Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2018 Þingvallavegur

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 49/2018, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 um að tilteknar endurbætur á Þingvallavegi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 að endurbætur á Þingvallavegi á milli þjónustumiðstöðvar og syðri vegamóta við Vallarveg í Bláskógabyggð skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, að umrædd framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum og að framkvæmdir við endurbætur Þingvallavegar verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar. Verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Síðla árs 2017 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaðar endurbætur Vegargerðarinnar á tilgreindum kafla Þingvallavegar, sem kynni að teljast framkvæmd sem háð væri mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun leitaði umsagna um framkvæmdaáformin og tók í kjölfarið ákvörðun um að fyrirhugaðar endurbætur á veginum væru ekki líklegar til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðunin er frá 16. febrúar 2018 og í henni tilgreint að kærufrestur vegna hennar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sé til 23. mars s.á.

Kærendur gera þá kröfu að framkvæmdir við fyrirhugaðar endurbætur Þingvallavegar verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðanefndin hafi málið til meðferðar. Náttúruspjöll séu yfirvofandi og fyrir liggi að framkvæmdaraðili sé tilbúinn að hefja verkið á næstu vikum eða mánuðum.

Skipulagsstofnun taldi ekki tilefni til að veita umsögn um stöðvunarkröfuna.

Af hálfu Vegagerðarinnar, sem er framkvæmdaraðili fyrirhugaðra framkvæmda, er farið fram á að kröfu um stöðvun framkvæmda verði hafnað. Verkið sé hvorki hafið né sé það yfirvofandi, í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og muni ekki hefjast fyrr en tilskilin leyfi liggi fyrir. Vísað sé til þeirrar meginreglu stjórnsýsluréttar að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum. Allar undantekningar þar frá beri að skýra þröngt. Kærandi hafi ekki ríka hagsmuni af því að krafa um stöðvun framkvæmda nái fram að ganga enda hafi almenningi og hagsmunaaðilum gefist fullt tækifæri til að koma sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um hvort Skipulagsstofnun hafi borið að kveða á um að fyrirhugaðar framkvæmdir við endurbætur Þingvallavegar skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þar um felur ekki í sér heimild til þess að hefja framkvæmdir heldur þurfa að koma til sérstakar stjórnvaldsákvarðanir, m.a. um framkvæmdaleyfi, sem kæranlegar eru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkrar stjórnvaldsákvörðunar er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi ákvarðana sem veita ekki heimild til þess að framkvæmdir hefjist.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og hinnar kærðu ákvörðunar, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda, enda veitir hin kærða ákvörðun ekki heimild til þess að þær hefjist.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun fyrirhugaðra framkvæmda við endurbætur á hluta Þingvallavegar er hafnað.