Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

168/2016 Skólavörðustígur

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 6. apríl, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 168/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Vættaborgum 150, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. nóvember 2016 um að veita neikvætt svar við fyrirspurn um hvort samþykkt yrði að skrá bakhús að Skólavörðustíg 2 (Bankastræti 14) sem einstaklingsíbúð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 1. febrúar 2017.

Málsatvik og rök:
Með fyrirspurn, dags. 28. september 2016, var óskað eftir því við byggingarfulltrúa Reykjavíkur „að Skólavörðustígur 2 (Bankastræti 14) bakhús matsluti 04 01 01 verði skráð sem einstaklingsíbúð“. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru fasteignirnar Skólavörðustígur 2 og Bankastræti 14 á viðskipta- og þjónustulóð með landnúmerið 101383. Matshluti 04 sem merktur er 0101 er í fasteignaskrá skráður sem vörugeymsla byggð árið 1910 og mun það vera eign sú sem um ræðir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. nóvember 2016 var bókað um neikvæða niðurstöðu hans þar sem fyrirspurn samræmdist ekki byggingarreglugerð og ekki væri að sjá í gögnum að bakhús hefði verið samþykkt sem íbúð.

Kærandi tekur fram að samkvæmt svari byggingarfulltrúa samræmist húsið ekki byggingarreglugerð, en kærandi telji að taka þyrfti mið af byggingarreglugerð frá þeim tíma er húsið hafi verið byggt en ekki eins og hún sé í dag. Þá hafi bakhúsið verið samþykkt sem einstaklingsíbúð með þinglýstri yfirlýsingu árið 1993 og þinglýstu afsali árið 1976. Ennfremur hafi verið samþykktar teikningar árið 2000 en byggingarleyfi ekki gefið út.

Reykjavíkurborg krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 16. nóvember s.á., hafi eiganda einungis verið tilkynnt niðurstaða í máli vegna fyrirspurnar kvartanda, en ekki hafi verið tekin formleg stjórnvaldsákvörðun.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um neikvæða afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. nóvember 2016 á fyrirspurn um hvort samþykkt yrði að skrá bakhús að Skólavörðustíg 2 (Bankastræti 14) sem einstaklingsíbúð. Kærandi mun vera eigandi umrædds húsnæðis.

Erindi það sem beint var til byggingarfulltrúa var á eyðublaði með árituninni „fyrirspurn“. Þar var óskað eftir að eign sú sem um ræðir yrði skráð sem einstaklingsíbúð og var vísað til meðfylgjandi gagna. Greind gögn varða eigendaskipti að eigninni og í yfirlýsingu sem innfærð var í þinglýsingabækur 5. maí 1993 kemur fram að eign sú sem þar skipti höndum sé einstaklingsíbúð merkt 04-01-01. Af gögnum og efni fyrirspurnarinnar verður því ráðið að beðið hafi verið um skráningu umræddrar eignar sem íbúðarhúsnæðis, en hún er nú skráð sem vörugeymsla á viðskipta- og þjónustulóð. Var því verið að biðja um leyfi fyrir breyttri notkun eignarinnar, en skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er slík notkun háð leyfi byggingarfulltrúa. Samþykkt eða synjun slíks leyfis verður borið undir úrskurðarnefndina. Hönnunargögn skulu fylgja umsókn um byggingarleyfi samkvæmt nánari fyrirmælum í mannvirkjalögum og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Slík gögn fylgdu ekki erindi því sem neitað var og ber málsmeðferð byggingarfulltrúa jafnframt með sér að farið var með erindið og það afgreitt sem fyrirspurn.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu byggingarfulltrúa verður ekki lögð að jöfnu við byggingarleyfisumsókn, einkum þegar á skortir að fyrirspurnin sé studd haldbærum gögnum. Verður og ekki talið að neikvætt svar byggingarfulltrúa við þeirri fyrirspurn hafi falið í sér neina þá stjórnvaldsákvörðun sem skapaði kæranda réttindi eða skyldur. Þar sem ekki er um að ræða lokaákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli, verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

86/2015 Brekkuskógur

Með
Árið 2017, miðvikudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2015, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi orlofssvæðis BHM í Brekkuskógi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. október 2015, er barst nefndinni 9. s.m., kæra ábúendur og eigendur jarðarinnar Brekku í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi orlofssvæðis BHM í Brekkuskógi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að fyrirhuguð framkvæmd á grundvelli umræddrar deiliskipulagsbreytingar yrði stöðvuð til bráðabirgða. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 3. nóvember 2015 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 20. október 2015. 

Málavextir: Hinn 17. ágúst 2006 tók gildi deiliskipulag fyrir orlofssvæði BHM í Brekkuskógi, sem er á útskiptu landi úr jörðinni Brekku í Biskupstungum. Gert var ráð fyrir að á skipulagssvæðinu yrðu alls 43 frístundahús auk þjónustumiðstöðvar, baðhúss og húss með aðstöðu fyrir tjaldsvæði.

Í byrjun árs 2014 var grenndarkynnt tillaga að breytingu á nefndu deiliskipulagi þar sem markaður var byggingarreitur fyrir allt að 250 m² áhaldahús, rétt austan við bifreiðastæði gegnt núverandi þjónustumiðstöð. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum. Málið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 20. febrúar 2014 og tekið fram að þrjú athugasemdabréf hefðu borist en jafnframt lægi fyrir bréf skipulagshöfundar um framkomnar athugasemdir. Var afgreiðslu málsins frestað og skipulagsfulltrúa falið að óska eftir nánari upplýsingum frá skipulagshöfundi. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 30. apríl s.á. Fært var til bókar að fyrir lægi ný greinargerð frá skipulagshöfundi þar sem gerð væri tillaga um að fyrrnefnt áhaldahús yrði allt að 200 m² og hæst 3,4 m. Kom og fram að eigendur jarðarinnar Brekku teldu að upplýsingar í greinargerð skipulagshöfundar væru ekki réttar. Var afgreiðslu málsins frestað og samþykkt að rætt yrði við umsækjendur um aðra staðsetningu hússins.

Á fundi sveitarstjórnar 5. mars 2015 var lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi. Fól hún í sér að umrætt áhaldahús yrði á sama stað og áður hafði verið ráðgert en minna, eða að hámarki 120 m². Hámarkshæð hússins yrði 3,8 m. Færði sveitarstjórn til bókar að komið hefði verið til móts við athugasemdir sem borist hefðu við fyrri tillögu. Samþykkt var að grenndarkynna tillöguna svo breytta og bárust athugasemdir frá kærendum á kynningartíma. Voru þær til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar 22. apríl 2015 en ekki var fallist á framkomnar röksemdir kærenda. Mælti nefndin með því að sveitarstjórn samþykkti breytinguna í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og fæli skipulagsfulltrúa að svara innkominni athugasemd. Á fundi sveitarstjórnar 7. maí 2015 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest. Í kjölfarið leitaði sveitarstjóri álits lögmanns á nefndri breytingu og á fundi sveitarstjórnar 3. september s.á. var málið á ný til umræðu. Samþykkti sveitarstjórn að fyrri afgreiðsla hennar frá 7. maí s.á. stæði. Var skipulagsfulltrúa falið að auglýsa deiliskipulagsbreytinguna í B-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist hún gildi með birtingu auglýsingar þar um 9. september s.á.

Málsrök kærenda:
Kærendur benda á að umrætt svæði sé í deiliskipulagi skilgreint sem frístundabyggð. Mikilvægt sé að byggingar sem þar rísi falli að þeirri skilgreiningu. Af ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um frístundabyggð megi ráða að á lóðum undir frístundahús geti verið smærri mannvirki sem tilheyri viðkomandi húsi. Séu í því sambandi sérstaklega nefndar geymslur, gestahús og bátaskýli, sbr. gr. 5.3.2.12. í reglugerðinni. Hér sé hins vegar gert ráð fyrir byggingu af allt annarri stærðargráðu, þar sem um sé að ræða vélageymslu eða áhaldahús.

Umrædd breyting sé veruleg og hafi borið að fara með hana eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða. Ekki hafi verið heimilt að fara með breytinguna sem óverulega í skilningi undanþáguákvæðis 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem skýra beri þröngt. Sé í þessu sambandi jafnframt vísað til gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð. Með greindri breytingu sé vikið frá notkun og útliti viðkomandi svæðis. Um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða en erfitt yrði í kjölfar þessa að neita öðrum sumarhúsaeigendum að byggja vélageymslur eða sérstök áhaldahús við sumarhús sín. Í því felist mikið frávik frá þeim byggingum sem nú séu til staðar eða fyrirhugaðar séu á svæðinu.

Fyrrgreind bygging eigi ekki heima í skipulagðri frístundabyggð, heldur á skipulagðri iðnaðarlóð. Um viðkvæmt svæði sé að ræða en starfsemi vinnuvéla fylgi jafnan talsverð eldhætta og hætta á olíumengun. Eðlilegra sé að hafa vélageymslu í næsta nágrenni við þjónustumiðstöð BHM en ekki upp við lóðir kærenda. Muni breytingin hafa mikil áhrif á verðgildi og nýtingu á lóðum kærenda, sem skipulagðar séu undir frístundabyggð.  

Málsrök Bláskógabyggðar: Úrskurðarnefndinni hafa ekki borist athugasemdir frá sveitarfélaginu í tilefni af kærumáli þessu en í minnisblaði lögmanns, er unnið var fyrir sveitarfélagið, er m.a. bent á að sveitarstjórn fari með skipulagsvald í lögsagnarumdæmi sveitarfélagsins og ekki verði séð að umrætt hús sé óhóflegt að stærð miðað við aðstæður á svæðinu. Áhaldahúsið verði fellt að umhverfi staðarins og muni þar af leiðandi bera minna á því. Nauðsynlegt sé vegna þjónustu við orlofssvæðið að hafa slíkt hús. Þá sé sérstaklega gert ráð fyrir geymslum á frístundasvæði skv. gr. 5.2.3.12 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Um minniháttar breytingu sé að ræða frá gildandi deiliskipulagi. Ekki verði séð að hún raski grenndarhagsmunum kærenda eða leiði til rýrnunar á verðmæti annars frístundalands í eigu þeirra. Geti eigendur fasteigna ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér einhverja skerðingu eða breytingu á hagsmunum þeirra.

Málsrök lóðarhafa: Af hálfu lóðarhafa er á það bent að þegar litið sé til staðhátta á skipulagssvæðinu sé umrædd breyting minniháttar. Ekki standi annað til en að reisa áhaldahús sem nýtast myndi sem aðstaða fyrir umsjónarmann til að sinna minniháttar viðhaldi og geyma mætti þar t.a.m. eina bifreið, fjórhjól og smátæki. Fyrirhuguð bygging falli vel að þeirri byggð sem fyrir sé með tilliti til stærðar og staðsetningar. Samþykkt breyting sé því í fullu samræmi við ákvæði gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Hvorki sé vikið frá svipmóti þeirrar byggðar sem fyrir sé né notkun svæðisins, sbr. gr. 5.3.2.12. í reglugerðinni. Breytingin sé í raun nauðsynleg svo unnt sé að veita þá þjónustu sem eðlileg geti talist á orlofshúsasvæðinu.

Nýr byggingarreitur sé ekki ætlaður undir vélageymslu enda sé snjómokstur á svæðinu ekki meðal verkefna umsjónarmanna eða á hendi lóðarhafa. Staðhæfingum um að byggingin muni valda umhverfisspjöllum sé hafnað sem röngum og ósönnuðum. Ekki verði séð hvernig nefnd bygging geti valdið meiri óþægindum en það bílastæði sem þar sé fyrir. Byggingin sé í sömu hæð og greint bílastæði, eða 50 cm neðar en gólfkóti þjónustuhúss. Dyr hússins muni snúa að bílaplani og að Brekkuþingi en ekki að landi kærenda. Vegur ofan áhaldahúss eða milli þess og lands kærenda sé nokkru hærri en bílaplanið. Því sé ljóst að húsið falli vel að staðháttum og muni vart sjást frá lóðum þeim sem kærendur vísi til.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr., skuli fara fram grenndarkynning. Skuli við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Er sambærilegt ákvæði að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt er þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Var málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar skv. áðurnefndri 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Árið 2006 tók gildi deiliskipulag er tekur til orlofssvæðis BHM í Brekkuskógi, sem samkvæmt skipulaginu er um 25,6 ha að stærð. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að orlofssvæðið hafi verið að byggjast upp allt frá árinu 1976 og hafi þjónustumiðstöð verið byggð, komið fyrir leiksvæðum og leiktækjum, boltavelli og mínígolfi. Í skipulaginu er gert ráð fyrir tjaldsvæði með salernis- og þvottaaðstöðu og að 43 sumarhús verði á deiliskipulagssvæðinu. Með hinni kærðu ákvörðun er markaður byggingarreitur undir allt að 120 m2 einnar hæðar áhaldahús fyrir geymslu tækja og áhalda er tengist rekstri svæðisins. Hámarkshæð hússins miðað við gólfkóta verður 3,8 m og húsið staðsett við bílastæði þjónustumiðstöðvarinnar. Vegna landhalla mun hlið hússins sem snýr að landi kærenda rísa um 1,2 m yfir jarðvegsyfirborð.

Í gr. 5.3.2.12. í skipulagsreglugerð er gert ráð fyrir að í frístundabyggð undir orlofsbústaði félagasamtaka geti verið svæði sem þjóni sameiginlegum hagsmunum þeirrar byggðar. Telja verður að geymsla fyrir vélar og áhöld sé eðlilegur þáttur í þjónustu við slíka orlofshúsabyggð og fari því ekki gegn gildandi landnotkun svæðisins. Með hliðsjón af stærð umrædds svæðis, þeirri starfsemi sem þar er heimiluð í gildandi skipulagi og stærð og staðsetningu heimilaðs húss á þjónustusvæði sumarhúsabyggðarinnar, verður umrædd deiliskipulagsbreyting talin óveruleg. Var því heimilt að fara með hana samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að umræddur byggingarreitur sé í a.m.k. 15 m fjarlægð frá mörkum skipulagssvæðisins. Verður ekki séð að bygging heimilaðs húss hafi að marki grenndaráhrif gagnvart landi kærenda, eins og aðstæðum er háttað. Þess ber að geta að við veitingu byggingarleyfis skal þess gætt að byggingin uppfylli öryggiskröfur byggingarreglugerðar nr. 112/2012, m.a. um brunavarnir og loftgæði.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi orlofssvæðis BHM í Brekkuskógi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

66/2015 Glaðheimareitur Bolungarvík

Með
Árið 2017, föstudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Bolungarvíkur frá 18. júní 2015 um að samþykkja deiliskipulag Glaðheimareits í Bolungarvík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. ágúst 2015, er barst nefndinni 17. s.m., kæra eigendur, Hlíðarstræti 20, Bolungarvík, þá ákvörðun bæjarstjórnar Bolungarvíkur frá 18. júní 2015 að samþykkja deiliskipulag Glaðheimareits. Skilja verður málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Bolungarvíkurkaupstað 17. september 2015 og í mars 2017.

Málavextir: Í nokkur ár mun framtíðarskipan húsnæðismála hjá leikskólanum Glaðheimum hafa verið til skoðunar hjá skipulagsyfirvöldum Bolungarvíkurkaupstaðar. Á fundi bæjarstjórnar 10. apríl 2014 var lögð fram tillaga um staðsetningu viðbyggingar við leikskólann að Hlíðarstræti 16-18. Lagði meirihluti bæjarstjórnar til að áfram yrði unnið að hönnun viðbyggingarinnar í samræmi við tillögu C, sem gerði ráð fyrir nýrri álmu meðfram Hlíðarstræti, hornrétt á eldri byggingu. Kannað yrði sérstaklega hvort hægt væri að minnka byggingarmagn. Greiddi minnihluti bæjarstjórnar atkvæði gegn tillögunni þar sem ekki hefði verið tekið tillit til athugasemda þeirra um aukna slysahættu og skert öryggi við aðkomu að leikskólanum. Áfram var unnið að málinu og á fundi umhverfismálaráðs 11. desember 2014 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi Glaðheimareits og lagt til við bæjarstjórn að hún yrði auglýst til kynningar. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 29. janúar 2015. Afmarkast skipulagssvæðið af Þjóðólfsvegi, Völusteinsstræti, Holtabrún og göngustíg norðan við lóð leikskólans að Hlíðarstræti.

Í auglýstri tillögu var tilgreint að skipulagssvæðið væri hluti af grónu íbúðarhúsahverfi bæjarins og ekki væri gert ráð fyrir miklum breytingum á því. Markmið deiliskipulagsins væri að afmarka lóðir og skilgreina stækkunarmöguleika á þeim. Fyrir lægi að stækka þyrfti leikskólann sem væri innan reitsins. Gerði tillagan ráð fyrir að byggingarmagn á lóð leikskólans að Hlíðarstræti 16-18 yrði aukið úr 263,80 m² um 478,30 m². Nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,10 í 0,25. Á tillöguuppdrætti voru sýndar tvær mismunandi hugmyndir að stækkun leikskólans.

Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, þ. á m. frá kærendum. Bentu þeir m.a. á að áætlaður byggingarreitur fyrir leikskólalóð næði allt of langt að húseign þeirra. Framkomnar athugasemdir voru til umfjöllunar á fundi umhverfismálaráðs 14. apríl 2015. Var fært til bókar að byggingarfulltrúa væri falið „að yfirfara byggingarreitinn á leikskólalóðinni“ og leggja fyrir næsta fund nefndarinnar drög að svörum við athugasemdum. Málið var á dagskrá bæjarstjórnar 30. s.m. þar sem lögð var fram bókun um uppbyggingu leikskóla í sveitarfélaginu.

Á fundi umhverfismálaráðs 26. maí 2015 voru lögð fram svör við framkomnum athugasemdum og kom þar fram að gerðar hefðu verið breytingar á hinni auglýstu skipulagstillögu varðaði byggingarreit lóðarinnar að Hlíðarstræti 16-18. Þá var tekið fram að fjarlægð byggingarreits lóðarinnar frá húsum við Hlíðarstræti 20 og Hjallastræti 27 yrði að lágmarki 6 m. Var lagt til við bæjarstjórn að tillagan svo breytt yrði samþykkt.

Hinn 18. júní 2015 var málið tekið fyrir að nýju í bæjarstjórn. Færði meirihluti hennar til bókar að umhverfismálaráð hefði í umfjöllun sinni um tillöguna tekið tillit til athugasemda íbúa í Hlíðarstræti og breytt henni til að koma til móts við þær. Minnihluti bæjarstjórnar benti hins vegar á að umhverfismálaráð hefði tekið undir athugasemdir næstu nágranna á fundi 26. maí 2015 og alvarlegt væri ef ekki væri hlustað á athugsemdir íbúanna. Var tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur. Í kjölfar þess var hún send Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 2. september 2015.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að með því að heimila í deiliskipulagi svo stóra byggingu nærri húseign þeirra sé gróflega á þeim brotið. Fyrirhuguð viðbygging muni hafa í för með sér veruleg grenndaráhrif og skerða gæði og verðmæti fasteignar þeirra. Útsýni frá húsi kærenda skerðist og hætta sé á aukinni snjósöfnun og vindstreng við hús þeirra. Hafi umhverfismálaráð tekið undir áhyggjur kærenda í svarbréfi til þeirra. Ekki hafi verið tekið tillit til framkominna athugasemda að því er varði nálægð fyrirhugaðrar byggingar við hús kærenda.

Málsrök Bolungarvíkurkaupstaðar: Sveitarfélagið tekur fram að leikskólinn að Hlíðarstræti 16-18 hafi verið byggður árið 1979. Árið 2007 hafi verið opnuð deild leikskólans í Lambhaga við Höfðastíg. Í Aðalskipulagi Bolungarvíkur 2008-2020 segi m.a. að ljóst sé að stækka þurfi leikskólann. Hann verði áfram við Hlíðarstræti en jafnframt sé gert ráð fyrir leikskólastarfi í Lambhaga. Komið hafi verið til móts við athugasemdir er borist hafi á kynningartíma tillögunnar. Meðal annars hafi verið málsett lágmarksfjarlægð milli Hlíðarstrætis 20 og byggingarreits leikskólans og byggingarreitur færður fjær Hlíðarstrætinu. Hafi deiliskipulagið verið unnið í samræmi við gildandi skipulagslög og skipulagsreglugerð.

Niðurstaða: Hið kærða deiliskipulag tekur m.a. til lóðarinnar að Hlíðarstræti 16-18 og er í máli þessu fyrst og fremst deilt um heimild fyrir viðbyggingu leikskóla sem þar er starfræktur. Umrædd lóð er á svæði ÞÍ í Aðalskipulagi Bolungarvíkur 2008-2020 sem skilgreint er sem svæði fyrir þjónustustofnanir. Er lóðin 0,4 ha samkvæmt aðalskipulagi og segir m.a. í skilmálum fyrir lóðina að þar sé gert ráð fyrir leikskóla og tilheyrandi uppbyggingu. Svæði ÞÍ er einnig leiksvæði samkvæmt aðalskipulaginu. Í greinargerð aðalskipulagsins er tekið fram að húsnæði leikskólans við Hlíðarstræti rúmi ekki þann fjölda barna sem sé á leikskólaaldri í Bolungarvík, en meðal markmiða aðalskipulagsins er að tryggja nægt leikskólapláss. Ljóst sé að stækka þurfi leikskólann. Hann verði áfram við Hlíðarstræti en jafnframt sé gert ráð fyrir leikskólastarfi í Lambhaga, þar sem leikskólinn sé jafnframt starfræktur.

Núverandi hús á lóðinni að Hlíðarstræti 16-18 er 263,80 m² að stærð, en byggingarmagn innan byggingarreits lóðarinnar getur samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi orðið allt að 742,10 m². Í sérskilmálum skipulagsins fyrir nefnda lóð er áskilið að fjarlægð byggingarreits frá húsum við Hlíðarstræti 20, þ.e. húsi kærenda, og Hjallastræti 27 verði að lágmarki 6 m. Jafnframt er tekið fram að huga skuli að gæðum lóðarinnar við hönnun byggingar og staðsetningu hennar m.t.t. snjósöfnunar, vinds og skuggamyndunar. Þá skuli tryggja að aukið byggingarmagn og fyrirkomulag á lóð skerði ekki gæði nágrannalóða. Leitast skuli við að draga úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum með landmótun, gróðurnotkun, veggjum o.þ.h. innan lóðar.

Á deiliskipulagsuppdrætti er skýringarmynd með tveimur hugmyndum að stækkun leikskólans. Önnur þeirra sýnir viðbyggingu er liggur þvert á skólann, meðfram Hlíðarstræti í átt að húsi kærenda, og er það sú staðsetning sem kærendur hafa gert athugasemdir við. Í svörum sveitarfélagsins við athugasemdum er bárust á kynningartíma tillögunnar kemur fram að ljóst sé að útsýni frá norðurhlið húss kærenda muni skerðast verulega og útsýni frá norðurhluta austurhliðar lítillega. Ekki verði séð að aukinnar skuggamyndunar muni gæta við húsið, en ekki sé útilokað að aukinn vindstrengur verði milli viðbyggingar leikskólans og hússins.

Heimiluð stækkun á húsnæði leikskólans samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi byggir á áðurgreindri stefnu og markmiðum gildandi aðalskipulags, eins og kveðið er á um í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana jafnframt fullnægt.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Við töku skipulagsákvarðana eru sveitarstjórnir enn fremur bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, er fela m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað. Fyrir liggur að með greindu skipulagi var m.a. verið að þjóna almannahagsmunum með því að bregðast við þörf á auknu leikskólaplássi í sveitarfélaginu og studdist ákvörðun sveitarstjórnar því við málefnaleg sjónarmið.

Á samþykktum deiliskipulagsuppdrætti er markaður byggingarreitur yfir stóran hluta lóðarinnar Hlíðarstræti 16-18, sem er talin vera 2.968,39 m² að stærð. Heimilað er að stækka byggingu þá sem fyrir er á lóðinni úr 263,80 m² í 742,10 m², eða um 478,30 m² . Staðsetning viðbyggingar getur því orðið með ýmsu móti á lóðinni. Grenndaráhrif viðbyggingarinnar á næstu fasteignir verða því ekki ráðin fyrr en endanleg ákvörðun verður tekin um staðsetningu hennar með samþykki byggingarleyfis og þá að gættum gildandi skilmálum deiliskipulagsins. Skýringarmyndir þær sem sýna tvær hugmyndir að staðsetningu viðbyggingarinnar teljast ekki vera bindandi hluti skipulagsins skv. gr. 5.5.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, enda er þess ekki sérstaklega getið á skipulagsuppdrættinum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggur fyrir að málsmeðferð hins kærða deiliskipulags sé haldin ógildingarannmörkum eru ekki efni til að fella það úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Bolungarvíkur frá 18. júní 2015 um að samþykkja deiliskipulag Glaðheimareits í Bolungarvík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

 

17/2017 Vegamótastígur

Með
Árið 2017, föstudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir flutningi einbýlishúss af lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg yfir á lóðina Grettisgötu 54b í Reykjavík og ákvörðun hans frá 18. október s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. janúar 2017, er barst nefndinni 4. febrúar s.á., kæra eigendur, Grettisgötu 3 og 3a, og eigendur, Grettisgötu 5, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir flutningi einbýlishúss af lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg yfir á lóðina Grettisgötu 54b, Reykjavík, og þá ákvörðun hans frá 18. október s.á. að veita byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 í Reykjavík. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 22. febrúar 2017.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Í kjallara skyldu vera bílastæði, og á lóðunum var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelrýmis eða sambærilegrar starfsemi. Þá var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða til nota fyrir nefndar lóðir.

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. febrúar 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir flutningi friðaðs einbýlishúss frá árinu 1904, af lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg, á steyptan sökkul á lóðinni nr. 54b við Grettisgötu. Þá var hinn 31. maí 2016 tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli á lóðunum nr. 7 og 9 við Vegamótastíg með 39 herbergjum fyrir 78 gesti auk bílageymslu í kjallara fyrir sex bíla. Þeirri umsókn var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn hans frá 1. júlí s.á. var tekið jákvætt í að minnka bílakjallara, en bent var á að lóðarhafi þyrfti að greiða fyrir stæðin sem upp á vantaði samkvæmt kröfum deiliskipulags og tryggja jafnframt stæði fyrir hreyfihamlaða við bygginguna. Á afgreiðslufundi sínum 20. september 2016 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um leyfi fyrir flutningi fyrrgreinds húss og hinn 18. október s.á. var samþykkt byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli auk kjallara á tveimur hæðum. Er gert ráð fyrir 39 herbergjum fyrir 78 gesti og veitingastað í efri kjallara, en ekki er gert ráð fyrir bílastæðum í neðri kjallara á samþykktum teikningum og engin bílastæði á lóð eru merkt á uppdrætti.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir muni rýra verulega lífsgæði þeirra. Heimiluð sé bygging fimm hæða hótels með tveggja hæða bílakjallara og veitingastað með næturopnun. Útsýni frá fasteignum kærenda muni skerðast, birta minnka og ónæði muni skapast vegna hótelgesta, veitingastaðar og bílakjallara. Kærendur hafi komið á framfæri rökstuddum andmælum sem ekki hafi verið tekin gild. Kærendur kæri einnig niðurrif á húsi á sömu lóð. Framkvæmdir séu hafnar en kærendur telji að byggingarleyfi og framkvæmdarleyfi hafi ekki verið gefin út.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld taka fram að byggingaráform hafi verið samþykkt með vísan til gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í ákvæðinu sé fjallað um samþykkt byggingaráforma en slík samþykkt feli það eitt í sér að fyrirhuguð byggingarframkvæmd uppfylli ákvæði laga, reglugerða og skipulags. Með ákvörðun um samþykki byggingaráforma sé umsækjanda veittar réttmætar væntingar til þess að byggingarleyfi fáist útgefið. Samþykkt byggingaráforma heimili umsækjanda aftur á móti ekki að hefja framkvæmdir fyrr en að byggingarleyfi hafi verið gefið út sbr., 1. mgr. gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Óheimilt sé að hefja byggingarframkvæmd fyrr en að leyfi hafi verið gefið út.

Í kærumáli þessu liggi fyrir að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út á grundvelli samþykktra byggingaráforma. Umsækjandi hafi ekki enn uppfyllt skilyrði gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð til þess að fá útgefið byggingarleyfi. Yfirferð séruppdrátta sé enn ekki lokið og ekki hafi enn verið gefið út takmarkað byggingarleyfi á grundvelli fyrrnefndra ákvæða. Á þeim grundvelli sé það mat byggingarfulltrúa að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. gr., sbr. 2. mgr. 4. gr., laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Beri því að vísa kærunni frá nefndinni.

Í kæru sé að finna röksemdafærslu fyrir kröfu kærenda sem byggi á skipulagslegum sjónarmiðum. Við gerð skipulagsáætlunar skuli m.a. litið til hæðar húsa, skuggavarps, starfsemi, birtu o.s.frv., sbr. gr. 5.3.2. og 5.1.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Samkvæmt 1. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð verði byggingarleyfisumsókn ekki samþykkt nema að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlun. Því geti ekki komið til greina að leggja mat á atriði sem taka skuli afstöðu til við skipulagsgerð þegar lagt sé mat á lögmæti byggingarleyfisumsóknar. Öðru máli gegni þegar kæra varði byggingarleyfi sem sé að mati kærenda ekki í samræmi við skipulagsskilmála. Ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir niðurrifi húss á lóðunum en aftur á móti hafi verið samþykkt byggingarleyfi fyrir flutningi húss af annarri lóðinni hinn 20. september s.á.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skuli í kæru koma fram hvaða ákvörðun sé kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Í kærunni sé ekki tiltekið með nákvæmum hætti hvaða stjórnvaldsákvörðun sé verið að kæra, en í upphafi segi að verið sé að kæra „framkvæmdir og byggingarleyfi vegna áætlaðrar byggingar við Vegamótastíg 7-9“. Í niðurlagi kærunnar segi að kærendur telji „að byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út“. Þá sé niðurrif á húsi á sömu lóð einnig kært. Flutningur gamals húss á lóðinni hafi farið fram nokkrum vikum fyrir dagsetningu kærunnar. Vandséð sé að kæra uppfylli almenn skilyrði stjórnvaldskæru.

Þá hafi deiliskipulagi reitsins verið breytt með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 en breytingin hafi tekið til lóðanna Vegamótastígs 7 og 9. Byggingarleyfið sem samþykkt hafi verið í október á síðasta ári sé að öllu leyti í samræmi við hið samþykkta deiliskipulag. Í kærunni sé ekki á nokkurn hátt reynt að sýna fram á að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við deiliskipulag. Aðeins sé verið að endurtaka þær athugasemdir sem gerðar hafi verið við deiliskipulagið á sínum tíma. Til þess að taka megi kæru til efnismeðferðar verði kærendur að tiltaka með skýrum hætti hvað það sé í útgefnu byggingarleyfi sem ekki sé í samræmi við lög eða gildar stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. hvort eða með hvaða hætti byggingarleyfið sé ekki í samræmi við samþykkt og auglýst deiliskipulag. Það sé ekki gert í kærunni. Þegar af þessari ástæðu beri að hafna kærunni.

Niðurstaða: Kveðið er á um það í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á. Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 fól í sér heimild til flutnings mannvirkis af lóð. Kærendur hafa ekki teflt fram réttarhagsmunum sínum sem gætu raskast við flutning hússins, en telja verður að slík framkvæmd sé almennt ekki til þess fallin að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. Skortir því á að fyrir liggi að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda ákvörðun byggingarfulltrúa um flutning hússins af lóð Vegamótastígs 9 sem veiti þeim kæruaðild í þeim þætti málsins. Verður kæru vegna greindrar ákvörðunar byggingarfulltrúa því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kæra í málinu er skrifleg og undirrituð. Þar kemur fram hverjir kærendur eru og má af henni ráða hvaða kröfur þeir geri. Úrskurðarnefndin starfar eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og hefur því bæði leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu um það hvað liggi að baki kæru. Með hliðsjón af framangreindu þykir skilyrðum um form kæru uppfyllt, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var umsókn leyfishafa um byggingarleyfi samþykkt. Sú ákvörðun var tekin í skjóli stjórnsýsluvalds og skapaði rétt til handa leyfishafa með tilteknum skilyrðum sem leyfishafa bar að uppfylla áður en að ráðist yrði í framkvæmdir. Samþykki byggingaráforma er því stjórnvaldsákvörðun sem ekki verður dregin til baka eða afturkölluð nema eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, en útgáfa byggingarleyfis fer fram í skjóli þeirrar ákvörðunar. Hin kærða ákvörðun um samþykki byggingaráforma um nýbyggingu á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 verður því borin undir úrskurðarnefndina skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í skilmálum gildandi deiliskipulags sem tekur til lóðanna Vegamótastígs 7 og 9 segir: „Á lóðunum verða byggingar sem verða alls 5 hæðir, efsta hæð verður inndregin sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð verður undir húsunum“. Þá segir einnig: „Einnar hæðar kjallari verður undir húsunum og verður hann notaður fyrir bílastæði.“ Samkvæmt þeim aðaluppdráttum sem samþykktir voru af byggingarfulltrúa hinn 18. október 2016 verður kjallarinn undir húsunum á tveimur hæðum. Í neðri kjallara er gert ráð fyrir geymslum, þvottaherbergi o.fl. og í efri kjallara er gert ráð fyrir veitingasal. Liggur því fyrir að byggingarleyfið fer í bága við skilmála skipulagsins hvað varðar fjölda hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis. Skortir því á að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi skipulag eins og kveðið er á um í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki.

Í 6. kafla byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er að finna þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við eða á lóðum bygginga sem falla undir skilyrði kaflans um algilda hönnun. Í gr. 6.2.4. segir: „Ef fjöldi bílastæða á lóð annarra bygginga en falla undir 5. og 6. mgr. er ákvarðaður í skipulagi skal lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóð vera skv. töflu 6.03. Þegar um fleiri stæði er að ræða bætist við eitt stæði fyrir hver byrjuð 200 stæði. Ætíð skal að lágmarki gera ráð fyrir einu stæði fyrir hreyfihamlaða.“

Í byggingarlýsingu hins kærða byggingarleyfis fyrir nýbyggingum á fyrrgreindum lóðum kemur fram að samkvæmt deiliskipulagsskilmálum þyrftu að vera 15 bílastæði á lóðunum tveimur og greiða þurfi fyrir þau stæði. Á samþykktum aðaluppdráttum er ekki gert ráð fyrir bílastæðum í kjallara nýbyggingarinnar eða á lóðunum. Hinn 16. september 2016 var undirritað samkomulag milli Eignasjóðs Reykjavíkurborgar og leyfishafa vegna afnotaréttar af bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Samkvæmt samkomulaginu skyldi útvegað eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar. Stæðið skyldi merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða, en það yrði ekki sérmerkt Vegamótastíg 7 og 9. Fyrirhugað er að bílastæðið verði í um 10 m fjarlægð frá inngangi hótelsins, meðfram götu gegnt hótelinu.

Kröfur 6. kafla byggingarreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða og staðsetning þeirra gagnvart byggingum styðst við markmið algildrar hönnunar sem tryggja skal að sem flestir eigi kost á viðunandi aðgengi að tilteknum byggingum. Verður ekki talið að heimild 19. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, til þess að greiða bílastæðagjald ef ekki er hægt að koma bílastæðum fyrir á lóð, geti vikið til hliðar kröfum reglugerðarinnar um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða, handan götu og sem ekki er sérstaklega ætlað að þjóna starfsemi á umræddum lóðum, uppfyllir ekki kröfur byggingarreglugerðar til bílastæða fyrir hreyfihamlaða.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 um að samþykkja flutning á húsi af Vegamótastíg 9.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. október 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

109/2015 Suðurnesjalína 2 Hafnarfjarðarbæ

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2015, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2015 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2015 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til hennar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á.

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags 26. nóvember 2013, óskuðu eigendur jarðanna Landakots, Hvassahrauns, Stóru og Minni Vatnsleysu, nokkrir eigenda Heiðarlands Vogajarða og tveir eigenda Stóra Knarrarness eftir endurskoðun fyrrnefndrar matsskýrslu Landsnets að því er varðaði Suðurnesjalínu 2. Með ákvörðun sinni 23. júní 2014 hafnaði Skipulagsstofnun þessari beiðni landeigendanna, sem og ósk þeirra til vara um endurskoðun á áliti stofnunarinnar á matsskýrslunni. Nefnd ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar, en kæran var síðar afturkölluð.

Orkustofnun veitti Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Um er að ræða 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði, um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ, að tengivirki við Rauðamel, um 5 km norðan við Svartsengi. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en kærumálinu vísað frá í kjölfar dóms Hæstaréttar 13. október 2016, í máli nr. 796/2015, þar sem ákvörðunin var felld úr gildi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Landsneti heimildir til eignarnáms á jörðum kærenda í febrúar 2014, en þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015, uppkveðnum 13. maí 2015. 

Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 10. júlí 2015 var tekin fyrir umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2. Var bókað að grenndarkynnt hefði verið skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdatíma væri lokið og athugasemdir hefðu borist. Meirihluti skipulags- og byggingarráðs samþykkti umsótt framkvæmdaleyfi og gerði framlögð svör við athugasemdum að sínum. Á fundi bæjarráðs 16. s.m. var fundargerð skipulags- og byggingarráðs lögð fram til kynningar í bæjarráði í umboði bæjarstjórnar. Á fundi sínum 20. október 2015 fól skipulags- og byggingarráð umhverfis- og skipulagsþjónustu að auglýsa framkvæmdaleyfið skv. 14. gr. skipulagslaga. Fundargerð fundarins var lögð fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar 28. s.m. Var leyfið og auglýst 30. s.m. Auk Hafnarfjarðar veittu sveitarfélögin Grindavík, Reykjanesbær og Vogar Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem öll voru kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Kærumáli þessu var frestað á meðan á rekstri dómsmáls stóð vegna framkvæmdaleyfisins sem veitt var af Sveitarfélaginu Vogum, en leyfið var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016. Kærur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar leyfisveitingar hafa verið afturkallaðar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að hvorki kerfisáætlun Landsnets á árunum 2006-2013 né áform um Suðvesturlínur hafi sætt umhverfismati áætlana skv. lögum nr. 105/2006, sbr. tilskipun 2001/42/EB. Þar sem slíkt mat hafi ekki farið fram lögum samkvæmt sé einfaldlega ólögmætt að veita framkvæmdaleyfi og verði þegar af þeirri ástæðu að fella það úr gildi.

Matsskýrsla framkvæmdarinnar sé haldin svo verulegum ágöllum að framkvæmdaleyfi geti ekki átt í henni stoð. Leyfisveitanda hafi verið skylt að kynna sér matsskýrsluna og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Af því leiði að ágallar á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar komi einnig til skoðunar, en umfjöllun í matsskýrslu um aðra mögulega valkosti hafi verið verulega ábótavant. Aðrir valkostir fyrir Suðurnesjalínu 2, en lagning 220 kV línu með 690 MVA flutningsgetu, hafi ekki verið lagðir fram, en samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé skylt að gera grein fyrir öllum valkostum og bera þá saman. Ljóst sé að aðrir kostir en lagning 220 kV loftlínu standi til boða, s.s. að leggja línuna í jörð eða byggja línu með lægri spennu og/eða flutningsgetu. Umfjöllun um jarðstrengi í matsskýrslu sé hins vegar annmörkum háð. Hún sé almenn og ónákvæm. Áhersla sé lögð á kostnaðarmun sem ekki hafi þýðingu við samanburð á umhverfisáhrifum mismunandi kosta, en auk þess standist ekki hin almenna umfjöllun um kostnað vegna jarðstrengja. Ummæli í matsskýrslu um endingartíma jarðstrengja séu ósönn og órökstudd. Loks sé villandi mynd dregin upp og lítið gert úr kostum jarðstrengja. Óumdeilt sé að sjónræn áhrif loftlína séu mun meiri en jarðstrengja og verði fyrirhugaðar háspennulínur lagðar um mosagróin nútímahraun, sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Í matsskýrslu sé algjörlega horft framhjá sjónarmiðum um uppbyggingu ferðaþjónustu.

Landsnet og Hafnarfjörður hafi haft með sér samráð áður en umhverfismatsferli vegna framkvæmdarinnar hafi hafist, sem hafi leitt til þess að allir framkvæmdakostir aðrir en 220 kV loftlína hafi verið útilokaðir. Kærendum og öðrum hagsmunaaðilum hafi ekki verið hleypt að borðinu við þetta samráð. Gengið hafi verið á svig við rétt almennings til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í umhverfismálum, sbr. 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000. Einnig vísist til 6. gr. Árósasamningsins og tilskipunar 2011/92/ESB, einkum 2.-6. mgr. 6. gr.

Það sé meginregla að allar framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir skuli eiga sér stoð í deiliskipulagi. Hafi ekki verið lagaskilyrði til að viðhafa grenndarkynningu, en ekkert deiliskipulag sé í gildi á umræddu svæði. Umfjöllun í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 fullnægi ekki þeim kröfum 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 að þar sé fjallað á ítarlegan hátt um umfang, frágang og áhrif Suðurnesjalínu 2 á umhverfið.

Framkvæmdaleyfið hafi ekki verið lagt fyrir og samþykkt á fundi bæjarstjórnar líkt og áskilið sé í 13. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Í 1. mgr. 70. gr. samþykktar nr. 772/2013 um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar segi að skipulags- og byggingarráð fari meðal annars með mál sem heyri undir skipulagslög og geti bæjarstjórn falið ráðinu fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Í 2. mgr. 7. gr. erindisbréfs skipulags- og byggingarráðs, sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 7. desember 2011, segi að samþykktum, reglugerðum og gjaldskrám sem hljóta eigi staðfestingu ráðherra, skuli vísað til bæjarstjórnar, ásamt afgreiðslu erinda sem kveðið sé á um í skipulagslögum. Málinu hafi hins vegar ekki verið vísað til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar og leiði það til ógildingar.

Suðurnesjalína 2 hafi verið klofin frá Suðvesturlínum og geti ekki talist vera sama framkvæmd og sú sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum ásamt Suðvesturlínum.

Verulegir annmarkar séu á málsmeðferð sveitarfélagins, m.a. hafi skort á að það sinnti rannsóknarskyldu sinni og gætti meðalhófs. Loks séu fyrirætlanir um Suðurnesjalínu 2 ekki í samræmi við raforkuflutningsþörf.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðji fullyrðingar þeirra um að þeir uppfylli skilyrði 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til að eiga aðild að kærumáli.

Leyfisveitandi skuli fjalla um og taka afstöðu til þess hvort tiltekin framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt skuli hann kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu. Þá skuli leyfisveitandi taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Hafnarfjarðarbær hafi uppfyllt þessar lögbundnu kröfur við veitingu framkvæmdaleyfisins og séu því engar forsendur til ógildingar þess. Það falli hins vegar utan valdsviðs sveitarfélaga að skera úr um hvort áætlanir leyfishafa skuli sæta umhverfismati áætlana skv. lögum nr. 105/2006 þess efnis, en þó sé bent á að framkvæmdin hafi sætt slíku mati um leið og aðalskipulagstillaga hafi farið í slíkt mat. Þegar mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram hafi engin krafa verið gerð um að kerfisáætlun skyldi sæta umhverfismati áætlana.

Matsskýrsla Suðvesturlína sé ítarleg og í viðauka 6 við hana sé 50 bls. skýrsla um jarðstrengi. Ekki sé gert ráð fyrir því að fjallað sé um aðra framkvæmd en þá sem ráðast eigi í og þá kosti sem raunhæfir séu. Lagning 220 kV jarðstrengs milli Hafnarfjarðar og Suðurnesja sé allt önnur framkvæmd heldur en lagning 220 kV háspennulínu, bæði hvað varði kostnað og tæknilega útfærslu. Horft sé til framtíðar við framkvæmdir í flutningskerfinu og sé kostur við háspennulínur að flutningsgetu þeirra megi auka með einföldum hætti. Athygli sé vakin á stefnu stjórnvalda hvað varði lagningu jarðstrengja, sbr. þingsályktun þar um. Því sé mótmælt að áhrif af lagningu loftlínu um hraun séu meiri en vegna jarðstrengs. Forræði framkvæmdaraðila á framkvæmdum sé áréttað og að ekki sé á valdsviði sveitarfélaga að fjalla um mögulegar útfærslur framkvæmda. Þá séu ekki ágallar á matsskýrslu Suðvesturlína og álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir.

Ekki verði af framkvæmd sem Suðurnesjalínu 2 nema gert sé ráð fyrir henni á skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Sé því ljóst að framkvæmdaraðili hafi ávallt samráð við sveitarstjórn þess sveitarfélags sem framkvæmdin liggi um. Að auki hafi kærendur nýtt sér heimildir laga til að koma á framfæri skoðunum sínum.

Sveitarfélagið hafi kosið að grenndarkynna, umfram lagalega skyldu sína, til þess að tryggja vandaða málsmeðferð við útgáfu framkvæmdaleyfisins. Jafnframt hafi verið tekin rökstudd afstaða til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og málsmeðferð verið í samræmi við stjórnsýslulög.

Umsókn Landsnets hafi verið í stöðugri umfjöllun og undirbúningi bæjarstjórnar, skipulags- og byggingarráðs, sem og skipulags- og byggingarfulltrúa, í um 14 mánuði, þar til samkomulag hafi verið gert milli aðila 9. júlí 2015. Leyfisumsókn Landsnets hafi verið til umfjöllunar með ýmsum hætti og hafi verið fjallað um málið á lokastigum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sbr. umræður á fundi hennar 10. júní s.á. vegna fundargerðar skipulags- og byggingarráðs frá 2. s.m. Bæjarráð hafi haft umboð bæjarstjórnar til fullnaðarafgreiðslu í sumarleyfi hennar. Hafi ráðið tekið fyrir umsókn Landsnets á fundi sínum 8. júní 2015 og þá samþykkt samkomulagið við Landsnet. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 20. október s.á. hafi umhverfis- og skipulagsþjónustu verið falið að auglýsa leyfið og hafi fundargerð fundarins verið lögð fram í bæjarstjórn 28. s.m. Ágreiningur ríki um túlkun á 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. erindisbréfs skipulags- og byggingarráðs, en allan vafa um heimildir þess til fullnaðarafgreiðslu málsins hljóti að verða að túlka leyfishafa í hag. Sé enda ekki nokkur vafi á að bæjarráð í umboði bæjarstjórnar hafi samþykkt framkvæmdina og bæjarstjórn fjallað ítrekað um hana.

Suðvesturlínur feli í sér áfangaskiptar framkvæmdir og hafi leyfishafi ekki gert nokkra þá breytingu á framkvæmdinni Suðurnesjalína 2, sem leitt geti til þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram.

Undirbúningur við veitingu framkvæmdaleyfis hafi verið í samræmi við lög. Hafnarfjörður hafi tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar og sé því mótmælt að málsmeðferð hafi brotið í bága við rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Flutningur raforku á 132 kV spennu í hinu almenna flutningskerfi sé ófullnægjandi. Ríkir almannahagsmunir krefjist þess að raforkuflutningskerfið verði styrkt frá Hafnarfirði til Suðurnesja. Um sé að ræða veikan hluta flutningskerfisins, bæði með tilliti til flutningsgetu og afhendingaröryggis. Suðurnesjalína 1, sem nú þjóni svæðinu og rekin sé á 132 kV spennu, sé fulllestuð í dag.

——-

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur ekki látið málið til sín taka fyrir úrskurðarnefndinni þrátt fyrir að vera gefinn kostur á því með bréfi, dags. 30. nóvember 2015. Þá hafa engin gögn borist frá sveitarfélaginu, en fyrir nefndinni lágu fullnægjandi gögn svo að úrskurður yrði upp kveðinn.

——-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér með hliðsjón af síðar til komnum atvikum málsins.

Niðurstaða: Kærendur máls þessa eru annars vegar umhverfissamtök og hins vegar náttúruverndarsamtök sem fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til kæruaðildar slíkra samtaka samkvæmt ákvæðum 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu frestaði úrskurðarnefndin meðferð kærumáls þessa þar til fyrir lægi niðurstaða dómsmáls sem rekið var vegna framkvæmdaleyfisveitingar Sveitarfélagsins Voga fyrir Suðurnesjalínu 2. Það framkvæmdaleyfi var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar, sem með dómi sínum 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016, staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

Í dómi Hæstaréttar var gerð grein fyrir helstu reglum um málsmeðferð vegna matsskyldra framkvæmda og efni matsskýrslna samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum. Eins og þar kæmi fram skyldi auk þeirrar framkvæmdar sem metin væri lýsa öðrum möguleikum um framkvæmdarkosti sem til greina kæmu í tillögu að matsáætlun og frummatsskýrslu. Þá skyldi í skýrslunni vera samanburður á umhverfisáhrifum þeirra kosta sem kynntir væru og rökstuðningur fyrir vali framkvæmdaraðila, að teknu tilliti til umhverfisáhrifa. Væri það síðan hlutverk Skipulagsstofnunar að gefa rökstutt álit á því hvort matsskýrsla uppfyllti lögbundin skilyrði og að umhverfisáhrifum væri lýst á fullnægjandi hátt. Tók dómurinn fram að samkvæmt 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 og 2. mgr. 29. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1123/2005, skyldi sveitarstjórn við umfjöllun um leyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Þá tiltók Hæstiréttur að ítrekað hefðu verið gerðar athugasemdir við ráðagerðir um að umrædd lína lægi í lofti og vísaði dómurinn jafnframt til fyrri dóma sinna vegna Suðurnesjalínu 2, frá 12. maí og 13. október 2016, en forsendur þeirra væru að Landsnet hafi við undirbúning framkvæmdanna ekki látið fara fram sérstaka athugun á þeim möguleika að leggja línuna í jörð, heldur vísað til almennra sjónarmiða um kosti og galla jarðstrengja. Yrði hvorki af gögnum málsins né flutningi þess ráðið með viðhlítandi hætti, hvar slíkur strengur gæti legið eða hver yrðu umhverfisáhrif hans. Þá hefði Landsnet ekki sýnt fram á að atvik væru með þeim hætti að líta bæri fram hjá þessum galla. Hefði þetta leitt til þess að ákvarðanir þær um eignarnám og leyfisveitingu Orkustofnunar sem umrædd mál snerust um hefðu verið ógiltar.

Áréttaði Hæstiréttur að jarðstrengur í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 8. gr. og 4. málsliðar 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 væri möguleiki um framkvæmdarkost, sem til greina gæti komið, og hefði því borið að gera grein fyrir honum í tillögum og matsskýrslum í matsferlinu og bera hann saman við annan eða aðra framkvæmdarkosti. Það hefði ekki verið gert að öðru leyti en því að látið hefði verið nægja að vísa til almennra sjónarmiða um kosti og galla jarðstrengja.

Loks segir svo í dómi Hæstaréttar: „Sá annmarki á umhverfismati, sem leiddi til þess að leyfi Orkustofnunar til áfrýjandans Landsnets hf. til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2 var fellt úr gildi og heimildir áfrýjandans til eignarnáms í þágu framkvæmdarinnar voru ógiltar, voru enn fyrir hendi þegar áfrýjandinn Sveitarfélagið Vogar veitti framkvæmdaleyfi það sem um er deilt í málinu. Umhverfisáhrifum jarðstrengs í samanburði við aðra framkvæmdarkosti hefur samkvæmt því ekki verið lýst á fullnægjandi hátt og uppfylltu matsferlið og umhverfismatsskýrslan því ekki þann áskilnað sem gerður er í lögum um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Samkvæmt því gátu matsskýrsla Landsnets hf. um Suðurnesjalínu 2 og álit Skipulagsstofnunar um skýrsluna ekki verið lögmætur grundvöllur undir ákvörðun sveitarfélagsins um veitingu framkvæmdaleyfisins sem samkvæmt því var reist á röngum lagagrundvelli. Úr þessum galla á umhverfismatinu hefur ekki verið bætt, enda getur áðurgreind valkostaskýrsla Landsnets hf. sem kynnt var í október 2016 hvorki samkvæmt grundvelli sínum, efni né tilgangi bætt þar úr. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um annað en málskostnað.“

Samkvæmt framangreindu hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að matsskýrsla Landsnets um Suðurnesjalínu 2 og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi ekki getað verið lögmætur grundvöllur ákvörðunar Sveitarfélagsins Voga um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Suðurnesjalínu 2. Með vísan til framangreinds, og þar sem sama matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar lágu til grundvallar ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar um veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis fyrir Suðurnesjalínu 2, sbr. ákvæði 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 13. gr. laga nr. 106/2000, verður að fella hina kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar úr gildi.

Það athugist að af gögnum málsins verður hvorki með vissu ráðið að sveitarstjórn hafi samþykkt hið kærða leyfi né að skipulags- og byggingarráð hafi haft heimild til fullnaðarafgreiðslu þess, en eins og áður er sagt bárust engin gögn frá sveitarfélaginu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna atvika sem nánar eru rakin í málavaxtalýsingu.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2015 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

 

101/2015 Suðurnesjalína 2 Grindavík

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkur frá 16. desember 2014 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júní 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Landakots, Stóru Vatnsleysu, Minni Vatnsleysu, hluti af eigendum Heiðarlands Vogajarða og hluti af eigendum Stóra Knarrarness, Sveitarfélaginu Vogum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkur frá 16. desember 2014 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Grindavík 13. nóvember 2015.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til hennar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á.

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags 26. nóvember 2013, óskuðu eigendur jarðanna Landakots, Hvassahrauns, Stóru og Minni Vatnsleysu, nokkrir eigenda Heiðarlands Vogajarða og tveir eigenda Stóra Knarrarness eftir endurskoðun fyrrnefndrar matsskýrslu Landsnets að því er varðaði Suðurnesjalínu 2. Með ákvörðun sinni 23. júní 2014 hafnaði Skipulagsstofnun þessari beiðni landeigendanna, sem og ósk þeirra til vara um endurskoðun á áliti stofnunarinnar á matsskýrslunni. Nefnd ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar, en kæran var síðar afturkölluð.

Orkustofnun veitti Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Um er að ræða 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði, um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ, að tengivirki við Rauðamel, um 5 km norðan við Svartsengi. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en kærumálinu vísað frá í kjölfar dóms Hæstaréttar 13. október 2016, í máli nr. 796/2015, þar sem ákvörðunin var felld úr gildi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Landsneti heimildir til eignarnáms á jörðum kærenda í febrúar 2014, en þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015, uppkveðnum 13. maí 2015. 

Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkur 16. desember 2014 var tekin fyrir umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2, en um umsóknina hafði verið fjallað á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 10. s.m. Bæjarstjórn samþykkti framkvæmdaleyfið og var það gefið út 22. apríl 2015 og auglýst 5. maí s.á. Auk Grindavíkur veittu sveitarfélögin Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Vogar Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem öll voru kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Kærumáli þessu var frestað á meðan á rekstri dómsmáls stóð vegna framkvæmdaleyfisins sem veitt var af Sveitarfélaginu Vogum, en leyfið var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016. Kærur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar leyfisveitingar hafa verið afturkallaðar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að hin kærða leyfisveiting varði með beinum hætti stjórnarskrárvarin eignarréttindi þeirra, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Hvorki kerfisáætlun Landsnets á árunum 2006-2013 né áform um Suðvesturlínur hafi sætt umhverfismati áætlana skv. lögum nr. 105/2006, sbr. tilskipun 2001/42/EB. Sé hin kærða ákvörðun af þessari ástæðu bæði ólögmæt og ógildanleg.

Matsskýrsla framkvæmdarinnar sé haldin svo verulegum ágöllum að framkvæmdaleyfi geti ekki átt í henni stoð. Leyfisveitanda hafi verið skylt að kynna sér matsskýrsluna og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Af því leiði að ágallar á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar komi einnig til skoðunar, en umfjöllun í matsskýrslu um aðra mögulega valkosti hafi verið verulega ábótavant. Aðrir valkostir fyrir Suðurnesjalínu 2, en lagning 220 kV línu með 690 MVA flutningsgetu, hafi ekki verið lagðir fram, en samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé skylt að gera grein fyrir öllum valkostum og bera þá saman. Ljóst sé að aðrir kostir standi til boða en lagning 220 kV loftlínu. Einkum sé lagning línunnar í jörð álitlegur kostur og hafi kærendur frá upphafi óskað eftir að sá valkostur yrði skoðaður til hlítar. Umfjöllun um jarðstrengi í matsskýrslu sé hins vegar annmörkum háð. Hún sé ófullnægjandi og um margt misvísandi, auk þess sem enginn samanburður liggi fyrir á kostnaði við lagningu línunnar í jörð og í lofti. Einnig sé gerð athugasemd við umfjöllunina hvað varði rekstrar- og afhendingaröryggi jarðstrengja, sem og umhverfisáhrif þeirra.

Í matsskýrslu og tillögu að matsáætlun segi að Landsnet hafi verið með ýmsa valkosti til athugunar, en eftir samráð við sveitarfélög á línuleiðinni hafi einn kostur verið eftir, þ.e. lagning 220 kV loftlínu. Kærendum og öðrum hagsmunaaðilum hafi ekki verið hleypt að borðinu við þetta samráð. Gengið hafi verið á svig við rétt almennings til að hafa áhrif á aðkomu að ákvarðanatöku í umhverfismálum, sbr. 6. gr. Árósasamningsins og tilskipun 2011/92/ESB, einkum 2.-6. mgr. 6. gr. Auk þess veiti 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmálans, kærendum og öðrum landeigendum ríkan rétt til þátttöku í ákvörðunum sem til standi að taka um eignir þeirra, og þá frá upphafi þegar allir valkostir séu opnir og enn mögulegt að hafa áhrif á ákvarðanatöku. Þessa hafi ekki verið gætt.

Það sé meginregla að allar framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir skuli eiga sér stoð í deiliskipulagi. Undantekningu frá henni beri að túlka þröngt. Því fari fjarri að uppfyllt sé það skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 að í aðalskipulagi Grindavíkurbæjar 2010-2030 sé gerð grein fyrir framkvæmdinni Suðurnesjalínu 2 og að fjallað sé á ítarlegan hátt um umfang, frágang, áhrif hennar á umhverfið og annað það sem við eigi.

Loks sé útgáfa framkvæmdaleyfisins í andstöðu við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga, sem og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar.

Málsrök Grindavíkur: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni vegna kærunnar, sbr. m.a. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Beri því að vísa kærunni frá. Að öðru leyti sé vísað til lögfræðilegrar greinargerðar og annarra gagna málsins er legið hafi fyrir við ákvörðunartöku bæjarins.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kærendur hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta tengdri hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeir séu ekki búsettir í Grindavík og séu jarðir þeirra innan Sveitarfélagsins Voga, sem taki ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis innan síns lögsagnarumdæmis. Beri því að vísa kærunni frá.

Leyfisveitandi skuli fjalla um og taka afstöðu til þess hvort tiltekin framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt skuli hann kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu. Þá skuli leyfisveitandi taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Sveitarstjórn Grindavíkurbæjar hafi uppfyllt þessar lögbundnu kröfur við veitingu framkvæmdaleyfisins og séu því engar forsendur til ógildingar þess. Það falli hins vegar utan valdsviðs sveitarfélaga að skera úr um hvort áætlanir leyfishafa skuli sæta umhverfismati áætlana skv. lögum nr. 105/2006 þess efnis, en þó sé bent á að framkvæmdin hafi sætt slíku mati um leið og aðalskipulagstillaga hafi farið í slíkt mat. Þegar mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram hafi engin krafa verið gerð um að kerfisáætlun skyldi sæta umhverfismati áætlana.

Matsskýrsla Suðvesturlína sé ítarleg og í viðauka 6 við hana sé 50 bls. skýrsla um jarðstrengi. Ekki sé gert ráð fyrir því að fjallað sé um aðra framkvæmd en þá sem ráðast eigi í og þá kosti sem raunhæfir séu. Lagning 220 kV jarðstrengs milli Hafnarfjarðar og Suðurnesja sé allt önnur framkvæmd heldur en lagning 220 kV háspennulínu, bæði hvað varði kostnað og tæknilega útfærslu. Horft sé til framtíðar við framkvæmdir í flutningskerfinu og sé það kostur við háspennulínur að flutningsgetu þeirra megi auka með einföldum hætti. Athygli sé vakin á stefnu stjórnvalda hvað varði lagningu jarðstrengja, sbr. þingsályktun þar um. Forræði framkvæmdaraðila á framkvæmdum sé áréttað og að ekki sé á valdsviði sveitarfélaga að fjalla um mögulegar útfærslur framkvæmda. Þá séu ekki ágallar á matsskýrslu Suðvesturlína og álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir. Sveitarstjórnin hafi tekið rökstudda afstöðu til mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og notið við það aðstoðar lögmanna.

Ekki verði af framkvæmd sem Suðurnesjalínu 2 nema ráð sé gert fyrir henni á skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Sé því ljóst að framkvæmdaraðili hafi ávallt samráð við sveitarstjórn þess sveitarfélags sem framkvæmdin liggi um. Að auki hafi kærendur nýtt sér heimildir laga til að koma á framfæri skoðunum sínum.

Suðvesturlínur feli í sér áfangaskiptar framkvæmdir og hafi leyfishafi ekki gert nokkra þá breytingu á framkvæmdinni Suðurnesjalínu 2, sem leitt geti til þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram.

Útgáfa framkvæmdaleyfis sé í samræmi við aðalskipulag og hafi lögbundinn undirbúningur verið til samræmis við stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Ríkir almannahagsmunir krefjist þess að raforkuflutningskerfið verði styrkt frá Hafnarfirði til Suðurnesja. Um sé að ræða veikan hluta flutningskerfisins, bæði með tilliti til flutningsgetu og afhendingaröryggis. Suðurnesjalína 1, sem nú þjóni svæðinu og rekin sé á 132 kV spennu, sé fulllestuð í dag.

——-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu, sem ekki verða rakin nánar hér með hliðsjón af síðar til komnum atvikum málsins.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem samþykkt var af bæjarstjórn Grindavíkur 16. desember 2014. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 42/2015, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 575/2016. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærendur hafa ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna atvika sem nánar eru rakin í málavaxtalýsingu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

108/2015 Suðurnesjalína 2 Hafnarfjarðarbæ

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2015, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2015 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. nóvember 2015, er barst nefndinni 30. s.m., kæra eigendur jarðanna Landakots, Stóru Vatnsleysu, Minni Vatnsleysu, hluti af eigendum Heiðarlands Vogajarða og hluti af eigendum Stóra Knarrarness, Sveitarfélaginu Vogum, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2015 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til hennar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á.

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags 26. nóvember 2013, óskuðu eigendur jarðanna Landakots, Hvassahrauns, Stóru og Minni Vatnsleysu, nokkrir eigenda Heiðarlands Vogajarða og tveir eigenda Stóra Knarrarness eftir endurskoðun fyrrnefndrar matsskýrslu Landsnets að því er varðaði Suðurnesjalínu 2. Með ákvörðun sinni 23. júní 2014 hafnaði Skipulagsstofnun þessari beiðni landeigendanna, sem og ósk þeirra til vara um endurskoðun á áliti stofnunarinnar á matsskýrslunni. Nefnd ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar, en kæran var síðar afturkölluð.

Orkustofnun veitti Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Um er að ræða 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði, um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ, að tengivirki við Rauðamel, um 5 km norðan við Svartsengi. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en kærumálinu vísað frá í kjölfar dóms Hæstaréttar 13. október 2016, í máli nr. 796/2015, þar sem ákvörðunin var felld úr gildi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Landsneti heimildir til eignarnáms á jörðum kærenda í febrúar 2014, en þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015, uppkveðnum 13. maí 2015. 

Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 10. júlí 2015 var tekin fyrir umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2. Var bókað að grenndarkynnt hefði verið skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdatíma væri lokið og athugasemdir hefðu borist. Meirihluti skipulags- og byggingarráðs samþykkti umsótt framkvæmdaleyfi og gerði framlögð svör við athugasemdum að sínum. Á fundi bæjarráðs 16. s.m. var fundargerð skipulags- og byggingarráðs lögð fram til kynningar í bæjarráði í umboði bæjarstjórnar. Á fundi sínum 20. október 2015 fól skipulags- og byggingarráð umhverfis- og skipulagsþjónustu að auglýsa framkvæmdaleyfið skv. 14. gr. skipulagslaga. Fundargerð ráðsins var lögð fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar 28. s.m. Var leyfið og auglýst 30. s.m. Auk Hafnarfjarðar veittu sveitarfélögin Grindavík, Reykjanesbær og Vogar Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem öll voru kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Kærumáli þessu var frestað á meðan á rekstri dómsmáls stóð vegna framkvæmdaleyfisins sem veitt var af Sveitarfélaginu Vogum, en leyfið var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016. Kærur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar leyfisveitingar hafa verið afturkallaðar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að hin kærða leyfisveiting varði með beinum hætti stjórnarskrárvarin eignarréttindi þeirra, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Hvorki kerfisáætlun Landsnets á árunum 2006-2013 né áform um Suðvesturlínur hafi sætt umhverfismati áætlana skv. lögum nr. 105/2006, sbr. tilskipun 2001/42/EB. Þar sem slíkt mat hafi ekki farið fram lögum samkvæmt sé einfaldlega ólögmætt að veita framkvæmdaleyfi og verði þegar af þeirri ástæðu að fella það úr gildi.

Matsskýrsla framkvæmdarinnar sé haldin svo verulegum ágöllum að framkvæmdaleyfi geti ekki átt í henni stoð. Leyfisveitanda hafi verið skylt að kynna sér matsskýrsluna og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Af því leiði að ágallar á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar komi einnig til skoðunar, en umfjöllun í matsskýrslu um aðra mögulega valkosti hafi verið verulega ábótavant. Aðrir valkostir fyrir Suðurnesjalínu 2, en lagning 220 kV línu með 690 MVA flutningsgetu, hafi ekki verið lagðir fram, en samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé skylt að gera grein fyrir öllum valkostum og bera þá saman. Ljóst sé að aðrir kostir standi til boða en lagning 220 kV loftlínu. Einkum sé lagning línunnar í jörð álitlegur kostur og hafi kærendur frá upphafi óskað eftir að sá valkostur yrði skoðaður til hlítar. Umfjöllun um jarðstrengi í matsskýrslu sé hins vegar annmörkum háð. Hún sé almenn og ónákvæm. Áhersla sé lögð á kostnaðarmun sem ekki hafi þýðingu við sambanburð á umhverfisáhrifum mismunandi kosta, en auk þess standist ekki hin almenna umfjöllun um kostnað vegna jarðstrengja. Ummæli í matsskýrslu um endingartíma jarðstrengja sé ósönn og órökstudd. Loks sé villandi mynd dregin upp og lítið gert úr kostum jarðstrengja. Hvað jarðrask varði hefði mátt kanna þann möguleika að leggja jarðstreng innan þess svæðis sem þegar hafi verið raskað vegna Reykjanesbrautar og Suðurnesjalínu 1, eða meðfram Reykjanesbraut eða núverandi línuvegi.

Í matsskýrslu og tillögu að matsáætlun segi að Landsnet hafi verið með ýmsa valkosti til athugunar en eftir samráð við sveitarfélög á línuleiðinni hafi einn kostur verið eftir, þ.e. lagning 220 kV loftlínu. Kærendum og öðrum hagsmunaaðilum hafi ekki verið hleypt að borðinu við þetta samráð. Gengið hafi verið á svig við rétt almennings til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í umhverfismálum, sbr. 6. gr. Árósasamningsins og tilskipun 2011/92/ESB, einkum 2.-6. mgr. 6. gr. Auk þess veiti 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmálans, kærendum og öðrum landeigendum ríkan rétt til þátttöku í ákvörðunum sem til standi að taka um eignir þeirra, og þá frá upphafi þegar allir valkostir séu opnir og enn mögulegt að hafa áhrif á ákvarðanatöku. Þessa hafi ekki verið gætt.

Það sé meginregla að allar framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir skuli eiga sér stoð í deiliskipulagi. Hafi ekki verið lagaskilyrði til að viðhafa grenndarkynningu, en ekkert deiliskipulag sé í gildi á umræddu svæði. Umfjöllun í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 fullnægi ekki þeim kröfum 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 að þar sé fjallað á ítarlegan hátt um umfang, frágang og áhrif Suðurnesjalínu 2 á umhverfið.

Framkvæmdaleyfið hafi ekki verið lagt fyrir og samþykkt á fundi bæjarstjórnar líkt og áskilið sé í 13. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Í 1. mgr. 70. gr. samþykktar nr. 772/2013 um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar segi að skipulags- og byggingarráð fari meðal annars með mál sem heyri undir skipulagslög og geti bæjarstjórn falið ráðinu fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Í 2. mgr. 7. gr. erindisbréfs skipulags- og byggingarráðs, sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 7. desember 2011, segi að samþykktum, reglugerðum og gjaldskrám sem hljóta eigi staðfestingu ráðherra, skuli vísað til bæjarstjórnar, ásamt afgreiðslu erinda sem kveðið sé á um í skipulagslögum. Málinu hafi hins vegar ekki verið vísað til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar og leiði það til ógildingar.

Suðurnesjalína 2 hafi verið klofin frá Suðvesturlínum og geti ekki talist vera sama framkvæmd og sú sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum ásamt Suðvesturlínum.

Loks séu verulegir annmarkar á málsmeðferð sveitarfélagins, m.a. hafi skort á að það sinnti rannsóknarskyldu sinni og gætti meðalhófs.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi bendir á að kærendur hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta tengdri hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeir séu ekki búsettir í Hafnarfirði og séu jarðir þeirra innan Sveitarfélagsins Voga, sem taki ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis innan síns lögsagnarumdæmis. Beri því að vísa kærunni frá.

