Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/2018 Markviss

Árið 2018, þriðjudaginn 17. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 42/2018, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands Vestra frá 9. febrúar 2018 um útgáfu starfsleyfis fyrir skotfélagið Markviss á Blönduósi til að starfrækslu skotvallar.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2018, sem barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðarinnar Hjaltabakka í Húnavatnshreppi, sem og Veiðifélag Laxár á Ásum ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands Vestra frá 9. febrúar 2018 um útgáfu starfsleyfis til starfrækslu skotvallar. Kærendur gera þá kröfu að ákvörðunin verði ógilt og jafnframt er þess krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands Vestra 16. mars 2018.

Málsatvik og rök:
Heilbrigðisnefnd Norðurlands Vestra auglýsti 14. nóvember 2017, í héraðsblaðinu Feyki, drög að starfsleyfisskilyrðum fyrir skotfélagið Markviss vegna starfrækslu skotvallar. Starfsleyfið var gefið út af heilbrigðisnefndinni 9. febrúar 2018 og gildir til 9. febrúar 2030. Kærendum var tilkynnt um útgáfu starfsleyfisins með tölvupósti, dags. 13. febrúar 2018.

Kærendur byggja á því að heilbrigðisnefnd Norðurlands Vestra hafi verið óheimilt að gefa út starfsleyfi fyrir greindum skotvelli, m.a. þar sem heimild til notkunar umrædds landsvæðis fyrir skotvöll liggi ekki fyrir frá landeigendum, lögskylt umhverfismat hafi ekki farið fram og ónæði og hætta fyrir nágranna sé augljós. Hvað varði kröfu um frestun réttaráhrifa hins kærða starfsleyfis, þá sé hún fram komin þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar og áður en niðurstaða nefndarinnar liggi fyrir kunni að verða fram haldið framkvæmdum við umræddan riffilskotvöll.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands Vestra kveður skotvelli vera starfrækta um allt land og séu starfsleyfisskilyrðin með svipuðu sniði fyrir þá velli og fyrir það leyfi sem gefið hafi verið út fyrir leyfishafa. Nefndin fer fram á að kröfum kærenda verði hafnað.

Leyfishafi gerir þær kröfur að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Kröfugerðin sé ruglingsleg og án nokkurs lagalegs rökstuðnings og því erfitt eða ómögulegt að svara kröfugerðinni eða gera sér grein fyrir á hvaða lagarökum hún byggi. Engin rök standi til þess að ógilda umrætt starfsleyfi eða kveða á um frestun réttaráhrifa.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr.  Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls. Er greint heimildarákvæði undantekning og ber að skýra þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar. Eins og fram hefur komið byggja kærendur kröfur sínar helst á því að heimild til notkunar umrædds landsvæðis fyrir skotvöll liggi ekki fyrir frá landeigendum, lögskylt umhverfismat hafi ekki farið fram og ónæði og hætta fyrir nágranna sé augljós. Krafa um frestun réttaráhrifa hins kærða starfsleyfis sé fram komin þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar og að áður en niðurstaða nefndarinnar liggi fyrir kunni að verða fram haldið framkvæmdum við umræddan riffilskotvöll.

Ekkert þessara atriða er þess eðlis að líkur séu á að það hafi í för með sér óafturkræf áhrif á umhverfið þannig að forsendur séu til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis. Veita enda starfsleyfi ekki heimild til framkvæmda heldur til að hefja atvinnurekstur sem sjálfhætt er verði viðkomandi leyfi fellt úr gildi. Er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands Vestra frá 9. febrúar 2018 um útgáfu starfsleyfis fyrir skotfélagið Markviss á Blönduósi til að starfrækslu skotvallar.