Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2018 Skemmubygging í Bjarnarflagi

Árið 2018, þriðjudaginn 17. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 53/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir  A, þá ákvörðun  byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að heimilaðar framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök
: Með bréfi byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps, dags. 7. mars 2018, var Léttsteypunni ehf. tilkynnt að umsókn félagsins um byggingu skemmu í Bjarnarflagi hefði verið samþykkt sama dag.  Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Kærandi vísar til þess að hann sé sameigandi að lóðarréttindum þeirrar lóðar sem heimiluð skemma skuli standa á. Með hinni kærðu ákvörðun sé því brotið gegn stjórnarskrárvörðum eignarétti hans. Auk þess fari ákvörðunin í bága við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og sé málsmeðferð að öðru leyti svo ábótavant að ógildingu varði.

Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að eftir athugun málsins hafi verið ákveðið að kanna hvort tilefni sé til að afturkalla umdeilda ákvörðun. Í ljósi þess sé ekki gerð athugasemd við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda innan tiltekins frests, en hann hefur ekki nýtt sér það tækifæri.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Fyrir liggur að byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum hefur verið gefið út og geta því framkvæmdir hafist hvenær sem og teljast því yfirvofandi í skilningi greinds lagaákvæðis.

Ýmis álitaefni eru uppi í málinu sem áhrif geta haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar, m.a. um lóðarréttindi byggingarleyfishafa yfir þeirri lóð þar sem byggingunni er ætlað að rísa. Hefur stjórnvald það sem tók hina kærðu ákvörðun ekki lagst gegn því að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða og jafnframt upplýst að af hálfu sveitarfélagsins sé nú verið að kanna hvort tilefni sé til að afturkalla ákvörðunina í ljósi þess sem fram er komið í málinu.

Með hliðsjón af þeim atvikum sem að framan er lýst þykir rétt að fallast á kröfu kæranda um stöðvun þeirra framkvæmda sem hin kærða ákvörðun heimilar.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi skulu stöðvaðar á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.