Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

153/2016 Lokaúttektargjald

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 153/2016, kæra á gjaldtöku Reykjavíkurborgar vegna útgáfu lokaúttektarvottorðs vegna fasteignarinnar að Haukdælabraut 96 í Reykjavík
.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir A, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að innheimta gjald fyrir útgáfu lokaúttektarvottorðs vegna fasteignarinnar að Haukdælabraut 96 í Reykjavík. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 7. febrúar 2017 og 24. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 15. september 2009 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir byggingu hússins að Haukdælabraut 96 í Reykjavík. Mun Reykjavíkurborg hafa gefið út byggingarleyfi 25. janúar 2010 og var kæranda þá gert að greiða 141.704 kr., þar af 72.000 kr. fyrir „úttektir“. Við lokaúttekt á umræddri fasteign var gerð krafa um að kærandi greiddi fyrir þá úttekt og fyrir útgáfu lokaúttektarvottorðs. Mun kærandi hafa komið á framfæri athugasemdum við byggingarfulltrúa vegna fyrirhugaðrar gjaldtöku, en verið tjáð að skylt væri að innheimta nefnd gjöld. Í kjölfar þess kvartaði kærandi til umboðsmanns borgarbúa. Óskaði umboðsmaður borgarbúa skýringa á umræddri gjaldtöku hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og bárust þær með bréfi, dags. 25. maí 2016. Í bréfinu kom fram að gjöld vegna lokaúttektar og lokaúttektarvottorðs féllu utan áfangaúttekta og hafi á þeim tíma þegar umsókn um byggingarleyfi hafi verið samþykkt verið lagt á þegar eigandi hafi óskað lokaúttektar. Hafi ekki verið byrjað að leggja á gjald fyrir lokaúttekt og lokaúttektarvottorð samhliða samþykkt á byggingarleyfisumsóknum fyrr en í ársbyrjun 2013. Þá var tekið fram að Reykjavíkurborg féllist á að fella niður gjald vegna lokaúttektar, en að ekki yrði hjá því komist að greiða fyrir lokaúttektarvottorð. Upplýsti umboðsmaður borgarbúa kæranda um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 26. maí 2016, og að athugun hans á málinu væri lokið.

Í framhaldi af því mun hafa verið stofnað til gjaldtöku vegna lokaúttektarvottorðs hinn 1. júní 2016 og munu frekari samskipti hafa átt sér stað milli umboðsmanns borgarbúa, byggingarfulltrúa og kæranda vegna þess. Tók umboðsmaður borgarbúa mál kæranda fyrir að nýju og var niðurstaða hans kynnt kæranda með bréfi, dags. 20. júlí 2016. Í bréfinu vék umboðsmaður borgarbúa m.a. að þeim álitaefnum sem leysa þyrfti úr vegna þeirra afstöðu kæranda að byggingarfulltrúa væri óheimilt að innheimta nefnd gjöld. Taldi umboðsmaður borgarbúa að ekki væri hægt að leggja að jöfnu þá þjónustu er fælist í framkvæmd úttektar annars vegar og útgáfu vottorðs hins vegar. Væri það niðurstaða hans að um tvö aðskilin gjöld væri að ræða og að greiðsla fyrir úttektir sem slíkar fæli ekki jafnframt í sér greiðslu vegna lokaúttektarvottorðs. Benti umboðsmaður borgarbúa kæranda einnig á að ágreiningur að því tagi sem um ræddi ætti undir valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og vísaði í því sambandi m.a. á heimasíðu nefndarinnar.

Málsrök kæranda:
Kærandi skírskotar til þess að skv. 53. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem við eigi í máli þessu, hafi verið heimilt að innheimta gjöld samhliða úttekt en að sú gjaldtaka yrði að endurspegla raunkostnað, enda um þjónustugjöld að ræða. Um heimild hafi verið að ræða, en ekki skyldu til innheimtu gjaldsins. Telja verði að gjald vegna lokaúttektarvottorðs hafi verið innifalið í þeirri þjónustu sem kærandi hafi greitt fyrir árið 2010. Slíkt sé venjan og bendi kærandi á sambærilegt mál hjá öðru sveitarfélagi máli sínu til stuðnings. Hafi borginni verið í lófa lagið að krefjast þessarar greiðslu árið 2010 ef til hennar ætti að koma eða þá að orða greiðslukvittunina með öðrum hætti. Augljóst sé að greiðslukvittunin eigi við um úttektir og ótækt sé ef stjórnvald geti síðan breytt reglum þannig að heimilt sé að leggja á aukin gjöld. Þá sé verið að innheimta of mikið fyrir umrætt vottorð en það sé unnið upp úr sjálfvirku tölvukerfi. Sé í raun ekki um þjónustugjald að ræða heldur skatt. Loks bendi kærandi á að hann hafi skotið málinu til úrskurðarnefndarinnar eins fljótt og mögulegt hafi verið, en honum sé ljóst að meira en mánuður hafi liðið frá bréfi umboðsmanns borgarbúa til sín. 

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að álagningin verði staðfest. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kærandi varð kunnugt eða hafi mátt vera kunnugt um ákvörðunina. Hin umdeilda álagning hafi verið kærð þegar liðnir voru tæpir sex mánuðir frá því að gjaldið hafi verið lagt á. Fyrir liggi að samskipti hafi átt sér stað milli byggingarfulltrúa og kæranda eftir að gjaldið hafi verið lagt á. Í því sambandi sé vísað til bréfa, dags. 25. maí 2016, en þar sé m.a. til umfjöllunar hið umdeilda gjald. Kæranda hafi því verið fullkunnugt um álagningu á því tímamarki, en í síðasta lagi við greiðslu þess 18. ágúst s.á. Hafi honum verið í lófa lagið að kæra álagningu þá þegar við það tímamark, ella innan mánaðarfrestsins.

Byggingarfulltrúi hafi lagt gjald á vegna lokaúttektar skv. 4. gr. gjaldskrár fyrir úttektir og vottorð byggingarfulltrúans í Reykjavík 2009. Hafi gjaldskráin sótt stoð sína til 1. mgr. 53. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, núgildandi 1. mgr. 51. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 73/1997 hafi komið fram að sveitarstjórnum væri heimilt að innheimta gjöld vegna útmælinga, eftirlits, úttekta, yfirferða hönnunargagna og vottorða sem byggingarfulltrúi léti í té. Í núgildandi gjaldtökuheimild sé að finna efnislega samhljóða ákvæði. Segi í lögunum að sveitarstjórn ákveði gjalddaga framkvæmdaleyfis-, byggingarleyfis- og bílastæðagjalda og hvernig þau skuli innheimt. Sé innheimta gjaldsins því lögum samkvæmt.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefndina. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, sbr. og það sem nánar kemur fram í málavaxtalýsingu, mátti kæranda vera ljóst efni hinnar kærðu ákvörðunar eftir að afstaða borgarinnar þess efnis að greiða yrði fyrir lokaúttektarvottorð lá fyrir í bréfi 25. maí 2016 og stofnað var til gjaldtöku 1. júní s.á. Svo sem að framan greinir kvartaði kærandi yfir hinni umdeildu gjaldtöku við umboðsmann borgarbúa. Lá afstaða umboðsmanns borgarbúa vegna málsins fyrir og var kynnt kæranda með bréfum, dags. 26. maí og 20. júlí 2016. Í síðargreinda bréfinu var á það bent á að ágreiningur að því leyti sem mál kæranda varðaði heyrði undir valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Jafnframt því var upplýst hvar úrskurðarnefndin væri til húsa og að kæra þyrfti að vera skrifleg og undirrituð af hálfu kæranda. Þá var að því vikið að nánari upplýsingar mætti nálgast á heimasíðu nefndarinnar og vefslóð hennar gefin upp. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála barst kæra í máli þessu 22. nóvember 2016 eða ríflega fjórum mánuðum eftir að umboðsmaður borgarbúa hafði bent kæranda á að unnt væri að skjóta hinni umþrættu ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og rúmum þremur mánuðum eftir að kærandi innti af hendi greiðslu gjaldsins. Var kærufrestur þá liðinn.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið veittar upplýsingar um kærufrest í umræddu bréfi umboðsmanns borgarbúa er ljóst að eigi síðar en 20. júlí 2016 lágu fyrir kæranda leiðbeiningar um að unnt væri að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Verður að telja að kæranda hafi verið í lófa lagið að gera reka að því að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar innan lögmælts kærufrests og ber kæran raunar með sér að kærandi var þess meðvitaður að kærufrestur væri liðinn. Verður með vísan til framangreinds ekki séð að fyrir hendi séu þau atvik eða ástæður er mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar á grundvelli undantekningarheimilda 28. gr. stjórnsýslulaga og ber því að vísa henni frá úrskurðarnefndinni með vísan til fyrirmæla 1. mgr. sama lagaákvæðis. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir