Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2017 Háafell – sjókvíaeldi

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2017, kæra Veiðifélags Langadalsár á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. desember 2016, er barst nefndinni 3. janúar 2017, kærir Veiðifélag Langadalsár, Ísafjarðardjúpi, ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir starfsemi Háafells ehf. vegna eldis á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski á ári í sjókvíum í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 13. febrúar 2017.

Málavextir: Með umsókn til Umhverfisstofnunar, er barst stofnuninni 25. maí 2015, sótti Háafell ehf. um starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 27. desember 2013, hafði farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og var matsskýrsla lögð fram í febrúar 2015. Álit Skipulagsstofnunar þar um er frá 1. apríl 2015.

Umhverfisstofnun auglýsti drög að starfsleyfi fyrir Háafell ehf. á tímabilinu 8. apríl til 3. júní 2016. Starfsleyfi fyrir fiskeldisfyrirtækið Háafell ehf. til reksturs sjókvíaeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi var gefið út af Umhverfisstofnun 25. október 2016. Með leyfisveitingunni var heimiluð 6.800 tonna ársframleiðsla af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðsla af þorski. Leyfið var birt á heimasíðu stofnunarinnar 23. nóvember s.á. ásamt ódagsettri greinargerð. Útgáfa starfsleyfisins var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 7. desember 2016.

Málsrök kæranda: Kæru sinni til stuðnings vísar kærandi til kæru Landssambands veiðifélaga, í máli nr. 165/2016, vegna sama starfsleyfis. Athugasemdir kæranda lúta m.a. að því að fyrirhuguð eldissvæði séu í innan við 15 km fjarlægð frá ósum Langadalsár, Hvannadalsár og Þverár, sem eigi sameiginlegan ós að sjó og séu með yfir 500 laxa meðalveiði sl. 10 ár. Það sama gildi og um Laugardalsá. Óheimilt sé því að veita starfsleyfi á svæðinu af þeim sökum, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Stofnunin vísar í greinargerð sína í máli nr. 165/2016 fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna sama starfsleyfis.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var gefinn kostur á koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar komu fram í þessu máli.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski á ári í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 5/2017, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærandi hefur  ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

49/2017 Rauðagerði – Miklubraut

Með
Árið 2017, föstudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2017, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir lagningu akreinar fyrir strætisvagna á Miklubraut, ásamt gerð göngu- og hjólastígs o.fl.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Andrés Fr. Andrésson, Rauðagerði 45, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir lagningu akreinar fyrir strætisvagna á Miklubraut, ásamt gerð göngu- og hjólastígs o.fl.

Með bréfi, dags. 22. maí 2017, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra eigendur, Rauðagerði 53, og Rauðagerði 51, Reykjavík, fyrrgreinda ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík. Verður kærumál það, sem er nr. 50/2017, sameinað máli þessu þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gild og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. maí 2017.

Málsatvik og rök: Með ódagsettu bréfi, sem móttekið var 14. mars 2016, sótti skrifstofa framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu akreinar fyrir strætisvagna á Miklubraut, gerð göngu- og hjólastígs, hljóðmanar o.fl. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. apríl s.á. var umsóknin samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. sama dag. Hinn 10. maí 2016 var framkvæmdaleyfið gefið út með tveggja ára gildistíma.

Kærendur benda á að kærur í máli þessu hafi borist innan kærufrests þar sem ekki sé liðinn mánuður frá því að framkvæmdir hafi hafist um miðjan maí 2017. Reykjavíkurborg hafi við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar gerst brotleg við reglur með margvíslegum hætti. Jafnframt sé hið kærða framkvæmdaleyfi útrunnið. Kærandi að Rauðagerði 45 telji að nýtt skjal sem leyfisveitandi hafi afhent honum, sem heiti framkvæmdaleyfi, sé í ósamræmi við eldra skjal sem honum hafi verið kynnt. Þá hafi gildistími framkvæmdaleyfisins einnig verið framlengdur um eitt ár, eða til ársins 2018, þó framkvæmdum hafi átt að ljúka á haustmánuðum ársins 2016 og gildistími framkvæmdaleyfisins að vera til 8. apríl 2017. Unnt sé að sýna fram á að allt ferlið við útgáfu leyfisins sé ólögmætt. Hvorki hafi farið verið farið eftir ákvæðum reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi né ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010.

Borgaryfirvöld benda á að af gögnum málsins megi vera ljóst að málsmeðferð við útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi verið í samræmi við kröfur 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Leyfið hafi verið gefið út svo fljótt sem unnt hafi verið og innan fjórtán daga frá greiðslu leyfisgjalda í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um afgreiðslu erinda. Samþykkt fyrir útgáfu þess hafi því verið lögum samkvæmt og leyfið sé í gildi.

Í 1. mgr. 14. gr. nefndrar reglugerðar segi að framkvæmdaleyfi falli úr gildi hafi framkvæmd ekki verið hafin innan tólf mánaða frá útgáfu þess. Framkvæmd teljist hafin þegar hreyft hafi verið við yfirborði jarðvegs á framkvæmdastað. Framkvæmdir hafi hafist hinn 5. maí 2017 þegar grafið hafi verið fyrir fráveitu og vatnstengingum vegna vinnuskúrs. Hafi þá ekki verið liðið ár frá útgáfu framkvæmdaleyfisins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, svo sem henni var breytt með 6. gr. laga nr. 59/2014, fellur framkvæmdaleyfi úr gildi hefjist framkvæmdir ekki innan tólf mánaða frá samþykki sveitarstjórnar fyrir veitingu leyfisins. Fyrir þá lagabreytingu hafði nefndur frestur miðast við útgáfu framkvæmdaleyfis. Í samþykkt nr. 1052/2015 um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013 er skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar framselt það vald að samþykkja og gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við skipulag. Er því samþykki umsóknar um framkvæmdaleyfi og útgáfa þess á hendi sama stjórnvalds í þessu tilviki.

Umsókn um hið kærða framkvæmdaleyfi var samþykkt á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. apríl 2016 og leyfið sjálft gefið út hinn 10. maí s.á. Fyrir liggur að framkvæmdir á grundvelli leyfisins hófust ekki innan tólf mánaða frá samþykki leyfisumsóknarinnar. Verður því að telja að framkvæmdaleyfið sé fallið úr gildi skv. 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hins kærða framkvæmdaleyfis. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

165/2016 Háafell – sjókvíaeldi

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 165/2016, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2016, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Landssamband veiðifélaga, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 að veita starfsleyfi fyrir starfsemi Háafells ehf. til ársframleiðslu á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 13. febrúar 2017.

Málavextir: Með umsókn til Umhverfisstofnunar, er barst stofnuninni 25. maí 2015, sótti Háafell ehf. um starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 27. desember 2013, fór fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og var matsskýrsla lögð fram í febrúar 2015, ásamt greinargerð. Álit Skipulagsstofnunar þar um er frá 1. apríl 2015.

Umhverfisstofnun auglýsti drög að starfsleyfi fyrir Háafell ehf. á tímabilinu 8. apríl til 3. júní 2016. Starfsleyfi fyrir fiskeldisfyrirtækið Háafell ehf. til reksturs sjókvíaeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi var gefið út af Umhverfisstofnun 25. október 2016. Með leyfisveitingunni var heimiluð 6.800 tonna ársframleiðsla af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðsla af þorski. Leyfið var birt á heimasíðu stofnunarinnar 23. nóvember s.á. Útgáfa starfsleyfisins var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 7. desember 2016.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að Umhverfisstofnun hafi ekki heimildir að lögum til að víkja frá skýru orðalagi reglugerðar nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og löndun laxastofna, um að við leyfisveitingar skuli miða við að sjókvíaeldisstöðvar skuli ekki vera nær laxveiðiám en 15 km ef um er að ræða 500 laxa meðalveiði í á eða meira. Undanskilið sé ef notaðir séu stofnar af nærliggjandi svæðum eða geldstofnar í eldinu.

Í greinargerð Umhverfisstofnunar með hinu kærða starfsleyfi sé vísað í skýrslur Veiðimálastofnunar og til þess að meðalársveiði í tveimur veiðiám, þ.e. Langadalsá og Hvannadalsá, sé 503 laxar. Umhverfisstofnun hafi borið að rökstyðja að orðalag gr. 4.2. í reglugerðinni tæki aðeins til þeirra tveggja veiðivatna sem nefnd séu í greinargerðinni en ekki til annarra veiðivatna, sem þó séu innan friðunarsvæðis þess sem mælt sé fyrir um í ákvæðinu.

Kærandi telji að Umhverfisstofnun sé skylt að fara eftir fyrirmælum laga um náttúruvernd við ákvarðanir sínar. Í II. kafla náttúruverndarlaga nr. 60/2013 sé kveðið á um meginreglur og sjónarmið er stjórnvöld skuli taka mið af við töku ákvarðana. Kærandi vísi þar sérstaklega til 8. gr., um vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku, og enn fremur til varúðarreglu 9. gr.

Að lokum verði ekki séð að Umhverfisstofnun hafi gætt andmælaréttar kæranda samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 þegar stofnunin hafi tekið ákvörðun um sérstaka túlkun gr. 4.2. í reglugerð nr. 105/2000.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að til að reka fiskeldi þurfi bæði að hafa til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun. Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi vegna eldis sjávar- og ferskvatnslífvera á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það sé nánar útfært í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Þá sé fjallað um aðkomu stofnunarinnar við útgáfu starfsleyfa í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, en stjórnsýsla samkvæmt þeim lögum fjalli um rekstrarleyfi og falli undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Matvælastofnun. Í lögum um fiskeldi segi að gæta skuli samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, sem heyri undir það sama ráðuneyti.

Viðfangsefni starfsleyfa fyrir mengandi starfsemi sé einkum að fjalla um mögulega mengun frá atvinnurekstri, setja losunarmörk vegna mengunar og verklagsreglur í samræmi við viðkomandi lög og reglugerðir og draga með því úr áhrifum þeirrar mengunar sem óhjákvæmilega verði vegna mengandi atvinnustarfsemi, með það að markmiði að tryggja mengunarvarnir með sjálfbærni að leiðarljósi. Starfsleyfin séu því almennt gefin út til að koma í veg fyrir mengun af völdum atvinnurekstrar og setja rekstraraðilanum skilyrði og kröfur sem hann eigi að viðhafa í sínum rekstri.

Kærandi haldi því fram að Umhverfisstofnun hafi ekki gætt að lagaskyldum sínum samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 60/2013 við töku hinnar kærðu ákvörðunar og vísi þar einkum til 8. gr. laganna. Þessu hafni stofnunin. Þær meginreglur sem skrifaðar hafi verið í II. kafla náttúruverndarlaga hafi að geyma leiðarljós sem stjórnvöldum beri að taka almennt mið af við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana. Að baki séu einnig óskráðar meginreglur umhverfisréttar. Vert sé að benda á í því samhengi að ekki hafi verið sett sértæk viðmið um málsmeðferð ákvarðana varðandi framkvæmd nefndra meginreglna.

Starfsleyfistillagan hafi verið auglýst opinberlega og með tryggum hætti, sbr. lög nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999. Umhverfisstofnun hafni því að hafa ekki gætt andmælaréttar varðandi útgáfu starfsleyfis.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig en nýtti sér ekki þann möguleika í máli þessu.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski á ári í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 5/2017, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærandi hefur ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon
 

163/2016 Brautarholt Kjalarnes

Með
Árið 2017, mánudaginn 12. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 163/2016, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 8. nóvember 2016 um að gefa út starfsleyfi til reksturs alifuglabús í Brautarholti 5 á Kjalarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. desember 2016, er barst nefndinni 6. s.m., kærir A, Brautarholti 1, Kjalarnesi, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 8. nóvember 2016 að gefa út starfsleyfi til reksturs alifuglabús í Brautarholti 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. desember 2016.

Málavextir: Jörðinni Brautarholti á Kjalarnesi var á sínum tíma skipt í tvo hluta, Brautarholt 1 og Brautarholt 2. Nokkrar lóðir voru stofnaðar úr Brautarholti 2, þar á meðal Brautarholt 5 og 10. Hluti Brautarholts 1 er skilgreindur sem íþróttasvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, en að öðru leyti er svæðið skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Kærandi er eigandi Brautarholts 1 og hefur hann byggt upp golfskála og níu holu golfvöll á skilgreindu íþróttasvæði á landspildu sinni. Eru áform um að stækka völlinn í 18 holur samkvæmt samþykktu skipulagi. Í Brautarholti 5 og 10 var starfrækt svínaeldi til margra ára, en þeim rekstri var þó hætt að Brautarholti 5 árið 2010.

Hinn 19. nóvember 2014 var sótt um starfsleyfi fyrir rekstri alifuglabús í Brautarholti 5. Umsókninni fylgdi undanþága umhverfis- og auðlindaráðuneytisins frá 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Var vísað til þess að umrætt svæði væri landbúnaðarsvæði, svínabú hefði verið í umræddum húsum áður og fyrirhugað væri að fara í eggjaframleiðslu og hugsanlega alifuglarækt, þar sem gerðar yrðu kröfur í starfsleyfi um mengunarvarnir, m.a. til þess að lágmarka lyktarmengun. Sótt var að nýju um starfsleyfi fyrir alifuglabúi til heilbrigðisnefndar Reykjavíkur með bréfi, dags. 2. september 2015, en þá hafði tekið gildi ný reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína og framangreint ákvæði 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 því ekki lengur í gildi. Var umsóknin einskorðuð við eggjaframleiðslu með allt að 35.550 hænum og hænuungum. Leyfishafi tilkynnti Skipulagsstofnun hinn 29. janúar 2016 um fyrirhugaðan rekstur samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 1.10 í 1. viðauka laganna. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar kom fram að ekki verði greinanlegur munur á dreifingu lyktarónæðis vegna samlegðar fyrirhugaðrar starfsemi leyfishafa með núverandi starfsemi svínabúsins. Þá taldi stofnunin að fyrirhugað alifuglabú væri ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa, og því skyldi hún ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 8. nóvember 2016 var samþykkt útgáfa á starfsleyfi til leyfishafa fyrir eggjaframleiðslu, eldi á allt að 15.000 hænuungum og 20.550 varphænum, eða alls 35.550 eldisstæði, í Brautarholti 5. Tilkynning um veitingu leyfisins barst kæranda 21. s.m. og samdægurs bárust honum svör við athugasemdum sem hann hafði sett fram á meðan drög starfsleyfisins voru í kynningu.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að samkvæmt gr. 9.1 í reglugerð nr. 785/1999 skuli heilbrigðisnefnd vinna tillögur að starfsleyfum og gefa þau út. Við gerð tillögu skuli heilbrigðisnefnd leita umsagna, eftir því sem við eigi hverju sinni, frá nánar tilgreindum aðilum, sbr. gr. 9.2. í reglugerðinni. Samkvæmt gr. 9.3 skuli liggja fyrir rökstutt álit viðkomandi heilbrigðiseftirlits á áhrifum hugsanlegrar mengunar á umhverfið áður en leitað sé umsagna samkvæmt gr. 9.2.

Heilbrigðiseftirlitið hafi sent umsókn leyfishafa ásamt drögum að starfsleyfi til umsagnaraðila hinn 18. september 2015 og veitt frest til 5. október s.á. Kærandi telji að þá hafi ekki legið fyrir neitt rökstutt álit samkvæmt gr. 9.3. reglugerðarinnar. Kærandi telji sig hafa góða ástæðu til að ætla að slíkt rökstutt álit hafi ekki verið samið fyrr en daginn fyrir fund með sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og yfirlögfræðings heilbrigðiseftirlitsins hinn 13. október, eða hugsanlega einum til tveimur dögum áður. Þetta rökstudda álit hafi borist lögmanni kæranda kl. 13:30 hinn 13. október, ódagsett og óundirritað.

Kærandi telji að heilbrigðisyfirvöld hafi við meðferð umsóknar leyfishafa á ýmsan annan hátt brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Með umsókn um starfsleyfi hafi fylgt skýrsla frá verkfræðistofu, þar sem leitast hafi verið við að sýna fram á að óveruleg mengun hlytist af rekstri alifuglabús að Brautarholti 5. Skýrslan og útreikningar í henni hafi byggst að hluta til á tölulegum gildum frá umsækjandanum sjálfum, auk þess sem fengin hafi verið töluleg gildi úr danskri skýrslu. Kærandi telji, að við nánari skoðun hafi komið í ljós að hin uppgefnu tölulegu gildi, sem niðurstöður skýrslunnar hafi stuðst við, hafi verið verulega umdeilanleg, ef ekki beinlínis röng. Heilbrigðiseftirlitið hafi sent annarri verkfræðistofu skýrsluna og óskað eftir yfirferð á henni og minnisblaði um lyktardreifingu við Brautarholt. Samkvæmt sérstökum rökstuðningi heilbrigðiseftirlitsins fyrir veitingu starfsleyfisins hafi því verið haldið fram að niðurstaða skoðunar þessarar verkfræðistofu hafi verið sú að aðferðarfræði og útreikningar skýrslunnar fyrir mati á lyktardreifingu væru í lagi. Kærandi telji það ekki rétt. Í minnisblaði verkfræðistofunnar sem farið hafi yfir skýrsluna komi fram að notast hafi verið við aðferðir sem hafi ekki verið sérstaklega lagaðar að aðstæðum hér á landi.

Kærandi bendi á að samkvæmt reglugerð nr. 520/2015 yrði svínabú af sömu stærð og búið að Brautarholti 10 að vera í rétt tæplega eins km fjarlægð frá íbúðarhúsi hans. Sú mengun sem þegar berist frá Brautarholti 10 sé gríðarlega mikil og miklu meiri en hann eigi að þurfa að þola. Kærandi telji ekkert svigrúm vera fyrir viðbótarmengun frá alifuglabúi, hvort sem heildarmengunin á svæðinu yrði 13 eða 25%, eða jafnvel meiri en sú sem nú sé frá svínabúinu. Kærandi bendi á að samkvæmt greinargerð heilbrigðiseftirlitsins frá 2. október 2013 hafi umsókn um að fá að halda 4.000-4.500 dýr í Brautarholti 10 verið hafnað. Starfsleyfið hafi verið takmarkað við 4.000 dýr, enda færi lyktarónæði ella yfir mörk starfsleyfis við íbúðarhús kæranda og inn á hluta golfvallarins.

Rekið hafi verið svínabú í Brautarholti 5 á undanþágu samkvæmt þágildandi 4. mgr. 24. gr. hollustureglugerðar nr. 941/2002. Vegna mengunar hafi þeirri starfsemi verið hætt á árinu 2010 eða 2011. Hafi starfsleyfið þá fallið niður og jafnframt undanþágan til slíks reksturs. Kærandi sé algjörlega ósammála heilbrigðiseftirlitinu um það að með útgáfu leyfis til reksturs alifuglabús sé ekki verið að breyta í neinum grundvallaratriðum notkun húsanna. Þá telji kærandi að túlka verði reglugerð nr. 520/2015 með hliðsjón af meginmarkmiði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, enda sé reglugerðin sett á grundvelli þeirra. Þá sé ekki hægt að fallast á þá túlkun heilbrigðiseftirlitsins að engin fjarlægðarmörk séu fyrir alifuglabú með færri en 40.000 fuglum. Kærandi telji að skilja beri 2. og 6. gr. reglugerðarinnar svo að sveitarfélögum sé skylt að setja fjarlægðarmörk í skipulagsákvarðanir sínar, nánar tiltekið aðalskipulag, fyrir öll þauleldisbú, sama hver stærðin sé. Að mati kæranda sé óumdeilt að svínabú og alifuglabú séu matvælafyrirtæki. Heilbrigðiseftirlitið haldi því fram að augljóst sé að reglugerðargjafinn hafi haft það að leiðarljósi að fjarlægðarkröfur 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015 tækju ekki til mannvirkja og starfsemi sem þegar hafi verið til staðar. Kærandi undrist þessa röksemdarfærslu. Það segi beinlínis í texta 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar að „við meiriháttar breytingu eða stækkanir á eldishúsum og breytta notkun í eldishús, sem valdið geta óþægindum umfram það sem fyrir er“ skuli gilda að lágmarki tilgreindar fjarlægðir við matvælafyrirtæki.

Heilbrigðiseftirlitið haldi því fram að á þessum stað sé fyrir mengandi starfsemi og að þeirri forsendu genginni, að mengun eftir breytingar verði ekki meiri en fyrir hafi verið, sé ekki um neina skerðingu að ræða. Kærandi skilji þessi ummæli svo að heilbrigðiseftirlitið sé að vísa til svínabúsins að Brautarholti 10. Kærandi telji að eftirlitið gefi sér ranga forsendu til þess að vinna út frá. Mengun á svæðinu verði umtalsvert meiri en eingöngu sé nú frá svínabúinu að Brautarholti. Þá geti ekki hafa verið til staðar réttur til þessarar hagnýtingar á þeirri forsendu að þarna hafi áður verið rekstur. Enginn rekstur eða undanþága til þauleldisreksturs hafi verið við Brautarholt 5 síðast liðin fimm til sex ár.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Heilbrigðiseftirlitið tekur fram að í málavaxtalýsingu kæranda sé spyrt saman tveimur óskyldum starfsleyfum. Annars vegar hinu kærða starfsleyfi til reksturs eggjaframleiðslu í Brautarholti 5, og hins vegar núgildandi starfsleyfi til reksturs svínabús fyrir 4.000 dýr í Brautarholti 10 frá árinu 2013. Þá vilji heilbrigðiseftirlitið leiðrétta mögulegan misskilning hvað varði veitta undanþágu frá fjarlægðarmörkum gagnvart næstu atvinnustarfsemi eða næstu íbúðarhúsum. Leyfishafi hafi hinn 12. febrúar 2014 sótt um undanþágu frá 500 m fjarlægðarmörkum fyrir starfsemi alifuglabús í Brautarholti 5 gagnvart öðrum matvælafyrirtækjum, vinnustöðum og íbúðarhúsum í nágrenninu, sbr. 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Ráðuneytið hafi veitt þá undanþágu 2. maí 2014, að teknu tilliti til umsagna Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlitsins. Vegna breyttra forsendna hafi leyfishafi sótt aftur um undanþágu hinn 19. febrúar 2015. Þeirri beiðni hafi verið hafnað 5. október s.á. við niðurfellingu framangreinds ákvæðis reglugerðar um hollustuhætti. Samtímis hafi tekið gildi reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína þar sem ekki hafi verið sett fjarlægðarmörk vegna reksturs alifuglabúa sem séu með færri en 40.000 eldisstæði.

Í kæru sé færð fram sú málsástæða að heilbrigðiseftirlitið hafi við málsmeðferð umsóknar um starfsleyfi ekki farið að ákvæðum 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Ein málsástæðan sé sú að stofnunin hafi við meðferð umsóknarinnar brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu stjórnvalds í aðdraganda stjórnvaldsákvörðunar. Þessari málsástæðu sé hafnað sem rangri. Við meðferð umsóknarinnar hafi verið leitað eftir sjónarmiðum þeirra aðila sem þekkingu hafi á starfseminni til þess að tryggja að ákvörðun í málinu yrði byggð á fullnægjandi rannsókn. Þá sé það ekki rétt að ekki hafi verið leitað umsagnar sömu aðila að nýju eftir að umsóknin og drögin að starfsleyfi hafi verið auglýst aftur. Það sé í samræmi við gr. 9.2. í reglugerð nr. 785/1999 að heilbrigðisnefnd skuli „leita umsagnar, eftir því sem við á hverju sinni“. Ný drög hafi verið uppfærð í samræmi við athugasemdir sömu umsagnaraðila við fyrri drög að starfsleyfi og því hafi heilbrigðisnefndin talið að ný umsagnarbeiðni ætti ekki við í það sinn.

Í gr. 25.1 í reglugerð nr. 785/1999 segi að útgefandi starfsleyfis skuli tilkynna þeim sem hafi gert athugasemdir við auglýsingu starfsleyfis um ákvörðun sína. Hvergi sé minnst á það að eftir auglýsingu skuli umsagnaraðilum, sem jafnframt hafi gert athugasemdir á auglýsingartíma, gefinn kostur á að koma að frekari andmælum. Að mati heilbrigðiseftirlitsins sé málsmeðferð í samræmi við þær kröfur sem fram komi í reglugerð nr. 785/1999.

Því sé einnig hafnað að rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið sinnt að því er varði skýrslu verkfræðistofu um lyktarmengun. Athugasemdir kæranda hafi verið teknar til efnislegrar skoðunar og til að tryggja að rannsókn málsins væri fullnægjandi hafi heilbrigðiseftirlitið aflað umsagnar óháðs ráðgjafafyrirtækis um skýrsluna. Þá sé bent á að hvorki lög nr. 7/1998 né reglugerð nr. 785/1999 tilgreini nokkur viðmið við mat á lyktardreifingu. Sé það undir viðkomandi stjórnvaldi komið að meta það á grundvelli hlutlægra og málefnalegra sjónarmiða.

Í kæru segi að gyltubú í Brautarholti 5 hafi verið rekið á undanþágu skv. 4. mgr. 24. gr. hollustuháttareglugerðar nr. 941/2002 og að starfsemi hafi verið hætt á árunum 2010-2011 vegna mengunar. Hér sé um misskilning að ræða, en árið 1998 hafi heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis veitt undanþágu frá 3. mgr. 137. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 á grundvelli 1. mgr. 158. gr. sömu reglugerðar fyrir byggingu nýs svínahúss í Brautarholti 10. Þáverandi rekstraraðilar hafi því fengið að reisa nýja húsið í innan við 500 m fjarlægð frá íbúðarhúsi föður kæranda, sem mótmælt hafði byggingu þess á þeim stað. Eldra húsið, nr. 5, hafi verið reist fyrir gildistöku reglugerðarinnar og því ekki þurft undanþágu. Rekstri gyltubús hafi verið hætt í húsinu nr. 5 í Brautarholti árið 2011 og hafi það verið rekstrarleg ákvörðun. Engin krafa hafi verið um að rekstrinum skyldi hætt vegna mengunar.

Fyrir liggi að leyfishafi muni hafa aðgang að túnum í Brautarholti er fylgi þeim eignum sem hann sé að yfirtaka. Auk þess verði gerðir samningar við aðra aðila um dreifingu á skít, eftir því sem þurfi. Því sé til staðar farvegur fyrir þennan úrgang frá búinu. Gerðar verði sambærilegar kröfur til alifuglabúsins og til annarra starfandi alifuglabúa. Umsækjandi hafi skilað inn upplýsingum um hvernig búið muni uppfylla BAT-kröfur (besta fáanlega tækni) fyrir þennan atvinnurekstur. Sé þar um að ræða búnað sem tilgreindur sé í „BAT reference“ skjali Evrópusambandsins fyrir þessa gerð atvinnurekstrar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að útgáfa starfsleyfis sé háð ströngu eftirliti opinberra stofnana og í því ferli hafi kæranda ítrekað verið gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum. Hafi sömu athugasemdir og fram komi í kæru oft verið settar fram áður, ítarlega hafi verið farið yfir þær og þeim hafnað með rökum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur það vera misskilning hjá heilbrigðiseftirlitinu að hann sé að kæra starfsleyfi fyrir rekstri svínabús í Brautarholti 10. Hins vegar telji kærandi að óhjákvæmilegt sé að taka tillit til þess að mikil mengun stafi frá svínabúinu sem sé aðeins í 100 m fjarlægð frá Brautarholti 5 og í um 300 m fjarlægð frá íbúðarhúsi kæranda. Telja verði að ákvæðin í gr. 9.2 og 9.3 í reglugerð nr. 785/1999 verði ekki skilin öðruvísi en svo að viðkomandi heilbrigðiseftirliti beri að útbúa rökstutt álit sem senda skuli umsagnaraðila. Rökstutt álit heilbrigðiseftirlits, sem liggi þar ofan í skúffu, sé gagnslaust og hafi enga þýðingu fyrir málsmeðferð. Auk framangreinds megi benda á að heilbrigðiseftirlitið hafi einungis sent drög að starfsleyfi til umsagnaraðila. Hvorki starfsleyfisumsóknin né fylgigögn með henni eða önnur gögn hafi fylgt umsagnarbeiðninni. Telja verði það til góðra stjórnsýsluhátta að kynna umsagnaraðilum, svo sem kostur sé, það stjórnsýsluerindi sem til meðferðar sé og fylgigögn þess. heilbrigðiseftirlitið hafi ekki farið að málsmeðferðarreglum við afgreiðslu leyfisins og beri því að ógilda það.

Kærandi ítreki það sem áður hafi komið fram af hans hálfu um skýrslur verkfræðistofanna um lyktardreifingu og hann telji að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni við málsmeðferð umsóknarinnar. Sérstaklega skuli áréttað að kærandi telji að seinni skýrslan feli hvergi nærri í sér þá niðurstöðu sem heilbrigðiseftirlitið haldi fram.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun um útgáfu starfsleyfis til reksturs alifuglabús að Brautarholti 5, sem kærandi telur að valda muni aukinni lyktarmengun á landi hans. Jafnfram er deilt um lögmæti málsmeðferðar ákvörðunarinnar.

Samkvæmt 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun er nr. 785/1999. Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum slíks atvinnurekstrar, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Í fylgiskjali 2 með reglugerðinni er talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi fyrir, þ. á m. er alifuglarækt, sbr. gr. 6.2. Heilbrigðisnefnd er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber nefndinni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Í 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999 koma fram reglur um málsmeðferð fyrir útgáfu starfsleyfa af hálfu heilbrigðisnefnda. Í gr. 9.2. kemur fram að við gerð tillögu að starfsleyfi skuli heilbrigðisnefnd leita umsagna tilgreindra aðila, eftir því sem við á hverju sinni. Við málsmeðferð umsóknar leyfishafa var óskað umsagna frá Umhverfisstofnun og Félagi eggjaframleiðenda. Þá liggur fyrir rökstutt álit frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur á áhrifum fyrirhugaðs reksturs á umhverfið, skv. gr. 9.3. í reglugerðinni. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að málsmeðferð við útgáfu starfsleyfisins hafi verið í samræmi við framangreinda reglugerð og ekki eru til staðar þeir hnökrar á málsmeðferðinni sem leiða ættu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína skal við nýbyggingu, meiri háttar breytingar, stækkanir á eldishúsum eða breytta notkun í eldishús, sem geta valdið óþægindum umfram það sem fyrir er, gæta þess að fjarlægð milli eldishúss alifuglaeldis og annarra matvælafyrirtækja verði að lágmarki 300 m. Á svæðinu sem um ræðir er þegar staðsett hús til þauleldis svína og hafði áður verið starfrækt svínaeldi í Brautarholti 5. Í ljósi þessa verður að telja hina kærðu breytingu á notkun hússins óverulega. Fellur hún því ekki undir framangreint reglugerðarákvæði. Þá er starfsleyfið í samræmi við deiliskipulag svæðisins, sem staðfest var með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 136/2016 uppkveðnum fyrr í dag.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar frá 8. nóvember 2016 um að samþykkja starfsleyfi til reksturs alifuglabús í Brautarholti 5, Kjalarnesi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

67/2015 Hverfisgata 16 og 16A

Með
Árið 2017, föstudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson  varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2015, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júní 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.171.0 vegna lóðanna nr. 16 og 16A við Hverfisgötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2015, er barst nefndinni 20. s.m., kæra A og B, Hverfisgötu 16A, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júní 2015 að breyta deiliskipulagi vegna lóðanna nr. 16 og 16A við Hverfisgötu. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. júlí s.á. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kærendum verði úrskurðaður hæfilegur málskostnaður úr hendi Reykjavíkurborgar, sé lagaheimild til þess.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. október 2015.

Málavextir: Lóðinni Hverfisgötu 16 var skipt upp í tvær lóðir, nr. 16 og 16A, á árinu 1926 og var Hverfisgata 16A seld samkvæmt afsali sem þinglýst var hinn 6. október 1927. Í því afsali er yfirlýsing afsalsgjafa um að hann heimili eiganda Hverfisgötu 16A „um aldur og ævi frjálsan og óhindraðan umgang um lóðina nr. 16 við Hverfisgötu“. Í afsali fyrir fasteigninni Hverfisgötu 16, sem þinglýst var 16. júní 1928, er umferðarkvaðar um lóðina getið með eftirfarandi orðum: „Á ganginum austan við húsið hvílir umferðarréttur að pakkhúsunum fyrir ofan lóðina.“

Hinn 10. apríl 2015 samþykkti skipulagsfulltrúi tillögu umhverfis- og skipulagssviðs um að grenndarkynna breytingu á gildandi deiliskipulagi reitsins frá árinu 2003 vegna lóðanna nr. 16 og 16A við Hverfisgötu. Fólst breytingin í því að sett var á deiliskipulagsuppdrátt kvöð um aðkomu um lóðina Hverfisgötu 16 að bakhlið hússins að Hverfisgötu 16A. Tillagan var grenndarkynnt frá 16. apríl til og með 14. maí 2015 og bárust athugasemdir frá kærendum og eigendum fasteignarinnar að Hverfisgötu 16. Að lokinni grenndarkynningu var málið á dagskrá skipulagsráðs 10. júní 2015 og lá þá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. s.m., með tillögu að svörum við framkomnum athugasemdum. Samþykkti ráðið breytingartillöguna með skírskotun til greindrar umsagnar og vísaði málinu til borgarráðs, sem samþykkti umrædda skipulagsbreytingu hinn 18. júní s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að borgaryfirvöld hafi heimildarlaust skert þinglýst eignarréttindi þeirra, sem felist í kvöð um ævilangan óhindraðan umgang um lóðina Hverfisgötu 16, en sú lóð og lóð kærenda séu eignarlóðir. Með hinni kærðu ákvörðun sé umferðarrétti kærenda settar skorður með því að gönguleið sé sett á allt annan stað en verið hafi í framkvæmd allt frá árinu 1927. Sátt hafi verið um 88 ára skeið um að gönguleið á baklóð Hverfisgötu 16 og 16A sé sameiginleg meðfram bakhlið hússins að Hverfisgötu 16, en Hverfisgata 16A hafi verið í eigu fjölskyldu kærenda mestan þann tíma. Fyrir löngu sé komin hefð á þá tilhögun. Umdeild deiliskipulagsbreyting marki hins vegar gönguleiðina þar sem hún hafi aldrei áður verið, enda hafi lengst af verið þar skúrbygging. Með breytingunni sé verið að gera hlut kærenda sem allra verstan til hagsbóta fyrir eigendur Hverfisgötu 16 með því að gera gönguleið að húsi kærenda eins langa og torfæra og framast sé unnt. Með þessu sé stjórnarskrárvörðum eignaréttindum kærenda raskað án beinnar lagaheimildar og jafnframt um að ræða valdþurrð borgaryfirvalda í málinu.

Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar af hálfu skipulagsyfirvalda hafi ekki verið í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar. Kastað hafi verið til höndum við rannsókn málsins og því farið á svig við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meðal annars hafi þurft að endurtaka skipulagsferlið þar sem ekki hafi uppgötvast fyrr en seint og um síðir að til staðar væri þinglýst kvöð. Þá hafi ekki verið gætt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Við ákvörðun á gangvegi kærenda hafi verið valin lengsta möguleg leið meðfram ystu mörkum lóðarinnar Hverfisgötu 16 í stað þess að halda áfram að nýta þann stutta hellulagða gangveg sem notaður hafi verið af íbúum beggja lóða í fullri sátt í nærfellt 90 ár. Breytingin feli jafnframt í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, þar sem breytingin sé á kostnað kærenda en til hagsbóta fyrir eigendur Hverfisgötu 16. Kærendur hafi beint kröfum til skipulagsyfirvalda um leiðréttingu, eða eftir atvikum afturköllun, umræddrar ákvörðunar með hliðsjón af 23. og 25. gr. stjórnsýslulaga, en þeim kröfum hafi í engu verið sinnt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ástæða breytingarinnar hafi verið sú að við breytingu á skipulagi umrædds skipulagsreits á árinu 2003 hafi umrædd kvöð fallið brott af uppdrætti. Breytingin feli einungis í sér að tákn um kvöð séu sett inn á skipulagsuppdrátt en ekki sé með því verið að ákvarða útfærslu hennar. Táknin merki einungis að kvöð sé til staðar sem eigendur Hverfisgötu 16A geti nýtt sér. Það sé ekki í höndum skipulagsyfirvalda að útfæra kvöðina nánar, enda umræddar lóðir í einkaeign, heldur eigenda nefndra lóða með samkomulagi sín á milli.

——
 
Eigendum fasteignarinnar að Hverfisgötu 16 var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við úrskurðarnefndina í tilefni af kærumáli þessu en þeir hafa ekki nýtt sér það.

Niðurstaða: Óumdeilt er að kærendur eiga umferðarrétt um lóðina Hverfisgötu 16, að bakhlið hússins að Hverfisgötu 16A, og styðst sá réttur við þinglýst afsöl vegna nefndra fasteigna frá þriðja áratug síðustu aldar. Hins vegar verður afmörkun umferðarleiðar um lóðina Hverfisgötu 16 ekki ráðin með ótvíræðum hætti af þeim afsölum. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. júní 2015, sem lögð var fram að lokinni grenndarkynningu umdeildrar deiliskipulagsbreytingar, kemur fram að kærendur hafi haft samband við skipulagsyfirvöld með ósk um að hin þinglýsta umferðarkvöð yrði færð inn á skipulagsuppdrátt. Það hafi verið gert með breytingunni í samræmi við mæliblað reits 1.171.0 frá 21. janúar 1987, síðast breytt 15. apríl 1994, sem sýni aðkomu og hvar hún liggi. Ekki liggur fyrir í málinu hver aðdragandi var að gerð nefnds mæliblaðs og hvort eigendur nefndra lóða hafi þar verið hafðir með í ráðum.

Við kynningu hinnar umdeildu breytingartillögunnar gerðu bæði kærendur og eigendur lóðarinnar Hverfisgötu 16 athugasemdir við efni hennar. Bera þær athugasemdir með sér að ekki sé einhugur meðal þeirra um túlkun á efni umferðarkvaðarinnar, en hin kærða ákvörðun laut einungis að því að færa þá kvöð inn á skipulagsuppdrátt. Engu að síður samþykktu skipulagsyfirvöld tillöguna óbreytta, þar sem umferðarleið er sýnd á uppdrætti með ákveðnum hætti við lóðarmörk Hverfisgötu 16 að húsi kærenda.

Í skipulagslögum nr. 123/2010 er gert ráð fyrir að í deiliskipulagi megi leggja kvaðir á lóðir, svo sem um umferðarrétt, sbr. 20. tl. 2. gr. og 3. mgr. 45. gr. laganna. Slíkar kvaðir verða þó ekki lagðar á eiganda eða rétthafa lands eða lóðar nema á grundvelli samnings eða eftir atvikum að undangengnu eignarnámi skv. 50., 51. og 51. gr. a í skipulagslögum. Sú afmörkun umræddrar kvaðar sem sett var í skipulag með hinni kærðu ákvörðun og telja verður bindandi á hvorki stoð í þinglýstum heimildum, samningi né eignarnámi.

Eins og atvikum var háttað, og að teknu tilliti til framkominna athugasemda beggja lóðarhafa sem ákvörðunin snerti, var borgaryfirvöldum óheimilt að afmarka umrædda kvöð með þeim hætti sem gert var með umdeildri deiliskipulagsbreytingu.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Ekki er fyrir hendi heimild í lögum fyrir úrskurðarnefndina til að ákvarða greiðslu málskostnaðar til handa aðilum máls og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júní 2015 um að breyta deiliskipulagi staðgreinireits 1.171.0 vegna lóðanna nr. 16 og 16A við Hverfisgötu í Reykjavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

________________________________              ________________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson

 

11/2017 Sel-Hótel

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 20. september 2014 um að samþykkja leyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn, Skútustaðahreppi.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 20. september 2014 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn. Er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Jafnframt er þess krafist að skolphreinsibúnaður, sem tengdur á að vera hóteli, sæti mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Til vara er gerð krafa um að framkvæmdaraðila verði gert að tilkynna framkvæmdina til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. sömu laga. Einnig er þess krafist að ákveðið verði að Umhverfisstofnun skuli fjalla um leyfi fyrir skolphreinsibúnaðinum í samræmi við ákvæði laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Enn fremur að lagt verði fyrir framkvæmdaraðila að skolp „muni undirgangast 100% hreinsun fosfórs og niturs“, eða þannig að sýnt sé fram á að engin næringarefni berist með tímanum í Mývatn.

Loks er þess krafist að réttaráhrifum verði frestað og að skolpi frá hótelinu verði ekið út af verndarsvæðinu á viðurkenndan urðunarstað meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til efnislegrar úrlausnar og verður ekki tekin sérstök afstaða til kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Skútustaðahreppi 20. janúar og 28. apríl 2017. 

Málavextir: Deiliskipulag fyrir Sel-Hótel Mývatn í Skútustaðahreppi tók gildi á árinu 2014. Nær skipulagssvæðið yfir landsvæði í eigu Skútustaða 2 og gerir skipulagið m.a. ráð fyrir stækkun á byggingarreit núverandi hótels og verslunar. Hinn 20. september s.á. samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn, austan og sunnan við núverandi byggingu. Fyrir stækkun hótelsins var fjöldi herbergja 35 en varð 58 eftir stækkun þess. 

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að mál þetta fjalli um leyfi fyrir viðbyggingu eða endurbyggingu hótels nálægt vatnsbakka Mývatns, sem veitt hafi verið án þess að frárennslismál hótelsins væru í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Ákvarðanir um að heimila endurbyggingu hótelsins hafi ekki verið kynntar, birtar opinberlega eða gerðar aðgengilegar almenningi á opnu vefsvæði. Innan við mánuður sé síðan kæranda hafi orðið kunnugt um að veitt hefði verið leyfi fyrir endurbyggingu hótelsins. Kæran sé því sett fram innan kærufrests.

Skilja verði umrætt byggingarleyfi svo að það hafi falið í sér heimild til að reisa skolphreinsun. Skolphreinsistöðvar á verndarsvæðum hafi verið tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr., sbr. þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Því beri að skoða alla framkvæmdina í ljósi kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þrátt fyrir að hótel í dreifbýli hafi fyrst orðið tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000, með breytingarlögum nr. 138/2014. Framkvæmdin hafi ekki verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar. Hafi byggingarfulltrúa verið óheimilt að gefa út byggingarleyfi nema álit stofnunarinnar á matsskýrslu eða ákvörðun hennar um matsskyldu skolphreinsibúnaðar lægi fyrir, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þá hafi rekstraraðila hótelsins borið að leita sérfræðiálits skv. 5. mgr. 13. gr. sömu laga, en það hafi ekki verið gert.

Óheimilt sé að byggja á landsvæði er njóti verndar skv. lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nema í undantekningartilvikum, og þá með sérstakri undanþágu eða leyfi Umhverfisstofnunar. Engin slík undanþága eða leyfi liggi fyrir. Hótelbyggingin sjálf sé undirorpin byggingarbanni skv. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður- Þingeyjarsýslu, svo sem hún verði skýrð.

Ekki hafi verið sýnt fram á að skolphreinsibúnaður sé til staðar sem uppfylli skilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla, sbr. og verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá 2011-2016. Verði að gera þær kröfur þegar um sé að ræða innlent og alþjóðlegt verndarsvæði, svo sem hér um ræði, að gerð sé grein fyrir þessu. Sé í þessu sambandi vísað til 2. og 3. gr. laga nr. 97/2004 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Skútustaðahrepps: Sveitarfélagið krefst þess að öllum kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella hafnað. Byggist krafa um frávísun á því að kæra sé of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ósannað sé og óútskýrt að kærandi hafi ekki haft vitneskju um málið fyrr en í janúar 2017. Í Landvernd séu 4.900 félagar að sögn kæranda. Það sé því ótrúverðugt að samtökunum hafi ekki mátt vera kunnugt um byggingarframkvæmdir í tvö og hálft ár. Þá sé að öðru leyti vísað til eðlis rekstrarins, opinberrar umfjöllunar um hann og auglýsingar um starfsemina, sem og eðlis máls um að undanþága frá mánaðar kærufresti eigi ekki við.

Dregið sé í efa að skolphreinsivirki, með engan vélrænan búnað, sem þjónusti stakar byggingar, teljist skolphreinsistöð í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Takmarkist kæruheimild hans við ákvarðanir sem falli undir þau lög í þeim skilningi að ákvörðun taki til matsskyldrar framkvæmdar. Þá varði umrætt byggingarleyfi hvorki framkvæmd sem hafi verið umhverfismetin né byggingu á skolphreinsivirki. Kæruheimild kæranda geti því með engu móti verið til staðar. Beri að skýra þröngt kæruheimild aðila sem ekki eigi lögvarða hagsmuni. Geti hvorki a- né b-liður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 átt við í máli þessu. Þá falli undirkröfur kæranda ekki undir valdssvið úrskurðarnefndarinnar eða eftirlit með framkvæmd fráveitumála þegar byggingarleyfi sé kært. Ekki verði heldur úrskurðað um að umsækjanda hafi borið að sækja um aðra framkvæmd. Ákvörðun um samþykkt byggingarleyfisins byggi á lögum. Hafi það verið gefið út á grundvelli fullnægjandi gagna og samræmist deiliskipulagi. Skútustaðahreppi sé ekki ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd Umhverfisstofnunar á lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns- og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. 

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir kröfu um frávísun málsins. Undirbúningur og framkvæmd byggingarinnar hafi að öllu leyti verið unnin í samstarfi við byggingarfulltrúa og sé í samræmi við lög, reglur og deiliskipulag fyrir svæðið. Ákveðið hafi verið að tengja frárennsli nýrra herbergja við kerfi sem þegar hafi verið til staðar við hliðina á hótelinu. Hafi kerfið þjónustað lítið kaffihús og getað tekið við aukaálagi án breytinga.

——-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt að kæra nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni.

Kærandi er umhverfisverndarsamtök og byggir kæruaðild sína á greindu ákvæði. Er til þess skírskotað í kæru að þar sem borið hafi að tilkynna skolphreinsibúnað, er tengdur eigi að vera umræddu hóteli, til Skipulagsstofnunar skv. þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum beri að skoða alla framkvæmdina í ljósi kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka samkvæmt lögum nr. 130/2011.

Samkvæmt a-lið fyrrnefndrar 3. mgr. 4. gr. er unnt að kæra til úrskurðarnefndarinnar ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum nr. 106/2000. Þá er samkvæmt b-lið heimilt að kæra ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir þau lög. Hefur a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 nú verið breytt með lögum nr. 138/2014, sem tóku gildi 30. desember 2014, og frá þeim tíma eru ákvarðanir sveitarstjórna um matsskyldu framkvæmda jafnframt kæranlegar til nefndarinnar.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að í 3. mgr. 4. gr. sé afmarkað hverjir eigi kæruaðild. Annars vegar sé um að ræða stjórnvaldsákvarðanir sem lúti almennum reglum stjórnsýsluréttarins og hins vegar stjórnvaldsákvarðanir, þar sem kærendur þurfi ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni, t.d. umhverfisverndarsamtök. Er m.a. tekið fram að undir a-lið ákvæðisins falli ákvarðanir um matsskyldu sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, og að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda sbr. b-lið. Það sé því eðlilegt að kæruaðild vegna ákvarðana sem tilgreindar séu í a- og b-lið haldist í hendur. Undir b-lið falli leyfi vegna framkvæmda sem matsskyldar séu skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum. Hér undir falli framkvæmdir sem alltaf séu matsskyldar, sbr. 5. gr. laganna og 1. viðauka þeirra, tilkynningarskyldar framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laganna og 2. viðauka þeirra, og framkvæmdir sem ákvörðun ráðherra liggur fyrir um, sbr. 7. gr. laganna. Nái þessi töluliður til þeirra ákvarðana sem vísað sé til í a- og b-lið 1. tölul. 6. gr. Árósarsamningsins. Þau leyfi sem um ræði séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum.

Í máli þessu er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 er m.a. tiltekið að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar fyrr en fyrir liggi ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld. Nefnd 6. gr. tekur til framkvæmda sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum og svo sem áður segir heldur kærandi því fram að tilkynna hafi þurft Skipulagsstofnun um skolphreinsivirki í samræmi við þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000. Þar undir féllu m.a. skolphreinsistöðvar á verndarsvæðum, sbr. c-lið 11. tölul. viðaukans, en framkvæmdirnar eru á verndarsvæði Mývatns og Laxár, sbr. lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.  

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað hefur sú framkvæmd sem leyfð var ekki komið til meðferðar Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000. Tekur stofnunin nánar fram í svarbréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. febrúar 2017, að stofnunin hafi ekki fengið til slíkrar meðferðar málefni umræddrar hótelbyggingar og tengd mannvirki. Vekur stofnunin athygli á því að töluliður 12.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 hafi komið inn með breytingarlögum nr. 138/2014, sem birt hafi verið 30. desember 2014. Leyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn hafi hins vegar verið veitt árið 2014.

Upplýst er að Skipulagsstofnun hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort að framkvæmd sú er veitt var leyfi fyrir með hinu kærða byggingarleyfi falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum, enda hefur stofnunin ekki fengið málefni hennar til slíkrar meðferðar. Með hliðsjón af því sem áður er rakið um ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og lögskýringargögnum er ljóst að það er forsenda kæruaðildar skv. b-lið ákvæðisins að slík niðurstaða liggi fyrir. Telst kærandi því ekki eiga aðild að kæru um lögmæti hins umdeilda byggingarleyfis og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum. Að fenginni þessari niðurstöðu verður ekki fjallað frekar um aðrar kröfur kæranda.

Úrskurðarnefndin bendir þó á að ekki verður séð að kærandi hafi neytt þeirrar heimildar, sem ráð er gert fyrir í lögum nr. 106/2000, að bera fram fyrirspurn um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar, sem skal þá taka ákvörðun um hvort framkvæmdin eigi undir 6. gr. laganna og lúta þar með málsmeðferðarreglum þeirrar lagagreinar. Er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

121/2016 Flýtirein á Keflavíkurflugvelli

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. ágúst 2016 um að bygging flýtireina á Keflavíkurflugvelli skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. september 2016, sem barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Vogagerðis 6, Vogum, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. ágúst 2016 að bygging flýtireina á Keflavíkurflugvelli skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 11. október 2016.

Málsatvik og rök: Í kjölfar samskipta við Skipulagsstofnun vegna framkvæmda við Keflavíkurflugvöll beindi Isavia ohf. fyrirspurn til stofnunarinnar, dags. 20. júní 2016, um matsskyldu fyrirhugaðra framkvæmdar sem fæli í sér byggingu tveggja flýtireina á Keflavíkurflugvelli. Kom fram að flýtireinar myndu stytta brautartímann á milli lendinga og milli lendingar og flugtaks. Með flýtirein væri hægt að stjórna betur umferð flugvéla á jörðu niðri og draga úr þeim tíma sem þær þyrftu að vera á brautarkerfinu eða í bið.

Skipulagsstofnun leitaði eftir umsögnum frá Reykjanesbæ, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, sveitarfélaginu Garði, Samgöngustofu, Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar, Sandgerðisbæ og Umhverfisstofnun. Töldu allir umsagnaraðilar að umræddar framkvæmdir skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum og varð niðurstaða Skipulagsstofnunar 17. ágúst 2016 á sama veg.

Kærandi skírskotar til þess að það sé alþekkt aðferð framkvæmdaraðila, til þess að skjóta sér undan mati á umhverfisáhrifum, að tilkynna aðeins lítinn hluta framkvæmdar og sækja um undanþágu frá mati með þeim rökstuðningi að aðeins sé um sáralitla framkvæmd að ræða. Það sé margdæmt fyrir Evrópudómstólnum að þetta vinnulag standist ekki löggjöf um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Röksemdafærsla Skipulagsstofnunar gangi þvert á kröfur nefndrar löggjafar um mat á heildaráhrifum fyrirhugaðra framkvæmda. Matið eigi að vera heildstætt en ekki bútað niður og taka eigi tillit til umhverfisáhrifa eins fljótt og hægt sé í öllum ferlum við tæknilega áætlanagerð og ákvarðanatöku. Flýtireinarnar séu hluti af stórframkvæmd sem ljóst sé að sæta þurfi mati á umhverfisáhrifum.

Af hálfu Skipulagsstofnunar er vísað til þess að samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem sé kærð. Kærandi eigi lögheimili í Reykjavík og búi þar að jafnaði. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Vegagerðarinnar séu 14 km á milli Keflavíkurflugvallar og Voga, þar sem kærandi á fasteign. Sé fasteign kæranda því ekki skammt frá flugvellinum. Þá verði ekki séð að hann eigi grenndarhagsmuni sem skapi honum kæruaðild vegna flýtireinanna á flugvellinum og annarra framkvæmda sem hafi farið þar fram. Á mynd sem sýni áhrifasvæði í íbúabyggð séu ekki sýnd íbúðasvæði í Vogum. Geti kærandi ekki reist kæruaðild sína á því að hann sem fasteignareigandi verði fyrir óþægindum vegna hávaða frá aukinni flugumferð á flugvellinum. Loks sé bent á að óvissa sé um hvort heildarflugumferð um völlinn muni aukast vegna tilkomu flýtireinanna.

Isavia ohf, sem framkvæmdaraðili, bendir á að bygging flýtireina sé hluti af framkvæmd við endurnýjun yfirlags flugbrautanna, þ.e. notað hafi verið tækifærið þegar fara þurfti í viðhald á brautunum til að byggja flýtireinar. Bygging flýtireina sé sjálfstæð framkvæmd sem ekki sé hluti af stærri matsskyldri framkvæmd. Um sé að ræða einfalda framkvæmd gerða til þess að gera flugvélum mögulegt að beygja af flugbraut fyrr og með einfaldari og fljótlegri hætti. Þetta spari bæði tíma og eldsneyti og dragi úr hávaða og mengun frá hverri lendingu. Þá hafi málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verið í fullu samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. ágúst 2016 um að bygging flýtireina á Keflavíkurflugvelli skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Í kæru sinni vísar kærandi til þess að hann sé fasteignareigandi í Vogum en að öðru leyti er vísað til atriða sem telja verður til almannahagsmuna, s.s. að aukin flugumferð valdi auknum hávaða, aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda, aukinnar umferðar á vegum, aukins álags á ferðamannastöðum og á náttúru landsins. Tilvísun til slíkra almannahagsmuna nægir ekki til kæruaðildar að því undanskildu að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta kært nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en kærandi í máli þessu er ekki slík samtök. Þá er fjarlægð frá mörkum flugvallarsvæðisins að húseign kæranda um 10 km  í beinni loftlínu. Verður því ekki séð að kærandi eigi þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni umfram aðra sökum grenndaráhrifa að það skapi honum kæruaðild.

Með hliðsjón af framangreindu þykir á skorta að kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

136/2016 Brautarholt Kjalarnes

Með
Árið 2017, mánudaginn 12. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 136/2016, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2016 um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 5 í Brautarholti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Fylkir ehf., eigandi jarðarinnar Arnarholts á Kjalarnesi, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2016 að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 5 í Brautarholti. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Bjarni Pálsson, Brautarholti 1, Kjalarnesi, sömu ákvörðun með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærurnar lúta að sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður síðargreint kærumál, sem er nr. 138/2016, sameinað kærumáli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 9. nóvember 2016.

Málavextir: Deiliskipulag jarðarinnar Brautarholts frá árinu 2001 gerði ráð fyrir graskögglaverksmiðju á jörðinni og voru um 130 ha tún á henni nytjuð til framleiðslunnar. Einnig var gert ráð fyrir stóru svínabúi á norðurhluta jarðarinnar.

Í byrjun árs 2016 var ákveðið að grenndarkynna breytingu á deiliskipulaginu og var hún kynnt fyrir hagsmunaaðila Brautarholti 1 frá 2. til 20. maí 2016 og bárust athugasemdir frá honum á þeim tíma. Í greinargerð með breytingunni kemur fram að starfsemi graskögglaverksmiðju hafi verið hætt en á jörðinni sé stórt svínabú og fyrirhuguð sé starfsemi alifuglabús í húsum merktum nr. 8 á uppdrætti, sem tilheyra eigendum norðurhluta jarðarinnar. Húsin sem fyrirhugað sé að nota sem alifuglahús hafi verið byggð á árunum 1984-2001 og notuð fyrir svínarækt allt til ársins 2010, en hafi ekki verið í notkun síðan þá. Áformað sé að í húsunum verði annars vegar uppeldi á hænuungum og hins vegar varphænur til framleiðslu á neyslueggjum. Húsin séu samtals um 2.575 m2 að flatarmáli.

Hinn 1. september 2016 samþykkti borgarráð Reykjavíkur hina grenndarkynntu deiliskipulagstillögu. Tók breytingin gildi 19. september s.á. með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.
Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að í auglýsingu komi fram að deiliskipulagsbreytingin felist í því að svínabúi sé breytt í alifuglabú og að breytingin hafi hlotið meðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þ.e. að fram hafi farið grenndarkynning en ekki kynning og samráð í samræmi við 40. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., laganna. Öðrum kærenda, eiganda Arnarholts, hafi ekki verið kynnt þessi breyting með nokkrum hætti, en fasteignir hans í Arnarholti séu innan við einn km frá hinu ætlaða alifuglabúi í Brautarholti 5. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting raski því verulega hagsmunum hans. Með því að fara með deiliskipulagsbreytinguna eftir 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga virðist sem Reykjavíkurborg telji að tillagan feli í sér svo litla breytingu frá fyrra skipulagi, að nægilegt hafi verið að grenndarkynna hana í stað almennrar auglýsingar skv. 1. mgr. 43. gr. laganna. Telja verði að breytingin sé veruleg og geti haft mikil áhrif á umhverfi Arnarholts. Með henni sé verið að leggja grunn að einu stærsta alifuglabúi landsins, þar sem enginn leyfisskyldur rekstur hafi verið um árabil. Ljóst sé að mengun muni aukast verulega á svæðinu, einkum lyktar- og rykmengun og mengun vegna dreifingar hænsnaskíts á nærliggjandi tún, sem bætist við þá mengun sem nærliggjandi svínabú valdi.

Kærandinn í Brautarholti 1 tekur fram að það sé óhjákvæmilegt, við mat á gildi hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar, að skoðuð verði tengsl skipulagslöggjafarinnar við ákvæði í reglugerð nr. 520/2015, um eldishús alifugla, loðdýra og svína, sem setji sveitarfélögum landsins ákveðin fyrirmæli og skyldur að því er varði skipulagsákvarðanir.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. og 6. gr. nefndrar reglugerðar skuli staðsetning eldishúsa vera í samræmi við skipulagsáætlanir og skipulagsreglugerð. Samkvæmt þessum ákvæðum skuli fjarlægðarmörk ákvörðuð í skipulagsáætlunum, að teknu tilliti til hugsanlegra umhverfisþátta og þeirra lágmarksfjarlægða sem kveðið sé á um í reglugerðinni. Hér eigi ekki við þau rök skipulags- og umhverfisyfirvalda Reykjavíkur að vegna þess að umsókn leyfishafa lúti einungis að rekstri bús með 35.000 fuglum sé ekki skylt að ákvarða fjarlægðarmörk samkvæmt reglugerð nr. 520/2015. Yrði fallist á þessi sjónarmið yrði heimilt að stofnsetja alifuglabú með 39.999 fuglum með nokkurra metra millibili, án takmarkana, væntanlega svo fremi sem óskyldir aðilar standi að rekstrinum. Vegna fyrirmæla í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, þar sem kveðið sé á um að fjarlægð milli eldhúss alifuglaeldis og matvælafyrirtækja, annarra en sjálfs búsins, skuli ekki vera undir 300 m, sé algjörlega óheimilt að stofnsetja nýja starfsemi, nýtt alifuglabú í Brautarholti 5, vegna þess að fjarlægðin þaðan að svínabúinu sé einungis 100 m.

Skipulagsstofnun hafi í ákvörðun sinni frá 16. mars 2016, um að umrædd framkvæmd sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, tekið fram að í skipulagsáætlun þurfi að kveða á um fjarlægð milli eldishúsa á svæðinu og fjarlægð þeirra frá mannabústöðum. Það hafi ekki verið gert í samþykktri deiliskipulagsbreytingu.

Þá sé kærandi ósammála þeirri afstöðu skipulagsfulltrúa, að hin kærða breyting sé svo lítilsháttar að nægilegt hafi verið að grenndarkynna hana í stað þess að hafa farið með hana sem breytingu á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að eigandi Arnarholts eigi enga hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið. Ljóst sé að u.þ.b. einn km sé á milli umræddrar lóðar kærandans og fyrirhugaðs alifuglabús, en í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 16. mars 2016, hafi komið fram að ætla megi að umhverfisáhrif vegna lyktarónæðis varði fáa og stærstan hluta ársins (99% tímans) verði lyktarónæði við íbúðarhús í Brautarholti undir óþægindamörkum. Sé því ljóst að kærandinn eigi enga lögvarða hagsmuna af því að fá skorið úr um kæruefnið skv. lögum nr. 131/2011, þar sem fyrirhuguð staðsetning alifuglabúsins hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni hans.

Hvað varði rök kæranda að Brautarholti 1 þá fallist Reykjavíkurborg ekki á það að mál þetta sé þannig vaxið að ógildingu varði.

Ekki sé fallist á að fjarlægðarmörk 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015, sem tiltaki lágmarksfjarlægðir nýbyggingar eldishúsa, meiri háttar breytingar eða stækkanir á eldishúsum, eigi við í því tilfelli sem hér sé til umfjöllunar. Ákvæðið taki til nýbygginga, meiri háttar breytinga og stækkunar á eldishúsum, en ekki til fasteigna sem nú þegar hafi verið reistar og starfsemi sem tíðkuð hafi verið í fasteigninni. Bent sé á að fasteignin Brautarholt 5 hafi frá upphafi verið skráð sem svínabú og því sé ekki fallist á að um meiri háttar breytingu sé að ræða. Þar af leiðandi gildi fjarlægðarmörkin ekki gagnvart núverandi byggingum, enda geri nefnd reglugerð ekki ráð fyrir slíku. Samkvæmt 6. gr. hennar séu ekki sett fjarlægðarmörk fyrir alifuglabú með færri en 40.000 stæði. Skipulagsyfirvöld geti sett fjarlægðartakmörk í skipulag ef ástæða þyki til, en svo hafi ekki þótt í þessu tilviki, enda fyrirhugaður rekstur undir 40.000 stæðum.

Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé gert ráð fyrir að sveitarstjórn geti ákveðið að láta fara fram grenndarkynningu í stað auglýsingar skv. 1. mgr. sömu greinar, sbr. 37.-42. gr. sömu laga. Grenndarkynning sé löglegt úrræði við breytingu á deiliskipulagi og sé það sveitarstjórnar að meta hvort það sé tæk stjórnsýsluleið við breytingu á deiliskipulaginu. Breytingartillaga þurfi að teljast óveruleg, en í 2. málsl. 2. gr. 43. gr., sbr. gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sé til viðmiðunar talið upp hvað megi leggja til grundvallar við það mat. Taka skuli mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Hafi það verið metið svo að ekki hafi verið um að ræða breytingu á notkun, enda sé enn gert ráð fyrir því að fasteignirnar verði nýttar undir landbúnað, en skilgreind notkun svæðisins sé enn landbúnaðarsvæði. Nýtingarhlutfall breytist óverulega og útlit og form svæðisins breytist ekki. Hvað varði athugasemdir er snúi að lyktar-, ryk- og loftmengun vegna starfsemi á búinu þá geri skipulagslög ekki ráð fyrir því að slíkt sé tekið inn í mat á því hvort breyting skuli grenndarkynnt eða auglýst. Raunar megi fremur telja að grenndarkynning henti betur við slíkar aðstæður, þar sem þá sé hægt að leggja mat á það hverjir verði fyrir slíkri mengun og kynna fyrirhugaða breytingu fyrir þeim í stað þess að birta almenna auglýsingu, sem gæti farið fram hjá hagsmunaaðilum.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að hann telji ekki sérstaka þörf á athugasemdum við fyrirliggjandi kærur, umfram þær að augljóst sé að kröfum kærenda beri að hafna. Málsástæður þeirra byggi aðallega á tilvísunum til annarra laga og atvika en hin kærða ákvörðun sé byggð á. Óheimilt sé að líta til annarra lagabálka en beinlínis liggi til grundvallar ákvörðuninni og varði efni hennar beint. Megi m.a. í því samhengi vísa til niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 651/2013, þó atvik þess máls hafi raunar verið „öfug“ miðað við þetta mál, þ.e. þar hafi skipulagslögum verið beitt þegar þau áttu ekki við í stað laga nr. 7/1998. Í fyrirliggjandi málum sé hins vegar verið að krefjast þess að lögum nr. 7/1998 verði beitt í stað skipulagslaga.

Viðbótarathugasemdir kæranda að Brautarholti 1: Bent sé á að lýsing staðhátta í hinni kynntu skipulagsbreytingu sé ónákvæm og villandi. Sagt sé í tillögunni að á jörðinni sé stórt svínabú og að fyrirhuguð sé þar starfsemi alifuglabús sem tilheyri eigendum norðurhluta jarðarinnar. Þarna sé ranglega gefið í skyn að sömu eigendur séu að svínabúinu og fyrirhuguðu alifuglabúi. Þá sé vakin athygli á því að möguleikar til dreifingar hænsnaskíts á tún að Brautarholti séu afar takmarkaðir.

Kærandi telji hvoruga afstöðu Reykjavíkurborgar til fjarlægðarmarka skv. reglugerð nr. 520/2015 eiga rétt á sér. Reglugerðarákvæðið nái augljóslega til húsa sem þegar séu reist, enda sé beinlínis gert ráð fyrir því að ákvæðið nái til þess þegar gerðar séu meiri háttar breytingar eða stækkanir á eldishúsum og breytt notkun eldishúss eða breytt notkun bygginga í matvælafyrirtæki. Mál þetta snúist um meiri háttar breytingu þar sem húsin að Brautarholti 5 hafi verið skráð sem svínabú. Þau hafi verið notuð á sínum tíma undir svínabú að fenginni sérstakri undanþágu ráðherra vegna 500 m fjarlægðarreglunnar í 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Kærandi telji aðstæður í þessu máli ekki réttlæta grenndarkynningu í stað hefðbundinnar meðferðar deiliskipulagstillögu. Staðsetning eins stærsta alifuglabús á landinu í einungis 200 m fjarlægð frá íbúðarhúsi hans og stutt frá þéttbýli í Grundarhverfi kalli ekki á léttari málsmeðferð. Þá sé rekstur alifuglabús ekki í samræmi við landnotkun svæðisins samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.

Niðurstaða: Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var heimilað að nota húsakost sem fyrir var að Brautarholti 5 á Kjalarnesi undir alifuglabú, en þar mun áður m.a. hafa verið rekið svínabú. Í gildandi aðalskipulagi er landnotkun umrædds svæðis skilgreind sem landbúnaðarsvæði og var sú landnotkun ekki þrengd í deiliskipulagi frá árinu 2001.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Annar kærenda er eigandi jarðarinnar Arnarholts, en fjarlægð húsa þar frá hinu fyrirhugaða alifuglabúi er um einn km. Í svipaðri fjarlægð frá húsum í Arnarholti er rekið svínabú að Brautarholti 8. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er lyktarmengun frá greindu svínabúi talin töluvert meiri en af fyrirhuguðu alifuglabúi og að ekki verði greinanlegur munur á dreifingu lyktar vegna samlegðar fyrirhugaðrar starfsemi búanna. Í skýrslu sem unnin var vegna starfsleyfisumsóknar fyrir fyrirhugaðan rekstur kemur fram að lyktarónæði frá svínabúinu sé 87.605 OU/s, en frá fyrirhugðu alifuglabúi 11.850 OU/s. Samkvæmt viðmiðum um huglægt mat á lykt, sem finna má í starfleyfi svínabúsins að Brautarholti 10, verður hún vart greinanleg við Arnarholt. Ekki er gert ráð fyrir því í útreikningum þessum að í alifuglabúinu verði búnaður til þess að takmarka lyktarmengun. Hins vegar er í starfsleyfi fyrirhugaðs reksturs gerð krafa um að takmarka skuli loftmengun frá starfseminni eins og kostur er. Má því ætla að lyktarmengun frá alifuglabúinu verði minni en ráð er fyrir gert í nefndri skýrslu.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið, og þeirri staðreynd að Arnarholt er staðsett við landbúnaðarsvæði þar sem búast má við lykt sem slíkum rekstri fylgir, verður ekki talið að hin kærða ákvörðun snerti einstaklega lögvarða hagsmuni kæranda í Arnarholti með þeim hætti að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu. Verður kæru hans af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt fyrir kæranda í Brautarholti 1. Hann kom að athugasemdum sínum við hina kynntu tillögu og var þeim athugasemdum svarað af hálfu borgaryfirvalda. Málið fékk lögboðna yfirferð Skipulagsstofnunar og öðlaðist deiliskipulagsbreytinging gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína skal við nýbyggingu, meiri háttar breytingar, stækkanir á eldishúsum eða breytta notkun í eldishús, sem valdið geta óþægindum umfram það sem fyrir er, gæta þess að fjarlægð milli eldishúss alifuglaeldis og annarra matvælafyrirtækja verði að lágmarki 300 m. Á svæðinu sem um ræðir er þegar staðsett þauleldi svína og fyrir hina kærðu breytingu hafði áður verið starfrækt svínaeldi í Brautarholti 5. Í ljósi þess verður að telja hina kærðu breytingu óverulega, en með henni er ekki gerð breyting á nýtingarhlutfalli, útliti og formi húsa, auk þess sem landnotkun svæðisins er óbreytt. Verður því að telja að sveitarstjórn hafi verið heimilt að fara með breytinguna sem óverulega samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í hinni kærðu ákvörðun var ekki tilgreind fjarlægð umdeildrar starfsemi frá næsta eldishúsi skv. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015, en þar sem húsakostur er þegar til staðar er fjarlægð milli húsa á svæðinu óbreytt.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar sem geta raskað gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Verður því ekki fallist á ógildingarkröfu kærandans í Brautarholti 1.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda í Arnarholti, Kjalarnesi, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kæranda í Brautarholti 1 um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2016 um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi vegna lóðarinnar Brautarholts 5.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

10/2017 Hótel Laxá

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 15. október 2013 um að samþykkja leyfi fyrir byggingu hótels á lóðinni Olnbogaási 1 í landi Arnarvatns í Skútustaðahreppi. Jafnframt er kærð samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúans frá 12. september 2016 um leyfi fyrir byggingu þriggja starfsmannahúsa á lóðum nr. 2, 3 og 4 við Olnbogaás.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 15. október 2013 að samþykkja leyfi fyrir byggingu hótels á lóðinni Olnbogaási 1 í landi Arnarvatns í Skútustaðahreppi. Einnig er kærð samþykkt hans frá 12. september 2016 um leyfi fyrir byggingu þriggja starfsmannahúsa á lóðum nr. 2, 3, og 4 við Olnbogaás. Gerð er krafa um að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Jafnframt er gerð krafa um að skolphreinsistöð, er tengd verði hóteli og starfsmannahúsum, sæti mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Til vara er þess krafist að framkvæmdaraðila verði gert að tilkynna framkvæmdina til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. sömu laga og að ákveðið verði að Umhverfisstofnun skuli fjalla um leyfi fyrir henni. Enn fremur að lagt verði fyrir framkvæmdaraðila að setja upp skolphreinsistöð í samræmi við 24. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, eða þannig að sýnt sé fram á að engin næringarefni berist með tímanum í Mývatn. Þá er þess krafist að ákveðið verði að skolp frá starfsmannahúsum verði tengt skolphreinsistöð hótelsins.

Loks er gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvarðana að því er varðar skolphreinsistöð og rotþró og að skolpi frá hóteli og starfsmannahúsum verði ekið út af verndarsvæðinu á viðurkenndan urðunarstað og ekki hleypt út í umhverfið meðan kærumálið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir mál þetta nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Skútustaðahreppi 20. janúar og 28. apríl 2017. 

Málavextir: Hinn 15. október 2013 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps leyfi fyrir byggingu 80 herbergja hótels á lóðinni Olnbogaási 1 í landi Arnarvatns. Í tilkynningu til leyfishafa um samþykkt leyfisins var vakin athygli á því að gerð væri krafa um ítarlegri hreinsun skolps en tveggja þrepa skv. 24. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Jafnframt var gerð krafa um að lögð yrði fram áætlun um vöktun á virkni hreinsibúnaðar í samráði við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra. Umsókn um leyfi fyrir byggingu þriggja starfsmannahúsa á lóðum nr. 2, 3 og 4 við Olnbogaás var síðan samþykkt af skipulags- og byggingarfulltrúa 12. september 2016.

Málsrök kæranda:
Kærandi tekur fram að um sé að ræða byggingu hótels með 80 herbergjum, ásamt skolphreinsistöð, og þriggja starfsmannahúsa með rotþró og siturlögn. Tengist hinar kærðu ákvarðanir innbyrðis og varði eina og sömu hótelframkvæmdina. Skolphreinsistöð hafi verið tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Beri því að skoða alla framkvæmdina í ljósi kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þrátt fyrir að hótel í dreifbýli hafi fyrst orðið tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar með lögum nr. 138/2014.

Nefndar ákvarðanir hafi hvorki verið birtar opinberlega né hafi þær verið gerðar aðgengilegar almenningi á opnu vefsvæði. Innan við mánuður sé síðan kæranda hafi orðið kunnugt um leyfisveitingarnar og sé kæran því sett fram innan kærufrests.

Skipulags- og byggingarfulltrúa hafi brostið lagaheimild til töku hinna kærðu ákvarðana. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og 2. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 sama efnis lúti allar framkvæmdir á verndarsvæði Mývatns leyfisveitingu Umhverfisstofnunar. Ekkert slíkt leyfi hafi legið fyrir. Þá séu hótelbyggingin og starfsmannahúsin undirorpin byggingarbanni skv. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012, eins og hún verði skýrð. Engin undanþága hafi verið veitt frá því banni. Fyrrnefnd skolphreinsistöð hafi ekki verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar og því ekki hlotið lögmæta umfjöllun. Hafi skipulags- og byggingarfulltrúa því verið óheimilt að gefa út byggingarleyfi, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Að auki stangist uppsetning rotþróar við starfsmannahús á við ákvæði reglugerðar nr. 665/2012 um ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa. Í gögnum komi ekkert fram um í hverju þriðja þrep skolphreinsisbúnaðarins skuli felast eða hvort búnaðurinn komi sannarlega í veg fyrir röskun á lífríki Mývatns. Ekki hafi verið sýnt fram á að skolphreinsistöðin uppfylli lagaskilyrði og stjórnvaldsfyrirmæli, sbr. og verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá 2011-2016. Gera verði þær kröfur til rökstuðnings fyrir ákvörðunum sem þessum að gerð sé grein fyrir þessum atriðum þegar um sé að ræða innlent og alþjóðlegt verndarsvæði svo sem hér sé. Þá hafi starfsleyfi skolphreinsistöðvar ekki verið gefið út, svo vitað sé.

Gengið hafi verið gegn umsögnum Umhverfisstofnunar, sem veittar hafi verið við gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði, og skort hafi á að leita álits heilbrigðiseftirlits. Ekki séu uppfylltar kröfur um rökstuðning. Séu annmarkar þessir í andstöðu við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt hafi byggingarfulltrúa borið að taka mið af meginreglum 8.-11. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. 

Málsrök Skútustaðahrepps: Sveitarfélagið krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Kæra sé of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun um byggingarleyfi vegna hótelsins hafi verið tekin fyrir um þremur og hálfu ári. Óútskýrt og ósannað sé að kærandi hafi ekki haft vitneskju um málið fyrr en í janúar 2017. Þá sé að öðru leyti vísað til eðlis rekstrarins, opinberrar umfjöllunar um hann, auglýsingar um starfsemina og eðlis máls um að undanþága frá mánaðar kærufresti eigi ekki við.
Kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni vegna hinna kærðu ákvarðana. Takmarkist kæruheimild hans við ákvarðanir sem falli undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, í þeim skilningi að ákvörðun varði matsskylda framkvæmd. Skipulagsstofnun hafi ekki tekið neina matsskylduákvörðun. Þá varði umrædd byggingarleyfi ekki framkvæmd sem hafi verið umhverfismetin. Beri að skýra kæruheimild aðila sem ekki eigi lögvarða hagsmuni þröngt. Geti hvorki a- né b-liður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 átt við í máli þessu.

Þeim sjónarmiðum kæranda að tilkynna hafi átt um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 sé mótmælt. Miðað við löggjöf við veitingu byggingarleyfis frá 2013 liggi ekki fyrir að það hreinsivirki sem sett hafi verið upp við hótelið hafi talist skolphreinsistöð. Þá hafi ekki þýðingu sú breyting sem gerð hafi verið á lögum nr. 106/2000 með lögum nr. 138/2014, enda varði byggingarleyfið frá 2016 ekki byggingu á skolphreinsivirki vegna fleiri en 100 persónueininga. Hefði stöðin ekki heldur verið tilkynningarskyld ef gert hefði verið ráð fyrir flutningi á skolpi að hreinsivirki sem þegar hafi verið til staðar.

Valdsvið úrskurðarnefndarinnar miðist við að fjalla um lögmæti kærðra ákvarðanna. Geti nefndin ekki tekið til umfjöllunar kröfur sem feli í sér nýjar ákvarðanir. Þá byggi kærandi á málsástæðum sem falli undir eftirlit Umhverfisstofnunar, heilbrigðiseftirlits eða Skipulagsstofnunar. Álitamál um að fyrirkomulag skolphreinsivirkja sé ekki í samræmi við reglugerðir um fráveitumál verði kærandi að bera fram við hlutaðeigandi eftirlitsaðila á sviði umhverfis- og fráveitumála.

Ákvarðanir um útgáfu framangreindra byggingarleyfa hvíli á lögum. Leyfin hafi verið gefin út á grundvelli fullnægjandi gagna og samrýmist deiliskipulagi fyrir svæðið. Málefni skolphreinsivirkja hafi fengið ítarlega umfjöllun við útgáfu byggingarleyfanna og séu byggð í samræmi við reglugerðir um fráveitumál. Engar forsendur séu til að fella úr gildi byggingarleyfi er taki til þeirra. Þá sé sérstaklega bent á 6. gr. laga nr. 106/2000 en samkvæmt ákvæðinu sé unnt að beina fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir kröfu um frávísun málsins og byggja athugasemdir hans á svipuðum sjónarmiðum og sveitarfélagsins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar sjónarmið sín og setur fram ítarlegri rök um að kærufrestur hafi ekki verið liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni. Að auki bendi hann m.a. á að umhverfisverndarsamtök þurfi ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni til að mega kæra ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi þegar mál varði framkvæmdir er geti haft umtalsverð áhrif á umhverfið eða þau varði brot á landslögum, sbr. 2. og 3. mgr. 9. gr. Árósarsamnings. Ella verði þá ekki tryggður réttur kæranda að íslenskum lögum til að bera ákvarðanir, athafnir og athafnaleysi, sem þátttökuréttur hans taki til, undir óháðan og sjálfstæðan dómstól eða annan úrskurðaraðila. Væri kæruréttur sá sem umhverfisverndarsamtökum sé tryggður með Árósarsamningi og innleiðingu hans, með lögum nr. 130/2011 og 131/2011, þýðingarlaus ef hann væri ekki til staðar í þeim tilfellum að ágreiningur væri uppi um það hvort framkvæmd, sem byggingarleyfi væri veitt fyrir án umhverfismats, skuli umhverfismetin eða ekki. Beri sveitarfélaginu, m.a. með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kanna hvort framkvæmdaraðili sem sæki um leyfi hyggi á framkvæmd sem kunni að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum í skilningi laga nr. 106/2000.

Þá hafi borið að tilkynna hin umdeildu starfsmannahús til Skipulagsstofnunar skv. tölulið 12.05 í 1. viðauka laga nr. 106/2000, en húsin teljist hluti af hótelinu í skilningi ákvæðisins. Um hafi verið að ræða breytingu á fyrri framkvæmd sem borið hafi að tilkynna skv. 6. gr. laganna til ákvörðunar um matsskyldu. Að auki sé vísað til 13. tölul. 1. viðauka sömu laga, sem fjalli um breytingar og viðbætur við framkvæmdir. 

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt að kæra nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni.

Kærandi er umhverfisverndarsamtök og byggir kæruaðild sína á greindu ákvæði. Er til þess skírskotað í kæru að þar sem borið hafi að tilkynna skolphreinsistöðvar til Skipulagsstofnunar skv. þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum beri að skoða alla framkvæmdina í ljósi kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka samkvæmt lögum nr. 130/2011.