Leyfisveitandi skuli fjalla um og taka afstöðu til þess hvort tiltekin framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt skuli hann kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu. Þá skuli leyfisveitandi taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Hafnarfjarðarbær hafi uppfyllt þessar lögbundnu kröfur við veitingu framkvæmdaleyfisins og séu því engar forsendur til ógildingar þess. Það falli hins vegar utan valdsviðs sveitarfélaga að skera úr um hvort áætlanir leyfishafa skuli sæta umhverfismati áætlana skv. lögum nr. 105/2006 þess efnis, en þó sé bent á að framkvæmdin hafi sætt slíku mati um leið og aðalskipulagstillaga hafi farið í slíkt mat. Þegar mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram hafi engin krafa verið gerð um að kerfisáætlun skyldi sæta umhverfismati áætlana.

Matsskýrsla Suðvesturlína sé ítarleg og í viðauka 6 við hana sé 50 bls. skýrsla um jarðstrengi. Ekki sé gert ráð fyrir því að fjallað sé um aðra framkvæmd en þá sem ráðast eigi í og þá kosti sem raunhæfir séu. Lagning 220 kV jarðstrengs milli Hafnarfjarðar og Suðurnesja sé allt önnur framkvæmd heldur en lagning 220 kV háspennulínu, bæði hvað varði kostnað og tæknilega útfærslu. Horft sé til framtíðar við framkvæmdir í flutningskerfinu og sé kostur við háspennulínur að flutningsgetu þeirra megi auka með einföldum hætti. Athygli sé vakin á stefnu stjórnvalda hvað varði lagningu jarðstrengja, sbr. þingsályktun þar um. Forræði framkvæmdaraðila á framkvæmdum sé áréttað og að ekki sé á valdsviði sveitarfélaga að fjalla um mögulegar útfærslur framkvæmda. Þá séu ekki gallar á matsskýrslu Suðvesturlína og álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir.

Ekki verði af framkvæmd sem Suðurnesjalínu 2 nema ráð sé gert fyrir henni á skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Sé því ljóst að framkvæmdaraðili hafi ávallt samráð við sveitarstjórn þess sveitarfélags sem framkvæmdin liggi um. Að auki hafi kærendur nýtt sér heimildir laga til að koma á framfæri skoðunum sínum.

Sveitarfélagið hafi kosið að grenndarkynna, umfram lagalega skyldu sína, til þess að tryggja vandaða málsmeðferð við útgáfu framkvæmdaleyfisins. Jafnframt hafi verið tekin rökstudd afstaða til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og málsmeðferð verið í samræmi við stjórnsýslulög.

Umsókn Landsnets hafi verið í stöðugri umfjöllun og undirbúningi bæjarstjórnar, skipulags- og byggingarráðs, sem og skipulags- og byggingarfulltrúa, í um 14 mánuði, þar til samkomulag hafi verið gert milli aðila 9. júlí 2015. Leyfisumsókn Landsnets hafi verið til umfjöllunar með ýmsum hætti og hafi verið fjallað um málið á lokastigum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sbr. umræður á fundi hennar 10. júní s.á. vegna fundargerðar skipulags- og byggingarráðs frá 2. s.m. Bæjarráð hafi haft umboð bæjarstjórnar til fullnaðarafgreiðslu í sumarleyfi hennar. Hafi ráðið tekið fyrir umsókn Landsnets á fundi sínum 8. júní 2015 og þá samþykkt samkomulagið við Landsnet. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 20. október s.á. hafi umhverfis- og skipulagsþjónustu verið falið að auglýsa leyfið og hafi fundargerð fundarins verið lögð fram í bæjarstjórn 28. s.m. Ágreiningur ríki um túlkun á 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. erindisbréfs skipulags- og byggingarráðs, en allan vafa um heimildir þess til fullnaðarafgreiðslu málsins hljóti að verða að túlka leyfishafa í hag. Sé enda ekki nokkur vafi á að bæjarráð í umboði bæjarstjórnar hafi samþykkt framkvæmdina og bæjarstjórn fjallað ítrekað um hana.

Suðvesturlínur feli í sér áfangaskiptar framkvæmdir og hafi leyfishafi ekki gert nokkra þá breytingu á framkvæmdinni Suðurnesjalína 2, sem leitt geti til þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram.

Ríkir almannahagsmunir krefjist þess að raforkuflutningskerfið verði styrkt frá Hafnarfirði til Suðurnesja. Um sé að ræða veikan hluta flutningskerfisins, bæði með tilliti til flutningsgetu og afhendingaröryggis. Suðurnesjalína 1, sem nú þjóni svæðinu og rekin sé á 132 kV spennu, sé fulllestuð í dag.

——-

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur ekki látið málið til sín taka fyrir úrskurðarnefndinni þrátt fyrir að vera gefinn kostur á því með bréfi, dags. 30. nóvember 2015. Þá hafa gögn ekki borist frá sveitarfélaginu, en fullnægjandi gögn lágu fyrir nefndinni svo að úrskurður yrði upp kveðinn.

——-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér með hliðsjón af síðar til komnum atvikum málsins.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem samþykkt var af skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar 10. júlí 2015. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 109/2015, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 575/2016. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærendur hafa ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna atvika sem nánar eru rakin í málavaxtalýsingu.
 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

75/2014 Suðurnesjalína 2 Reykjanesbæ

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2014, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Reykjanesbæjar frá 20. maí 2014 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2014, er barst nefndinni 16. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd þá ákvörðun sveitarstjórnar Reykjanesbæjar frá 20. maí 2014 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 5. september 2014.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til hennar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á.

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags 26. nóvember 2013, óskuðu eigendur jarðanna Landakots, Hvassahrauns, Stóru og Minni Vatnsleysu, nokkrir eigenda Heiðarlands Vogajarða og tveir eigenda Stóra Knarrarness eftir endurskoðun fyrrnefndrar matsskýrslu Landsnets að því er varðaði Suðurnesjalínu 2. Með ákvörðun sinni 23. júní 2014 hafnaði Skipulagsstofnun þessari beiðni landeigenda, sem og ósk þeirra til vara um endurskoðun á áliti stofnunarinnar á matsskýrslunni. Nefnd ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar, en kæran var síðar afturkölluð.

Orkustofnun veitti Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Um er að ræða 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði, um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ, að tengivirki við Rauðamel, um 5 km norðan við Svartsengi. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en kærumálinu vísað frá í kjölfar dóms Hæstaréttar 13. október 2016, í máli nr. 796/2015, þar sem ákvörðunin var felld úr gildi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Landsneti heimildir til eignarnáms á jörðum kærenda í febrúar 2014, en þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015, uppkveðnum 13. maí 2015. 

Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar 15. maí 2014 var tekin fyrir og samþykkt umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2. Var umhverfis- og skipulagssviði falið að ganga frá framkvæmdaleyfi. Á fundi bæjarstjórnar 20. s.m. var afgreiðsla bæjarráðs samþykkt og er sú ákvörðun kærð í máli þessu. Framkvæmdaleyfi var gefið út 16. júní s.á. og auglýst sama dag. Auk Reykjanesbæjar veittu sveitarfélögin Grindavík, Hafnarfjörður og Vogar Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem öll voru kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Kærumáli þessu var frestað á meðan á rekstri dómsmáls stóð vegna framkvæmdaleyfisins sem veitt var af Sveitarfélaginu Vogum, en leyfið var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016. Kærur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar leyfisveitingar hafa verið afturkallaðar.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á það bent að þeir hafi kært til úrskurðarnefndarinnar leyfi Orkustofnunar fyrir Suðurnesjalínu 2. Vafi leiki á um lögmæti þeirrar leyfisveitingar og sé ekki hægt að byggja ákvörðun um framkvæmdaleyfi á henni fyrr en niðurstaða þar um liggi fyrir.

Þegar um sé að ræða leyfisveitingu vegna matsskyldrar framkvæmdar skuli leyfisveitandi taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Kærendur telji hins vegar að Reykjanesbær hafi ekki tekið álitið til gaumgæfilegrar skoðunar áður en leyfi hafi verið veitt.

Línan fari um svæði sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, en öll línuleiðin liggi um nútímahraun og yfir vatnsverndarsvæði.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að hin leyfða framkvæmd sé í samræmi við gildandi svæðisskipulag, aðalskipulag og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Telji sveitarfélagið að framkvæmdin sé brýn, aðkallandi og í þágu almannahagsmuna jafnt og íbúa sveitarfélagsins. Álit Skipulagsstofnunar sé í samræmi við þessa niðurstöðu.

Reykjanesbær hafi einnig kynnt sér þann kost að leggja rafstreng í jörðu á umræddu svæði og hafi við mat á því hvort sá kostur kæmi til greina m.a. verið litið til álits Skipulagsstofnunar, þar sem gerð sér grein fyrir helstu kostum jarðstrengja umfram loftlínur annars vegar og helstu kostum loftlína umfram jarðstrengi hins vegar. Á því svæði sem um ræði séu kostir þess að leggja loftlínu umfram þann kost að leggja jarðstreng verulegir og hafi bærinn haft þennan samanburð til hliðsjónar við mat á því hvort veita skyldi framkvæmdaleyfi.

Lagning jarðstrengs hafi í för með sér mikið og varanlegt jarðrask. Lagning Suðurnesjalínu 2 í lofti sé aftur á móti að miklu leyti afturkræf framkvæmd og raski jarðvegi ekki mikið, m.a. í ljósi þess að hægt sé að nýta núverandi slóðir að miklu leyti. Sérstaklega mikilvægt sé að taka mið af þessari staðreynd þar sem hraunið sem línan komi til með að liggja í gegnum sé nútímahraun, sem njóti sérstakrar verndar og yfir vatnsverndarsvæði.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að veiting framkvæmdaleyfis sé í fullu samræmi við álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Óumdeilt sé að fyrirhugaðar framkvæmdir, sem leyfi hafi verið veitt fyrir, byggi á gildandi Svæðisskipulagi Suðurnesja 2008-2024 og Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024, sem og niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum. Ríkir almannahagsmunir krefjist þess að raforkuflutningskerfið verði styrkt á umræddu svæði. Um sé að ræða veikan hluta flutningskerfisins, bæði með tilliti til flutningsgetu og afhendingaröryggis. Suðurnesjalína 1, sem nú þjóni svæðinu og rekin sé á 132 kV spennu, sé fulllestuð í dag. Framkvæmdin sé því brýn, aðkallandi og í þágu almannahagsmuna. Þá komi aðrar leiðir, sem miði að því að styrkja flutningskerfið, ekki til greina, en 220 kV jarðstrengslausn sé ekki tæknilega eða kostnaðarlega fýsileg á þessu spennustigi. Hún komi eingöngu til athugunar á styttri vegalengdum og við sérstakar aðstæður, t.d. ef um sé að ræða einstæðar umhverfisaðstæður eða þétta íbúðabyggð. Auk þess myndi slík framkvæmd skilja eftir sig breiða raskaða rás í hrauni, en eldhraun njóti sérstakrar verndar náttúruverndarlaga. Rask vegna loftlínu yrði umtalsvert minna og óafturkræft rask yrði minna en af lagningu jarðstrengja. Línan muni fylgja mannvirkjabelti Reykjaness.

—–

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu, sem ekki verða rakin nánar hér með hliðsjón af síðar til komnum atvikum málsins.

Niðurstaða: Eins og rakið er í málavaxtalýsingu frestaði úrskurðarnefndin meðferð kærumáls þessa þar til fyrir lægi niðurstaða dómsmáls sem rekið var vegna framkvæmdaleyfisveitingar Sveitarfélagsins Voga fyrir Suðurnesjalínu 2. Það framkvæmdaleyfi var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar, sem með dómi sínum 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016, staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

Í dómi Hæstaréttar var gerð grein fyrir helstu reglum um málsmeðferð vegna matsskyldra framkvæmda og efni matsskýrslna samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum. Eins og þar kæmi fram skyldi auk þeirrar framkvæmdar sem metin væri lýsa öðrum möguleikum um framkvæmdarkosti sem til greina kæmu í tillögu að matsáætlun og frummatsskýrslu. Þá skyldi í skýrslunni vera samanburður á umhverfisáhrifum þeirra kosta sem kynntir væru og rökstuðningur fyrir vali framkvæmdaraðila, að teknu tilliti til umhverfisáhrifa. Væri það síðan hlutverk Skipulagsstofnunar að gefa rökstutt álit á því hvort matsskýrsla uppfyllti lögbundin skilyrði og að umhverfisáhrifum væri lýst á fullnægjandi hátt. Tók dómurinn fram að samkvæmt 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 og 2. mgr. 29. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1123/2005, skyldi sveitarstjórn við umfjöllun um leyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Þá tiltók Hæstiréttur að ítrekað hefðu verið gerðar athugasemdir við ráðagerðir um að umrædd lína lægi í lofti og vísaði dómurinn jafnframt til fyrri dóma sinna vegna Suðurnesjalínu 2, frá 12. maí og 13. október 2016, en forsendur þeirra væru að Landsnet hafi við undirbúning framkvæmdanna ekki látið fara fram sérstaka athugun á þeim möguleika að leggja línuna í jörð, heldur vísað til almennra sjónarmiða um kosti og galla jarðstrengja. Yrði hvorki af gögnum málsins né flutningi þess ráðið með viðhlítandi hætti, hvar slíkur strengur gæti legið eða hver yrðu umhverfisáhrif hans. Þá hefði Landsnet ekki sýnt fram á að atvik væru með þeim hætti að líta bæri fram hjá þessum galla. Hefði þetta leitt til þess að ákvarðanir þær um eignarnám og leyfisveitingu Orkustofnunar sem umrædd mál snerust um hefðu verið ógiltar.

Áréttaði Hæstiréttur að jarðstrengur í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 8. gr. og 4. málsliðar 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 væri möguleiki um framkvæmdarkost, sem til greina gæti komið, og hefði því borið að gera grein fyrir honum í tillögum og matsskýrslum í matsferlinu og bera hann saman við annan eða aðra framkvæmdarkosti. Það hefði ekki verið gert að öðru leyti en því að látið hefði verið nægja að vísa til almennra sjónarmiða um kosti og galla jarðstrengja.

Loks segir svo í dómi Hæstaréttar: „Sá annmarki á umhverfismati, sem leiddi til þess að leyfi Orkustofnunar til áfrýjandans Landsnets hf. til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2 var fellt úr gildi og heimildir áfrýjandans til eignarnáms í þágu framkvæmdarinnar voru ógiltar, voru enn fyrir hendi þegar áfrýjandinn Sveitarfélagið Vogar veitti framkvæmdaleyfi það sem um er deilt í málinu. Umhverfisáhrifum jarðstrengs í samanburði við aðra framkvæmdarkosti hefur samkvæmt því ekki verið lýst á fullnægjandi hátt og uppfylltu matsferlið og umhverfismatsskýrslan því ekki þann áskilnað sem gerður er í lögum um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Samkvæmt því gátu matsskýrsla Landsnets hf. um Suðurnesjalínu 2 og álit Skipulagsstofnunar um skýrsluna ekki verið lögmætur grundvöllur undir ákvörðun sveitarfélagsins um veitingu framkvæmdaleyfisins sem samkvæmt því var reist á röngum lagagrundvelli. Úr þessum galla á umhverfismatinu hefur ekki verið bætt, enda getur áðurgreind valkostaskýrsla Landsnets hf. sem kynnt var í október 2016 hvorki samkvæmt grundvelli sínum, efni né tilgangi bætt þar úr. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um annað en málskostnað.“

Samkvæmt framangreindu hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að matsskýrsla Landsnets um Suðurnesjalínu 2 og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi ekki getað verið lögmætur grundvöllur ákvörðunar Sveitarfélagsins Voga um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Suðurnesjalínu 2. Með vísan til framangreinds, og þar sem sama matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar lágu til grundvallar ákvörðun sveitarstjórnar Reykjanesbæjar um veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis fyrir Suðurnesjalínu 2, sbr. ákvæði 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 13. gr. laga nr. 106/2000, verður að fella hina kærðu ákvörðun sveitarstjórnar Reykjanesbæjar úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna atvika sem nánar eru rakin í málavaxtalýsingu.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Reykjanesbæjar frá 20. maí 2014 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

42/2015 Suðurnesjalína 2 Grindavík

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkur frá 16. desember 2014 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júní 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd þá ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkur frá 16. desember 2014 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Grindavík 13. nóvember 2015.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til hennar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á.

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags 26. nóvember 2013, óskuðu eigendur jarðanna Landakots, Hvassahrauns, Stóru og Minni Vatnsleysu, nokkrir eigenda Heiðarlands Vogajarða og tveir eigenda Stóra Knarrarness eftir endurskoðun fyrrnefndrar matsskýrslu Landsnets að því er varðaði Suðurnesjalínu 2. Með ákvörðun sinni 23. júní 2014 hafnaði Skipulagsstofnun þessari beiðni landeigendanna, sem og ósk þeirra til vara um endurskoðun á áliti stofnunarinnar á matsskýrslunni. Nefnd ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar, en kæran var síðar afturkölluð.

Orkustofnun veitti Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Um er að ræða 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði, um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ, að tengivirki við Rauðamel, um 5 km norðan við Svartsengi. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en kærumálinu vísað frá í kjölfar dóms Hæstaréttar 13. október 2016, í máli nr. 796/2015, þar sem ákvörðunin var felld úr gildi. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Landsneti heimildir til eignarnáms á jörðum kærenda í febrúar 2014, en þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015, uppkveðnum 13. maí 2015. 

Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkur 16. desember 2014 var tekin fyrir umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2, en um umsóknina hafði verið fjallað á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 10. s.m. Bæjarstjórn samþykkti framkvæmdaleyfið og var það gefið út 22. apríl 2015 og auglýst 5. maí s.á. Auk Grindavíkur veittu sveitarfélögin Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Vogar Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem öll voru kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Kærumáli þessu var frestað á meðan á rekstri dómsmáls stóð vegna framkvæmdaleyfisins sem veitt var af Sveitarfélaginu Vogum, en leyfið var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016. Kærur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar leyfisveitingar hafa verið afturkallaðar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að Suðvesturlínur og kerfisáætlun Landsnets hafi ekki sætt umhverfismati áætlana svo sem skylt sé samkvæmt lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sbr. tilskipun 2001/42/EB. Að auki sé framkvæmdin stórlega breytt, en Suðurnesjalína 2 hafi verið klofin frá verkefninu Suðvesturlínur án þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum færi fram.

Sveitarfélagið hafi farið með málið sem skipulagsmál en ekki sem þátt í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þar sem ekki hafi legið fyrir deiliskipulag hafi verið stokkið á það að grenndarkynna framkvæmdina, sem sé aðgerð sem sveitarfélög noti að jafnaði ekki nema í alminnstu málum. Kynningin hafi ekki verið nægilega víðtæk og því ógild, en aðalatriði sé að um lokaþátt mats á umhverfisáhrifum hafi verið að ræða og hafi almenningur ekki notið þátttökuréttar á því stigi.

Matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar hafi verið svo verulegum annmörkum háð að ekki verði við það stuðst. Aðeins hafi verið lagður fram einn valkostur, þ.e. 220 kV loftlína um Reykjanesskagann. Aðrir og raunhæfari kostir og umhverfisvænni séu hins vegar fyrir hendi, t.d. að styrkja Suðurnesjalínu 1, að leggja jarðstreng, mismunandi spennustig o.s.frv. Engin sjálfstæð rannsókn hafi farið fram af hálfu sveitarfélagsins, en vegna ábyrgðar sinnar hafi sveitarfélaginu verið skylt við meðferð málsins að kanna með sjálfstæðum og málefnalegum hætti hvort umhverfisverndarsjónarmið gætu réttlætt jarðstrengsframkvæmd að einhverju eða öllu leyti og taka rökstudda afstöðu til þeirrar spurningar. Leyfisveitenda beri að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en afstaða skipulags- og umhverfisnefndar, sem og bæjarstjórnar, geti engan veginn talist rökstudd. Ekkert hafi verið fjallað um niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar þar sem fram komi að nánast öll umhverfisáhrif sem metin hafi verið teljist neikvæð, talsvert neikvæð eða verulega neikvæð.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til lögfræðilegrar greinargerðar og annarra gagna málsins er legið hafi fyrir við ákvörðunartöku bæjarins.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að leyfisveitandi skuli fjalla um og taka afstöðu til þess hvort tiltekin framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt skuli hann kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu. Þá skuli leyfisveitandi taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Sveitarstjórn Grindavíkurbæjar hafi uppfyllt þessar lögbundnu kröfur við veitingu framkvæmdaleyfisins og séu því engar forsendur til ógildingar þess. Það falli hins vegar utan valdsviðs sveitarfélaga að skera úr um hvort áætlanir leyfishafa skuli sæta umhverfismati áætlana skv. lögum nr. 105/2006 þess efnis, en þó sé bent á að framkvæmdin hafi sætt slíku mati um leið og aðalskipulagstillaga hafi farið í slíkt mat. Þegar mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram hafi engin krafa verið gerð um að kerfisáætlun skyldi sæta umhverfismati áætlana.

Suðvesturlínur feli í sér áfangaskiptar framkvæmdir og hafi leyfishafi ekki gert nokkra þá breytingu á framkvæmdinni Suðurnesjalínu 2 sem leitt geti til þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram.

Sveitarfélagið hafi kosið að grenndarkynna umfram lagalega skyldu sína til þess að tryggja vandaða málsmeðferð við útgáfu framkvæmdaleyfisins. Jafnframt hafi verið tekin rökstudd afstaða til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, en leyfið sé háð þeim skilyrðum sem stofnunin hafi lagt til í áliti sínu. Ekki séu ágallar á matsskýrslu Suðvesturlína og sé það ekki lögbundið hlutverk sveitarfélaga að leggja mat á slíkt. Þá sé það ekki á valdsviði sveitarfélaga að fjalla um mögulegar útfærslur framkvæmdarinnar. Loks sé athygli vakin á stefnu stjórnvalda hvað varði lagningu jarðstrengja, sbr. þingsályktun þar um.

—–

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu, sem ekki verða rakin nánar hér með hliðsjón af síðar til komnum atvikum málsins.

Niðurstaða: Eins og rakið er í málavaxtalýsingu frestaði úrskurðarnefndin meðferð kærumáls þessa þar til fyrir lægi niðurstaða dómsmáls sem rekið var vegna framkvæmdaleyfisveitingar sveitarfélagsins Voga fyrir Suðurnesjalínu 2. Það framkvæmdaleyfi var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar, sem með dómi sínum 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016, staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

Í dómi Hæstaréttar var gerð grein fyrir helstu reglum um málsmeðferð vegna matsskyldra framkvæmda og efni matsskýrslna samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum. Eins og þar kæmi fram skyldi auk þeirrar framkvæmdar sem metin væri lýsa öðrum möguleikum um framkvæmdarkosti sem til greina kæmu í tillögu að matsáætlun og frummatsskýrslu. Þá skyldi í skýrslunni vera samanburður á umhverfisáhrifum þeirra kosta sem kynntir væru og rökstuðningur fyrir vali framkvæmdaraðila, að teknu tilliti til umhverfisáhrifa. Væri það síðan hlutverk Skipulagsstofnunar að gefa rökstutt álit á því hvort matsskýrsla uppfyllti lögbundin skilyrði og að umhverfisáhrifum væri lýst á fullnægjandi hátt. Tók dómurinn fram að samkvæmt 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 og 2. mgr. 29. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1123/2005, skyldi sveitarstjórn við umfjöllun um leyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Þá tiltók Hæstiréttur að ítrekað hefðu verið gerðar athugasemdir við ráðagerðir um að umrædd lína lægi í lofti og vísaði dómurinn jafnframt til fyrri dóma sinna vegna Suðurnesjalínu 2, frá 12. maí og 13. október 2016, en forsendur þeirra væru að Landsnet hafi við undirbúning framkvæmdanna ekki látið fara fram sérstaka athugun á þeim möguleika að leggja línuna í jörð, heldur vísað til almennra sjónarmiða um kosti og galla jarðstrengja. Yrði hvorki af gögnum málsins né flutningi þess ráðið með viðhlítandi hætti, hvar slíkur strengur gæti legið eða hver yrðu umhverfisáhrif hans. Þá hefði Landsnet ekki sýnt fram á að atvik væru með þeim hætti að líta bæri fram hjá þessum galla. Hefði þetta leitt til þess að ákvarðanir þær um eignarnám og leyfisveitingu Orkustofnunar sem umrædd mál snerust um hefðu verið ógiltar.

Áréttaði Hæstiréttur að jarðstrengur í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 8. gr. og 4. málsliðar 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 væri möguleiki um framkvæmdarkost, sem til greina gæti komið, og hefði því borið að gera grein fyrir honum í tillögum og matsskýrslum í matsferlinu og bera hann saman við annan eða aðra framkvæmdarkosti. Það hefði ekki verið gert að öðru leyti en því að látið hefði verið nægja að vísa til almennra sjónarmiða um kosti og galla jarðstrengja.

Loks segir svo í dómi Hæstaréttar: „Sá annmarki á umhverfismati, sem leiddi til þess að leyfi Orkustofnunar til áfrýjandans Landsnets hf. til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2 var fellt úr gildi og heimildir áfrýjandans til eignarnáms í þágu framkvæmdarinnar voru ógiltar, voru enn fyrir hendi þegar áfrýjandinn Sveitarfélagið Vogar veitti framkvæmdaleyfi það sem um er deilt í málinu. Umhverfisáhrifum jarðstrengs í samanburði við aðra framkvæmdarkosti hefur samkvæmt því ekki verið lýst á fullnægjandi hátt og uppfylltu matsferlið og umhverfismatsskýrslan því ekki þann áskilnað sem gerður er í lögum um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Samkvæmt því gátu matsskýrsla Landsnets hf. um Suðurnesjalínu 2 og álit Skipulagsstofnunar um skýrsluna ekki verið lögmætur grundvöllur undir ákvörðun sveitarfélagsins um veitingu framkvæmdaleyfisins sem samkvæmt því var reist á röngum lagagrundvelli. Úr þessum galla á umhverfismatinu hefur ekki verið bætt, enda getur áðurgreind valkostaskýrsla Landsnets hf. sem kynnt var í október 2016 hvorki samkvæmt grundvelli sínum, efni né tilgangi bætt þar úr. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um annað en málskostnað.“

Samkvæmt framangreindu hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að matsskýrsla Landsnets um Suðurnesjalínu 2 og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi ekki getað verið lögmætur grundvöllur ákvörðunar Sveitarfélagsins Voga um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Suðurnesjalínu 2. Með vísan til framangreinds, og þar sem sama matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar lágu til grundvallar ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkur um veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis fyrir Suðurnesjalínu 2, sbr. ákvæði 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 13. gr. laga nr. 106/2000, verður að fella hina kærðu ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkur úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna atvika sem nánar eru rakin í málavaxtalýsingu.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjastjórnar Grindavíkur frá 16. desember 2014 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Ásgeir Magnússon

 

113/2016 Breiðargata og Vesturgata

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 113/2016, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands um að veita starfsleyfi til fiskþurrkunar að Breiðargötu 8b og Vesturgötu 2, Akranesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2016, er barst nefndinni 26. s.m., kæra eigendur tilgreindra fasteigna, Bakkatúni 4, Skólabraut 20, Laugarbraut 18, Vesturgötu 17, Leynisbraut 26, og Laugarbraut 16, öll á Akranesi, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 9. ágúst 2016 að veita HB Granda hf. starfsleyfi fyrir fiskþurrkun að Breiðargötu 8b og Vesturgötu 2, Akranesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Akraneskaupstað 3. október 2016.

Málavextir:
Með bréfi til heilbrigðisnefndar Vesturlands, dags. 7. mars 2016, sótti HB Grandi um endurnýjun á starfsleyfi fyrir fiskþurrkun fyrirtækisins. Kom fram í bréfinu að sótt væri um endurnýjun á starfsleyfinu á meðan á fyrirhuguðum framkvæmdum við nýtt húsnæði fiskþurrkunarinnar stæði en áætlað væri að ljúka fyrsta áfanga byggingarinnar á 18 mánuðum.

Á fundi sínum sama dag samþykkti heilbrigðisnefnd Vesturlands að auglýsa óbreytt starfsleyfi sem myndi gilda til 1. maí 2017 með þeim skilyrðum að flutningi á hráefni og unnum vörum yrði hagað þannig að lykt yrði sem minnst og húsnæði starfseminnar yrði lokað eins og kostur væri. Í fundargerð kemur fram að undanþága frá starfsleyfi, sem gefin hafi verið út af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til HB Granda, rynni út 1. maí 2016. Með auglýsingu er birtist í Skessuhorni 16. mars s.á. var lýst eftir athugasemdum við tillögu að starfsleyfi fyrir fiskþurrkun HB Granda að Breiðargötu 8b og Vesturgötu 2 á Akranesi. Kom fram að starfsleyfistillagan myndi liggja frammi á skrifstofu Akraneskaupstaðar frá 16. mars til 14. apríl 2016 og að einnig væri hægt að afla upplýsinga um tillöguna hjá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands.

Athugasemdir bárust á auglýsingartíma og sneru þær fyrst og fremst að hinni miklu lyktarmengun sem frá starfseminni stafaði. Var því mótmælt að starfsleyfið yrði veitt án aukinna krafna um varnir gegn þeirri mengun.

Á fundi heilbrigðisnefndar 8. ágúst 2016 var lagt fram lögfræðilegt álit vegna svarbréfa til þeirra sem gert hefðu athugasemdir við auglýst starfsleyfi og var samþykkt að gefa út tímabundið starfsleyfi til 1. maí 2017 auk þess að fela framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins að svara athugasemdum í samræmi við tillögur lögmannsins. Voru þau svör framkvæmdastjórans send með bréfum heilbrigðiseftirlitsins, dags. 9. ágúst 2016.

Málsrök kærenda: Kærendur kveða fiskþurrkun leyfishafa um langt árabil hafa valdið mörgum íbúum á Akranesi miklum óþægindum vegna lyktarmengunar.

Fyrirtækið hafi ekki uppfyllt öll skilyrði sem því hafi verið sett í starfsleyfi sem runnið hafi út 1. maí 2016. Þar megi t.d. nefna lið 2.4, þar sem kveðið sé á um að haga skuli loftræstingu þannig að ekki valdi nágrönnum óþægindum vegna lyktar, hávaða eða annarrar mengunar. Þá komi fram í lið 3.6, að fyrirtækið skuli takmarka lykt og hávaða frá starfseminni eins og kostur sé. Einnig dragi kærendur í efa að skilyrði liðar 3.1 hafi verið uppfyllt, en þar segi að allt hráefni til vinnslu skuli vera ferskt, þ.e. TVN-gildi undir 50. Því til stuðnings vísi kærendur til eftirfarandi tilvitnunar sem tekin sé af minnisblaði sem framkvæmdarstjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands hafi skrifað 24. september 2014 vegna starfsemi hinnar umræddu fiskþurrkunar: „Hráefni kemur að mestu frá HB Granda á Akranesi eða Reykjavík og er að jafnaði ekki eldra en fjögurra daga gamalt.“ Þetta sé ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að hráefnið í fiskþurrkunina sé stundum eldra en fjögurra daga, sem ekki teljist ferskt. Þetta geti alveg eins átt við í dag.

Húsnæði þurrkunarinnar við Vesturgötu 2 sé ónýtt og hafi verið um árabil. Þetta hafi forstjóri HB Granda viðurkennt tvisvar sinnum á opinberum vettvangi. Það ætti að vera nægileg ástæða til að framlengja ekki starfsleyfi þurrkunarinnar.

Í umhverfisskýrslu fyrir deiliskipulag Breiðarsvæðis á Akranesi, sem unnin hafi verið af HB Granda og dagsett sé 19. janúar 2016, sé tafla á bls. 9 þar sem taldir séu upp 14 rekstrarþættir fiskþurrkunar fyrirtækisins, núverandi ástand þeirra þátta og áform um úrbætur. Þar komi m.a. fram varðandi innra eftirlit og áhættumat að ekki sé tekið á lykt í umhverfi, liðurinn eftirþurrkun sé ekki í lagi og auk þess séu taldir upp níu liðir sem megi bæta. Boðað sé að úrbætur verði með nýju húsnæði undir eftirþurrkun. Óvíst sé hvenær það hús muni rísa.

Í hinu kærða starfsleyfi sé ekki minnst einu orði á framangreind atriði og ekki sett nein skilyrði um tafarlausar úrbætur, sem ætti þó að vera eðlileg krafa þegar nýtt starfsleyfi sé gefið út. Í greinargerð með starfsleyfinu sé lögð þung áhersla á að fyrirtækið nýti alla möguleika til að halda lykt frá starfseminni í lágmarki í núverandi húsakosti. Því sé greinilegt að heilbrigðisnefnd hafi einhverjar áhyggjur af lyktarmengun frá fiskþurrkuninni.

Að lokum hafi kærendur áhyggjur af hugsanlegri mengun frá ósoni sem notað sé við fiskþurrkunina. Samkvæmt lýsingu á vef Umhverfisstofnunar valdi óson plöntuskaða og áhrif þess á öndunarfæri fólks séu talin óheilnæm. Heilbrigðiseftirlitið hafi í svarbréfi sínu við athugasemdum við starfsleyfistillöguna sagt að óson sé viðurkennd mengunarvörn sem teljist hvorki hættuleg né skaðleg. Kærendur bendi á að ekkert eftirlit sé haft með því hversu mikið óson sé notað við framleiðsluna.

Málsrök heilbrigðisnefndar Vesturlands: Heilbrigðisnefndin kveðst hafa gefið út tímabundið starfsleyfi til fiskþurrkunar HB Granda við Breiðargötu og Vesturgötu, Akranesi, þegar ljóst hafi verið að ekki lægi fyrir staðfest deiliskipulag fyrir þá lóð þar sem fiskþurrkun HB Granda hyggist byggja nýtt fiskvinnsluhús undir starfsemina á einum stað. Með umsókn um endurnýjað starfsleyfi, dags. 7. mars 2016, komi fram vilji fyrirtækisins til að koma allri starfsemi sinni fyrir í einu húsnæði í stað tveggja og bæta verulega mengunarvarnabúnað. Fyrir hafi legið umhverfisskýrsla fyrirtækisins um uppbyggingu á svæðinu.

Tveir kostir hafi verið í stöðunni fyrir heilbrigðisnefndina. Að hafna algerlega útgáfu starfsleyfis eða að gefa út tímabundið leyfi. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi áður gefið út undanþágu frá starfsleyfi sem hafi gilt frá 1. febrúar til 1. maí 2016 og hafi byggt á skilyrðum sem sett hafi verið í starfsleyfi heilbrigðisnefndar Vesturlands, útgefnu árið 2008, með gildistíma til 1. febrúar 2016. Strax hafi verið ljóst að nefnd undanþága myndi duga skammt þar sem auglýsing deiliskipulags fyrir svæðið þar sem starfsemin fari fram hefði dregist mikið og HB Granda því ekki heimilt að hefja þar uppbyggingu. Þess beri að geta að engin fiskþurrkun hafi farið fram hjá fyrirtækinu síðan 19. apríl 2016 vegna slæmrar stöðu á fisksölumörkuðum í Afríku fyrir þurrkaðan fisk.

Heilbrigðisnefndin beri ekki á móti því að lykt finnist frá heitloftsþurrkun. Það sem mestu máli skipti sé að hráefnið sé gott og að viðunandi mengunarvarnir séu notaðar. Samkvæmt eftirlitsskýrslum sem Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hafi gefið út allt frá árinu 2008 hafi fyrirtækið ekki brotið ákvæði starfsleyfisins.

Best þekkti búnaðurinn í dag til að minnka lykt af heitloftsþurrkun fiskafurða sé óson. Það eigi ekki við rök að styðjast að óson geti valdið heilsuskaða eins og það sé notað við starfsemi fiskþurrkunarinnar. Óson sé þekkt efni og viðurkennt til sótthreinsunar í matvælaiðnaði og ekkert sem bendi til þess að það sé skaðlegt utanhúss eftir að það hafi verið notað við stýringu inn í fiskþurrkunarklefana.

Fiskþurrkunin hafi farið fram í tveimur húsum, þ.e. forþurrkun við Breiðargötu og eftirþurrkun við Vesturgötu á Akranesi. Það sé visst óhagræði að flytja þannig afurðir á milli húsa auk þess sem hætta sé á meiri lykt, bæði vegna flutningsins og tíðari opnunar hurða í þurrkhúsunum. Í umhverfisskýrslu VSÓ frá því í apríl 2015 séu dregin fram atriði í rekstrinum sem hægt væri að bæta. Flest þeirra snúi að bættum húsakosti. Í dag sé ljóst að eftirþurrkunarhúsið við Vesturgötu sé ófullnægjandi og því hafi fyrirtækið um nokkurn tíma sótt um stækkun á lóð við Breiðargötu, þar sem forþurrkunin fari fram, þannig að hægt væri að hýsa alla starfsemina í einu lokuðu húsi og bæta starfshætti og mengunarvarnir. Mjög hafi dregist að auglýsa nýtt deiliskipulag vegna lóðarinnar og á meðan sé ekki hægt að byggja upp reksturinn og hefja framkvæmdir við nýjar og hentugri byggingar.

Heilbrigðisnefndin hafi, með útgáfu tímabundins starfsleyfis til 1. maí 2017, komið til móts við vilja íbúa bæjarins og óskir fyrirtækisins. Ákveðinn þrýstingur sé settur á fyrirtækið um að hefja framkvæmdir við nýtt og betra húsnæði og forsvarsmönnum þess gert ljóst að starfsleyfi verði ekki endurnýjað í óbreyttri mynd eftir 1. maí 2017. Í bréfi með starfsleyfinu sé farið fram á að fyrirtækið tryggi að flutningur milli húsa fari fram þannig að hann valdi sem minnstri lykt og dyr fiskþurrkunarhúsanna verði ekki opnar meira en þörf sé á.

——-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna máls þessa en hann hefur ekki nýtt sér þann rétt.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Fram kemur í kæru að kærendur byggja aðild sína á reglum nábýlisréttar, þar sem m.a. mikil lyktarmengun fylgi starfsemi leyfishafa sem skapi óþægindi. Má gera ráð fyrir að þeirrar mengunar verði fyrst og fremst vart á því svæði sem næst er starfseminni en einnig getur lyktarmengun borist langa vegu við tiltekin veðurfarsskilyrði. Samkvæmt gögnum málsins hafa athuganir leitt í ljós að greinileg eða sterk lykt hefur fundist allt að 1.000 metrum frá eftirþurrkuninni, sem er staðsett að Vesturgötu 2. Er því ekki útilokað að kærendur þeir sem búa innan þeirra fjarlægðarmarka verði varir við lykt frá starfseminni þannig að það geti snert lögvarða hagsmuni þeirra. Heimili kærenda eru öll staðsett innan nefndra marka að frátöldu húsi eins kæranda að Leynisbraut 26, sem er í um 2,7 kílómetra fjarlægð. Að teknu tilliti til þeirrar fjarlægðar verður ekki séð að sá kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni af úrlausn málsins umfram aðra bæjarbúa að skapi honum kæruaðild og er kæru hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun er nr. 785/1999. Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum slíks atvinnurekstrar, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Í gr. 1.1. Í fylgiskjali 2 með reglugerðinni er talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi, þ. á m. heitloftsþurrkun fiskafurða, sbr. gr. 5.7. Heilbrigðisnefnd er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber nefndinni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Óumdeilt er að af hinni leyfisskyldu starfsemi hefur stafað lyktarmengun. Kvarta kærendur m.a. yfir því að ekki sé nægilega tryggt í skilyrðum hins nýja starfsleyfis að henni sé haldið innan ásættanlegra marka. Skilyrði starfsleyfisins eru samhljóða skilyrðum fyrra starfsleyfis, sem upphaflega var gefið út 2008. Í greinargerð með leyfinu kemur fram að heilbrigðisnefndin leggi þunga áherslu á að leyfishafi nýti alla möguleika til að halda lykt frá starfseminni í lágmarki í núverandi húsakosti. Þetta eigi einnig við um flutning hráefnis milli forþurrkunar og eftirþurrkunar. Halda skuli flutningstækjum hreinum og lokuðum.Þá skuli leyfishafi halda dyrum á vinnslurými lokuðum eins og kostur sé. Með þessum skilyrðum þykir heilbrigðisnefnd hafa mælt fyrir um varnir gegn þeirri mengun sem sannanlega hefur stafað af starfseminni og er leyfið aðeins veitt til skamms tíma.

Kærendur gera einnig athugasemdir við að óson sé notað við fiskþurrkunina, en um eiturefni sé að ræða. Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu er notkun ósons við vinnslu algeng aðferð til að draga úr lykt af útblæstri frá fiskþurrkun hér á landi, en ekki sé völ á betri tækni í því skyni í dag. Verður við það að miða að notkun efnisins fari ekki í bága við hlutaðeigandi lög og reglugerðir og að styrkur þess í andrúmsloftinu fari ekki yfir tilskilin mörk, sbr. t.a.m. reglugerð nr. 787/1999 um loftgæði og þágildandi reglugerð nr. 745/2003 um styrk ósons við yfirborð jarðar, sem heilbrigðisnefnd ber að sjá um að sé framfylgt.

Málsmeðferð við gerð starfsleyfisins er lýst í málavaxtalýsingu og var hún í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 785/1999 sem getur haft í för með sér mengun. Þá lágu fyrir heilbrigðisnefndinni m.a. gögn um lyktarmengun af umræddri starfsemi auk þess sem meðalhófs var gætt við ákvörðunartökuna, sbr. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verða ekki taldir þeir annmarkar á málsmeðferð eða efni hins kærða starfsleyfis sem raskað geti gildi þess. Verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kæranda að Leynisbraut 26, Akranesi.

Hafnað er kröfu annarra kærenda um ógildingu ákvörðunar heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 9. ágúst 2016 um að veita starfsleyfi til fiskþurrkunar að Breiðargötu 8b og Vesturgötu 2, Akranesi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir