Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

41 og 42/2017 Kirkjutorg Kvosin

Árið 2018, föstudaginn 31. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. maí 2017, er barst nefndinni 28. s.m., kærir eigandi fasteignar að Kirkjutorgi 6a, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. apríl 2017, mótteknu sama dag, kærir Þórsgarður hf., eigandi fasteigna að Kirkjutorgi 4 og 6a og Templarasundi 3, áðurnefnda ákvörðun borgarráðs og krefst ógildingar hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður greint kærumál, sem er nr. 42/2017, sameinað máli þessu. Kærendur gerðu jafnframt kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 9. júní 2017.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. og 29. maí 2017.

Málsatvik: Deiliskipulag Kvosarinnar er frá árinu 1988 og tekur það til svæðis sem markast af Geirsgötu að norðan, Lækjargötu að austan, lóðunum vestan Aðalstrætis að vestan og Tjörninni að sunnan. Því hefur margsinnis verið breytt, m.a. á árinu 2008 þegar því var breytt innan staðgreinireits 1.141.2 vegna Lækjargötu 12 og Vonarstrætis 4-4b. Með þeirri breytingu var veitt heimild til talsverðs niðurrifs og mikillar uppbyggingar á þeim lóðum. Var m.a. heimiluð nýbygging, sem yrði alls fimm hæðir þar sem hún risi hæst, og yrði hún hótel og bankabygging.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 21. september 2016 var samþykkt að auglýsa og vísa til borgarráðs tillögu, dags. 15. september 2016, um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2. Í breytingunni fólst að lítillega var dregið úr byggingarmagni ofanjarðar og húshlutar gerðir ívið grennri en í gildandi skipulagi. Byggingarreitur jarðhæðar minnkaði og garðrými í porti stækkaði. Byggingarhlutar næst Lækjargötu 10 og Vonarstræti 4 lækkuðu um eina hæð. Byggingarreitur næst Skólabrú 2 minnkaði og þakform bygginga næst Skólabrú og Kirkjutorgi breyttust. Kvöð um umferð á lóð Lækjargötu 10 var felld niður. Ennfremur voru sett skilyrði um uppbrot útveggjar að Lækjargötu í fjórar einingar, heimild til þess að byggja turn felld niður og gerð var grein fyrir varðveislu og frágangi fornminja sem fundist höfðu á reitnum. Borgarráð samþykkti auglýsingu tillögunnar á fundi sínum 29. september 2016 og var hún auglýst til kynningar með fresti til athugasemda frá 7. október 2016 til og með 18. nóvember s.á. Alls bárust fimm athugasemdir, m.a. frá kærendum.

Að kynningu lokinni samþykkti umhverfis- og skipulagsráð tillöguna á fundi 14. desember 2016, með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 9. desember s.á., og samþykkti borgarráð skipulagstillöguna svo breytta 22. desember 2016.

Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 11. janúar 2017, að ekki væru gerðar athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda en benti á að áður þyrfti að lagfæra og/eða skýra tiltekin atriði á kortablaði 2/4. Bréf Skipulagsstofnunar var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 1. febrúar 2017 ásamt lagfærðum uppdrætti frá 27. janúar 2017. Var tillagan samþykkt og málinu vísað til borgarráðs sem staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á fundi 9. febrúar 2017. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um hinn 10. maí 2017 í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að ekki sé um breytingu á deiliskipulagi að ræða heldur nýtt deiliskipulag. Skipulagið hafi verið unnið að frumkvæði nýs eiganda umræddra lóða sem hafi kastað fyrra deiliskipulagi fyrir róða og unnið nýtt frá grunni.

Hið breytta deiliskipulag gangi freklega á rétt kærenda og brjóti gegn lögvörðum hagsmunum þeirra. Í stað þess að taka mið af þeim margbreytileika, sem finna megi í húsagerðum við Templarasund, Kirkjutorg og Skólabrú, verði fimm hæða byggingar byggðar meðfram Lækjargötu, fjögurra hæða byggingar meðfram Vonarstræti og tveggja til fjögurra hæða byggingar verði byggðar á miðjum reitnum. Húsið að Kirkjutorgi 6a hafi verið friðað árið 1991 og taki sú friðun til ytra byrðis hússins. Önnur hús við Kirkjutorg búi einnig yfir mikilli sögu og setji sterkt svipmót á reitinn. Ekkert tillit hafi verið tekið til þessara atriða við gerð deiliskipulagsbreytingarinnar. Auk þess rúmist hún ekki innan ákvæða Kvosarskipulagsins sem taki til svæðisins. Búið sé að hækka þriggja hæða byggingarhluta að Vonarstræti 4b, sem standi næst Kirkjutorgi 6, en lækka byggingarhluta þann sem sé tvær hæðir. Þaksvölum hafi verið bætt við beggja vegna sem valdi auknu ónæði og hljóðmengun. Gildandi deiliskipulag geri aðeins ráð fyrir þremur hæðum, en hið kærða skipulag geri ráð fyrir allt að fjórum hæðum. Tekið sé fram í fundargerð 162. fundar umhverfis- og skipulagsráðs að byggingarhluti næst Kirkjutorgi 6 og 6a hækki. Framsetningu á auglýstum tillögum sé ábótavant þar sem ósamræmi virðist vera í teikningum á bls. 2 og 3 varðandi aukningu á byggingarhlutum og því erfitt fyrir hagsmunaaðila að gera sér grein fyrir hinni raunverulegu tillögu.

Skipulagsbreytingin leiði til þess að byggingin á reitnum verði hærri og stærri með tilheyrandi skerðingu á útsýni og aukinni sjónmengun sem jafnframt leiði til aukinnar umferðar og meiri hávaða. Samkvæmt gildandi skipulagi sé óheimilt að breyta leyfilegum hæðarmörkum húsa. Hlutverk sveitarfélagsins sé að tryggja að mannvirki séu byggð í samræmi við gildandi skipulag, að jafnræðis sé gætt og að heildarmynd hverfis sé ekki raskað gegn vilja íbúa. Fullyrðing um að umþrætt skipulag feli í sér minni skerðingu á sólarljósi sé röng. Mat á áhrifunum sé ekki fyrirliggjandi en það verði að liggja fyrir þegar deiliskipulag og breytingartillaga séu skoðuð. Hækkun á fasteigninni sé á þeim hluta sem standi næst Kirkjutorgi 6a, mót suðri. Því sé ljóst að sól hverfi alveg á hluta hótelsins á Kirkjutorgi 4 og 6. 

Fyrirliggjandi deiliskipulag frá 2008 hafi verið meginforsenda fyrir kaupum annars kærenda á fasteignunum Kirkjutorgi 4 og 6 og Templarasundi 3 undir hótelrekstur. Í því sambandi skipti hæð og útlit næstu bygginga höfuðmáli. Um mikla hagsmuni sé að ræða fyrir þann kæranda. Hótel í slíkri nálægð við annað hótel eigi ekki að þurfa að hlíta því að samkeppnisaðili geti með samþykki sveitarfélagsins breytt skipulagi sér í vil og brotið með þeim hætti gegn hagsmunum kærenda.

Borgaryfirvöld hafi svarað beiðni annars kærenda á þann veg að afturköllun deiliskipulagstillögu yrði að koma frá umsækjendum sjálfum. Af svarinu verði ráðið að borgin hafi framselt skipulagsvald sitt til framkvæmdaraðila, en slíka heimild sé að finna í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvæði 43. gr. skipulagslaga leysi sveitarfélagið ekki undan skyldu sinni til að standa að skipulagsbreytingunni skv. 37. gr. laganna, þar sem í 4. mgr. sé m.a. kveðið á um að lagt skuli mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir séu með gerð húsakönnunar. Sú skylda eigi við jafnt við gerð deiliskipulags og við breytingar á því. Meginreglu skipulagslaga, um að raska sem minnst þeirri hverfismynd sem til staðar sé við breytingar á deiliskipulagi eða við gerð nýs skipulags, hafi ekki verið fylgt. Samþykkt hafi verið skipulag sem í raun sé í ósamræmi við lög og það sé óásættanlegt. Fasteignir kærenda hafi verið lengur en aðrar á reitnum og ekki sé hægt að virða rétt þeirra algerlega að vettugi líkt og gert hafi verið.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að skipulagsvald liggi hjá sveitarfélaginu og því sé það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að breyta hinni kærðu ákvörðun. Um breytingu á gildandi deiliskipulagi svæðisins frá 2008 sé að ræða en ekki nýtt deiliskipulag. Í innsendum athugasemdum við kynningu umdeildrar skipulagsbreytingar hafi komið fram krafa um að Reykjavíkurborg afturkallaði tillöguna. Afturköllun verði að koma frá lóðarhöfum sjálfum enda sé ekki á forræði borgarinnar að taka slíka ákvörðun. Skylda sé samkvæmt skipulagslögum að auglýsa verulegar breytingar á deiliskipulagi og kalla eftir athugasemdum, en ekki sé skylda til að verða við þeim athugasemdum sem berist. Ekki hafi þótt ástæða til að verða við athugasemdum kærenda.

Með breytingunni sé ekki verið að hækka umræddan byggingarhluta heldur færist hann til og breytist lítillega. Í meginatriðum séu breytingarnar minna íþyngjandi fyrir Kirkjutorg 6 og 6a en að óbreyttu skipulagi, þar sem byggingarreitur sé grennri og færist til og að byggingarhlutar séu að hluta til lækkaðir og felldir út. Skýrt komi fram í myndrænni framsetningu og texta tillögunnar hvernig heimildirnar séu fyrir þennan byggingarhluta. Kærendur hafi ekki sýnt með neinum gögnum fram á þá skerðingu sem þeir telji sig verða fyrir.

Ekki sé um útsýnisskerðingu að ræða sem haft geti áhrif á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar, enda geti aðilar í þéttri borgarbyggð ekki búist við því að lóðir í nágrenni þeirra haldist óbreyttar um aldur og ævi. Aðstæður á lóðum í borginni séu mismunandi og ávallt fari fram sjálfstætt mat á hvaða heimildir séu veittar í hverju tilfelli fyrir sig. Hvergi í lögum segi að eitt deiliskipulag sé eða skuli vera fordæmisgefandi fyrir annað deiliskipulag.

Fullyrðingar um neikvæð umhverfisáhrif séu ekki rökstuddar. Ekki verði talið að þaksvalir eða möguleg aukin umferð valdi hljóðmengun umfram það sem búast megi við í þéttri byggð. Umfang breytingarinnar sé ekki þess eðlis að hún kalli á sérstök viðbrögð eða mælingar vegna mögulega aukinnar umferðar gesta í miðbænum sem leið gætu átt í viðkomandi byggingar. Heimilt sé samkvæmt gildandi deiliskipulagi að byggja hótel á sameinaðri lóð nr. 4-4b við Vonarstræti og Lækjargötu 12 í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og ekki verði séð að farið sé gegn réttindum kærenda með breytingunni.

Ekki sé skylt að gera nýja húsakönnun þegar um breytingar á deiliskipulagi sé að ræða, en húsakönnun fyrir umræddan staðgreinireit 1.141.2, Vonarstræti, Templarasund, Kirkjutorg, Skólabrú og Lækjargötu, hafi verið gerð árið 2005 og telji skipulagsyfirvöld uppbygginguna falla vel að byggðamynstri svæðisins.

Málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga. Tillagan hafi verið auglýst lögum samkvæmt með athugasemdafresti, kærendur hafi komið að athugasemdum sínum og samráði hafi ekki verið ábótavant.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar borgarráðs frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, með síðari breytingum, vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en skilyrði er að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er gert ráð fyrir mikilli þéttingu byggðar. Umrædd deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á svæði Þ17, svonefndum Íslandsbankareit í aðalskipulagi, sem skilgreindur er sem þróunarreitur þar sem gert er ráð fyrir hóteli, verslun, þjónustu og skrifstofum. Hin kærða deiliskipulagsbreyting er samkvæmt því í samræmi við landnotkun aðalskipulags og áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana er því fullnægt. Breytingatillagan var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði að kynningu lokinni, framkomnum athugasemdum svarað og tillagan staðfest í borgarráði lögum samkvæmt. Lá og fyrir húsakönnun frá 2005. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Eins og fram er komið í málavaxtalýsingu fól umdeild skipulagsbreyting í sér lítillega minnkun byggingarmagns ofanjarðar. Hámarksnýtingarhlutfall er óbreytt frá eldra skipulagi, svo sem því var breytt á árinu 2008, eða 3,97. Byggingarreitur næst lóðunum Kirkjustræti 6 og 6a er minnkaður og færist fjær þeim lóðum að sama skapi auk þess sem húshluti sem snýr að þeim lóðum er lækkaður úr þremur hæðum í tvær. Verður ekki ráðið að skipulagsbreytingin raski grenndarhagsmunum kærenda umfram það sem verið hefði að nýttum byggingarheimildum samkvæmt deiliskipulagi Kvosarinnar með þeim breytingum sem gerðar voru á því 2008. Hafa verður í huga að um er að ræða lóðir í miðbæjarkjarna þar sem búast má við mjög þéttri byggð og fjölbreyttri starfsemi sem hefur í för með sér umferð fólks og farartækja.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin form- eða efnisgöllum sem valdið geta ógildingu hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Lækjargötu 10 og 12, Vonarstrætis 4-4b og Skólabrúar 2.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                              Þorsteinn Þorsteinsson