Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

60/2018 Áshamar

Árið 2018, þriðjudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 60/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. mars 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi að  Áshamri 32 í Vestmannaeyjabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. apríl 2018, kærir lóðarhafi Áshamars 48, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. mars 2017 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 32 við Áshamar í Vestmannaeyjabæ. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og sveitarfélaginu gert að grenndarkynna málið að nýju.

Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 3. maí 2018.

Málavextir:  Hinn 20. febrúar 2017 tók umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja fyrir umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Áshamri 32, sem er á ódeiliskipulögðu svæði. Ráðið samþykkti að umsóknin yrði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum að Áshamri 28, 30, 34, 36 og 50 og Búhamri 13, 29, 35 og 39 með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsóknin var kynnt með bréfi, dags. 20. febrúar 2017, og var gefinn fjögurra vikna frestur frá dagsetningu bréfsins til að skila inn athugasemdum. Engar athugasemdir bárust innan frestsins og var byggingarleyfi gefið út hinn 31. ágúst s.á. Framkvæmdir við byggingu hússins hófust í febrúar 2018 og hafði kærandi af því tilefni samband við byggingarfulltrúa 7. mars s.á. Síðar sama dag sendi byggingarfulltrúi kæranda með tölvupósti þær upplýsingar sem sendar voru með grenndarkynningu.

Málsrök kæranda: Kærandi telur ákvörðun um veitingu byggingarleyfis á lóð við Áshamar 32 ógilda þar sem umsóknin hafi ekki verið grenndarkynnt honum, en lóð kæranda, Áshamar 48, liggi að umræddri lóð. Fyrirhuguð bygging virðist vera með öðru byggingarlagi, hafa ólíka afstöðu og vera stærri en önnur hús á svæðinu. Um sé að ræða meira byggingarmagn og hærra hús en hægt sé að fallast á. Það birgi verulega fyrir útsýni kæranda til sjávar og skerði þannig gæði hans umfram það sem yrði ef byggingin yrði lægri. Kveðst kærandi ekki hafa fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknarinnar, en hann yrði fyrir mestri skerðingu á hagsmunum þar sem útsýni hans yrði skert verulega.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er gerð sú krafa að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Er byggt á því að kæran hafi borist að liðnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Kæranda hafi verið fullkunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar hinn 7. mars 2018, eða rúmum mánuði áður en hann kærði hana.

Óumdeilt sé að grenndarkynning tók ekki til lóðarhafa að Áshamri 48. Fullyrðingum kæranda um að honum hafi ekki verið gerð grein fyrir málinu sé sérstaklega mótmælt. Fyrir liggi að kæranda voru afhent þau gögn sem fylgdu grenndarkynningu auk þess sem draga megi þá ályktun af lýsingum í kærubréfi að honum sé vel kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Ljóst sé að kæranda hafi verið gerð grein fyrir efni hinnar kærðu ákvörðunar og því hafnað að hann hafi ekki fengið nægar eða umbeðnar upplýsingar vegna málsins.

Bent er á að sjónarmið kæranda um skert útsýni séu ekki studd neinum gögnum. Ein af þeim forsendum sem lágu til grundvallar útgáfu byggingarleyfis hafi verið að hið nýja hús væri í samræmi við eldri hús í götunni. Húsið sé einlyft og um 30-40 cm hærra en það hús er stóð þar áður. Hús kæranda standi mun hærra í landinu og því telji bæjaryfirvöld rétt að kærandi geri sérstaklega grein fyrir skerðingu sinni á útsýni. 

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. 1. mgr. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur m.a. fram í athugasemdum með nefndri 28. gr. að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algerum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kæranda og handhafa hins kærða byggingarleyfis ekki saman.

Kærandi sendi hinn 7. mars 2018 byggingaryfirvöldum erindi vegna framkvæmda við Áshamar 32, en framkvæmdir voru þá nýlega hafnar. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu sama dag og sendi kæranda grenndarkynningargögn vegna umsóttra framkvæmda. Kæra barst nefndinni 25. apríl s.á., eða um einum og hálfum mánuði eftir að gögn málsins bárust honum. Í svari byggingarfulltrúa var kæranda ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest vegna málsins en umrædd bygging getur snert grenndarhagsmuni hans. Eins og málsatvikum er háttað verður talið afsakanlegt að kæra í þessu máli hafi borist svo seint sem raun ber vitni og teljast því skilyrði til að taka mál þetta til efnismeðferðar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal grenndarkynning fara fram þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi á svæði þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að í grenndarkynningu felist að kynna nágrönnum fyrirhugaða framkvæmd sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Lóð kæranda við Áshamar 48 liggur að lóð byggingarleyfishafa við Áshamar 32. Bar því að grenndarkynna byggingaráformin fyrir kæranda í samræmi við áðurnefnt ákvæði, en það var ekki gert.

Með tilliti til þess að grenndarkynningu er ætlað að veita hagsmunaaðilum andmælarétt auk þess sem hún er liður í rannsókn máls, leiðir framangreindur ágalli á grenndarkynningu umræddrar byggingarleyfisumsóknar til þess að ógilda verður hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. mars 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 32 við Áshamar, Vestmannaeyjabæ.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson