Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

162/2007 Gulaþing

Ár 2009, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 162/2007, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2007 um synjun á breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. desember 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Gunnar Guðmundsson hdl., f.h. Efrihlíðar ehf., lóðarhafa Gulaþings 25 í Kópavogi, þá afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2007 að synja beiðni um breytt deiliskipulag lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing.  

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og málsrök:  Á fundi skipulagsnefndar 29. maí 2007 var lögð fram beiðni lóðarhafa Gulaþings 25 um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar þannig að henni yrði skipt í tvær lóðir.  Var erindinu frestað.  Í gildi er deiliskipulag á svæðinu, Vatnsendi-Þing, sem samþykkt var árið 2005.  Samkvæmt því er lóðin nr. 25 við Gulaþing 1.845 m² að stærð og heimilt að byggja þar 400 m² einbýlishús á tveimur hæðum.  Á fundi nefndarinnar hinn 3. júlí sama ár var samþykkt að tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar yrði auglýst og bárust skipulagsyfirvöldum athugasemdir frá næstu nágrönnum.  Var erindi kæranda til umfjöllunar á fundum skipulagsnefndar hinn 4. september 2007 og 18. sama mánaðar, en á fundi nefndarinnar hinn 6. nóvember sama ár var erindinu hafnað með vísan til innsendra athugasemda og umsagnar bæjarlögmanns.  Var kæranda tilkynnt um þessi málalok með bréfi, dags. 8. nóvember 2007, og var í niðurlagi bréfsins vakin athygli á því að ákvörðunin væri kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Á fundi bæjarráðs 8. nóvember 2007 var fundargerð skipulagsnefndar frá 6. sama mánaðar til umfjöllunar, sem og á fundi bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar, án þess að hin umdeilda afgreiðsla skipulagsnefndar væri sérstaklega rædd.     

Af hálfu kæranda er krafist ógildingar á framangreindu og vísar hann m.a. til þess að hagsmunir nágranna hvað varði útsýni yfir Elliðavatn og umferð um götuna muni ekki skerðast þótt fallist yrði á beiðni hans um skiptingu lóðarinnar.

Af hálfu skipulagsyfirvalda er krafist frávísunar málsins og því haldið fram að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna sé bent á að deiliskipulag svæðisins, Vatnsendi-Þing, sé nýlega samþykkt og ekki séu fyrir hendi veigamiklar ástæður eða skipulagsleg rök sem réttlæti breytingar á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing synjað á fundi skipulagsnefndar hinn 6. nóvember 2007.  Var fundargerðin til umfjöllunar á fundum bæjarráðs hinn 8. sama mánaðar og bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar án þess þó að erindi kæranda fengi þar sérstaka afgreiðslu.

Í 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kemur fram sú meginregla að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags og hið sama gildir um breytingu þess, sbr. 26. gr. laganna.  Þá segir í gr. 2.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 að skipulagsnefndir fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar.  Ennfremur segir þar m.a. að meginverksvið skipulagsnefnda sé að fjalla um stefnumörkun í skipulagsmálum, hafa forgöngu um gerð og breytingar á skipulagsáætlunum og fjalla um skipulagstillögur.  Þá fjalli nefndirnar um athugasemdir við auglýstar skipulagstillögur, geri tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu skipulagstillagna og veiti umsagnir um hvort leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlun.  Loks segir í gr. 2.5 að ákvarðanir skipulagnefnda skuli leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Skilja verður framangreind ákvæði á þann veg að skipulagsnefnd sveitarfélags sé ekki falin fullnaðarafgreiðsla erinda er varða nýtt eða breytt deiliskipulag, hvort sem er til samþykkis eða synjunar.  Það er sveitarstjórnar einnar að taka slíkar ákvarðanir, nema fyrir hendi sé sérstök samþykkt sveitarfélagsins um annað fyrirkomulag, sbr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, en slík samþykkt er ekki fyrir hendi í hinu kærða tilviki. 

Samkvæmt framansögðu verður ekki litið svo á að hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda var nefndin aðeins bær til þess að gera tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu málsins.  Engin ákvörðun liggur fyrir af hálfu sveitarstjórnar í málinu og gildir einu þótt fundargerð skipulagsnefndar hafi verið afgreidd í heild án umræðu í bæjarráði og bæjarstjórn enda var ekki með því tekin afstaða til þess erindis sem um ræðir í máli þessu.  Skorti því á að tekin væri kæranleg lokaákvörðun í málinu og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________     _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Aðalheiður Jóhannsdóttir