Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

121/2016 Flýtirein á Keflavíkurflugvelli

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. ágúst 2016 um að bygging flýtireina á Keflavíkurflugvelli skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. september 2016, sem barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Vogagerðis 6, Vogum, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. ágúst 2016 að bygging flýtireina á Keflavíkurflugvelli skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 11. október 2016.

Málsatvik og rök: Í kjölfar samskipta við Skipulagsstofnun vegna framkvæmda við Keflavíkurflugvöll beindi Isavia ohf. fyrirspurn til stofnunarinnar, dags. 20. júní 2016, um matsskyldu fyrirhugaðra framkvæmdar sem fæli í sér byggingu tveggja flýtireina á Keflavíkurflugvelli. Kom fram að flýtireinar myndu stytta brautartímann á milli lendinga og milli lendingar og flugtaks. Með flýtirein væri hægt að stjórna betur umferð flugvéla á jörðu niðri og draga úr þeim tíma sem þær þyrftu að vera á brautarkerfinu eða í bið.

Skipulagsstofnun leitaði eftir umsögnum frá Reykjanesbæ, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, sveitarfélaginu Garði, Samgöngustofu, Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar, Sandgerðisbæ og Umhverfisstofnun. Töldu allir umsagnaraðilar að umræddar framkvæmdir skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum og varð niðurstaða Skipulagsstofnunar 17. ágúst 2016 á sama veg.

Kærandi skírskotar til þess að það sé alþekkt aðferð framkvæmdaraðila, til þess að skjóta sér undan mati á umhverfisáhrifum, að tilkynna aðeins lítinn hluta framkvæmdar og sækja um undanþágu frá mati með þeim rökstuðningi að aðeins sé um sáralitla framkvæmd að ræða. Það sé margdæmt fyrir Evrópudómstólnum að þetta vinnulag standist ekki löggjöf um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Röksemdafærsla Skipulagsstofnunar gangi þvert á kröfur nefndrar löggjafar um mat á heildaráhrifum fyrirhugaðra framkvæmda. Matið eigi að vera heildstætt en ekki bútað niður og taka eigi tillit til umhverfisáhrifa eins fljótt og hægt sé í öllum ferlum við tæknilega áætlanagerð og ákvarðanatöku. Flýtireinarnar séu hluti af stórframkvæmd sem ljóst sé að sæta þurfi mati á umhverfisáhrifum.

Af hálfu Skipulagsstofnunar er vísað til þess að samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem sé kærð. Kærandi eigi lögheimili í Reykjavík og búi þar að jafnaði. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Vegagerðarinnar séu 14 km á milli Keflavíkurflugvallar og Voga, þar sem kærandi á fasteign. Sé fasteign kæranda því ekki skammt frá flugvellinum. Þá verði ekki séð að hann eigi grenndarhagsmuni sem skapi honum kæruaðild vegna flýtireinanna á flugvellinum og annarra framkvæmda sem hafi farið þar fram. Á mynd sem sýni áhrifasvæði í íbúabyggð séu ekki sýnd íbúðasvæði í Vogum. Geti kærandi ekki reist kæruaðild sína á því að hann sem fasteignareigandi verði fyrir óþægindum vegna hávaða frá aukinni flugumferð á flugvellinum. Loks sé bent á að óvissa sé um hvort heildarflugumferð um völlinn muni aukast vegna tilkomu flýtireinanna.

Isavia ohf, sem framkvæmdaraðili, bendir á að bygging flýtireina sé hluti af framkvæmd við endurnýjun yfirlags flugbrautanna, þ.e. notað hafi verið tækifærið þegar fara þurfti í viðhald á brautunum til að byggja flýtireinar. Bygging flýtireina sé sjálfstæð framkvæmd sem ekki sé hluti af stærri matsskyldri framkvæmd. Um sé að ræða einfalda framkvæmd gerða til þess að gera flugvélum mögulegt að beygja af flugbraut fyrr og með einfaldari og fljótlegri hætti. Þetta spari bæði tíma og eldsneyti og dragi úr hávaða og mengun frá hverri lendingu. Þá hafi málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verið í fullu samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. ágúst 2016 um að bygging flýtireina á Keflavíkurflugvelli skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Í kæru sinni vísar kærandi til þess að hann sé fasteignareigandi í Vogum en að öðru leyti er vísað til atriða sem telja verður til almannahagsmuna, s.s. að aukin flugumferð valdi auknum hávaða, aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda, aukinnar umferðar á vegum, aukins álags á ferðamannastöðum og á náttúru landsins. Tilvísun til slíkra almannahagsmuna nægir ekki til kæruaðildar að því undanskildu að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta kært nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en kærandi í máli þessu er ekki slík samtök. Þá er fjarlægð frá mörkum flugvallarsvæðisins að húseign kæranda um 10 km  í beinni loftlínu. Verður því ekki séð að kærandi eigi þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni umfram aðra sökum grenndaráhrifa að það skapi honum kæruaðild.

Með hliðsjón af framangreindu þykir á skorta að kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

136/2016 Brautarholt Kjalarnes

Með
Árið 2017, mánudaginn 12. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 136/2016, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2016 um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 5 í Brautarholti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Fylkir ehf., eigandi jarðarinnar Arnarholts á Kjalarnesi, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2016 að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 5 í Brautarholti. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Bjarni Pálsson, Brautarholti 1, Kjalarnesi, sömu ákvörðun með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærurnar lúta að sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður síðargreint kærumál, sem er nr. 138/2016, sameinað kærumáli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 9. nóvember 2016.

Málavextir: Deiliskipulag jarðarinnar Brautarholts frá árinu 2001 gerði ráð fyrir graskögglaverksmiðju á jörðinni og voru um 130 ha tún á henni nytjuð til framleiðslunnar. Einnig var gert ráð fyrir stóru svínabúi á norðurhluta jarðarinnar.

Í byrjun árs 2016 var ákveðið að grenndarkynna breytingu á deiliskipulaginu og var hún kynnt fyrir hagsmunaaðila Brautarholti 1 frá 2. til 20. maí 2016 og bárust athugasemdir frá honum á þeim tíma. Í greinargerð með breytingunni kemur fram að starfsemi graskögglaverksmiðju hafi verið hætt en á jörðinni sé stórt svínabú og fyrirhuguð sé starfsemi alifuglabús í húsum merktum nr. 8 á uppdrætti, sem tilheyra eigendum norðurhluta jarðarinnar. Húsin sem fyrirhugað sé að nota sem alifuglahús hafi verið byggð á árunum 1984-2001 og notuð fyrir svínarækt allt til ársins 2010, en hafi ekki verið í notkun síðan þá. Áformað sé að í húsunum verði annars vegar uppeldi á hænuungum og hins vegar varphænur til framleiðslu á neyslueggjum. Húsin séu samtals um 2.575 m2 að flatarmáli.

Hinn 1. september 2016 samþykkti borgarráð Reykjavíkur hina grenndarkynntu deiliskipulagstillögu. Tók breytingin gildi 19. september s.á. með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.
Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að í auglýsingu komi fram að deiliskipulagsbreytingin felist í því að svínabúi sé breytt í alifuglabú og að breytingin hafi hlotið meðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þ.e. að fram hafi farið grenndarkynning en ekki kynning og samráð í samræmi við 40. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., laganna. Öðrum kærenda, eiganda Arnarholts, hafi ekki verið kynnt þessi breyting með nokkrum hætti, en fasteignir hans í Arnarholti séu innan við einn km frá hinu ætlaða alifuglabúi í Brautarholti 5. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting raski því verulega hagsmunum hans. Með því að fara með deiliskipulagsbreytinguna eftir 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga virðist sem Reykjavíkurborg telji að tillagan feli í sér svo litla breytingu frá fyrra skipulagi, að nægilegt hafi verið að grenndarkynna hana í stað almennrar auglýsingar skv. 1. mgr. 43. gr. laganna. Telja verði að breytingin sé veruleg og geti haft mikil áhrif á umhverfi Arnarholts. Með henni sé verið að leggja grunn að einu stærsta alifuglabúi landsins, þar sem enginn leyfisskyldur rekstur hafi verið um árabil. Ljóst sé að mengun muni aukast verulega á svæðinu, einkum lyktar- og rykmengun og mengun vegna dreifingar hænsnaskíts á nærliggjandi tún, sem bætist við þá mengun sem nærliggjandi svínabú valdi.

Kærandinn í Brautarholti 1 tekur fram að það sé óhjákvæmilegt, við mat á gildi hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar, að skoðuð verði tengsl skipulagslöggjafarinnar við ákvæði í reglugerð nr. 520/2015, um eldishús alifugla, loðdýra og svína, sem setji sveitarfélögum landsins ákveðin fyrirmæli og skyldur að því er varði skipulagsákvarðanir.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. og 6. gr. nefndrar reglugerðar skuli staðsetning eldishúsa vera í samræmi við skipulagsáætlanir og skipulagsreglugerð. Samkvæmt þessum ákvæðum skuli fjarlægðarmörk ákvörðuð í skipulagsáætlunum, að teknu tilliti til hugsanlegra umhverfisþátta og þeirra lágmarksfjarlægða sem kveðið sé á um í reglugerðinni. Hér eigi ekki við þau rök skipulags- og umhverfisyfirvalda Reykjavíkur að vegna þess að umsókn leyfishafa lúti einungis að rekstri bús með 35.000 fuglum sé ekki skylt að ákvarða fjarlægðarmörk samkvæmt reglugerð nr. 520/2015. Yrði fallist á þessi sjónarmið yrði heimilt að stofnsetja alifuglabú með 39.999 fuglum með nokkurra metra millibili, án takmarkana, væntanlega svo fremi sem óskyldir aðilar standi að rekstrinum. Vegna fyrirmæla í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, þar sem kveðið sé á um að fjarlægð milli eldhúss alifuglaeldis og matvælafyrirtækja, annarra en sjálfs búsins, skuli ekki vera undir 300 m, sé algjörlega óheimilt að stofnsetja nýja starfsemi, nýtt alifuglabú í Brautarholti 5, vegna þess að fjarlægðin þaðan að svínabúinu sé einungis 100 m.

Skipulagsstofnun hafi í ákvörðun sinni frá 16. mars 2016, um að umrædd framkvæmd sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, tekið fram að í skipulagsáætlun þurfi að kveða á um fjarlægð milli eldishúsa á svæðinu og fjarlægð þeirra frá mannabústöðum. Það hafi ekki verið gert í samþykktri deiliskipulagsbreytingu.

Þá sé kærandi ósammála þeirri afstöðu skipulagsfulltrúa, að hin kærða breyting sé svo lítilsháttar að nægilegt hafi verið að grenndarkynna hana í stað þess að hafa farið með hana sem breytingu á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að eigandi Arnarholts eigi enga hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið. Ljóst sé að u.þ.b. einn km sé á milli umræddrar lóðar kærandans og fyrirhugaðs alifuglabús, en í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 16. mars 2016, hafi komið fram að ætla megi að umhverfisáhrif vegna lyktarónæðis varði fáa og stærstan hluta ársins (99% tímans) verði lyktarónæði við íbúðarhús í Brautarholti undir óþægindamörkum. Sé því ljóst að kærandinn eigi enga lögvarða hagsmuna af því að fá skorið úr um kæruefnið skv. lögum nr. 131/2011, þar sem fyrirhuguð staðsetning alifuglabúsins hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni hans.

Hvað varði rök kæranda að Brautarholti 1 þá fallist Reykjavíkurborg ekki á það að mál þetta sé þannig vaxið að ógildingu varði.

Ekki sé fallist á að fjarlægðarmörk 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015, sem tiltaki lágmarksfjarlægðir nýbyggingar eldishúsa, meiri háttar breytingar eða stækkanir á eldishúsum, eigi við í því tilfelli sem hér sé til umfjöllunar. Ákvæðið taki til nýbygginga, meiri háttar breytinga og stækkunar á eldishúsum, en ekki til fasteigna sem nú þegar hafi verið reistar og starfsemi sem tíðkuð hafi verið í fasteigninni. Bent sé á að fasteignin Brautarholt 5 hafi frá upphafi verið skráð sem svínabú og því sé ekki fallist á að um meiri háttar breytingu sé að ræða. Þar af leiðandi gildi fjarlægðarmörkin ekki gagnvart núverandi byggingum, enda geri nefnd reglugerð ekki ráð fyrir slíku. Samkvæmt 6. gr. hennar séu ekki sett fjarlægðarmörk fyrir alifuglabú með færri en 40.000 stæði. Skipulagsyfirvöld geti sett fjarlægðartakmörk í skipulag ef ástæða þyki til, en svo hafi ekki þótt í þessu tilviki, enda fyrirhugaður rekstur undir 40.000 stæðum.

Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé gert ráð fyrir að sveitarstjórn geti ákveðið að láta fara fram grenndarkynningu í stað auglýsingar skv. 1. mgr. sömu greinar, sbr. 37.-42. gr. sömu laga. Grenndarkynning sé löglegt úrræði við breytingu á deiliskipulagi og sé það sveitarstjórnar að meta hvort það sé tæk stjórnsýsluleið við breytingu á deiliskipulaginu. Breytingartillaga þurfi að teljast óveruleg, en í 2. málsl. 2. gr. 43. gr., sbr. gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sé til viðmiðunar talið upp hvað megi leggja til grundvallar við það mat. Taka skuli mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Hafi það verið metið svo að ekki hafi verið um að ræða breytingu á notkun, enda sé enn gert ráð fyrir því að fasteignirnar verði nýttar undir landbúnað, en skilgreind notkun svæðisins sé enn landbúnaðarsvæði. Nýtingarhlutfall breytist óverulega og útlit og form svæðisins breytist ekki. Hvað varði athugasemdir er snúi að lyktar-, ryk- og loftmengun vegna starfsemi á búinu þá geri skipulagslög ekki ráð fyrir því að slíkt sé tekið inn í mat á því hvort breyting skuli grenndarkynnt eða auglýst. Raunar megi fremur telja að grenndarkynning henti betur við slíkar aðstæður, þar sem þá sé hægt að leggja mat á það hverjir verði fyrir slíkri mengun og kynna fyrirhugaða breytingu fyrir þeim í stað þess að birta almenna auglýsingu, sem gæti farið fram hjá hagsmunaaðilum.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að hann telji ekki sérstaka þörf á athugasemdum við fyrirliggjandi kærur, umfram þær að augljóst sé að kröfum kærenda beri að hafna. Málsástæður þeirra byggi aðallega á tilvísunum til annarra laga og atvika en hin kærða ákvörðun sé byggð á. Óheimilt sé að líta til annarra lagabálka en beinlínis liggi til grundvallar ákvörðuninni og varði efni hennar beint. Megi m.a. í því samhengi vísa til niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 651/2013, þó atvik þess máls hafi raunar verið „öfug“ miðað við þetta mál, þ.e. þar hafi skipulagslögum verið beitt þegar þau áttu ekki við í stað laga nr. 7/1998. Í fyrirliggjandi málum sé hins vegar verið að krefjast þess að lögum nr. 7/1998 verði beitt í stað skipulagslaga.

Viðbótarathugasemdir kæranda að Brautarholti 1: Bent sé á að lýsing staðhátta í hinni kynntu skipulagsbreytingu sé ónákvæm og villandi. Sagt sé í tillögunni að á jörðinni sé stórt svínabú og að fyrirhuguð sé þar starfsemi alifuglabús sem tilheyri eigendum norðurhluta jarðarinnar. Þarna sé ranglega gefið í skyn að sömu eigendur séu að svínabúinu og fyrirhuguðu alifuglabúi. Þá sé vakin athygli á því að möguleikar til dreifingar hænsnaskíts á tún að Brautarholti séu afar takmarkaðir.

Kærandi telji hvoruga afstöðu Reykjavíkurborgar til fjarlægðarmarka skv. reglugerð nr. 520/2015 eiga rétt á sér. Reglugerðarákvæðið nái augljóslega til húsa sem þegar séu reist, enda sé beinlínis gert ráð fyrir því að ákvæðið nái til þess þegar gerðar séu meiri háttar breytingar eða stækkanir á eldishúsum og breytt notkun eldishúss eða breytt notkun bygginga í matvælafyrirtæki. Mál þetta snúist um meiri háttar breytingu þar sem húsin að Brautarholti 5 hafi verið skráð sem svínabú. Þau hafi verið notuð á sínum tíma undir svínabú að fenginni sérstakri undanþágu ráðherra vegna 500 m fjarlægðarreglunnar í 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Kærandi telji aðstæður í þessu máli ekki réttlæta grenndarkynningu í stað hefðbundinnar meðferðar deiliskipulagstillögu. Staðsetning eins stærsta alifuglabús á landinu í einungis 200 m fjarlægð frá íbúðarhúsi hans og stutt frá þéttbýli í Grundarhverfi kalli ekki á léttari málsmeðferð. Þá sé rekstur alifuglabús ekki í samræmi við landnotkun svæðisins samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.

Niðurstaða: Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var heimilað að nota húsakost sem fyrir var að Brautarholti 5 á Kjalarnesi undir alifuglabú, en þar mun áður m.a. hafa verið rekið svínabú. Í gildandi aðalskipulagi er landnotkun umrædds svæðis skilgreind sem landbúnaðarsvæði og var sú landnotkun ekki þrengd í deiliskipulagi frá árinu 2001.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Annar kærenda er eigandi jarðarinnar Arnarholts, en fjarlægð húsa þar frá hinu fyrirhugaða alifuglabúi er um einn km. Í svipaðri fjarlægð frá húsum í Arnarholti er rekið svínabú að Brautarholti 8. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er lyktarmengun frá greindu svínabúi talin töluvert meiri en af fyrirhuguðu alifuglabúi og að ekki verði greinanlegur munur á dreifingu lyktar vegna samlegðar fyrirhugaðrar starfsemi búanna. Í skýrslu sem unnin var vegna starfsleyfisumsóknar fyrir fyrirhugaðan rekstur kemur fram að lyktarónæði frá svínabúinu sé 87.605 OU/s, en frá fyrirhugðu alifuglabúi 11.850 OU/s. Samkvæmt viðmiðum um huglægt mat á lykt, sem finna má í starfleyfi svínabúsins að Brautarholti 10, verður hún vart greinanleg við Arnarholt. Ekki er gert ráð fyrir því í útreikningum þessum að í alifuglabúinu verði búnaður til þess að takmarka lyktarmengun. Hins vegar er í starfsleyfi fyrirhugaðs reksturs gerð krafa um að takmarka skuli loftmengun frá starfseminni eins og kostur er. Má því ætla að lyktarmengun frá alifuglabúinu verði minni en ráð er fyrir gert í nefndri skýrslu.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið, og þeirri staðreynd að Arnarholt er staðsett við landbúnaðarsvæði þar sem búast má við lykt sem slíkum rekstri fylgir, verður ekki talið að hin kærða ákvörðun snerti einstaklega lögvarða hagsmuni kæranda í Arnarholti með þeim hætti að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu. Verður kæru hans af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt fyrir kæranda í Brautarholti 1. Hann kom að athugasemdum sínum við hina kynntu tillögu og var þeim athugasemdum svarað af hálfu borgaryfirvalda. Málið fékk lögboðna yfirferð Skipulagsstofnunar og öðlaðist deiliskipulagsbreytinging gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína skal við nýbyggingu, meiri háttar breytingar, stækkanir á eldishúsum eða breytta notkun í eldishús, sem valdið geta óþægindum umfram það sem fyrir er, gæta þess að fjarlægð milli eldishúss alifuglaeldis og annarra matvælafyrirtækja verði að lágmarki 300 m. Á svæðinu sem um ræðir er þegar staðsett þauleldi svína og fyrir hina kærðu breytingu hafði áður verið starfrækt svínaeldi í Brautarholti 5. Í ljósi þess verður að telja hina kærðu breytingu óverulega, en með henni er ekki gerð breyting á nýtingarhlutfalli, útliti og formi húsa, auk þess sem landnotkun svæðisins er óbreytt. Verður því að telja að sveitarstjórn hafi verið heimilt að fara með breytinguna sem óverulega samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í hinni kærðu ákvörðun var ekki tilgreind fjarlægð umdeildrar starfsemi frá næsta eldishúsi skv. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015, en þar sem húsakostur er þegar til staðar er fjarlægð milli húsa á svæðinu óbreytt.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar sem geta raskað gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Verður því ekki fallist á ógildingarkröfu kærandans í Brautarholti 1.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda í Arnarholti, Kjalarnesi, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kæranda í Brautarholti 1 um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2016 um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi vegna lóðarinnar Brautarholts 5.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

10/2017 Hótel Laxá

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 15. október 2013 um að samþykkja leyfi fyrir byggingu hótels á lóðinni Olnbogaási 1 í landi Arnarvatns í Skútustaðahreppi. Jafnframt er kærð samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúans frá 12. september 2016 um leyfi fyrir byggingu þriggja starfsmannahúsa á lóðum nr. 2, 3 og 4 við Olnbogaás.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 15. október 2013 að samþykkja leyfi fyrir byggingu hótels á lóðinni Olnbogaási 1 í landi Arnarvatns í Skútustaðahreppi. Einnig er kærð samþykkt hans frá 12. september 2016 um leyfi fyrir byggingu þriggja starfsmannahúsa á lóðum nr. 2, 3, og 4 við Olnbogaás. Gerð er krafa um að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Jafnframt er gerð krafa um að skolphreinsistöð, er tengd verði hóteli og starfsmannahúsum, sæti mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Til vara er þess krafist að framkvæmdaraðila verði gert að tilkynna framkvæmdina til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. sömu laga og að ákveðið verði að Umhverfisstofnun skuli fjalla um leyfi fyrir henni. Enn fremur að lagt verði fyrir framkvæmdaraðila að setja upp skolphreinsistöð í samræmi við 24. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, eða þannig að sýnt sé fram á að engin næringarefni berist með tímanum í Mývatn. Þá er þess krafist að ákveðið verði að skolp frá starfsmannahúsum verði tengt skolphreinsistöð hótelsins.

Loks er gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvarðana að því er varðar skolphreinsistöð og rotþró og að skolpi frá hóteli og starfsmannahúsum verði ekið út af verndarsvæðinu á viðurkenndan urðunarstað og ekki hleypt út í umhverfið meðan kærumálið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir mál þetta nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Skútustaðahreppi 20. janúar og 28. apríl 2017. 

Málavextir: Hinn 15. október 2013 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps leyfi fyrir byggingu 80 herbergja hótels á lóðinni Olnbogaási 1 í landi Arnarvatns. Í tilkynningu til leyfishafa um samþykkt leyfisins var vakin athygli á því að gerð væri krafa um ítarlegri hreinsun skolps en tveggja þrepa skv. 24. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Jafnframt var gerð krafa um að lögð yrði fram áætlun um vöktun á virkni hreinsibúnaðar í samráði við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra. Umsókn um leyfi fyrir byggingu þriggja starfsmannahúsa á lóðum nr. 2, 3 og 4 við Olnbogaás var síðan samþykkt af skipulags- og byggingarfulltrúa 12. september 2016.

Málsrök kæranda:
Kærandi tekur fram að um sé að ræða byggingu hótels með 80 herbergjum, ásamt skolphreinsistöð, og þriggja starfsmannahúsa með rotþró og siturlögn. Tengist hinar kærðu ákvarðanir innbyrðis og varði eina og sömu hótelframkvæmdina. Skolphreinsistöð hafi verið tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Beri því að skoða alla framkvæmdina í ljósi kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þrátt fyrir að hótel í dreifbýli hafi fyrst orðið tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar með lögum nr. 138/2014.

Nefndar ákvarðanir hafi hvorki verið birtar opinberlega né hafi þær verið gerðar aðgengilegar almenningi á opnu vefsvæði. Innan við mánuður sé síðan kæranda hafi orðið kunnugt um leyfisveitingarnar og sé kæran því sett fram innan kærufrests.

Skipulags- og byggingarfulltrúa hafi brostið lagaheimild til töku hinna kærðu ákvarðana. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og 2. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 sama efnis lúti allar framkvæmdir á verndarsvæði Mývatns leyfisveitingu Umhverfisstofnunar. Ekkert slíkt leyfi hafi legið fyrir. Þá séu hótelbyggingin og starfsmannahúsin undirorpin byggingarbanni skv. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012, eins og hún verði skýrð. Engin undanþága hafi verið veitt frá því banni. Fyrrnefnd skolphreinsistöð hafi ekki verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar og því ekki hlotið lögmæta umfjöllun. Hafi skipulags- og byggingarfulltrúa því verið óheimilt að gefa út byggingarleyfi, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Að auki stangist uppsetning rotþróar við starfsmannahús á við ákvæði reglugerðar nr. 665/2012 um ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa. Í gögnum komi ekkert fram um í hverju þriðja þrep skolphreinsisbúnaðarins skuli felast eða hvort búnaðurinn komi sannarlega í veg fyrir röskun á lífríki Mývatns. Ekki hafi verið sýnt fram á að skolphreinsistöðin uppfylli lagaskilyrði og stjórnvaldsfyrirmæli, sbr. og verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá 2011-2016. Gera verði þær kröfur til rökstuðnings fyrir ákvörðunum sem þessum að gerð sé grein fyrir þessum atriðum þegar um sé að ræða innlent og alþjóðlegt verndarsvæði svo sem hér sé. Þá hafi starfsleyfi skolphreinsistöðvar ekki verið gefið út, svo vitað sé.

Gengið hafi verið gegn umsögnum Umhverfisstofnunar, sem veittar hafi verið við gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði, og skort hafi á að leita álits heilbrigðiseftirlits. Ekki séu uppfylltar kröfur um rökstuðning. Séu annmarkar þessir í andstöðu við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt hafi byggingarfulltrúa borið að taka mið af meginreglum 8.-11. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. 

Málsrök Skútustaðahrepps: Sveitarfélagið krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Kæra sé of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun um byggingarleyfi vegna hótelsins hafi verið tekin fyrir um þremur og hálfu ári. Óútskýrt og ósannað sé að kærandi hafi ekki haft vitneskju um málið fyrr en í janúar 2017. Þá sé að öðru leyti vísað til eðlis rekstrarins, opinberrar umfjöllunar um hann, auglýsingar um starfsemina og eðlis máls um að undanþága frá mánaðar kærufresti eigi ekki við.
Kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni vegna hinna kærðu ákvarðana. Takmarkist kæruheimild hans við ákvarðanir sem falli undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, í þeim skilningi að ákvörðun varði matsskylda framkvæmd. Skipulagsstofnun hafi ekki tekið neina matsskylduákvörðun. Þá varði umrædd byggingarleyfi ekki framkvæmd sem hafi verið umhverfismetin. Beri að skýra kæruheimild aðila sem ekki eigi lögvarða hagsmuni þröngt. Geti hvorki a- né b-liður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 átt við í máli þessu.

Þeim sjónarmiðum kæranda að tilkynna hafi átt um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 sé mótmælt. Miðað við löggjöf við veitingu byggingarleyfis frá 2013 liggi ekki fyrir að það hreinsivirki sem sett hafi verið upp við hótelið hafi talist skolphreinsistöð. Þá hafi ekki þýðingu sú breyting sem gerð hafi verið á lögum nr. 106/2000 með lögum nr. 138/2014, enda varði byggingarleyfið frá 2016 ekki byggingu á skolphreinsivirki vegna fleiri en 100 persónueininga. Hefði stöðin ekki heldur verið tilkynningarskyld ef gert hefði verið ráð fyrir flutningi á skolpi að hreinsivirki sem þegar hafi verið til staðar.

Valdsvið úrskurðarnefndarinnar miðist við að fjalla um lögmæti kærðra ákvarðanna. Geti nefndin ekki tekið til umfjöllunar kröfur sem feli í sér nýjar ákvarðanir. Þá byggi kærandi á málsástæðum sem falli undir eftirlit Umhverfisstofnunar, heilbrigðiseftirlits eða Skipulagsstofnunar. Álitamál um að fyrirkomulag skolphreinsivirkja sé ekki í samræmi við reglugerðir um fráveitumál verði kærandi að bera fram við hlutaðeigandi eftirlitsaðila á sviði umhverfis- og fráveitumála.

Ákvarðanir um útgáfu framangreindra byggingarleyfa hvíli á lögum. Leyfin hafi verið gefin út á grundvelli fullnægjandi gagna og samrýmist deiliskipulagi fyrir svæðið. Málefni skolphreinsivirkja hafi fengið ítarlega umfjöllun við útgáfu byggingarleyfanna og séu byggð í samræmi við reglugerðir um fráveitumál. Engar forsendur séu til að fella úr gildi byggingarleyfi er taki til þeirra. Þá sé sérstaklega bent á 6. gr. laga nr. 106/2000 en samkvæmt ákvæðinu sé unnt að beina fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir kröfu um frávísun málsins og byggja athugasemdir hans á svipuðum sjónarmiðum og sveitarfélagsins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar sjónarmið sín og setur fram ítarlegri rök um að kærufrestur hafi ekki verið liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni. Að auki bendi hann m.a. á að umhverfisverndarsamtök þurfi ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni til að mega kæra ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi þegar mál varði framkvæmdir er geti haft umtalsverð áhrif á umhverfið eða þau varði brot á landslögum, sbr. 2. og 3. mgr. 9. gr. Árósarsamnings. Ella verði þá ekki tryggður réttur kæranda að íslenskum lögum til að bera ákvarðanir, athafnir og athafnaleysi, sem þátttökuréttur hans taki til, undir óháðan og sjálfstæðan dómstól eða annan úrskurðaraðila. Væri kæruréttur sá sem umhverfisverndarsamtökum sé tryggður með Árósarsamningi og innleiðingu hans, með lögum nr. 130/2011 og 131/2011, þýðingarlaus ef hann væri ekki til staðar í þeim tilfellum að ágreiningur væri uppi um það hvort framkvæmd, sem byggingarleyfi væri veitt fyrir án umhverfismats, skuli umhverfismetin eða ekki. Beri sveitarfélaginu, m.a. með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kanna hvort framkvæmdaraðili sem sæki um leyfi hyggi á framkvæmd sem kunni að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum í skilningi laga nr. 106/2000.

Þá hafi borið að tilkynna hin umdeildu starfsmannahús til Skipulagsstofnunar skv. tölulið 12.05 í 1. viðauka laga nr. 106/2000, en húsin teljist hluti af hótelinu í skilningi ákvæðisins. Um hafi verið að ræða breytingu á fyrri framkvæmd sem borið hafi að tilkynna skv. 6. gr. laganna til ákvörðunar um matsskyldu. Að auki sé vísað til 13. tölul. 1. viðauka sömu laga, sem fjalli um breytingar og viðbætur við framkvæmdir. 

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt að kæra nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni.

Kærandi er umhverfisverndarsamtök og byggir kæruaðild sína á greindu ákvæði. Er til þess skírskotað í kæru að þar sem borið hafi að tilkynna skolphreinsistöðvar til Skipulagsstofnunar skv. þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum beri að skoða alla framkvæmdina í ljósi kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka samkvæmt lögum nr. 130/2011.

Samkvæmt a-lið fyrrnefndrar 3. mgr. 4. gr. er unnt að kæra til úrskurðarnefndarinnar ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum nr. 106/2000. Þá er samkvæmt b-lið heimilt að kæra ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir þau lög. Hefur a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 nú verið breytt með lögum nr. 138/2014, sem tóku gildi 30. desember 2014, og frá þeim tíma eru ákvarðanir sveitarstjórna um matsskyldu framkvæmda jafnframt kæranlegar til nefndarinnar.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að í 3. mgr. 4. gr. sé afmarkað hverjir eigi kæruaðild. Annars vegar sé um að ræða stjórnvaldsákvarðanir, sem lúti almennum reglum stjórnsýsluréttarins og hins vegar stjórnvaldsákvarðanir þar sem kærendur þurfi ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni, t.d. umhverfisverndarsamtök. Er m.a. tekið fram að undir a-lið ákvæðisins falli ákvarðanir um matsskyldu, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, og að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda, sbr. b-lið. Það sé því eðlilegt að kæruaðild vegna ákvarðana sem tilgreindar séu í a- og b-lið haldist í hendur. Undir b-lið falli leyfi vegna framkvæmda sem matsskyldar séu skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum. Hér undir falli framkvæmdir sem alltaf séu matsskyldar, sbr. 5. gr. laganna og 1. viðauka þeirra, tilkynningarskyldar framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laganna og 2. viðauka þeirra, og framkvæmdir sem ákvörðun ráðherra liggur fyrir um, sbr. 7. gr. laganna. Nái þessi töluliður til þeirra ákvarðana sem vísað sé til í a- og b-lið 1. tölul. 6. gr. Árósarsamningsins. Þau leyfi sem um ræði séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum.

Kærðar eru tvær ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps í máli þessu. Annars vegar er um að ræða samþykkt hans frá 15. október 2013, um leyfi fyrir byggingu hótels á lóðinni Olnbogaási 1 í landi Arnarvatns, og hins vegar ákvörðun frá 12. september 2016, um leyfi fyrir byggingu þriggja starfsmannahúsa fyrir fyrrnefnt hótel. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 er m.a. tiltekið að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar fyrr en fyrir liggi ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld. Nefnd 6. gr. tekur til framkvæmda sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum og svo sem áður segir heldur kærandi því fram að tilkynna hefði þurft Skipulagsstofnun um skolphreinsistöð við hótelið í samræmi við þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000. Þar undir féllu m.a. skolphreinsistöðvar á verndarsvæðum, sbr. c-lið 11. tölul. viðaukans, en framkvæmdirnar eru á verndarsvæði Laxár og Mývatns, sbr. lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað hafa þær framkvæmdir sem leyfðar voru ekki komið til meðferðar Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000. Tekur stofnunin nánar fram í svarbréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. febrúar 2017, að stofnunin hafi ekki fengið til slíkrar meðferðar málefni umræddar hótelbyggingar og tengd mannvirki, þ.e. skolphreinsistöð, starfsmannahús og rotþró með siturlögn. Þá vekur stofnunin athygli á því að töluliður 12.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 hafi komið inn með breytingarlögum nr. 138/2014, sem birt hafi verið 30. desember 2014. Leyfi hafi hins vegar verið veitt fyrir byggingu umrædds hótels á árinu 2013.

Upplýst er að Skipulagsstofnun hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort að framkvæmdir þær er veitt var leyfi fyrir með hinum kærðu byggingarleyfum falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum, enda hefur stofnunin ekki fengið málefni þeirra til slíkrar meðferðar. Með hliðsjón af því sem áður er rakið um ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og lögskýringargögnum er ljóst að það er forsenda kæruaðildar skv. b-lið ákvæðisins að slík niðurstaða liggi fyrir. Telst kærandi því ekki eiga aðild að kæru um lögmæti hinna umdeildu byggingarleyfa og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum. Að fenginni þessari niðurstöðu verður ekki fjallað frekar um aðrar kröfur kæranda.

Úrskurðarnefndin bendir þó á að ekki verður séð að kærandi hafi neytt þeirrar heimildar, sem ráð er gert fyrir í lögum nr. 106/2000, að bera fram fyrirspurn um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar, sem þá skal taka ákvörðun um hvort framkvæmdin eigi undir 6. gr. laganna og lúta þar með málsmeðferðarreglum þeirrar lagagreinar. Er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

13/2017 Laugarnesvegur

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 2. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2017, kæra á aðgerðarleysi byggingarfulltrúans í Reykjavík í tilefni af framkvæmdum í fjölbýlishúsi og á lóð Laugarnesvegar 83 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. janúar 2017, er barst nefndinni 30. s.m., kærir A, Laugarnesvegi 83, Reykjavík, aðgerðarleysi byggingarfulltrúans í Reykjavík „varðandi eldhættu og óleyfisframkvæmdir“ við nefnda fasteign.

Málavextir: Húsið að Laugarnesvegi 83 er þriggja íbúða hús, kjallari, hæð og rishæð. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að deilur hafi staðið milli eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins og kæranda, sem á íbúð í rishæð þess, m.a. vegna 31 m2 skúrs á lóð hússins og framkvæmda við tengingu raflagna hússins í skúrinn.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum samþykktu þáverandi eigendur fasteignarinnar að Laugarnesvegi 83 eignaskiptayfirlýsingu vegna nefndrar fasteignar sem þinglýst var 4. september 1996. Í yfirlýsingunni kemur fram að íbúð, merkt 01-0101, fylgi geymsluskúr sem standi á lóðinni sem ekki hafi verið samþykktur af byggingaryfirvöldum. Er tekið fram að áætlað sé að skúrinn verði í framtíðinni fjarlægður og honum fylgi engin lóðarréttindi. Eigandi skúrsins hafi þó áfram heimild til að endurbæta geymsluskúrinn eða byggja nýjan á lóðinni að fengnu leyfi byggingaryfirvalda. Í skráningartöflu, dags. 11. desember 1995, er fylgdi eignaskiptayfirlýsingunni, er skúrsins ekki getið. Samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands hefur verið skráð 13,5 m2 geymsla á lóðinni Laugarnesvegi 83 og hafði sú matseining númerið 2016845. Kærandi eignaðist íbúð sína að Laugarnesvegi 83 með kaupsamningi, dags. 21. apríl 2001.

Hinn 6. júní 2006 var samþykkt umsókn eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins um byggingarleyfi fyrir áður gerðri 31 m2 bílgeymslu á fyrrgreindri lóð. Þá var hinn 12. janúar 2007 þinglýst á fasteignina yfirlýsingu um samþykki eigenda hennar að bílskúr sem hafi staðið á lóð Laugarnesvegar 83 í yfir 10 ár komi í staðinn fyrir þann sem þar hafi verið á sama stað. Yfirlýsingin er undirrituð af tveimur eigendum tveggja eignarhluta í húsinu en á skortir undirritun kæranda sem eiganda þriðja eignarhlutans. Bílgeymslan var skráð í fasteignaskrá sem 31,0 m2 bílskúr hinn 21. október 2015 sem sama matseining í stað fyrrgreinds 13,5 m2 skúrs. Skráning matseiningarinnar var síðan afmáð 22. september 2016. Ekki liggur fyrir hvenær núverandi skúr var reistur í stað þess sem mun hafa áður staðið á umræddri lóð. Málsrök kæranda: Kærandi byggir málatilbúnað sinn á því að greindur 31 m2 skúr á lóðinni Laugarnesvegi 83 hafi verið byggður í óleyfi og án samþykkis sameigenda og sama eigi við um tengingu skúrsins við raflagnir fjölbýlishússins um sameiginlega lóð. Skúrinn og fjölbýlishúsið á lóðinni sé úr timbri og af skúrnum stafi eldhætta. Ekki sé gert ráð fyrir honum í deiliskipulagi og byggingarleyfi fyrir skúrnum hafi fengist á grundvelli rangra gagna og upplýsinga um samþykki sameigenda lóðarinnar og um áralanga tilvist hans á lóðinni. Allt frá árinu 2006 hafi kærandi kvartað yfir óleyfisframkvæmdunum við byggingarfulltrúa og gert þá kröfu að þær yrðu fjarlægðar og jarðrask afmáð. Síðast hafi sú krafa verið ítrekuð með tölvupósti 17. janúar 2017 sem í engu hafi verið svarað. Leitað hafi verið til Neytendastofu vegna raflagnanna í febrúar 2006 og til Mannvirkjastofnunar 2011 og 2012, sem hafi gert skýrslu um úrbætur af því tilefni. Enn hafi málið verið kært til stofnunarinnar á árinu 2016 og þá ný úttekt gerð og niðurstaða legið fyrir 4. janúar 2017, þar sem vísað hafi verið á úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Vegna athafnaleysis byggingarfulltrúa í tilefni af nefndum óleyfisframkvæmdum hafi verið leitað til umboðsmanns borgarbúa árið 2014, sem hafi í niðurstöðu sinni ári síðar fundið að meðferð málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um að máli kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Óljóst sé af kæru hvort verið sé að kæra tiltekna ákvörðun byggingarfulltrúa, en helst verði ráðið að kært sé samþykki hans frá árinu 2006 fyrir áður gerðum bílskúr að Laugarnesvegi 83. Ekki verði af kæru ráðið að um aðra lokaákvörðun sé að tefla í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar kæra í máli þessu hafi borist úrskurðarnefndinni. Beri að vísa málinu frá skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið sé á um að kæru verið ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin.

Aðila að umdeildum framkvæmdum var tilkynnt um kærumálið, en með tölvupósti 16. mars 2017 tilkynnti hann úrskurðarnefndinni að hann hefði selt íbúð sína að Laugarnesvegi 83, sem umdeildur skúr tilheyri, og telji sig því ekki lengur vera aðila að málinu vegna hagsmuna því tengdu og beri af þeim sökum að taka málið af dagskrá.

Niðurstaða: Fyrir liggur að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. júní 2006 var að undangenginni kynningu samþykkt umsókn um leyfi fyrir áður gerðum 31 m2, 85 m3, bílskúr á fjölbýlishúsalóðinni Laugarnesvegi 83. Samkvæmt bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 16. júní s.á., andmælti kærandi leyfisveitingunni og krafðist þess m.a. að byggingarfulltrúi afturkallaði ákvörðun sína. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að skjóta málum til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Kærufrestur vegna nefnds byggingarleyfis er því löngu liðinn. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til lögmætis nefndrar ákvörðunar í máli þessu.

Samkvæmt fyrirliggjandi málsgögnum hefur kærandi um árabil krafist aðgerða byggingaryfirvalda vegna umdeildra framkvæmda á lóð Laugarnesvegar 83 án þess að séð verði að þær kröfur hafi fengið lögformlega afgreiðslu. Forsaga málsins og málatilbúnaður kæranda ber með sér að tilefni kærumáls þessa sé sá dráttur sem orðið hafi á afgreiðslu greindra erinda kæranda, en krafa um beitingu þvingunarúrræða var síðast ítrekuð í tölvupósti kæranda til byggingarfulltrúa 17. janúar 2017. Í lokamálsgrein 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að unnt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð. Verður að líta svo á að slík kæra felist í málskoti kæranda til úrskurðarnefndarinnar, en lokaákvörðun um afturköllun byggingarleyfis eða um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki væri eftir atvikum kæranleg til nefndarinnar.

Í ljósi þess að kærandi hefur um árabil farið fram á aðgerðir borgaryfirvalda í tilefni af ætluðum ólögmætum framkvæmdum á umræddri lóð verður talið að óhæfilegur dráttur sé orðinn á afgreiðslu erinda kæranda vegna framkvæmdanna án þess að fyrir liggi viðhlítandi skýring á því. Er því lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka til lögformlegrar afgreiðslu kröfu kæranda um afturköllun umdeilds byggingarleyfis og beitingu þvingunarúrræða vegna fyrrgreindra framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúann í Reykjavík að taka til afgreiðslu erindi kæranda vegna framkvæmda á lóð Laugarnesvegar 83 í Reykjavík sem beint hefur verið til embættisins.
 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

15/2017 Hellubraut

Með
Árið 2017, mánudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. nóvember 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna Hellubraut 5 og 7.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. febrúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Hamarsbraut 8, og, Hamarsbraut 6, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. nóvember 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna Hellubraut 5 og 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hellubraut 9, Hafnarfirði, sömu ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. nóvember 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Hellubraut 5 og 7. Verður það kærumál, sem er nr. 23/2017, sameinað máli þessu þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni 14. febrúar og 7. apríl 2017.

Málavextir: Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 12. ágúst 2015 var tekin fyrir beiðni um breytt deiliskipulag fyrir lóðir nr. 5 og 7 við Hellubraut. Var óskað eftir heimild til að rífa friðað hús á lóð nr. 7 og lögð fram áform um að reisa tvö einbýlishús á lóðunum nr. 5 og 7 við Hellubraut. Ákveðið var að vísa erindinu til umsagnar Minjastofnunar Íslands og síðan til skipulags- og byggingarráðs. Á fundi ráðsins 22. september s.á. var lögð fram umsögn Minjastofnunar og málinu frestað með vísan til hennar og óskað eftir nánari upplýsingum um byggingaráform. Á fundi sínum 14. júní 2016 samþykkti skipulags- og byggingarráð að heimila lóðarhafa að vinna breytingu á deiliskipulagi á eigin kostnað. Hinn 28. s.m. var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt var samþykkt að kynna tillöguna sérstaklega fyrir næstu nágrönnum með bréfi. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 18. október s.á. var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa um þær athugasemdir sem borist höfðu. Var hún samþykkt og lagt til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin yrði samþykkt, sem og var gert á fundi bæjarstjórnar 9. október 2016. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 31. janúar 2017.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er nýtingarhlutfall lóðarinnar Hellubraut 5 hækkað úr 0,45 í 0,53 og heimilað að reisa þar tveggja hæða einbýlishús, en samkvæmt eldra deiliskipulagi var heimilt að reisa þar hús á einni og hálfri hæð. Heimilað er að rífa núverandi mannvirki á lóðinni Hellubraut 7 og byggja í þess stað tveggja hæða einbýlishús og heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar hækkað úr 0,45 í 0,60.

Málsrök kærenda: Kærendur að Hamarsbraut taka fram að hin samþykkta deiliskipulagsbreyting sé haldin svo verulegum efnis- og formannmörkum að ógildingu varði. Í fyrsta lagi sé hin samþykkta deiliskipulagsbreyting í andstöðu við almenna skilmála í gildandi deiliskipulagi að því er varði leyfilegt nýtingarhlutfall. Í almennum skilmálum deiliskipulags svæðisins frá 2011 sé skýrt tekið fram að nýtingarhlutfall einbýlishúsalóða norðan Mýrargötu skuli vera að hámarki 0,45. Með hinni samþykktu deiliskipulagsbreytingu fari heimilað nýtingarhlutfall Hellubrautar 5 upp í 0,53 og nýtingarhlutfall Hellubrautar 7 fari úr 0,43 í 0,60. Slík aukning nýtingarhlutfalls eigi sér engin fordæmi á hinu deiliskipulagða svæði og feli í sér brot á jafnræðisreglu, auk þess sem farið sé gegn markmiðum deiliskipulagsins frá 2011 um að gætt skuli jafnræðis við alla uppbyggingu varðandi hæð húsa og nýtingarhlutfall.

Skipulagsbreytingin fari gegn stefnu gildandi aðalskipulags, en í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að við gerð deiliskipulags skuli byggt á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit. Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 segi m.a: „Viðhalda skal tengslum við sögu og menningararf með verndunaráætlunum fyrir mannvirki og fornminjar. Unnið skal áfram að fornleifaskráningu á öllu landi Hafnarfjarðar og merkingu minja um eldri tíma (t.d. gamlar þjóðleiðir, vörður, gömul landamerki o.fl.) og unnið verði áfram að örnefnaskráningu í bæjarlandinu. Unnið skal áfram að húsaskráningu sem verði stefnumarkandi fyrir deiliskipulag eldri hverfa.“ Í kafla um minjavernd segi svo: „Mikilvægt er að viðhalda og leggja rækt við bárujárnshúsabyggðina í hrauninu sem er ein stærsta samfellda byggð sinnar tegundar í landinu.“

Þá gangi hin samþykkta deiliskipulagsbreyting gegn þeim skilyrðum sem Minjastofnun hafi sett fyrir framkvæmdunum að Hellubraut 7, en stofnunin hafi heimilað „endurnýjun hússins, m.ö.o. að nýtt hús með sama þakformi og -halla og í sömu meginstærðum verði byggt á grunni hins eldra“. Minjastofnun taki undir með kærendum að deiliskipulagstillagan sé ekki í samræmi við þau tilmæli sem fram hafi komið í umsögn stofnunarinnar. Fyrir liggi að ekki séu lagaskilyrði til þess að gefa út byggingarleyfi á grundvelli hennar, sbr. 4. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, nema að teknu tilliti til þeirra skilyrða sem Minjastofnun leggi til í áliti sínu. Þá verði að telja að rannsókn máls hafi verið áfátt, þar sem engin skoðun hafi farið fram af hálfu bæjarstjórnar, sem gæti orðið grundvöllur þess að heimila niðurrif hússins að Hellubraut 7 með þeim rökum að burðarvirki þess væri ónýtt.

Deiliskipulagsbreytingin sé í andstöðu við eðli og markmið deiliskipulagsáætlana. Samkvæmt 37. gr. skipulagslaga sé deiliskipulag skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit og feli í sér að stefna sé mörkuð fyrir „heildstæða einingu“. Kærendur telji deiliskipulagsbreytinguna vera í svo verulegri andstöðu við gildandi deiliskipulag að líta verði á hana sem nýtt deiliskipulag. Óljóst sé hvort málsmeðferð skipulagstillögunnar hafi verið samkvæmt 1. eða 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Í tillögunni sjálfri og í auglýsingu sem birtist á vef sveitarfélagsins hafi komið fram að farið skyldi með tillöguna skv. 2. mgr. 43. gr. laganna. Á hinn bóginn hafi komið fram í fundargerðum skipulagsyfirvalda sveitarfélagsins að fara skyldi með hana samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins, en kærendur telji að ekki hafi verið lagaskilyrði til að viðhafa málsmeðferð samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna. Engar veigamiklar ástæður hafi knúið á um breytingu á gildandi deiliskipulagi, sem sé nýlegt.

Loks vilji kærendur koma því á framfæri að þeir telji að aðilar, sem hafi komið að málsmeðferð og töku ákvörðunar um deiliskipulagsbreytinguna, hafi verið vanhæfir í skilningi 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Íbúar að Hellubraut 3 og Hamarsbraut 4 hafi gert athugasemdir við kynningu skipulagstillögunnar, en fyrrverandi maki íbúa að Hellubraut 3 og systurdóttir íbúa að Hamarsbraut 4 hafi greitt atkvæði með samþykkt tillögunnar. Þá hafi fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn, sem samþykkt hafi umrædda skipulagsbreytingu, verið vanhæfir til að taka afstöðu til málsins á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis stjórnsýslulaga. Eigendur lóðanna nr. 5 og 7 við Hellubraut hafi í gegnum tíðina verið virkir í bæjarpólitíkinni fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Annar þeirra hafi verið skoðunarmaður ársreikninga Hafnarfjarðarkaupstaðar til ársins 2011 og sé í dag skoðunarmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Hafnarfirði, en hinn hafi verið varabæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 2010-2014. Auk þess sé einn bæjarfulltrúi flokksins, sem sé formaður skipulagsráðs og sitji í bæjarstjórn, meðlimur í klúbbi með öðrum eiganda nefndra lóða, sem spili golf vikulega.

Kærandi að Hellubraut 9 tekur fram að hann telji að deiliskipulagsbreytingin brjóti gegn samkomulagi sem hann hafi gert við sveitarfélagið árið 2011 um mörk lóðar hans. Hefði sveitarfélagið þurft að gjalda sérstakan varhug við lóðamarkabreytingum vegna samkomulagsins. En það samkomulag sneri að makaskiptum á landi. Hafi kærandi látið af hendi hluta af vegstæði en í staðinn hafi hann átt að fá hluta af lóð Hellubrautar 7 án endurgjalds. Þessi lóðamarkabreyting hafi veruleg áhrif og rýri verðmæti fasteignar hans þar sem hún geri það að verkum að svo þröngt sé á lóðinni að ekki sé hægt að snúa þar við bifreið.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 og landnotkunarkorti aðalskipulagsins sé landnotkun svæðisins, sem lóðir nr. 5 og 7 við Hellubraut séu á, tilgreint sem íbúðabyggð. Hinn 13. apríl 2011 hafi tekið gildi deiliskipulag fyrir svæðið, sem hafi borið heitið Suðurgata-Hamarsbraut, ásamt greinargerð. Lóðarhafi lóðanna nr. 5 og 7 við Hellubraut hafi óskað eftir deiliskipulagsbreytingu hinn 12. ágúst 2015 og hafi því ferli lokið með gildistöku breytts deiliskipulags fyrir framangreindar lóðir hinn 31. janúar 2017.

Í kærum komi fram sjónarmið og skilningur á málsmeðferð, sem efnislega eigi varla við um þessa deiliskipulagsbreytingu. Áréttað sé að breytingin nái einungis til lóðanna nr. 5 og 7 við Hellubraut og taki til byggingaráforma innan þeirra lóðarmarka. Það sé ekki hlutverk Minjastofnunar Íslands að koma fram með fagurfræðilegt mat á fyrirhuguðum nýbyggingum, svo sem gert sé í áliti stofnunarinnar í bréfi til kæranda, dags. 7. desember 2016. Sama stofnun hafi stuttu áður heimilað niðurrif umrædds húss, með vísan til sjónarmiða sem fram hafi komið í umsögn stofnunarinnar til bæjaryfirvalda frá 7. september 2016. Þessu til viðbótar megi geta þess að umrætt álit byggi á skýringarmynd, sem fylgi tillögunni að deiliskipulagsbreytingu, en hún sé ekki fullgerð byggingartillaga.

Hvað varði athugasemdir kæranda að Hellubraut 9 þá sé því til að svara að engar breytingar hafi verið gerðar á mörkum lóðanna Hellubrautar 5 og 7. Afmörkun deiliskipulagsbreytingarinnar ráðist af lóðamörkum, eins og þau liggi fyrir og séu skilgreind í samkomulagi frá 2011 og einnig sýnd á mæliblaði, sem sé fylgiskjal nefnds samkomulags.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum, sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum 28. júní 2016 að auglýsa hina kærðu deiliskipulagsbreytingu með almennum hætti í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en hún tekur einungis til lóðanna Hellubrautar 5 og 7. Einnig var samþykkt að tillagan yrði grenndarkynnt fyrir næstu nágrönnum samhliða auglýsingu, sbr. 2. mgr. 44. gr. laganna. Tekin var afstaða til framkominna athugasemda og leitað umsagnar Minjastofnunar vegna aldurs þess húss sem fyrirhugað var að rífa. Skipulagsbreytingin, ásamt tillögu að svörum við framkomnum athugasemdum, var samþykkt í bæjarstjórn og athugasemdaraðilum tilkynnt um lyktir máls. Var formleg málsmeðferð skipulagstillögunnar því lögum samkvæmt. Ekki eru gerðar breytingar á lóðarmörkum Hellubrautar 9 með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu og ágreiningur um efndir þess samnings sem gerður var milli rétthafa þeirrar lóðar og Hafnarfjarðarbæjar árið 2011 á ekki undir úrskurðarnefndina, heldur verður slíkur ágreiningur eftir atvikum borinn undir dómstóla.

Í umsögn Minjastofnunar um niðurrif húss að Hellubraut 7 kemur fram að tæknilegt ástand þess sé mjög slæmt og fátt upprunalagt nema burðargrind og undirstöður. Kemur þar og fram að mælingar sem gerðar hafi verið árið 2012 bendi ótvírætt til þess að mikill raki sé í burðargrind hússins og að hana verði að endurnýja í heild sinni. Í ljósi þess heimilaði Minjastofnun endurnýjun hússins með því að nýtt hús yrði byggt á grunni þess eldra með sama þakformi og þakhalla og sömu meginstærðum. Ekki reynir á greind skilyrði um útlit og form fyrr en við veitingu byggingarleyfis fyrir nýju húsi á nefndri lóð, en hin kærða deiliskipulagsbreyting stendur því hins vegar ekki í vegi fyrir því að sambærilegt hús og það sem fyrir er verði þar reist.
 
Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga, og ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Skipulagsáætlanir eru tæki fulltrúa sveitarfélags, sem til þess eru kjörnir, til að ákvarða mótun og þróun byggðar innan marka sveitarfélagsins. Í skjóli skipulagsvaldsins er m.a. tekin afstaða til byggðamynsturs, verndunar byggðar og annarra almanna- og skipulagshagsmuna. Getur sveitarstjórn ráðist í breytingar á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga, og er eðli máls samkvæmt ekki bundin af efni gildandi deiliskipulags við þær breytingar.

Afgreiðslur umsókna um breytingu á deiliskipulagi vegna uppbyggingar og breytingar á mannvirkjum eða notkun einstakra lóða eru venjubundin verkefni sveitarstjórna. Þótt umsækjandi og einstakir bæjarfulltrúar tilheyri sama félagsskap eða kunni að aðhyllast sömu stjórnmálaskoðanir getur það eitt og sér ekki gert bæjarfulltrúa vanhæfa til afgreiðslu máls. Fyrir þurfa að liggja einhverjar sannanlegar hlutlægar aðstæður sem almennt eru taldar til þess fallnar að draga megi í efa óhlutdrægni einstakra aðila að töku ákvörðunar og að sá aðili eða náin skyldmenni hans eigi persónulega hagsmuni tengda ákvörðuninni. Miðað við ætluð tengsl umsækjenda og einstakra tilgreindra aðila sem þátt tóku í hinni kærðu ákvörðun, ásamt eðli og efni hinnar kærðu ákvörðunar, verður ekki talið að viðkomandi fulltrúar í bæjarstjórn hafi verið vanhæfir við meðferð málsins í skilningi 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. nóvember 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna Hellubrautar 5 og 7.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

96/2015 Borholur Kröflusvæði

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 2. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2015, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 30. september 2015 um að veita framkvæmdaleyfi vegna tveggja borhola á Kröflusvæði.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra Landeigendur Reykjahlíðar ehf., þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 30. september 2015 að veita framkvæmdaleyfi vegna tveggja borhola á Kröflusvæði.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að kveðinn yrði upp úrskurður um stöðvun framkvæmda á grundvelli hins kærða leyfis en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 3. desember 2015. Verður málið nú tekið til efnisúrlausnar.

Málavextir: Með bréfi, dags. 12. ágúst 2015, sótti Landsvirkjun um framkvæmdaleyfi fyrir borun tveggja háhitaborhola K-41 og K-42 á Kröflusvæði. Kom fram í umsókninni að um væri að ræða 1.700 – 2.000 m holur og að tilgangur með borun þeirra væri að afla gufu fyrir Kröflustöð. Önnur holan yrði stefnuboruð undir vesturhlíðar Kröflu frá borteigi ofan Vítis, en þar væru fyrir borholur K-34, K-36, K-38 og K-40. Hin holan yrði stefnuboruð, einnig undir vesturhlíðar Kröflu, frá borteigi hola K-15, K-32 og K-33. Ekki væri þörf á vegagerð en mögulega þyrfti að stækka borteiga lítillega. Umsókninni fylgdi loftmynd sem sýndi áætlaða staðsetningu nefndra hola. Var og tekið fram í umsókn að báðar borholur væru á skilgreindu iðnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi og deiliskipulagi sveitarfélagsins og innan núverandi vinnslusvæðis Kröflustöðvar.

Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Skútustaðahrepps 17. ágúst 2015 og lagt til við sveitarstjórn að hún yrði samþykkt. Athugasemdir komu fram af hálfu kæranda í tölvupósti til sveitarfélagsins 24. s.m. þar sem bent var á að ekki hefði verið aflað leyfis hans sem landeigenda fyrir framkvæmdunum. Með bréfi framkvæmdaraðila til sveitarstjórnar, dags. 25. s.m., var afstaða hans til athugasemdanna skýrð og tekið fram að eigendur Reykjahlíðar hefðu þegar framselt jarðhitaréttindi jarðarinnar, sem og aðstöðu til nýtingar þeirra. Á fundi sínum 26. s.m. frestaði sveitarstjórn afgreiðslu málsins þar til sýnt hefði verið fram á yfirráð viðkomandi vinnslusvæðis og aflaði álits lögfræðings um málið. Skipulagsnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi sínum 7. september 2015 og lagði til við sveitarstjórn að framkvæmdaleyfi yrði veitt fyrir holu K-42, en frestaði því að fjalla um leyfi vegna holu K-41 vegna vafa um hvort sú hola hefði fengið umfjöllun í ferli mats á umhverfisáhrifum. Með bréfi kæranda til sveitarfélagsins 8. s.m. voru athugasemdir hans ítrekaðar. Sveitarstjórn frestaði málinu að nýju á fundi 9. s.m. í ljósi ágreinings aðila, og var fært til bókar að sveitarstjórn vildi gefa þeim aukinn tíma til að koma málinu á hreint þannig að sveitarstjórn gæti tekið vel upplýsta ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis. Einnig kom fram að Skipulagsstofnun teldi að vafi væri á um hvort og þá hvenær borun holu K-41 hefði fengið umfjöllun í ferli mats á umhverfisáhrifum.

Sveitarstjórn tók málið fyrir að nýju 30. september 2015 og var bókað að fulltrúar hennar hefðu átt fundi með fulltrúum Landsvirkjunar og fulltrúum Landeigenda Reykjahlíðar ehf. Einnig hefðu borist upplýsingar frá Skipulagsstofnun um að fyrirhugaðar viðhaldsholur K-41 og K-42 hefðu hlotið viðeigandi málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum þegar fjallað hefði verið um tilhögun viðhaldshola og nýtingar í mati á umhverfisáhrifum Kröflustöðvar árið 2001. Var framkvæmdaleyfið samþykkt með hliðsjón af fengnu áliti lögmanns sveitarfélagsins og áliti Skipulagsstofnunar. Leyfið var svo var gefið út 5. október 2015. 

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærðu ákvörðun ganga bæði gegn lögum og gildandi skipulagi. Umsókn um framkvæmdaleyfi hafi ekki uppfyllt ákvæði 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. ákvæði 5. kafla skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, um þau gögn sem fylgja skuli slíkri umsókn. Eingöngu hafi fylgt með umsókn ein loftmynd en engin gögn um nánari lýsingu á fyrirhuguðum framkvæmdum, upplýsingar um veitur, aðkomuvegi eða aðstæður á framkvæmdasvæðinu. Útilokað hafi verið fyrir sveitarstjórn að leggja mat á fyrirhugaðar framkvæmdir á grundvelli þeirra takmörkuðu upplýsinga sem finna var í umsókn. Hafi undirbúningi og rannsókn hinnar kærðu ákvörðunar augljóslega verið áfátt.

Framkvæmdaraðili sé ekki eigandi þess lands sem framkvæmdaleyfið taki til heldur telji hann aðeins til eignarréttar yfir jarðhitaréttindum á svæðinu og réttar til aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar þeirra. Kærandi sé enn eigandi þess lands þar sem framkvæmdaraðili hafi fengið útgefið framkvæmdaleyfi. Um nokkuð viðamiklar framkvæmdir sé að ræða sem muni óhjákvæmilega hafa veruleg áhrif á eignarland kæranda og fela í sér röskun á hagsmunum hans. Samþykki kæranda eða gild ákvörðun um eignarnám hafi þurft að liggja fyrir. Geti sveitarfélagið ekki gefið út leyfi til framkvæmda á tilteknu afmörkuðu landi til aðila sem eigi ekkert tilkall til þess. Fæli það í sér ólíðandi skerðingu fyrir kæranda ef hann þyrfti að sæta slíkri skerðingu á eignarréttindum sínum. Ekkert liggi fyrir um með hvaða hætti réttur kæranda verði tryggður vegna fyrirhugaðra framkvæmda.

Sveitarstjórn hafi áður tekið til þess afstöðu að framkvæmdaleyfi yrði ekki veitt á umræddu svæði án þess að réttur framkvæmdaraðila til landsins væri áður tryggður, bókun þar um fylgi núgildandi deiliskipulagi og sé hluti af því. Sé sveitarstjórn bundin af fyrri afstöðu sinni. Hafi sveitarstjórn bundið útgáfu framkvæmdaleyfis tilteknu skilyrði í deiliskipulagi sem ekki hafi verið uppfyllt og sé því ekki í samræmi við skipulagið og þar með í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 12. gr., sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

Hafi við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verið farið í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, lögmætisreglu og réttmætisreglu íslensks stjórnsýsluréttar, sem kveði á um að ákvarðanir stjórnvalda verði að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Var sveitarstjórn, eða átti í öllu falli að vera, meðvituð um að ákvörðun hennar gengi gegn gildandi deiliskipulagi fyrir umrætt svæði. Þá hafi ákvörðunin farið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Loks verði að telja að málsmeðferð hafi verið í fullkominni andstöðu við vandaða og góða stjórnsýslu. Hafi hin kærða ákvörðun bersýnilega ekki verið í samræmi við það markmið skipulagslaga að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. laganna.

Málsrök Skútustaðahrepps: Sveitarfélagið bendir á að veiting framkvæmdaleyfis hafi farið fram í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og stjórnsýslulög nr. 37/1993. Þá samræmist leyfið gildandi skipulagsáætlunum.

Útgáfa framkvæmdaleyfis varði einkum stöðu framkvæmdar út frá skipulagsáætlunum en veiting slíkra leyfa almennt þýði ekki að tekin sé afstaða til eignarréttarlegra heimilda framkvæmdaraðila. Bókun sveitarstjórnar við deiliskipulag Kröfluvirkjunar vísi þó til dóms Hæstaréttar í máli nr. 560/2009. Í ljósi lögfræðiálits, sem aflað hafi verið við undirbúning framkvæmdaleyfisins, skoðunar á ákvæðum samnings aðila frá mars 1971 og heimilda framkvæmdaraðila samkvæmt honum til nýtingar jarðhitaréttinda, hafi við útgáfu leyfisins verið byggt á því að það varði mannvirki til nýtingar jarðhitaréttinda sem framkvæmdaraðili hafi yfir að ráða. Framkvæmdaleyfið varði einungis slíka mannvirkjagerð.

Vísað sé til reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, en fimmti kafli skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 eigi ekki við í máli þessu. Framkvæmdinni hafi verið lýst í umsókn og sé í raun einföld viðhaldsframkvæmd fyrir Kröfluvirkjun. Eðli máls samkvæmt taki framkvæmdaleyfisumsókn mið af eðli framkvæmdar, hvort deiliskipulag liggi fyrir og að leyfisveitandi geti þegar haft önnur þau gögn sem nauðsynleg séu vegna útgáfu þess. Þá hafi sveitarfélagið aflað álits Skipulagsstofnunar um stöðu framkvæmdar vegna mats á umhverfisáhrifum. Því sé mótmælt að stjórnsýsla sveitarfélagsins hafi verið óvönduð. Fyrir liggi að sveitarfélagið hafi tekið til ítarlegrar skoðunar öll þau atriði sem kærandi hafi vakið athygli á við málsmeðferð umsóknarinnar og brugðist við þeim af fullri tillitssemi. Þá séu fullyrðingar kæranda um umfang og áhrif framkvæmdanna ósannaðar og ekki studdar neinum gögnum.

Hlutverk sveitarfélagins sem leyfisveitanda sé skilgreint í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga en við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Langsótt sé að byggja á því að leyfisveitanda hafi borið að ganga úr skugga um eignarréttarheimildir framkvæmdaleyfishafa. Feli framkvæmdaleyfið ekki í sér skerðingu eignarréttar. Sé og dregið í efa að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eigi almennt að fjalla um eignarréttarleg álitaefni.

Með bókun sveitarstjórnar frá 14. nóvember 2013 sé áréttuð sú sérstaka staða að landeigendur fari með eignarrétt landsins, en framkvæmdaraðili eigin beinan eignarrétt að jarðhita og aðstöðu til nýtingar hans. Hið umdeilda leyfi varði framkvæmd sem sé í beinum og skýrum tengslum við eignarrétt framkvæmdaraðila að jarðhita og nýtingaraðstöðu. Um sé að ræða borholur sem gerðar verði á eldri borteigum. Geti umrædd framkvæmd ekki varðað aðrar eignarréttarheimildir sem landeigendur hafi yfir að ráða. Þá sé bent á að landeigendur hafi heldur ekki gert tilraun til að benda á hvaða eignarréttarheimildir þeirra sé gengið. Sé skilyrði það sem geti falist í fyrrgreindri bókun sveitarstjórnar uppfyllt. Hafi sveitarfélagið ekki forsendur til að leggja það skilyrði á framkvæmdaraðila að hann afli leyfis hjá landeiganda fyrir afnot, sem hann hafi þegar leyfi til hagnýtingar á.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að öll lagaskilyrði hafi verið fyrir hendi til útgáfu umrædds framkvæmdaleyfis. Fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir. Í aðalskipulagi sé umrætt borsvæði skilgreint sem iðnaðarsvæði. Fjallað sé um borholur og borholustæði í greinargerð deiliskipulags. Sé greint borsvæði sýnt á deiliskipulagsuppdrætti og borteigar afmarkaðir með sérstökum lit. Verði fyrirhugaðar viðhaldsholur boraðar innan umræddra borteiga og allar tengingar verði innan fyrirliggjandi teiga við lagnir sem fyrir séu. Rúmist framkvæmdin því alfarið innan marka deiliskipulagsins. Nefnd framkvæmd sé einnig í samræmi við mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda og hafi sá skilningur verið staðfestur af Skipulagsstofnun.

Ríkissjóður hafi yfirtekið jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á ákveðnu afmörkuðu jarðhitasvæði með samningi, dags. 18. mars 1971. Samkvæmt 1. gr. þess samnings öðlist ríkið jafnframt rétt til aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar jarðhitans, en í því felist nánar tiltekið að ríkið öðlaðist rétt til nauðsynlegra landréttinda til þeirrar nýtingar. Á árinu 2006 hafi verið gert samkomulag milli íslenska ríkisins og framkvæmdaraðila um afnot af jarðhitaréttindum innan jarðhitaréttindasvæðisins við m.a. Kröflu samkvæmt samningnum frá 1971. Fjöldi fordæma séu fyrir því að framkvæmdaraðili hafi fengið útgefin leyfi fyrir framkvæmdum á svæðinu, án athugasemda frá kæranda. Hafi verið litið svo á að íslenska ríkið og framkvæmdaraðili hafi öðlast umráð til nýtingar lands vegna jarðhita samkvæmt samningi aðila frá 1971 og hafi sú túlkun verið staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 560/2009. Verði ekki séð að neitt nýtt hafi komið fram sem breyti framangreindu og/eða leiði til takmörkunar á fyrrgreindum réttindum ríkisins og framkvæmdaraðila. Beri kærandi sönnunarbyrði fyrir því að þess háttar breyting hafi orðið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti framkvæmdaleyfis vegna tveggja borhola á Kröflusvæði sem munu eiga að viðhalda afli Kröfluvirkjunar. Virkjunin er jarðhitavirkjun sem hefur verið starfrækt frá áttunda áratug síðustu aldar og er uppsett afl hennar 60 MW. Aldurs síns vegna var virkjunin ekki háð mati á umhverfisáhrifum frá öndverðu, en stækkun virkjunarinnar um 40 MWₑ var talin matsskyld framkvæmd sem félli undir þágildandi lið 13a í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var hún tilkynnt sem slík til Skipulagsstofnunar, sem að loknu mati á umhverfisáhrifum féllst á þá framkvæmd með úrskurði 7. desember 2001. Einnig liggur fyrir álit stofnunarinnar, dags. 24. nóvember 2010, um mat á umhverfisáhrifum Kröfluvirkjunar II, allt að 150 MWₑ jarðhitavirkjun á sama svæði.

Þar sem hinar leyfðu framkvæmdir eru fyrirhugaðar er í gildi deiliskipulag vegna stækkunar Kröfluvirkjunar sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní 2014. Við samþykkt deiliskipulagsins í sveitarstjórn 14. nóvember 2013 var staðfest fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 7. október s.á. þar sem bókað var að lagt væri til við sveitarstjórn að samþykkja deiliskipulagstillöguna „en þó með þeim fyrirvörum að Landsvirkjun verði ekki veitt framkvæmda- eða byggingarleyfi nema hún sýni fram á að hún hafi yfir landréttindum að ráða með vísan í dóm Hæstaréttar í máli nr. 560/2009“. Bókun sveitarstjórnar um þessa afgreiðslu er að finna sem viðauka í greinargerð deiliskipulagsins. Heldur kærandi því fram að greint skilyrði hafi ekki verið uppfyllt og að samþykki hans, sem eiganda þess lands þar sem framkvæmdin er fyrirhuguð, eða eignarnámsákvörðun hefði þurft að liggja fyrir við hina kærðu leyfisveitingu.

Úrskurðarnefndin er ekki bær til þess að leysa úr eignarréttarlegum ágreiningi milli aðila heldur heyrir það eftir atvikum undir dómstóla. Hefur og slíkur ágreiningur aðila málsins verið lagður fyrir dóm, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 560/2009. Af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og eðli máls verður þó ráðið að sá sem sæki um leyfi til framkvæmda verði að hafa heimildir til ráðstöfunar þeirra réttinda sem leyfið tekur til. Verður leyfisveitandi að ganga úr skugga um að svo sé, enda skal sveitarstjórn ekki einungis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir heldur einnig gæta þeirra laga og reglugerða sem við eiga, sbr. fyrirmæli 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Er það þá hlutverk úrskurðarnefndarinnar að skera úr um hvort nefnd lagaskilyrði hafi verið fyrir sveitarstjórn til að veita framkvæmdaleyfi. Af málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar er ljóst að þrátt fyrir fyrrnefnda bókun komst sveitarstjórn að þeirri niðurstöðu að hagsmunir kæranda stæðu því ekki í vegi að framkvæmdaleyfi væri veitt og að veiting þess væri þannig í samræmi við deiliskipulag um stækkun Kröfluvirkjunar. Er ekki deilt um það í málinu hvort að framkvæmdirnar eru að öðru leyti í samræmi við skipulagsáætlanir, en þær eru fyrirhugaðar innan skilgreinds iðnaðarsvæðis samkvæmt Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 og deiliskipulagi vegna stækkunar Kröfluvirkjunar, sem og innan borsvæða sem sýnd eru á deiliskipulagsuppdrætti.

Í málinu liggur fyrir samningur eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar við íslenska ríkið frá 18. mars 1971 þar sem mælt var fyrir um að „jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á jarðhitasvæði því, sem afmarkað er á viðfestum uppdrætti og landamerkjalýsingu, ásamt jarðhita þeim, sem þar er að finna, og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans“ væru ríkinu „héðan í frá … til frjálsra umráða og ráðstöfunar“. Hefur Landsvirkjun öðlast nefnd samningsréttindi af ríkinu og stefndi kærandi þessa máls báðum framangreindum fyrir dóm til að þola ógildingu samningsins. Með dómi í máli nr. 560/2009 staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur að sýkna íslenska ríkið og Landsvirkjun af þeirri kröfu sem og öðrum kröfum kæranda. Í forsendum Hæstaréttar segir nánar að líta verði svo á að samningurinn hafi falið í sér fullnaðarafsal eigenda Reykjahlíðar til stefnda íslenska ríkisins fyrir beinum eignarrétti að jarðhitaréttindum á svæðinu, sem um ræðir, jarðhita sem þar fyndist og aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar hans, án þess að önnur réttindi yfir landinu hafi fylgt í kaupunum.

Í umsókn um framkvæmdaleyfi það sem hér um ræðir kom fram að fyrirhugað var að bora tvær 1.700 – 2.000 m háhitaborholur, K-41 og K-42. Báðar yrðu stefnuboraðar undir vestur-hlíðar Kröflu. Annars vegar frá borteig ofan Vítis, þar sem fyrir væru nánar tilgreindar borholur, og hins vegar frá borteig þriggja tilgreindra borhola. Var tekið fram að ekki væri þörf á vegagerð en mögulega þyrfti að stækka borteiga lítillega. Við meðferð málsins komu fram andmæli af hálfu kæranda. Frestaði sveitarstjórn afgreiðslu þess til að veita aðilum ráðrúm til að komast að samkomulagi, aflaði frekari upplýsinga um afstöðu framkvæmdaraðila, sem og álits lögmanns. Í álitinu kom fram að lögmaðurinn teldi ekki forsendur til að hafna útgáfu framkvæmdaleyfa með vísan til þess að á eignarréttarlegar heimildir til framkvæmdanna skorti eða að þörf væri á frekari heimildum kæranda vegna þeirra. Var það og niðurstaða sveitarstjórnar sem vísaði til lögmannsálitsins sér til stuðnings.

Hinar leyfðu framkvæmdir eru afmarkaðar og miða að því að viðhalda nýtingu jarðhita sem framkvæmdaraðili telur til réttinda yfir. Breytingar ofanjarðar eru möguleg stækkun borteiga sem fyrir eru. Ljóst er af framangreindum samningi aðila frá árinu 1971 og dómi Hæstaréttar í máli nr. 560/2009 að framkvæmdaraðili hefur rétt til jarðhita á svæðinu og aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar hans. Framkvæmdirnar falla að þessari lýsingu og eru fyrirhugaðar innan þess svæðis sem afmarkað var með uppdrætti sem fylgdi nefndum samningi. Að teknu tilliti til alls þessa verður að telja að þær heimildir hafi verið til staðar til handa framkvæmdaraðila að skilyrði 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga hafi verið uppfyllt til veitingar hins kærða framkvæmdaleyfis. Telji kærandi hins vegar að landsréttindum sínum sé raskað með hinu útgefna leyfi umfram það sem hann má þola að teknu tilliti til heimilda framkvæmdaraðila getur hann þó eftir atvikum leitað atbeina dómstóla, enda á sá ágreiningur ekki undir úrskurðarnefndina, svo sem áður segir.

Auk skipulagslaga gilda ákvæði reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Meðal annars skulu umsóknir um slík leyfi studdar nauðsynlegum gögnum í samræmi við 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar skulu skriflegri umsókn um framkvæmdaleyfi fylgja nauðsynleg gögn um fyrirhugaða framkvæmd og eru þau gögn nánar tiltekin í 7. gr. hennar. Þar kemur fram að framkvæmdaleyfi skuli gefið út á grundvelli deiliskipulags en heimilt sé að veita leyfi á grundvelli aðalskipulags að frekari skilyrðum uppfylltum. Í 2. mgr. 7. gr. eru í sex töluliðum talin upp gögn sem fylgja skulu umsókn. Samkvæmt 1.-3. tl. skulu umsókn m.a. fylgja afstöðumynd, hnitsett í mælikvarða 1:2000 – 1:500, eða öðrum læsilegum mælikvarða, sem sýnir fyrirhugaða framkvæmd og afstöðu hennar, hönnunargögn eftir því sem við á sem nauðsynleg eru til að framkvæma eftir, lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum. Skal jafnframt tilgreina framkvæmdatíma, hvernig fyrirhugað sé að standa að framkvæmd og fleira sem skiptir máli.

Fallast má á með kæranda að umsókn um framkvæmdaleyfi hafi ekki fylgt öllum fyrirmælum tilvitnaðrar reglugerðar í einu og öllu og er það ágalli á meðferð málsins. Á hinn bóginn er til þess að líta að framkvæmdin var fyrirhuguð á deiliskipulögðu svæði og lágu allar forsendur hennar því fyrir í skipulagsáætlunum. Þá sýndi loftmynd sú sem fylgdi með umsókninni staðsetningu framkvæmdarinnar og afstöðu hennar til landsins. Kom og fram í umsókn að ekki væri þörf á vegagerð og að borað yrði frá borteigum sem fyrir væru, en þá þyrfti mögulega að stækka lítillega. Með hliðsjón af umfangi framkvæmdarinnar og því að um algenga og vel þekkta tegund framkvæmdar var að ræða innan svæðis þar sem slíkar framkvæmdir höfðu áður átt sér stað verður að telja að nægileg gögn hafi legið fyrir sveitarstjórn við ákvörðunartöku hennar til að hún gæti komist að ígrundaðri niðurstöðu. Leiðir greindur ágalli því ekki til ógildingar.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu taldi sveitarstjórn vafa leika á því hvort að borun annarrar holunnar hefði sætt mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins óskaði eftir umsögn framkvæmdaraðila um matsskyldu og leitaði hann til Skipulagsstofnunar, en stofnunin annast eftirlit með framkvæmd laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Kom fram í tölvupósti starfsmanns framkvæmdaraðila að óljóst væri hvort um tilkynningar- eða matsskyldar framkvæmdir væri að ræða. Fengust þær upplýsingar frá stofnuninni að fyrirhugaðar framkvæmdir hefði hlotið viðeigandi málsmeðferð samkvæmt nefndum lögum þegar fjallað hefði verið um tilhögun viðhaldshola og nýtingar í mati á umhverfisáhrifum Kröflustöðvar árið 2001. Bókaði sveitarstjórn um þessar upplýsingar og samþykkti framkvæmdaleyfið með hliðsjón af áliti Skipulagsstofnunar. Ber þessi málsmeðferð með sér að sveitarstjórn hafi talið mat á umhverfisáhrifum liggja til grundvallar leyfisveitingunni. Bar henni því að gæta ákvæða 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 og 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fram-kvæmdarinnar. Var rökstuðningur sveitarstjórnar í þá átt að tilgreina það mat á umhverfisáhrifum sem fram fór og vísa til álits Skipulagsstofnunar þar um frá árinu 2001, og mun þar vera um að ræða úrskurð stofnunarinnar frá 7. desember 2001.

Samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000, sem tekið hafa töluverðum breytingum, kvað Skipulagsstofnun upp úrskurð sem heimilaði stækkun Kröfluvirkjunar sem fól í sér aukningu á afkastagetu rafafls um 40 MWₑ, þ.e. úr 60 í 100 MWₑ, og framleiðsluaukningu sem nemur 320 gígawattstundum á ári. Í framkvæmdinni fólst einnig gerð borstæða á um 10.000 m² borteigi við Víti og allt að 14.000 m² borteigi á Vítismó ásamt borun 2-4 nýrra, u.þ.b. 2.000 m vinnsluhola við Víti og borun einnar vinnsluholu á um þriggja ára fresti á næstu 30 árum við Víti og/eða á Vítismó vegna þrýstilækkunar og kólnunar jarðhitakerfisins. Þá fólst í framkvæmdinni gerð safnæða, stofnæðar, bætt yrði við gufuskiljum, lögð yrði ný aðveituæð, byggt yrði nýtt stöðvarhús, tengivirki yrði stækkað og reistur yrði kæliturn. Affallsvatni yrði veitt í Hlíðardalslæk, unnið yrði að tilraunum með niðurdælingu affallsvatns og myndi magn kælivatns aukast fljótlega eftir stækkun og haldast svipað næstu 30 ár.

Því neikvæðari sem niðurstaða Skipulagsstofnunar er til umhverfisáhrifa fyrirhugaðrar framkvæmdar því meiri kröfur verður að gera til þess að sveitarstjórn taki með vönduðum hætti rökstudda afstöðu til niðurstöðu stofnunarinnar hvað umhverfisáhrif varðar. Í úrskurði Skipulagsstofnunar kom að það væri niðurstaða hennar að fyrirhuguð stækkun Kröfluvirkjunar í Skútustaðahreppi um 40 MWₑ myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Kom fram í umsókn um framkvæmdaleyfi að tilgangur framkvæmdar væri að afla gufu fyrir Kröflustöð, en á vantaði sem samsvaraði um 8 MWₑ til að stöðin gæti keyrt á fullum afköstum, sem eru um 63 MWₑ. Umfang hinna leyfðu framkvæmda er því verulega minna en það sem fjallað var um í mati á umhverfisáhrifum á árinu 2001 og áhrif þeirra að sama skapi þeim mun minni. Að framangreindu virtu er það álit úrskurðarnefndarinnar að með því að vísa til niðurstöðu Skipulagsstofnunar hafi sveitarstjórn með ásættanlegum hætti tekið rökstudda afstöðu í skilningi þeirra lagaákvæða sem áður eru nefnd.

Það athugist að af gögnum málsins verður ekki ráðið að auglýsing um hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið birt í Lögbirtingablaði, en skv. 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga skal birta þar auglýsingu um ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar. Með hliðsjón af því að kærandi kom að kæru í málinu verður þó ekki frekar um þetta fjallað hér.

Með vísan til alls framangreinds voru ekki þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun að þyki eiga að leiða til ógildingar hennar og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 30. september 2015 að veita framkvæmdaleyfi vegna tveggja borhola á Kröflusvæði.

_______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

157/2016 Hótel Reykjahlíð

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 2. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 157/2016, kæra á afgreiðslu Umhverfisstofnunar frá 27. október 2016 vegna tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 fyrir lóð Hótels Reykjahlíðar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Flugleiðahótel ehf., þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 27. október 2016 að „fallast ekki á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 á lóð Hótels Reykjahlíðar“.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 4. janúar 2017. 

Málavextir: Hótel Reykjahlíð er staðsett innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár, á landnotkunarreit 108-M samkvæmt Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023. Fram kemur í skilmálum deiliskipulags Reykjahlíðar að umrætt hótel sé 544 m² að stærð og heimiluð hámarksstærð bygginga á lóðinni 1.180 m². Á árinu 2015 óskaði lóðarhafi hótelsins eftir því við skipulagsyfirvöld að landnotkunarreitur lóðarinnar yrði stækkaður og byggingarmagn á lóðinni aukið. Veitti Umhverfisstofnun umsögn sína um lýsingu skipulagsverkefnisins með bréfi, dags. 13. ágúst 2015.

Hinn 29. júní 2016 samþykkti sveitarstjórn að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps. Fól umrædd breytingartillaga í sér að landnotkunarreitur 108-M yrði stækkaður úr 0,59 ha í 1,29 ha og hámarksbyggingarmagn yrði 3.556 m². Í kjölfar þessa var tillagan send Skipulagsstofnun til athugunar samkvæmt 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í svarbréfi stofnunarinnar til Skútustaðahrepps, dags. 8. ágúst s.á., kom fram að ekki væri unnt að taka afstöðu til breytingartillögunnar fyrr en umsögn Umhverfisstofnunar um hana lægi fyrir. Í framhaldi af því óskaði skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps umsagnar Umhverfisstofnunar og lá hún fyrir 27. október 2016. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að hún, með umsögn sinni, féllist ekki á skipulagstillöguna. Ljóst væri að leyfi Umhverfisstofnunar þyrfti fyrir fyrirhugaðri framkvæmd í samræmi við lög um Mývatn og Laxá. Jafnframt var tekið fram að með vísan til athugasemda í umsögn, og miðað við fyrirliggjandi gögn, gerði stofnunin ekki ráð fyrir að svo mikil uppbygging innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár, aðeins 50 m frá vatninu, yrði heimiluð af hennar hálfu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu skuli leita leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geti áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á landsvæði því sem um geti í 1. mgr. 2. gr. laganna, þ.e. á svokölluðu verndarsvæði laganna. Síðari málsliður sömu málsgreinar kveði á um það að þó skuli heimilar án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um sé að ræða. Í framkvæmd hafi ákvæðið verið túlkað af stjórnvöldum á þá leið að framkvæmdaraðili geti ekki hafið framkvæmdir á verndarsvæðinu nema annað hvort liggi fyrir leyfi Umhverfisstofnunar fyrir þeim eða að hún hafi fallist á tilteknar breytingar á skipulagi sem þörf sé á vegna framkvæmdanna. Lúti hin kærða ákvörðun að veitingu leyfis samkvæmt fyrrgreindu ákvæði og sé því kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 11. gr. sömu laga.

Fyrri og síðari málsliður 2. mgr. 3. gr. laganna séu háðir hvor öðrum. Verði síðari málsliðurinn ekki skilinn öðruvísi en svo að leyfi Umhverfisstofnunar þurfi til breytinga á skipulagsáætlun ef hún varði fyrirhugaðar framkvæmdir sem haft geti áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á verndarsvæði laganna. Mæli lögin fyrir um lögbundna álitsumleitan og sé umsögn stofnunarinnar bindandi um úrlausnarmöguleika sveitarfélagsins. Orðalag ákvæðisins sé á þá leið að stofnunin þurfi að fallast á skipulagsbreytingar. Niðurstaða Umhverfisstofnunar um að fallast ekki á skipulagsbreytingar feli því í sér að stofnunin veiti ekki leyfi fyrir þeim. Sé stjórnsýsluvaldi í raun skipt milli Skútustaðahrepps og Umhverfisstofnunar þegar komi að skipulagstillögum eins og þeirri sem deilt sé um í máli þessu.

Leiði almenn sjónarmið, sem líta beri til við skýringu á kæruheimild, enn fremur til sömu niðurstöðu. Beri að skýra kæruheimildir það rúmt að þær nái því markmiði sem liggi til grundvallar réttarúrræðinu. Sé vísað til úrskurðar umhverfisráðuneytisins frá 13. mars 2006, í máli nr. 05100011, í þessu sambandi, en samræmisályktun á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins ætti að leiða til þess að kæruheimild sé til staðar.

Kærandi bendi jafnframt á að líta þurfi heildstætt til stefnu aðalskipulags Reykjahlíðar. Reykjahlíð sé samkvæmt aðalskipulaginu ætlað að vera þungamiðja byggðar, verslunar og þjónustu. Svæðið sé skilgreindur þéttbýliskjarni. Um sé að ræða viðbyggingu við húsnæði hótels sem hafi verið á lóðinni í áratugi. Í aðalskipulaginu segi að sporna skuli við frekari nýbyggingum vatnsmegin vegar, öðrum en þeim sem tengist bæjar- og húsaþyrpingum sem þar séu fyrir. Hér sé um algert grundvallaratriði að ræða.

Því sé mótmælt að breytingartillagan muni hafa fordæmisgildi hvað varði önnur byggingaráform á svæðinu, vatnsmegin vegar. Mat Umhverfisstofnunar beri þess merki að vera eingöngu byggt á huglægum forsendum. Staðhæfingar um áætluð áhrif fyrirhugaðrar uppbyggingar og að áætluð framkvæmd muni ekki vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu séu bornar fram án þess að baki búi haldbærar röksemdir eða rannsóknir. Lögð hafi verið rík áhersla á það af hálfu forsvarsmanna kæranda að stuðla að því að fyrirhugaðar framkvæmdir og nauðsynleg uppbygging uppfylli það markmið í stefnu sveitarfélagsins að varðveita sem best landslag og ásýnd svæðisins. Jafnframt sé kærandi tilbúinn að vinna að fullnægjandi lausn í fráveitumálum fyrirhugaðra framkvæmda og setja ný viðmið í þessum efnum og séu ýmsar hugmyndir að útfærslu fráveitumála í vinnslu. 

Ákvæði 3. gr. laga nr. 97/2004 veiti Umhverfisstofnun ekki vald til eftirlits með Skútustaðahreppi heldur vald sem leyfisveitanda fyrir skipulagsbreytingum og framkvæmdum. Sé lögð áhersla á að þær valdheimildir sem stofnuninni hafi verið veittar með þeim lögum verði túlkaðar með hliðsjón af 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Þá sé eðlilegt að  Umhverfisstofnun líti til 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 við mat á því hvort fallast skuli á tillögu að breytingu á skipulagsáætlun á verndarsvæðinu.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem umrædd umsögn sé ekki kæranleg til nefndarinnar. Skírskotað sé í því sambandi til 11. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati Umhverfisstofnunar sé umsögn hennar ekki stjórnvaldsákvörðun, enda ekki um endanlega afgreiðslu að ræða. Skýrt sé tekið fram í niðurstöðu umsagnarinnar að ekki sé fallist á skipulagsáætlunina, sem vísi til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004. Hafi stofnunin ekki tekið formlega ákvörðun um það hvort hún muni eða muni ekki gefa leyfi fyrir fyrirhugaðri framkvæmd heldur einungis að undanþáguákvæði ofangreinds ákvæðis eigi ekki við. Ekki hafi verið litið svo á að ákvæðið fæli í sér að gildistaka skipulags væri háð samþykki Umhverfisstofnunar.

Fræðimenn séu almennt sammála um að ekki beri að flokka bindandi umsagnir sem stjórnvaldsákvarðanir þar sem þær bindi ekki enda á stjórnsýslumálið og hafi ekki þau réttaráhrif að vera bindandi úrlausn þess frá því að þær séu birtar aðila. Ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir framkvæmdinni af hálfu framkvæmdaraðila. Þá beinist umsögn stofnunarinnar ekki að kæranda heldur Skútustaðahreppi og sé m.a. leiðbeinandi til þess stjórnvalds um að stofnunin telji framkvæmdina jafnframt vera leyfisskylda hjá henni. Telji Umhverfisstofnun úrskurð umhverfisráðuneytisins frá 13. mars 2006, sem kærandi vísi til, ekki eiga við í máli þessu þrátt fyrir að kærandi eigi hagsmuna að gæta. 

Verndarsvæði Mývatns og Laxár njóti verndar lögum samkvæmt, enda sé náttúra og umhverfi þess einstakt á heimsvísu. Sé sérlögum um Mývatn og Laxá ætlað að stuðla að náttúruvernd á svæðinu í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins sé ekki stefnt í hættu af mannavöldum, sbr. 1. gr. laga nr. 97/2004. Í núgildandi aðalskipulagi Skútustaðahrepps sé lögð áhersla á náttúruvernd og tiltekin þau atriði sem hafa beri að leiðarljósi. Brýnt sé að við útfærslu skipulags sé þess gætt að framkvæmdir samræmist því regluverki sem eigi við um hið verndaða svæði. Skuli uppbygging í Reykjahlíð taka mið m.a. af þeim áherslum sem fram komi í aðalskipulaginu og tengist markmiðum reglna um verndun svæðisins.

Umhverfisstofnun hafi metið ástandið á Mývatni svo slæmt að það hafi verið á rauðum lista stofnunarinnar frá árinu 2012. Í skýrslu samstarfshóps um Mývatn frá júní 2016 komi fram að sterkar vísbendingar séu um að fjölgun ferðamanna auki álag á lífríki Mývatns. Sérstaklega sé tekið fram í núgildandi verndaráætlun Mývatns og Laxár 2011-2016 að nauðsynlegt sé að setja mörk fyrir ásættanlegar breytingar, meðal annars af völdum ferðamanna á verndarsvæðinu.

Telji Umhverfisstofnun fyrirhugaða breytingartillögu ekki samræmast núgildandi aðalskipulagi. Mikilvægt sé að fjalla um fráveitumál framkvæmdarinnar í tillögunni en á skorti að fram komi með ítarlegum hætti hvernig leysa skuli fráveitumál umrædds hótels. Þá muni sú stækkun sem breytingartillagan boði hafa talsverð áhrif á landslag innan verndarsvæðisins en landslag njóti verndar samkvæmt lögum um verndun Mývatns og Laxár. Í þessu tilviki sé um að ræða margfalda stærð þess mannvirkis sem nú þegar sé til staðar.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Umhverfisstofnunar: Kærandi áréttar sjónarmið sín. Jafnframt því skírskotar kærandi meðal annars til þess að inntak kæruheimildar ráðist af sjálfstæðri túlkun á efni hennar til samræmis við önnur ákvæði þeirra laga sem kærunefnd sé ætlað að hafa eftirlit með og óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttarins um kærurétt málsaðila. Kærunefndir geti því í ákveðnum tilvikum tekið mál til meðferðar þótt kærð ákvörðun feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun, enda geti sérstök kæruheimild leitt af sér betri rétt en almenn ákvæði stjórnsýslulaganna. Til frekari rökstuðnings sé vísað til álits umboðsmanns Alþingis nr. 3309/2001 frá 31. júní 2002.

Skipulagstillagan feli beinlínis í sér áform um framkvæmdir sem falli undir ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004. Í niðurstöðu Umhverfisstofnunar um það hvort hún fallist á skipulagsáætlun eða ekki felist sjálfkrafa endanleg niðurstaða stofnunarinnar um leyfisveitingu. Skipti afstaða stofnunarinnar sköpum vegna hlutverks hennar samkvæmt lögum nr. 97/2004. Rökstudd afstaða Umhverfisstofnunar í formi umsagnar sé því ekkert annað en ákvörðun sem lúti að leyfisveitingu og hafi sú ákvörðun að fallast ekki á skipulagstillögu þær afleiðingar að ferlið fari í uppnám. Ferli skipulagstillagna og leyfisveiting Umhverfisstofnunar haldist í hendur. Ákvörðunin hafi verið tekin í formi umsagnar og kynnt Skútustaðahreppi. Þar með hafi henni verið veitt réttaráhrif. Hún sé tekin af Umhverfisstofnun, sem sé lögformlegur aðili leyfisveitinga á grundvelli laga nr. 97/2004, og því tekin í skjóli stjórnsýsluvalds.

Það sé eðlilegt að kærandi, sem verulegra hagsmuna hafi að gæta, geti kært ákvörðun Umhverfisstofnunar, en hún hafi mikla þýðingu fyrir framhald málsins. Hagsmunir kæranda verði ekki nægilega tryggðir að lögum ef niðurstaðan verði sú að ákvörðunin teljist ekki kæranleg, enda hafi málsmeðferðin tekið langan tíma og meðal annars dregist á langinn vegna óvissu viðkomandi stjórnvalda um það hvernig haga beri málsmeðferð í máli sem þessu. Vísi kærandi í þessu sambandi til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4343/2005 frá 29. desember 2006.
                        ———

Færð hafa verið fram ítarlegri sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess.

Niðurstaða: Í máli þessu er m.a. um það deilt hvort að fyrir hendi sé kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka almenna kæruheimild m.a. að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar er þó jafnframt tekið fram að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að staðfesta samkvæmt lögunum sæti ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laganna er aðalskipulag háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Eru breytingar á aðalskipulagi jafnframt háðar slíkri staðfestingu, sbr. ákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna. Verður því ekki byggt á kæruheimild skipulagslaga í máli þessu, sem varðar umsögn Umhverfisstofnunar sem gefin var í tilefni af málsmeðferð breytingartillögu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023.

Breytingartillagan tekur til lóðar Hótels Reykjahlíðar, sem eins og fyrr greinir er staðsett innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár. Um svæðið gilda því lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Fer umhverfis- og auðlindaráðherra með þau lög og setur m.a. reglugerðir á grundvelli þeirra, en Umhverfisstofnun er einnig ætlað hlutverk samkvæmt lögunum.
Almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í nefndum lögum, en sérstaka kæruheimild er að finna í 11. gr. þeirra. Segir þar að ákvarðanir Umhverfisstofnunar er lúti að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfis skv. 3. gr. sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Í 1. mgr. nefndrar 3. gr. er tiltekið að breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna séu óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra, enda komi til sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar. Jafnframt er kveðið á um það í 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna að leita skuli leyfis stofnunarinnar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geti áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag, en í 2. málsl. ákvæðisins er tekið fram að þó skulu heimilaðar án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um sé að ræða. Efnislega sambærileg ákvæði er að finna í 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, sem sett er með stoð í nefndum lögum. Kemur m.a. fram í 3. mgr. 17. gr. að þrátt fyrir 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. séu heimilaðar, án sérstakrar undanþágu eða leyfis Umhverfisstofnunar, framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi Umhverfisstofnun fallist á umrædda skipulagsáætlun.

Óumdeilt er að kærandi hefur ekki sótt um leyfi samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. fyrrgreindra laga eða 17. gr. reglugerðarinnar, en kærandi telur að í umsögn Umhverfisstofnunar hafi falist ákvörðun um að fallast ekki á tillögu að breytingu á aðalskipulagi. Sé sú ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004, enda þurfi leyfi stofnunarinnar til skipulagsbreytinga. Felist raunar í ákvörðun Umhverfisstofnunar sjálfkrafa endanleg niðurstaða hennar um leyfisveitingu.

Eins og áður er frá greint var umsagnar Umhverfisstofnunar leitað vegna fyrirhugaðra breytinga á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023. Mælt er fyrir um í 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga að við gerð skipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, viðkomandi stjórnvalda og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu. Þá er kveðið á um það í 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd að leita skuli umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefnda við gerð aðalskipulagsáætlana og verulegra breytinga á þeim. Svarar greint ákvæði til 33. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Segir svo í athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi til þeirra laga að slíkt sé í samræmi við það sem segi í almennum athugasemdum frumvarpsins um nauðsyn þess að náttúruverndaryfirvöld komi að málum þegar á skipulagsstigi. Er sá þáttur sveitarstjórnar að afla umsagnar Umhverfisstofnunar þannig hluti af lögbundinni meðferð málsins hjá sveitarfélaginu í þeim tilgangi að sjónarmið stofnunarinnar komi fram við skipulagsgerðina. Um lögbundna umsögn er að ræða en ekki kemur fram í lögum að sú umsögn sé bindandi. Er þar með ljóst að skipulagsvaldið sem slíkt er eftir sem áður í höndum sveitarstjórnar sem getur samþykkt eða synjað um umbeðna aðalskipulagsbreytingu. Hins vegar getur umsögnin veitt upplýsingar um afstöðu stjórnvaldsins til síðar tilkominna leyfisbeiðna.

Í niðurstöðu fyrrgreindrar umsagnar segir svo: „Umhverfisstofnun, með umsögn þessari, fellst því ekki á skipulagstillöguna. Ljóst er að leyfi Umhverfisstofnunar þarf fyrir fyrirhugaðri framkvæmd í samræmi við lög um Mývatn og Laxá. Með vísan til framangreindra athugasemda og miðað við fyrirliggjandi gögn, gerir Umhverfisstofnun ekki ráð fyrir að svo mikil uppbygging innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár aðeins 50 metra frá vatninu yrði heimiluð af hennar hálfu.“ Í umsögninni er einnig m.a. bent á að hvorki sé rökstutt hvort breytingartillagan sé í samræmi við stefnumál í gildandi aðalskipulagi Skútustaðahrepps né komi fram í greinargerð breytt stefna í skipulagsmálum. Sé fyrirhuguð aðalskipulagsbreyting til þess fallin að auka verulega álag á verndarsvæðið miðað við fyrirliggjandi gögn og samræmist áætluð landnotkun breytingartillögunnar því ekki verndaráætlun fyrir verndarsvæðið. Þá telur Umhverfisstofnun að nauðsynlegt sé að sýna lausn á fráveitumálum, staðsetningu hreinsivirkis og útskýra hvernig komist verði hjá því að næringarefni frá fráveitu fari í vatnið, enda nái breytingartillagan í raun einungis til einnar framkvæmdar. Að mati Umhverfisstofnunar muni þær framkvæmdir sem áætlaðar eru í breytingartillögunni valda mikilli röskun á grónu hrauni á stóru svæði. Þá geti umrætt hótel ekki bætt ásýnd verndarsvæðis Mývatns og Laxár eins og fullyrt sé í breytingartillögunni, þrátt fyrir vandaða hönnun og endurbætur á eldri byggingu. Loks metur stofnunin það svo að áætluð framkvæmd sé ekki í samræmi við markmið reglugerðar nr. 665/2012 vegna umfangs og stærðar.

Af tilvitnuðu orðalagi umsagnarinnar verður ekki talið að það feli annað í sér en afstöðu eða álit Umhverfisstofnunar til umræddrar skipulagsáætlunar miðað við fyrirliggjandi gögn. Er ekki hægt að fallst á að í þeirri afstöðu, þótt neikvæð sé, felist endanleg niðurstaða stofnunarinnar um leyfisveitingu.

Með hliðsjón af öllu því sem rakið hefur verið verður þeirri niðurstöðu Umhverfisstofnunar „að fallast ekki á skipulagstillöguna“ ekki jafnað saman við veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfis skv. 3. gr. laga nr. 97/2004, en samkvæmt 11. gr. laganna er kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar einskorðuð við þær ákvarðanir. Fær sú skýring einnig stoð í athugasemdum með nefndu ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Þar segir að kveðið sé á um að nefndar ákvarðanir Umhverfisstofnunar verði kærðar til úrskurðarnefndarinnar í stað ráðherra. Frekara vald var hins vegar ekki skilið frá ráðherra með þeirri lagasetningu. Þar sem ekki er mælt fyrir um það í lögum, eins og fyrrnefnd 1. gr. laga nr. 130/2011 áskilur, að ágreiningur máls þessa verði borinn undir úrskurðarnefndina, verður því vísað frá nefndinni.

Það athugist að úrskurðarnefndin hefur með framangreindu ekki tekið til þess afstöðu hvort um kæruheimild geti verið um að ræða til ráðherra umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

49/2016 Ægisíða

Með
Árið 2017, miðvikudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. apríl 2016 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir veitingastað í flokki II.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. maí 2016, kærir Borðið ehf., Ægisíðu 123, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. apríl 2016 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir veitingastað í flokki II að Ægisíðu 123. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. ágúst 2016.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. janúar 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að breyta rekstri veitingahúss á lóð nr. 123 við Ægisíðu úr flokki I í flokk II samkvæmt lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en með rekstrarleyfi í flokki II felst m.a. leyfi til sölu vínveitinga. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt. Málinu var vísað til skipulagsfulltrúa, sem samþykkti á embættisafgreiðslufundi sínum 29. s.m. að grenndarkynna erindið. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin ásamt umsögn skipulagsfulltrúa tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi hans hinn 8. apríl 2016. Í nefndri umsögn var lagst gegn því að umsótt leyfi yrði veitt. Málinu var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem samþykkti umsögn skipulagsfulltrúa á fundi sínum 14. s.m. og vísaði málinu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi synjaði umsókninni 19. apríl 2016 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hin kærða synjun byggingarfulltrúa hafi valdið algjörum forsendubresti fyrir kaupum á húsnæði veitingastaðarins að Ægissíðu 123 og rekstri staðarins, enda hafi skipulagsyfirvöld áður veitt jákvæða umsögn fyrir rekstri veitingastaðar í flokki II í húsnæðinu.

Alvarleg athugasemd sé gerð við umsögn skipulagsfulltrúa þar sem segi m.a: „Fyrirvari var gefinn við veitingastað í flokki II að aflokinni grenndarkynningu til að gefa íbúum í nágrenni tækifæri til að tjá skoðun sína á starfseminni.“ Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 29. október 2014 hafi verið veitt jákvæð umsögn vegna fyrirspurnar um veitingaverslun í flokki II, að uppfylltum skilyrðum, enda yrði sótt um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt. Ljóst sé að þessi tvö skilyrði hafi verið uppfyllt, þ.e. sótt hafi verið um byggingarleyfi og grenndarkynning hafi farið fram.

Skipulagsyfirvöld virðist þar að auki byggja á því að Ægisíða sé ekki skilgreind sem aðalgata í aðalskipulagi og að lóð nr. 123 á Ægisíðu sé ekki skilgreind sem nærþjónustukjarni. Ægisíðan sé stofnæð fyrir fjölda fólks vestur í bæ og á Seltjarnarnesi. Þar sé mikil umferð auk þess sem tveir strætisvagnar fari um götuna. Hvað varði þá staðreynd að verslunarrýmið sé ekki skilgreint sem nærþjónustukjarni sé vakin athygli á því að þarna hafi verið starfsræktur verslunarrekstur sleitulaust frá árinu 1947 og alltaf hafi verið talsvert líf í kringum húsið af þeim sökum.

Kærandi telji einnig að stjórnsýsluleg meðferð málsins hafi ekki verið fullnægjandi. Kærandi hafi aldrei fengið að sjá grenndarkynninguna sjálfa og honum hafi aldrei verið boðið upp á að svara þeim athugasemdum sem borist hafi. Þá hafi kærandi boðist til að binda notkun hússins skilyrðum en ekki verið gefinn kostur á því. Reykjavíkurborg hafi þó iðulega farið þá leið til að greiða fyrir því að sátt næðist um sölu vínveitinga í húsnæði nálægt íbúðabyggð. Þá sé kæranda mismunað gagnvart eigendum annarra staða í næstu hverfum sem fengið hafi takmarkað vínveitingaleyfi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að óheppilegt sé að skipulagsfulltrúi hafi í umsögn sinni vegna fyrirspurnarinnar árið 2014 tekið jákvætt í að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn í stað þess að taka neikvætt í fyrirspurnina. Aðalskipulag Reykjavíkur leyfi ekki veitingastaði í flokki II í íbúðabyggð nema við skilgreindar aðalgötur og nærþjónustukjarna. Hin neikvæða umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. apríl 2016, hafi tekið mið af því. Enda þótt í umsögninni sé vísað til þeirra athugasemda sem borist hafi sé þar ekki að finna nein efnisleg svör við þeim athugasemdum. Hvað varði þær málsástæður að forsendur séu brostnar fyrir kaupum kæranda á umræddu húsnæði sé á það bent að kærandi hafi fengið samþykkt byggingarleyfi hinn 10. nóvember 2015 fyrir veitingahúsi í flokki I og hafi hafið framkvæmdir samkvæmt því. Hann hafi ekki getað verið í vissu um að fá leyfi fyrir veitingastað í flokki II vegna umsagnar skipulagsfulltrúa frá árinu 2014, enda hafi þar verið tekið fram að sækja yrði um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt. Það að borgaryfirvöld samþykki að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknir feli ekki í sér að umsækjendur geti vænst þess að þær verði undir öllum kringumstæðum samþykktar. Þar sem aðalskipulag Reykjavíkur heimili ekki veitingastað í flokki II á umræddum stað hafi verið óheimilt að samþykkja byggingarleyfisumsóknina.

Niðurstaða: Fyrir liggur að á árinu 2014 beindi kærandi fyrirspurn til borgaryfirvalda um afstöðu þeirra til veitingareksturs í flokki II í húsinu að Ægissíðu 123. Var tekið jákvætt í fyrirspurnina en þó tekið fram að húsið væri staðsett í íbúðabyggð og að veitingastarfsemi þar takmarkaðist því við flokk I með opnunartíma til kl. 23:00 og án áfengisveitinga. Hvað varðaði veitingarekstur í flokki II var sá fyrirvari gerður að slíka umsókn þyrfti að grenndarkynna.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. apríl 2016, sem gerð var að lokinni grenndarkynningu umsóknar kæranda um rekstur veitingastaðar í flokki II, er vísað í svar við fyrrgreindri fyrirspurn kæranda frá árinu 2014. Er og tekið fram að húsið að Ægisíðu 123 sé á svæði sem samkvæmt aðalskipulagi sé með skilgreinda landnotkun sem íbúðabyggð og takmarkist því veitingastaður þar við flokk I samkvæmt lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Fjölbreyttari atvinnustarfsemi innan íbúðabyggðar sé aðeins heimiluð ef húsnæðið sé staðsett við aðalgötu eða innan skilgreinds nærþjónustukjarna. Ægisíða sé ekki skilgreind sem aðalgata í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og tilheyri ekki nærþjónustukjarna sem tilgreindir séu á myndum 15 og 16 á bls. 183 í aðalskipulaginu. Með vísan til þessa var umsókn kæranda hafnað.

Eins og áður greinir var sá fyrirvari gerður í svari við fyrirspurn kæranda um mögulegan veitingarekstur í flokki II að slíkt leyfi þyrfti að grenndarkynna. Við slíka kynningu geta komið fram athugasemdir sem áhrif geta haft á niðurstöðu máls. Gat kærandi því ekki gengið að því sem vísu að lyktir mála yrðu á þann veg að veitt yrði veitingaleyfi í flokki II á umræddum stað. Við veitingu byggingarleyfis er byggingarfulltrúi bundinn af gildandi skipulagi skv. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, en eins og fram kemur í áðurgreindri umsögn skipulagsfulltrúa standa skilmálar gildandi aðalskipulags því í vegi að veitt verði leyfi fyrir veitingastað í flokki II í húsi kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. apríl 2016 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir veitingastað í flokki II.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

78/2015 Íslensk orkuvirkjun Seyðisfirði ehf.

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 2. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2015, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar um álagningu rafveitueftirlitsgjalds.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Íslensk orkuvirkjun Seyðisfirði ehf. ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 9. júní 2015 um að innheimta rafveitueftirlitsgjald vegna ársins 2014, með gjalddaga 1. júlí 2015.

Gögn málsins bárust frá Mannvirkjastofnun 15. október 2015.

Málavextir: Með bréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 26. mars 2015, var kæranda tilkynnt um skyldu rafveitna til greiðslu rafveitueftirlitsgjalds til stofnunarinnar skv. 9. gr. reglugerðar nr. 678/2009 um raforkuvirki. Skyldi gjaldið reiknast af heildartekjum af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti. Skyldi gjaldið vera 0,8%. Var óskað eftir gjaldskyldum sölutölum áranna 2011-2014 og greiðslu rafveitueftirlitsgjalds fyrir sömu ár.

Með bréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 9. júní 2015, var kæranda tilkynnt að honum bæri að standa skil á rafveitueftirlitsgjaldi, en komið hefði í ljós að aðeins hluti rafveitna sem stunduðu raforkusölu hefðu staðið skil á umræddu gjaldi, sem væri lagt á samkvæmt heimild í 1. og 4. tölul. 14. gr. laga nr. 146/1996, sbr. og 9. gr. reglugerðar nr. 678/2009 um raforkuvirki. Þar sem mörgum rafveitum, sem nýlega hefðu hafið rekstur, virtist ekki hafa verið kunnugt um greiðsluskylduna hefði Mannvirkjastofnun ákveðið að afla einungis upplýsinga um sölutölur árið 2014 og takmarka innheimtu gjaldsins við það ár hjá þeim sem ekki hefðu staðið skil á því áður. Jafnframt var athygli vakin á skyldum til upplýsingagjafar til stofnunarinnar og greiðslu gjaldsins fyrir árið 2015 og til framtíðar.

Með bréfi til Mannvirkjastofnunar, dags. 8. september 2015, gerði kærandi athugasemdir við álagningu rafveitueftirlitsgjaldsins. Lýsti hann því yfir að gjaldið yrði greitt með fyrirvara fyrir árið 2014. Samkvæmt útfylltri greiðsluskýrslu kæranda var gjaldstofn álagningar gjaldsins fyrir árið 2014 kr. 253.593.967, en 0,8% af þeirri upphæð kr. 2.028.752. Kærandi kærði álagninguna til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 15. s.m., eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærandi telur álagningu rafveitueftirlitsgjaldsins ósanngjarna, ásamt því að undanþága vegna sölu til ákveðinna fyrirtækja standist varla lög og reglur um jafnræði í stjórnsýslunni. Í gr. 9.1 í reglugerð nr. 678/2009 um raforkuvirki séu talin upp fyrirtæki sem undanþegin séu gjaldinu. Þar á meðal séu Íslenska járnblendifélagið og Íslenska álfélagið, ásamt öðrum iðjuverum sem undanþegin kunni að vera með lögum. Gjaldið sé lagt á framleiðendur og seljendur rafmagns og sé ætlað til þess að standa undir yfireftirliti Mannvirkjastofnunar með framleiðendum, landsneti og dreifiveitum.

Kostnaður við að hafa eftirlit með kerfinu sé ákveðinn og fastur á hverju ári. Hann breytist ekki við það að ákveðnir aðilar séu undanþegnir greiðslu. Með því að veita undanþágu til fyrirtækja sem nýti um 80% af allri raforku í landinu sé ljóst að gjaldið sem aðrir þurfi að greiða sé fimmfalt það sem það annars væri. Þeir sem eftir standi þurfi því í raun að greiða fyrir hina. Sé það vilji löggjafans að stórnotendur séu undanþegnir eftirlitsgjaldi þyrfti ríkið sjálft að greiða til Mannvirkjastofnunar eftirlitsgjald þessara fyrirtækja þannig að upphæð gjaldsins miðaðist við að allir notendur væru að greiða. Með því móti væri gjaldið líklega um 0,16% af veltu en ekki 0,8%, sem sé verulega íþyngjandi fyrir rekstur sem þennan.

Kærandi selji alla sína framleiðslu til HS Orku hf. Það félag sé einnig í orkuframleiðslu og selji orku bæði til þeirra sem séu undanþegnir gjaldinu og svo inn á almennan markað. Þar af leiðandi geti fyrirtækið skilgreint orku sem það framleiði sjálft sem undanþegna orku en orku sem það kaupi af öðrum sem orku til almennra nota, sem þegar sé búið að greiða af. Í þessu felist veruleg ósanngirni þar sem gjaldið leggist mjög misþungt á framleiðendur.

Vart verði séð að gjaldið standist jafnréttissjónarmið. Þótt heimilt sé samkvæmt lögum að veita undanþágur frá sköttum í fjárfestingasamningum við stærri fyrirtæki verði ekki séð hvernig undanþága frá rafveitueftirlitsgjaldi standist skoðun, þegar veiting hennar verði til þess að aðrir aðilar kerfisins þurfi að standa straum af undanþágunni en ekki ríkið.

Þess sé krafist að gjaldið verði fellt niður, íslenska ríkinu gert að greiða hlutdeild stórnotenda eða að undanþága til stórnotenda verði felld úr gildi.

Málsrök Mannvirkjastofnunar: Stofnunin kveður umrædda innheimtu rafveitueftirlitsgjalds byggja á ákvæðum laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, og ákvæðum reglugerðar nr. 678/2009 um raforkuvirki. Sé Mannvirkjastofnun ætlað að annast innheimtu þess. Meginhluti kærunnar varði gagnrýni á það að stórnotendur skuli undanþegnir gjaldtökunni en skýrt sé kveðið á um þá undanþáguheimild í 1. tölul. 14. gr. laga nr. 146/1996. Stofnunin telji það ekki vera hlutverk sitt að taka afstöðu til réttmætis slíkrar undanþágu, sem byggi á skýrum ákvæðum laga.

Samkvæmt skilgreiningu í 3. gr. laga nr. 146/1996 sé rafveita fyrirtæki sem framleiði, flytji, dreifi og/eða selji rafmagn. Samkvæmt framangreindum ákvæðum laga og reglugerðar sé ákveðið prósentugjald lagt á heildartekjur af raforkusölu og/eða raforkuframleiðslu rafveitna, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti. Innheimta rafveitueftirlitsgjalds skv. lögum nr. 146/1996 snúi bæði að framleiðendum og seljendum raforku og takmarkist ekki við þá sem hafi leyfi til að stunda raforkuviðskipti samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003.

Gjaldskyldur aðili skuli ótilkvaddur mánaðarlega skila skýrslu til Mannvirkjastofnunar ásamt greiðslu skv. gr. 9.5 í reglugerð nr. 678/2009. Í skýrslunni komi fram fjárhæð raforkukaupa og raforkusölu í síðasta almanaksmánuði, allir gjalda- og skattstofnar, svo og gjald það sem inna beri af hendi. Skili gjaldskyldur aðili ekki skýrslu á réttum tíma skuli stofnunin áætla orkusölu þess aðila á grundvelli raforkusölu síðustu 12 mánaða og annarra atriða er máli skipti.

Við athugun hjá Mannvirkjastofnun hafi komið í ljós að einungis hluti rafveitna sem stundi raforkusölu/framleiðslu hafi staðið skil á umræddu gjaldi. Hafi stofnunin ákveðið að afla einungis upplýsinga um sölutölur árið 2014 og takmarka innheimtu gjaldsins við það ár, hjá þeim sem ekki hafi staðið skil á því áður, en jafnframt vekja athygli rafveitnanna á skyldum þeirra til upplýsingagjafar og greiðslu gjaldsins fyrir árið 2015 og til framtíðar.

Niðurstaða: Samkvæmt gögnum málsins voru greiðendur hins umdeilda rafveitueftirlitsgjalds, þ. á m. kærandi, áminntir um skyldu til greiðslu gjaldsins með bréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 26. mars 2015. Í bréfinu var beðið um gjaldskyldar sölutölur áranna 2011-2014 og upplýsingar um greiðslu eftirlitsgjaldsins fyrir sömu ár. Með bréfi, dags. 9. júní s.á., var greiðendum tilkynnt um að ákveðið hefði verið að takmarka innheimtu við árið 2014 hjá þeim sem ekki hefðu staðið skil á gjaldinu áður og var gjalddagi ákveðinn 1. júlí 2015. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu, en kæra barst 15. september s.á. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Var kærufrestur því liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Til þess ber þó að líta að engar leiðbeiningar um kæruheimild eða kærufrest var að finna í áðurnefndu bréfi Mannvirkjastofnunar og sama máli gegnir um eyðublað stofnunarinnar fyrir skýrslu um rafveitueftirlitsgjald. Með vísan til þessa verður það talið afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að fresti liðnum og verður málið tekið til efnismeðferðar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi krefst þess að hið kærða gjald verði fellt niður, íslenska ríkinu gert að greiða hlutdeild stórnotenda eða að undanþága til stórnotenda verði felld úr gildi. Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, sem felst í kröfu um niðurfellingu gjaldsins, en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.

Heimild til álagningar hins umdeilda rafveitueftirlitsgjalds er að finna í 1. og 4. tölul. 14. gr. laga nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Í lögunum er gjaldið tilgreint í tvennu lagi, en samanlagt er það 0,8%. Annars vegar er um að ræða gjald skv. 1. tölul. vegna yfireftirlits Mannvirkjastofnunar með rafveitum og skal það gjald nema allt að 0,2% af heildartekjum rafveitu af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti. Hins vegar er í nefndum 4. tölul. kveðið á um heimild til innheimtu á gjaldi vegna yfireftirlits Mannvirkjastofnunar og þeirra úrtaksskoðana sem stofnunin láti framkvæma á nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri og þrátt fyrir ákvæði annarra laga um rafveitur skuli það gjald nema allt að 0,6% af heildartekjum rafveitna af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti.

Í reglugerð nr. 678/2009 um raforkuvirki er fjallað um eftirlitsgjöld í 9. gr. og í gr. 9.1 er rafveitueftirlitsgjald skilgreint sem gjald vegna yfireftirlits Mannvirkjastofnunar með rafveitum og neysluveitum og þeirra úrtaksskoðana sem stofnunin láti framkvæma á nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri. Alls skuli gjaldið vera 0,8% af heildartekjum rafveitna af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti, sbr. heimildir í áður tilvitnuðum lagaákvæðum.

Bæði í tilvitnuðum lagaákvæðum og reglugerðarákvæði er kveðið á um að undanþegin gjaldinu sé raforkusala til Íslenska álfélagsins hf. og Íslenska járnblendifélagsins hf., svo og til annarra iðjuvera sem undanþegin kunni að vera með lögum. Í 3. tölul. 14. gr. laga nr. 146/1996 segir hinsvegar að vegna yfireftirlits Mannvirkjastofnunar og úrtaksskoðana sem stofnunin láti framkvæma á búnaði stóriðjuvera sem kaupi eða framleiði raforku sem undanskilin sé gjaldtöku skv. 1. tölul. skuli eigendur þeirra greiða skoðunarkostnað. Sambærilegt ákvæði er í gr. 9.3 í reglugerð nr. 678/2009.

Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið leikur enginn vafi á lagaheimild hins álagða rafveitueftirlitsgjalds, hver stofn til gjaldtöku er og hversu há prósenta hans gjaldið skuli vera. Þá hefur löggjafinn ákveðið hvernig gjaldtökunni skuli háttað, þ. á m. að tiltekin fyrirtæki skuli undanþegin greiðslu þess eftirlitsgjalds sem kveðið er á um í 1. og 4. tölul. 14. gr. laga nr. 146/1996. Það er ekki á valdi úrskurðarnefndarinnar að hrófla við þeirri skipan, sem fastákveðin er með lögum, og verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Mannvirkjastofnunar um álagningu rafveitueftirlitsgjalds.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

148/2016 Kröflulína 4 Skútustaðahreppur

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur tók þátt í fundi úrskurðarnefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 148/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. október 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, Skútustaðahreppi, og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. október 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 24. nóvember 2016.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skútustaðahreppi 15. nóvember 2016.

Málavextir: Landsnet hf. fyrirhugar að leggja 220 kV loftlínu, Kröflulínu 4, frá Kröfluvirkjun í Skútustaðahreppi að gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum í Þingeyjasveit. Frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Norðurþingi, er áætlað að leggja Þeistareykjalínu 1, einnig fyrir 220 kV rekstrarspennu.

Hin kærða leyfisveiting á sér nokkurn aðdraganda. Í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem staðfest var af umhverfisráðherra 16. janúar 2008, er tekið fram að vegna áforma um orkufrekan iðnað við Húsavík sé unnið að undirbúningi virkjunar háhitasvæðanna á Þeistareykjum og í Gjástykki ásamt frekari virkjunum við Kröflu og í Bjarnarflagi. Í svæðisskipulaginu voru m.a. kynntar mögulegar leiðir háspennulína á svæðinu. Vegna nefndra áforma fór fram frekari gerð skipulagsáætlana, sem og mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar voru.

Gerð var breyting á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 1995-2015, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 24. mars 2011, en nýtt Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023 var svo samþykkt í sveitarstjórn 21. febrúar 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. maí s.á. Deiliskipulag vegna stækkunar Kröfluvirkjunar í Skútustaðahreppi var samþykkt af sveitarstjórn 14. nóvember 2013 og á fundi hennar 8. maí 2014 voru staðfest svör skipulagsnefndar við athugasemdum Skipulagsstofnunar. Deiliskipulagið var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní s.á.

Í mars 2008 barst Skipulagsstofnun tillaga Landsnets að matsáætlun vegna háspennulína (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Samþykkti stofnunin áætlunina með athugasemdum 29. maí s.á. Samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008 fór fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, stækkun Kröfluvirkjunar og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur. Matsáætlun framkvæmdaraðila vegna þess mats var samþykkt af Skipulagsstofnun með athugasemdum 6. nóvember 2009. Frummatsskýrslur vegna fyrirhugaðra framkvæmda, þ.e. nefndra háspennulína, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og álvers við Bakka, sem og frummatsskýrsla vegna sameiginlegs mats framangreindra framkvæmda, voru allar auglýstar samhliða með athugasemdafresti til 14. júní 2010. Í kjölfarið voru matsskýrslur sendar Skipulagsstofnun og 24. nóvember s.á. lágu fyrir lögbundin álit hennar á mati á umhverfisáhrifum hverrar framkvæmdar fyrir sig, sem og á sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum þeirra. Er í álitunum gerð grein fyrir framkvæmdum þeim sem metnar eru, matsferlinu og helstu þáttum þess, umsögnum, athugasemdum og öðru því er málið varðar. Fallið hefur verið frá byggingu álvers á Bakka, en mat á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmverksmiðju við Bakka hefur einnig farið fram.

Með úrskurði í kærumáli nr. 46/2016, uppkveðnum 10. október 2016, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 20. apríl s.á. um að veita framkvæmdaleyfi til handa Landsneti fyrir Kröflulínu 4. Taldi úrskurðarnefndin að leyfið samræmdist ekki skipulagsáætlunum að öllu leyti. Þá var tiltekið í úrskurðinum að í áliti Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember 2010 kæmi fram að framkvæmdunum fylgdu um margt verulega neikvæð óafturkræf áhrif á umhverfið og var jafnframt tekið fram að álitið væri haldið nokkrum ágöllum hvað varðaði umfjöllun um valkosti framkvæmdarinnar. Úrskurðarnefndin leit ekki svo á að annmarkar á álitinu væru svo verulegir að á því yrði ekki byggt, en lagt var til grundvallar að sveitarstjórn hefði eftir atvikum borið að taka rökstudda afstöðu til þess hvort að annmarkarnir hefðu þýðingu við leyfisveitingu í sveitarfélaginu og ef svo væri þá bæri henni að hafa forgöngu um að bætt yrði úr þeim svo að ákvörðun um framkvæmdaleyfi byggði á fullnægjandi grundvelli í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að rökstuðningur sveitarstjórnar Skútustaðahrepps fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins uppfyllti ekki kröfur um efni rökstuðnings og að verulega hefði skort á að hún hefði tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Enn fremur að rökstuðningur sveitarstjórnar hefði verið á þann veg að frekari rannsókna hefði verið þörf varðandi möguleika á þeim valkosti að leggja jarðstreng á hluta línuleiðar Kröflulínu 4.

Á fundi skipulagsnefndar Skútustaðahrepps 24. október 2016 var tekin fyrir að nýju umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4. Bókað var um forsögu og meðferð málsins, þ. á m. hvaða frekari gögn hefðu komið fram. Einnig var bókað að nefndin teldi framkvæmdina í samræmi við Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023, sbr. einnig svæðisskipulag fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslu 2007-2025. Þá væri framkvæmdin í samræmi við deiliskipulagið Stækkun Kröfluvirkjunar sem staðfest hefði verið 14. nóvember 2013, en hluti framkvæmdarinnar væri innan þess svæðis. Hluti greinargerðar deiliskipulagsins væri sérstök bókun varðandi tengsl eignarréttarlegra heimilda og framkvæmdaleyfisveitinga til Landsvirkjunar vegna samnings eigenda lands Reykjahlíðar og íslenska ríkisins frá 1971, sem Landsvirkjun hafi nú rétt til og fjallað hafi verið um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 560/2009. Umrædd bókun varði ekki umsótta framkvæmd Landsnets. Óháð þessu liggi fyrir eignarnámsákvörðun iðnaðarráðuneytisins, dags. 14. október 2016, vegna eignarhluta í óskiptu landi Reykjahlíðar, sem veiti framkvæmdaraðila eignarréttarlega heimild til framkvæmdasvæðis, til viðbótar við samninga um slíkar heimildir. Vegna umsagnar náttúruverndarnefndar Þingeyinga, þess efnis að lega framkvæmdarinnar væri á hverfisverndarsvæði, var bókað að í aðalskipulagi Skútustaðahrepps væri vísað til svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum um nánari skilmála hverfisverndar. Í svæðisskipulaginu sé m.a. sérstakt ákvæði um hverfisverndarsvæðið HK5, Þríhyrninga, sem geri ráð fyrir flutningslínum raforku yfir hluta svæðisins. 

Skipulagsnefnd bókaði að hún hefði kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar: Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Einnig hefði komið til skoðunar álit Skipulagsstofnunar vegna sameiginlegs mats álvers á Bakka, háspennulína, virkjana í Kröflu og á Þeistareykjum, en að framkvæmd samkvæmt fyrirliggjandi umsókn væri ekki gerð í tengslum við álver á Bakka. Þá bókaði nefndin að við samanburð á framkvæmd sem fyrirliggjandi umsókn lýsti og matsskýrslu vegna háspennulína, væri sýnt að framkvæmdin varðaði einungis hluta þeirrar framkvæmdar, þ.e. Kröflulínu 4 sem lægi frá Kröflu að Þeistareykjum. Framkvæmdin væri hluti umhverfismetinnar framkvæmdar, ekki eðlislega frábrugðin heildarframkvæmdinni og ekki önnur framkvæmd en umhverfismatið varðaði.

Þá var bókað að samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar væri annmarki á áliti Skipulagsstofnunar þar sem í álitinu var ekki vikið að framlögðum kosti Landsnets um lagningu línu í jarðstreng og væri jafnframt gerð athugasemd við að kynning framkvæmdaraðila á kostinum hafi verið takmörkuð. Kæmi og fram í úrskurðinum að annmarkar á áliti Skipulagsstofnunar væru ekki svo verulegir að á álitinu yrði ekki byggt. Tekur skipulagsnefnd svo fram að hún telji að annmarki á álitinu hafi takmarkaða þýðingu við afgreiðslu fyrirliggjandi framkvæmdaleyfisumsóknar og jarðstrengur hafi ekki verið raunverulegur valkostur framkvæmdarinnar. Umsótt framkvæmd varðaði háspennulínur í lofti og samræmdist það skipulagsáætlunum, sem m.a. hefðu verið umhverfismetnar. Þá skipti máli að um þá tegund framkvæmda sem umsókn varðaði giltu sérlög sem fjalli um stöðu jarðstrengja sem valkosts og stöðu skipulagsáætlana. Vísaði skipulagsnefnd nánar til 9. gr. c. í raforkulögum nr. 65/2003 um að sveitarstjórnum beri að tryggja að skipulagsákvarðanir hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar, sem og til 9. gr. a. sem væri lagagrundvöllur fyrir kerfisáætlun þar sem gert væri ráð fyrir umsóttri framkvæmd. Var bent á í bókuninni að kerfisáætlun hvíli jafnframt á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, þar sem m.a. komi fram viðmið um hvenær jarðstrengir koma til álita. Taldi skipulagsnefnd að þýðingu annmarka á áliti Skipulagsstofnunar yrði að skoða út frá því hvort hann gæti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Slíkt væri vandséð þegar bein afleiðing þess sé þörf á nýjum skipulagsákvörðunum og þar af leiðandi að sveitarfélag tryggi ekki að skipulagsákvarðanir hindri framgang framkvæmdar á framkvæmdaáætlun Kerfisáætlunar. Tiltók nefndin að við málsmeðferð framkvæmdaleyfisumsóknar væru markmið skipulagslaga grundvöllur að ákvarðanatöku.

Jafnframt var eftirfarandi bókað á fundi skipulagsnefndar:

„Við málsmeðferð umsóknarinnar hefur á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga verið aflað gagna til að tryggja enn frekar að ákvörðun verði byggð á fullnægjandi grundvelli. Fyrir liggur skýrslan; Athugun á jarðstreng sem kosti í 220 kV Kröflulínu 4. Þá var óskað eftir viðbótargöngum frá Landsneti, sbr. skýrslu um umhverfisáhrif jarðstrengs sem valkosts framkvæmdarinnar. Skýrslurnar hafa verið rýndar.

Fyrirliggjandi gögn lýsa m.a. umhverfisáhrifum jarðstrengs sem lagður væri um Leirhnjúkshraun. Í skýrslunni eru áhrif jarðstrengs m.a. á landslag og ásýnd og jarðmyndanir talin talsvert neikvæð. Í áliti Skipulagsstofnunar er vísað til þess að háspennulínur hafi talsvert neikvæð og varanleg áhrif á hraunið. Hluti Leirhnjúkshrauns er skilgreint sem iðnaðarsvæði í aðalskipulagi og hefur hluta þess verið raskað áður. Lagning jarðstrengs virðist fela í sér meiri óafturkræf umhverfisáhrif á jarðmyndanir en lagning háspennulína, m.a. vegna fleygunar og meiri þarfar á efnisflutningum, en sá þáttur umhverfisáhrifa varðar mest um verndargildi eldhrauna. Sjónræn áhrif jarðstrengs og háspennulína eru mismunandi, þar sem lagning jarðstrengs raskar samfelldara og breiðara svæði, en loftlínur eru sýnilegri úr meiri fjarlægð.
 
Skipulagsnefnd telur að þrátt fyrir almennan áhuga sveitarstjórnar á að jarðstrengir verði notaðar við raforkuflutning, að ný gögn málsins lýsi enn frekar að lagning jarðstrengs á hluta línuleiðar sé ekki vænlegur kostur. Lagning jarðstrengs tryggir ekki afhendingaröryggi raforku með sama hætti og háspennulínur á þessu svæði. Lagning jarðstrengs á hluta leiðar, s.s. um Leirhnjúkshraun, fellur ekki að stefnu stjórnvalda um hvenær lagður skuli jarðstrengur frekar en loftlína, en kostnaður við jarðstreng er meira en tvisvar sinnum kostnaður við loftlínu. Þá verður einnig litið til annarra upplýsinga um rafmagnsverkfræðilega þætti, svo sem að meiri möguleikar eru á því að auka flutningsgetu loftlína en jarðstrengs. Loftlína dregur því úr þörf á uppbyggingu raforkuflutningsmannvirkja í framtíðinni innan Skútustaðahrepps.

Skipulagsnefnd tekur undir þá niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar að umsótt framkvæmd muni hafa talsvert neikvæð og varanleg áhrif á Leirhnjúkshraun. Leiðarval flutningsmannvirkja á raforku var til umfjöllunar við gerð Svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslu 2007-2025. Skipulagsáætlunin var umhverfismetin. Við slíkt mat vegna áhrifa flutningsmannvirkja raforku getur falist meiri nákvæmni en þegar umhverfismat áætlana varðar landnotkun eða tegund framkvæmda sem ekki eru eins þekktar á áætlanastigi. Umhverfismat framkvæmdar felur þó í sér meiri nákvæmni en mat á áætlunum. Val á lagnaleið Kröflulínu 4 samkvæmt aðalskipulagi og umsóttri framkvæmd er að rekja til umfjöllunar um kostinn C1 í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslu, sem m.a. var valinn vegna minni sjónrænna áhrifa frá byggð og möguleika á að svæðið sunnan Hlíðarfjalls verði laust við flutningslínur í framtíðinni. Jafnframt verður litið til verndaráætlunar Mývatns og Laxár 2011-2016 um verndargildi svæða á mögulegum línuleiðum. Bent er á þá augljósu staðreynd að vegna jarðfræðilegra staðhátta verður flutningskerfi raforku ekki lagt norður frá Kröflu án þess að hróflað verði við svæðum sem njóta verndar samkvæmt náttúrverndarlögum. Þannig var m.a. hafnað lagnaleið í meiri nálægð við Gjástykki. Þá fela aðrir kostir um lagnaleið en hin umsótta framkvæmd í sér lengri leið flutningsmannvirkja raforku, með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Afstaða skipulagsnefndar til gagna um umhverfisáhrif framkvæmdar hvílir jafnframt á því að umhverfismat svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum gerði ráð fyrir neikvæðum umhverfisáhrifum vegna lagningar háspennulína. Umhverfismat framkvæmdar lýsir þeim áhrifum nákvæmar, en ekki er um ræða óvænt eða verulega frávik frá þeim áhrifum sem skipulagsáætlanir sveitarfélagsins hvíla á.“

Enn fremur var bókað af skipulagsnefnd að fjallað hefði verið um valkosti og útfærslu framkvæmda við umhverfismat áætlana og síðar umhverfismat framkvæmdar með nákvæmari hætti, auk umfjöllunar í gögnum sem aflað hefði verið á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, og teldi skipulagsnefnd skilyrði til þess að veitt yrði framkvæmdaleyfi fyrir umsótta framkvæmd.

Loks segir í bókun skipulagsnefndar:
„Með vísan til 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga er gætt að því að fylgt sé ákvæðum náttúruverndarlaga. Umsótt framkvæmd hefur verið umhverfismetin og ekki er óvissa um áhrif framkvæmdar. Framkvæmd fer um svæði sem njóta verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, þ.e. Leirhnjúkshraun og Neðra-Bóndhólshraun. Við málsmeðferð skipulagsákvarðana hefur verið leitað umsagna Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 68. gr. náttúruverndarlaga, þ.e. við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna stækkunar Kröfluvirkjunar. Vegna málsmeðferðar sveitarfélagsins var óskað eftir umsögn náttúruverndarnefndar Þingeyinga.

Skipulagsnefnd vísar til þess að málsmeðferð samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga varðar framkvæmdaleyfisumsóknir, óháð því hvort mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram. Umrædd framkvæmd hefur fengið ítarlega málsmeðferð við umhverfismat áætlana og umhverfismat framkvæmdar. Sú vinna hefur að áliti skipulagsnefndar hvílt á því markmiði að forðast rask á eldhraunum, þó í því ljósi að slíkt rask sé nauðsynlegt vegna markmiða að baki framkvæmd og jarðfræðilegum staðháttum í Skútustaðahreppi. Það er álit Skipulagsnefndar að sú málsmeðferð sem farið hefur fram við undirbúning framkvæmdarinnar hafi leitt fram það rask á eldhraunum sem brýn nauðsyn ber til í ljósi markmiða framkvæmdar. Vegna gagna um umhverfisáhrif jarðstrengja er m.a. vísað til lýsingar á óafturkræfum umhverfisáhrifum jarðstrengs í hraunum sem hafa áhrif á skipulega heildarmynd af jarðfræðilegum ferlum og fyrirbærum eldhrauna.

Fyrir liggur samningur Landsnets og Umhverfisstofnunar um sérstakt eftirlit Umhverfisstofnunar vegna framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4, sem hefur það markmið að tryggja frágang einstakra verka og verkþátta m.t.t. náttúruverndarlaga. Í umsóttri framkvæmd er m.a. fjallað um vöktunaráætlun vegna áflugs fugla. Í ofangreindum samningi er vikið að hlutverki Umhverfisstofnunar vegna samskipta við vöktunaraðila. Í ljósi þessa og nánari umfjöllunar í erindi Landsnets, dags. 21.10.2016, er lýsing á fyrirkomulagi vöktunar áflugs nægjanleg við afgreiðslu framkvæmdaleyfisumsóknar.

Vegna umsagnar náttúruverndarnefndar er lagt til að áréttað verði í framkvæmdaleyfi sem sérstakt skilyrði framkvæmdar, ákvæði deiliskipulags vegna stækkunar Kröfluvirkjunar og svæðisskipulags vegna hverfisverndarsvæðisins HK 5, Þríhyrningar. Við mannvirkjagerð skal leitast við að viðhalda einkennum svæðisins og skal gætt fyllstu varúðar við allar framkvæmdir. Kynna skal skipulagsfulltrúa framkvæmdir á hverfisverndarsvæðinu áður en þær hefjast. Auk þessa verði skilyrði sem koma fram í áliti Skipulagsstofnunar og varða framkvæmdina innan Skútustaðahrepps sérstaklega talin upp.

Skipulagsnefnd vísar til stefnu Skútustaðahrepps sem mörkuð var með svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum. Með orkunýtingu á Þeistareykjasvæði skapast nauðsyn á raforkuflutningsmannvirkjum þangað, norður frá Kröflu. Sú stefna tengist jafnframt uppbyggingu í Þingeyjarsýslum með framkvæmdum á Bakka. Undirbúningur þessara uppbyggingar hefur staðið yfir í áratug á grunni lögbundinnar málsferðar samkvæmt skipulags- og umhverfislöggjöf. Umsótt framkvæmd er í beinum tengslum við uppbygginu á Bakka. Þá er einnig litið til þess að framkvæmdin er hluti af uppbyggingu flutningskerfis raforku og hefur þýðingu við að bæta afhendingaröryggi raforku á landsvísu. Verulegir fjárhagslegir og samfélagslegir hagsmunir mæla með framkvæmdinni og að ekki verði ófyrirséðar tafir á henni.“

Taldi skipulagsnefnd að lagaskilyrði væru til útgáfu umsótts framkvæmdaleyfis, sbr. 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og var ákveðið að leggja til við sveitarstjórn að umsóknin yrði samþykkt og að skipulags- og byggingarfulltrúa yrði falið að gefa út og auglýsa leyfið.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti tillögu og bókun skipulagsnefndar á fundi sínum 26. október 2016 með fjórum atkvæðum gegn einu. Var bókað við það tilefni að einn sveitarstjórnarmanna vekti athygli á mögulegu vanhæfi vegna persónulegra tengsla við landeigendur á Grímsstöðum. Vanhæfiskrafa var borin upp til atkvæða, en samþykkt samhljóða að viðkomandi sveitarstjórnarmaður væri ekki vanhæfur í málinu. Lögð var fram bókun sveitarstjórnarmannsins þess efnis að það þrengdi stöðu sveitarfélaga að ákvarðanir væru ekki kæranlegar fyrr en við útgáfu framkvæmdaleyfis. Að sínu mati væri fyrirliggjandi minnisblað frá 20. október 2016 „Umhverfisáhrif jarðstrengs“ um Leirhnjúkshraun vegna Kröflulínu 4 ónóg úttekt á áhrifum jarðstrengs á umræddu svæði og gildi landslagsheildarinnar við Leirhnjúk fyrir ferðaþjónustu vanmetin. Lagning loftlínu um Leirhnjúkshraun kæmi til með að hafa mjög neikvæð umhverfisáhrif og að miklu leyti óafturkræf með tilheyrandi skerðingu landslagsheilda, víðerna og röskun nútímahrauna, þar með talið á fjölsótta ferðamannastaði við Leirhnjúk. Vegna þess væri að sínu mati þörf á rýni með tilliti til legu raflína í jörðu eftir nánar tilgreindum leiðum áður en ákvörðun um ásættanleg umhverfisáhrif framkvæmdaleyfisumsóknar þeirrar sem væri til umfjöllunar væri verjandi. Þá bókaði annar sveitarstjórnarmaður að honum þætti mikilvægt að fram kæmi við afgreiðslu málsins að fyrri stjórnvöld hefðu komið þessum málum í þann farveg, með Kerfisáætlun byggða á raforkulögum, að sveitarstjórnarstigið hefði lítið ef nokkurt val um ákvarðanatöku í þessum málum. Loks var bókað að allir hefðu tekið til máls og að í aðdraganda afgreiðslunnar hefðu farið fram miklar umræður innan sveitarstjórnar á öllum stigum málsins.

Hefur ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. október 2016 verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir.

Tilgreindir eigendur að hluta af óskiptu landi jarðarinnar Reykjahlíðar höfðuðu dómsmál til ógildingar á ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 14. október 2016 um að heimila eignarnám í landsréttindum þeirra vegna lagningar Kröflulínu 4 og 5, sem og um að þinglýsa kvöð þar um á jarðir þeirra. Kveðinn var upp sýknudómur 16. mars 2017 hjá Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. E-1/2017, en dóminum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Matsnefnd eignarnámsbóta mun hafa lokið slíku mati til handa greindum eigendum og hefur Landsnet óskað eftir dómsúrskurði hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra um að landsréttindin verði færð félaginu með beinni aðfarargerð. Er því máli ólokið.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hina kærðu ákvörðun haldna þeim ágöllum að hana beri að ógilda.

Af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 46/2016 verði ekki ráðið að leyfisveitanda hafi verið nokkur kostur að bæta úr fyrri ákvörðun sinni án þess að skoða valkosti, þar með talið jarðstreng og lagnaleiðir hans. Veigamikil lagarök séu fyrir því að þegar um sé að ræða svæði sem njóti verndar lögum samkvæmt sé skylda til að skoða valkosti efnislega strangari eða víðtækari en leiði af lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hafi leyfisveitanda átt að vera ljóst, sérstaklega í ljósi bókunar þess sveitarstjórnarmanns er greitt hafi atkvæði gegn leyfisveitingunni, að ekki yrði undan því vikist að rannsaka málið og láta fara fram mat á umhverfisáhrifum á öðrum valkostum, þ. á m. jarðstrengjum og öðrum lagnaleiðum. Hafi að minnsta kosti átt að láta fara fram rannsókn sem kæmi í staðinn fyrir raunverulegt umhverfismat þó varla sé hægt að fallast á að önnur aðferð en mat á umhverfisáhrifum geti komið þess í stað. Engin rannsókn hafi farið fram í þessum skilningi. Þá hafi sveitarstjórn ekki haft forgöngu um að bætt yrði úr annmörkum á áliti Skipulagsstofnunar að því leyti sem annmarkar hefðu áhrif innan sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsóknarskyldu stjórnvalds. Sé þetta í ósamræmi við forsendur umrædds úrskurðar þar sem úrskurðarnefndin hafi talið að ekki hafi verið hægt að líta svo á að um raunverulegan valkost hefði verið að ræða, enda hefði ekki farið fram sérstakt mat á áhrifum jarðstrengja sem valkost og umfjöllun ekki fullnægt áskilnaði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 um að gerð sé grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og þeir bornir saman. Ekki hafi verið bætt úr þessum annmörkum við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar.

Hafið sé yfir allan vafa að ákvæði 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd gildi um hina kærðu ákvörðun. Í a-lið 2. mgr. 61. gr. laganna sé kveðið á um sérstaka vernd eldhrauna. Framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi muni raska eldhrauni á tveimur stöðum, þ.e. í Leirhnjúkshrauni og í Neðra-Bóndhólshrauni. Óumdeilt sé að rask yrði verulegt og óafturkræft. Í núgildandi náttúruverndarlögum sé kveðið á um afdráttarlausari vernd eldhrauna frá því sem hafi verið í eldri lögum. Verndarmarkmið 3. gr. laganna hvað varði jarðmyndanir sé að vernda þær að því leyti sem þær séu sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu. Ekki sé að sjá að leyfisveitandi hafi á neinn hátt tekið afstöðu til þeirrar verndar þegar fjallað hafi verið um leyfisbeiðni framkvæmdaraðila. Sé því ekki hægt að finna afstöðu leyfisveitanda um að eldhraunin njóti nú ríkari verndar en hafi verið þegar matsskýrsla framkvæmdaraðila hafi verið gerð og álit Skipulagsstofnunar gefið út. Það hefði þó verið nauðsynlegt enda um veruleg og óafturkræf spjöll að ræða. Hin aukna vernd hafi gefið brýnt tilefni til þess að leyfisveitandi hlutaðist til um sérstaka rannsókn á heimildum sínum til að leyfa framkvæmd er hefði í för með sér óafturkræft rask á verndarandlaginu.

Samkvæmt 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga skuli forðast að raska eldhrauni nema brýna nauðsyn beri til. Beri lögskýringargögn með sér að um þrönga undantekningu sé að ræða frá verndun eldhrauna. Hvíli skylda á framkvæmdaraðila að sýna fram á með vísindalegum aðgerðum, sem leyfisveitanda beri að staðreyna með málefnalegum hætti og rökstuðningi, að mjög ríkir hagsmunir, og þá helst brýnir almannahagsmunir, réttlæti röskun verndarandlags ákvæðisins. Það verði ekki gert nema með málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum sem hafi þann tilgang að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmda. Ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn til að raska Leirhnjúkshrauni eða Neðra-Bóndhólshrauni. Þá hafi verið bent á aðra sanngjarna og eðlilega kosti í stöðunni en þeir hafi ekki verið skoðaðir.

Í áliti Skipulagsstofnunar frá 2010 sé tekið fram að ósnortin víðerni myndu skerðast við framkvæmdina. Víðerni hafi ekki notið lagaverndar við útgáfu álitsins. Víðerni njóti ekki sérstakrar verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga. Hins vegar njóti þau nú verndar samkvæmt markmiðsákvæði 3. gr. laganna. Hafi það ákvæði ekki verið í lögum þegar Skipulagsstofnun hafi gefið út álit sitt. Hafi með hinni kærðu ákvörðun því ekki verið tekið tillit til verndarmarkmiða um víðerni. 

Skilyrðið um brýna nauðsyn í skilningi 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, sem og rannsóknarskylda leyfisveitanda, verði ekki uppfyllt nema ákvörðun leyfisveitanda hafi verið studd við vísindalega þekkingu í skilningi 8. gr. laganna. Skilyrði ákvæðisins hafi einnig sjálfstæða þýðingu í málinu. Hin kærða ákvörðun hafi ekki verið byggð á vísindalegri þekkingu í skilningi greindrar 8. gr. Um sé að ræða mikil óafturkræf umhverfisáhrif með lagningu loftlínunnar. Krafan um þekkingu sé því mun ríkari vegna hinna miklu áhrifa á náttúruna. Verði ekki séð að uppfærð þekking á jarðfræði hafi legið til grundvallar ákvörðuninni að því er varði leiðarval. Þá hafi vísindaleg þekking ekki verið nýtt til þess að leggja fram og umhverfismeta raunverulega kosti um jarðstrengi, sem sé sá annmarki sem úrskurðarnefndin hafi talið einkum vera á greindu áliti Skipulagsstofnunar frá 2010.

Hin kærða ákvörðun byggi á einhliða fullyrðingum framkvæmdaraðila. Leyfisveitandi hafi ekki kannað réttmæti þeirra fullyrðinga eða leitað umsagnar eða andmæla um hana, líkt og honum hefði borið við þessar aðstæður. Framkvæmdaraðili hafi þekkingu á því að koma jarðstrengjum fyrir með borunum og hefði átt að nota þá þekkingu við mat á því hvaða leið og aðferð myndi valda sem minnstu raski, ekki síst óafturkræfu raski náttúruverndarsvæða. Í svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum hafi ekki verið fjallað um jarðstrengi og ætla megi að umfjöllun um leiðarval í svæðisskipulaginu yrði í dag önnur um bæði leiðarval og tæknilegar útfærslur raflína. Hæpið sé að byggja leyfisveitingu vegna lagningar línu yfir Leirhnjúkshraun á þeim möguleika að Kröflulína 1 verði tekin úr rekstri og svæðið sunnan Hlíðarfjalls verði þá laust við flutningslínur. Engin slík framtíðaráform sé hluti hinnar kærðu ákvörðunar og telji kærendur að rask eldhrauns yrði óverulegt, eða a.m.k. mun minna, ef farið yrði með jarðstreng austan og sunnan Hlíðarfjalls. Með því að hlífa hrauninu norðan fjallsins væri haldið í þá heild sem þar sé. Þá sé gerð athugasemd við svör framkvæmdaraðila þar sem haldið sé fram að unnt sé að mæla umhverfisáhrif með því að mæla lengd raflína.

Þó sé sá annmarki alvarlegastur og augljósastur að hin kærða ákvörðun hafi byggt á upplýsingum úr löngu úreltu korti um verndarsvæði í Mývatnssveit. Fyrirvari sé gerður um kortið í verndaráætlun Mývatns og Laxár 2011-2016. Kærendur hafi jafnframt óskað álits forstöðumanns Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn á gildi kortsins og hafi svar hans verið afdráttarlaust um að kortið sé löngu úrelt hvað Kröflusvæðið varði. Að því er varði kröfuna um vísindalega þekkingu sem grundvöll ákvörðunartöku séu annmarkar á hinni kærðu ákvörðun svo miklir að ógildi varði.

Hafi framkvæmdaraðili ekki sýnt með málefnalegum hætti fram á að ekki sé kostur á annarri útfærslu tengingar virkjana í Kröflu og Þeistareykjum.

Í bókun skipulagsnefndar frá 24. október 2016 komi fram sú lögskýring að ekki hafi þurft að meta jarðstreng sem valkost þar sem raforkulög hafi að geyma sérstaka reglu um valkosti og beri að skýra þau sem sérlög. Hafi leyfisveitandi byggt á því að reglur raforkulaga um mat á jarðstrengjum gangi framar lögum um mat á umhverfisáhrifum að því er varði umfjöllun um jarðstrengi. Ekkert í lögskýringargögnum með þeim ákvæðum raforkulaga sem fjalli um mat á jarðstrengjum bendi til þess að afnema hafi átt reglur um mat samkvæmt matslögunum þegar um sé að ræða mat á raflínum. Gengi slíkt þvert gegn ákvæðum tilskipunar 2011/92/ESB sem tekin hafi verið upp í EES-samninginn og sé skuldbindandi af Íslands hálfu. Reglur matslaganna gildi fullum fetum þegar meta skuli áhrif raflína eins og annarra mannvirkja. Eigi það jafnt við um jarðstrengi og aðrar raflínur. Engin ákvæði laga stæðu því í vegi að leyfisveitandi gerði þá rannsókn sem úrskurðarnefndin hafi komist að niðurstöðu um að á skorti í fyrra máli og breyti hvorki raforkulög né skipulagslög neinu í því sambandi.

Jafnframt hafi verið fallist á leyfisbeiðni framkvæmdaraðila með þeim rökum að í þingsályktun nr. 11/144 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína hafi verið sett fjárhagsleg viðmið og að stofnkostnaður jarðstrengsbúts yfir Leirhnjúkshraun sé of mikill til að það samrýmist þeirri stefnu. Sé á það bent að þingsályktunin miði ekki að því að afnema skyldu til að meta jarðstreng sem valkost í mati á umhverfisáhrifum. Þá breyti þingsályktanir ekki stjórnskipulega settum lögum. Um sé að ræða bráðabirgðastefnu sem verði að telja fallna úr gildi skv. raforkulögum, enda hafi borið að endurskoða hana og leggja fyrir Alþingi í síðasta lagi 15. október 2016. Loks séu takmarkanir á matslöggjöf óheimilar og sé ekki heimilt að takmarka gildi mats á umhverfisáhrifum við að meta kosti innan einhvers tiltekins kostnaðarramma, ekki síst þegar slíkt sé byggt á eigin útreikningum framkvæmdaraðila. Mælikvarði umræddrar þingsályktunar, varðandi hvenær kostnaður skuli ekki hamla því að jarðstrengur sé lagður, eigi við í þessu máli, enda hafi Leirhnjúkshraun sérstaka verndarstöðu samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga nr. 97/2004, sem megi jafna til friðlýsts svæðis í skilningi nefndrar þingsályktunar.

Í frumvarpi er orðið hafi að lögum nr. 97/2004 um verndum Mývatns- og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu komi fram að fá svæði á Íslandi séu jafn verðmæt frá sjónarhóli náttúruverndar og Mývatns- og Laxársvæðið og náttúruminjar í grennd við Mývatn teljist órjúfanlegur hluti svæðisins. Í lögunum hafi m.a. verið lagt til að friðlýsa Leirhnjúkshraun. Ljóst sé að löggjafinn hafi gengið út frá því að komið yrði í veg fyrir að náttúruminjum yrði spillt áður en þær yrðu friðlýstar. Leyfisveitandi hafi ekki litið til þessa atriðis er hann tók hina kærðu ákvörðun. Hafi ákvörðunin gengið gegn yfirlýstum verndarmarkmiðum laganna og ekki verið leitað samráðs við umhverfisráðherra líkt og löggjafinn hafi gengið út frá áður en slíkt leyfi sé veitt. Leyfisveitanda hafi borið að taka afstöðu til þessa en slíkt hafi ekki verið gert. Þá verði ekki séð að leyfi hafi verið veitt fyrir nauðsynlegri vegagerð og efnistöku með hinu kærða leyfi. Hvoru tveggja sé leyfisskylt og verði að telja slíkt annmarka á hinni kærðu ákvörðun.

Loks sé bent á að tiltekinn varamaður í sveitarstjórn, sem setið hafi á þeim fundi sem samþykkt hafi hina kærða ákvörðun, sé starfsmaður Landsvirkjunar. Landsvirkjun sé móðurfélag framkvæmdaraðilans, Landsnets, og eigi um 2/3 hluta hlutafjár í félaginu. Þá sé Landsvirkjun eigandi Kröfluvirkjunar og Þeistareykjavirkjunar, en Kröflulína 4 tengi þessar tvær virkjanir. Auk þess sé Landsvirkjun seljandi raforku til kísilvers sem verið sé að reisa á Bakka, en Kröflulína 4 eigi að flytja þá raforku. Hafi umræddum fulltrúa sveitarstjórnar af framangreindum ástæðum ekki verið heimilt að taka þátt í afgreiðslu málsins, sbr. vanhæfisreglur stjórnsýslulaga. Þá hafi hann verið 10. maður á lista í sveitarstjórnarkosningum. Komi ekki fram í bókun sveitarstjórnar hvers vegna ekki hafi verið kallað til varamanna sem honum hafi staðið framar á lista. Liggi því ekki fyrir að skilyrði 1. mgr. 21. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 hafi verið uppfyllt, en ákvæðið kveði á um að varamenn skuli taka sæti í þeirri röð sem þeir hafi verið kosnir. Jafnframt liggi ekki fyrir að hann hafi vakið athygli á hugsanlegu vanhæfi sínu sem starfsmanns móðurfélags framkvæmdaraðila, sbr. 6. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga, og sveitarstjórn í framhaldi tekið ákvörðun um vanhæfi, sbr. 7. mgr. sömu greinar. Sama vanhæfisástæða eigi við um varamann í skipulagsnefnd sem komið hafi að ákvörðunartöku þar 24. október 2016. Með hliðsjón af framangreindu, mótatkvæði varaoddvita og bókun eins sveitarstjórnarmanns sem telji hendur sveitarstjórnar bundnar vegna ákvæða í raforkulögum, sé ljóst að hin kærða ákvörðun sé haldin slíkum annmörkum að leiði til ógildingar.

Þess sé óskað að úrskurðarnefndin leiti álits EFTA-dómstólsins þrátt fyrir fyrri úrskurði nefndarinnar þess efnis að innlend lög heimili það ekki. Telji kærendur nefndina til þess bæra og muni ágreiningur máls þessa væntanlega snúast að verulegu leyti um skýringu á EES-reglum.

Málsrök Skútustaðahrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að ógilding stjórnvaldsákvörðunar vegna formannmarka verði aðeins gerð sé hann verulegur. Slíkir annmarkar séu ekki til staðar og hafi verið vandað til málsmeðferðar. Kærendur byggi ekki á málsástæðum um efnislega annmarka. Umhverfisáhrif umsóttrar framkvæmdar hafi verið metin og samræmist hún gildandi skipulagsáætlunum. Líta verði til lögvarinna hagsmuna sem raskað yrði með ógildingu, ekki eingöngu framkvæmdaraðila heldur þjóðhagslegra hagsmuna, sbr. 1. gr. raforkulaga, sbr. einnig 9. gr. c. sömu laga.

Réttarbót 61. gr. náttúruverndarlaga tryggi tillit til náttúruverndar í tilfellum þar sem framkvæmd hafi ekki verið metin. Ólíku sé saman að jafna stöðu framkvæmda þar sem umhverfisáhrif hafi verið metin og framkvæmda sem ekki hafi farið í gegnum matsferli. Auknar kröfur séu um sérstaka og ítarlega málsmeðferð framkvæmdaleyfisumsókna með tilliti til náttúruverndarlaga hafi framkvæmd ekki verið metin áður. Við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi vernd eldhrauna, þ.m.t. Leirhnjúkshrauns, fengið ítarlega umfjöllum eins og til hafi verið ætlast í eldri náttúruverndarlögum nr. 44/1999, sbr. 37. gr. þeirra. Ákvæði 61. gr. gildandi náttúruverndarlaga sé öryggisregla sem hafi sérstaklega mikla þýðingu þegar umfjöllun um valkosti og verndargildi náttúruminja hafi ekki fengið umfjöllun á fyrri stigum. Með gildistöku nýrra náttúruverndarlaga sé ekki byggt á að endurupptaka eigi eldra mat á umhverfisáhrifum og umfjöllun um valkosti á verndarsvæðum. Bókun eins sveitarstjórnarmanns hafi ekki þýðingu í þessu samhengi. Sveitarstjórnir séu fjölskipuð stjórnvöld þar sem einfaldur meirihluti ráði úrslitum mála. Enn fremur hafi ekki verið nauðsyn á að afla upplýsinga um umhverfisáhrif lagningar jarðstrengs samkvæmt ýmsum leiðarvalkostum, enda eigi þau sjónarmið kærenda ekki stoð í náttúruverndarlögum. Þá hafi sveitarfélagið tekið til sérstakrar rannsóknar hver væru áhrif jarðstrengs sem valkosts framkvæmdarinnar, sbr. bókun þar um, og hafi sú umfjöllun farið fram m.t.t. fyrri úrskurðar úrskurðarnefndarinnar.

Vernd eldhrauna hafi haft augljósa þýðingu í mati á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana sem tengist Kröflulínu 4. Fram komi í bókun skipulagsnefndar að jarðfræðilegir staðhættir séu þannig í Skútustaðahreppi að ekki hefði verið unnt að komast hjá röskun eldhrauna við lagningu flutningsmannvirkja raforku norður frá Kröflu. Sú umfjöllun skýri að brýn nauðsyn hafi verið fyrir hendi og hafi byggt á því að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar hafi þjónað því markmiði að draga eins og kostur væri úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Umsögn náttúruverndarnefndar Þingeyinga hafi tekið undir niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og ekki gefið tilefni til ítarlegri umfjöllunar en fram komi í bókun skipulagsnefndar.

Verndarregla náttúruverndarlaga um óbyggð víðerni taki mið af stöðu svæða samkvæmt gildandi skipulagsáætlunum og raunverulegri nýtingu við gildistöku laganna. Óútskýrt sé í kæru á hvaða grundvelli og hvaða hluti framkvæmdasvæðis ætti að hafa stöðu sem óbyggð víðerni, en hluti þess svæðis í Leirhnjúkshrauni sé t.a.m. skilgreint sem iðnaðarsvæði í skipulagi og hafi þar farið fram mannvirkjagerð vegna orkuiðnaðar.

Undanfari ákvörðunartöku um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna Kröflulínu 4, s.s. mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og áætlana, feli í sér að ákvörðunin byggi á vísindalegri þekkingu. Markmið um vísindalega þekkingu séu sérstaklega tryggð í 6. mgr. 13. gr. skipulagslaga þar sem gert sé ráð fyrir að framkvæmdaraðili leggi fram sérfræðiálit um umhverfisáhrif.

Gögn Landsnets varðandi jarðstrengi sem valkost hafi verið rýnd og meginsjónarmið þeirra rýniskýrslna sé að gögnin hafi verið faglega unnin.

Viðbótarupplýsinga hafi verið aflað vegna framkvæmdaleyfisumsóknar, enda hafi það verið til þess fallið að styrkja frekar grundvöll ákvörðunartöku sveitarfélagsins. Stjórnvaldi beri að meta hvernig beita skuli rannsóknarreglum við málsmeðferð og hafnað sé öllum sjónarmiðum kærenda um að beiðni um viðbótarupplýsingar hefði átt að haga með öðrum hætti. Beiðnin hefði t.a.m. haft samhljóm við það meginsjónarmið við mat á umhverfisáhrifum að framkvæmdaraðili hafi ákveðið forræði á þeim valkostum sem hann leggi til mats.

Í ákvæðum raforkulaga felist efnisreglur sem augljóslega hafi þýðingu við afgreiðslu framkvæmdaleyfisumsókna og svigrúm sveitarfélaga til að hafna slíkum umsóknum. Augljóst sé að ákvæði 9. gr. raforkulaga hvíli á víðtækum almannahagsmunum sem lúti að því að uppbygging flutningskerfis raforku gangi eftir. Ákvæði laganna hafi þýðingu um sjónarmið leyfisveitanda þegar tekin sé afstaða til álits Skipulagsstofnanar og sama gildi um stefnu stjórnvalda sem afmarki hvort og hvenær jarðstrengir séu raunverulegir valkostir framkvæmdar. Hins vegar eigi sér enga stoð þær fullyrðingar kærenda um að afgreiðsla sveitarfélagsins feli í sér að ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum gildi ekki um framkvæmdir við flutningsmannvirki raforku.

Náttúruverndarkort af Mývatnssveit hafi fullt gildi þótt það hafi ekki verið endurskoðað, enda hafi það verið tekið upp í verndaráætlun Mývatns og Laxár 2011-2016. Í texta áætlunarinnar, bls. 17, segi m.a. að á Náttúruverndarkorti fyrir Mývatnssveit sé skilgreint hvaða landssvæði hafi mest verndargildi og sé vísað til kortsins.

Vísað sé til umfjöllunar í fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar um þýðingu laga um vernd og friðun Mývatns og Laxár. Verði ekki séð að bráðabirgðaákvæði laganna hafi þýðingu vegna máls þessa. Sá hluti Leirhnjúkshrauns sem fyrirhuguð framkvæmd liggi um sé ekki hluti af svæðum sem hugmyndir hafi verið uppi um að friðlýsa.

Við mat á umhverfisáhrifum og í umsókn um framkvæmdaleyfi sé lýst vegagerð og efnistöku og falli slíkt undir framkvæmdina og leyfi vegna hennar.

Sveitarfélagið hafi gætt að því að fullskipuð sveitarstjórn tæki ákvörðun í málinu á fundi sínum og hafi þá m.a. verið fjallað um sjónarmið um vanhæfi. Sá varamaður er sæti hafi tekið í sveitarstjórn hafi gert það þar sem aðrir varamenn hafi verið í fríi eða vanhæfir sem landeigendur eða vegna náinna tengsla við landeigendur sem hafi fjárhagslega hagsmuni af lagningu línunnar. Varamaðurinn sé starfsmaður Landsvirkjunar, en ekki Landsnets sem sé aðili málsins. Í 1. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að nefndarmaður sé vanhæfur ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila. Almennir starfsmenn séu ekki fyrirsvarsmenn og því almennt gert ráð fyrir að þeir séu ekki vanhæfir sem slíkir. Eitthvað sérstakt þurfi að koma til svo að starfsmaður teljist vanhæfur og þá skv. 6. tl. nefndrar málsgreinar. Greindur varamaður eigi ekki persónulegra eða fjárhagslegra hagsmuna að gæta og ekki verði hann vanhæfur af þeim sökum að hann starfi í orkugeiranum. Sama umfjöllun eigi við um varamann í skipulagsnefnd sem einnig sé starfsmaður Landsvirkjunar.

Loks sé vísað til þess að ekki sé til staðar lagaheimild fyrir úrskurðarnefndina að óska ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kæra til úrskurðarnefndarinnar hafi verið óundirrituð. Undirritun sé ófrávíkjanleg krafa skv. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og beri því að vísa kærunni frá. Aðrir þeir ágallar séu á kærunni að einnig leiði til frávísunar. Í kæru sé því haldið fram að ákvörðun sveitarstjórnar fari í bága við náttúruverndarlög, bráðabirgðaákvæði laga um verndun Mývatns- og Laxár, lög um mat á umhverfisáhrifum og eftir atvikum skipulagslög. Úrskurðarnefndin hafi í kærumáli nr. 46/2016 tekið skýra afstöðu til álitamála er varði umrædd lög. Röksemdir kærenda stangist á við fyrri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og feli í raun í sér kröfu um endurskoðun á þeim úrskurði sem engar heimildir eða forsendur séu fyrir. Þá sæti furðu að fjallað sé um spurningar til EFTA-dómstólsins þrátt fyrir að fyrir liggi, og fram komi, í kæru að úrskurðarnefndin hafi í fyrri úrskurðum komist að þeirri niðurstöðu að innlend lög heimili henni ekki að leita til dómstólsins. Í kæru sé vísað til tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2014/52/ESB um breytingu á tilskipun 2011/92/ESB um mat á umhverfisáhrifum. Úrskurðarnefndin geti ekki byggt á þeirri tilskipun enda hafi hún ekki verið innleidd í íslenskan rétt. Eigi nefnd tilvísun því ekki við. Þá sé í kæru að finna ýmsar málsástæður sem hafi legið fyrir þegar fyrri ákvörðun sveitarstjórnar um framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4 hafi verið kærð. Hafi ætlunin verið að láta reyna á þessar málsástæður hefði verið full ástæða til að láta þær koma fram í kæru vegna fyrri ákvörðunar og leiði tómlæti kærenda þar um til þess að þeim verði ekki komið að í öðru kærumáli vegna afgreiðslu sömu umsóknar um framkvæmdaleyfi. Verði kærunni ekki vísað frá í heild sinni beri að vísa frá öllum málsástæðum sem tekin hafi verið afstaða til í máli nr. 46/2016 og varði ákvæði náttúruverndarlaga, bráðabirgðaákvæða laga um vernd Mývatns og Laxár, laga um mat á umhverfisáhrifum og skipulagslaga.

Sveitarstjórnarmenn séu ekki vanhæfir til að fjalla um mál sem varði hagsmuni vinnuveitenda þeirra, hvað þá dótturfélaga vinnuveitandans. Lykilspurning í hæfismálum sé hvort mál það sem sé til umfjöllunar varði hann svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Ljóst sé að svo sé ekki í þessu máli.

Gera verði þá kröfu til kæru að hún fjalli með hnitmiðuðum hætti um hugsanlega annmarka á hinni kærðu ákvörðun. Umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, 220 kV háspennulínu, hafi verið til umfjöllunar hjá sveitarstjórn. Umsóknin hafi byggst á ítarlegum gögnum sem hafi verið afrakstur lögbundinna ferla og vinnu sérfræðinga á mörgum stigum. Því sé hafnað að vísindalega þekkingu hafi skort eða að náttúruverndarkort af Mývatnssveit hafi ekki gildi. Umfjöllun í kæru þess efnis sé komin langt frá efni og afmörkun málsins og sama marki sé brennd umfjöllun um valkosti á verndarsvæðum, rannsóknarskyldu og jarðstrengi. Hún taki í engu mið af fyrirliggjandi leyfisumsókn. Hafa beri í huga að sama sveitarstjórn hafi áður veitt framkvæmdaleyfi og hafi sveitarstjórn haft úrskurð í kærumáli nr. 46/2016 til hliðsjónar við ákvörðun sína. Fyrir liggi að möguleikar á jarðstreng við lagningu Kröflulínu 4 séu takmarkaðir og einskorðist við 11 km. Tilvísun til annarra framkvæmda, s.s. Nesjavallalínu 2 eða skoðun á valkostum vegna fyrirhugaðrar Suðurnesjalínu 2 hafi ekkert gildi enda séu forsendur allt aðrar. Í kæru sé fjallað um almenn atriði sem kærendur telji að skoða hefði átt við útgáfu framkvæmdaleyfis án þess að rökstutt sé nægilega með hvaða hætti slíkar hugmyndir tengist leyfisumsókn sem legið hafi fyrir og þeim gögnum sem hún hafi byggt á.

Komist hafi verið að því í máli nr. 46/2016 að annmarki á áliti Skipulagsstofnunar hefði takmarkaða þýðingu. Eðlilegt verði að telja að við afgreiðslu leyfisbeiðni horfi skipulagsnefnd til þess lagaumhverfis sem gildi um framkvæmdir í flutningskerfi raforku. Loks hafi í mati á umhverfisáhrifum og í umsókn leyfishafa verið fjallað um slóðagerð og efnistöku sem hluta þeirrar framkvæmdar sem óskað hafi verið framkvæmdaleyfis fyrir. Hafi leyfishafi því leyfi fyrir umræddum framkvæmdum og sé þeim að stórum hluta lokið.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur árétta fyrri sjónarmið sín. Benda þeir auk þess á að einungis sé heimilt að veita leyfi fyrir framkvæmd ef hún sé á aðalskipulagi að því tilskyldu að fram fari grenndarkynning skv. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga og sé þröng heimild til að falla frá slíkri kynningu.

Umfjöllun leyfishafa um eldhraun í Skútustaðahreppi sé athugaverð, en ekkert jarðfræðikort hafi verið að finna í matsskýrslu hans frá október 2010 og ekkert kort sem gæfi yfirlit yfir eldhraun er nytu verndar skv. þágildandi náttúruverndarlögum. Í matsskýrslu háspennulína sé einungis á einum stað sýnt einfalt jarðfræðikort af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði sem þó sýni að fyrirhugaðar háspennulínur myndu liggja að stærstum hluta um og yfir hraun runnin á nútíma. Virðist þekking árið 2009 hjá leyfishafa ekki hafa náð til þess að Neðra-Bóndhólshraun væri eldhraun er nyti verndar skv. 37. gr. þágildandi náttúruverndarlaga. Í mati á umhverfisáhrifum sé ekki greint á milli örnefnanna Bóndhólshrauns og Neðra- Bóndhólshrauns og hafi þar ekki verið fjallað um þann hluta Neðra-Bóndhólshrauns sem fyrirhugað sé að Kröflulína 4 liggi um. Vernd Neðra-Bóndhólshrauns sem eldhrauns hafi ekki verið tekin inn í mat á gildi landslagsheildarinnar Bóndhólshrauns í sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum, en sú heild hefði væntanlega átt að fá hæstu einkunn. Jarðfræðiþekking þar að baki hafi ekki staðist kröfur 8. gr. náttúruverndarlaga og hafi leyfisveiting því ekki byggt á vísindalegri þekkingu í skilningi nefndrar lagagreinar. Í umsögn náttúruverndarnefndar Þingeyinga hafi verið bent á að Neðra-Bóndhólshraun nyti lagaverndar og hefði leyfisveitandi átt að bregðast við þeirri ábendingu. Engin rannsókn virðist hafa farið fram af því tilefni heldur sé látið við það sitja að greina frá því að hraunið njóti verndar skv. greindri lagagrein. Við leyfisveitingu hafi ekki verið fjallað með fullnægjandi hætti um áhrifin í Neðra-Bóndhólshrauni með tillit til verndargildis þess og athugasemda Skipulagstofnunar og Umhverfisstofnunar. Lagaskyldu beri til að rökstyðja sérstaklega ákvarðanir sem fari í bága við umsagnir, sbr. 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, líta til verndarmarkmiða 3. gr. laganna við ákvörðunartöku skv. 4. mgr. greinarinnar og staðreyna þurfi að brýna nauðsyn beri til röskunar eldhrauna, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti framkvæmdaleyfis sem sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti 26. október 2016 að veita fyrir lagningu þess hluta Kröflulínu 4 sem fyrirhugað er að leggja innan sveitarfélagsins. Leyfið var auglýst í Lögbirtingablaði 2. nóvember s.á., en fyrra leyfi vegna framkvæmdarinnar var fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 46/2016. Svo sem þar var greint frá mun Kröflulína 4 liggja í tveimur sveitarfélögum, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit, og um land þriggja jarða, Reykjahlíðar, Grímsstaða og Þeistareykja. Undirbúningur framkvæmda vegna uppbyggingar iðnaðar á Bakka hefur staðið yfir í ríflegan áratug. Sem hluti af þeim undirbúningi fór fram mat á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Kröflulínu 4 og Hólasandslínu 2 sem nú ganga undir samheitinu Kröflulína 4, sem og Þeistareykjalínu 1. Þá voru áhrif háspennulínanna einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010 og var niðurstaða hennar að framkvæmdunum fylgdu um margt verulega neikvæð óafturkræf áhrif á umhverfið.

Kærendur fara fram á að álits EFTA-dómstólsins verði leitað við meðferð málsins. Taka þeir fram að þeir telji úrskurðarnefndina til þess bæra þrátt fyrir fyrri úrskurði nefndarinnar þess efnis að innlend lög heimili það ekki. Svo sem kærendur vitna til hefur úrskurðarnefndin komist að því í fyrri úrskurðum sínum í kærumálum nr. 60, 83 og 95/2015 að ekki verði séð að hún geti leitað slíks álits, enda sé ekki um það fjallað í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Var annar kærenda aðili að nefndum málum. Hafa aðstæður í engu breyst frá fyrri úrskurðum nefndarinnar og verður álits því ekki leitað. Rétt þykir þó að árétta að úrskurðum nefndarinnar verður skotið til dómstóla, sem eftir atvikum geta leitað slíks álits.

Af hálfu leyfishafa er krafist frávísunar, m.a. þar sem kæra hafi ekki verið undirrituð. Eftir að kærendum var leiðbeint í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að undirritun væri skilyrði þess að kæra yrði tekin til efnislegrar meðferðar var bætt úr þeim formgalla og undirritaðri kæru komið til úrskurðarnefndarinnar. Verður málinu því ekki vísað frá af þeim sökum. Leyfishafi telur einnig þá ágalla á kæru að varði frávísun í heild eða að hluta. Verði ekki byggt á málsástæðum sem þegar hafi verið fjallað um með tæmandi hætti í fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar, eða sem legið hafi fyrir við fyrri ákvörðunartöku Skútustaðahrepps og kærendur sýnt tómlæti um að koma að í fyrra kærumáli. Í framhaldi af fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar aflaði sveitarfélagið frekari upplýsinga sem bókað var um við afgreiðslu framkvæmdaleyfisins og var ný ákvörðun tekin um veitingu þess. Verður ekki séð að fyrri úrskurður geti, með vísan til sjónarmiða um litis pendens eða res judicata, haft þau réttaráhrif að hin nýja ákvörðun verði ekki borin undir úrskurðarnefndina studd þeim málsástæðum sem þurfa þyki. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar, en jafnframt er ljóst að fyrri niðurstöður úrskurðarnefndarinnar verða lagðar til grundvallar í máli þessu gefi atvik ekki tilefni til annars.

Svo sem fram kom í kærumáli nr. 46/2016 er fjallað um veitingu framkvæmdaleyfis, málsmeðferð og skilyrði í skipulagslögum nr. 123/2010. Þannig gildir 13. gr. laganna almennt um framkvæmdaleyfi en að auki kemur til kasta 14. gr. þeirra þegar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda er að ræða, eins og hér á við. Er ljóst af ákvæðum laganna að vald til veitinga framkvæmdaleyfa liggur hjá viðkomandi sveitarstjórn að undangenginni málsmeðferð og að uppfylltum gildandi lagaskilyrðum. Miðar framangreint að því að sveitarstjórn taki ákvörðun um veitingu leyfis á traustum grunni og líkt og endranær verða að búa þar að baki lögmæt og málefnaleg sjónarmið. Þau lög sem líta verður til auk skipulagslaga eru einkum lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og náttúruverndarlög nr. 60/2013. Þá hvílir á leyfisveitanda ávallt sú skylda að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í kærumálinu komst úrskurðarnefndin að því að framkvæmdaleyfið sem þar var kært samræmdist ekki skipulagsáætlunum, að álit Skipulagsstofnunar væri haldið nánar tilgreindum annmörkum og að sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefði hvorki tekið rökstudda afstöðu til álitsins né uppfyllt rannsóknarskyldu sína hvað varðaði þann möguleika að leggja jarðstreng í stað loftlínu. Loks var það álit úrskurðarnefndarinnar að ekki hefði verið gætt ákvæða 4. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga við veitingu leyfisins. Verður nú fjallað um hvort bætt hafi verið úr nefndum annmörkum og hvort skilyrðum til veitingar framkvæmdaleyfis hafi að öðru leyti verið fullnægt í máli því sem hér er til úrlausnar.

Framkvæmdaleyfisumsókn og samræmi við skipulagsáætlanir.

Í kærumáli nr. 46/2016 var það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að nauðsynleg gögn hefðu fylgt framkvæmdaleyfisumsókn og að umsótt framkvæmd væri í samræmi við það mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem fram hefði farið. Er m.a. gert grein fyrir efnistöku og slóðagerð í umsókn um framkvæmdaleyfi til samræmis við það sem fram hafði komið við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Eru ekki efni til annarrar niðurstöðu hér en í nefndu kærumáli, en við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar var enn aflað gagna og málsatvik að öðru leyti óbreytt. Það athugist þó að skv. 12. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi skal leyfisveitandi sjá til þess að í slíku leyfi komi að lágmarki fram nánar tiltekin atriði. Þykir nokkuð á skorta að hið útgefna framkvæmdaleyfi geri nægilega grein fyrir umfangi framkvæmdar og að það feli í sér samantekt á lýsingu og frágangi hennar, sbr. 3. og 4. tl. ákvæðisins. Þessi atriði koma hins vegar fram í framkvæmdaleyfisumsókn sem samþykkt var af sveitarstjórn og er vísað til umsóknarinnar í leyfinu sjálfu. Verður þessi formannmarki því ekki látinn leiða til ógildingar þess.

Í skipulagslögum er gert ráð fyrir því að í skipulagsáætlunum séu sett ákvæði um hverfisvernd, m.a. náttúruminja. Skal gera grein fyrir ástæðu hverfisverndarinnar og hvaða skilmálar gildi um landnotkun, mannvirkjagerð, framkvæmdir og umgengni, sbr. o-lið gr. 4.3.1. og 3. mgr. i.f. í gr. 5.3.2.17. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Í Svæðisskipulagi fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslu 2007-2025, Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 og deiliskipulagi vegna stækkunar Kröfluvirkjunar er gert ráð fyrir hverfisvernd á nánar tilteknum stöðum, m.a. vestan Kröflu þar sem Kröflulína 4 mun liggja. Í aðalskipulaginu segir að um svæðið gildi almenn hverfisverndarákvæði, m.a. sé óheimilt jarðrask og röskun jarðmyndana og að mannvirkjagerð takmarkist við viðhald og endurbyggingu núverandi mannvirkja. Hins vegar er einnig vísað til ákvæða svæðisskipulagsins, en þar segir um viðkomandi svæði að yfir hluta þess liggi svæði fyrir flutningslínur raforku og að við mannvirkjagerð skuli leitast við að viðhalda einkennum svæðisins og gæta fyllstu varúðar við allar framkvæmdir. Var skilyrði þess efnis sett í framkvæmdaleyfið og bókað um þetta efni sérstaklega á fundi skipulagsnefndar, svo sem nánar greinir í málavaxtalýsingu. Þá er svæðisskipulag rétthærra en aðalskipulag skv. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Með hliðsjón af framangreindu, sem og því að í uppdráttum nefndra skipulagsáætlana er í öllum tilvikum gert ráð fyrir belti fyrir flutningslínur raforku sem að hluta fer yfir nefnt hverfisverndarsvæði, verður að telja að hið kærða leyfi sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir hvað þetta atriði varðar. Verður og við það miðað að framkvæmdin samræmist að öðru leyti aðalskipulagi og svæðisskipulagi háhitasvæða, svo sem komist var að í kærumáli nr. 46/2016. 

Í fyrri úrskurði var það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að veiting framkvæmdaleyfis hefði ekki verið í samræmi við deiliskipulag vegna stækkunar Kröfluvirkjunar að því er varðaði yfirráð yfir landsréttindum þar sem Kröflulína 4 væri fyrirhuguð innan deiliskipulags-svæðisins. Fyrir úrskurðarnefndinni liggja gögn vegna beiðni Landsnets um eignarnám á tilteknum landsréttindum í óskiptu landi Reykjahlíðar. Með ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 14. október 2016 var Landsneti heimilað að framkvæma eignarnám vegna lagningar Kröflulínu 4 og 5 og var jafnframt ákveðið að þinglýsa skyldi kvöð um nánar tilgreindar heimildir Landsnets til lagningar línanna með tilheyrandi mannvirkjum. Kvöðinni skyldi þinglýsa á tvær tilteknar jarðir, en ekki höfðu náðst samningar við alla eigendur þeirra. Skjöl þar um voru móttekin til þinglýsingar 19. s.m. og innfærð í þinglýsingabækur jarðanna degi síðar. Var sveitarstjórn rétt að byggja á þessum þinglýstu heimildum við veitingu framkvæmdaleyfisins 26. s.m., og var bókað og tekin afstaða til þessa við afgreiðslu skipulagsnefndar sem staðfest var af sveitarstjórn.

Samkvæmt framangreindu var fullnægt því skilyrði 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga að fjallað skuli um og tekin afstaða til þess hvort hin umsótta framkvæmd væri í samræmi við skipulagsáætlanir.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Í gildi er deiliskipulag fyrir stækkun Kröfluvirkjunar en þar sem því sleppir á Kröflulína 4 sér stoð í Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023. Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir lagningu nýrra háspennulína, Kröflulínu og Hólasandslínu, frá Kröflu um tengivirki á Hólasandi og þaðan um Þeistareyki og vestan Lambafjalla til Húsavíkur vegna áforma þar um orkufrekan iðnað. Er tekið fram að megindrættir flutningslínanna hafi verið ákvarðaðir í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Er á ýmsum stöðum vísað í þau tengsl, sem og að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram á framkvæmdum og áætlunum á mismunandi skipulagsstigum. Ljóst er að framkvæmdin er í samræmi við aðalskipulag og landnotkun þess, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga, en álitamál er hvort að heimilt var að falla frá grenndarkynningu framkvæmdarinnar á grundvelli nefnds ákvæðis þar sem gerð væri grein fyrir henni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi. Fallast má á að ítarlegar hefði mátt fjalla um framkvæmdina í aðalskipulagi ef ekki átti að vinna deiliskipulag vegna hennar. Þegar litið er til þess að í aðalskipulaginu er vísað til gildandi svæðisskipulags og mats á umhverfisáhrifum, sem hvoru tveggja lá fyrir, sem og með hliðsjón af fyrirhugaðri staðsetningar línunnar og tilgangi grenndarkynningar verður þó að telja að skilyrði hafi verið til þess að falla frá grenndarkynningu.

Náttúruverndarlöggjöf.

Við meðferð framkvæmdaleyfisumsóknar skal sveitarstjórn m.a. ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða náttúruverndarlaga, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

Eldhraun sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sbr. a-lið 2. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, njóta sérstakrar verndar í samræmi við markmið 3. gr. laganna. Eins og fjallað var um í úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 46/2016 nýtur Leirhnjúkshraun þeirrar verndar og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið gætt ákvæða 4. mgr. fyrrgreindrar 61. gr.

Í fyrra kærumáli var ekki fjallað um Neðra-Bóndhólshraun, en það er hluti af Bóndhólshrauni og rann á síðjökultíma. Samkvæmt nýjustu aldursákvörðunum er það tæplega 11 þúsund ára gamalt. Hins vegar er það ekki ísnúið og hefur jökull því ekki farið yfir það. Verður því við það að miða að það hraun njóti einnig verndar samkvæmt nefndum lagaákvæðum, enda felst verndargildi þess í því að jökull hafi ekki farið þar yfir, sbr. einnig ummæli þar um í athugasemdum með nefndu ákvæði í frumvarpi því sem varð að náttúruverndarlögum. Kemur og fram í umsögn náttúruverndarnefndar Þingeyinga sem aflað var við meðferð málsins að Neðra-Bóndhólshraun njóti þeirrar verndar og kemur það einnig fram í bókun skipulagsnefndar sem staðfest var af sveitarstjórn. Í bókuninni kemur jafnframt fram að leitað hefði verið umsagna Umhverfisstofnunar skv. 2. mgr. 68. gr. náttúruverndarlaga við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, við gerð aðalskipulags og deiliskipulags vegna stækkunar Kröfluvirkjunar. Það deiliskipulag tekur hins vegar ekki til Neðra-Bóndhólshrauns. Hefði því verið rétt að leita umsagnar Umhverfisstofnunar vegna framkvæmdarinnar um hraunið í samræmi við ákvæði 3. mgr. 61. gr. laganna þar sem leita skal umsagna stofnunarinnar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir liggja fyrir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr.

Því er lýst í matsskýrslu að lína sú sem um ræðir muni liggja yfir Neðra-Bóndhólshraun, en svo sem áður segir er það hluti af Bóndhólshrauni. Kemur fram í umfjöllun um landslag í matsskýrslu að heildin Bóndhólshraun sé kennd við eldhraun sem sé líklega um 5.000-5.500 ára gamalt. Er tekið fram í niðurstöðu umfjöllunarinnar að talsvert neikvæð áhrif verði á hraunasvæðum á línuleiðum, s.s. við Bóndhólshraun. Í umfjöllun um jarðfræði og jarðmyndanir er að finna töflu með upplýsingum um rask vegna fyrirhugaðra framkvæmda á eldhraun og er tiltekið að sjö plön eða möstur verði að öllu leyti eða hluta í Bóndhólshrauni, en heildarstærð þess sé um 1000 ha. Í niðurstöðu um jarðfræði og jarðmyndanir er tekið fram að á nokkrum stöðum sé óhjákvæmilegt að eldhraun raskist, þ. á m. Bóndhólshraun, og er slíkt hið sama áréttað í kafla um heildaráhrif og niðurstöðu. Í áliti Skipulagsstofnunar er vísað til greindra upplýsinga í matsskýrslu án þess að dregnar séu sérstakar ályktanir þar um. Þrátt fyrir að í matsskýrslu hafi aldur á hrauninu byggt á gögnum sem nú hafi verið uppfærð verður af þessum upplýsingum ráðið að um hraun sé að ræða sem njóti verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og að því verði raskað. Verður því ekki litið svo á að hvað Neðra-Bóndhólshraun varði hafi skort á vísindalega þekkingu í skilningi 8. gr. náttúruverndarlaga, enda var verndarstaða hraunsins þekkt sem og hver áhrif framkvæmdarinnar yrði á það. Með hliðsjón af því að við töku hinnar kærðu ákvörðunar lágu fyrir aðrar umsagnir Umhverfisstofnunar, m.a. um frummatsskýrslu framkvæmdaraðila þar sem framangreind atriði komu fram, þykir sá annmarki að umsagnar stofnunarinnar hafi ekki verið aflað sérstaklega ekki raska gildi umræddrar ákvörðunar.

Í bókun skipulagsnefndar er vísað til náttúruverndarlaga og tekið fram að það sé álit nefndarinnar að málsmeðferð við undirbúning framkvæmdarinnar hafi leitt fram það rask á eldhraunum sem brýna nauðsyn beri til í ljósi markmiða hennar. Var lagt mat á leyfisumsókn að teknu tilliti til þeirrar verndar sem náttúruverndarlög veita Leirhnjúkshrauni og Neðra-Bóndhólshrauni, metið að brýn nauðsyn væri til staðar og var einnig bent á að rask væri nauðsynlegt vegna markmiða framkvæmdarinnar og jarðfræðilegra staðhátta í Skútustaðahreppi. Gættu yfirvöld sveitarfélagsins ákvæða 3.-5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga með þessum hætti auk þess að benda á samning Landsnets og Umhverfisstofnunar um sérstakt eftirlit stofnunarinnar vegna framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4, sem hefði það markmið að tryggja frágang einstakra verka og verkþátta m.t.t. náttúruverndarlaga.

Í náttúruverndarlögum eru óbyggð víðerni skilgreind með nánar tilteknum hætti og var sambærilega skilgreiningu að finna í eldri náttúruverndarlögum. Var á henni byggt í áliti Skipulagsstofnunar og umfjöllun matsskýrslu, einkum viðauka þeim sem fjallaði um greiningu landslags á framkvæmdasvæðum. Verður því ekki séð að nauðsyn hafi borið til að leyfisveitandi aflaði frekari upplýsinga, enda liggur ekkert fyrir um að friðlýsing víðerna innan hreppsins hafi farið fram skv. 46. gr. náttúruverndarlaga. Þá gaf ákvæði 3. gr. laganna, þess efnis að stefnt skuli að því að standa vörð um óbyggð víðerni landsins, ekki heldur tilefni til aðgerða af hálfu sveitarfélagsins, enda um almennt verndarmarkmið að ræða. Er og tekið fram í almennum athugasemdum við I. kafla frumvarps þess sem varð að náttúruverndarlögum nr. 60/2013 að við framkvæmd 2. og 3. gr. laganna verði að taka mið af öðrum samfélagslegum og svæðisbundnum hagsmunum og efnahagslegum þáttum auk þess sem ekki sé stefnt að því að vernda náttúrufarsþætti sem greinarnar taki til alls staðar þar sem þeir komi fyrir.

Hvað varðar tilvísun kærenda til laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu þá er um endurtekningu á málsástæðum að ræða frá fyrra kærumáli. Verður ekki fjallað um þær að nýju, enda verður hvorki séð að fyrir liggi nýjar ákvarðanir um friðlýsingu eða sambærilega vernd svæðisins né standa lagarök til þess að sveitarstjórn hafi borið að viðhafa sérstakt samráð við umhverfis- og auðlindaráðherra.

Ákvörðun sveitarstjórnar, vanhæfisástæður, forsendur og rökstuðningur.

Kærendur hafa bent á að varamaður í sveitarstjórn er tekið hafi hina kærðu ákvörðun sé starfsmaður Landsvirkjunar sem sé móðurfélag Landsnets, auk þess að vera eigandi þeirra virkjana sem tengja eigi með hinni leyfðu framkvæmd. Sama eigi við um varamann í skipulagsnefnd er komið hafi að afgreiðslu málsins þar. Ljóst er að þeir voru ekki fyrirsvarsmenn eða umboðsmenn aðila og verður ekki heldur séð að málið hafi varðað þá eða næstu yfirmenn þeirra persónulega, sbr. 1. og 5. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, eða að ákvæði 2.-4. tl. ættu við. Þá þykja þau tengsl ekki með þeim hætti að fyrir hendi hafi verið aðstæður sem fallnar væru til þess að draga óhlutdrægni þeirra í efa með réttu, sbr. 6. tl. greinarinnar. Verður og ekki séð að vanhæfisástæður hafi að öðru leyti átt við þegar á meðferð málsins stóð. Loks þykir ekki varhugavert, að fram komnum þeim skýringum sveitarfélagsins að þeir varamenn sem framar stóðu á lista en sá sem til var kallaður til sveitarstjórnarstarfa hafi verið vanhæfir eða í leyfi, að leggja til grundvallar að farið hafi verið að 1. mgr. 21. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Í kærumáli nr. 46/2016 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að jarðstrengur hefði ekki verið raunverulegur valkostur í mati á umhverfisáhrifum Kröflulínu 4 og að álit Skipulagsstofnunar hafi verið haldið annmörkum hvað þetta varðaði. Nefndin komst hins vegar einnig að þeirri niðurstöðu að annmarkar á álitinu væru ekki svo verulegir að ekki yrði á því byggt og var tiltekið að kostir um mismunandi leiðarval hefðu verið metnir með fullnægjandi hætti. Verður þetta einnig lagt til grundvallar hér, en til nánari skoðunar kemur hvort að sveitarstjórn hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína um hvort afhendingaröryggi stæði því í vegi að leggja línuna í jörð auk þess að fullnægja þeirri lagaskyldu að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

Svo sem nánar er lýst í fyrri úrskurði nefndarinnar er ljóst að framkvæmdaraðili hefur ákveðið forræði á því hvaða kosti hann leggur fram til mats og að hann telur m.a. afhendingaröryggi standa því í vegi að leggja Kröflulínu 4 sem jarðstreng. Er sú ástæða eftir atvikum málefnaleg. Í maí 2016 hlutaðist Landsnet til um gerð skýrslu um athugun á jarðstreng sem kost í 220 kV Kröflulínu 4. Var skýrslan unnin af verkfræðistofunni Eflu og rýnd fyrir tilstuðlan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sbr. minnisblað Lotu ehf. frá 29. júní 2016, minnisblað Alta ehf. frá 6. júlí s.á. og skýrslu Orkustofnunar sama dag. Þá óskaði Skútustaðahreppur eftir nánari upplýsingum frá Landsneti og af því tilefni vann Efla minnisblað um umhverfisáhrif jarðstrengs innan Skútustaðahrepps, dags. 20. október 2016, sem skoða skyldi sem viðauka við skýrslu verkfræðistofunnar. Var óskað eftir rýni sömu einkaaðila og áður á minnisblaðinu og lágu minnisblöð Alta og Lotu vegna þessa fyrir 24. s.m. Greind gögn lágu öll fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Við afgreiðslu sína, sem staðfest var af sveitarstjórn, bókaði skipulagsnefnd að hún teldi annmarka á álitinu hafa takmarkaða þýðingu við afgreiðslu fyrirliggjandi framkvæmdaleyfisumsóknar og að jarðstrengur hefði ekki verið raunverulegur valkostur við framkvæmdina. Vísaði nefndin til nefndra gagna og þess að í skýrslu Eflu um umhverfisáhrif jarðstrengs á hluta línuleiðarinnar væru áhrif hans talin talsvert neikvæð, m.a. á landslag og ásýnd og jarðmyndanir. Lagning jarðstrengs virtist fela í sér meiri óafturkræf umhverfisáhrif á jarðmyndanir en lagning háspennulína, m.a. vegna fleygunar og þarfa á efnisflutningum, en sá þáttur umhverfisáhrifa varðaði mestu um verndargildi eldhrauna. Þá tiltók nefndin, að þrátt fyrir almennan áhuga sveitarstjórnar á að jarðstrengir yrðu notaðar við raforkuflutning, að ný gögn málsins lýstu enn frekar að lagning jarðstrengs á hluta línuleiðar væri ekki vænlegur kostur og tryggði ekki afhendingaröryggi raforku með sama hætti og háspennulínur á þessu svæði. Að mati úrskurðarnefndarinnar er þessi niðurstaða sveitarfélagsins byggð á fullnægjandi gögnum þar sem fram kemur að tæknilegar takmarkanir séu á lengd jarðstrengja á háu spennustigi auk þess sem lengri viðgerðartími og spennusveiflur við innsetningu eða útleysingu þeirra hafi áhrif á áreiðanleika slíkra strengja í meginflutningskerfinu og þar með á afhendingaröryggi. 

Hið kærða leyfi var samþykkt á fundi sveitarstjórnar með fjórum atkvæðum gegn einu og ber fundargerð með sér að þar, sem og í aðdraganda afgreiðslunnar, hafi farið fram umræður innan sveitarstjórnar. Staðfesti sveitarstjórn tillögu skipulagsnefndar um samþykki framkvæmdaleyfisins, sem og bókun nefndarinnar. Hún er um margt ítarleg, svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu, og er þar tekin afstaða til þeirra þátta sem mælt er fyrir um í lögum, s.s. samræmi við skipulagsáætlanir og náttúruverndarlög, eins og áður er lýst. Almennt tekur nefndin svo fram að hún taki undir þá niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar að umsótt framkvæmd muni hafa talsvert neikvæð og varanleg áhrif á Leirhnjúkshraun. Bent var á skipulagsáætlanir og umfjallanir um valkosti auk verndaráætlunar Mývatns og Laxár 2011-2016. Þá bendir skipulagsnefnd „á þá augljósu staðreynd að vegna jarðfræðilegra staðhátta verður flutningskerfi raforku ekki lagt norður frá Kröflu án þess að hróflað verði við svæðum sem njóta verndar samkvæmd náttúruverndarlögum“. Fjallað hafi verið um valkosti og útfærslu framkvæmda og telji nefndin skilyrði til þess að veitt verði framkvæmdaleyfi. Loks segir í rökstuðningi nefndarinnar að með orkunýtingu á Þeistareykjasvæði skapist nauðsyn á raforkuflutningsmannvirkjum þangað, norður frá Kröflu. Umsótt framkvæmd sé í beinum tengslum við uppbyggingu á Bakka og sé einnig litið til þess að framkvæmdin sé hluti af uppbyggingu flutningskerfis raforku og hafi þýðingu við að bæta afhendingaröryggi raforku á landsvísu. Mæli verulegir fjárhagslegir og samfélagslegir hagsmunir með framkvæmdinni.

Er ljóst af lestri nefndrar bókunar að vegin voru þau neikvæðu umhverfisáhrif sem af framkvæmdinni verða og að þau voru metin andspænis þeim hagsmunum sem vísað er til. Þykir ákvörðun um veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis með þessu nægilega rökstudd í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 og 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, enda var rökstuðningurinn studdur málefnalegum rökum sem gagna nýtur við í málinu.

Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki verði séð að fyrir liggi þeir form- eða efnisannmarkar á undirbúningi og töku hinnar kærðu ákvörðunar sem leiða eigi til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. október 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________               ______________________________
Ómar Stefánsson                                                  Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Geir Oddsson                                                           Þorsteinn Sæmundsson