Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

155/2017 Laxar Þorlákshöfn

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 6. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 155/2017, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 um útgáfu starfsleyfis fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. desember 2017, er barst nefndinni 22. s.m., kæra Veiðifélag Árnesinga, Náttúruverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarfélagið laxinn lifi þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 að veita starfsleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. að Laxabraut 9, Þorlákshöfn, með kynbættum norskum laxi af SAGA-stofni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda.

Málavextir:
Undir fyrirsögninni „Starfsleyfi gefið út fyrir Laxar fiskeldi ehf. Þorlákshöfn“ birtist svohljóðandi frétt á vef Umhverfisstofnunar 17. nóvember 2017: „Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Laxar fiskeldi ehf. til framleiðslu á allt að 500 tonnum á ári af laxaseiðum í fiskeldisstöð að Laxabraut 9, Þorlákshöfn. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar tekur á mengunarþætti eldisins á grunni reglugerðar 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Starfsleyfið gerir ítarlegar kröfur um takmörkun á mengun, eftirlit og mælingar á starfstíma. Engar athugasemdir bárust vegna starfsleyfistillögunnar. Nýja starfsleyfið öðlast gildi við afhendingu Matvælastofnunar og gildir það til 8. nóvember 2033.“

Í fréttinni var jafnframt að finna hlekk á hið útgefna starfsleyfi og greinargerð með því, sem og á ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfisins er dagsett 8. nóvember 2017 og er þar tekið fram að ákvörðunin sé kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu hennar.

Auglýsing um starfsleyfið var birt 24. nóvember 2017 í B-deild Stjórnartíðinda og barst kæra í máli þessu úrskurðarnefndinni 22. desember s.á., svo sem áður greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að hin kærða ákvörðun hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. nóvember 2017 og sé kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála því til 24. desember s.á. skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Um kærufrest vísi Umhverfisstofnun í starfsleyfinu sjálfu til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvernd. Sú lagatilvísun sé beinlínis röng, þar sem ákvæðið í núgildandi lögum fjalli ekki um kærufrest, heldur „stöðvar sem framleiða títandíoxíð.“ Um tilhögun birtingar starfsleyfis sé nú fjallað í 7. gr. laganna.

Varðandi birtingu og gildistöku hins kærða starfsleyfis sé nauðsynlegt að skoða nánar lagaákvæði um birtingu starfsleyfa og gildistökuákvæði starfsleyfisins. Starfsleyfið hafi verið gefið út en taki ekki gildi fyrr en við afhendingu Matvælastofnunar á því til rekstraraðila samtímis afhendingu stofnunarinnar á rekstrarleyfi, sbr. 7. gr. starfsleyfisins. Aldrei hafi verið auglýst hvenær afhending Matvælastofnunar hafi farið fram eða hvenær rekstrarleyfi hafi verið gefið út og því hafi aldrei legið fyrir opinberlega hvenær starfsleyfinu hafi í reynd verið ætlað að taka gildi. Ummæli í greinargerð Umhverfisstofnunar með starfsleyfinu um að leyfið öðlist þegar gildi virðist því vera út í hött. Gildistaka starfsleyfisins sé bundin því skilyrði að Matvælastofnun gefi út rekstrarleyfi. Sú stofnun hafi gefið þær upplýsingar 13. janúar 2018 að rekstrarleyfi hefði verið útgefið 13. nóvember 2017 og verið póstlagt samdægurs til rekstaraðila. Nefnt leyfi hafi enn ekki verið auglýst, hvorki á heimasíðu Matvælastofnunar né opinberlega, og hafi því enn ekki tekið gildi. Þar með hafi starfsleyfi Umhverfisstofnunar heldur ekki tekið gildi, þar sem raunverulegur gildistökudagur þess hafi ekki verið birtur opinberlega.

Hið kærða starfsleyfi hafi aðeins birst sem frétt í fréttahluta heimasíðu Umhverfisstofnunar en ekki sem auglýsing um starfsleyfi og gildistöku þess, eins og nú sé mælt fyrir um í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998. Umhverfisstofnun hafi síðan birt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, sem undirrituð hafi verið 8. nóvember 2017 og birt 24. s.m., en auglýsing í Stjórnartíðindum sé ekki lengur lögbundin. Sú auglýsing hafi innihaldið sömu skilyrði varðandi gildistöku starfsleyfis og ákvæðin í 7. gr. starfsleyfisins. Samkvæmt auglýsingunni hafi kærufrestur verið til 24. desember 2017. Birting auglýsingarinnar hafi ekki fullnægt skilyrðum 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um birtingu. Sé litið til þessa verði ekki annað séð en að starfsleyfið hafi ekki enn tekið gildi. Sú stjórnsýsla sem lýst hafi verið verði að teljast svo óskýr og ómarkviss að verulegur annmarki hafi verið á auglýsingu um útgáfu starfsleyfisins. Annmarkinn sé svo verulegur að ómerkingu varði og að líta beri svo á að leyfið hafi aldrei tekið gildi.

Farið sé fram á að réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis sé frestað eða framkvæmdir stöðvaðar þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar í kærumálinu og að framkvæmdir geti hafist við umrædda eldisstöð áður en afgreiðsla nefndarinnar liggi fyrir.

Málsrök Umhverfisstofnunar:
Af hálfu Umhverfisstofnunar er þess krafist að kröfu um frestun réttaráhrifa verði hafnað þar sem hún sé órökstudd og að ekki hafi verið sýnt fram á að sérstakar ástæður mæli með frestun.

Tekið sé fram að opinber birting hafi farið fram á vefsíðu Umhverfisstofnunar 17. nóvember 2017, sbr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. breytingarlög nr. 66/2017. Kæran sé dagsett 21. desember s.á. og hafi kærufrestur því verið liðinn er hún hafi borist. Beri að vísa kærunni frá af þeim sökum.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að skv. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem tekið hafi gildi 1. júlí 2017, skuli útgefandi starfsleyfis auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa og teljist slík birting vera opinber birting. Umhverfisstofnun hafi birt starfsleyfið með frétt á vefsvæði sínu 17. nóvember 2017. Frestur til að kæra leyfið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sé einn mánuður frá birtingu, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar, sbr. lokamálslið ákvæðisins.

Kæra í málinu sé dagsett 21. desember 2017 og stimpluð sem móttekin hjá úrskurðarnefndinni 22. s.m. Sé sama við hvorn daginn sé miðað og sé ljóst að kæran hafi borist nefndinni utan kærufrests, sbr. framangreint, enda hafi kærufrestur runnið út í síðasta lagi mánudaginn 18. desember. Þegar af þessari ástæðu beri að vísa kærunni frá nefndinni.

Starfsemi sé þegar hafin á grundvelli hins kærða starfsleyfis, enda hafi stöðin verið byggð og tilbúin til rekstrar. Heildarkostnaður við framkvæmdir hafi verið um 800 milljónir króna. Um 900 þúsund seiði séu nú í ræktun í landstöðinni og sé áætlað að fjölga þeim í 1-1,2 milljónir á næstu vikum. Gríðarlegt tjón yrði ef leyfishafa yrði gert að stöðva rekstur sinn. Farga þyrfti þeim seiðum sem í ræktun séu með tilheyrandi mengun og tjóni, auk þess sem veruleg áhrif yrðu á afkomu fyrirtækisins til framtíðar. Líklega yrði tjón fyrirtækisins 3-3,5 milljarðar króna hið minnsta. Hagsmunir þess af því að halda áfram rekstri séu því miklu mun meiri en hagsmunir kæranda af því að fá framkvæmdir stöðvaðar, sbr. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Loks sé grundvöllur kæru hæpinn og lögvarðir hagsmunir kærenda í besta falli tiltölulega fjarlægir og almennir, auk þess sem hið kærða starfsleyfi falli ekki undir reglur um rýmri kæruaðild náttúruverndarsamtaka, sbr. a- til c-liði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Niðurstaða:
Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Ekki er gert að skilyrði að ákvörðunin hafi tekið gildi við birtingu.

Lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir var breytt á árinu 2017 með lögum nr. 66/2017. Fyrir breytinguna var kveðið á um það í 4. mgr. 6. gr. laganna að auglýsa skyldi í B-deild Stjórnartíðinda útgáfu og gildistöku starfsleyfa sem Umhverfisstofnun gæfi út. Eftir breytingu laganna segir í 5. mgr. 7. gr. að útgefandi starfsleyfis skuli auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Birting á vefsíðu útgefanda starfsleyfis teljist vera opinber birting. Í samræmi við fyrirmæli ákvæðisins birti Umhverfisstofnun auglýsingu um útgáfu starfsleyfis til leyfishafa á vefsvæði stofnunarinnar 17. nóvember 2017. Var auglýsingin birt sem frétt á fréttasvæði heimasíðunnar. Fréttasvæði þetta er þannig upp sett að yngri fréttir koma í stað þeirra eldri og leita þarf aftur í tímann til að finna auglýsinguna. Einungis eru tvær nýjustu fréttirnar birtar á forsíðu heimasíðunnar. Umhverfisstofnun birti einnig auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, með útgáfudag 24. nóvember 2017.

Í greinargerð með lögum nr. 66/2017 segir um breytingu á ákvæði um auglýsingu og útgáfu starfsleyfa með 7. gr. laga nr. 66/2017: „[E]r lögð skylda á Umhverfisstofnun að hafa aðgengilegar upplýsingar um útgáfu starfsleyfa og önnur tilgreind atriði. Telja verður mikilvægt að hagsmunaaðilar og almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um framangreind atriði til að auðvelda þeim að koma á framfæri sjónarmiðum sínum við fyrirhugaðar ákvarðanir Umhverfisstofnunar. Um er að ræða innleiðingu á 24. og 25. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. […] Þá er lagt til að Umhverfisstofnun auki upplýsingagjöf sína svo sem varðandi útgáfu starfsleyfa. Þannig er gert ráð fyrir að umsóknir um starfsleyfi, umsóknir um breytingar á starfsleyfum og upplýsingar um endurskoðun á starfsleyfum verði gerðar aðgengilegar á vefsvæði Umhverfisstofnunar.“ Síðan segir um birtingu útgefinna starfsleyfa: „Að lokum er lagt til að Umhverfisstofnun skuli auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Samkvæmt núgildandi lögum skal Umhverfisstofnun auglýsa útgáfu starfsleyfa í Stjórnartíðindum. Talið er að ein helsta ástæðan fyrir framangreindri skyldu hafi verið sú að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um gildistöku tiltekinna starfsleyfa. Telja verður að unnt sé að ná fram framangreindu markmiði með öðrum hætti en með birtingu í Stjórnartíðindum. Af þeim sökum er lagt til að Umhverfisstofnun verði gert skylt að auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Almenningur mun því auðveldlega geta nálgast þessar upplýsingar á vefsíðu Umhverfisstofnunar.“

Samkvæmt framangreindu eru breytingarnar sem gerðar eru á ákvæðum um auglýsingu á útgáfu liður í því að gera starfsleyfisferlið gagnsætt og aðgengilegt almenningi og er greinileg sú forsenda löggjafans að Umhverfisstofnun noti vefsvæði sitt til miðlunar upplýsinga. Taka má undir að þessi leið geti leitt til greiðari aðgangs að upplýsingum er varða hagsmuni almennings. Þó verður að gera þann fyrirvara að upplýsingarnar sem um ræðir séu auðfundnar á vefsvæði viðkomandi stofnunar. Eins og áður kom fram var auglýsing um útgáfu hins kærða starfsleyfis birt á því svæði á heimasíðu Umhverfisstofnunar þar sem fréttir eru birtar, án frekari sérgreiningar. Það veldur því að sífellt erfiðara verður að finna viðkomandi auglýsingu/frétt eftir því sem lengri tími líður. Tvær nýjustu fréttir Umhverfistofnunar sjást á forsíðu heimasíðu hennar án þess að farið sé sérstaklega í fréttasafn stofnunarinnar. Þannig birtist frétt um að vika nýtni stæði yfir 20. nóvember 2017 og fréttatilkynning um hunda og ketti á veitingastöðum birtist 22. nóvember. Frá þeim tíma var auglýsing um hið kærða starfsleyfi eingöngu aðgengileg í fréttasafni Umhverfisstofnunar en ekki á forsíðu heimasíðunnar eða með öðrum aðgreinanlegum hætti, s.s. með sérstökum hnappi sem merktur er „útgefin starfsleyfi“. Slíkan hnapp er t.d. að finna á forsíðunni merktur sem „starfsleyfi í auglýsingu“. Verður þetta að teljast galli á auglýsingu viðkomandi starfsleyfis og ekki til þess fallið að auðvelda aðgengi almennings að upplýsingunum. Auglýsing sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 24. nóvember 2017, um útgáfu sama starfsleyfis, var auk þess til þess fallin að skapa vafa um það hvaða birtingardag skyldi miða kærufrest við.

Þrátt fyrir nefnda ágalla er það engum vafa undirorpið að auglýsing á heimasíðu Umhverfisstofnunar er nú sú leið er fara skal til birtingar starfsleyfis samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 og er ekki í lögunum eða greinargerð með þeim skilgreint nánar hvernig birtingin skuli fara fram. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að auglýsing hins kærða starfsleyfis hafi farið fram 17. nóvember 2017 í skilningi 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 og hafi kærendur mátt vita af útgáfu þess frá sama tíma, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Var kærufrestur því liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni 22. desember s.á. Hins vegar var fyrirkomulag birtingarinnar, svo sem áður er lýst, með þeim hætti að afsakanlegt verður að telja að kæra í máli þessu hafi ekki borist fyrr, sbr. ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður málinu því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni á þeim forsendum og verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar, þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærendur byggja í kæru sinni á því að gífurlegt magn úrgangs stafi frá eldinu og að hætta sé á lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun sleppi eldisfiskur úr stöðinni. Fyrir liggur matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2016 og hefur hún ekki verið kærð. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að helstu neikvæðu áhrif eldisins yrðu losun næringarefna út í sjó, en að ekki væru líkur á að næringarefni söfnuðust upp að neinu ráði vegna staðhátta. Væri eldið ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður með hliðsjón af framangreindu að telja litlar líkur á að þau áhrif komi fram á umhverfið á meðan á meðferð málsins stendur að kæruheimild verði þýðingarlaus en að sama skapi er ljóst að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér mikið tjón fyrir leyfishafa. Eru því ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 um útgáfu starfsleyfis fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi.

106/2017 Seljaland

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að krefjast ekki byggingarleyfis vegna gluggaframkvæmda tveggja íbúðareigenda í fjöleignarhúsinu að Seljalandi nr. 5-7 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. september 2017, er barst nefndinni 27. s.m. kæra eigendur íbúðar í stigagangi nr. 5 við Seljaland í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem tilkynnt var kærendum með tölvupósti 14. september 2017, að krefjast ekki byggingarleyfis  vegna gluggaframkvæmda tveggja íbúðareigenda í nefndu fjöleignarhúsi. Er gerð krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi og að honum gert að krefjast byggingarleyfis fyrir umræddum gluggaskiptum. Að öðrum kosti verði byggingarfulltrúa gert að svara efnislega tilteknum spurningum kærenda vegna framkvæmdanna, sem beint hafi verið til hans í tölvupósti frá 14. september 2017 í tilefni af fyrrgreindum gluggaskiptum.

Málsatvik og rök: Fjöleignarhúsið að Seljalandi 5-7 er tveggja hæða auk kjallara með átta íbúðum í hvorum stigagangi. Byggingarteikningar þess voru samþykktar í byggingarnefnd 12. mars 1970. Kærendur eiga íbúð á fyrstu hæð í stigagangi nr. 5 og snýst mál þetta um gluggaskipti í íbúðum á fyrstu og annarri hæð sama stigagangs. Var ráðist í þær framkvæmdir en þegar upp var staðið reyndust opnanleg gluggafög hinna nýju glugga breiðari en í þeim gluggum sem fyrir voru í húsinu. Af þessu tilefni sendi annar kærenda, sem er formaður húsfélagsins Seljalands 5, erindi til byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 31. ágúst 2017, þar sem krafist var að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Í kjölfarið voru sami kærandi og embætti byggingarfulltrúa í tölvupóstsamskiptum vegna málsins. Urðu lyktir þær að embætti byggingarfulltrúa tilkynnti kæranda með tölvupósti 14. september 2017 þá niðurstöðu að umrædd breyting á gluggum væri óveruleg og félli undir gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um framkvæmdir sem undanþegnar væru byggingarleyfi. Yrði því ekki aðhafst frekar í málinu af hálfu embættisins. Hafa kærendur borið þær málalyktir undir úrskurðarnefndina, eins og að framan greinir.

Kærendur benda á að byggingarfulltrúi sitji aðgerðarlaus hjá þótt tveir af sextán íbúðareigendum að Seljalandi 5-7 setji í íbúðir sínar opnanleg gluggafög sem séu 10 cm breiðari en sýnt sé á samþykktum teikningum og séu fyrir í öðrum gluggum fjöleignarhússins. Gluggakarmar hússins séu í sameign allra eigenda en breytingin hafi verið gerð án samráðs við þá. Þetta skapi mikla óvissu fyrir aðra eigendur hússins um það við hvað eigi að miða þegar komi að gluggaskiptum í íbúðum þeirra. Þá sé fyrirsjáanlegt að íbúðir hússins rýrni í verði hafi hver íbúðareigandi sinn háttinn á við fyrirkomulag glugga í sinni íbúð.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að mál þetta snúist ekki um framkvæmd sem háð sé byggingarleyfi, sbr. c-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð, þar sem fram komi að óverulegar breytingar utanhúss séu undanþegnar byggingarleyfi. Umdeild framkvæmd kunni hins vegar að vera háð samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum 41. gr. laga um fjöleignahús nr. 26/1994 og verði eigendur í þeim tilvikum að leysa úr ágreiningi sínum á þeim vettvangi. Það sé ekki hlutverk byggingarfulltrúa að hafa afskipti af framkvæmdum sem ekki séu byggingarleyfisskyldar.

Eigendur íbúða 0101 og 0201 að Seljalandi 5, þar sem umrædd gluggaskipti voru gerð, telja að eðlilega hafi verið staðið að gluggaskiptum í íbúðum þeirra og að gott samráð hafi verið haft við alla í fjölbýlishúsinu. Húsfundir hafi verið haldnir í húsfélaginu Seljalandi 5 þar sem tilboð í glugga hafi verið kynnt, en þar hafi breidd opnanlegra glugga m.a. komið fram og fyrirhugaðar framkvæmdir samþykktar. Öðrum eigendum hafi verið boðið að ganga inn í tilboðið sem þeir hafi ekki þegið. Formanni húsfélags Seljalands 7 hafi verið gerð grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og þær kynntar á sameiginlegum fundi húsfélaganna þar sem allir hafi verið sáttir við nýju gluggana að undanskyldum kærendum. Nauðsynlegt hafi verið að hafa opnanleg fög breiðari en þau sem fyrir voru svo unnt væri að koma fyrir nútímalegum læsingum. Auk þess hefðu gluggapóstar orðið örlítið þykkari, en hvort tveggja gæfi betri þéttingu. Opnanleg fög hafi verið mæld á upprunalegri teikningu hússins og þau þá reynst 35 cm, en nýju fögin séu 33 cm.

———

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi 16. nóvember 2017.

Niðurstaða: Í máli þessu er fyrst og fremst um það deilt hvort endurnýjun glugga tveggja íbúða í fjöleignarhúsinu að Seljalandi 5 hafi verið þess eðlis að afla hafi þurft byggingarleyfis fyrir þeim framkvæmdum og einnig um skyldu byggingarfulltrúa til íhlutunar vegna framkvæmdanna. Óumdeilt er að opnanleg gluggafög nýju glugganna eru 33 cm breið eða um 10 cm breiðari en þau sem fyrir voru frá byggingu hússins.

Í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er kveðið á um að unnt sé að leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á um hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi. Eins og atvikum er háttað í máli þessu verður tekin afstaða til þess hvort umdeild gluggaskipti séu háð byggingarleyfi eða ekki.

Við setningu byggingarreglugerðar nr. 112/2012 tók gildi ákvæði gr. 2.3.5. þar sem tiltekin mannvirki og framkvæmdir voru undanþegnar byggingarleyfi. Samkvæmt c-lið þeirrar greinar féll viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðingar, þakkanta, veggklæðninga og glugga undir þá undanþágu, ef notað væri eins eða sambærilegt efni. Þó þurfti að sækja um byggingarleyfi fyrir breytingu á útliti byggingar. Með reglugerð nr. 360/2016, um (4.) breytingu á nefndri reglugerð, tók gildi breyting á tilvitnaðri gr. 2.5.5. og var c-lið greinarinnar þá breytt á þann veg að viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðninga og glugga væru undanþegnar byggingarleyfi þegar notað væri eins eða sambærilegt efni og frágangur væri þannig að útliti byggingar væri ekki breytt eða breyting væri óveruleg. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. maí 2016.

Samkvæmt fyrirliggjandi útlitsmynd af fjölbýlishúsinu að Seljalandi 5-7 í mælikvarða 1/100, sem samþykkt var á fundi byggingarnefndar 12. mars 1970, eru hin umræddu opnanleg gluggafög með körmum um 40 cm á breidd og eru bæði upprunalegu fögin og hin nýju því mjórri en útlitsteikningin gerir ráð fyrir. Úrskurðarnefndin fór á vettvang í því skyni að meta áhrif nýju glugganna á ytra útlit hússins. Er það niðurstaða nefndarinnar að útlitsbreytingin verði að teljast óveruleg. Er ísetning nýju glugganna því ekki háð byggingarleyfi samkvæmt núgildandi ákvæðum byggingarreglugerðar, sbr. c-lið gr. 2.3.5. í reglugerðinni. Bar byggingarfulltrúa því ekki að kalla eftir umsókn um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna við gluggaskiptin eða hlutast til um málið með öðrum hætti.

Í máli þessu gera kærendur þá kröfu að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að svara tilteknum spurningum kærenda sem beint hafi verið til hans og lúta að því við hvaða hlutföll skuli miða milli glugga og opnanlegs gluggafags við síðari endurnýjun glugga í umræddu húsi. Samkvæmt 59. gr. laga um mannvirki og 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sæta stjórnvaldsákvarðanir kæru til úrskurðarnefndarinnar. Er hlutverk nefndarinnar því fyrst og fremst það að endurskoða lögmæti slíkra ákvarðana nema að lög mæli sérstaklega á annan veg. Úrskurðarnefndin hefur hins vegar ekki boðvald yfir byggingaryfirvöldum vegna einstakra embættisverka. Er það því ekki á valdsviði nefndarinnar að leggja fyrir byggingarfulltrúa að svara einstökum spurningum sem til hans kann að vera beint. Verður kröfu kærenda þess efnis því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hin kærða framkvæmd við gluggaskipti í fjölbýlishúsinu að Seljalandi 5-7 í Reykjavík er ekki byggingarleyfisskyld.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

4/2016 Álver Grundartanga

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 6. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2016, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 16. desember 2015 um útgáfu starfsleyfis fyrir framleiðslu á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, þá er kærð ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 16. desember 2015 að veita Norðuráli Grundartanga ehf. starfsleyfi fyrir framleiðslu í álveri sínu á Grundartanga á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 14. mars 2016.

Málsatvik og rök: Umhverfisstofnun veitti 16. desember 2015 Norðuráli Grundartanga ehf. starfsleyfi fyrir framleiðslu í álveri sínu á Grundartanga á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs.

Með stefnu, sem birt var 19. apríl 2016, höfðaði kærandi dómsmál til ógildingar á starfsleyfinu og var meðferð kærumáls þessa frestað á meðan beðið væri niðurstöðu dómstóla.

Kærandi kveður Umhverfisstofnun ekki hafa aflað gagna til að ganga úr skugga um réttmæti framkominna ábendinga um áhrif flúors á heilsufar hrossa á Kúludalsá áður en hið kærða starfsleyfi hafi verið veitt. Stofnuninni hafi ítrekað verið bent á að þau umhverfismörk sem gilt hafi vegna flúormengunar utan þynningarsvæðis fyrir flúoríð séu umdeild og hafi flúor valdið skaða. Rannsaka hefði þurft ítarlega hversu mikið íslensk húsdýr, einkum hross, þoli af flúori áður en ákvörðun um starfsleyfi væri veitt. Mikilvægt sé að flúor sé mældur í andrúmslofti allan ársins hring. Óhæft sé að mengunarvaldur hafi sjálfur utanumhald með vöktun á áhrifum mengunar. Loks tryggi hið kærða starfsleyfi ekki öryggi íbúa í Hvalfirði komi til mengunarslyss þar sem hreinsibúnaður megi vera bilaður í þrjár klukkustundir án þess að íbúum sé gert viðvart.

Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á niðurstöðu Matvælastofnunar þess efnis að veikindi hrossa tengdust ekki áhrifum vegna flúors. Viðmiðunarmörk fyrir flúor í fóðri og fyrir loftgæði séu til staðar og hafi hvorki magn flúors í grasi né loftgæði mælst yfir viðmiðunarmörkum flúors. Ekki hafi komið fram mælingar eða vísbendingar um umtalsverða flúormengun sem gefi til kynna álag vegna mengunar. Þá standi yfir endurskoðun á vöktunaráætlun á Grundartangasvæðinu.

Heimild til losunar á heildarmagni flúors hafi verið haldið óbreyttri, losunarheimild á hvert framleitt tonn af áli sé lækkuð til mótvægis við framleiðsluaukninguna. Mikilvægt sé að umhverfisvöktun sé hluti af umhverfisstjórnun rekstraraðila en Umhverfisstofnun fylgi því eftir að mælingar séu áreiðanlegar og miðlun gagna skilvirk. Stofnunin geti ákveðið að breyta fyrirkomulagi umhverfisvöktunar ef ástæða sé til, sbr. grein 4.2 í starfsleyfi. Upplýsingagjöf um mengunarslys til almennings sé nauðsynleg og í því augnamiði sé ákvæði í starfsleyfinu, sbr. grein 2.7.

Af hálfu leyfishafa í málinu er tekið undir sjónarmið Umhverfisstofnunar.

Niðurstaða: Kærandi máls þessa höfðaði dómsmál til ógildingar á starfsleyfi því sem hér er um deilt. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2016 voru íslenska ríkið, Umhverfisstofnun og Norðurál Grundartanga ehf. sýknuð af þeirri kröfu kæranda. Dómurinn var staðfestur með skírskotun til forsendna hans af Hæstarétti, sbr. dóm í máli nr. 4/2017, sem kveðinn var upp 25. janúar 2018.

Í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er tiltekið að dómur sé bindandi um úrlausn sakarefnis milli aðila og þeirra, sem að lögum koma í þeirra stað, um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Standa res judicata áhrif því í vegi að úrskurðað verði um efni kærumáls þessa og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þeirra atvika sem að framan eru rakin.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

6/2016 Álver Grundartanga

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 6. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2016, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 16. desember 2015 um útgáfu starfsleyfis fyrir framleiðslu á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Umhverfisvaktin við Hvalfjörð þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 16. desember 2015 að veita Norðuráli Grundartanga ehf. starfsleyfi fyrir framleiðslu í álveri sínu á Grundartanga á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 14. mars 2016.

Málsatvik og rök: Umhverfisstofnun veitti 16. desember 2015 Norðuráli Grundartanga ehf. starfsleyfi fyrir framleiðslu í álveri sínu á Grundartanga á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs.

Með stefnu, sem birt var 19. apríl 2016, var höfðað dómsmál til ógildingar á starfsleyfinu og var meðferð kærumáls þessa frestað á meðan beðið væri niðurstöðu dómstóla.

Kærandi bendir á að í hinu kærða starfsleyfi sé dregið örlítið úr heimild til losunar flúors. Losunarheimildir geri leyfishafa eigi að síður mögulegt að sleppa langtum meira flúori út í andrúmsloftið en verið hafi á árinu 2014, en það starfsár hafi leyfishafi notað sem viðmið um getu sína til að draga úr losun flúors. Samkvæmt hinu kærða starfsleyfi verði engar upplýsingar hægt að fá um það hvenær mikið útsleppi flúors eigi sér stað. Bændur, aðrir íbúar, svo og eigendur frístundahúsa við Hvalfjörð, að ógleymdum fjölmörgum ferðamönnum og útivistarfólki, þurfi að lifa með þeirri staðreynd að ekki séu til upplýsingar um styrk og áhrif loftmengunar af völdum flúors í umhverfi þeirra. Flúormengun sé aðeins mæld hálft árið, ekki hafi farið fram rannsóknir á áhrifum viðvarandi flúormengunar á íslenskt búfé, íbúar geti ekki fylgst með flúormengun í rauntíma og reynslan sýni að mengunarslys geti orðið án þess að íbúar séu varaðir við. Þá hafi leyfishafi í hendi sér utanumhald umhverfisvöktunar vegna eigin mengunar.

Af hálfu Umhverfisstofnunar er áréttað að heimild til losunar á heildarmagni flúors hafi verið haldið óbreyttri. Losunarheimild á hvert framleitt tonn af áli sé lækkuð til mótvægis við framleiðsluaukninguna. Mikilvægt sé að umhverfisvöktun sé hluti af umhverfisstjórnun leyfishafa, en Umhverfisstofnun fylgi því eftir að mælingar séu áreiðanlegar og miðlun gagna skilvirk. Stofnunin geti ákveðið að breyta fyrirkomulagi umhverfisvöktunar ef ástæða sé til, sbr. grein 4.2 í starfsleyfi.

Stofnunin bendi á niðurstöðu Matvælastofnunar þess efnis að veikindi hrossa hafi ekki tengst áhrifum vegna flúors. Viðmiðunarmörk fyrir flúor í fóðri og fyrir loftgæði séu til staðar og á Grundartangasvæðinu hafi hvorki magn flúors í grasi né loftgæði mælst yfir viðmiðunarmörkum flúors. Ekki hafi komið fram mælingar eða vísbendingar um umtalsverða flúormengun sem gefi til kynna álag vegna mengunar. Þá standi yfir endurskoðun á vöktunaráætlun á Grundartangasvæðinu. Upplýsingagjöf um mengunarslys til almennings sé nauðsynleg og í því augnamiði sé ákvæði í starfsleyfinu, sbr. grein 2.7.

Af hálfu leyfishafa í málinu er tekið undir sjónarmið Umhverfisstofnunar.

Niðurstaða: Í kærumáli þessu er krafist ógildingar á starfsleyfi sem Umhverfisstofnun veitti til framleiðslu á allt að 350.000 tonnum af áli á ári og tengds rekstrar. Dómsmál var höfðað af öðrum aðila til ógildingar á greindu starfsleyfi, en með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2016 voru íslenska ríkið, Umhverfisstofnun og Norðurál Grundartanga ehf. sýknuð af ógildingarkröfunni. Dómurinn var staðfestur með skírskotun til forsendna hans af Hæstarétti, sbr. dóm í máli nr. 4/2017, sem kveðinn var upp 25. janúar 2018.

Héraðsdómur tiltekur m.a. í forsendum sínum að reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun sé mjög ítarleg og það sé hið umdeilda starfsleyfi einnig. Tók dómurinn fram að sérstaklega væri nefnt í gr. 1.6 í starfsleyfinu að endurskoða ætti starfsleyfið ef mengun af völdum rekstrarins væri meiri en búast mætti við þegar starfsleyfið var gefið út eða ef vart yrði við mengun sem ekki hefði verið gert ráð fyrir við útgáfu leyfisins. Fjallaði dómurinn um losunarmörk tengd heildarframleiðslu, sbr. gr. 3.9 í starfsleyfinu, og tók fram að nýja starfsleyfið frá 16. desember 2015 hefði ekki heimilað meiri flúormengun en eldra starfsleyfi gerði ráð fyrir. Ályktaði dómurinn sem svo að ef mengunin færi fram úr heimildinni samkvæmt starfsleyfinu bæri Umhverfisstofnun að bregðast við því, sbr. 2. mgr. 5. gr. a í lögum nr. 7/1988 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 21. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Féllst dómurinn ekki á, miðað við núverandi framleiðslu, að nýja starfsleyfið veiti auknar heimildir til flúormengunar. Benti dómurinn á að gögn málsins bæru það með sér að víðtæk rannsókn hefði farið fram á ætluðum áhrifum flúors á umhverfi og hefði umhverfisráðuneytið samþykkt umhverfisvöktunaráætlun á Grundartanga. Í niðurstöðu skýrslu á árinu 2014 kæmi fram að í öllum tilvikum væru viðmiðunarmörk uppfyllt sem sett hefðu verið í starfsleyfum og reglugerðum fyrir loftgæði, ferskvatn, sjó og hey. Var það niðurstaða dómsins að miðað við alla þá rannsókn sem fram hefði farið allt frá 2009 hefðu ekki verið efni fyrir Umhverfisstofnun til að bíða með útgáfu starfsleyfis þar til niðurstöður nánar tilgreindrar rannsóknar lægju fyrir. Auk þess væru í starfsleyfinu ákvæði um breytingar á því kæmu nýjar upplýsingar fram. Taldi dómurinn enn fremur ósannaða þá málsástæðu að slys og bilanir í starfsemi Norðuráls á Grundartanga hefðu valdið aukinni mengun og reynst skaðleg fyrir heilsu dýra. Að öllu þessu virtu hafnaði dómurinn því að málsmeðferð Umhverfisstofnunar hefði verið í andstöðu við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök kæranda fyrir úrskurðarnefndinni lúta einkum að losun flúors og þeim mengunaráhrifum sem losuninni fylgja. Samkvæmt því sem að framan er rakið hafa dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að hið kærða starfsleyfi veiti ekki auknar heimildir til flúormengunar, að víðtæk rannsókn hafi farið fram á ætluðum áhrifum flúors á umhverfi og að í nánar tilgreindri skýrslu komi fram að í öllum tilvikum væru viðmiðunarmörk uppfyllt sem sett hefðu verið í starfsleyfum og reglugerðum fyrir loftgæði, ferskvatn, sjó og hey. Einnig að þar til bært stjórnvald hafi samþykkt umhverfisvöktunaráætlun á Grundartanga. Með vísan til framangreinds, sem og 60. gr. stjórnarskárinnar nr. 33/1944, verður kröfu kæranda um ógildingu hins kærða starfsleyfis hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þeirra atvika sem að framan eru rakin.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 16. desember 2015 um útgáfu starfsleyfis fyrir framleiðslu á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

12/2016 Hvammsvirkjun NASF

Með
Árið 2018, þriðjudaginn 6. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 2015 um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hvammsvirkjun, Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. janúar 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir NASF, Verndarsjóður villtra laxastofna, Skipholti 35, Reykjavík,  ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 201 um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hvammsvirkjun, að þeim hluta er varðar vatnalíf og vatnafar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi að þeim hluta.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 11. mars 2016.

Málsatvik og rök: Skipulagsstofnun kvað upp úrskurð 19. ágúst 2003 um mat á umhverfisáhrifum allt að 150 MW virkjunar Þjórsár við Núp, auk breytingar á Búrfellslínu 1. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að fallist var á fyrirhugaða virkjun Þjórsár við Núp í einu þrepi með byggingu Núpsvirkjunar og í tveimur þrepum með byggingu Hvammsvirkjunar og Holtavirkjunar, ásamt breytingum á Búrfellslínu 1 með nánar tilgreindum skilyrðum.

Í júlí 2015 tilkynnti framkvæmdaraðili Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra að fyrirhugað væri að sækja um framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Í samræmi við fyrirmæli þar um í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum óskuðu umrædd sveitarfélög með bréfi, dags. 13. júlí 2015, eftir því við Skipulagsstofnun að hún tæki ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu. Ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hvammsvirkjun, Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi er frá 16. desember 2015. Segir m.a. í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar: „[E]r það niðurstaða Skipulagsstofnunar að endurskoða skuli að hluta matsskýrslu um Hvammsvirkjun. Nánar tiltekið skal endurskoða þá hluta umhverfismats virkjunarinnar sem varða áhrif á landslag og ásýnd lands og áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Að öðru leyti eru að mati Skipulagsstofnunar ekki forsendur til að krefjast endurskoðunar á matsskýrslu um Hvammsvirkjun samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000.“

Kærandi kveðst vera sjóður með staðfesta skipulagsskrá og starfi hann eftir lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Samkvæmt lögunum skuli sjóðurinn senda Ríkisendurskoðun reikning sjóðsins árlega. Sjóðurinn sé sjálfseignarstofnun með ófjárhagslegan tilgang. Markið hans sé að vernda laxastofna hvar sem þeir finnist í og við Norður-Atlantshafið. Sjóðurinn hafi verið stofnaður árið 1992. Hann sé opinn öllum og séu fjölmargir aðilar að sjóðnum, bæði hér á landi og erlendis.

Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að kanna þurfi hvort kærandi geti átt aðild að kærumáli samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Stofnunin telji að verndarsjóðurinn geti verið hagsmunasamtök í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en henni sé hins vegar ekki kunnugt um að kærandi hafi innan sinna raða 30 félagsmenn. Á vefsíðu kæranda sé ekki að finna upplýsingar um fjölda félagsmanna.

Framkvæmdaraðili gerir þá kröfu að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni á grundvelli aðildarskorts. Kærandi eigi hvorki lögvarinna hagsmuna að gæta er tengist hinni kærðu ákvörðun né uppfylli hann önnur skilyrði kæruaðildar. Í 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum komi fram að ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu skv. 12. gr. laganna sé kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kæru fari samkvæmt lögum nr. 130/2011. Í 3. mgr. 4. gr. laganna sé fjallað um kæruaðild umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtaka. NASF, Verndarsjóður villtra laxastofna, uppfylli ekki skilyrði ákvæðisins um umhverfisverndarsamtök. Um sé að ræða erlend samtök, sem ekki verði séð að séu opin fyrir almennri aðild eða uppfylli íslenska löggjöf um ársskýrslur eða endurskoðun bókhalds. Svo virðist sem samtökin séu ekki skráð hér á landi og sé ekki vitað um lögheimili þeirra, félagaform eða aðra þætti. Samtökin uppfylli því ekki lágmarkskröfur sem gerðar séu að lögum um aðild í því máli sem hér um ræði.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geta þó kært nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 1. og 2. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu framkvæmda samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Samkvæmt upplýsingum kæranda er hann sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, sbr. lög nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Á meðal gagna málsins er skipulagsskrá sjóðsins, „Skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina Norður-Atlantshafslaxsjóðinn (NAS)“, sem staðfest var af dómsmálaráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. auglýsingu nr. 161/1992 þar um. Samkvæmt skránni er lögheimili sjóðsins í Reykjavík og eru stofnfélagar 27 talsins, bæði íslenskir og erlendir. Samkvæmt gr. 1.3 er hlutverk sjóðsins að greiða bætur fyrir laxakvóta, sem látnir eru af hendi. Nánar er fjallað um tilgang og markmið sjóðsins í gr. 4 og kemur fram í gr. 4.1 að auk friðunar á villtum Atlantshafslaxi hafi stofnunin m.a. að markmiði að stuðla að eflingu laxastofnsins, sbr. B-lið, og að endurskoða lengri tíma nauðsyn á friðun Atlantshafslaxins í Norður-Atlantshafi og í löndunum við það, sbr. E-lið. Samkvæmt gr. 6.1 skal halda ársfund í maí ár hvert og þar skal m.a. leggja fram skýrslu stjórnar og áritaðan ársreikning.

Af framangreindu má sjá að kærandi uppfyllir flest þau skilyrði sem sett eru fyrir aðild skv. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Úrskurðarnefndin hefur leitað eftir upplýsingum frá kæranda um það hvernig hann telji sig uppfylla skilyrði kæruaðildar, m.a. hvað varðar fjölda félagsmanna. Vísar kærandi til þess að hann starfi í fjölmörgum löndum við Norður-Atlantshafið og séu starfandi innan landsdeilda þeirra einstaklingar, hagsmunaaðilar og aðrir stuðningsmenn, sbr. meðfylgjandi yfirlitsmynd yfir landsdeildir og stjórnarmenn þeirra. Aldrei hafi verið útbúinn heildarlisti yfir þá sem starfað hafi með sjóðnum en hann hafi ávallt litið á þá sem styrki sjóðinn, ýmist með fjárframlögum eða vinnu, sem meðlimi hans. Hver sem er geti gengið til liðs við sjóðinn og skráð sig á póstlista hans. Aðild að sjóðnum hafi ávallt verið opin öllum sem vilji styðja baráttumál hans, enda komi hvergi fram að aðild að honum skuli takmörkuð á nokkurn hátt. Hafi sjóðurinn átt aðild að fjölda mála eins og því sem hér sé rekið.

Kærandi hefur ekki átt aðild að kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni. Yfirlitsmynd sú sem kærandi vísar til sýnir deildir, stofnanir og sjóði í öðrum löndum og stjórnir þeirra. Kemur þar fram að sumar hverjar séu ekki virkar og aðrar sé verið að stofna. Frekari upplýsingar er ekki að finna um tengsl þessara mismunandi eininga við kæranda og verður ekki heldur af gögnum málsins að öðru leyti ráðið hver staða þeirra sé að íslenskum eða erlendum landsrétti. Í skipulagsskrá kæranda er tiltekið að innan hans vébanda starfi almennur sjóður, sjóður vegna Færeyja og sjóður vegna Grænlands, sbr. gr. 5.2. Einnig að gert sé ráð fyrir að stofnaðir verði sjóðir vegna einstakra ríkja, samþykktir af stjórn kæranda. Loks kemur fram í gr. 7.2 að a.m.k. tveir íslenskir ríkisborgarar skuli kjörnir í stjórn kæranda en einn stjórnarmaður skuli eiga lögheimili í eftirfarandi ríkjum: Noregi, Bretlandi, Írlandi, Svíþjóð, Danmörku, Bandaríkjunum og Kanada, svo og öðrum þeim ríkjum þar sem laxveiðiár renni og leggi fjármagn til stofnunarinnar. Fjalla nefnd ákvæði fyrst og fremst um innra skipulag starfsemi sjóðsins og er ekki hægt að draga af þeim þá ályktun að stjórnarmenn annarra deilda kæranda teljist félagar í honum. Þá verður því ekki jafnað saman við félagsaðild í skilningi 4. gr. laga nr. 130/2011 þótt hver sem er geti skráð sig á póstlista sjóðsins, styrkt hann eða starfað með honum. Loks voru stofnendur sjóðsins 27 talsins samkvæmt skipulagsskrá og ná því ekki þeim fjölda sem tilskilinn er fyrir kæruaðild.

Aðild að kærumáli án þess að sýna þurfi fram á lögvarða hagsmuni er undantekning frá þeirri meginreglu að svo þurfi að gera. Slíka undantekningu verður að skýra þröngt og verður að gera þá kröfu hið minnsta að sýnt sé fram á að skilyrðum þeirrar undantekningar sé að öllu leyti fullnægt. Samkvæmt því sem að framan er rakið hefur kæranda ekki tekist að leggja fram fullnægjandi upplýsingar um fjölda félaga, þrátt fyrir að leitað hafi verið eftir því. Telst hann því ekki uppfylla skilyrði til aðildar í málinu og er kæru hans af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.


Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon

32/2016 Golfvöllur Blikastaðanesi

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 1. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2016, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blikastaðaness, Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, þá er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 3. febrúar 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blikastaðaness í Mosfellsbæ. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi sama aðila til nefndarinnar, dags. 4. maí 2016, er móttekið var sama dag hjá úrskurðarnefndinni, er jafnframt kærð ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. apríl 2016 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við golfvöllinn á Blikastaðanesi og aðkomuvegar að þeim. Krefst kærandi þess að sú ákvörðun verði einnig felld úr gildi. Kærandi fór jafnframt fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 24. maí 2016.

Verður síðara kærumálið, sem er númer 43/2016, sameinað máli þessu og er það nú tekið til efnislegrar meðferðar.

Gögn málsins bárust 29. mars og 11. maí 2016.

Málavextir: Árið 2005 öðlaðist gildi deiliskipulag Blikastaðaness í Mosfellsbæ. Samkvæmt greinargerð þess var á skipulagssvæðinu gert ráð fyrir níu holu golfvelli, golfskála, áhaldahúsi/efnisgeymslu og höggæfingasvæði. Skipulagssvæðið væri um 45 ha að stærð. Afmarkaðist það af sjó til norðurs og vesturs, Úlfarsá og væntanlegri byggð á Blikastaðalandi til suðurs og núverandi golfvelli til austurs. Aðkoma að lóð golfskálans væri frá Baugshlíð um safngötu á Blikastaðalandi utan skipulagssvæðisins. Reiknað væri með að allt að 140 bílastæðum yrði komið fyrir utan skipulagssvæðisins og yrði gerð grein fyrir þeim í deiliskipulagi þess svæðis. Umframstæði yrðu leyst innan lóðar. Á skipulagsuppdrætti voru sýnd lóðamörk og byggingarreitur golfskála norðvestan við íbúðarbyggð að Þrastarhöfða. Einnig var færður inn á uppdráttinn, sunnan við byggingareit golfskála og vestan við lóðir að Þrastarhöfða, texti um að bílastæði golfskála yrðu nánar útfærð utan skipulagssvæðisins. Þá var tekið fram í greinargerðinni að staðsetningin væri sýnd til skýringar en væri ekki bindandi. Yrði endanleg staðsetning og frágangur unninn í samráði Mosfellsbæjar og golfklúbbsins. Á árinu 2007 tók gildi breyting á umræddu deiliskipulagi, er fól m.a. í sér að byggingarreitur golfskála var stækkaður og hann færður fjær byggð við Þrastarhöfða.

Með kynningarbréfi Golfklúbbs Mosfellsbæjar, dags. 19. maí 2015, til íbúa í nágrenni golfvallarins var upplýst um nokkur atriði er lytu að aðstöðu klúbbsins. Var tekið fram að til stæði að færa hana frá núverandi staðsetningu við Hlíðavöll á nýja lóð fyrir ofan Blikastaðanes. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 18. ágúst 2015 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi golfvallarins um að lóð og byggingarreitur golfskála færðist til vesturs. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 26. s.m. Breytingartillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar 1. september s.á. með þeirri viðbót að skipulagssvæði golfvallarins var stækkað og áformuð bílastæði því innan þess. Var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar 9. s.m. Bárust sameiginlegar athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá lóðarhöfum Þrastarhöfða 53 og 55 er lutu m.a. að staðsetningu bílastæðanna. Skipulagsnefnd tók málið fyrir að nýju 10. nóvember 2015 og bókaði að auglýst tillaga væri samþykkt með leiðréttingu um gólfkóta golfskála. Jafnframt voru samþykkt drög að svörum við framkomnum athugasemdum þar sem m.a. kom fram að bílastæðum hefði verið fækkað um níu frá fyrstu tillögu að útfærslu þeirra. Samþykkti bæjarstjórn nefnda afgreiðslu 18. s.m.

Í kjölfarið var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Gerði stofnunin athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku breytingarinnar þar sem hvorki væri gerð fullnægjandi grein fyrir aðkomuleið að golfvellinum í skilmálum né væri hún innan afmarkaðs deiliskipulagssvæðis. Á fundi skipulagsnefndar 26. janúar 2016 var fært til bókar að lagður væri fram til kynningar uppdráttur, sem endurskoðaður hefði verið með tilliti til athugasemda Skipulagsstofnunar. Samþykkti bæjarstjórn afgreiðsluna 3. febrúar s.á. Hlaut deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2016.

Með umsókn Golfklúbbs Mosfellsbæjar og Mosfellsbæjar til skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar, dags. 5. apríl 2016, var óskað eftir framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við nýja íþróttamiðstöð, ásamt aðkomuvegi að þeim frá Æðarhöfða. Var umsóknin samþykkt á fundi skipulagsnefndar 19. s.m. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt af bæjarstjórn 27. s.m. og framkvæmdaleyfið gefið út 28. apríl 2016. Tekur hið kærða leyfi til jarðvegsskipta, fyllinga og yfirborðsfrágangs 130 bílastæða og 370 m vegar með malarlagi, auk annars lokafrágangs, s.s. grjóthleðslna og þökulagningar.

Málsrök kæranda: Kærandi telur ljóst að starfsemi á vegum golfklúbbsins muni verða mun umfangsmeiri en kærandi og aðrir íbúar nærliggjandi íbúðarhúsa hafi mátt gera ráð fyrir samkvæmt eldra deiliskipulagi. Golfklúbburinn sé með veitinga- og vínveitingarleyfi og muni umrætt húsnæði vera í útleigu að hluta til. Stefnt sé að því að félagsmenn hafi aðgang að íþróttamiðstöðinni allan sólarhringinn og sé það til þess fallið að valda mun meira óhagræði fyrir íbúa Þrastarhöfða 53 og 55 en áður. Muni fyrirhuguð starfsemi illa samræmast hljóðlátri íbúðarbyggð og hafa áhrif á íbúa nærliggjandi húsa.

Breytt starfsemi í húsnæði golfklúbbsins hafi ekki verið nægilega vel kynnt. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir byggingarreit fyrir golfskála en nú eigi að reisa nýja íþróttamiðstöð. Nauðsynlegt hafi verið að skýra íbúum aðliggjandi húsa frá fyrirhugðum breytingum. Breytingartillagan hafi því ekki verið rökstudd með viðeigandi hætti, líkt og kveðið sé á um í gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Í auglýstri verkefnislýsingu hafi ekki verið minnst einu orði á íþróttamiðstöð, aðeins fjallað um byggingarreit fyrir golfskála.
Staðsetning umræddra bílastæða muni hafa í för með sér veruleg grenndaráhrif gagnvart kæranda. Feli þau í sér í óhæfilega röskun á hagsmunum og lífsgæðum hans, auk þess sem verðgildi fasteignar hans rýrni. Í upphaflegu deiliskipulagi hafi verið áætlað ansi stórt svæði fyrir bílastæði og nýja íbúðarbyggð. Hafi kærandi ekki mátt gera ráð fyrir því að bílastæðin yrðu staðsett beint fyrir utan íbúðarhús hans, nánast í bakgarði lóðarinnar. Breyting sú sem gerð hafi verið vegna athugasemda kæranda hafi ekki teljanleg áhrif. Á deiliskipulagsuppdrætti megi sjá að rétt um 4,7 m séu á milli bílastæðaplansins og lóðarmarka Þrastarhöfða 53. Þá sé staðsetning púttflatar framan við bílastæðin og gegnt lóðarmörkum Þrastarhöfða 55 til þess fallin að auka slysahættu.

Ekki hafi verið gætt meðalhófs við meðferð málsins í samræmi við 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Óumdeilt sé að töluvert fleiri valkostir hafi staðið til boða, í mun meiri fjarlægð frá nærliggjandi húsum. Sé staðsetning golfvallar svo nærri íbúðarbyggð fordæmalaus á landinu öllu. Hafi ákvæðum gr. 5.2.1. og gr. 5.3.2.8. í skipulagsreglugerð ekki verið fylgt með fullnægjandi hætti við ákvarðanatökuna.

Þá hafi framkvæmdir verið hafnar fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins. Hafi skipulagsfulltrúi því með réttu átt að stöðva þær í samræmi við 16. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Málsrök sveitarfélagsins:
Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Gætt hafi verið að öllum lögum og reglum við gerð og auglýsingu hins umdeilda deiliskipulags.

Allt frá samþykkt deiliskipulagsins árið 2004 hafi legið fyrir að gert væri ráð fyrir 140 bílastæðum fyrir golfvöllinn á því svæði sem hin kærða skipulagsbreyting taki til. Hljóti kærandi að hafa gert sér grein fyrir þessu áður en hann hafi fest kaup á fasteign sinni árið 2011. Þótt staðsetning bílastæðanna hafi ekki legið nákvæmlega fyrir á þeim tíma hafi deiliskipulagið gefið til kynna að þau yrðu í námunda við Þrastarhöfða 53. Byggingarreitur golfskála, í næsta nágrenni við hús kæranda, hafi verið sýndur í deiliskipulagi Þrastarhöfða, samþykktu árið 2004. Fjarlægð frá bílastæðum að lóðarmörkum Þrastarhöfða 53 sé ekki 4,7 m heldur 12,5 m, eftir að felld hafi verið út níu bílastæði, miðað við upphaflegar tillögur, til að koma við móts við sjónarmið kæranda og í því skyni að gæta meðalhófs. Við það hafi bílastæðin færst um 5 m fjær lóðunum en áformað hafi verið, en í staðinn komið grænt belti.

Í upphaflegu deiliskipulagi golfvallarins hafi byggingarreitur fyrir golfskála verið í 15 m fjarlægð frá lóðarmörkum Þrastarhöfða 55. Árið 2006 hafi verið samþykkt að mörk hans væru færð í rúmlega 30 m fjarlægð frá fyrrnefndri lóð, en skálinn hafi þó í megindráttum verið áfram á sama stað. Með hinni kærðu breytingu færist skálinn enn fjær íbúðarlóðunum, eða í 55 m fjarlægð. Breyting sú sem nú sé kærð muni því ekki valda kæranda auknu ónæði eða skerða hagsmuni hans umfram það skipulag sem gilt hafi, heldur fremur hið gagnstæða. Samkvæmt hinu breytta skipulagi muni fyrirhugað hús liggja lægra í landinu en áður var fyrirhugað. Þannig verði það lítt sjáanlegt frá Þrastarhöfða 53, eða a.m.k. síður en fyrra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir. Hafi þetta verið gert til að húsið skerti ekki útsýni frá nærliggjandi húsum og til þess að minnka mögulegt ónæði af starfseminni.

Ekki verði séð að í notkun hugtaksins íþróttamiðstöð felist mun umfangmeiri starfsemi en kærandi hafi mátt gera ráð fyrir. Sveitarfélaginu sé ekki kunnugt um að starfseminni hafi verið lýst með öðrum hætti áður en kærandi eignaðist fasteign sína. Fyrirhuguð starfsemi sé í góðu samræmi við þá starfsemi sem almennt megi búast við í golfskálum. Golfklúbburinn sé þegar með veitinga- og vínveitingarleyfi án þess að það hafi haft í för með sér ónæði. Ætti starfsemi hússins ekki að valda kæranda ónæði, eða a.m.k. ekki meira ónæði en almennt megi búast við í þéttbýli. Fari hins vegar svo hafi bærinn heimild til að bregðast við því, a.m.k. hvað varði ónæði af völdum veitinga í húsinu. Þá stafi lítil slysahætta af púttflöt, enda slysahætta minnst þegar golfboltinn sé næst jörðu. Nú þegar sé púttflöt við núverandi golfskála mjög nálægt byggð.

Athugasemdir leyfishafa: Golfklúbbi Mosfellsbæjar var tilkynnt um framkomnar kærur og honum gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum við þær, en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytinga á deiliskipulagi Blikastaðaness, en breytingarnar felast m.a. í færslu lóðar og byggingarreits íþróttamiðstöðvar/golfskála. Jafnframt er nefnd lóð stækkuð. Þá er skipulagssvæðið stækkað til suðurs, vestan lóða við Þrastarhöfða, og þar gert ráð fyrir bílastæðum. Á skipulagsuppdrætti er einnig sýnd lega bráðabirgðavegar að bílastæðunum. Eru umrædd bílastæði vestan við íbúðarhúsalóð kæranda, í yfir 10 m fjarlægð, og liggur göngustígur þar á milli.

Kærandi ber fyrir sig að skort hafi á rökstuðning fyrir breytingu á starfseminni og vísar í því sambandi til gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir m.a. að í greinargerð skuli lýsa breytingunni, forsendum hennar, rökstuðningi fyrir henni, samráði við hagsmunaaðila og samræmi við aðalskipulag. Þá telur kærandi að fyrirhuguð starfsemi samræmist ekki hljóðlátri íbúðarbyggð og vísar til gr. 5.3.2.8. í skipulagsreglugerð, þar sem fjallað er um að þess skuli gæta að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum vegna bílaumferðar, hávaða, ljósanotkunar eða annars ónæðis og að öruggar og greiðar göngu- og hjólaleiðir séu að skólum og annarri nærþjónustu.

Golfvöllurinn og aðstaða honum tengd er samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 á opnu svæði til sérstakra nota, en bílastæði þau og aðkomuvegur sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til eru á skilgreindu íbúðarsvæði. Gerir skipulagsreglugerð ráð fyrir því að landnotkun geti verið mismunandi innan sama skipulagssvæðis, en jafnframt skal að því gætt að hægt sé að uppfylla kröfur annarra laga, s.s. um hljóðvist. Liggur ekki annað fyrir en að svo verði á umræddu svæði, auk þess sem áskilnaði um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana er fullnægt, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulagslög hafa það m.a. að markmiði að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana. Um samráð og samráðsaðila við gerð deiliskipulags er sérstaklega fjallað í gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð, en samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, umsagnaraðila og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Tillaga skipulagsbreytingarinnar var auglýst til kynningar og kom kærandi að athugasemdum sínum í málinu, sem í kjölfarið var svarað efnislega af hálfu skipulagsyfirvalda. Kom fram í þeim svörum að bílastæðum hefði verið fækkað um níu frá fyrstu tillögu að útfærslu þeirra. Verður ekki annað séð en að lögbundið samráð hafi þannig farið fram, en lóð kæranda liggur ekki að hinu breytta deiliskipulagssvæði.

Áður en tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var auglýst til kynningar hafði sveitarfélagið kynnt skipulagslýsingu deiliskipulags við Æðarhöfða, en meðal markmiða þess var að koma fyrir aðkomu og bílastæðum „þar sem bygging nýja golfskálans er nú í bígerð“. Ekki var þó lokið við gerð þessa deiliskipulags, heldur auglýst til kynningar tillaga að breytingu á deiliskipulagi Blikastaðaness, eins og fyrr greinir. Af hálfu kæranda var óskað upplýsinga hjá sveitarfélaginu um fyrirhugaða starfsemi íþróttamiðstöðvar og í svarbréfi frá framkvæmdastjóra golfklúbbsins 25. september 2015 sagði m.a. eftirfarandi: „Í húsinu verður að finna hefðbundna aðstöðu eins og skrifstofur, búningsklefa, móttöku, afgreiðslu á golfvörum, veitingasölu, hátíðasal, fjölnotarými, ásamt því að á neðri hæð byggingarinnar verða svæði til iðkunar golfs innandyra, eins og til að mynda golfhermar, æfingaflöt og svæði til golfleikfimi.“ Þá var tekið fram að aðstaðan yrði leigð út að einhverju marki. Af framangreindu verður ráðið að um nokkuð viðameiri starfsemi verður að ræða í umræddu húsnæði en áður hefur verið, en ekki verður hins vegar séð að eðli hennar sé breytt frá því sem áður var. Má og fallast á með sveitarfélaginu að hún sé í samræmi við þá starfsemi sem almennt megi búast við í golfskálum. Þá verður að ætla að sú breyting að færa byggingarreit hússins ívið fjær lóð kæranda geti haft minna ónæði í för með sér fyrir lóðarhafa nærliggjandi húsa en verið hefði að óbreyttri staðsetningu.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu var tekið fram í greinargerð með deiliskipulagi golfvallarins, er tók gildi árið 2005, að allt að 140 bílastæði yrðu utan við skipulagsreitinn. Texta sama efnis efnis var og að finna á skipulagsuppdrættinum sem gaf til kynna að stæðin yrðu sunnan við golfskálann og vestan við lóð kæranda, þ.e. á svipuðum stað og gert er ráð fyrir með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Mátti kærandi því ætla að bílastæði golfskálans yrðu utan skipulagsreitsins en þó jafnframt staðsett í námunda við golfskálann, þrátt fyrir að tekið hefði verið fram í greinargerð deiliskipulagsins að staðsetning þeirra á uppdrætti væri aðeins til skýringa en ekki bindandi. Samkvæmt gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð skal hverju sinni setja í deiliskipulagi skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóða, sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða, stæður fyrir reiðhjól og önnur farartæki eftir því sem við á. Ekki verður séð að í umræddu deiliskipulagi sé fjallað sérstaklega um fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Eins og hér stendur á verður þó ekki talið að það geti haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda eru fyrir hendi ákvæði þar að lútandi í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem taka þarf tillit til við frekari uppbyggingu á skipulagsreitnum. Hefur það og verið gert við veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis, en í umsókn um það er sýnt fyrirkomulag 130 bílastæða og eru þar af tvö merkt fyrir hreyfihamlaða, í samræmi við töflu 6.03 í gr. 6.2.6. í reglugerðinni.

Auglýsing nr. 22/2013 um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna er sett með stoð í 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Um skráningu dagskrármála er fjallað í 7. gr. auglýsingarinnar. Segir þar að skrá skuli í fundargerð við dagskrármálið sjálft hvaða afgreiðslu það hafi hlotið, ályktanir og niðurstöðu, s.s. hvort mál hafi verið samþykkt, því synjað, frestað, vísað til umsagnar nefndar eða starfsmanns, vísað til fullnaðarafgreiðslu nefndar eða starfsmanns eða hvort máli hafi verið vísað frá. Segir enn fremur að varði afgreiðsla dagskrármáls ekkert af þessu sé málið lagt fram án efnislegrar afstöðu til þess. Í 15. gr. samþykktar nr. 238/2014 um stjórn Mosfellsbæjar er fjallað um fundarsköp og ritun fundargerða. Er þar um afgreiðslu dagskrármála sagt í c-lið að erindi sé afgreitt í bæjarstjórn með því að samþykkja það, synja því, fresta því, vísa því til umsagnar annarrar nefndar eða starfsmanns, vísa því til endanlegrar afgreiðslu nefndar eða starfsmanns, eða vísa því frá bæjarstjórn. Enn fremur segir að erindi sem einungis sé til upplýsingar eða kynningar og þarfnist ekki efnislegrar niðurstöðu séu lögð fram. Eftir samþykkt hinnar kærðu deiliskipulagstillögu í sveitarstjórn var skipulagssvæðið stækkað svo það næði til bráðabirgðavegtengingar að Æðarhöfða vegna athugasemda Skipulagsstofnunar þar um. Var tillagan svo breytt lögð fram til kynningar í skipulagsnefnd og sú afgreiðsla samþykkt af sveitarstjórn, svo sem nánar er rakið í málavaxtalýsingu. Ekki var hins vegar samþykktur breyttur skipulagsuppdráttur, svo sem nauðsynlegt hefði verið til að efnisleg niðurstaða lægi fyrir í skilningi þeirra ákvæða sem að framan eru rakin. Leiðir af þessu að umrædd stækkun skipulagssvæðisins telst ekki hafa verið samþykkt með fullnægjandi hætti í sveitarstjórn. Að því virtu, og með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þykir verða að fella úr gildi þann hluta hinnar kærðu skipulagsákvörðunar er að þessu lýtur, en láta ákvörðunina að öðru leyti halda gildi sínu.

Ekki verður séð að sveitarstjórn hafi við útgáfu framkvæmdaleyfis fjallað um og tekið afstöðu til þess hvort framkvæmd væri í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Sveitarstjórn hafði hins vegar þegar fjallað um og gert breytingar á deiliskipulagi umrædds svæðis og í útgefnu framkvæmdaleyfi er tekið fram að leyfisveitingin byggist á því að fyrirhuguð mannvirki séu í samræmi við gildandi deiliskipulag, með breytingum þeim sem samþykktar voru í bæjarstjórn. Eins og atvikum málsins er hér sérstaklega háttað þykir annmarki þessi því ekki þess eðlis að leiða beri til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Eigi að síður verður ekki hjá því komist að fella hið kærða framkvæmdaleyfi úr gildi að því er varðar umræddan aðkomuveg, enda á sá hluti þess sér ekki lengur stoð í gildandi deiliskipulagi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2016, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blikastaðaness í Mosfellsbæ, er felld úr gildi að því er varðar stækkun skipulagssvæðisins til suðurs yfir aðkomuveg.

Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. apríl 2016, um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við golfvöllinn á Blikastaðanesi og aðkomuvegar að þeim, er felld úr gildi að því er varðar gerð aðkomuvegar.

40/2016 Auðbrekka

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Auðbrekku – þróunarsvæði, svæði 1, 2 og 3.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2016, er barst nefndinni 27. s.m., kæra 45 íbúar við Löngubrekku í Kópavogi þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 að samþykkja deiliskipulag fyrir Auðbrekku – þróunarsvæði, svæði 1, 2 og 3. Gera kærendur þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 15. júní 2016, var kröfu um stöðvun framkvæmda synjað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 17. maí 2016.

Málavextir: Hið umþrætta deiliskipulag tekur til reita innan Auðbrekkusvæðis í Kópavogi. Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er svæðið þróunarsvæði, ÞR-2 Auðbrekka Nýbýlavegur.

Hinn 29. janúar 2015 var haldinn íbúafundur og var samantekt frá honum lögð fyrir fund skipulagsnefndar 9. febrúar s.á. Á fundi nefndarinnar 4. maí s.á. var lögð fram skipulagslýsing fyrir þróunarsvæði Auðbrekku og drög að deiliskipulagi fyrir svæðið. Var lýsingin samþykkt í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og henni vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar, sem staðfesti hana á bæjarstjórnarfundi 12. maí 2015. Á fundi skipulagsnefndar 5. október s.á. var lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir hluta þróunarsvæðis Auðbrekku, svæði 1, 2 og 3, og samþykkt að hún yrði auglýst í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Á bæjarstjórnarfundi 12. s.m. var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest. Að lokinni kynningu var tillagan lögð fram að nýju, með áorðnum breytingum, á fundi skipulagsnefndar 18. janúar 2016 og hún samþykkt ásamt umsögn um framkomnar athugasemdir. Á bæjarstjórnarfundi 26. s.m. var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest. Á fundi skipulagsnefndar 11. apríl 2016 var, með vísan til erindis Skipulagsstofnunar, dags. 24. febrúar s.á., lögð fram leiðrétt deiliskipulagstillaga og var hún samþykkt með vísan til 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Á bæjarstjórnarfundi 26. s.m. var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest. Með auglýsingu birtri í B-deild Stjórnartíðinda 17. maí 2016 tók deiliskipulagið gildi.

Í deiliskipulaginu felst að reistar verða 165 nýjar íbúðir auk þess að byggt verður við núverandi atvinnuhúsnæði og nýtt verslunar- og þjónustuhúsnæði reist. Meðalnýtingarhlutfall deiliskipulagssvæðisins er um 0,55 fyrir breytingar. Áætlað nýtingarhlutfall á reit 1 fer úr 1,1 í 1,9, á reit 2 úr 0,6 í um 3,0 og á reit 3 úr 0,12 í 2,8.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að tveir átta hæða turnar sem heimilaðir séu með hinu kærða deiliskipulagi muni rýra verðgildi fasteigna þeirra, en frá þeim megi nú njóta útýnis meðal annars til Snæfellsjökuls, Skerjafjarðar, flugvallarins, Öskjuhlíðar, Akrafjalls, Skarðsheiðar og Esjunnar. Skipulagið skerði lífsgæði íbúa og mikilfenglegt útsýni muni hverfa. Þá muni bílaumferð aukast verulega með tilheyrandi mengun, verri hljóðvist, töfum og slysahættu.

Farið sé fram á það að bæjaryfirvöld gæti meðalhófs og að turnarnir á reit 1-3 verði lækkaðir að lágmarki um þrjár hæðir. Ekki verði byggt ofan á Auðbrekku fyrir framan Löngubrekku 41-47 og heldur ekki byggt þar á milli, eða gerður þar bílakjallari. Dregið verði úr byggingarmagni og íbúðum á Auðbrekkusvæðinu verði fækkað um 100 hið minnsta. Löngubrekku verði breytt í botngötu til að sporna við auknum umferðarþunga um götuna. Gerð verði leiksvæði fyrir börn á svæðinu og fjölskyldustefna verði í hávegum höfð. Einnig sé þess krafist að byggingarleyfi verði ekki gefin út og engar framkvæmdir fari af stað á reitnum fyrr en íbúar fái skriflega staðfestingu á því að ofangreindum kröfum verði mætt.

Íbúar svæðisins hafi fjölmennt á íbúafund þar sem kynntar hafi verið hugmyndir að deiliskipulagi Auðbrekkusvæðisins. Þar hafi komið fram ábendingar af hálfu íbúa þar sem lögð hafi verið rík áhersla á að byggingar yrðu í samræmi við núverandi byggð og myndu ekki skyggja á útsýni sem fyrir sé. Starfsfólk Kópavogsbæjar hafi fullvissað íbúa um að þetta væri aðeins tillaga að skipulagi sem ætti eftir að vinna frekar og að ekki yrði farið í frekari vinnu án samráðs við húseigendur á svæðinu. Þetta hafi ekki verið efnt og því hafi íbúar staðið í þeirri trú að hugmyndavinna væri enn í gangi. Annað hafi komið í ljós þegar þeir hafi séð frétt í dagblaði þess efnis að samþykkja ætti nýtt deiliskipulag á Auðbrekkusvæði hinn 18. janúar 2016. Þá strax hafi íbúar sent athugasemdir til bæjaryfirvalda vegna fyrirhugaðs deiliskipulags en engar tilkynningar hafi borist þeim frá Kópavogsbæ af því tilefni.

Hinn 23. mars 2016 hafi íbúar við Löngubrekku setið fund með skipulagsstjóra Kópavogsbæjar þar sem farið hafi verið yfir deiliskipulagið. Þar hafi þeir komið á framfæri óánægju sinni og í kjölfarið kallað eftir hæðarkótum á fyrirhuguðum byggingum. Á fundi 20. apríl s.á. hafi verið haldinn fundur þar sem umbeðin gögn hafi verið afhent. Þá hafi komið fram á fundinum að verkefnið yrði ekki grenndarkynnt. Starfsmenn Kópavogsbæjar hafi komið því á framfæri að íbúar yrðu látnir vita ef eitthvað nýtt kæmi fram í skipulagsferlinu. Það hafi ekki verið efnt.

Í greinargerð frá bæjaryfirvöldum, sem samþykkt hafi verið 12. maí 2015, hafi komið fram: „Hæðir bygginga skulu taka mið af nærliggjandi byggð og reynt verður eftir fremsta megni að ný byggð verði ekki íþyngjandi fyrir núverandi byggð.“ Þá sé þar og talað um „mikilvægi þess að fá hagsmunaaðila inn í vinnuna á fyrstu stigum og halda samráði virku meðan á skipulagsferlinu stendur til að tryggja að allir aðilar séu meðvitaðir um framvindu málsins.“ Í ljósi þessa sé alveg með ólíkindum að ekki hafi verið haft samband við íbúa. Því megi ætla að Kópavogsbær telji íbúa Löngubrekku ekki hagsmunaaðila.

Ljóst sé að skortur á samráði við gerð deiliskipulagstillögunnar samræmist ekki 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en jafnframt hafi upplýsingum vísvitandi verið haldið frá kærendum með því að skipulagslýsing hafi ekki verið kynnt fyrir þeim. Þá komi fram í aðalskipulagi að á Auðbrekkusvæðinu sé reiknað með 160 íbúðum. Deiliskipulag Auðbrekkusvæðis, sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn 26. apríl 2016, sé því í hrópandi ósamræmi við gildandi aðalskipulag þar sem með því sé verið að heimila 350-400 íbúðir. Skorti því á innra samræmi skipulagsáætlana, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 sé Auðbrekkusvæðið þróunarsvæði ÞR-2, en í skilgreiningu svæðisins segi að landnotkun á svæðinu norðan Hamraborgar við Auðbrekku og Nýbýlaveg hafi breyst frá því að vera nær eingöngu fyrir iðnað í að vera fyrir verslun og þjónustu. Breytingin hafi tengt hverfið betur við miðbæjarsvæðið og miði skipulag hverfisins við að auka hlut verslunar og þjónustu eða starfsemi henni tengdri, auk þess að fjölga íbúðum á svæðinu. Að auki komi fram í aðalskipulaginu að markmið á þróunarsvæðum sé að bæta umhverfi, búsetugæði og efnahagslega umgjörð eldri byggðar í Kópavogi með aukinni blöndun byggðar, sem miði að sjálfbærri þróun borgarumhverfisins. Auka skuli jafnvægi í dreifingu atvinnusvæða og íbúðarsvæða og skapa þannig aukin atvinnutækifæri nær íbúðarhverfum jafnframt því að draga úr umferðarþörf og stytta vegalengdir á milli íbúða, verslunar, þjónustu og atvinnu. Loks sé í aðalskipulaginu að því stefnt að bæta hljóðvist vegna aukinnar umferðar með nánari útfærslu í deiliskipulagi. Taki deiliskipulagsgerð Auðbrekkusvæðisins mið af framangreindum markmiðum Aðalskipulags Kópavogs.

Í upphafi hafi deiliskipulagslýsing fyrir allt Auðbrekkusvæðið verið kynnt og m.a. haldinn sérstakur kynningarfundur fyrir íbúa á svæðinu þar sem farið hafi verið ítarlega yfir verkefnið, spurningum svarað og tekið við athugasemdum. Auðbrekkusvæðið skiptist í sex reiti og í framhaldi af kynningarfundi hafi farið í gang vinna við deiliskipulag fyrir reiti 1-3. Um sé að ræða nýtt deiliskipulag og hafi auglýsing og kynning verið í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt umræddri grein skuli auglýsa á sama hátt og um aðalskipulag væri að ræða, þ.e. í dagblaði gefnu út á landsvísu sem og í Lögbirtingablaði. Sé ekki ætlast til að skipulagsbreytingar sem lúti málsmeðferð 41. gr. skipulagslaga séu einnig grenndarkynntar. Að mati Kópavogsbæjar hafi ekki verið þörf á slíkri kynningu. Kynningarfundur hafi verið haldinn og hann m.a. kynntur með dreifibréfi sem dreift hafi verið í hús á svæðinu og í næsta nágrenni.

Á það bent að vinna að deiliskipulagi fyrir reiti 4-6 sé ekki hafin og athugasemdir kærenda vegna skipulagsáforma á því svæði eigi því ekki að koma til álita hér. Hvað varði þær athugasemdir sem kærendur hafi gert við deiliskipulag reita 1-3, annars vegar við Auðbrekku 7-13 og hins vegar við Dalbrekku 2-8, sé gert þar ráð fyrir átta hæða húsum með inndreginni efstu hæð. Umrædd hús séu staðsett töluvert neðar en hús kærenda, en landið á umræddu svæði sé aflíðandi. Hækkun húsa myndi því hafa takmörkuð grenndaráhrif. Sú útsýnisskerðing sem kærendur telji yfirvofandi sé óveruleg og geti útsýni varla talist til lögvarinna réttinda.

Staðhæfingum kærenda um að reynt hafi verið að villa um fyrir íbúum og að ekki hafi verið haft samband við þá sé mótmælt. Líkt og að framan greini hafi verið haldinn opinn kynningarfundur þar sem öllum þeim sem mættu hafi verið gefinn kostur á að kynna sér verkefnið. Hvergi sé kveðið á um það í lögum að frekara samráð skuli haft við íbúa, að öðru leyti en því að auglýsa skuli nýtt skipulag eða skipulagsbreytingar og gefa þar með almenningi færi á að gera athugasemdir við þá tillögu sem til meðferðar sé. Málsmeðferð deiliskipulagsins fyrir reiti 1-3 í Auðbrekku sé ítarleg og í samræmi við lög og reglur. Hafi það verið lagt fyrir og kynnt í viðeigandi nefndum og ráðum á öllum stigum málsins, athugasemdum svarað. Einnig sé sérstaklega bent á að Kópavogsbær hafi reynt eftir fremsta megni að veita kærendum eins ítarlegar upplýsingar og kostur var og m.a. boðað þá á sérstakan fund til að skýra málið nánar, þrátt fyrir að athugasemdir þeirra á umræddu deiliskipulagi hafi borist eftir að athugasemdafrestur hafi verið liðinn.

Niðurstaða:
Hið kærða deiliskipulag tekur til reita 1-3, sem eru innan skilgreinds þróunarsvæðis, ÞR-2 Auðbrekka-Nýbýlavegur, í gildandi aðalskipulagi. Reitir 4-6 innan þróunarsvæðisins hafa hins vegar ekki verið deiliskipulagðir.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Í skipulagsáætlunum er sett fram stefna skipulagsyfirvalda um þróun byggðar og landnotkun og teknar ákvarðanir um samgöngur og mannvirki sem þeim tengjast. Sveitarstjórnum er því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags en við beitingu þess valds ber þeim þó að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, en gæta verður þess að deiliskipulag sé í samræmi við efni aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 kemur fram að fjölgun íbúða á Auðbrekkusvæðinu geti orðið um 160. Er og tekið fram að landnotkun hafi breyst frá því að vera nær eingöngu fyrir iðnað í verslun og þjónustu. Breytingin hafi tengt hverfið betur við miðbæjarsvæðið. Skipulag hverfisins miðist við að auka hlut verslunar og þjónustu, eða starfsemi sem sé tengd henni, auk íbúðarhúsnæðis. Hlutfallið árið 2012 hafi verið 12% íbúðir en 88% atvinnuhúsnæði. Stefnt sé að því að hlutfallið verði 40% íbúðir en 60% atvinnuhúsnæði.

Hið kærða deiliskipulag, sem tekur aðeins til hluta Auðbrekkusvæðisins, gerir ráð fyrir 165 íbúðum. Með því er uppbyggingarheimild aðalskipulagsins á íbúðum á Auðbrekkusvæðinu fullnýtt að óbreyttu skipulagi. Þó svo að samþykktar íbúðir séu fleiri en fram kemur í aðalskipulaginu gefur orðalag þess það til kynna að svigrúm sé til staðar við ákvörðun um fjölda íbúða. Verður því að telja að deiliskipulagið sé í samræmi við stefnu og skilmála aðalskipulags, svo sem krafa er gerð um í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Í skipulaginu er gert ráð fyrir húsum, allt að átta hæðum, á svæði nokkru neðan við Löngubrekku, en landhalli er þar nokkur. Í málinu liggja fyrri myndir er sýna eiga útsýnisskerðingu frá Löngubrekku vegna húsanna og má af þeim ráða að þau muni ekki skerða útsýni að marki umfram það sem nú þegar er raunin, m.a. vegna húsa sem þar standa á milli.

Ekki verður annað ráðið en að málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi verið í samræmi við ákvæði VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010. Þannig var lýsing gerð um skipulagsverkefnið, haldinn um það kynningarfundur, skipulagstillagan auglýst til kynningar, framkomnum athugasemdum er bárust innan lögboðins frests svarað og tillagan síðan afgreidd í skipulagsnefnd og bæjarstjórn. Ekki er gerð krafa í nefndum lögum um að grenndarkynna skuli nýtt deiliskipulag fyrir hagsmunaaðilum, sbr. 44. gr. laganna, heldur ber sveitarfélagi að auglýsa tillögu að deiliskipulagi með almennum hætti, sbr. 1. mgr. 41. gr. þeirra.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir neinir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Auðbrekku – þróunarsvæði, svæði 1, 2 og 3.

80/2015 Sjafnargata

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 1. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 80/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2015 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Sjafnargötu 3 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar að Sjafnargötu 3, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 20185 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Sjafnargötu 3. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 9. nóvember og 10. desember 2015.

Málavextir: Hinn 21. apríl 2015 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn kærenda um leyfi fyrir 54,5 m2 viðbyggingu norðanvert við húsið að Sjafnargötu 3, sem notuð yrði sem vinnustofa og yrði tengd kjallara hússins. Jafnframt var gert ráð fyrir að 18,2 m2 bílskúr, sem stendur á sama stað og fyrirhuguð viðbygging, yrði rifinn. Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu, en lóðin Sjafnargata 3 er á ódeiliskipulögðu svæði. Skipulagsfulltrúi samþykkti á fundi sínum 29. s.m. að grenndarkynna byggingaráformin fyrir hagsmunaaðilum. Að lokinni grenndarkynningu var málið á dagskrá fundar skipulagsfulltrúa 14. ágúst 2015. Lágu fyrir fundinum annars vegar bréf eiganda Sjafnargötu 1, þar sem tekið var jákvætt í kynnta tillögu, og hins vegar andmæli samtaka íbúa við Sjafnargötu og Freyjugötu með nöfnum 29 aðila. Var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Á fundi ráðsins 19. s.m. var samþykkt framlögð umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. s.m., sem hafði að geyma tillögur að svörum við framkomnum athugasemdum og að svarbréfi til kærenda um að umsókn þeirra væri hafnað. Var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa, sem hafnaði byggingarleyfisumsókn kærenda á fundi sínum 25. ágúst 2015 með vísan til fyrrgreindrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að ekki hafi verið staðið með viðhlítandi hætti að rannsókn málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglur stjórnsýsluréttar. Í fyrsta lagi verði ekki betur séð en að synjun á byggingarleyfi hafi byggst á athugasemdum sem hafi borist frá hinum svokölluðu „Íbúasamtökum íbúa við Sjafnargötu og Freyjugötu“. Byggt hafi verið á þessum athugasemdum, enda þótt ekkert sé fram komið um það hvort þessi samtök hafi verið formlega stofnuð og hverjir séu raunverulegir aðilar að þeim. Skortur á rannsókn í þessu efni beri merki um að málsmeðferð hafi verið verulega áfátt.

Þá verði ekki séð að samtökin hafi átt rétt á að koma að athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar og standist því ekki að byggja niðurstöðu um synjun á þeim athugasemdum. Þegar ákvörðun hafi verið tekin af hálfu skipulagsyfirvalda um að grenndarkynna umsókn kærenda um byggingarleyfi hafi erindið verið sent til nágranna í þeim húsum er næst liggi Sjafnargötu 3. Sumir af þessum aðilum hafi kosið að senda inn athugasemdir í nafni framangreindra samtaka, en ljóst sé að samtökin geti ekki talist hafa verulegra hagsmuna að gæta í skilningi stjórnsýsluréttar eða á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fram hafi komið að samtökin hafi verið stofnuð einvörðungu í þeim tilgangi að passa upp á götumynd Sjafnargötu vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar. Fyrir liggi að viðbyggingin hafi engin áhrif á götumyndina þar sem hún sjáist ekki frá götunni.

Kærendur hafi lagt fram teikningar með umsókn sinni, sem sýni að umrædd viðbygging breyti hvorki ásýnd hússins né götumyndinni og sé því um óverulega breytingu að ræða. Skilyrði þess að synja um útgáfu byggingarleyfis þegar ekki liggi fyrir deiliskipulag sé að leyfið hafi í för með sér verulegar breytingar á byggðamynstri hverfis. Stjórnvöld hafi viðurkennt að breytingarnar sem standi til að viðhafa að Sjafnargötu 3 séu óverulegar með því að efna til grenndarkynningar.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar Sjafnargötu 3 í samanburði við nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða hafi veruleg áhrif á niðurstöðu um synjun byggingarleyfis. Kærendur telji að sumar þær stærðir á húseignum sem skipulagsyfirvöld byggi á séu líkast til ekki réttar, eins og hafi komið í ljós með Sjafnargötu 3. Húsið hafi upphaflega verið skráð 197,7 m2 og bílskúr 18,2 m2. Húsið standi á 921 m2 lóð og hafi nýtingarhlutfall verið samtals 0,23. Gerð hafi verið krafa um leiðréttingu á stærðinni, þar sem kjallara vantaði inn í reikninginn, og hafi nýtingarhlutfallið með leiðréttingunni þá orðið samtals 0,32. Með viðbyggingu upp á 75,92 m2, sem samþykkt hafi verið 2014, hafi nýtingarhlutfall orðið 0,40. Með þeirri viðbyggingu sem sótt hafi verið um að reisa og synjað hafi verið um sé áætluð stækkun 36,3 m2, sem feli í sér að nýtingarhlutfall verði 0,44 en ekki 0,46, eins og komi fram í svörum skipulagsfulltrúa. Sé því um tvenns konar annmarka að ræða. Annars vegar sé byggt á að nýtingarhlutfall Sjafnargötu 3 sé hærra en það sé í raun og veru. Hins vegar sé um það að ræða að nýtingarhlutföll annarra lóða við Sjafnargötu, sem séu til viðmiðunar í umsögn skipulagsfulltrúa, geti ekki verið alls kostar rétt og hljóti að vera hærri þar sem þau hafi ekki verið leiðrétt, eins og eigi við um Sjafnargötu 3.

Kærendur telji að ákvörðun byggingarfulltrúa um synjun hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og óskráðri jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Hús kærenda hafi verið reist árið 1931 og eigi það sammerkt með meirihluta mannvirkja í einu elsta og mögulega verðmætasta hverfi borgarinnar að vera komið til ára sinna og þarfnist endurbóta. Enginn hlutlæg eða málefnaleg sjónarmið réttlæti synjun á byggingarleyfi til handa kærendum. Ljóst sé að þegar stjórnvöld veiti næst leyfi til endurbóta á húseignum í hverfinu muni það að öllum líkindum fela í sér að brotið sé í bága við 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga, að því gefnu að nýtingarhlutfall sé sambærilegt og hjá kærendum eða hærra og að áhrif á götumyndina séu þau sömu.

Umsókn kærenda hafi verið í samræmi við skilyrði þess að fá veitt byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að fyrir liggi deiliskipulag. Af því leiði að lagaskilyrði hafi verið til þess að taka umsókn um byggingarleyfi til greina. Byggingarfulltrúi hafi ekki getað með réttmætum hætti ákveðið að hafna umsókninni. Stjórnvöld verði við töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana, svo sem um útgáfu byggingarleyfis, ætíð að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Það, hvaða sjónarmið teljist málefnaleg hverju sinni, ráðist af lagagrundvellinum og í þessu samhengi verði að horfa til landnotkunar, byggðamynsturs og þéttleika byggðar, sem og 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Eins og hér sé ástatt telji kærendur að synjun um útgáfu byggingarleyfis byggist á ómálefnalegum sjónarmiðum í andstöðu við réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Áréttað sé að skipulagsfulltrúi hafi vísað flestum athugasemdum frá íbúasamtökunum á bug í svörum sínum. Á hinn bóginn leggi hann til í umsögn sinni að leyfi verði ekki gefið út fyrr en hverfisskipulag verði gert „í ljósi athugasemda og þeirra framkvæmda sem nú þegar eru samþykktar“.

Þær framkvæmdir sem kærendur hyggist ráðast í séu í samræmi við landnotkun, hafi óveruleg ef þá nokkur áhrif á byggðamynstur og nýtingarhlutfall, sem sé mælikvarði á þéttleika byggðar, sé það sama ef ekki lægra en meðalnýtingarhlutfall lóða við Sjafnargötu. Þá hafi sá nágranni sem hvað mestra hagsmuna eigi að gæta í málinu veitt jákvæða umsögn um framkvæmdirnar og stjórnvöld líka. Þær neikvæðu umsagnir sem hafi borist við grenndarkynningu séu ómálefnalegar. Af þessu leiði að byggingarfulltrúa hafi borið að veita kærendum leyfi til að reisa umrædda viðbyggingu enda standi öll lagaskilyrði til þess.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir umrætt svæði, en í gildandi aðalskipulagi sé það skilgreint sem íbúðarbyggð. Segi í aðalskipulaginu að hverfið hafi verið byggt að stærstum hluta í samræmi við tillögu að heildarskipulagi Reykjavíkur innan Hringbrautar frá 1927 og hafi það að mestu verið fullbyggt kringum 1950. Hverfið beri með sér heilsteypt yfirbragð.

Árið 2014 hafi kærendur fengið samþykkta stækkun á húsi sínu, en sú stækkun hafi verið grenndarkynnt og byggingarleyfi gefið út hinn 29. október 2014. Með því hafi verið veitt leyfi til að byggja steinsteypta viðbyggingu með þaksvölum og verönd. Sömu aðilar hafi gert athugasemdir þá og gerðu athugasemdir við þá stækkun sem nú sé hér til umfjöllunar.

Kærendur hafi svo lagt inn aðra umsókn um stækkun á húsinu til byggingarfulltrúa, dags. 24. mars 2015. Þá hafi verið sótt um leyfi til að reisa viðbyggingu norðan megin, þannig að bílskúr yrði rifinn og útbúin vinnustofa sem yrði tengd kjallara hússins á lóð kærenda. Umsókninni hafi verið vísað til skipulagsfulltrúa sem hafi grenndarkynnt hana. Við ákvörðun um grenndarkynningu hafi m.a. verið litið til byggðamynsturs hverfisins og deiliskipulags svokallaðs Smáragötureits, frá árinu 2005 er gildi fyrir hluta hverfisins.

Athugasemdir hafi borist vegna fyrirhugaðrar stækkunar á húsi kærenda en þær lúti helst að því að á teikningu kæmi fram að um vinnustofu væri að ræða í miðju grónu íbúðarhverfi, án þess að frekari grein væri gerð fyrir því. Einnig hafi samtök íbúa talið að um óhóflegt byggingarmagn væri að ræða með tilliti til lóðarinnar og stöðu hússins á lóðinni. Hafi þá líklegast verið horft til þeirrar stækkunar sem nú þegar hafi verið leyfð.

Það sem hér sé um að ræða fordæmisgefandi breytingu, þ.e. að stækka hús meira en byggingarleyfið frá 2014 heimilaði, á svo til fullbyggðu svæði og að breyta bílskúr í vinnustofu, telji skipulagsfulltrúi að gera þurfi deiliskipulag eða hverfisskipulag til að taka heildstætt á þeirri stækkun sem synjað hafi verið um.

Niðurstaða: Lóðin Sjafnargata 3 tilheyrir grónu hverfi sem hefur mótast í tímans rás með veitingu einstakra byggingarleyfa en hefur ekki verið deiliskipulagt. Þegar aðstæður eru eins og að framan greinir er heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Var samþykkt að grenndarkynna umrædda umsókn kærenda m.a. með hliðsjón af byggðamynstri hverfisins og deiliskipulagi svonefnds Smáragötureits.

Umsókn kærenda laut að heimild til að byggja 54,5 m2 viðbyggingu við norðurhlið húss þess sem stendur á greindri lóð og yrði viðbyggingin notuð sem vinnustofa. Sú skilgreining verður ekki talin fela í sér aðra notkun eða starfsemi en samrýmist notkun íbúðarhúsnæðis. Bílskúr, 18,2 m2 að flatarmáli, sem fyrir er á sama stað skyldi rifinn. Stækkun hússins yrði því 36,3 m2. Áður höfðu kærendur fengið samþykkta stækkun 16. september 2014, en við þá stækkun varð hús þeirra 368,3 m2, auk 18,2 m2 bílskúrs, samkvæmt skráningartöflu samþykkts byggingarleyfis. Lóðin Sjafnargata 3 er 915,2 m2 og er nýtingarhlutfall hennar samkvæmt framansögðu 0,42. Með umsóttri breytingu yrði nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,46.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. ágúst 2015, var svarað framkomnum athugasemdum er borist höfðu við fyrrnefnda grenndarkynningu, m.a. frá aðilum sem grenndarkynningin náði til. Lutu athugasemdirnar einkum að því að nýtingarhlutfall umræddrar lóðar yrði töluvert hærra en nærliggjandi lóða, að gert væri þar ráð fyrir vinnustofu án frekari skýringa, að gera þyrfti samanburð á nýtingu nærliggjandi lóða og að frekari framkvæmdir að Sjafnargötu 3 bíði deiliskipulags. Í lok umsagnarinnar var lagt til að umsókn kærenda yrði synjað með svofelldum orðum: „Í ljósi athugasemda og þeirra framkvæmda sem nú þegar eru samþykktar  er það mat skipulagsfulltrúa að frekari aðaluppdrættir og framkvæmdir á þessari lóð bíði Hverfiskipulagsins svo hægt sé að taka heildstætt á byggingarheimildum í götunni.“ Jafnframt kemur fram í umsögninni að ekki liggi fyrir hvenær vinna hefjist við gerð hverfisskipulags fyrir svæðið.

Nýtingarhlutfall lóða við Sjafnargötu er allt frá 0,24 upp í 0,59. Hinn 19. júní 2012 og 19. ágúst 2014 voru veitt byggingarleyfi til stækkunar hússins að Sjafnargötu 11. Samkvæmt samþykktum skráningartöflum byggingarleyfanna er heildarflatarmál bygginga á lóðinni 438,3 m2 og nýtingarhlutfall hennar því 0,59, en í fasteignaskrá Þjóðskrár er húsið hins vegar talið 299,8 m2, sem gefur nýtingarhlutfallið 0,40. Miðað var við það nýtingarhlutfall lóðarinnar í samanburði nýtingarhlutfalls lóða við Sjafnargötu í áðurnefndri umsögn skipulagsfulltrúa. Þá er lóðin Sjafnargata 9 með nýtingarhlutfallið 0,59, en þessar lóðir liggja báðar norðaustan megin Sjafnargötu, eins og lóð kærenda, en fyrir liggur að sú lóð hefði nýtingarhlutfallið 0,23, fyrir umbeðna breytingu, ef byggt yrði á upplýsingum í fasteignaskrá í stað samþykktra byggingarleyfa. Liggur því fyrir að þess eru dæmi að nýtingarhlutfall lóða við Sjafnargötu samkvæmt samþykktum byggingarleyfum annars vegar og samkvæmt upplýsingum í fasteignaskrá Þjóðskrár hins vegar er ekki það sama. Í ljósi þessa hefðu byggingaryfirvöld þurft að rannsaka betur hvert nýtingarhlutfall lóða við götuna var í raun áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Fyrir liggur að á liðnum árum hafa verið veittar auknar byggingarheimildir á einstökum lóðum við götuna án þess að talin hafi verið þörf á gerð skipulags fyrir svæðið. Þá sýnist og ljóst að nýtingarhlutfall lóðar kærenda eftir áformaða stækkun húss þeirra yrði ekki umfram það sem finna má á lóðum við Sjafnargötu og yrði vart fordæmisgefandi um aukið nýtingarhlutfall lóða við götuna umfram það sem þegar er orðið. Loks verður ekki annað séð en að umrædd viðbygging hefði óveruleg, eða engin, áhrif á götumynd Sjafnargötu, enda yrði byggingin reist að baki húss kærenda sem stendur nær götu. Samkvæmt því verður ekki annað ráðið en að umsókn kærenda um viðbyggingu við hús þeirra hafi verið í samræmi við gildandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar á umræddu svæði, sem eru þeir þættir er líta skal til þegar umsókn um byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði er metin, sbr. orðalag 44. gr. skipulagslaga.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að svo verulega hafi skort á rannsókn við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem rökstuðningi hennar var svo áfátt, að fallist verður á kröfu kærenda um ógildingu hennar. Er þá einnig litið til jafnræðissjónarmiða 11. gr. nefndra laga, er leiða til þess að fasteignaeigendur á svæði þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir eigi að njóta sambærilegra nýtingarheimilda á lóðum sínum nema að skipulagssjónarmið eða önnur efnisrök mæli því í mót.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2015 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Sjafnargötu 3 í Reykjavík.

9/2017 Veghúsastígur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 1. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2017, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. desember 2016 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, staðgreinireits 1.152.4, vegna lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir lóðareigendur lóðarinnar að Klapparstíg 19 og Veghúsastíg 1 þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. desember 2016 að synja um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, staðgreinireits 1.152.4, vegna fyrrnefndrar lóðar.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 18. maí 2017.

Málavextir: Húsin að Klapparstíg 19 og Veghúsastíg 1 eru á lóð þar sem í gildi er deiliskipulag Skúlagötusvæðis fyrir staðgreinireit 1.152.4. Voru húsin friðuð á grundvelli aldurs þeirra skv. lögum nr. 80/2012 um menningarminjar. Árið 2014 lýsti Minjastofnun Íslands friðun hússins að Veghúsastíg 1 úr gildi fallna þar sem húsið væri metið óviðgerðarhæft.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 24. febrúar 2016 var lögð fram fyrirspurn lóðarhafa umræddrar lóðar um hvort heimilað yrði að breyta deiliskipulagi lóðarinnar. Á lóðinni yrðu lágreistar byggingar með sex til sjö litlum íbúðum og húsið að Veghúsastíg 1 yrði rifið. Einnig var lagt fram bréf frá arkitektum, dags. 27. nóvember 2015, umsagnir Borgarsögusafns Reykjavíkur, dags. 19. og 22. janúar 2016, og umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 11. febrúar s.á. Jafnframt var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 22. febrúar s.m., þar sem fram kom að fallist væri á að unnin yrði tillaga að breytingu deiliskipulags í samræmi við tillögu, dags. 27. nóvember 2015, en lagt til að núverandi hús að Veghúsastíg 1, eða a.m.k. form þess, stærð og ásýnd, yrði fellt inn í tillöguna og það af húsinu sem nýtilegt væri yrði nýtt við endurbygginguna. Færði umhverfis- og skipulagsráð til bókar að ekki væru gerðar athugsemdir við erindið, sbr. þó skilyrði og leiðbeiningar sem fram kæmu í fyrrgreindri umsögn skipulagsfulltrúa.

Í kjölfar þessa lögðu lóðarhafar fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar, sem tekin var fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. maí 2016. Í breytingunni fólst m.a. að skilgreindir voru nýir byggingarreitir á lóðinni og gert þar ráð fyrir sex íbúðum og smáhýsi. Jafnframt yrðu byggingar á lóð Veghúsastígs 1 fjarlægðar, sbr. uppdrátt, dags. 27. apríl 2016. Málinu var vísað til meðferðar hjá verkefnisstjóra og síðan lagt fram að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 20. maí s.á., sem vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs. Var umsóknin lögð fram á fundi ráðsins 15. júní 2016 og m.a. tekið fram að byggingar á lóð nr. 1 við Veghúsastíg yrðu fjarlægðar samkvæmt deiliskipulags og skýringaruppdrætti, dags. 23. maí s.á. Samþykkti ráðið að auglýsa framlagða tillögu til kynningar og vísa málinu til borgarráðs. Tók það málið fyrir á fundi sínum 23. júní s.á. og samþykkti greinda afgreiðslu. Á kynningartíma tillögunnar bárust athugasemdir frá sex aðilum.

Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 7. desember 2016 og henni synjað af meirihluta ráðsins með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 5. s.m. Í umsögninni kom m.a. fram að þótt timburhúsið að Veghúsastíg 1 væri illa farið þá væri æskilegt að gera við það eða eftir atvikum að endurbyggja það á núverandi stað, helst á upphaflegum undirstöðum. Vegna framkominna athugasemda hefði verið ákveðið að fara yfir málið á ný með það í huga að húsið stæði áfram á sínum stað. Málinu var einnig vísað til borgarráðs og staðfesti meirihluti þess nefnda synjun á fundi sínum 15. s.m.

Borgarstjórn tók málið fyrir 20. desember 2016 og samþykkti fyrrnefndar synjanir borgarráðs og umhverfis- og skipulagsráðs með tíu atkvæðum gegn fjórum. Færði meirihluti borgarstjórnar til bókar að gamla timburhúsið að Veghúsastíg 1 hefði ótvírætt varðveislugildi og að deiliskipulagstillögu um að heimilt yrði að rífa það eða fjarlægja væri hafnað.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að nánar tilgreindur borgarfulltrúi hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins vegna fyrri afstöðu hans til þess. Hafi hann ítrekað látið í ljós þá skoðun sína að vernda bæri Veghúsastíg 1. Við endanlega afgreiðslu málsins hafi niðurstaða þess frekar ráðist af fyrri fordómum en málefnalegum sjónarmiðum. Í ljósi stöðu umrædds borgarfulltrúa, sem formanns umhverfis- og skipulagssviðs, verði að ætla að um sé að ræða ógildingarannmarka. Sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 280/2003 í þessu sambandi.

Á fundi kærenda með Reykjavíkurborg hafi komið fram að borgin hefði í hyggju að kúvenda afstöðu sinni án þess að tilgreind væri fyrir því skýr ástæða. Hafi lóðareigendum verið boðið að breyta tillögu að deiliskipulagi á þann veg að byggingarmagn yrði aukið en húsið að Veghúsastíg 1 endurgert. Hafi nýrri tillögu verið skilað inn. Í framhaldi af því hafi ákvörðun verið tekin, án þess að rætt hafi verið við lóðareigendur eða þeim gefinn kostur á að tjá sig um framkomin sjónarmið og ástæður kúvendingar Reykjavíkurborgar. Hafi borið að veita þeim andmælarétt skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Um lögvernduð eignarréttindi sé að ræða og beri að skýra allan vafa í málinu lóðareigendum í hag. Stjórnvöldum beri að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Lóðareigendur hafi lagt fram fyrirspurnartillögu, sem grundvallast hafi á því að tekið yrði tillit til sjónarmiða í aðalskipulagi um hverfisvernd, til hússins að Klapparstíg 19 og hverfisins að öðru leyti. Hafi þeir gengið lengra í þessum efnum en þörf hefði krafið, þar sem tillaga þeirra hafi verið lágstemmdari og hófstilltari en byggingar á lóðum í kring. Minjastofnun Íslands og Borgarsögusafn Reykjavíkur hafi í umsögnum sínum fagnað hinni kærðu deiliskipulagstillögu og talið að um jákvætt skref væri að ræða. Borgarsögusafn sé hluti af Reykjavíkurborg og geti það ekki talist lögmætt sjónarmið af hálfu borgarinnar að hafna eigin umsögn án þess að nokkur breyting hafi orðið á málinu. Með hliðsjón af framangreindu geti vernd Veghúsastígs 1 ekki talist málefnalegt sjónarmið sem niðurstaða verði byggð á. Þegar fyrirspurnartillagan hafi verið samþykkt hafi verið tekið fram að hún væri í góðu samræmi við byggð á Veghúsastíg. Hefði Reykjavíkurborg því þegar tekið afstöðu til Veghúsastígs 1 og samþykkt að húsið mætti hverfa, enda væri tillagan að öllu leyti í samræmi við markmið skipulagsins um endurskipulagningu eldri hverfa. Það að tillagan hafi verið auglýst án þess að samhliða væri auglýst breyting á aðalskipulagi staðfesti það mat Reykjavíkurborgar að tillagan væri í samræmi við aðalskipulag.

Deiliskipulagstillagan hafi verið í fullu samræmi við fyrirspurnartillöguna. Hafi því borið að samþykkja tillöguna nema ný sjónarmið hafi leitt til annars, en engin ný sjónarmið hafi komið fram. Reykjavíkurborg hafi þegar hafnað þeim sjónarmiðum sem komið hafi fram í athugasemdum. Geti borgin ekki metið sömu sjónarmið með öðrum hætti við endanlega afgreiðslu málsins. Minjastofnun hafi sem æðsta stjórnvald landsins á sviði minjamála þegar tekið afstöðu til varðveislugildis hússins. Beri sveitarfélaginu að virða þau málefnalegu valdmörk sem séu á milli stjórnvalda. Megi hér nefna álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2835/2003. Með sama hætti sé Reykjavíkurborg óheimilt að byggja niðurstöðu sína á sjónarmiðum um minjagildi einstakra húsa þar sem það sé skýrlega á forræði Minjastofnunar að gera það.

Húsið að Veghúsastíg 1 sé ónýtt og því ómögulegt að gera það upp. Hafi þetta ítrekað komið fram við meðferð málsins og sé Reykjavíkurborg fullkunnugt um þessa staðreynd. Í engu sé að þessu vikið í umsögn borgarinnar um deiliskipulagstillöguna. Hér hljóti þó að vera um mikilvægt sjónarmið að ræða.

Fyrir nokkrum árum hafi verið veitt heimild til að reisa hús á lóðinni að Klapparstíg 17 í stað timburhúss sem þar hafi áður staðið og eyðilagst hafi í eldi. Nýtingarhlutfall lóðarinnar hafi hækkað úr 0,85 í 1,25. Verði ekki annað séð en að það mál sé mjög sambærilegt máli þessu, að því viðbættu að yfirvöld friðunarmála hafi samþykkt niðurrif Veghúsastígs 1.

Verði ekki fallist á kröfu kærenda sé réttaröryggi íbúa Reykjavíkur teflt í tvísýnu. Lóðareigendum hafi ítrekað verið lofað að þeim yrðu veittar tilteknar byggingarheimildir. Hafi þeir tekið ákvarðanir í trausti þess að treysta mætti yfirlýsingum starfsmanna borgarinnar og kjörnum fulltrúum, sem ítrekað hafi lýst yfir stuðningi við tillöguna. Sé í þessu sambandi vísað til bókunar minnihluta í borgarráði frá 15. desember 2016 um málið, en þar segi eftirfarandi: „Húsið við Veghúsastíg 1 var metið ónýtt árið 2011. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mat húsið óíbúðarhæft í byrjun árs 2012 og Minjastofnun affriðaði húsið á árinu 2014 vegna bágs ástands þess. Minjastofnun gerði ekki athugasemd við niðurrif þess. Vegna þessa er eðlilegt að fallast á þá deiliskipulagsbreytingu sem auglýst hefur verið“. Þau atriði sem minnst sé á í bókuninni sé hvergi að finna í rökstuðningi borgarinnar fyrir synjun.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Sé málið ekki þannig vaxið að ógildingu varði.

Formaður umhverfis- og skipulagsráðs hafi með ummælum sínum í viðtali við fjölmiðil 18. september 2014 verið að staðfesta þá stöðu sem lóðin hafi verið í samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 2004. Geri það ráð fyrir að húsið verði gert upp í samræmi við aldur og byggingarstíl vegna verndunar götumyndar. Hafi fyrrgreindur aðili oft talað á opinberum vettvangi um mikilvægi húsafriðunar, enda sé það eitt af hlutverkum kjörinna fulltrúa að upplýsa almenning og tjá skoðanir sínar. Ekki séu uppi þær aðstæður skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að formaðurinn teljist vanhæfur. Hafi hann engra persónulegra hagsmuna að gæta í málinu og ekki hafi verið sýnt fram á að hann hafi blandast svo persónulega í málið að það geri  hann óhlutdrægan. Sé vísað til athugasemda við 3. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum. Til að um vanhæfi sé að ræða verði að gera þá kröfu að viðkomandi starfsmaður hafi tjáð sig með beinum hætti um það ákveðna mál sem um sé að tefla. Sú almenna skoðun formannsins um að stuðla beri að verndun húsanna geri hann ekki vanhæfan.

Umhverfis- og skipulagsráð hafi samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi vegna álits Minjastofnunar Íslands um að húsið að Veghúsastíg 1 væri algerlega ónýtt. Með því hafi formaðurinn verið að lýsa þeirri afstöðu sinni að rétt væri að kynna framkomna tillögu fyrir hagsmunaaðilum og kalla eftir athugasemdum. Eftir að athugasemdir hafi borist og eftir talsverða umræðu meðal húsafriðunarfólks hafi þó styrkst sú skoðun formannsins að húsið ætti að standa, þ.e.a.s. að borgin ætti að gera það sem skilyrði fyrir uppbyggingarheimildum, á reit þar sem engar heimildir voru, að lóðarhafar endurbyggðu húsið frá grunni.

Málefni hússins að Veghúsastíg 1 eigi sér töluverða forsögu. Byggingarfulltrúi hafi t.a.m. synjað umsókn um leyfi fyrir niðurrifi hússins árið 2014. Hafi við þá afgreiðslu verið vísað til minnisblaðs verkþjónustu þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að tæknilega séð væri hægt að gera við húsið. Líkur væru á því að meginhluti burðarviða væri heill, en skipta þyrfti um allar klæðingar, gera við undirstöður og glugga eða endurnýja þá. Formaður umhverfis- og skipulagsráðs hafi enga aðkomu átt að þeirri afgreiðslu. Í ljósi fyrri afgreiðslna á erindum kærenda hafi lóðareigendur ekki getað vænst þess síðar að fá heimild til niðurrifs hússins.

Kærendur hafi haft frumkvæði af málinu með umsókn sinni þar sem þeir hafi sjálfir veitt allar nauðsynlegar upplýsingar. Í slíkum tilvikum sé ekki skylt að veita andmælarétt áður en ákvörðun sé tekin. Sé t.d. ekki talið að veita þurfi umsækjendum andmælarétt við fram komnum athugasemdum eftir auglýsingu tillagna.

Skipulagsvald í hverju sveitarfélagi sé í höndum sveitarstjórnar. Sé gildandi deiliskipulag fyrir umrædda lóð bindandi fyrir lóðarhafa og eigi þeir enga lögvarða kröfu á því að fá því breytt. Verði ekki annað séð en að synjun umhverfis- og skipulagsráðs hafi verið málefnaleg og rökstudd, en í afgreiðslunni sé vísað til þeirra raka sem fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa.

Ekki sé fallist á að verið sé að brjóta jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Mismunandi nýtingarhlutfall einstakra lóða helgist m.a. af skipulagsmarkmiðum hverju sinni og mismunandi aðstæðum á lóðum. Möguleg mismunun sem af því leiði verði ekki talin fara í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Aðstæðum sem verið hafi að Klapparstíg 17 verði ekki jafnað til þeirrar stöðu sem húsið að Veghúsastíg 1 sé í. Hvergi sé áskilið í lögum að skylt sé að veita aðrar uppbyggingarheimildir í þeim tilvikum sem hús teljist illa farin. Þótt húsið hafi verið affriðað þýði það ekki að borginni sé allt að einu skylt að leyfa niðurrif þess, heldur einfaldlega að sveitarfélagið geti heimilað breytingar á því án aðkomu Minjastofnunar. Eftir sem áður sé leyfisveitingarvaldið hjá viðkomandi sveitarfélagi, enda beinlínis gert ráð fyrir því í lögum um menningarminjar að sækja þurfi um affriðun húsa áður en sótt sé um byggingarleyfi. Umsagnir Borgarsögusafns séu aðeins ráðgefandi álit, en ekki bindandi.

Fyrirspurn um leyfi verði ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn. Feli jákvætt svar við slíkri fyrirspurn ekki í sér stjórnvaldsákvörðun sem skapi lóðarhöfum réttindi eða skyldur, enda sé ekki um að ræða lokaákvörðun. Sé sérstaklega bent á að skipulagsfulltrúi hafi lagt til í umsögn sinni að núverandi hús að Veghúsastíg yrði fellt inn í tillöguna eða það sem nýtilegt væri af húsinu yrði nýtt við endurbygginguna. Þá hafi auglýst tillaga m.a. falið í sér aukningu á byggingarmagni frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í fyrirspurnartillögu. Fjölmörg dæmi séu um að auglýstum tillögum hafi verið synjað vegna athugasemda úr nágrenninu. Sú staða hafi verið upp í þessu máli.

Árið 2011 hafi byggingarfulltrúi farið fram á það við eiganda hússins að gluggar þess yrðu lagaðir, húsið málað og lóð snyrt, en húsið hafi þá staðið autt í fjöldamörg ár, án nokkurs viðhalds. Verði ástand hússins í dag einungis rakið til aðgerðarleysis eiganda. Verði og ekki talið fullreynt að húsið sé í raun ónýtt með öllu.

——-

Kærandi hefur komið að athugasemdum við málsrök Reykjavíkurborgar. Þar kemur m.a. fram að engum gögnum hafi verið framvísað um að mögulegt sé að lagfæra húsið að Veghúsastíg 1. Jafnframt styðji engin gögn þá fullyrðingu að viðhaldi hússins hafi vísvitandi ekki verið sinnt og sé því mótmælt. Frekari sjónarmið hafa verið færð fram í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en höfð hafa verið til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, sem staðfest var í borgarstjórn, að synja um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Unnt er að óska eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt. Einstakir aðilar eiga þó almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Við meðferð slíkrar umsóknar ber sveitarstjórn hins vegar að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Jafnframt skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrir liggur að borgarstjórn hafnaði umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi umræddrar lóðar með þeim rökum að húsið að Veghúsastíg 1 hefði ótvírætt varðveislugildi. Samkvæmt upplýsingum er bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. desember 2017, og staðfestar voru 31. janúar 2018, lá fyrir fundi borgarstjórnar útskrift úr gerðabók umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. desember 2016 varðandi málið. Jafnframt lágu fyrir eftirfarandi fylgiskjöl: Deiliskipulags og skýringaruppdrættir, dags. 23. maí 2016, skýrsla Mannvits vegna cobraborunar, dags. 9. júní 2016, innsendar athugasemdir og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. desember 2016.

Í nefndri umsögn skipulagsfulltrúa var skírskotað til þess að húsið að Veghúsastíg 1 hefði orðið fyrir vatnsskemmdum og hefði það verið metið ónýtt með álitsgerð árið 2011. Vegna þessa hefði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur metið húsið óíbúðarhæft í ársbyrjun 2012. Hefði Minjastofnun Íslands affriðað húsið á árinu 2014 vegna bágs ástand þess og ekki gert athugasemd við að húsið yrði rifið. Þá var tekið fram að vegna fyrrgreindra umsagna og álitsgerða hefði umhverfis- og skipulagsráð tekið jákvætt í að auglýsa þá tillögu sem nú lægi fyrir. Enn fremur var til þess vísað að Reykjavíkurborg hefði í nokkrum álitsgerðum og minnisblöðum lagt á það áherslu að „haldið yrði í“ steinbæinn að Klapparstíg 19 og timburhúsið að Veghúsastíg 1. Sagði svo: „Þó að timburhúsið sé illa farið, væri æskilegt að gera við það eða eftir atvikum endurbyggja það á núverandi stað, helst á upphaflegum undirstöðum. Vegna fram kominna athugasemda var ákveðið að fara yfir málið á ný með það í huga að húsið stæði áfram á sínum stað. Sú lausn kæmi einnig til móts við athugasemdir eigenda að Veghúsastíg 1A um aðgengi að baklóðinni.“

Minjastofnun Íslands annast framkvæmd verndunar og vörslu menningarminja í landinu skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar og starfar samkvæmt þeim lögum. Samkvæmt stofnskrá sinni, sbr. auglýsingu nr. 807/2015 um staðfestingu safnaráðs á stofnskrá Borgarsögusafns Reykjavíkur, hefur safnið umsjón með menningarminjum í Reykjavík og skal það m.a. sinna minjavörslu í Reykjavík í samræmi við ákvæði laga nr. 80/2012 og halda skrár yfir fornleifar, hús og mannvirki í Reykjavík. Skal leita umsagnar safnstjóra t.d. þegar fjallað er um verndun húsa, s.s. við skipulagsgerð. Þegar fyrirspurn kærenda um breytingu á deiliskipulagi umræddrar lóðar var afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði lágu fyrir umsagnir framangreindra aðila. Í umsögn Borgarsögusafns Reykjavíkur, dags. 22. janúar 2016, kemur fram að safnið líti tillöguna jákvæðum augum út frá sjónarmiði borgar og húsverndar. Minjastofnun veitti jafnframt umsögn sína, dags. 11. febrúar 2016, vegna áformaðrar uppbyggingar. Þar var til þess vísað að samkvæmt ástandsmati sem gert hefði verið á Veghúsastíg 1 í maí 2014 væri húsið metið óviðgerðarhæft. Hefði Minjastofnun lýst friðun þess skv. 29. gr. laga nr. 80/2012 úr gildi fallna með bréfi, dags. 20. maí 2014. Gerði stofnunin ekki athugasemd við niðurrif þess eða við fyrirspurnartillöguna. Tækju fyrirhugaðar nýbyggingar tillit til smágerðs mælikvarða gamla steinbæjarins að Klapparstíg 19 og eldri byggðar á reitnum.

Af bókun borgarstjórnar verður ekki með afgerandi hætti ráðið á hverju sú niðurstaða meirihluta borgarstjórnar er byggð að varðveislugildi hússins að Veghúsastíg 1 sé mikið. Þá kemur ekki fram í umsögn skipulagsfulltrúa hver hafi staðið að álitsgerðum og minnisblöðum þeim þar sem lögð sé áhersla á að „haldið yrði“ ekki einungis í steinbæinn að Klappastíg 19 heldur einnig húsið að Veghúsastíg 1, eða hvert innihald þeirra var að öðru leyti. Þá verður hvorki séð að umsögn Minjastofnunar né umsögn Borgarsögusafns hafi legið fyrir hjá borgarstjórn við afgreiðslu á umsókn kærenda. Um var að ræða umsagnir sérfróðra aðila sem gátu haft úrslitaþýðingu við afgreiðslu málsins, en eins og áður er rakið kom fram í umsögn Minjastofnunar Íslands að húsið að Veghúsastíg 1 væri óviðgerðarhæft samkvæmt ástandsmati er gert hefði verið í maí 2014 og að friðun þess hefði verið aflétt. Í umsögn skipulagsfulltrúa um málið var einungis vikið lítillega að áðurgreindri umsögn Minjastofnunar. Í gögnum málsins kemur enn fremur fram að byggingarfulltrúi Reykjavíkur fór fram á það við nánar tilgreinda verkþjónustu að ástand hússins yrði metið og lá það mat fyrir 25. september 2014. Segir þar m.a: „…tæknilega er hægt að gera við húsið og geta undirstöður og burðarviðir nýst en svo til allt annað er úr sér gengið og hefur runnið sitt skeið“. Virðist sem nefnt mat hafi heldur ekki legið fyrir við afgreiðslu málsins hjá borgarstjórn. Verulegur vafi leikur þannig á því að fyrir borgarstjórn hafi legið fullnægjandi gögn við afgreiðslu málsins og verður að telja að vegna framkominnar umsóknar hafi verið tilefni fyrir skipulagsyfirvöld til frekari rannsóknar. Þegar metið er lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar verður aukinheldur að hafa í huga að borgarstjórn bar ekki aðeins að fara að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga heldur var henni einnig rétt að líta til stjórnarskrárvarinna eignarréttinda lóðarhafa og taka í rökstuðningi sínum m.a. afstöðu til þess hvort að raunhæft væri að gera kröfu til varðveislu hússins að Veghúsastíg 1, einkum og sér í lagi að teknu tilliti til þess álits Minjastofnunar Íslands að húsið væri óviðgerðarhæft. Er ljóst af framangreindu að ekki einungis var rannsókn málsins verulega áfátt heldur var rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sömuleiðis ófullnægjandi.

Sex athugasemdir komu fram á kynningartíma deiliskipulagstillögunnar. Ein þeirra barst frá eigendum hússins að Veghúsastíg 1A og laut að því að þinglýst kvöð væri til staðar þess efnis að ekki yrði reist girðing á lóðamörkum Veghúsastígs 1 og 1A. Af þeim fimm athugasemdum öðrum sem bárust var ein órökstudd með öllu en því mótmælt að húsinu Veghúsastíg 1 yrði raskað eða það rifið. Hinar fjórar voru efnislega samhljóða og vísuðu þær allar til viðtals við formann umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sem birtist í Fréttablaðinu 18. september 2014 og vefmiðlinum www.visir.is sama dag. Kom þar fram að húsið að Veghúsastíg 1 væri friðað sökum aldurs og að skoðun formannsins væri sú að Veghúsastíg 1 ætti að gera upp. Haft var eftir formanninum að það kæmi „ekki til greina að eigendur komist upp með að láta aldursfriðað hús grotna innan frá árum saman og krefjist svo þess að borgin leyfi þeim að rífa það og vitni í slökkviliðið um slysahættu.“ Af þeim fjórum athugasemdum þar sem tekið var undir sjónarmið formannsins vísuðu höfundar tveggja til fyrri tengsla sinna við nágrenni Veghúsastígar 1, annars vegar vegna búsetu og hins vegar vegna rekstrar á árum áður.

Með bréfi, dags. 20. maí 2014, aflétti Minjastofnun Íslands friðun hússins að Veghúsastíg 1. Var því röng sú fullyrðing formanns umhverfis- og skipulagsráðs, sem birtist í fjölmiðlun í september s.á., að húsið væri friðað fyrir aldurs sakir. Þar af leiðir að fyrrgreindar fjórar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna, þar sem tekið var undir sjónarmið formannsins, geta vart talist hafa verið gefnar á réttum forsendum. Veittu þær athugasemdir því ekki viðhlítandi stoð fyrir þeirri ályktun skipulagsyfirvalda að húsið skyldi standa. Þá verður heldur ekki séð að gætt hafi verið meðalhófs við meðferð málsins og reynt að finna aðra lausn en þá að hafna deiliskipulagstillögunni til að koma til móts við þá athugasemd nágranna að þinglýst kvöð væri til staðar um framkvæmdir á lóðamörkum.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að telja að svo verulegir annmarkar hafi verið á undirbúningi og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að fella beri hana úr gildi.

Athygli vekur að nefndur formaður umhverfis- og skipulagsráðs tók þátt í meðferð málsins hjá ráðinu, sem og í borgarstjórn. Orkar það tvímælis í ljósi ummæla þeirra sem hann hafði látið falla í fjölmiðlum um þetta tiltekna hús og meint atferli lóðarhafa, enda voru ummælin til þess fallin að draga í efa óhlutdrægni formannsins. Að fenginni framangreindri niðurstöðu eru þó ekki efni til frekari umfjöllunar um þetta atriði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. desember 2016 um að synja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skúlagötureits, staðgreinireits 1.152.4 vegna lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg í Reykjavík.

2/2016 Laufásvegur 70

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2016, kæra á breytingu deiliskipulags Smáragötureita vegna Laufásvegar 70, sem samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur hinn 26. nóvember 2015 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember 2015.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2016, er barst nefndinni 11. s.m., kæra eigendur, Smáragötu 13, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. nóvember 2015 að breyta deiliskipulagi Smáragötureita. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. mars 2016.

Málavextir: Upphaf málsins má rekja til framkvæmda á lóð Laufásvegar 70 sem veitt var byggingarleyfi fyrir á árinu 2012. Það leyfi var síðar fellt úr gildi að hluta með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 75/2012 hinn 11. júní 2015, en framkvæmdum var þá lokið. Kæruefnið snýr að upphækkuðum palli við dyr á 1. hæð á miðri suðvestur hlið hússins við Laufásveg 70 og aðliggjandi lægri palli við vestur horn hússins. Pallarnir eru tengdir með þrepum.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi Smáragötureita vegna Laufásvegar 70 var grenndarkynnt 24. september 2015 með athugasemdafresti til 22. október s.á. Athugasemdir bárust frá íbúum Smáragötu 11 og 13. Þeim var svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. nóvember s.á., þar sem jafnframt var lagt til að grenndarkynnt tillaga að breyttu deiliskipulagi yrði samþykkt. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa samþykkti umhverfis- og skipulagsráð tillöguna hinn 18. nóvember 2015. Borgarráð samþykkti breytt deiliskipulag 26. nóvember s.á. og auglýsing þar um birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. desember 2015. Í breytingunni fólst að byggingareit lóðarinnar var breytt þannig að áðurnefndir steinsteyptir pallar féllu innan hans. Í skilmálum segir að lægri pallurinn skuli vera í lóðarhæð eins og hún var áður og hærri pallurinn u.þ.b. 1,3 m hærri. Að öðru leyti gildi skilmálar deiliskipulags Smáragötureita frá árinu 2005. Kæra vegna þessarar ákvörðunar barst úrskurðarnefndinni 11. janúar 2016, eins og að ofan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að engin haldbær rök hafi staðið til hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar önnur en að festa í sessi þegar gerða byggingu, sem gerðar hafi verið athugasemdir við í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna neikvæðra grenndaráhrifa. Ekki hafi verið tekið tilliti til athugasemda við grenndarkynningu. Í reynd sé um að ræða viðbyggingu við húsið að Laufásvegi 70, en ekki palla líkt og borgaryfirvöld haldi fram. Mannvirkið sé úr járnbentri steinsteypu, á tveimur hæðum og með óuppfylltu innra rými sem unnt sé að gera innangengt frá íbúðarhúsi. Hæð mannvirkisins sé umfram heimild í deiliskipulagi. Efri pallur með handriði sé 3,61 m frá fyrri hæð lóðar og sá neðri 1,54 m ef marka megi mælingu starfsmanna Reykjavíkurborgar. Innsýn sé af mannvirkinu inn um glugga húss kærenda og yfir útvistarsvæði lóðar þeirra. Með umræddri deiliskipulagsbreytingu séu borgaryfirvöld að firra sig ábyrgð á mistökum sem þau beri ábyrgð á, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 75/2012, þar sem bent hafi verið á að grenndaráhrif vegna pallanna gætu orðið veruleg og að nýtingarmöguleikar nærliggjandi lóða gætu skerst vegna hljóðvistar og yfirsýnar. Deiliskipulagsbreytingin verði því kærendum til varanlegs tjóns. Borgaryfirvöld hafi í málsmeðferð sinni fyrst og fremst gætt hagsmuna Laufásvegar 70 á kostnað hagsmuna kærenda. Vel hefði mátt hanna viðbygginguna innan marka þess deiliskipulags sem í gildi var. Þess sé krafist að nefnd deiliskipulagsbreyting verið felld úr gildi, auk þess sem viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfis vegna viðbyggingarinnar hafi á sínum tíma verið ólögmæt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsbreytingar vegna Laufásvegar 70 verði hafnað. Málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hæð pallanna sé í samræmi við teikningar. Lægri pallurinn sé 0,88 m ofan grasflatar á miðri lóð og 1,59 m yfir syðsta hluta lóðar, þar sem hún sé lægst. Hærri pallurinn sé 1,95 m yfir hæð grasflatar á miðri lóð en 2,66 m yfir lóð þar sem hún sé lægst. Hæð pallanna sé ekki óeðlileg miðað við aðstæður og telja verði skiljanlegt að húseigendur við Laufásveg vilji geta gengið úr íbúðum sínum út í garð. Sökum landhalla séu gerðir pallar og stigar. Ólíklegt sé að nágrannar verði fyrir ónæði vegna pallanna. Innsýn í garða verði ekki meiri en búast megi við í því umhverfi sem um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Smáragötureita þar sem gert er ráð fyrir tveimur pöllum á lóðinni Laufásvegi 70, sem eru þar þegar fyrir.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarfélög með vald til gerðar deiliskipulagsáætlana. Við beitingu þess valds ber m.a. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Í skipulagsvaldi sveitarfélaga felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum. Þessu valdi eru aðallega settar skorður með kröfu um samræmi við aðalskipulagsáætlanir og kröfu um lögmæta málsmeðferð sem gefi hagsmunaaðilum kost á að koma að athugasemdum áður en ákvörðun er tekin. Telji hagsmunaaðilar sig verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytinga á deiliskipulagsáætlunum raskar það ekki gildi breytinganna, en getur eftir atvikum orðið grundvöllur bótakröfu, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Tekin var ákvörðun af hálfu Reykjavíkurborgar um að fara með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu eftir ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Það fól í sér að breytingin var metin óveruleg og því væri nægjanlegt að kynna áform um hana fyrir næstu nágrönnum með grenndarkynningu. Fyrir liggur að tillagan var grenndarkynnt frá 24. september 2015, með athugasemdafresti til 22. október s.á. Grenndarkynningin náði til kærenda og komu þeir athugasemdum að innan tilskilins frests. Að lokinni grenndarkynningu var breytingatillagan samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um þær athugasemdir sem borist höfðu. Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu hinn 26. nóvember s.á. Samkvæmt framsögðu var gætt að rétti kærenda til þess að koma að athugasemdum við kynningu skipulagstillögunnar og lá efnisleg afstaða borgarráðs til þeirra fyrir við afgreiðslu málsins.

Á meðal þess sem deilt er um í málinu er hæð umræddra palla í lóðinni og þá hvort samræmi sé á milli þess sem deiliskipulag heimilar og þess hvernig pallarnir séu í raun. Í skilmálum hins breytta deiliskipulags segir að lægri pallur skuli vera í lóðarhæð eins og hún var áður, en að sá hærri sé um það bil 1,3 m hærri. Af orðalagi skilmálanna verður ráðið að miða skuli við upphaflega hæð lóðarinnar frá byggingartíma hússins árið 1927. Af upphaflegum aðaluppdráttum hússins má sjá að lóðin við suðvestur hlið hússins hefur staðið nokkru hærra en síðar varð. Kann lóðin að hafa sigið nokkuð á þeim níu áratugum sem frá er liðnir eða verið grafin niður.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki liggja fyrir þeir annmarkar á málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar sem raskað geta gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 26. nóvember 2015 um breytingu á deiliskipulagi Smáragötureita vegna Laufásvegar 70.