Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

52/2017 löggilding iðnmeistara

Árið 2018, föstudaginn 31. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2017, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 17. maí 2017 um að synja umsókn kæranda um löggildingu húsasmíðameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðmundur Örn Guðmundsson, þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 17. maí 2017 að synja umsókn hans um löggildingu húsasmíðameistara. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mannvirkjastofnun 26. júní 2017.

Málavextir: Kærandi hlaut réttindi sem húsasmíðameistari árið 2013. Hinn 2. maí 2017 sótti hann um löggildingu húsasmíðameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki hjá Mannvirkjastofnun. Samkvæmt 3. mgr. nefndrar 32. gr. er skilyrði fyrir greindri löggildingu að umsækjandi hafi meistarabréf og hafi lokið prófi frá meistaraskóla eða hafi a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði. Merkti kærandi við á umsóknareyðublaði að umsókninni fylgdi meistarabréf, en hvorki var merkt við staðfestingu frá meistaraskóla né staðfestingu um sambærilega menntun.

Með bréfi Mannvirkjastofnunar til kæranda, dags. 9. maí 2017, var tekið fram að innsend gögn bæru hvorki með sér að kærandi hefði lokið námi í meistaraskóla né að hann hefði sambærilega menntun. Var kæranda gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og í svarbréfi hans, dags. 12. s.m., var frá því greint að hann hefði útskrifast með sveinspróf árið 1981 og lokið vinnuskyldu fyrir árið 1988 og uppfylli þar með skilyrði um „sambærilega menntun“ á við meistaraskóla samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga um mannvirki.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með synjun Mannvirkjastofnunar á umsókn hans um löggildingu iðnmeistara sé verið að svipta hann áunnum starfsréttindum. Hann hafi útskrifast með sveinspróf árið 1981 og lokið vinnuskyldu fyrir árið 1988. Hafi kærandi þá þegar uppfyllt rétt til útgáfu meistarabréfs, löngu fyrir tíð meistaraskólans og gildistöku þágildandi skipulags- og byggingaralaga nr. 73/1997. Í 5. tölulið bráðabirgðaákvæðis laga nr. 160/2010 um mannvirki komi fram að ákvæði laganna skuli ekki hafa áhrif á eldri rétt eða viðurkenningu yfirvalda til handa iðnmeisturum. Ekki skipti máli þó meistarabréfið hafi ekki verið útgefið fyrr en árið 2013.

Kærandi uppfylli skilyrði um „sambærilega menntun“ þar sem hann hafi árið 1995 útskrifast með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og haft lögmannsréttindi frá árinu 1996. Á meðal fluttra mála fyrir dómstólum séu fasteignamál af ýmsum toga, þ. á m. gallamál vegna nýbygginga. Hann sé jafnframt með löggildingu fasteignasala, meirapróf á vörubíl og dráttarbíl auk vinnuvélaréttinda.

Málsrök Mannvirkjastofnunar:
Stofnunin vísar til þess að ekki hafi verið talið fært að meta próf kæranda í lögfræði við Háskóla Íslands auk réttinda sem fasteignasala, vinnuvélaprófs og meiraprófs á vörubíl og dráttarbíl sem sambærilegt við nám í meistaraskóla. Krafa laganna sé um sambærilegt nám á hlutaðeigandi sviði.

Heimildin til þess að meta nám sambærilegt námi við meistaraskóla hafi komið inn í skipulags- og byggingarlög með 16. gr. laga nr. 170/2000. Í athugasemdum með ákvæðinu í greinargerð með frumvarpi til laganna komi fram að þessari heimild hafi verið bætt við vegna fyrirliggjandi framkvæmdar við löggildingar, þar sem engin ástæða hafi þótt til þess að útiloka aðra aðila með sambærilega eða meiri menntun á hlutaðeigandi sviði, t.d. verkfræðinga, tæknifræðinga eða iðnfræðinga, frá því að hljóta löggildingu. Stofnunin meti umsækjendur með sambærilega eða meiri menntun í hverju tilviki fyrir sig og teljist t.d. þeir sem lokið hafi byggingariðnfræði hafa sambærilegt nám á við meistaraskóla. Ekki sé á það fallist að lögfræði eða löggilding sem fasteignasali sé sambærilegt við meistaraskóla á hlutaðeigandi sviði, enda ekki um að ræða sama fagsvið í skilningi 32. gr. mannvirkjalaga.

Stofnunin bendi á að með 2. gr. laga nr. 117/1999, sem hafi falið í sér breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, hafi þeim einstaklingum sem fengið hefðu útgefið eða átt rétt á að fá útgefið meistarabréf fyrir 1. janúar 1989 og ekki hefðu lokið meistaraskóla verið veittur réttur á löggildingu til að bera ábyrgð á verkframkvæmdum fyrir byggingarnefnd skv. 2. mgr. 52. gr., enda hefðu þeir sótt námskeið sem umhverfisráðuneytið hefði staðið fyrir í samvinnu við prófnefnd skipulags- og byggingarmála og Samtök iðnaðarins. Þessi heimild hafi verið í gildi til 1. júlí 2001. Eftir það hafi þessi kostur ekki lengur verið fyrir hendi. Ekki liggi fyrir að kærandi hafi nýtt sér þennan kost.

Niðurstaða: Í máli þessu er um það deilt hvort kærandi uppfylli skilyrði laga fyrir því að öðlast löggildingu húsasmíðameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að bera ábyrgð sem iðnmeistari á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð á sínu fagsviði.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. nefndra laga geta þeir iðnmeistarar einir borið ábyrgð á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð sem hlotið hafa til þess löggildingu Mannvirkjastofnunar. Er löggilding háð því að iðnmeistarar hafi fengið meistarabréf og lokið prófi frá meistaraskóla, eða hafi a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði. Ágreiningur þessa máls snýst í hnotskurn um það hvort kærandi hafi aflað sér menntunar sem jafna megi við nám í meistaraskóla.

Í athugasemdum við 32. gr. frumvarps þess er varð að mannvirkjalögum kemur fram að ákvæðið samsvari 2. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Gerði tilvitnað ákvæði skipulags- og byggingarlaga í upphafi aðeins ráð fyrir því að iðnmeistarar með meistarabréf og próf frá meistaraskóla gætu fengið löggildingu, en með 16. gr. laga nr. 170/2000 var sú breyting gerð á ákvæðinu að skilyrði um sambærilega menntun var lögfest. Gerð var grein fyrir ástæðu þeirrar breytingar í athugasemdum við nefnt ákvæði og tekið fram að það hefði verið framkvæmt á þann veg að hefði iðnmeistari meistarabréf og sambærilega menntun við meistaraskóla að mati menntamálaráðuneytisins hefði ráðuneytið veitt þeim iðnmeisturum landslöggildingu. Þætti því rétt að taka af allan vafa um heimild til slíkrar málsmeðferðar. Þá var tekið fram að engin ástæða þætti til að útiloka aðra aðila með sambærilega eða meiri menntun á hlutaðeigandi sviði, t.d. verkfræðinga, tæknifræðinga eða iðnfræðinga, frá því að hljóta löggildingu ráðherra.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda þurfti Mannvirkjastofnun sem leyfisveitandi að meta hvort kærandi hefði tilskylda menntun lögum samkvæmt, í þessu tilviki hvort hann hefði menntun á sínu fagsviði sem jafna mætti til prófs úr meistaraskóla. Ákvæði 3. mgr. 32. gr. mannvirkjalaga felur í sér almennar kröfur sem uppfylla þarf til þess að öðlast tiltekin atvinnuréttindi. Þar er m.a. gerð krafa um tiltekna menntun, próf úr meistaraskóla eða sambærilega menntun. Kærandi telur að hann uppfylli skilyrði um sambærilega menntun þar sem hann hafi lokið námi í lögfræði, öðlast lögmannsréttindi, sé með löggildingu fasteignasala, meirapróf á vörubíl og dráttabíl og vinnuvélaréttindi. Ekki verður fallist á að sú menntun teljist sambærileg námi í meistaraskóla í skilningi 3. mgr. 32. gr. mannvirkjalaga, enda ekki á sama fagsviði. Styðst það mat og við þá upptalningu um sambærilega menntun sem finna má í athugasemdum við fyrrgreinda breytingu á 2. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Samkvæmt 5. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 áttu ákvæði laganna hvorki að hafa áhrif á eldri rétt hönnuða né viðurkenningu byggingaryfirvalda til handa iðnmeisturum og byggingarstjórum til þess að standa fyrir framkvæmdum hver á sínu sviði við gildistöku laganna. Með lögum nr. 117/1999, sem fólu í sér breytingu á skipulags- og byggingarlögum, var sett tímabundið ákvæði í 10. tl. ákvæðis til bráðabirgða um að iðnmeistarar sem ekki höfðu lokið námi í meistaraskóla gætu öðlast umrædd réttindi með því að sækja sérstakt námskeið. Ekki liggur fyrir að kærandi hafi nýtt sér þann kost. Verður því ekki séð að með hinni kærðu ákvörðun hafi kærandi verið sviptur þegar áunnum starfsréttindum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Mannvirkjastofnunar frá 17. maí 2017 um að synja umsókn hans um löggildingu húsasmíðameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                    Þorsteinn Þorsteinsson