Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2018 Fiskeldi Dýrafirði

Með

Árið 2018, föstudaginn 8. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 8/2018, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember 2017, um veitingu rekstrarleyfis fyrir 4.000 tonna kynslóðaskiptu sjókvíaeldi lax eða regnbogasilungs í Dýrafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. janúar 2018, er barst nefndinni 21. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið laxinn lifi og nánar tilgreindir eigendur og veiðiréttarhafar Haffjarðarár, Fífustaðadalsár, Bakkadalsár, Vatnsdalsár, Hvannadalsár, Langadalsár, Þverár og Laxár á Ásum þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 að veita rekstrarleyfi fyrir 4.000 tonna kynslóðaskiptu sjókvíaeldi lax eða regnbogasilungs í Dýrafirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 7. mars 2018.

Málavextir:
Matvælastofnun gaf út rekstrarleyfi 22. desember 2017 til handa Arctic Sea Farm hf. Rekstrarleyfið tekur til kynslóðaskipts sjókvíaeldis í Dýrafirði með 4.000 tonna framleiðslumagni og kemur fram að hámarkslífmassi sé jafnframt 4.000 tonn. Lax sé af SAGA-stofni en regnbogasilungur frá Danmörku. Heimilt sé að framleiða 2.000 tonn á hverju sjókvíaeldissvæði og séu þau við Haukadalsbót, Gemlufall og Eyrarhlíð.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir eigi mikilla hagsmuna að gæta um að ekki sé stefnt í hættu lífríki Haffjarðarár, Fífustaðadalsár, Bakkadalsár, Vatnsdalsár, Hvannadalsár, Langadalsár, Þverár og Laxár á Ásum, þar á meðal hinum villtu lax- og silungastofnum ánna, m.a. með lúsafári og mengun frá erlendum og framandi rengbogasilungi og/eða norskum, kynbættum eldislaxi sem muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Dýrafirði.

Farið sé fram á að réttaráhrifum hins kærða rekstrarleyfis sé frestað eða framkvæmdir stöðvaðar þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar í kærumálinu og að framkvæmdir geti hafist við umrætt sjókvíaeldi áður en afgreiðsla nefndarinnar liggi fyrir.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er því hafnað að verulegir annmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun. Hafi hún uppfyllt allar form- og efnisreglur stjórnsýslulaga, laga um fiskeldi, reglugerðar um fiskeldi og laga um mat á umhverfisáhrifum. Hafi verið komist að efnislega réttri niðurstöðu samkvæmt efnisákvæðum fyrrnefndra laga.

Athugasemdir rekstraraðila: Af hálfu rekstraraðila er farið fram á að hafnað verði kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar vegna vanreifunar. Ekki liggi fyrir hvort kærendur byggi kröfu sína á ákvæðum laga nr. 130/2011, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða á öðrum grundvelli. Þau ein rök séu tilgreind fyrir kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa að búast megi við töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar. Því fari fjarri að svo almenn röksemdafærsla geti dugað til að fallist verði á slíka kröfu.

Rekstraraðili hafi lagt stund á fiskeldi frá árinu 2009 og hafi aukin framleiðsla í Dýrafirði verið í undirbúningi í mörg ár með tilheyrandi kostnaði. Frekari frestun framleiðslunnar hefði í för með sér mikið tjón fyrir rekstraraðila auk þess sem afleidd áhrif yrðu verulega neikvæð fyrir uppbyggingu starfa og innviða á Vestfjörðum. Vegi þeir hagsmunir verulega þyngra en hagsmunir kærenda, einkum þegar litið sé til þess að kærendur hafi engin rök fært fyrir nauðsyn þess að fresta réttaráhrifum. Sé ekki knýjandi nauðsyn á að fallast á þá kröfu þeirra.

Niðurstaða:
Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar, þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærendur byggja í kæru sinni á því að gífurlegt magn úrgangs stafi frá eldinu og að því fylgi hætta á lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu í matsskylduákvörðun sinni frá 8. júlí 2015 að fyrirhuguð stækkun á fiskeldinu í Dýrafirði væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Sú ákvörðun Skipulagsstofnunar hefur ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Þar kemst stofnunin jafnframt að þeirri niðurstöðu að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar stækkunar á fiskeldi í Dýrafirði kunni að felast í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist í villta laxfiska frá eldisfiski í sjókvíum eða strokufiskum úr fyrirhuguð eldi, hvort heldur verði um að ræða eldi á regnbogasilungi eða laxi. Áhrif fyrirhugaðs eldis á erfðablöndun og veiðihlunnindi séu ekki líkleg til að verða umtalsverð. Áhrif á botndýralíf undir eldiskvíum verði staðbundin og ráðist af umhverfisaðstæðum á hverjum stað auk þess að vera afturkræf að hluta eða alveg verði eldinu hætt.

Skipulagsstofnun rekur jafnframt í ákvörðun sinni að í gögnum málsins komi fram að til staðar sé rekstrarleyfi til framleiðslu á allt að 2.000 tonnum af regnbogasilungi eða laxi árlega við Haukadalsbót og Gemlufall í Dýrafirði. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar gildi hins vegar einungis fyrir svæði við Haukadalsbót. Fyrirhugað sé að auka núverandi framleiðslu á regnbogasilungi úr 2.000 tonnum í 4.000 tonn, sem mögulega breytist í laxeldi síðar. Einnig bætist nýtt eldissvæði, utan við Eyrarhlíð, við þau tvö sem núgildandi rekstrarleyfi geri ráð fyrir.

Ágreiningur máls þessa snýst um leyfi vegna framleiðsluaukningar vegna fiskeldis í Dýrafirði. Sú breyting sem af leyfisveitingunni hlýst er einkum aukin framleiðsla og jafnframt er eldið heimilað víðar í firðinum en áður. Hætta á að fram komi þau umhverfisáhrif sem kærendur halda fram var því þegar til staðar áður en hið kærða leyfi var veitt. Þó sú hætta aukist e.t.v. eitthvað verður ekki séð að hún aukist í þeim mæli á meðan á meðferð málsins stendur að kæruheimild verði þýðingarlaus. Að sama skapi verður að telja hættu á að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér mikið tjón fyrir leyfishafa. Eru því ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða rekstrarleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 að veita rekstrarleyfi fyrir 4.000 tonna kynslóðaskiptu sjókvíaeldi lax eða regnbogasilungs í Dýrafirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (sign)

 

24/2017 Framkvæmdaleyfi Þormóðsdal

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 7. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 8. febrúar 2017 um að hafna beiðni um endurupptöku ákvörðunar um að synja um framkvæmdaleyfi vegna rannsóknarborana og skurðgraftar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. mars. 2017, er barst nefndinni 5. s.m., kærir Iceland Resources ehf. þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 8. febrúar 2017 að synja beiðni félagsins um endurupptöku vegna synjunar umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna rannsóknarborana og skurðgraftar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 3. apríl 2017 og 29. maí 2018.

Málavextir: Hinn 26. júní 2016 sótti kærandi um framkvæmdaleyfi fyrir rannsóknarborunum í Þormóðsdal til skipulagsnefndar Mosfellsbæjar. Í umsókninni kom fram að fyrirtækið áætlaði að boraðar yrðu 18 rannsóknarholur á svæðinu og opnaðir fjórir skurðir. Meðfylgjandi voru upplýsingar um þá afstöðu Skipulagsstofnunar að framkvæmdirnar væri ekki matsskyldar skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og að í raun væri ekki um að ræða efnistöku í skilningi laganna. Á svæðinu munu áður hafa verið framkvæmdar rannsóknir, bæði með gerð borhola og skurðgrefti til rannsókna á málmum. Fyrir liggur leyfi til rannsókna, þ. á m. borana, gefið út af iðnaðarráðherra 23. júní 2004 til handa Melmi ehf., sem með ódagsettu bréfi hefur veitt kæranda umboð til að nýta rannsóknarleyfið.

Á fundi skipulagsnefndar 6. september 2016 var umsókninni hafnað á þeim forsendum að umsókn um framkvæmdaleyfi samræmdist ekki Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030. Kæranda var tilkynnt um afgreiðslu skipulagsnefndar með bréfi, dags. 7. s.m., með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar. Var honum jafnframt leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og kærufrest. Afgreiðsla skipulagsnefndar var staðfest af bæjarstjórn Mosfellsbæjar 14. s.m.

Með tölvupósti 13. september 2016 óskaði umsækjandi eftir því að haldinn yrði fundur um málið. Í kjölfar frekari tölvupóstsamskipta umsækjanda og starfsmanna sveitarfélagsins var kynningarfundur haldinn 30. nóvember s.á. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði umsækjandi eftir endurupptöku málsins. Á fundi skipulagsnefndar 31. janúar 2017 var endurupptökubeiðninni hafnað þar sem nefndin taldi ný gögn ekki breyta afstöðu sinni og var ítrekað að umsókn um framkvæmdaleyfi samræmdist ekki Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030. Var sú afgreiðsla staðfest af bæjarstjórn Mosfellsbæjar 8. febrúar 2017.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að umsókn sín hafi einungis falið í sér framkvæmdaleyfisumsókn vegna rannsóknarborana og skurðgraftar til rannsókna, en ekki til gullvinnslu. Þær rannsóknir sem sóst sé eftir að gera á svæðinu hafi mikla þýðingu fyrir jarðvegsrannsóknir annars staðar á landinu og séu hluti af mun stærra rannsóknarverkefni.

Með umsókninni sé ekki verið að sækjast eftir leyfi til námuvinnslu heldur framkvæmdaleyfi til rannsóknarborana í jarðfræðilegum tilgangi til þess að athuga við hvaða kringumstæður gull safnist fyrir í íslensku umhverfi. Þessar rannsóknir séu mjög tímabundnar og það svæði sem um ræði muni ekki verða fyrir varanlegum skaða af rannsóknunum. Þær rannsóknir sem sóst sé eftir að gera muni hafa mjög lítil áhrif á umhverfið og ásýnd svæðisins, en nú þegar hafi farið þar fram samskonar rannsóknir. Muni þær rannsóknir sem sóst sé eftir að gera hafa minni sýnileg áhrif en fyrri rannsóknir og verði jarðrask vegna þeirra mjög lítið. Notast verði við annarskonar bor en áður. Sé hann sérstaklega hannaður til þess að vera færður til með léttum tækjum eða þyrlu og krefjist þess ekki að setja þurfi upp borpalla, líkt og áður hafi þurft.

Hjá Skipulagsstofnun hafi komið fram að þær rannsóknarboranir sem áætlað sé að framkvæma sé ekki hægt að líta á sem efnistöku í skilningi laganna. Sá skurðgröftur sem áætlaður sé ætti þar af leiðandi ekki að falla undir skilgreiningu laganna á efnistöku, þar sem þau sýni sem tekin verði í skurðunum muni ekki vera stærri en þau sem rannsóknarboranir hafi í för með sér.

Rannsóknarleyfið sem liggi til grundvallar framkvæmdaleyfisumsókninni hafi verið gefið út af iðnaðarráðherra 23. júní 2004 í samræmi við ákvæði laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu. Það sé einkaleyfi til leitar að málmum, rannsóknum á efniseiginleikum þeirra og umfangi og afkastagetu líklegra námusvæða. Leyfið sé enn í gildi með framlengingum sem gerðar hafi verið á árunum eftir 2009. Í því ljósi sé athyglisvert að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafi ekki gert ráð fyrir fyrirliggjandi leyfi um rannsóknir á svæðinu við gerð skipulagsáætlana.

Málsrök Mosfellsbæjar:
Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að sú ákvörðun sem kæra beinist að hafi fyrst verið tekin á fundi skipulagsnefndar 6. september 2016 og hafi verið tilkynnt um hana daginn eftir. Ákvörðunin hafi verið ítrekuð á fundi 31. janúar 2017 og tilkynnt um hana daginn eftir. Kæranda hafi verið ljóst hver afgreiðsla fundarins hafi verið þegar í kjölfar hans, eins og áður sé lýst. Kæra hafi hins vegar verið móttekin 5. mars s.á. Þá hafi verið liðinn 30 daga kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, hvort sem miðað sé við að kærufrestur hafi byrjað að líða við tilkynningu um fyrri ákvörðun skipulagsnefndar eða tilkynningu síðari ákvörðunar nefndarinnar. Hún hafi farið fram munnlega þegar eftir birtingu fundargerðarinnar á netinu 31. janúar 2017 og síðan með formlegri tilkynningu strax daginn eftir. Verði því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Verði ekki fallist á framangreint byggi sveitarfélagið á því að hafna eigi kröfum og málatilbúnaði kæranda. Kærandi hafi sótt um framkvæmdaleyfi til rannsóknarborana í Þormóðsdal. Í kæru komi fram að farið hafi verið fram á leyfisveitinguna „í jarðfræðilegum tilgangi til þessa [svo] að athuga við hvaða kringumstæður gull safnast fyrir í íslenskum aðstæðum.“ Jafnframt að boranir þessar hefðu mikla þýðingu „í jarðvegsrannsóknum annarsstaðar á landinu og eru hluti af mun stærra rannsóknarverkefni sem fyrirtækin standa fyrir.“

Í umsókn um starfsleyfi, fylgigögnum og kynningu forsvarsmanna kæranda á verkefninu hafi þetta hins vegar ekki komið fram. Ávallt hafi verið ljóst í umsóknarferlinu að rannsóknarboranir þessar væru undanfari þess að sótt yrði um leyfi til námuvinnslu, fyndist gull í nægilegu magni til þess að hefja mætti vinnslu. Um þetta megi t.d. vísa til skjals er beri yfirskriftina Gold Iceland, Work program for 2016 field mission (merkt sem fylgiskjal með kæru). Þar komi fram í Executive Summary, Drilling, að tilgangur rannsóknarborananna sé m.a. að gefa innsýn í mögulega hagkvæmni námuvinnslu með hliðsjón af öllum viðeigandi þáttum (e. „It can also give insights into the possibility of economic mining by including all factors relevant, especially socio-economic factors“). Þá komi fram í glærukynningu kæranda á verkefninu að jákvæðar niðurstöður um mögulega gullnámu í Þormóðsdal leiði „væntanlega til umsóknar um námuleyfi.“ Jafnframt liggi fyrir að samkvæmt samningum þeim sem kærendur leiði rétt sinn frá hafi eigendur réttindanna þegar samþykkt vinnslu á landi sínu finnist þar vinnanlegir málmar. Þá verði ekki betur séð en að kærandi og þeir aðilar sem hyggist standa fyrir rannsóknarborununum séu hlutafélög með takmarkaðri ábyrgð sem rekin séu í hagnaðarskyni, líkt og almennt gildi um slík félög. Það sé því ljóst að framkvæmdaleyfi til rannsóknarboranna hafi einungis átt að vera undanfari þess að leitað yrði leyfis til vinnslu gulls, fyndist það í vinnanlegu magni, en ekki eingöngu í rannsóknartilgangi, eins og kærandi segi í kæru.

Samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli afla framkvæmdaleyfis fyrir framkvæmd sem þessari. Í 4. mgr. greinarinnar komi fram að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Af 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi verði ráðið að allar framkvæmdir sem teljist meiriháttar hafi áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og í 5. mgr. komi fram að framkvæmdaleyfi veiti ekki heimild til framkvæmda sem brjóti í bága við gildandi skipulagsáætlanir og ákvæði laga og reglugerða eða rétt annarra. Í 7. gr. reglugerðarinnar komi auk þess fram að framkvæmdaleyfi skuli vera gefið út á grundvelli deiliskipulags, en heimilt sé þó að veita leyfi á grundvelli aðalskipulags ef í því sé gerð grein fyrir framkvæmdinni og fjallað á ítarlegan hátt um umfang, frágang, áhrif hennar á umhverfið og annað sem við eigi.

Í samræmi við þessi ákvæði hafi Mosfellsbær tekið til skoðunar hvort fyrirhuguð framkvæmd væri í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir. Ekki sé til neitt deiliskipulag fyrir umrætt svæði en í Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 komi fram að svæðið sé skipulagt sem óbyggt svæði og landbúnaðarsvæði. Um óbyggð svæði komi eftirfarandi fram í aðalskipulaginu: „Innan óbyggðra svæða er gert ráð fyrir uppbyggingu sem lýtur að stígagerð og útivistaraðstöðu og fer það eftir umfangi hvort vinna þarf deiliskipulag.“

Samkvæmt gr. 6.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 komi fram að óbyggð svæði séu svæði þar sem hvorki sé gert ráð fyrir búsetu né atvinnustarfsemi, svo sem hálendi, heiðar og afréttir, að mestu án mannvirkja annarra en þeirra sem þjóni útivist, afréttarnotum, öryggismálum og fjarskiptum. Í sömu grein komi fram að landbúnaðarsvæði séu svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengist búrekstrinum, með áherslu á búfénað, matvæla- og fóðurframleiðslu.

Í skipulaginu hafi einnig verið mörkuð sú stefna sem fram komi í gr. 3.6, á bls. 25, að ljúka skuli vinnslu og ganga frá öllum þáverandi námusvæðum á skipulagstímabilinu, nema grjótnámi í Seljadal.

Sé því ljóst að aðalskipulag Mosfellsbæjar geri hvorki ráð fyrir því að leyfðar verði rannsóknarboranir né námuvinnsla á umræddu svæði, eins og kærandi og samstarfsaðilar stefni að. Slík starfsemi falli ekki innan þeirrar landnotkunar sem ákveðin hafi verið í aðalskipulaginu og sé ekki í samræmi við þá stefnu sem Mosfellsbær hafi mótað um að ljúka vinnslu og ganga frá öllum námusvæðum nema einu. Þá séu ekki uppfyllt ákvæði 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi, enda sé ekki í skipulaginu gerð grein fyrir framkvæmdinni og fjallað á ítarlegan hátt um umfang, frágang, áhrif hennar á umhverfið og annað það sem við eigi. Ljóst sé því að umræddar rannsóknarboranir séu ekki í samræmi við aðalskipulag Mosfellsbæjar og því hafi ekki verið hægt að verða við ósk kæranda um útgáfu umrædds leyfis.

Niðurstaða: Í kæru kemur fram að kæruefnið sé ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 31. janúar 2017 og sú niðurstaða hennar um að hafna veitingu framkvæmdaleyfis. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu lá ákvörðun skipulagsnefndar um að synja umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi vegna rannsóknarborana og skurðgraftar fyrir 6. september 2016. Ákvörðunin var tilkynnt með bréfi, dags. 7. s.m., og kæruleiðbeiningar veittar. Staðfesting bæjarstjórnar lá fyrir 14. s.m. Með tölvupósti 13. september s.á. fór kærandi fram á að haldinn yrði kynningarfundur vegna afgreiðslu málsins og fór hann fram 30. nóvember s.á., í kjölfar frekari tölvupóstsamskipta milli aðila. Sama dag var lögð fram beiðni kæranda um endurupptöku. Var þá kærufrestur vegna synjunar bæjarstjórnar um framkvæmdaleyfi liðinn og hafði sú synjun þá hvorki verið kærð né kærufrestur verið rofinn, enda hafði ekki verið farið fram á endurupptöku innan hans. Gaf ekkert í samskiptum aðila heldur tilefni til að ætla að svo yrði gert þótt ljóst væri að kærandi hefði hug á að kynna frekar sín áform. Verður í ljósi orðalags kærunnar og þess sem að framan er rakið að líta svo á að hin kærða ákvörðun sé synjun bæjarstjórnar frá 8. febrúar 2017 á beiðni kæranda um endurupptöku. Einskorðast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við þá ákvörðun og málsmeðferð hennar.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Með beiðni kæranda um endurupptöku fylgdu engin ný gögn, en haldinn var kynningarfundur á hans vegum þar sem upplýsingar um umfang og tilgang rannsókna voru kynntar. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar um synjun endurupptöku lá fyrir glærusýning frá fundinum þar sem m.a. var farið yfir hver framkvæmdaraðili væri, fyrirhugaðar framkvæmdir, sögu námuvinnslu á svæðinu og rannsóknargildi þess. Verður ekki séð að þær upplýsingar sem þar komu fram bendi til að fyrri ákvörðun sveitarstjórnar Mosfellsbæjar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, sbr. áðurgreinda 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá var ekki um að ræða íþyngjandi ákvörðun eða breytt atvik frá því að fyrri ákvörðun var tekin. Voru því ekki fyrir hendi skilyrði til endurupptöku þeirrar ákvörðunar að hafna framkvæmdaleyfisumsókn kæranda og var bæjarstjórn rétt að synja beiðni kæranda þar um.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.


Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 8. febrúar 2017 um að synja beiðni um endurupptöku ákvörðunar um að synja um framkvæmdaleyfi vegna rannsóknarborana og skurðgraftar.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (sign)

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (sign)                          Ásgeir Magnússon (sign)

164/2016 Búðavegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 7. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 164/2016, kæra á ákvörðun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 11. ágúst 2016, sem staðfest var af bæjarráði 15. s.m., um að afturkalla leyfi fyrir breyttri skráningu matshluta 0201 að Búðavegi 35, Fáskrúðsfirði í Fjarðabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. desember 2016, er barst nefndinni 8. s.m., kærir A þá ákvörðun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 11. ágúst 2016, sem staðfest var af bæjarráði 15. s.m., að afturkalla leyfi fyrir breyttri skráningu matshluta 0201 að Búðavegi 35, Fáskrúðsfirði, Fjarðabyggð.

Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að skráningu umrædds rýmis verði breytt í íbúðarhúsnæði. Verði hin kærða ákvörðun ekki metin ógild er gerð krafa um að Fjarðabyggð greiði kæranda skaðabætur.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 9. janúar 2017 og í maí 2018. 

Málavextir: Kærandi er samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skráður eigandi efri hæðar hússins að Búðavegi 35, Fáskrúðsfirði, matshluta 0201, en tveir eignarhlutar eru í húsinu. Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 20. apríl 2015 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að breyta notkun umrædds rýmis  úr verslunar- og skrifstofuhúsnæði í íbúð. Mótmæltu eigendur neðri hæðar hússins þeirri ákvörðun og kröfðust þess að hún yrði felld úr gildi. Jafnframt óskaðu þeir eftir áliti kærunefndar húsamála vegna málsins og lá álit nefndarinnar fyrir 11. apríl 2016. Var niðurstaða þess sú að eiganda efri hæðar hússins væri óheimilt að breyta eignarhluta sínum úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði án samþykkis allra eigenda hússins. Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 15. júní 2016 var fært til bókar að nefndin teldi að í ljósi fyrrgreinds álits kærunefndar húsamála kynni samþykkt byggingarleyfi um breytta notkun efri hæðar hússins að Búðavegi 35 að vera ógildanlegt. Var byggingarfulltrúa falið að tilkynna eiganda efri hæðarinnar um mögulega ákvörðun nefndarinnar um afturköllun byggingarleyfisins og veita rétt til andmæla áður en ákvörðun yrði tekin. Staðfesti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 23. s.m.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 11. ágúst 2016. Á fundinum var lagt fram andmælabréf eiganda efri hæðar Búðavegs 35. Lagði nefndin til að samþykkt byggingarleyfi frá 20. apríl 2015 fyrir breyttri notkun á efri hæð hússins yrði afturkallað. Var fært til bókar að ástæða afturköllunarinnar væri sú að byggingarleyfið teldist ógildanlegt þar sem eigandi efri hæðar hefði ekki haft eignarréttarlegar heimildir til breyttrar notkunar eignarinnar skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. álit kærunefndar húsamála, dags. 11. apríl 2016. Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að tilkynna um afturköllunina og færa skráningu eignarinnar til samræmis við skráningu fyrir útgáfu byggingarleyfisins. Staðfesti bæjarráð nefnda afgreiðslu 15. ágúst 2016.

Málsrök kæranda:
Kærandi tekur fram að það sé með öllu óásættanlegt að stjórnvald afturkalli byggingarleyfi 16 mánuðum eftir að það hafi verið gefið út. Ekki sé um ógildanlega ákvörðun að ræða skv. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umrædd ákvörðun sé mjög íþyngjandi og ekki hafi verið sýnt fram á nauðsyn hennar eða að veigamiklar ástæður séu fyrir henni. Rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið sinnt. Verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Ekki hafi verið sýnt fram á neina þá hagsmuni sem skerðist eða tjón sem eigendur neðri hæðarinnar verði fyrir við það að byggingarleyfi sé veitt. Búið sé að leggja í mikla vinnu og fjármuni við að gera eignina þannig úr garði að hún uppfylli skilyrði til íbúðar. Varðandi kærufrest þá hafi aðili sá sem kæri fyrir hönd dánarbúsins fengið bréf skipulags- og byggingarfulltrúa í tölvupósti 8. nóvember 2016.

Málsrök Fjarðabyggðar. Sveitarfélagið krefst frávísunar málsins en ella að kröfum kæranda verði hafnað. Ljóst sé að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni að liðnum lögboðnum kærufresti. Tilkynning um hina kærðu ákvörðun hafi verið send í ábyrgðarbréfi á lögheimili kæranda í ágúst 2016 en kæra hafi ekki borist nefndinni fyrr en 8. desember sama ár. Hinn 8. nóvember 2016 hafi skipulags- og byggingarfulltrúi náð símleiðis í talsmann dánarbúsins og í kjölfarið sent honum framangreint bréf í tölvupósti.

Þegar álit kærunefndar húsamála í málinu hafi komið fram hafi ein grundvallarforsenda fyrir upphaflegu byggingarleyfi brostið. Hafi efnisleg skilyrði fyrir afturköllun byggingarleyfisins því verið til staðar og við þá ákvörðun hafi verið gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.
 
Með bréfi sínu, dags. 22. ágúst 2016, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi um afturköllun ákvörðunar sinnar frá 20. apríl 2015, um veitingu byggingarleyfis fyrir breyttri notkun á efri hæð Búðavegar 35. Var bréfið sent í ábyrgðarpósti til talsmanns dánarbúsins. Tilgreindur komudagur ábyrgðarsendingarinnar var 30. ágúst 2016 samkvæmt afriti af bréfinu. Var bréfsins ekki vitjað og það endursent 29. september s.á. Liggur fyrir staðfesting frá Þjóðskrá Íslands um að fyrrgreindur aðili hafi verið með skráð lögheimili með því heimilisfangi er bréfið var sent á. Afrit bréfsins var jafnframt sent til einkahlutafélags sem skráð er með aðsetur að Búðavegi 35, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá er fyrrgreindur talsmaður dánarbúsins stjórnarmaður þess félags og forráðamaður. Hafði umræddur talsmaður verið í samskiptum við sveitarfélagið vegna málefna er lutu að Búðavegi 35.

Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að ákvörðun sé bindandi eftir að hún sé komin til aðila máls. Það er þó ekki gert að skilyrði að ákvörðun sé komin til vitundar hans en þetta kemur fram í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til stjórnsýslulaga. Kærandi getur því ekki frestað eða afstýrt réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar með því að taka ekki á móti bréfi sem ákvörðunina hefur að geyma. Í samræmi við þetta verður að telja að hin kærða ákvörðun hafi borist kæranda í skilningi stjórnsýslulaga 30. ágúst 2016 er tilkynning um hana barst á lögheimili talsmanns kæranda. Samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða næsta dag, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga, og honum lauk 3. október s.á. Svo sem fram hefur komið barst úrskurðarnefndinni kæran 8. desember 2016 og var kærufrestur þá liðinn. Þá verður ekki séð  að fyrir hendi séu þau atvik eða ástæður er mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar á grundvelli undantekningarheimilda 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. Þá liggur það utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til kröfu kæranda um greiðslu skaðabóta.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson (sign)

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (sign)                          Ásgeir Magnússon (sign)

152/2016 Rauðarárstígur 1

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 6. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 152/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. nóvember 2016, er barst nefndinni 20. s.m., kærir Hostel LV 105 hf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. október 2016 að hafna umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun eignarhluta 0101 og 0102 á 1. hæð hússins að Rauðarárstíg 1, Reykjavík, úr verslunarhúsnæði í gististað í flokki II, tegund E. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að innrétta gististað í flokki II, tegund E, fyrir átta gesti í eignarhlutum 0101 og 0102 á fyrstu hæð í íbúðar- og atvinnuhúsi á lóð nr. 1 við Rauðarárstíg í Reykjavík. Var umsókninni synjað með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa frá 27. október 2015. Sú afgreiðsla var staðfest í borgarráði 20. október 2016.

Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið rökstudd með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um annað erindi en sótt hafi verið um. Umsótt breyting sé í samræmi við stefnu gildandi aðalskipulags Reykjavíkur og gildandi deiliskipulag umrædds svæðis. Málsmeðferð ákvörðunarinnar hafi farið gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, laga um mannvirki nr. 160/2010 og almennum reglum stjórnsýsluréttarins, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Borgaryfirvöld benda á að í fyrrgreindri umsögn, sem vísað hafi verið til við töku hinnar kærðu ákvörðunar, hafi verið fjallað um sambærilegt tilvik og mál þetta snúist um. Aðalskipulag kveði á um að verslunar- og þjónustustarfsemi hafi forgang á fyrstu hæðum götuhliða húsa á svæðinu. Umsókn kæranda sem synjað hafi verið hafi hvorki verið í samræmi við aðalskipulag né deiliskipulag.

Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í veðbandsyfirliti frá Þjóðskrá Íslands urðu eigendaskipti á fasteignum kæranda í húsinu að Rauðarárstíg 1 á árinu 2017 og voru afsöl þess efnis þinglýst 26. maí 2017.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Lögvarðir hagsmunir kæranda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu hans sem handhafa fasteignaréttinda í húsinu að Rauðarárstíg 1. Eins og fyrr er rakið á kærandi ekki lengur réttindi tengd umræddri fasteign og á hann því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Auk þess hafa nýir eigendur eignarhlutanna sótt um og fengið samþykkt byggingarleyfi fyrir breyttri notkun þeirra samkvæmt ákvörðun byggingarfulltrúa frá 20. febrúar og 10. apríl 2018. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
  

_________________________________________
Ómar Stefánsson (sign)

2/2018 Fiskeldi Dýrafirði

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 7. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2018, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 22. nóvember 2017 um veitingu starfsleyfis fyrir 4.000 tonna ársframleiðslu á laxi eða regnbogasilungi í sjókvíum í Dýrafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. janúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið laxinn lifi og nánar tilgreindir eigendur og veiðiréttarhafar Haffjarðarár, Fífustaðadalsár, Bakkadalsár, Vatnsdalsár, Hvannadalsár, Langadalsár, Þverár og Laxár á Ásum þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 22. nóvember 2017 að veita starfsleyfi fyrir 4.000 tonna ársframleiðslu á laxi eða regnbogasilungi í sjókvíum í Dýrafirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 1. mars 2018.

Málavextir:
Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi 22. nóvember 2017 til handa Arctic Sea Farm hf. Starfsleyfið tekur til framleiðslu á 4.000 tonnum af laxi/regnbogasilungi á ársgrundvelli í Dýrafirði, að hámarki 4.000 tonn af lífmassa á hverjum tíma. Ber að miða við meðalframleiðslu á þriggja ára tímabili. Er rekstraraðila heimilað kynslóðaskipt eldi í sjókvíum á þremur sjókvíaeldissvæðum í Dýrafirði, sem eru við Haukadalsbót, Gemlufall og Eyrarhlíð. Tekið er fram að framleiðsla verði allt að 2.000 tonn á ári á hverju eldissvæði og að eldið verði að jafnaði á tveimur sjókvíaeldissvæðum í senn, en eitt svæði verði hvílt milli eldislota, að lágmarki í sex mánuði.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir eigi mikilla hagsmuna að gæta um að ekki sé stefnt í hættu lífríki Haffjarðarár, Fífustaðadalsár, Bakkadalsár, Vatnsdalsár, Hvannadalsár, Langadalsár, Þverár og Laxár á Ásum, þar á meðal hinum villtu lax- og silungastofnum ánna, m.a. með lúsafári og mengun frá erlendum og framandi regnbogasilungi og/eða norskum, kynbættum eldislaxi, sem muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Dýrafirði.

Farið sé fram á að réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar þar sem gera megi ráð fyrir töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar í kærumálinu og að framkvæmdir geti hafist við umrætt sjókvíaeldi áður en afgreiðsla nefndarinnar liggi fyrir.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er á það bent að það sé almenn regla stjórnsýsluréttar að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Rekstraraðili hafi áður verið með eldi í Dýrafriði og hafi nú fengið víðtækara leyfi, en það sé vel innan burðarþols fjarðarins.

Athugasemdir rekstraraðila: Af hálfu rekstraraðila er farið fram á að hafnað verði kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar vegna vanreifunar. Ekki liggi fyrir hvort kærendur byggi kröfu sína á ákvæðum laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða á öðrum grundvelli. Þau ein rök séu tilgreind fyrir kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa að búast megi við töluverðum afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar. Því fari fjarri að svo almenn röksemdafærsla geti dugað til að fallist verði á slíka kröfu.

Rekstraraðili hafi lagt stund á fiskeldi frá árinu 2009 og hafi aukin framleiðsla í Dýrafirði verið í undirbúningi í mörg ár með tilheyrandi kostnaði. Frekari frestun framleiðslunnar hefði í för með sér mikið tjón fyrir rekstraraðila auk þess sem afleidd áhrif yrðu verulega neikvæð fyrir uppbyggingu starfa og innviða á Vestfjörðum. Vegi þeir hagsmunir verulega þyngra en hagsmunir kærenda, einkum þegar litið sé til þess að kærendur hafi engin rök fært fyrir nauðsyn þess að fresta réttaráhrifum. Sé ekki knýjandi nauðsyn á að fallast á þá kröfu þeirra.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar. Þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærendur byggja í kæru sinni á því að gífurlegt magn úrgangs stafi frá eldinu og að því fylgi hætta á lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun. Í greinargerð Umhverfisstofnunar með hinu kærða starfsleyfi kemur fram að Skipulagsstofnun hafi metið það svo að stækkun fyrirhugaðs eldis þyrfti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum. Er hvað það varðar vísað til matsskylduákvörðunar stofnunarinnar frá 8. júlí 2015, sem hefur ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Þar kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar stækkunar á fiskeldi í Dýrafirði kunni að felast í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist í villta laxfiska frá eldisfiski í sjókvíum eða strokufiskum úr fyrirhuguð eldi, hvort heldur verði um að ræða eldi á regnbogasilungi eða laxi. Áhrif fyrirhugaðs eldis á erfðablöndun og veiðihlunnindi séu ekki líkleg til að verða umtalsverð. Áhrif á botndýralíf undir eldiskvíum verði staðbundin og ráðist af umhverfisaðstæðum á hverjum stað, auk þess að vera afturkræf að hluta eða alveg verði eldinu hætt. Fyrirhuguð stækkun á fiskeldinu í Dýrafirði sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun rekur jafnframt í ákvörðun sinni að í gögnum málsins komi fram að til staðar sé rekstrarleyfi til framleiðslu á allt að 2.000 tonnum af regnbogasilungi eða laxi árlega við Haukadalsbót og Gemlufall í Dýrafirði. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar gildi hins vegar einungis fyrir svæði við Haukadalsbót. Fyrirhugað sé að auka núverandi framleiðslu á regnbogasilungi úr 2.000 tonnum í 4.000 tonn, sem mögulega breytist í laxeldi síðar. Einnig bætist nýtt eldissvæði, utan við Eyrarhlíð, við þau tvö sem núgildandi rekstrarleyfi geri ráð fyrir.

Ágreiningur máls þessa snýst um leyfi vegna framleiðsluaukningar fyrir fiskeldi í Dýrafirði. Sú breyting sem af leyfisveitingunni hlýst er einkum aukin framleiðsla og jafnframt er eldið heimilað víðar í firðinum en áður. Hætta á að fram komi þau umhverfisáhrif sem kærendur halda fram var því þegar til staðar áður en hið kærða leyfi var veitt. Þó sú hætta aukist e.t.v. eitthvað verður ekki séð að hún aukist í þeim mæli á meðan á meðferð málsins stendur að kæruheimild verði þýðingarlaus. Að sama skapi verður að telja hættu á að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér mikið tjón fyrir leyfishafa. Eru því ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun á réttaráhrifum á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 22. nóvember 2017 um að veita starfsleyfi fyrir 4.000 tonna ársframleiðslu á laxi eða regnbogasilungi í sjókvíum í Dýrafirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (sign)

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (sign)                            Ásgeir Magnússon (sign)

 

111/2016 Rannsóknarleyfi Vopnafirði

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 7. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 111/2016, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 19. júlí 2016 um að veita leyfi til leitar og rannsókna á málmum í Vopnafirði og við Héraðsflóa. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. ágúst 2016, kærir eigandi, Fremra-Nýpi, Vopnafirði, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 19. júlí 2016 að veita leyfi til leitar og rannsókna á málmum í Vopnafirði og við Héraðsflóa. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 14. september 2016.

Málavextir: Með bréfi til Orkustofnunar, dags. 10. september 2014, sótti Iceland Resources ehf. um leyfi til leitar og rannsóknar á málmum á átta svæðum á Íslandi, m.a. í Vopnafirði og við Héraðsflóa. Við meðferð umsóknarinnar hjá Orkustofnun var umsækjanda leiðbeint um frekari meðferð umsóknar hans og barst stofnuninni uppfærð umsókn 8. mars 2015.

Með bréfum, dags. 26. júní 2015, óskaði Orkustofnun eftir umsögnum frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands, Vopnafjarðarhreppi, Fljótsdalshéraði, Veiðimálastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun, er allar bárust í júlí og ágúst s.á. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Austurlands kom fram að sú krafa væri gerð að allt yrði fjarlægt af og úr jörðu í kjölfar tímabundinnar starfsemi sem eftirlitið veitti leyfi fyrir. Vatnsból Vopnafjarðarhrepps væru á því svæði sem merkt væri sem fyrirhugað leitarsvæði. Að auki væru margir bæir með vatnsveitur á svæðinu. Á brunnsvæðum myndi heilbrigðiseftirlitið ekki heimila framkvæmdir, en á grannsvæðum vatnsbóla væru fordæmi fyrir starfsleyfum vegna jarðborana og þá með ströngum skilyrðum um meðferð úrgangs, olíuefna, viðhald tækja o.þ.h. Yrði af leyfisveitingum þyrfti að skilyrða þau leyfum og eftirliti heilbrigðisnefndar. Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun gerðu ekki athugasemdir við yfirborðsrannsóknir og sýnatöku en Náttúrufræðistofnun tók fram að ekki ætti að heimila boranir án undangenginnar skoðunar á því hvar ætti að bora og að í öllum tilfellum ætti að sækja sérstaklega um leyfi til borana, enda skipti staðsetning þeirra miklu máli. Umhverfistofnun taldi að leita ætti umsagnar stofnunarinnar þegar ákvarðanir hefðu verið teknar um staðsetningu kjarnahola og það verklag sem viðhaft yrði við að flytja bortæki á rannsóknarstað. Veiðimálastofnun áréttaði að rannsóknaraðili skyldi gæta þess að hafa sem minnst áhrif á vatn árinnar, svo sem að grugga það upp. Ef notaðar yrðu vélar skuli hreinsa þær til að tryggt verði að skaðleg efni berist ekki í vatnið og takmarka skuli sýnatökusvæðið eins og kostur er. Sveitarstjórnir Vopnafjarðarhrepps og Fljótsdalshéraðs gerðu ekki athugasemdir við umsóknina. Var umsækjanda gefinn kostur að gera athugasemdir við framkomnar umsagnir og bárust þær með bréfi, dags. 27. ágúst 2015. Umsækjandi tók undir umsagnir að mestu leyti og áréttaði að sýnatökur yrðu í takmörkuðu magni og að settar yrðu vinnureglur fyrir rannsóknarhópa. Sérstök aðgát yrði sýnd á vatnsverndarsvæðum.

Við frekari meðferð umsóknarinnar féllst umsækjandi á að leyfissvæðið yrði afmarkað á grundvelli reitakerfis frá Landmælingum Íslands og jafnframt að svæðið yrði aðlagað í samræmi við þá kröfu laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, að leyfissvæði þurfi að vera innan netlaga.

Orkustofnun veitti leyfi 19. júlí 2016 til handa umsækjanda, á grundvelli umsóknar hans frá 8. mars 2015, til leitar og rannsókna á málmum í Vopnafirði og við Héraðsflóa. Gildir leyfið til 15. júlí 2021 og tekur til 598,5 km² svæðis. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Með bréfi leyfishafa, dags. 28. júlí 2016 var kæranda tilkynnt um leyfisveitinguna og tekið fram að ef til þess kæmi að koma þyrfti á land hans myndi verða haft samband við hann símleiðis. Rannsóknir myndu fela í sér að fjórir til fimm jarðfræðingar myndu ganga um hlíðar og fjöllin í kringum Vopnafjörðinn, kortleggja svæðið og taka sýni úr jarðvegi, sem ekki myndi valda jarðvegsraski eða sárum á svæðinu. Kærandi beindi mótmælum vegna fyrirhugaðrar leitar og rannsóknar til Orkustofnunar og leyfishafa með bréfi, dags. 10. ágúst 2016.

Málsrök kæranda:
Af hálfu kæranda er bent á að markmið leitar og rannsóknar, eins og þeirrar sem heimiluð sé með hinu kærða rannsóknarleyfi, hljóti að vera það að hún leiði til vinnslu með tilheyrandi róti og landskemmdum. Skaginn milli Vopnafjarðar og Héraðsflóa sé allur á náttúruminjaskrá allt að Búrfjalli og sé óvenju fallegt svæði sem ekki megi raska. Sé öllum slíkum hugmyndum því harðlega mótmælt af kæranda sem viti til þess að mikill meirihluti eigenda sé honum sammála í þessu máli.

Megi í þessu sambandi minna á stjórnarskrá Íslands. Eignarétturinn sé friðhelgur og engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almannaþörf krefjist. Engar slíkar forsendur séu hér fyrir hendi, aðeins gróðabrall fjáraflamanna, en það geti á engan hátt réttlæt svona gróf inngrip í eignarétt kæranda.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun bendir á að með lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, hafi iðnaðarráðherra, í umboði ríkisins, verið veitt heimild til að hafa frumkvæði að og láta leita að auðlindum í jörðu hvar sem er á landinu, innan sem utan eignarlanda, hvort sem landeigandi sjálfur hefði hafið slíka rannsókn eða heimilað hana öðrum, nema sá aðili hefði áður fengið rannsóknarleyfi. Ráðherra geti með sama hætti heimilað öðrum að annast slíkar rannsóknir. Með breytingu á lögum nr. 57/1998, með lögum nr. 123/2011, hafi heimild ráðherra verið flutt til Orkustofnunar.

Með 4. gr. laga nr. 57/1998 sé staðfest sú regla gömlu námulaganna að stjórnvöldum sé heimilt að hafa frumkvæði að leit og rannsóknum á auðlindum í jörðu og heimila það öðrum með útgáfu rannsóknarleyfis. Gert sé ráð fyrir því að heimildir Orkustofnunar nái bæði til landsvæðis utan eignarlands og innan. Það sé m.a. hlutverk Orkustofnunar að standa fyrir rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar, á orkulindum landsins og hafsbotnsins, sem og á öðrum jarðrænum auðlindum, þannig að unnt sé að meta þær og veita stjórnvöldum ráðgjöf um skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra.  Einnig að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla til stjórnvalda og almennings, sbr. 2. gr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun.

Í samræmi við fyrrgreinda 4. gr. laga nr. 57/1998 hafi Orkustofnun 19. júlí 2016 gefið út leyfi til leitar og rannsókna á málmum í Vopnafirði og við Héraðsflóa 2016-2021. Ákvörðunin sé lögmæt og í samræmi við umrætt ákvæði auðlindalaga, sbr. einnig ákvæði 2. gr. laga um Orkustofnun. Gætt hafi verið að grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins við málsmeðferð Orkustofnunar og leitað hafi verið umsagnar lögbundinna umsagnaraðila. Ekki hafi þó verið leitað umsagnar landeiganda, sbr. lokamálsl. 13. gr. stjórnsýslulaga, bæði vegna þess að það hefði ekki haft þýðingu við úrlausn umsóknarinnar og eins vegna þess að landeigendum hafi almennt verið kunnugt, af fjölmiðlaumræðu og umræðu í byggðarlaginu, um hina fyrirhuguðu leyfisveitingu. Eins og fram komi í fylgibréfi með leyfisveitingunni, dags. 19. júlí 2016, hafi eigandi að þriðjungi eyðijarðarinnar Fagradals í Vopnafirði, kærandi í máli þessu, haft samband við Orkustofnun í byrjun júní s.á. og lagst eindregið gegn því að leyft yrði að leita að málmum á landareign hans. Hafi það m.a. verið ástæða þess að Orkustofnun hafi beint því til leyfishafa að taka tillit til sjónarmiða landeiganda og hefði samráð við hann um framkvæmd leyfisins á landareign hans.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að félagið hafi engar athugasemdir fram að færa á þessu stigi málsins en árétti að farið hafi verið eftir öllum settum lögum og reglum við veitingu leyfisins. Fyrirtækið hafi sent yfir sjötíu bréf til landeigenda á svæðinu þar sem þeim hafi verið tilkynnt um komu fyrirtækisins og áætlanir. Sé því talið að tilkynningarskylda fyrirtækisins samkvæmt lögum hafi verið uppfyllt.

Þó sé bent á að um sé að ræða rannsóknarleyfi sem feli ekki í sér jarðrask á þessu stigi máls. Ef til þess komi að ítarlegri rannsóknir fari fram sem hugsanlega geti valdið jarðraski verði farið eftir þeim lögum og reglum sem við eigi hverju sinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Orkustofnunar frá 19. júlí 2016 um að veita leyfi til leitar og rannsókna á málmum í Vopnafirði og við Héraðsflóa, en kærandi er einn eigenda jarðar í Vopnafirði sem liggur innan þess svæðis sem leyfið tekur til.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu gefur Orkustofnun út rannsóknarleyfi til rannsóknar og leitar að auðlindum í jörðu, en um veitingu leyfis, efni þess og afturköllun fer nánar eftir VIII. kafla laganna, sbr. og 1. mgr. 5. gr. þeirra. Landeiganda eða umráðamanni lands er skylt að veita rannsóknarleyfishöfum óhindraðan aðgang að eignarlandi því sem í hlut á, sbr. 1. mgr. 26. gr. nefndra laga, og skv. 2. mgr. lagagreinarinnar ber landeiganda eða umráðamanni skv. 1. mgr. að hlíta hvers konar afnotum af landi, takmörkun á umráðarétti og óþægindum sem nauðsynleg eru vegna rannsóknar í samræmi við viðkomandi leyfi. Loks getur landeigandi krafist bóta vegna tjóns sem hann verður sannanlega fyrir af m.a. rannsóknum á auðlind innan eignarlands vegna röskunar eða skemmda á landi og mannvirkjum og náist ekki samkomulag um bætur skal ákveða þær með eignarnámsmati, sbr. 28. gr. laganna.

Af framangreindum lagaákvæðum er ljóst að þegar að rannsókn og leit að auðlindum í jörðu fer fram verða landeigendur að þola ákveðnar takmarkanir á eignarrétti sínum hvað varðar umráð og afnot eigna sinna. Í lögum nr. 57/1998 er fjallað um veitingu leyfis, efni þess og afturköllun, en að öðru leyti verður Orkustofnun við málsmeðferð sína, rétt eins og stjórnvöld almennt, að fara að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og viðhafa vandaða stjórnsýsluhætti. Felst í því m.a. að veita skal landeigendum tækifæri til að koma að athugasemdum sínum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga.

Hið kærða leyfi felur samkvæmt 2. gr. laga nr. 57/1998 í sér heimild fyrir leyfishafa til leitar og rannsóknar á málmum, með sérstaka áherslu á gull og kopar, á tilteknu leitar- og rannsóknarsvæði í Vopnafirði og við Héraðsflóa. Nánar tiltekið heimilar leyfið leit að málmum á yfirborði ásamt rannsókn á útbreiðslu, magni og efniseiginleikum málma á leitar- og rannsóknarsvæðinu. Þá tekur leyfið einnig til heimildar til kjarnaborana á afmörkuðum svæðum innan svæðisins, að undangengnu frekara mati á leitar- og rannsóknaráætlun umsækjanda fyrir þau svæði sem hann vill rannsaka nánar. Er og tekið fram í leyfinu að komi til þeirra rannsókna muni Orkustofnun senda beiðni um frekara mat af því tilefni til lögboðinna umsagnaraðila, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 57/1998, og annarra aðila eftir atvikum. Nánar er fjallað um leyfisveitinguna í fylgibréfi Orkustofnunar til leyfishafa, dags. 19. júlí 2016. Varðandi kjarnaboranir er rakið álit umsagnaraðila og viðbrögð leyfishafa þess efnis að hann muni leita umsagna og leyfa þegar og ef boranir fari fram. Einnig er tekið fram um afstöðu landeigenda að eigandi jarðar á svæðinu, sem mun vera kærandi þessa máls, hafi lagst gegn leyfisveitingunni. Stofnunin óski eftir að leyfishafi taki tillit til óska landeigandans en hún hafi ekki forsendur til að afmarka leyfissvæðið á þann hátt að hans hluti nefndrar jarðar verði utan rannsóknarsvæðisins. 

Af því sem að framan er rakið er ljóst að afstaða kæranda lá fyrir Orkustofnun áður en hin kærða leyfisveiting fór fram. Verður því að fallast á að með hliðsjón af 2. málslið 13. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið þörf á að gefa kæranda frekara færi á að gæta andmælaréttar síns. Þá verður að leggja þann skilning í orðalag hins kærða leyfis að heimild leyfishafa til kjarnaborana sé bundin því skilyrði að sérstök ákvörðun verði tekin þar um af Orkustofnun þegar fyrir liggi hvar fyrirhugaðar rannsóknarboranir muni eiga sér stað og umsagnir þar um, bæði þær umsagnir sem lög mæla fyrir um og aðrar eftir því sem við á. Yrði slík heimild veitt til kjarnarborana í landi kæranda verður að gera ráð fyrir því að honum verði á því stigi veittur andmælaréttur. Eins og fram kemur í rannsóknarleyfinu þá er leyfið háð almennum gildandi réttarreglum og útgáfa þess undanþiggur leyfishafa ekki frá því að afla þeirra leyfa sem önnur lög kveða á um. Þá þarf eftir atvikum að koma til önnur ákvörðun áður en rannsóknarboranir geta hafist,  s.s. ákvörðun um útgáfu starfsleyfis skv. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað, enda verður ekki séð að neinir þeir annmarkar á málsmeðferð liggi fyrir er leitt geta til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Orkustofnunar frá 19. júlí 2016 um að veita leyfi til leitar og rannsókna á málmum í Vopnafirði og við Héraðsflóa.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (sign)

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (sign)                            Ásgeir Magnússon (sign)

 
 

 

53/2018 Skemmubygging í Bjarnarflagi

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 29. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 53/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Björk, Mývatni, þá ákvörðun  byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var fallist á stöðvunarkröfu kæranda með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 17. apríl 2018.

Málsatvik og rök:
Með bréfi byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps, dags. 7. mars 2018, var Léttsteypunni ehf. tilkynnt að umsókn félagsins um byggingu skemmu í Bjarnarflagi hefði verið samþykkt sama dag. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Kærandi vísar til þess að hann sé sameigandi að lóðarréttindum þeirrar lóðar sem heimiluð skemma skuli standa á. Með hinni kærðu ákvörðun sé því brotið gegn stjórnarskrárvörðum eignarétti hans. Auk þess fari ákvörðunin í bága við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og sé málsmeðferð að öðru leyti svo ábótavant að ógildingu varði.

Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að eftir athugun málsins hafi verið ákveðið að kanna hvort tilefni væri til að afturkalla hina kærðu ákvörðun. 

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins, en hann hefur ekki nýtt sér þann kost í ljósi þeirrar málsmeðferðar sem fram fór hjá sveitarfélaginu í kjölfar kæru.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem veitt var 7. mars 2018 til byggingar skemmu í Bjarnarflagi. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. maí 2018, var leyfishafa tilkynnt um afturköllun hins kærða byggingarleyfis. Var vísað til bókunar skipulagsnefndar á fundi sínum 14. s.m. um málið, sem og til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og tiltekið að þar sé m.a. gert ráð fyrir að heimilt sé að afturkalla ákvörðun ef hún teljist ógildanleg. Var og tekið fram að vegna stöðu eignaréttarlegra heimilda hafi ekki verið uppfyllt skilyrði til útgáfu byggingarleyfis.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Nanna Magnadóttir

51/2017 Rannsóknarleyfi utan netlaga

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 31. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 51/2017, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 19. apríl 2017 um að veita leyfi til leitar og rannsókna á jarðhita á tveimur rannsóknarsvæðum utan netlaga við Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 19. apríl 2017 að „heimila rannsóknarboranir vegna fyrirhugaðrar nýtingar jarðhita til orkuvinnslu á Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi“. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 1. júní 2017.

Málsatvik og rök: Með vísan til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins sótti North Tech Energy hf. hinn 13. janúar 2017 um leyfi til Orkustofnunar til leitar og rannsókna á jarðhita á tveimur rannsóknarsvæðum utan netlaga, við Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi. Sótt var um rannsóknarleyfi til þriggja ára og var jafnframt óskað eftir fyrirheiti til forgangs að nýtingarleyfi, skv. 3. gr. nefndra laga í allt að tvö ár eftir að gildistíma rannsóknarleyfis lyki. Hinn 19. apríl s.á. var hið umsótta leyfi veitt og fékk leyfishafi forgang til nýtingar jarðhita á leyfissvæðinu vegna jarðvarmavirkjunar í tvö ár að loknum gildistíma leyfisins, þ.e. til 2022.

Af hálfu kæranda er vísað til b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er varði kæruheimild. Falli framkvæmdin undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en hún kunni að hafa í för með sér umtalsferð umhverfisáhrif og metið sé í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort slík framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt skv. 6. gr., sbr. tl. 2.06. í 2. kafla 1. viðauka laga nr. 106/2000. Í i-lið tl. 2.06 komi fram að borun á vinnsluholum og rannsóknarholum á háhitasvæðum sé tilkynningarskyld framkvæmd, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.

Kærandi hafi lögvarða hagsmuni sbr. ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 106/2000 og í samræmi við tilgang samtakanna, sbr. og 2. mgr. 9. gr. Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum, sem fullgiltur hafi verið hér á landi. Einnig sé byggt á 3. mgr. 9. gr. samningsins að því er varði kæruheimild samtakanna vegna brota gegn landslögum er varði umhverfið. Þá sé og vísað til 33. gr. laga nr. 57/1998 um kæruheimild. Kærandi vísi loks til 6. gr. laga nr. 73/1990 að því er varði ágreining um gildi þeirra laga í málinu.

Af hálfu Orkustofnunar er tekið fram að hið kærða leyfi feli hvorki í sér heimild til nýtingar eða virkjunar á rannsóknarsvæðinu, sbr. 3. gr. leyfisins. Fram komi í leyfinu og fylgibréfi þess að rannsóknarboranir séu ekki hluti af leyfinu og sé tekið fram að slíkar framkvæmdir, og eftir atvikum aðrar framkvæmdir, séu háðar mati á umhverfisáhrifum. Þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umhverfissamtök eins og kærandi geti þó kært ákvarðanir, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, sé um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun mats, ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir um að veita leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur til sleppingar eða dreifingar erfðabreyttra lífvera. Hin kærða ákvörðun varði engan veginn þær tæmandi töldu tegundir ákvarðana sem tryggi kæranda kæruaðild að málum. Kærandi hafi því enga lögvarða hagsmuni í málinu og beri þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Samkvæmt b-lið ákvæðisins geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga kært ákvörðun um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.

Í 5. gr. hins kærða leyfis er tekið fram að framkvæmdir á rannsóknarsvæðinu kunni eftir atvikum að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000 þess efnis. Rannsóknarleyfið sé háð því að farið verði að þeim lögum áður en fyrirhugaðar framkvæmdir, einkum jarðboranir, hefjist á rannsóknarsvæðinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Skipulagsstofnun hefur stofnunin ekki fengið tilkynningu samkvæmt lögum nr. 106/2000 um framkvæmdir vegna þeirra rannsókna sem leyfðar eru á grundvelli hins kærða rannsóknarleyfis Orkustofnunar.

Í athugasemdum með áðurnefndri 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er m.a. tekið fram að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Með vísan til þess sem að framan er rakið uppfyllir kærandi ekki skilyrði til kæruaðildar að máli þessu, enda liggur ekki fyrir nein ákvörðun um matsskyldu framkvæmda vegna þeirra rannsókna sem fyrirhugaðar eru á grundvelli hins útgefna rannsóknarleyfis. Verður kærumálinu af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

61/2018 Hraunteigur 3

Með

Árið 2018, föstudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 61/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um veitingu byggingarleyfis til að byggja tveggja hæða einbýlishús með sambyggðri bílageymslu á lóð nr. 3 við Hraunteig í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. apríl 2018, er barst nefndinni 25. s.m., kæra lóðarhafar Hraunteigs 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með sambyggðri bílageymslu á lóð nr. 3 við Hraunteig í Reykjavík. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn máls bárust frá Reykjavíkurborg 4. maí 2018.

Málavextir:  Hinn 27. janúar 2017 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna Hraunteigs 3 grenndarkynnt. Komu kærendur á framfæri athugasemdum á kynningartíma er lutu að götumynd, skuggavarpi, stærð, hæð og lögun fyrirhugaðrar nýbyggingar. Var skipulagsbreytingin samþykkt með breytingum og tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2017.

Hinn 9. október 2017 var sótt um heimild til niðurrifs húss og bílskúrs sem fyrir voru á lóðinni Hraunteigi 3. Var byggingarleyfi þess efnis gefið út 27. s.m. og var niðurrifi lokið í janúar 2018. Þá var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. október 2017 samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með sambyggðri bílageymslu á lóðinni og var sú afgreiðsla staðfest af borgarráði 12. s.m. Úttekt vegna botns undir fyllingu fór fram 10. janúar 2018 og í byrjun febrúar s.á. hófust framkvæmdir á byggingu hins nýja einbýlishúss, en útgefið byggingarleyfi er dagsett 8. febrúar s.m. Byggingarfulltrúi staðfesti úttekt á sökklum hinn 22. mars 2018. Hefur kærandi skotið nefndri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:
Af hálfu kærenda er á því byggt að upphaf kærufrests í máli þessu skuli miða við 8. apríl 2018, en þá hafi þeim fyrst orðið ljóst að útgefið byggingarleyfi samrýmdist ekki gildandi deiliskipulagi. Tveimur dögum áður, þ.e. 6. apríl, hafi byggingarleyfishafi komið að máli við annan kærenda vegna 140 cm hás steinveggjar sem hann hafi talið sig þurfa að byggja á lóðamörkum Hraunteigs 3 og 5. Þá fyrst hafi kæranda orðið ljóst að hækka átti lóð nr. 3 um meira en 100 cm frá því sem áður hafi verið. Í kjölfar þess hafi nefndur kærandi rætt við byggingarleyfishafa í síma og sent honum bréf, dags. 8. apríl 2018, þar sem alvarlegar athugasemdir hafi verið gerðar við áðurgreindan hæðarmun og að teikningar gerðu ráð fyrir að byggt væri út fyrir byggingarlínu við götu.

Kærendur telji ljóst að þær teikningar sem Reykjavíkurborg hafi samþykkt og lagt til grundvallar umþrættu byggingarleyfi, feli í sér að hæðarkótum lóðar hafi verið breytt umtalsvert. Ekkert komi fram á þeim myndum sem fylgdu deiliskipulagi að ætlunin hafi verið að breyta hæðarkóta á lóð, heldur beri þær þvert á móti með sér að hæðarkóti skuli vera óbreyttur. Þessu til stuðnings sé vísað til e. liðar gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, þar sem segi m.a. að óheimilt sé að breyta hæð lóðar á lóðarmörkum án samþykkis leyfisveitanda og lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þar komi og fram að óheimilt sé að breyta hæð innan lóðar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni, t.d. útsýni.

Kærendum hafi ekki þótt athugavert að deiliskipulag vegna Hraunteigs 3 hafi kveðið á um að steypa mætti stoðvegg á lóðarmörkunum þar sem kærendur hafi lækkað lóð sína lítillega út við götu árið 2003 með samþykki eftirlitsaðila. Umræddar lóðir hafi verið jafn háar fram að því. Hins vegar segjast kærendur hafa verið grunlausir um að til stæði að hækka lóðina um 100 cm, sem myndi leiða til a.m.k. 140 cm hæðarmunar á mörkum lóðanna við innkeyrslu að lóð nr. 5. Steyptur veggur við lóðamörkin sé úr takti við götumynd og jafnframt skýrt brot á kvöðum um hámarkshæð í gildandi deiliskipulagi. Breytingar á hæðarkótum lóðar nr. 3 leiði til þess að mikill hæðarmunur verði við aðrar nærliggjandi lóðir, s.s. Hrísateig nr. 8 og 10. Myndir sýni að hæð lóðar Hraunteigs 3 hafi verið sú sama og hæð lóðar við Hrísateig 10, en nú hafi verið steyptur veggur til að halda við jarðveg á framangreindum lóðamörkum. Veggurinn sé um 180 cm hár frá hæð lóðar á Hrísateig 10 og ljóst sé að reisa þurfi grindverk þar ofan á til að tryggja öryggi og því stefni í að veggurinn verði um 3 m hár með tilheyrandi lýti og skuggavarpi.

Umþrætt byggingarleyfi, sem veiti leyfishafa heimild til að byggja hús sem standi 2,7 × 8,2 m út fyrir skilgreindan byggingarreit, sé ekki í samræmi við ákvæði gildandi deiliskipulags um óbreytta byggingarlínu við götu. Deiliskipulagið heimili svalir til suðurs að götu og þak megi fara allt að 2,7 m út fyrir byggingarreit, en ljóst sé að samþykktar teikningar geri ráð fyrir verulegum frávikum. Í þessu sambandi bendi kærendur á að svalir í Teigahverfi séu almennt ekki stærri en 1,2 × 3,0 m og hinar fyrirhuguðu svalir séu þannig sex sinnum stærri, eða 22 m2 í stað 3,6 m2, og með láréttum og lóðréttum steinsúlum, auk skorsteins sem standi út fyrir byggingarreit.

Ljóst sé að hin fyrirhugaða framkvæmd muni varpa skugga á eign kærenda og þar með verðfella hana. Kærendur hafi eytt bæði tíma og fjármunum í að gera garð í kringum fasteign sína aðlaðandi, einkum fyrir framan húsið, þar sem þau eigi athvarf, einkum að loknum vinnudegi á sólríkum dögum að vori og hausti. Skuggavarp hafi ekki verið kynnt þegar umrætt deiliskipulag hafi verið auglýst og hafi kærendur gert athugasemdir við það og óskað eftir skuggavarpsútreikningi kl. 18. Ekki hafi verið fallist á það og skuggavarp kl. 17 hafi borist sem hluti af grenndarkynningu á breyttu deiliskipulagi. Bent sé á að vegna staðhátta tapist engin gæði sé skuggavarp kl. 17 skoðað en verulega halli á gæði við lóð nr. 5 þegar skoðað sé skuggavarp frá kl. 17:30 til 19:30.
 
Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að kærufrestur í máli þessu sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Umdeilt byggingarleyfi hafi verið gefið út 8. febrúar 2018 og framkvæmdir séu löngu hafnar.

Framkvæmdum við niðurrif eldra húss hafi lokið í janúar 2018 og 10. janúar s.m. hafi farið fram úttekt vegna botns undir fyllingu. Frá þeim tíma hafi verið gerðar nokkrar úttektir af hálfu byggingarfulltrúa á framkvæmdum. Staðfest úttekt á sökklum hafi verið gerð hinn 22. mars 2018. Samkvæmt ofangreindu hafi frestur til að kæra ákvörðun byggingarfulltrúa verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Því beri að vísa málinu frá.

Rétt sé að benda á að það sé á verksviði leyfisveitanda að gæta þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti og skipulag og gera nauðsynlegar ráðstafanir reynist þess þörf.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að í gildandi deiliskipulagi séu ekki gefnir upp hæðarkótar en gerð sé grein fyrir hæðarsetningu fyrirhugaðs húss að Hraunteigi 3 og sú hæðarsetning sé í samræmi við ákvæði deiliskipulagsins þar að lútandi. Lóðin sé eðli málsins samkvæmt hæðarsett til samræmis við hæð aðalgólfplötu hússins og kærendur hafi mátt vænta þess að svo yrði. Hæðarmuninn á lóðunum megi einnig rekja til breytinga sem gerðar hafi verið á lóð nr. 5, en hún sé 50-60 cm lægri en hún eigi að vera auk þess sem hún halli niður á við frá götu en það sé ekki í samræmi við uppdrætti.

Hæð stoðveggjar á mörkum lóða nr. 3 og 5, ákvarðist af hæð lóðar Hraunteigs 3. Sú girðing sem fyrir sé á lóð nr. 5 sé mun hærri en stoðveggurinn út við götuna en hún halli niður á við inn í lóðina og endi í svipaðri hæð og stoðveggurinn þar sem hún mæti horni bílskúrs lóðar nr. 5. Þar sé veggurinn hærri séð frá lóð nr. 5 vegna hæðarsetningar þeirrar lóðar og verði kærendur að bera hallann af því.

Fullyrðing kærenda um skerðingu útsýnis úr eldhúsglugga jarðhæðar sé vafasöm þar sem um kjallaraíbúð sé að ræða, auk þess sem kærendur séu búnir að selja þá íbúð og undirrita afsal sem lagt hafði verið inn til þinglýsingar þegar kæra var gerð. Leyfishafi sé að nýta þá heimild sem gefin sé í skipulagi til að byggja svalir til suðurs og hafa þak yfir þeim. Hönnun hafi verið breytt í samræmi við þær athugasemdir sem borist hafi við kynningu deiliskipulagsbreytingar vegna lóðarinnar Hraunteigs 3, þannig að hliðarveggur að austanverðu hafi verið felldur út og svalasvæðið opnað til hliðanna. Liður e í gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 veiti heimild fyrir verönd eða palli við suðurhlið undir svölum. Því verði ekki séð að byggingarleyfið fari svo í bága við skipulag að ógildingu varði.

Niðurstaða: Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011, er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun.

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Upphaf kærufrests í þessu máli ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um efni hins kærða byggingarleyfis, m.a. um hæðarkóta umræddrar lóðar. Líkt og fram kemur í málavöxtum samþykkti byggingarfulltrúi umsókn leyfishafa 10. október 2017 og var byggingarleyfið gefið út 8. febrúar 2018. Verður ekki fullyrt með óyggjandi hætti að kærendum hafi mátt vera kunnugt um að uppgefnir hæðarkótar fælu í sér breytingu frá fyrra áststandi fyrr en við úttekt byggingarfulltrúa á sökklum hinn 22. mars 2018, en þá lá grunnflötur hins nýja húss fyrir. Miðast kærufrestur því við þann dag. Samkvæmt framangreindu rann kærufrestur út mánudaginn 23. apríl s.á., eða tveimur dögum áður en úrskurðarnefndin tók á móti umræddri kæru. Þegar litið er til þess að kærendum var ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest verður talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni. Í því sambandi er litið til þess að deiliskipulagsbreyting sú sem byggingarleyfið styðst við hefur ekki að geyma hæðarkóta lóðarinnar svo sem rétt hefði verið. Verður málið því tekið til efnismeðferðar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis m.a. að mannvirkið og notkun þess sé í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu. Í 16. gr. laganna kemur fram að útgefandi byggingarleyfis skuli hafa eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og reglugerða settum með stoð í þeim. Krafa kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar byggir á því að samþykktar teikningar séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og breyting á hæðarlegu lóðar frá því sem fyrir var eigi ekki stoð í því skipulagi.

Í málsgögnum er að finna gildandi hæðarblað vegna lóðar nr. 3 við Hraunteig sem sýnir hæðarkótana 12,82 og 13,16 við götu. Á hæðarblaðinu er hins vegar enga hæðarkóta að finna innst á lóð. Deiliskipulag sýnir enga hæðarkóta fyrir lóðaryfirborð, eins og fyrr var að vikið, en á teikningum sem byggingarfulltrúi samþykkti 10. október 2017, sem voru grundvöllur útgáfu byggingarleyfis, eru hæðarkótar við götu í samræmi við hæðarkóta framangreinds hæðarblaðs. Teikningarnar sýna enn fremur hæðarkótann 13,16 innst á lóð sem ber með sér að yfirborði lóðarinnar þar er ætlað að vera í sömu hæð og út við götu. Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að umræddir hæðarkótar lóðar fari í bága við gildandi deiliskipulag.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi má stoðveggur á lóðinni ekki vera hærri en 0,4 m. Hæðarkóti stoðveggjarins, samkvæmt samþykktum teikningum, er 13,56. Líkt og áður greinir er grunnlína lóðar nr. 3 við Hraunteig 13,16. Samkvæmt því er veggurinn 0,4 m að hæð miðað við grunnflöt lóðar nr. 3 og því í samræmi við gildandi deiliskipulag. Í kæru kemur fram að lóð kærenda var lækkuð lítillega út við götu og á myndum sem fylgdu kæru sést að lóðin hallar niður á við frá götu. Veggurinn er því að hluta hærri en 0,4 m séð frá lóð nr. 5. Ákvarðanir kærenda um að lækka sína lóð geta ekki haft áhrif á réttarstöðu lóðarhafa Hraunteigs nr. 3. 
 
Í gildandi deiliskipulagi er heimiluð hámarksmænishæð aðalhúss frá aðalgólfi 7,3 m og má kjallari standa 0,2 m upp úr frágengnu yfirborði. Á samþykktum teikningum umdeilds byggingarleyfis kemur fram að hæðarkóti gólfplötu hússins er 13,49. Stendur kjallari því 0,33 m upp úr frágengnu yfirborði með hliðsjón af hæðarkóta lóðarinnar 13,16. Gólfflötur hússins er því 13 cm hærri en heimilt er samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Þetta frávik er þó það óverulegt að það getur ekki ráðið úrslitum um gildi byggingarleyfisins. 

Kærendur telja byggingarlínu hússins ekki vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Á samþykktu deiliskipulagi kemur fram heimild til að gera svalir til suðurs að götu og að þak yfir þeim megi fara allt að 2,7 m út fyrir byggingarreit og eru samþykktar teikningar í samræmi við það. Skuggavarp sem framangreind breyting kann að valda er þegar ákveðin í deiliskipulagi sem sætir ekki endurskoðun í máli þessu.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið slíkum annmörkum að raskað geti gildi þess. Af því leiðir að hafna ber kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með sambyggðri bílageymslu á lóð nr. 3 við Hraunteig í Reykjavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson

144/2016 Álftröð 1

Með

 
Árið 2018, föstudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 144/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. september 2016 um að samþykkja heimild til að stækka bílageymslur um 39 m2 á lóð við Álftröð 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 2. nóvember 2016, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála var framsend kæra eiganda, Álftröð 3, Kópavogi, dags. 30. október 2016, þar sem kærð er ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. september 2016 um að samþykkja heimild til stækkunar bílageymslu á lóð við Álftröð 1. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 1. desember 2016.

Málavextir:
Hinn 5. nóvember 2015 sóttu fasteignareigendur að Álfatröð 1 um byggingarleyfi til stækkunar á bílskúrum, stiga utanhúss fyrir íbúð á annarri hæð o.fl. Nefnd lóð er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Byggingarfulltrúi vísaði málinu til skipulagsnefndar sem ákvað að grenndarkynna umsóknina. Umsóknin var í framhaldinu grenndarkynnt með bréfi, dags. 22. desember 2015, og lauk kynningu 1. febrúar 2016. Á fundi skipulagsnefndar 21. mars s.á. var umsókninni synjað hvað varðar stækkun bílskúra en samþykkt að öðru leyti. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 12. apríl 2016. Á fundi skipulagsnefndar 2. maí 2016 var umsókn lóðarhafa Álftraðar 1 um stækkun bílskúra á lóðinni úr 68,8 m2 í 107,8 m2, eða um 39 m2, synjað að nýju og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 10. maí s.á. Umsókn sama efnis var enn á dagskrá skipulagsnefndar 20. maí 2016 og samþykkti nefndin á fundi sínum 30. s.m. að grenndarkynna erindið með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í samræmi við bréf, dags. 21. júní 2016, fór grenndarkynningin fram og lauk henni 25. júlí s.á. Tvær athugasemdir bárust innan athugasemdafrests þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum var mótmælt.

Að lokinni grenndarkynningu gaf skipulags- og byggingardeild út umsögn, dags. 19. september 2016, þar sem kom fram að fyrirhuguð stækkun félli ekki að öllu leyti að yfirbragði núverandi byggðar þar sem stærð bílageymslna á götureitnum yrði yfir meðaltali. Neikvæð umhverfisáhrif af fyrirhugaðri stækkun yrðu þó lítil og ekki íþyngjandi. Var jafnframt á það bent að stækkunin yrði fordæmisgefandi fyrir götureitinn.
 
Skipulagsnefnd samþykkti umsóknina á fundi 19. september 2016 og var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar 27. s.m.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er þess krafist að bílageymslan verði ekki stækkuð til austurs og að hæð byggingarinnar fari ekki yfir núverandi hæð lægri skúrs sem nú sé fyrir á umræddri lóð. Hækkun skúranna hefði mikla skerðingu í för með sér á fjallasýn í vestur frá stofu og palli fasteignar hennar við Álftröð 3. Þó að trjákrónur á lóð Álftraðar 1 byrgi sýn að hluta, séu trén einungis laufguð 1/3 hluta úr ári auk þess sem unnt sé að fella þau. Annað gildi um byggingar. Bendir kærandi á að eftir stækkun verði grunnflötur bílskúranna stærri en grunnflötur íbúðarhússins á lóðinni sem telja verði óeðlilegt. Þá sé vísað til þess að bílskúrarnir séu hvergi teiknaðir nema á afstöðumynd hjá byggingarfulltrúa og séu því væntanlega óleyfisbyggingar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að þær breytingar sem um ræðir séu óverulegar og hafi ekki í för með sér verulega skerðingu grenndarhagsmuna kæranda. Markmið um þéttingu byggðar komi skýrt fram í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Þéttingin sé gerð í samræmi við heildaryfirbragð hverfanna og með þeim hætti að það hafi ekki verulega íþyngjandi áhrif á umhverfisþætti líkt og útsýni, nánd o.fl. Eigendur fasteigna geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem geti haft í för með sér breytingar á nánasta umhverfi þeirra. Ekki verði horft framhjá því að á lóðinni standi stór tré sem hafi áhrif á útsýni, bæði þegar þau eru laufguð og ekki.

Á umræddu svæði sé hefð fyrir stórum bílageymslum og þær séu stærri en almennt í öðrum hverfum. Álftröð 1 sé tvíbýli og því gert ráð fyrir tveimur bílageymslum. Líkt og fram komi í umsögn skipulags- og byggingardeildar sé stækkunin yfir meðaltali, en líta verði til þess að viðbyggingin sé ekki hærri en núverandi bílskúrar, stækkunin nái ekki nær lóðarmörkum en 3 m og umhverfisáhrif séu afar lítil. Því hafi verið talið að ekki væri um óeðlilega stækkun að ræða. Áréttað sé að umræddir bílskúrar séu teiknaðir á aðaluppdrátt sem samþykktur hafi verið á fundi byggingarnefndar Kópavogs þann 15. júní 1987 og eigi því stoð í lögformlegu byggingarleyfi.

Bent sé á að eigendur hafi unnið að því að fegra húsið að Álftröð 1 og muni bílskúrinn einnig fá yfirhalningu, þannig að umræddar breytingar hafi jákvæð áhrif á umhverfið og heildarásýnd lóðarinnar verði betri, lóðinni og hverfinu til mikils sóma.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að umræddur bílskúr standi langt inni á lóð hans, fjarri lóð kæranda, og að ekki standi til að hækka bílskúrinn. Vel sjáist á myndum að einungis örfá húsþök sjáist í fjarska á milli bygginga á Digranesveginum auk þess sem stofugluggi kæranda snúi í vestur. Því geti ekki verið um mikla skerðingu á hagsmunum kæranda að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogsbæjar að samþykkja heimild til stækkunar á bílageymslu á lóð við Álftröð 1. Ákvörðunin var tekin að undangenginni grenndarkynningu, en ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um það í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði eða vafi leikur á um að fyrirhugað mannvirki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag skal leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laganna og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Ef sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags, enda hafi áður farið fram grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Felur það lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan m.a. í sér að skipulagsnefnd taki ákvörðun um hvort veita megi byggingarleyfi án deiliskipulags.

Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu samþykkti skipulagsnefnd umsókn um stækkun umræddrar bílageymslu á fundi sínum 19. september 2016 og var sú afgreiðsla nefndarinnar staðfest af bæjarstjórn 27. s.m. Að þeirri afgreiðslu lokinni var byggingarfulltrúa heimilt að lögum að veita umsótt byggingarleyfi. Leyfi hefur hins vegar ekki verið veitt samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu, en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Er því og við að bæta að skv. 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal grenndarkynning fara fram að nýju hafi byggingarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson