Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2017 Austurbyggð

Árið 2018, fimmtudaginn 9. ágúst kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 14. desember 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austurbyggðar, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. mars 2017, kæra eigandi, Vallarlandi 8, Selfossi og eignandi, Vallarlandi 17, Selfossi þá ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 14. desember 2016 að staðfesta samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 7. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Austurbyggðar, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árborg 11. maí 2017.

Málavextir:
Á fundi bæjarstjórnar Árborgar 14. desember 2016 var staðfest samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 7. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Austurbyggðar að undangenginni auglýsingu á tillögu þar um. Kærendur gerðu athugasemdir við tillöguna, er var svarað af skipulags- og byggingarfulltrúa. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 3. apríl 2017.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting felur í sér að leiksvæði sem gert var ráð fyrir á milli lóða að Smáralandi og Stekkjarlandi er fellt út og lóðirnar að Smáralandi 17 og 19 og Stekkjarlandi 8 stækkaðar lítillega. Einnig er leiksvæði á milli lóða við Snæland fellt út og parhúsalóðin að Snælandi 5-7 stækkuð og breytt í þriggja húsa raðhúsalóð. Þá er leiksvæði milli lóða að Fagralandi fellt út og einbýlishúsalóðin að Fagralandi 7 stækkuð. Í stað þessara þriggja leiksvæða er bætt við leiksvæði milli lóðanna Akralands 9 og 11 auk þess sem parhúsalóðunum að Akralandi 5 og 7 og einbýlishúsalóðinni að Akralandi 9 er breytt í raðhúsalóðir.

Málsrök kærenda:
Kærendur byggja á því að deiliskipulagsbreytingin skerði notagildi fasteigna þeirra að því leyti að enginn nothæfur leikvöllur verði í Austurbyggð eftir breytinguna.

Lýsing vegna breytinga á deiliskipulagi Austurbyggðar hafi ekki uppfyllt skilyrði greinar 5.2.3 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og með málsmeðferðinni hafi auk þess verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og meginreglunni um málefnaleg sjónarmið. Ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda kærenda við tillögu að breyttu deiliskipulagi. Vísi kærendur til ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar varðandi deiliskipulag og breytingar á því. Er sérstaklega vísað til 1. mgr. 37. gr., 39. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr. 41. gr., og 43. gr. skipulagslaga og b-liðar gr. 5.1.1, 5.1.2, 5.2.1, 5.2.2, 5.2.3 og 5.3.2.3 í skipulagsreglugerð. Þá sé vísað til 2. og 6. gr. reglugerðar nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.

Við breytingu á gildandi deiliskipulagi hafi skipulagsyfirvöld ekki jafn frjálsar hendur og við skipulagsgerð á óskipulögðum svæðum. Ákveðnar skyldur hvíli á skipulagsyfirvöldum með hliðsjón af fyrra skipulagi, sem mótað hafi byggð á svæðinu, nema lögmætar ástæður búi að baki breytingum. Hvorki fullnægjandi ástæður né rökstuðningur liggi fyrir breyttu deiliskipulagi. Hvergi í þeim gögnum sem lágu fyrir við ákvarðanatökuna komi fram hvers vegna þörf hafi verið á að fækka leiksvæðum í hverfinu, önnur en sú að stækka nokkrar íbúðarlóðir lítillega. Verið sé að fórna hagsmunum hverfisins í heild fyrir hagsmuni eigenda viðkomandi lóða. Ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda og vilja íbúa svæðisins. Jafnframt hafi að engu leyti verið skoðað hvort hin nýja staðsetning leikvallarins gæti staðist reglur um öryggiskröfur leikvalla. Telji kærendur að svo sé ekki þar sem eina aðkoman að leikvellinum sé að vestanverðu en sú hlið snúi að helstu umferðaræð hverfisins. Slíkt sé hvorki í samræmi við ákvæði reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim né skipulagsreglugerðar. Gera hefði þurft grein fyrir því í lýsingu verkefnisins og í greinargerð með hinu breytta deiliskipulagi hvernig ganga ætti frá svæðinu til að það stæðist öryggiskröfur. Þá hafi engin málefnaleg sjónarmið fyrir breytingunni komið fram af hálfu bæjarins, önnur en þau að stækka nokkrar íbúðarhúsalóðir lítilega. Allan rökstuðning fyrir breytingunni vanti og þess sé hvergi getið hvaða sjónarmið varðandi stækkun lóða geti réttlætt fækkun leikvalla hverfisins. Bæjaryfirvöld hafi við meðferð málsins virt vilja íbúa hverfisins að vettugi að öllu leyti. Yfirgnæfandi meirihluti íbúa telji mikilvægt að breytingin taki ekki gildi þar sem hún muni hafa neikvæð áhrif á framþróun hverfisins og geri það að verkum að ekkert öruggt leiksvæði verði í því.

Málsrök Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að uppfylltar hafi verið kröfur þeirra form- og efnisreglna sem sveitarfélaginu hafi borið að fara eftir við deiliskipulagsbreytinguna. Sveitarfélög hafi svigrúm til þess að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi skv. skipulagslögum nr. 123/2010. Ekki hafi verið skylt að útbúa lýsingu, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 43. gr. þeirrar laga. Sé því hafnað að fullnægjandi ástæður fyrir breytingunni hafi ekki legið fyrir og að markmiðið með henni hafi verið að stækka íbúðarhúsalóðir. Við uppbyggingu hverfisins hafi komið í ljós að fyrirhuguð leiksvæði í hverfinu væru bæði lítil og óhagstæð að lögun er leiddi til þess að ómögulegt hefði verið að setja upp viðunandi leikvelli með tækjum miðað við þær kröfur sem gerðar séu til leikvalla, eins og fram komi í bókun skipulags- og byggingarnefndar. Ekki sé óeðlilegt að leiksvæði í þéttbýli standi nálgæt götum sem umferð fari um. Þá verði að sjálfsögðu tekið tillit til öryggismála við hönnun hins nýja leiksvæðis. Ekki hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins við meðferð málsins. Loks sé sveitarfélaginu ekki skylt að verða við kröfum þeirra sem geri athugasemdir, enda séu færð fyrir því rök og ákvörðunin byggð á málefnalegum sjónarmiðum.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Austurbyggðar þar sem gert er ráð fyrir að þrjú lítil leiksvæði séu felld út en bætt við einu stærra leiksvæði á öðrum stað. Jafnframt eru nokkrar íbúðarhúsalóðir á viðkomandi svæði stækkaðar lítillega í tengslum við breytinguna.

Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærendur eru búsettir á deiliskipulagssvæðinu og byggja á því að notagildi fasteigna þeirra minnki við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Er þar um að ræða álit kærenda á skipulagi á svæðinu og komu kærendur þeim skoðunum á framfæri við meðferð málsins. Það að kærendur eigi rétt á að koma að athugasemdum þegar málsmeðferð vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi sendur yfir skv. skipulagslagslögum nr. 123/2010 veitir þeim hins vegar ekki sjálfstæðan rétt til kæruaðildar. Þá lúta nefnd málsrök kærenda fyrst og fremst að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna, en ekki einstaklega. Verður kærendum ekki játuð kæruaðild á þeim grundvelli þrátt fyrir að hagræði kunni að felast í því fyrir íbúa að stutt sé á næsta leiksvæði. Loks er útilokað, að öllum staðháttum virtum, að breytt lega leiksvæða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi nokkur grenndaráhrif á fasteignir kærenda    

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að kærendur hafi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra og verður kæruaðild þeirra ekki byggð á þeim forsendum. Þá hafa við meðferð málsins ekki komið fram aðrar ástæður af hálfu kærenda sem leitt geta til kæruaðildar þeirra samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                          Þorsteinn Þorsteinsson