Samkvæmt a-lið fyrrnefndrar 3. mgr. 4. gr. er unnt að kæra til úrskurðarnefndarinnar ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum nr. 106/2000. Þá er samkvæmt b-lið heimilt að kæra ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir þau lög. Hefur a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 nú verið breytt með lögum nr. 138/2014, sem tóku gildi 30. desember 2014, og frá þeim tíma eru ákvarðanir sveitarstjórna um matsskyldu framkvæmda jafnframt kæranlegar til nefndarinnar.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að í 3. mgr. 4. gr. sé afmarkað hverjir eigi kæruaðild. Annars vegar sé um að ræða stjórnvaldsákvarðanir, sem lúti almennum reglum stjórnsýsluréttarins og hins vegar stjórnvaldsákvarðanir þar sem kærendur þurfi ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni, t.d. umhverfisverndarsamtök. Er m.a. tekið fram að undir a-lið ákvæðisins falli ákvarðanir um matsskyldu, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, og að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda, sbr. b-lið. Það sé því eðlilegt að kæruaðild vegna ákvarðana sem tilgreindar séu í a- og b-lið haldist í hendur. Undir b-lið falli leyfi vegna framkvæmda sem matsskyldar séu skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum. Hér undir falli framkvæmdir sem alltaf séu matsskyldar, sbr. 5. gr. laganna og 1. viðauka þeirra, tilkynningarskyldar framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laganna og 2. viðauka þeirra, og framkvæmdir sem ákvörðun ráðherra liggur fyrir um, sbr. 7. gr. laganna. Nái þessi töluliður til þeirra ákvarðana sem vísað sé til í a- og b-lið 1. tölul. 6. gr. Árósarsamningsins. Þau leyfi sem um ræði séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum.

Kærðar eru tvær ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps í máli þessu. Annars vegar er um að ræða samþykkt hans frá 15. október 2013, um leyfi fyrir byggingu hótels á lóðinni Olnbogaási 1 í landi Arnarvatns, og hins vegar ákvörðun frá 12. september 2016, um leyfi fyrir byggingu þriggja starfsmannahúsa fyrir fyrrnefnt hótel. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 er m.a. tiltekið að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar fyrr en fyrir liggi ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld. Nefnd 6. gr. tekur til framkvæmda sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum og svo sem áður segir heldur kærandi því fram að tilkynna hefði þurft Skipulagsstofnun um skolphreinsistöð við hótelið í samræmi við þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000. Þar undir féllu m.a. skolphreinsistöðvar á verndarsvæðum, sbr. c-lið 11. tölul. viðaukans, en framkvæmdirnar eru á verndarsvæði Laxár og Mývatns, sbr. lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað hafa þær framkvæmdir sem leyfðar voru ekki komið til meðferðar Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000. Tekur stofnunin nánar fram í svarbréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. febrúar 2017, að stofnunin hafi ekki fengið til slíkrar meðferðar málefni umræddar hótelbyggingar og tengd mannvirki, þ.e. skolphreinsistöð, starfsmannahús og rotþró með siturlögn. Þá vekur stofnunin athygli á því að töluliður 12.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 hafi komið inn með breytingarlögum nr. 138/2014, sem birt hafi verið 30. desember 2014. Leyfi hafi hins vegar verið veitt fyrir byggingu umrædds hótels á árinu 2013.

Upplýst er að Skipulagsstofnun hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort að framkvæmdir þær er veitt var leyfi fyrir með hinum kærðu byggingarleyfum falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum, enda hefur stofnunin ekki fengið málefni þeirra til slíkrar meðferðar. Með hliðsjón af því sem áður er rakið um ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og lögskýringargögnum er ljóst að það er forsenda kæruaðildar skv. b-lið ákvæðisins að slík niðurstaða liggi fyrir. Telst kærandi því ekki eiga aðild að kæru um lögmæti hinna umdeildu byggingarleyfa og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum. Að fenginni þessari niðurstöðu verður ekki fjallað frekar um aðrar kröfur kæranda.

Úrskurðarnefndin bendir þó á að ekki verður séð að kærandi hafi neytt þeirrar heimildar, sem ráð er gert fyrir í lögum nr. 106/2000, að bera fram fyrirspurn um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar, sem þá skal taka ákvörðun um hvort framkvæmdin eigi undir 6. gr. laganna og lúta þar með málsmeðferðarreglum þeirrar lagagreinar. Er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

13/2017 Laugarnesvegur

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 2. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2017, kæra á aðgerðarleysi byggingarfulltrúans í Reykjavík í tilefni af framkvæmdum í fjölbýlishúsi og á lóð Laugarnesvegar 83 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. janúar 2017, er barst nefndinni 30. s.m., kærir A, Laugarnesvegi 83, Reykjavík, aðgerðarleysi byggingarfulltrúans í Reykjavík „varðandi eldhættu og óleyfisframkvæmdir“ við nefnda fasteign.

Málavextir: Húsið að Laugarnesvegi 83 er þriggja íbúða hús, kjallari, hæð og rishæð. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að deilur hafi staðið milli eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins og kæranda, sem á íbúð í rishæð þess, m.a. vegna 31 m2 skúrs á lóð hússins og framkvæmda við tengingu raflagna hússins í skúrinn.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum samþykktu þáverandi eigendur fasteignarinnar að Laugarnesvegi 83 eignaskiptayfirlýsingu vegna nefndrar fasteignar sem þinglýst var 4. september 1996. Í yfirlýsingunni kemur fram að íbúð, merkt 01-0101, fylgi geymsluskúr sem standi á lóðinni sem ekki hafi verið samþykktur af byggingaryfirvöldum. Er tekið fram að áætlað sé að skúrinn verði í framtíðinni fjarlægður og honum fylgi engin lóðarréttindi. Eigandi skúrsins hafi þó áfram heimild til að endurbæta geymsluskúrinn eða byggja nýjan á lóðinni að fengnu leyfi byggingaryfirvalda. Í skráningartöflu, dags. 11. desember 1995, er fylgdi eignaskiptayfirlýsingunni, er skúrsins ekki getið. Samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands hefur verið skráð 13,5 m2 geymsla á lóðinni Laugarnesvegi 83 og hafði sú matseining númerið 2016845. Kærandi eignaðist íbúð sína að Laugarnesvegi 83 með kaupsamningi, dags. 21. apríl 2001.

Hinn 6. júní 2006 var samþykkt umsókn eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins um byggingarleyfi fyrir áður gerðri 31 m2 bílgeymslu á fyrrgreindri lóð. Þá var hinn 12. janúar 2007 þinglýst á fasteignina yfirlýsingu um samþykki eigenda hennar að bílskúr sem hafi staðið á lóð Laugarnesvegar 83 í yfir 10 ár komi í staðinn fyrir þann sem þar hafi verið á sama stað. Yfirlýsingin er undirrituð af tveimur eigendum tveggja eignarhluta í húsinu en á skortir undirritun kæranda sem eiganda þriðja eignarhlutans. Bílgeymslan var skráð í fasteignaskrá sem 31,0 m2 bílskúr hinn 21. október 2015 sem sama matseining í stað fyrrgreinds 13,5 m2 skúrs. Skráning matseiningarinnar var síðan afmáð 22. september 2016. Ekki liggur fyrir hvenær núverandi skúr var reistur í stað þess sem mun hafa áður staðið á umræddri lóð. Málsrök kæranda: Kærandi byggir málatilbúnað sinn á því að greindur 31 m2 skúr á lóðinni Laugarnesvegi 83 hafi verið byggður í óleyfi og án samþykkis sameigenda og sama eigi við um tengingu skúrsins við raflagnir fjölbýlishússins um sameiginlega lóð. Skúrinn og fjölbýlishúsið á lóðinni sé úr timbri og af skúrnum stafi eldhætta. Ekki sé gert ráð fyrir honum í deiliskipulagi og byggingarleyfi fyrir skúrnum hafi fengist á grundvelli rangra gagna og upplýsinga um samþykki sameigenda lóðarinnar og um áralanga tilvist hans á lóðinni. Allt frá árinu 2006 hafi kærandi kvartað yfir óleyfisframkvæmdunum við byggingarfulltrúa og gert þá kröfu að þær yrðu fjarlægðar og jarðrask afmáð. Síðast hafi sú krafa verið ítrekuð með tölvupósti 17. janúar 2017 sem í engu hafi verið svarað. Leitað hafi verið til Neytendastofu vegna raflagnanna í febrúar 2006 og til Mannvirkjastofnunar 2011 og 2012, sem hafi gert skýrslu um úrbætur af því tilefni. Enn hafi málið verið kært til stofnunarinnar á árinu 2016 og þá ný úttekt gerð og niðurstaða legið fyrir 4. janúar 2017, þar sem vísað hafi verið á úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Vegna athafnaleysis byggingarfulltrúa í tilefni af nefndum óleyfisframkvæmdum hafi verið leitað til umboðsmanns borgarbúa árið 2014, sem hafi í niðurstöðu sinni ári síðar fundið að meðferð málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um að máli kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Óljóst sé af kæru hvort verið sé að kæra tiltekna ákvörðun byggingarfulltrúa, en helst verði ráðið að kært sé samþykki hans frá árinu 2006 fyrir áður gerðum bílskúr að Laugarnesvegi 83. Ekki verði af kæru ráðið að um aðra lokaákvörðun sé að tefla í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar kæra í máli þessu hafi borist úrskurðarnefndinni. Beri að vísa málinu frá skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið sé á um að kæru verið ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin.

Aðila að umdeildum framkvæmdum var tilkynnt um kærumálið, en með tölvupósti 16. mars 2017 tilkynnti hann úrskurðarnefndinni að hann hefði selt íbúð sína að Laugarnesvegi 83, sem umdeildur skúr tilheyri, og telji sig því ekki lengur vera aðila að málinu vegna hagsmuna því tengdu og beri af þeim sökum að taka málið af dagskrá.

Niðurstaða: Fyrir liggur að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. júní 2006 var að undangenginni kynningu samþykkt umsókn um leyfi fyrir áður gerðum 31 m2, 85 m3, bílskúr á fjölbýlishúsalóðinni Laugarnesvegi 83. Samkvæmt bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 16. júní s.á., andmælti kærandi leyfisveitingunni og krafðist þess m.a. að byggingarfulltrúi afturkallaði ákvörðun sína. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að skjóta málum til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Kærufrestur vegna nefnds byggingarleyfis er því löngu liðinn. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til lögmætis nefndrar ákvörðunar í máli þessu.

Samkvæmt fyrirliggjandi málsgögnum hefur kærandi um árabil krafist aðgerða byggingaryfirvalda vegna umdeildra framkvæmda á lóð Laugarnesvegar 83 án þess að séð verði að þær kröfur hafi fengið lögformlega afgreiðslu. Forsaga málsins og málatilbúnaður kæranda ber með sér að tilefni kærumáls þessa sé sá dráttur sem orðið hafi á afgreiðslu greindra erinda kæranda, en krafa um beitingu þvingunarúrræða var síðast ítrekuð í tölvupósti kæranda til byggingarfulltrúa 17. janúar 2017. Í lokamálsgrein 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að unnt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð. Verður að líta svo á að slík kæra felist í málskoti kæranda til úrskurðarnefndarinnar, en lokaákvörðun um afturköllun byggingarleyfis eða um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki væri eftir atvikum kæranleg til nefndarinnar.

Í ljósi þess að kærandi hefur um árabil farið fram á aðgerðir borgaryfirvalda í tilefni af ætluðum ólögmætum framkvæmdum á umræddri lóð verður talið að óhæfilegur dráttur sé orðinn á afgreiðslu erinda kæranda vegna framkvæmdanna án þess að fyrir liggi viðhlítandi skýring á því. Er því lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka til lögformlegrar afgreiðslu kröfu kæranda um afturköllun umdeilds byggingarleyfis og beitingu þvingunarúrræða vegna fyrrgreindra framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúann í Reykjavík að taka til afgreiðslu erindi kæranda vegna framkvæmda á lóð Laugarnesvegar 83 í Reykjavík sem beint hefur verið til embættisins.
 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson