Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2017 Unnarbraut

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 31. ágúst 2018, sjá hér.

Árið 2017, fimmtudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum við Unnarbraut 32 ásamt drenlögnum undir kjallaragólfi og breyttri notkun kjallarans í geymslurými.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra A, Unnarbraut 32, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum við Unnarbraut 32 ásamt drenlögnum undir kjallaragólfi og breyttri notkun kjallarans í geymslurými. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bréfi, dags. 2. ágúst s.á., er barst nefndinni 3. s.m. sendu Anton Holt og Gillian Holt, Unnarbraut 32, Seltjarnarnesi, erindi til úrskurðarnefndarinnar sem líta verður á sem staðfestingu þeirra á að þau standi einnig að kærunni.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 17. júlí og 1. september 2017.

Málavextir: Síðsumars 2014 mun byggingarfulltrúi Seltjarnarness hafa stöðvað framkvæmdir í kjallara að Unnarbraut 32. Framkvæmdirnar voru á vegum eiganda neðri hæðar hússins sem beindi fyrirspurn, dags. 25. október 2014, til byggingarfulltrúa um breytingar á kjallaranum. Því var nánar lýst í hverju breytingarnar væru fólgnar, en samþykki meðeigenda fylgdi ekki. Með umsókn, dags. 17. ágúst 2015, sem móttekin var 18. september s.á., var sótt um byggingarleyfi vegna endurbóta á ósamþykktu kjallararými hússins. Var ástæðan sögð sú að fundist hefði raki í rýminu sem til stæði að lagfæra auk þess sem endurgera þyrfti og bæta  áður gerðar breytingar á kjallaranum. Var tekið fram að ítrekað hefði verið óskað eftir samþykki meðeigenda, en án árangurs.

Fóru aðrir sameigendur í húsinu þá fram á við byggingarfulltrúa að hlutast yrði til um það að kjallaranum yrði komið í upprunalegt horf. Með bréfi, dags. 1. júlí 2016, kærðu sameigendurnir drátt á afgreiðslu þess erindis til úrskurðarnefndarinnar. Var kveðinn upp úrskurður 2. september s.á. í kærumáli nr. 76/2016 þar sem lagt var fyrir byggingarfulltrúa að taka það erindi til efnislegrar afgreiðslu.

Hinn 4. maí 2017 sótti eigandi neðri hæðar og kjallara Unnarbrautar 32 um byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum, þ.e. hringstiga milli fyrstu hæðar og kjallara, og að óráðstafað rými í kjallara yrði samþykkt sem geymsla. Einnig var sótt um leyfi til að leggja drenlagnir undir kjallaragólf með sjálfrennsli út í götulögn. Leyfi var gefið út 3. júlí s.á. og hefur það verið kært til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda kemur fram að yfirvofandi framkvæmdir muni leiða til verulegs ónæðis og rasks á lóðinni. Ljóst sé að lóðin verði ekki söm í mörg ár, verði af framkvæmdunum. Lóðin sé í sameign og önnur jafn góð lausn sé til staðar, þ.e. að útbúa dælubrunn innan umrædds rýmis. Augljóst sé að ekki megi gefa út byggingarleyfi vegna framkvæmda á lóð í sameign sé önnur lausn tæk. Byggingarleyfið sé ógilt þar sem það sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, en ekki sé gert ráð fyrir kjallaranum í skipulaginu.

Byggingarleyfið geri ráð fyrir aukinni salarhæð frá því sem verið hafi fyrir óleyfisframkvæmdirnar. Standist byggingarleyfið sé ljóst að leyfishafi hagnist á kostnað kærenda en fyrir liggi að byggingarfulltrúi hefði aldrei samþykkt framkvæmdirnar án samþykkis þeirra. Byggingarleyfið verði að mæla fyrir um sömu salarhæð og fyrir hafi verið áður en óleyfisframkvæmdir hafi hafist. Þá mæli teikningar hússins frá 1979 ekki fyrir um salarhæð umrædds rýmis. Salarhæðin 2,4 m, sem sé reyndar hvergi í kjallaranum, eigi einungis við um samþykkt rými í sameign og geymslur. Umrætt rými hafi aldrei verið ætlað til notkunar og því hafi engin salarhæð verið teiknuð fyrir þann hluta. Upphaflega hafi teikningin gert ráð fyrir því að rýmið yrði fyllt með möl en engu að síður sé salarhæðin 2,4 m. Þannig sé ljóst að sú hæð eigi ekki við um umrætt rými. Við byggingu hússins hafi verið ákveðið að spara möl og setja frekar súlur í rýmið, en aldrei hafi staðið til að það yrði tekið í notkun. Jafnvel þótt upphafleg teikning hafi gert ráð fyrir salarhæðinni 2,4 m sé ljóst að það náðist aldrei. Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga hafi því borið að skila inn reyndarteikningum og hefði byggingarfulltrúi átt að kalla eftir þeim við lokaúttekt hússins. Þar hefði komið fram salarhæð í samræmi við það sem áður hafi verið fyrir óleyfisframkvæmdir.

Þá bendi kærendur á að svo virðist sem leyfilegt byggingarmagn fyrir Unnarbraut 32 árið 1979 hafi ekki gert ráð fyrir kjallara í rýminu. Þá sé nýtingarréttur lóðarinnar í sameign allra og því ekki rétt að eigandi fyrstu hæðar nýti þann rétt umfram aðra sameigendur.

Loks sé vakin athygli á því að súlur í kjallararýminu hafi verið mjókkaðar og átt við burðarvirki í kjallara. Engir útreikningar á burðarþoli liggi fyrir þótt byggingarfulltrúi hafi réttilega gert það að skilyrði í tillögu sinni að verkáætlun.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að á grundvelli þeirra samskipta sem hafi átt sér stað og teikninga á vegum eiganda neðri hæðar hafi byggingarfulltrúi ákveðið að veita byggingarleyfi, enda hafi þær teikningar sýnt lausnir á öllum þeim skemmdum sem byggingin hafi orðið fyrir. Varðandi plötuhæð kjallaragólfs, þá beri leyfishafa að halda sig við samþykktar teikningar frá byggingu hússins árið 1979. Á þeim teikningum sé hæð gólfplötu í kjallara 2,4 m frá brún efri plötu í húsinu.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kemur fram að hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út 3. júlí 2017 í samræmi við framlögð hönnunargögn og erindi, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Meðal annars hafi verið óskað eftir byggingarleyfi fyrir þegar gerðum framkvæmdum, hringstiga milli fyrstu hæðar og kjallara og að óútgrafið rými í kjallara yrði samþykkt. Eins og í leyfinu komi fram, sé gert ráð fyrir að rýmið verði nýtt sem geymsla og verði engar aðrar breytingar gerðar á núverandi útliti hússins eða innra skipulagi. Til að fyrirbyggja raka við gólf í kjallara hafi verið gert ráð fyrir að undir gólfplötu yrði þjöppuð möl og rakavarnarlag og þétt við útveggi. Drenlögn með drenmöl yrði lögð undir endanlegt gólf með sjálfrennsli út í götulögn. Framangreindar framkvæmdir hafi ekki í för með sér breytingar á fyrirkomulagi séreignar annarra eigenda sameignar eða breytingar á hlutfallstölum og því sé ekki þörf á breytingu á eignaskiptayfirlýsingu í kjölfarið. Um nauðsynlegar framkvæmdir sé að ræða í skilningi 1. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og muni þær í engu raska hagsmunum annarra eigenda, sbr. og til hliðsjónar 2. mgr. 27. gr. laganna, en fasteignin hafi undanfarið legið undir skemmdum.

Það sé áréttað að í upphafi hafi verið ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir við fasteignina vegna rakaskemmda. Hugleiðingum kærenda um að rakaskemmdirnar séu afleiðing af framkvæmdunum sé með öllu hafnað. Á þeim tíma er framkvæmdir hafi byrjað hafi leyfishafi talið að um þær ríkti góð sátt við aðra eigendur fasteignarinnar. Það sé samdóma álit sérfræðinga og byggingarfulltrúa að nauðsynlegt sé að gera ráð fyrir dælubrunni fyrir utan húsið sem tengist inn á lögn í götunni, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga um fjöleignarhús. Það sé einnig samdóma álit þeirra sem komið hafi að máli þessu að þær framkvæmdir sem heimilaðar hafi verið með byggingarleyfi, dags. 3. júlí 2017, séu til hagsbóta fyrir alla aðila og farsæl lausn á ágreiningi þeirra.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 3. júlí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum við Unnarbraut 32, ásamt drenlögnum undir kjallaragólfi og breyttri notkun kjallarans í geymslurými, en hann var áður skráður sem óráðstafað rými.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu umsókn um byggingarleyfi fylgja nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga. Í máli þessu, sem á sér nokkurra ára forsögu, liggur fyrir að sameigendur í húsinu hafa ekki getað komið sér saman um umræddar framkvæmdir og lá slíkt samþykki því ekki fyrir. Í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús kemur fram að eiganda sé rétt að láta framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra ef hún eða séreignarhlutar liggja undir skemmdum vegna vanrækslu á viðhaldi og húsfélagið eða aðrir eigendur hafa ekki, þrátt fyrir tilmæli og áskoranir, fengist til samvinnu og til að hefjast handa í því efni. Í 2. mgr. sömu greinar er tekið fram að áður en að framkvæmdir hefjist skuli viðkomandi eigandi jafnan afla sönnunar á nauðsyn viðgerðarinnar, umfangi hennar og kostnaði við hana.

Í greinargerð skoðunarmanns sem unnin var vegna Unnarbraut 32, dags. 20. mars 2016, kemur fram að samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa sé ekki að finna teikningar sem sýni jarðvegslagnir í eða við húsið. Þá liggi fyrir að bleyta safnist fyrir á jarðvegsbotninum í kjallararýminu, enda ekkert frárennsliskerfi til staðar. Sé það álit skoðunarmannsins að nauðsynlegt sé að koma fyrir jarðvatnslögnum í eða við húsið. Lagðar eru til tvær leiðir í greinargerðinni, annars vegar að leggja grunnlagnir meðfram húsinu að utanverðu eða hins vegar að leggja jarðvatnslagnir undir væntanlega botnplötu. Telji skoðunarmaðurinn augljóst að velja seinni kostinn. Með þeirri aðgerð ætti að vera hægt að tryggja að ekki fari vatn inn í kjallarann, en hin leiðin væri mun dýrari, því ef hún ætti að vera fær þyrfti að fara í umtalsverða jarðvinnu meðfram húsinu með tilheyrandi kostnaði. Með vísan til framangreinds verður að telja að byggingarfulltrúa hafi verið rétt að heimila hinar umdeildu drenlagnaframkvæmdir.

Á svæðinu gildir deiliskipulag Bakkahverfis sem samþykkt var í bæjarstjórn Seltjarnarneskaupstaðar 10. nóvember 2010 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember s.á. Samkvæmt skipulagsuppdrætti og skilmálum deiliskipulagsins er umrætt hús að Unnarbraut 32 einnar hæðar með risi. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er því ekki gert ráð fyrir því að í húsinu sé kjallari þótt fyrir liggi að þar sé óuppfyllt rými ásamt geymslum sem á sínum tíma voru heimilaðar með veitingu byggingarleyfis 9. maí 1979. Í deiliskipulaginu er tekið fram að með því sé staðfest á formlegan hátt byggðamynstur hverfisins, þ.e. stærðir húsa, yfirbragð og nýtingarhlutfall lóða. Einnig verði lóðarhöfum gefinn möguleiki á eðlilegri endurnýjun og endurbótum á byggingum í samræmi við heilsteypt yfirbragð hverfisins. Sérskilmálar eru tilgreindir um einstakar lóðir í þessum tilgangi, en Unnarbraut 32 er ekki þar á meðal. Sá hluti hins samþykkta byggingarleyfis er varðar breytta notkun kjallararýmis og þegar gerðan hringstiga er því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Að fenginni þeirri niðurstöðu fullnægir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnaði 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga þar um. Varðar það ógildingu, en að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hið kærða byggingarleyfi þó eingöngu fellt úr gildi að þeim hluta er varðar breytta notkun kjallararýmis og þegar gerðan hringstiga.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir Unnarbraut 32 að því er varðar breytta notkun kjallararýmis og þegar gerðan hringstiga.

161/2016 Hótel í landi Grímsstaða

Með

Árið 2017, fimmtudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 161/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. nóvember 2016 um að bygging hótels í landi Grímsstaða í Skútustaðahreppi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum o.fl.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. nóvember 2016 um að bygging hótels í landi Grímsstaða í Skútustaðahreppi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Einnig er kært leyfi Umhverfisstofnunar frá 4. s.m. fyrir hótelbyggingu á lóðinni Flatskalla í landi Grímsstaða. Þá er kærð samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 5. s.m. um leyfi fyrir byggingu fyrrgreinds hótels.

Gerð er krafa um að ákvörðun Skipulagsstofnunar „verði ógilt og, aðallega, að málinu verði vísað frá Skipulagsstofnun, til vara að lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að ákveða að framkvæmdin skuli umhverfismetin, en til þrautavara að lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að taka málið til úrlausnar að nýju“. Að auki er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir Umhverfisstofnunar og skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps verði felldar úr gildi.

Með bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. desember 2016, er móttekið var sama dag, var gerð krafa um frestun réttaráhrifa vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Einnig var farið fram á stöðvun yfirstandandi eða fyrirhugaðra framkvæmda að því er varðaði frárennsli á framkvæmda- og rekstrartíma framkvæmdarinnar. Verður málið nú tekið til efnislegrar meðferðar og verður því ekki tekin sérstök afstaða til nefndra krafna.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 21. desember 2016 og 11. og 19. janúar 2017.  Frá Umhverfisstofnun bárust gögn 29. desember 2016 og 10. janúar 2017. Gögn vegna málsins voru móttekin frá Skútustaðahreppi 28. desember 2016.

Málavextir: Í Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 er skipulagsreitur 363-V skilgreindur sem verslunar- og þjónustusvæði í landi Grímsstaða, norðan Kísilvegar. Samkvæmt skipulaginu er um að ræða óbyggt svæði en gert er ráð fyrir hótel- og ferðaþjónustu á reitnum. Í janúar 2016 tók gildi breyting á skilmálum aðalskipulagsins fyrir nefndan reit er fól í sér að á honum yrðu allt að þriggja hæða byggingar í stað tveggja hæða, svo sem áður var ráðgert, og að byggingarmagn á reitnum yrði allt að 5.000 m².

Umræddu svæði er lýst á eftirfarandi hátt í greinargerð breytingartillögu aðalskipulagsins: „Skipulagsreiturinn er á jaðri Eldhrauns, ofan þjóðvegar, í hæðóttum melum. Gróðurþekja er rysjótt og standa berir melkollar uppúr landinu. Svæðið er innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár. Þar er ófrágengin malarnáma. Um svæðið liggur göngu- og reiðleið sem skilgreind er í aðalskipulagi. Enginn skráður minjastaður er innan fyrirhugaðrar lóðar og framkvæmdasvæðis. Stór hluti afmarkaðrar lóðar og hluti byggingarreits verða í ófrágenginni malarnámu.“ Var og tilgreint að þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi og á verndarsvæðum á láglendi utan þéttbýlis, orlofsþorp, hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis væru framkvæmdir í flokki B, sem kynnu að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, og tilkynna bæri til Skipulagsstofnunar sem tæki ákvörðun um það hvort þær skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum.

Enn fremur var tekið fram að staðhættir væru með þeim hætti að bygging á reitnum myndi sjást vel frá vegi, hvort sem hún yrði tveggja eða þriggja hæða. Þá yrðu settir nánari skilmálar um yfirbragð bygginga og aðlögun að landi í deiliskipulagi. Öðlaðist deiliskipulag hótellóðar í landi Grímsstaða gildi 25. janúar 2016. Samkvæmt því er skipulagssvæðið um 10 ha og gert ráð fyrir einum byggingarreit með hótelbyggingu á allt að þremur hæðum og aðstöðu fyrir starfsfólk.

Hinn 29. apríl 2016 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps umsókn um leyfi til að hefja framkvæmdir við jarðvinnu og vegagerð og lagnir í jörðu vegna byggingar hótels á lóðinni Flatskalla í landi Grímsstaða, í samræmi við fyrrgreint deiliskipulag. Með umsókn, dags. 25. maí s.á., var síðan sótt um leyfi til sveitarfélagsins til að reisa hótel á umræddri lóð. Fram kemur í gögnum málsins að skipulags- og byggingarfulltrúi veitti óformlega heimild til framkvæmda í júlí 2016 og taldi að byggingarleyfi yrði gefið út eftir 8. ágúst s.á. Kom Umhverfisstofnun á framfæri þeirri afstöðu sinni við framkvæmdaraðila og sveitarfélagið að umrædd framkvæmd væri ólögmæt þar sem hún hefði hvorki verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar né verið aflað leyfis Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Með tölvupósti skipulags- og byggingarfulltrúa til framkvæmdaraðila 19. september 2016 var veittur frestur til 1. október s.á. til að skila inn tilskildum gögnum og að standa skil á öllum leyfisveitingum vegna umræddrar framkvæmdar, en að öðrum kosti mætti vænta þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar án frekari fyrirvara. Munu framkvæmdir hafa verið stöðvaðar í byrjun október með skírskotun til þess að hvorki lægi fyrir leyfi Umhverfisstofnunar fyrir framkvæmdum innan verndarsvæðisins, sbr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, né ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í kjölfar þessa var framkvæmdaraðila veitt heimild til nánar tilgreindra framkvæmda til að draga úr tjóni á mannvirkjum.

Tilkynning til Skipulagsstofnunar og niðurstaða hennar.
Um miðjan september 2016 var Skipulagsstofnun tilkynnt um byggingu hótels í landi Grímsstaða til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000. Kom m.a. fram í nefndri tilkynningu að umrædd lóð væri um 40.000 m² að stærð og lægi í um 300 m hæð yfir sjávarmáli, en yfirborð Mývatns væri í 277 m hæð yfir sjó. Gert væri m.a. ráð fyrir þriggja hæða hóteli með 91 herbergi, auk starfsmannahúss með 10-15 herbergjum. Í hótelbyggingu yrði einnig veitingastaður er tæki 180-200 manns í sæti, auk annarrar aðstöðu. Ráðgerð væru 50 almenn bílastæði og stæði fyrir allt að þrjá hópferðabíla, en leyfilegt væri að fjölga stæðum ef þörf krefði í allt að eitt almennt bílastæði á hverja 50 m² húsnæðis og fimm
hópferðabíla.  Yrðu bílastæði staðsett norðan við byggingar, úr augsýn frá þjóðvegi. Jafnframt var tekið fram að þörf væri á nýrri tengingu við þjóðveg 1 fyrir aðkomu að hótelinu. Við mótun umhverfis yrði lögð áhersla á að nýta landkosti og gæði staðarins á sem bestan hátt. Byggingar ættu að vera hlutlausar, einfaldar og stílhreinar. Röskun og inngrip skyldi vera í lágmarki. Þá var tekið fram að gert yrði ráð fyrir því að skolphreinsistöð uppfyllti kröfur reglugerðar nr. 798/1999, um fráveitur og skólp, um tveggja þrepa hreinsun, ásamt því að uppfylla kröfur um ítarlegri hreinsun á fosfór. Fyrirhugað væri að leiða afrennsli frá skolphreinsistöðinni í púkk/siturlögn þaðan sem það bærist til grunnvatns. Um væri að ræða eina fullkomnustu skolphreinsistöð sem sett hefði verið upp hérlendis. Fylgdi tilkynningunni nánari lýsing á stöðinni.

Skipulagsstofnun óskaði eftir því með bréfum, dags. 30. september 2016, að Minjastofnun Íslands, Skútustaðahreppur, Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra og Ferðamálastofa gæfu umsögn um hvort og á hvaða forsendum fyrrgreind framkvæmd skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Var og farið fram á að í umsögn kæmi m.a. fram, eftir því sem við ætti, hvort nægjanlega væri gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun.

Töldu Minjastofnun Íslands í umsögn sinni, dags. 11. október 2016, og Skútustaðahreppur, með bókun sveitarstjórnar um erindið 12. s.m., að nefnd framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 14. október 2016, kom fram að tilkynna hefði átt nefnda framkvæmd til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu þegar tillaga að deiliskipulagi lá fyrir. Lægju helstu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í neikvæðum sjónrænum áhrifum þriggja hæða mannvirkis og áhrifum frárennslis á lífríki við Mývatn. Myndi umhverfismat ekki varpa frekara ljósi á umhverfisáhrif nefndrar hótelbyggingar og væri því ekki þörf á því að framkvæmdin væri háð mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt var tilgreint í umsögninni að í tillögu að deiliskipulagi væri hótelið staðsett á hæðarbrún. Aðalrök fyrir staðsetningu þess hefðu verið þau að byggingin yrði að hluta til í gamalli námu, en grunnur byggingar, eins og hann væri nú staðsettur, væri ekki þar. 

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra tiltók í umsögn sinni, dags. 26. október 2016, að sjónræn áhrif yrðu veruleg af tveggja hæða byggingu, sem sjást myndi víða, og yrði þriðju hæðinni bætt ofan á væri líklegt að mannvirkið myndi blasa við hvarvetna á Mývatnssvæðinu. Af þeim sökum ætti ekki að leyfa þriggja hæða byggingu á þessu svæði sem væri óraskað að öðru leyti en því að þarna væri ófrágengin malarnáma. Bent var á að heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra, sem hefði eftirlit með öllum fráveitum á svæðinu, hefði samþykkt skolphreinsistöð við hótelið. Umhverfisstofnun hefði staðfest þá ákvörðun. Væri að mati heilbrigðiseftirlitsins ekki líklegt að umhverfismat breytti miklu um þau umhverfisáhrif sem nefnd bygging kynni að hafa og væri því ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum. 

Þá taldi Ferðamálastofa í umsögn, dags. 20. október 2016, að rétt væri að gera betur grein fyrir framkvæmdinni, sjálfbærni hennar, umhverfi, mótvægisaðgerðum og vöktun, með umhverfismati. Var niðurstaðan m.a. á því byggð að það eitt kallaði á að framkvæmdin væri matsskyld að umrætt hótel væri mun stærra en almennt væri um hótel í dreifbýli eða í Mývatnssveit.  

Framkvæmdaraðili svaraði umsögnum Skútustaðahrepps, Umhverfisstofnunar, Ferðamálastofu og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, með bréfum, dags. 17., 19., 26. og  27. október 2016. Er m.a. tekið fram í svörum framkvæmdaraðila að mjög hafi verið vandað til verksins, ekki síst með hliðsjón af sérstökum verndarhagsmunum við Mývatn er varði umhverfi og náttúru. Unnið hafi verið að lausn fráveitukerfis í samráði við Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra og tilgreinda verkfræðistofu frá því í febrúar 2016 og hafi framkvæmdaraðili lagt fram tillögu að lausn fráveitumannvirkis, sem samþykkt hafi verið af heilbrigðiseftirlitinu og Umhverfisstofnun. Sé tekið undir að litlar líkur séu á því að hótelið muni minnka vandamál í lífríki Mývatns sem tengist fráveitumálum, en fullyrt hins vegar að fráveitumál þess muni ekki auka á vandamál í lífríki Mývatns.

Jafnframt kemur fram í svörum framkvæmdaraðila að vandasamt sé að meta sjónræn áhrif á hlutlægum mælikvarða, en slík sjónarmið séu að miklu leyti huglæg og einstaklingsbundin. Við hönnun hótelsins hafi verið horft til þess að hæðótt landslag einkenni umhverfi þess og sé húsformið því stallað til að endurspegla þessi form í náttúrunni. Einungis hluti hússins sé á þremur hæðum, en hluti þess sé á tveimur hæðum og jafnframt hluti á einni hæð. Þess hafi verið vandlega gætt að hótelið bæri hvergi við himinn, séð frá þjóðvegi 1, og að það félli ávallt inn í landið. Norðvestur hluti hótelsins verði enn fremur niðurgrafinn inn í hæð og fyllt verði að hótelinu upp á miðja veggi með jarðvegi á göflum og baka til við hótelið. Það verði klætt með ómeðhöndlaðri lerkiklæðningu, sem muni með tíð og tíma grána og falla vel að landslaginu. Þegar málið hafi verið kynnt fyrir íbúum sveitarfélagsins hafi almennt ekki verið gerðar athugsemdir við hæð hússins eða hönnun þess. Sé ekki hægt að fallast á að hótelið sé mun stærra en gangi og gerist í dreifbýli.   

Hinn 2. nóvember 2016 lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdanna fyrir. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að fyrirhuguð bygging í landi Grímsstaða væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin væri því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt lagði Skipulagsstofnun áherslu á mikilvægi þess að viðhöfð yrði sú verktilhögun og þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hefðu verið við meðferð málsins og vöktun á aðgerðum og áhrifum þannig að framkvæmdin væri ekki líkleg til að valda verulegum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið. Gilti þetta sérstaklega um fráveitu, aðlögun bygginga að landslagi og frágang lóðar. Enn fremur beindi Skipulagsstofnun þeim tilmælum til leyfisveitenda að leyfi til reksturs hótels yrði ekki gefið út fyrr en sýnt hefði verið fram á virkni hreinsibúnaðar fráveitu og að fyrir lægi áætlun um reglubundna vöktun búnaðarins.

Leyfisveiting Umhverfisstofnunar.
Um miðjan september 2016 sótti framkvæmdaraðili um leyfi Umhverfisstofnunar til framkvæmda innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004. Leitaði Umhverfisstofnun umsagnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn á áhrifum framkvæmdarinnar á lífríki Mývatns, vatnasvið þess og jarðmyndanir í samræmi við hlutverk stofnunarinnar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 664/2012 um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn. Enn fremur var þess óskað að Náttúrufræðistofnun Íslands veitti umsögn um ofangreind áhrif framkvæmdarinnar, sem og hver áhrif hennar yrðu á landslag. 

Í umsögn Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, dags. 28. september 2016, var m.a. tekið fram að um mjög stóra framkvæmd væri að ræða. Hún hefði mikil áhrif á ásýnd svæðisins, markaði nýja byggðarstefnu og gæti skaðað ímynd Mývatns og Laxársvæðisins sem náttúruperlu. Ljóst væri að Mývatn væri alveg á þolmörkum hvað varðaði næringarefnastyrk í vatninu og beita þyrfti öllum brögðum til að halda áhrifum manna í algeru lágmarki. Enginn vafi léki á að afrennsli frá hreinsistöð fyrir hótelið bærist með tímanum út í Mývatn. Myndi bygging á Flatskalla ekki raska jarðmyndunum mikið, sem slíkum, en rjúfa þá heildarmynd sem jökulgarðar og hraun mynduðu við norðanvert Mývatn. Var jafnframt að því vikið að möguleiki væri á að færa umrædda byggingu norðan við hólana og þannig í hvarf á bak við þá. Þá var bent á að rétt við byggingarsvæðið væru garðlög, sem vafalaust væru margra alda gömul, einnig væri forn tóft við hraunjaðarinn á sömu slóðum. Þessar minjar væru ekki merktar inn á uppdrátt deiliskipulagsins og væri eindregið ráðlagt að leita álits Minjastofnunar Íslands á eðli þeirra, samhengi við eldri byggð, verndargildi og hættu á raski. 

Náttúrufræðistofnun Íslands benti t.a.m. á í umsögn sinni, dags. 29. september 2016, að deiliskipulag fyrir umrædda lóð væri að hluta innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár en einnig alfarið innan Ramsarsvæðis og vatnsverndarsvæðis Mývatns og Laxár. Myndu framkvæmdir við hótelið og rekstur þess án vafa hafa bein og óbein áhrif á verndarsvæðið og þar með Ramsarsvæðið. Fælust helstu áhrif þess annars vegar í hugsanlegri mengun vegna frárennslis og hins vegar miklum áhrifum á landslag en einnig jarðmyndanir. Óbeinu áhrifin væru einkum aukinn ferðamannastraumur og því aukið álag fyrir svæðið. Líklega mætti rekja slæmt ástand í Mývatni og lífríki þess til breytinga á styrk næringarefna í vatninu. Yrði reist hótel þyrfti að krefjast þess að engin aukning yrði á næringarefnastyrk í Mývatni og miða þyrfti við burðargetu Mývatns en ekki þarfir einstakra fyrirtækja þegar hreinsun á frárennsli væri ákveðin. Uppi væru hugmyndir um fleiri ný hótel eða stækkanir hótela við Mývatn en engar rannsóknir væru fyrir hendi sem sýndu með óyggjandi hætti hversu mikið viðtakinn Mývatn og lífríki þess gætu borið. Þá benti Náttúrufræðistofnun Íslands á að ljóst væri að móta þyrfti skýra stefnu um m.a. byggingu hótela, m.t.t. landslagsmála, mengunar og ágangs ferðamanna, sem ekki gengi á náttúruverðmæti Mývatns. Gæti umrætt hótel í landi Grímsstaða haft neikvæð áhrif á landslag og aukið mengun. 

Leyfi Umhverfisstofnunar fyrir greindri framkvæmd var veitt 4. nóvember 2016, að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum, er lutu t.a.m. að hreinsistöð og vöktun á frárennsli.

Byggingarleyfi.
Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti leyfi fyrir byggingu umrædds hótels 5. nóvember 2016. Sett voru ákveðin skilyrði fyrir leyfisveitingu, m.a. að ekki yrði gefið út leyfi til reksturs hótels fyrr en sýnt hefði verið fram á virkni hreinsibúnaðar fráveitu og að fyrir lægi áætlun um reglubundna vöktun búnaðarins. Að auki var gerð krafa um að settir yrðu upp sýnatökubrunnar fyrir framan og aftan hreinsistöðina og að sýrustig og styrkur fosfórs og köfnunarefnis yrði vaktað í fráveituvatni.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að um kæruheimild sé vísað til 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Tengist hinar kærðu ákvarðanir innbyrðis og varði þær allar eina og sömu framkvæmd. Að öðru leyti hafi hann eftirfarandi rök fram að færa vegna hverrar og einnar hinna kærðu ákvarðana:

Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. nóvember 2016.
Kærandi bendir á að Skipulagsstofnun hafi brostið vald til að fjalla um umrædda framkvæmd og hafi borið að vísa tilkynningu framkvæmdaraðila frá. Annars vegar sé á því byggt að Skipulagsstofnun hafi ekki verið heimilt að fjalla um matsskyldu byggingar sem háð sé byggingarbanni skv. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Hins vegar beri stofnuninni að fjalla um og ákvarða matsskyldu fyrirhugaðra framkvæmda skv. 6. gr. laga nr. 106/2000. Tilkynnt hafi verið um framkvæmdina nokkrum mánuðum eftir að hún hafi hafist. Umhverfismat framkvæmdar sem hafin sé eða langt á veg komin geti ekki þjónað tilgangi umhverfismats lögum samkvæmt. Beri að skýra 6. gr. laganna hefðbundinni orðskýringu og verði heimild Skipulagsstofnunar til að fjalla um framkvæmdir sem hafnar séu, yfirstandandi eða langt komnar ekki heldur leidd af markmiði laganna, tilskipun 2011/92/ESB eða öðrum lögskýringargögnum. Henni hafi og verið óheimilt að geta þess ekki í ákvörðun sinni að um langt komna framkvæmd væri að ræða.

Alvarlegir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun. Skipulagstofnun beri að fara eftir ákveðnum lögbundnum viðmiðum við ákvörðun um matsskyldu. Þær varði eðli framkvæmdarinnar og staðsetningu hennar auk einkenna áhrifanna, og sé lýst í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Ekki sé um frjálst mat stjórnvalds að ræða. Verði ekki séð að lagt hafi verið mat á fjölmörg atriði í fyrrgreindum viðauka, svo sem hver sammögnunaráhrif framkvæmdanna verði með öðrum framkvæmdum, úrgangsmyndun, hversu viðkvæmt svæði sé sem líklegt sé að framkvæmdir hafi áhrif á, álagsþol náttúrunnar, fjölbreytileika og óafturkræfi áhrifa. Ákvörðunin sé ekki rökstutt að teknu tilliti til fyrrgreindra viðmiðana. Þeim mun ríkari þörf sé á rökstuðningi eftir því sem verndargildi landsvæðis sé meira. Í þessu sambandi sé vísað til 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 5. mgr. 4. gr. Evróputilskipunar 2011/92/ESB.

Þær röksemdir Skipulagsstofnunar, að fyrir liggi nægar upplýsingar um áhrif á landslag, lífríki og samfélag og að umhverfismat muni engu frekara ljósi varpa á þessa þætti, standist ekki lög nr. 106/2000, enda sé það ekki viðmið samkvæmt lögunum og ekki í samræmi við tilgang þeirra. Skorti því lögmætan grundvöll fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar.

Í hinni kærðu ákvörðun skorti jafnframt á að gerð sé grein fyrir hreinsun köfnunarefnis eða hámarksstyrk fosfórs. Ekkert komi fram í hverju þriðja þrep skolphreinsibúnaðarins skuli felast eða hvort hann komi sannanlega í veg fyrir röskun á lífríki Mývatns. Séu áréttaðar þær kröfur sem gera verði til rökstuðnings, en að auki sé bent á að umrætt svæði sé á sérstökum lista Umhverfisstofnunar. Vá er tengist frárennslismálum steðji að svæðinu. Skírskoti kærandi hér til 22. gr. stjórnsýslulaga, 8. og 9. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og til 2. og 3. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Samkvæmt ákvæðum laga nr. 106/2000 beri að tilkynna til Skipulagsstofnunar fyrirhugaðar skolphreinsistöðvar með afkastagetu sem svari til 100 persónueininga eða meira á verndarsvæðum. Skolphreinsistöð við hótelið sé ekki talin tilkynnt framkvæmd samkvæmt hinni kærðu ákvörðun, þrátt fyrir að hún hljóti að vera tilkynningarskyld sem slík. Hafi Skipulagsstofnun borið að taka sjálfstæða ákvörðun um matsskyldu hennar og taka mið af fyrrnefndum viðmiðum, svo sem um sammögnunaráhrif við skolp frá öðrum aðilum við Mývatn.

Ekki sé fyrir hendi nein lagaheimild fyrir Skipulagsstofnun til að setja skilyrði með neikvæðri matsskylduákvörðun. Sé annmarki þessi slíkur að ógilda beri ákvörðun Skipulagsstofnunar í heild sinni. Þá hafi Skipulagsstofnun ekki metið áhrif framkvæmdarinnar á samfélagið. Rannsóknir á þolmörkum svæðisins séu rannsóknir sem gerðar séu í tengslum við umhverfismat framkvæmda, eins og hér um ræði, á svæðum sem njóti verndar og þegar hafi látið á sjá vegna ágangs manna. Verði það ekki gert nema í umhverfismati. Það sé því beinlínis rangt að ekki verði bætt við upplýsingum í umhverfismati að þessu leyti. Einnig hafi Skipulagsstofnun borið að taka mið af meginreglum í 8.-11. gr. laga nr. 60/2013.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 4. nóvember 2016 um að veita leyfi fyrir framkvæmdum.
Kærandi telur að skort hafi lagalegan grundvöll fyrir leyfi Umhverfisstofnunar. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 sé óheimilt að reisa sumarhús, önnur frístundahús og hvers konar mannvirki þeim tengd á verndarsvæði laga nr. 97/2004. Heimilt sé að veita undanþágu við vissar aðstæður, en ekki hafi verið sótt um undanþágu frá greindu bannákvæði.  Þá hafi 1. mgr. 3. gr. sömu laga að geyma reglu um bann við því að valda spjöllum eða raski á lífríki, jarðmyndunum eða landslagi. Að framangreindu virtu hafi verið um valdþurrð að ræða þegar Umhverfisstofnun hafi veitt leyfi fyrir hóteli.

Hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum öðrum annmörkum. Af athugasemdum við 2. mgr. 3. gr. í frumvarpi til laga nr. 97/2004 megi ráða að vilji löggjafans hafi staðið til þess að vernda svæði skv. 1. mgr. 2. gr. laganna sem eina heild og að ekki væri gert ráð fyrir mörgum framkvæmdum á því svæði. Umrædd leyfisveiting uppfylli því ekki kröfur um rökstuðning fyrir leyfi til umfangsmikilla framkvæmda. Hafi þær að mati umsagnaraðila neikvæð sjónræn áhrif, áhrif á lífríki og jarðmyndanir, en einnig muni aukning ferðamanna og lengri dvöl þeirra á svæðinu hafa neikvæð áhrif á verndarsvæðin í kringum Mývatn. Í nefndri ákvörðun sé hvorki rökstutt hvers vegna gengið hafi verið gegn framkomnum umsögnum né fjallað um forsendur ákvörðunarinnar að teknu tilliti til laga nr. 97/2004 eða laga nr. 60/2013. Ekki sé minnst á að umrætt svæði sé á rauðum lista Umhverfisstofnunar, en það séu verndarsvæði í mestri hættu eða að öðru vikið sem staðfesti þá hættu sem steðji að Mývatni vegna ofauðgunar lífríkis af mannavöldum. Megi leiða það af reglu 62. gr. laga nr. 60/2013 að rökstyðja beri það sérstaklega sé ekki farið að áliti lögbundinna umsagnaraðila. Sé þessi skortur á rökstuðningi í brýnni andstöðu við 22. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt hafi stofnuninni borið að taka mið af þeim meginreglum sem fram komi í 8.-11. gr. náttúruverndarlaga. Að auki sé ákvörðun Umhverfisstofnunar ekki í samræmi við umsögn hennar um skipulagsbreytingar vegna hótelbyggingar og engar skýringar að finna á hinni breyttu afstöðu stofnunarinnar.

Umhverfisstofnun hafi heimilað skolphreinsistöð sem víki frá lágmarkskröfum um hreinsun í þremur þrepum. Hafi slíkt ekki verið heimilt án þess að taka mið af 10. gr. laga nr. 60/2013. Verulegir annmarkar séu á málsmeðferð í sambandi við frárennslismál hótelsins. Lögbundnum umsagnaraðilum hafi ekki verið veittur aðgangur að mikilvægum gögnum um fyrirhugaða skolphreinsistöð, sem sé andstætt 10. gr. stjórnsýslulaga. Forsendur Umhverfisstofnunar standist ekki ákvæði laga, þar með talið 8. og 9. gr. laga nr. 60/2013 um vísindalega þekkingu og varúðarreglu. Ákvörðun um að heimila svo stórt hótel á óbyggðu svæði, með frárennsli sem ekki eigi að hreinsa næringarefnið köfnunarefni úr, geti ekki staðist 8. gr. náttúruverndarlaga. Engar rannsóknir liggi fyrir um vatnsrennsli og styrk næringarefna á þessu svæði við Mývatn og sé ekki unnt að segja fyrir um áhrif framkvæmdarinnar á lífríkið.

Ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 5. nóvember 2016 um að samþykkja leyfi til byggingar hótels á Flatskalla.
Kærandi telur að ógilda beri hið kærða byggingarleyfi, bæði vegna annmarka á þeim ákvörðunum sem á undan komu en einnig sjálfstætt, m.a. vegna byggingarbanns í reglugerð nr. 665/2012. Jafnframt sé bent á að skipulags- og byggingarfulltrúa hafi borið að líta til verndarmarkmiða laga nr. 60/2013 og taka tillit til þeirra heildaráhrifa sem framkvæmdin hefði í för með sér að teknu tilliti til annars næringarefnaflaums frá annarri starfsemi við Mývatn. Loks hafi skipulags- og byggingarfulltrúi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni og vísi kærandi hér til 3. og 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun tekur fram að umrætt hótel hafi ekki verið fullreist þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Með það í huga, og í ljósi þess hvernig fyrirhuguð framkvæmd sé skilgreind í e-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. framkvæmd sem komin sé á það stig að hún geti hlotið málsmeðferð
samkvæmt IV. kafla laganna, sé ekki tekið undir þá afstöðu kæranda að ekki hafi verið um fyrirhugaða framkvæmd að ræða í skilningi laganna.

Samkvæmt lögum nr. 106/2000 sé það hlutverk Skipulagsstofnunar að taka ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar, en hin kærða ákvörðun sé af því tagi. Í ákvörðun stofnunarinnar felist ekki að verið sé að veita leyfi fyrir umræddri framkvæmd á verndarsvæðinu.

Skipulagsstofnun hafi við ákvarðanatöku sína litið til þeirra viðmiða sem fram komi í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Helstu álitaefni varðandi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar lúti að ásýnd hótelbyggingarinnar og fráveitu frá starfseminni, sbr. einkum lið 2. iii (e). Að mati stofnunarinnar hafi þessi viðmið haft mesta þýðingu við úrlausn málsins. Því hafi ekki verið vísað í önnur viðmið berum orðum en horft hafi verið til þeirra áður en ákvörðun hafi verið tekin.

Umsagnir, sem Skipulagsstofnun afli við meðferð málsins, séu ekki bindandi fyrir stofnunina, heldur taki hún sjálfstæða afstöðu til þeirra. Að mati stofnunarinnar skipti það máli að umsagnir séu byggðar á haldbærum rökum. Réttlæti stærð umrædds hótels ekki ein og sér að hótelbyggingin fari í umhverfismat. Þá hafi komið fram í gögnum framkvæmdaraðila að unnið væri að lausn fráveitukerfis í samstarfi við Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra og tilgreinda verkfræðistofu. Sú lausn sem lögð hafi verið til hafi verið samþykkt á fundi heilbrigðisnefndar 15. september 2016 og hafi Umhverfisstofnun samþykkt þá ákvörðun. Stofnunin hafi í umsögn sinni til Skipulagsstofnunar ekki gert athugasemdir við fráveitumál hótelsins.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila komi fram að framkvæmdin feli í sér byggingu hótels, starfsmannahús, aðkomuveg og efnistökusvæði. Sé vikið að því að skolphreinsistöð uppfylli kröfur reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Ekki sé að finna sérstaka umfjöllun um umrædda stöð í ákvörðun Skipulagsstofnunar. Í því sambandi sé bent á að meginframkvæmdin sé hótelið og sé skolphreinsistöðin hluti af því. Nefnd mannvirki verði ekki staðsett í íbúðarbyggð, heldur í dreifbýli, utan við byggðina og á verslunar- og þjónustusvæði, en ákvæði í lögum nr. 106/2000 sé bundið við skolphreinsivirki frá íbúðarbyggð eða iðnaði.

Jafnframt komi fram í nefndri tilkynningu að styrkur fosfórs og köfnunarefnis verði vaktaður í fráveituvatni þannig að það verði undir viðmiðunarmörkum og í því sambandi vitnað til töflu í fylgiskjali 4 í reglugerð nr. 450/2009 um breytingu á reglugerð nr. 798/1999. Í minnisblaði verkfræðistofu sem fylgi með tilkynningu framkvæmdaraðila sé vikið að mælingum á styrk fosfórs í sambærilegum hreinsistöðvum. Miðað við þær mælingar og í ljósi þess sem segi í ofangreindri reglugerð sé talið rétt, vegna varúðarsjónarmiða, að setja upp viðbótarhreinsun á fosfór sem þriðja þrep hreinsunarinnar. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé vikið að því að styrkur fosfórs og köfnunarefnis verði vaktaður í fráveituvatni. Hafi Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra í umsögnum sínum ekki gert athugasemdir við það að ekki sé getið um hámarksstyrk fosfórs og hreinsun köfnunarefnis.

Ekki sé fallist á að um alvarlegan annmarka sé að ræða á ákvörðun stofnunarinnar að þar komi ekki fram í hverju þriðja þrep skolphreinsibúnaðarins skuli felast eða hvort hann komi sannanlega í veg fyrir röskun á lífríki Mývatns. Í minnisblaði nefndrar verkfræðistofu, dags. 12. apríl 2016, sé að finna lýsingu á þriðja þrepi skolphreinsistöðvarinnar. Hafi Skipulagsstofnun litið til þessarar lýsingar, þrátt fyrir að hafa ekki gert grein fyrir inntaki þriðja þrepsins. Miðist ákvörðun stofnunarinnar við það að hið þriggja þrepa hreinsikerfi virki sem skyldi. Hún hafi hins vegar ekki faglega þekkingu til að leggja mat á það hvort slíkt kerfi komi sannanlega í veg fyrir röskun á lífríki vatnsins.

Vegna tilvísunar til 9. gr. náttúruverndarlaga þá sé bent á að greinin gildi ekki um ákvörðun um matsskyldu sem tekin sé á grundvelli laga nr. 106/2000. Bent sé á að stofnunin hafi litið til álagsþols náttúrunnar við ákvarðanatöku sína, sbr. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Þá sé ekki um skilyrði stofnunarinnar að ræða í ákvörðun hennar heldur tilmæli til leyfisveitanda, en þau séu ekki lagalega skuldbindandi.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun hafnar því að framkvæmd sú sem kærð sé í máli þessu hafi átt undir 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012, enda sé ekki um frístundahús að ræða. Falli téð framkvæmd undir 2. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður- Þingeyjarsýslu. Geti umrædd hótelbygging hvorki talist frístundahús í skilningi byggingarreglugerðar nr. 112/2012 né laga nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundabyggð.

Ummæli í athugasemdum með lagafrumvarpi sem kærandi vísi til, um að fáar framkvæmdir falli undir 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004, veiti ekki skýra leiðsögn um að tilteknar framkvæmdir umfram aðrar samræmist ekki markmiðum laganna. Eðli málsins samkvæmt falli alltaf einhverjar framkvæmdir þar undir. Heldur strangari sjónarmið eigi að gilda um sjónræn áhrif nær vatnsbakka Mývatns. Framkvæmdin hafi verið kynnt fyrir Umhverfisstofnun m.t.t. áhrifa á landslag á myndrænan hátt þar sem fram hafi komið að gert sé ráð fyrir að byggingin fylgi línum í landslagi og leitast sé við að velja byggingarefni sem falli að náttúru svæðisins. Um 1/3 hótelbyggingarinnar sé staðsett á áður röskuðu svæði, þ.e. þar sem gömul malarnáma hafi áður verið.

Áhrif á lífríki Mývatns séu að mati stofnunarinnar þau áhrif sem hvað brýnast sé að meta hvað varði framkvæmdir á verndarsvæðinu. Telji stofnunin að þau hafi verið metin með fullnægjandi hætti og krafa gerð um fullnægjandi hreinsun frárennslis þess vegna. Þessar áherslur endurspeglist í leyfi Umhverfisstofnunar. Hafi rökstuðningur ákvörðunarinnar verið fullnægjandi, eins og málið hafi legið fyrir. Stofnunin vísi til skýrslu samstarfshóps um Mývatn frá árinu 2016, þar sem m.a. komi fram að erfitt sé um vik að greina frumorsakir  breytinga í Mývatni. Vatnið sé auðugt af fosfór af hendi náttúrunnar og e.t.v. þurfi litla viðbót til að valda röskun. Í ljósi framangreinds sé eðlilegt að skoða m.a. beitingu varúðarreglunnar.

Ráðstafanir varðandi frárennsli hafi verið metnar í samræmi við reglur þar um af heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra og Umhverfisstofnun. Lögð hafi verið fram gögn um hreinsivirki sem talið sé anna frárennsli frá mannvirkinu og hreinsa þau efni sem Mývatn sé viðkvæmt fyrir. Feli umrætt hreinsivirki í sér markvissa hreinsun köfnunarefnis og sé því fullnægjandi m.t.t. reglugerðar um fráveitur og skólp. Þá sé skolphreinsistöðin staðsett u.þ.b. 600 m frá vatnsbakka Mývatns á malarásnum þar sem ætla megi að náttúruleg síun frárennslis í gegnum jarðveg sé nokkur umfram þá hreinsun sem skolp hótelsins sé leitt um.

Fyrirhuguð hreinsistöð sé svipuð þeirri hreinsistöð sem stofnunin hafi sett upp við áningarstað við Hverfjall hvað varði þrep hreinsunar. Fullnægi greint skolphreinsivirki öllum þeim kröfum sem gerðar séu varðandi hreinsun á svæðinu. Uppfylli viðkomandi búnaður kröfur um ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa bæði fyrir fosfór og köfnunarefni. Ítrekað sé að skolpið verði vaktað. Ef í ljós komi að búnaðurinn starfi ekki með fullnægjandi hætti muni stofnunin gera ráðstafanir til að bætt verði úr. Sá aðili sem skuli samþykkja þann búnað sem um ræði hafi veitt samþykki sitt fyrir nefndu hreinsivirki. Megi í þessu sambandi benda á álit umboðsmanns Alþingis nr. 5081/2007.

Í máli þessu hafi verið tekið á þeim grundvallarþáttum sem ætla megi að geti haft áhrif á verndargildi svæðisins eins og það endurspeglist í lögum og reglugerð um verndun Mývatns, að teknu tilliti til gagna sem liggi fyrir um ástand þess. Ekki hafi verið sett sértæk viðmið varðandi framkvæmd meginreglna náttúruverndarlaga. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi m.a. verið stuðst við skýrslu framangreinds starfshóps, þar sem dregin sé saman besta fáanlega þekking um ástand Mývatns og Laxár. Einnig hafi verið leitað lögbundinna umsagna og aflað þeirrar þekkingar og upplýsinga sem fyrirliggjandi séu hjá stofnuninni vegna umsjónar með hinu verndaða svæði. Liggi orsakir hins viðkvæma ástands Mývatns nokkuð ljósar fyrir, sbr. úttektir þar um. Einnig sé talið ljóst í meginatriðum til hvaða ráðstafana beri að grípa og sé unnið að þeim. Áætli Umhverfisstofnun að neikvæð áhrif frárennslis vegna hinnar kærðu framkvæmdar verði hverfandi. Stofnunin leggi áherslu á það við uppbyggingu innviða sem hún beri ábyrgð á að frárennslislausnir séu til fyrirmyndar og þannig sé dregið út neikvæðum áhrifum umferðar ferðamanna.

Þá sé því hafnað að lögbundnum umsagnaraðilum hafi ekki verið veittur aðgangur að mikilvægum gögnum og bent á að lögbundnar umsagnir séu ekki bindandi við úrlausn máls, sbr. orðalag 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012.

Málsrök framkvæmdaraðila/leyfishafa: Framkvæmdaraðili tekur fram að ógilding á ákvörðun Skipulagsstofnunar varði verulega, lögmæta hagsmuni aðila málsins og hefði stórvægileg fjárhagsleg áhrif. Eigi kærandi ekki beina hagsmuni af ákvörðuninni og byggi kæru sína á fráviki frá meginreglum um kæru stjórnvaldsákvarðana. Hvíli á kæranda að sýna með óyggjandi hætti fram á að lagalegir annmarkar séu á ákvörðun Skipulagsstofnunar en jafnframt að þeir séu svo verulegir að réttlæti ógildingu og röskun á framangreindum hagsmunum. Geti sjónarmið um formlega annmarka ekki komið hér til skoðunar nema sérstaklega sé sýnt fram á með rökstuddum hætti að slíkir annmarkar hafi í reynd haft verulega þýðingu um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Hafi kærandi ekki sýnt fram á að slíkir annmarkar séu fyrir hendi.

Sú málsástæða að Skipulagstofnun hafi borið að vísa málinu frá þar sem framkvæmdin hafi ekki verið fyrirhuguð þegar hún hafi verið tilkynnt fari gegn sjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti og almenna skynsemi við lagaframkvæmd. Væri tilkynningu um framkvæmd vísað frá, þar sem hún teldist hafin en ekki fyrirhuguð, stæði hún eftir í lagalegu tómarúmi. Sú réttaróvissa sem slík lögskýring hefði í för með sér væri til tjóns fyrir alla aðila máls, en ekki síður fyrir þá hagsmuni sem lögum um mat á umhverfisáhrifum og sérlögum sé ætlað að tryggja. Lagaframkvæmd verði að byggja á skýringum laga sem standist almennan skynsemismælikvarða og ákvarðanir sem á þeim byggja verði að stefna að lögmætu markmiði. Jafnframt sé tekið undir það sem fram komi í greinargerð Skipulagsstofnunar að líta megi á framkvæmdina sem fyrirhugaða í skilningi laga nr. 106/2000.

Ekki sé bannað að byggja hótel á verndarsvæðinu samkvæmt lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu eða reglugerð nr. 665/2012 sama efnis. Byggi sjónarmið kæranda á augljósum misskilningi um gildissvið bannsins. Sé tekið undir skýringarsjónarmið Umhverfisstofnunar hvað þetta varði. Þurfi bannreglur af þessu tagi, sem íþyngjandi séu fyrir borgara og takmarki stjórnarskrárvarin réttindi þeirra, að vera skýrar og afdráttarlausar ef þeim eigi að beita. Vísað sé til ítarlegrar tilkynningarskýrslu og annarra gagna sem lögð hafi verið fram í málinu. Hafi fullnægjandi gögn legið fyrir hjá Skipulagsstofnun við ákvarðanatöku þannig að stofnunin gæti tekið lögmæta og efnislega rétta ákvörðun um matsskyldu framkvæmda í samræmi við lög nr. 106/2000. Því sé mótmælt að Skipulagsstofnun hafi gengið gegn framkomnum umsögnum en fjórir af fimm umsagnaraðilum hafi ekki talið þörf á að framkvæmt væri mat á umhverfisáhrifum. Hafi ákvörðun Skipulagsstofnunar verið í samræmi við álit þeirra. Staðhæfing í umsögn Ferðamálastofu um stærð hótelsins og samanburður við önnur hótel í dreifbýli eða Mývatnssveit sé röng. Einnig sé bent á að Ferðamálastofa sé ekki bært stjórnvald til að fjalla um frárennslismál, sbr. m.a. 4. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála.

Kröfum er varði leyfisveitingar í máli þessu beri að vísa frá, en að öðrum kosti hafna. Kæruheimild samtaka eins og kæranda beri samkvæmt hefðbundnum lögskýringarsjónarmiðum að túlka þröngt. Skýrt megi ráða af lögskýringargögnum að aldrei hafi staðið til að veita umhverfisverndarsamtökum heimild til að kæra leyfi til framkvæmda, nema þær séu matsskyldar. Fyrir liggi sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að svo sé ekki. Af því leiði að lagaskilyrði skorti til að taka kæru samtakanna til meðferðar hvað varði umrædd leyfi.

Að öðru leyti sé vísað almennt til röksemda Umhverfisstofnunar fyrir leyfisveitingunni. Enn fremur vilji leyfishafi taka sérstaklega fram að hann hafi álitið að Umhverfisstofnun hefði fallist á skipulagsáætlun Skútustaðahrepps, þrátt fyrir að hafa gert athugasemdir í upphafi um sjónræn áhrif byggingarinnar. Telji hann einnig að í öllum gögnum sem hann hafi lagt fram hjá stjórnvöldum um byggingu hótelsins og starfsemi þess komi fram einbeittur ásetningur hans um að sýna náttúru, umhverfi og samfélagi á svæðinu ýtrustu virðingu.

Það sé grundvallaratriði í máli þessu að heimilt sé samkvæmt lögum nr. 97/2004 og reglugerð nr. 665/2012 að reka fráveitur á vatnasviði Mývatns. Til standi að reisa þriggja þrepa skolphreinsistöð, sem hafi verið vandlega hönnuð samkvæmt bestu þekkingu, í samráði við stjórnvöld og með hliðsjón af þeirra ýtrustu kröfum. Eins miklar upplýsingar hafi legið fyrir um gæði og virkni stöðvarinnar og eðlilegt hafi verið að gera kröfu um við ákvörðun um matsskyldu og veitingu framkvæmdaleyfa. Verði ákvarðanir ekki ógiltar á grundvelli ítarlegri krafna en lög og reglur mæli fyrir um og sem jafnvel sé ómögulegt að uppfylla á þeim tíma þegar ákvörðun sé tekin. Hafi ekki verið gerðar sérstakar athugasemdir við framkvæmdina í skýrslu starfshóps um ástand Mývatns frá árinu 2016.

Þegar gögn málsins séu metin í heild sinni verði ekki annað séð en að fyrir hafi legið eins góðar upplýsingar um ástand svæðisins og áhrif framkvæmdanna og mögulegt hafi verið þegar hinar kærðu ákvarðanir voru teknar. Þær hafi verið í samræmi við lagaheimildir og byggt hafi verið á málefnalegum sjónarmiðum. Hafi kæranda ekki tekist að sýna fram á annað. 

Hvað varði upphaf framkvæmdanna hafi skipulags- og byggingarfulltrúi veitt leyfi til þeirra að ákveðnu marki áður en Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun hafi fjallað endanlega um þær. Leyfishafi hafi verið í góðri trú um að hann mætti byggja á þessu leyfi, hann hafi verið í samskiptum við starfsmenn framangreindra stofnana og gengið út frá því að öllum væri kunnugt um athafnir hans.

Umrædd hótelbygging sé reist á grunni gamallar malarnámu og á svæði sem þegar hafi verið raskað, m.a. með veglagningu. Hún sé staðsett um 700 m frá vatninu fyrir ofan veg og standi því nokkuð fjarri brýnustu hagsmunum í lífríki á verndarsvæðinu. Umrædd hótellóð sé á jaðri verndarsvæðisins, eins og það hafi verið dregið upp á korti, en uppdrátturinn sé ekki í samræmi við texta laga og reglna um verndarsvæðið og vatnasviðið, sem einkum sé ætlað að vernda. Ætti lóðin með réttu að falla utan verndarsvæðisins. Þá muni hótelbyggingin, önnur mannvirki og starfsemi hótelsins ekki verða í beinni snertingu við þau náttúrufyrirbæri, sem lögum nr. 97/2004 og reglugerð nr. 665/2012 sé ætlað að vernda og talin séu þar upp.

Málsrök Skútustaðahrepps: Sveitarfélagið gerir kröfu um að kæru verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Það sé meginregla íslensks stjórnsýsluréttar að aðild að kærumálum sé bundin við aðila sem eigi lögvarða hagsmuni. Undantekning frá þeirri meginreglu þurfi að hvíla á skýru lagaákvæði. Við samræmisskýringu á lagaákvæðum sé ljóst að ákvæði 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. breytingalög nr. 74/2005, hafi ekki verið ætlað að stofna til kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka vegna annarra framkvæmda en þeirra sem féllu undir lög um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. að umhverfismat færi fram. Sama niðurstaða fáist við samræmisskýringu á lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og nr. 131/2011 um fullgildingu Árósasamningsins. Í almennum athugasemdum við frumvarp að lögum nr. 131/2011 sé m.a. tiltekið um skýringu á 6.-8. gr. Árósasamningsins að í frumvarpinu sé lagður sá skilningur í efnisafmörkun 6. gr. að hún nái til allra framkvæmda í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum og til þeirra framkvæmda sem tilgreindar séu í 2. viðauka laganna ef ákveðið sé á grundvelli 6. gr. þeirra að þær skuli vera matsskyldar. Sveitarfélagið telji að aldrei hafi staðið til að veita kæruaðild að leyfisveitingum sem ekki varði matsskyldar framkvæmdir, án tillits til lögvarinna hagsmuna. Í ljósi meginreglunnar geti kæruaðild umhverfisverndarsamtaka ekki helgast af lögskýringum á grundvelli óljósra heimilda.

Frekari málsrök kæranda: Vegna framkominna málsraka annarra málsaðila tekur kærandi fram að stjórnskipulega sett lög hafi markað útlínur verndarsvæðisins, sbr. 2. gr. laga nr. 97/2004. Umrædd hótelbygging sé ekki reist á grunni gamallrar malarnámu, heldur á lyngmó, en vinnubúðir séu staðsettar í malarnámu. Uppbygging ferðaþjónustu falli undir 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012. Hafi heildarfjöldi ferðamanna á svæðinu margfaldast á síðustu árum. Skýra beri lagaákvæði og stjórnvaldsfyrirmæli í samræmi við meginreglur um verndun Mývatns og Laxár, sem sé að finna í 1. gr. laga nr. 97/2004 og 1. gr. náttúruverndarlaga. Hafi rannsóknarmiðstöð ferðamála komist að því í skýrslu frá desember 2016 að viðvörunarljós logi í Mývatnssveit varðandi þolmörk ferðaþjónustu. Þá skipti landslagsheildir miklu máli varðandi sjónræn áhrif.

Hvað frárennsli varði sé tekið fram að skilyrði sem sett séu í leyfi Umhverfisstofnunar vísi til lágmarkskrafna reglugerðar um frárennsli. Þær kröfur séu ófullnægjandi, eins og sérstaklega standi á, varðandi næringarefni í Mývatni, einkum Ytriflóa, og vegna skorts á rannsóknum á vatnsrennsli og næringarefnastyrk á því svæði sem hótelið rísi. Sú skoðun Umhverfisstofnunar um að 600 m sé nægilegt sé ekki studd vísindalegum gögnum og sé því ekki tæk í skilningi meginreglna náttúruverndarlaga um vísindalega þekkingu og varúðarreglu. Fara þurfi fram rannsóknir þannig að grunnstaða náttúrunnar sé þekkt.

Hvað varði kröfur um frávísun málsins skírskoti kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 20/2016. Verði fallist á kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar sé brostinn grundvöllur fyrir byggingarleyfi Skútustaðahrepps. Leyfið yrði þó ekki sjálfkrafa úr gildi fallið, heldur þyrfti að fella það úr gildi með sérstakri ákvörðun. Myndi stjórnsýslukæra kæranda vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu vera þýðingarlaus, héldi hótelbyggingin áfram á grundvelli hins kærða byggingarleyfis, þrátt fyrir að ákvörðun um matsskyldu hefði verið ógilt. Væri ekki augljóst með hvaða hætti kærandi kæmi slíkri kröfu að, þar með talið fyrir dómstólum. Með því væri kæruréttur sem umhverfisverndarsamtökum sé tryggður í innanlandsrétti, með Evróputilskipunum sem teknar hafi verið upp í EES-samninginn og samkvæmt alþjóðasamningi, að engu gerður.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 2. nóvember 2016 að bygging hótels ásamt tengdum framkvæmdum, á lóð Flatskalla í landi Grímsstaða, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt korti í fylgiskjali I með lögum nr. 97/2004 um verndum Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu er framkvæmdasvæðið innan þess svæðis sem ákvæði laganna taka til, en ljóst er af orðalagi 2. gr. laganna að verndarandlag þeirra er það svæði sem þar er lýst og sýnt er á nefndu korti. Svæðið nýtur jafnframt verndar samkvæmt samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf, svokallaður Ramsarsamningur.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum þeirra. Eiga þau m.a. að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar.

Þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A í 1. viðauka við lögin skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 5. gr. laganna, en framkvæmdir í flokki B og flokki C í 1. viðauka skulu háðar slíku mati þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 6. gr. laganna. Í flokk B falla m.a. hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis, sbr. tölul. 12.05 í 1. viðauka.

Í samræmi við 2. mgr. nefndrar 6. gr. laga nr. 106/2000 barst Skipulagsstofnun tilkynning um byggingu hótels í landi Grímsstaða. Tilkynningin barst eftir að stjórnvöld urðu þess áskynja að framkvæmdir við hótelið hefðu hafist án þess að matsskylduákvörðun lægi fyrir. Í 1. mgr. 13. gr. nefndra laga segir að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar skv. 5. eða 6. gr. fyrr en fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum eða ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld. Þá er fyrirhuguð framkvæmd skilgreind svo í e-lið 3. gr. laganna að um sé að ræða framkvæmd sem sé komin á það stig að hún geti hlotið málsmeðferð skv. IV. kafla, þ.e. vegna matsskyldra framkvæmda. Að teknu tilliti til þessa, og þegar litið er til markmiðs og eðlis laga nr. 106/2000, var Skipulagsstofnun rétt að taka tilkynningu framkvæmdaraðila til efnislegrar afgreiðslu.

Ákveðin gögn skulu fylgja tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Hafði tilkynningin m.a. að geyma upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd, skipulag á svæðinu og lýsingu á staðháttum. Fjallað var um möguleg umhverfisáhrif vegna framkvæmdarinnar og greint var frá vöktun og eftirliti með fráveitu. Í kjölfarið leitaði Skipulagsstofnun umsagna, eins og fram kemur í málavaxta-lýsingu, en leita skal álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra, eftir eðli máls hverju sinni, áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Frekari álitsumleitan var á forræði Skipulagsstofnunar í samræmi við nefnt lagaákvæði, en á stofnuninni hvíldi jafnframt sú skylda að upplýsa málið að því marki að hún gæti komist að efnislega réttri niðurstöðu.

Kjarni máls þessa snýst um þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að tilkynnt framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Taldi stofnunin að áhrif framkvæmdarinnar væru ekki umtalsverð í skilningi laganna og að þar með væri ekki þörf á mati á þeim.

Samkvæmt p-lið 3. gr. nefndra laga eru umhverfisáhrif umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í áðurnefndri 3. mgr. 6. gr. sömu laga segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum og fjölda stafliða þar undir.

Er þar fyrst tiltekið að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, nýtingar náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar, ónæðis og slysahættu, sbr. 1. tölul. Þá ber og að líta til staðsetningar framkvæmdar, sbr. 2. tölul., og þar skal athuga hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til landnotkunar, sem fyrir sé eða fyrirhuguð samkvæmt skipulagsáætlun, magns, gæða og getu til endurnýjunar náttúruauðlinda og verndarsvæða. Vegna verndarsvæða er meðal annars vísað til náttúruminja í A-, B- og C-hluta náttúruminjaskrár og svæða sem falli undir ákvæði 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Einnig er skírskotað til svæða sem njóti verndar samkvæmt sérlögum, svo sem Mývatns- og Laxársvæða, svæða innan 100 m fjarlægðar frá fornleifum, svæða, sbr. gr. 4.21 í skipulagsreglugerð, sem njóti verndar í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns og reglugerð um neysluvatn vegna grunnvatns- og strandmengunar og mengunar í ám og vötnum, svæða sem njóti verndar samkvæmt samþykktum alþjóðlegra samninga sem Ísland er bundið af, svo sem Ramsarsamningsins og falli válistar hér undir, loks hverfisverndarsvæði samkvæmt ákvæðum í skipulagsáætlununum.

Í samræmi við iv. lið 2. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000 ber einnig að líta til álagsþols náttúrunnar, einkum með tilliti til m.a. votlendissvæða, strandsvæða, sérstæðra jarðmyndana, svo sem jökulminja og bergmyndana, náttúruverndarsvæða, þar með talið svæða á náttúruminjaskrá, landslagsheilda, ósnortinna víðerna, upprunalegs gróðurlendis, fuglabjarga og annarra kjörlenda dýra, svæða sem hafa sögulegt, menningarlegt eða fornleifalegt gildi, svæða þar sem mengun er yfir viðmiðunargildum í lögum og reglugerðum, og þéttbýlla svæða.

Loks ber að skoða eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar í ljósi áðurnefndra viðmiðana, sbr. 3. tölul., einkum með tilliti til umfangs umhverfisáhrifa, þ.e. þess svæðis og fjölda fólks sem ætla megi að verði fyrir áhrifum, stærðar og fjölbreytileika áhrifa, þess hverjar líkur séu á áhrifum, tímalengdar, tíðni og óafturkræfi áhrifa og sammögnunar ólíkra umhverfisáhrifa á tilteknu svæði.

Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hverjir áðurgreindra þátta vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð, en úrskurðarnefndin telur að með hliðsjón af eðli og umfangi þeirrar framkvæmdar sem hér er um deilt hefðu mörg þeirra atriða sem talin eru upp í 2. viðauka átt að koma til skoðunar við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.
Í niðurstöðukafla hinna kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar kemur fram að tekin sé saman niðurstaða stofnunarinnar um byggingu hótels í landi Grímsstaða, að teknu tilliti til viðmiða sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000, byggt á framlögðum gögnum framkvæmdaraðila, framkomnum umsögnum og frekari upplýsingum hans. Lúti helstu álitaefni varðandi umhverfisáhrif að ásýnd hótelbyggingar og fráveitu frá starfseminni, sbr. einkum lið 2.iii (e) í 2. viðauka laganna. Frekari tilvísanir til 2. viðauka eða heimfærslur til nánar tilgreindra tölu- og stafliða hans er hins vegar ekki að finna í niðurstöðunni, en eins og atvikum máls þessa er háttað hefði það aukið til muna á gagnsæi og skýrleika hennar. 

Fram kemur í umfjöllun Skipulagsstofnunar um áhrif framkvæmdarinnar á landslag að umsagnaraðilar hafi gert athugasemdir við sjónræn áhrif hótelsins, sérstaklega þar sem það verði á þremur hæðum. Bendir stofnunin á í þessu sambandi að fyrir liggi deiliskipulag fyrir hótelið þar sem lagt hafi verið mat á umhverfisáhrif áforma um þriggja hæða hótel borið saman við hótel á tveimur hæðum, líkt og áður hafi verið ráðgert. Hafi niðurstaðan verið sú að óverulegur munur væri á sjónrænum áhrifum þessara kosta og í báðum tilvikum yrði byggingin í hvarfi, séð frá byggðinni í Reykjahlíð. Sett væru skýr ákvæði um aðlögun bygginga að landi í deiliskipulagi. Meti Skipulagsstofnun það svo að fyrirliggjandi gögn í tilkynningu, frekari upplýsingar framkvæmdaraðila og það sem fram komi í skilmálum og umhverfismati deiliskipulagsins gefi nægilegar upplýsingar um líkleg áhrif framkvæmdarinnar á landslag. Á grundvelli þeirra telji stofnunin að unnt eigi að vera að lágmarka neikvæð áhrif framkvæmdarinnar á landslag og að ekki sé tilefni til að ætla að hótelið verði ráðandi þáttur í landslagi svæðisins.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar gaf umhverfismat með deiliskipulagi skv. lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana ekki tilefni til svo afdráttarlausrar ályktunar Skipulagsstofnunar, sem gekk gegn athugasemdum umsagnaraðila, án sértækari rökstuðnings. Hefur úrskurðarnefndin þá í huga að í almennum athugasemdum í frumvarpi til laga nr. 105/2006 er tekið fram að nokkur munur sé á umhverfismati áætlana samkvæmt frumvarpinu og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda, sbr. lög nr. 106/2000. Það eigi við um nákvæmni matsins, málsmeðferð og afgreiðslu þess. Annars vegar komi það til af því að um sé að ræða almennar ákvarðanir um meginstefnu og hins vegar sértækar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Enn fremur að þar sem stefnumörkun á áætlanastigi sé yfirleitt almenns eðlis, samanborið við það sem eigi við um einstakar framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, verði að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega gróft mat, oft án þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram. Þá var tilgreint í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar að í tillögu að deiliskipulagi hótellóðar væri hótelið staðsett á hæðarbrún. Aðalrök fyrir staðsetningu þess hafi verið að byggingin yrði að hluta til í gamalli námu, en grunnur byggingarinnar, eins og hann væri nú staðsettur, væri ekki þar þótt byggingarreitur næði yfir í námuna. Var tilefni fyrir Skipulagsstofnun að fjalla um nefnt atriði í ákvörðun sinni, eða eftir atvikum að sannreyna hvað rétt væri.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar er einnig fjallað um áhrif framkvæmdarinnar á lífríki Mývatns og að því vikið að framkvæmdin liggi innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár, svæðis sem verndað sé vegna viðkvæms lífríkis, auk þess sem það njóti verndar samkvæmt Ramsar- samningnum. Er tekið fram að umsagnaraðilar telji mikilvægt að frárennsli frá hótelinu verði undir stöðugri vöktun og jafnframt þurfi að skoða hættu á mengun frá bílastæðum og hugsanlega gera ráðstafanir vegna hennar. Tekur Skipulagsstofnun undir þetta. Telur stofnunin að af gögnum málsins verði ekki ætlað að þörf sé á formlegu umhverfismati til að meta áhrif fráveitu, en að tryggja þurfi að áætlun um vöktun og viðbrögð við niðurstöðum liggi fyrir við leyfisveitingar og að viðeigandi skilyrði séu sett í leyfi þar um. Taki Skipulagsstofnun sérstaklega undir tillögu sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að áður en leyfi verði veitt til rekstur hótelsins hafi verið sýnt fram á virkni hreinsibúnaðar fráveitu. 

Umhverfisstofnun hefur umsjón með náttúruvernd á svæðinu og ber ábyrgð á að gerð sé verndaráætlun fyrir landssvæði það sem um getur í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 97/2004, sbr. svonefnda verndaráætlun Mývatns og Laxár 2011-2016. Óháð því gefur stofnunin að auki út lista á tveggja ára fresti yfir þau svæði sem veita þarf sérstaka athygli og hlúa sérstaklega að. Á listanum eru greindir styrkleikar, veikleikar, ógnir og tækifæri viðkomandi svæðis. Flokkast svæðin á rauðan lista og appelsínugulan lista. Á hinum fyrrnefnda eru svæði sem Umhverfisstofnun telur að séu undir miklu álagi, sem bregðast þurfi strax við, og er verndarsvæði Mývatns og Laxár talið þar á meðal. Í umfjöllun um svæðið kemur m.a. fram að á verndarsvæðinu sé mjög fjölbreytt dýralíf, ásamt sérstæðum jarðmyndunum og fjölmörgum mikilvægum vistkerfum. Veikleiki svæðisins sé mikill fjöldi ferðamanna sem komi að Mývatni. Hafi svæðið að geyma viðkvæm vistkerfi, t.a.m. búsvæði kúluskíts, samspil rykmýs, fuglalífs, fiska og hornsíla, ásamt jarðhitasvæðum og jarðmyndunum. Þá séu þar viðkvæm gróðursvæði og viðkvæmar jarðmyndanir.

Í júní 2016 kom út skýrsla samstarfshóps um Mývatn um ástand mála, orsakir vanda og mögulegar aðgerðir. Þar er t.a.m. tiltekið að ýmis áhyggjuefni séu nú uppi varðandi ástand lífríkis í Mývatni. Hafi sjónum verið beint að næringarefnamengun, og þá sérstaklega frá fráveitum, sem hugsanlegum orsakavaldi. Erfitt sé að fullyrða um slíkt. Nýlegt mat á innstreymi næringarefna, niturs (köfnunarefnis) og fosfórs í Mývatn, sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi látið vinna, virðist ekki benda til þess að hlutur fráveitna sé mjög hár, en að langstærstur hluti næringarefna berist í vatnið með náttúrulegu lindarvatni og með niturbindingu blábaktería. Gefi mælingar ekki nægilega skýra mynd af þróun mála í gegnum tíðina til að rekja megi breytingarnar með neinni vissu til fráveitna eða aukningar á næringarefnamengun af mannavöldum á síðustu árum.

Úrskurðarnefndin telur ljóst að um afar viðkvæmt svæði sé að ræða og að margt bendi til að komið sé að þolmörkum lífríkis þess, þótt ástæður þess séu e.t.v. ekki að fullu ljósar. Að mati nefndarinnar leiðir skortur á þekkingu þó síst til þess að hægt sé að álykta að ekki sé þörf á mati á umhverfisáhrifum. Í því sambandi er rétt að benda á að starfrækt er náttúru-rannsóknastöð við Mývatn, sbr. 7. gr. laga nr. 97/2004, og er hlutverk hennar skv. 2. mgr. lagagreinarinnar að stunda rannsóknir á náttúru og lífríki Mývatns og Laxár. Nánar er kveðið á um hlutverk náttúrurannsóknarstöðvarinnar í 3. gr. reglugerðar nr. 664/2012 um Náttúru-rannsóknastöðina við Mývatn. Er þar m.a. tilgreint að hún eigi að afla vísindalegrar þekkingar sem nýtist við verndun svæðisins í víðum skilningi og að í því felist m.a. að rannsaka orsakasamhengi í vistkerfi Mývatns og Laxár og kanna áhrif af umsvifum manna. Skipulagsstofnun leitaði þó hvorki umsagnar nefndrar stofnunar né Náttúrufræðistofnunar Íslands. Umsögn þeirrar síðarnefndu, sem aflað var við leyfisveitingu Umhverfisstofnunar, virðist þó hafa legið fyrir Skipulagsstofnun á einhverjum tíma. Þá var ekki vikið að ákvæðum náttúruverndarlaga í hinni kærðu ákvörðun.

Hvað varðar áhrif framkvæmdarinnar á lífríki Mývatns var í engu vikið að mögulegum áhrifum hennar á votlendissvæði eða fuglalíf. Verður ekki séð að litið hafi verið til þátta eins og sammögnunar ólíkra umhverfisþátta og/eða hugað að samhengi þeirra við framkvæmdir sem þegar hafa átt sér stað á svæðinu og fyrirhugaðar eru. Þá var fullt tilefni til að fjalla um samgöngur vegna framkvæmdarinnar og áhrif þeirra, enda kemur fram í ákvörðuninni að gert sé ráð fyrir tilteknum fjölda bílastæða. Loks var, svo sem áður er lýst, full ástæða til að horfa til þolmarka svæðisins.
Að öllu framansögðu virtu, og að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem fram koma í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og þeirra hagsmuna sem lögum um verndun Mývatns og Laxár er ætlað að gæta, og koma m.a. fram í því að óheimilt er að valda spjöllum eða raski á lífríki, jarðmyndunum og landslagi á landsvæði því sem um ræðir, telur úrskurðarnefndin að rökstuðningi hinnar kærðu matsskylduákvörðunar sé verulega áfátt, auk þess sem vafi leiki á því hvort að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir Skipulagsstofnun við ákvörðunartökuna. Verður ákvörðunin því felld úr gildi.

Hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu, enda fellur það utan valdheimilda hennar. Verður því ekki fjallað frekar um aðrar kröfur kæranda vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt að kæra nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni.
Kærandi er umhverfisverndarsamtök og byggir kæruaðild sína á greindu ákvæði. Samkvæmt a-lið fyrrnefndrar 3. mgr. 4. gr. er m.a. unnt að kæra til úrskurðarnefndarinnar ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt lögum nr. 106/2000. Þá er samkvæmt b-lið heimilt að kæra ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir þau lög. Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að í 3. mgr. 4. gr. sé afmarkað hverjir eigi kæruaðild. Annars vegar sé um að ræða stjórnvaldsákvarðanir sem lúti almennum reglum stjórnsýsluréttarins og hins vegar stjórnvaldsákvarðanir, þar sem kærendur þurfi ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni, t.d. umhverfisverndarsamtök. Er m.a. tekið fram að undir a-lið ákvæðisins falli ákvarðanir um matsskyldu, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, og að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda sbr. b-lið. Það sé því eðlilegt að kæruaðild vegna ákvarðana sem tilgreindar séu í a- og b-lið haldist í hendur. Undir b-lið falli leyfi vegna framkvæmda sem matsskyldar séu skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum. Hér undir falli m.a. tilkynningarskyldar framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum.

Með hliðsjón af því sem rakið er að framan um ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og lögskýringargögnum er ljóst að það er forsenda kæruaðildar skv. b-lið ákvæðisins að fyrir liggi ákvörðun Skipulagsstofnunar á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 um að tiltekin framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Úrskurðarnefndin hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að felld verði úr gildi sú ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. nóvember 2016 að framkvæmdir þær sem um ræðir í máli þessu skuli ekki sæta mati á umhverfisáhrifum. Þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun þess efnis að mat á umhverfisáhrifum skuli fara fram telst kærandi hvorki eiga aðild að kæru um lögmæti hins umdeilda leyfis Umhverfisstofnunar um leyfi til framkvæmda né vegna ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa um að samþykkja byggingu títtnefnds hótels, þótt ljóst sé að grundvöllur þeirra leyfisveitinga sé brostinn. Verður þeim hluta málsins vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. nóvember 2016 um að bygging hótels í landi Grímsstaða í Skútustaðahreppi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Vísað er frá kröfum kæranda um ógildingu á leyfi Umhverfisstofnunar frá 4. nóvember 2016 fyrir hótelbyggingu á lóðinni Flatskalla í landi Grímsstaða og á samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 5. s.m. um leyfi til að reisa þriggja hæða hótel á fyrrgreindri lóð.

Nanna Magnadóttir

            
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                   Ásgeir Magnússon

70/2017 Vegamótastígur

Með
Árið 2017, miðvikudaginn 6. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli, Vegamótastíg 7 og 9.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júní 2017, er barst nefndinni 3. júlí s.á., kæra A, Grettisgötu 3, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 að veita byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 í Reykjavík. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 17. júlí 2017.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Í kjallara skyldu vera bílastæði. Á lóðunum var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelrýmis eða fyrir sambærilega starfsemi. Þá var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða til nota fyrir nefndar lóðir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli á Vegamótastíg 7 og 9 auk kjallara á tveimur hæðum. Með úrskurði, uppkveðnum 31. mars 2017, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun úr gildi á þeim forsendum að fjöldi hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis færi gegn gildandi deiliskipulagi. Þá var einnig vísað til þess, í nefndum úrskurði, að eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða, handan götu, sem ekki var sérstaklega ætlað að þjóna starfsemi viðkomandi byggingar, uppfyllti ekki kröfur gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um bílastæði fyrir hreyfihamlaða.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. maí 2017 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða sambyggðum byggingum á lóðum 7 og 9 við Vegamótastíg ásamt kjallara á tveimur hæðum. Gert er ráð fyrir gististað í flokki V á efri hæðum og veitingasal fyrir allt að 130 gesti á fyrstu hæð og í efri kjallara og tveimur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í neðri kjallara hússins ásamt geymslurými.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að ástæður kæru þessar séu þær sömu og hafi verið í kæru vegna fyrra byggingarleyfis, dags. 31. janúar 2017. Við bætist þó að borað hafi verið í útvegg eignar kærenda og að stór göt hafi myndast í klöpp undir húsinu. Málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi verið ábótavant þar sem ekki hafi verið rætt við kærendur um nauðsyn þess að bora í húsvegg fasteignar þeirra. Hæð bygginga verði sem nemur tveimur til þremur hæðum fleiri en hús að Grettisgötu 3 og hver hæð virðist vera mun hærri en í húsi kærenda. Af þessum hæðarmun muni myndast mikið skuggavarp og útsýni skerðast.

Byggingarmagn sé hámarkað með nýtingarhlutfalli upp á 4,9. Til samanburðar megi nefna að nýtingarhlutfallið sé víða í Skuggahverfinu um 2,0 og fari upp í rúma 4,5 þar sem það sé hæst, en þar standi 17-19 hæða hús. Þá muni ónæði skapast vegna endalauss umgangs ferðamanna. Skortur verði á bifreiðastæðum þar sem ferðamenn séu oftast á bílaleigubílum. Ónæði verði vegna veitingastaðar með næturopnun sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í deiliskipulagi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að hin kærða samþykkt byggingarfulltrúa verði staðfest. Málsmeðferð byggingarleyfisins hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Nýbygging á lóð nr. 7 við Vegamótastíg muni standa upp við gafl húss kærenda að Grettisgötu 3 en samkvæmt teikningum muni verða sett einangrun upp að gafli hússins en gafl nýbyggingarinnar muni ekki verða festur beint við gafl á húsi kærenda. Líklegast þurfi að setja festingar á gaflinn fyrir einangrun en sér brunagafl verði settur á Vegamótastíg nr. 7. Verktaki beri ábyrgð á framkvæmdum og gildi þar almennar reglur um skaðabótarrétt.

Áhyggjur vegna hugsanlegra tímafrekra framkvæmda séu skiljanlegar, en í gildi sé samþykkt borgarráðs frá 1. september 1998, sem kveði á um að utanhúss- og lóðarfrágangi skuli vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis að viðlögðum dagsektum. Minnt sé á að í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir nýbyggingu á lóðinni og hafi breytingin hvorki meiri áhrif á framkvæmdatíma né rask á meðan á framkvæmdum standi en vera myndi samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í gildi sé reglugerð um hávaða nr. 724/2008 sem hafi það að markmiði að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða. Reglugerðin gildi fullum fetum um verklegar framkvæmdir, en í viðauka með henni séu sett fram sérstök takmörk fyrir hávaða vegna framkvæmda á íbúðarsvæðum og í nágrenni þeirra.

Hið umþrætta byggingarleyfi sé í samræmi við það deiliskipulag sem það byggi á varðandi hæð húss. Algeng salarhæð atvinnuhúsnæðis sé 3,2-3,5 m en íbúða 2,7-2,9 m og felst hæðarmunur nýbyggingarinnar og húss kærenda þá helst í þessum hæðarmun.

Í skipulagi svæðisins sé gerð grein fyrir því að hvers konar framkvæmdum sé stefnt og hvernig þær falli að landnotkun á tilteknu svæði. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé reiturinn á Miðborgarkjarna M1a. Á svæðinu gildi almennar miðborgarheimildir. Lengsti opnunartími veitingastaða sé til kl. 03:00 um helgar og á almennum frídögum og þar megi heimila allar tegundir veitingastaða í flokki I-III að skemmtistöðum undanskyldum. Engin sérstök notkun sé bundin við húsið í deiliskipulagi. Hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við bæði aðal- og deiliskipulagið. Samkvæmt framansögðu sé fyrirhugað hús að Vegamótastíg 7-9 á því skipulagssvæði Reykjavíkurborgar þar sem gert sé ráð fyrir margvíslegri og fjölnota nýtingu húsnæðis.

Skilgreining skipulagshönnuða á fjölda hæða í fyrirliggjandi byggingarleyfi sé eins og kveðið sé á um í deiliskipulaginu, þ.e. kjallari og fimm hæðir. Þar sem þarna sé mikill landhalli á vesturlóðamörkunum, við Vegamótastíg, hafi hann verið tekinn út með því að skilgreina jarðhæð með mikilli lofthæð, 2×2,8 m, sem að hluta til hafi verið gert ráð fyrir að væri með milligólfi sem yrði jarðhæð við Grettisgötu. Þessi jarðhæð, þrátt fyrir að vera að hluta til á tveimur hæðum, sé í deiliskipulaginu skilgreind sem ein jarðhæð, sbr. skilmálateikningar á gildandi deiliskipulagi, Grettisgata að norðan og Vegamótastígur að austan. Halda megi því fram að þessi skilgreining á jarðhæð sé óhefðbundin, en sé engu að síður sannanlega notuð í þessu tilfelli og sé húsið, samkvæmt byggingarleyfisumsókn, því ótvírætt í samræmi við gildandi deiliskipulag lóðanna.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að hinn 16. maí sl. hafi byggingarfulltrúi samþykkt takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum og hafi framkvæmdir alfarið tekið mið af því og að unnt verði að uppfylla þá skilmála sem deiliskipulagið kveði á um. Þau atriði sem kærendur nefni séu hæð hússins, skuggavarp og nýtingarhlutfall. Öll þessi atriði varði ákvæði deiliskipulags en kærufrestur vegna þess sé löngu liðinn. Deiliskipulagið heimili fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði og hótel eða sambærilega starfsemi. Engin rök séu sett fram af kærendum um að verið sé að brjóta ákvæði deiliskipulags og skilmála lóðarinnar. Engin áform hafi verið tekin um veitingastað með næturopnun eins og kærendur gefi í skyn. Um starfsemi veitingastaða gildi sérstakar reglur sem borgaryfirvöld framfylgi. Þá fullyrði kærendur að húseignin Grettisgata 5 hafi þegar orðið fyrir tjóni án þess að það sé tilgreint sérstaklega. Valdi framkvæmdaraðili nágrönnum tjóni geti þeir sem fyrir því verði sótt bætur eftir almennum reglum en eigi ekki rétt á ógildingu framkvæmdaleyfis.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli með kjallara á tveimur hæðum að Vegamótastíg 7 og 9.

Í bílakjallara byggingarinnar er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða. Er það í samræmi við kröfur töflu 6.03 í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð, en þar kemur fram að ef fjöldi bílastæða á lóð annarra bygginga en falli undir 5. og 6. mgr. er ákvarðaður í skipulagi skal lágmarksfjöldi bílastæða vera skv. töflu 6.03, þ.e. tvö bílastæði fyrir umræddar byggingar. Hins vegar kemur fram í töflu 6.02 í sömu grein að við veitingastaði með 101-200 sæti skuli vera tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða að lágmarki en samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir veitingasal á tveimur hæðum með samtals 130 sætum. Ekki verður séð að gert sé ráð fyrir þeim bílastæðum á eða við umræddar lóðir. Skortir því á að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við byggingarreglugerð og gildandi skipulag eins og kveðið er á um í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Á lóð nr. 7 við Vegamótastíg var yfirlýsingu þinglýst í október 2007. Með henni var sett kvöð á nýtingu lóðar nr. 7 þess efnis að húsið á aðliggjandi lóð, Laugavegi 18b, fái rými fyrir allt að 8 sorptunnur á lóðinni að Vegamótastíg 7 og umgengnisrétt þar að lútandi. Nýbygging á lóð nr. 7 skuli jafnframt háð kvöð um að nægt rými verði fyrir brunastiga og flóttaleið frá 1.-5. hæð á bakhlið Laugavegs 18b. Brunastiginn mun nánar tiltekið standa í norðaustur horni lóðarinnar að Vegamótastíg 7. Meðfylgjandi þessari yfirlýsingu var uppdráttur sem sýndi útlínur byggingarreits Vegamótastígs 7. Nýbyggingin má þannig ekki liggja upp að bakhlið Laugavegs 18b á þeim kafla sem fyrirhugaður brunastigi á að vera. Samkvæmt hinu samþykkta byggingarleyfi mun byggingin á Vegamótastíg 7 liggja þétt að byggingum nr. 18a og 18b að Laugavegi.

Í skilmálum gildandi deiliskipulags sem tekur til lóðanna Vegamótastígs 7 og 9 segir: „Á lóðunum verða byggingar sem verða alls 5 hæðir, efsta hæð verður inndregin sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð verður undir húsunum.“ Þar er og tekið fram að „Einnar hæðar kjallari verður undir húsunum og verður hann notaður fyrir bílastæði.“ Samkvæmt þeim aðaluppdráttum sem samþykktir voru af byggingarfulltrúa hinn 9. maí 2017 verður kjallarinn undir húsunum á tveimur hæðum. Í neðri kjallara er gert ráð fyrir bílastæðum o.fl. og í efri kjallara er gert ráð fyrir veitingasal fyrir allt að 80 gesti. Liggur því fyrir að byggingarleyfið fer í bága við skilmála skipulagsins hvað varðar fjölda hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis. Samkvæmt gr. 9.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eru millipallar sem eru án brunahólfandi veggja að undirliggjandi hæð alltaf sjálfstæð hæð þegar stærð þeirra er yfir 50% af flatarmáli undirliggjandi hæðar, meiri en 200 m2 í notkunarflokki 1 eða meiri en 100 m2 í öðrum notkunarflokkum.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli með kjallara á tveimur hæðum að Vegamótastíg 7 og 9.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

54/2017 Hvammsskógur Skorradal

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2017, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 24. apríl 2017 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir göngustíg í Hvammsskógi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. maí 2017, er barst nefndinni sama dag, kæri eigandi lóðarinnar Hvammsskógur 32, þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 24. apríl 2017 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir göngustíg í Hvammsskógi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Skorradalshreppi 22. júní 2017.

Málavextir: Svæðið sem um ræðir er frístundabyggð í landi Hvamms í Skorradal. Með deiliskipulagi Hvammsskógar, sem samþykkt var árið 2002 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 4. mars það ár, var gert ráð fyrir 23 frístundahúsum á skipulagssvæðinu og þremur stígum frá vegi að Skorradalsvatni. Tveir stígar austan og vestan megin við frístundahúsabyggðina, sem áttu að vera slökkviliðsbílafærir, og einn minni göngustígur milli lóða nr. 30 og 32. Kærandi keypti lóð nr. 32 við Hvammsskóg árið 2014.

Á aðalfundi félags sumarhúsaeigenda í Hvammi, sem haldinn var 19. maí 2016, var samþykkt að lagt yrði nett og að mestu hulið einstigi í stígstæðið milli lóða nr. 30 og 32 samkvæmt skipulagi að fengnu framkvæmdaleyfi skipulagsaðila.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 2. ágúst 2016 var umsókn félagsins um framkvæmdaleyfi tekin fyrir. Var málinu frestað þar sem ákveðið var að kanna hvort hægt væri að leita sátta við lóðarhafa sitt hvoru megin við göngustíginn. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 4. apríl 2017 var málið tekið fyrir að nýju. Kom fram að fullnægjandi framkvæmdaleyfisgögn hefðu borist 31. janúar s.á. og að fyrirhugaður göngustígur væri í samræmi við gildandi deiliskipulag. Málið hefði verið kynnt fyrir lóðarhöfum lóða nr. 30 og 32 með tölvupósti sama dag. Lagði skipulags- og byggingarnefnd til að hreppsnefnd samþykkti framkvæmdaleyfið, sem hún og gerði á fundi sínum 24. apríl s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að í fyrsta lagi muni fyrirhugaður göngustígur liggja um lóð hans. Lóðin sé 0,68 hektarar samkvæmt stofnskjali en verði stígurinn lagður muni lóð hans skerðast um 137 m2. Í erindi hreppsnefndar komi fram um þetta atriði að með hliðsjón af gögnum sem fylgt hafi athugasemdum kæranda „að það landsvæði sem fyrirhugað er að fari undir stíginn sé ekki inn á lóð Hvammskóga 32 eins og haldið er fram af hálfu eiganda lóðarinnar“. Ekki verði séð að nein mæling eða rannsókn hafi farið fram af hálfu hreppsnefndar um þetta atriði. Þá bendi kærandi á að afstöðumynd sem hafi fylgt framkvæmdaleyfisumsókn sé röng þar sem lóðin sé sögð 0,72 hektarar. Þá séu hæðarmælingar í umsókn einnig rangar.

Í öðru lagi byggi kærandi á því að ákvörðun um að heimila umræddan göngustíg fari gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Ekki sé nægilegt að gerð sé grein fyrir umræddri framkvæmd í skipulagi heldur þurfi ákvörðun um að heimila göngustíginn einnig að vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Því sé haldið fram að lagning göngustígsins sé nauðsynleg þar sem hann sé mikilvæg flóttaleið niður að vatni. Kærandi hafni þessu. Vegir allra bústaða á þessu svæði, m.a. vegur á lóð kæranda, séu fullnægjandi flóttaleiðir sem allir geti nýtt sér ef til þess kæmi. Þá byggi kærandi á því að þetta sjónarmið sé andstætt skilmálum í deiliskipulagi fyrir efra svæði frá 2002 þar sem komi fram að einvörðungu tveir stígar, þar með ekki sá sem liggi um lóð kæranda, þurfi að vera bílfærir fyrir slökkvilið þannig að það komist í vatn ef með þurfi.

Í þriðja lagi sé lagning göngustígsins andstæð gildandi deiliskipulagi og hefði því átt að synja um útgáfu framkvæmdaleyfis, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki sé gert ráð fyrir tröppum í gildandi deiliskipulagi fyrir neðra svæði frá 2002, einvörðungu stíg. Geti tröppurnar ekki talist vera stígur.

Í fjórða lagi byggi kærandi á því að það hefði þurft að breyta deiliskipulagi efra svæðis til að tækt hefði verið að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Deiliskipulag vegna efra svæðis taki einnig til neðstu ræmunnar við Skorradalsvatn þar sem endinn á fyrirhuguðum göngustíg muni enda. Á uppdrætti sem fylgi umsókn sé sýnt að göngustígur endi við lóðarmörk á lóð kæranda innan deiliskipulags vegna neðra svæðis. Á hinn bóginn sé samkvæmt umsókninni gert ráð fyrir tröppum „frá neðri enda göngustígs að fjöru við Skorradalsvatn, niður 3 m háan bakka“. Verði því að telja að uppdráttur með framkvæmdaleyfisumsókn sé villandi þar sem hann muni auðsjáanlega ná út fyrir lóð kæranda inn á annað deiliskipulagssvæði.

Í fimmta lagi liggi fyrir að ekki hafi verið aflað samþykkis kæranda við að láta eign sína af hendi til að heimila göngustíg um hana. Þá hafi sveitarstjórn ekki gripið til þeirra úrræða um eignarnám sem sé að finna 50. gr. skipulagslaga.

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að við skoðun á skjali því sem kærandi hafi látið útbúa megi sjá að það sé ekki útbúið sérstaklega í því skyni að mæla lóð hans með tilliti til þess að lagður yrði göngustígur þar. Þannig sýni skjalið stærð lóðar kæranda og stærð lóðarinnar Hvammsskógur 30 að teknu tilliti til fyrirhugaðs göngustígs auk þess að byggingarreitur lóðar sé færður inn á hana. Ekkert komi hins vegar fram á skjalinu um stærð þess svæðis sem fari undir fyrirhugaðan göngustíg.

Þá bendi sveitarfélagið jafnframt á að á framangreindu skjali séu tilgreind hornhnit lóðar kæranda. Ef skipulagsskilmálar deiliskipulags Hvammsskógs frá janúar 2002 séu skoðaðir megi sjá hornhnit lóðarinnar. Á þeirri mynd sé lóð kæranda hnitsett með sama hætti og á umræddu skjali, þ.e. hornhnit lóðar og byggingarreitur með sömu númerum. Telji sveitarfélagið að með vísan til þess megi alveg eins halda því fram að umrætt skjal sýni aðeins rétta stærð lóðar kæranda samkvæmt hnitaskrá og yfirlitsmynd í gildandi deiliskipulagi.

Sveitarfélagið telji framangreint skjal alls ekki sýna fram á það sem kærandi haldi fram, heldur hafi tilgangur þess verið að sýna raunstærð lóðarinnar vegna kaupa á henni árið 2014. Þá sé ekki hnitaskrá á skjalinu auk þess sem loftmynd á því sé ekki í kvarða. Geti kærandi því ekki byggt neinn rétt í málinu á margumræddu skjali.

Í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga komi fram að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við eigi. Miðað við orðalag greinarinnar telji sveitarfélagið ljóst að ekki þurfi alltaf að líta til ákvæða laga um náttúruvernd þegar tekin sé ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis þegar tekið sé mið af gildissviði laganna skv. 1. gr. þeirra. Sveitarfélagið telji af þeirri ástæðu að náttúruverndarlög hafi ekki átt við um þá framkvæmd sem fyrirhuguð sé og því hafi ekki þurft að líta til þeirra þegar ákveðið hafi verið að veita leyfið.

Hvað varði afstöðumynd með framkvæmdaleyfisumsókn þá sé það rétt að hún tilgreini ranga stærð lóðarinnar Hvammsskógur 32. Það atriði telji sveitarfélagið hins vegar að hafi ekki nein áhrif á efnislega meðferð málsins þar sem myndin sé skýr hvað varði fyrirhugaða legu stígsins. Þá hafi skipulags- og byggingarnefnd farið á vettvang ásamt skipulagsfulltrúa og hafi það verið mat þeirra að ekki hafi verið þörf á ítarlegum hæðarmælingum þar sem framkvæmdaleyfið yrði skilyrt þannig að stígurinn skyldi fylgja hæðarlegu lands eins og kostur væri og yfirborð hans skyldi aldrei liggja hærra en sem nemi 20-30 cm frá yfirborði lands.

Sveitarfélagið telji að í kærunni sé ekki sýnt fram á það með hvaða hætti það hafi verið ómálefnalegt af hálfu hreppsnefndar að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi sem hafi verið í samræmi við skipulagsáætlun sem hafi verið í gildi á svæðinu í 15 ár og vísi í því skyni til 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi þar sem segi:  „Framkvæmdaleyfi skal vera gefið út á grundvelli deiliskipulags“.

Þá sé bent á hjálögð framkvæmdaleyfisgögn en þar komi fram að fyrirhugað sé að þrep verði innfelld í vatnsbakkann niður að fjöru við Skorradalsvatn. Telji sveitarfélagið að fyrirhuguð aðferð við gerð umræddra þrepa, þ.e. að þau séu innfelld í vatnsbakkann, geri það að verkum að framkvæmdin rúmist innan óbreytts deiliskipulags þar sem enginn skipulagslegur munur sé í raun á stíg niður bakkann og innfelldum þrepum. Þá sé í kæru tekið fram að breyta hefði þurft deiliskipulagi efra svæðis vegna fyrirhugaðs göngustígs þar sem það deiliskipulag taki einnig til neðstu ræmunnar við Skorradalsvatn þar sem fullyrt sé að stígurinn muni enda. Vegna þessa bendi sveitarfélagið á að þó halda megi því fram að stígurinn muni ná inn á svæði sem skilgreint sé sem fjara í deiliskipulagi efra svæðisins þá sé fjaran flokkuð sem útivistarsvæði fyrir almenning í því deiliskipulagi. Telji sveitarfélagið því að lagning stígsins sé í samræmi við báðar skipulagsáætlanir hvað þetta varði.

Samkvæmt stofnskjali lóðar hafi verið gert ráð fyrir umræddum göngustíg frá upphafi. Við kaup kæranda árið 2014 hafi gildandi deiliskipulag verið í gildi um tólf ára skeið. Þá telji sveitarfélagið að yfirlýsingar aðila sem ekki séu aðilar að kærumálinu, sem kærandi hafi lagt fram til stuðnings kæru sinni, hafi ekkert gildi í málinu þar sem í þeim komi fram sjónarmið um það hvort kaupsamningar lóðanna nr. 30 og 32 við Hvammsskóg hafi verið réttilega efndir. Bent sé á að úr slíkum atriðum verði ekki leyst fyrir úrskurðarnefndinni heldur þurfi kærandi að fara með slík umkvörtunarefni fyrir dómstóla til úrlausnar.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kemur fram að gert sé ráð fyrir göngustíg á milli lóða nr. 30 og 32 í Hvammsskógi í gildandi deiliskipulagi frá árinu 2002. Hinn 5. júlí 2016 hafi þinglýstir lóðarpunktar framangreindra lóða verið mældir út í viðurvist fulltrúa eigenda beggja lóða ásamt fulltrúa stjórnar Félags sumarhúsaeigenda í Hvammi. Í ljós hafi komið að lóðarmörk lóðanna nái ekki saman, þ.e. að á milli lóða nr. 30 og 32 sé tveggja metra breitt bil. Mælingin hafi að fullu verið í samræmi við gildandi deiliskipulag. Þetta tveggja metra svæði sé í eigu landeiganda á Hvammi sem hafi gefið leyfi sitt fyrir lagningu göngustígsins samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 24. apríl 2017 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir göngustíg í Hvammsskógi.

Hinn 8. júlí 2016 sótti félag sumarhúsaeigenda í Hvammi um framkvæmdaleyfi það sem um er deilt í þessu máli. Með umsókninni fylgdu hönnunargögn sem sýndu fyrirhugaða framkvæmd og afstöðu hennar gagnvart aðliggjandi byggð og landi skv. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Þá var einnig lögð fram greinargerð með lýsingu framkvæmdar og rökstuðningi fyrir umsókninni og hvernig að framkvæmdinni yrði staðið. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 2. ágúst s.á. var umsóknin tekin fyrir og óskað eftir frekari gögnum. Hinn 4. apríl 2017 voru á fundi nefndarinnar lögð fram frekari gögn og framkvæmdaleyfið samþykkt. Á fundi hreppsnefndar Skorradalshrepps 24. s.m. var afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar staðfest.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi Hvammsskógar er gert ráð fyrir göngustíg milli lóða nr. 30 og 32 í Hvammsskógi. Sumarið 2003 lagði landeigandi Hvamms fram tillögu að breytingu á skipulaginu sem felldi út göngustíginn. Sú breyting öðlaðist aldrei gildi og kemur því ekki til skoðunar í þessu máli. Í þeim gögnum sem fylgdu hinni samþykktu framkvæmdaleyfisumsókn er gert ráð fyrir því að lagt verði ofan á núverandi yfirborð allt að 30 cm þykkt malarlag. Er því ljóst hver hækkun yfirborðs jarðar verður að mestu og hefur röng hæðarsetning í gögnum ekki áhrif þar um. Í gögnunum kemur einnig fram að breidd stígsins verði um 80 cm og að hann muni liggi milli fyrrnefndra lóða. Framkvæmdaleyfisumsókninni fylgdi sá hluti deiliskipulagsuppdráttar er sýndi göngustíginn þar á milli og er lóð kæranda þar réttilega tilgreind 0,68 ha. Í deiliskipulaginu eru lóðir hnitsettar og er þar gert ráð fyrir um 2 m ræmu á milli lóða nr. 30 og 32. Rúmast því stígurinn þar á milli og er leyfið hvað þetta varðar í samræmi við skipulag. Þurfti ekki frekari rannsóknar við hvað það varðaði. Þá skal tekið fram að í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að hlutverk nefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Ágreiningur um bein eða óbein eignarréttindi verður því ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur eftir atvikum fyrir dómstólum. Verður því ekki fjallað frekar um þær málsástæður kæranda sem lúta að skerðingu eignarréttar hans.

Fram kemur hins vegar í gögnum málsins að umþrættur göngustígur muni fara suður fyrir mörk lóðanna nr. 30 og 32, niður að Skorradalsvatni. Á gildandi skipulagsuppdrætti kemur þó skýrlega fram að aðeins er gert ráð fyrir því að hinn umræddi göngustígur nái jafn langt suður og áðurnefndar lóðir. Að þessu leyti fullnægir hið kærða framkvæmdaleyfi ekki áskilnaði 1. málsl. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga um samræmi við skipulagsáætlanir. Varðar það ógildingu, en að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga  nr. 37/1993 verður hið kærða framkvæmdarleyfi þó eingöngu fellt úr gildi að þeim hluta er varðar göngustíginn þar sem hann fer suður fyrir mörk lóðanna nr. 30 og 32 í Hvammsskógi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 24. apríl 2017 um að veita framkvæmdarleyfi fyrir göngustíg í Hvammsskógi, að því er varðar þann hluta göngustígsins sem fer suður fyrir mörk lóðanna nr. 30 og 32 í Hvammsskógi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

81/2017 Hótel í landi Grímsstaða

Með
Árið 2017, mánudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2017, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 18. júlí 2017 um að veita tímabundið starfsleyfi fyrir hóteli og veitingasölu, Fosshóteli Mývatni, í landi Grímsstaða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júlí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 18. júlí 2017 að veita Íslandshótelum tímabundið starfsleyfi fyrir hóteli og veitingasölu, Fosshóteli Mývatni, í landi Grímsstaða.

Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt krefst hann þess að réttaráhrifum hennar verði frestað á meðan meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni stendur. Verður málið nú tekið til efnislegrar meðferðar og verður því ekki tekin sérstök afstaða til seinni kröfunnar.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra 1. ágúst 2017.

Málsatvik og rök: Á árinu 2016 var byggt hótel á lóðinni Flatskalla í landi Grímsstaða. Með umsókn, dags. 9. maí 2017, var sótt um starfsleyfi fyrir hótelinu, veitingasal og bar og tiltekið að starfsemi myndi hefjast 1. júní s.á.

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 6. júlí 2017, í kærumáli nr. 161/2016, var felld úr gildi sú ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. nóvember 2016 að bygging hótels í landi Grímsstaða skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Stofnunin tilkynnti framkvæmdaraðila með bréfi, dags. 7. júlí 2017, að hún hefði ákveðið að hefja undirbúning að töku nýrrar matsskylduákvörðunar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerðar sama efnis.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, í umboði heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra, veitti tímabundið starfsleyfi fyrir umsóttu hóteli og veitingasölu 18. júlí 2017 með gildistíma til 15. september s.á. Er það sú ákvörðun sem mál þetta snýst um.
   
Kærandi heldur því fram að hin kærða ákvörðun varði framkvæmdir er falli undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Óheimilt hafi verið að gefa út hið kærða starfsleyfi, en hvorki hafi legið fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að framkvæmdin sé ekki matsskyld né álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum. Skilyrði 1. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 hafi því ekki verið uppfyllt er hið kærða leyfi hafi verið veitt. Skýrt sé að tilvitnuð ákvæði gildi fullum fetum um hið kærða starfsleyfi. Þá hafi ekki verið gætt að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga auk þess sem ákvörðunin hafi ekki verið rökstudd með viðhlítandi hætti. Skilyrði séu til að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, enda séu framkvæmdirnar ekki aðeins yfirvofandi heldur séu þær hafnar með starfrækslu hótelsins.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra tekur fram að frestun réttaráhrifa sé afar íþyngjandi fyrir rekstraraðila. Það hafi verið mat eftirlitsins að rétt væri að gefa Skipulagsstofnun ráðrúm til að undirbúa töku nýrrar matsskylduákvörðunar að loknu lögboðnu umsagnarferli.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomna kæru, en athugasemdir hans hafa ekki borist úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, að kæra t.d. ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr. Kærandi er umhverfisverndarsamtök og byggir kæruaðild sína á undantekningunni frá þeirri meginreglu að lögvarða hagsmuni þurfi til kæruaðildar.

Í athugasemdum með áðurnefndri 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er m.a. tekið fram að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Starfsleyfi teljast leyfi til framkvæmda, sbr. f-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, og gilda lögin um framkvæmdir sem falla undir ákvæði laganna, sbr. 2. gr. þeirra. Svo sem fram hefur komið var matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar vegna hótels þess sem hér um ræðir felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 161/2016 og mun Skipulagsstofnun taka nýja ákvörðun um hvort að framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum. Þar sem sú ákvörðun liggur ekki enn fyrir og kærandi á ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu leyfisveitingu telst hann ekki eiga aðild að kærumáli þessu.

Með hliðsjón af framangreindu verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (Sign.)

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (Sign.)                               Ásgeir Magnússon (Sign.)

107/2015 Þorrasalir

Með
Árið 2017, miðvikudaginn 6. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2015, kæra á synjun um að beita þvingunarúrræðum vegna innkeyrslu að bílgeymslu Þorrasala 13-15 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi að veita byggingarleyfi fyrir sama fjöleignarhúsi 13. nóvember 2012.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. nóvember 2015, er barst nefndinni 25. s.m., kærir húsfélag Þorrasala 9-11 þá ákvörðun „byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar að neita að beita heimild 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 til þess að láta fjarlægja innkeyrslu að bílageymslu Þorrasala 13-15, sem ekki samrýmist deiliskipulagi“ og ákvörðun byggingarfulltrúans frá 13. nóvember 2013 að samþykkja lóðarteikningu fyrir sama fjöleignarhús. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 1. febrúar 2016 og í ágúst 2017.

Málavextir: Á svæðinu sem um ræðir er í gildi deiliskipulag Hnoðraholts og Smalaholts frá árinu 2006. Því hefur í tvígang verið breytt vegna þeirra húsa sem deilt er um í þessu máli. Árið 2008 var gert ráð fyrir fjölgun íbúða við Þorrasali 1-15 og að bílastæðum yrði komið fyrir í niðurgröfnum bílageymslum og á þaki þeirra, en að öðru leyti var vísað til gildandi skipulagsskilmála. Í almennum skipulagsskilmálum frá árinu 2006 var m.a. tekið fram hver aðkoma yrði að Hnoðraholti og í skilmálum fyrir svæði 15, Þorrasali 13-15, sem og fyrir svæði 16, Þorrasali 9-11, kom fram að á skilmálateikningu og mæliblöðum væru sýnd dæmi um staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílageymslum, en hönnuðum væri heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu. Þá kom fram á skýringarmyndum fyrir nefnd svæði tillaga að staðsetningu niðurgrafinna bílageymslna. Með deiliskipulagsbreytingu árið 2009 var leyfilegt byggingarmagn sömu lóða aukið, byggingarreitir færðir til suðurs og austurs og byggingarreitir niðurgrafinna bílageymslna stækkaðir til norðurs. Var á skipulagsuppdrætti sýnt samþykkt deiliskipulag, tillaga að deiliskipulagi sem auglýst hafði verið, sem og tillaga að deiliskipulagi með breytingu eftir auglýsingu, og var aðkoma Þorrasala 13-15 þar sýnd með öðrum hætti en í áður samþykktu deiliskipulagi.

Umsókn um byggingarleyfi fyrir Þorrasali 9-11 var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Kópavogi 10. júlí 2012 og var húsið byggt á árinu 2013 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Kópavogi 13. nóvember 2012 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir Þorrasali 13-15. Ári síðar, eða 13. nóvember 2013, samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi lóðarteikningu með byggingarnefndarteikningum fyrir Þorrasali 13-15.

Með bréfi, dags. 3. apríl 2015, fór stjórn húsfélags Þorrasala 9-11 fram á að bæjarstjórn Kópavogsbæjar myndi endurskoða samþykktar teikningar og að innkeyrsla að bílakjallara Þorrasala 13-15 yrði færð ofar samkvæmt teikningu. Því var hafnað af Kópavogsbæ með bréfi, dags. 29. s.m. Áttu sér stað um sumarið viðræður milli aðila um útfærslu á lausn málsins, en ekki náðist sátt með þeim. Með bréfi, dags 28. september s.á., fór lögmaður f.h. húsfélags Þorrasala 9-11 fram á það við skipulagsfulltrúa Kópavogsbæjar að lagt yrði fyrir byggingarleyfishafa eða eigendur að fjarlægja innkeyrslu að bílageymslu Þorrasala 13-15. Var erindið lagt fram á fundi skipulagsnefndar 5. október 2015 og vísað til bæjarlögmanns. Erindinu var synjað með bréfi starfsmanns Kópavogsbæjar, dags. 17. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að gildandi deiliskipulag fyrir Þorrasali 5-15 frá desember 2009 sýni innkeyrslu að bílageymslu Þorrasala 13-15 á allt öðrum stað en lóðarteikning sem samþykkt hafi verið af byggingarfulltrúanum í Kópavogi 13. nóvember 2013. Sumarið 2015 hafi verið framkvæmt í samræmi við þá lóðarteikningu. Breytt staðsetning innkeyrslu hafi leitt af sér verulegt tjón fyrir kæranda. Þar sem áður hafi verið göngustígur milli húsanna sé nú bílvegur sem nái langt inn á lóðamörk kæranda, en gagnist aðeins íbúum Þorrasala 13-15. Veruleg hljóð- og ljósmengun sé af bifreiðunum sem þar sé ekið um. Verst séu áhrifin fyrir þær íbúðir Þorrasala 9-11 sem snúi að innkeyrslunni, þar megi fólk búast við ljóskasti frá bílljósum inn í stofu til sín reglulega allan sólarhringinn.

Kópavogsbær hafi í bréfum sínum til húsfélagsins vísað til skipulagsskilmála í upphaflegu deiliskipulagi frá árinu 2006, en þar komi fram eftirfarandi: „Á skilmálateikningu og mæliblöðum eru sýnd dæmi um staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílageymslum, en hönnuðum er heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu.“ Sé fullyrt í bréfi, dags. 17. nóvember 2015, að af framangreindu verði „ekki annað ráðið en að staðsetning innkeyrslunnar á deiliskipulagsuppdrættinum sé til leiðbeiningar. Hafi því ekki verið óheimilt að breyta staðsetningu á innkeyrslunni“. Um þetta skuli sagt að í fyrsta lagi verði ekki séð að nein lagaheimild standi til þess að deiliskipulag geti veitt slíkt svigrúm til breytinga, sem ummæli þessi í skipulagsskilmálum gefi til kynna. Í öðru lagi, þótt í deiliskipulagi hafi verið heimilað að gera tillögu að annarri staðsetningu innkeyrslu sé ekki þar með sagt að hana hafi mátt staðsetja hvar sem væri. Í þriðja lagi hafi byggingarfulltrúinn í Kópavogi þegar samþykkt lóðarteikningu fyrir Þorrasali 9-11 hinn 1. júlí 2012. Þar sé teiknaður upp malbikaður stígur milli húsanna, en ekki gert ráð fyrir akvegi. Í fjórða lagi hafi breytingin, sem gerð hafi verið þegar teikningar hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa 13. nóvember 2013, aldrei verið kynnt kæranda.

Kærandi hafi fyrst orðið var við framkvæmdir vegna innkeyrslunnar sumarið 2015. Hafi hann þá haft samband við Kópavogsbæ sem eftir viðræður við verktaka hafi boðið að reisa vegg milli húsanna. Sú lausn hafi ekki hugnast kæranda þar sem veggurinn yrði innan lóðamarka hans og þar sem áður hafi verið göngustígur með fallegum gróðri, yrði nú bílvegur sem aðeins gagnaðist íbúum Þorrasala 13-15. Í samskiptum sínum við Kópavogsbæ hafi kæranda aldrei verið veittar leiðbeiningar um að unnt væri að kæra ákvarðanir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þegar lögmaður kæranda hafi fengið málið í hendurnar hafi hann ritað bréf til byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar, dags. 28. september 2015, þar sem þess hafi verið krafist að beitt yrði heimild 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til þess að láta fjarlægja innkeyrsluna. Því bréfi hafi ekki verið svarað fyrr en 17. nóvember s.á. af bæjarlögmanni. Í ljósi þess að kærandi hafi ekki orðið var við framkvæmdir fyrr en sumarið 2015 og aldrei fengið kæruleiðbeiningar frá Kópavogsbæ í samræmi við stjórnsýslulög, byggi kærandi á því að kærufrestir séu ekki liðnir.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda kemur fram að í gildi sé deiliskipulagið Hnoðraholt – Smalaholt, sem tekið hafi gildi 9. október 2006. Tvær breytingar hafi verið gerðar á umræddu deiliskipulagi og hafi þær tekið gildi 18. mars 2008 og 25. janúar 2010. Báðar breytingar hafi tekið til lóða nr. 1-15 við Þorrasali og hafi falist í þeim tilfærsla á byggingarreitum, hækkun húsa, fjölgun íbúða og stækkun á bílageymslu. Greindar deiliskipulagsbreytingar hafi ekki falið í sér breytingar á öðrum skilmálum, t.d. þeim er varði bílastæði, innkeyrslur eða aðkomu. Gildi því skilmálar upphaflega deiliskipulagsins um önnur atriði en þau sem deiliskipulagsbreytingarnar taki til. Í skipulagsskilmálum deiliskipulagsins frá 2006 sé lóðin nr. 13-15 skilgreind sem svæði 15. Um það svæði gildi sérákvæði og segi í 7. kafla þeirra „Á skilmálateikningu og mæliblöðum eru sýnd dæmi um staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílageymslum, en hönnuðum er heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu.“ Umræddar teikningar fyrir fjöleignarhús á lóðinni nr. 13-15 séu í samræmi við framangreinda skilmála.

Deiliskipulag sé skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hér sé því um að ræða áætlun en ekki bindandi stefnu. Verði ekki séð að ákvæði skipulagslaga taki fyrir að settir séu leiðbeinandi skilmálar. Engin þörf hafi verið á að gera breytingu á gildandi deiliskipulagi til að heimila breytta aðkomu, enda sé heimild fyrir því í skilmálum gildandi skipulags.

Ekki sé hægt að fallast á þá staðhæfingu kæranda að það bindi hendur byggingarfulltrúa að samþykkja teikningar fyrir lóð nr. 9-11 við Þorrasali þar sem teiknaður sé malbikaður stígur milli húsanna en ekki gert ráð fyrir akvegi. Umrædd kvöð um gegnumakstur hafi verið í gildi allt frá árinu 2006. Samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki þurfi byggingaráform og þar af leiðandi teikningar að vera í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 1. mgr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Deiliskipulagsuppdrættir séu því rétthærri lóðarteikningum. Að auki sé sú teikning sem kærandi vísi til lóðaruppdráttur sem sé séruppdráttur. Ef mismunur myndast á milli séruppdrátta og aðaluppdrátta gildi aðaluppdráttur. Á aðaluppdrætti fyrir lóð nr. 9-11 sé umrædd kvöð tekin fram. Kvöðin sé án takmarkana. Rétt sé að á byggingarnefndarteikningum sé innkeyrslan sunnar en gert sé ráð fyrir á deiliskipulagsuppdrætti. Hafi verið um nauðsynlega breytingu að ræða sökum hæðarmunar á bílageymslum.

Hvað varði þá ábendingu að samþykktar teikningar fyrir lóð nr. 13-15 hafi ekki verið kynntar fyrir íbúum Þorrasala 9-11 þá hafi það ekki verið nauðsynlegt. Teikningarnar hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag og hafi því ekki hvílt nein lögbundin skylda á byggingarfulltrúa að kynna umræddar breytingar fyrir íbúum fjöleignarhúss aðliggjandi lóðar.

——-

Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hafði byggingarleyfishafi selt velflestar eignir í húsi því sem um ræðir. Með hliðsjón af því, sem og 13. gr. i.f. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þótti ekki ástæða til að leita eftir athugasemdum leyfishafa eða þeirra sem leiddu rétt sinn frá honum.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 13. nóvember 2013 að samþykkja lóðarteikningu fyrir Þorrasali 13-15. Einnig er deilt um þá ákvörðun að neita að beita þvingunarúrræðum vegna innkeyrslu að bílgeymslu fjöleignarhússins.

Byggingarleyfi er skilgreint svo í 5. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að það feli m.a. í sér samþykkt aðal- og séruppdrátta. Lóðarteikningar teljast til séruppdrátta og í máli því sem hér um ræðir var slík teikning samþykkt af byggingarfulltrúa réttu ári eftir samþykkt byggingaráforma ásamt aðaluppdráttum, og var aðkomu að húsinu í engu breytt með lóðarteikningunni. Með hliðsjón af greindri skilgreiningu og atvikum málsins verður að líta svo á að kærð sé veiting byggingarleyfis fyrir fjöleignarhúsinu Þorrasalir 13-15.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kæranda varð kunnugt um tilvist byggingaleyfisins eða mátti af aðstæðum vera ljóst hvert efni þess væri hvað varðaði aðkomu að fjöleignarhúsinu, svo sem af framkvæmdum við bygginguna. Eins og fram kemur í málavöxtum var leyfið samþykkt 13. nóvember 2012, en í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er byggingarár hússins tilgreint 2015. Verður ekki fullyrt að kæranda hafi verið kunnugt um hvernig aðkomu að bílageymslu lóðar Þorrasala 13-15 yrði háttað fyrr en á aðalfundi sínum 29. mars 2015, en þá fól fundur húsfélagsins stjórn sinni að gera athugasemdir við teikningar og samþykktir á aðkomunni. Tók lögmæltur kærufrestur að líða frá þeim degi. Kærandi leitaði þá þegar í stað til bæjaryfirvalda í Kópavogi með þá kröfu að samþykktar teikningar yrðu endurskoðaðar og að innkeyrsla yrði færð. Í kjölfarið fóru fram bréfaskipti milli bæjarins og kæranda auk þess sem haldnir voru fundir til að leita lausna. Fór kærandi m.a. fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar en hafnaði tillögum bæjarins um aðgerðir vegna aðkomu. En þær tillögur fólu þó ekki í sér að aðkoman yrði færð til samræmis við kröfur kæranda. Áttu þessi samskipti sér stað allt til loka júnímánaðar. Lögmaður kæranda beindi á ný kröfum fyrir hans hönd til bæjarins með bréfi, dags. 28. september 2015. Var þess krafist að 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga yrði beitt og innkeyrsla að bílageymslu Þorrasala 13-15 yrði fjarlægð þar sem framkvæmdin bryti í bága við skipulag. Í svarbréfi Kópavogsbæjar frá 17. nóvember s.á. er kröfum kæranda hafnað og barst úrskurðarnefndinni kæra í máli þessu 25. s.m., eða tæpum sjö mánuðum frá lokum kærufrests.

Kemur þá til skoðunar hvort að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tl. sama lagaákvæðis. Um 1. tl. segir í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að nefna megi sem dæmi að lægra sett stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Um 1. mgr. segir að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Ljóst er að úrlausn kærumáls þessa varðar ekki einungis hagsmuni kæranda heldur einnig byggingarleyfishafa Þorrasala 13-15 og eigendur þess húss. Það verður þó ekki framhjá því litið að kæranda var í engu leiðbeint um kæruleið eða kærufresti í samskiptum sínum við Kópavogsbæ. Báru öll samskipti þó þess merki að kærandi var síður en svo sáttur við svör bæjarins. Eins og hér stendur sérstaklega á verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar á grundvelli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 4. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal setja deiliskipulag fram á skipulagsuppdrætti ásamt skipulagsgreinargerð og skal fara um deiliskipulagsbreytingu eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Samkvæmt deiliskipulagi Hnoðraholts og Smalaholts frá árinu 2006 var á ákveðnum svæðum heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílageymslum en sýnd er á skilmálateikningu og mæliblöðum. Svo sem nánar er lýst í málavöxtum var deiliskipulaginu breytt að því er varðaði Þorrasali 1-15 á árunum 2008-2009. Í deiliskipulagsbreytingu árið 2008 var að öðru leyti vísað til gildandi deiliskipulagsskilmála, en sams konar tilvísun var ekki að finna í deiliskipulagsbreytingu árið 2009. Í þeirri breytingu var á skipulagsuppdrætti sýnd breytt aðkoma frá því sem sýnt var á skipulagsuppdrætti árið 2006, en ekki var gerð grein fyrir breyttri aðkomu eða ástæðu hennar í greinargerð. Verður að telja að með þessu hafi bæjarstjórn Kópavogsbæjar í skjóli skipulagsvalds síns tekið ákvörðun um breytta aðkomu, eftir atvikum að tillögu skipulagshönnuðarins, eins og hún er sýnd á skipulagsuppdrætti samþykktum 30. desember 2009. Var enda deiliskipulagsbreytingin sett fram á uppdrætti og í greinargerð í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Mátti kærandi, sem og aðrir, því treysta því að afgreiðsla bæjarins á tillögu að breyttu deiliskipulagi svo sem það var samþykkt og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda væri endanleg að öllu óbreyttu, enda í engu getið um fyrri skilmála þess efnis að tillögu mætti gera að annarri staðsetningu. Gengur breytingin þannig framar eldri sérskilmálum þess efnis að hönnuðum væri heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu aðkomu að bílageymslu.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu fullnægir hið kærða byggingarleyfi, sem gerir ráð fyrir aðkomu sem ekki er í samræmi við samþykktan skipulagsuppdrátt frá 2009, ekki áskilnaði 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga um samræmi við skipulagsáætlanir. Varðar það ógildingu, en að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga verður hið kærða byggingarleyfi þó eingöngu fellt úr gildi að þeim hluta er varðar aðkomu bílageymslu.

Í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga kemur fram að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða brjóti hún í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem leyfisveitanda eru veittar sömu heimildir. Í nefndri reglugerð er leyfisveitandi skilgreindur sem það stjórnvald sem gefur eða á að gefa út byggingarleyfi samkvæmt reglugerðinni. Er jafnframt tekið fram að þar sé um að ræða byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags eða Mannvirkjastofnun, sbr. 48. tl. gr. 1.2.1. í nefndri reglugerð.

Samkvæmt ótvíræðu orðalagi tilvitnaðra ákvæða mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar er byggingarfulltrúum, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, falið það vald að taka ákvörðun um hvort umræddum þvingunarúrræðum verði beitt í hverju tilviki. Kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða var beint til skipulagsfulltrúa Kópavogsbæjar, en vísað var til nefndrar 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga og „þess krafist að byggingarfulltrúi leggi fyrir byggingarleyfishafa eða eigendur að fjarlægja mannvirkið“. Hins vegar verður ekki séð að krafa kæranda hafi komið til kasta byggingarfulltrúa. Þess í stað var erindið lagt fram á fundi skipulagsnefndar 5. október 2015 sem vísaði málinu til bæjarlögmanns án þess að tilgreina hvort það væri til ráðgjafar eða afgreiðslu. Með bréfi bæjarins frá 17. nóvember s.á., sem undirritað var af starfsmanni hans, var tekið fram að ekki væri hægt að verða við kröfu kæranda um að láta fjarlægja innkeyrslu að bílageymslu Þorrasala 13-15 og var vísað til þess að hvorki væri um óleyfisframkvæmd að ræða né bryti hún í bága við skipulagsskilmála svæðisins. Væru skilyrði 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga því ekki uppfyllt. Bar bréfið þannig með sér að ákvörðun bæjarins í málinu lægi fyrir, en að teknu tilliti til tilvitnaðs ákvæðis mannvirkjalaga er ljóst að starfsmaður bæjarins hafði hvorki almenna heimild né stöðuumboð til töku þeirrar ákvörðunar, enda ekki um að ræða ákvörðun sem varðaði daglegan rekstur eða þjónustu sveitarfélagsins, sbr. og 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Leiðir sú valdþurrð til ógildingar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 13. nóvember 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir Þorrasali 13-15, að því er varðar aðkomu í bílageymslu.

Felld er úr gildi synjun Kópavogsbæjar frá 17. nóvember 2015 um að beita þvingunarúrræðum vegna innkeyrslu að bílgeymslu Þorrasala 13-15.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

 

58/2017 Bæjargarður Gervigrasvöllur Garðabær

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 22. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson  varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir voru tekin mál nr. 58 og 59/2017, kærur á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 9. maí 2017, sem samþykkt var í bæjarstjórn 18. s.m., um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð gervigrasvallar á svæði vestan Hraunholtslækjar í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. maí, 1., 2., og 21. júní 2017, sem bárust nefndinni samdægurs, kæra eigendur, Túnfit 1, ásamt sex íbúum við Túnfit, Lækjarfit og Hraunhóla, og eigendur, Túnfit 2, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 9. maí 2017, sem samþykkt var í bæjarstjórn 18. s.m., að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð gervigrasvallar á svæði vestan Hraunholtslækjar í Garðabæ. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Hinn 3. mars 2017 tóku gildi breytingar á deiliskipulagi skóla- og íþróttasvæðis við Ásgarð og deiliskipulagi Bæjargarðs í Garðabæ vegna tiltekinna íþróttamannvirkja. Í kjölfarið samþykkti bæjarstjórn hinn 18. maí 2017 umsókn bæjarverkfræðings um leyfi til framkvæmda við gerð tveggja nýrra æfingavalla og til breytinga á núverandi æfingavelli á Ásgarðssvæði og í Bæjargarði. Var framkvæmdaleyfi gefið út 19. s.m. Eru þar heimilaðar framkvæmdir við jarðvinnu, yfirborðsfrágang og gerð lagna. Í leyfinu er tekið fram að það nái ekki til breikkunar núverandi æfingavallar og tilfærslu ljósamastra sem deiliskipulagsbreyting geri ráð fyrir. Hefur fyrrgreind samþykkt bæjarstjórnar fyrir framkvæmdum á svæðinu verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Kærendur vísa til þess að heimilaðar framkvæmdir í Bæjargarði fari í bága við gildandi aðal- og deiliskipulag og kynningu framkvæmdaáforma fyrir íbúum hafi verið ábótavant. Breytingarnar muni hafa aukna umferð í för með sér, sem sé ærin fyrir, er skapi hættuástand. Framkvæmdir séu nú þegar í fullum gangi og séu miklir hagsmunir af því að þær verði stöðvaðar á meðan gengið sé úr skugga um lögmæti kærðrar ákvörðunar.

Af hálfu Garðabæjar er á því byggt að hið kærða framkvæmdaleyfi eigi stoð í gildandi skipulagsáætlunum og hafi þær verið verið kynntar lögum samkvæmt við breytingar þær sem gerðar hafi verið á skipulagi svæðisins. Ekkert tilefni sé því til að stöðva framkvæmdirnar sem einungis lúti að jarðvegs- og yfirborðsframkvæmdum.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta þeim til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Fyrir liggur að framkvæmdir þær sem hafnar eru og útgefið framkvæmdaleyfi tekur til fela einungis í sér jarðvegs- og yfirborðsframkvæmdir, sem einar og sér hafa óveruleg grenndaráhrif, en stöðvun þeirra á þessu stigi er til þess fallin að valda framkvæmaleyfishafa fjártjóni. Eru nefndar framkvæmdir þess eðlis að unnt er að koma umræddu svæði í fyrra horf án mikillar fyrirhafnar. 

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða auk eðlis, umfangs og áhrifa umdeildra framkvæmda, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun þeirra. Verður kröfu þar að lútandi hafnað en frekari framkvæmdir eru á áhættu leyfishafa. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, sem heimilaðar voru með hinni kærðu ákvörðun er hafnað.
 

Ómar Stefánsson

Aðalheiður Jóhannsdóttir                                   Ásgeir Magnússon

109/2016 Rúv-reitur

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 29. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2016, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júlí 2016 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir svonefndan RÚV-reit og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. desember s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Jaðarleiti 2-8.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 15. ágúst 2016, kæra A, Miðleiti 3, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júlí s.á. að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir svonefndan RÚV-reit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 17. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra húsfélög Efstaleitis 10-14 og Miðleitis 5-7, Reykjavík, jafnframt fyrrgreinda ákvörðun borgarráðs. Með bréfi, dags. 27. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra A ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. desember 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Jaðarleiti 2-8. Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Verða kærumál þessi, sem eru nr. 135/2016 og 40/2017, sameinuð máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Í kæru vegna fyrrgreinds byggingarleyfis er þess jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 30. nóvember 2016 og 20. júní 2017.

Málavextir: Á fundi borgarráðs 14. apríl 2016 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi RÚV-reits, sem nær til reita 1.745.4, 1.745.0 og 1.745.1, sem afmarkast af Listabraut í norðri, Bústaðavegi í suðri, Efstaleiti í vestri og Háaleitisbraut í austri. Var samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Hún var auglýst frá 13. maí til og með 24. júní 2016 og bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 6. júlí s.á. var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 4. júlí s.á., með tillögu að svörum við framkomnum athugasemdum ásamt lagfærðum uppdrætti. Var deiliskipulagstillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi 21. júlí 2016. Tók hið breytta deiliskipulag gildi með birtingu auglýsingar þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 28. september s.á.

Þær breytingar sem gerðar voru með hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun eru m.a. að skipulagssvæðið var stækkað frá eldra skipulagi Efstaleitis 3-9 til suðurs yfir lóð útvarpshússins að Bústaðavegi, sem áður hafði ekki verið deiliskipulögð. Við gildistöku breytts deiliskipulags féll eldra skipulag Efstaleitis 3-9 úr gildi, en ekki voru gerðar breytingar á skilmálum þeirra lóða. Einnig var lóð RÚV, Efstaleiti 1, skipt í minni lóðir og á þremur þeirra heimilað að reisa 361 íbúð.

Hinn 20. desember 2016 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík svo byggingarleyfi á grundvelli hins breytta skipulags, sem fól í sér leyfi til að byggja 71 íbúð í fjórum fjöleignarhúsum, með sameiginlegum 44 stæða bílakjallara á lóð nr. 2-8 við Jaðarleiti.

Málsrök kærenda: Kærendur að Miðleiti 3 mótmæla aukningu byggingarmagns sem heimilað sé í hinu breytta deiliskipulagi. Aukningin sé allt of mikil með tilheyrandi aukinni umferð. Með samþykkt sinni hafi borgaryfirvöld svikið nánast öll loforð sín í samstarfssáttmála meirihluta borgarstjórnar um aukið íbúalýðræði og aðkomu borgarbúa að mikilvægum ákvörðunum. Endanleg tillaga um RÚV-reitinn hafi verið auglýst frá 13. maí til og með 24. júní 2016 og þann tíma hafi teikningar verið til sýnis á jarðhæð í húsakynnum umhverfis- og skipulagssviðs við Borgartún. Starfslið þar hafi ekki getað veitt neinar útskýringar og kærendum hafi ekki verið leyft að fara á efri hæðir hússins til að fá skýringar. Vafi leiki á um það að efni og anda 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið fylgt við málsmeðferð umdeilds skipulags.

Kærendur að Efstaleiti 10-14 og Miðleiti 5-7 byggja kæru sína í fyrsta lagi á því að reglur grenndar- og nábýlisréttar valdi því að hin umþrætta deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt. Réttarreglur þær, sem séu ólögfestar, kveði á um að nágranni verði að sætta sig við tiltekin óþægindi af nábýli við annan aðila, en um leið og óþægindin fari yfir ákveðin þolmörk séu þau orðin ólögmæt. Kærendur leggi jafnframt áherslu á að við skipulagsgerð sé skipulagsyfirvöldum skylt að tryggja réttaröryggi einstaklinga og lögaðila þótt almannahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. gr. skipulagslaga.

Gerðar séu athugasemdir við þann fjölda íbúða og þá miklu þéttingu byggðar sem fyrirhuguð sé í námunda við íbúðir kærenda. Ljóst sé að hin umþrætta skipulagsbreyting muni hafa afgerandi áhrif á íbúa svæðisins, langt umfram það sem þeir hafi mátt vænta samkvæmt áðurgildandi skipulagsáætlunum. Þá verði að telja varhugavert að ráðist sé í svo umfangsmiklar framkvæmdir í þegar grónu hverfi án þess að nauðsyn beri til. Bent sé á að það sé eitt af meginmarkmiðum skipulagslaga að tryggja fyrirsjáanleika og festu við skipulagsgerð.

Í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé sérstaklega vikið að því að taka verði á umferðar- og samgöngumálum við gerð deiliskipulags. Í ákvæðinu segi að í deiliskipulagi svæða í þéttbýli skuli gera grein fyrir því samgöngukerfi sem fyrir sé og fyrirhugað sé samkvæmt aðalskipulagi. Fjallað sé um áhrif uppbyggingar á umferð, staðbundin áhrif og flæði á einstökum götum, hljóðvist og loftgæði í greinargerð með deiliskipulagstillögu fyrir Efstaleiti. Þar segi á bls. 22 að niðurstöður afkastareikninga „gefa til kynna að núverandi gatnakerfi umhverfis reitinn við Efstaleiti þoli vel þá aukningu á umferð sem ætla megi að verði vegna uppbyggingar við Efstaleiti“. Fram komi að við útreikninga hafi m.a. verið gert ráð fyrir breytingu á ferðavenjum frá því sem sé í dag og að miðað hafi verið við 20% fækkun bílferða í samræmi við markmið aðalskipulags. Kærendur geri alvarlegar athugasemdir við þessa umferðarútreikninga því þar hafi verið stuðst við markmið um breytingar á ferðavenjum þegar engin vissa sé fyrir því að slík markmið muni ná fram að ganga. Þvert á móti telji kærendur að af raungögnum frá Hagstofu Íslands, Reykjavíkurborg og Vegagerðinni megi fremur ráða að gera megi ráð fyrir auknum umferðarþunga til framtíðar litið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að aukið byggingarmagn sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Í staðfestu aðalskipulagi borgarinnar hafi RÚV-reitur ávallt verið skilgreindur sem byggingarsvæði. Í fyrsta aðalskipulagi borgarinnar frá 1966 hafi svæðið verið skilgreint sem miðbæjarsvæði, sem hluti hins nýja miðbæjar sem hafi þá verið áformaður í Kringlumýri. Eftir að tekin hafi verið ákvörðun um útvarpshús á svæðinu hafi svæðið milli Bústaðavegar og Listabrautar verið skilgreint í heild sem stofnanasvæði. Við gerð gildandi aðalskipulags hafi verið gerð sú breyting að sá hluti svæðisins sem sé næstur Listabraut hafi verið skilgreindur sem miðsvæði, þ.e. núverandi lóðir ásamt ræmu af lóð útvarpshússins. RÚV-lóðin í heild hafi hins vegar verið skilgreind sem þróunarsvæði, sem gefið hafi vísbendingu um að á svæðinu myndi eiga sér stað þétting byggðar með auknu byggingarmagni, í þá veru sem felist í deiliskipulagstillögunni.

Telji kærendur að deiliskipulagsbreytingin skerði eignarréttindi sín, þ.e. að verðmæti fasteigna þeirra skerðist verulega, umfram það sem eigi við um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, eigi sá sem geti sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Reykjavíkurborg telji að ekki sé verið að skerða eignarréttindi kærenda og vísi þeim ásökunum á bug.

Við mat á umferð vegna nýrrar byggðar á reitnum hafi verið horft til markmiða Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 um breyttar ferðavenjur, en einnig á takmarkaðan fjölda bílastæða og góða staðsetningu reitsins m.t.t. þjónustu og almenningssamgangna. Hafi því verið miðað við að ferðir vegna nýrrar byggðar yrðu 20% færri á hverja íbúð en sé í dag að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu. Í útreikningum sé gert ráð fyrir að umferð vegna núverandi byggðar verði óbreytt. Greiningin sé gerð á hefðbundinn og viðurkenndan hátt þar sem stuðst sé við reiknilíkan umferðar fyrir höfuðborgarsvæðið að teknu tilliti til markmiða aðalskipulags. Til að draga úr umferð einkabíla af völdum fyrirhugaðrar byggðar og auka líkur á notkun annars ferðamáta sé skynsamlegt og rétt að takmarka framboð á bílastæðum. Bústaðavegur sé sú gata sem næst sé deiliskipulagssvæðinu og hafi mesta umferð. Þróun umferðar á þeirri götu sé að langmestu leyti óháð uppbyggingu á deiliskipulagssvæðinu. Hún haldist meira í hendur við þróun umferðar almennt í borginni og uppbyggingu byggðar annarsstaðar. Háaleitisbraut og Listabraut séu safngötur, sem tengi hverfið við stofnbrautir, og sé þróun umferðar þar mest tengd uppbyggingu í hverfinu sjálfu. Umferð í Efstaleiti tengist nær eingöngu umferð innan hverfisins vegna þjónustu við Efstaleiti og íbúðir við Leiti.

Kærendur telji að hávaði og ónæði verði vegna nálægðar við lóðarmörk vegna byggingarframkvæmda. Áhyggjur vegna hugsanlega tímafrekra framkvæmda séu skiljanlegar, en í gildi sé samþykkt borgarráðs frá 1. september 1998, sem kveði á um að utanhúss- og lóðarfrágangi skuli vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis, að viðlögðum dagsektum, sbr. gr. 2.4.7. og 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Vakin sé athygli á því að í gildi sé reglugerð um hávaða nr. 724/2008, sem hafi það að markmiði að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða. Reglugerðin gildi m.a. um verklegar framkvæmdir. Hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við hið breytta deiliskipulag fyrir RÚV-reitinn.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að ekki verði betur séð en að farið hafi verið að öllum reglum og vandað til við breytingu á deili- og aðalskipulagi. Eins og fram komi í greinargerð Reykjavíkurborgar þá hafi reiturinn verið skilgreindur sem byggingarsvæði frá fyrsta aðalskipulagi árið 1966. Aukið byggingarmagn á reitnum sé í samræmi við gildandi aðalskipulag þar sem stefnt sé að þéttingu byggðar.

Nú sé svo komið að leyfishafi hafi fengið, hinn 3. apríl 2017, samþykkt byggingarleyfi til byggingar á 71 íbúð í fjórum fjölbýlishúsum við Jaðarleiti 2-8. Leyfið hafi verið veitt í samræmi við lög nr. 160/2010, um mannvirki og skipulagslög nr. 123/2010. Við afgreiðslu málsins og útgáfu leyfisins hafi verið gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum, sem ekki verður rakið nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júlí 2016 að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir RÚV-reit og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. desember s.á. að samþykkja byggingarleyfi fyrir Jaðarleiti 2-8.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi var kynnt samhliða tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna sama svæðis í samræmi við 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með áðurnefndri aðalskipulagsbreytingu var landnotkun hluta umrædds svæðis breytt úr samfélagsþjónustu í miðsvæði ásamt því að heimilað byggingarmagn hækkaði og heimiluðum íbúðum var fjölgað í allt að 350 í þriggja til fimm hæða fjölbýlishúsum. Þó er í aðalskipulaginu veitt svigrúm til þess að fjölga íbúðum um 20% eða fækka um 10% og fækka hæðum húsa um eina eða fjölga um tvær í deiliskipulagi frá því sem gert er ráð fyrir í aðalskipulaginu en breyting á fjölda hæða skal þá rökstudd sérstaklega.

Deiliskipulagstillagan fékk málsmeðferð í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Með henni er heimilað að reisa allt að 361 íbúð á skipulagssvæðinu í tveggja til sex hæða fjölbýlishúsum. Var því nýttur hluti þess svigrúms sem veitt er í aðalskipulagi. Breyttur fjöldi hæða frá því sem gert er ráð fyrir í aðalskipulaginu var hins vegar ekki rökstuddur sérstaklega í hinu kærða deiliskipulagi, en sá ágalli þykir þó ekki þess eðlis að hann raski gildi skipulagsins.

Samkvæmt ákvæðum skipulagslaga hafa sveitarstjórnir víðtækt skipulagsvald innan marka sveitarfélags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga, og er skipulagsgerð tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Þó ber við töku skipulagsákvarðana að hafa í huga markmið þau sem tíunduð eru í a- til c- liðum 1. mgr. 1. gr. laganna, meðal annars að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, stuðlað sé að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Ljóst er að einhver grenndaráhrif fylgja heimiluðum framkvæmdum samkvæmt umdeildri skipulagsbreytingu, svo sem aukin umferð. Í málinu liggur fyrir minnisblað frá verkfræðistofu um umferðarsköpun og dreifingu umferðar, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að núverandi gatnakerfi umhverfis reitinn þoli vel þá auknu umferð sem ætla megi að verði vegna uppbyggingar við Efstaleiti.

Hið umrædda skipulagssvæði er í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 skilgreint sem miðsvæðið M21, en þar er einkum gert ráð fyrir íbúðum og samfélagsþjónustu, auk verslunar, þjónustu og skrifstofustarfsemi. Meðal markmiða aðalskipulagsins er að þétta byggð, auka fjölbreytni innan núverandi miðkjarna og auka almennt nálægð íbúða og vinnustaða eins og unnt er. Hin kærða skipulagsbreyting er því í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Þá er og fullnægt áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var að öðru leyti í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Skipulagsbreytingin var auglýst til kynningar, framkomnum athugasemdum svarað, brugðist var við athugasemdum, breytingin síðan samþykkt og gildistaka hennar auglýst lögum samkvæmt. Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku, verður gildi leyfisins ekki raskað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júlí 2016 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir RÚV-reit.

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. desember 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Jaðarleiti 2-8.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

5/2017 Háafell – sjókvíeldi

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2017, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um útgáfu starfsleyfis til Háafells ehf. fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Geiteyri ehf. og Akurholt ehf., sem eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, Veiðifélag Laxár á Ásum, Atli Árdal Ólafsson, sem eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi, og Varpland ehf., eigandi hluta veiðiréttar í Langadalsá og Hvannadalsá í innanverðu Ísafjarðardjúpi, ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um útgáfu starfsleyfis til Háafells ehf. fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Ekki var tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda með hliðsjón af því að rekstrarleyfi hefur ekki verið gefið út og framkvæmdir því ekki yfirvofandi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 13. febrúar og í mars og apríl 2017.

Málavextir: Með umsókn til Umhverfisstofnunar, er barst stofnuninni 25. maí 2015, sótti Háafell ehf. um starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski í innanverðu Ísafjarðardjúpi.

Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 27. desember 2013, hafði farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og var matsskýrsla lögð fram í febrúar 2015. Álit Skipulagsstofnunar þar um er frá 1. apríl 2015. Helstu niðurstöður eru dregnar fram í upphafi álitsins þar sem eftirfarandi kemur fram: „Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis [framkvæmdaraðila] í innanverðu Ísafjarðardjúpi felist í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta laxfiskastofna á svæðinu og að regnbogasilungur sem sleppi úr eldi í miklum mæli kunni að hafa neikvæð áhrif á orðspor viðkomandi áa ef hann veiðist þar í umtalsverðu magni. Skipulagsstofnun telur að þó ekki verði fullyrt að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa veruleg neikvæð áhrif á náttúrulega stofna laxfiska í Ísafjarðardjúpi þá renni niðurstöður norskra rannsókna stoðum undir það sjónarmið að fiskeldi [framkvæmdaraðila] auki hættu á laxalúsasmiti í innanverðu Ísafjarðardjúpi, með tilheyrandi hættu á afföllum hjá náttúrulegum stofnum laxfiska.

Fyrir liggur að ekki er vitað til að regnbogasilungur hafi náð að fjölga sér í ám á Íslandi og í eldinu verða eingöngu notaðar hrygnur. Því er ekki talin hætta á því að eldisfiskur geti af sér afkvæmi. Skipulagsstofnun telur að hætta vegna slysasleppinga felist helst í því að regnbogasilungur nái að ganga upp í ár og mögulega smita villta laxastofna með sýklum og sníkjudýrum. Veiðimálastofnun bendir á að þrátt fyrir að dregið hafi úr slysasleppingum í norsku fiskeldi sé strok úr eldi enn mikið vandamál og rannsóknir bendi til að fjórum til fimm sinnum fleiri laxar strjúki úr eldi þar en tilkynnt sé. Fyrir liggur að lax hafi sloppið nýverið úr eldi í Patreksfirði. Skipulagsstofnun telur að þó slysasleppingar eldislax af norsku kyni feli í sér umtalsvert meiri hættu fyrir villtan lax en ef um væri að ræða regnbogasilung, sýni reynslan að hættan sé vissulega til staðar. Að mati stofnunarinnar geta áhrif strokufisks úr eldi [framkvæmdaraðila] orðið óveruleg til nokkuð neikvæð á náttúrulega stofna laxfiska í ám við innanvert Ísafjarðardjúp, sem felst fyrst og fremst í hættu vegna smitsjúkdóma og ræðst af umfangi slysasleppinga. Áhrifin yrðu þó tímabundin og afturkræf.

Skipulagsstofnun tekur undir með [framkvæmdaraðila] og leggur áherslu á að mikilvægt er að staðallinn NS 9415:2009 eða sambærilegar kröfur verði innleiddar hér á landi sem setji m.a. umgjörð um hvernig standa skal að opinberu eftirliti með eldisbúnaði. Skipulagsstofnun tekur jafnframt undir tillögu [framkvæmdaraðila] og Hafrannsóknarstofnunar um að Umhverfisstofnun útbúi flokkunarkerfi um álag af völdum mengunar á sjávarbotni undir sjókvíum og tilsvarandi viðbrögð miðað við niðurstöður vöktunar. Skipulagsstofnun bendir á að nefnd um leyfisveitingar og eftirlit í fiskeldi hefur nýlega lagt til að innleiddar verði kröfur varðandi eldisbúnað sem séu í samræmi við áðurnefndan staðal og einnig verði innleiddur alþjóðlegur staðall vegna eftirlits á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar.

Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja eftirfarandi skilyrði: Eldisbúnaður uppfylli kröfur sem settar séu í staðlinum NS 9415:2009. Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni undir og við eldiskvíar byggi á staðlinum ISO 12878.“

Umhverfisstofnun auglýsti drög að starfsleyfi fyrir Háafell ehf. á tímabilinu 8. apríl til 3. júní 2016. Athugasemdir bárust á auglýsingartíma, m.a. frá einum kærenda, og voru athugasemdir gerðar við að ekki hefði farið fram burðarþolsmat vegna framkvæmdarinnar, fjarlægð eldissvæða frá ósum laxveiðiáa, að umfjöllun um sleppifiska væri ófullnægjandi, að umfjöllun skorti um upplýsingaskyldu til hagsmunaaðila, ábyrgðartryggingu vegna mögulegs umhverfistjóns, skyldu til að merkja hluta af sleppingu og að ekki væri fjallað um þá miklu mengun sem eldið myndi losa út í umhverfið. Loks var bent á ákvæði laga nr. 71/2008 um fiskeldi hvað varðaði gögn um fjármögnun sem fylgja skyldu umsókn um rekstrarleyfi.

Starfsleyfi fyrir fiskeldisfyrirtækið Háafell ehf. til reksturs sjókvíaeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi var gefið út af Umhverfisstofnun 25. október 2016. Með leyfisveitingunni var heimiluð 6.800 tonna ársframleiðsla af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðsla af þorski. Leyfið var birt á heimasíðu stofnunarinnar 23. nóvember s.á. ásamt ódagsettri greinargerð hennar vegna athugasemda þeirra sem borist höfðu á auglýsingatíma starfsleyfistillögunnar og var þar gerð grein fyrir viðbrögðum stofnunarinnar við athugasemdum. Útgáfa starfsleyfisins var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 7. desember 2016.

Málsrök kærenda: Kærendur rökstyðja lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að þeir eigi allir mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki Haffjarðarár, Hvannadalsár, Langadalsár, Þverár og Laxár á Ásum og hinum villtu lax- og silungastofnum ánna, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og mengun frá erlendum og framandi regnbogasilungi, sem enginn mótmæli að muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Víst sé að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg reynsla sýni, að ekki sé minnst á stórfellda saur- og fóðurleifamengun í nágrenni eldiskvíanna.

Umhverfisstofnun hafi ekki gert sér grein fyrir því að meðferð stofnunarinnar á umsókn leyfishafa væri hluti af umhverfismatsferli og að meðferð umsóknarinnar hefði átt að fara fram samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun hafi t.d. ekki tekið með beinum hætti afstöðu til þeirrar spurningar hvort rök væru til þess að hafna leyfisumsókninni, a.m.k. að sinni. Við útgáfu starfsleyfisins hafi stofnuninni borið að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, og kanna og rökstyðja álit sitt á því hvort fullnægjandi rannsókn og greining lægi fyrir á málinu.

Þá hafi Umhverfisstofnun ekki sinnt þeirri skyldu að rannsaka, fjalla um og bera saman aðra þá valkosti sem til greina komi varðandi framkvæmdina, svo sem eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum, minna sjókvíaeldi eða svokallaðan núll-kost (enga framkvæmd), sem hefðu í för með sér minni eða enga skaðsemi fyrir náttúruna og eignir annarra aðila, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 og h-lið 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum.

Óheimilt sé að gefa út starfsleyfi nema fyrir liggi burðarþolsmat Hafrannsóknarstofnunar fyrir viðkomandi sjókvíaeldissvæði. Það hafi ekki farið fram. Aðeins liggi fyrir umsögn sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hafi samþykkt.

Veiðikvíar muni verða í minna en 15 km fjarlægð frá gjöfulum veiðiám, sem samtals hafi meira en 500 laxa meðalveiði, en það sé ólögmætt skv. 4. gr. reglugerðar nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og löndun laxastofna. Hér sé átt við Langadalsá, Hvannadalsá, Laugardalsá, Þverá og enn fremur nokkrar minni veiðiár á svæðinu. Meðalveiði Hvannadalsár og Langadalsár sé 503 laxar og meðalveiði Laugardalsár á sama tímabili sé 347 laxar. Samtals sé því veiði úr þessum ám langt yfir 500 laxa meðalveiði.

Aðeins séu 5 km frá fyrirhuguðum eldiskvíastöðvum í Blævardal að sameiginlegum ósi Hvannadalsár og Langadalsár og álíka fjarlægð sé frá fyrirhuguðum eldiskvíastöðvum við Bæjarhlíð að ósi Laugardalsár. Allar hinar 11 eldiskvíastöðvar, sem fyrirhugaðar séu í innanverðu Ísafjarðardjúpi, séu innan 15 km frá ósi Laugardalsár og sex eldiskvíastöðvar af 11 séu innan 15 km frá ósi Hvannadalsár og Langadalsár. Líta skuli bæði til fjarlægðar eldisstöðva frá veiðiám og veiðiverðmætis innan svæðisins, þ.e. fjarðar eða flóa, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Túlkun Umhverfisstofnunar og útúrsnúningur, varðandi frádrátt 0-160 árlega slepptra fiska frá skráðum veiðitölum, sé fráleitur. Það jafngildi því að telja fiskeldi heimilt við ósa gjöfulla laxveiðiáa svo framarlega sem stórum hluta veiddra fiska sé sleppt, eins og víða sé nú gert.

Í starfsleyfinu sé lítið fjallað á raunhæfan hátt um gífurlegt magn úrgangs frá sjókvíaeldinu. Samkvæmt norskum heimildum sé úrgangur í sjó frá 6.800 tonna eldi áætlaður á við skolpfrárennsli frá 100 þúsund manna byggð. Sjókvíaeldi sé eina matvælaframleiðslan sem sé í framkvæmdinni leyft að demba óátalið öllum úrgangi óhreinsuðum í sjó. Heimil losun fosfórs í hafið sé þó nefnd í lið 3.4 í starfsleyfinu sem 136.000 kg fyrir 6.800 tonna framleiðslu.

Ekkert sé í starfsleyfinu fjallað um upplýsingaskyldu til almennings og hagsmunaaðila um óhöpp eða slysasleppingar. Vísist sérstaklega til ákvæða Árósasamningsins, einkum 4. gr., um upplýsingaskyldu til almennings.

Umhverfisstofnun fari með eftirlit með því að náttúru Íslands sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit sé ekki falið öðrum með sérstökum lögum, sbr. a-lið 2. mgr. 75. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stofnunin hafi því eftirlit með því að ekki sé brotið gegn 1. og 2. gr. náttúruverndarlaga, varúðarreglunni í 9. gr. sem og 63. gr., sem fjalli um innflutning og dreifingu á lifandi framandi lífverum. Þá verði stofnunin að líta til 1. gr. laga nr. 71/2008, þar sem segi m.a. að tryggja skuli verndun villtra nytjastofna, koma skuli í veg fyrir hugsanleg spjöll á þeim og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti slíka stofna. Hvergi sé í starfsleyfinu getið um skyldu leyfishafa skv. 1. mgr. 1. gr. laganna, en þar segi að til að ná markmiði 1. mgr. skuli tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Ekki sé heldur getið um norska staðalinn NS 9415:2009, sem um slík mannvirki fjalli, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1170/2015. Loks skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskistofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 71/2008. Umhverfisstofnun beri við leyfisútgáfu ekki aðeins að skoða mengunarþátt sjókvíaeldis í skilningi laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, heldur beri henni að rannsaka og meta sjálfstætt öll áhrif framkvæmdar á náttúruna.

Við málsmeðferð Umhverfisstofnunar hafi lögvörðum eignarréttindum annarra í engu verið sinnt, enda þótt fyrir liggi, einkum frá Noregi, vísindalegar upplýsingar um víðtæka skaðsemi af starfseminni sem hér um ræði. Alþekkt sé að einungis örfáir eldisfiskar af erlendri og framandi tegund, sem veiðist í lax- eða silungsveiðiá, eyðileggi samstundis ímynd hreinnar og ómengaðrar náttúru og þar með eignarréttindi annarra. Reynslan hér á landi, í Noregi og víðar sýni að eldisfiskur sleppi ávallt úr sjókvíum og ferðist síðan langar leiðir í hafinu áður en hann gangi upp í veiðiár. Eins og sjá megi af hættukorti í fylgiskjali séu öll fiskgeng vatnasvæði landsins innan áhættusvæðis.

Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. stjórnarskrárinnar geti íslensk stjórnvöld ekki afhent eignar- eða afnotarétt af hafsvæði við landið sé ekki fyrir hendi sérstök lagaheimild til hinnar tilteknu ráðstöfunar svæðisins. Við útgáfu starfsleyfisins hafi ekki notið heimildar í settum lögum til afhendingar afnotaréttar hafsins til leyfishafa. Hvergi sé í lögum heimild til handa stjórnvöldum til að stofna til einstaklingsbundinna afnota manna yfir hafsvæðum umhverfis landið. Fyrirhugað athafnasvæði leyfishafa sé utan netlaga og innan landhelgi Íslands. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins sé íslenska ríkið eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nái samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Samkvæmt þessu lagaákvæði fylgi eignarrétti ríkisins eignarráð yfir hafinu á sama svæði. Byggi kærendur á því að stjórnvöld geti ekki afhent einkaréttaraðila eignar- eða afnotaréttindi að nefndu hafsvæði nema sú tiltekna ráðstöfun njóti sérstakrar lagaheimildar.

Útgáfa starfsleyfis fyrir fiskeldi með meira en fimm milljónir fiska af erlendum og framandi regnbogasilungastofni muni að mati kærenda valda verulegum og óafturkræfum skaða á öllum villtum fiskistofnum í öllum ám fjarðarins á stuttum tíma og muni einnig setja í hættu alla villta fiskistofna í öllum veiðiám landsins á fáum árum. Vísist í þessu sambandi til fjölda regnbogasilungsstrokfiska, sem veiðst hafi síðastliðið sumar og haust í ám allt í kringum landið, en þó mest í ám í Ísafjarðardjúpi og á Vestfjörðum. Enginn eldisaðili hafi þó tilkynnt um slysasleppingar.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að til að reka fiskeldi þurfi bæði að hafa til þess starfsleyfi hennar og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun. Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi vegna eldis sjávar- og ferskvatnslífvera á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það sé nánar útfært í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Þá sé fjallað um aðkomu stofnunarinnar við útgáfu starfsleyfa í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, en stjórnsýsla samkvæmt þeim lögum fjalli um rekstrarleyfi og falli undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Matvælastofnun. Í lögum um fiskeldi segi að gæta skuli samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, sem heyri undir það sama ráðuneyti.

Viðfangsefni starfsleyfa fyrir mengandi starfsemi sé einkum að fjalla um mögulega mengun frá atvinnurekstri ásamt því að setja losunarmörk vegna mengunar og verklagsreglur í samræmi við viðkomandi lög og reglugerðir og draga með því úr áhrifum þeirrar mengunar sem óhjákvæmilega verði vegna mengandi atvinnustarfsemi, með það að markmiði að tryggja mengunarvarnir með sjálfbærni að leiðarljósi. Starfsleyfin séu því almennt gefin út til að koma í veg fyrir mengun af völdum atvinnurekstrar og setja rekstraraðilanum skilyrði og kröfur sem eigi að viðhafa í rekstri.

Auk starfsleyfis verði rekstraraðili sem starfræki fiskeldi að vera með rekstrarleyfi frá Matvælastofnun, sbr. 4. gr. a laga nr. 71/2008. Rekstrarleyfi Matvælastofnunar byggi á öðrum efnisatriðum, sem hvíli á öðrum grundvelli. Í lögum nr. 71/2008 sé gert ráð fyrir að unnið sé samtímis að afgreiðslu starfsleyfis Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfis Matvælastofnunar og skuli leyfin afhent samtímis í gegnum stjórnsýslu Matvælastofnunar. Starfsleyfið sé þó sjálfstætt leyfi og byggi útgáfa þess á ákvörðun Umhverfisstofnunar. Þegar ákvörðun stofnunarinnar um útgáfuna sé kærð sé þó mikilvægt að gera greinarmun á því hvaða atriði falli undir regluverk sem fjalli um rekstrarleyfið annars vegar og starfsleyfið hins vegar.

Kærendur byggi á því að meðferð umsóknar um starfsleyfi hafi átt að fara fram samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, eins og þau verði skýrð með hliðsjón af tilskipun 2011/92/ESB. Hafi lögum nr. 106/2000 verið breytt í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Það sé Skipulagsstofnun sem stýri málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 og hafi Umhverfisstofnun umsagnarhlutverk við vinnslu Skipulagsstofnunar. Þannig geti Umhverfisstofnun komið athugasemdum sínum á framfæri í matsferlinu.

Umhverfisstofnun hafi veitt umsögn við tillögu að matsáætlun vegna fiskeldis Háafells ehf., dags. 1. mars 2016. Í umsögninni hafi stofnunin bent á atriði sem hún hafi talið að fjalla þyrfti um, m.a. hvað varðaði lífrænt álag, burðarþolsmat, lífmassa, samlegðaráhrif, slysasleppingar og mögulega erfðablöndun. Við útgáfu hins kærða starfsleyfis starfi stofnunin eftir lögum nr. 7/1998, ásamt reglugerðum settum með heimild í þeim. Stofnunin meti starfsleyfisumsóknir á þeim grunni og leggi sjálfstætt og ítarlegt mat á starfsemina og taki í ferlinu að fullu tillit til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum. Farið sé yfir mat á umhverfisáhrifum í leyfisveitingaferlinu, forsendur og niðurstöður þess og það þannig notað sem grunnur í faglegri vinnslu leyfisins, sem fjallað sé um í greinargerð stofnunarinnar. Umhverfisstofnun hafni því að hafa misskilið eða mistúlkað það ferli sem kveðið sé á um í þeim lögum og reglum sem stofnunin starfi eftir.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 71/2008 skuli burðarþolsmat vera framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða öðrum aðila sem ráðuneytið samþykki, að fenginni bindandi umsögn stofnunarinnar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hafi borist umsögn Hafrannsóknastofnunar og hafi í kjölfarið samþykkt það burðarþolsmat sem lagt hafi verið til grundvallar fyrirhuguðum framkvæmdum í Ísafjarðardjúpi. Burðarþolsmatið hafi verið byggt á niðurstöðum reiknilíkana (FjordEnv og DEPMOD) ásamt LENKA viðtakamati. Niðurstöður þessa mats gefi til kynna að burðarþol fjarðarins sé 13.000 tonn og falli eldið innan þeirra marka. Í síðasta lið í gr. 1.6 í starfsleyfinu sé tekið fram að hægt sé að endurskoða leyfið ef burðarþolsmat svæðisins verði síðar metið of lítið fyrir starfsemina. Burðarþolsmatið hafi verið lagt fram við mat á umhverfisáhrifum og liggi til grundvallar áliti Skipulagsstofnunar. Niðurstaða hennar hafi verið sú, með hliðsjón af umfangi viðtakans og fyrirhuguðum áætlunum um eldi, að áhrif starfseminnar á burðargetu svæðisins yrðu óveruleg og neikvæð áhrif afturkræf. Umhverfisstofnun telji að rétt hafi verið staðið að mati á burðarþoli svæðisins samkvæmt þeim réttarheimildum sem gildi. Í greinargerð sé tekin rökstudd afstaða til mats á umhverfisáhrifum og þar komi fram að stofnunin hafi tekið fullt tillit til niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar.

Í áðurnefndri greinargerð, sem Umhverfisstofnun hafi birt með hinu kærða starfsleyfi, hafi verið farið yfir athugasemdir sem borist hafi á auglýsingatímanum, m.a. athugasemd sem hafi varðað ákvæði í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 105/2000. Það kveði á um að við leyfisveitingar fyrir hafbeitar- og sjókvíastöðvar skuli miða við að þær séu ekki nær laxveiðiám með yfir 100 laxa meðalveiði síðastliðin 10 ár en 5 km. Sé um að ræða ár með yfir 500 laxa meðalveiði skuli fjarlægðin vera 15 km.

Í greinargerðinni segi að meðalveiði í Hvannadalsá og Langadalsá saman, sem séu með sameiginlegan ós, sé yfir 500 laxar á ári sl. 10 ár. Samanlögð meðalveiði þessara tveggja áa síðustu 10 ár (2005-2015) sé 503 fiskar, ef lögð sé saman veiði í báðum ám ár hvert og reiknað út meðaltal síðastliðinna 10 ára, samkvæmt skýrslunni „Lax- og silungsveiðin 2015, VMST/16026“, sem gefin hafi verið út af Veiðimálastofnun. Í báðum ám tíðkist að veiða og sleppa, en fjöldi fiska sem sleppt sé af veiðimönnum í hvorri á fyrir sig sé a.m.k. 0-160 laxfiskar á ári. Talið sé að um 30% af löxum séu endurveiddir. Umhverfisstofnun hafi miðað við að meðalfjöldi veiddra laxa á ári í Langadalsá og Hvannadalsá hafi því verið undir 500 fiskum síðastliðin 10 ár. Athygli sé einnig vakin á því að um tvær ár sé að ræða en ekki eina, en stofnunin hafi verið að bregðast við athugasemd um að miða ætti við meðalveiði í ánum saman. Umhverfisstofnun vísi til skýrslna Veiðimálastofnunar um meðalveiði síðustu 10 ára og geri ráð fyrir að Matvælastofnun líti til sömu upplýsinga þegar og ef komi til rekstrarleyfis fyrir starfseminni, sbr. reglugerð nr. 105/2000.

Í lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði segi að á sé straumvatn frá ósasvæði til upptaka. Ós í sjó sé sá staður þar sem straumur ár hverfi í sjó um stórstraumsfjöru og að ósasvæði sé svæði í straumvatni er nái frá ósi í sjó upp til þess staðar þar sem straumlína hverfi um stórstraumsflæði. Umhverfisstofnun miði við að Hvannadalsá og Langadalsá séu tvær ár. Þótt þær hafi sama ósasvæði séu þær tvö mismunandi straumvötn frá ósi til upptaka ánna. Því sé ekki rétt að miða við meðalveiði á ári í ánum saman, eins og kærandi haldi fram að eigi að gera, heldur verði að miða við meðalveiði í sitthvorri ánni. Þrátt fyrir að umrædd fjarlægðarmörk tilheyri stjórnsýslu Matvælastofnunar og útgáfu rekstrarleyfis fremur en starfsleyfis hafi Umhverfisstofnun talið nauðsynlegt að taka afstöðu til þessa atriðis við afgreiðslu leyfisins, enda hafi skýrar forsendur Veiðimálastofnunar legið fyrir að mati Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun hafni því að hún hafi ekki gætt að lagaskyldum sínum samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 60/2013, einkum 8. gr., við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Meginreglur í II. kafla náttúruverndarlaga hafi að geyma leiðarljós sem stjórnvöldum beri að taka almennt mið af við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana. Að baki séu einnig óskráðar meginreglur umhverfisréttar. Vert sé að benda á í því samhengi að ekki hafi verið sett sértæk viðmið um málsmeðferð ákvarðana varðandi framkvæmd nefndra meginreglna. Umhverfisstofnun telji að hún hafi tekið tilhlýðlegt mið af meginreglum laganna og fylgt ferli við útgáfu starfsleyfis, sem endurspeglist t.a.m. í því að stofnunin hafi, í samvinnu við rekstraraðila, sett inn ákvæði í starfsleyfi um kynslóðaskipt eldi. Þá séu svæði hvíld á milli árganga, en það fyrirkomulag minnki líkur á óæskilegri uppsöfnun lífræns úrgangs undir kvíasvæðum. Mörk séu sett fyrir losun lífræns úrgangs. Enn fremur skuli rekstaraðili leggja fram mæli- og vöktunaráætlanir áður en starfsemi sé hafin, sem Umhverfisstofnun yfirfari og samþykki. Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni undir og við eldiskvíar byggi á staðlinum ISO 12878. Meginreglurnar séu því vegnar inn í það ferli sem fylgi leyfisveitingum stofnunarinnar og byggi á lögum og reglugerðum, m.a. um umhverfismat áætlana og mat á umhverfisáhrifum, og ferli sem varði starfsleyfi fyrir mengandi atvinnurekstur. Stofnunin vinni samkvæmt vöktuðu gæðakerfi, sem ætlað sé að tryggja fagleg vinnubrögð og við gerð ferla séu meginreglur umhverfisréttar hafðar til hliðsjónar.

Varðandi leyfi vegna framandi tegunda þá hafi verið fjallað um leyfi fyrir innflutningi, ræktun og dreifingu lifandi framandi lífvera í 41. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999, sem nú séu fallin úr gildi. Í 4. mgr. þeirrar lagagreinar hafi sagt að ákvæði greinarinnar tækju ekki til m.a. sjávarafla, sbr. lög nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Í 3. gr. þeirra laga segi að lögin gildi m.a. um eldisfisk og sé hann einnig skilgreindur í 2. gr. laganna ásamt hugtakinu sjávarafla.

Allt frá árinu 2012 hafi leyfishafi verið með eldi á regnbogasilungi og séu fjölmörg starfsleyfi hér á landi í gildi þar sem heimild sé til að vinna með regnbogasilung. Við gildistöku nýrra náttúruverndarlaga nr. 60/2013, í október 2015, hafi verið gerðar breytingar á því ákvæði sem fjalli um framandi tegundir. Í 63. gr. þeirra laga sé fjallað um lifandi framandi lífverur og leyfi Umhverfisstofnunar vegna þeirra. Þar hafi verið tekið út ákvæði eldri laganna um að ákvæði um leyfi giltu ekki um sjávarafla, sbr. lög nr. 55/1998. Því megi ætla að ef regnbogasilungur eða lax hefði ekki verið til staðar við Ísland við gildistöku laga nr. 60/2013 hefði þurft að sækja um leyfi fyrir innflutningnum. Hins vegar sé tegundin nú þegar notuð hér við land, sbr. eldri starfsleyfi, og því ekki hægt að tala um leyfisskylda framandi tegund þegar leyfishafi fái leyfi til að auka ársframleiðslu sína um tiltekið magn af eldisfiski, sem hann sé með og hafi verið með í eldi í mörg ár. Einnig megi geta þess að seiðaeldi regnbogasilungs sé starfrækt hér á landi og sé því ekki um innflutning að ræða.

Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 megi ekki láta af hendi afnotarétt af fasteignum landsins nema samkvæmt lagaheimild. Ekki verði séð að afmörkuð hafsvæði utan netlaga geti flokkast undir hugtakið fasteign. Samkvæmt lögum nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, sé íslenska ríkið með fullveldisrétt að því er varði rannsóknir, hagnýtingu, verndun og stjórnun auðlinda, lífrænna og ólífrænna, á hafsbotni og í honum, í hafinu yfir honum svo og aðrar athafnir varðandi efnahagslega nýtingu og rannsóknir innan svæðisins. Í þessu tilviki hafi löggjafinn ákveðið að Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi fyrir eldi sjávarlífvera, sbr. lög nr. 7/1998. Benda megi á auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum sé óheimilt. Stofnunin hafni því að ekki séu fyrir heimildir til að veita rekstraraðilum starfsleyfi til að starfrækja eldi lífvera á haf- og strandsvæðum við Ísland utan netlaga.

Varðandi rökstudda afstöðu Umhverfisstofnunar til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum segi í 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 785/1999 að starfsleyfisskyldur atvinnurekstur sem reglugerðin gildi um sé háður mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum og reglum þar að lútandi og skuli niðurstaða matsins liggja fyrir áður en tillaga að starfsleyfi sé auglýst. Í 23. gr. reglugerðarinnar segi að í starfsleyfistillögu og starfsleyfi skuli taka fullt tillit til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 segi að við úgáfu leyfis til framkvæmdar skuli leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Leyfisveitandi skuli birta opinberlega ákvörðun sína um útgáfu leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar innan tveggja vikna frá útgáfu leyfisins.

Hvorki í lagaákvæðinu né í greinargerð með því séu settar nákvæmar formkröfur fyrir því hvernig leyfisveitandi skuli taka afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, en sagt að leyfisveitandi skuli kynna sér skýrsluna, taka rökstudda afstöðu til hennar og síðan birta opinberlega annars vegar ákvörðun sína um útgáfu leyfis og hins vegar niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar. Það sé Skipulagsstofnun sem stýri málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 og hafi Umhverfisstofnun umsagnarhlutverk við úrvinnslu Skipulagsstofnunar. Þannig geti Umhverfisstofnun komið athugasemdum sínum á framfæri í matsferli Skipulagsstofnunar. Umhverfisstofnun hafi veitt umsögn til Skipulagsstofnunar vegna tillögu að matsáætlun leyfishafa með bréfi, dags. 22. apríl 2014, og vegna frummatsskýrslu framkvæmdaraðila, dags. 22. desember s.á. Í umsögn hafi Umhverfisstofnun bent á atriði sem stofnunin hafi talið að fjalla þyrfti um varðandi umhverfisáhrif hins fyrirhugaða fiskeldis. Gerðar hafi verið athugasemdir við framsetningu á gögnum, fjallað hafi verið um kynslóðaskipt eldi og eldissvæði, eðlisþætti sjávar, súrefni, burðarþol, áhrif á ferðaþjónustu, áhrif á villta laxfiska og annað.

Við útgáfu starfsleyfisins, líkt og annarra starfsleyfa, starfi Umhverfisstofnun eftir lögum nr. 7/1998, og reglugerðum settum með heimild í þeim, ásamt lögum nr. 106/2000 og öðrum viðeigandi lögum, sem snerti efnislega þá þætti sem teknir séu fyrir í viðkomandi starfsleyfi, í þessu tilviki lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Umhverfisstofnun starfi eftir vottuðu gæðakerfi. Farið sé yfir mat á umhverfisáhrifum í leyfisveitingaferlinu og það þannig notað sem grunnur í faglegri vinnu leyfisins. Í því samhengi sé rétt að skoða verkferil Umhverfisstofnunar við vinnslu starfsleyfa, en þar komi skýrt fram hvernig stofnunin nýti og taki fullt tillit til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum. Við gerð starfsleyfistillögu teljist umfjöllun Skipulagsstofnunar, ásamt fullnægjandi umsókn leyfishafa um starfsleyfi, viðkomandi lögum og reglugerðum, skipulagsáætlunum og mati og Umhverfisstofnunar, til helstu gagna starfsleyfisvinnslunnar. Að endingu birti stofnunin síðan ákvörðun um veitt starfsleyfi ásamt niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og fleiri viðeigandi gögnum.

Mat á umhverfisáhrifum leiki samkvæmt framangreindu lykilhlutverk við gerð starfsleyfis og marki því efnislegan ramma. Eins og fram hafi komið komi stofnunin að athugasemdum fyrr í ferlinu, áður en sótt sé um starfsleyfi. Ef niðurstaða Skipulagsstofnunar gefi tilefni til umfjöllunar Umhverfisstofnunar um sérstök atriði, þegar sótt hafi verið um starfsleyfi, þá sé rétt að það komi fram í greinargerð með starfsleyfinu, t.a.m. ef ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda stofnunarinnar við matsferlið eða að stofnunin telji að frekari ráðstafanir þurfi en fram komi í niðurstöðum matsins. Í umræddu máli hafi verið tekið tillit til ábendinga Umhverfisstofnunar við mat á umhverfisáhrifum og hafi stofnunin ekki talið tilefni til að gera sérstakar viðbótarráðstafanir eftir það mat, aðrar en að útfæra skilyrði starfsleyfis í samræmi við niðurstöður þess. Umhverfisstofnun telji sýnt fram á að hún hafi komið á framfæri athugasemdum við mat á umhverfisáhrifum, byggt umrætt starfsleyfi á niðurstöðum matsins og því ítarlega kynnt sér það og notað það sem faglegan grunn í starfsleyfisgerðinni. Loks hafi ákvörðunin um útgáfu starfsleyfisins verið birt opinberlega.

Ekki virðist hafa verið send sérstök umsagnarbeiðni á „hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd“, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Umhverfisstofnun vinni samkvæmt gæðaferli sem byggi á lögum og reglugerðum um útgáfu starfsleyfa fyrir mengandi starfsemi og þar komi fram að slíka umsagnarbeiðni skuli senda við vinnslu starfsleyfistillagna.

Reglugerð nr. 785/1999 hafi verið breytt með reglugerð nr. 214/2014. Með breytingunum sé því slegið föstu að allur atvinnurekstur skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag, a.m.k. aðalskipulag við tilteknar aðstæður. Bein tenging sé því á milli starfsemi og gildandi skipulags og reglugerðin því beinlínis tengd skipulagi og starfssvæði sveitarfélaga. Skoða verði tilgang ákvæðanna í reglugerðinni í því ljósi. Það sem komi til skoðunar í þessu máli sé að um sé að ræða eldi í sjó, sem sé starfsemi utan netlaga, og því utan endimarka sveitarfélaga og starfssvæðis heilbrigðisnefnda. Það sé því óljóst hvort að það sé fortakslaus skylda í málinu að senda umsagnarbeiðni á hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd, þar sem hún sé ekki starfandi á starfssvæði starfseminnar. Hins vegar sé það vilji Umhverfisstofnunar að upplýsa sem mest í öllum málum og því megi telja að það sé eðlilegt að senda umrædd gögn og umsagnarbeiðni á þá heilbrigðisnefnd sem liggi næst því svæði sem um ræði.

Umhverfisstofnun telji, hvort sem það hafi verið fortakslaus skylda eða ekki að senda umsagnarbeiðni á hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd, að ekki sé um annmarka að ræða sem valda ætti ógildingu ákvörðunarinnar um veitingu starfsleyfis. Sé þá haft til hliðsjónar sjónarmið reglugerðar nr. 785/1999 um tengingu starfsemi við skipulag og starfssvæði sveitarfélaga, og þá heilbrigðisnefnda, en einnig að starfsleyfistillaga hafi verið auglýst vel og öllum boðið að gera athugasemdir við hana.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hann hafi skilað inn tilkynningu til Skipulagsstofnunar um framkvæmdina í lok árs 2011. Í umhverfismatsferlinu hafi leyfishafi þurft að svara fjölmörgum athugasemdum Umhverfisstofnunar, eins og lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum geri ráð fyrir, og komi það vel fram í matsskýrslu. Umhverfisstofnun hafi því verið hluti af umhverfismatsferlinu allt frá upphafi.

Varðandi samanburð á mismunandi kostum þá sé framleiðsla á regnbogasilungi upp í sláturstærð í landeldi ekki samkeppnishæf við framleiðslu í hefðbundnum sjókvíum og því hafi ekki verið fjallað sérstaklega um það sem valkost. Tækni til eldis í lokuðum sjókvíum sé ennþá í þróun og sé ekki nægilega örugg fyrir þá útfærslu sem almennt sé unnið að. Ekki sé búið að þróa staðla til að tryggja það að búnaðurinn þoli umhverfisálag á eldissvæðum, eins og hafi verið til staðar fyrir sjókvíaeldisbúnað í meira en 10 ár. Sótt hafi verið um töluvert minni framleiðslu en áætlað burðarþol svæðisins gefi tilefni til og stuðst sé við varfærnar aðferðir við mat á burðarþoli.

Varðandi úrgang frá eldinu þá megi einnig skilgreina hann sem næringu fyrir lífverur í nágrenninu. Aftur á móti geti það haft óæskileg áhrif á lífríkið undir sjókvíunum ef losunin verði of mikil. Til að koma í veg fyrir það hafi verið skilgreind vöktun og viðbrögð, sbr. álit Skipulagsstofnunar. Í matsskýrslu sinni hafi leyfishafi lagt það til að staðallinn ISO 12878 yrði tekinn upp hér á landi og Skipulagsstofnun hafi sett það sem skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis. Fullyrðing kærenda, um að fyrirtæki í sjókvíaeldi séu einu matvælafyrirtækin hér á landi sem leyft sé að demba öllum úrgangi óátalið í sjóinn, standist ekki skoðun.

Varðandi upplýsingaskyldu til almennings þá hafi Umhverfisstofnun bent á að upplýsingaskylda vegna slysasleppinga og óhappa sem tengist þeim heyri undir rekstrarleyfi Matvælastofnunar og tilkynningaskyldu til Fiskistofu.

Í kæru komi fram að Umhverfisstofnun hafi eftirlit með því að ekki sé brotið gegn 1. og 2. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, hinni mikilvægu varúðarreglu 9. gr. laganna, sem og ákvæði 63. gr. um innflutning og dreifingu á lifandi framandi lífverum. Í matsskýrslu vegna framkvæmdarinnar frá því í febrúar 2015 sé fjallað um slysasleppingar á regnbogasilungi, mótvægisaðgerðir og hugsanleg áhrif á villta laxfiskastofna ef eldisfiskur sleppur. Niðurstaðan sé sú að regnbogasilungur muni ekki ná að fjölga sér í ám í Ísafjarðardjúpi og áhrif af strokufiskum séu því óveruleg til nokkuð neikvæð og afturkræf.

Því miður sé alltaf til staðar sú hætta að eldisfiskur sleppi úr sjókvíum, körum og öðrum eldiseiningum, eins og reyndar fylgi öllum rekstri með búfé sem halda eigi innan afmarkaðs svæðis. Kærendur leggi fram hættukort máli sínu til stuðnings til að sýna fram á hættu sem íslenskri náttúru sé búin ef fiskeldisáformin nái fram að ganga og vísað sé í vísindagreinar til að undirbyggja niðurstöður í kortinu. Þær heimildir gefi þó ekki tilefni til að komast að þeirri niðurstöðu sem fram komi á hættukortinu. Frjálslega sé farið með staðreyndir er varði atferli strokufiska, dreifingu laxalúsar og sjúkdómsvalda. Fjallað sé ítarlega um þau atriði í matsskýrslu vegna framkvæmdarinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að gefa út starfsleyfi til framleiðslu á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski á ári í sjókvíum í innanverðu Ísafjarðardjúpi.

Eins og fram kemur í kæru telja kærendur til veiðiréttar, ýmist í heild eða að hluta, eða eru veiðifélag, Haffjarðarár í Hnappadal, Laxár á Ásum og Hvannadalsár, Langadalsár og Þverár í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Kærendur rökstyðja lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að þeir eigi allir mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki framangreindra áa, og þar með hinum villtu lax- og silungastofnum þeirra, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og mengun frá erlendum og framandi regnbogasilungi, sem óumdeilt sé að sleppa muni í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Víst sé að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg reynsla sýni, að ekki sé minnst á stórfellda saur- og fóðurleifamengun í nágrenni eldiskvíanna.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Engir kærenda eru slík samtök og þurfa þeir því að uppfylla framangreind skilyrði kæruaðildar að þeir eigi sérstaka lögvarða hagsmuni í málinu umfram aðra. Haffjarðará er í Hnappadal á Snæfellsnesi. Um er að ræða laxveiðiá sem rennur til sjávar á sunnanverðu nesinu. Laxeldið sem hið kærða starfsleyfi heimilar er í innanverðu Ísafjarðardjúpi fjarri nefndri á. Verður ekki séð með vísan til þessa að þeir kærendur hafi hagsmuna að gæta umfram þá hagsmuni sem almenna má telja. Sama máli gegnir um Veiðifélag Laxár á Ásum, en áin er laxveiðiá í Austur-Húnavatnssýslu, sem rennur í Húnavatn og síðan um Húnaós í Húnaflóa. Þeir almennu hagsmunir veiðiréttarhafa laxveiðiáa á landinu sem kærendur lýsa í kæru sinni nægja ekki einir og sér til kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni, svo sem áður hefur komið fram. Þar sem á þykir skorta að greindir kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild í fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður kröfum þeirra vísað frá úrskurðarnefndinni. Kröfur annarra kærenda verða hins vegar teknar til efnismeðferðar.

Samkvæmt 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. sömu laga. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir slíkum rekstri sé hann talinn upp í fylgiskjali með lögunum, sbr. 1. mgr. 6. gr., en svo er í þessu tilviki, sbr. 11. tl. í fylgiskjali I. Reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, hefur verið sett á grundvelli 5. gr. laga nr. 7/1998. Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum, sbr. gr. 1.1. Umhverfisstofnun er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðar nr. 785/1999 sem snúa að mengunarvörnum. Ber stofnuninni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Í f-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum eru leyfi til framkvæmda skilgreind sem framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og önnur leyfi til starfsemi og framkvæmda samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gilda. Nefndur töluliður kom inn í lög nr. 106/2000 með breytingarlögum nr. 74/2005 og er sérstaklega tiltekið í athugasemdum við liðinn í frumvarpi til þeirra laga að dæmi um framangreind leyfi séu t.d. starfsleyfi Umhverfisstofnunar fyrir starfsemi sem geti haft í för með sér mengun, sbr. lög nr. 7/1998. Er því ótvírætt að Umhverfisstofnun ber einnig að fara að fyrirmælum 13. gr. laga nr. 106/2000 við útgáfu starfsleyfa vegna framkvæmda sem sætt hafa meðferð á grundvelli þeirra laga, en eins og fram kemur í málavaxtalýsingu fór fram mat á umhverfisáhrifum hins fyrirhugaða fiskeldis og er álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslu framkvæmdaraðila dagsett 1. apríl 2015.

Samkvæmt 2. mgr. nefndrar 13. gr. laga nr. 106/2000 skal leyfisveitandi við útgáfu leyfis til framkvæmdar samkvæmt flokki A kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Leyfisveitandi skal birta opinberlega ákvörðun sína um útgáfu leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum innan tveggja vikna frá útgáfu leyfis. Í ákvörðun skal tilgreina kæruheimild og kærufrest þegar það á við. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. fer um málsmeðferð samkvæmt greindri 2. mgr. við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem fellur í flokk B eða C ef fyrir liggur ákvörðun um að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum, en svo á við í máli þessu.

Í greinargerð með lögum nr. 74/2005, þar sem breytt var lögum nr. 106/2000, segir m.a. um 13. gr. að í greininni sé fjallað um allar leyfisveitingar vegna matsskyldra framkvæmda. Samkvæmt henni beri leyfisveitendum að fjalla um álit Skipulagsstofnunar og taka afstöðu til þess og kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila sem því liggi til grundvallar. Sé leyfi veitt þar sem tekið sé á einhverjum eða öllum þáttum með öðrum hætti en fram komi í álitinu þurfi leyfisveitandi þannig að geta fært rök fyrir niðurstöðu sinni. Sé þetta í samræmi við 8. gr. tilskipunar nr. 85/337/EBE eins og henni hafi verið breytt með 10. gr. tilskipunar 97/11/EB. Ákvæðið, sem fjalli um það að niðurstöður mats skuli teknar til athugunar við útgáfu leyfis til framkvæmda, hafi verið túlkað á þann veg að stjórnvaldið skuli, í ákvörðun um útgáfu leyfis til framkvæmda, vísa til framkominna upplýsinga og athugasemda úr matsferlinu og taka afstöðu til þeirra og geta þess sérstaklega hvaða sjónarmið liggi þar að baki. Einnig er ítrekað að leyfisveiting vegna matsskyldra framkvæmda sé í höndum margra stjórnvalda, að í 3. gr. sé leyfi til framkvæmda skilgreint og nefnt í dæmaskyni að Umhverfisstofnun veiti starfsleyfi fyrir starfsemi sem geti haft í för með sér mengun á grundvelli 6. gr. laga nr. 7/1998. Loks er áréttað að lagt sé til að öllum þeim sem veiti leyfi til framkvæmda vegna matsskyldra framkvæmda beri að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og taka rökstudda afstöðu til álits um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Er því hafið yfir allan vafa að sú lagaskylda hvílir á öllum leyfisveitendum að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar sem til umfjöllunar er. Sé framkvæmd háð leyfi fleiri leyfisveitenda verður að líta svo á að þeim beri hverjum og einum að taka slíka rökstudda afstöðu, í það minnsta hvað varðar þeirra fag- eða valdsvið, og eftir atvikum til álitsins í heild sinni. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar til starfrækslu fiskeldisstöðva og því ljóst að á tilgreindum stofnunum hvílir framangreind lagaskylda.

Í rökstuddri afstöðu leyfisveitanda í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 verður að felast efni rökstuðnings sem uppfyllir áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar um. Skal m.a. í rökstuðningnum, að því marki sem ákvörðun byggist á mati, greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við það, sbr. 1. mgr. nefndrar 22. gr. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er í athugasemdum við títtnefnda 22. gr. tekið fram að rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana eigi að meginstefnu til að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. Það fari því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þarf að vera svo að hann uppfylli framangreint skilyrði. Það liggur í hlutarins eðli að því neikvæðari sem afstaða Skipulagsstofnunar er til fyrirhugaðrar starfsemi sem leyfisveitandi hyggst leyfa, þeim mun strangari kröfur verður að gera til þess að hann taki með vönduðum hætti rökstudda afstöðu til álits stofnunarinnar.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu var álit Skipulagsstofnunar þess efnis að helstu neikvæð áhrif fyrirhugaðs fiskeldis fælust í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús bærust frá eldinu í villta laxfiskastofna á svæðinu og að regnbogasilungur sem slyppi úr eldi í miklum mæli kynni að hafa neikvæð áhrif á orðspor viðkomandi áa ef hann veiddist þar í umtalsverðu magni. Áhrif strokufisks úr eldinu gætu orðið óveruleg til nokkuð neikvæð á náttúrulega stofna laxfiska í ám við innanvert Ísafjarðardjúp, sem fælust fyrst og fremst í hættu vegna smitsjúkdóma og réðust af umfangi slysasleppinga. Áhrifin yrðu þó tímabundin og afturkræf. Skipulagsstofnun tók undir tillögu framkvæmdaraðila og Hafrannsóknarstofnunar um að Umhverfisstofnun útbyggi flokkunarkerfi um álag af völdum mengunar á sjávarbotni undir sjókvíum og tilsvarandi viðbrögð miðað við niðurstöður vöktunar. Taldi Skipulagsstofnun að við leyfisveitingar þyrfti að setja þau skilyrði að eldisbúnaður uppfyllti kröfur staðalsins NS 9415:2009 og að vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni undir og við eldiskvíar byggðu á staðlinum ISO 12878.

Þau gögn sem fyrir hendi eru um afstöðu Umhverfisstofnunar til umræddrar leyfisveitingar eru fyrst og fremst starfsleyfið sjálft, sem gefið var út 25. október 2016, en einnig er fyrir hendi ódagsett greinargerð stofnunarinnar með viðbrögðum hennar vegna athugasemda sem bárust á auglýsingatíma tillögu að starfsleyfinu. Greinargerðin var birt á vef stofnunarinnar 23. nóvember s.á. Í starfsleyfinu er hvergi nefnt að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram og að álit Skipulagsstofnunar þar um liggi fyrir. Vikið er að því atriði í svörum Umhverfisstofnunar við athugasemdum í nefndri greinargerð en án nánari tilgreiningar á álitinu, s.s. með dagsetningu eða hvar það sé að finna.

Óumdeilt er að Umhverfisstofnun gaf umsagnir í tilefni af mati á umhverfisáhrifum umrædds fiskeldis og dregur úrskurðarnefndin í sjálfu sér ekki í efa að álit Skipulagsstofnunar hafi verið lagt til grundvallar hinu kærða starfsleyfi. Þannig er t.a.m. gert að skilyrði í starfsleyfinu að vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni undir og við eldiskvíar byggi á staðlinum ISO 12878, svo sem Skipulagsstofnun hafði lagt til. Það verður þó ekki fram hjá því litið að án tilvísunar til nánar tilgreinds álits Skipulagsstofnunar og umfjöllunar um einstök efnisatriði þess, eftir því sem atvik gefa tilefni til, má ekki búast við því að aðili geti skilið hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. Þá er ekki hægt að jafna saman viðbrögðum við athugasemdum sem fram koma við meðferð starfsleyfistillögu skv. lögum nr. 7/1998 við það að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna starfsleyfisskyldrar starfsemi eða framkvæmdar. Er sú greinargerð að auki ódagsett og birt tæplega mánuði eftir útgáfu starfsleyfisins. Einnig er hvorki í starfsleyfi né greinargerð vikið að því atriði sem Skipulagsstofnun fjallar um, og tilgreinir í helstu niðurstöðum sínum, að hún taki undir tillögu framkvæmdaraðila og Hafrannsóknarstofnunar þess efnis að Umhverfisstofnun útbúi flokkunarkerfi um álag af völdum mengunar á sjávarbotni undir sjókvíum og tilsvarandi viðbrögð miðað við niðurstöður vöktunar. Loks er ekki vikið að því hvort að mat á umhverfisáhrifum á mismunandi valkostum framkvæmdarinnar hafi farið fram. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er því ekki hægt að fallast á að Umhverfisstofnun hafi með ásættanlegum hætti tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Fleira er athugavert við undirbúning og meðferð hins kærða starfsleyfis.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var hið kærða starfsleyfi gefið út af Umhverfisstofnun 25. október 2016 og í samræmi við 5. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 var útgáfa leyfisins auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 7. desember s.á. og tiltekið þar hver gildistími starfsleyfisins væri. Eins og áður segir ber Umhverfisstofnun við leyfisveitingu sína að fara að lögum nr. 106/2000 auk laga nr. 7/1998. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. fyrrnefndu laganna skal leyfisveitandi birta opinberlega ákvörðun sína um útgáfu leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum innan tveggja vikna frá útgáfu leyfis. Í ákvörðun skal tilgreina kæruheimild og kærufrest þegar það á við. Hvorki var getið um kæruheimild né kærufrest í hinu kærða starfsleyfi og birtist auglýsing um leyfið um sex vikum eftir útgáfu þess. Þá var ekki getið um álit Skipulagsstofnunar í auglýsingunni. Framangreint er í andstöðu við áðurnefnd skýr fyrirmæli 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000. Tilgangur auglýsingar með lögákveðnum hætti er einkum að upplýsa almenning um að ákveðinni málsmeðferð hafi lokið með leyfisveitingu, gefa honum kost á að kynna sér forsendur þar að baki, m.a. hvað varðar umhverfisáhrif þess sem leyft er, og taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til þess að kæra viðkomandi leyfi. Er hér um annmarka að ræða þó hann hafi ekki haft í för með sér réttarspjöll gagnvart kærendum sem komu að kæru í málinu með réttum hætti og innan tilskilinna fresta.
 
Samkvæmt gr. 8.2. í reglugerð nr. 785/1999 skal Umhverfisstofnun við gerð starfsleyfistillögu ávallt leita umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar auk annarra aðila, eftir því sem við á hverju sinni. Úrskurðarnefndin hefur aflað upplýsinga frá Umhverfisstofnun og mun umsagnar heilbrigðisnefndar ekki hafa verið leitað við gerð tillögu að hinu kærða starfsleyfi. Bendir stofnunin m.a. á að starfsleyfið taki til starfsemi utan netlaga og þar með utan starfssvæðis heilbrigðisnefnda. Hvað sem því líður er ljóst að áhrifa fiskeldisins mun gæta á stærra svæði en því sem sjókvíum er ætlaður staður og var því rétt að taka tillit til nefnds reglugerðarákvæðis við gerð starfsleyfistillögu.

Loks athugist að veiðitala er skilgreind sem tala veiddra fiska skv. 58. tl. 3. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Skilgreining á því að veiddum fiski sé sleppt eða áhrif þess á veiðitölur koma ekki fram í þeim lögum, en eðli máls samkvæmt telst sá fiskur veiddur sem sleppt er. Í viðbrögðum Umhverfisstofnunar við athugasemd vegna fjarlægðar fyrirhugaðs eldis frá ósum laxveiðiáa kemur fram að samkvæmt nánar tilgreindum heimildum sé samanlögð veiði tveggja tilgreindra laxveiðiáa 503 fiskar að meðaltali síðastliðin 10 ár. Þar sem veiðimenn sleppi a.m.k. 0-160 fiskum á ári í hvorri á fyrir sig sé meðalfjöldinn hins vegar undir 500 fiskum síðastliðin 10 ár. Verður ekki séð að þessi staðhæfing sé rökrétt miðað við gefnar forsendur. Eins og hér háttar er það álit úrskurðarnefndarinnar, að gættum þeim markmiðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi að vernda beri villta nytjastofna, og að í því sambandi skuli m.a. gæta fjarlægðar eldisstöðva frá veiðiám, að miða skuli við samtölu veiddra laxa úr þeim ám sem sameiginlegan ós hafa fremur en tölu veiddra laxa úr hverri á fyrir sig.

Að virtu öllu því sem að framan er rakið verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kæru Geiteyrar ehf., Akurholts ehf. og Veiðifélags Laxár á Ásum.

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um útgáfu starfsleyfis fyrir Háafell ehf. fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

6/2017 Háafell – sjókvíeldi

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2017, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um útgáfu starfsleyfis fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. janúar 2017, er barst nefndinni 7. s.m., kærir NASF, verndarsjóður villtra laxastofna, Náttúruverndarsamtök Íslands, Æðarræktarfélag Íslands og Fuglavernd, ásamt nánar tilgreindum aðilum er telja sig eiga hagsmuna að gæta vegna umhverfisverndarsjónarmiða og veiðiréttinda, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 að gefa út starfsleyfi fyrir Háafell ehf. til sjókvíaeldis. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 13. febrúar og 17. mars 2017.

Málavextir: Með umsókn til Umhverfisstofnunar, er barst stofnuninni 25. maí 2015, sótti Háafell ehf. um starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 27. desember 2013, hafði farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og var matsskýrsla lögð fram í febrúar 2015. Álit Skipulagsstofnunar þar um er frá 1. apríl 2015.

Umhverfisstofnun auglýsti drög að starfsleyfi fyrir Háafell ehf. á tímabilinu 8. apríl til 3. júní 2016. Starfsleyfi fyrir fiskeldisfyrirtækið Háafell ehf. til reksturs sjókvíaeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi var gefið út af Umhverfisstofnun 25. október 2016. Með leyfisveitingunni var heimiluð 6.800 tonna ársframleiðsla af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðsla af þorski. Leyfið var birt á heimasíðu stofnunarinnar 23. nóvember s.á. ásamt ódagsettri greinargerð. Útgáfa starfsleyfisins var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 7. desember 2016.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að útgáfa Umhverfisstofnunar á starfsleyfi til leyfishafa brjóti gegn því markmiði fiskeldislaga nr. 71/2008 að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Jafnframt að ákvörðun og málsmeðferð séu ekki í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og gangi þvert á vísindalegt mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis í svo stórum stíl sem um sé að ræða. Fugla- og fiskistofnar, náttúruminjar, samfélag og sérstætt náttúrufar muni bíða varanlegan skaða af ef af starfseminni verði. Þá stangist leyfi fyrir slíkri starfsemi á við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hafi undirgengist, um náttúruvernd og rétt almennra borgara til að verjast ásókn stórfyrirtækja sem ógni náttúrunni og hagsmunum almennings.

Við leyfisveitinguna hafi Umhverfisstofnun borið að gæta að skilyrðum 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, um að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Áður en hægt sé að leyfa að framandi verur séu settar í nýtt umhverfi hér á landi, eða heimild sé veitt til að stækka og auka við áður útgefin leyfi, þurfi að fara fram ítarleg matsgreining, m.a. hjá sérfræðinganefnd um framandi lífverur, sem starfi samkvæmt 63. gr. náttúruverndarlaga.

Bent sé á að skilyrði 2. mgr. 8. gr. fiskeldislaga, um að fylgja skuli skilríki um heimild til afnota af landi, vatni og sjó, séu fortakslaus og því sé það ekki á færi Umhverfisstofnunar að veita starfsleyfi án þeirra og samkvæmt 2. mgr. 40. gr. stjórnarskrár Íslands geti íslenska ríkið ekki afhent eignar- eða afnotarétt af hafsvæði við landið, utan netlaga en innan landhelgi, sbr. lög nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Því sé hvorki fyrir hendi sérstök lagaheimild til hinnar tilteknu ráðstöfunar hafsvæðisins né heimild í lögum til handa stjórnsýsluhöfum til að stofna til einstaklingsbundinna afnota manna af hafsvæðum umhverfis landið. Tilvist slíkra skilríkja sé forsenda fyrir veitingu starfsleyfa.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að til að reka fiskeldi þurfi bæði að hafa til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun. Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi vegna eldis sjávar- og ferskvatnslífvera á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það sé nánar útfært í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Þá sé fjallað um aðkomu stofnunarinnar við útgáfu starfsleyfa í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, en stjórnsýsla samkvæmt þeim lögum fjalli um rekstrarleyfi og falli undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Matvælastofnun. Í lögum um fiskeldi segi að gæta skuli samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, sem heyri undir það sama ráðuneyti.

Viðfangsefni starfsleyfa fyrir mengandi starfsemi sé einkum að fjalla um mögulega mengun frá atvinnurekstri, setja losunarmörk vegna mengunar og verklagsreglur í samræmi við viðkomandi lög og reglugerðir og draga með því úr áhrifum þeirrar mengunar sem óhjákvæmilega verði vegna mengandi atvinnustarfsemi, með það að markmiði að tryggja mengunarvarnir með sjálfbærni að leiðarljósi. Starfsleyfin séu því almennt gefin út til að koma í veg fyrir mengun af völdum atvinnurekstrar og setja rekstraraðilanum skilyrði og kröfur sem þeir eigi að viðhafa í sínum rekstri.

Leyfishafi hafi frá árinu 2012 verið með eldi á regnbogasilungi og séu fjölmörg starfsleyfi hér á landi í gildi þar sem heimild sé til að vinna með regnbogasilung. Einnig megi geta þess að seiðaeldi regnbogasilungs sé starfrækt hér á landi og sé því ekki um innflutning að ræða.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi kveðst telja að áhrif eldisáforma á veiðiréttindi jarða í Ísafjarðardjúpi geti verið jákvæð vegna aukinnar veiði en einnig hugsanlega neikvæð, þar sem ár séu markaðssettar sem sjálfbærar.

Bent sé á að kvíaþyrping þeki lítinn hluta af því svæði sem gönguseiði eða laxar geti gengið um á leið sinni úr veiðivatni eða upp í veiðivatn. Hér sé því ekki um að ræða hindrun, eins og t.d. í tilfelli virkjana eða annarra mannvirkja í veiðivötnum.

Í 63. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 komi fram að óheimilt sé að flytja inn og dreifa lifandi framandi lífverum nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Regnbogasilungur hafi fyrst verið fluttur inn til landsins fyrir meira en hálfri öld síðan. Frá þeim tíma hafi hann verið í eldi í landeldisstöðvum og sjókvíaeldisstöðvum og einnig hafi honum verið sleppt í fjölmörg vötn með stangveiði í huga. Athyglisvert sé að allt í einu nú þurfi að fela sérfræðinganefnd um framandi lífverur að fjalla um málið.

Þegar umsókn um starfsleyfi hafi verið send inn til Umhverfisstofnunar hafi skilríkja vegna afnota af sjó ekki verið aflað, þar sem fyrirséð hafi verið að fulltrúi eigandans væri leyfisveitandi.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski á ári í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 5/2017, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærendur hafa ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon