastæði því innan þess. Var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar 9. s.m. Bárust sameiginlegar athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá lóðarhöfum Þrastarhöfða 53 og 55 er lutu m.a. að staðsetningu bílastæðanna. Skipulagsnefnd tók málið fyrir að nýju 10. nóvember 2015 og bókaði að auglýst tillaga væri samþykkt með leiðréttingu um gólfkóta golfskála. Jafnframt voru samþykkt drög að svörum við framkomnum athugasemdum þar sem m.a. kom fram að bílastæðum hefði verið fækkað um níu frá fyrstu tillögu að útfærslu þeirra. Samþykkti bæjarstjórn nefnda afgreiðslu 18. s.m.

Í kjölfarið var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Gerði stofnunin athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku breytingarinnar þar sem hvorki væri gerð fullnægjandi grein fyrir aðkomuleið að golfvellinum í skilmálum né væri hún innan afmarkaðs deiliskipulagssvæðis. Á fundi skipulagsnefndar 26. janúar 2016 var fært til bókar að lagður væri fram til kynningar uppdráttur, sem endurskoðaður hefði verið með tilliti til athugasemda Skipulagsstofnunar. Samþykkti bæjarstjórn afgreiðsluna 3. febrúar s.á. Hlaut deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2016.

Með umsókn Golfklúbbs Mosfellsbæjar og Mosfellsbæjar til skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar, dags. 5. apríl 2016, var óskað eftir framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við nýja íþróttamiðstöð, ásamt aðkomuvegi að þeim frá Æðarhöfða. Var umsóknin samþykkt á fundi skipulagsnefndar 19. s.m. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt af bæjarstjórn 27. s.m. og framkvæmdaleyfið gefið út 28. apríl 2016. Tekur hið kærða leyfi til jarðvegsskipta, fyllinga og yfirborðsfrágangs 130 bílastæða og 370 m vegar með malarlagi, auk annars lokafrágangs, s.s. grjóthleðslna og þökulagningar.

Málsrök kæranda: Kærandi telur ljóst að starfsemi á vegum golfklúbbsins muni verða mun umfangsmeiri en kærandi og aðrir íbúar nærliggjandi íbúðarhúsa hafi mátt gera ráð fyrir samkvæmt eldra deiliskipulagi. Golfklúbburinn sé með veitinga- og vínveitingarleyfi og muni umrætt húsnæði vera í útleigu að hluta til. Stefnt sé að því að félagsmenn hafi aðgang að íþróttamiðstöðinni allan sólarhringinn og sé það til þess fallið að valda mun meira óhagræði fyrir íbúa Þrastarhöfða 53 og 55 en áður. Muni fyrirhuguð starfsemi illa samræmast hljóðlátri íbúðarbyggð og hafa áhrif á íbúa nærliggjandi húsa.

Breytt starfsemi í húsnæði golfklúbbsins hafi ekki verið nægilega vel kynnt. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir byggingarreit fyrir golfskála en nú eigi að reisa nýja íþróttamiðstöð. Nauðsynlegt hafi verið að skýra íbúum aðliggjandi húsa frá fyrirhugðum breytingum. Breytingartillagan hafi því ekki verið rökstudd með viðeigandi hætti, líkt og kveðið sé á um í gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Í auglýstri verkefnislýsingu hafi ekki verið minnst einu orði á íþróttamiðstöð, aðeins fjallað um byggingarreit fyrir golfskála.
Staðsetning umræddra bílastæða muni hafa í för með sér veruleg grenndaráhrif gagnvart kæranda. Feli þau í sér í óhæfilega röskun á hagsmunum og lífsgæðum hans, auk þess sem verðgildi fasteignar hans rýrni. Í upphaflegu deiliskipulagi hafi verið áætlað ansi stórt svæði fyrir bílastæði og nýja íbúðarbyggð. Hafi kærandi ekki mátt gera ráð fyrir því að bílastæðin yrðu staðsett beint fyrir utan íbúðarhús hans, nánast í bakgarði lóðarinnar. Breyting sú sem gerð hafi verið vegna athugasemda kæranda hafi ekki teljanleg áhrif. Á deiliskipulagsuppdrætti megi sjá að rétt um 4,7 m séu á milli bílastæðaplansins og lóðarmarka Þrastarhöfða 53. Þá sé staðsetning púttflatar framan við bílastæðin og gegnt lóðarmörkum Þrastarhöfða 55 til þess fallin að auka slysahættu.

Ekki hafi verið gætt meðalhófs við meðferð málsins í samræmi við 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Óumdeilt sé að töluvert fleiri valkostir hafi staðið til boða, í mun meiri fjarlægð frá nærliggjandi húsum. Sé staðsetning golfvallar svo nærri íbúðarbyggð fordæmalaus á landinu öllu. Hafi ákvæðum gr. 5.2.1. og gr. 5.3.2.8. í skipulagsreglugerð ekki verið fylgt með fullnægjandi hætti við ákvarðanatökuna.

Þá hafi framkvæmdir verið hafnar fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins. Hafi skipulagsfulltrúi því með réttu átt að stöðva þær í samræmi við 16. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Málsrök sveitarfélagsins:
Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Gætt hafi verið að öllum lögum og reglum við gerð og auglýsingu hins umdeilda deiliskipulags.

Allt frá samþykkt deiliskipulagsins árið 2004 hafi legið fyrir að gert væri ráð fyrir 140 bílastæðum fyrir golfvöllinn á því svæði sem hin kærða skipulagsbreyting taki til. Hljóti kærandi að hafa gert sér grein fyrir þessu áður en hann hafi fest kaup á fasteign sinni árið 2011. Þótt staðsetning bílastæðanna hafi ekki legið nákvæmlega fyrir á þeim tíma hafi deiliskipulagið gefið til kynna að þau yrðu í námunda við Þrastarhöfða 53. Byggingarreitur golfskála, í næsta nágrenni við hús kæranda, hafi verið sýndur í deiliskipulagi Þrastarhöfða, samþykktu árið 2004. Fjarlægð frá bílastæðum að lóðarmörkum Þrastarhöfða 53 sé ekki 4,7 m heldur 12,5 m, eftir að felld hafi verið út níu bílastæði, miðað við upphaflegar tillögur, til að koma við móts við sjónarmið kæranda og í því skyni að gæta meðalhófs. Við það hafi bílastæðin færst um 5 m fjær lóðunum en áformað hafi verið, en í staðinn komið grænt belti.

Í upphaflegu deiliskipulagi golfvallarins hafi byggingarreitur fyrir golfskála verið í 15 m fjarlægð frá lóðarmörkum Þrastarhöfða 55. Árið 2006 hafi verið samþykkt að mörk hans væru færð í rúmlega 30 m fjarlægð frá fyrrnefndri lóð, en skálinn hafi þó í megindráttum verið áfram á sama stað. Með hinni kærðu breytingu færist skálinn enn fjær íbúðarlóðunum, eða í 55 m fjarlægð. Breyting sú sem nú sé kærð muni því ekki valda kæranda auknu ónæði eða skerða hagsmuni hans umfram það skipulag sem gilt hafi, heldur fremur hið gagnstæða. Samkvæmt hinu breytta skipulagi muni fyrirhugað hús liggja lægra í landinu en áður var fyrirhugað. Þannig verði það lítt sjáanlegt frá Þrastarhöfða 53, eða a.m.k. síður en fyrra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir. Hafi þetta verið gert til að húsið skerti ekki útsýni frá nærliggjandi húsum og til þess að minnka mögulegt ónæði af starfseminni.

Ekki verði séð að í notkun hugtaksins íþróttamiðstöð felist mun umfangmeiri starfsemi en kærandi hafi mátt gera ráð fyrir. Sveitarfélaginu sé ekki kunnugt um að starfseminni hafi verið lýst með öðrum hætti áður en kærandi eignaðist fasteign sína. Fyrirhuguð starfsemi sé í góðu samræmi við þá starfsemi sem almennt megi búast við í golfskálum. Golfklúbburinn sé þegar með veitinga- og vínveitingarleyfi án þess að það hafi haft í för með sér ónæði. Ætti starfsemi hússins ekki að valda kæranda ónæði, eða a.m.k. ekki meira ónæði en almennt megi búast við í þéttbýli. Fari hins vegar svo hafi bærinn heimild til að bregðast við því, a.m.k. hvað varði ónæði af völdum veitinga í húsinu. Þá stafi lítil slysahætta af púttflöt, enda slysahætta minnst þegar golfboltinn sé næst jörðu. Nú þegar sé púttflöt við núverandi golfskála mjög nálægt byggð.

Athugasemdir leyfishafa: Golfklúbbi Mosfellsbæjar var tilkynnt um framkomnar kærur og honum gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum við þær, en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytinga á deiliskipulagi Blikastaðaness, en breytingarnar felast m.a. í færslu lóðar og byggingarreits íþróttamiðstöðvar/golfskála. Jafnframt er nefnd lóð stækkuð. Þá er skipulagssvæðið stækkað til suðurs, vestan lóða við Þrastarhöfða, og þar gert ráð fyrir bílastæðum. Á skipulagsuppdrætti er einnig sýnd lega bráðabirgðavegar að bílastæðunum. Eru umrædd bílastæði vestan við íbúðarhúsalóð kæranda, í yfir 10 m fjarlægð, og liggur göngustígur þar á milli.

Kærandi ber fyrir sig að skort hafi á rökstuðning fyrir breytingu á starfseminni og vísar í því sambandi til gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir m.a. að í greinargerð skuli lýsa breytingunni, forsendum hennar, rökstuðningi fyrir henni, samráði við hagsmunaaðila og samræmi við aðalskipulag. Þá telur kærandi að fyrirhuguð starfsemi samræmist ekki hljóðlátri íbúðarbyggð og vísar til gr. 5.3.2.8. í skipulagsreglugerð, þar sem fjallað er um að þess skuli gæta að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum vegna bílaumferðar, hávaða, ljósanotkunar eða annars ónæðis og að öruggar og greiðar göngu- og hjólaleiðir séu að skólum og annarri nærþjónustu.

Golfvöllurinn og aðstaða honum tengd er samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 á opnu svæði til sérstakra nota, en bílastæði þau og aðkomuvegur sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til eru á skilgreindu íbúðarsvæði. Gerir skipulagsreglugerð ráð fyrir því að landnotkun geti verið mismunandi innan sama skipulagssvæðis, en jafnframt skal að því gætt að hægt sé að uppfylla kröfur annarra laga, s.s. um hljóðvist. Liggur ekki annað fyrir en að svo verði á umræddu svæði, auk þess sem áskilnaði um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana er fullnægt, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulagslög hafa það m.a. að markmiði að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana. Um samráð og samráðsaðila við gerð deiliskipulags er sérstaklega fjallað í gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð, en samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, umsagnaraðila og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Tillaga skipulagsbreytingarinnar var auglýst til kynningar og kom kærandi að athugasemdum sínum í málinu, sem í kjölfarið var svarað efnislega af hálfu skipulagsyfirvalda. Kom fram í þeim svörum að bílastæðum hefði verið fækkað um níu frá fyrstu tillögu að útfærslu þeirra. Verður ekki annað séð en að lögbundið samráð hafi þannig farið fram, en lóð kæranda liggur ekki að hinu breytta deiliskipulagssvæði.

Áður en tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var auglýst til kynningar hafði sveitarfélagið kynnt skipulagslýsingu deiliskipulags við Æðarhöfða, en meðal markmiða þess var að koma fyrir aðkomu og bílastæðum „þar sem bygging nýja golfskálans er nú í bígerð“. Ekki var þó lokið við gerð þessa deiliskipulags, heldur auglýst til kynningar tillaga að breytingu á deiliskipulagi Blikastaðaness, eins og fyrr greinir. Af hálfu kæranda var óskað upplýsinga hjá sveitarfélaginu um fyrirhugaða starfsemi íþróttamiðstöðvar og í svarbréfi frá framkvæmdastjóra golfklúbbsins 25. september 2015 sagði m.a. eftirfarandi: „Í húsinu verður að finna hefðbundna aðstöðu eins og skrifstofur, búningsklefa, móttöku, afgreiðslu á golfvörum, veitingasölu, hátíðasal, fjölnotarými, ásamt því að á neðri hæð byggingarinnar verða svæði til iðkunar golfs innandyra, eins og til að mynda golfhermar, æfingaflöt og svæði til golfleikfimi.“ Þá var tekið fram að aðstaðan yrði leigð út að einhverju marki. Af framangreindu verður ráðið að um nokkuð viðameiri starfsemi verður að ræða í umræddu húsnæði en áður hefur verið, en ekki verður hins vegar séð að eðli hennar sé breytt frá því sem áður var. Má og fallast á með sveitarfélaginu að hún sé í samræmi við þá starfsemi sem almennt megi búast við í golfskálum. Þá verður að ætla að sú breyting að færa byggingarreit hússins ívið fjær lóð kæranda geti haft minna ónæði í för með sér fyrir lóðarhafa nærliggjandi húsa en verið hefði að óbreyttri staðsetningu.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu var tekið fram í greinargerð með deiliskipulagi golfvallarins, er tók gildi árið 2005, að allt að 140 bílastæði yrðu utan við skipulagsreitinn. Texta sama efnis efnis var og að finna á skipulagsuppdrættinum sem gaf til kynna að stæðin yrðu sunnan við golfskálann og vestan við lóð kæranda, þ.e. á svipuðum stað og gert er ráð fyrir með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Mátti kærandi því ætla að bílastæði golfskálans yrðu utan skipulagsreitsins en þó jafnframt staðsett í námunda við golfskálann, þrátt fyrir að tekið hefði verið fram í greinargerð deiliskipulagsins að staðsetning þeirra á uppdrætti væri aðeins til skýringa en ekki bindandi. Samkvæmt gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð skal hverju sinni setja í deiliskipulagi skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóða, sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða, stæður fyrir reiðhjól og önnur farartæki eftir því sem við á. Ekki verður séð að í umræddu deiliskipulagi sé fjallað sérstaklega um fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Eins og hér stendur á verður þó ekki talið að það geti haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda eru fyrir hendi ákvæði þar að lútandi í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem taka þarf tillit til við frekari uppbyggingu á skipulagsreitnum. Hefur það og verið gert við veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis, en í umsókn um það er sýnt fyrirkomulag 130 bílastæða og eru þar af tvö merkt fyrir hreyfihamlaða, í samræmi við töflu 6.03 í gr. 6.2.6. í reglugerðinni.

Auglýsing nr. 22/2013 um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna er sett með stoð í 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Um skráningu dagskrármála er fjallað í 7. gr. auglýsingarinnar. Segir þar að skrá skuli í fundargerð við dagskrármálið sjálft hvaða afgreiðslu það hafi hlotið, ályktanir og niðurstöðu, s.s. hvort mál hafi verið samþykkt, því synjað, frestað, vísað til umsagnar nefndar eða starfsmanns, vísað til fullnaðarafgreiðslu nefndar eða starfsmanns eða hvort máli hafi verið vísað frá. Segir enn fremur að varði afgreiðsla dagskrármáls ekkert af þessu sé málið lagt fram án efnislegrar afstöðu til þess. Í 15. gr. samþykktar nr. 238/2014 um stjórn Mosfellsbæjar er fjallað um fundarsköp og ritun fundargerða. Er þar um afgreiðslu dagskrármála sagt í c-lið að erindi sé afgreitt í bæjarstjórn með því að samþykkja það, synja því, fresta því, vísa því til umsagnar annarrar nefndar eða starfsmanns, vísa því til endanlegrar afgreiðslu nefndar eða starfsmanns, eða vísa því frá bæjarstjórn. Enn fremur segir að erindi sem einungis sé til upplýsingar eða kynningar og þarfnist ekki efnislegrar niðurstöðu séu lögð fram. Eftir samþykkt hinnar kærðu deiliskipulagstillögu í sveitarstjórn var skipulagssvæðið stækkað svo það næði til bráðabirgðavegtengingar að Æðarhöfða vegna athugasemda Skipulagsstofnunar þar um. Var tillagan svo breytt lögð fram til kynningar í skipulagsnefnd og sú afgreiðsla samþykkt af sveitarstjórn, svo sem nánar er rakið í málavaxtalýsingu. Ekki var hins vegar samþykktur breyttur skipulagsuppdráttur, svo sem nauðsynlegt hefði verið til að efnisleg niðurstaða lægi fyrir í skilningi þeirra ákvæða sem að framan eru rakin. Leiðir af þessu að umrædd stækkun skipulagssvæðisins telst ekki hafa verið samþykkt með fullnægjandi hætti í sveitarstjórn. Að því virtu, og með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þykir verða að fella úr gildi þann hluta hinnar kærðu skipulagsákvörðunar er að þessu lýtur, en láta ákvörðunina að öðru leyti halda gildi sínu.

Ekki verður séð að sveitarstjórn hafi við útgáfu framkvæmdaleyfis fjallað um og tekið afstöðu til þess hvort framkvæmd væri í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Sveitarstjórn hafði hins vegar þegar fjallað um og gert breytingar á deiliskipulagi umrædds svæðis og í útgefnu framkvæmdaleyfi er tekið fram að leyfisveitingin byggist á því að fyrirhuguð mannvirki séu í samræmi við gildandi deiliskipulag, með breytingum þeim sem samþykktar voru í bæjarstjórn. Eins og atvikum málsins er hér sérstaklega háttað þykir annmarki þessi því ekki þess eðlis að leiða beri til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Eigi að síður verður ekki hjá því komist að fella hið kærða framkvæmdaleyfi úr gildi að því er varðar umræddan aðkomuveg, enda á sá hluti þess sér ekki lengur stoð í gildandi deiliskipulagi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2016, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blikastaðaness í Mosfellsbæ, er felld úr gildi að því er varðar stækkun skipulagssvæðisins til suðurs yfir aðkomuveg.

Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. apríl 2016, um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við golfvöllinn á Blikastaðanesi og aðkomuvegar að þeim, er felld úr gildi að því er varðar gerð aðkomuvegar.