Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

51/2018 Eyrarvegur

Árið 2018, miðvikudaginn 18. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 51/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 21. febrúar 2018 um að samþykkja deiliskipulag miðbæjarins á Selfossi, Sveitarfélaginu Árborg, að því er varðar lóðina að Eyravegi 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2018, er móttekið var hjá nefndinni 27. s.m., kærir Knútsborg ehf. ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 21. febrúar um að samþykkja deiliskipulag miðbæjarins á Selfossi vegna lóðarinnar að Eyravegi 5. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar fyrrgreinda lóð. Jafnframt er farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök:
Hinn 21. febrúar 2018 samþykkti bæjarstjórn Árborgar deiliskipulag miðbæjarins á Selfossi. Samkvæmt greinargerð þess afmarkast skipulagssvæðið af Eyravegi og Austurvegi til norðurs og aðliggjandi íbúðarlóðum við Tryggvagötu til austurs, Sunnuvegi til suðurs og Kirkjuvegi til vesturs. Er m.a. gert ráð fyrir að húsið að Eyravegi 5 geti vikið með tímanum og að uppbygging eigi sér stað á lóðinni.

Kærandi vísar til þess að hann eigi bæði bein og óbein eignarréttindi á lóðinni Eyravegi 5. Virðist sem stærsti hluti lóðarinnar sé skilgreint sem grænt svæði sem rýri mjög verðmæti eignarinnar, en kærandi hafi hugsað sér að byggja á lóðinni. Sé það kæranda mikið hagsmunamál að framkvæmdir hefjist ekki fyrr en efnislegur úrskurður nefndarinnar liggi fyrir.

Sveitarfélaginu Árborg var tilkynnt um framkomna stöðvunarkröfu en hefur ekki látið málið til sín taka innan þess frests sem veittur var til athugasemda þar um.

Niðurstaða
: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til eðlis þeirra ákvarðana og fyrrgreindra lagaákvæða, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er hafnað.