Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

75/2018 Hellubraut, Hf.

Árið 2018, miðvikudaginn 15. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 75/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra vegna ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 11. apríl 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir niðurrifi húss að Hellubraut 7, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. maí 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Hamarsbraut 8 og Hamarsbraut 6, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 11. apríl 2018 að samþykkja byggingarleyfi fyrir niðurrifi húss að Hellubraut 7, Hafnarfirði með kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 29. maí 2018.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 11. apríl 2018 var tekin fyrir umsókn um leyfi til niðurrifs húss á lóðinni Hellubraut 7, en það hús er friðað vegna aldurs. Var umsóknin samþykkt með vísan til bréfs Minjastofnunar, dags. 7. september 2016 þar sem fallist var á niðurrif hússins með tilteknum skilyrðum um hönnun húss sem reist yrði í þess stað.

Kærendur vísa til þess að hin kærða ákvörðun sé í andstöðu við leyfi Minjastofnunar til niðurrifs umrædds húss þar sem tilteknum skilyrðum fyrir þeirri heimild hafi ekki verið fylgt eftir.

Bæjaryfirvöld vísa til þess að samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé heimilt að rífa núverandi mannvirki að Hellubraut 7 og byggja einbýlishús innan byggingarreits. Leitað hafi verið eftir áliti Minjastofnunar vegna friðunar hússins og hafi stofnunin ekki lagst gegn niðurrifi þess.

Leyfishafi bendir á að kæra í máli þessu hafi borist að liðnum eins mánaðar kærufresti og beri af þeim sökum að vísa henni frá úrskurðarnefndinni. Fyrir liggi að Minjastofnun hafi afturkallað friðun umrædds húss og heimilað niðurrif þess og sé því umdeilt byggingarleyfi lögmætt.

Niðurstaða:
Kveðið er á um það í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á.
Hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 11. apríl 2018 felur einungis í sér heimild til niðurrifs mannvirkja, en telja verður að slíkar framkvæmdir séu almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. Ekki liggur fyrir að niðurrif hússins að Hellubraut 7 sem heimilað var að ósk eiganda þess húss raski grenndarhagsmunum kærenda eða snerti einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni þeirra á annan hátt.

Verða kærendur af framangreindum ástæðum ekki taldir eiga kæruaðild vegna hins umdeilda byggingarleyfis í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________
Ómar Stefánsson