Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

4/2017 Gistiheimili á Blönduósi

Árið 2018, fimmtudaginn 23. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 4/2017, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um veitingu áminningar og stöðvun á rekstri gistiheimilisins Blöndubóls.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Blöndubyggð, Blönduósi, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra frá 14. júní 2016 um að veita áminningu og stöðva starfsemi gistiheimilis kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er krafist skaða- og miskabóta og þess að framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra verði vikið frá störfum.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra 9. janúar 2017.

Málavextir: Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra fóru í eftirlitsferð á gistiheimili kæranda 14. júní 2016, eftir að kvartanir höfðu borist um að hreinlæti væri ábótavant á staðnum. Með bréfi, dags. s.d., var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að veita kæranda áminningu og stöðva starfsemi gististaðarins Blöndubóls, samkvæmt heimild í þágildandi 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Var kæranda jafnframt gert að skila viljayfirlýsingu um viðhaldsáætlun fyrir 23. júní s.á. Var kæranda afhent bréfið samdægurs. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun 5. janúar 2017.

Málsrök kæranda:
Kærandi kveðst vilja kæra vegna samskipta sinna við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra og sérstaklega heilbrigðisfulltrúa sem hafi ritað bréf, dags. 14. júní 2016. Ekki hafi verið tekið til greina að kærandi hafi verið afar upptekinn við að ganga frá svokölluðum svefntunnum og hafi því ekki verið búinn að taka til eftir síðustu næturgesti. Hann krefjist þess að sér verði dæmdar skaða- og miskabætur og að heilbrigðisfulltrúinn verði rekinn úr starfi.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni vegna þess að kærufrestur hafi verið útrunninn þegar kæra hafi borist. Kæranda hafi verið veittar greinargóðar leiðbeiningar um rétta kæruleið í tölvupósti, dags. 29. júní 2016, vegna ágreinings hans við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra, auk ábendinga um hvert hann ætti að beina kvörtunum vegna starfsmannamála heilbrigðiseftirlitsins og framgöngu einstakra starfsmanna þess. Mánaðar kærufrestur hafi því verið útrunninn þegar kærandi hafi lagt fram kæru sína 5. janúar 2017, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu er hin kærða ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra frá 14. júní 2016 og barst hún kæranda samdægurs. Í kæru, sem dags. er 5. janúar 2017, kemur fram að hann hafi verið í sambandi við umhverfis- og auðlindaráðuneyti vegna málsins en ekki kemur fram á hvaða grundvelli. Á meðal gagna málsins er tölvupóstur frá heilbrigðiseftirlitinu til kæranda, dags. 29. júní 2016, þar sem koma fram leiðbeiningar til hans um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar, en tilefni þessa var tölvupóstur kæranda, dags. 28. s.m. Með vísan til framangreinds verður kæran talin vera of seint fram komin og þykja undantekningar skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki eiga við í málinu. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kæru þessari er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir