Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

86/2016 Langholt 2

Árið 2018, þriðjudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2016, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Flóahrepps frá 11. maí 2016 um deiliskipulag Langholts 2, landnúmer 166249.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júlí 2016, er barst nefndinni 7. s.m., kærir eigandi, Langholti 1, Flóahreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 11. maí s.á. að samþykkja deiliskipulag Langholts 2, landnúmer 166249. Líta verður svo á að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Flóahreppi 23. ágúst 2016.

Málavextir: Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkti á fundi sínum hinn 17. desember 2015 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir um 1 ha spildu úr landi Langholts 2 með vísan til 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst 7. janúar 2016 með fresti til að gera athugasemdir til 19. febrúar s.á. Athugasemdir bárust frá nokkrum aðilum, þ. á m. kæranda. Tillagan var tekin fyrir í sveitarstjórn 2. mars s.á. með þeirri breytingu að byggingarreitur skipulagstillögunnar hafði verið minnkaður svo hann yrði í 50 m fjarlægð frá Hallandavegi til samræmis við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Var skipulagstillagan samþykkt svo breytt. Skipulagsstofnun var tilkynnt um samþykktina með bréfi, dags. 14. mars 2016, í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Jafnframt var þeim aðilum sem gert höfðu athugasemdir við tillöguna send svör við framkomnum athugasemdum og tilkynnt um afgreiðslu sveitarstjórnar með bréfi, dags. sama dag.
 
Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við samþykkt sveitastjórnar með bréfi dags. 5. apríl 2016. Sneru þær að því að á skorti að sveitastjórn hefði tekið afstöðu til hluta þeirra athugasemda sem fram komu á kynningartíma, skipulagssvæðið undanskildi íbúðarhús og bílskúr sem rökrétt væri að féllu innan þess, rökstuðning fyrir samræmi við aðalskipulag skorti og að tiltekin stærðarmörk fyrirhugaðs húss væru óskýr. Sveitarstjórn tók málið fyrir að nýju hinn 11. maí s.á. og var þá lögð fram breytt tillaga sem ætlað var að koma til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar og var hún samþykkt. Í breytingunum fólst að byggingarreitur skipulagsins var markaður 10 m frá landamerkjum í norðri, gert var ráð fyrir einu húsi í stað tveggja, sem jafnframt var stækkað úr 50 m2 í 85 m2. Gerð var grein fyrir samræmi deiliskipulags við aðalskipulag og mörkum skipulagssvæðisins breytt þannig að það næði yfir þegar reist íbúðarhús og bílskúr. Skipulagsstofnun yfirfór skipulagið að nýju og kunngerði með bréfi dags. 1. júní 2016 að ekki væru gerðar athugasemdir við að auglýsing um samþykkt þess yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2016.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er hinni kærðu ákvörðun mótmælt og á það bent að sveitarstjórn hafi aldrei rætt þær athugasemdir sem bárust og að Skipulagsstofnun hafi ekki fengið lagfærða tillögu til skoðunar. Gerð sé athugasemd við að fjarlægð byggingarreits frá vegi sé mæld frá miðlínu vegar. Slík mæliaðferð eigi sér ekki í lögum.

Málsrök sveitarstjórnar Flóahrepps: Sveitarstjórn tók kæruna fyrir á fundi sínum hinn 10. ágúst 2016 og staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar frá 8. s.m. þar sem skipulagsfulltrúa var falið að framsenda gögn vegna málsins til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar Flóahrepps á deiliskipulagi fyrir spildu úr landi Langholts 2. Að meginstefnu staðfestir skipulagið eldra fyrirkomulag húsakosts, en að auki er gert ráð fyrir nýjum byggingarreit fyrir frístundahúsi á 1-2 hæðum, sem megi vera allt að 85 m2 að stærð. Kærandi er eigandi landspildu sem liggur að hluta að skipulagssvæðinu.

Í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.7.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, skal sveitarstjórn, að loknum auglýstum athugasemdafresti deiliskipulagstillögu, taka tillöguna til umræðu að nýju og m.a. taka afstöðu til framkominna athugasemda og þess hvort breyta skuli tillögunni. Hið kærða skipulag var tekið til umræðu í sveitarstjórn Flóahrepps 2. mars 2016, en hafði þá auglýstri tillögu verið breytt, m.a. vegna athugasemda sem borist höfðu um staðsetningu byggingarreits með tilliti til Hallandavegar. Að lokinni þeirri umfjöllun fengu þeir aðilar sem gert höfðu athugasemdir við auglýsta tillögu bréf þar sem gerð var grein fyrir afgreiðslu sveitarstjórnar auk þess sem athugasemdum var svarað. Frekari breytingar voru síðan gerðar á deiliskipulaginu í tilefni af athugasemdum Skipulagsstofnunar. Meðal annars lutu breytingarnar að atriðum sem gerðar höfðu verið athugasemdir við á kynningartíma tillögunnar, s.s. varðandi rökstuðning fyrir samræmi deiliskipulagsins við aðalskipulag og fjarlægð byggingarreits frá lóðamörkum. Var hið kærða deiliskipulag samþykkt að nýju hinn 11. maí 2016.

Með þeim breytingum sem gerðar voru á auglýstri tillögu í meðförum sveitarstjórnar að loknum auglýsingafresti fólst að tekin var afstaða til þeirra athugasemda sem fram komu. Að stórum hluta var fallist á þau atriði sem athugasemdir voru gerðar við og skipulaginu breytt til samræmis við þær. Að auki var athugasemdum svarað skriflega með bréfi, dags. 14. mars 2016. Með hliðsjón af framgreindu telst sveitarstjórn Flóahrepps hafa tekið afstöðu til framkominna athugasemda í skilningi 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga við afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar. Með vísan til bréfs Skipulagsstofnunar, dags. 1. júní 2016, telst það yfir allan vafa hafið að Skipulagsstofnun hafi fjallað efnislega um endanlega samþykkt deiliskipulag í samræmi við áskilnað 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.

Í gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar segir að utan þéttbýlis skuli í aðalskipulagi ekki staðsetja íbúðir eða frístundahús nær skilgreindum stofn- og tengivegum en 100 m og ekki nær öðrum þjóðvegum eða almennum vegum en 50 m. Samkvæmt greinargerð gildandi aðalskipulags flokkast Hallandavegur ekki sem stofn- eða tengivegur og gilda því síðarnefndu mörkin um fjarlægð íbúða og frístundahúsa. Ekki er tilgreint í skipulagsreglugerð við hvað skuli nákvæmlega miða þegar greind fjarlægðarmörk eru ákveðin. Í 8. tl. 1. mgr. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007 er hugtakið vegur skilgreint sem svo að það nái yfir akbraut, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri séu nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not. Í 32. gr. vegalaga er fjallað um lágmarksfjarlægð ýmissa mannvirkja frá vegum og tilgreint hvernig skuli með nákvæmni afmarka slíka fjarlægð. Þar er lagt til grundvallar að fjarlægð skuli að jafnaði reikna frá miðlínu vegar og var þeirri mæliaðferð beitt við afmörkun byggingarreits í hinu kærða deiliskipulagi. Þykir rétt að við túlkun gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar sé tekið mið af ákvæðum vegalaga um mæliaðferð í þessu tilviki, sbr. 32. gr. laganna. Byggingarreitur hinnar kærðu ákvörðunar telst því rétt afmarkaður með tilliti til áskilnaðar skipulagsreglugerðar um fjarlægð frá Hallandavegi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Flóahrepps frá 11. maí 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Langholt 2, landnúmer 166249.

_________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                            Þorsteinn Þorsteinsson