Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

106/2017 Seljaland

Árið 2018, fimmtudaginn 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að krefjast ekki byggingarleyfis vegna gluggaframkvæmda tveggja íbúðareigenda í fjöleignarhúsinu að Seljalandi nr. 5-7 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. september 2017, er barst nefndinni 27. s.m. kæra eigendur íbúðar í stigagangi nr. 5 við Seljaland í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem tilkynnt var kærendum með tölvupósti 14. september 2017, að krefjast ekki byggingarleyfis  vegna gluggaframkvæmda tveggja íbúðareigenda í nefndu fjöleignarhúsi. Er gerð krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi og að honum gert að krefjast byggingarleyfis fyrir umræddum gluggaskiptum. Að öðrum kosti verði byggingarfulltrúa gert að svara efnislega tilteknum spurningum kærenda vegna framkvæmdanna, sem beint hafi verið til hans í tölvupósti frá 14. september 2017 í tilefni af fyrrgreindum gluggaskiptum.

Málsatvik og rök: Fjöleignarhúsið að Seljalandi 5-7 er tveggja hæða auk kjallara með átta íbúðum í hvorum stigagangi. Byggingarteikningar þess voru samþykktar í byggingarnefnd 12. mars 1970. Kærendur eiga íbúð á fyrstu hæð í stigagangi nr. 5 og snýst mál þetta um gluggaskipti í íbúðum á fyrstu og annarri hæð sama stigagangs. Var ráðist í þær framkvæmdir en þegar upp var staðið reyndust opnanleg gluggafög hinna nýju glugga breiðari en í þeim gluggum sem fyrir voru í húsinu. Af þessu tilefni sendi annar kærenda, sem er formaður húsfélagsins Seljalands 5, erindi til byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 31. ágúst 2017, þar sem krafist var að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Í kjölfarið voru sami kærandi og embætti byggingarfulltrúa í tölvupóstsamskiptum vegna málsins. Urðu lyktir þær að embætti byggingarfulltrúa tilkynnti kæranda með tölvupósti 14. september 2017 þá niðurstöðu að umrædd breyting á gluggum væri óveruleg og félli undir gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um framkvæmdir sem undanþegnar væru byggingarleyfi. Yrði því ekki aðhafst frekar í málinu af hálfu embættisins. Hafa kærendur borið þær málalyktir undir úrskurðarnefndina, eins og að framan greinir.

Kærendur benda á að byggingarfulltrúi sitji aðgerðarlaus hjá þótt tveir af sextán íbúðareigendum að Seljalandi 5-7 setji í íbúðir sínar opnanleg gluggafög sem séu 10 cm breiðari en sýnt sé á samþykktum teikningum og séu fyrir í öðrum gluggum fjöleignarhússins. Gluggakarmar hússins séu í sameign allra eigenda en breytingin hafi verið gerð án samráðs við þá. Þetta skapi mikla óvissu fyrir aðra eigendur hússins um það við hvað eigi að miða þegar komi að gluggaskiptum í íbúðum þeirra. Þá sé fyrirsjáanlegt að íbúðir hússins rýrni í verði hafi hver íbúðareigandi sinn háttinn á við fyrirkomulag glugga í sinni íbúð.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að mál þetta snúist ekki um framkvæmd sem háð sé byggingarleyfi, sbr. c-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð, þar sem fram komi að óverulegar breytingar utanhúss séu undanþegnar byggingarleyfi. Umdeild framkvæmd kunni hins vegar að vera háð samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum 41. gr. laga um fjöleignahús nr. 26/1994 og verði eigendur í þeim tilvikum að leysa úr ágreiningi sínum á þeim vettvangi. Það sé ekki hlutverk byggingarfulltrúa að hafa afskipti af framkvæmdum sem ekki séu byggingarleyfisskyldar.

Eigendur íbúða 0101 og 0201 að Seljalandi 5, þar sem umrædd gluggaskipti voru gerð, telja að eðlilega hafi verið staðið að gluggaskiptum í íbúðum þeirra og að gott samráð hafi verið haft við alla í fjölbýlishúsinu. Húsfundir hafi verið haldnir í húsfélaginu Seljalandi 5 þar sem tilboð í glugga hafi verið kynnt, en þar hafi breidd opnanlegra glugga m.a. komið fram og fyrirhugaðar framkvæmdir samþykktar. Öðrum eigendum hafi verið boðið að ganga inn í tilboðið sem þeir hafi ekki þegið. Formanni húsfélags Seljalands 7 hafi verið gerð grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og þær kynntar á sameiginlegum fundi húsfélaganna þar sem allir hafi verið sáttir við nýju gluggana að undanskyldum kærendum. Nauðsynlegt hafi verið að hafa opnanleg fög breiðari en þau sem fyrir voru svo unnt væri að koma fyrir nútímalegum læsingum. Auk þess hefðu gluggapóstar orðið örlítið þykkari, en hvort tveggja gæfi betri þéttingu. Opnanleg fög hafi verið mæld á upprunalegri teikningu hússins og þau þá reynst 35 cm, en nýju fögin séu 33 cm.

———

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi 16. nóvember 2017.

Niðurstaða: Í máli þessu er fyrst og fremst um það deilt hvort endurnýjun glugga tveggja íbúða í fjöleignarhúsinu að Seljalandi 5 hafi verið þess eðlis að afla hafi þurft byggingarleyfis fyrir þeim framkvæmdum og einnig um skyldu byggingarfulltrúa til íhlutunar vegna framkvæmdanna. Óumdeilt er að opnanleg gluggafög nýju glugganna eru 33 cm breið eða um 10 cm breiðari en þau sem fyrir voru frá byggingu hússins.

Í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er kveðið á um að unnt sé að leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á um hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi. Eins og atvikum er háttað í máli þessu verður tekin afstaða til þess hvort umdeild gluggaskipti séu háð byggingarleyfi eða ekki.

Við setningu byggingarreglugerðar nr. 112/2012 tók gildi ákvæði gr. 2.3.5. þar sem tiltekin mannvirki og framkvæmdir voru undanþegnar byggingarleyfi. Samkvæmt c-lið þeirrar greinar féll viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðingar, þakkanta, veggklæðninga og glugga undir þá undanþágu, ef notað væri eins eða sambærilegt efni. Þó þurfti að sækja um byggingarleyfi fyrir breytingu á útliti byggingar. Með reglugerð nr. 360/2016, um (4.) breytingu á nefndri reglugerð, tók gildi breyting á tilvitnaðri gr. 2.5.5. og var c-lið greinarinnar þá breytt á þann veg að viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðninga og glugga væru undanþegnar byggingarleyfi þegar notað væri eins eða sambærilegt efni og frágangur væri þannig að útliti byggingar væri ekki breytt eða breyting væri óveruleg. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. maí 2016.

Samkvæmt fyrirliggjandi útlitsmynd af fjölbýlishúsinu að Seljalandi 5-7 í mælikvarða 1/100, sem samþykkt var á fundi byggingarnefndar 12. mars 1970, eru hin umræddu opnanleg gluggafög með körmum um 40 cm á breidd og eru bæði upprunalegu fögin og hin nýju því mjórri en útlitsteikningin gerir ráð fyrir. Úrskurðarnefndin fór á vettvang í því skyni að meta áhrif nýju glugganna á ytra útlit hússins. Er það niðurstaða nefndarinnar að útlitsbreytingin verði að teljast óveruleg. Er ísetning nýju glugganna því ekki háð byggingarleyfi samkvæmt núgildandi ákvæðum byggingarreglugerðar, sbr. c-lið gr. 2.3.5. í reglugerðinni. Bar byggingarfulltrúa því ekki að kalla eftir umsókn um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna við gluggaskiptin eða hlutast til um málið með öðrum hætti.

Í máli þessu gera kærendur þá kröfu að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að svara tilteknum spurningum kærenda sem beint hafi verið til hans og lúta að því við hvaða hlutföll skuli miða milli glugga og opnanlegs gluggafags við síðari endurnýjun glugga í umræddu húsi. Samkvæmt 59. gr. laga um mannvirki og 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sæta stjórnvaldsákvarðanir kæru til úrskurðarnefndarinnar. Er hlutverk nefndarinnar því fyrst og fremst það að endurskoða lögmæti slíkra ákvarðana nema að lög mæli sérstaklega á annan veg. Úrskurðarnefndin hefur hins vegar ekki boðvald yfir byggingaryfirvöldum vegna einstakra embættisverka. Er það því ekki á valdsviði nefndarinnar að leggja fyrir byggingarfulltrúa að svara einstökum spurningum sem til hans kann að vera beint. Verður kröfu kærenda þess efnis því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hin kærða framkvæmd við gluggaskipti í fjölbýlishúsinu að Seljalandi 5-7 í Reykjavík er ekki byggingarleyfisskyld.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.