Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

99/2016 Grettisgata

Árið 2018, fimmtudaginn 9. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu í Reykjavík og á ákvörðun byggingarfulltrúans frá 26. júlí 2016 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka ris og endurbyggja, sem og til að byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2016, kæra lóðarhafar lóðarinnar nr. 43a við Grettisgötu í Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna byggingar geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu. Verður að líta svo á að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2016, er móttekið var 26. s.m., mótmæla kærendur jafnframt ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júlí s.á., um að veita leyfi til að hækka og endurbyggja ris og byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu. Verður að skilja erindi kærenda svo að greind ákvörðun sé einnig kærð til nefndarinnar og að þess sé krafist að hún verði felld úr gildi. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 31. janúar 2017 og 10. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 19. maí 2016 sendu kærendur erindi til skilmáladeildar byggingarfulltrúans í Reykjavík og vöktu athygli hans á því að hafin væri framkvæmd við byggingu geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu. Bentu þeir á að lóð hefði verið lækkuð um 60 cm við lóðamörk, grunnur steyptur og raflagnatengingu komið fyrir. Burðargrind úr timbri hefði verið reist og að geymsluskúrinn virtist eiga að verða um 3 m á hæð, auk þess sem timburgrindverk á lóðamörkunum hefði verið rifið af undirstöðum sínum vegna framkvæmdanna.

Byggingarfulltrúi brást við ábendingunni og kannaði aðstæður á vettvangi 20. maí 2016. Skrifaði hann í framhaldinu lóðarhafa lóðarinnar nr. 41 bréf, dags. 24. maí 2016, þar sem hann var krafinn um skýringar á framkvæmdinni og honum gefinn 14 daga frestur til þess frá móttöku bréfsins að telja. Byggingarfulltrúi tilkynnti kærendum með tölvupósti 13. júní 2016 að hann hefði lokið afskiptum sínum af framkvæmdunum þar sem þær rúmuðust innan ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um framkvæmdir sem undanþegnar væru byggingarleyfi, enda yrði lóðin hækkuð upp aftur, lóðarhafar aðliggjandi lóðar hefðu veitt samþykki sitt og raflagnir í smáhýsum væru ekki lengur byggingarleyfisskyldar, sbr. nýjustu uppfærslu byggingarreglugerðar.

Hinn 29. júní 2016 sendu kærendur bréf til skilmálafulltrúa Reykjavíkurborgar vegna byggingarinnar þar sem vísað var til fyrri tölvupóstsamskipta og bent á að kærendur teldu byggingarfulltrúa hafa nægar forsendur til að stöðva framkvæmdir og gera lóðarhafa lóðar nr. 41 að lagfæra grindverkið. Þá var þess óskað að byggingarfulltrúi leiðbeindi um kæruleið, stæði hann við ákvörðun sína um að aðhafast ekkert í málinu. Barst kæra úrskurðarnefndinni 12. júlí 2016, svo sem áður segir.

Hafa kærendur einnig kært samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júlí 2016 á hækkun og endurbyggingu á risi og byggingu staðsteyptrar viðbyggingar aftan við einbýlishúsið á lóð nr. 41 við Grettisgötu. Forsaga þess hluta málsins er sú að með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, í kærumáli nr. 81/2015, sem kveðinn var upp 10. desember 2015, var felld úr gildi fyrri ákvörðun byggingarfulltrúans um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun nefnds húss og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu þar sem leyfið var ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Málsrök kærenda: Kærendur telja geymsluskúrinn ekki geta talist smáhýsi þar sem hann sé tæpir 3 m á hæð, auk þess sem ekki sé gert ráð fyrir honum í gildandi deiliskipulagi. Lóðarhafa lóðarinnar nr. 41 hafi borið að fá samþykki kærenda fyrir skúrbyggingunni áður en hann reif niður timburgrindverkið sem skildi lóðirnar nr. 41 og 43 að, en umrætt grindverk hafi verið reist fyrir þeirra fé. Aðkomukvöðin sem hvíli á lóðinni Grettisgötu nr. 43 sé jafngildi einhvers konar eignarréttar og hafi eigandi lóðar nr. 41 aldrei haft neinn rétt til að þvælast um í heimreið kærenda og eyðileggja grindverkið án þeirra samþykkis. Þá hafi ekki verið tekið tillit til eldvarna við byggingu skúrsins.

Jafnframt sé mótmælt ákvörðun byggingarfulltrúa frá 26. júlí 2016. Honum hafi ekki verið stætt á að taka erindið fyrir þar sem samþykktur deiliskipulagsuppdráttur sem liggi ákvörðuninni til grundvallar sé rangur. Uppdrátturinn gefi til kynna að grunnflötur hússins sé helmingi stærri en raunin sé og að húsið sé tvær hæðir þegar það sé í raun kjallari, hæð og ómanngengt ris. Hvergi sé minnst á heimild til viðbyggingar í texta deiliskipulagsins heldur eingöngu til stækkunar og hækkunar á útvegg, portvegg, um allt að 1,5 m.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld krefjast þess að kæru vegna geymsluskúrsins verði vísað frá á grundvelli aðildarskorts. Samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar verði aðili máls að hafa beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta við úrlausn máls. Við úrlausn á þessum matskenndu mælikvörðum þurfi að beita heildstæðu mati á hagsmunum og tengslum kærenda við umrætt stjórnsýslumál. Kærendur geti ekki talist hafa beinna hagsmuna að gæta við úrlausn málsins þar sem umræddar framkvæmdir séu allar innan lóðarinnar nr. 41 við Grettisgötu. Auk þess verði ekki séð að þeir hafi neinna tilfinnanlegra hagsmuna að gæta. Framkvæmdin sé upp að lóðarmörkum við lóð nr. 43, en ekki að lóð kærenda. Kærendur geti ekki talist eiga beinna hagsmuna að gæta þótt þeir eigi umferðarrétt um lóð nr. 43. Slíkir hagsmunir séu á milli kærenda og þess lóðarhafa, en veiti þeim ekki heimild til að gerast aðilar máls vegna framkvæmda upp að mörkum lóðar nr. 43 nema framkvæmd skerði nýtingu umferðarréttar hans. Ekki hafi verið færð fram rök fyrir að sá réttur sé með nokkru móti skertur.

Þess sé jafnframt krafist að kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 26. júlí 2016 verði vísað frá þar sem hún hafi borist utan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Almennt sé miðað við að kærufrestur sé 30 dagar en kæran hafi borist 31 degi eftir að ákvörðunin var birt og hafi kærendum verið vel kunnugt um framkvæmdirnar áður en byggingaráformin hafi verið samþykkt.

——-

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands hefur byggingarleyfishafi selt eignina að Grettisgötu 41.

——-

Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti 2. ágúst 2018.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna byggingar geymsluskúrs á lóð nr. 41 við Grettisgötu, sem og ákvörðunar byggingarfulltrúans frá 26. júlí 2016 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka ris og endurbyggja og til að byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á sömu lóð.

Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Hefur ákvæðið verið túlkað þannig að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eigi verulegra einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra. Samkvæmt 4. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 fellur samþykkt byggingaráforma úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan tveggja ára frá samþykkt þeirra. Hin kærða ákvörðun um samþykkt byggingaráforma var tekin 26. júlí 2016, en samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað, hefur byggingarleyfi ekki verið gefið út. Þar sem rúmlega tvö ár eru liðin frá því að hin kærða ákvörðun var tekin, án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út, er hún fallin úr gildi og hefur því ekki lengur réttarverkan samkvæmt lögum. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður þeim hluta kærumáls þessa af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Lóð kærenda að Grettisgötu nr. 43a er baklóð sem liggur að litlum hluta að lóðinni nr. 41 við sömu götu. Kærendur eiga umferðarrétt á lóð nr. 43 meðfram mörkum lóðanna nr. 43 og 41. Við þau lóðamörk, en innan lóðarinnar nr. 41, stendur umræddur geymsluskúr fast upp að tengihúsi (spennistöð) sem einnig er á lóðamörkunum, en nær Grettisgötu. Ganga kærendur fram hjá skúrnum og tengihúsinu þegar þeir eiga leið til eða frá lóð sinni, en ekki verður séð að framkvæmdin hafi nokkur áhrif á umferðarrétt kærenda. Kærendur halda því einnig fram að fjarlægt hafi verið grindverk sem þeir hafi borið kostnað við að hluta. Slíkur eignarréttarlegur ágreiningur á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina, heldur eftir atvikum dómstóla. Hins vegar er sökum þeirra grenndaráhrifa sem geymsluskúrinn mögulega veldur ekki hægt að útiloka að kærendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn þess hluta kærumálsins sem lýtur að synjun byggingarfulltrúa á beitingu þvingunarúrræða vegna skúrsins. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar hvað það varðar.

Byggingarfulltrúi getur beitt þvingunarúrræðum m.a. í því skyni að stöðva framkvæmdir, sbr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og til að knýja fram úrbætur, sbr. 56. gr. sömu laga. Í kjölfar vettvangsskoðunar var af hálfu byggingarfulltrúa í bréfi hans, dags. 24. maí 2016, vísað til nefndrar 55. gr., framkvæmdir stöðvaðar við hinn umdeilda geymsluskúr, og byggingaraðila veittur frestur til að koma að skýringum. Meðal gagna málsins eru tölvupóstsamskipti milli kærenda og embættis byggingarfulltrúa. Kemur fram í pósti þess síðarnefnda frá 30. s.m. að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar liggi fyrir en skúrinn sé of hár og grunnur steyptur og sé skúrinn því ekki undanþeginn byggingarleyfi. Málinu var síðar lokið af hálfu byggingarfulltrúa að fengnum skýringum eiganda skúrsins og vísað til þess að ekki væri um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð er fjallað um minniháttar framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi og í g-lið ákvæðisins er nánar fjallað um smáhýsi á lóð. Nefndum g-lið var breytt með reglugerð nr. 360/2016 sem tók gildi 2. maí 2016. Eftir þá breytingu falla undir undanþáguákvæðið smáhýsi úr léttum byggingarefnum til geymslu garðáhalda o.þ.h. á lóð utan byggingarreits þegar nánar tilgreindar kröfur eru uppfylltar, enda sé slík bygging ekki óheimil samkvæmt gildandi deiliskipulagi, og eru nánari kröfur gerðar um stærð, hæð og gerð smáhýsa auk samþykkis lóðarhafa nágrannalóða þegar það á við, sbr. 1.-5. lið.

Í gildandi deiliskipulagi svæðisins er tekið fram að yfirbragð byggðarinnar einkennist af því að húsin séu byggð á mismunandi tímum auk þess að vera mismunandi að stærð og að reiturinn njóti verndar í ljósgulum flokki, verndunar byggðamynsturs, en við nokkur hús sé leyfð hækkun og stækkun. Á það m.a. við um Grettisgötu 41. Standa ákvæði deiliskipulagsins því ekki í vegi að smáhýsi verði reist, en það sem hér er um deilt er auk þess aftan við og fjær götu en áðurnefnt tengihús sem reist var á árinu 1935 og hefur smáhýsið því ekki áhrif á byggðamynstur.

Kærendur byggja enn fremur á því að skilyrði g-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð séu ekki uppfyllt þar sem smáhýsið sé of hátt og á steyptum grunni, auk þess sem ekki hafi verið tekið tillit til eldvarna, en hin umdeilda ákvörðun byggingarfulltrúa var reist á því mati hans að skilyrðum nefnds reglugerðarákvæðis væri fullnægt. Að áliti úrskurðarnefndarinnar hefur það ekki úrslitaáhrif að geymsluskúr sá sem um ræðir sé reistur á steyptum grunni, enda eru t.a.m. pallar á lóð ekki byggingarleyfisskyldir skv. e-lið nefndrar gr. 2.3.5., og geta þeir eftir atvikum verið steyptir. Er þannig ekki eðlismunur á því að reisa smáhýsi úr léttum byggingarefnum, s.s. skúr þann sem hér er um deilt, á steyptum grunni eða á steyptum palli á lóð. Af aðstæðum og gögnum málsins er enn fremur ljóst að fullnægjandi fjarlægð er á milli geymsluskúrsins og húss kærenda í skilningi 2. tl. g-liðar reglugerðarákvæðisins, en sá töluliður lýtur að brunahólfun á milli húsa. Var og forsvaranlegt af byggingarfulltrúa að miða við að hæð skúrsins frá yfirborði lóðar yrði innan þeirra marka sem tilgreind eru í 4. tl. eftir að það hefði verið fært til fyrra horfs og er í því sambandi rétt að benda á að byggingarfulltrúi er sérfróður aðili skv. 8. gr., sbr. 25. gr., mannvirkjalaga og að af hans hálfu fór fram vettvangsskoðun. Hefur úrskurðarnefndin einnig kynnt sér aðstæður á vettvangi og liggur ekki annað fyrir en að skilyrðum g-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð hafi að öðru leyti verið fullnægt. Liggur t.a.m. fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, þ.e. Grettisgötu nr. 43, í samræmi við 5. tl. g-liðar.

Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið er ekkert sem bendir til annars en að mat byggingarfulltrúa um að hinn umdeildi geymsluskúr væri ekki byggingarleyfisskyldur hafi verið lögmætt og efnislega rétt og að þar með væri ekki tilefni til að beita þvingunarúrræðum. Verður kröfu kærenda um ógildingu á hinni kærðu ákvörðun því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna byggingar geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júlí 2016, um að veita leyfi til að hækka og endurbyggja ris og byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                Aðalheiður Jóhannsdóttir                          Þorsteinn Þorsteinsson