Árið 2017, föstudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 26/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 um að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða í Skaftárhreppi, og framkvæmdir því tengdar, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra, eigendur Hraunbóls á Brunasandi, og leigutakar lóða í landi jarðarinnar Hraunbóls, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða, Skaftárhreppi, og framkvæmdir því tengdar, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Með bréfi til nefndarinnar, dags. 10. mars 2016, mótteknu 11. s.m., kæra eigendur lögbýlanna Hruna og Bjarnartanga á Brunasandi jafnframt nefnda ákvörðun. Taka þeir fram að óskipt land jarðanna Teygingalækjar, Sléttu, Hruna og Bjarnartanga nái allt til sjávar og liggi að landi Orustustaða austanmegin. Loks kæra Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi, sömu ákvörðun Skipulagsstofnunar með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. mars 2016, er móttekið var sama dag hjá nefndinni.
Gera allir kærendur kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að taka ákvörðun um að umrædd framkvæmd verði látin sæta mati á umhverfisáhrifum. Í tveimur kæranna er jafnframt gerð sú varakrafa að Skipulagsstofnun verði gert að taka málið á ný til efnismeðferðar skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.
Verða síðartilgreindu kærumálin, sem eru númer 27/2016 og 28/2016, sameinuð kærumáli þessu enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.
Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 14. apríl 2016.
Málavextir: Hinn 3. desember 2015 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða framkvæmd í Skaftárhreppi til ákvörðunar um matsskyldu hennar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í tilkynningu framkvæmdaraðila kom fram að framkvæmdin fæli í sér að á jörðinni Orustustöðum, rúmum 20 km austan við Kirkjubæjarklaustur, yrðu m.a. reist hótel og starfsmannahús. Hefðu Orustustaðir orðið nýbýli árið 1823 en lagst í eyði um 1950. Væri jörðin á Brunasandi, sveit sem byggst hefði upp eftir Skaftárelda. Þar væri votlendi syðst við sjóinn og austast á sandinum með fágætum plöntutegundum, fjölbreyttu fuglalífi og sjaldgæfum fuglategundum. Á svæði því sem framkvæmdirnar næðu til væri hins vegar uppgróinn sandur, þar væri móajarðvegur um 10 cm þykkur á malarbornum eða grýttum grunni. Við framkvæmdir yrði þess gætt að framkvæmdasvæðið yrði í góðri fjarlægð frá Eystra Eldhrauni og ekki væri verið að raska votlendissvæðum sem væru um 10 km sunnar. Í tilkynningu kom einnig fram að unnið hefði verið að uppbyggingu hótels á Orustustöðum um nokkurt skeið. Gerð hefði verið breyting á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022 vegna þessa og deiliskipulag hefði verið samþykkt fyrir svæðið. Samkvæmt aðalskipulagi væri stærð svæðisins 15 ha.
Byggingarreitir yrðu tveir, B1 og B2, byggingar á 1-2 hæðum, samtals allt að 7.000 m². Á byggingarreit B1 yrði m.a. hótel með 200 herbergjum, ásamt móttöku og veitingaaðstöðu. Ætlunin væri að hótelið myndaði eina heild, sem væri samsett úr nokkrum húsagerðum sem gætu tengst saman. Heildarbyggingarmagn reitsins væri 6250 m². Væri svæðið fyrir byggingarreit hótelsins á milli tveggja lækja sem rynnu undan Eystra Eldhrauni, Lambhúsalækjar og Orustustaðalækjar. Gert væri ráð fyrir 115 bílastæðum, sem staðsett yrðu vestan við byggingarnar, og þremur rútustæðum innan lóðar. Á byggingarreit B2 væri gert ráð fyrir starfsmannahúsum, allt að þremur byggingum á einni hæð. Heildarbyggingarmagn væri 750 m², allt að 15 íbúðir, hver um sig um 50 m² að stærð. Ráðgerð væru 15 bílastæði við starfsmannahús. Leyfilegt væri að fjölga bílastæðum ef þörf krefði í allt að 1 bílastæði á hverja 50 m² húsnæðis.
Ekki væri aðkomuvegur að jörðinni í dag. Gerðar hefðu verið athugasemdir vegna legu aðkomuvegar að Orustustöðum í skipulagsferlinu en að loknum samanburði á sex veglínum hefði leið C verið valin. Yrði aðkoma að umræddu hóteli frá þjóðvegi 1 eftir núverandi vegi er lægi að Hraunbóli og eftir nýjum 1,7 km vegkafla sem lægi af núverandi vegi rétt vestan við Hraunból. Veglínan yrði rúmlega 500 m sunnan við bæjarstæðið á Hraunbóli. Vegurinn lægi meðfram skógræktarsvæði og að hótellóðinni sem væri í um 300 m fjarlægð frá hraunjaðri og búsetuminjum á Orustustöðum. Yrði hann 7 m breiður og lagður þannig að lindarvatn rynni undir hann og í gegnum vegræsi þannig að ekki myndaðist fyrirstaða. Ræsi yrði sett í veginn við alla læki svo vatn rynni áfram til suðurs og væri reiknað með 13 ræsum. Gert væri ráð fyrir nýju efnistökusvæði sem notað yrði í uppbyggingu á aðkomuvegi og framkvæmdum á Orustustöðum. Efnistakan yrði á óröskuðu landi, samtals um 5.000 m² að stærð. Teknir yrðu um 5000 m³ úr námunni. Að framkvæmdum loknum yrði henni lokað og við frágang hennar búnar til tjarnir.
Neysluvatnslagnir yrðu lagðar frá brunnsvæði neðan við hraunjaðarinn og umhverfis það væri skilgreint vatnsverndarsvæði. Lagnaleið yrði frá vatnsbóli að hótellóð. Um nýtt vatnsból yrði að ræða. Yrði að tryggja aðgengi að neysluvatni sem uppfyllti gæðakröfur reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn. Þá yrði skólp hreinsað með þriggja þrepa hreinsun eða öðrum aðferðum sem ekki hefðu meiri umhverfisáhrif á viðtaka, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Endanleg staðsetning, frágangur og stærð hreinsistöðvar yrði í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, en á deiliskipulagsuppdrætti væri sýndur 2.165 m² reitur fyrir fráveitumannvirki.
Í kjölfar tilkynningarinnar óskaði Skipulagsstofnun umsagna Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar, Skaftárhrepps, Minjastofnunar Íslands og Ferðamálastofu um hvort og á hvaða forsendum, umrædd framkvæmd skyldi háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka í lögum nr. 106/2000. Var einnig farið fram á að í umsögn kæmi m.a. fram, eftir því sem við ætti, hvort nægjanlega væri gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun.
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands taldi í umsögn sinni, dags. 14. desember 2015, að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Yrðu varanleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, óveruleg, önnur en sjónræn og staðbundin í næsta nágrenni hennar. Mögulegt væri að milda þau með góðri umgengni á framkvæmdatíma og vönduðum frágangi umhverfis og mannvirkja að framkvæmdum loknum.
Fram kom í umsögn Vegagerðarinnar, dags. 15. desember 2015, að gerð væri nægjanleg grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum hvað vegagerð varðaði. Væri ekki ástæða til að framkvæmdin færi í mat á umhverfisáhrifum.
Niðurstaða umsagnar Umhverfisstofnunar, dags. 17. desember 2015, var sú að helstu umhverfisáhrif framkvæmdanna yrðu neikvæð sjónræn áhrif vegna framkvæmda er tækju yfir 15 ha sem og vegna starfsemi sem hefði í för með sér umferð mörg hundruð manna um lítt snortið svæði. Meðal þess sem stofnunin vakti athygli á voru ný lög nr. 60/2013 um náttúruvernd og ákvæði Bernarsamningsins. Taldi Umhverfisstofnun mikilvægt að vatnsbúskapur svæðisins yrði ekki fyrir umhverfisáhrifum vegna áætlaðra framkvæmda og að fylgst yrði með framkvæmdum til að framvinda yrði í samræmi við það. Einnig var tekið fram að mikilvægt væri að besta fáanlega tækni yrði notuð við fráveitu hótelrekstursins og að hreinsun skólps yrði viðunandi í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisnefndar. Losunarmörk yrðu ákveðin svo ekki yrði um næringarefnaauðgun að ræða á svæðinu. Taldi stofnunin að áhrif frá fráveitu færu eftir því hve vel yrði að henni staðið. Ef gengið yrði frá fráveitunni þannig að þriggja þrepa hreinsun skilaði næringarefnasnauðu frárennsli um siturlögn yrðu umhverfisáhrif hennar ekki umtalsverð. Þá benti Umhverfisstofnun á að veglína C gerði ráð fyrir meiri röskun á ósnortnu landi en ef aðrar leiðir yrðu valdar. Myndu allar veglínur hafa umhverfisáhrif á þessu ósnortna svæði. Umhverfisáhrif vegagerðar yrðu ekki umtalsverð yrði vegagerð hagað þannig að vatn flæddi í sama mæli suður Brunasand. Einnig kom fram að Umhverfisstofnun teldi upplýsingar um námu ekki nægilega lýsandi.
Í umsögn Skaftárhrepps, dags. 18. desember 2015, kom m.a. fram að skipulagsnefnd hefði á fundi sínum 9. s.m. fært til bókar að umrædd tilkynningarskýrsla væri í samræmi við aðalskipulag Skaftárhrepps og deiliskipulag vegna hótels í landi Orustustaða. Miðað við þær forsendur sem nefndin hefði væri framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Minjastofnun Íslands taldi í umsögn sinni, dags. 21. desember 2015, að umrædd framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum að því gefnu að gengið væri að nánar tilgreindum skilyrðum er lytu að varðveislu fornleifa.
Ferðamálastofa tók ekki afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar í umsögn sinni, dags. 11. janúar 2016, en benti m.a. á að mikilvægt væri að vanda vel til uppbyggingar og gera ítarlegar kröfur um hönnun og undirbúning.
Athugasemdir framkvæmdaraðila og frekari upplýsingar bárust Skipulagsstofnun með bréfum dags. 14., 21., 27. og 28. janúar 2016. Var þar m.a. tekið fram að ekki væri fallist á sjónarmið Umhverfisstofnunar um veglínu C. Hefði sú leið verið valin með umhverfi og samfélag í huga. Stærstur hluti leiðarinnar væri eftir núverandi vegi að Hraunbóli og síðan eftir slóðum og tekinn væri sveigur í suður í landi Hraunbóls út fyrir ræktað land. Hefðu aðrir kostir raskað meira ósnortnu svæði, t.d. kostir D og F, sem farið hefðu í gegnum hraun eða yfir stærra svæði sem lítt væri raskað.
Hinn 9. febrúar 2016 lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdanna fyrir. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða og aðkomuvegur að því væru ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt var bent á nauðsyn þess að framkvæmdaraðili fylgdi í hvívetna ábendingum Minjastofnunar Íslands um framkvæmdir og umgengni við þekktar minjar og staðsetningu vinnubúða og efnisgeymsla. Þá teldi Skipulagsstofnun það nauðsynlega forsendu fyrir því að votlendi sunnan framkvæmdasvæðisins spilltist ekki, að aðkomuvegur hamlaði ekki vatnsrennsli og að fráveita frá starfseminni yrði um rotþró og olíuskilju eins og fyrirhugað væri. Loks ítrekaði stofnunin mikilvægi þess að viðhöfð yrði sú verktilhögun og þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hefðu verið við meðferð málsins og vöktun á aðgerðum og áhrifum þannig að framkvæmdin væri ekki líkleg til að valda verulegum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að mótun lands, saga byggðar og þróun samfélags á Brunasandi sé einstök á Íslandi á margan hátt. Myndi svæðið allt sérstaka heild með sögulegum minjum um búsetu fyrri tíma og hafi mikið menningarlegt gildi. Fyrirhugað hótel eigi að reisa langt inni á ósnortnu landi þar sem engin mannvirki eða innviðir séu til staðar. Verði það stærsta hótel í dreifbýli á Íslandi og næst stærsta hótel landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Eystri hluti Skaftáreldahraunsins, Brunahraun, njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Svo sé einnig um lindasvæðin og votlendið. Lindasvæðin, lækir undan hrauninu og votlendið næri einnig sérstakt gróðurfar, lífríki og búsvæði margra fuglategunda sem beri að vernda, sbr. 2. gr. sömu laga. Grunnvatnsstaða sé há og lítill landhalli, eða aðeins 2 m/km til sjávar. Í nágrenni hótelsins sé enginn yfirborðsviðtaki, straumvatn, sem dugi til að bera burt lífræn mengunarefni. Vatnsumhverfið teljist því viðkvæmt svæði sbr. A-hluta II. viðauka reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Engin reynsla sé í landinu af árangursríkum rekstri þriggja þrepa hreinsistöðvar og aðstæður á Brunasandi séu líklegar til að gera rekstur slíkrar stöðvar sérlega erfiðan. Hefði borið að meta áhrif framkvæmdarinnar á umhverfi sitt. Landsvæði það sem raska eigi sé nær ósnortið af manna völdum og sé um ósnortið landslag að ræða. Við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi hvorki verið horft nægilega til sérstöðu svæðisins á Brunasandi né gætt að mögulegum neikvæðum heildaráhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á umhverfi, náttúrufar og menningarminjar. Brotið hafi verið gegn lögum nr. 105/2000 um umhverfismat áætlana og lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.
Skipulagsstofnun beri að líta til, og leggja til grundvallar ákvörðun sinni, viðmið 2. viðauka laga nr. 106/2000. Það hafi hún ekki gert, eða ekki sem skyldi. Hefði t.d. þurft að athuga eðli og staðsetningu framkvæmdarinnar, með tilliti til stærðar hennar og umfangs. Flokkist Brunasandur sem mjög viðkvæmt svæði með tilliti til mengunar og hefði átt að taka tillit til þess. Brunasandur sé á lista sem alþjóðlegt mikilvægt fuglasvæði í Evrópu. Á Brunasandi séu margar mikilvægar fuglategundir, þ. á m. nokkrar sem séu á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þórshaninn, einhver sjaldgæfasti varpfugl landsins, eigi þar heimkynni. Þá hefði þurft að skoða áhrif framkvæmdarinnar að teknu tilliti til tímalengdar hennar, tíðni og óafturkræfi áhrifa. Skipulagsstofnun hafi ekki fullnægt þeirri rannsóknarskyldu sem á henni hvíli lögum samkvæmt og sem eigi að tryggja að ákvarðanir um stærri framkvæmdir séu undirbúnar með forsvaranlegum hætti.
Á engu stigi málsins hafi farið fram faglegt og fræðilegt mat á umhverfisáhrifum og þeim breytingum sem verði á lífsgæðum landeigenda á svæðinu vegna framkvæmdanna. Muni fyrirhuguð starfsemi algerlega breyta forsendum lífs þeirra sem nú séu búsettir á svæðinu. Upplifanir af umræddu svæði sem ósnortnu víðerni verði eyðilagðar. Ekki hafi verið gerðar rannsóknir á vatnafari, jarðvegi og öðrum staðháttum á Brunasandi. Tölulegar greiningar um áhrif framkvæmdanna séu ekki lagðar fram. Hvergi sé sýnt fram á fyrirbyggjandi ráðstafanir eða öryggiskröfur vegna viðkvæmrar náttúru. Ekki hafi verið sýnt fram á að framkvæmdir við veg, neysluvatnsöflun og frágang frárennslis og skólps verði hægt að útfæra á jafn viðkvæmu svæði og Brunasandur sé. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að hægt verði að afla nægilegs vatns til að uppfylla þarfir vegna hótelsins og starfsmannaíbúða, hvað þá án áhrifa á vatnsbúskap landeigenda. Muni vatnsnotkunin, bæði varðandi vatnsöflun og frárennsli, hafa hamlandi áhrif á nýtingu jarða sem landbúnaðarjarða og geti að auki mengað jarðveg, svo sem reynslan sýni.
Ekki hafi verið metið hvernig staðið skuli að framkvæmd við veginn. Í greinargerðum sé hvergi fjallað um áhrif framkvæmdanna á gróður er fari undir vegstæðið eða hvernig staðið verði að uppgræðslu vegstæðis og svæðisins meðfram veginum. Þá sé hvergi tekið á því hvernig staðið verði að uppgræðslu raskaðs lands í landi Hraunbóls, eða hvernig komast eigi fyrir vatnsuppsöfnun ofan við veginn. Útfærslan sé sett í hendurnar á framkvæmdaraðila án aðkomu eigenda landsins.
Framkvæmd af slíku umfangi og eðli sem hér sé fyrirhuguð muni hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif. Mikil sjónræn áhrif verði vegna stórra mannvirkja, vegar og efnistöku. Um umfangsmikið inngrip verði að ræða hvað varði umferð á Brunasandi en gera megi ráð fyrir því að um 500-600 manns hið minnsta geti dvalist samtímis á Orustustöðum á háannatíma. Muni veglagning og aukin umferð hafa afar neikvæð áhrif á aðra landeigendur á Brunasandi hvað það varði að halda áfram framkvæmdum er snerti landbúnað og aðrar sjálfbærar nytjar af jörðunum.
Jafnframt ríki veruleg óvissa um áhrif framkvæmdarinnar. Ætla megi að sá lífræni úrgangur sem falli til við rekstur hótelsins verði a.m.k. þrisvar sinnum meiri en á Kirkjubæjarklaustri, stærsta þéttbýli í Skaftárhreppi. Takist þriðja þrepið í fyrirhuguðu hreinsivirki ekki sem skyldi muni umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verða víðtæk og veruleg. Mengunaráhrif gætu orðið umtalsverð og óafturkræf, m.a. á verðmætustu fuglasvæðin sunnar á Brunasandi. Ofauðgunar muni gæta neðar á vatnasviðinu, með tímanum yfir stórt svæði og loks alla leið til sjávar. Ekki hafi fengist upplýsingar, t.d. frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, um uppsetningu og fyrirhugaðan rekstur á hreinsistöðinni. Sé það ábyrgðarleysi að samþykkja lausn af þessu tagi þar sem ekki verði séð að neinar raunhæfar áætlanir, þekking eða skilgreindar forsendur búi að baki. Virkni örveruflórunnar að vetrarlagi skapi óvissu.
Þá hafi umsagnir, m.a. frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, verið mjög almenns eðlis og ekki unnar í samræmi við umfang framkvæmdanna gagnvart staðháttum og náttúru Brunasands. Taki þær mið af þörfum og óskum framkvæmdaraðilans en hvergi á þeim þáttum er snerti íbúa Brunasands og sem skerði lífsgæði og tekjumöguleika þeirra.
Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun tekur fram að með hliðsjón af tilkynningu framkvæmdaraðila, umsögnum fagstofnana og öðrum gögnum málsins telji stofnunin að hún hafi dregið forsvaranlegar og réttar ályktanir. Því sé hafnað að ákvörðunin sé ekki byggð á nægilega traustum grunni.
Deiliskipulag vegna fyrirhugaðs hótels hafi komið til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. Með því hafi fylgt greinargerð og umhverfisskýrsla, dags. 13. apríl 2015, þar sem umhverfismat hafi farið fram á grundvelli 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umhverfisskýrslunni hafi verið breytt eða ný gerð á grundvelli laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana en í skýrslunni sé gerð grein fyrir áhrifum tillögunnar á umhverfið.
Því sé hafnað að Skipulagsstofnun hafi ekki horft til þeirra þátta sem taldir séu upp í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Tilkynning framkvæmdaraðila og efni umsagna hafi ekki gefið til kynna að aðrir þættir í viðaukanum, en fram komi í hinni kærðu ákvörðun, hafi getað átt við eða haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Í gögnum framkvæmdaraðila hafi komið fram að frá viðkomandi veglínu séu tæpir 10 km í norðurmörk þess svæðis sem mikilvægast sé m.t.t. fuglalífs. Þá sé byggingarreitur hótels einnig langt fyrir utan verðmætustu fuglasvæðin. Með þetta í huga séu ekki forsendur til að byggja á ákvæði um verndarsvæði í 2. viðauka til stuðnings því að framkvæmdin eigi að fara í umhverfismat.
Umtalsverð umhverfisáhrif séu skilgreind í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000. Teljist þau „veruleg óafturkræf“ eða „veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Þurfi mikið til að koma til að framkvæmd sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þótt fyrirhugað hótel sé mikið að umfangi og á svæði þar sem engin mannvirki séu fyrir þá geti það ekki leitt til þess að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum, enda séu þau efnisskilyrði er fram komi í fyrrnefndri skilgreiningu ekki uppfyllt. Það atriði að á Brunasandi sé viðkvæmt svæði, þ. á m. votlendissvæði með hárri grunnvatnsstöðu, geti ekki verið nægilegur grundvöllur fyrir því að framkvæmdin skuli háð umhverfismati, sbr. áðurgreind skilyrði. Ónæði vegna aukinnar umferðar hafi ekki í för með sér að áhrif hótel- og vegaframkvæmda á aðra landeigendur á Brunasandi séu umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.
Í ákvörðun sinni hafi Skipulagsstofnun vikið að því að fyrirhugað hótel væri skammt frá Eldhrauni sem njóti verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, líkt og votlendi sem sé um 10 km suður af framkvæmdasvæðinu. Muni framkvæmdin og aðkomuvegur hvorki valda beinum né óbeinum áhrifum á þessi svæði. Áhrif framkvæmdanna á þessa þætti séu því óveruleg. Telji Skipulagsstofnun brýnt að rekstraraðilar hótelsins sjái til þess að starfsemi þeirra verði ekki til þess að rýra verndargildi hraunsins og votlendisins með umferð ferðafólks. Jafnframt hafi Skipulagsstofnun tekið undir sjónarmið Minjastofnunar Ísland. Einnig telji stofnunin afar brýnt að frágangur mannvirkja og umgengni sé þannig að ekki sé minnsta hætta á því að mengun berist í neysluvatn og að þessa verði gætt við endanlega hönnun vatnsbóls og hótels. Ekki verði séð á hverju sú fullyrðing byggist að starfsmenn við hótelið geti orðið 70-90 talsins.
Skipulagsstofnun telji að í umsögn Umhverfisstofnunar sé m.a. tekin afstaða til þess hver áhrif vegagerðar séu á gróður en í umsögninni segi að umhverfisáhrifin verði ekki umtalsverð. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, sem fari með eftirlit með neysluvatni og fráveitu í Skaftárhreppi, sé ekki gerð athugasemd við að þriggja þrepa hreinsikerfi verði notað. Í umsögn heilbrigðiseftirlitsins, dags. 14. desember 2015, segi m.a. eftirfarandi: „Vegna hárrar grunnvatnsstöðu og jarðvegsgerðar sem gerir svæðið viðkvæmt fyrir allri mengun, verða öll bílastæði og afgreiðsluplön með vökvaheldu yfirborði og niðurföllum tengdum olíuskilju til að takmarka hættu á olíumengun í umhverfinu. Einnig er gert ráð fyrir þriggja þrepa hreinsun á fráveitu eða öðrum sambærilegum aðferðum sem lágmarka áhrif frárennslis á viðtaka, auk þess sem gerð er krafa um fituskilju á frárennsli frá veitingaaðstöðu til að hámarka virkni fyrirhugaðra hreinsivirkja. Þá verður fráveita hönnuð þannig að auðvelt sé að taka dæmigerð sýni af frárennsli bæði fyrir og eftir hreinsun þannig að vöktun umhverfis vegna hugsanlegrar mengunar frá fráveitu verði sem auðveldust.“ Miðist ákvörðun Skipulagsstofnunar við þá forsendu að hreinsikerfið virki sem skyldi. Hafi stofnunin ekki sérfræðiþekkingu og faglegar forsendur til að byggja á því að engin reynsla sé til í landinu af árangursríkum rekstri slíkrar hreinsistöðvar og að aðstæður á Brunasandi séu líklegar til að gera rekstur stöðvarinnar sérlega erfiðan. Með hliðsjón af gögnum framkvæmdaraðila og umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands hafi komið fram að fráveitu- og sorpmál starfseminnar verði með fullnægjandi hætti.
Málsrök framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili tekur fram að hann hafi kynnt sér lög nr. 60/2013 um náttúruvernd. Taki framkvæmdin mið af því að forðast algjörlega röskun á Skaftáreldahrauni og eigi hún hvorki að raska hrauni né hraunjaðrinum. Hafi staðsetning hótelsins verið valin með hliðsjón af fjarlægð frá hrauni, minjum, votlendi, merktum gróðri og fuglalífi. Sú vinna er átt hafi sér stað vegna umræddra framkvæmda á síðastliðnum þremur og hálfu ári hafi öll markast af því að umhverfisáhrif framkvæmdanna yrðu sem minnst. Mikilvægt sé að gengið verði frá fráveitumálum þannig að neikvæð áhrif á heilsu og öryggi verði nánast engin. Forðast skuli allt óþarfa rask og hafa í huga 15 m friðhelgað svæði friðaðra fornleifa. Umferð fólks verði takmörkuð um varpsvæði á varptíma.
Þar sem hótelið eigi að rísa hafi jörðin verið nýtt, m.a. fyrir skógrækt. Árið 1997 hafi Orustustaðir orðið ein af fyrstu jörðunum í Skaftárhreppi þar sem gerður var samningur við Suðurlandsskóga, heildarstærð samningssvæðisins sé 290 ha og búið sé að gróðursetja í 2/3 hluta þess. Skógræktarsvæðið sé rétt vestan við fyrirhugað hótel og liggi að því ýmsir slóðar. Á síðustu árum hafi verið byggð nokkur sumarhús á næstu jörð, þ.e. Hraunbóli.
Í niðurstöðu starfshóps á vegum ráðuneytis umhverfis- og auðlindamála sé ósnortið víðerni skilgreint svo „þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags vegna mannlegra umsvifa, sem er í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, s.s. raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum (sbr. vegalög), sem er a.m.k. 25 km² að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu.“ Geti umrætt svæði ekki talist ósnortið víðerni. Í raun sé ekkert svæði á Brunasandi sem geti talist ósnortið víðerni þar sem alltaf sé styttra en 5 km í manngerðan veg, tún eða skóg.
Sjónræn áhrif framkvæmdarinnar verði einhver en aðallega þegar komið sé að svæðinu eftir nýjum aðkomuvegi. Byggingar eigi þó ekki að standa upp fyrir hraunið og verði því ekki sýnilegar frá norðri, þannig að þær sjáist ekki frá þjóðvegi 1. Á jörðinni sé skógræktarsvæði vestast sem dragi verulega úr sýnileika bygginganna frá vestri. Reiturinn sé staðsettur þannig að austan frá verði byggingar ekki sýnilegar frá þeim bústöðum sem séu við hraunjaðarinn, en aukin ljósmengun verði. Ljósbjarmi verði líka sýnilegur í Landbroti sem sé rúmlega 11 km suðvestan við framkvæmdarsvæðið. Reynt verði að lágmarka sjónræn áhrif með því að ganga vel frá svæðinu í samræmi við náttúru og umhverfi. Við frágang lóðar skuli nota eins og kostur sé staðargróður og íslenskar trjátegundir. Til að takmarka ljósmengun sé lagt upp með að lýsing verði hulin þannig að birtan sjáist ekki. Í dag liggi margir slóðar um svæðið og vegur að Hraunbóli. Til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif frá umferð verði vegstæðið lagt í rúmlega 500 m fjarlægð frá bústöðum og íbúðarhúsi á Hraunbóli.
Haft hafi verið samráð við stofnanir, og fólk sem dvelji þarna á svæðinu, margsinnis frá því að málið hafi fyrst komið til skipulags- og byggingarnefndar. Haldnir hafi verið fundir með Fuglavernd, landeigendum og Umhverfisstofnun. Gerð hafi verið fornleifaskráning á svæðinu
árið 2014. Leitað hafi verið samráðs við val á veglínu sem hefði sem minnst truflandi áhrif á íbúa. Í skipulagsferlinu hafi verið haft samráð við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands vegna fráveitumála. Vanda þurfi annað þrep hreinsunarinnar og gera ráð fyrir fituskilju frá veitnaaðstöðu. Fráveita skuli hönnuð þannig að unnt sé að taka dæmigerð sýni af aðveituskólpi, svo og hreinsuðu skólpi, áður en það sé losað í viðtökuvatn. Eftirlit og mælingar skuli vera skv. reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og reglugerð nr. 982/2010 um fráveitur sveitarfélaga. Losunarmörk eigi að vera skv. fylgiskjali 4 í reglugerð nr. 450/2009 um breytingu á reglugerð um fráveitur og skólp.
Opinberir umsagnaraðilar hafi ekki gert athugasemd við vatnsöflun innan svæðisins. Það eigi að bora eftir vatni í dýpri jarðlög, en lögð verði áhersla á að ábúendur á Brunasandi sýni ábyrgð í notkun vatns á svæðinu. Sé það enda hagur allra að vatnsbúskapur þess haldist í jafnvægi.
——-
Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða í Skaftárhreppi, ásamt tengdum framkvæmdum, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, þar sem framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.
Hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis falla í flokk B í 1. viðauka við lög nr. 106/2000, sbr. tölul. 12.05, en skv. 1. mgr. 6. gr. laganna skulu framkvæmdir í þeim flokki háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Segir þar nánar að ákvörðun skuli taka innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn hafi borist, við ákvörðunina skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og að áður skuli leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni.
Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 barst Skipulagsstofnun tilkynning um byggingu hótels í landi Orustustaða. Var tiltekið að í framkvæmdinni fælist bygging hótels og að auki væri gert ráð fyrir starfsmannahúsum, lagningu aðkomuvegar og nýrri efnisnámu en efni úr henni yrði notað í vegagerð og byggingar. Fjallað var um forsendur hvað varðaði náttúrufar, skógrækt, náttúruminjar og fornminjar, sem og tengsl við skipulagsáætlanir. Hafði tilkynningin einnig að geyma frekari upplýsingar um framkvæmdina og reifun á umhverfisáhrifum hennar. Voru þau helst á náttúru- og menningarminjar, heilsu og öryggi og sjónræn áhrif. Þá var greint frá vöktun með fráveitu og tiltekið að þar sem grunnvatnsstaða væri há og lítill landhalli þá teldist vatnsumhverfið viðkvæmt svæði, sbr. A-hluta II. viðauka reglugerðar nr. 789/1999 um fráveitur og skólp. Tilkynningunni fylgdi deiliskipulagsuppdráttur í kvarðanum 1:7500. Fullnægjandi gögn fylgdu því tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar skv. 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. og áðurnefnda 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000.
Skal og tekið fram að lög nr. 106/2000 gera ráð fyrir því að framkvæmdaraðili afli og leggi fram á viðhlítandi hátt þær upplýsingar sem lögin gera ráð fyrir. Hlutverk Skipulagsstofnunar er svo að leggja mat á framlögð gögn og komast að niðurstöðu samkvæmt lögunum, s.s. með því að taka ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar eða með því að gefa álit sitt um mat á umhverfisáhrifum. Mat stofnunarinnar hlýtur eðli máls samkvæmt að lúta að því að sannreyna gildi gagna og gæði þeirra. Í þeim tilgangi skal stofnunin leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra, eftir eðli máls hverju sinni, áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Hefur stofnunin samkvæmt ákvæðinu forræði á því hverra umsagna skuli leitað umfram þær sem tilgreindar eru og leitaði stofnunin þeirra umsagna sem fram koma í málavaxtalýsingu. Umsagnirnar tóku óhjákvæmilega mið af tilkynningu framkvæmdaraðila, enda var beðið um álit umsagnaraðila á henni. Þá laut umsagnarbeiðnin að því hvort að fyrirhuguð framkvæmd væri háð mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000. Var ekki tilefni fyrir umsagnaraðila að taka á öðrum þáttum en umhverfisþáttum. Kærendur hafa m.a. bent á möguleg áhrif framkvæmdarinnar á votlendi og fuglalíf því tengt. Má telja að rök hafi staðið til þess að leita álits Náttúrufræðistofnunar Íslands þar um. Með hliðsjón af fjarlægð fyrirhugaðrar framkvæmdar frá mikilvægustu varpsvæðum votlendisins verður þó ekki annað ráðið en að þau gögn hafi legið fyrir Skipulagsstofnun er nauðsynleg voru til að hún gæti komist að efnislega réttri niðurstöðu. Verður skortur á slíkri álitsumleitan því ekki látinn valda ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.
Samkvæmt ákvæðum 6. gr. laga nr. 106/2000 ræðst matsskylda af því hvort að framkvæmd getur haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, en í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í 3. mgr. nefndrar 6. gr. segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tölul. 2. viðauka. Undir hverjum tölulið eru svo fjöldi annarra liða. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hverjir þeirra liða vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð, en það að framkvæmd falli undir einhverja þeirra leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu.
Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar er tekið fram að stofnunin skuli við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum taka mið af viðmiðunum sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og er jafnframt tekið fram að byggt sé á framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og framkomnum umsögnum. Dregur stofnunin saman niðurstöður sínar varðandi eðli og staðsetningu framkvæmdar.
Um eðli framkvæmdar tiltekur stofnunin að m.a. skuli taka mið af eðli og umfangi framkvæmda, samlegð með öðrum framkvæmdum, úrgangsmyndun, mengun og ónæði, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Umfang fyrirhugaðs hótels feli í sér umfangsmiklar framkvæmdir á svæði þar sem engin mannvirki séu fyrir. Feli uppbyggingin í sér verulega breytta ásýnd á svæðinu, sem gæti fyrst og fremst þegar komið sé að hótelinu. Tekur Skipulagsstofnun undir mikilvægi þess að hótelið sé hannað með hliðsjón af staðsetningu þess á óbyggðu svæði í dreifbýli. Hvað ónæði varðar þá telur Skipulagsstofnun að umferð um aðkomuveg neðan Hraunbóls muni augljóslega valda breytingum frá núverandi ástandi, þar sem aukin umferð muni fara um nágrenni bæjarins þegar hótelið verði komið í rekstur. Þá telur Skipulagsstofnun að með hliðsjón af gögnum framkvæmdaraðila og umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands hafi komið fram að fráveitu- og sorpmál starfseminnar verði með fullnægjandi hætti.
Hvað staðsetningu framkvæmdar varðar, þ.e. hversu viðkvæm svæði eru t.d. með tilliti til sérstæðra náttúruminja, verndarsvæða, nálægð við fornminjar, landslagsheilda og hvernig hún fellur að skipulagi, sbr. 2. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000, tekur Skipulagsstofnun fram að fyrirhugað hótel sé skammt frá Eldhrauni. Hafi það runnið í Skaftáreldum 1783-1784 og njóti verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Sama grein laganna gildi um votlendið sem sé um 10 km suður af framkvæmdasvæðinu. Muni framkvæmdin og aðkomuvegur ekki valda beinum áhrifum á svæðin og telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar eigi ekki að hafa í för með sér óbein áhrif á þau. Engu að síður kunni að reyna á það þegar hótelið sé komið í rekstur að umferð hótelgesta beinist að einhverju leyti að svæðunum. Áhrif framkvæmdanna á þessa þætti séu því óveruleg. Nauðsynlegt sé að haga framkvæmdum líkt og framkvæmdaraðili hafi boðað til að vegtenging að hótelinu hafi ekki neikvæð áhrif á rennsli undan hrauninu að votlendinu sunnan framkvæmdasvæðisins. Þá tekur Skipulagsstofnun undir með Minjastofnun Íslands og telur brýnt að verktakar verði upplýstir um tilgreindar fornleifar á svæðinu. Gangi það eftir séu hverfandi líkur til að framkvæmdin hafi áhrif á minjar. Skipulagsstofnun bendir jafnframt á að starfsemin verði mjög nærri því vatnsverndarsvæði sem ætlað sé að sjá starfseminni fyrir neysluvatni. Þó svo að landhalli sé frá vatnsverndarsvæðinu að framkvæmdasvæðinu sé hann lítill og því afar brýnt að frágangur mannvirkja og umgengni við vatnsverndarsvæðið sé þannig að ekki sé hin minnsta hætta á því að mengun berist í neysluvatn.
Brunasandur byggðist upp í kjölfar Skaftárelda og voru Orustustaðir meðal nýbýla þar árið 1823. Jörðin mun hafa lagst í eyði um 1950 og eru búsetuminjar þar. Í um 5 km radíus frá jörðinni er að finna jarðir í byggð og sumarhús. Samkvæmt Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022 fellur Brunasandur undir kornræktarsvæði 3, sem er síst kornræktarsvæða Skaftárhrepps. Í aðalskipulaginu er tekið fram að ekki séu skilgreind verndarsvæði vatnsbóla einstakra jarða í dreifbýli, en í dreifbýli Skaftárhrepps séu 25 vatnsból skráð með starfsleyfi. Á sveitarfélagsuppdrætti sést að næsta vatnsból er á Sléttu, í um þriggja kílómetra fjarlægð frá Orustustöðum.
Að virtum aðstæðum öllum er það mat úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi við ákvörðunartöku sína litið til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000 og tekið til þeirra afstöðu að teknu tilliti til framkominna umsagna. Viðurkennt var að um verulega breytta ásýnd yrði að ræða vegna umfangs hótelframkvæmdanna og ónæði yrði af umferð. Ekki yrðu bein áhrif á svæði sem nytu verndar 61. gr. laga nr. 60/2013, en um viðkvæman viðtaka væri að ræða. Var og ráð fyrir því gert í tilkynningu framkvæmdaraðila og því lýst hvernig staðið yrði að fráveitu þannig að uppfyllt yrðu skilyrði reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, auk þess sem svör framkvæmdaraðila vegna umsagnar Umhverfisstofnunar tiltóku að losunarmörk yrðu í samræmi við reglugerðina. Ákvörðun Skipulagsstofnunar tók mið af tilkynntri framkvæmd sem gerði m.a. ráð fyrir ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa á skólpi, sem og því að ræsi undir aðkomuvegi myndu tryggja að lindarvatn rynni undir hann án fyrirstöðu. Hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til að ætla að þessi tilhögun framkvæmdar muni ekki vera fullnægjandi, þvert á móti liggja fyrir umsagnir Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands sem báðar eru á þá lund að frágangur fráveitu verði fullnægjandi miðað við tilkynningu. Þá er rekstur fráveitunnar háður starfsleyfi, en slík leyfi kveða jafnan á um vöktun og viðbrögð ef eitthvað fer úrskeiðis. Loks tók framkvæmdaraðili undir með Umhverfisstofnun að mikilvægt væri að vatnsbúskapur svæðisins yrði ekki fyrir umhverfisáhrifum, ýmis ákvæði hefðu verið sett í deiliskipulagi til að tryggja það og væri ekkert því til fyrirstöðu að sett yrðu skilyrði við veitingu framkvæmdaleyfis þess efnis að vegurinn yrði þannig gerður að hann hindri ekki rennsli lindarvatns. Bendir ekkert til þess að mat Skipulagsstofnunar hafi að öðru leyti verið ómálefnalegt eða stutt ónógum gögnum. Er og rétt að taka fram að þar sem niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að framkvæmdin væri ekki matsskyld þá var ekki nauðsyn á mati á umhverfisáhrifum eða sérstökum rannsóknum því tengdu.
Kærendur hafa einnig bent á að framkvæmdin muni hafa áhrif á vatnsbúskap og að aðkomuvegur muni fara um eignarland utan Orustustaða. Muni þetta hafa áhrif á nýtingu jarða þeirra undir landbúnað. Markmið laga nr. 106/2000 er m.a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Þegar málsmeðferð fer fram samkvæmt lögunum, t.d. þegar tekin er ákvörðun um matsskyldu, ber því að horfa til afleiðingar framkvæmdar fyrir umhverfið. Hins vegar kemur ágreiningur um möguleg áhrif á eignarrétt, s.s. að grunnvatni, ekki til skoðunar í þeirri málsmeðferð sem á sér stað samkvæmt lögum nr. 106/2000.
Loks stóðu ekki rök til þess að Skipulagsstofnun liti til laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, enda var á þessu stigi um matsskylduákvörðun að ræða en hvorki skipulagsáætlun né leyfisveitingu. Verður því ekki frekar fjallað um þessa málsástæðu kærenda.
Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 um að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða, Skaftárhreppi, og framkvæmdir því tengdar, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
____________________________________
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Geir Oddsson