Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

91/2006 Hleinar

Ár 2009, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 91/2006, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 5. september 2006 um breytt deiliskipulag Hleina að Langeyrarmölum er tekur til lóðanna nr. 30-34 við Herjólfsgötu, Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er barst nefndinni hinn 15. nóvember 2006, kærir W, Drangagötu 1, Hafnarfirði samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 5. september 2006 um breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum vegna lóða nr. 30-34 við Herjólfsgötu.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. febrúar 2007.  Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Árið 2001 tók gildi sameiginlegt deiliskipulag Garðabæjar og Hafnarfjarðar fyrir Hleina að Langeyrarmölum er felldi úr gildi eldra deiliskipulag og tekur skipulagið m.a. til Herjólfsgötu í Hafnarfirði.  Í sérákvæðum skipulagsskilmála segir svo:  „Gert er ráð fyrir einni nýrri lóð (30) meðfram Herjólfsgötu og er stærð hennar sýnd á deiliskipulagsuppdrætti.  Herjólfsgata 30 liggur að Eyrarhrauni að hluta, sem lagt er til að verði hverfisverndað svæði, vegna sérstakrar náttúru og umhverfisgæða.  Húsið skal vera tveggja hæða íbúðarhús með innbyggðri bílgeymslu...“  Er stærð lóðar samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti 2.261 m².  Ekki er í skipulaginu sérstaklega vikið að lóðum nr. 32 og 34 við Herjólfsgötu en tekið fram í sérákvæðum skipulagsskilmála um Herjólfsgötu, Drangagötu og Klettagötu að ákvæði skilmálanna gildi einnig um þá eldri fastmótuðu byggð sem liggi við ofangreindar götur. 

Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 29. mars 2005 var lögð fram til kynningar hugmynd lóðarhafa um byggingu fjöleignahúss á lóðunum nr. 30-34 við Herjólfsgötu og var umhverfis- og tæknisviði falið að vinna deiliskipulagsforsögn fyrir lóðirnar þar sem m.a. yrði tekið tillit til hverfisverndar á svæðinu.  Málið var til meðferðar næstu mánuði hjá bæjaryfirvöldum og lagði m.a. umhverfisnefnd til að farið yrði eftir núgildandi deiliskipulagi við uppbyggingu svæðisins en óskaði jafnframt umsagna Fornleifaverndar ríkisins, Húsafriðunarnefndar og Byggðasafns Hafnarfjarðar vegna málsins. 

Hinn 6. september 2005 var samþykkt skipulagsforsögn á fundi skipulags- og byggingarráðs.  Gerði hún ráð fyrir að á 3.394,4 m² lóð að Herjólfsgötu nr. 30-34 yrði heimilað að reisa þrjú íbúðarhús með allt að 200 m² grunnfleti.  Nýtingarhlutfall lóðar skyldi miðast við hámark 0,6.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 18. október 2005 var lögð fram ný tillaga af hálfu lóðarhafa og samþykkt að haldin yrði svonefnd forstigskynning á tillögunni sem og á samþykktri skipulagsforsögn.  Haldinn var kynningarfundur í nóvember 2005 og á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 17. janúar 2006 var lóðarhafa heimilað að vinna tillögu með þeim breytingum að mesta hæð húss nr. 30 yrði lækkuð og hús nr. 32 lækkað um eina hæð.  Þá var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 31. janúar og aftur hinn 14. febrúar s.á. að auglýsa tillöguna með áorðnum breytingum skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Breyting á deiliskipulagi, er tekur til umræddra lóða, var kynnt á skipulagsþingi er skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar boðaði til í apríl 2006.  Skipulagstillagan var  að nýju til umræðu á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 9. maí 2006 þar sem lagt var fram yfirlit athugasemda er settar höfðu verið fram á fyrrgreindu skipulagsþingi.  Var tillagan afgreidd með svofelldri bókun:  „Skipulags- og byggingarráð samþykkir skipulagstillöguna með áorðnum breytingum og að málinu verði lokið skv. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Tillaga til bæjarstjórnar:  „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum, hvað varðar lóðirnar nr. 30-34 við Herjólfsgötu dags. 20.01.2006 og að málinu verið lokið skv. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga“.“ 

Á fundi bæjarstjórnar hinn 16. maí 2006 var tillagan tekin fyrir en hlaut hins vegar ekki þá afgreiðslu sem skipulags- og byggingarráð hafði lag til heldur samþykkti bæjarstjórn samhljóða að vísa málinu aftur til skipulags- og byggingarráðs, en ekki kom fram af hvaða ástæðum það var ákveðið.

Hinn 22. maí 2006 var umrædd tillaga að breyttu deiliskipulagi auglýst til kynningar og veittur frestur til 3. júlí s.á. til að koma á framfæri athugasemdum.  Bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda máls þessa, er taldi til að mynda að með breyttu skipulagi myndi ásýnd götunnar gjörbreytast, umferð um hana aukast og útsýni minnka til muna.  Þá myndu fyrirhugaðar byggingar skerða verulega hraunmyndanir er skæru sig úr landslagi á lóðinni. 

Tillagan var til frekari umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum í Hafnarfirði sumarið 2006.  Jafnframt var hún tekin fyrir og samþykkt á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar hinn 21. júní 2006 og í bæjarráði Garðabæjar hinn 27. s.m.  Var tekið fram í bókun skipulagsnefndar að skipulagssvæðið lægi beggja vegna bæjarfélagamarka en breytingin næði til lóðanna nr. 30-34 við Herjólfsgötu innan bæjarmarka Hafnarfjarðar.

Hinn 29. ágúst 2006 var enn á ný tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðanna nr. 30-34 við Herjólfsgötu og lögð fram drög skipulags- og byggingarsviðs að svörum við framkomnum athugasemdum.  Gerði skipulags- og byggingarráð tilgreinda umsögn að sinni, samþykkti skipulagið og gerði þá tillögu til bæjarstjórnar að svo yrði gert.  Í svörum vegna athugasemda kemur eftirfarandi fram:  „Á skipulagstímanum var leitast við að koma til móts við óskir íbúanna, íbúðum var fækkað og húsin lækkuð.  […]  Til að koma enn frekar til móts við íbúa hefur verið ákveðið að minnka grunnflöt húsanna samtals um 110 m² og byggingarreitur á lóð nr. 30 verður færður um 1 m lengra frá kletti í suðausturhluta lóðar.  Með þessu minnkar nýtingarhlutfall á lóðunum, meira verður eftir af hrauni og kletturinn nýtur sín betur. Einnig opnast betur fyrir útsýni frá aðliggjandi lóðum.“ 

Samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar greinda tillögu á fundi sínum hinn 5. september 2006 og hinn 7. desember s.á. var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar breytt deiliskipulag vegna umrædda lóða.  Birtist auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 7. febrúar 2007. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem fram komi að við gerð skipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið.  Níu einstaklingar hafi gert athugasemdir við tillöguna en í svarbréfum umhverfis- og tæknisviðs Hafnarfjarðar sé mjög óljóst fjallað um viðbrögð við framlögðum athugasemdum og á hvaða stigi eða hvort lagfæringar á tillögunni hafi verið gerðar.  Mótmæli íbúa hafi verið skýr og hafi bæjaryfirvöld ekki óskað eftir neinum hugmyndum þeirra til málamiðlunar. 

Bæjaryfirvöld hafi m.a. vísað til þess að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem skert geti t.d. útsýni og valdið aukningu á umferð.  Sé þessi röksemd tekin orðrétt úr niðurstöðu í eldra kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni.  Sorglegt sé að bæjaryfirvöld skuli á þennan hátt nýta sér úrskurð annars máls til að geta breytt samþykktu skipulagi í trássi við ofangreint lagaákvæði eftir hentugleika.  Spurt sé hvers vegna íbúum sé veitt færi á að tjá sig um tillögu að breyttu deiliskipulagi þegar ekki sé farið að óskum þeirra eða vilja, hvort sem er. 

Undarlegt misræmi sé milli umdeildrar tillögu og þess að á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. nóvember 2006 sé gerð sú tillaga til bæjarstjórnar að Hleinar að Langeyrarmölum verði friðlýstar.  Þá sé athyglisvert að á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 9. maí 2006 hafi verið lagt fram yfirlit athugasemda frá einum íbúa og samþykkt tillaga að breytingu en frestur til að skila inn athugasemdum hafi verið til 3. júlí s.á.  Með breyttu skipulagi muni umferð um svæðið enn aukast og útsýni skerðast.  Þá muni verða vandamál vegna bílastæða. 

———-

Hafnarfjarðarbæ var gefinn kostur á að tjá sig um framkomna kæru.  Engin greinargerð hefur borist af hans hálfu en bæjaryfirvöld hafa sent úrskuðarnefndinni gögn er málið varða.  Lóðarhafa Herjólfsgötu 30-34 var jafnframt tilkynnt um framkomna kæru en sjónarmið hans liggja ekki fyrir í málinu. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 2. apríl 2009. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 5. september 2006 um breytt deiliskipulag Hleina að Langeyrarmölum hvað snertir lóðirnar nr. 30-34 við Herjólfsgötu.  Ber kærandi fyrir sig að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt og efni ákvörðunarinnar muni raska hagsmunum hans. 

Deiliskipulag það sem breytt er með hinni kærðu ákvörðun er sameiginlegt deiliskipulag Hafnarfjarðar og Garðabæjar frá árinu 2001 fyrir tiltekið svæði.  Ekki verður í máli þessu tekin afstaða til lögmætis þessa fyrirkomulags enda er það ekki til úrlausnar í málinu og verður því að leggja til grundvallar að deiliskipulagið frá 2001 hafi lögformlegt gildi.

Samkvæmt 26 gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 25. gr. sömu laga, þarf sveitarstjórn að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem auglýsa á til kynningar.  Fyrir liggur að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafði ekki samþykkt umrædda tillögu þegar hún var auglýst til kynningar hinn 22. maí 2006.  Ekki verður heldur séð að bæjarstjórn Garðabæjar hafi tekið ákvörðun um að auglýsa tillögu að breytingu á hinu sameiginlega skipulagi og hvorki kemur fram í kynningarauglýsingu né í gildistökuauglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. febrúar 2007 að um sé að ræða breytingu á sameiginlegu deiliskipulagi Hafnarfjarðar og Garðabæjar fyrir umrætt svæði.

Enda þótt hin umdeilda deiliskipulagsbreyting varði einungis lóðirnar nr. 30-34 við Herjólfsgötu í Hafnarfirði telur úrskurðarnefnin að tillagan hefði þurft að fá lögboðna meðferð samkvæmt 26. gr. sbr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 af hálfu beggja þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að hinu sameiginlega skipulagi.  Þessa var ekki gætt og var málsmeðferð við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar verulega áfátt.  Verður hún af þeim sökum felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 5. september 2006 um breytt deiliskipulag Hleina að Langeyrarmölum. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________    _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Aðalheiður Jóhannsdóttir