Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2007 Unubakki

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2007, kæra á afgreiðslu bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss frá 8. mars 2007 um að synja að svo stöddu umsókn um breytta notkun hússins að Unubakka 24 í Þorlákshöfn og uppsetningu tveggja ósontanka að Unubakka 26-28.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. mars 2007, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir Sigurbjörn Magnússon hrl., f.h. Lýsis hf., lóðarhafa lóðanna að Unubakka 24 og 26-28 í Þorlákshöfn, þá afgreiðslu bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss frá 8. mars 2007 að synja að svo stöddu umsókn Lýsis hf. um breytta notkun hússins að Unubakka 24 og uppsetningu ósontanka að Unubakka 26-28. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Með bréfi kæranda máls þessa til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 25. ágúst 2006, var óskað eftir heimild til að setja upp þvottatanka við þurrkverksmiðju kæranda.  Sagði í bréfinu að um væri að ræða viðurkenndan búnað til að eyða lykt.  Þá sagði ennfremur að óskað væri eftir bráðabirgðaleyfi til 18 mánaða á meðan bygging nýrrar verksmiðju stæði yfir.  Var umsókn kæranda tekin til umfjöllunar á fundum skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins hinn 2., 18. og 31. október 2006 og 19. desember s.á. án þess að umsóknin væri afgreidd.  Á fundi nefndarinnar hinn 16. janúar 2007 var eftirfarandi fært til bókar:  „Mál fyrir Unubakka 26-28, uppsetning á ósontönkum og breytingar á Unubakka 24, rædd.  Fyrir liggja teikningar af Unubakka 26-28, byggingum og afstöðumynd og af innra skipulagi, breytingar á Unubakka 24.  Starfleyfisveitingin er í vinnslu hjá lögmanni sveitarfélagsins.  Afgreiðsla á þeim málum er varða starfsemi Lýsis, hausaþurrkun og þá leyfi fyrir uppsetningu á ósontönkum og breytingar á Unubakka 24, verður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar 25. janúar n.k. til afgreiðslu.“  Á fundi bæjarstjórnar hinn 25. janúar 2007 var eftirfarandi fært til bókar:  „Á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar þann 16. janúar sl. tók nefndin fyrir erindi Lýsis hf. um breytta notkun á Unubakka 24 og uppsetningu á tveimur ósontönkum við Unubakka 26-28.  Bæjarstjórn felur lögmanni sveitarfélagsins að skila áliti um hvort þörf sé á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði áður en framkvæmdir verði heimilaðar.  Þá er lögmanni sveitarfélagsins einnig falið að kanna hvort fyrirhugaðar framkvæmdir séu í samræmi við gildandi aðalskipulag svæðisins.“  

Á fundi bæjarráðs hinn 8. mars 2007 var fjallað um umsókn kæranda og samþykkti meirihluti ráðsins eftirfarandi bókun:

Erindi Lýsis hf. um breytta notkun á Unubakka 24 og uppsetningu á tveimur ósontönkum við Unubakka 26-28 var tekin fyrir í bæjarstjórn síðast þann 25. janúar sl.  Á þeim fundi var lögmanni sveitarfélagsins falið að skila áliti sínu um hvort þörf væri á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði áður en framkvæmdir yrðu heimilaðar.  Þá var lögmanni sveitarfélagsins einnig falið að kanna hvort fyrirhugaðar framkvæmdir væru í samræmi við gildandi aðalskipulags svæðisins.  Álit lögmanns sveitarfélagsins hefur verið lagt fram til bæjarstjórnar.

Að íhuguðu máli þá hafnar bæjarráð Ölfuss að svo stöddu framkominni umsókn Lýsis hf. um breytta notkun á Unubakka 24 og uppsetningu á tveimur ósontönkum við Unubakka 26-28.

Bæjarráð bendir á þá meginreglu sem orðuð er í 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 (sbl) og mælir fyrir um að skylt er að gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sú heimild sem fram kemur í 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. (sbl) þess efnis að sveitarstjórn getur heimilað framkvæmdir á þegar byggðum svæðum, þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag, að undangenginni grenndarkynningu, er undanþága frá þessari meginreglu.

Bæjarráð bendir á að sú málsmeðferð að láta fara fram deiliskipulag áður en byggingarleyfi er gefið út í þegar byggðu hverfi er mun vandaðri málsmeðferð en sú að láta fara fram grenndarkynningu.  Tryggir sú leið því betur að nágrönnum og hagsmunaaðilum sé gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Hins vegar er gerð deiliskipulags þyngra í vöfum og tímafrekara en grenndarkynning.

Bæjarráð bendir á að málefni Lýsis hf. hafa verið mikið í umræðu í sveitarfélaginu.  Þá hafa sveitarfélaginu borist kvartanir um ólykt frá starfsemi verksmiðju Lýsis hf, vegna þessara kvartana verður að telja að útgáfa byggingarleyfis geti haft áhrif á fleiri aðila en hægt er að flokka sem nágranna skv. grenndarkynningu.

Bæjarráð metur það sem svo að hagsmunir íbúa sveitarfélagsins á að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegi þyngra en hagsmunir Lýsis á því að fá skjótari úrlausn sinna mála.

Bæjarráð bendir Lýsi hf. á ákvæði 2. ml. 1. mgr. 23. gr. sbl er mælir fyrir um að framkvæmdaraðila er heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi.“

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er krafist ógildingar á ofangreindri afgreiðslu bæjarráðs og því m.a. haldið fram að vandséð sé nauðsyn á gerð deiliskipulags vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  Telji kærandi það vera meginreglu að veita beri lóðarhafa byggingarleyfi í samræmi við umsókn hans sé hún í samræmi við gildandi skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulag viðkomandi svæðis.  Þá standist ekki afgreiðslan þar sem hún geri ráð fyrir að deiliskipulag takmarkist eingöngu við lóð kæranda en túlka verði úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarlaga á þann veg að deiliskipulag skuli ná yfir stærra svæði. 

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss:  Af hálfu sveitarfélagsins er kröfum kæranda hafnað og því m.a. haldið fram að framkvæmdir þær sem kærandi óski eftir séu þess eðlis að gera þurfi deiliskipulag, grenndarkynning sé ekki nægileg.  Byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Lögfest sé því sú meginregla að byggingarleyfi verið ekki gefin út nema í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Með því að benda kæranda á heimild til að gera tillögu að deiliskipulagi sé fyrirtækinu gefið færi á að koma með tillögur eða hefja viðræður um gerð deiliskipulags fyrir svæðið.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar hinn 16. janúar 2007 bókað að umsókn um uppsetningu ósontanka á lóð kæranda og breytingar að Unubakka 24 yrði tekin til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar 25. sama mánaðar.  Á þeim fundi fól bæjarstjórn lögmanni sveitarfélagsins að skila áliti um hvort þörf væri á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði áður en framkvæmdir yrðu heimilaðar ásamt því að kanna hvort fyrirhugaðar framkvæmdir væru í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Að áliti þessu fegnu afgreiddi bæjarráð umsókn kæranda og hafnaði henni að svo stöddu.  Verður að skilja bókun ráðsins svo að það hafi talið að vinna þyrfti tillögu að deilskipulagi í tilefni af umsókn kæranda.

Í  2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að byggingarnefnd fjalli um byggingarleyfisumsóknir sem berist og álykti um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Þá segir í 2. mgr. 39. gr. laganna að nefndinni sé skylt að rökstyðja afgreiðslu á erindum sem henni berast og að ákvarðanir nefndarinnar skuli leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Fyrir liggur að skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd ályktaði aldrei um umsókn kæranda heldur tók bæjarráð ákvörðun í málinu án þess að fyrir lægi rökstudd ályktun nefndarinnar um úrlausn þess.  Er þessi málsmeðferð andstæð tilvitnuðum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um meðferð byggingarleyfisumsókna.  Þar við bætist að með hinni kærðu ákvörðun bæjarráðs var umsókn kæranda hafnað að svo stöddu án þess að gerð væri grein fyrir því með skýrum hætti við hvað væri átt. 

Samkvæmt framansögðu var undirbúningi hinnar kærðu afgreiðslu áfátt en auk þess skorti á að hún væri fyllilega skýr að efni til.  Þykja þessir annmarkar svo verulegir að leiða eigi til ógildingar og verður hin kærða afgreiðsla því felld úr gildi.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Afgreiðsla bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss frá 8. mars 2007, um að synja að svo stöddu umsókn um breytta notkun hússins að Unubakka 24 og uppsetningu ósontanka að Unubakka 26-28, er felld úr gildi. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

 
 
 

78/2008 Miðskógar

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 9. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 78/2008, kæra á drætti á afgreiðslu umsóknar, dags. 24. apríl 2008, um byggingarleyfi fyrir byggingu einbýlishúss að Miðskógum 8 á Álftanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. ágúst 2008, er barst nefndinni 18. sama mánaðar, kærir Gestur Jónsson hrl., f.h. H ehf., að umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Miðskógum 8, Álftanesi hafi ekki fengið efnislega afgreiðslu.  Um kæruheimild vísar kærandi til 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Málsatvik og rök:  Hinn 2. maí 2008 lagði kærandi fram umsókn til byggingaryfirvalda á Álftanesi, dags. 24. apríl 2008, um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Miðskógum 8, Álftanesi.  Næsti fundur skipulags- og byggingarnefndar, eftir að umsókn kæranda barst, var haldinn 19. maí 2008 en svo virðist af málsgögnum sem samkomulag hafi verið milli aðila um að umsóknin yrði ekki til afgreiðslu á þeim fundi.  Hinn 22. maí 2008 var því hins vegar lýst yfir að samkomulagið væri úti og var krafa gerð um að umsókn kæranda um byggingarleyfið yrði tekin til afgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd.  Umsóknin var í framhaldinu tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar sem haldinn var hinn 19. júní 2008.  Samþykkti nefndin að leggja til við bæjarstjórn að málinu yrði frestað með vísan til 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br., þar sem breytingar stæðu yfir á deiliskipulagi Vestur-Skógtjarnarsvæðisins.  Þessa afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar ómerkti bæjarstjórn á fundi sínum 26. júní 2008, að því er virðist vegna hugsanlegs vanhæfis nefndarmanns skipulags- og byggingarnefndar, og vísaði málinu til nýrrar afgreiðslu nefndarinnar.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 10. júlí 2008 var byggingarleyfisumsókn kæranda tekin fyrir að nýju og lagði nefndin til við bæjarstjórn að afgreiðslu byggingarleyfis yrði frestað þar sem breytingar stæðu yfir á deiliskipulagi Vestur-Skógtjarnarsvæðisins.  Samþykkti bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, tillögu skipulags- og byggingarnefndar um að fresta afgreiðslu umsóknarinnar á fundi sínum hinn 17. júlí 2008.  Mun málið ekki hafa verið tekið fyrir eftir það en kærandi vísaði meintum drætti á afgreiðslu þess til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 17. ágúst 2008, svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kæranda er vísað 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segir m.a. að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt sé.  Þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast beri að skýra aðila máls frá því og skuli þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.  Dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verði kærð til.  Einnig vísar kærandi til 1. og 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga sem kveði á um það að byggingarnefnd skuli halda reglulega fundi, a.m.k. einu sinni í mánuði, svo framarlega sem erindi liggi fyrir til afgreiðslu.  Nefndin skuli halda gerðabók þar sem skráð séu móttekin erindi og hvaða afgreiðslu þau fái.  Um málsmeðferð fari eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga.  Nefndinni sé skylt að rökstyðja afgreiðslu á erindum sem henni berast.  Umsóknir um byggingarleyfi beri nefndinni að afgreiða í samræmi við gildandi deiliskipulag sem sannanlega sé í gildi, sbr. dóm Hæstaréttar frá 17. apríl 2008 í máli nr. 444/2007.  Það ákvæði 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga sem vitnað hafi verið til við ákvörðun um frestun málsins eigi ekki við enda sé sú heimild bundin við umsóknir um niðurrif eða breytingar á húsum.  Önnur rök fyrir frestun sem færð hafi verið fram séu ekki haldbær. 

Af hálfu Sveitarfélagsins Álftaness er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá.  Til vara er þess krafist að málsmeðferð umsóknar kæranda hjá sveitarfélaginu verði staðfest rétt. 

Sveitarfélagið Álftanes byggir aðalkröfu sína á því að ekki liggi fyrir stjórnvaldsákvörðun í málinu.  Ákvörðun um frestun afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda, svo sem ákveðið hafi verið á 91. fundi bæjarráðs, sé í eðli sínu formákvörðun og þáttur í málsmeðferð umsóknar kæranda um byggingarleyfi.  Í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segi m.a. að kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sæti stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga.  Falli formákvörðun um frestun máls ekki þar undir og sé hún því ekki kæranleg.  Þá sé því hafnað með öllu að málsmeðferðin sé í andstöðu við 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæra sóknaraðila sé byggð á. 

Varakröfu sína byggir sveitarfélagið á því að enginn óeðlilegur dráttur hafi orðið á meðferð umsóknar kæranda.  Bæjarráð hafi samþykkt, í umboði bæjarstjórnar, að fresta afgreiðslu umsóknar sóknaraðila um byggingarleyfi.  Ljóst sé að brugðið hafi verið frá því að byggja frestun afgreiðslu umsóknarinnar á 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga enda ekki vísað sérstaklega til þess ákvæðis líkt og gert hafði verið í tillögu 39. fundar skipulags- og byggingarnefndar sem bæjarstjórn hafi ómerkt á 58. fundi sínum.  Vísað sé til þess að afgreiðslu umsóknar kæranda sé frestað þar sem breytingar standi yfir á deiliskipulagi Vestur-Skógtjarnarsvæðis.  Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvíli sú skylda á stjórnvöldum að sjá til þess að eigin frumkvæði að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægilega upplýst áður en stjórnvaldsákvörðun sé tekin í því.  Svo sem hér hátti til hafi legið fyrir, þegar umsókn kæranda hafi verið tekin til löglegrar afgreiðslu, að samþykkt hafði verið að auglýsa breytt deiliskipulag Vestur-Skógtjarnarsvæðis, sem m.a. hafi falið í sér tillögu um að Miðskógar 8 yrðu gerðir að leikvelli, þó þar liggi fyrst og fremst aðrar skipulagslegar forsendur að baki.  Sveitarfélagið telji sig því ekki bært, með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga, að fjalla efnislega um umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrr en ljóst sé hvernig breytingu á deiliskipulagi Vestur-Skógtjarnarsvæðis reiði af m.t.t. tillögu um breytta notkun Miðskóga 8.  Þegar afgreiðsla deiliskipulags Vestur-Skógtjarnarsvæðis liggi fyrir telji sveitarfélagið sig hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína sem boðuð sé í 10. gr. stjórnsýslulaga.  Verði þá unnt að taka umsókn kæranda til efnislegrar afgreiðslu. 

————————–

Aðilar hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki þykir ástæða til að rekja nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er einungis til úrlausnar hvort afgreiðsla máls hafi dregist óhæfilega.  Á úrlausn um það álitaefni undir úrskurðarnefndina, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Eins og að framan er rakið barst byggingaryfirvöldum á Álftanesi umsókn kæranda um byggingarleyfi hinn 2. maí 2008.  Samkomulag virðist hafa verið með bæjaryfirvöldum og kæranda um að umsóknin yrði ekki tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 19. maí 2008.  Hinn 22. maí 2008 krafðist kærandi þess hins vegar að umsókn hans yrði tekin til efnislegrar afgreiðslu.  Var erindi hans tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 19. júní 2008 og samþykkti nefndin að leggja til við bæjarstjórn að málinu yrði frestað með vísan til 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br., þar sem breytingar stæðu yfir á deiliskipulagi Vestur-Skógtjarnarsvæðisins.  Þessa afgreiðslu ómerkti bæjarstjórn á fundi sínum 26. júní 2008 og vísaði málinu til nýrrar afgreiðslu nefndarinnar.  Var byggingarleyfisumsókn kæranda tekin fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 10. júlí 2008 og lagði nefndin til við bæjarstjórn að afgreiðslu byggingarleyfis yrði frestað þar sem breytingar stæðu yfir á deiliskipulagi Vestur-Skógtjarnarsvæðisins.  Samþykkti bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, tillögu skipulags- og byggingarnefndar um að fresta afgreiðslu umsóknarinnar á fundi sínum hinn 17. júlí 2008. 

Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga skal byggingarnefnd halda reglulega fundi, a.m.k. einu sinni í mánuði, svo framarlega sem erindi liggi fyrir til afgreiðslu.  Fer um málsmeðferð fyrir nefndinni eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga.  Verður af þessari lagareglu ráðið að gerð sé all rík krafa um málshraða og ber nefndinni í störfum sínum að gæta ákvæða 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda eiga þau lög við um stjórnsýslu sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna.  Ber byggingarnefnd því að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er, sbr. 1. mgr. 9. gr. 

Skipulags- og byggingarnefnd lagði til á fundi sínum hinn 19. júní 2008 að málinu yrði frestað með vísan til 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br., þar sem breytingar stæðu yfir á deiliskipulagi Vestur-Skógtjarnarsvæðisins.  Þessi frestun hefði verið ólögmæt enda á tilvitnað ákvæði einungis við þegar sótt er um breytingar eða niðurrif á húsum en í hinu kærða tilviki er um nýbyggingu að ræða.  Bæjarstjórn vísaði málinu af öðrum sökum til nýrrar afgreiðslu nefndarinnar sem á fundi sínum hinn 10. júlí 2008 lagði til við bæjarstjórn að afgreiðslu byggingarleyfis yrði frestað þar sem breytingar stæðu yfir á deiliskipulagi Vestur-Skógtjarnarsvæðisins.  Var sú tillaga staðfest í bæjarráði í umboði bæjarstjórnar hinn 17. júlí 2008. 

Úrskurðarnefndin telur að þessi frestun málsins hafi verið ólögmæt.  Verður að skilja ákvæði 43. gr. skipulags- og byggingarlaga um byggingarleyfi á þann veg að afgreiða beri umsókn um byggingarleyfi í samræmi við gildandi deiliskipulag og að óheimilt sé að fresta afgreiðslu umsóknar af því tilefni að fram sé komin tillaga að nýju eða breyttu skipulagi, nema við eigi hið sérstaka ákvæði 6. mgr. 43. gr., en svo er ekki í hinu kærða tilviki.  Var því ekki þörf neinnar rannsóknar á því hvernig fyrirliggjandi skipulagstillögu reiddi af og bar skipulags- og byggingarnefnd því að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar á fundi sínum hinn 19. júní 2008 í stað þess að leggja til að málinu yrði frestað.  Hefur þessi ólögmæta málsmeðferð leitt til dráttar á meðferð málsins og má fallast á með kæranda að afgreiðsla málsins hafi dregist óhæfilega.  Var honum því rétt að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar með stoð í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga þrátt fyrir að ekki lægi fyrir í málinu stjórnvaldsákvörðun er sætt gæti kæru til nefndarinnar samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að eins og atvikum er háttað í máli þessu hafi óhæfilegur dráttur orðið á afgreiðslu umsóknar kæranda frá 24. apríl 2008 um byggingarleyfi að Miðskógum 8 á Álftanesi.  Er lagt fyrir skipulags- og byggingarnefnd og bæjarstjórn Sveitarfélagsins Álftaness að taka umsóknina til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir skipulags- og byggingarnefnd og bæjarstjórn Sveitarfélagsins Álftaness að taka umsókn kæranda frá 24. apríl 2008 um byggingarleyfi að Miðskógum 8 á Álftanesi til efnislegrar afgreiðslu í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 án ástæðulauss dráttar. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                          ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

12/2006 Langabrekka

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2006, kæra á samþykkt skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 17. janúar 2006 um að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjar á lóðinni nr. 5 að Löngubrekku í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. febrúar 2006, er barst nefndinni næsta dag, kæra E og J, Álfhólsvegi 61, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 17. janúar 2006 að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjar á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku.  Liggur lóð kærenda að umræddri lóð. 

Krefjast kærendur þess að ofangreind afgreiðsla skipulagsnefndar verði ógilt. 

Málavextir:  Á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku stendur tvíbýlishús og bílskúr.  Í bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa að Löngubrekku 5, dags. 20. júlí 2005, sagði m.a. svo:  „3. mars 2005 var samþykkt í byggingarnefnd stækkun á bílskúr að Löngubrekku 5…..Við skoðun á staðnum sést að undirstöður eru ekki í samræmi við samþykktar teikningar.  Undirstöður hafa verið steyptar um 2,5 m lengra til suðurs að lóðarmörkum húss nr. 61 við Álfhólsveg og um einn metra fram með eldri bílskúr.“  Fyrirskipaði byggingarfulltrúi stöðvun allra frekari framkvæmda á lóðinni og lagði fyrir lóðarhafa að fjarlægja þær undirstöður sem steyptar hefðu verið umfram það sem samþykktar teikningar segðu til um. 

Lóðarhafi Löngubrekku 5 færði fram skýringar vegna framkvæmda á lóð sinni með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 26. júlí s.á., og taldi m.a. ekki allskostar rétt að undirstöður viðbyggingar væru ekki í samræmi við samþykktar teikningar.  Benti hann jafnframt á að hann hefði ákveðið að steypa vegg um 0,5 metra frá lóðarmörkum til að halda við jarðveg á lóðamörkum.  Var tekið fram að veggurinn væri ekki í beinu framhaldi af vegg væntanlegrar bílskúrsbyggingar heldur töluvert innar. 

Málið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 3. ágúst 2005 sem staðfesti stöðvun framkvæmda og tók undir kröfu byggingarfulltrúa um að fjarlægja skyldi þá þegar, eða eigi síðar en 12. ágúst s.á., þær undirstöður og þá botnplötu að viðbyggingu bílskúrs, sem steyptar hefðu verið í óleyfi, ella yrði það sem væri umfram samþykktar teikningar fjarlægt án frekari fyrirvara. 

Í kjölfarið fór lóðarhafi Löngubrekku 5 fram á það í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 8. ágúst s.á., að ákvörðunin yrði endurskoðuð.  Tók hann jafnframt fram að „undirstöður og botnplata“ væru í raun veggur, sem steyptur hefði verið til að styðja við jarðveg frá lóðunum að Löngubrekku 3 og lóð kærenda, og stétt sem væri á milli veggjarins og væntanlegrar bílskúrsviðbyggingar og greinilega aðgreind frá þeirri byggingu þó þau tengdust henni á tveimur stöðum til að fá viðspyrnu.  Veggurinn væri jafnhár fyrrgreindum lóðum, staðsettur 2,5 metra frá væntanlegri bílskúrsbyggingu og 0,5 metra frá lóðamörkum tilgreindra lóða.  Var einnig á það bent að mörg dæmi væru um að sambærilegir veggir hefðu verið reistir í Kópavogi án sérstaks leyfis bæjaryfirvalda.  Þá var á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 17. ágúst 2005 lögð fram umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5 þar sem sótt var um leyfi til að byggja við bílskúr, gera stoðvegg og stétt í austurhorni lóðarinnar og óskaði nefndin eftir umsögn lögmanns framkvæmda- og tæknisviðs um málið. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 7. september 2005 var ofangreind umsókn tekin fyrir og eftirfarandi bókað:  „Byggingarnefnd hefur þegar afgreitt umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr dags. 3. mars 2005.  Byggingarnefnd felur byggingarfulltrúa að ljúka afgreiðslu málsins er varðar stækkun á viðbyggingu bílskúrs.  Umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir gerð stoðveggjar og stéttar í austurhorni lóðar er vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.“ 

Hinn 20. september 2005 var umsókn um gerð stoðveggjar lögð fram á fundi skipulagsnefndar og samþykkt að senda málið í kynningu til lóðarhafa Löngubrekku 3 og 7 og Álfhólsvegar 59, 61 og 63.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 15. nóvember 2005, ásamt athugasemdum er borist höfðu frá kærendum máls þessa.  Var málinu frestað og skipulagsstjóra falið að gera umsögn um framkomnar athugasemdir.  Erindið var tekið fyrir enn á ný í skipulagsnefnd hinn 17. janúar 2006 og það samþykkt ásamt umsögn bæjarskipulags og málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs.  Á fundi bæjarráðs hinn 19. janúar 2006 var svohljóðandi bókað: „Langabrekka 5.  Stoðveggur.  Samþykkt.“ 

Hafa kærendur skotið áðurnefndri ákvörðun skipulagsnefndar til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur gera athugasemdir við ýmis atriði er varða meðferð málsins.  Sérstaklega sé kærð sú niðurstaða skipulagsstjóra og skipulagsnefndar að taka ekki til greina þá athugasemd er kærendur hafi sett fram við grenndarkynningu að um væri að ræða botnplötu og undirstöður en ekki stoðvegg líkt og sagt sé að sótt hafi verið um.  Skipulagsnefnd hafi ekki fært fram nein rök fyrir þeirri niðurstöðu sinni nema með vísan til gagna umsækjanda, en þörf hafi verið á rökstuðningi í ljósi mats byggingarfulltrúa og byggingarnefndar Kópavogs sem hafi krafist þess að undirstöður og botnplötur yrðu fjarlægðar.  Hafi verulega verið hallað á rétt kærenda með því að afgreiða málið með þessum hætti.  Sé gerð sú krafa að erindið verði afgreitt sem umsókn um undirstöður og botnplötu eða að lágmarki vísað frá á þeirri forsendu að þau mannvirki sem sótt hafi verið um leyfi fyrir séu ekki í samræmi við það sem hafi verið framkvæmt. 

Því sé mótmælt að hægt sé að leyfa framkvæmdir á forsendum nafngiftar sem stangist á við almenna skynsemi, mat sérfróðra aðila, þ.e. byggingarfulltrúa, og ásetning umsækjanda.  Gera verði þá lágmarkskröfu að heiti mannvirkja sé í samræmi við hönnun, framkvæmd og fyrirhugaða nýtingu þeirra og ekki sé unnt að rangnefna mannvirki og fá þau þannig samþykkt.  Þá sé bent á að skipulagsyfirvöld hafi ekki með faglegum hætti skorið úr því ósamræmi sem sé á milli nafngiftar hönnuðar, ásetnings umsækjanda og mats byggingarfulltrúa. 

Vakin sé athygli á að lóðarhafi Löngubrekku 5 hafi lagt fram viðbótargögn eða skýringar að lokinni grenndarkynningu.  Það sé óeðlileg stjórnsýsla að hægt sé að leggja fram viðbótargögn að lokinni grenndarkynningu og hefði átt að gefa kærendum færi á að bregðast við þeim.  Þá sé á það bent að við grenndarkynningu hafi ekkert komið fram um að verið væri að breyta deiliskipulagi svo sem haldið hafi verið fram að lokinni kynningu, en ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir umrædda lóð.  Sé mikilvægt, m.a. með vísan til gr. 7.5.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, að þessi skilningur, þ.e. að ekki hafi verið gerð breyting á deiliskipulagi, verði staðfestur. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Bæjaryfirvöld krefjast þess aðallega að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfum þeirra verði hafnað. 

Byggingarnefnd hafi vísað umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5 til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu sem hafi fallist á að grenndarkynna málið í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skuli byggingarnefnd taka mál til afgreiðslu að lokinni grenndarkynningu og þegar umfjöllun skipulagsnefndar liggi fyrir.  Enn hafi byggingarnefnd ekki afgreitt umsókn lóðarhafa þar sem fullnægjandi hönnunargögn hafi ekki verið lögð fram af hans hálfu.  Hin kærða umfjöllun skipulagsnefndar feli ekki í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun og bókun bæjarráðs þar sem umfjöllun og tillaga skipulagsnefndar sé samþykkt hafi enga þýðingu að lögum þar sem umfjöllun skipulagsnefndar skuli vísað til byggingarnefndar til afgreiðslu skv. fyrrgreindu ákvæði. 

Þau mistök hafi átt sér stað að í 4. kafla umsagnar bæjarskipulags vegna framkominna athugasemda hafi ranglega verið vísað til þess að málsmeðferð væri samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997, en rétt sé að um hafi verið að ræða málsmeðferð skv. 7. mgr. 43. gr. sömu laga.  Hafi öll málsmeðferð við afgreiðslu málsins borið þess merki að vera byggð á grundvelli 7. mgr. 43. gr. laganna. 

Varakrafa bæjarins sé á því byggð að umfjöllun skipulagsnefndar við grenndarkynningu hafi verið í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Þá sé bent á að heiti framkvæmda séu í samræmi við umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5, dags. 9. ágúst 2005. 

Í kæru komi fram að á rétt kærenda sé hallað með vísan til fjarlægðar húsa frá lóðarmörkum skv. 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Tekið skuli fram að umræddur stoðveggur teljist ekki húsveggur en falli fremur undir skilgreiningu girðinga.  Því beri að líta til 67. gr. byggingarreglugerðar fremur en 75. gr. sömu reglugerðar.  Sé á það bent að í umfjöllun skipulagsnefndar sé ekki kveðið á um að fjarlægð stoðveggjar frá lóðarmörkum brjóti í bága við tilvitnaða 67. gr. byggingarreglugerðar. 

Andmæli lóðarhafa Löngubrekku 5:  Lóðarhafi bendir á að í kæru sé hvergi tekið fram á hvern hátt umræddur stoðveggur valdi kærendum ama eða óþægindum.  Kærendum hafi fyrirfram verið gert ljóst að til stæði að byggja stoðvegg á umræddum stað og hafi þá engar athugasemdir verið gerðar.  Eftir að búið hafi verið að reisa vegginn hafi kærendur viljað að hann yrði fjarlægður án nokkurs rökstuðnings annars en að um sökkul sé að ræða en ekki stoðvegg.  Megi eins kalla vegginn húsvegg í hálfri hæð. 

Andmæli kærenda við greinargerð Kópavogsbæjar:  Kærendur mótmæla kröfu bæjaryfirvalda um að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Bent sé á að í bréfi bæjarskipulags Kópavogs til kærenda, þar sem tilkynnt hafi verið um samþykkt skipulagsnefndar frá 17. janúar 2006 á erindi lóðarhafa Löngubrekku 5, sé vakin athygli á ákvæðum laga um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar.  Jafnframt sé því andmælt að ákvörðun skipulagsnefndar og staðfesting bæjarskipulags sé ekki endanleg stjórnsýsluákvörðun og í því sambandi bent á 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þar segi m.a. að skipulagsnefndir fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, en engu orði sé minnst á að ákvarðanir skipulagsnefndar skuli hljóta samþykki byggingarnefnda. 

Sé litið til ákvæða 7. mgr. 43. gr. tilvitnaðra laga standi þar aðeins að byggingarnefnd skuli bíða eftir niðurstöðu skipulagsnefndar og grenndarkynningu áður en hún taki málið til afgreiðslu.  Ekki sé hægt að lesa úr ákvæðinu að ákvörðun skipulagsnefndar skuli vísa til byggingarnefndar til staðfestingar. 

—–

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlag nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um byggingarleyfisumsóknir sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5 um byggingarleyfi til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún samþykkti umsóknina og vísaði málinu til afgreiðslu bæjarráðs.  Ber þegar af þessari ástæðu að ógilda hina kærðu ákvörðun skipulagsnefndar og staðfestingu bæjarráðs á henni hinn 19. janúar 2006.  Gildir einu þótt það hefði verið í verkahring skipulagsnefndar að annast grenndarkynningu í tilefni af umræddri umsókn enda bar nefndinni þá, að kynningu lokinni, að vísa málinu til afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, í stað þess að ljúka málinu með fullnaðarafgreiðslu svo sem raunin varð. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 17. janúar 2006, sem staðfest var í bæjarráði 19. janúar 2006, um að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjar á lóðinni nr. 5 að Löngubrekku í Kópavogi, er felld úr gildi.

 

 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

120/2007 Lækjarbotnar

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 15. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 120/2007, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 7. ágúst 2007 um að synja umsókn um leyfi til að byggja við og breyta sumarbústað á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. september 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Þ, Bræðraborgarstíg 21b, Reykjavík, eigandi sumarbústaðar á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi í Kópavogi, synjun skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 á umsókn um  leyfi til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi. 

Kærandi krefst þess að hin kærða synjun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Árið 2002 var auglýst tillaga að deiliskipulagi lóðanna nr. 40 og 43 í landi Lækjarbotna.  Í tillögunni sagði að í henni fælist m.a. heimild til að byggja við núverandi sumarbústað í Lækjarbotnalandi 40.  Var tillagan samþykkt og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 15. janúar 2003. 

Með umsókn um byggingarleyfi, dags. 1. september 2006, óskaði kærandi eftir heimild til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnum.  Var umsókn hans vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu, sbr. bréf byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 7. september 2006.  Var umsóknin lögð fram á fundi skipulagsnefndar hinn 19. september 2006 og erindinu frestað.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 3. október s.á. var erindið lagt fram að nýju og óskað eftir umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs.  Á fundi hinn 17. október 2006 var umsókninni hafnað þar sem hún var ekki talin vera í samræmi við gildandi skipulag.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 7. ágúst 2007 var erindið enn lagt fram ásamt bréfi kæranda.  Skipulagsnefnd hafnaði erindinu með vísan til samþykktar bæjarráðs frá 26. júlí 2007 þess efnis að ekki væri fyrirhugað að framlengja lóðarleigusamningum í Lækjarbotnum þegar þeir rynnu út. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi hafi verið sumarbústaður allar götur frá árinu 1935 og hafi kærandi eignast hann árið 1984.  Kópavogsbær hafi á sínum tíma samþykkt kaupin og framlengt leigusamningnum tvívegis síðan þá, í seinna skiptið árið 1994 til ársins 2010.  Þá hafi Kópavogsbær tvívegis heimilað stækkun lands til skógræktar.  Árið 1985 hafi byggingarnefnd veitt heimild til viðbótarbyggingar á elsta hluta bústaðarins sem þá hafi verið hruninn.  Þá hafi skipulagsnefnd í október 2002 veitt heimild til endurbyggingar og/eða viðbótabyggingar þess hluta gamla bústaðarins sem ekki hafi verið endurnýjaður árið 1985.  Fram hafi komið að tekið hafi verið tillit til stækkunarbeiðninnar við útfærslu nýs deiliskipulags.  Kærandi hafi þá ekki haft tök á að byggja samkvæmt heimildinni sem hafi verið fyrirvaralaus, bæði skipulagslega og tímalega.  Nú hagi svo til að þak þessa hluta sé illa farið vegna snjóþyngsla á síðasta áratugi liðinnar aldar ásamt því að endurgera þurfi þakið og einn vegg bústaðarins. 

Í ágúst 2006 hafi kærandi sent inn teikningar að endurbyggingu sumarbústaðarins ásamt lítilsháttar stækkun hans.  Teikning þessi hafi af skipulagsyfirvöldum verið túlkuð sem útfærsla skipulags og því haldið fram að með teikningunni væri farið væri út fyrir heimildir deiliskipulags um 1,9 metra.  Að mati kæranda sé um fyrirslátt að ræða enda hafi á árinu 2002 verið samþykkt deiliskipulag þar sem gert hafi verið ráð fyrir endurbyggingu sumarbústaðar hans ásamt viðbyggingu við hann. 

Bent sé á að hinn 3. október 2006 hafi erindi kæranda verið tekið fyrir að nýju í skipulagsnefnd og því vísað til umsagnar skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs.  Málinu hafi aldrei verið vísað til byggingarnefndar heldur í allt annan farveg. 

Af hálfu kæranda er því haldið fram að gróflega hafi verið brotið á áður samþykktum skilyrðislausum rétti hans til að endurreisa gamla og leka byggingu og bæta eilítið við hana. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að afstaða skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 sé ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun þar sem með henni sé nefndin að ítreka fyrri afstöðu og vísi til eldri ákvörðunar í málinu.  Sé því ekki um sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun að ræða og beri af þeim sökum að vísa kærumálinu frá úrskurðarnefndinni. 

Verði ekki fallist á framangreint sé bent á að lóðarréttindi kæranda byggi á lóðarleigusamningi sem gerður hafi verið hinn 7. nóvember 1994.  Samkvæmt samningnum sé lóðin leigð til 1. maí 2010.  Í 9. gr. hans segi svo:  „Vilji landeigandi ekki að loknum leigutímanum, með nýjum leigusamningi, endurnýja hann, skal leigutaki fjarlægja mannvirki þau, er á landinu standa Kópavogskaupstað að kostnaðarlausu.“ 

Ákvörðun Kópavogsbæjar um að synja umsókn kæranda byggi m.a. á því að sveitarfélagið hyggist ekki endurnýja lóðarleigusamninga í Lækjarbotnum að leigutíma loknum, en langflestir samningar á jörðinni séu útrunnir eða renni út þann 1. maí 2010.  Ástæða þess sé sú að gert sé ráð fyrir breytingum á landnotkun á jörðinni. 

Í ljósi þessa sé afstaða Kópavogsbæjar sú að ekki verði veitt frekari leyfi fyrir varanlegum mannvirkjum á svæðinu.  Byggi sú ákvörðun m.a. á framangreindu ákvæði leigusamnings, sem sé staðlað og að finna í öllum samningum. 

Ákvörðun Kópavogsbæjar byggi því annars vegar á því að umsókn kæranda sé ekki í samræmi við skipulagsáætlun og landnotkun sem fyrirhuguð sé á svæðinu, auk þess að réttindi kæranda geri ekki ráð fyrir varanlegum mannvirkjum á lóðinni, líkt og sótt hafi verið um. 

Niðurstaða:  Í máli því er hér er til úrlausnar er kærð sú ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í landi Lækjarbotna.  Krefst Kópavogsbær frávísunar málsins þar sem í erindi kæranda felist aðeins beiðni um afgreiðslu erindis er skipulagsyfirvöld hafi áður tekið afstöðu til.  Á þetta verður ekki fallist enda var hin kærða ákvörðun studd nýjum rökum og var kæranda bent á kærurétt og kærustjórnvald er honum var tilkynnt um ákvörðunina.  Verður því að líta svo á að um nýja ákvörðun hafi verið að ræða, sem ekki verði vísað frá á þeim grundvelli sem frávísunarkrafa bæjaryfirvalda byggist á. 

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi vísaði umsókn kæranda um byggingarleyfi til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Virðist skipulagsnefnd hafa tekið til skoðunar hvort erindið samræmdist ófullkomnu deiliskipulagi sem skipulagsyfirvöld munu hafa sett á árinu 2003 fyrir tvær lóðir á umræddu svæði, þrátt fyrir ákvæði gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, en í deiliskipulagi þessu skortir auk þess á að kveðið sé á um stærðir byggingarreita, fjarlægðir frá lóðamörkum og ýmsar aðrar nauðsynlegar forsendur til túlkunar þess.  Lauk nefndin síðar málinu með hinni kærðu ákvörðun án þess að það kæmi til frekari umfjöllunar af hálfu byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar. 

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um umsóknir um byggingarleyfi sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Heimilt er, með sérstakri samþykkt er ráðherra staðfestir, að fela byggingarfulltrúa afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi en hvergi er stoð fyrir því í lögum að skipulagsnefnd sé bær til þess að afgreiða mál sem eiga undir byggingarnefnd eða byggingarfulltrúa.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn kæranda til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún synjaði umsókninni. 

Að auki liggur fyrir að engin afstaða var tekin til þess hvort synja ætti erindi kæranda eða samþykkja það er fundargerð skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 16. ágúst 2007.  Þá verður heldur ekki séð að bæjarstjórn hafi fjallað um erindið.  Verður ákvörðun skipulagsnefndar því ekki talin hafa hlotið staðfestingu bæjarráðs eða bæjarstjórnar og var því ekki bundinn endi á meðferð máls með hinni kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Sætir hin kærða ákvörðun því ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hennar eða til þess hvort hún hafi haft einhverja þýðingu við afgreiðslu á erindi kæranda. 

Samkvæmt framansögðu hefur erindi kæranda um heimild til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í landi Lækjarbotna ekki hlotið rétta meðferð bæjaryfirvalda og liggur ekki fyrir í málinu lögmæt ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Ber af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  _______________________________
         Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

88/2007 Eyrarstígur

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 2. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 88/2007, kæra á samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 25. júlí 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kæra H og G, eigendur hússins að Eyrarstíg 2, Reyðarfirði, samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 25. júlí 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði.  Á fundi bæjarráðs hinn 31. júlí 2007 var samþykkt nefndarinnar staðfest. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu bílgeymslu eru ekki hafnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda heldur kveðinn upp efnisúrskurður í málinu. 

Málavextir:  Kærumál þetta á sér nokkra forsögu.  Hinn 18. maí 2006 barst embætti byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar umsókn frá eiganda hússins nr. 4 við Eyrarstíg á Reyðarfirði, m.a. um byggingu bílgeymslu á lóðinni.  Var samkvæmt umsókninni gert ráð fyrir að bílgeymslan yrði staðsett austan við húsið, um einn metra frá mörkum lóðarinnar að lóð nr. 2 við Eyrarstíg, en á henni er bílgeymsla sem stendur fast að lóðarmörkunum.  Ákvað byggingarfulltrúi að grenndarkynna beiðnina þar sem ekki væri til deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Á fundi umhverfismálaráðs hinn 12. júlí 2006 var umsóknin tekin fyrir ásamt athugasemdum kærenda og var afgreiðslu málsins frestað.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi ráðsins hinn 26. júlí s.á. og var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin hefur skoðað málið vandlega og veitir byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Uppfylla þarf skilyrði um brunavarnir vegna fjarlægðar á milli húsa.  Nefndin telur að framkvæmdin skerði útsýni að mjög litlu leyti.  Þar sem bílgeymsla á lóð nr. 2 er byggð mjög nálægt lóðarmörkum lítur ráðið svo á að um gagnkvæman rétt til byggingar bílgeymslu sé að ræða við lóðarmörk.“ 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum hinn 8. mars 2007 felldi byggingarleyfið úr gildi. 

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar var á fundi umhverfismálaráðs hinn 25. júlí 2007 eftirfarandi fært til bókar:  „1. Samþykktir byggingarfulltrúa … Eyrarstígur 4, … sækir um leyfi til að byggja bílskúr við austurhlið hússins.  Liður 1 samþykktur.“  Var fundargerð umhverfismálaráðs samþykkt á fundi bæjarráðs hinn  31. júlí 2007. 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að vinna hefði átt deiliskipulag fyrir svæði það er um ræði áður en veitt var leyfi til byggingar bílskúrs á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg eða að öðrum kosti að grenndarkynna áformin. 

Bent sé á að með byggingu fyrirhugaðs bílskúrs muni gluggar á húsi kærenda byrgjast þannig að útsýni og birta minnki.  Þá sé lítil fjarlægð frá lóðarmörkum Eyrarstígs 2 að hinum umdeilda bílskúr.  Einnig sé bent á eldhættu samfara bílskúrsbyggingunni.

Í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé talað um fjarlægð frá lóðarmörkum og bil milli húsa.  Kærendur eigi erfitt með að skilja greinina þannig að hún heimili að byggt sé fyrir glugga eldri húsa.  Þá hafi Brunamálastofnun ekki enn gefið út leiðbeiningar um útreikninga á bili milli húsa svo sem áskilið sé í reglugerðinni.  

Kærendur telji að stærð bílskúrsins standist ekki lög.  Í 113. gr. byggingarreglugerðar sé talað um að bílskúr eigi að jafnaði ekki að vera stærri en 36 fermetrar og vegghæð ekki meiri en 2,7 metrar, nema pláss leyfi annað.  Samkvæmt teikningum eigi bílskúrinn að vera 39,5 fermetrar að stærð og vegghæð hans 2,88 metrar, mesta hæð 3,51 metrar og mikið rými fyrir ofan hurð.  Hér hafi því verið lagt upp með teikningu sem ekki passi lóðinni að Eyrarstíg 4.  

Málsrök Fjarðabyggðar:  Af hálfu Fjarðabyggðar er vísað til þess að umsókn byggingarleyfishafa hafi að mati byggingarfulltrúa uppfyllt öll skilyrði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, og hafi hún því verið samþykkt af umhverfismálaráði.  Engar útlitsbreytingar eða breytingar á staðsetningu bílskúrsins hafi verið gerðar frá fyrri umsókn sem kallað hafi á nýja eða endurtekna grenndarkynningu.  

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er bent á að stærð hins fyrirhugaða bílskúrs ráðist af staðsetningu hans og ætlaðri notkun enda segi í 113. gr. byggingarreglugerðar að bílskúrar skuli að jafnaði ekki vera stærri en 36 fermetrar og hafi mat á aðstæðum verið sett í hendur byggingarnefndar varðandi frávik frá reglunni.  Hæð veggja sé umdeilanleg en með þeirri hæð sem gert sé ráð fyrir náist hurðarop sem sé 2,5 metrar.  Þakhalli sé sá sami og á íbúðarhúsi, nálægt 13%, þannig að vandséð sé að bílskúrinn muni bera umhverfið ofurliði.  Gólfplata íbúðarhúss sé 30-40 cm yfir lóð en ekki sé fyrirhugað að lyfta bílskúr í þá hæð, þannig að efri brún veggjar verði að öllum líkindum neðar en efri brún veggja á íbúðarhúsinu. 

Umhverfismálaráð hafi skoðað málið vandlega á mörgum fundum og á vettvangi með tæknifólki sínu og hafi ekki talið ástæðu til að fetta fingur út í hönnun byggingarinnar.  Byggingarleyfið sé í samræmi við þá þróun sem verið hafi í sveitarfélaginu, þannig að bílskúrar innfluttra húsa sem byggðir hafi verið, séu yfir stærðarmörkum 113. gr. sem og nýbyggðir bílskúrar við eldri hús. 

Hin fyrirhugaða bílskúrsbygging sé staðsett þannig á lóð að áhrifa hennar gæti lítið á lífsgæði nágranna.  Þá hafi við hönnun fullt tillit verið tekið til ítrustu krafna um brunaþol þaks og veggja. 

Varðandi fullyrðingu kærenda þess efnis að þeir verði fyrir útsýnisskerðingu sé bent á að eina útsýnið sem þeir verði af sé bakgarður byggingarleyfishafa.  Gluggar á húsi kærenda er um ræði séu gegnt herbergisgluggum byggingarleyfishafa og vísi í vestur.  Skerðing verði ekki á sólarljósi fyrr en sólin sé komin norður fyrir vestur.  Þá sé degi farið að halla verulega, auk þess sem landfræðilegar aðstæður séu þess eðlis að sólargangur í vestri og norðan við vestur sé einungis yfir björtustu sumarmánuðina. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 25. júlí 2007 um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði.  Á svæði því er um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag.  

Í 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Þá segir í 2. mgr. sömu lagagreinar að framkvæmdir skv. 1. mgr. skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Undantekningu frá þessum lagaskilyrðum er að finna í 3. mgr. 23. gr. sömu laga þar sem segir að þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir í þegar byggðum hverfum geti sveitarstjórn veitt heimild til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr.

Samkvæmt framangreindu verður ekki veitt leyfi til byggingar hins umdeilda bílskúrs nema það eigi sér stoð í deiliskipulagi eða að undangenginni grenndarkynningu.

Enda þótt byggingaryfirvöld hafi áður látið fara fram grenndarkynningu vegna fyrri umsóknar um byggingarleyfi fyrir umræddum skúr verður ekki talið að þeim hafi verið heimilt að vísa til hennar við undirbúning nýrrar ákvörðunar í málinu eftir að fyrri ákvörðun hafði verið felld úr gildi.  Er þá til þess litið að hin nýja ákvörðun var tekin með stoð í breyttu ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar og hefði því verið rétt að kynna kærendum fyrirætlun byggingaryfirvalda um veitingu leyfisins og gefa þeim þannig kost á að tjá sig um hinar breyttu aðstæður.  Var því ekki gætt réttrar aðferðar við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.

Kærendur vísa og til þess að byggingarleyfið fyrir hinni umdeildu bílskúrsbyggingu fari gegn ákvæði greinar 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, bæði hvað varði hæð og gólfflatarmál.  Verður að telja að enda þótt tilvitnað ákvæði sé samkvæmt orðalagi sínu ekki ófrávíkjanlegt leiði af lokamálslið þess að byggingarnefnd geti aðeins heimilað stærri og hærri bílgeymslur en ákvæðið gerir ráð fyrir þar sem slíkt valdi ekki verulegri röskun á umhverfi og aðstæður leyfi að öðru leyti.  Þykir á skorta að sýnt hafi verið fram á að þessum skilyrðum hafi verið fullnægt og var rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun því áfátt, sbr. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Samkvæmt framansögðu var undirbúningi og gerð hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að ógildingu varðar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 25. júlí 2007 um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði, sem staðfest var í bæjarráði hinn 31. júlí 2007.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________                  _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson

 

65/2007 Laugar

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 65/2007, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 21. júní 2007 um breytingu á deiliskipulagi hluta úr landi Laugaskóla í Reykjadal, Þingeyjarsveit. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir Björn Þ. Guðmundsson hdl., f.h. S og K, eigenda 2/3 hluta fasteignarinnar Varmahlíðar í Reykjadal, Þingeyjarsveit, samþykkt sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 21. júní 2007 um breytingu á deiliskipulagi hluta lands Laugaskóla í Reykjadal. 

Þriðji eigandi Varmahlíðar, H, bróðir kærenda, leggst ekki gegn kæru þessari.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Þá setja og kærendur fram kröfu um greiðslu málskostnaðar.
 
Í kæru kemur fram að hún sé sett fram til að rjúfa kærufrest og frekari rök boðuð síðar. 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til lögmanns kærenda, dags. 30. júlí 2007, var bent á að svo virtist sem hin kærða ákvörðun hefði ekki tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda og væri því ekki kæranleg til nefndarinnar.  

Með bréfi lögmanns kærenda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. ágúst 2007, óskaði hann þess að litið yrði á erindi hans sem nýja kæru þar sem nú lægi fyrir að umrædd ákvörðun hefði verið birt hinn 3. ágúst 2007.  Var þess jafnframt farið á leit að kærumálið yrði ekki tekið fyrir fyrr en frekari greinargerð bærist nefndinni.  Barst úrskurðarnefndinni erindi frá lögmanninum hinn 27. ágúst 2007 þar sem sett voru fram rök kærenda í málinu. 

Ekki hafa verið hafnar neinar framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar og ekki hefur komið fram að þær séu yfirvofandi.  Hafa því ekki verið skilyrði til að úrskurða til bráðabirgða um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, sbr. 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  

Málavextir:  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Þingeyjarsveitar hinn 29. mars 2007 var eftirfarandi fært til bókar í tilefni af tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem gerð hafði verið á árinu 2001 fyrir hluta af landi Laugaskóla í Reykjadal:  „Breyting á deiliskipulagi við Framhaldsskólann á Laugum.  Erindið er samþykkt eins og það kemur fyrir á teikningu … Sá fyrirvari er gerður á samþykkt erindisins að sveitarfélagið sjái ekki um gatnagerð á svæðinu nema sérstaklega sé um það samið.“  Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar hinn 12. apríl 2007 var m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 29. mars.  Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu nefndarinnar á liðum 1 til 3 og felur sveitarstjóra að afla gagna, þar sem það á við, og auglýsa … breytingar á deiliskipulagi … við Framhaldsskólann á Laugum í samræmi við fyrirmæli í lögum.“  Í auglýsingu er birtist um tillögu að breyttu deiliskipulagi í landi Laugaskóla sagði m.a:  „Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar, samþykkti á fundi sínum þann 12. apríl 2007, að auglýsa til kynningar tillögu að breyttu deiliskipulagi í landi Laugaskóla, Reykjadal, skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum.  Um er að ræða breytingu þar sem tvær nýjar lóðir fyrir einbýlishús (B8 og B9) eru skipulagðar.“  Gerðu kærendur athugasemdir við tillöguna er aðallega lutu að grenndarsjónarmiðum. 

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 18. júní 2007 var eftirfarandi fært til bókar:

„Breyting á deiliskipulagi við Framhaldsskólann á Laugum.  Breytingartillagan var send til birtingar í Lögbirtingarblaðinu 25. apríl (útgáfud. 30. apríl).  Auglýsingin birtist í Morgunblaðinu 29. apríl og í Hlaupastelpunni 2. maí.  Frestur til að gera athugasemdir rann út  12. júní og barst ein athugasemd frá eigendum Varmahlíðar … Athugasemdin gengur út á að verði tvær nýjar lóðir skipulagðar á því svæði sem um ræðir muni það rýra verulega gildi lóðar og húss Varmahlíðar sem hefur staðið í rúm 70 ár.  Þá er rætt um að svipmót byggðarinnar muni gjörbreytast með húsbyggingum á umræddu svæði og útsýni frá Varmahlíð muni skerðast.  Þá nefna eigendurnir að fullyrt hafi verið þegar húsin merkt B5 og B6 voru byggð að ekki yrði byggt ofar í landi Laugaskóla. 

Vandséð er að gildi lóðar og húss Varmahlíðar rýrni við það að skipulagðar verði tvær nýjar lóðir og byggð á þeim einlyft hús, þar sem gólfkóti verður um 8 m lægri en í Varmahlíð.  Þá er byggingareitur a.m.k. 8 m frá lóðarmörkum.  Ekki verður hjá því komist að bygging tveggja einbýlishúsa breyti ásýnd og umhverfi.  Ugglaust mun útsýni skerðast eitthvað frá því sem nú er úr Varmahlíð, en slíkt hefur gerst á umliðnum árum m.a. með skógrækt. … Nefndin mælist til að sveitarstjórn staðfesti deiliskipulagsbreytinguna óbreytta og auglýsi hana í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni athugun Skipulagsstofnunar.“ 

Á fundi sveitarstjórnar hinn 21. júní 2007 var framangreind tillaga umhverfis- og skipulagsnefndar samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Sveitarstjórn samþykkir tillöguna að breytingu á deiliskipulagi við Framhaldsskólann á Laugum samhljóða og felur sveitarstjóra að sjá um gildistöku hennar.“ 

Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarstjóra, dags. 5. júlí 2007, segir m.a. eftirfarandi:

„Vísað er til erindis Þingeyjarsveitar, dags. 22. júní 2007, þar sem breyting á deiliskipulagi í landi Laugaskóla, Reykjadal, er send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í sveitarstjórn 21. júní 2007 ásamt umsögn sveitastjóra um framkomnar athugasemdir, dags. 10. júní.  Málsmeðferð var skv. 1. mgr. 26 gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Breytingin felst í að bætt er við tveimur nýjum lóðum fyrir einbýlishús.  Ekki er til svæðis- eða aðalskipulag fyrir svæðið. 

Deiliskipulagsbreytingin er sett fram á uppdrætti í mkv. 1:1000, dags. 8. mars 2007, og er greinargerð á uppdrætti. 

Skipulagsstofnun hefur yfirfarið framlögð gögn og telur að áður en birt verði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda þurfi sveitarstjórn að gera grein fyrir því hvernig gert er ráð fyrir þróun á Laugaskólasvæðinu í tillögu að aðalskipulagi Þingeyjarsveitar.  Ljóst þarf að vera að deiliskipulag þetta sé í samræmi við stefnu aðalskipulagsins sem nú er í vinnslu.  Stofnunin bendir jafnframt á að leita þarf umsagnar Fornleifaverndar varðandi fornleifar og einnig vantar yfirlitsmynd eða útdrátt úr landakorti til glöggvunar á staðsetningu svæðisins.“ 

Í bréfi sveitarstjóra til Skipulagsstofnunar, dags. 30. júlí 2007, segir m.a. eftirfarandi: 

„Eins og fram kemur í bréfi yðar er unnið að gerð aðalskipulags í Þingeyjarsveit.  Af ýmsum ástæðum hefur vinnan tekið lengri tíma en vonir stóðu til.  Eigi að síður er ljóst að á Laugaskólasvæðinu verða stofnanir (skóla- og íþróttamannvirki) sem og íbúðarhús eins og eru á svæðinu nú.  Á því svæði sem breytingin á deiliskipulaginu tekur til, hljóta að verða íbúðarhús enda íbúðarhús allt um  kring. 

Sveitarstjórn hefur í raun, þ.e. við deiliskipulagsgerð árið 2000/2001 markað þá stefnu og núverandi sveitarstjórn einnig með samþykkt þeirrar breytingar á deiliskipulaginu sem um ræðir.“

Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarstjóra, dags. 10. ágúst 2007, segir m.a. eftirfarandi: 

„Með bréfi Þingeyjarsveitar, dags. 30. júlí 2007, er gerð grein fyrir ofangreindum athugasemdum stofnunarinnar og gerir Skipulagsstofnun ráð fyrir því að mörkuð verði stefna um framtíð Laugaskólasvæðisins í aðalskipulagi því sem nú er í vinnslu. 

Skipulagsstofnun hefur yfirfarið framlögð gögn og gerir ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.“

Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingar fyrir hluta úr landi Laugaskóla birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. ágúst 2007. 

Skutu kærendur ákvörðuninni um deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að ekki liggi fyrir aðalskipulag Þingeyjarsveitar og þ.m.t. þess svæðis er hin kærða ákvörðun taki til.  Deiliskipulagsbreytingin sé það veruleg að hún sé aðalskipulagsskyld og raunar viðurkenni sveitarstjórn að svo sé með tilvísun til 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Þá sé bent á að sveitarstjórn hafi ekki sent kærendum svör við athugasemdum þeim er settar hafi verið fram á auglýsingartíma tillögunnar, sbr. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Málsrök Þingeyjarsveitar:  Af hálfu sveitarstjórnar er látið nægja að vísa í fyrirliggjandi gögn í málinu. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi breytingar á deiliskipulagi er sett var á árinu 2001 fyrir hluta úr landi Laugaskóla í Reykjadal, Þingeyjarsveit.  Felur breytingin það í sér að aukið er við áður deiliskipulagt svæði og tveimur byggingarlóðum fyrir einbýlishús komið fyrir við suðausturhorn þess, utan marka hins fyrra deiliskipulags.  Aðkomuvegur að þessum lóðum liggur við suðausturhorn fyrra skipulagssvæðis, og að hluta til innan marka þess, en engar aðrar breytingar er að sjá innan marka fyrra skipulags.  Fram kom í auglýsingu sveitarstjórnar á tillögu að umræddri skipulagsbreytingu, að málsmeðferð væri í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þar segir að ákveði sveitarstjórn að breyta deiliskipulagi skuli fara með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga skal deiliskipulag gert á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sveitarstjórn getur þó, samkvæmt 3. tl. ákvæða til bráðabirgða með skipulags- og byggingarlögum, auglýst tillögu að deiliskipulagi að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag.

Fyrir liggur að hvorki er til staðar staðfest aðalskipulag Þingeyjarsveitar né svæðisskipulag umrædds svæðis.  Ekki voru því skilyrði til þess að gera deiliskipulag með stoð í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga fyrir það svæði, sem aukið var við áður deiliskipulagt svæði, með hinni kærðu ákvörðun.  Ekki hefur heldur komið fram að leitað hafi verið meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða skipulags- og byggingarlaga við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.  Verður og að telja að afmörkun hins nýja deiliskipulagssvæðis hafi ekki verið í samræmi við ákvæði um deiliskipulag í gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. 

Loks verður ekki séð að athugasemdum kærenda hafi verið svarað af hálfu sveitarstjórnar svo sem áskilið er í 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 
 
Samkvæmt því sem að framan er rakið var undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar áfátt  og að auki skorti hana viðhlítandi lagastoð.  Verður hún því felld úr gildi.  

Kærendur hafa í máli þessu gert kröfu um kærumálskostnað.  Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar eru markaðar í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga en þar er ekki að finna heimild fyrir úrskurðarnefndina til að úrskurða um kærumálskostnað á hendur málsaðilum.  Verður ekki talið að unnt sé að úrskurða um slíkan kostnað án beinnar lagastoðar og styðst sú ályktun við lögmætisreglu íslensks stjórnarfars- og stjórnskipunarréttar, en hún felur m.a. í sér að hver sú athöfn stjórnvalda sem leggur skyldur á herðar einstaklingum verði að eiga sér ótvíræða lagastoð.  Verður kröfu kærenda um kærumálskostnað af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Samþykkt sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 21. júní 2007 um breytt deiliskipulag hluta lands Laugaskóla í Reykjadal, Þingeyjarsveit, er felld úr gildi. 

Kröfu kærenda um kærumálskostnað er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________    ____________________________
               Ásgeir Magnússon                           Þorsteinn Þorsteinsson

122/2007 Kiðjaberg

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 8. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2007, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 6. september 2007 um breytt deiliskipulag frístundasvæðis í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. september 2007, er barst nefndinni hinn 25. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. Þ og Þ, Glaðheimum 14, Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóðinni nr. 111 í landi Kiðjabergs í Grímsnesi, samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 6. september 2007 um breytt deiliskipulag frístundasvæðis í landi Kiðjabergs. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að réttaráhrif hennar verði þegar stöðvuð.  Þykir ekki hafa þýðingu að fjalla sérstaklega um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu skipulagsákvörðunar enda felur hún ekki í sér sjálfstæða heimild til framkvæmda.  Hafa kærendur, með kæru, dags. 4. október 2007, kært til úrskurðarnefndarinnar útgáfu byggingarleyfa sem veitt hafa verið fyrir sumarhúsum á lóðum næst lóð kærenda með stoð í hinni kærðu ákvörðun og hafa krafist stöðvunar framkvæmda í því máli.  Hefur úrskurðarnefndin þegar tekið afstöðu til þeirrar kröfu. Verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa í máli þessu en málið er nú tekið til efnisúrlausnar.

Málavextir:  Mál þetta á sér nokkra forsögu en deilur hafa verið uppi um deiliskipulagsákvarðanir sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps varðandi frístundahúsasvæði í landi Kiðjabergs, en upphaflegt deiliskipulag svæðisins er frá árinu 1990.  Hinn 23. ágúst 2006 öðlaðist gildi breyting á umræddu deiliskipulagi er tók til stærðar og staðsetningar sumarhúsalóða á svæðinu og hinn 9. október 2006 tók gildi deiliskipulagsbreyting er varðaði stærð og hæð sumarhúsa þar.  Voru breytingar þessar kærðar til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði sínum uppkveðnum hinn 4. júlí 2007 vísaði frá kæru á fyrri skipulagsbreytingunni en felldi þá síðari úr gildi.  Þá voru og úr gildi felld leyfi til bygginga tveggja sumarhúsa á skipulagssvæðinu. 

Á fundi sveitarstjórnar hinn 5. júlí 2007 var eftirfarandi fært til bókar:  „Sveitarstjórn samþykkir að fela oddvita meirihluta og oddvita minnihluta að samþykkja f.h. sveitarstjórnar fundargerðir skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu í júlí og byrjun ágúst eða þar til sveitarstjórn fundar að nýju.“

Á fundi hinn 12. júlí 2007 samþykkti skipulagsnefnd uppsveita Árnessýslu að auglýsa tillögu að breyttum skilmálum sumarhúsasvæðisins í Kiðjabergi, er fólu m.a. í sér að hámarksstærð húsa gæti orðið allt að 350 m², hámarkshæð mænis 6 metrar og að heimilt yrði að byggja geymslukjallara þar sem aðstæður gæfu tilefni til.  Samþykktu oddviti meirihluta og oddviti minnhluta fundargerð nefndarinnar hinn 13. sama mánaðar.  Var tillagan auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu hinn 19. júlí 2007 og bárust við henni athugasemdir, m.a. frá kærendum.   Á fundi sveitarstjórnar hinn 16. ágúst 2007 var lögð fram fundargerð skipulagsnefndar frá 12. júlí 2007 og eftirfarandi bókað:  „Fundargerð lögð fram og kynnt en oddvitar meiri og minni hluta sveitarstjórnar hafa samþykkt fundargerðina sbr. bókun í sveitarstjórn þann 5. júlí sl. og er samþykki þeirra staðfest af hálfu sveitarstjórnar.“  Var tillagan tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar hinn 6. september 2007 og afgreidd með svohljóðandi bókun:  „Lögð fram tillaga að breytingum á skilmálum deiliskipulags Kiðjabergs, orlofs- og sumarhúsasvæðis Meistarafélags húsasmiða.  Í tillögunni felst að gerð er breyting á skilmálum er varða stærð og útlit húsa, h. lið í greinargerð deiliskipulagsins.  Gert er ráð fyrir að heimilt verði að reisa allt að 350 fm frístundahús og 40 fm aukahús á hverri lóð, þó þannig að nýtingarhlutfall verði ekki hærra en 0,03.  Einnig verða breytingar er varða hæðir húsa, mænishæð og þakhalla. Þann 21. september 2006 samþykkti sveitarstjórn breytingu á skilmálum deiliskipulagsins en með úrskurði Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 4. júlí 2007 var sú breyting felld úr gildi.  Tillagan var í kynningu frá 19. júlí til 16. ágúst 2007 með athugasemdafresti til 30. ágúst.  Tvö athugasemdabréf bárust.  Sveitarstjórn samþykkir tillöguna skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga óbreytta og felur skipulagsfulltrúa að svara innsendum athugasemdum í samræmi við afgreiðslu sveitarstjórnar.“

Með bréfi Skipulagsstofnunar til skipulagsfulltrúa, dags. 21. september 2007, lýsti stofnunin þeirri afstöðu sinni að hún féllist ekki á að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 auk þess sem efnisinnihald skilmálanna væri óskýrt.  Þrátt fyrir þessa afstöðu Skipulagsstofnunar var auglýsing um gildistöku breytingarinnar, dags. 21. september 2007, birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 24. sama mánaðar.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 12. október 2007, var óskað eftir upplýsingum um hvernig staðið hafi verið að staðfestingu fundargerðar skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu frá 12. júlí 2007 þar sem samþykkt hafði verið að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðis þess er hér um ræðir.  Í bréfi lögmanns sveitarfélagsins, dags. 22. október 2007, kemur m.a. fram að hinn 13. júlí 2007 hafi oddvitar meiri- og minnihluta sveitarstjórnar staðfest fundargerð skipulagsnefndar frá 12. júlí 2007 með áritun sinni, sbr. heimild sveitarstjórnar frá 5. júlí 2007 og því hafi samþykki hennar fyrir auglýsingu tillögunnar legið fyrir.

Með tölvubréfi lögmanns sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. nóvember 2007, segir m.a. eftirfarandi:  „Sveitarstjórn telur að samþykktin 5. júlí sl. hafi verið fullgild og í samræmi við sveitarstjórnarlög og ekki hafi þurft staðfestingar við á samþykkt oddvitanna frá 13. júlí varðandi Kiðjaberg.  Afgreiðsla þann 16. ágúst var einungis ex tuto.  Þá liggur líka fyrir að hafi verið einhverjir annmarkar á samþykkt oddvita eða heimild þeirra þá hafi verið úr henni bætt þann 16. ágúst.  Að loknum kynningartíma tillögunnar, sem lauk 30. ágúst 2007, þá tók sveitarstjórn málið fyrir þann 6. september og samþykkti tillöguna og fól skipulagsfulltrúa að svara athugasemdum í samræmi við það sem fram fór á fundinum.“

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að svo virðist sem hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi eingöngu hlotið eina umræðu í hreppsnefnd Grímsnes- og Grafningshrepps, eða hinn 6. september 2007.  Tillagan hafi ekki verið tekin fyrir á fundi hreppsnefndar sem haldinn hafi verið daginn eftir uppkvaðningu úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 4. júlí 2007.  Eftir það hafi hreppsnefndin ekki komið saman fyrr en hinn 16. ágúst 2007 en þá hafi tillagan þegar verið auglýst.  Tillagan virðist því hafa verið auglýst án þess að fyrir lægi samþykki hreppsnefndar.  Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skuli sveitarstjórn samþykkja auglýsingu deiliskipulagstillögu og taka tillöguna til umræðu á ný eftir athugasemdafrest, að undangenginni umfjöllun í skipulagsnefnd.  Tillagan virðist hvorki hafa fengið umfjöllun í hreppsnefnd fyrir auglýsingu né umfjöllun í skipulagsnefnd eftir auglýsingu eins og jafnframt sé lögskylt.  Með vísan til framangreinds sé hin kærða deiliskipulagsbreyting ógildanleg.

Í 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að sveitarstjórn skuli við seinni umræðu í sveitarstjórn „…taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni.“  Eins og fram komi í afgreiðslu sveitarstjórnar hafi hún ekki tekið afstöðu til athugasemda kærenda heldur hafi hún falið skipulagsfulltrúa að svara þeim.  Ekkert sé heldur bókað um að lögð hafi verið fram umsögn um athugasemdir kærenda.  Slík afgreiðsla sé ekki í samræmi við ákvæði áður nefndrar 25. gr. enda byggi lögin á því að sveitarstjórnin sjálf taki afstöðu til athugasemda sem berist.  Sé hin kærða ákvörðun þegar af þessari ástæðu ógildanleg.

Þá sé því haldið fram að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt með vísan til þess að samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga sé óheimilt „… að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.“  Eins og úrskurðarnefndinni sé kunnugt hafi fjöldi bygginga verið reistur á svæðinu í ósamræmi við gildandi skilmála.  Sambærileg skipulagsbreyting hafi áður verið samþykkt en felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 4. júlí 2007.  Þá hafi kærendur tvisvar kært byggingarleyfi fyrir sumarhúsum á lóðunum nr. 109 og 112 sem haldið sé fram að hafi verið byggð eftir umræddum skilmálum.  Þegar byggingarleyfin fyrir þessum húsum hafi verið veitt í upphafi hafi þó ekki einu sinni verið búið að samþykkja þá breytingu á skipulagsskilmálum sem felld hafi verið úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 4. júlí 2007.  Byggingarframkvæmdir við umrædd hús, á lóðunum nr. 109 og 112, hafi því alltaf verið ólögmætar og hreppsnefnd verið um það fullkunnugt.  Hreppsnefndinni hafi því borið, áður en hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið auglýst, að láta fjarlægja hinar ólögmætu framkvæmdir.  Það hafi ekki verið gert.  Hin kærða breyting sé því í beinni andstöðu við umrætt lagaákvæði sem sett hafi verið til að koma í veg fyrir háttsemi af þessum toga.  Undir þetta taki Skipulagsstofnun í bréfi, dags. 21. september 2007.  Tilgangur samþykktar skilmálanna virðist því eingöngu hafa verið sá að koma sér hjá bótaskyldu gagnvart eigendum allra þeirra húsa sem reist hafi verið í trássi við skipulag, þ.m.t. á lóðunum nr. 109 og 112.

Kærendur telji deiliskipulagsbreytinguna ólögmæta þar sem ólögmætt sé að breyta tiltölulega nýlegu deiliskipulagi, eins og hér um ræði, enda verði eigendur fasteigna að geta treyst því að því umhverfi og þeim réttindum sem þeim séu sköpuð með skipulagsáætlunum sé ekki breytt nema fyrir því liggi sterk málefnaleg og lögmæt sjónarmið.  Með breytingu sem þessari sé raskað öllum þeim væntingum sem kærendur hafi haft er þau hafi sótt um og fengið lóð á svæðinu og hafið þar uppbyggingu. 

Þá sé því haldið fram að hin kærða breyting á skilmálum samræmist ekki reglum um samræmi og jafnræði.  Tillagan sé því andstæð reglum stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttar um samræmi og jafnræði borgaranna.  Með því að breyta skilmálum eftir á sitji lóðarhafar ekki við sama borð. 

Auk framangreinds telji kærendur að hin kærða breyting muni skerða mjög friðhelgi og grenndarrétt þeirra þar sem hærri og stærri hús kalli á meiri yfirsýn yfir lóð þeirra og aukna umferð.  Í því sambandi sé minnt á að lóðir í kringum lóð þeirra hafa verið stækkaðar og útivistarsvæði minnkuð verulega en um leið hafi kærendum verið synjað um sambærilega stækkun. 

Þá sé hin kærða breyting ekki í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga eða skipulagsreglugerð um framsetningu slíkra skipulagsbreytinga.  Jafnframt sé efnisinnihald skilmálanna óskýrt eins og fram komi í bréfi Skipulagsstofnunar frá 21. september 2007. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er kröfum kærenda mótmælt og þess krafist að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði staðfest. 

Bent sé á að á fundi sveitarstjórnar hinn 5. júlí 2007, í lið 20. a, sé eftirfarandi fært til bókar:  „Heimild til að samþykkja f.h. sveitarstjórnar fundargerðir skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu í júlí og byrjun ágúst eða þar til sveitarstjórn fundar að nýju.  Sveitarstjórn samþykkir að fela oddvita meirihluta og oddvita minnihluta að samþykkja f.h. sveitarstjórnar fundargerðir skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu í júlí og byrjun ágúst eða þar til sveitarstjórn fundar að nýju.“

Hinn 13. júlí 2007 hafi oddvitar meirihluta og minnihluta staðfest fundargerð skipulagsnefndar frá 12. júlí 2007 þar sem samþykkt hafi verið að auglýsa tillögu að breytingu á skilmálum frístundabyggðar í landi Kiðjabergs.  Samþykki sveitarstjórnar fyrir auglýsingu tillögunnar hafi því legið fyrir.  Um rangfærslu sé því að ræða í kæru.

Þá hafi á fundi sveitarstjórnar hinn 6. september 2007 legið fyrir auglýst tillaga ásamt innkomnum athugasemdum, sem hafi verið yfirfarnar og ræddar, og í kjölfarið hafi sú afstaða verið tekin að ekki skyldi gera breytingar á tillögunni vegna þeirra og tillagan því samþykkt óbreytt.

Almennt sé það svo að fullgerð umsögn um athugasemdir liggi ekki alltaf fyrir þegar sveitarstjórn taki mál til afgreiðslu, en með samþykktinni sé að sjálfsögðu tekin afstaða til athugasemdanna, þ.e. að þær séu ekki þess eðlis að gera þurfi breytingar á tillögunni.  Þeir sem gert hafi athugasemdir fái svo umsögn um athugasemdir sínar í samræmi við afgreiðslu sveitarstjórnar.  Í tilviki því er hér um ræði hafi málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar verið að öllu leyti í samræmi við fyrirmæli skipulags- og byggingarlaga.

Þá sé skilningi kærenda á 4. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997 alfarið mótmælt.  Skipulags- og byggingarnefnd sé ekki skylt að lögum að láta fjarlægja sumarhús á lóðum nr. 109 og 112 eða öðrum lóðum á svæðinu áður en gerð sé breyting á skilmálum deiliskipulags, þrátt fyrir að byggingarleyfi hafi verið afturkölluð.  Ekki sé unnt að túlka ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga með þeim hætti.  Í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga sé ekki kveðið með skýrum hætti á um hvernig með skuli fara í slíkum tilvikum.  Engin fyrirmæli séu í greindum lögum sem skyldi byggingarnefnd til að taka ákvörðun um að fjarlægja mannvirki, sem þegar hafi verið reist á grundvelli byggingarleyfis.  Skoða verði ákvæði 4. mgr. í samhengi við önnur þvingunarúrræði 56. gr.  Ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 56. gr. eigi fyrst og fremst við um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir samkvæmt IV. kafla laga nr. 73/1997 og taki þá fyrst og fremst til framkvæmda, sem hafnar séu án þess að fengin séu tilskilin leyfi.  Ákvæði 4. mgr. geti þar af leiðandi ekki átt við í því tilviki er bygging hafi verið reist á grundvelli gilds byggingarleyfis, sem talið hafi verið í samræmi við skipulag og skilmála, á þeim tíma sem leyfið hafi verið veitt.  Ákvæðinu sé fyrst og fremst ætlað að taka á þeim tilvikum þegar framkvæmt sé án allra tilskilinna leyfa.  Slík túlkun sé einnig í samræmi við forsögu þessa lagaákvæðis og tilgang þess.  Þá sé hér um að ræða undantekningarreglu og verði að beita þröngri lögskýringu við túlkun hennar.  Þröng skýring leiði til þess að ákvæðið verði aldrei túlkað á þann veg sem kærendur krefjist.  Hér verði einnig að hafa í huga að um leið og mannvirki hafi verið reist á grundvelli byggingarleyfis komi til önnur sjónarmið, m.a. um eyðileggingu verðmæta o.fl., sem geti komið í veg fyrir að unnt sé að rífa eða fjarlægja eign, sem reist hafi verið.  Einnig þurfi að líta til skipulagssjónarmiða sem og hagsmuna eiganda þess húss sem risið sé, en niðurrif eignar hans væri augljóslega verulega íþyngjandi fyrir hann.  Loks þurfi að gæta meðalhófs í slíkum ákvörðunum sem og jafnræðisreglu.

Þá megi einnig benda á að framkvæmdir við hús á lóð nr. 112 hafi hafist eftir að breytingar á skilmálum deiliskipulagsins hafi tekið gildi haustið 2006.  Frá þeim tíma og allt til 4. júlí 2007 hafi framkvæmdirnar verið í samræmi við byggingarleyfi og gildandi deiliskipulag.  Enn fremur hafi það verið vilji sveitarstjórnar sem og landeiganda að breyta skilmálum svæðisins þar sem ljóst hafi þótt að þeir væru ekki í samræmi við þá þróun sem átt hafi sér stað í uppbyggingu frístundasvæða undanfarin ár.  Húsin sem risið hafi á lóðum nr. 109 og 112 séu í góðu samræmi við hús sem hafi verið leyfð á öðrum svæðum innan sveitarfélagsins og vegna þessa, sem og greindra sjónarmiða um túlkun á fyrirmælum skipulags- og byggingarlaga, hafi það ekki verið talið skynsamlegt að rífa húsin til þess eins að leyfa uppbyggingu þeirra þegar nýir skipulagsskilmálar hafi tekið gildi.

Í ljósi alls framangreinds sé ekki hægt að fallast á þá túlkun 4. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997, sem sett sé fram af hálfu kærenda, að rífa þurfi húsin á lóðum nr. 109 og 112, sem reist hafi verið á grundvelli byggingarleyfa, áður en unnt sé að breyta deiliskipulagsskilmálum svæðisins.

Þá sé mótmælt þeirri staðhæfingu kærenda að um sé að ræða grundvallarbreytingu á nýlegu skipulagi.  Ekki sé hægt að segja að deiliskipulag umrædds svæðis í Kiðjabergi sé nýlegt því það sé eitt af þeim fyrstu sem unnið hafi verið í sveitarfélaginu. 

Á þeim tíma er upphaflegt deiliskipulag hafi verið unnið hafi ekki verið heimilt að byggja stærri frístundahús en 60 m² samkvæmt lagafyrirmælum og hafi skipulagið miðast við þá stærð.  Í dag sé ekki kveðið á um hámarksstærð frístundahúsa í lögum og ef litið sé til þróunar síðustu ára þá hafi frístundahús smám saman verið að stækka í samræmi við kröfur húsbyggjenda.  Að mati sveitarfélagsins sé ekki talið óeðlilegt að þessi þróun nái einnig til byggðarinnar í Kiðjabergi, sérstaklega í ljósi þess að þangað til nýlega hafi fjölmargar lóðir á svæðinu verið óseldar.

Ljóst sé að fjölmörg hús á svæðinu hafi risið sem séu í samræmi við gildandi skilmála, þar sem hámarksstærð húsa sé 60 m² enda hafi ekki verið heimilt samkvæmt þágildandi lögum að reisa stærri hús.  Slíkt ákvæði hafi hins vegar verið fellt úr gildi þegar ný skipulags- og byggingarlög hafi tekið gildi fyrir um tíu árum.  Ekki sé unnt að túlka jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar með þeim hætti sem kærendur geri, þ.e. að hús sem byggð séu síðar á svæðinu megi ekki vera stærri.  Á vel flestum öðrum svæðum innan sveitarfélagsins megi byggja mun stærri hús.  Þegar farið hafi verið af stað með breytingar á svæði C-Kambar í landi Kiðjabergs hafi átt eftir að úthluta fjölmörgum lóðum á svæðinu.  Markmið breytinganna hafi m.a. verið að gera svæðið meira aðlaðandi til að auðvelda úthlutun.  Ef skilmálum deiliskipulagsins hefði ekki verið breytt hefði mátt túlka það sem svo að ekki væri gætt jafnræðis milli landeigenda Kiðjabergs og annarra landeigenda í sveitarfélaginu þar sem minni byggingarheimildir gætu haft áhrif á úthlutun lóðanna.

Af hálfu sveitarfélagsins sé á því byggt að breyting á skilmálum hafi ekki neikvæð áhrif á grenndarrétt kærenda.  Það sé ekki mat sveitarstjórnar að stærri hús kalli á aukna yfirsýn yfir aðliggjandi lóðir og aukna umferð.  Með breyttu skipulagi muni umferð fólks í næsta nágrenni kærenda minnka því lóðum norðan við lóð þeirra fækki úr þremur í tvær.

Telji kærendur sig hins vegar verða fyrir tjóni geti þau haft uppi bótakröfu á grundvelli 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Hinir umræddu skilmálar séu í samræmi við það sem algengt sé í deiliskipulagi frístundabyggða.  Í kærunni sé reyndar ekki rökstutt nánar hvað það sé sem kærendur telji óskýrt í þessum skilmálum.  Hér verði að hafa í huga að við setningu skilmála fyrir svæðið verði að vera hægt að taka tillit til mismunandi landaðstæðna hverrar lóðar fyrir sig.  Land innan byggingarreita lóða sé mjög mismunandi og þar af leiðandi þurfi að gera ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika.  Skilmálarnir sem slíkir séu hins vegar skýrir og auðvelt sé að lesa úr þeim.

Af hálfu kærenda sé ekki sýnt fram á að breytingar á skilmálunum hafi neikvæð áhrif á hagsmuni þeirra þar sem húsin, sem þau hafa aðallega gert athugasemdir við, sjáist varla frá lóð þeirra.  

Úrskurðarnefndin tekur fram að aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur nefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hafi samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt.  Þá segir einnig að þegar liðinn sé frestur til athugasemda skuli sveitarstjórn fjalla um tillöguna á nýjan leik að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar.

Eins og rakið er hér að framan var á fundi sveitarstjórnar hinn 5. júlí 2007 samþykkt að fela oddvita meirihluta og oddvita minnihluta að samþykkja fyrir hönd sveitarstjórnar fundargerðir skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu í júlí og byrjun ágúst það ár.  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 12. júlí 2007 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttum skilmálum sumarhúsasvæðisins í Kiðjabergi, er fól í sér m.a. að hámarksstærð húsa á svæðinu gæti orðið allt að 350m², hámarksmænishæð 6 m og að heimilt væri að byggja geymslukjallara þar sem aðstæður gæfu tilefni til.  Samþykktu oddviti meirihluta og oddviti minnihluta fundargerð nefndarinnar hinn 13. sama mánaðar.  Birtist auglýsing um tillöguna í Lögbirtingarblaðinu hinn 19. júlí 2007 og var frestur til athugasemda til 30. ágúst s.á.  Bárust athugasemdir við henni, m.a. frá kærendum.  

Á fundi sveitarstjórnar hinn 16. ágúst 2007 var lögð fram fundargerð skipulagsnefndar frá 12. júlí 2007 og eftirfarandi bókað:  „Fundargerð lögð fram og kynnt en oddvitar meiri og minni hluta sveitarstjórnar hafa samþykkt fundargerðina sbr. bókun í sveitarstjórn þann 5. júlí sl. og er samþykki þeirra staðfest af hálfu sveitarstjórnar.“  Var tillaga að breyttu deiliskipulagi samþykkt samkvæmt 25. gr. skipulags- og byggingarlaga á fundi sveitarstjórnar hinn 6. september og var skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum í samræmi við afgreiðslu sveitarstjórnar.

Samkvæmt 36. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 eiga sveitarstjórnarmenn rétt á að störfum sveitarstjórnar sé hagað þannig að þeir geti tekið sér hæfilegt orlof árlega og í 3. mgr. 39. gr. sömu laga segir að á meðan sveitarstjórn sé í sumarleyfi fari byggðarráð með sömu heimildir og sveitarstjórn hafi ella.  Engar lagaheimildir standa hins vegar til þess að haga meðferð skipulagsmála með þeim hætti að fela oddvitum meiri- og minnihluta fullnaðarafgreiðslu sem sveitarstjórn er falin að lögum og breytir hér engu þótt sveitarstjórn hafi áður heimilað oddvitunum að staðfesta fundagerðir skipulags- og byggingarfulltrúa meðan sveitarstjórn væri í sumarleyfi.  Jafnframt er á það bent að meint umboð oddvitanna náði ekki til staðfestingar fundargerða skipulagsnefndar. 

Af ofangreindu leiðir að samþykki sveitarstjórnar lá ekki fyrir þegar hin umdeilda tillaga að breyttu deiliskipulagi var auglýst til kynningar svo sem áskilið er, sbr. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá verður ekki séð að skipulagsnefnd hafi fjallað um tillöguna að liðnum fresti til athugasemda eins og ráðgert er í sama ákvæði.  Var meðferð málsins við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar þannig haldin verulegum annmörkum sem telja verður að leiða eigi til ógildingar hennar.

Deiliskipulagsbreyting sú sem kærð er í máli þessu varðar breytta skilmála deiliskipulags fyrir frístundabyggð í landi Kiðjabergs frá árinu 1990, nánar tiltekið h-lið greinargerðar þess er fjallar um stærð og útlit húsa á svæðinu.  Samkvæmt hinum nýju skilmálum er m.a. gert ráð fyrir að heimilt sé að reisa á svæðinu frístundahús allt að 350 m² að stærð að grunnfleti og skal nýtingarhlutfall ekki vera hærra en 3% af stærð lóðar.  Hámarkshæð mænis frá gólfi sé 6 m.  Möguleiki sé að byggja geymsluhús/gestahús allt að 40m².

Af hálfu kærenda er  á því byggt að óheimilt hafi verið að gera hina umdeildu skipulagsbreytingu þar sem ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi staðið því í vegi en í tilvitnuðu ákvæði segir að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

Í eldri skipulagsskilmálum sagði eftirfarandi um stærð húsa:  „Um hámarksstærðir bústaða og önnur almenn sérákvæði vísast til greinar 6.10.4.6 í byggingarreglugerð frá ágúst 1989.“  Í reglugerðarákvæði þessu sagði m.a. að sumarbústaðir skyldu að jafnaði vera á einni hæð og skyldu þeir ekki vera stærri en 60m².  Meðallofthæð ekki minni 2,2 m, vegghæð mest 3,0 m og hæð mænis frá jörðu mest 4,5 m.  Sambærilegt ákvæði um hámarksstærð sumarhúsa er ekki  að finna í núgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 en eðlilegast er að túlka eldra skipulag á þann veg að áfram hafi gilt þau 60 m² stærðarmörk sem vísað var til enda leiðir breyting á byggingarreglugerð ekki sjálfkrafa til breytingar á skipulagsákvörðunum.  Verður því við það að miða að á umræddu svæði hafi einungis verið heimilt að reisa sumarhús sem að hámarki mættu vera 60m².

Fyrir liggur í máli þessu að veitt höfðu verið leyfi til byggingar sumarhúsa á svæði því er um ræðir, áður en hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi, sem m.a. voru langt umfram þær stærðarheimildir samkvæmt eldri skipulagsskilmálum sem að framan er lýst. 

Í 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarmála nr. 73/1997 segir að ef byggingarframkvæmd sé hafin með byggingarleyfi sem brjóti í bága við skipulag beri byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdir tafarlaust og síðan skuli hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Þá segir einnig í 4. mgr. sömu greinar að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Verður ekki séð að tekin hafi verið með skýrum hætti afstaða til tilvitnaðra ákvæða 56. gr. skipulags- og byggingarlaga þegar ákvörðun var tekin um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu þrátt fyrir ábendingu Skipulagsstofnunar þar að lútandi.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður hin kærða deiliskipulagsbreyting felld úr gildi.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 6. september 2007, um breytt deiliskipulag frístundasvæðis í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi, er felld úr gildi.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

 

18/2006 Bergstaðastræti

Með

Ár 2007, föstudaginn 30. mars kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2006, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2005 um deiliskipulag fyrir reit 1.184.0, er afmarkast af Óðinsgötu, Bjargarstíg, Grundarstíg og Spítalastíg, og á breytingu á því deiliskipulagi er skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti hinn 17. janúar 2007 varðandi nýtingarhlutfall lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. mars 2006 og 7. mars 2007, er bárust nefndinni 7. mars 2006 og 8. mars 2007, kærir Sigurbjörn Þorbergsson hdl., f.h. ÞG verktaka ehf., eiganda fasteignanna að Spítalastíg 20 og baklóðar að Spítalastíg 6, og S, eiganda Spítalastígs 6 og hluta fasteignarinnar að Spítalastíg 4, Reykjavík, samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2005 um deiliskipulag fyrir reit 1.184.0, er afmarkast af Óðinsgötu, Bjargarstíg, Grundarstíg og Spítalastíg, og á breytingu á því deiliskipulagi er skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti hinn 17. janúar 2007 varðandi nýtingarhlutfall lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18.  Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Með bréfi, dags. 7. mars 2007, kærðu kærendur fyrrgreinda deiliskipulagsbreytingu ásamt veittu byggingarleyfi fyrir flutningi húss að Bergstaðastræti 16.  Í ljósi þess að deiliskipulag svæðisins er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni vegna fyrra málskots kærenda þykir rétt að sameina kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar því máli sem er nr. 18/2006. 

Málavextir:  Á árinu 2003 voru unnin drög að deiliskipulagi staðgreinireita 1.184.0 og 1.184.1 og voru þau kynnt hagsmunaaðilum á svæðinu.  Að þeirri kynningu lokinni var lögð fram tillaga að uppbyggingu lóðarinnar Bergstaðastræti 16-18 á fundi skipulags- og byggingarnefndar 7. apríl 2004 og var samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. maí 2004 var tillagan til umfjöllunar ásamt athugasemdum er borist höfðu, m.a. frá öðrum kærenda.  Á fundinum var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 6. maí 2004, og var samþykkt að auglýsa framlagða skipulagstillögu til kynningar.  Borgarráð samþykkti þá afgreiðslu á fundi sínum 18. maí 2004. 

Hinn 10. janúar 2005 var haldinn fundur með hagsmunaaðilum þar sem kynnt var ný tillaga að deiliskipulagi umædds reits.  Fólst breytingin frá fyrri tillögu aðallega í því að dregið var úr byggingarmagni á lóðinni nr. 16-18 við Bergstaðastræti vegna framkominna athugasemda íbúa um að fyrirhugað byggingarmagn væri of mikið.  Á kynningartíma fyrri tillögunnar komu fram athugasemdir frá fjölda íbúa og hagsmunaaðila, m.a. frá kærendum.  Ákvað skipulagsráð á fundi sínum hinn 23. febrúar 2005 að fela skipulagsfulltrúa að láta vinna nýja tillögu að deiliskipulagi þar sem gert væri ráð fyrir allt að þremur flutningshúsum á umræddri lóð.  Urðu lyktir mála þær að skipulagsráð ákvað hinn 13. apríl 2005 að kynna nýja tillögu að deiliskipulagi staðgreinireits 1.184.0 þar sem gert var ráð fyrir tveimur flutningshúsum á lóðinni að Bergstaðastræti 16-18 og að nýtingarhlutfall þeirrar lóðar yrði 1,2.  Athugasemdir við tillöguna bárust frá kærendum og nokkrum öðrum en skipulagsráð samþykkti auglýsta tillögu hinn 9. nóvember 2005 með breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa og lögfræði og stjórnsýslu og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði hinn 24. nóvember.  Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. febrúar 2006.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir. 

Hinn 26. september 2006 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að endurbyggja húsið að Hverfisgötu 44 á lóðinni að Bergstaðastræti 16 og var hún samþykkt.  Skutu kærendur máls þessa þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði kærunni frá með úrskurði uppkveðnum hinn 29. desember 2006 í kjölfar þess að byggingaryfirvöld afturkölluðu umdeilt leyfi.  Var ástæða afturköllunarinnar sú að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bergstaðastræti 16 samkvæmt veittu leyfi yrði hærra en heimilað var í deiliskipulagi reitsins. 

Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 17. nóvember 2006 var lögð fram tillaga að „leiðréttingu“ á deiliskipulagi umdeilds reits er fól í sér hækkun nýtingarhlutfalls lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18 úr 1,2 í 1,5 og var sú tillaga grenndarkynnt.  Athugasemdir bárust frá nokkrum aðilum við grenndarkynninguna, þar á meðal frá kærendum.  Samþykkti skipulagsráð deiliskipulagsbreytinguna hinn 17. janúar 2007 með þeirri breytingu að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bergstaðastræti 18 yrði 1,35 í stað 1,5.  Tók breytingin gildi við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 13. febrúar 2007.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun einnig til úrskurðarnefndarinnar. 

Málsrök kærenda:  Hvað varðar deiliskipulagið er borgarráð samþykkti hinn 24. nóvember 2005 benda kærendur á að með því hafi verið varpað fyrir róða fyrri skipulagshugmyndum um nýbyggingu að Bergstaðastræti 16-18, en í staðinn gert ráð fyrir flutningshúsum sem væru hærri en fyrrgreind nýbygging.  Þá væri byggingarréttur kærenda á baklóðum minnkaður verulega með hinni kærðu ákvörðun. 

Málsmeðferð deiliskipulagsins hafi brotið gegn ákvæðum 6. kafla skipulagsreglugerðar, þar sem borgarráð Reykjavíkur hafi ekki fengið athugasemdir vegna deiliskipulagstillögunnar til umfjöllunar.  Sveitarstjórn hafi með því verið svipt möguleikanum til að sinna lögbundinni skyldu til að fjalla um athugasemdirnar.  Skipulagsráð hafi farið út fyrir valdsvið sitt með því að breyta framlagðri tillögu, fella hana síðan niður og leggja fram nýja í staðinn.  Auglýsing nýju tillögunnar sé auk þess í andstöðu við ákvæði skipulagsreglugerðar þar sem segi að sveitarstjórn skuli samþykkja að auglýsa tillögu áður en kemur að auglýsingu.  Það hafi hvorki verið gert þegar tillögunni hafi verið breytt né þegar ný tillaga hafi verið gerð. 

Að mati kærenda hafi varaformaður skipulagsráðs verið vanhæfur við afgreiðslu skipulagstillögunnar þar eð hann hafi gefið út yfirlýsingar á opinberum vettvangi, á kynningarfundi með íbúum, sem bendi til að hann hafi þá þegar verið búinn að taka afstöðu í málinu kærendum í óhag. Leiði það til að ákvörðunin sé ógildanleg og beri að fella hana úr gildi. 

Gerðar séu athugasemdir við mat á vægi andmæla vegna umdeilds deiliskipulags.  Hluti þeirra 217 hagsmunaaðila sem skrifað hafi undir andmælabréf í september 2004 hafi ekki haft hagsmuna að gæta og ekki liggi fyrir hverjir hafi skrifað undir eða komið að þeim andmælum.  Það brjóti gegn því markmiði skipulagsreglugerðar að tryggja réttaröryggi að taka ekki tillit til athugasemda kærenda sem eigi verulegra hagsmuna að gæta í málinu, svara ekki erindum þeirra en leggja þess í stað til grundvallar sjónarmið annarra sem jafnvel eigi engra hagsmuna að gæta.  Með þessari málsmeðferð sé kærendum mismunað með ómálefnalegri afstöðu skipulagsyfirvalda. 

Markmiði skipulagsins um verndun byggðamynsturs megi ná fram með öðrum hætti en með flutningshúsum og hafi því verið gengið lengra en nauðsyn krafði til að ná fram þeim markmiðum og sama eigi við um takmörkun á byggingarmagni á baklóðum kærenda þar sem mögulegt hafi verið að koma til móts við sjónarmið þeirra án þess að raska hagsmunum annarra. 

Hið kærða deiliskipulag sé haldið slíkum form- og efnisannmörkum að leiða eigi til ógildingar þess.  Breyting sú á deiliskipulaginu er skipulagsráð hafi samþykkti hinn 17. janúar 2007 sé einnig ólögmæt. 

Ekki hafi verið heimilt að fara með breytingartillöguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda slíkt aðeins heimilt þegar breytingar verði á mælipunktum eða minni háttar breyting á einstökum húsum.  Hækkun nýtingarhlutfalls um 25% sé ekki óveruleg í ljósi þess að lóðir í nágrenninu hafi nýtingarhlutfall innan við 1,0. 

Því sé andmælt að skipulagsbreytingin hafi falið í sér leiðréttingu á gildandi skipulagi, enda hafi tillögunni verið breytt við meðferð hennar með því að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bergstaðastræti 18 hafi verið lækkað úr 1,5 í 1,35 án þess að rök séu fyrir því að nýtingarhlutfall þeirrar lóðar skuli vera lægra en lóðarinnar að Bergstaðastræti 16. 

Ætla megi að umdeild skipulagsbreyting sé til komin vegna byggingarleyfis fyrir flutningshúsi að Bergstaðastræti 16 sem hafi verið afturkallað þar sem það hafi stangast á við gildandi skipulag.  Hafi framkvæmdir þá verið hafnar við grunn hússins.  Byggja kærendur á því að ekki sé heimilt, sbr. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, að breyta skipulagi þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en jarðrask hafi verið afmáð. 

Með umdeildu deiliskipulagi hafi verið mörkuð sú stefna að hafa byggingarmagn hlutfallslega lítið miðað við fyrri hugmyndir og verði ekki séð að umrædd hækkun nýtingarhlutfalls samræmist þeirri stefnu.  Hið aukna byggingarmagn valdi auk þess ójafnvægi milli lóða innan deiliskipulagsreitsins. 

Andmæli Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg byggir á því að meðferð hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu, er samþykkt hafi verið í borgarráði hinn 24. nóvember 2005, hafi að öllu leyti verið í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga.  Þá hafi samráð við hagsmunaaðila við undirbúning hennar að öllu leyti verið í samræmi við vinnureglur Reykjavíkurborgar um nýskipulagningu í eldri byggð.  Í þeim tilvikum fái allir hagsmunaaðilar á reitnum senda tilkynningu um að deiliskipulagsgerð sé vændum, auk þess sem viðhöfð hafi verið sérstök hagsmunaaðilakynning á tillögunni sjálfri áður en hún hafi verið auglýst á lögformlegan hátt.  Tveir opnir kynningarfundir hafi verið haldnir á meðan vinnan stóð yfir og séu þá ótalinn fjöldi funda embættismanna með hagsmunaaðilum sem hafi viljað kynna sér málið betur.  Þá sé því eindregið mótmælt að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið deiliskipulagsgerð og að hið samþykkta deiliskipulag brjóti gegn nokkrum ákvæðum stjórnsýslulaga, s.s. meðalhófsreglu og/eða jafnræðisreglu laganna. 

Tvívegis hafi verið auglýstar tillögur að deiliskipulagi reitsins og í bæði skiptin í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Hið kærða deiliskipulag hafi verið samþykkt í skipulagsráði og af sveitarstjórn, þ.e. borgarráði Reykjavíkur, sem hafi yfirfarið framkomnar athugasemdir í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Eðli máls samkvæmt taki tillögur að deiliskipulagi ýmsum breytingum í málsmeðferð, enda geri skipulags- og byggingarlög beinlínis ráð fyrir því að svo geti farið.  Ákvæði laganna um samráð við íbúa, kynningar og auglýsingar á tillögum væru markleysa ef ekki væri unnt að taka tillit til athugasemda og ábendinga sem fram komi við lögbundna málsmeðferð.  Sé því vandséð á hvaða hátt kærendur telji skipulagsráð hafa gengið framhjá sveitarstjórn eins og haldið sé fram í kæru, en í ákvæðum samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og samþykktar um skipulagsráð séu ráðinu veittar allrúmar heimildir til að annast um stjórnsýslu skipulagsmála í umboði borgarráðs, sbr. samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001, 6., 38. og 39. gr. skipulags- og byggingarlaga og heimild í 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Minnt sé á að tillagan hafi verið yfirfarin af Skipulagsstofnun sem hafi ekki gert athugasemdir við málsmeðferðina né við svör skipulagsfulltrúa vegna framkominna athugasemda. 

Athugasemdir kærenda um meint vanhæfi varaformanns skipulagsráðs vegna þátttöku hans á kynningarfundi séu óskiljanlegar.  Varaformaður skipulagsráðs hafi stýrt fundum ráðsins við meðferð málsins vegna vanhæfis formanns og hafi því verið viðstaddur áðurnefndan kynningarfund sem haldinn hafi verið 27. júní 2006.  Umdeilt mál hafi fengið venjubundna meðferð og á greindum fundi hafi komið fram að ætíð væri leitað eftir athugasemdum hagsmunaaðila í samræmi við lög og leitast væri við að taka tillit til þeirra að því marki sem mögulegt væri. 

Að gefnu tilefni sé tekið fram að Reykjavíkurborg telji sig ekki hafa heimildir til að undanskilja einhvern hluta athugasemda sem berist við kynningu skipulags.  Hafa verði í huga að verið sé að auglýsa í fjölmiðlum eftir athugasemdum þeirra sem einhverjar hafi og ekki sé í lögum að finna takmarkanir á því hverjir mega gera athugasemdir, s.s. með kröfu um lögvarða hagsmuni af úrlausn máls.  Leitast sé við í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna að meta allar athugasemdir sem berist og gera grein fyrir þeim og svara, þó að sumir teljist að sjálfsögðu eiga meiri hagsmuna að gæta en aðrir. 

Hvað varði athugasemdir kærenda, um að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda þeirra og erindum þeirra ekki svarað, sé vísað til umsagnar lögfræðideildar og skipulagsfulltrúa sem skipulagsráð hafi gert að sinni við samþykkt deiliskipulagsins.  Þar sé athugasemdum kærenda svarað ítarlega.  Á það sé minnt að skipulagsyfirvöld geti ekki farið eftir öllum skoðunum og ábendingum sem komi fram við meðferð skipulagstillagna og beri ekki skylda til þess.  Skipulagsyfirvöldum beri aftur á móti að fara málefnalega yfir allar athugasemdir og svara þeim, hvort sem unnt sé að koma til móts við þær eða ekki. 

Málsástæður í kæru virðist byggja á því að hið kærða deiliskipulag Bergstaðastrætisreits, þar sem gert sé ráð fyrir flutningshúsum á lóð nr. 16-18 við Bergstaðastræti, skerði á einhvern hátt hagsmuni kærenda.  Ekki verði séð til hvaða hagsmuna sé verið að vísa en nefnd lóð sé í eigu Reykjavíkurborgar og geti byggingarheimildir á þeirri lóð aldrei skert beina hagsmuni kærenda.  Ætla megi að verið sé að vísa til framlagðra hugmynda kærenda um samnýtingu lóða þeirra og lóðar Reykjavíkurborgar sem fyrri skipulagstillaga hafi gert ráð fyrir.  Þær hugmyndir hafi þótt heppilegar ef unnt yrði að samnýta umræddar lóðir en í ljósi mikillar andstöðu íbúa hafi þótt rétt að staldra við og athuga hvort möguleiki væri að koma til móts við þær athugasemdir.  Ekki sé unnt að fallast á það sjónarmið að breyting á byggingarheimildum á lóð í eigu Reykjavíkurborgar í deiliskipulagsferli geti á einhvern hátt verið skerðing á hagsmunum kærenda sem í raun hafi ekki orðið fyrir öðru en því að von þeirra um úthlutun umræddrar lóðar og uppbyggingu hafi brugðist. 

Með hinu kærða deiliskipulagi hafi verið dregið úr byggingarmagni á lóðinni nr. 16-18 við Bergstaðastræti frá fyrri tillögu og sé nú gert ráð fyrir tveimur reitum fyrir aðflutt hús.  Reitirnir hafi verið hafðir tiltölulega rúmir svo unnt væri að koma þar fyrir reisulegum timburhúsum.  Leyfileg hámarkshæð samkvæmt tillögunni sé í samræmi við hæð þeirra timburhúsa í nágrenninu sem reisulegust þyki.  Telji kærendur að hagsmunum þeirra sé með þessu raskað geti þeir eftir atvikum átt rétt á bótum samkvæmt ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, en ákvörðun í því efni eigi ekki undir úrskurðarnefndina. 

Nauðsynlegt sé að minna á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. 

Hvað hina kærðu leiðréttingu deiliskipulagsins varði sé vísað til samantektar skipulagsfulltrúa, dags. 12. janúar 2007, um framkomnar athugasemdir og svör við þeim, en þar hafi einungis verið um að ræða breytingu á nýtingarhlutfalli lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18 og hafi málsmeðferð verið í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Í greindri samantekt segi m.a:  „Þegar umsókn barst um flutning hússins að Hverfisgötu 44 á lóðina nr. 16 við Bergstaðastræti var hún afgreidd jákvætt þar sem talið var að húsið samræmdist markmiðum deiliskipulagsins varðandi stór og reisuleg timburhús fyrir umrædda lóð. Eftir að byggingarleyfi hafði verið gefið út kom í ljós að n.hl.f. lóðarinnar reyndist vera hærra en kveðið var á um í skilmálum skipulagsins. Ekki er ástæða til að rekja frekar ástæður þess að svo fór, á þessu stigi málsins, en staðfest hefur verið að um mannleg mistök var að ræða.  Árið 2002 fór fram breyting á þágildandi skipulagsreglugerð sem fékk númerið 420/2002, þannig að í stað þess að nýtingarhlutfall væri hlutfall milli heildargólfflatar á lóð eða reit og flatarmáls lóðar, kom ný regla þess efnis að nýtingarhlutfall væri nú hlutfall milli brúttóflatarmáls bygginga og byggingahluta í lokunarflokkum A og B sbr. ÍST 50: 1998 á lóð eða reit og flatarmáls lóðar. Af þessu leiðir að allir fermetrar í húsi, t.a.m. gólfflötur í risi sem er undir 180 cm lofthæð og sem áður voru undanskildir við útreikninga á flatarmáli húss, voru nú teknir með í brúttóflatarmáli skv. nefndum stöðlum.   Svo virðist sem að við ákvörðun um nýtingarhlutfall umræddra lóða í gildandi deiliskipulagi hafi ekki verið tekið tillit til þessarar reglugerðarbreytingar og er því uppgefið nýtingarhlutfall lóðanna í ósamræmi við markmið deiliskipulagsins um flutning stórra og reisulegra reykvískra timburhúsa á lóðirnar. Þegar brúttóflatarmál þeirra húsa sem sýnd eru á skýringarmynd á deiliskipulagsuppdrættinum er reiknað, kemur í ljós að nýtingarhlutfall þeirra er í ósamræmi við uppgefið nýtingarhlutfall skv. deiliskipulaginu, heldur nokkru hærra. Þetta ósamræmi er nú, með kynntri tillögu, verið að leiðrétta, þannig að samræmi verði á milli markmiða deiliskipulagsins,  skýringarmynda, hæðarkóta og samþykktu nýtingarhlutfalli lóðanna.  Það er því verið að leiðrétta útreikninga og eins og bréfritari bendir á telst það vera minni háttar breyting á deiliskipulagi reitsins og er því grenndarkynnt sem slík. Ekki er fallist á að breytingin sé þess eðlis að hana beri að auglýsa, enda væri slík málsmeðferð í andstöðu við venjubundna túlkun formreglna skipulags- og byggingarlaga.“ 

Niðurstaða:  Á fundi sínum hinn 13. apríl 2005 samþykkti skipulagsráð að auglýsa til kynningar nýja tillögu að deiliskipulagi reits 1.184.0, en fallið hafði verið frá eldri tillögu sem áður hafði verið auglýst fyrir reitinn.  Var þessari afgreiðslu vísað til borgarráðs.  Ekki verður séð að borgarráð hafi fjallað um tillöguna á þessu stigi en hún var allt að einu auglýst til kynningar og var í auglýsingunni vísað til 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Skipulagsráð samþykkti síðan auglýsta tillögu hinn 9. nóvember 2005 með breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa og lögfræði og stjórnsýslu og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði hinn 24. nóvember 2005.  Var auglýsing um gildistöku skipulagsins loks birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. febrúar 2006. 

Málsmeðferð sú sem að framan er lýst samræmist ekki ákvæði 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem áskilið er að sveitarstjórn skuli samþykkja að auglýsa tillögu að deiliskipulagi samkvæmt ákvæðinu.  Er það ekki á færi skipulagsráðs að taka ákvörðun um auglýsingu nýrrar skipulagstillögu og breytir þar engu um þótt áður hafi verið samþykkt og auglýst skipulagstillaga að sama svæði sem síðar hefur verið fallið frá.  Verður ekki heldur séð að skipulagsráði hafi verið falið vald til ákvarðana um að auglýsa tillögur að nýju deiliskipulagi, enda er slíkra ákvarðana ekki getið í 12. gr. gildandi samþykkta fyrir ráðið en þar eru talin þau verkefni sem ráðinu er falið að afgreiða án staðfestingar borgarráðs.  Brast skipulagsráð þannig vald til þess að ákveða, án staðfestingar borgarráðs, að auglýsa hina umdeildu skipulagstillögu og að auki var þessi málsmeðferð til þess fallin að hafa áhrif á síðari afstöðu borgarráðs til málsins.  Þykir þessi annmarki eiga að leiða til ógildingar hinnar umdeildu tillögu og breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt borgarráð hafi staðfest skipulagið eftir kynningu þess og með þeim breytingum sem þá höfðu verið á því gerðar. 

Með hinni kærðu ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur 17. janúar 2007 var nýtingarhlutfalli lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18, sem eru innan umrædds skipulagsreits, breytt úr 1,2 í 1,5 fyrir lóðina að Bergstaðastræti 16 og úr 1,2 í 1,35 fyrir lóðina að Bergstaðastræti 18.  Var sú breyting gerð með svonefndri leiðréttingu á skipulaginu sem var grenndarkynnt fyrir hagsmunaðilum með stoð í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Um heimild stjórnvalda til leiðréttingar á tilkynntum eða birtum stjórnvaldsákvörðunum er fjallað í 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verða slíkar leiðréttingar aðeins gerðar þegar um bersýnilegar villur er að ræða og er þá þeim er málið varðar tilkynnt um leiðréttinguna.  Ekki verður séð af gögnum málsins að nýtingarhlutfall umræddra lóða hafi átt að vera 1,35 og 1,5 í stað 1,2 og getur því hér með engu móti verið um leiðréttingu að ræða eins og það hugtak er skýrt í stjórnsýslurétti.  Þess í stað verður að telja að ætlan skipulagsráðs hafi verið að gera óverulega breytingu á deiliskipulagi því sem þegar hafði verið samþykkt fyrir reitinn, enda var málsmeðferðin í samræmi við það. 

Áform skipulagsyfirvalda voru kynnt sem leiðrétting og var sú framsetning til þess fallin að valda misskilningi.  Þá var á kynningaruppdrætti sýnt sem núverandi ástand sú byggð sem fyrir var á reitnum áður en deiliskipulagið sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. febrúar 2006 kom til sögunnar.  Varð helst ráðið af kynningargögnum að nýtt skipulag með umræddri leiðréttingu ætti að koma í þess stað.  Sagði raunar í bréfi skipulagsfulltrúa til hagsmunaaðila, dags. 21. nóvember 2006, að með samþykkt umræddrar leiðréttingar félli úr gildi uppdráttur sem samþykktur hefði verið í borgarráði 24. nóvember 2005.  Verður að telja að umræddri grenndarkynningu hafi verið svo verulega áfátt að ekki hafi verið unnt að leggja hana til grundvallar við ákvörðun um þá skipulagsbreytingu sem að var stefnt.  Verður sú ákvörðun því einnig felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2005 um deiliskipulag fyrir reit 1.184.0 er felld úr gildi.  Einnig er felld úr gildi ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur um breyting á nefndu deiliskipulagi er samþykkti hinn 17. janúar 2007 varðandi nýtingarhlutfall lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         _________________________________
Ásgeir Magnússon                     Þorsteinn Þorsteinsson

38/2005 Réttarháls

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 23. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 38/2005, kæra á ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 3. júní 2004 um að veita leyfi til byggingar sumarhúss að Réttarhálsi 7, í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. maí 2005, er barst nefndinni hinn sama dag, kærir K, Hrauntungu 117, Kópavogi, eigandi lóðarinnar að Réttarhálsi 8, í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 3. júní 2004 um að veita leyfi til byggingar sumarhúss að Réttarhálsi 7 í landi Nesja.  Var afgreiðsla byggingarnefndar staðfest á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 16. júní 2004. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 4. desember 2003 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja frístundahús á lóðinni nr. 7 við Réttarháls í landi Nesja og var vísað í gildandi skipulagsuppdrátt.  Einnig var óskað eftir því að lóðin yrði stækkuð úr 2.400 í 5.000 m².  Sveitarstjórn samþykkti að heimila grenndarkynningu vegna umsóknarinnar og vísaði til 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Hinn 14. febrúar 2003 ritaði sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps hagsmunaaðilum bréf þar sem sagði svo:  „Efni:  Grenndarkynning vegna skipulagsbreytinga á einni frístundahúsalóð í landi Nesja í Grafningi.“  Áfram sagði svo:  „Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps þann 4. desember 2002 var samþykkt að heimila grenndarkynningu af breytingartillögu á einni frístundalóð (sumarhúsalóð) við Réttarháls 7 í landi Nesja í Grafningi skv. 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Breytingin felst í að skv. eldri samningi, sem nú er fallinn úr gildi, var lóðin 2.400 fm en verður 5.000 fm að stærð.“  Bréfi þessu fylgdi teikning af Nesjaskógum þar sem lóðin að Réttarhálsi 7 var merkt með hring ásamt ljósmynd þar sem staðsetning lóðarinnar var sýnd í samræmi við tillöguna.  Frestur til að skila inn athugasemdum var til 18. mars 2003 og bárust nokkrar athugasemdir, þar á meðal frá kæranda.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 2. apríl 2003 voru athugasemdir teknar fyrir og þeim svarað.  Í kjölfarið var eftirfarandi fært til bókar:  „Skv. ofangreindu samþykkir sveitarstjórn fyrirliggjandi skipulag við Réttarháls 7 í landi Nesja í Grafningi, skv. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.“ 

Hinn 7. apríl 2003 ritaði sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps Skipulagsstofnun bréf þar sem sagði svo:  „Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps þann 2. apríl sl. var samþykkt að óska eftir umsögn Skipulagstofnunar, skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 vegna skipulags einnar lóðar undir frístundahús í landi Nesja í Grafningi, Réttarháls 7.“  Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 22. apríl 2003, til sveitarstjórnar segir m.a. eftirfarandi:  „Á svæðinu er í gildi deiliskipulag sumarbústaðalands í Nesjaskógi sem samþykkt var 24. nóvember 1993 af skipulagsstjórn ríkisins skv. 2. mgr. 5. gr. skipulagslaga nr. 19/1963 og hefur því verið breytt tvívegis, 1996 og 1999.  Skipulagsstofnun fellst ekki á birtingu deiliskipulagsbreytinganna í B-deild Stjórnartíðinda þar sem byggingarskilmálar varðandi fyrirhugað frístundahús á lóðinni voru ekki kynntir og skipulagsgögn uppfylla ekki kröfur um framsetningu deiliskipulagsbreytinga.  Endurtaka þarf grenndarkynningu óverulegrar deiliskipulagsbreytingar sbr. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga eða auglýsa verulega breytingu á deiliskipulaginu sbr. 1. mgr. 21. gr. sömu laga.“

Í kjölfar þessa ritaði sveitarstjóri Skipulagsstofnun bréf, dags. 23. maí 2003, þar sem sagði m.a:  „Sveitarstjórn leitar hér með eftir meðmælum Skipulagsstofnunar, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, af skipulagi undir eitt frístundahús að Réttarhálsi 7 í landi Nesja í Grafningi. … Meðfylgjandi byggingarskilmálar gilda fyrir Réttarháls 7 en þeir hafa nú þegar verið sendir til kynningar, sömu aðilum og skipulagið var grenndarkynnt.“  

Í tölvupósti Skipulagsstofnunar til sveitarstjóra hinn 27. maí 2003 segir m.a:  „Ég var að renna yfir nýja bréfið frá þér varðandi Réttarháls 7 dags. 23. maí sl.  Þar hefði þurft að koma fram vegna forsögu málsins að sveitarstjórn fallist ekki á þá túlkun Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2003, að deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi nái til þessa svæðis og að þess vegna sé farið fram á meðmæli stofnunarinnar skv. 3. tl. til að leyfa þessa einstöku framkvæmd þ.e. byggingu eins frístundahúss.“

Sveitarstjóri sendi á ný bréf til Skipulagsstofnunar, dags. 23. maí 2003, þar sem leitað var eftir meðmælum stofnunarinnar, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, með skipulagi undir eitt frístundahús að Réttarhálsi 7.  Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 20. júní 2003, segir m.a:  „Fram hefur komið í símtali við Margréti Sigurðardóttur oddvita og sveitarstjóra Grímsnes- og Grafningshrepps að hreppsnefnd ályktaði á fundi sínum 5. júní 2003 að ofangreint deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi nái ekki til svæðisins við Réttarháls 7.  Því er ekki um að ræða breytingu á deiliskipulagi en vilji sveitarstjórnar er að veita leyfi fyrir byggingu eins frístundahúss í þegar byggðu hverfi.  Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga er landið allt skipulagsskylt og skulu byggingarleyfi vera í samræmi við aðal- og deiliskipulag.  Sveitarstjórn getur þó að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða heimilað einstakar framkvæmdir án þess að fyrir liggi aðal-, svæðis- eða deiliskipulag.  Sveitarstjórn þarf hins vegar ekki meðmæli Skipulagsstofnunar vegna veitingar byggingarleyfis í þegar byggðum hverfum þar sem fyrir liggur aðal- og/eða svæðisskipulag en ekkert deiliskipulag enda hafi sveitarstjórn grenndarkynnt byggingarleyfisumsókn.  Umsóknin þarf að vera í samræmi við byggðamynstur hverfisins en að öðrum kosti krefst byggingarleyfisumsókn deiliskipulagsgerðar.  Með kynningarbréfi grenndarkynningar skulu fylgja öll byggingarleyfisgögn.  Í grenndarkynningu sem send var öllum nágrönnum 14. febrúar sl. var einungis kynnt stækkun lóðarinnar og stærð byggingarreits án þess að byggingarskilmálar, byggingarleyfisumsókn eða aðaluppdrættir fylgdu með.  Þess vegna var ekki um að ræða grenndarkynnta byggingarleyfisumsókn sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Skipulagsstofnun getur fallist á rök sveitarstjórnar um að gildandi deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi nái ekki til umrædds svæðis.  Þá kemur upp sú staða að um er að ræða framkvæmd í þegar byggðu hverfi og á þá ekki við að afgreiða erindið samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða.  Þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir í þegar byggðum hverfum getur sveitarstjórn í samræmi við 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga veitt heimild til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Slík mál koma ekki til afgreiðslu Skipulagsstofnunar.  Að öðrum kosti getur sveitarstjórn auglýst deiliskipulag af umræddu hverfi sbr. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.“

Á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 27. janúar 2004 voru lagðar fram byggingarnefndarteikningar að 90,6 m² frístundahúsi sem til stóð að reisa á lóðinni að Réttarhálsi 7.  Voru teikningarnar samþykktar með fyrirvara um samþykkt deiliskipulags.  Skipulagsfulltrúi tók við málinu og með bréfi, dags. 6. febrúar 2004, var framkvæmdin grenndarkynnt hagsmunaaðilum.  Í bréfinu sagði m.a. eftirfarandi:  „Samkvæmt 2. mgr. 26. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 vil ég fyrir hönd Grímsnes- og Grafningshrepps kynna byggingarnefndarteikningar af sumarhúsi að Réttarhálsi 7 í landi Nesja.  Húsið er einnar hæðar, úr timbri á steyptri plötu, 91 m² að flatarmáli með lágu risþaki.  Mænishæð frá plötu er 4,1 m².  Sólpallur er 130 m². … Meðfylgjandi er ljósrit af útlitsteikningum og grunnmynd bústaðarins sem sýna umfang og útlit sumarhússins.  Einnig fylgir ljósmynd og ljósrit úr gömlum skipulagsuppdrætti sem sýnir staðsetningu hússins.“  Frestur til að skila inn athugasemdum var til 8. mars 2004 og bárust nokkrar, þar á meðal frá kæranda. 

Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 9. mars 2004 var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókað:  „Nesjar í Grafningi.  Grenndarkynning frístundahúss að Réttarhálsi 7.  Grenndarkynningu skv. 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga vegna fyrirhugaðrar byggingar frístundahúss á lóðinni Réttarháls 7 er lokið.  Eigendum lóða við Réttarháls nr. 1, 2, 3, 5, 6, 8 og 9 var kynnt framkvæmdin.  Athugasemdir hafa borist frá eiganda Réttarháls nr. 8 og nr. 3.  Lögð fram drög skipulagsfulltrúa af svari til þeirra sem senda athugasemdir.  Samþykkt.“ 

Hinn 27. maí 2004 ritaði byggingarleyfishafi bréf til byggingarfulltrúa þar sem hann lagði fram nýjar teikningar að frístundahúsinu.  Í bréfinu segir m.a. eftirfarandi:  „Breyting á þessari teikningu frá fyrri teikningu er að undir húsið er kominn kjallari þar og verða settir á hann gluggar og hurðir.  Ástæða þessarar breytingar er sú að þegar grafið var fyrir húsinu kom í ljós að það var allt að sex metrar niður á fast.  Í stað þess að fylla það allt upp ákvað ég að setja kjallara undir húsið.  Húsið hækkar ekki í landinu við þessa breytingu þar sem kjallarinn er niðurgrafinn að stórum hluta.“ 
 
Á fundi byggingarnefndar hinn 3. júní 2004 var samþykkt ný teikning af frístundahúsi á lóðinni að Réttarhálsi 7 er sýndi kjallara undir húsinu.  Skaut kærandi þeirri ákvörðun byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að bygging hússins að Réttarhálsi 7 í landi Nesja sé mikið umhverfisslys.  Telur hann að húsið passi ekki inn í sumarhúsahverfið sem byggt sé 35 – 40 ára gömlum sumarbústöðum. 

Kærandi heldur því fram að húsið hindri útsýni úr húsi hans, m.a. út á Þingvallavatn.  Af hálfu skipulagsyfirvalda hafi því verið heitið að húsið að Réttarhálsi 7 yrði staðsett þannig að sem minnst sjónmengun yrði af því en við það hafi ekki verið staðið.  Þá virðist kæranda sem húsið sé allt annað en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir.  

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Bent er á að með bréfi skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, dags. 6. febrúar 2004, hafi framkvæmdin verið grenndarkynnt.  Þar hafi komið fram að húsið væri 91 m², mænishæð frá plötu væri 4,1 metri og sólpallur væri 130 m².  Á grunnmynd hafi einnig sést að hæð plötu væri 139,0 metra yfir sjávarmáli.

Hinn 3. júní 2004 hafi verið samþykkt í byggingarnefnd ný teikning af frístundahúsi á lóðinni er sýnt hafi kjallara undir húsinu.  Lagt hafi verið fram erindi lóðarhafa, dags. 27. maí 2004, þar sem fram komi að allt að sex metrar hafi verið niður á fast þegar grafið hafi verið fyrir húsinu og hafi lóðarhafi viljað fá að nýta það rými í stað þess að fylla það upp.  Hæðarkótar á teikningunni hafi verið þeir sömu og á fyrri teikningum sem grenndarkynntar hafi verið.

Hinn 2. maí 2005 hafi skipulagsfulltrúi farið í vettvangsskoðun og þá hafi verið búið að steypa upp kjallara og plötu.  Það hafi verið mat skipulagsfulltrúa að ekki væri að sjá að platan lægi ofar en teikningar hafi gefið til kynna. 

Það sé því mat skipulagsfulltrúa að hæðarlega hússins sé sú sama og grenndarkynnt hafi verið þó svo að kjallari hafi verið samþykktur.  Við grenndarkynningu hafi verið reynt eftir fremsta megni að útskýra gerð hússins og legu í hæð og landi.  Í því ljósi hafi ekki verið talin ástæða til þess að vísa byggingarnefndarteikningum til grenndarkynningar þegar sótt hafi verið um að fá að nýta rýmið undir plötu og gera úr því kjallara.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að ljóst sé, sbr. málavaxtalýsingu hér að ofan, að einhvers misskilnings hafi gætt í byggingar¬leyfisumsóknarferlinu hvort umrædd lóð, Réttarháls 7, sé deiliskipulögð eða ekki.  Byggingarleyfishafi hafi í umsókn sinni farið eftir öllum þeim tilmælum sem hann hafi fengið og að hann geti í engu tilfelli borið ábyrgð á þeim mistökum eða misskilningi sem kunni að hafa verið uppi milli yfirvalda í Grímsnes- og Grafningshreppi annars vegar og Skipulagsstofnunar hins vegar.  Ljóst sé að engu skipti hvort umrædd lóð hafi verið deiliskipulögð áður eða ekki.  Framkvæmd grenndarkynningar hafi í báðum tilfellum farið eftir ákvæðum 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, hvort sem lóðin hafi verið talin ódeiliskipulögð í þegar byggðu hverfi eða óverulega breyting hafi verið gerð á gildandi skipulagi.
 
Í kæru sé því haldið fram að húsið passi ekki inn í hverfi 35-40 ára sumarhúsa.  Byggingarleyfishafi telur óumdeilt að hann hafi í öllum atriðum farið eftir þeim tilmælum sem til hans hafi verið beint í öllu byggingarleyfisumsóknarferlinu af hálfu yfirvalda í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Sérstaklega sé tekið fram að staðsetning þess húss sem byggt hafi verið á lóðinni hafi verið ákveðin af byggingarfulltrúa og byggingarleyfishafa að teknu tilliti til ýmissa þátta svo sem legu landsins, gróðurfars o.fl.  Sumarhúsið falli vel að þeirri sumarhúsabyggð sem fyrir sé, þótt alltaf sé hægt að sjá mun á yngri og eldri húsum.  Því telur byggingarleyfishafi að hann hafi uppfyllt ákvæði 1. mgr. 115. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um að hús skuli falla sem best að umhverfi sínu hvað varði útlit, efnisval, litaval o.fl.  Sérstaklega sé mótmælt þeirri málsástæðu kæranda að sumarhúsið sé umhverfisslys eins og fram komi í kæru.

Varðandi hæð mænis á sumarhúsinu sé tekið fram að hæð gólfplötu hafi ekki að neinu leyti breyst þó teikningum hússins hafi verið breytt þannig að flatarmál kjalla undir húsinu hafi verið aukið.  Staðsetningu hafi í engu verið breytt. 

Vísað sé til bréfs skipulagsfulltrúa til kæranda, dags. 25. mars 2004.  Kannist byggingarleyfishafi ekki við að sér hafi verið sérstaklega greint frá athugasemdum kæranda.  Þá hafi hann og ekki haft vitneskju um að útsýnisherbergi væri í risi sumarbústaðar kæranda fyrr en sl. sumar, eftir að framkvæmdir við sumarhúsið hafið verið langt á veg komnar.  Byggingarleyfishafi hafi ekki vitað af kærunni fyrr en hinn 25. maí 2005 þegar skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu hafi látið hann vita af henni með tölvupósti.

Byggingarleyfishafi kannist við að hafa látið í ljós vilja til þess að taka tillit til hagsmuna allra nágranna þegar hann hafi byggt húsið og hafi hann talið sig hafa gert það við val á staðsetningu þess.  Að sjálfsögðu hafi ekki verið hjá því komist að með byggingunni myndi útsýni kæranda til Þingvallavatns skerðast, en umdeilanlegt sé aftur á móti hversu mikil sú skerðing þyrfti að verða og hvaða áhrif það hefði haft að byggja annars staðar í landinu.  Megi nefna að staðsetning neðar í landinu hefði eftir atvikum getað valdið ónæði gagnvart þeim sem eigi bústaði neðan og til hliðar við land byggingarleyfishafa. 
 
Hvað sem þessu líði þá liggi sú staðreynd fyrir að byggingarleyfishafi hafi farið í einu og öllu eftir heimildum og fyrirmælum byggingaryfirvalda og hafi byggt bústað sinn samkvæmt teikningum samþykktum af yfirvöldum.

Kvartanir sínar beri kærandi fram á síðari stigum og hafi byggingarleyfishafi aldrei orðið var við neina tilburði kæranda til þess að hindra framkvæmdir hans.  Þá hafi hann ekki komið athugasemdum fram gagnvart byggingarleyfishafa á þeim tíma sem svigrúm hafi verið til þess að breyta staðsetningu hússins.

Niðurfelling byggingarleyfis yrði allsendis óásættanleg fyrir byggingarleyfishafa og til þess fallin að valda ómældu tjóni.  

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 22. september 2005 og hitti þar fyrir málsaðila og skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 3. júní 2004 að veita leyfi til byggingar sumarhúss á lóðinni nr. 7 við Réttarháls í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Ráða má af málsgögnum að kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um efni hins kærða byggingarleyfis í lok apríl 2005 og að skipulagsfulltrúi hafi þá bent honum á þann möguleika að kæra málið til úrskurðarnefndarinnar.  Verður því lagt til grundvallar að kæran hafi borist innan kærufrests, enda miðaðist upphaf kærufrests samkvæmt þágildandi 4. mgr. 39. gr. skipulags- og  byggingarlaga nr. 73/1997 við vitneskju kæranda um þá ákvörðun sem kæra skyldi.  Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Í 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Í máli þessu liggur fyrir að hinn 24. nóvember 1993 var samþykkt af Skipulagsstjórn ríkisins deiliskipulag fyrir sumarhúsabyggð í landi Nesja í Grafningshreppi og tekur skipulagið til þess svæðis er hér um ræðir.  Þar er gert ráð fyrir all mörgum sumarhúsalóðum, þar á meðal lóð kæranda, en svæðið þar sem hús byggingarleyfishafa stendur er óbyggt samkvæmt deiliskipulaginu.  Er lóðin að Réttarhálsi 7 því ekki sýnd á skipulagsuppdrættinum þótt hún sé án nokkurs vafa innan þess svæðis sem skipulagið tekur til.

Þegar sveitarstjórn barst erindi um heimild til byggingar sumarhúss á hinu óbyggða svæði samkvæmt deiliskipulaginu frá árinu 1993 bar henni að auglýsa breytingu á skipulaginu, skv. 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eða að lágmarki að grenndarkynna breytinguna fyrir hagsmunaaðilum skv. 2. mgr. 26. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. laganna, þar sem gert væri ráð fyrir lóðinni nr. 7 við Réttarháls og byggingarreit innan hennar, sbr. 26. gr. sömu laga.  Bar og að auglýsa gildistöku skipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar. 

Í stað þess að gera þær breytingar á gildandi skipulagi svæðisins sem voru nauðsynlegur undanfari þess að unnt væri að veita hið umdeilda byggingarleyfi lét sveitarstjórn kynna nágrönnum byggingarnefndarteikningar að sumarhúsi að Réttarhálsi 7 og virðist hafa verið lagt til grundvallar við meðferð málsins að ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Var þó ekkert svigrúm til þeirrar túlkunar.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var byggingarleyfi fyrir umræddu sumarhúsi veitt án þess að það ætti sér nokkar stoð í gildandi skipulagi svæðisins.  Er í skipulaginu ekki einu sinni gert ráð fyrir byggingarlóð á þeim stað þar sem húsið var reist.  Fór veiting leyfisins því í bága við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulag- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður af þeim sökum ekki hjá því komist að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 3. júní 2004 um að veita leyfi til byggingar sumarhúss að Réttarhálsi 7, í landi Nesja, sem staðfest var af sveitarstjórn 16. júní 2004, er felld úr gildi.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________                     _____________________________
         Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson.

6/2006 Hliðsnes

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2006, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Álftaness frá 11. janúar 2006 um að synja umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss að Hliðsnesi á Álftanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 31. janúar 2006 kærir Klemenz Eggertsson hdl., f.h. H, Hliðsnesi 2, Álftanesi ákvörðun skipulagsnefndar Álftaness frá 11. janúar 2006 um að synja umsókn kæranda um leyfi til byggingar einbýlishúss að Hliðsnesi á Álftanesi.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Álftaness hinn 24. janúar 2006.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst hann þess að úrskurðarnefndin samþykki erindi kæranda um byggingarleyfi og að hún úrskurði honum hæfilegan málskostnað úr hendi varnaraðila.

Málsatvik:  Með bréfi, dagsettu 19. september 2005, óskaði kærandi eftir leyfi til að byggja einbýlishús á landareign sinni að Hliðsnesi á Álftanesi.  Tekið var fram að fyrir væri á landinu einbýlishús og hesthús.  Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Álftaness hinn 22. september 2005 og samþykkti ráðið að vísa málinu til skipulagsnefndar. 

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 28. september 2005 og var eftirfarandi bókun gerð í málinu:  „Bréf landeiganda í Hliðsnesi, Halldórs Júlíussonar dags. 19. september sl. þar sem óskað er eftir byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi í Hliðsnesi.  Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 22. september sl. að vísa erindinu til skipulagsnefndar. Efni bréfsins kynnt og rætt. Skipulagsfulltrúa er falið að taka saman upplýsingar og málið sem verður áfram til umfjöllunar í nefndinni.“

Málið var tekið fyrir að nýju í skipulagsnefnd hinn 7. desember 2005 og þá gerð í málinu svofelld bókun:  „Hliðsnes. Skipulagsfulltrúi leggur fram gögn vegna umsóknar Halldórs Júlíussonar um heimild til byggingar íbúðarhúss. Erindið verður áfram til umfjöllunar í nefndinni.“

Málið var enn tekið fyrir í skipulagsnefnd á fundi hinn 11. janúar 2006 og eftirfarandi bókað:  „Hliðsnes. Umsókn Halldórs Júlíussonar dags. 19. september 2005 um leyfi til byggingar íbúðarhúss á Hliðsnesi.  Skipulagsnefnd hefur haft málið til umfjöllunar undanfarið og er það niðurstaða að hafna erindi bréfritara þar sem fyrirhugaðar byggingar falla utan afmarkaðs íbúðasvæðis skv. tillögu að aðalskipulagi 2005-2024.“

Var þessi niðurstaða staðfest á fundi bæjarstjórnar Álftaness hinn 24. janúar 2006 og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. sama dag.  Er það þessi ákvörðun sem kærð er í máli þessu.  

Aðalskipulagstillaga sú er vísað er til í bókun skipulagsnefndar frá 11. janúar 2006 hafði á þeim tíma komið til fyrri umræðu í sveitarstjórn og verið auglýst til kynningar frá 16. desember 2005 til 12. janúar 2006, en frestur til að gera athugasemdir var til 27. janúar 2006.  Var skipulagstillagan eftir það til meðferðar hjá Skipulagsstofnun en á fundi bæjarstjórnar Álftaness hinn 10. apríl 2006 var tillaga skipulagsnefndar að aðalskipulagi 2005 – 2024 samþykkt með breytingum sem gerðar höfðu verið í kjölfar athugasemda Skipulagsstofnunar og var eftirfaradi bókun gerð í málinu:  „Bæjarstjórn samþykkir orðalagsbreytingar við greinargerð tillögunnar. Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar að aðalskipulagi Álftaness 2005-2024. Skipulagsfulltrúa er falið að senda aðalskipulagstillöguna til samþykktar hjá Skipulagsstofnun og auglýsa hana.“

Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað af sjálfsdáðum hefur Skipulagsstofnun lokið lögboðinni afgreiðslu málsins til staðfestingar ráðherra og mun skipulagstillagan hafa hlotið staðfestingu hinn 19. maí 2006, en ekki verður séð að auglýsing um gildistöku hennar hafi enn verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á  því byggt að við ákvörðun um erindi hans hafi skipulagsnefnd og sveitarstjórn borið að leggja til grundvallar gildandi aðalskipulag fyrir sveitarfélagið 1993 – 2013, sem staðfest hafi verið af umhverfis¬ráðherra hinn 1. desember 1993.  Samkvæmt því skipulagi sé svæðið þar sem kærandi hafi áformað að reisa einbýlishús ótvírætt ætlað til íbúðabygginga.  Áður hafi verið veitt leyfi fyrir byggingu íbúðarhúss á svæðinu og nýverið, eða hinn 24. janúar 2006, hafi verið samþykkt leyfi til byggingar einbýlishúss og sérstaks baðhúss að Hliði (Hliðsvegi 1) þar sem skipulags- og landfræðilegar aðstæður séu algerlega sambærilegar.  Megi því ætla að sveitarstjórn hafi orðið á mistök eða að ómálefnaleg rök hafi ráðið för við ákvörðun sveitarfélagsins.  Jafnframt hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu málsins. 

Málsrök bæjararstjórnar Álftaness:  Eins og að framan greinir var hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar einungis studd þeim rökum að hafna bæri erindi kæranda þar sem fyrirhugaðar byggingar féllu utan afmarkaðs íbúðasvæðis samkvæmt tillögu að aðalskipulagi 2005-2024.  Í greinargerð Álftaness í kærumáli þessu, dags. 9. mars 2006, kemur fram að í gildi sé aðalskipulag sveitarfélagsins fyrir 1993-2013.  Þá sé til umfjöllunar nýtt aðalskipulag, sem gert sé ráð fyrir að gildi til ársins 2024.  Það skuli áréttað að í aðalskipulagi séu landnotkunarreitir almennt ekki hnitasettir eða staðsettir á nákvæman hátt, heldur sé gert ráð fyrir að fyrirkomulag og staðsetning verði útfærð nánar í deiliskipulagi.  Hins vegar hafi ekki verið samþykkt deiliskipulag fyrir það svæði sem kæran taki til.

Í 43. gr. laga nr. 73/1997 sé ráð fyrir því gert að sveitarstjórn veiti byggingarleyfi og eigi það að vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Þar sem ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir reitinn hafi verið ljóst við afgreiðslu bæjarstjórnar að framangreind skilyrði 43. gr. laga nr. 73/1997 væru ekki uppfyllt við afgreiðslu erindis kæranda.  Þar sem í tillögu að nýju aðalskipulagi hafi verið fyrirhugað að byggingarsvæði á Hliðsnesi yrði minnkað töluvert, m.a. vegna flóðahættu, hafi jafnframt ekki verið talið rétt að fallast á umsókn kæranda, einkum þar sem fyrirhuguð nýbygging myndi lenda utan skilgreinds 30 – 50 metra öryggissvæðis í hinu fyrirhugaða skipulagi.

Loks sé kröfu um kostnað vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni mótmælt þar sem telja verði að lagaheimild skorti til slíkrar ákvörðunar.  Sé þess því krafist að kröfu kæranda um kærumálskostnað verið vísað frá nefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir hafnaði skipulagsnefnd umsókn kæranda á fundi sínum hinn 11. janúar 2006 með þeim rökum einum að fyrirhugaðar byggingar féllu utan afmarkaðs íbúðasvæðis samkvæmt tillögu að aðalskipulagi 2005-2024.  Var þessi afgreiðsla samþykkt af bæjarráði og bæjarstjórn án frekari rökstuðnings eða athugasemda.  Í afgreiðslunni fólst að lögð var til grundvallar tillaga að aðalskipulagi sem þá hafði hvorki hlotið endanlegt samþykki sveitarstjórnar né lögboðna málsmeðferð Skipulagsstofnunar og staðfestingu ráðherra.  Var þessi málsmeðferð andstæð ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem m.a. er áskilið að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Jafnframt var þessi afgreiðsla andstæð þeirri grundvallarreglu að stjórnvaldsfyrirmælum, sem sæti birtingu að lögum, verði ekki beitt fyrr en birting hafi farið fram, sbr. 8. gr. laga nr. 15/2005.  Var hin kærða ákvörðun því ekki reist á lögmætum sjónarmiðum og leiða þeir annmarkar til ógildingar hennar.

Fyrir liggur að skipulagsfulltrúi lagði fram ný gögn í málinu á fundi skipulagsnefndar hinn 7. desember 2005, sem voru beinlínis til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöðu nefndarinnar í málinu.  Þessi gögn voru ekki kynnt kæranda og var því ekki gætt andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.  Leiðir sá ágalli einnig til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Í greinargerð bæjarstjórnar í kærumálinu er leitast við að skjóta frekari stoðum undir niðurstöðu skipulagsnefndar í málinu.  Er þar annars vegar á því byggt að ekki hafi verið unnt að verða við erindi kæranda vegna þess að deiliskipulag hafi ekki verið gert fyrir umrætt svæði og hins vegar að fyrirhuguð nýbygging samræmdist ekki væntanlegu aðalskipulagi.  Þykir rétt að víkja stuttlega að þessum röksemdum enda þótt slíkur, síðar til kominn, rökstuðningur geti ekki haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að leggja til grundvallar ákvörðun í málinu ákvæði aðalskipulagstillögu á vinnslustigi svo sem gert var.  Verður ítarlegri rökum af sama meiði í greinargerð sveitarfélagsins því hafnað.

Rétt er að samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skulu byggingarleyfi vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Hins vegar segir í 3. mgr. 23. gr. sömu laga að sveitarstjórn geti veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum, þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir, að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr.  Segir í tilvitnaðri 7. mgr. 43. gr. að þegar sótt sé um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 26. gr., skuli skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hljóti afgreiðslu byggingarnefndar. 

Samkvæmt framansögðu er það ekki ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að deiliskipulag liggi fyrir.  Bar bæjarstjórn, með hliðsjón af lögvörðum rétti kæranda til hagnýtingar á eignarlandi sínu, að taka til athugunar hvort skilyrði væru til að veita byggingarleyfi í samræmi við umsókn kæranda að undangenginni grenndarkynningu með heimild í tilvitnuðum ákvæðum.  Þessa var ekki gætt og var meðferð málsins því einnig áfátt að þessu leyti.

Umsókn kæranda barst bæjaryfirvöldum hinn 22. september 2005 en meðferð málsins lauk rúmum fjórum mánuðum seinna með staðfestingu bæjarstjórnar hinn 24. janúar 2006.  Verður ekki ráðið af málsgögnum að nein þau atvik hafi verið fyrir hendi er réttlættu þann drátt er varð á afgreiðslu málsins og ber að átelja hann.

Samkvæmt framansögðu er hin kærða ákvörðun haldin verulegum ágöllum sem þykja eiga að leiða til þess að hún verði ógilt.

Ekki verður fallist á þá málsástæðu kæranda að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu með hinni kærðu ákvörðun, enda eru skipulagsforsendur ekki sambærilegar í Hliði  og í Hlíðsnesi. 

Ekki er á færi úrskurðarnefndarinnar að verða við kröfu um að veita umbeðið byggingarleyfi og verður þeirri kröfu vísað frá nefndinni.  Kröfu um kærumálskostnað verður einnig vísað frá þar sem fyrir henni er ekki lagastoð.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Hliðsnesi á Álftanesi er felld úr gildi.  Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfum kæranda um að nefndin veiti honum umrætt byggingarleyfi og um kærumálskostnað.

 

 ___________________________          
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________               ____________________________     
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir