Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2007 Unubakki

Ár 2009, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2007, kæra á afgreiðslu bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss frá 8. mars 2007 um að synja að svo stöddu umsókn um breytta notkun hússins að Unubakka 24 í Þorlákshöfn og uppsetningu tveggja ósontanka að Unubakka 26-28.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. mars 2007, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir Sigurbjörn Magnússon hrl., f.h. Lýsis hf., lóðarhafa lóðanna að Unubakka 24 og 26-28 í Þorlákshöfn, þá afgreiðslu bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss frá 8. mars 2007 að synja að svo stöddu umsókn Lýsis hf. um breytta notkun hússins að Unubakka 24 og uppsetningu ósontanka að Unubakka 26-28. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Með bréfi kæranda máls þessa til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 25. ágúst 2006, var óskað eftir heimild til að setja upp þvottatanka við þurrkverksmiðju kæranda.  Sagði í bréfinu að um væri að ræða viðurkenndan búnað til að eyða lykt.  Þá sagði ennfremur að óskað væri eftir bráðabirgðaleyfi til 18 mánaða á meðan bygging nýrrar verksmiðju stæði yfir.  Var umsókn kæranda tekin til umfjöllunar á fundum skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins hinn 2., 18. og 31. október 2006 og 19. desember s.á. án þess að umsóknin væri afgreidd.  Á fundi nefndarinnar hinn 16. janúar 2007 var eftirfarandi fært til bókar:  „Mál fyrir Unubakka 26-28, uppsetning á ósontönkum og breytingar á Unubakka 24, rædd.  Fyrir liggja teikningar af Unubakka 26-28, byggingum og afstöðumynd og af innra skipulagi, breytingar á Unubakka 24.  Starfleyfisveitingin er í vinnslu hjá lögmanni sveitarfélagsins.  Afgreiðsla á þeim málum er varða starfsemi Lýsis, hausaþurrkun og þá leyfi fyrir uppsetningu á ósontönkum og breytingar á Unubakka 24, verður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar 25. janúar n.k. til afgreiðslu.“  Á fundi bæjarstjórnar hinn 25. janúar 2007 var eftirfarandi fært til bókar:  „Á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar þann 16. janúar sl. tók nefndin fyrir erindi Lýsis hf. um breytta notkun á Unubakka 24 og uppsetningu á tveimur ósontönkum við Unubakka 26-28.  Bæjarstjórn felur lögmanni sveitarfélagsins að skila áliti um hvort þörf sé á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði áður en framkvæmdir verði heimilaðar.  Þá er lögmanni sveitarfélagsins einnig falið að kanna hvort fyrirhugaðar framkvæmdir séu í samræmi við gildandi aðalskipulag svæðisins.“  

Á fundi bæjarráðs hinn 8. mars 2007 var fjallað um umsókn kæranda og samþykkti meirihluti ráðsins eftirfarandi bókun:

Erindi Lýsis hf. um breytta notkun á Unubakka 24 og uppsetningu á tveimur ósontönkum við Unubakka 26-28 var tekin fyrir í bæjarstjórn síðast þann 25. janúar sl.  Á þeim fundi var lögmanni sveitarfélagsins falið að skila áliti sínu um hvort þörf væri á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði áður en framkvæmdir yrðu heimilaðar.  Þá var lögmanni sveitarfélagsins einnig falið að kanna hvort fyrirhugaðar framkvæmdir væru í samræmi við gildandi aðalskipulags svæðisins.  Álit lögmanns sveitarfélagsins hefur verið lagt fram til bæjarstjórnar.

Að íhuguðu máli þá hafnar bæjarráð Ölfuss að svo stöddu framkominni umsókn Lýsis hf. um breytta notkun á Unubakka 24 og uppsetningu á tveimur ósontönkum við Unubakka 26-28.

Bæjarráð bendir á þá meginreglu sem orðuð er í 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 (sbl) og mælir fyrir um að skylt er að gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sú heimild sem fram kemur í 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. (sbl) þess efnis að sveitarstjórn getur heimilað framkvæmdir á þegar byggðum svæðum, þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag, að undangenginni grenndarkynningu, er undanþága frá þessari meginreglu.

Bæjarráð bendir á að sú málsmeðferð að láta fara fram deiliskipulag áður en byggingarleyfi er gefið út í þegar byggðu hverfi er mun vandaðri málsmeðferð en sú að láta fara fram grenndarkynningu.  Tryggir sú leið því betur að nágrönnum og hagsmunaaðilum sé gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Hins vegar er gerð deiliskipulags þyngra í vöfum og tímafrekara en grenndarkynning.

Bæjarráð bendir á að málefni Lýsis hf. hafa verið mikið í umræðu í sveitarfélaginu.  Þá hafa sveitarfélaginu borist kvartanir um ólykt frá starfsemi verksmiðju Lýsis hf, vegna þessara kvartana verður að telja að útgáfa byggingarleyfis geti haft áhrif á fleiri aðila en hægt er að flokka sem nágranna skv. grenndarkynningu.

Bæjarráð metur það sem svo að hagsmunir íbúa sveitarfélagsins á að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegi þyngra en hagsmunir Lýsis á því að fá skjótari úrlausn sinna mála.

Bæjarráð bendir Lýsi hf. á ákvæði 2. ml. 1. mgr. 23. gr. sbl er mælir fyrir um að framkvæmdaraðila er heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi.“

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er krafist ógildingar á ofangreindri afgreiðslu bæjarráðs og því m.a. haldið fram að vandséð sé nauðsyn á gerð deiliskipulags vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  Telji kærandi það vera meginreglu að veita beri lóðarhafa byggingarleyfi í samræmi við umsókn hans sé hún í samræmi við gildandi skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulag viðkomandi svæðis.  Þá standist ekki afgreiðslan þar sem hún geri ráð fyrir að deiliskipulag takmarkist eingöngu við lóð kæranda en túlka verði úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarlaga á þann veg að deiliskipulag skuli ná yfir stærra svæði. 

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss:  Af hálfu sveitarfélagsins er kröfum kæranda hafnað og því m.a. haldið fram að framkvæmdir þær sem kærandi óski eftir séu þess eðlis að gera þurfi deiliskipulag, grenndarkynning sé ekki nægileg.  Byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Lögfest sé því sú meginregla að byggingarleyfi verið ekki gefin út nema í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Með því að benda kæranda á heimild til að gera tillögu að deiliskipulagi sé fyrirtækinu gefið færi á að koma með tillögur eða hefja viðræður um gerð deiliskipulags fyrir svæðið.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar hinn 16. janúar 2007 bókað að umsókn um uppsetningu ósontanka á lóð kæranda og breytingar að Unubakka 24 yrði tekin til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar 25. sama mánaðar.  Á þeim fundi fól bæjarstjórn lögmanni sveitarfélagsins að skila áliti um hvort þörf væri á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði áður en framkvæmdir yrðu heimilaðar ásamt því að kanna hvort fyrirhugaðar framkvæmdir væru í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Að áliti þessu fegnu afgreiddi bæjarráð umsókn kæranda og hafnaði henni að svo stöddu.  Verður að skilja bókun ráðsins svo að það hafi talið að vinna þyrfti tillögu að deilskipulagi í tilefni af umsókn kæranda.

Í  2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að byggingarnefnd fjalli um byggingarleyfisumsóknir sem berist og álykti um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Þá segir í 2. mgr. 39. gr. laganna að nefndinni sé skylt að rökstyðja afgreiðslu á erindum sem henni berast og að ákvarðanir nefndarinnar skuli leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Fyrir liggur að skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd ályktaði aldrei um umsókn kæranda heldur tók bæjarráð ákvörðun í málinu án þess að fyrir lægi rökstudd ályktun nefndarinnar um úrlausn þess.  Er þessi málsmeðferð andstæð tilvitnuðum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um meðferð byggingarleyfisumsókna.  Þar við bætist að með hinni kærðu ákvörðun bæjarráðs var umsókn kæranda hafnað að svo stöddu án þess að gerð væri grein fyrir því með skýrum hætti við hvað væri átt. 

Samkvæmt framansögðu var undirbúningi hinnar kærðu afgreiðslu áfátt en auk þess skorti á að hún væri fyllilega skýr að efni til.  Þykja þessir annmarkar svo verulegir að leiða eigi til ógildingar og verður hin kærða afgreiðsla því felld úr gildi.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Afgreiðsla bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss frá 8. mars 2007, um að synja að svo stöddu umsókn um breytta notkun hússins að Unubakka 24 og uppsetningu ósontanka að Unubakka 26-28, er felld úr gildi. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir