Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

20/2018 Laxar, Þorlákshöfn

Árið 2018, þriðjudaginn 17. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 20/2018, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 um útgáfu rekstrarleyfis fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. í Þorlákshöfn, með kynbættum norskum laxi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar 2018, sem barst nefndinni sama dag, kæra Veiðifélag Árnesinga, Náttúruverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 að gefa út rekstrarleyfi fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. að Laxabraut 9, Þorlákshöfn, með kynbættum norskum laxi af SAGA stofni. Kærendur gera þá kröfu að ákvörðunin verði ógilt og jafnframt er þess krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 21. febrúar 2018.

Málsatvik og rök:
Matvælastofnun gaf hinn 13. nóvember 2017 út rekstrarleyfi fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. í Þorlákshöfn. Rekstrarleyfið er gefið út skv. lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Áður hafði Umhverfisstofnun gefið út starfsleyfi til handa sama aðila, dags. 8. nóvember s.á. og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Kærendur kröfðust einnig stöðvunar réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar kveðnum upp 6. febrúar 2018.

Kærendur kveðjast eiga þeirra hagsmuna að gæta, að ekki sé stefnt í hættu lífríki Ölfusár og vatnakerfis hennar og hinum villtu lax- og silungsstofnum vatnakerfisins, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun frá erlendum og framandi laxastofni, sem fáir mótmæli að muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu seiðaeldi leyfishafa. Krafa um að réttaráhrifum hins kærða leyfis verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar sé fram komin þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar og áður en afgreiðsla nefndarinnar liggi fyrir geti hafist framkvæmdir við umrætt sjókvíaeldi eða eldið aukið. Leyfinu sé ætlað að hafa réttaráhrif þegar í stað og þau áhrif þurfi að stöðva áður en lengra sé haldið. Hvað varði þau rök í fyrri úrskurði, þar sem hafnað hafi verið frestun réttaráhrifa, að frestun þeirra hefði í för með sér mikið tjón fyrir leyfishafa, bendi kærendur á að ekki hafi farið fram mat á hagsmunum aðila.

Af hálfu Matvælastofnunar er bent á að ef litið sé til skýringarsjónarmiða með 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þá sé almennt talið mæla gegn því að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi andstæðra hagsmuna að gæta. Þá verði að leggja heildstætt mat á þau sjónarmið er fjallað sé um við útgáfu leyfisins, réttmæta hagsmuni aðila og hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt. Matvælastofnun telji að við útgáfu hins kærða rekstrarleyfis hafi stofnunin fylgt ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi og ekki sé tilefni til að fallast á kröfu um að leyfið verði ógilt. Af þeim sökum og með hliðsjón af réttmætum væntingum leyfishafa verði ekki séð að tilefni sé til að fresta réttaráhrifum leyfisins.

Leyfishafi bendir á að ljóst sé að ef leyfishafa verði gert að stöðva rekstur á grundvelli hins kærða rekstrarleyfis, yrði tjón hans gríðarlegt. Liggi þannig fyrir að farga þyrfti þeim seiðum sem nú séu í ræktun í stöðinni, með tilheyrandi mengun og tjóni. Slíkt myndi auk þess hafa veruleg áhrif á afkomu leyfishafa til framtíðar. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að hagsmunir leyfishafa af því að fá að halda áfram rekstri á grundvelli hins kærða leyfis séu miklum mun meiri en hagsmunir kærenda af því að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan kæra sé til umfjöllunar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar, þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærendur byggja í kæru sinni á því að hætta sé á lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun sleppi eldisfiskur úr stöðinni. Fyrir liggur matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2016 og hefur hún ekki verið kærð. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að helstu neikvæðu áhrif eldisins yrðu losun næringarefna út í sjó, en að ekki væru líkur á að næringarefni söfnuðust upp að neinu ráði vegna staðhátta. Væri eldið ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður með hliðsjón af framangreindu að telja litlar líkur á að þau áhrif komi fram á umhverfið á meðan á meðferð málsins stendur að kæruheimild verði þýðingarlaus, en að sama skapi er ljóst að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér mikið tjón fyrir leyfishafa. Þá skal á það bent að verði eldið aukið umfram það sem þegar hefur verið leyft kemur til nýrra stjórnvaldsákvarðana sem einnig eru kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Eru því ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða rekstrarleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 um útgáfu rekstrarleyfis fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. í Þorlákshöfn, með kynbættum norskum laxi.