Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

15/2018 Efra-Sel

Árið 2018, föstudaginn 4. maí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 15/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. janúar 2018 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Efra-Sel 3e.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. janúar 2018, er barst nefndinni 3. febrúar s.á., kæra tilgreindir eigendur Efra-Sels 3b (Háasel), þá ákvörðun bæjarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. janúar 2018 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Efra-Sel 3e. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 7. febrúar 2018.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 25. október 2017, óskuðu eigendur Efra-Sels 3e eftir heimild til að deiliskipuleggja land fyrir byggingu íbúðarhúss, ásamt skemmu og gistiskálum tengdum ferðaþjónustu. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 6. nóvember s.á. var umsóknin samþykkt og var lagt til að deiliskipulagstillagan yrði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var hún og auglýst með athugasemdafresti frá 15. nóvember til 28. desember 2017. Þá var einnig óskað umsagnar Minjastofnunar, Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og gerðu þær stofnanir engar athugasemdir við tillöguna. Hins vegar bárust athugasemdir innan frestsins frá aðilum á svæðinu, þ. á m. frá kærendum. Var þeim svarað og deiliskipulagstillagan samþykkt á fundi skipulagsnefndar 8. janúar 2018 og staðfest á fundi sveitarstjórnar 10. s.m. með fyrirvara um breytta aðkomu að lóðinni. 

Kærendur benda á  að miklir ókostir og óhagræði muni fylgja þeirri starfsemi sem verið sé að heimila. Vegir og umhverfi muni aldrei þola þá umferð sem af slíkri starfsemi stafi. Engin atvinnu- eða landbúnaðarstarfsemi sé á þessu lokaða svæði, sem sé lokað frá Bjallarvegi með hliði frá alfaraleið. Þá hafi u.þ.b. allir landeigendur á svæðinu gert athugasemdir við fyrirhugaða breytingu.

Af hálfu Rangárþings ytra er bent á að ekki sé búið að auglýsa gildistöku hins kærða deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda. Beðið sé eftir viðbrögðum eigenda Efra-Sels 3e um leiðréttingu eða lagfæringu á atriði sem athugasemdir hafi m.a. lotið að.

Niðurstaða: Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun um deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingar um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Hin kærða deiliskipulagstillaga var samþykkt af sveitarstjórn Rangárþings ytra 10. janúar 2018 og í kjölfarið send til lögboðinnar yfirferðar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun þá hefur hún ekki lokið yfirferð sinni vegna hinnar kærðu deiliskipulagstillögu. Eðli máls samkvæmt hefur auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar því ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda. Þar til slík auglýsing hefur verið birt er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu ekki lokið. Er enda ekki loku fyrir það skotið að Skipulagsstofnun geri athugasemdir um form- eða efnisgalla á deiliskipulagstillögunni, tillagan taki breytingum eða að hætt verði við gildistöku hennar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir