Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

88/2007 Eyrarstígur

Ár 2008, miðvikudaginn 2. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 88/2007, kæra á samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 25. júlí 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kæra H og G, eigendur hússins að Eyrarstíg 2, Reyðarfirði, samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 25. júlí 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði.  Á fundi bæjarráðs hinn 31. júlí 2007 var samþykkt nefndarinnar staðfest. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu bílgeymslu eru ekki hafnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda heldur kveðinn upp efnisúrskurður í málinu. 

Málavextir:  Kærumál þetta á sér nokkra forsögu.  Hinn 18. maí 2006 barst embætti byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar umsókn frá eiganda hússins nr. 4 við Eyrarstíg á Reyðarfirði, m.a. um byggingu bílgeymslu á lóðinni.  Var samkvæmt umsókninni gert ráð fyrir að bílgeymslan yrði staðsett austan við húsið, um einn metra frá mörkum lóðarinnar að lóð nr. 2 við Eyrarstíg, en á henni er bílgeymsla sem stendur fast að lóðarmörkunum.  Ákvað byggingarfulltrúi að grenndarkynna beiðnina þar sem ekki væri til deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Á fundi umhverfismálaráðs hinn 12. júlí 2006 var umsóknin tekin fyrir ásamt athugasemdum kærenda og var afgreiðslu málsins frestað.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi ráðsins hinn 26. júlí s.á. og var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin hefur skoðað málið vandlega og veitir byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Uppfylla þarf skilyrði um brunavarnir vegna fjarlægðar á milli húsa.  Nefndin telur að framkvæmdin skerði útsýni að mjög litlu leyti.  Þar sem bílgeymsla á lóð nr. 2 er byggð mjög nálægt lóðarmörkum lítur ráðið svo á að um gagnkvæman rétt til byggingar bílgeymslu sé að ræða við lóðarmörk.“ 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum hinn 8. mars 2007 felldi byggingarleyfið úr gildi. 

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar var á fundi umhverfismálaráðs hinn 25. júlí 2007 eftirfarandi fært til bókar:  „1. Samþykktir byggingarfulltrúa … Eyrarstígur 4, … sækir um leyfi til að byggja bílskúr við austurhlið hússins.  Liður 1 samþykktur.“  Var fundargerð umhverfismálaráðs samþykkt á fundi bæjarráðs hinn  31. júlí 2007. 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að vinna hefði átt deiliskipulag fyrir svæði það er um ræði áður en veitt var leyfi til byggingar bílskúrs á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg eða að öðrum kosti að grenndarkynna áformin. 

Bent sé á að með byggingu fyrirhugaðs bílskúrs muni gluggar á húsi kærenda byrgjast þannig að útsýni og birta minnki.  Þá sé lítil fjarlægð frá lóðarmörkum Eyrarstígs 2 að hinum umdeilda bílskúr.  Einnig sé bent á eldhættu samfara bílskúrsbyggingunni.

Í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé talað um fjarlægð frá lóðarmörkum og bil milli húsa.  Kærendur eigi erfitt með að skilja greinina þannig að hún heimili að byggt sé fyrir glugga eldri húsa.  Þá hafi Brunamálastofnun ekki enn gefið út leiðbeiningar um útreikninga á bili milli húsa svo sem áskilið sé í reglugerðinni.  

Kærendur telji að stærð bílskúrsins standist ekki lög.  Í 113. gr. byggingarreglugerðar sé talað um að bílskúr eigi að jafnaði ekki að vera stærri en 36 fermetrar og vegghæð ekki meiri en 2,7 metrar, nema pláss leyfi annað.  Samkvæmt teikningum eigi bílskúrinn að vera 39,5 fermetrar að stærð og vegghæð hans 2,88 metrar, mesta hæð 3,51 metrar og mikið rými fyrir ofan hurð.  Hér hafi því verið lagt upp með teikningu sem ekki passi lóðinni að Eyrarstíg 4.  

Málsrök Fjarðabyggðar:  Af hálfu Fjarðabyggðar er vísað til þess að umsókn byggingarleyfishafa hafi að mati byggingarfulltrúa uppfyllt öll skilyrði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, og hafi hún því verið samþykkt af umhverfismálaráði.  Engar útlitsbreytingar eða breytingar á staðsetningu bílskúrsins hafi verið gerðar frá fyrri umsókn sem kallað hafi á nýja eða endurtekna grenndarkynningu.  

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er bent á að stærð hins fyrirhugaða bílskúrs ráðist af staðsetningu hans og ætlaðri notkun enda segi í 113. gr. byggingarreglugerðar að bílskúrar skuli að jafnaði ekki vera stærri en 36 fermetrar og hafi mat á aðstæðum verið sett í hendur byggingarnefndar varðandi frávik frá reglunni.  Hæð veggja sé umdeilanleg en með þeirri hæð sem gert sé ráð fyrir náist hurðarop sem sé 2,5 metrar.  Þakhalli sé sá sami og á íbúðarhúsi, nálægt 13%, þannig að vandséð sé að bílskúrinn muni bera umhverfið ofurliði.  Gólfplata íbúðarhúss sé 30-40 cm yfir lóð en ekki sé fyrirhugað að lyfta bílskúr í þá hæð, þannig að efri brún veggjar verði að öllum líkindum neðar en efri brún veggja á íbúðarhúsinu. 

Umhverfismálaráð hafi skoðað málið vandlega á mörgum fundum og á vettvangi með tæknifólki sínu og hafi ekki talið ástæðu til að fetta fingur út í hönnun byggingarinnar.  Byggingarleyfið sé í samræmi við þá þróun sem verið hafi í sveitarfélaginu, þannig að bílskúrar innfluttra húsa sem byggðir hafi verið, séu yfir stærðarmörkum 113. gr. sem og nýbyggðir bílskúrar við eldri hús. 

Hin fyrirhugaða bílskúrsbygging sé staðsett þannig á lóð að áhrifa hennar gæti lítið á lífsgæði nágranna.  Þá hafi við hönnun fullt tillit verið tekið til ítrustu krafna um brunaþol þaks og veggja. 

Varðandi fullyrðingu kærenda þess efnis að þeir verði fyrir útsýnisskerðingu sé bent á að eina útsýnið sem þeir verði af sé bakgarður byggingarleyfishafa.  Gluggar á húsi kærenda er um ræði séu gegnt herbergisgluggum byggingarleyfishafa og vísi í vestur.  Skerðing verði ekki á sólarljósi fyrr en sólin sé komin norður fyrir vestur.  Þá sé degi farið að halla verulega, auk þess sem landfræðilegar aðstæður séu þess eðlis að sólargangur í vestri og norðan við vestur sé einungis yfir björtustu sumarmánuðina. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 25. júlí 2007 um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði.  Á svæði því er um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag.  

Í 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Þá segir í 2. mgr. sömu lagagreinar að framkvæmdir skv. 1. mgr. skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Undantekningu frá þessum lagaskilyrðum er að finna í 3. mgr. 23. gr. sömu laga þar sem segir að þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir í þegar byggðum hverfum geti sveitarstjórn veitt heimild til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr.

Samkvæmt framangreindu verður ekki veitt leyfi til byggingar hins umdeilda bílskúrs nema það eigi sér stoð í deiliskipulagi eða að undangenginni grenndarkynningu.

Enda þótt byggingaryfirvöld hafi áður látið fara fram grenndarkynningu vegna fyrri umsóknar um byggingarleyfi fyrir umræddum skúr verður ekki talið að þeim hafi verið heimilt að vísa til hennar við undirbúning nýrrar ákvörðunar í málinu eftir að fyrri ákvörðun hafði verið felld úr gildi.  Er þá til þess litið að hin nýja ákvörðun var tekin með stoð í breyttu ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar og hefði því verið rétt að kynna kærendum fyrirætlun byggingaryfirvalda um veitingu leyfisins og gefa þeim þannig kost á að tjá sig um hinar breyttu aðstæður.  Var því ekki gætt réttrar aðferðar við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.

Kærendur vísa og til þess að byggingarleyfið fyrir hinni umdeildu bílskúrsbyggingu fari gegn ákvæði greinar 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, bæði hvað varði hæð og gólfflatarmál.  Verður að telja að enda þótt tilvitnað ákvæði sé samkvæmt orðalagi sínu ekki ófrávíkjanlegt leiði af lokamálslið þess að byggingarnefnd geti aðeins heimilað stærri og hærri bílgeymslur en ákvæðið gerir ráð fyrir þar sem slíkt valdi ekki verulegri röskun á umhverfi og aðstæður leyfi að öðru leyti.  Þykir á skorta að sýnt hafi verið fram á að þessum skilyrðum hafi verið fullnægt og var rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun því áfátt, sbr. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Samkvæmt framansögðu var undirbúningi og gerð hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að ógildingu varðar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 25. júlí 2007 um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði, sem staðfest var í bæjarráði hinn 31. júlí 2007.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________                  _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson