Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2016 Þeistareykjalína 1 Norðurþing

Með
Árið 2016, mánudaginn 17. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur tók þátt í fundi úrskurðarnefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Norðurþings frá 17. maí 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Norðurþings frá 17. maí 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 til handa Landsneti hf. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 30. júní 2016, var hafnað kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust frá Norðurþingi 2. júní 2016 og frekari gögn síðar.

Málavextir: Landsnet fyrirhugar að leggja 220 kV loftlínu, Kröflulínu 4, frá Kröfluvirkjun í Skútustaðahreppi að gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum í Þingeyjarsveit. Frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Norðurþingi, er áætlað að leggja Þeistareykjalínu 1, einnig fyrir 220 kV rekstrarspennu. Skútustaðahreppur, Norðurþing og Þingeyjarsveit hafa veitt framkvæmdaleyfi fyrir lagningu nefndra lína sem öll hafa verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Svo sem fram hefur komið kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð til bráðabirgða í máli þessu 30. júní 2016 og hafnaði þar kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda við Þeistareykjalínu 1, en að auki var hafnað kröfu Norðurþings um frávísun málsins. Með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum sama dag í máli nr. 46/2016 stöðvaði úrskurðarnefndin hins vegar þær framkvæmdir í Skútustaðahreppi við Kröflulínu 4 sem raskað gætu Leirhnjúkshrauni. Með úrskurði í því máli uppkveðnum 10. október 2016 var felld úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 19. ágúst 2016, í máli nr. 95/2016, voru framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1 innan Þingeyjarsveitar stöðvaðar og með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum sama dag í máli nr. 96/2016 voru framkvæmdir við Kröflulínu 4 stöðvaðar að hluta innan sama sveitarfélags. Vegna eðlis og umfangs nefndra mála hefur úrskurðarnefndin ekki nýtt sér heimild 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til sameiningar þeirra.

Hinar kærðu leyfisveitingar eiga sér nokkurn aðdraganda. Í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem staðfest var af umhverfisráðherra 16. janúar 2008, er tekið fram að vegna áforma um orkufrekan iðnað við Húsavík sé unnið að undirbúningi virkjunar háhitasvæðanna á Þeistareykjum og í Gjástykki ásamt frekari virkjunum við Kröflu og í Bjarnarflagi. Í svæðisskipulaginu voru m.a. kynntar mögulegar leiðir háspennulína á svæðinu. Vegna nefndra áforma fór fram frekari gerð skipulagsáætlana sem og mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar voru.

Gerð var breyting á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 1995-2015, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 24. mars 2011, en nýtt Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023 var svo samþykkt í sveitarstjórn 21. febrúar 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. maí s.á. Deiliskipulag vegna stækkunar Kröfluvirkjunar í Skútustaðahreppi var samþykkt af sveitarstjórn 14. nóvember 2013 og á fundi hennar 8. maí 2014 voru staðfest svör skipulagsnefndar við athugasemdum Skipulagsstofnunar. Deiliskipulagið var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní s.á. Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030 var samþykkt í sveitarstjórn 16. nóvember 2010 og öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 10. janúar 2011. Breyting á því tók gildi 21. febrúar 2014, einnig með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, og deiliskipulag fyrir 1. áfanga iðnaðarsvæðis á Bakka tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 28. s.m. Þá var Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 samþykkt í sveitarstjórn 24. febrúar 2011 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 4. júlí s.á. Loks var deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar samþykkt af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar 8. mars 2012 og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl s.á.

Í mars 2008 barst Skipulagsstofnun tillaga Landsnets að matsáætlun vegna háspennulína, 220 kV, frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Samþykkti stofnunin áætlunina með athugasemdum 29. maí s.á. Samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008 fór fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, stækkun Kröfluvirkjunar og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur. Matsáætlun framkvæmdaraðila vegna þess mats var samþykkt af Skipulagsstofnun með athugasemdum 6. nóvember 2009. Frummatsskýrslur vegna fyrirhugaðra framkvæmda, þ.e. nefndra háspennulína, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og álvers við Bakka, sem og frummatsskýrsla vegna sameiginlegs mats á áhrifum framangreindra framkvæmda, voru allar auglýstar samhliða með athugasemdafresti til 14. júní 2010. Í kjölfarið voru matsskýrslur sendar Skipulagsstofnun og 24. nóvember s.á. lágu fyrir lögbundin álit hennar á mati á umhverfisáhrifum hverrar framkvæmdar fyrir sig, sem og á sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum þeirra. Er í álitunum gerð grein fyrir framkvæmdum þeim sem metnar eru, matsferlinu og helstu þáttum þess, umsögnum, athugasemdum og öðru því er málið varðar. Fallið hefur verið frá byggingu álvers á Bakka, en mat á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmverksmiðju við Bakka hefur einnig farið fram.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum framkvæmdanna „Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Jarðstrengur (132 kV) frá Bjarnarflagi að Kröflu; Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit“ á umhverfið er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum álitsins og eru þær dregnar saman svo: „Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði á þeim kafla þar sem háspennulínur munu liggja frá tengivirki á Hólasandi, um Þeistareyki og um Jónsnípuskarð. Sérstætt náttúrufar er við Þeistareyki og er svæðið á Náttúruminjaskrá og hluti þess nýtur einnig hverfisverndar samkvæmt Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Einnig eru Þeistareykir vel grónir í samanburði við hraun í nágrenninu og þar vaxa jurtir, sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Skipulagsstofnun telur að þó Landsnet muni stýra framkvæmdum þannig að þær dragi úr neikvæðum áhrifum á sérstætt landsvæði við Þeistareyki muni framkvæmdir engu að síður hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á svæðið við Þeistareyki. Skipulagsstofnun telur ljóst að háspennulínur og slóðir um Þeistareykjahraun muni liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í hrauninu. Þá munu mannvirkin skipta hrauninu í tvo nokkuð jafna hluta og við það breytist heildarsýn hraunsins varanlega og einnig samfelld heildarsýn hrauna til suðurs frá Höfuðreiðarmúla, meðfram Lambafjöllum og langleiðina niður á Hólasand. Því telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslagsheild Þeistareykjahrauns. Þá telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa talsvert neikvæð og varanleg áhrif á Leirhnjúkshraun. Skipulagsstofnun telur ljóst að skipulagðar ferðir fólks um láglendið milli Lambafjalla í vestri og Gæsafjalla til Bæjarfjalls í austri byggja m.a. á því að landið er lítt snortið og fólk upplifir fjallasalinn sem víðerni. Háspennulínur verða samsíða göngu- og reiðleiðum um Hólasand að Þeistareykjum og telur Skipulagsstofnun að koma línanna muni breyta verulega upplifun fólks frá því sem verið hefur. Því telur Skipulagsstofnun að ferðamenn sem vilja m.a. njóta víðernisins þar verði fyrir verulega neikvæðum áhrifum af fyrirhuguðum háspennulínum. Skipulagsstofnun telur ljóst að á tveimur línuleiðum sem hvor um sig eru um 60 km langar þarf að leggja 95 km langt slóðakerfi og leggja plön og háspennumöstur sem verða að miklu leyti á grónu landi. Skipulagsstofnun telur því að framkvæmdirnar verði umfangsmiklar og muni hafa talsvert neikvæð áhrif á gróður. Skipulagsstofnun telur að áhrif fyrirhugaðra háspennulína á fuglalíf verði helst vegna áflugs rjúpna á línur á þeim svæðum sem rjúpan er þéttust. Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja eftirfarandi skilyrði: 1. Landsnet þarf að tryggja að framkvæmdir auki ekki eyðingu gróðurs á svæði sem nú er eitt virkasta rofsvæði landsins. 2. Ef votlendi verður raskað þarf Landsnet að endurheimta a.m.k. jafnstórt votlendissvæði og það sem raskast. 3. Landsnet þarf að tryggja að sjaldgæfum plöntum við Þeistareyki verði hlíft eins og kostur er og að staðsetning háspennumastra og lega slóða taki mið af staðsetningu þeirra og einnig umferð meðan á framkvæmdum stendur. Þá þarf Landsnet að tryggja að framkvæmdir trufli ekki varp fálka á svæðinu með því að halda framkvæmdum utan varptíma. 4. Landsnet þarf í samráði við Fornleifavernd ríkisins að tryggja að ekki verði raskað fimm fornleifum í landi Þeistareykja og átta fornleifum nálægt Bakka, sem lýst er í matsskýrslu. 5. Landsnet þarf að leggja fram áætlun um rannsóknir á umfangi áflugs fugla á raflínur og að niðurstöður rannsóknanna verði bornar undir Umhverfisstofnun.“ 

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings 10. maí 2016 var tekin fyrir umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1, 220 kV háspennulínu, að tengivirki við Bakka. Bókað var að sótt væri um leyfið á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Einnig að framkvæmdin sé matsskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og sé matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar fyrirliggjandi. Einnig sé sótt um framkvæmdina á grundvelli Aðalskipulags Norðurþings 2010-2030, þar sem gert sé ráð fyrir háspennulínum, sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Í aðalskipulagi nágrannasveitarfélagsins Þingeyjarsveitar sé einnig gert ráð fyrir framkvæmdinni. Meðfylgjandi séu gögn vegna umsóknarinnar, sbr. sérstaklega 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Lýsing mannvirkja vegna útgáfu framkvæmdaleyfis, dags. í mars 2016, sem sé aðalþáttur gagnanna, sé tekin saman f.h. Landsnets. Vísað sé til hennar um frekari skýringar og lýsingar á framkvæmdinni. Lýsingin sé þannig hluti umsóknarinnar. Þá var bókað að skipulags- og byggingarfulltrúi hefði kynnt drög að samningi um eftirlit Umhverfisstofnunar með framkvæmdinni, sbr. 76. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Loks var eftirfarandi bókað um afgreiðslu málsins: „Skipulags- og umhverfisnefnd telur að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030. Nefndin telur að fullnægjandi grein sé gerð fyrir henni í framlögðum gögnum. Fyrirhuguð framkvæmd uppfyllir skv. áliti Skipulagsstofnunar frá 29. nóvember 2010 skilyrði 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda vegna sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álvers á Bakka, Þeistareykjavirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Húsavík. Skipulags- og umhverfisnefnd fellst einnig á drög að samningi milli Umhverfisstofnunar og Landsnets um eftirlit með framkvæmdinni. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að umsókn Landsnets vegna Þeistareykjalínu 1 innan Norðurþings verði samþykkt og jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.“ Á fundi sínum 17. maí 2016 samþykkti sveitarstjórn Norðurþings greinda tillögu skipulags- og umhverfisnefndar með vísan til bókunar nefndarinnar, og hefur sú ákvörðun sveitarstjórnar verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður hefur komið fram.

Skipulags- og byggingarfulltrúi gaf umrætt framkvæmdaleyfi út 24. maí 2016. Það var auglýst í Morgunblaðinu 26. s.m. og í Lögbirtingarblaðinu 27. s.m. og kom m.a. fram í auglýsingu að leyfið væri gefið út á grundvelli sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulínu frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka. Í framkvæmdaleyfinu sjálfu er fjallað um staðsetningu og umfang framkvæmdar, tekin er saman lýsing á framkvæmd og frágangi hennar, tiltekin eru gögn sem leyfið byggir á, þ. á m. matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum háspennulína á umhverfið. Þá er tekið fram að gengið sé út frá að Umhverfisstofnun haldi uppi sérstöku eftirliti með framkvæmdinni til samræmis við 76. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Tilgreind eru skilyrði fyrir leyfi til framkvæmda og loks kemur þar fram: „Norðurþing ítrekar mikilvægi þess að Landsnet og aðrir sem að framkvæmdinni koma viðhafi þá verktilhögun og mótvægisaðgerðir sem kynntar hafa verið við meðferð málsins þannig að framkvæmdirnar verði ekki líklegar til að valda verulegum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið, öðrum en þeim sem til er ætlast.“

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim ágöllum að hún sé ógildanleg. Hafi stjórnsýslulög verið brotin við undirbúning og töku ákvörðunarinnar, auk þess sem hún fari í bága við almenna náttúruverndarlöggjöf á Íslandi, skipulagslöggjöf og lög um mat á umhverfisáhrifum. Almennar reglur stjórnsýsluréttarins og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildi eftir því sem við eigi um veitingu framkvæmdaleyfis. Sveitarstjórn hafi haft ærið tilefni til að rannsaka málið gaumgæfilega áður en ákvörðun hafi verið tekin en það hafi ekki verið gert.

Í 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé áskilið að við umfjöllun umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar kynni sveitarstjórn sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanni hvort hún sé sú sem lýst sé. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna skuli sveitarstjórn, þegar hún hafi gengið úr skugga um að framkvæmdin sé sú sama og lýst sé í matsskýrslu, taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Við töku ákvörðunarinnar hafi hins vegar ekki farið fram nein raunveruleg athugun á því hvort um sömu framkvæmd væri að ræða og farið hefði í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Hvað þá að rökstudd afstaða hafi verið tekin til þessa álitaefnis.

Fyrir liggi fordæmi Hæstaréttar Íslands um það að ekki skipti máli þótt framkvæmd sú sem sótt sé um sé minni að umfangi en sú sem metin hafi verið, sbr. dóm réttarins frá 9. júní 2005, mál nr. 20/2005. Túlka megi niðurstöðu dómsins þannig að sé búið að meta áhrif framkvæmdar á umhverfið sem síðan breytist áður en nokkurt leyfi hafi verið gefið út beri að framkvæma nýtt mat þótt margt megi nota úr eldra mati. Það mat sem fylgt hafi leyfisumsókn, sem og álit Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember s.á., varði sameiginlegt mat á framkvæmdum fleiri aðila, Alcoa og Landsvirkjunar. Hætt hafi verið við álver á Bakka árið 2012 en ekki verði á neinn hátt séð að sveitarstjórnin hafi litið til þessa við þá könnun er henni hafi borið að gera í aðdraganda ákvörðunar sinnar. Hljóti framangreindar breytingar á fyrirætluðum framkvæmdum þó að hafa gefið sérstakt tilefni til sjálfstæðrar og vandaðrar könnunar á því hvort um sömu framkvæmd væri að ræða og mat á umhverfisáhrifum frá 2010 hafi lotið að. Af umræddri matsskýrslu, er sveitarstjórn hafi vísað til í ákvörðun sinni, megi glöggt ráða að um aðra framkvæmd sé að ræða en þá sem Landsnet hafi sótt um til sveitarstjórnar Norðurþings. Nægi í raun að lesa samantekt á fyrstu fimm síðum matsskýrslunnar til að sjá að svo sé. Þannig bendi ýmislegt til þess að þeim mannvirkjum sem framkvæmdaraðili hafi óskað leyfis fyrir sé ætlað annað hlutverk og séu annars eðlis en þær framkvæmdir er lagðar hafi verið til grundvallar við gerð áðurnefnds mats á umhverfisáhrifum frá 2010. Minni framkvæmd geti nú, sex árum eftir mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrri, haft allt önnur umhverfisáhrif vegna þess að önnur tækni sé nú möguleg við þá raforkuflutninga sem um ræði. Þannig séu jarðstrengir nú mögulegur og raunhæfur valkostur fyrir þann raforkuflutning sem ráðgerður sé frá Kröflu og Þeistareykjum til Bakka. Séu þeir því valkostur í skilningi laga nr. 106/2000 og laga nr. 105/2006.

Kærandi bendi á að ekki sé hægt að líta svo á að hin kærða leyfisveiting sé framhald og lokaáfangi málsmeðferðarinnar sem fram hafi farið á árunum 2008 til og með 2010, í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Vísa megi til dóms Evrópudómstólsins í máli C-50/09 í samningsbrotamáli gegn Írlandi um þá túlkun tilskipunar 85/337/EBE, nú 2011/92/ESB, sem íslensku lögin séu innleiðing á, að málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum ljúki með ákvörðun um leyfi. Þannig sé um málsmeðferð að ræða sem hefjist með tilkynningu um framkvæmd til Skipulagsstofnunar og ljúki þegar leyfisveitandi taki ákvörðun um að veita eða hafna leyfi. Ef þetta sé borið saman við málsmeðferð þessa máls ætti sú framkvæmd sem framkvæmdaraðili hafi tilkynnt Skipulagsstofnun um árið 2008 að hafa lokið með umsókn um framkvæmdaleyfi það sem kært hafi verið.

Af framangreindu að dæma hafi sveitarstjórn Norðurþings haft ærna ástæðu til að kanna það alveg sérstaklega hvort hér væri í raun um sömu framkvæmdina að ræða. Auk þess hefði sveitarstjórn mátt vera kunnugt um að kærandi hafi lagt fram kröfu til Skipulagsstofnunar um að ákvörðun yrði tekin um nýtt mat á umhverfisáhrifum fyrir háspennulínur frá Kröflu að Bakka, með vísan til þess að um nýja framkvæmd væri að ræða. Kröfunni hefði hinsvegar verið vísað frá þar sem stofnunin hefði ekki talið kærendur eiga lögvarinna hagsmuna að gæta.

Í umhverfisrétti gildi sú meginregla, mótuð af dómstólum, að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum þeirra. Eitt elsta fordæmi um þetta hafi Evrópudómstólinn sett með dómi sínum 24. október 1996 í máli C-72/95. Síðari dómaframkvæmd Evrópudómstólsins á sviðinu sé einnig afdráttarlaus um að hafna beri öllum tilraunum til að þrengja gildissvið laga um mat á umhverfisáhrifum. Hafi sveitarstjórn Norðurþings borið við undirbúning ákvörðunar sinnar að taka mið af því markmiði umhverfislöggjafar og skýringarkostum hennar.

Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til samþykkts aðalskipulags Norðurþings. Hinsvegar hafi ekki, áður en ákvörðunin hafi verið tekin, verið kannað hvort framkvæmdin sem sótt hafi verið um væri í samræmi við lögmæta og umhverfismetna framkvæmdaáætlun leyfishafa, þá einkum áætlun sem metin hefði verið 2014 eða 2015, kerfisáætlun 2014-2025 eða 2015-2026, en engar áætlanir fyrir þann tíma hefðu verið umhverfismetnar í samræmi við ákvæði laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Þessi málsmeðferð stangist á við tilgang og meginmarkmið þeirra laga og laga nr. 106/2000 um að mat fari fram sem fyrst í ferlinu. Þá stangist þetta á við dómafordæmi Evrópudómstólsins, m.a. dóm í máli nr. C-295/10, um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar geti ekki komið í stað umhverfismats áætlana og að síðargreinda matið skuli hafa farið fram í síðasta lagi samhliða mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sjálfrar.

Umhverfismat áætlunar um raflínur, þ.e. kerfisáætlunar, hafi ekki í neinum skilningi farið fram áður en meint mat á umhverfisáhrifum vegna þeirrar framkvæmdar er hin kærða ákvörðun hafi heimilað hafi farið fram. Sömu sjónarmið komi fram í áfrýjuðum dómi héraðsdóms Reykjaness frá 22. júlí 2016 í máli landeigenda í Vogum gegn leyfishafa í máli nr. E-1121/2015. Þá sé bent á að íslenska ríkið hafi ekki innleitt ákvæði tilskipunar 2011/92/ESB um heimild til samþættingar umhverfismats áætlana og mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar og geti því ekki borið fyrir sig slíka heimild gagnvart borgurunum.

Málsrök Norðurþings: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum Landverndar verði hafnað enda hafi sveitarstjórn í stjórnsýslu sinni gætt meðalhófs og sinnt rannsóknarskyldu sinni í hvívetna.

Framkvæmdin sé í samræmi við gildandi Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030. Víða í skipulagsgögnunum sé getið fyrirhugaðra framkvæmda í Norðurþingi, þ.m.t lagningar háspennulínu innan sveitarfélagsmarka. Í umhverfismati vegna aðalskipulagsins komi fram að það taki til stofnlína sem séu 66 kV eða meira og sé þar m.a. gert ráð fyrir tveimur nýjum 220 kV háspennulínum, Hólasandslínu 1 og Þeistareykjalínu 1, en framkvæmdaleyfið taki til þeirra síðarnefndu. Hafi það verið mat sveitarstjórnar grundað á ítarlegum rannsóknum að það svæði þar sem fyrirhugað sé að línan liggi um hafi ekki neitt sérstakt verndargildi umfram annað sem forðist beri að raska og njóti svæðið engrar sérstakrar verndar.

Framkvæmdin sé einnig í samræmi við auglýst og staðfest Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Á árinu 2006 hafi sveitarfélögin Norðurþing, Skútustaðahreppur, Aðaldælahreppur og Þingeyjarsveit skipað samvinnunefnd um gerð landnýtingar- og verndaráætlunar vegna fyrirhugaðra virkjana á Þeistareykjum og í Gjástykki. Áætlunin hafi verið unnin sem svæðisskipulag sveitarfélaganna fjögurra í samræmi við 12. gr. þágildandi skipulagslaga, sbr. VI. kafla laga nr. 123/2010. Auk fulltrúa sveitarfélaganna hafi fulltrúi Skipulagsstofnunar átt sæti í nefndinni. Hafi skýrslan verið auglýst og kynnt með fyrirskrifuðum hætti, fjallað hafi verið um innsendar athugasemdir, skýrslan staðfest af viðkomandi sveitarstjórnum, afgreidd formlega af Skipulagsstofnun og loks staðfest af umhverfisráðherra 16. janúar 2008. Sé V. kafli svæðisskipulagsins umhverfisskýrsla sem unnin hafi verið að öllu leyti í samræmi við lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 og leiðbeiningar Skipulagsstofnunar um umhverfismat áætlana og að höfðu samráði við stofnunina. Umhverfisskýrslan sé mjög ítarleg og fjalli um alla þá þætti sem hefðbundið sé að rannsaka í slíkum málum. Hafi verið lagt mat á mögulega kosti og mörkuð stefna um þá eftir vandaða umfjöllun. Meðal þeirra þátta sem hafi komið til umfjöllunar voru flutningslínur í norður frá Þeistareykjum. Hafi stefnumörkun er varðaði þær verið sú að fylgja stefnu Norðurþings um legu línanna en það sé einmitt sú lega Þeistareykjalínu 1, sem heimiluð sé í umþrættu framkvæmdaleyfi Norðurþings.

Þá hafi mat á umhverfisáhrifum línunnar verið í samræmi við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í V. kafla svæðisskipulagsins segi að framkvæmd svæðisskipulagsins muni hafa í för með sér framkvæmdir sem verði háðar mati á umhverfisáhrifum. Slíkt mat sé á ábyrgð framkvæmdaraðila og þurfi að vinna áður en framkvæmdaleyfið sé veitt. Landsnet, sem sé framkvæmdaraðili, eigandi og rekstraraðili fyrirhugaðrar háspennulínu, hafi sent Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun í mars 2008. Skipulagsstofnun hafi samþykkt áætlunina í maí s.á. með athugasemdum. Frummatsskýrsla hafi verið send Skipulagsstofnun í apríl 2010 og matsskýrsla 5. október s.á. Í skýrslu Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember 2010 hafi stofnunin gefið álit sitt um mat á umhverfisáhrifum „Háspennulínanna“, þ.e. Kröflulínu 4 og 5, Hólasandslínu 1 og 2 og Þeistareykjalínu 1, allt loftlínur, en auk þess hafi í því áliti verið fjallað um fyrirhugaðan jarðstreng frá Bjarnaflagsvirkjun að Kröfluvirkjun. Í niðurlagi álitisins hafi komið fram sú skoðun stofnunarinnar að rétt væri að setja leyfisveitingum til Landsnets nokkur skilyrði, sem hafi verið talin upp í fimm tölusettum liðum. Hafi allra þessara atriða verið gætt við útgáfu á hinu kærða framkvæmdaleyfi. Ennfremur hafi Norðurþing samið við Umhverfisstofnun um eftirlit með því að skilyrðunum yrði framfylgt.

Lögmæltra fyrirmæla hafi verið gætt. Í 4. og 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga sé kveðið á um að sveitarstjórn skuli taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við eiga og gæta að verndarsvæðum og menningarminjum. Í ítarlegum matsskýrslum sem hafi legið fyrir sveitarstjórn sé öllum framangreindum lagaatriðum gerð rækileg skil og fyrir þeim séð og til þeirra tekið í framkvæmdaleyfinu. Útgáfa framkvæmdaleyfisins hafi verið lokakafli í mjög löngu undirbúningsferli, sem starfsmenn Norðurþings hafi tekið þátt í alveg frá upphafi. Sama eigi við um kjörna fulltrúa sveitarfélagsins. Fjallað hafi verið um málið á ótal fundum sveitarstjórnar og undirnefnda sveitarfélagsins og hafi legið fyrir allar þær upplýsingar og öll þau gögn sem fram hafi komið í matsferlinu. Það skjóti því skökku við og sé beinlínis rangt sem kærandi haldi fram, að sveitarstjórn hafi ekki tekið rökstudda afstöðu til mats á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar sem lagning Þeistareykjalínu 1 sé. Ákvörðunin hafi byggst beinlínis á þessum gögnum. Afstaða sveitarstjórnar hafi falist í framkvæmdaleyfinu og þeim skilmálum sem þar hafi verið settir.

Framkvæmdaleyfi hafi verið veitt fyrir sömu framkvæmd og metin hafi verið. Í úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 31. júlí 2008 hafi niðurstaðan verið sú að fjórar framkvæmdir, þ.e. tvær virkjanir, háspennulínur og álver á Bakka skyldu metin sameiginlega með vísan til 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun hafði áður ákveðið að meta skyldi hverja og eina framkvæmd. Hafi margvísleg rök legið að baki mati Skipulagsstofnunar, m.a. að á þeim tíma hafi engin ákvörðun verið tekin um að reisa umrætt álver á Bakka. Á þessum tíma hafi legið fyrir frummatsskýrslur fyrir hvern einstakan þátt og hafði miklu verið kostað til. Til að mæta ákvörðun umhverfisráðuneytisins um sameiginlegt mat hafi Skipulagsstofnun gripið til þess ráðs að gefa út umburðarbréf til framkvæmdaaðila um frekari framvindu mála. Bréfið hafi fyrst verið lagt fram á fundi með fulltrúum framkvæmdaaðila 14. ágúst 2008. Taldi Skipulagsstofnun að best væri að annars vegar færi fram mat á einstökum framkvæmdum og hins vegar að fram færi sameiginlegt mat á framkvæmdunum í heild og þyrfti kynning á mati á einstökum framkvæmdum og sameiginlegu mati að fara fram á sama tíma. Jafnframt lagði stofnunin til að vinnu við mat á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda yrði haldið áfram í því fari sem hún hefði verið og að samþykktar matsáætlanir héldu gildi sínu. Málsmeðferð sameiginlega matsins yrði sambærileg eins og um staka framkvæmd væri að ræða og að lagalegt gildi sameiginlega matsins gagnvart framkvæmdaraðilum og leyfisveitendum yrði það sama og ef um einstakar framkvæmdir væri að ræða. Hafi Skipulagstofnun loks lagt til að við heildarmat á umhverfisáhrifum yrði ekki eingöngu reynt að greina hver samlegðaráhrif allra fjögurra framkvæmdanna yrðu, heldur yrðu þau skoðuð með mismunandi tengsl í huga þannig að ef ekki yrði af einni framkvæmd stæðu eftir samlegðaráhrif hinna sem eftir væru. Hafi framkvæmdaraðilar unnið eftir þessum fyrirmælum og skilað af sér fimm mismunandi matsáætlunum, þar af einni sem hafi innhaldið „sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum“ en einnig hafi verið sjálfstæð skýrsla fyrir hverja og eina framkvæmd. Í framhaldinu hafi Skipulagsstofnun gefið sjálfstætt álit fyrir hverja og eina matsáætlun og standi þær því sjálfstæðar hver um sig. Á það jafnframt við um þá skýrslu sem hafi verið skilað í október 2010 um mat á umhverfisáhrifum háspennulínanna. Bæði í matsskýrslunni og í áliti Skipulagsstofnunar hafi verið ítarleg umfjöllun um Þeistareykjalínu 1 og því sé ljóst að framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út fyrir þeirri flutningslínu, þ.e. Þeistareykjalínu 1.

Þeim málatilbúnaði kæranda að fella eigi úr gildi framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 vegna aðstæðna sem kærandi telji eiga við um Kröflulínu 4 sé harðlega mótmælt. Fyrirhugaðar línulagnir séu fimm sjálfstæð verkefni og sé tilgangur Kröflulínu 4 að tengja Þeistareykjavirkjun við landsnetið. Tilgangur Þeistareykjalínu 1 sé hins vegar að tengja Þeistareykjavirkjun við iðnaðarsvæðið á Bakka, þéttbýlið við Skjálfandaflóa og allt norðausturhorn landsins til að styrkja innviði á því svæði.

Veiting framkvæmdaleyfis sé sjálfstæð ákvörðun sveitarstjórnar sem skuli byggjast á lögmæltum sjónarmiðum. Þótt sveitarfélög sameinist um svæðisskipulag sem nái yfir fleiri en eitt sveitarfélag þá fari hver og ein sveitarstjórn með valdið til útgáfu framkvæmdaleyfa vegna framkvæmda innan marka viðkomandi sveitarfélags. Af þessu leiði að þótt framkvæmdaleyfi einnar sveitarstjórnar kunni að vera áfátt að einhverju leyti þá snerti það ekki framkvæmdaleyfi sem önnur sveitarstjórn hafi tekið ákvörðun um með lögmætum hætti. Þótt þannig færi að ákvörðun einhverrar sveitarstjórnar í nágrannasveitum Norðurþings yrði metin ógild, þá væri það í andstöðu við sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, að fella úr gildi framkvæmdaleyfi sem sveitarstjórn Norðurþings hafi tekið ákvörðun um með fullkomlega löglegum hætti.

Loks sé ekki almenn krafa gerð um það í sveitarfélaginu að línan sé lögð í jörðu nema næst Bakka og verði það gert, þ.e. frá tengivirki og inn á iðnaðarvæðið. Það sé almennt mat manna að línulögn í jörð muni hafa miklu meiri og varanlegri umhverfisáhrif á því svæði sem Þeistareykjalína 1 eigi að liggja um en loftlínur á staurum. Smávægileg breyting hafi verið gerð á legu Þeistareykjalínu 1 vegna færslu á tengivirki Landsnets við Bakka og hafi Skipulagsstofnun ákveðið að þær framkvæmdir væru ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Þá sé það ítrekað að engar athugasemdir hafi komið frá heimamönnum um framkvæmdina og að fyrir liggi samningar við landeigendur um línustæði og nauðsynlega vegaslóða innan eignarlanda og í landi sveitarfélagsins.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi hafnar því að ekki sé um sömu framkvæmd að ræða og sætt hafi mati á umhverfisáhrifum í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Sameiginlegt mat hafi farið fram á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka, Þeistareykjavirkjunar, stækkunar Kröfluvirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Skipulagsstofnun hafi birt álit sín á matsskýrslum í nóvember 2010, annars vegar á mati á umhverfisáhrifum álsvers á Bakka, háspennulína og virkjana við Kröflu og á Þeistareykjum og hins vegar mati á háspennulínum, 220 kV, frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Þannig hafi framkvæmdir leyfishafa sætt bæði sameiginlegu mati með öðrum framkvæmdum og sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum framkvæmda leyfishafa einna og sér. Framkvæmdaáform leyfishafa hafi ekki breyst að neinu ráði frá mati á umhverfisáhrifum. Þær óverulegu breytingar sem fyrirhugaðar séu hafi verið tilkynntar Skipulagsstofnun sem hafi fjallað um þær í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000.

Framkvæmdin sé fyrsti áfangi í þeirri áfangaskiptu framkvæmd sem kynnt hafi verið í mati á umhverfisáhrifum. Í því sambandi vísist til þess sem segi í matsskýrslu um áfangaskiptingu auk umfjöllunar um framkvæmd og markmið í áliti Skipulagsstofnunar, dags. 24. nóvember 2010.

Vegna vísunar kæranda í dóm Hæstaréttar í máli nr. 20/2005 bendi leyfishafi á að engar umtalsverðar breytingar hafi orðið á framkvæmdaáformum hans frá því að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Þá séu að öðru leyti engin líkindi á milli framkvæmdaráforma leyfishafa og þeirrar framkvæmdar sem dómur Hæstaréttar hafi fjallað um og dómurinn hafi því ekkert fordæmisgildi hér.

Í tilkynningu um framkvæmdaleyfi til leyfishafa sé fjallað um staðsetningu framkvæmdar, umfang, gögn sem framkvæmdaleyfi byggi á, auk skilyrða fyrir leyfi til framkvæmda. Leyfishafi telji að í afgreiðslu málsins felist að tekin hafi verið afstaða til framkvæmdar og mats á umhverfisáhrifum hennar. Ákvörðun Norðurþings um útgáfu framkvæmdaleyfis sé þannig ekki haldin neinum slíkum annmörkum að réttlætt geti ógildingu ákvörðunarinnar. Séu annmarkar á henni geti þeir ekki talist verulegir þar sem þeir hafi ekki leitt til rangrar niðurstöðu.

Umrædd framkvæmd hafi sætt vönduðum undirbúningi sem staðið hafi í um áratug og farið eftir öllum lögboðnum ferlum. Þannig sé byggt á staðfestu Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem unnið hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Auk þessa sé framkvæmdin í samræmi við staðfest aðalskipulag þeirra sveitarfélaga sem hlut eigi að máli. Þá hafi framkvæmdin sætt sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum á grundvelli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, auk sameiginlegs mats með öðrum tengdum framkvæmdum, sbr. tvö álit Skipulagsstofnunar, dags. 24. nóvember 2010. Loks hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun Landsnets þar sem m.a. sé fjallað um áformaðar framkvæmdir leyfishafa. Þessir ferlar skapi öllum rétt til að koma ítrekað á framfæri athugasemdum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Kærandi hafi ekki nýtt sér þennan lögbundna rétt sinn heldur komið með athugasemdir sínar eftir að samráðsferlum hafi verið lokið. Með þessu hafi hann sýnt af sér tómlæti sem ekki verði litið framhjá í málinu.

Framkvæmdin sé m.a. tilkomin vegna opinberrar stefnumörkunar stjórnvalda um uppbyggingu iðnaðar með nýtingu virkjunarkosta á svæðinu, en fyrir liggi m.a. viljayfirlýsingar stjórnvalda og opinberar áætlanir um aðkomu að framkvæmdum tengdum iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þannig sé í stefnumótandi byggðaáætlun og lögum nr. 41/2013 um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, kveðið á um stuðning og heimildir til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi á svæðinu. Með hliðsjón af lagaskyldum sínum samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003, til að tengja alla þá sem eftir því leita, hafi leyfishafi m.a. gengið frá samningum við annars vegar Landsvirkjun um tengingu Þeistareykjavirkjunar og hins vegar PCC vegna flutnings raforku til verksmiðju félagsins að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þessir aðilar eigi verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta af framkvæmdunum. Þjónusta við starfsemi þessara aðila sé einnig grundvöllur að uppbyggingu innviða á svæðinu og því gildi það sama um stjórnvöld sem tengist innviðauppbyggingunni fjárhagslega

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Með hliðsjón af því að fyrir úrskurðarnefndinni liggja mjög ítarleg gögn, m.a. uppdrættir og myndir, tölvugerðar sem og ljósmyndir, var ekki talið tilefni til að nefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi við úrlausn máls þessa.

Niðurstaða: Þeistareykjalína 1 mun liggja í tveimur sveitarfélögum, Norðurþingi og Þingeyjarsveit. Kærð er ákvörðun sveitarstjórnar Norðurþings um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu þess hluta Þeistareykjalínu 1 sem fyrirhugað er að leggja innan sveitarfélagsins. Hin kærða ákvörðun lá fyrir 20. apríl 2016, en undirbúningur framkvæmda vegna uppbyggingar iðnaðar á Bakka hefur staðið yfir í ríflegan áratug. Sem hluti af þeim undirbúningi fór fram mat á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Þeistareykjalínu 1 sem og Kröflulínu 4 og Hólasandslínu 2, sem nú ganga undir samheitinu Kröflulína 4. Þá voru áhrif háspennulínanna einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010 og svo sem greinir í málavaxtalýsingu var niðurstaða stofnunarinnar að framkvæmdunum fylgdu um margt verulega neikvæð óafturkræf áhrif á umhverfið.

Um veitingu framkvæmdaleyfis, málsmeðferð og skilyrði er fjallað í skipulagslögum nr. 123/2010. Þannig gildir 13. gr. almennt um framkvæmdaleyfi en að auki kemur til kasta 14. gr. þegar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda er að ræða, en svo háttar hér. Er ljóst af ákvæðum laganna að vald til veitinga framkvæmdaleyfa liggur hjá viðkomandi sveitarstjórn að því gefnu að ákveðin málsmeðferð hafi átt sér stað og að uppfylltum skilyrðum sem nánar eru tilgreind í þeim lögum sem í gildi eru við ákvörðunartöku. Miðar framangreint að því að sveitarstjórn taki ákvörðun um veitingu leyfis á traustum grunni og líkt og endranær verða að búa að þar að baki lögmæt og málefnaleg sjónarmið. Þau lög sem líta verður til auk skipulagslaga eru einkum lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, lög  nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og náttúruverndarlög nr. 60/2013. Þá hvílir á leyfisveitanda ávallt sú skylda að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður nú fjallað um hvort skilyrðum til veitingar framkvæmdaleyfis hafi verið fullnægt í máli því sem hér er til úrlausnar.

Umhverfismat áætlana.

Með úrskurði umhverfis- og auðlindaráðherra uppkveðnum 21. maí 2013 var skorið úr um það að kerfisáætlun Landsnets sem unnin væri skv. 5. tl. 3. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 félli undir gildissvið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, en samkvæmt því ákvæði gilda lögin um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í samræmi við framangreint voru kerfisáætlanir Landnets 2014-2023 og 2015-2024 samþykktar af fyrirtækinu að undangengnu umhverfismati áætlana. Sú síðarnefnda var svo samþykkt af Orkustofnun 26. apríl 2016 í samræmi við nýja 9. gr. a. raforkulaga sem þá hafði tekið gildi. Báðar áætlanirnar hafa að geyma framkvæmdaáætlun til þriggja ára, þ.e. 2014-2016 og 2016-2018, þar sem m.a. er tekið fram að til standi að reisa 220 kV línu milli Þeistareykja og Bakka þar sem áform séu m.a. uppi um að byggja kísilver. Þá er tekið fram að Landsvirkjun undirbúi virkjun á Þeistareykjum og sé gert ráð fyrir að nýtt tengivirki rísi við virkjunina og lögð verði ný loftlína þaðan að Kröflu þar sem tenging virkjunarinnar við flutningskerfið verður. Í umhverfisskýrslum með áætlununum er fjallað um þessar framkvæmdir og tekið fram að sú umfjöllun sé byggð á matsskýrslu fyrirtækisins vegna háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík og áliti Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember 2010. Umhverfismat áætlana hefur þannig farið fram á kerfisáætlunum Landsnets bæði 2014-2023 og 2015-2024. Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um umhverfismat áætlana er m.a. tekið fram að markmið umhverfismats á áætlunarstigi sé að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Það er eðlilegt að umhverfismat áætlana fari fram á undan mati á áhrifum einstakra framkvæmda á umhverfið. Er og óumdeilt að umhverfismat skipulagsáætlana hafði farið fram á mismunandi skipulagsstigum. Eins og hér stendur á verður þó ekki litið á það sem annmarka að umhverfismat kerfisáætlunar hafi farið fram eftir að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar lá fyrir. Þá mæla lög ekki fyrir um það að afstaða sé tekin til umhverfismats áætlana við veitingu framkvæmdaleyfis og verður ekki séð að slíkt tilefni hafi verið fyrir sveitarstjórn, enda kom t.a.m. fram í umsókn um leyfið að Þeistareykjalína 1 væri á framkvæmdaáætlun sem kynnt væri í Kerfisáætlun 2015-2024 og fylgdi viðeigandi hluti áætlunarinnar með umsókninni.

Framkvæmdaleyfisumsókn og samræmi við skipulagsáætlanir.

Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja nauðsynleg gögn sem nánar séu tiltekin í reglugerð. Sú reglugerð er nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í 7. gr. hennar er mælt fyrir um gögn vegna framkvæmdaleyfisumsóknar. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að framkvæmdaleyfisumsókn Landsnets og fylgigögn hennar hafi fullnægt framangreindum ákvæðum.

Þá skal sveitarstjórn við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Bókað var við afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar á framkvæmdaleyfisumsókninni, sem staðfest var af sveitarstjórn, að fyrirhuguð framkvæmd væri í samræmi við Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030. Hefur úrskurðarnefndin gengið úr skugga um að svo sé, enda er þar m.a. fjallað um iðnaðarstarfsemi á Bakka sem og Þeistareykjalínu 1 og legu hennar. Línan er þar einnig sýnd á uppdrætti og á uppdráttum aðalskipulagsbreytingar, sem tók gildi 21. febrúar 2014, en þá var sú breyting gerð á aðalskipulaginu að staðsetningu tengivirkis á Bakka var breytt innan iðnaðarsvæðisins og fylgdi því hliðrun Þeistareykjalínu 1 á 4-5 km kafla. Samhliða og í samræmi við aðalskipulagsbreytinguna var unnið deiliskipulag fyrir 1. áfanga iðnaðarsvæðis á Bakka og tók það gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 28. febrúar 2014. Þá liggur fyrir að við gerð Aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 fór fram umhverfismat áætlana og er tiltekið í umhverfisskýrslu aðalskipulags að stefna um háspennulínur að Bakka sé í samræmi við Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Að teknu tilliti til alls framangreinds verður að telja að áskilnaði 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga um samræmi framkvæmdar við skipulagsáætlanir hafi verið fullnægt.

Umsótt framkvæmd.

Í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga er m.a. mælt fyrir um að við umfjöllun umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar skuli sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort hún sé sú sem lýst er í matsskýrslu. Mat fór fram á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Þeistareykjalínu 1, og voru áhrif þeirra einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010. Í umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi er vísað til þessa og fylgdi matsskýrsla og álit umsókninni. Við afgreiðslu málsins hjá skipulags- og umhverfisnefnd, sem staðfest var af sveitarstjórn, er vísað til þess sameiginlega mats sem fór fram og álits stofnunarinnar vegna þess. Af því áliti, ásamt þeim gögnum sem lágu því til grundvallar, er ljóst að hver framkvæmd um sig sætti mati í samræmi við lög nr. 106/2000 auk þess sem fyrir lá heildarmat framkvæmdanna. Er þannig ekki ástæða til að ætla annað en að sveitarstjórn hafi kynnt sér bæði álitin og matsskýrslur sem þeim lágu að baki í samræmi við nefnda 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Einnig er vísað til mats á umhverfisáhrifum háspennulínanna í hinu útgefna framkvæmdaleyfi. Þá verður að telja þau álit sem fyrir liggja í málinu jafngild, enda gera lög nr. 106/2000 ekki ráð fyrir því að sameiginlegt mat skuli fara fram með ákveðnum hætti og þá einvörðungu, eða að það hafi aðra réttarstöðu en mat á einstökum framkvæmdum hverri fyrir sig. Loks telur úrskurðarnefndin að þrátt fyrir að fallið hafi verið frá áformum um álver sé engum vafa undirorpið að mat það sem fram fór á háspennulínum sérstaklega greini frá áhrifum þeirra framkvæmda sem metnar voru, m.a. þeirri sem hér um ræðir. Skiptir ekki máli í því sambandi að ekki standi til nú að leggja allar þær línur sem matið tekur til. Liggur þannig ekkert annað fyrir en að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við það mat á háspennulínum sem farið hefur fram. Rétt er þó að geta þess að mat það sem fram fór á áhrifum háspennulína á umhverfið er ítarlegra en hið sameiginlega mat.

Þá er rétt að geta þess að fyrir liggur að breyting á legu Þeistareykjalínu 1 við Bakka og færsla á tengivirki var tilkynnt til Skipulagsstofnunar í samræmi við lög nr. 106/2000. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að breytingin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Bar sveitarstjórn að kynna sér nefnda tilkynningu og matsskylduákvörðun og kanna hvort framkvæmdin væri í samræmi við tilkynnta framkvæmd. Er ekki ástæða til að ætla annað, en nefnd gögn fylgdu framkvæmdaleyfisumsókn Landsnets.

Ákvörðun sveitarstjórnar, forsendur og rökstuðningur.

Sveitarstjórn skal, auk þess að kynna sér matsskýrslu í samræmi við áðurnefnda 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, einnig taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar eru lögbundin en ekki bindandi fyrir sveitarstjórn. Þau þurfa skv. lögum nr. 106/2000 að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að sveitarstjórn geti tekið ákvörðun um umsókn um framkvæmdaleyfi samkvæmt 14. gr. skipulagslaga að álitið fullnægi þeim lagaskilyrðum. Verður úrskurðarnefndin þannig að taka afstöðu til þess hvort álit Skipulagsstofnunar sé fullnægjandi að þessu leyti, enda er það liður í því að meta hvort hin kærða ákvörðun hafi verið reist á lögmætum grundvelli.

Nánar tiltekið skal Skipulagsstofnun innan fjögurra vikna frá því að hún tekur á móti matsskýrslu gefa rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Þá skal í álitinu gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu. Í 6. mgr. 10. gr. laganna kemur fram að framkvæmdaraðili skuli vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu og skuli þar gera grein fyrir framkomnum athugasemdum og umsögnum og taka afstöðu til þeirra. Í frummatsskýrslu skal svo ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman, sbr. fyrirmæli þar um í 2. mgr. 9. gr. laganna. Sama orðalag var áður viðhaft um efni matsskýrslu og í frumvarpi til laga nr. 106/2000 segir um þetta atriði að lagt sé til að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Einnig að þetta hafi mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum sé ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin. Af framangreindu verður að telja að álit Skipulagsstofnunar þurfi að taka til þessara atriða en jafnframt að framkvæmdaraðili hafi ákveðið forræði á því hvaða kosti, sem nái markmiðum framkvæmdar, hann leggi fram til mats, að teknu tilliti til þess að meta verði helstu möguleika svo markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum verði náð.

Í matsskýrslu er ítarlega fjallað um aðalvalkost framkvæmdaraðila, þ.e. þá línuleið og tilhögun sem hin kærðu leyfi öll taka til. Auk þess er fjallað um aðra þá kosti sem til greina komu samkvæmt endanlegri matsáætlun, þ.e. þá tilhögun að nota trémöstur vestan Lambafjalla, þá tilhögun að nota jarðstrengi sem og að tvöfalda línuleið um Hólasand. Þá var fjallað um núllkost. Mál þetta tekur ekki til línuleiðar vestan Lambafjalla og verður því ekki fjallað um þann kost að nota trémöstur á þeirri leið. Þá er ítarleg umfjöllun í matsskýrslu um tvöfalda línuleið um Hólasand. Er þar gerð grein fyrir umhverfisáhrifum hennar og þau borin saman við aðalvalkost í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 6. mgr. 10. gr., og gefur álit Skipulagsstofnunar hvað þennan valkost varðar ekki tilefni til athugasemda. Hins vegar er álitið að mati úrskurðarnefndarinnar haldið nokkrum ágöllum að öðru leyti hvað varðar umfjöllun um valkosti framkvæmdarinnar, eins og nú verður nánar gerð grein fyrir.

Einn af þeim kostum sem Landsnet lagði fram til mats var að leggja fyrirhugaðar línur sem jarðstrengi. Um jarðstrengi er fjallað með almennum hætti í tillögu fyrirtækisins að matsáætlun og þar tekið fram að í frummatsskýrslu verði gerð grein fyrir jarðstrengjalögnum, kostnaði, rekstri og umhverfisáhrifum í samanburði við loftlínur. Í endanlegri matsskýrslu fyrirtækisins er enn fjallað um jarðstrengi almennt en sú umfjöllun bætir litlu við það sem fram kemur í matsáætlun. Þannig er það eitt tiltekið um umhverfisáhrif jarðstrengja að sýnileiki loftlína sé augljóslega mun meiri en jarðstrengja, hins vegar sé umhverfisrask við lagningu þeirra mun meira en við lagningu loftlína og því sé lagning loftlínu afturkræfari framkvæmd en lagning jarðstrengja. Ljóst má vera að umfjöllun þessi fullnægir ekki þeim áskilnaði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 að gerð sér grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og þeir séu bornir saman. Fór enda enginn frekari samanburður fram. Þrátt fyrir þetta er í áliti Skipulagsstofnunar fjallað um aðra kosti til framkvæmdar í kafla 2.2 án þess að vikið sé í neinu að þessum framlagða kosti framkvæmdaraðila. Úrskurðarnefndin bendir jafnframt á að ekki verður séð að sérstakar rannsóknir hafi farið fram í tilefni matsins og er hvorki í tillögu að matsáætlun né matsskýrslu vitnað til heimilda þar um eða þeirra getið í heimildaskrá. Telja verður að sú aðferð að leggja fram jarðstrengi sem valkost án rannsókna eða tilvísan til heimilda um það hvernig þeir kæmu til greina við þá framkvæmd sem lögð var fram til mats, og án marktæks samanburðar við aðra valkosti, sé ekki viðunandi. Er ekki hægt að líta svo á að um raunverulegan valkost hafi verið að ræða, enda fór ekki fram sérstakt mat á áhrifum jarðstrengja sem valkost. Verður að telja að skort hafi á að Skipulagsstofnun hafi í áliti sínu gert viðhlítandi grein fyrir framangreindu og þar með forsendum mats á umhverfisáhrifum, svo sem henni bar að gera skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000.

Einnig er það að athuga við álit Skipulagsstofnunar að stofnunin lætur í ljós það álit sitt að framkvæmdaraðili eigi að kanna möguleika á annarri útfærslu á legu Þeistareykjalínu 1 sem geri ráð fyrir að línan fari fyrir Höfuðreiðarmúla í stað þess að fara um Jónsnípuskarð, en báðir kostirnir voru lagðir fram af Landsneti við gerð svæðisskipulags háhitasvæða. Ekki er hægt að líta svo á að hér sé um að ræða skilyrði fyrir framkvæmdinni eða frekari mótvægisaðgerðir, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, og er ljóst að ábending sem þessi hefði átt að koma fram fyrr í matsferlinu svo að framkvæmdaraðili ætti þess kost að bregðast við henni. Það er hins vegar álit úrskurðarnefndarinnar að af umhverfisskýrslu svæðisskipulags háhitasvæða verði ráðið að svo sem Skipulagsstofnun bendir á hafi báðir kostirnir neikvæð umhverfisáhrif. Telur úrskurðarnefndin að sú aðferð að leggja ekki valkost um leiðir fram til mats þar sem annað leiðarval sé bundið í skipulagsáætlunum sé ekki tæk þegar ljóst er af umhverfismati áætlana að báðar leiðirnar valdi neikvæðum umhverfisáhrifum án þess að frekari röksemdir eða rannsóknir búi þar að baki. Tilgangurinn með mati á umhverfisáhrifum framkvæmda er einmitt að leiða í ljós umhverfisáhrif mismunandi kosta og gera á þeim samanburð svo hægt sé að taka endanlega ákvörðun um leiðarval á traustum grunni. Er enda mikill munur á umhverfismati áætlana og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda hvað varðar nákvæmni mats, málsmeðferð og afgreiðslu þess. Um þetta segir nánar í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um umhverfismat áætlana að annars vegar sé um að ræða almennar ákvarðanir um meginstefnu og hins vegar sértækar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Markmið umhverfismats á áætlunarstigi sé að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Þar sem stefnumörkun á áætlanastigi sé yfirleitt almenns eðlis, samanborið við það sem eigi við um einstakar framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, verði að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega gróft mat, oft án þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram.

Þrátt fyrir þá annmarka sem úrskurðarnefndin telur vera á áliti Skipulagsstofnunar og að framan er lýst, verður eins og atvikum háttar í þessu tiltekna máli ekki litið svo á að annmarkarnir séu svo verulegir að á álitinu verði ekki byggt. Hefur þá verið höfð hliðsjón af  af því að mat það sem hér um ræðir var um margt ítarlegt og að kostir um mismunandi leiðarval voru metnir með fullnægjandi hætti. Verður því að telja að skilyrði hafi verið til meðferðar fyrirliggjandi umsóknar um framkvæmdaleyfi. Áður en til afgreiðslu hennar kom bar sveitarstjórn hins vegar eftir atvikum að taka rökstudda afstöðu til þess hvort að nefndir annmarkar hefðu þýðingu við leyfisveitingu í þeirra sveitarfélagi. Ef svo væri, þá að hafa forgöngu um að bætt yrði úr þeim svo að ákvörðun um framkvæmdaleyfi byggði á fullnægjandi grundvelli í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Líta verður svo á að í rökstuddri afstöðu sveitarstjórnar í skilningi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga verði að felast efni rökstuðnings sem uppfyllir áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga þar um. Skal m.a. í rökstuðningnum, að því marki sem ákvörðun byggist á mati, greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið, sbr. 1. mgr. nefndrar 22. gr. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er í athugasemdum við títtnefnda 22. gr. tekið fram að rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana eigi að meginstefnu til að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. Það fari því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þarf að vera svo að hann uppfylli framangreint skilyrði. Það liggur í hlutarins eðli að því neikvæðari sem afstaða Skipulagsstofnunar er til fyrirhugaðrar framkvæmdar sem sveitarstjórn hyggst leyfa, þeim mun strangari kröfur verður að gera til þess að hún taki með vönduðum hætti rökstudda afstöðu til álits stofnunarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar var þess efnis að af framkvæmdinni í heild sinni yrðu neikvæð óafturkræf áhrif á umhverfið. Hvað lagningu Þeistareykjalínu 1 í Norðurþingi varðar voru einkum tilgreind neikvæð sjónræn áhrif og neikvæð áhrif á landslag. Þannig yrðu talsverð neikvæð áhrif við Höskuldsvatn og Höskuldsvatnshnjúk þar sem háspennulínur myndu spilla upplifun manna um að svæðið sé ósnert víðerni og þar með hafa áhrif á útivist og ferðamennsku. Önnur umhverfisáhrif innan sveitarfélagsins voru tiltekin, s.s. á fornleifar nálægt Bakka, votlendi sunnan Bakka og vegna áflugs fugla á línur, t.a.m. á Reykjaheiði, sem og áhrif þar sem línurnar myndu liggja um fjarsvæði og grannsvæði vatnsbóla Húsavíkur og nálægt brunnsvæðum Húsavíkur. Var um þessi áhrif lögð áhersla á tilhögun framkvæmdar og mótvægisaðgerðir, en Skipulagsstofnun dró ekki þá ályktun að um neikvæð og óafturkræf áhrif yrði að ræða.

Greint er frá hinu útgefna framkvæmdaleyfi og þeim bókunum og fundargerðum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni í málavaxtalýsingu. Í 7. gr. auglýsingar nr. 22/2013 um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna er fjallað um skráningu dagskrármála í fundargerð og niðurstöðu þeirra. Skal m.a. skrá hvaða gögn eru lögð fram á fundi og hvenær þau eru dagsett. Leiðbeiningarnar eiga sér stoð í 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að sveitarstjórnarlögum segir m.a. um nefnt lagaákvæði að fundargerðir séu mikilvægt sönnunargagn um það sem fram fór á fundi og verði þær að innihalda mikilvægustu upplýsingar, m.a. um niðurstöður mála og eftir atvikum um helstu rök að baki niðurstöðum, eða beinar tilvísanir til gagna sem geyma slík rök. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað sér frá sveitarfélaginu mun tillaga að framkvæmdaleyfi hafa verið meðal þeirra gagna sem lágu fyrir sveitarstjórn við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Bendir ekkert til annars en að svo hafi verið og verður það því lagt til grundvallar þrátt fyrir að skort hafi á að bókað hafi verið um fundargögn í samræmi við áðurnefndar leiðbeiningar.

Útgefið framkvæmdaleyfi mun vera í samræmi við þá tillögu sem kynnt var á fundi sveitarstjórnar og eru þar m.a. tilgreind skilyrði leyfisins. Er þar um að ræða skilyrði sem Skipulagsstofnun í áliti sínu hafði talið nauðsyn á og lutu þau að gróðureyðingu, votlendi og fornleifum auk áflugs fugla. Í framkvæmdaleyfinu eru greind skilyrði nánar útfærð auk þess sem bætt er við skilyrðum um vöktun slóða, uppgræðslu jarðrasks og á ástandi merktra fornleifa. Að teknu tilliti til þessa verður að telja að sveitarstjórn hafi tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um þessi atriði. Hvað varðar þau umhverfisáhrif við Höskuldsvatn og Höskuldsvatnshnjúk sem áður eru rakin hefði betur farið á því að sveitarstjórn tæki til þeirra sérstaka afstöðu. Til þess er þó að líta að þessi áhrif voru hvorki nefnd í helstu niðurstöðum álits Skipulagsstofnunar né heldur voru þau til umfjöllunar í niðurstöðukafla þess. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að afstaða Skipulagsstofnunar hafi verið svo afdráttarlaus um að neikvæð áhrif hlytust af framkvæmdinni á nefndu svæði að strangar kröfur verði að gera um rökstuðning sveitarstjórnar þar að lútandi. Verður því ekki litið svo á að um verulegan annmarka sé að ræða.

Fyrir sveitarstjórn Norðurþings lá umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1, en það var álit Skipulagsstofnunar að kanna bæri aðra útfærslu á línunni sem færi fyrir Höfuðreiðarmúla en ekki yfir Jónsnípuskarð. Er þetta annar þeirra annmarka á álitinu sem þýðingu gat haft við ákvörðun sveitarstjórnar. Höfuðreiðarmúli er í Norðurþingi en Jónsnípuskarð er í Þingeyjarsveit. Í álitinu eru raktar athugasemdir íbúa í Norðurþingi um sjónræn áhrif línunnar um Jónsnípuskarð, sem kæmu m.a. fram við Árnahvamm í Norðurþingi. Í álitinu er einnig gerð grein fyrir því að Landsnet bendi á að ef farið yrði með línuna um þröngt landrými fyrir Höfuðreiðarmúla yrði að grípa til ráðstafana með sérstökum háspennumöstrum. Þar myndi línan frá Þeistareykjum þvera Kópaskerslínu og beygja til vesturs í kröppu horni og liggja samsíða Kópaskerslínu á kafla og línurnar vera í mismunandi hæð. Þannig yrði til kraðak ósamstæðra mastra og mætti gera ráð fyrir verulegum sjónrænum áhrifum á þeim kafla. Jafnframt að sjónræn áhrif við Árnahvamm verði þó minni en sjónræn samlegðaráhrif lína og vegar við Höfuðreiðarmúla. Er og í niðurstöðu Skipulagsstofnunar tiltekið að hún telji að í matsskýrslu sé gerð grein fyrir athugasemdum og þeim svarað á fullnægjandi hátt. Verður með hliðsjón af framangreindri afgreiðslu stofnunarinnar ekki talið að sveitarstjórn Norðurþings hafi borið að færa fram sérstakan rökstuðning um línuval um Jónsnípuskarð, enda enn fremur ljóst af lestri álitsins að Skipulagsstofnun telur fyrst og fremst ástæðu til að kanna möguleika á lagningu fyrir Höfuðreiðarmúla vegna neikvæðra umhverfisáhrifa sem kæmu fram í Þingeyjarsveit.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að sérstakt tilefni hafi verið fyrir sveitarstjórn að kanna þann möguleika að leggja jarðstreng innan sveitarfélagsins í stað loftlínu. Til að mynda kemur fram í umsókn um framkvæmdaleyfi og fylgigögnum að samningar hafi náðst við alla landeigendur. Hins vegar kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar að ábúendur Héðinshöfða 1 og Héðinshöfða 2 hefðu gert athugasemdir við sjónræn áhrif tengivirkis og háspennulína og m.a. sú krafa komið fram að línur yrðu lagðar í jörð. Nefndar jarðir eru í Tjörneshreppi norðan við Bakka, Norðurþingi. Landsnet svaraði því til að línurnar verði hluti af heild mannvirkja í næsta nágrenni við Bakka sem verði sýnileg. Í nágrenni Héðinshöfða muni línurnar þó „bera í landið“ sem draga muni úr áhrifunum. Svo sem áður hefur verið rakið taldi Skipulagsstofnun að athugasemdum hefði verið svarað á fullnægjandi hátt. Undir þetta tekur úrskurðarnefndin með þeirri athugasemd að réttarstöðu ábúenda í grennd við háspennulínur verður ekki að fullu jafnað við stöðu eigenda lands þar sem háspennulínur eru fyrirhugaðar. Þá skal á það bent að með breytingu á framkvæmdinni var tengivirki fært sunnar á iðnaðarsvæðið, og þar með fjær Héðinshöfða, og var Þeistareykjalínu einnig hliðrað sem því nam.

Að öllu framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að sveitarstjórn hafi með ásættanlegum hætti tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

Náttúruverndarlög.

Vísað er til þess í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga að sveitarstjórn skuli ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða náttúruverndarlaga og annarra laga og reglugerða sem við eigi. Náttúruverndarlög nr. 60/2013 tóku gildi í nóvember 2015, nokkrum mánuðum áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Er augljóst að þau áttu því við um þá ákvörðunartöku þrátt fyrir að matsferli það sem var undanfari ákvörðunarinnar hafi átt sér stað í tíð eldri náttúruverndarlaga. Hins vegar er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að á framkvæmdasvæði innan Norðurþings séu þær aðstæður sem kröfðust sérstakrar málsmeðferðar samkvæmt náttúruverndarlögum. Þannig liggur ekkert fyrir um að línurnar muni raska Bakkafjöru eða Bakkahöfða, sem eru á náttúruminjaskrá. Að sama skapi liggur ekki fyrir að votlendi verði raskað að því marki að tillit verði að taka til 61. gr. laganna eða að framkvæmdir raski jarðminjum eða vistkerfum sem njóti verndar þeirrar lagagreinar. Loks verður ekki séð að því fylgi sérstök réttarvernd samkvæmt náttúruverndarlögum að landslagsheildirnar Höskuldsvatn og Höskuldshnjúkur séu taldar hluti af víðerni, sbr. viðauka 1 við matsskýrslu Landsnets, enda liggur ekkert fyrir um að t.a.m. friðlýsing skv. 46. gr. laganna hafi farið fram. Verður því ekki séð að náttúruverndarlög hafi haft sérstaka þýðingu við töku hinnar kærðu ákvörðunar sveitarstjórnar umfram það sem gert var, en fyrir fundi sveitarstjórnar lágu drög að samningi um eftirlit Umhverfisstofnunar með framkvæmdum Landsnets, sbr. 76. gr. náttúruverndarlaga.

Af öllu því sem að framan er rakið er það mat nefndarinnar að ekki séu þeir ágallar til staðar er leitt gætu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og er kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Norðurþings frá 17. maí 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 til handa Landsneti hf.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________               ______________________________
Ómar Stefánsson                                                  Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Geir Oddsson                                                           Þorsteinn Þorsteinsson

46/2015 Borgartún

Með
Árið 2016, föstudaginn 14. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2015, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 17. mars 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðarinnar nr. 28 við Borgartún.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2015, er barst nefndinni 15. s.m., kæra W og H, íbúar í Sóltúni 11-13, þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 17. mars 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðarinnar nr. 28 við Borgartún. Er þess krafist að hin kærða skipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. september 2015.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 2. apríl 2014 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðar nr. 28 við Borgartún. Í breytingunni fólst að fyrirhugaðri byggingu á lóðinni yrði breytt úr þjónustubyggingu í íbúða- og þjónustubyggingu, hæðum fjölgað um eina og fyrirkomulagi bílastæða breytt. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu til kynningar og var hún auglýst í fjölmiðlum 14. maí með athugasemdarfresti til 25. júní 2014. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum og var þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. júlí s.á. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. ágúst 2014 var deiliskipulagsbreytingin samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Var hún send Skipulagsstofnun til skoðunar og 16. október 2014 bárust með bréfi athugasemdir frá stofnuninni. Á fundi ráðsins 25. febrúar 2015 var greint bréf Skipulagsstofnunar lagt fram ásamt lagfærðum deiliskipulagsuppdrætti í því skyni að bregðast við athugasemdum stofnunarinnar. Var skipulagsuppdrættinum með áorðnum breytingum hafnað með jöfnun atkvæðum nefndarmanna. Á fundi borgarstjórnar 17. mars s.á. var skipulagsbreytingin hins vegar samþykkt og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. maí 2015.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila eins og lög kveði á um. Skipulagsstofnun hafi m.a. bent á að vegna mikillar uppbyggingar á svæðinu hafi verið sérstaklega mikilvægt að samráð yrði haft við íbúa og aðra hagsmunaaðila umfram það sem lágmarkskröfur skipulagslaga um auglýsingu deiliskipulagsbreytinga kveði á um.

Þá sé byggingarmagn og hæð hússins á umræddri lóð aukið og það fært 1-2 m nær lóðarmörkum til suðurs. Jafnframt séu svalir leyfðar einn metra út fyrir byggingarreit en við það endurspegli stærð byggingarreitsins ekki raunverulegt umfang byggingarinnar. Því sé mótmælt að veita eigi leyfi til byggingar húss á lóðinni Borgartún 28a eins og gert sé ráð fyrir heldur eigi að framkvæma í þeim vistvæna anda sem hafður hafi verið að leiðarljósi við nýlegar framkvæmdir í Borgartúni og koma í veg fyrir svipað skipulagsslys og orðið sé með byggingu Mánatúns 7-17.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að hin kærða skipulagsbreyting hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Deiliskipulagstillagan hafi sætt auglýsingu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og grenndarkynnt frá 14. maí til 25. júní 2014. Að lokinni grenndarkynningu hafi tillagan verið send til Skipulagsstofnunar til yfirferðar skv. 1. mgr. 42. gr. laganna.

Í bréfi Skipulagsstofnunar frá 16. október 2014 hafi verið gerð athugasemd við fjögur atriði, þ.e. að Borgartún 28 og 28a sé annað hvort tilgreind sem ein eða tvær lóðir, einnig hafi vantað umfjöllum um hliðrun á byggingarreit nær lóðarmörkum til suðurs, þá hafi vantað skýringu af hverju flatarmál húss aukist um 750 m2 þegar einni hæð sé bætt ofan á og að lokum hafi vantað skilmála um salarhæð hússins. Jafnframt hafi komið fram í bréfi Skipulagsstofnunar ábendingar til skipulagsyfirvalda í Reykjavík um að hafa samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila umfram það sem skipulagslög kveði á um sem og að skipulagsuppdráttur hefði þurft að ná yfir aðliggjandi lóðir til suðurs, þ.e. það svæði sem breytingin gæti haft áhrif á og að heiti Borgartúns sé ranglega skráð Mánatún. Í framhaldi hafi verið brugðist við athugasemdunum og unnið að leiðréttingum á uppdrætti. Hafi síðan verið haldinn fundur með íbúum og hagsmunaaðilum í Borgartúninu sem umhverfis- og skipulagssvið hafi staðið fyrir. Hafi afgreiðsla málsins verið í samræmi við lög og venjubundna málsmeðferð. Skipulagsstofnun hafi yfirfarið gögn málsins að nýju og ekki gert athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem breytt umsögn hafi ekki haft áhrif á fyrri afgreiðslu borgarráðs.

Þó að hæðum fyrirhugaðrar byggingar muni fjölga um eina verði heildarhæð hússins óbreytt þar sem munur sé á salarhæðum skrifstofubygginga og íbúðabygginga. Þá hafi tilfærsla á byggingarreit verið gerð til að hægt hafi verið að koma fyrir grænu svæði á lóð. Við það hafi þurft að breyta uppröðun bílastæða verulega og því fylgt hliðrun byggingarreits um tvo metra. Það að heimilt sé að svalir standi allt að einum metra út fyrir byggingarreit breyti ekki umfangi byggingarinnar þar sem svalir reiknist inn í nýtingarhlutfallið.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að næstu nágrannar hafi ítrekað óskað eftir því að niðurníddar skemmur á baklóðinni 28a við Borgartún yrðu fjarlægðar og nýbygging reist í þeirra stað. Vegna offramboðs á skrifstofuhúsnæði hafi eigendur lóðarinnar talið betra að byggja íbúðabyggingu með verslunar- eða skrifstofuhúsnæði á fyrstu hæð.

Þó svo að hæðum hússins muni fjölga um eina frá núgildandi deiliskipulagi verði heildarhæð hússins óbreytt. Skýrist það af mismikilli lofthæð skrifstofubygginga og íbúðabygginga. Umfang hússins aukist ekki og samkvæmt tillögunni muni byggingin ekki fylla út í byggingarreit. Í raun rúmist svalir innan byggingarreits en við það að veita heimild til að hleypa þeim út fyrir reitinn gefist meira svigrúm í hönnun íbúða. Þegar talað sé um umfang húss sé ekki hægt að leggja að jöfnu svalir og lokaðan húsvegg. Hafi deiliskipulagstillagan verið unnin eftir bestu vitund og í samráði við skipulagssvið Reykjavíkurborgar.
Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarstjórnir með skipulagsvald innan marka sveitarfélags. Jafnframt bera þær ábyrgð á og annast gerð og breytingar á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. nefndra laga. Sveitarstjórnum er því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags en þeim ber þó að fylgja markmiðum 1. gr. skipulagslaga, m.a. um skynsamlega hagnýtingu lands, að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi og um samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana.

Í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sveitarstjórn skuli taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Í gögnum málsins liggur fyrir að Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við auglýsta skipulagstillögu með bréfi, dags. 16. október 2014. Vörðuðu umræddar athugasemdir m.a. að skerpa þyrfti á skilmálum tillögunnar er varðaði tilgreiningu á lóðum, hliðrun á byggingarreit og aukið byggingarmagn, auk þess sem skilmálar um salarhæð hafi vantað. Jafnframt hafi stofnunin talið mikilvægt að samráð yrði haft við íbúa og aðra hagsmunaaðila umfram það sem lágmarkskröfur skipulagslaga um auglýsingu deiliskipulagsbreytinga kveði á um. Var brugðist við þeim athugasemdum með því að skipulagsuppdráttur var lagfærður og haldinn var almennur opinn fundur um framkvæmdir og uppbyggingu í Borgartúni. Fólu greindar breytingar á skipulagsuppdrætti ekki í sér breytingar á efni hins kynnta uppdráttar. Var því ekki þörf á að auglýsa tillöguna að nýju skv. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Loks hafi kærendur komið að athugasemdum á kynningartíma og þeim jafnframt gefið tækifæri á að mæta á opinn fund borgarinnar varðandi uppbyggingu á svæðinu. Verður því að telja að fullnægjandi samráð hafi verið haft við kærendur.

Hið umrædda skipulagssvæði er í aðalskipulagi Reykjavíkur skilgreint sem miðsvæðið M6a Borgartún, en þar er einkum gert ráð fyrir skrifstofum á sviði fjármála, ráðgjafar og stjórnsýslu, sem og stofnunum og þjónustu tengdum þeirri starfsemi. Íbúðir eru þó heimilaðar á efri hæðum bygginga. Meðal markmiða aðalskipulagsins er að þétta byggð, auka fjölbreytni innan núverandi miðkjarna og auka almennt nálægð íbúða og vinnustaða eins og unnt er. Hin kærða skipulagsbreyting er því í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Þá er og fullnægt áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var að öðru leyti í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Skipulagsbreytingin var auglýst til kynningar, fram komnum athugasemdum svarað, brugðist var við athugasemdum Skipulagsstofnunar, breytingin síðan samþykkt og gildistaka hennar auglýst lögum samkvæmt. Þá verður ekki séð að grenndaráhrif fyrirhugaðrar byggingar verði að marki meiri en verið hefði vegna þeirrar byggingar sem heimilt var að reisa á umræddri lóð fyrir hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarstjórnar Reykjavíkur frá 17. mars 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðarinnar nr. 28 við Borgartún.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 
 

46/2016 Kröflulína 4 Skútustaðahreppur

Með
Árið 2016, mánudaginn 10. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur tók þátt í fundi úrskurðarnefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 20. apríl 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, Skútustaðahreppi, og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Reykjavík, þá ákvörðun Skútustaðahrepps frá 20. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 til handa Landsneti hf. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 30. júní 2016, voru stöðvaðar framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar sem raskað gætu Leirhnjúkshrauni á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust frá Skútustaðahreppi 25. maí 2016 og frekari gögn síðar.

Málavextir: Landsnet fyrirhugar að leggja 220 kV loftlínu, Kröflulínu 4, frá Kröfluvirkjun í Skútustaðahreppi að gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum í Þingeyjarsveit. Frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Norðurþingi, er áætlað að leggja Þeistareykjalínu 1, einnig fyrir 220 kV rekstrarspennu. Skútustaðahreppur, Norðurþing og Þingeyjarsveit hafa veitt framkvæmdaleyfi fyrir lagningu nefndra lína sem öll hafa verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Svo sem fram hefur komið stöðvaði úrskurðarnefndin með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 30. júní 2016 í máli nr. 46/2016, framkvæmdir við Kröflulínu 4 sem raskað gætu Leirhnjúkshrauni, meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir nefndinni. Sama dag hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um stöðvun framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 í Norðurþingi, en það mál er nr. 54/2016. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 19. ágúst 2016, í máli nr. 95/2016, voru framkvæmdir við þá línu innan Þingeyjarsveitar stöðvaðar og með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum sama dag í máli nr. 96/2016 voru framkvæmdir við Kröflulínu 4 stöðvaðar að hluta innan Þingeyjarsveitar. Vegna eðlis og umfangs nefndra mála hefur úrskurðarnefndin ekki nýtt sér heimild 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til sameiningar þeirra.

Hinar kærðu leyfisveitingar eiga sér nokkurn aðdraganda. Í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem staðfest var af umhverfisráðherra 16. janúar 2008, er tekið fram að vegna áforma um orkufrekan iðnað við Húsavík sé unnið að undirbúningi virkjunar háhitasvæðanna á Þeistareykjum og í Gjástykki ásamt frekari virkjunum við Kröflu og í Bjarnarflagi. Í svæðisskipulaginu voru m.a. kynntar mögulegar leiðir háspennulína á svæðinu. Vegna nefndra áforma fór fram frekari gerð skipulagsáætlana sem og mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar voru.

Gerð var breyting á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 1995-2015 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 24. mars 2011, en nýtt Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023 var svo samþykkt í sveitarstjórn 21. febrúar 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. maí s.á. Deiliskipulag vegna stækkunar Kröfluvirkjunar í Skútustaðahreppi var samþykkt af sveitarstjórn 14. nóvember 2013 og á fundi hennar 8. maí 2014 voru staðfest svör skipulagsnefndar við athugasemdum Skipulagsstofnunar. Deiliskipulagið var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní s.á. Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030 var samþykkt í sveitarstjórn 16. nóvember 2010 og öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 10. janúar 2011. Þá var Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 samþykkt í sveitarstjórn 24. febrúar 2011 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 4. júlí s.á. Loks var deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar samþykkt af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar 8. mars 2012 og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl s.á.

Í mars 2008 barst Skipulagsstofnun tillaga Landsnets að matsáætlun vegna háspennulína (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Samþykkti stofnunin áætlunina með athugasemdum 29. maí s.á. Samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008 fór fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, stækkun Kröfluvirkjunar og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur. Matsáætlun framkvæmdaraðila vegna þess mats var samþykkt af Skipulagsstofnun með athugasemdum 6. nóvember 2009. Frummatsskýrslur vegna fyrirhugaðra framkvæmda, þ.e. nefndra háspennulína, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og álvers við Bakka, sem og frummatsskýrsla vegna sameiginlegs mats framangreindra framkvæmda, voru allar auglýstar samhliða með athugasemdafresti til 14. júní 2010. Í kjölfarið voru matsskýrslur sendar Skipulagsstofnun og 24. nóvember s.á. lágu fyrir lögbundin álit hennar á mati á umhverfisáhrifum hverrar framkvæmdar fyrir sig, sem og á sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum þeirra. Er í álitunum gerð grein fyrir framkvæmdum þeim sem metnar eru, matsferlinu og helstu þáttum þess, umsögnum, athugasemdum og öðru því er málið varðar. Fallið hefur verið frá byggingu álvers á Bakka, en mat á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmverksmiðju við Bakka hefur einnig farið fram.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum framkvæmdanna „Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Jarðstrengur (132 kV) frá Bjarnarflagi að Kröflu; Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit“ á umhverfið er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum álitsins og eru þær dregnar saman svo: „Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði á þeim kafla þar sem háspennulínur munu liggja frá tengivirki á Hólasandi, um Þeistareyki og um Jónsnípuskarð. Sérstætt náttúrufar er við Þeistareyki og er svæðið á Náttúruminjaskrá og hluti þess nýtur einnig hverfisverndar samkvæmt Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Einnig eru Þeistareykir vel grónir í samanburði við hraun í nágrenninu og þar vaxa jurtir, sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Skipulagsstofnun telur að þó Landsnet muni stýra framkvæmdum þannig að þær dragi úr neikvæðum áhrifum á sérstætt landsvæði við Þeistareyki muni framkvæmdir engu að síður hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á svæðið við Þeistareyki. Skipulagsstofnun telur ljóst að háspennulínur og slóðir um Þeistareykjahraun muni liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í hrauninu. Þá munu mannvirkin skipta hrauninu í tvo nokkuð jafna hluta og við það breytist heildarsýn hraunsins varanlega og einnig samfelld heildarsýn hrauna til suðurs frá Höfuðreiðarmúla, meðfram Lambafjöllum og langleiðina niður á Hólasand. Því telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslagsheild Þeistareykjahrauns. Þá telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa talsvert neikvæð og varanleg áhrif á Leirhnjúkshraun. Skipulagsstofnun telur ljóst að skipulagðar ferðir fólks um láglendið milli Lambafjalla í vestri og Gæsafjalla til Bæjarfjalls í austri byggja m.a. á því að landið er lítt snortið og fólk upplifir fjallasalinn sem víðerni. Háspennulínur verða samsíða göngu- og reiðleiðum um Hólasand að Þeistareykjum og telur Skipulagsstofnun að koma línanna muni breyta verulega upplifun fólks frá því sem verið hefur. Því telur Skipulagsstofnun að ferðamenn sem vilja m.a. njóta víðernisins þar verði fyrir verulega neikvæðum áhrifum af fyrirhuguðum háspennulínum. Skipulagsstofnun telur ljóst að á tveimur línuleiðum sem hvor um sig eru um 60 km langar þarf að leggja 95 km langt slóðakerfi og leggja plön og háspennumöstur sem verða að miklu leyti á grónu landi. Skipulagsstofnun telur því að framkvæmdirnar verði umfangsmiklar og muni hafa talsvert neikvæð áhrif á gróður. Skipulagsstofnun telur að áhrif fyrirhugaðra háspennulína á fuglalíf verði helst vegna áflugs rjúpna á línur á þeim svæðum sem rjúpan er þéttust. Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja eftirfarandi skilyrði: 1. Landsnet þarf að tryggja að framkvæmdir auki ekki eyðingu gróðurs á svæði sem nú er eitt virkasta rofsvæði landsins. 2. Ef votlendi verður raskað þarf Landsnet að endurheimta a.m.k. jafnstórt votlendissvæði og það sem raskast. 3. Landsnet þarf að tryggja að sjaldgæfum plöntum við Þeistareyki verði hlíft eins og kostur er og að staðsetning háspennumastra og lega slóða taki mið af staðsetningu þeirra og einnig umferð meðan á framkvæmdum stendur. Þá þarf Landsnet að tryggja að framkvæmdir trufli ekki varp fálka á svæðinu með því að halda framkvæmdum utan varptíma. 4. Landsnet þarf í samráði við Fornleifavernd ríkisins að tryggja að ekki verði raskað fimm fornleifum í landi Þeistareykja og átta fornleifum nálægt Bakka, sem lýst er í matsskýrslu. 5. Landsnet þarf að leggja fram áætlun um rannsóknir á umfangi áflugs fugla á raflínur og að niðurstöður rannsóknanna verði bornar undir Umhverfisstofnun.“ 

Á fundi skipulagsnefndar Skútustaðahrepps 18. apríl 2016 var tekin fyrir umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, 220 kV háspennulínu. Bókað var að sótt væri um leyfið á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Einnig að framkvæmdin sé matsskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og sé matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar fyrirliggjandi. Sótt sé um framkvæmdina á grundvelli Aðalskipulags Skútustaðahrepps 2011-2023, þar sem gert sé ráð fyrir háspennulínum. Í aðalskipulagi nágrannasveitarfélaganna Norðurþings og Þingeyjarsveitar sé einnig gert ráð fyrir framkvæmdinni. Meðfylgjandi séu gögn vegna umsóknarinnar, sbr. sérstaklega 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Lýsing mannvirkja vegna útgáfu framkvæmdaleyfis, dags. í mars 2016, sem sé aðalþáttur gagnanna sé tekin saman f.h. Landsnets og vísað sé til hennar um frekari skýringar og lýsingar á framkvæmdinni. Lýsingin sé þannig hluti umsóknarinnar. Er síðan eftirfarandi bókað um afgreiðslu málsins: „Skipulagsnefnd hefði talið æskilegra að leggja línuna að einhverju leyti í jörðu þar sem hún er mest áberandi. Nefndin leggst þó ekki gegn framkvæmdinni þar sem hún er í samræmi við Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023 og fyrirhuguð framkvæmd uppfyllir skv. áliti Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember 2010 skilyrði 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda vegna sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álvers á Bakka, Þeistareykjavirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Húsavík. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að umsókn Landsnets vegna Kröflulínu 4 verði samþykkt og jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.“

Á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 20. apríl 2016 var fundargerð skipulagsnefndar lögð fram og staðfest. Jafnframt var bókað sérstaklega að sveitarstjórn samþykkti umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4 og var skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins falið að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Loks var bókað: „Sveitarstjórn áréttar bókun skipulagsnefndar að æskilegra hefði verið að hluti línunnar hefði verið lagður í jörð þar sem um er að ræða óraskað land.“ Skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps gaf út umrætt framkvæmdaleyfi 2. maí 2016. Hefur framangreind ákvörðun sveitarstjórnar verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður hefur komið fram.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim ágöllum að hún sé ógildanleg. Hafi stjórnsýslulög verið brotin við undirbúning og töku ákvörðunarinnar, auk þess sem hún fari í bága við almenna náttúruverndarlöggjöf á Íslandi, sérlög um verndun Mývatns og Laxár, skipulagslöggjöf og lög um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdinni sé fyrirhuguð á svæðum er njóti sérstakrar verndar skv. a-lið 2. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, svo sem Leirhnjúkshrauni, sem sé eldhraun sem myndast hafi í Mývatnseldum 1726-1728. Við umfjöllun og afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfið hafi sveitarstjórninni borið skv. 3. mgr. 61. gr. laganna að forðast að raska jarðminjum í eldhrauninu. Samkvæmt ákvæðinu hafi sveitarstjórninni einnig borið að gæta ákvæða 4. og 5. mgr. 61. gr við ákvarðanatökuna og hafi henni þannig borið að líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. náttúruverndarlaga og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu þeirra í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Mikið og varanlegt tjón yrði af línuvegum þeim er leggja eigi í gegnum Leirhnjúkshraun, sem sé ósnortið vestan til, en vegirnir eigi samkvæmt leyfisbeiðni að vera 6,5 m á breidd. Þá yrði umfang hins óafturkræfa rasks gífurlegt af gerð hinna steyptu undirstaða undir hvert einasta mastur, auk plægingar vegna jarðskauta. Í 9. gr. náttúruverndarlaga hafi verið lögfest svokölluð varúðarregla og hafi sveitarstjórn borið að líta til hennar og láta náttúruna njóta vafans þegar ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis hafi verið tekin.

Ekki hafi verið metið hvaða áhrif t.d. jarðstrengur hefði miðað við að hann yrði lagður eftir þeirri lagnaleið sem minnst umhverfisáhrif hefði. Skoða hefði átt mismunandi lausnir en ekki skýra vafa um hvort jarðstrengur væri raunhæfur kostur leyfishafa í hag.

Í leyfisbeiðni komi fram að gert sé ráð fyrir að halda umfangi slóða og plana í lágmarki og útboðsgögn séu miðuð við það. Þrátt fyrir að útboð á jarðvinnu hafi þá þegar farið fram hafi engar upplýsingar fylgt beiðninni um þessa skilmála í útboðsgögnum. Umhverfisstofnun hafi í mati því á umhverfisáhrifum er fram hafi farið 2010 lýst verulegum áhyggjum af bæði réttmæti ályktana leyfishafa um umfang línuveganna, sem og hinum miklu, varanlegu og óafturkræfu áhrifum af þeim í Leirhnjúkshrauni. Hefði þetta átt að gefa sveitarstjórn Skútustaðahrepps enn ríkara tilefni til að kanna sjálfstætt þessi atriði. Við afgreiðslu sveitarstjórnar hafi ekki í neinu verið gætt framangreindra ákvæða náttúruverndarlaga og leyfið því haldið verulegum annmörkum.

Við gildistöku laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu hafi annars vegar vatnasvið Mývatns og Laxár verið verndað með ákvæði í 2. gr. laganna en hins vegar hafi öðrum svæðum í Skútustaðahreppi verið vísað til tiltekinnar meðferðar, skv. bráðabirgðaákvæði II í lögunum, er lokið skyldi fyrir 1. janúar 2008. Þeirri meðferð sé enn ólokið. Tiltekin svæði er falli undir umrætt bráðabirgðaákvæði hafi verið friðlýst á undanförnum árum en önnur ekki en ekki sé gert ráð fyrir að farið sé í framkvæmdir á þeim svæðum sem friðlýsa eigi. Eitt þeirra svæða er til standi að friðlýsa sé Leirhnjúkshraun. Sérstakar skyldur hvíli á Skútustaðahreppi að huga að framangreindri verndarlöggjöf og áætlunum þegar teknar séu ákvarðanir um framkvæmdir en það hafi ekki verið gert.

Í 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé áskilið að við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar kynni sveitarstjórn sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanni hvort hún sé sú sem lýst sé í matsskýrslu. Ekki sé heimilt að víkja frá lagaskyldu um þá könnun. Fyrir liggi fordæmi Hæstaréttar Íslands um það að ekki skipti máli þótt framkvæmd sú sem sótt er um sé minni að umfangi en sú sem metin hafi verið, sbr. dóm réttarins frá 9. júní 2005, mál nr. 20/2005. Túlka megi niðurstöðu dómsins þannig að sé búið að meta umhverfisáhrif framkvæmdar sem síðan breytist áður en nokkurt leyfi hafi verið gefið út beri að framkvæma nýtt mat á umhverfisáhrifum þótt margt megi nota úr eldra mati. Það mat sem fylgt hafi leyfisumsókn, sem og álit Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember s.á., varði sameiginlegt mat á framkvæmdum fleiri aðila, Alcoa og Landsvirkjunar. Hætt hafi verið við álver á Bakka árið 2012 en ekki verði á neinn hátt séð að sveitarstjórnin hafi litið til þessa við þá könnun er henni hafi borið að gera í aðdraganda ákvörðunar sinnar. Hljóti framangreindar breytingar á fyrirætluðum framkvæmdum þó að hafa gefið sérstakt tilefni til sjálfstæðrar og vandaðrar könnunar á því hvort um sömu framkvæmd væri að ræða og mat á umhverfisáhrifum frá 2010 hafi lotið að. Af umræddri matsskýrslu, er sveitarstjórn hafi vísað til í ákvörðun sinni, megi glöggt ráða að um aðra framkvæmd sé að ræða en þá sem Landsnet hafi sótt um til sveitarstjórnar Skútustaðahrepps. Nægi í raun að lesa samantekt á fyrstu fimm síðum matsskýrslunnar til að sjá að svo sé. Þannig bendi ýmislegt til þess að þeim mannvirkjum sem framkvæmdaraðili hafi óskað leyfis fyrir sé ætlað annað hlutverk og séu annars eðlis en þær framkvæmdir er lagðar hafi verið til grundvallar við gerð áðurnefnds mats á umhverfisáhrifum frá 2010.

Kærendur benda á að ekki sé hægt að líta svo á að hin kærða leyfisveiting sé framhald og lokaáfangi málsmeðferðarinnar sem fram hafi farið á árunum 2008 til og með 2010, í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Vísa megi til dóms Evrópudómstólsins í máli C-50/09 í samningsbrotamáli gegn Írlandi um þá túlkun tilskipunar 85/337/EBE (nú 2011/92/ESB), sem íslensku lögin séu innleiðing á, að málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum ljúki með ákvörðun um leyfi. Þannig sé um málsmeðferð að ræða sem hefjist með tilkynningu um framkvæmd til Skipulagsstofnunar og ljúki þegar leyfisveitandi taki ákvörðun um að veita eða hafna leyfi. Ef þetta sé borið saman við málsmeðferð þessa máls ætti sú framkvæmd sem framkvæmdaraðili hafi tilkynnt Skipulagsstofnun um árið 2008 að hafa lokið með umsókn um framkvæmdaleyfi það sem kært hafi verið.

Hvað varði efnislegan mun á framkvæmdum þeim sem farið hafi í mat á umhverfisáhrifum 2008 og framkvæmdum samkvæmt hinu kærða leyfi liggi ekkert fyrir um hvað síðartalda framkvæmdin feli í sér um efnistökustaði eða nánara fyrirkomulag og staðsetningu vegalagningar. Í þeim gögnum sem liggi fyrir opinberlega um þann þátt er boðinn hafi verið út í janúar 2016 sé tekið fram að línuleiðin sé 61 km og fjöldi mastra 193 og virðist þar átt við bæði Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1. Af þessu megi ráða að ekki sé alfarið um sömu framkvæmd að ræða og í matsskýrslunni frá 2010, sem vísað sé til, en í henni komi fram að raflínur séu 120 km, vegslóðar 95 km og möstur 375.

Af framangreindu að dæma hafi sveitarstjórn Skútustaðahrepps haft ærna ástæðu til að kanna það alveg sérstaklega hvort hér væri í raun um sömu framkvæmdina að ræða. Auk þess hefði sveitarstjórn mátt vera kunnugt um að kærendur hefðu báðir lagt fram kröfu til Skipulagsstofnunar um að ákvörðun yrði tekin um nýtt mat á umhverfisáhrifum fyrir háspennulínur frá Kröflu að Bakka, með vísan til þess að um nýja framkvæmd væri að ræða. Báðum kröfunum hefði hinsvegar verið vísað frá þar sem stofnunin hefði ekki talið kærendur eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Hluti eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar hafi hafnað loftlínu um jörð sína og krafist nýs mats auk þess sem eignarnámskrafa framkvæmdaraðila til jarðarinnar, frá því í september 2015, sé enn til umfjöllunar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, eins og komi fram í leyfisbeiðni. Sveitarstjórn hafi mátt vera kunnugt um allt framangreint og hafi henni borið enn ríkari skylda en ella til að kanna nákvæmlega hvort um væri að ræða sömu framkvæmd og metin hefði verið. Þá rannsókn hafi borið að framkvæma sjálfstætt en ekki á grundvelli einhliða gagna frá framkvæmdaraðila.

Í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga sé áskilið að sveitarstjórn, þegar hún hafi gengið úr skugga um að framkvæmdin sé sú sama og lýst sé í matsskýrslu, taki rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Hvorki bókun sveitarstjórnar né bókun skipulagsnefndar, framkvæmdaleyfið sjálft eða önnur gögn er hafi legið fyrir sveitarstjórn við töku hinnar kærðu ákvörðunar beri með sér að sveitarstjórn hafi tekið rökstudda afstöðu til þess mats er fyrir hafi legið. Sé þó afar margt í því mati á umhverfisáhrifum sem taka hefði þurft afstöðu til, ekki síst umhverfisáhrif á óröskuðu svæði. Það hafi sveitarstjórnin ekki gert og sé málsmeðferðin því ólögmæt.

Í umhverfisrétti gildi sú meginregla, mótuð af dómstólum, að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum þeirra. Eitt elsta fordæmi um þetta hafi Evrópudómstólinn sett með dómi sínum 24. október 1996 í máli C-72/95. Síðari dómaframkvæmd Evrópudómstólsins á sviðinu sé einnig afdráttarlaus um að hafna beri öllum tilraunum til að þrengja gildissvið laga um mat á umhverfisáhrifum. Hafi sveitarstjórn Skútustaðahrepps borið við undirbúning ákvörðunar sinnar að taka mið af markmiði umhverfislöggjafar og skýringarkostum hennar.

Almennar reglur stjórnsýsluréttarins og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildi eftir því sem við eigi um veitingu framkvæmdaleyfis. Sveitarstjórn hafi haft ærið tilefni til að rannsaka málið gaumgæfilega áður en ákvörðun hafi verið tekin en það hafi ekki verið gert. Auk þess sem beinlínis hafi verið skylt samkvæmt náttúruverndarlögum að leita m.a. umsagnar Umhverfisstofnunar áður en ákvörðun hafi verið tekin um leyfisveitingu. Hafi umsagnir þeirrar stofnunar í mati á umhverfisáhrifum frá 2010 gefið sveitarstjórninni fullt tilefni til að leita álits hennar en stofnunin hafi veitt afar neikvæða umsögn varðandi óafturkræft rask í Leirhnjúkshrauni. Þá hafi ekki aðeins verið eðlilegt heldur skylt, samkvæmt lögum nr. 97/2004, að hafa samráð við umhverfis- og auðlindaráðherra sem æðsta stjórnvald skipulags- og umhverfismála áður en beiðni um hið umdeilda framkvæmdaleyfi væri samþykkt.

Fram komi í bókun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 20. apríl 2016, að hún telji jarðstreng heppilegri kost en loftlínu á hluta leiðar. Þrátt fyrir þá afstöðu, og það að sveitarstjórninni hafi verið fullkunnugt um að ekki hefði verið kannað leiðarval slíks kosts, áhrif hans á umhverfið hefðu ekki verið metin og ekki hefði verið rannsakaður kostnaður, þ. á m. þjóðhagslegur kostnaður skv. 1. gr. raforkulaga nr. 65/2003, hafi hún veitt leyfið. Þá hafi sveitarstjórn hlotið að vera kunnugt um þá kröfu Skipulagsstofnunar að umhverfisáhrif jarðstrengs yrðu metin, í matsáætlun fyrir Kröflulínu 3, sem leggja eigi innan sveitarfélagsins frá Kröflu austur í Fljótsdal, sbr. og úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í því máli, uppkveðnum 7. maí 2015.

Málið hafi almenna þýðingu fyrir náttúru Íslands og orðspor landsins, fyrir alla Íslendinga og einnig erlenda ferðamenn og vísindamenn er heimsæki Ísland. Óumdeilt sé að náttúrufegurð við Mývatn sé einstök og sé Mývatnssveit einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Þá séu hagsmunirnir stórfelldir en um sé að ræða svæði þar sem fyrirhugað sé að vinna veruleg og óafturkræf spjöll. Löggjafinn hafi viðurkennt að verndun jarðmyndana og landslags á svæðum við Mývatn, sem mál þetta fjalli um, varði mikilvæga almannahagsmuni.

Málsrök Skútustaðahrepps: Skútustaðahreppur krefst þess að hafnað verði kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar hreppsins frá 20. apríl 2016 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4.

Kærendur vísi til þess að ákvæði náttúruverndarlaga nr. 60/2013 hafi verið brotin. Óljóst sé að lögin hafi þá þýðingu í máli vegna framkvæmdaleyfis sem kærendur byggi á. Í 91. gr. laganna sé fjallað um ágreining um framkvæmd þeirra. Þar sé gert ráð fyrir að tilteknar ákvarðanir Umhverfisstofnunar séu kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að aðrar ákvarðanir skuli kærðar til ráðherra, sem fari með yfirstjórn náttúruverndarmála skv. 13. gr. laganna. Í máli því sem nú sé til meðferðar falli það utan heimilda úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að fjalla um málsástæður kærenda sem varði framkvæmd náttúruverndarlaga.

Kærendur vísi einnig til 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. lög nr. 109/2015. Breytingarnar séu hluti af lagabreytingum sem gerðar hafi verið samhliða breytingum á náttúruverndarlögum. Þar segi að ef óvissa sé um hvort fyrirhugaðar framkvæmdir hafi alvarleg eða óafturkræf áhrif á tiltekin vistkerfi og jarðminjar, sem njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd eða minjar sem skráðar séu á C-hluta náttúruminjaskrár skv. 37. gr. sömu laga, skuli umsækjandi um framkvæmdaleyfi afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi eða jarðminjar. Sveitarstjórn sé heimilt að binda framkvæmdaleyfi skilyrðum sem þyki nauðsynleg til að draga úr slíkum áhrifum. Við mat á því hvað teljist alvarleg eða óafturkræf áhrif skuli taka mið af verndarmarkmiðum 2. og 3. gr., sbr. 9. gr. laga um náttúruvernd.

Ákvæði 13. gr. skipulagslaga sé sérregla um framkvæmdaleyfi sem gangi framar eldri lagaákvæðum náttúruverndarlaga, sem feli í sér óljósar kröfur um frekara umsagnarferli. Við umfjöllun Skútustaðahrepps um umsókn um framkvæmdaleyfi hafi ekki verið til staðar óvissa um framkvæmdina. Áhrif framkvæmdarinnar hafi verið vel þekkt eftir mat á umhverfisáhrifum. Þess skuli einnig getið að umsagnir fagstofnana um mögulega lagnaleið hafi farið fram a.m.k. þrívegis. Fyrst hafi verið framkvæmt mat við gerð svæðisskipulags fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslum á árinu 2007, í annað sinn við gerð Aðalskipulags Skútustaðahrepps 2011-2023 og loks við mat á umhverfisáhrifum. Auk framangreinds sé gerð grein fyrir framkvæmdinni á deiliskipulagi fyrir stækkun Kröfluvirkjunar. Þá sé framkvæmdin hluti af öðrum áætlunum sem viðkomandi stofnanir hafi veitt umsagnir um, t.d. kerfisáætlun Landsnets. Það sé mistúlkun á lögum að telja að sömu aðilarnir ættu að veita umsagnir í fjórða eða fimmta skiptið.

Deiliskipulag vegna stækkunar Kröfluvirkjunar hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní 2014. Deiliskipulagið taki til svæðis umhverfis Kröflustöð og geri grein fyrir Kröflulínu 4 og legu hennar. Aflað hafi verið umsagna vegna þessa skipulags, sbr. 68. gr. náttúruverndarlaga.

Leirhnjúkshraun sé ekki á náttúruminjaskrá og sé því ljóst að 37. gr. náttúruverndarlaga eigi aldrei við um leyfisveitingar á svæðinu. Leirhnjúkshraun geti fallið undir 61. gr. laganna um vernd sérstakra jarðminja. Ákvæði 61. gr. gildi um framkvæmdaleyfi hvort sem mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram eða ekki. Um sé að ræða almennt ákvæði sem víki ekki sérreglum skipulagslaga til hliðar. Í tilvikum þar sem ekki þurfi samþykkt deiliskipulag fyrir framkvæmd hafi vísun náttúruverndarlaga til deiliskipulags ekki þýðingu, enda hafi þá verið aflað umsagna sem lúti beinlínis að framkvæmd og séu því í raun sértækari en umsagnir um deiliskipulag. Greinin vísi til umsagna skv. 2. mgr. 68. gr. laganna en þar segi að við gerð deiliskipulags á náttúruverndarsvæðum, á svæðum sem njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. og frummatsskýrslu framkvæmdaraðila vegna mats á umhverfisáhrifum skuli leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefnda.

Þegar framkvæmd sé háð mati á umhverfisáhrifum hafi átt sér stað sambærilegt umsagnarferli og við gerð deiliskipulags. Taki 61. gr. náttúruverndarlaga tillit til þessa með vísun í 2. mgr. 68. gr. en augljóst sé að ekki þurfi að endurtaka umsagnarferli sem fram hafi farið við mat á umhverfisáhrifum í tilvikum þar sem skipulagslög geri ráð fyrir að heimilt sé að matsskyld framkvæmd fari fram án deiliskipulags.

Gildissvið laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu komi fram í 2. gr. en þar segi að lögin taki til Mývatns og Laxár ásamt 200 m breiðum bakka auk vatnsverndarsvæðis. Framkvæmdasvæði umdeilds framkvæmdaleyfis falli utan gildissviðs laganna. Verndaráætlun sem gerð sé samkvæmt lögunum taki til Skútustaðahrepps alls en ekki verði séð að umdeild framkvæmd sé í ósamræmi við gildandi verndaráætlun 2011-2016.

Kærendur byggi á því að 14. gr. skipulagslaga hafi ekki verið fylgt við ákvörðun Skútustaðahrepps en einkum hafi þar vantað upp á rannsókn sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Með umsókn Landsnets hafi fylgt ítarleg lýsing framkvæmdar en þar komi m.a. fram að um sé að ræða eina háspennulínu í stað tveggja, sbr. mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2010. Ekki sé með nokkrum hætti um að ræða eðlismun á framkvæmdum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 20/2005, þar sem meginrök fyrir niðurstöðu hafi hvílt á því að nýr framkvæmdaraðili hafi að einhverju leyti ætlað að nota aðra tækni við framleiðslu en sá er áður hafði unnið að mati á umhverfisáhrifum vegna umfangsmeiri framleiðslu.

Skipulagsnefnd og sveitarstjórn Skútustaðahrepps hafi tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar með bókunum um að æskilegra hefði verið að leggja línuna að einhverju leyti í jörð. Bókunin vísi til þess að framkvæmdin, eins og henni hafi verið lýst í umsókn framkvæmdaraðila, teljist falla undir þá framkvæmd sem mat á umhverfisáhrifum hafi snúist um. Sveitarfélagið geti ekki fallist á þau rök kærenda að það hafi kallað á frekari umfjöllun, hvað þá að að ástæða hafi verið til að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi, að leyfisumsóknin lýsi umfangsminni framkvæmd en matið hafi tekið til. Slík niðurstaða væri í hæsta máta órökrétt.

Vísað sé til þess í kæru að deiliskipulag fyrir framkvæmdinni hafi ekki legið fyrir, andstætt ákvæðum skipulagslaga og náttúruverndarlaga. Skútustaðahreppur árétti að náttúruverndarlög fjalli ekki um kröfur til gerðar deiliskipulags. Í samræmi við 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga sé ekki fortakslaus skylda til að deiliskipulag liggi fyrir við útgáfu framkvæmdaleyfis. Þá sé ekki fortakslaus skylda til þess að grenndarkynning fari fram, enda sé gerð grein fyrir framkvæmd í aðalskipulagi og ítarlega fjallað um hana þar. Því sé ekki þörf á frekari skipulagsáætlun við útgáfu framkvæmdaleyfis samkvæmt skipulagslögum. Ekki tíðkist að unnið sé sérstakt deiliskipulag vegna raflína í slíkum tilfellum, enda falli þær almennt illa að þeirri meginforsendu deiliskipulags að varða afmarkaða reiti innan sveitarfélags. Afmörkun landnota raflínu í aðalskipulagi sé lýsandi og beri að hafa í huga að jafnan geti einnig farið þar fram önnur landnotkun, t.d. landbúnaður.

Þess skuli getið að leyfishafi hafi kynnt framkvæmdina fyrir hlutaðeigandi landeigendum en ekki sé um það að ræða að aðrar jarðeignir liggi í grennd við svæðið. Markmið grenndarkynningar sé að kynna eigendum aðliggjandi- og/eða nágrannaeigna mögulega framkvæmd, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, en slíkt geti ekki átt við í tilviki sem þessu. Þá hafi leyfishafi haldið almenna kynningarfundi um málið fyrir íbúa hreppsins og loks hafi framkvæmdin verið kynnt á fundi með sveitarfélaginu í febrúar 2016, m.a. fulltrúum skipulagsnefndar.

Því sé hafnað að sveitarfélagið hafi ekki uppfyllt kröfur rannsóknarreglu við útgáfu framkvæmdaleyfis. Umfjöllun um framkvæmdina hafi verið inni á borði skipulagsnefndar með ýmsum hætti á undanförnum árum, m.a. við samþykkt aðalskipulags Skútustaðahrepps á árinu 2012 og kynningarfundum áður en framkvæmdaleyfisumsókn hafi komið til meðferðar. Með umsókn leyfishafa fylgi lýsing framkvæmdarinnar. Skútustaðahreppur hafi tekið rökstudda afstöðu til málsins með þeim hætti sem nægjanlegt hafi verið, enda bersýnilegt að framkvæmdin væri nánast helmingun á þeirri framkvæmd sem hefði verið metin. Þetta hefði ekki kallað á ítarlegri rökstudda afstöðu en hreppurinn hefði bókað um. Það sé í grundvallaratriðum jákvætt ef framkvæmdaraðili geti minnkað umfang framkvæmdar sem mat á  umhverfisáhrifum hafi verið gert fyrir, sérstaklega ef álit Skipulagsstofnunar feli í sér að framkvæmd hafi í för með sér mikil umhverfisáhrif og þar lagðar til mótvægisaðgerðir. Ekki verði séð að lagarök standi til þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram við slíkar aðstæður, enda sé eðli framkvæmdarinnar hið sama. Ekki sé þáttur í rannsóknarskyldu sveitarfélags að endurskoða framkvæmd mats á umhverfisáhrifum en málsástæður kærenda lúti í raun að því.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir þær athugasemdir við framkomna kæru að dregin sé upp röng mynd af málinu. Umrædd framkvæmd hafi sætt vönduðum undirbúningi sem staðið hafi í um áratug og farið eftir öllum lögboðnum ferlum. Þannig sé byggt á staðfestu Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem unnið hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Auk þessa sé framkvæmdin í samræmi við staðfest aðalskipulag þeirra sveitarfélaga sem hlut eigi að máli og sé þessa vandlega getið í Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023. Þá hafi framkvæmdin sætt sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum á grundvelli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, auk sameiginlegs mats með öðrum tengdum framkvæmdum, sbr. tvö álit Skipulagsstofnunar, dags. 24. nóvember 2010. Loks hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun Landsnets þar sem m.a. sé fjallað um áformaðar framkvæmdir leyfishafa. Þessir ferlar skapi öllum rétt til að koma ítrekað á framfæri athugasemdum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Kærendur hafi ekki nýtt sér þennan lögbundna rétt sinn heldur komið með athugasemdir sínar eftir að samráðsferlum hafi verið lokið. Með þessu hafi þeir sýnt af sér tómlæti sem ekki verði litið framhjá í málinu.

Framkvæmdin sé m.a. tilkomin vegna opinberrar stefnumörkunar stjórnvalda um uppbyggingu iðnaðar með nýtingu virkjunarkosta á svæðinu, en fyrir liggi m.a. viljayfirlýsingar stjórnvalda og opinberar áætlanir um aðkomu að framkvæmdum tengdum iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þannig sé í stefnumótandi byggðaáætlun og lögum nr. 41/2013 um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, kveðið á um stuðning og heimildir til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi á svæðinu. Með hliðsjón af lagaskyldum sínum samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003, til að tengja alla þá sem eftir því leita, hafi leyfishafi m.a. gengið frá samningum við annars vegar Landsvirkjun um tengingu Þeistareykjavirkjunar og hins vegar PCC vegna flutnings raforku til verksmiðju félagsins að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þessir aðilar eigi verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta af framkvæmdunum. Þjónusta við starfsemi þessara aðila sé einnig grundvöllur að uppbyggingu innviða á svæðinu og því gildi það sama um stjórnvöld sem tengist innviðauppbyggingunni fjárhagslega. Ekki verði séð að þeim hafi verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða gæta hagsmuna sinna.

Í kæru sé því haldið fram að allt stefni í það að óbreyttu að Leirhnjúkshrauni verði raskað á óafturkræfan hátt með vegagerð og gerð undirstaða undir háspennumöstur. Taldir séu upp staðir sem dragi að sér ferðamenn og því haldið fram að allir þessir staðir séu meðal þeirra er beri að friðlýsa skv. bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Þeir hagsmunir sem tilgreindir séu í kæru séu óljósir og erfitt að henda reiður á þeim, sérstaklega ef þeir séu bornir saman við þá hagsmuni sem leyfishafi hafi af því að af framkvæmdum verði. Fyrir liggi að hugmyndir Umhverfisstofnunar um friðlýsingu á svæðinu hafi ekki gengið eftir, þrátt fyrir að friðlýsingu hafi átt að vera lokið fyrir 1. janúar 2006. Þá liggi fyrir staðfestar skipulagsáætlanir viðkomandi sveitarfélaga, sem feli í raun í sér að ekki geti að óbreyttu orðið af friðlýsingu þess svæðis sem um ræði. Þá þurfi friðlýsing ekki að fela í sér útilokun á framkvæmdum fyrirtækisins, eins og raunar komi fram í tillögum Umhverfisstofnunar frá árinu 2004, um friðlýsingu svæða sem falli undir umrætt bráðabirgðaákvæði laga nr. 97/2004, sbr. og t.d. 1. mgr. 44. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Enn fremur hafi leyfishafi náð samningum við stærstan hluta landeigenda og fengið opinber leyfi fyrir framkvæmdum. Þannig séu í raun engar forsendur til að friðlýsa umrætt svæði og hætta við eða breyta framkvæmdum. Slíkt myndi hafa í för með sér mikið tjón fyrir þá aðila sem að framkvæmdunum komi. Þessir réttmætu hagsmunir leyfishafa gangi framar almennum hagsmunum kærenda. Leirhnjúkshraun hafi ekki verið friðað en njóti eingöngu verndar á grundvelli 61. gr. náttúruverndarlaga.

Í lögum nr. 75/2004 um stofnun Landsnets sé kveðið á um að hlutverk félagsins sé að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga. Í raforkulögum sé m.a. kveðið á um að flutningsfyrirtækið skuli byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Fyrirtækið hafi eitt heimild til að reisa ný flutningsvirki en því beri að tengja alla þá sem eftir því sækist við flutningskerfið enda uppfylli þeir tæknileg skilyrði fyrir því.

Í ársbyrjun 2007 hafi samvinnunefnd um svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum hafið störf og hafi fulltrúar frá orkufyrirtækjum verið henni til ráðgjafar. Hafi svæðisskipulagið verið unnið með hliðsjón af þá nýjum lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Eftir að skipulagskostir hafi verið skilgreindir hafi verið lagt mat á umhverfisáhrif þeirra. Samvinnunefndin hafi síðan mótað skipulagsdrög á grundvelli þess mats. Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025 hafi verið staðfest af umhverfisráðherra 16. janúar 2008 en í skipulaginu séu afmörkuð landsvæði fyrir flutningslínur. Hafi verið unnið samkvæmt nefndu svæðisskipulagi síðan.

Framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi hafi hlotið umfjöllun í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Sameiginlegt mat hafi farið fram á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka, Þeistareykjavirkjunar, stækkunar Kröfluvirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Skipulagsstofnun hafi birt álit sitt á matsskýrslum í nóvember 2010, annars vegar á mati á umhverfisáhrifum álsvers á Bakka, háspennulína og virkjana við Kröflu og á Þeistareykjum og hins vegar mati á háspennulínum (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Þannig hafi framkvæmdir leyfishafa sætt bæði sameiginlegu mati með öðrum framkvæmdum og sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum framkvæmda leyfishafa einna og sér. Framkvæmdaáform leyfishafa hafi ekki breyst að neinu ráði frá mati á umhverfisáhrifum. Þær óverulegu breytingar sem fyrirhugaðar séu hafi verið tilkynntar Skipulagsstofnun sem hafi fjallað um þær í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000.

Sveitarfélögin á framkvæmdasvæðinu hafi öll sett flutningsvirkin inn á aðalskipulag á grundvelli Svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2015. Sé því m.a. um ítarlega umfjöllun að ræða í aðalskipulagi Skútustaðahrepps sem heimili útgáfu framkvæmdaleyfis, sbr. lokamálsl. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í apríl 2016 hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun Landsnets 2015-2024 í samræmi við ákvæði raforkulaga. Sé það niðurstaða stofnunarinnar að framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar uppfylli skilyrði 9. gr. a og b laganna. Nánar tiltekið komi fram í ákvörðuninni að stofnunin hafi metið allar framkvæmdir framkvæmdaáætlunarinnar með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku og sé það mat stofnunarinnar að framkvæmdir áætlunarinnar uppfylli nefnd markmið raforkulaga. Í köflum 5.2.2 og 5.2.3 í framkvæmdaáætluninni sé fjallað um línur vegna afhendingastaðar á Bakka og tengingar Þeistareykjavirkjunar við flutningskerfi. Kerfisáætlun Landsnets hafi hlotið umfjöllun í samræmi við lög um umhverfismat áætlana.

Það svæði sem kæra lúti að falli almennt utan gildissviðs laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laganna. Hins vegar sé í 3. mgr. 2. gr. kveðið á um að ákvæði laganna um gerð verndaráætlunar taki til Skútustaðahrepps alls, auk Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa ásamt 200 m breiðum bakka meðfram Laxá báðum megin. Slíka verndaráætlun beri Umhverfisstofnun ábyrgð á að gerð sé fyrir framangreint svæði og skuli þar m.a. fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, friðlýsingu náttúruminja, landnýtingu, umferðarrétt almennings og aðgengi ferðamanna að svæðinu. Verndaráætlun 2011-2016 fyrir Mývatn og Laxá hafi verið staðfest af umhverfisráðherra 14. maí 2011. Í tillögum Umhverfisstofnunar vegna verndarsvæðisins komi m.a. fram að verndartillagan geri ráð fyrir að virkjana- og iðnaðarsvæði samkvæmt staðfestu skipulagi verði undanskilið í friðlýsingu verndarsvæðisins.

Í Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 sé gert ráð fyrir Kröflulínu 4 auk annarra háspennulína. Megindrættir þessara flutningslína hafi verið ákvarðaðir í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025.

Vegna vísunar kærenda í dóm Hæstaréttar í máli nr. 20/2005 bendi leyfishafi á að engar umtalsverðar breytingar hafi orðið á framkvæmdaáformum hans frá því að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Þá séu að öðru leyti engin líkindi á milli framkvæmdaráforma leyfishafa og þeirrar framkvæmdar sem dómur Hæstaréttar hafi fjallað um og dómurinn hafi því ekkert fordæmisgildi hér.

Leyfishafi bendi á að hlutverk sveitarstjórna við útgáfu framkvæmdaleyfa sé ekki að endurskoða mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Skipulagsstofnun hafi fallist á frummatsskýrslu og skilað áliti á matinu, sem feli það í sér að matið hafi verið fullnægjandi og í samræmi við lög. Hlutverk sveitarstjórnar sé að kynna sér matsskýrslu leyfishafa um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu. Þá skuli sveitarstjórn taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um matið.

Fjallað hafi verið um slóðagerð í mati á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar sem framkvæmdaleyfið sé fyrir. Því sé rangt að borið hafi að tilkynna Skipulagsstofnun sérstaklega um vegagerð vegna framkvæmdarinnar. Jafnframt hafi verið fjallað um efnistöku í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Með þingsályktun nr. 11/144 hafi Alþingi samþykkt stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Stefnan feli í sér viðmið sem samkvæmt raforkulögum beri m.a. að leggja til grundvallar við töku ákvarðana um lagningu raflína. Samkvæmt þingsályktuninni skuli meginreglan í aðalflutningskerfi raforku vera sú að notast sé við loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Með tilliti til þessara sjónarmiða skuli meta í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að nota jarðstrengi á viðkomandi línuleið eða afmörkuðum köflum hennar, á grundvelli tiltekinna viðmiða sem réttlæti að dýrari kostur sé valinn. Þau viðmið séu ekki uppfyllt hvað varði umræddar framkvæmdir leyfishafa.

Athugasemdir kærenda um greinargerðir Skútustaðahrepps og leyfishafa:
Kærendur ítreka að Leirhnjúkshraun njóti verndar skv. 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og skv. bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Áréttað sé að kæran í málinu varði það hvort við ákvörðun um framkvæmdir við flutningskerfi rafmagns sé gætt markmiða og ákvæða skipulagslaga, laga um mat á umhverfisáhrifum, almennra náttúruverndarlaga og sérlaga um verndun Mývatns og Laxár, sem og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, sem Alþingi hafi samþykkt fyrir rúmu ári, svo og stjórnsýslulaga. Tilgangur kærunnar sé að tryggja að gætt sé allra lögmætra leiða til að vernda svæði sem almenni löggjafinn hafi ákveðið að njóta skuli sérstakrar verndar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi ítrekar fyrri málatilbúnað og kröfur og leggur jafnframt sérstaka áherslu á það tjón sem seinkun á fyrirætluðum framkvæmdum muni hafa í för með sér.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Með hliðsjón af því að fyrir úrskurðarnefndinni liggja mjög ítarleg gögn, m.a. uppdrættir og myndir, tölvugerðar sem og ljósmyndir, var ekki talið tilefni til að nefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi við úrlausn máls þessa.

Niðurstaða: Kröflulína 4 mun liggja í tveimur sveitarfélögum, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit, og um land þriggja jarða, Reykjahlíðar, Grímsstaða og Þeistareykja. Kærð er ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu þess hluta Kröflulínu 4 sem fyrirhugað er að leggja innan sveitarfélagsins. Hin kærða ákvörðun lá fyrir 20. apríl 2016, en undirbúningur framkvæmda vegna uppbyggingar iðnaðar á Bakka hefur staðið yfir í ríflegan áratug. Sem hluti af þeim undirbúningi fór fram mat á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Kröflulínu 4 og Hólasandslínu 2 sem nú ganga undir samheitinu Kröflulína 4, sem og Þeistareykjalínu 1. Þá voru áhrif háspennulínanna einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010 og svo sem greinir í málavaxtalýsingu var niðurstaða hennar að framkvæmdunum fylgdu um margt verulega neikvæð óafturkræf áhrif á umhverfið.

Um veitingu framkvæmdaleyfis, málsmeðferð og skilyrði er fjallað í skipulagslögum nr. 123/2010. Þannig gildir 13. gr. almennt um framkvæmdaleyfi en að auki kemur til kasta 14. gr. þegar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda er að ræða, en svo háttar hér. Er ljóst af ákvæðum laganna að vald til veitinga framkvæmdaleyfa liggur hjá viðkomandi sveitarstjórn að því gefnu að ákveðin málsmeðferð hafi átt sér stað og að uppfylltum skilyrðum sem nánar eru tilgreind í þeim lögum sem í gildi eru við ákvörðunartöku. Miðar framangreint að því að sveitarstjórn taki ákvörðun um veitingu leyfis á traustum grunni og líkt og endranær verða að búa að þar að baki lögmæt og málefnaleg sjónarmið. Þau lög sem líta verður til auk skipulagslaga eru einkum lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, lög  nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og náttúruverndarlög nr. 60/2013. Þá hvílir á leyfisveitanda ávallt sú skylda að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður nú fjallað um hvort skilyrðum til veitingar framkvæmdaleyfis hafi verið fullnægt í máli því sem hér er til úrlausnar.

Umhverfismat áætlana.

Með úrskurði umhverfis- og auðlindaráðherra uppkveðnum 21. maí 2013 var skorið úr um það að kerfisáætlun Landsnets sem unnin væri skv. 5. tl. 3. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 félli undir gildissvið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, en samkvæmt því ákvæði gilda lögin um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í samræmi við framangreint voru kerfisáætlanir Landnets 2014-2023 og 2015-2024 samþykktar af fyrirtækinu að undangengnu umhverfismati áætlana. Sú síðarnefnda var svo samþykkt af Orkustofnun 26. apríl 2016 í samræmi við nýja 9. gr. a. raforkulaga sem þá hafði tekið gildi. Báðar áætlanirnar hafa að geyma framkvæmdaáætlun til þriggja ára, þ.e. 2014-2016 og 2016-2018, þar sem m.a. er tekið fram að til standi að reisa 220 kV línu milli Þeistareykja og Bakka þar sem áform séu m.a. uppi um að byggja kísilver. Þá er tekið fram að Landsvirkjun undirbúi virkjun á Þeistareykjum og sé gert ráð fyrir að nýtt tengivirki rísi við virkjunina og lögð verði ný loftlína þaðan að Kröflu þar sem tenging virkjunarinnar við flutningskerfið verður. Í umhverfisskýrslum með áætlununum er fjallað um þessar framkvæmdir og tekið fram að sú umfjöllun sé byggð á matsskýrslu fyrirtækisins vegna háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík og áliti Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember 2010. Umhverfismat áætlana hefur þannig farið fram á kerfisáætlunum Landsnets bæði 2014-2023 og 2015-2024. Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um umhverfismat áætlana er m.a. tekið fram að markmið umhverfismats á áætlunarstigi sé að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Er rétt að taka fram að þrátt fyrir að rökrétt sé að umhverfismat áætlana fari fram á undan mati á áhrifum einstakra framkvæmda á umhverfið er það hvorki rökbundin nauðsyn né lögmælt að um sé að ræða nauðsynlegan undanfara slíks mats. Þá mæla lög ekki fyrir um það að afstaða sé tekin til umhverfismats áætlana við veitingu framkvæmdaleyfis og verður ekki séð að slíkt tilefni hafi verið fyrir sveitarstjórn, enda kom t.a.m. fram í umsókn um leyfið að Kröflulína 4 væri á framkvæmdaáætlun sem kynnt væri í Kerfisáætlun 2015-2024 og fylgdi viðeigandi hluti áætlunarinnar með umsókninni.

Framkvæmdaleyfisumsókn og samræmi við skipulagsáætlanir.

Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja nauðsynleg gögn sem nánar séu tiltekin í reglugerð. Sú reglugerð er nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í 7. gr. hennar er mælt fyrir um gögn vegna framkvæmdaleyfisumsóknar. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að framkvæmdaleyfisumsókn Landsnets og fylgigögn hennar hafi fullnægt framangreindum ákvæðum.

Þá skal sveitarstjórn við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Bókað var við afgreiðslu framkvæmdaleyfisumsóknar að fyrirhuguð framkvæmd samræmdist Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 og hefur úrskurðarnefndin gengið úr skugga um að svo sé, enda er þar t.a.m. skilgreint nýtt iðnaðarsvæði, þ.e. tengivirki á Hólasandi, einnig eru skilgreind efnistökusvæði og hverfisverndarsvæði auk þess sem flutningslínur raforku eru merktar á skipulagsuppdrætti. Þá liggur fyrir að við gerð aðalskipulagsins fór fram umhverfismat áætlana og að lögbundinna umsagna var leitað, t.a.m. Umhverfisstofnunar. Í aðalskipulaginu kemur og fram að það sé í samræmi við Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem það og er. Verður að telja að nefndri 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga hafi verið fullnægt að þessu leyti.

Deiliskipulag vegna stækkunar Kröfluvirkjunar í Skútustaðahreppi öðlaðist gildi 3. júní 2014 og gerir það m.a. ráð fyrir háspennulínum, þ. á m. hluta Kröflulínu 4, innan skipulagssvæðisins. Við samþykkt þess í sveitarstjórn 14. nóvember 2013 var staðfest fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 7. október s.á. þar sem bókað var að lagt væri til við sveitarstjórn að samþykkja deiliskipulagstillöguna „en þó með þeim fyrirvörum að Landsvirkjun verði ekki veitt framkvæmda- eða byggingarleyfi nema hún sýni fram á að hún hafi yfir landréttindum að ráða með vísan í dóm Hæstaréttar í máli nr. 560/2009“. Bókun sveitarstjórnar um þessa afgreiðslu er að finna sem viðauka í greinargerð deiliskipulagsins. Í umsókn um framkvæmdaleyfi kemur fram að náðst hafi samningar við landeigendur um umráð þess landssvæðis sem háspennulínan muni liggja um í landi Þeistareykja og Grímsstaða. Samningar hafi einnig náðst við mikinn meiri hluta landeigenda Reykjahlíðar, eða um 87% þeirra. Þar sem land Reykjahlíðar sé í óskiptri sameign, og ekki hafi náðst samningar við um 13% eigenda, hafi verið óskað heimildar iðnaðar- og viðskiptaráðherra til að framkvæma eignarnám á tilteknum landsréttindum í óskiptu landi Reykjahlíðar vegna framkvæmdarinnar. Ekki er tekin afstaða til þess við veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis hvort það samræmist deiliskipulaginu, sbr. nefnda 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Verður að telja að tilefni hafi verið til þess í ljósi afdráttarlausrar bókunar við samþykkt deiliskipulagsins, sem einnig er hluti þess, þrátt fyrir að annar framkvæmdaraðili sé nefndur þar en hér um ræðir. Verður að telja að framkvæmdaleyfið samræmist ekki skipulagsáætlunum hvað þetta varðar. Er þá einnig litið til þess að eignarrétturinn er friðhelgur skv. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár og að eignarnám hafði ekki farið fram áður en leyfi til framkvæmda var veitt fyrir línu sem m.a. er fyrirhuguð á því landi sem eignarnámsbeiðni laut að. 

Umsótt framkvæmd.

Í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga er m.a. mælt fyrir um að við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar skuli sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst er í matsskýrslu. Svo sem áður segir fór fram mat á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Kröflulínu 4, og voru áhrif þeirra einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010. Í umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi er vísað til þessa og fylgdi matsskýrsla og álit umsókninni. Við afgreiðslu málsins hjá skipulagsnefnd, sem staðfest var af sveitarstjórn, er fyrst almennt vísað til álits Skipulagsstofnunar án nánari tilgreiningar en síðar vísað til þess sameiginlega mats sem fór fram og álits stofnunarinnar vegna þess. Af hinu síðargreinda áliti ásamt þeim gögnum sem lágu því til grundvallar er ljóst að hver framkvæmd um sig sætti mati í samræmi við lög nr. 106/2000 auk þess sem fyrir lá heildarmat framkvæmdanna. Er þannig ekki ástæða til að ætla annað en að sveitarstjórn hafi kynnt sér bæði álitin og matsskýrslur sem þeim lágu að baki í samræmi við nefnda 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Þá verður að telja þau álit sem fyrir liggja í málinu jafngild, enda gera lög nr. 106/2000 ekki ráð fyrir því að sameiginlegt mat skuli fara fram með ákveðnum hætti og þá einvörðungu, eða að það hafi aðra réttarstöðu en mat á einstökum framkvæmdum hverri fyrir sig. Loks telur úrskurðarnefndin að þrátt fyrir að fallið hafi verið frá áformum um álver sé engum vafa undirorpið að mat það sem fram fór á háspennulínum sérstaklega greini frá áhrifum þeirra framkvæmda sem metnar voru, m.a. þeirri sem hér um ræðir. Skiptir ekki máli í því sambandi að ekki standi til nú að leggja allar þær línur sem matið tekur til. Liggur þannig ekkert annað fyrir en að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við það mat á háspennulínum sem farið hefur fram. Rétt er þó að geta þess að mat það sem fram fór á áhrifum háspennulína á umhverfið er ítarlegra en hið sameiginlega mat.

Ákvörðun sveitarstjórnar, forsendur og rökstuðningur.

Sveitarstjórn skal auk þess að kynna sér matsskýrslu í samræmi við áðurnefnda 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga einnig taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar eru lögbundin en ekki bindandi fyrir sveitarstjórn. Þau þurfa skv. lögum nr. 106/2000 að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að sveitarstjórn geti tekið ákvörðun um umsókn um framkvæmdaleyfi samkvæmt 14. gr. skipulagslaga að álitið fullnægi þeim lagaskilyrðum. Verður úrskurðarnefndin þannig að taka afstöðu til þess hvort álit Skipulagsstofnunar sé fullnægjandi að þessu leyti, enda er það liður í því að meta hvort hin kærða ákvörðun hafi verið reist á lögmætum grundvelli.

Nánar tiltekið skal Skipulagsstofnun innan fjögurra vikna frá því að hún tekur á móti matsskýrslu gefa rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Þá skal í álitinu gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu. Í 6. mgr. 10. gr. laganna kemur fram að framkvæmdaraðili skuli vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu og skuli þar gera grein fyrir framkomnum athugasemdum og umsögnum og taka afstöðu til þeirra. Í frummatsskýrslu skal svo ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman, sbr. fyrirmæli þar um í 2. mgr. 9. gr. laganna. Sama orðalag var áður viðhaft um efni matsskýrslu og í frumvarpi til laga nr. 106/2000 segir um þetta atriði að lagt sé til að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Einnig að þetta hafi mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum sé ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin. Af framangreindu verður að telja að álit Skipulagsstofnunar þurfi að taka til þessara atriða en jafnframt að framkvæmdaraðili hafi ákveðið forræði á því hvaða kosti, sem nái markmiðum framkvæmdar, hann leggi fram til mats, að teknu tilliti til þess að meta verði helstu möguleika svo markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum verði náð.

Í matsskýrslu er ítarlega fjallað um aðalvalkost framkvæmdaraðila, þ.e. þá línuleið og tilhögun sem hin kærðu leyfi öll taka til. Auk þess er fjallað um aðra þá kosti sem til greina komu samkvæmt endanlegri matsáætlun, þ.e. þá tilhögun að nota trémöstur vestan Lambafjalla, þá tilhögun að nota jarðstrengi sem og að tvöfalda línuleið um Hólasand. Þá var fjallað um núllkost. Mál þetta tekur ekki til línuleiðar vestan Lambafjalla og verður því ekki fjallað um þann kost að nota trémöstur á þeirri leið. Þá er ítarleg umfjöllun í matsskýrslu um tvöfalda línuleið um Hólasand. Er þar gerð grein fyrir umhverfisáhrifum hennar og þau borin saman við aðalvalkost í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 6. mgr. 10. gr., og gefur álit Skipulagsstofnunar hvað þennan valkost varðar ekki tilefni til athugasemda. Hins vegar er álitið að mati úrskurðarnefndarinnar haldið nokkrum ágöllum að öðru leyti hvað varðar umfjöllun um valkosti framkvæmdarinnar, eins og nú verður nánar gerð grein fyrir.

Einn af þeim kostum sem Landsnet lagði fram til mats var að leggja fyrirhugaðar línur sem jarðstrengi. Um jarðstrengi er fjallað með almennum hætti í tillögu fyrirtækisins að matsáætlun og þar tekið fram að í frummatsskýrslu verði gerð grein fyrir jarðstrengjalögnum, kostnaði, rekstri og umhverfisáhrifum í samanburði við loftlínur. Í endanlegri matsskýrslu fyrirtækisins er enn fjallað um jarðstrengi almennt en sú umfjöllun bætir litlu við það sem fram kemur í matsáætlun. Þannig er það eitt tiltekið um umhverfisáhrif jarðstrengja að sýnileiki loftlína sé augljóslega mun meiri en jarðstrengja, hins vegar sé umhverfisrask við lagningu þeirra mun meira en við lagningu loftlína og því sé lagning loftlínu afturkræfari framkvæmd en lagning jarðstrengja. Ljóst má vera að umfjöllun þessi fullnægir ekki þeim áskilnaði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 að gerð sér grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og þeir séu bornir saman. Fór enda enginn frekari samanburður fram. Þrátt fyrir þetta er í áliti Skipulagsstofnunar fjallað um aðra kosti til framkvæmdar í kafla 2.2 án þess að vikið sé í neinu að þessum framlagða kosti framkvæmdaraðila. Úrskurðarnefndin bendir jafnframt á að ekki verður séð að sérstakar rannsóknir hafi farið fram í tilefni matsins og er hvorki í tillögu að matsáætlun né matsskýrslu vitnað til heimilda þar um eða þeirra getið í heimildaskrá. Telja verður að sú aðferð að leggja fram jarðstrengi sem valkost án rannsókna eða tilvísan til heimilda um það hvernig þeir kæmu til greina við þá framkvæmd sem lögð var fram til mats, og án marktæks samanburðar við aðra valkosti, sé ekki viðunandi. Er ekki hægt að líta svo á að um raunverulegan valkost hafi verið að ræða, enda fór ekki fram sérstakt mat á áhrifum jarðstrengja sem valkost. Verður að telja að skort hafi á að Skipulagsstofnun hafi í áliti sínu gert viðhlítandi grein fyrir framangreindu og þar með forsendum mats á umhverfisáhrifum, svo sem henni bar að gera skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000.

Einnig er það að athuga við álit Skipulagsstofnunar að stofnunin lætur í ljós það álit sitt að framkvæmdaraðili eigi að kanna möguleika á annarri útfærslu á legu Þeistareykjalínu 1 sem geri ráð fyrir að línan fari fyrir Höfuðreiðarmúla í stað þess að fara um Jónsnípuskarð, en báðir kostirnir voru lagðir fram af Landsneti við gerð svæðisskipulags háhitasvæða. Ekki er hægt að líta svo á að hér sé um að ræða skilyrði fyrir framkvæmdinni eða frekari mótvægisaðgerðir, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, og er ljóst að ábending sem þessi hefði átt að koma fram fyrr í matsferlinu svo að framkvæmdaraðili ætti þess kost að bregðast við henni. Það er hins vegar álit úrskurðarnefndarinnar að af umhverfisskýrslu svæðisskipulags háhitasvæða verði ráðið að svo sem Skipulagsstofnun bendir á hafi báðir kostirnir neikvæð umhverfisáhrif. Telur úrskurðarnefndin að sú aðferð að leggja ekki valkost um leiðir fram til mats þar sem annað leiðarval sé bundið í skipulagsáætlunum sé ekki tæk þegar ljóst er af umhverfismati áætlana að báðar leiðirnar valdi neikvæðum umhverfisáhrifum án þess að frekari röksemdir eða rannsóknir búi þar að baki. Tilgangurinn með mati á umhverfisáhrifum framkvæmda er einmitt að leiða í ljós umhverfisáhrif mismunandi kosta og gera á þeim samanburð svo hægt sé að taka endanlega ákvörðun um leiðarval á traustum grunni. Er enda mikill munur á umhverfismati áætlana og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda hvað varðar nákvæmni mats, málsmeðferð og afgreiðslu þess. Um þetta segir nánar í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um umhverfismat áætlana að annars vegar sé um að ræða almennar ákvarðanir um meginstefnu og hins vegar sértækar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Markmið umhverfismats á áætlunarstigi sé að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Þar sem stefnumörkun á áætlanastigi sé yfirleitt almenns eðlis, samanborið við það sem eigi við um einstakar framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, verði að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega gróft mat, oft án þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram.

Þrátt fyrir þá annmarka sem úrskurðarnefndin telur vera á áliti Skipulagsstofnunar og að framan er lýst, verður eins og atvikum háttar í þessu tiltekna máli ekki litið svo á að annmarkarnir séu svo verulegir að á álitinu verði ekki byggt. Hefur þá verið höfð hliðsjón af  af því að mat það sem hér um ræðir var um margt ítarlegt og að kostir um mismunandi leiðarval voru metnir með fullnægjandi hætti. Verður því að telja að skilyrði hafi verið til meðferðar fyrirliggjandi umsóknar um framkvæmdaleyfi. Áður en til afgreiðslu hennar kom bar sveitarstjórn eftir atvikum að taka rökstudda afstöðu til þess hvort að nefndir annmarkar hefðu þýðingu við leyfisveitingu í þeirra sveitarfélagi. Ef svo væri þá að hafa forgöngu um að bætt yrði úr þeim svo að ákvörðun um framkvæmdaleyfi byggði á fullnægjandi grundvelli í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrir sveitarstjórn Skútustaðahrepps lá umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 og var því ekki tilefni fyrir hana að taka afstöðu til þess hvort kanna bæri aðra útfærslu á Þeistareykjalínu 1. Hins vegar bar sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar sem var þess efnis að af framkvæmdinni yrðu neikvæð óafturkræf áhrif á umhverfið, sem í Skútustaðahreppi kæmu m.a. fram vegna rasks á Leirhnjúkshrauni. Almennt verður að líta svo á að í rökstuddri afstöðu sveitarstjórnar í skilningi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga verði að felast efni rökstuðnings sem uppfyllir áskilnaði 22. gr. stjórnsýslulaga þar um. Skal m.a. í rökstuðningnum, að því marki sem ákvörðun byggist á mati, greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið, sbr. 1. mgr. nefndrar 22. gr. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er í athugasemdum við títtnefnda 22. gr. tekið fram að rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana eigi að meginstefnu til að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. Það fari því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þarf að vera svo að hann uppfylli framangreint skilyrði. Það liggur í hlutarins eðli að því neikvæðari sem afstaða Skipulagsstofnunar er til fyrirhugaðrar framkvæmdar sem sveitarstjórn hyggst leyfa, þeim mun strangari kröfur verður að gera til þess að hún taki með vönduðum hætti rökstudda afstöðu til álits stofnunarinnar. Af þeim bókunum og fundargerðum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni, og nánar er grein frá í málavaxtalýsingu, er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að rökstuðningi sveitarstjórnar fyrir veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis sé verulega áfátt, enda uppfyllir hann ekki þær kröfur sem samkvæmt framangreindu eru gerðar til efnis rökstuðnings. Afgreiðsla sveitarstjórnar fullnægði því ekki skilyrði 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga hvað þetta áhrærir.

Þá gaf bókun sveitarstjórnar um að æskilegra hefði verið að hluti línunnar hefði verið lagður í jörð þar sem um sé að ræða óraskað land augljóslega tilefni til að rannsaka nánar hvort það væri mögulegt, sbr. það sem áður er rakið um jarðstrengi. Svo sem áður segir hefur framkvæmdaraðili ákveðið forræði á því hvaða kosti hann leggur fram til mats og af matsskýrslu er ljóst að framkvæmdaraðili telur afhendingaröryggi m.a. standa jarðstrengjum í vegi sem kosti. Þetta getur út af fyrir sig verið málefnaleg ástæða sem varða framkvæmdina en í tillögu að matsáætlun er því lýst að „tilgangurinn með byggingu tveggja 220 kV háspennulína er að flytja nægjanlega raforku að hugsanlegum orkufrekum iðnaði við Húsavík frá háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum og að tryggja nægjanlegt afhendingaröryggi. Jafnframt verður tekið tillit til aukningar á almennri orkunotkun á svæðinu.“ Miðað við afgreiðslu sveitarstjórnar voru aðstæður á ótilgreindum hluta línuleiðar með þeim hætti að hún taldi jarðstreng æskilegan í stað loftlínu. Bar henni því við leyfisveitingu að uppfylla rannsóknarskyldu sína og sannreyna að sjónarmið um afhendingaröryggi stæðu því í vegi að leggja jarðstreng á þeim hluta línuleiðarinnar sem um ræddi, enda lágu ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar eða rannsóknir þar um í áliti Skipulagsstofnunar eða matsskýrslu, eins og áður hefur komið fram. Í maí 2016 var gerð skýrsla um athugun á jarðstreng sem kost í 220 kV Kröflulínu 4, en hún lá ekki fyrir við ákvörðunartöku sveitarstjórnar í apríl það ár og verður því ekki litið til hennar í máli þessu.

Svo sem að framan er rakið skorti verulega á að sveitarstjórn tæki rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar í samræmi við lagaskyldu þar um, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, og var rökstuðningur hennar á þann veg að ljóst er að frekari rannsókna þurfti við í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Þegar af þessum ástæðum verður að fella hina kærðu ákvörðun um framkvæmdaleyfisveitingu úr gildi.

Náttúruverndarlög.

Vísað er til þess í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga að sveitarstjórn skuli ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða náttúruverndarlaga og annarra laga og reglugerða sem við eigi. Náttúruverndarlög nr. 60/2013 tóku gildi í nóvember 2015, nokkrum mánuðum áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Er augljóst að þau áttu því við um þá ákvörðunartöku þrátt fyrir að matsferli það sem var undanfari ákvörðunarinnar hafi átt sér stað í tíð eldri náttúruverndarlaga.

Í 61. gr. náttúruverndarlaga er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Falla þar undir m.a. eldhraun sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sbr. a-lið 2. mgr. 61. gr., og njóta þau þá sérstakrar verndar í samræmi við markmið 3. gr. laganna. Í 3. mgr. 61. gr. er tiltekið að m.a. beri að forðast að raska jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Skylt sé að afla t.d. framkvæmdaleyfis vegna framkvæmda sem hafi í för með sér slíka röskun og beri leyfisveitanda að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir. Samkvæmt 4. mgr. 61. gr. skal við mat á leyfisumsókn líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Loks skal leyfisveitandi skv. 5. mgr. 61. gr. rökstyðja sérstaklega þá ákvörðun að heimila framkvæmd fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila.

Fyrir liggur að Leirhnjúkshraun nýtur verndar samkvæmt framangreindum lagaákvæðum og bar sveitarstjórn því að viðhafa ákveðna málsmeðferð við töku ákvörðunar um framkvæmdaleyfi. Í ákvörðun sveitarstjórnar er hvorki vikið að náttúruverndarlögum né Leirhnjúkshrauni og af gögnum málsins verður ekki ráðið að aflað hafi verið umsagna af því  tilefni, en sveitarstjórn er skylt að láta úrskurðarnefndinni í té öll gögn málsins, sbr. fyrirmæli þar um í 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Það verður þó að telja að ekki hafi borið nauðsyn til að sveitarstjórn aflaði sérstakrar umsagnar Umhverfisstofnunar við afgreiðslu umsóknar um margnefnt framkvæmdaleyfi þegar til þess er litið að fyrir lá umsögn stofnunarinnar sem unnin var í tilefni af mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sem og við gerð Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023 og við gerð deiliskipulags um stækkun Kröfluvirkjunar. Þar sem síðargreindu umsagnirnar eru ekki neikvæðar um áhrif framkvæmda á grundvelli skipulagsáætlananna á Leirhnjúkshraun verður þess ekki krafist að sveitarstjórn færi fram sérstakan rökstuðning vegna þessa skv. 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, enda fer framkvæmdin ekki í bága við þær umsagnir þar sem þær taka ekki á því atriði. Þá verður ekki talið að sá annmarki að ekki hafi verið leitað umsagnar viðkomandi náttúruverndarnefndar í málinu eigi að leiða til ógildingar enda hafa engar athugasemdir komið fram þar að lútandi við ítarlega umfjöllun um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar. Hins vegar bera fundargerðir skipulagsnefndar og sveitarstjórnar ekki með sér að litið hafi verið til náttúruverndarlaga yfirhöfuð við mat á leyfisumsókn svo sem skylt var skv. 4. mgr. 61. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Til þess var þó tilefni í ljósi þess að Skipulagsstofnun hafði í áliti sínu gert grein fyrir því að framkvæmdirnar myndu hafa talsverð neikvæð og varanleg áhrif á Leirhnjúkshraun og byggði það álit m.a. á þeirri umsögn Umhverfisstofnunar að þar sem leggja ætti línur hefði hraunið hátt verndargildi og að lagning línanna myndi hafa talsverð neikvæð og óafturkræf áhrif. Einnig að með því að leggja háspennulínur yfir hraunið hefði ekki verið tekið nægjanlegt tillit til jarðmyndana sem verndaðar voru samkvæmt 37. gr. þágildandi náttúruverndarlaga nr. 44/1999. Verður því að telja að ekki hafi verið gætt ákvæða 4. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 við meðferð málsins.

Lög nr. 97/2004 um um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Ekki verður séð að að hin kærða leyfisveiting varði framkvæmdir sem falli innan verndarsvæðis greindra laga. Þrátt fyrir að verndaráætlun samkvæmt lögunum liggi fyrir þá felst í henni eingöngu áætlun um vernd. Verður ekki ráðið af gögnum málsins að neinar ákvarðanir hafi verið teknar um friðlýsingu eða aðra þá verndun umrædds svæðis er hefðu getað bundið hendur sveitarstjórnar við ákvörðun sína í málinu. Þá verður ekki séð að lagarök standi til þess að sveitarstjórn hafi borið að viðhafa sérstakt samráð við umhverfis- og auðlindaráðherra svo sem kærendur hafa haldið fram.

Birting.

Auglýsing um hið kærða framkvæmdaleyfi var ekki birt þrátt fyrir skýr fyrirmæli 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga þar um. Slík auglýsing er ekki forsenda gildistöku heldur er tilgangur hennar einkum að upplýsa almenning um að ákveðinni málsmeðferð sé lokið og gefa honum kost á að kynna sér forsendur þar að baki. Veitir auglýsing þannig upplýsingar um kæruheimild og kærufresti. Ekki verður þó fjallað um þetta frekar hér þar sem vangá sveitarfélagins hafði ekki í för með sér réttarspjöll gagnvart kærendum, enda komu þeir að kæru í málinu með réttum hætti og innan tilskilinna fresta.

Af öllu því sem að framan er rakið er ljóst að við undirbúning og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar var ekki í öllu gætt ákvæða skipulagslaga og náttúruverndarlaga auk þess sem sveitarstjórn fullnægði ekki rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þykja þessir ágallar óhjákvæmilega leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, svo sem nánar hefur verið gerð grein fyrir.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi sú ákvörðun Skútustaðahrepps frá 20. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi til handa Landsneti hf. fyrir Kröflulínu 4.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________               ______________________________
Ómar Stefánsson                                                  Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Geir Oddsson                                                           Þorsteinn Þorsteinsson

105/2014 Hverfisgata

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar nr. 78 við Hverfisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. október 2014, er barst nefndinni 3. s.m., kærir félagið Vesturgarðar ehf., eigandi Hverfisgötu 80 og Laugavegar 59, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar nr. 78 við Hverfisgötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 4. nóvember 2014.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu, en 18. október 2006 samþykkti skipulagsráð Reykjavíkur að breyta deiliskipulagi reits 1.173.0, vegna lóðarinnar að Hverfisgötu 78 í Reykjavík, þannig að heimiluð yrði bygging fimmtu hæðar ofan á framhús lóðarinnar og tveggja hæða ofan á einnar hæðar bakhús. Gert var ráð fyrir því að í viðbyggingunum yrðu átta íbúðir og að nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 2,5 í 3,5. Þessi ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem felldi ákvörðun skipulagsráðs úr gildi með úrskurði, uppkveðnum 10. nóvember 2009, í máli nr. 12/2007. Var vísað til þess að ekki væri um að ræða óverulega skipulagsbreytingu í skilningi 2. mgr. 26. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en á því hafði verið byggt við meðferð málsins.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur 6. desember 2013 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna umræddrar lóðar. Í breytingunni fólst að heimilt yrði að rífa bakhús og var í stað þess gert ráð fyrir fjögurra hæða húsi á baklóð til þess að hafa hótel eða gistiheimili á lóðinni. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti 18. desember 2013 að auglýsa deiliskipulagstillöguna, og var það samþykkt af borgarráði 9. janúar 2014. Tillagan var auglýst frá 17. s.m. til 28. febrúar s.á. Athugasemdir bárust, m.a. frá kæranda. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. mars 2014, var athugasemdum svarað og lagt til að umsótt deiliskipulagsbreyting yrði samþykkt. Nánar sagði um athugasemd kæranda um skuggavarp: „Skuggavarp sýnir að áhrif byggingar á baklóð Hverfisgötu 78 á skuggavarp á lóð Hverfisgötu 80 eru engin fyrir kl. 16. Eftir það hefði byggingin áhrif á skuggavarpið á lóð Hverfisgötu 80. Um jafndægur fellur skuggi nýbyggingar innan skugga af Kjörgarði.“ Jafnframt kom fram í umfjöllun um skuggavarp að skoða yrði tillöguna í ljósi þess að árið 2006 hefði verið samþykkt breyting á deiliskipulagi lóðarinnar Hverfisgötu 78, í hverju sú breyting hefði falist, sem og að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefði fellt þá breytingu úr gildi og á hvaða forsendum sú niðurstaða hefði byggst. Einnig að sú tillaga sem nú væri auglýst gerði ráð fyrir fjögurra hæða nýbyggingu á baklóð og að sjá mætti af gögnum að hún yrði ekki hærri og jafnvel ívið lægri en sú bygging sem samþykkt hefði verið 2006. Hefði tillagan sem nú lægi fyrir minni áhrif en sú sem samþykkt hefði verið 2006 og felld úr gildi vegna formgalla. Breyting á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. apríl 2014, með vísan til fyrrnefndrar umsagnar skipulagsfulltrúa, og var deiliskipulagsbreytingin svo samþykkt á fundi borgarráðs 10. s.m.

Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar, sem tók fram í bréfi sínu til Reykjavíkurborgar, dags. 14. maí 2014, að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til tillögunnar „… fyrr en athugasemdir lóðarhafa Hverfisgötu nr. 80 hafa verið teknar til umfjöllunar að nýju og þeim svarað efnislega án þess að vísa til deiliskipulagsbreytingar sem felld hefur verið úr gildi. Aðeins á við að bera saman skuggavarp og áhrif að þessari breytingu og gildandi deiliskipulagi“. Stofnunin taldi jafnframt að nauðsynlegt væri að leita eftir umsögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um öryggismál fyrirhugað hótels „… vegna þrengsla og upplýsinga um að kvöð um aðkomu frá Hverfisgötu 80 að baklóðinni virðist ekki hafa gildi“.

Umsögn skipulagsfulltrúa frá 13. mars 2014 var breytt 8. ágúst s.á. og var hún send Skipulagsstofnun sama dag með bréfi. Í bréfinu kom fram að leitað hafi verið umsagnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og að umsögn þess efnis hefði borist, þar sem fram hafi komið að tryggja þyrfti aðkomu að bakhúsinu til að sinna slökkvistörfum. Reykjavíkurborg hefði síðar borist tölvupóstur frá slökkviliðinu þar sem fram kæmi að gerlegt væri að leysa málin innan lóðar og myndi slökkviliðið ekki leggjast gegn því, kysi lóðarhafi að fara þá leið, svo framarlega sem það yrði gert almennilega og í samræmi við reglur. Í breyttri umsögn skipulagsfulltrúa sagði um skuggavarp: „Skuggavarp sýnir að bygging á baklóð Hverfisgötu 78 hefur ekki áhrif á hugsanlega byggingu innan byggingarreits á lóð Hverfisgötu 80 fyrir kl. 16. Eftir kl. 16 mun byggingin varpa skugga á lóð og byggingarreit Hverfisgötu 80.“ Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. ágúst 2014 var málið tekið fyrir að nýju og bókað að umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. s.m., væri samþykkt.

Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 21. ágúst 2014, var tekið fram að stofnunin gerði ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Tók síðan breytingin gildi með auglýsingu þar að lútandi, birtri 4. september 2014.
   
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fari um breytingu á deiliskipulagi líkt og um sé að ræða nýtt deiliskipulag, en þó sé ekki skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. Hafi umrædd breyting því átt að fara eftir ákvæðum 41. og 42. gr. skipulagaslaga. Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. laganna skuli sveitarstjórn taka skipulagstillögu til umfjöllunar og taka afstöðu til þeirra athugasemda sem borist hafi. Þá skuli senda samþykkt deiliskipulag Skipulagsstofnun til meðferðar skv. 1. mgr. 42. gr. nefndra laga. Telji stofnunin form- eða efnisgalla á skipulagi skuli hún tilkynna sveitarstjórn þar um. Sveitarstjórn skuli taka athugasemdirnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varði athugasemdir um form deiliskipulags. Fallist sveitarstjórn ekki á athugasemdir um efni deiliskipulags skuli hún gera rökstudda grein fyrir ástæðum þess.

Skipulagsfulltrúi hafi unnið umsögn um fram komnar athugasemdir. Skipulagsráð hafi samþykkt deiliskipulagstillöguna á fundi 2. apríl 2014 með vísan til hennar og vísað málinu til borgarráðs, sem samþykkt hafi tillöguna á fundi sínum 10. s.m. Skipulagsstofnun hafi tilkynnt með bréfi, dags. 14. maí 2014, að hún gæti ekki tekið afstöðu til deiliskipulagsbreytingarinnar fyrr en athugasemdir lóðarhafa Hverfisgötu 80 hlytu umfjöllun að nýju og þeim væri svarað efnislega án þess að vísa til deiliskipulagsbreytingar sem felld hefði verið úr gildi. Stofnunin hafi jafnframt talið nauðsynlegt að leita eftir umsögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Þessar athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi átt að koma til umræðu í sveitarstjórn, skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, en það hafi ekki verið gert. Þess í stað hafi skipulagsfulltrúi breytt fyrri umsögn sinni og sé sú breyting frá 8. ágúst 2014. Hafi Skipulagsráð samþykkt hina breyttu umsögn 13. s.m. Jafnframt hafi verið leitað afstöðu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um öryggismál. Málsmeðferðin hafi því ekki verið í samræmi við lög.

Þá liggi fyrir að skipulagsfulltrúi hafi breytt fyrri umsögn um fram komnar athugasemdir, sem áður hafði hlotið lögboðna afgreiðslu sveitarstjórnar með samþykkt borgarráðs 10. apríl 2014. Það sé borgarráð sem hafi vald til fullnaðarafgreiðslu slíkrar tillögu sem hér um ræði, sbr. 48. gr. samþykktar nr. 715/2013 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Þá sé það aðeins á færi borgarráðs að breyta fyrri umsögn og svörum við athugasemdum þótt umhverfis- og skipulagsráð hafi samþykkt breytinguna, enda fari það ráð ekki með vald til að afgreiða skipulagstillögur sem sæti auglýsingu, sbr. 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur frá 18. desember 2012. Þá verði heldur ekki ráðið af málsgögnum að breytt umsögn og svör við athugasemdum hafi verið send þeim sem athugasemdir hafi gert. Hafi málinu verið vísað til Skipulagsstofnunar og gildistaka hinnar kærðu ákvörðunar síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda án frekari umfjöllunar eða atbeina borgarráðs. Hafi þessi málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verið ólögmæt.

Í umsögn og svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum vegna tillögunar sé látið í veðri vaka að ekki muni þurfa að nota meinta kvöð um umferð um lóð kæranda til aðkomu að baklóð Hverfisgötu 78 og megi að öllum líkindum taka kvöðina af deiliskipulaginu. Breytingin taki hins vegar aðeins til lóðarinnar nr. 78 við Hverfisgötu. Enda þótt ekki hafi verið skilyrði til að taka ákvörðun um að afmá kvöðina, sem hluta af hinni umdeildu skipulagstillögu vegna þess að kvöðin væri utan þess svæðis sem breytingin tæki til, hafi skipulagsyfirvöldum verið í lófa lagið að setja í skilmála um hina umdeildu skipulagsbreytingu ákvæði um að aðkoma að baklóð og ráðstafanir vegna eldvarna að Hverfisgötu 78 skyldu vera innan lóðar og taka þannig af öll tvímæli um að meintrar kvaðar væri ekki lengur þörf. Skipulagsyfirvöld hafi ekki sinnt þessu heldur kosið að láta það ráðast af skilningi manna á tölvupóstum slökkviliðs og vangaveltum skipulagsfulltrúa í svörum við athugasemdum hvaða skilmálar væru taldir gilda á umræddu svæði. Sé það augljóslega andstætt þeirri kröfu sem gera verði til skýrleika skipulagsákvarðana að taka ekki upp í skipulagsskilmála ákvæði um jafn þýðingarmikið efni og hér um ræði.

Kærandi, sem eigi byggingarrétt á lóðinni Hverfisgötu 80, telji að aukið byggingarmagn að Hverfisgötu 78 og skuggvarp af hugsanlegum nýbyggingum gangi gegn lögvörðum hagsmunum hans og að ekki hafi verið gætt jafnræðis við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað.

Umrædd deiliskipulagstillaga hafi verið auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samþykkt í borgarráði 10. apríl 2014. Umhverfis- og skipulagsráð hafi samþykkt umsögn skipulagsfulltrúa um fram komnar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 2. apríl 2014. Sú málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og venjubundna málsmeðferð.

Skipulagsstofnun hafi farið yfir gögn málsins en ekki getað tekið afstöðu til þess fyrr en athugasemdir lóðarhafa að Hverfisgötu 80 hefðu verið teknar til umfjöllunar að nýju og þeim svarað efnislega án þess að vísa til deiliskipulagsbreytingar frá 2006 sem felld hafi verið úr gildi. Einnig hafi Skipulagsstofnun talið rétt að leitað yrði eftir umsögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um öryggismál fyrirhugaðs hótels. Í kjölfar ábendinga Skipulagsstofnunar hafi umsögn um athugasemdir og svörum við þeim verið breytt og hún svo send stofnuninni.

Skipulagsráð hafi fjallað um og samþykkt breytta umsögn á fundi sínum 13. ágúst 2014, án þess að það hefði nokkur áhrif á fyrri afgreiðslu borgarráðs frá 10. apríl 2014. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 21. ágúst 2014, hafi ekki verið gerð athugasemd við að sveitarstjórn birti samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda þar sem breytt umsögn hefði ekki áhrif á fyrri afgreiðslu borgarráðs.

Ekki sé hægt að fallast á þau málsrök kæranda að annmarki hafi verið á málsmeðferð hins umþrætta deiliskipulags, þar sem athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi átt að koma til umræðu í sveitarstjórn. Í 2. mgr. 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð sé heimild fyrir ráðið til fullnaðarafgreiðslu mála skv. skipulagslögum nr. 123/2012, sbr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga, svo sem afgreiðslu skipulagslýsinga, deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfa. Ekki sé um tæmandi talningu að ræða og sé litið svo á að umhverfis- og skipulagsráð geti afgreitt athugasemdir Skipulagsstofunnar, enda séu þær ekki þess eðlis að þær kalli á breytingar sem þurfi að auglýsa að nýju. Þá sé sérstaklega bent á að uppfærð umsögn skipulagsfulltrúa og beiðni um umsögn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hafi ekki nein áhrif á fyrri afgreiðslu borgarráðs. Ætlaður annmarki, telji úrskurðarnefndin hann fyrir hendi, sé svo óverulegur að hann geti ekki með neinu móti leitt til ógildingar hinnar umþrættu deiliskipulagsbreytingar. Hann hafi hvorki valdið kæranda réttarspjöllum né breytt niðurstöðu málsins að öðru leyti. Þá hafi fundargerð umhverfis- og skipulagsráð, þar sem afgreiðsla málsins hafi farið fram, verið lögð fram í borgarráð án athugasemda borgarráðs.

Fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. mars 2014, að bygging á baklóð Hverfisgötu 78 hafi ekki áhrif á hugsanlega byggingu innan byggingareits á lóð Hverfisgötu 80 og varpi ekki skugga á byggingarreit og lóðina fyrr en eftir kl. 16. Eftir þann tíma varpi byggingin skugga á lóð Hverfisgötu 80 jafnt á sumri sem og á jafndægrum. Það sé því ljóst að breyting á hæð bakbyggingar að Hverfisgötu 78 hafi áhrif á skuggavarp á lóðinni, en ekki meiri en búast megi við á þéttu svæði líkt og í miðbænum.

Samkvæmt deiliskipulagi fyrir reit 1.173.0, birtu í B-deild Stjórnartíðinda 16. nóvember 1999, sé kvöð á lóð Hverfisgötu 80. Ekki sé ljóst af hverju kvöðin hafi verið sett inn á sínum tíma, en líklegast sé það vegna aðgengis að bakhúsi að Laugavegi 59. Deiliskipulagsbreytingin nú nái eingöngu til lóðarinnar Hverfisgötu 78. Allar ráðstafanir vegna eldvarna fyrir hótelið á þeirri lóð verði leystar innan hennar. Loks sé á það bent að kvöðin sé ekki til umfjöllunar í þessari deiliskipulagsbreytingu.

Athugasemdir lóðarhafa Hverfisgötu 78:
Lóðarhafi krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Kærandi beri fyrir sig að skipulagsyfirvöld hafi ekki sett í skilmála um skipulagsbreytinguna ákvæði um niðurfellingu umferðarkvaðar um lóðina Hverfisgötu 80 til aðkomu að baklóð Hverfisgötu 78 og þá að þessari athugasemd hafi ekki verið svarað á fullnægjandi hátt í upphafi. Í endurskoðaðri umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar sé þessari athugasemd svarað. Deiliskipulagstillagan hafi ekki tekið til fyrrgreindrar lóðar kæranda og því þýðingarlaust að ræða skipulagsmál hennar. Athugasemdir kæranda séu byggðar á misskilningi hvað þetta varði.

Fullnægjandi upplýsingum slökkviliðsins hafi verið komið á framfæri við Skipulagsstofnun. Það að samskipti Skipulagsstofnunar, skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi ekki verið borin undir borgarráð geti ekki valdið ógildingu deiliskipulagsins. Það sé síðan hlutverk fulltrúa slökkviliðsins að yfirfara brunahönnun væntanlegrar byggingar og sjá til þess að hún uppfylli öll laga- og reglugerðarákvæði varðandi eldvarnir.

Hafna beri málatilbúnaði kæranda um að aukið byggingarmagn að Hverfisgötu 78 og skuggavarp af nýbyggingum þar gangi gegn lögvörðum hagsmunum kæranda og að ekki hafi verið gætt jafnræðis við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Þessi efnisatriði kærunnar séu með öllu órökstudd. Auk þess hafi verið gerð ítarleg grein fyrir skuggavarpi á 18 uppdráttum sem hönnuður hússins hafi unnið við meðferð málsins að beiðni skipulagsyfirvalda borgarinnar.

Ekki hafi verið sýnt fram á að gengið hafi verið á réttindi kæranda eða brotið gegn honum á annan hátt. Kæranda hafi verið gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri og þeim athugasemdum hafi verið svarað á málefnalegan hátt í samræmi við skipulagslög og önnur lagaákvæði sem stjórnvöld séu bundin af.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar Hverfisgötu 78. Við afgreiðslu málsins var skírskotað til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 13. mars s.á. þar sem athugasemdum kæranda var svarað. Skipulagsstofnun gerði þá athugasemd í bréfi sínu 14. maí s.á. að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu í málinu fyrr en athugasemdum kæranda hefði verið svarað efnislega, án tilvísunar til fyrri deiliskipulagsbreytingar, sem felld hefði verið úr gildi. Svo sem nánar er rakið í málavaxtalýsingu var fyrrgreindri umsögn skipulagsfulltrúa breytt í kjölfarið og hún svo samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. ágúst s.á.

Um afgreiðslu deiliskipulags er fjallað í 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar kemur fram í 1. mgr. að telji Skipulagsstofnun að form- eða efnisgallar séu á deiliskipulagi sem henni sé sent skuli hún koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarstjórn, sem skuli taka þær til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að skipulagslögum er tekið fram um nefnt ákvæði að það sé nýmæli að sveitarstjórn sé skylt að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar vegna deiliskipulags og gera nauðsynlegar breytingar á því varðandi form þess ef þörf sé á. Í dæmaskyni er nefnt að slíkar athugasemdir geti lotið að því að athugasemdum á auglýsingartíma hafi ekki verið svarað. Þá er í athugasemdum með VIII. kafla laganna nánar skýrt að með þessari skyldu sveitarstjórnar til viðbragða og nauðsynlegra formbreytinga verði eftirlitshlutverk Skipulagsstofnunar skýrara.

Ljóst er af framangreindu að Skipulagsstofnun gerði athugasemdir um form deiliskipulags í skilningi 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og taldi hún að kæranda hefði ekki verið svarað efnislega með fullnægjandi hætti. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins bar sveitarstjórn að taka þær athugasemdir stofnunarinnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að það hafi komið aftur til kasta sveitarstjórnar eftir samþykkt hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar. Þess í stað voru gerðar breytingar á umsögn skipulagsfulltrúa, m.a. hvað varðaði svör við athugasemdum kæranda, og hún samþykkt að nýju af umhverfis- og skipulagsráði.

Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þegar ákvörðun hefur verið tekin í skjóli þessa valds verður það stjórnvald sem tók þá ákvörðun eðli máls samkvæmt að standa að breytingum á henni. Í þessu tilviki borgarráð. Breytingar þær, sem gerðar voru á áðurgreindri umsögn skipulagsfulltrúa sem svo var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði, lutu að svörum við framkomnum athugasemdum kæranda, en Skipulagsstofnun hafði m.a. farið fram á að þeim væri svarað efnislega á sjálfstæðan máta. Í því sambandi er rétt að árétta að skv. 3. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga, skal sveitarstjórn taka tillögu að deiliskipulagsbreytingu til umræðu, taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið var málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar ekki í samræmi við skipulagslög. Þykja greindir annmarkar þess eðlis að ekki verði hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar nr. 78 við Hverfisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

17/2016 Sorpgjöld á Akranesi

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 14. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2016, kæra á ákvörðun Akraneskaupstaðar um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalda á fasteignina Jaðarsbraut 25, Akranesi, fyrir árið 2016.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. febrúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Jaðarsbraut 25, Akranesi, ákvörðun  Akraneskaupstaðar um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalda á fasteign kæranda að Jaðarsbraut 25, Akranesi fyrir árið 2016. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Akraneskaupstað 18. mars 2016.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu en með úrskurði í máli nr. 30/2014, uppkveðnum 27. mars 2015, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvörðun Akraneskaupstaðar um að leggja á fasteign kæranda  sorphreinsunar- og eyðingargjald fyrir árið 2014. Var það gert á þeim forsendum að gjaldskrá nr. 1285/2013 fyrir hirðingu og eyðingu sorps í Akraneskaupstað hefði ekki verið sett í samræmi við ákvæði 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem að hún hafði ekki verið lögð fyrir heilbrigðisnefnd til umsagnar. Kærandi skaut ákvörðun um endurálagningu gjalda ársins 2014 og álagningu ársins 2015 til úrskurðarnefndarinnar og með úrskurði í máli nr. 54/2015, uppkveðnum 26. nóvember 2015 var kröfum kæranda um ógildingu gjalda ársins 2014 hafnað og kröfum um ógildingu gjalda ársins 2015 vísað frá nefndinni.

Á fundi bæjarráðs Akraneskaupstaðar 4. desember 2015 var lögð fram til ákvörðunar gjaldskrá sorphirðu á Akranesi fyrir árið 2016 auk fleiri atriða. Ákvörðun bæjarráðs varðandi gjaldskrá sorpmála var send Heilbrigðiseftirliti Vesturlands með bréfi, dags. 6. s.m., þar sem óskað var umsagnar heilbrigðisnefndar, sbr. 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 9. gr. samþykktar nr. 1231/2005 um meðhöndlun úrgangs á Akranesi.

Umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands lá fyrir 7. desember s.á., en þar kom fram að efnisatriði gjaldskrárinnar væru í samræmi við ákvæði laga. Frumvarp að fjárhagsáætlun var lagt fram til síðari umræðu og samþykkt á fundi bæjarráðs 10. s.m. og í framhaldinu á fundi bæjarstjórnar Akraness 15. s.m. þar sem gjaldskráin var samþykkt. Gjaldskrá Akraneskaupstaðar fyrir hirðingu og eyðingu sorps nr. 1204/2015 birtist í B-deild Stjórnartíðinda 29. desember 2015.

Sorphreinsunar- og eyðingargjald fyrir árið 2016, að fjárhæð 30.267 krónur, var lagt á fasteign kæranda með álagningarseðli, dags. 20. janúar 2016. Á fundi heilbrigðisnefndar 27. s.m. var bókað, undir lið 5. „Akranes – Umsögn um gjaldskrá vegna sorphirðu og eyðingu sorps, frá 6. des ´15“, að nefndin staðfesti ofangreinda gjaldskrá.

Málsrök kæranda: Kærandi telur álagningu hinna kærðu sorpgjalda ekki rétta sé miðað við leiðbeiningar úrskurðarnefndarinnar í úrskurðum frá fyrri árum. Gjaldskráin hafi verið sett án þess að umsögn frá heilbrigðisnefnd Vesturlands hafi legið fyrir og því hljóti hún að vera ólögleg með sama hætti og gjaldskráin frá 2014, sem felld hafi verið úr gildi með úrskurði nefndarinnar.

Við ákvörðun um hækkun gjaldskrárinnar fyrir árið 2016 hafi verið lagt til grundvallar að fimm milljón króna tap hefði orðið á málaflokknum árið 2015. Það hefði komið til vegna kostnaðar við endurálagningu gjalds vegna ársins 2014 og telji kærandi að óheimilt hafi verið að reikna nefndan kostnað með í kostnaði vegna sorpmála.

Einnig sé millifærslukostnaður sem Akraneskaupstaður kjósi að gjaldfæra á málaflokkinn, þ.e. kostnaður vegna stjórnsýslu og innheimtukostnaður, of hár og illa rökstuddur. Nánast enginn viðbótarkostnaður sé vegna þessarar innheimtu þar sem verið sé að innheimta fasteignagjöld hvort eð er. Þessi aðferð sé viðhöfð til að færa kostnað við málaflokkinn til jafns við tekjur og halda þannig uppi of hárri gjaldskrá.

Málsrök Akraneskaupstaðar: Sveitarfélagið krefst þess að kærunni sé vísað frá nefndinni vegna þess hversu óskýr málatilbúnaður kæranda sé. Að öðrum kosti verði hin kærða álagning staðfest, enda rétt að henni staðið bæði form- og efnislega. Í úrskurði nefndarinnar frá 29. nóvember í máli nr. 54/2015 sé að finna mikilvægar leiðbeiningar um þá kostnaðarliði sem að fullnægðum skilyrðum geti verið grundvöllur þjónustugjalda, sbr. 2. og 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þeim sjónarmiðum telji sveitarfélagið sig hafa fylgt í hvívetna.

Í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2016 hafi almennt verið lagt til grundvallar að þjónustugjaldskrár hækkuðu um 3,2% en lögð hafi verið til minni hækkun á sorpgjöldum, eða um 1,5%. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hafi veitt umsögn sína um efnisatriði gjaldskrárinnar, hún hafi verið samþykkt í bæjarstjórn 15. desember 2015 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m.

Rekstur sorphirðu sé færður undir tvo málaflokka í bókhaldi sveitarfélagsins, annars vegar málaflokk 08 hreinlætismál og hinsvegar málaflokk 53 Gámu, en vegna reglna um virðisaukaskatt sé nauðsynlegt að hafa rekstur móttökustöðvar í sérstöku fyrirtæki. Gáma „selji“ þjónustu sína yfir á málaflokk 08 og saman myndi málaflokkarnir heildarniðurstöðu reksturs sorpmála.

Við áætlun sorpgjalda fyrir árið 2016 hafi eftirtaldir tekju- og gjaldaliðir verið lagðir til grundvallar:

1. Áætlaðar tekjur að fjárhæð kr. 79.155.000 (1,5% hækkun gjalda)
2. Áætluð gjöld að fjárhæð kr. 79.078.000, sem greinist þannig:
a)    Áætlaður sameiginlegur kostnaður, aðkeypt þjónusta o.fl., kr. 68.941.000
b)    Áætlaður annar kostnaður vegna stjórnunarkostnaðar og umsýslu bæjarskrifstofu, kr. 4.870.000
c)    Áætluð eigin vinna starfsmanna í Gámu, kr. 300.000
d)    Áætlaður kostnaður vegna reksturs húsnæðis Gámu, kr. 2.165.000
e)    Áætlun vegna lóðar Gámu kr. 2.169.000
f)    Áætlaðar afskriftir vegna fastafjármuna í Gámu, kr. 633.000

Talið sé að verklag við ákvörðun sorpgjalda sé í fullu samræmi við áskilnað laga, bæði hvað varðar form og efni. Hvað varði formið standi sveitarfélög að vissu leyti frammi fyrir tilteknum erfiðleikum varðandi tímasetningar því veigamiklar breytingar geti orðið á frumvarpi að fjárhagsáætlun frá fyrri framlagningu, sem miðað sé við í lögum að sé eigi síðar en 1. nóvember ár hvert, og fram til þess tíma að síðari framlagning eigi sér stað, sem lögskylt sé að gerist eigi síðar en 15. desember. Síðan sé lögskylt að afla umsagnar heilbrigðisnefndar um gjaldskrá sorpmála og eðli máls samkvæmt sé nauðsynlegt að gera það eftir að bæjarráð hafi ákveðið endanlegar forsendur fjárhagsáætlunar en áður en frumvarpið komi til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn. Því sé ljóst að lítið megi út af bregða í ferlinu til að þetta náist en að auki þurfi að óska flýtimeðferðar á birtingu gjaldskrárinnar í Stjórnartíðindum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds samkvæmt gjaldskrá Akraneskaupstaðar nr. 1204/2015 fyrir hirðingu og eyðingu sorps, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 29. desember 2015. Því er haldið fram að forsendur fyrir gjaldskránni standist ekki reglur laga um þjónustugjöld og einnig er því haldið fram að gjaldskrána hafi skort lagastoð þar sem hún hafi ekki verið sett með formlega réttum hætti. Verður að telja að framangreindur málatilbúnaður kæranda sé nægilega skýr til að málið verði tekið til efnismeðferðar og verður því frávísunarkröfu sveitarfélagsins hafnað.

Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segir að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Heimilt sé auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um meðferð úrgangs og skolps, sbr. 2. tl. 1. mgr. Fyrir Akraneskaupstað hefur verið sett slík samþykkt nr. 1231/2005 um meðhöndlun úrgangs á Akranesi, birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2006.

Í 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 er fjallað um gjaldskrár. Þar segir að sveitarfélögum sé heimilt  að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Loks segir að sveitarfélag skuli birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt tilvitnuðu orðalagi 25. gr. laga nr. 7/1998 er skýrt að sveitarstjórn skuli leita umsagnar heilbrigðisnefndar við setningu gjaldskrár um innheimtu gjalda skv. greininni, m.a. samkvæmt samþykktum um meðferð úrgangs og skolps sem settar hafi verið með stoð í ákvæðinu. Í úrskurði í máli nr. 30/2014, uppkveðnum 27. mars 2015, komst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeirri niðurstöðu að fella skyldi úr gildi ákvörðun Akraneskaupstaðar um að leggja sorphreinsunar- og eyðingargjald á tilgreinda fasteign þar sem ekki hafði verið leitað slíkrar umsagnar áður en gjaldskráin fyrir árið 2014 var sett. Byggðist niðurstaðan á því að þegar löggjafinn hefur með skýrum lagafyrirmælum kveðið á um hvernig formlega skuli standa að reglusetningu á tilteknu sviði af hálfu stjórnvalda hafi stjórnvöld almennt ekki frjálst val um að fara aðrar leiðir í þeim efnum.

Samkvæmt gögnum málsins voru drög að gjaldskrá send Heilbrigðiseftirliti Vesturlands með bréfi, dags. 6. desember 2015. Þar er óskað „umsagnar heilbrigðisnefndar um fyrirhugaða gjaldskrá“. Bréf barst frá heilbrigðiseftirlitinu 7. s.m. þess efnis að eftirlitið teldi að efnisatriði gjaldskrárinnar væru í samræmi við ákvæði samþykktar um meðhöndlun úrgangs á Akranesi nr. 1231/2005 og 25. gr. laga nr. 7/1998 og gerði því ekki athugasemdir við hana. Að fenginni nefndri umsögn var gjaldskráin samþykkt á fundi bæjarstjórnar Akraness 15. s.m. Gjaldskrá Akraneskaupstaðar fyrir hirðingu og eyðingu sorps nr. 1204/2015 birtist í B-deild Stjórnartíðinda 29. desember 2015. Var gjald lagt á vegna fasteignar kæranda og er álagningarseðill dagsettur 20. janúar 2016. Gjaldskráin var hins vegar staðfest af heilbrigðisnefnd Vesturlands á fundi hennar 27. s.m., eins og fram kemur í málavaxtalýsingu.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands afgreiða starfsmenn eftirlitsins erindi á milli funda heilbrigðisnefndar ef þau eru ekki skuldbindandi og vafi leikur ekki á um vilja nefndarinnar. Umsagnir og leyfi séu t.d. veitt með fyrirvara um samþykki heilbrigðisnefndar sem eigi sér stað á næsta fundi hennar.

Í 2. kafla laga nr. 7/1998 er fjallað um stjórn, skipan og starfsmenn. Kemur þar m.a. fram að ekkert sveitarfélag skuli vera án heilbrigðiseftirlits, sbr. 10. gr., og að landið skiptist í nánar tilgreind eftirlitssvæði þar sem starfi heilbrigðisnefnd, kosin eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar, sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. Samkvæmt 13. gr. laganna ber heilbrigðisnefndum að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. ráða heilbrigðisnefndir á hverju eftirlitssvæði heilbrigðisfulltrúa, sem starfa í umboði nefndarinnar, til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla. Í 3. gr. laganna er skilgreint að heilbrigðiseftirlit taki til hollustuhátta og mengunarvarna, sbr. 4. mgr. tilvitnaðrar greinar. Nánari skilgreiningu á hollustuháttum og mengunarvörnum er að finna í áðurnefndri 3. gr. laganna ásamt upplýsingum um viðfangsefni heilbrigðiseftirlits sem unnin eru í umboði heilbrigðisnefndar en hlutverk þessara stjórnvalda er um margt eðlisólík.

Verður því ekki talið að heilbrigðiseftirlit geti veitt lögbundna umsögn skv. 25. gr. laga nr. 7/1998 í skjóli þess að eftirlitið starfi í umboði heilbrigðisnefndar, enda nefndinni einni ætlað það hlutverk samkvæmt skýlausu orðalagi ákvæðisins. Var álagning samkvæmt gjaldskránni því ekki lögmæt þegar hún átti sér stað og getur staðfesting heilbrigðisnefndar á gjaldskránni þegar álagning hefur þegar farið fram ekki bætt úr þeim ágalla.

Þegar af framangreindum ástæðum verður ekki hjá því komist að telja hina kærðu ákvörðun þeim annmörkum háða að ógildingu varði.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Akraneskaupstaðar um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalda á fasteignina Jaðarsbraut 25, Akranesi, fyrir árið 2016.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                                    Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    

106/2015 Hundahald á höfuðborgarsvæðinu

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 14. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2015, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 9. október 2015 um að ráðstafa hundinum Neró til nýs eiganda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. nóvember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 9. október 2015 að ráðstafa hundinum Neró til nýs eiganda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 17. desember 2015 og í mars 2016.

Málavextir: Hundurinn Neró var handsamaður 30. september 2015 við Digranesveg í Kópavogi af starfsmanni Heilbrigðiseftirlits Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis. Hundurinn var laus og ómerktur en með örmerki. Kærandi, sem var umráðamaður hundsins, mun hafa hringt í heilbrigðiseftirlitið 1. október s.á. og fengið þær upplýsingar að farið hefði verið með hundinn í hundageymslu að Leirum í Mosfellsbæ. Kærandi sendi heilbrigðiseftirlitinu textaskilaboð 3. s.m. með beiðni um staðfestingu á því að hundurinn væri skráður í Reykjavík, en óskráður hundur fæst ekki leystur úr haldi. Svar barst frá eftirlitinu með textaskilaboðum mánudaginn 5. s.m. þess efnis að hundurinn væri óskráður í Reykjavík og því væri ekki hægt að afhenda hann fyrr en búið væri að skrá hann.

Föstudaginn 9. október tók Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis þá ákvörðun að ráðstafa hundinum til annars eiganda á grundvelli 12. gr. samþykktar um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir.

Hundurinn var skráður í Reykjavík af fyrri eiganda sínum allt þar til Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur var send tilkynning í byrjun apríl 2014 um eigandaskipti á hundinum. Var hundurinn þá afskráður en mun ekki hafa verið skráður á nýjan eiganda. Á þeim tíma mun hundinum hafa verið ráðstafað innan fjölskyldunnar og var hann síðan haldinn á heimili kæranda. Í kjölfar framangreindrar atburðarásar, eða 15. október 2015, fékk kærandi skráð leyfi fyrir honum í Reykjavík og er það leyfi enn í gildi. Kærandi fór fram á að fá hundinn aftur í sínar vörslur með bréfi til Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, dags. 18. október 2015. Með bréfi, dags. 23. s.m., var beiðni hans hafnað.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður hundinn Neró hafa sloppið að heiman 30. september 2015 og hafi hann verið handsamaður fyrir utan Menntaskólann í Kópavogi. Kærandi hafi hringt í lögregluna samdægurs og aftur daginn eftir og hafi þá verið gefið upp símanúmer hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis. Starfsmaður þar hefði tjáð sér að farið hefði verið með hundinn að Leirum í geymslu. Þegar kærandi hafi ætlað að sækja hann 3. október s.á. hefði sér verið sagt að staðfesting fyrir skráningu þyrfti að liggja fyrir til að hundurinn yrði afhentur. Hann hefði sent heilbrigðiseftirlitinu textaskilaboð og beðið um að staðfest yrði að hundurinn væri skráður í Reykjavík, hjá stjúpföður sonar síns, en sá væri fyrri eigandi hundsins. Svar hefði borist með textaskilaboðum 5. s.m. þess efnis að hundurinn væri óskráður í Reykjavík og fengist ekki afhentur fyrr en búið væri að skrá hann. Hann hefði orðið hissa á þessu þar sem hundurinn hefði verið skráður og greidd af honum gjöld í fleiri ár. Hann hefði haft samband við fyrri eiganda hundsins og beðið hann um staðfestingu þess efnis. Þegar kærandi hefði ekki heyrt neitt frekar frá fyrri eiganda hefði hann talið að staðfestingin hefði verið send beint á heilbrigðiseftirlitið.

Þegar kærandi hefði ætlað að sækja hundinn mánudaginn 12. október 2015 hefði honum verið tjáð að heilbrigðiseftirlitið hefði ráðstafað hundinum til annars eiganda föstudeginum áður, eða 9. s.m. Á fundi með framkvæmdarstjóra heilbrigðiseftirlitsins 13. s.m. hefði komið fram að reynt hefði verið að hringja í kæranda áður en hundinum hefði verið ráðstafað en hann hefði ekki svarað. Ekki hefðu verið send textaskilaboð eða reynt að ná af honum tali aftur, en hundurinn gefinn á annað heimili samdægurs. Það sæti furðu að það skyldi vera gert aðeins fjórum dögum eftir að komið hafi í ljós að hundurinn væri óskráður. Eftir þetta hefði komið í ljós að fyrri eigandi hefði tilkynnt eigendaskipti til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í apríl 2015, en láðst hefði að endurskrá hundinn þá. Kærandi hefði haft samband við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur 14. október s.á. og fengið að vita að hann þyrfti samþykki sameiganda fasteignar sinnar til að fá skráningu. Það hefði legið fyrir daginn eftir og samkvæmt tölvupósti frá heilbrigðiseftirlitinu hafi hundurinn verið skráður á nafn kæranda frá þeim degi og sé það enn.

Kærandi kveðst hafa farið fram á það við Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis að honum yrði afhentur hundurinn aftur eftir að fyrir lá að búið væri að skrá hann en því hefði verið neitað. Þetta hefði honum þótt vera afar mikið bráðræði og undarlegt að ekki hefði verið reynt að finna ásættanlega lausn í málinu.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Heilbrigðisnefndin kveður umræddan hund hafa verið handsamaðan af heilbrigðiseftirliti umdæmisins við Menntaskólann í Kópavogi 30. september 2015. Hafi starfsmaður eftirlitsins farið um svæðið og svipast um eftir hugsanlegum eiganda hundsins án árangurs. Textaskilaboð hafi borist 3. október s.á., úr óskráðu númeri er væntanlega tilheyri kæranda, í farsíma heilbrigðiseftirlitsins, þar sem spurt hafi verið um afdrif hunds að nafni Neró. Hafi mátt ráða af skilaboðunum að þar væri um sama hund að ræða. Þegar starfsmaður eftirlitsins hafi verið aftur við störf 5. s.m. hafi kæranda verið svarað og hann upplýstur um að umræddur hundur væri óskráður og ekki væri unnt að afhenda hann neinum uns hann hefði verið skráður á eiganda. Í framhaldi af skoðun á örmerki hundsins hafi verið haft samband við eiganda hans samkvæmt merkinu. Sá aðili hafi sagt hundinn ekki koma sér við og að hann væri ekki á hans ábyrgð. Kærandi hafi ekki haft samband við heilbrigðisnefndina á næstu dögum.

Í ljósi þess að skráður eigandi hefði sagt hundinn ekki koma sér við og kærandi hafi ekki verið til viðtals hafi hundinum verið fundið nýtt heimili og hann afhentur nýjum eiganda 9. október 2015, þá 10 dögum eftir að hann hefði verið handsamaður. Jafnframt liggi fyrir í málinu að kærandi hafi ekki sótt um skráningu hundsins áður en hann hafi verið handsamaður og hafi ekki virst hlutast til um það fyrr en í fyrsta lagi 14. október 2015. Þá liggi raunar ekki fyrir í gögnum málsins hvort hundurinn sé skráður á kæranda eða ekki.

Í 12. gr. samþykktar nr. 153/2000 um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi segi að sleppi hundur frá eiganda eða umráðamanni skuli viðkomandi gera tafarlausar ráðstafanir til að handsama hann. Eftirlitslausa hunda skuli færa í sérstaka hundageymslu og tilkynna eiganda, sé hundur merktur, handsömunina. Sé hunds eigi vitjað innan einnar viku skuli honum ráðstafað til nýs ábyrgs eiganda, hann seldur fyrir áföllnum kostnaði eða aflífaður. Hafi óskráður hundur verið handsamaður sé óheimilt að afhenda hann fyrr en að lokinni skráningu.

Athygli sé vakin á því að samkvæmt ákvæðinu sé ótvírætt að heilbrigðiseftirliti í umboði heilbrigðisnefndar beri að grípa til einhvers af ofangreindum úrræðum, en hafi ekki val um að neyta annarra ráða, komi upp sú staða að hunds sé ekki vitjað af eiganda innan sjö daga frá handsömun hans. Í ljósi þess að hundsins hefði ekki verið vitjað af eiganda sínum í meira en viku þann 9. október 2015 hafi heilbrigðisnefndin einfaldlega ekki haft val um annað en að nýta eitthvert þeirra úrræða sem fyrrnefnd 12. gr. bjóði. Val nefndarinnar á því úrræði að finna hundinum nýjan eiganda hafi fyllilega stuðst við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, enda sé það úrræði að aflífa hundinn augljóslega mun meira íþyngjandi ráðstöfun.

Það sé ókleift að ráða í það af kæru á hvaða málsástæðum kærandi telji að ógilda beri ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar. Það skuli þó nefnt að reglur sveitarfélaga um takmarkanir á dýrahaldi séu settar í þeim tilgangi að vernda og stuðla að velferð manna og dýra, sem og að réttri og ábyrgri meðferð á dýrum innan sveitarfélaganna. Í því samhengi megi enn fremur benda á lög nr. 55/2013 um velferð dýra. Samkvæmt 7. gr. laganna beri sveitarfélagi skylda til að grípa til aðgerða til þess að hjálpa dýrum sem gangi laus og séu ekki merkt skv. 22. gr. laganna. Markmið laganna skv. 1. gr. sé að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr séu skyni gæddar verur.

Ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar um að finna hundinum nýtt heimili hjá ábyrgum eiganda, í ljósi þess að eigandi hans hefði ekki vitjað hans innan þess tíma sem ákvæði 12. gr. samþykktarinnar tilgreini, hafi ótvírætt verið í samræmi við framangreind markmið laga nr. 55/2013.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ráðstöfun hunds til annars eiganda eftir að hundurinn var handsamaður af Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og vistaður í hundageymslu.

Um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi gildir samþykkt nr. 154/2000, sem sett er með stoð í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Segir í 1. gr. samþykktarinnar að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæminu með skilyrðum samkvæmt henni. Í 2. gr. kemur fram að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis í umboði heilbrigðisnefndar sjái um skráningu og annist framkvæmd og eftirlit með hundahaldi á eftirlitssvæðinu. Í 4. gr. segir að allir hundar á eftirlitssvæðinu séu skráningarskyldir. Í 12. gr. samþykktarinnar kemur fram að sleppi hundur frá eiganda eða umráðamanni skuli viðkomandi gera tafarlausar ráðstafanir til að handsama hann. Eftirlitslausa hunda skuli færa í sérstaka hundageymslu og tilkynna eiganda, sé hundur merktur, handsömunina. Sé hunds eigi vitjað innan einnar viku skal honum ráðstafað til nýs ábyrgs eiganda, hann seldur fyrir áföllnum kostnaði eða aflífaður. Hafi óskráður hundur verið handsamaður er óheimilt að afhenda hann fyrr en að lokinni skráningu.

Ákvæði um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögum nr. 7/1998 eru í VI. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilteknum þvingunaraðgerðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Verða ráðstafanir skv. 12. gr. samþykktar nr. 154/2000 taldar falla undir nefnt lagaákvæði. Samkvæmt 30. gr. laganna skal fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð mála samkvæmt VI. kafla laga nr. 7/1998.

Óumdeilt er að umræddur hundur var handsamaður þar sem hann var laus á almannafæri og vistaður í hundageymslu í samræmi við ákvæði samþykktar nr. 154/2000, en í 12. gr. er gert ráð fyrir að hundi verði ráðstafað til annars eiganda hafi hans ekki verið vitjað innan einnar viku.

Svo sem áður greinir var hundurinn handsamaður 30. september 2015. Kærandi mun hafa verið í sambandi við heilbrigðiseftirlitið degi síðar og tveim dögum þar á eftir, eða 3. október, sendi hann textaskilaboð og beiddist upplýsinga um skráningu hundsins. Honum var tjáð með textaskilaboðum 5. s.m. að hundurinn væri óskráður án þess að kæranda væri leiðbeint frekar, til að mynda um tímafrest samkvæmt 12. gr. samþykktar nr. 154/2000. Telja verður að heilbrigðiseftirlitinu hafi borið, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, að upplýsa kæranda um hugsanlegar afleiðingar þess að hann leysti ekki hundinn úr haldi innan ákveðins tíma, sérstaklega með tilliti til hins skamma frests sem umráðamanni er ætlaður til athafna samkvæmt ákvæðinu.

Fjórum dögum eftir að nefnd skilaboð höfðu verið send kæranda, eða 9. október, var hundinum ráðstafað til annars eiganda. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitinu var reynt að hringja í kæranda áður en hin umdeilda ákvörðun var tekin, en hann svaraði ekki í símann. Honum voru hins vegar hvorki send textaskilaboð né reynt að hringja í hann að nýju. Þess í stað var hundinum ráðstafað þann sama dag. Sér þess hvergi stað í gögnum málsins að ráðstöfun hundsins hafi verið svo aðkallandi að ekki væri ráðrúm til að gæta andmælaréttar kæranda með því að reyna til þrautar að ná sambandi við hann til að gefa honum færi á að tjá sig um þær aðgerðir sem voru yfirvofandi. Ef litið er til þess um hversu íþyngjandi ákvörðun var að ræða var það sérstaklega brýnt.

Í ljósi þess að ákvörðun um ráðstöfun hunds til annars eiganda er íþyngjandi var mikilvægt að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis vandaði sína málsmeðferð í hvívetna í samræmi við reglur stjórnsýslulaga áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja að á það hafi skort og að hin kærða ákvörðun sé þeim annmörkum háð að ógildingu varði, enda var hvorki gætt leiðbeiningarskyldu gagnvart kæranda né honum veittur réttur til andmæla.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 9. október 2015 um að ráðstafa hundinum Neró til nýs eiganda.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                                    Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    

 

15/2015 Grettisgata

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 um að veita byggingarleyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu á lóð nr. 62 við Grettisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. febrúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir E, Grettisgötu 60, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu við Grettisgötu 62. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar svalir hússins.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 1. apríl 2015 og í janúar 2016.

Málavextir: Fasteignin að Grettisgötu 62 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur 1.190.1. Um er að ræða hús á horni Grettisgötu og Barónsstígs.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. maí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til þess m.a. að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í umræddu húsi. Var afgreiðslu málsins frestað og erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í júlí s.á. var auglýst tillaga að breytingu á fyrrnefndu deiliskipulagi vegna lóða nr. 62 við Grettisgötu og Barónsstígs 20a og öðlaðist greind breyting gildi 12. nóvember s.á. Fól breytingin m.a. í sér að umræddar lóðir yrðu sameinaðar og heimilt yrði að byggja að lóðarmörkum innan byggingarreits. Hús á lóðinni yrði þrjár hæðir, ásamt þakhæð með kvistum, og fjöldi íbúða átta, en heimild hafði verið fyrir því að byggja eina hæð ofan á húsið samkvæmt áður gildandi skilmálum. Þá væru svalir á 2. og 3. hæð heimilaðar út fyrir byggingarreit. Jafnframt var tekið fram að eldri skilmálar giltu að öðru leyti.

Umsókn um leyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu að Grettisgötu 62 var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. nóvember 2014. Var afgreiðslu málsins frestað, sem og á afgreiðslufundum embættisins 2. og 9. desember s.á. Erindið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi 22. desember s.á., það samþykkt og talið samræmast ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010. Var byggingarleyfi gefið út 6. mars 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi fest kaup á íbúð á þriðju hæð Grettisgötu 60 í desember 2014. Séu svalir á Grettisgötu 62, til vesturs út frá eldhúsi, allt of nálægt svefnherbergisgluggum á annarri og þriðju hæð Grettisgötu 60. Ekki sé ljóst af teikningum frá 2010 að um svalir sé að ræða. Á seinni teikningum sé óljóst að svalir séu frá eldhúsi og ekki komi þar heldur fram að svalir séu rétt við svefnherbergisglugga íbúðar kæranda. Þá hafi kærandi reynt að afla sér upplýsinga hjá sveitarfélaginu um framkvæmdir á umræddri lóð í desember 2014, en engin svör fengið. Það hafi fyrst verið á fundi með umhverfis- og skipulagsráði 21. janúar 2015 sem kærandi hafi séð samþykktar teikningar að Grettisgötu 62.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að kæru sé vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Að öðru leyti sé öllum kröfum kæranda hafnað. Hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits. Hafi auglýsing um gildistöku breytingarinnar verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember 2014. Byggingarleyfi hafi verið samþykkt og gefið út 22. desember s.á. og staðfest í borgarráði 8. janúar 2015. Úrskurðarnefndinni hafi borist kæra í málinu 19. febrúar 2015 og hafi kærufrestur þá verið liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að árið 2010 hafi verið lögð inn fyrirspurn til byggingarnefndar um stækkun hússins. Á teikningu er fylgt hafi fyrirspurn séu sýndar skáskornar svalir. Í byrjun árs 2014 hafi verið sótt um að breyta deiliskipulagi lóðanna Grettisgötu 62 og Barónsstígs 20a. Í umsókninni hafi verið sýndar svalir, líkt og í fyrirspurn. Á samþykktum byggingarnefndarteikningum séu svalir óbreyttar frá fyrirspurn og samþykktu deiliskipulagi. Ekkert komi fram í byggingarreglugerð sem komi í veg fyrir þessa útfærslu á svölum. Hafi þær verið skáskornar af tilliti til íbúa Grettisgötu 60, en á þann hátt verði ekki innsýn frá svölum í þær íbúðir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis er heimilar m.a. stækkun hússins að Grettisgötu 62 og lýtur kröfugerð kæranda að svölum á annarri og þriðju hæð. Hefur Reykjavíkurborg gert kröfu um frávísun málsins með vísan til þess að kæra hafi ekki borist úrskurðarnefndinni innan lögboðins kærufrests. 

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, nema á annan veg sé mælt fyrir um í lögum. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr, eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki liggur annað fyrir en að kæranda hafi fyrst á fundi með umhverfis- og skipulagsráði 21. janúar 2015 orðið kunnugt um samþykkt byggingarleyfis vegna Grettisgötu 62. Ekki verður fullyrt að kæranda hafi mátt vera efni þess ljóst fyrr en þá. Kæra barst í málinu 19. febrúar 2015 og því innan áskilins kærufrests. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Húsið að Grettisgötu 62 er reist árið 1923 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en húsakönnun Árbæjarsafns tilgreinir byggingarár sem 1924. Í VII. kafla laga um menningarminjar nr. 80/2012 er fjallað um verndun og varðveislu húsa og mannvirkja. Er kveðið á um það í 30. gr. laganna að eigendum húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar, en byggð voru 1925 eða fyrr, sé skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa. Ber byggingarfulltrúum að fylgjast með því að leitað sé eftir nefndu áliti áður en leyfi er veitt til framkvæmda. Skal álit Minjastofnunar liggja fyrir áður en byggingarleyfi er veitt til framkvæmda og skal þar taka tillit til skilyrða sem Minjastofnun leggur til í áliti sínu. Er óheimilt að gefa út byggingarleyfi
fyrir mannvirki sem fellur undir IV., VI. og VII. kafla laga um menningarminjar fyrr en álit Minjastofnunar liggur fyrir skv. 4. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Svo sem fyrr greinir er húsið að Grettisgötu 62 reist fyrir árið 1925. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg liggur ekki fyrir álit Minjastofnunar í málinu. Með vísan til þess sem að ofan greinir er þó ljóst að eiganda hússins hefði borið að leita álits Minjastofnunar áður en sótt var um leyfi byggingaryfirvalda fyrir breytingum á því og var byggingarfulltrúa að sama skapi óheimilt að veita umrætt byggingarleyfi áður en álits þessa væri leitað. Leiðir ágalli þessi á málsmeðferð óhjákvæmilega til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar í heild sinni.

Eins og fyrr greinir er í gildi deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur 1.190.1, á umræddu svæði. Þar kemur m.a. fram að við hönnun viðbygginga og breytinga skuli vanda mjög til hönnunar og hafa t.a.m. til hliðsjónar að þær hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið og gæði nálægra bygginga. Jafnframt segir svo í almennum skilmálum: „Við Grettisgötu og Barónsstíg skulu svalir snúa inn að reit. Dýpt þeirra leggst við húsdýpt. Mesta dýpt svala frá bakhlið húss er 1,6 m.“ Líkt og áður er rakið tók gildi breyting á skilmálum greinds deiliskipulags vegna lóðanna Grettisgötu 62 og Barónsstígs 20a í nóvember 2014, en tekið var þar fram að eldri skilmálar giltu að öðru leyti. Þær breytingar einar voru gerðar hvað varðar svalir að gert er ráð fyrir því að svalir á 2. og 3. hæð séu heimilaðar út fyrir byggingarreit. Ekki er í neinu vikið að stærð svala og verður því ekki annað ráðið en að áðurgreindir almennir skilmálar um stærð þeirra séu enn í gildi. Af framlögðum byggingarnefndarteikningum fyrir aðra og þriðju hæð hússins að Grettisgötu 62 verður ekki betur séð en að dýpt þeirra svala sem eru í kverk hússins sé meiri en áskilið er í deiliskipulagi. Er hið kærða byggingarleyfi hvað þetta varðar því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem krafa er gerð um í 11. gr. og 1. tl. 13. gr. mannvirkjalaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 um að veita byggingarleyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu á lóð nr. 62 við Grettisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

91/2015 Silfurgata

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 91/2015, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar frá 7. september 2015 um að samþykkja umsókn um breytingu á lóð nr. 15 við Silfurgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Marteinn Másson hrl., f.h. I, Keldulandi 1, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar frá 7. september 2015 að samþykkja umsókn um breytingu á lóð nr. 15 við Silfurgötu sem fólst í að helluleggja bílastæði og gangveg að risíbúð, lækka svæðið um u.þ.b. 0,5 m og loka sári með torfi eða öðrum gróðri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Stykkishólmsbæ 29. október, 19. nóvember og 3. desember 2015.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 1. júní 2015 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa að Silfurgötu 15 um leyfi til að helluleggja bílastæði og gangveg að risíbúð, lækka svæðið um u.þ.b. 0,5 m og loka sári með torfi eða öðrum gróðri þar sem bílastæði væri vel frá lóðarmörkum. Nefndin frestaði afgreiðslu málsins og óskaði eftir uppdrætti af framkvæmdinni. Á fundi nefndarinnar 6. júlí s.á. var ákveðið að grenndarkynna erindið skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir kæranda. Grenndarkynningin fór fram og kæranda gefinn frestur til koma á framfæri athugasemdum til 5. ágúst 2015. Kom kærandi athugasemdum sínum á framfæri með bréfi, dags. 4. s.m.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 17. ágúst 2015, því frestað og bókað að nefndin óskaði eftir að lóðahafar kæmust að niðurstöðu um frágang á lóðamörkum fyrir næsta fund sem yrði líklega 7. september s.á. Á fundi nefndarinnar þann dag var umsóknin samþykkt og fól nefndin skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum, sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt var bókað að framkvæmdin væri innan lóðarmarka lóðar nr. 15 við Silfurgötu og til þess gerð að fegra núverandi svæði. Loks var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að svara innsendri athugasemd kæranda. Sama dag áritaði byggingarfulltrúi uppdrátt að breytingunni um samþykkt nefndarinnar. Afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar var svo samþykkt á fundi bæjarráðs 17. s.m. og á fundi bæjarstjórnar 22. s.m. og var kæranda tilkynnt um niðurstöðu hennar með bréfi, dags. 23. september 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í núgildandi deiliskipulagi Þinghúshöfða séu auðkennd bílastæði vestan við Bókhlöðustíg 9 og séu þau jafnvel að hluta til á þeirri lóð. Samkvæmt skýringartexta deiliskipulagsins séu þau sameiginleg og öllum heimilt að nýta þau sem slík. Lóðarmörk lóðar kæranda við Bókhlöðustíg 9 séu enn óljós og óákveðin og samkvæmt deiliskipulaginu hafi lóðarmörk verið birt með fyrirvara. Samkvæmt uppdrætti sem fylgt hafi bréfum skipulagsfulltrúa til kæranda, dags. 30. desember 2013 og 31. janúar 2014, nái lóðin lengra til vesturs í norðvestur horni en tilgreint sé í deiliskipulagi. Því séu bílastæðin tvö að vestanverðu að nokkru leyti innan marka lóðar kæranda. Lóðarleigusamningar frá 1916 og uppdrættir frá 1942-1943 styðji þessi málsrök. Með vísan til þessa sé órökrétt að færa vesturmörk lóðar kæranda í austur í stað þess að lega þeirra sé vestar og í beinni línu við vesturmörk lóðanna Bókhlöðustígs 7 og 11.

Því sé hafnað af hálfu kæranda að hægt sé að staðsetja nákvæmlega mörk lóðar hans skv. þinglýstum heimildum, svo sem skipulags- og byggingarfulltrúi hafi haldið fram undanfarin ár. Hafi Stykkishólmsbær unnið markvisst að því að færa vesturmörk lóðarinnar til austurs til þess að skapa rými fyrir leyfishafa. Gengið hafi verið á hlut kæranda sem hafi aldrei samþykkt þessar ráðstafanir bæjarins.

Í greinargerð með nefndu deiliskipulagi komi fram að til þess að halda yfirbragði svæðisins þurfi að setja skilmála fyrir húsin á svæðinu, bæði almenna og sérskilmála fyrir hvert hús. Komi slíkt að mestu leyti í veg fyrir tilviljunarkenndar leyfisveitingar til breytinga og viðbygginga sem eigendur húsanna kunni að óska eftir. Þá sé einnig gert ráð fyrir því að ákvarðanir séu teknar að vel ígrunduðu máli og séu vel rökstuddar og grundvallaðar í deiliskipulagi. Þau rök eigi ekki síður við um mannvirki og aðliggjandi lóðir utan reitsins. Seilst hafi verið töluvert inn á lóð kæranda til þess að stækka lóð leyfishafa, með það að markmiði að búa til aðkomuleið að íbúð á efstu hæð hússins þar. Mótmælt sé að framangreind skerðing fari fram með þeim hætti sem gert sé, þ.e. með samþykki fyrirhugaðra breytinga á lóð á óskipulögðum reit.

Deiliskipulagið fyrir Þinghúshöfða útiloki staðsetningu bílastæða austanvert á lóð leyfishafa. Forsendum í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 15/2014 sé mótmælt harðlega hvað varði að „… nefnd aðkoma verði nýtt til þess að komast að bílastæðum á hinni stækkuðu lóð“. Sú forsenda sé röng að mati kæranda og í brýnni andstöðu við gildandi deiliskipulag. Hvorki ákvörðunin um stækkun lóðarinnar við Silfurgötu 15 sem þar var til umfjöllunar né sú ákvörðun sem hér sé kærð geti rutt burtu tveimur bílastæðum skv. deiliskipulagi. Til þess þurfi deiliskipulagsbreytingu skv. ákvæðum skipulagslaga. Grenndarkynning á svæði utan deiliskipulagsreits geti ekki flokkast sem óveruleg breyting á deiliskipulagi í skilningi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Með hinni kærðu ákvörðun skerðist útsýni kæranda til vesturs verulega og hljótist stórfellt ónæði, hávaði og óþrif af bílum á lóð leyfishafa. Kærandi hafi m.a. keypt fasteign sína með það í huga að geta notið útsýnis í vestur. Auk þess verði bílaumferð og bílgeymslusvæði á þrjá vegu um lóðina og sé lífsgæðum íbúa þar með verulega spillt.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að nýr lóðarleigusamningur fyrir Silfurgötu 15 hafi verið gerður 4. júlí 2015 að undangenginni kæru og úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Á lóðarblaði, sem sé fylgiskjal lóðarleigusamningsins, komi fram að tvö bílastæði séu innan lóðarinnar. Erindið hafi fengið lögformlegt ferli í bókunum og síðan grenndarkynnt. Auk þess hafi afgreiðslu erindisins verið frestað á fundi svo að nágrannar gætu komist sjálfir að niðurstöðu um frágang á lóðamörkum innan ákveðins tímafrests.

Lóðarmörk Silfurgötu 15 séu skýr. Aðgengi að risíbúð hafi verið á þessum stað allt frá 1954 eða síðan húsið var byggt. Þá sé framkvæmdin innan lóðar og hafi leyfið því verið veitt. Ekki sé verið að breyta hæð á lóðarmörkunum en skipulags- og byggingarnefnd hafi viljað grenndarkynna erindið til að uppfylla allar lagalegar skyldur og þar sem ekki væri til deiliskipulag af viðkomandi svæði.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi fer fram á að kröfum kæranda sé hafnað, enda sé nú þegar búið að fjárfesta í efni fyrir framkvæmd þá sem leyfið taki til.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar að samþykkja umsókn um breytingu á lóð nr. 15 við Silfurgötu. Lóðin er á ódeiliskipulögðu svæði. Einskorðast umfjöllun úrskurðarnefndarinnar við nefnda ákvörðun, en í kæru sinni gerir kærandi stækkun nefndrar lóðar að umtalsefni, sem og núverandi deiliskipulag Þinghúshöfða. Ágreiningur þar um hefur áður hlotið kærumeðferð hjá úrskurðarnefndinni. Eru úrskurðir í þeim málum, sem eru nr. 57/2011 og nr. 15/2014, fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og koma þeir ekki til endurskoðunar hér.

Almennt annast byggingarfulltrúi meðferð byggingarleyfisumsókna og veitir leyfi með samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis, sbr. 9., 11., og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Með stoð í 1. mgr. 7. gr. laganna hefur bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hins vegar sett sérstaka samþykkt nr. 610/2015 um afgreiðslur byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar. Samkvæmt 2. gr. hennar er það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt útgáfuna.

Hinu umdeildu framkvæmdir, svo sem þeim er lýst, fela í sér að helluleggja bílastæði sem fyrir eru á lóðinni samkvæmt lóðarblaði samþykktu 14. janúar 2014, sem og gangveg að risíbúð. Enn fremur er yfirborð lóðar að hluta til lækkað um u.þ.b. 0,5 m, en sú lækkun nær ekki að lóðarmörkum. Þá er heimilað að loka sári með torfi eða öðrum gróðri.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi. Í e-lið greinarinnar er meðal annars tiltekið að þar undir falli allt eðlilegt viðhald lóðar, bílastæða og innkeyrslu. Jafnframt er tekið fram að ekki sé heimilt að breyta hæð lóðar á lóðarmörkum án samþykkis leyfisveitanda og samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þá sé ekki heimilt að breyta hæð lóðar innan hennar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni þeirra, t.d. vegna útsýnis.

Þykir ljóst af framangreindu að hinar umdeildu framkvæmdir fela í sér eðlilegt viðhald í skilningi áðurgreinds ákvæðis. Þá verður ekki séð að lækkun lóðarinnar sé til þess fallin að hafa áhrif á hagsmuni kæranda. Voru framkvæmdirnar því ekki byggingarleyfisskyldar.

Eins og atvikum er hér háttað hefur það ekki þýðingu að taka afstöðu til lögmæti hinar kærðu ákvörðunar. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Þorsteinn Þorsteinsson

103/2013 Lífrænn úrgangur

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um að synja um undanþágu til að safna lífrænum eldhúsúrgangi frá heimilum í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. október 2013, er barst nefndinni 25. s.m., kærir Gámaþjónustan hf., Hringhellu 6, Hafnarfirði, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 17. september 2013 að synja kæranda um starfsleyfi til að safna lífrænum eldhúsúrgangi frá heimilum í Reykjavík. Verður að skilja kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, en kærandi gerir einnig þá kröfu að heilbrigðisnefnd verði gert að gefa út sérstakt starfsleyfi framangreinds efnis honum til handa. Einnig er kærð sú niðurstaða heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 9. apríl 2013, að ekki rúmist innan starfsleyfis kæranda að safna lífrænum  og blönduðum heimilisúrgangi í sérstaka tunnu. Loks er kærð sú tilhögun að sama stjórnvald, þ.e. heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, gefi út starfsleyfi til frjálsra óopinberra aðila á markaði, hafi eftirlit með þeim og úrskurði um gildissvið leyfa þeirra á sama tíma og stjórnvaldið gefi út starfsleyfi fyrir eigin starfsemi sem sé í samkeppni við aðila á frjálsum markaði.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur 10. desember 2013 og í ágúst og september 2015.

Málavextir: Kærandi er fyrirtæki er veitir m.a. þá þjónustu að safna nánar tilteknu flokkuðu sorpi frá heimilum í Reykjavík samkvæmt sértækum skilyrðum starfsleyfis, útgefnu af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.

Með bréfi til heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, dags. 28. desember 2012, óskaði kærandi eftir því að nefndin staðfesti þann skilning hans að innan starfsleyfis hans til söfnunar flokkaðs heimilisúrgangs í Reykjavík rúmaðist heimild til að hefja söfnun á lífrænum og blönduðum eldhúsúrgangi í sérstaka tunnu. Teldi nefndin að slík söfnun úrgangs rúmaðist ekki innan gildandi starfsleyfis óskaði kærandi eftir því að upplýst yrði hvaða skilyrði hann þyrfti að uppfylla til að hefja þá þjónustu í Reykjavík.

Erindi kæranda var svarað með bréfi, dags. 20. febrúar 2013, þar sem fram kom sú afstaða heilbrigðisnefndar að söfnun óflokkaðs heimilisúrgangs rúmaðist ekki innan gildandi starfsleyfis hans, sem gefið væri út með almennum og sértækum skilyrðum. Auk þess væri það stefna Reykjavíkurborgar að söfnun blandaðs heimilisúrgangs væri á vegum borgarinnar. Í bréfi kæranda 11. mars s.á. var farið fram á að heilbrigðisnefnd staðfesti að söfnun á flokkuðum lífrænum úrgangi til jarðgerðar í jarðgerðarstöð hans í Hafnarfirði rúmaðist innan starfsleyfa sem gefin hefðu verið út af nefndinni honum til handa. Í svarbréfi heilbrigðisnefndarinnar, dags. 9. apríl s.á., var ítrekuð sú afstaða nefndarinnar að söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi og blönduðum heimilisúrgangi í sérstaka tunnu rúmaðist ekki innan starfsleyfis kæranda. Leyfið værigefið út annars vegar með almennum skilyrðum fyrir mengandi starfsemi, flutning á úrgangi, öðrum en spilliefnum, og flutning á spilliefnum og hins vegar sérstökum skilyrðum fyrir söfnun á flokkuðum heimilisúrgangi og kröfum um skil á upplýsingum árlega um magn úrgangs o.fl. Bent var á í bréfinu að í 1. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg væri kveðið á um að Reykjavíkurborg sæi um söfnun á heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í borginni.

Kærandi sendi loks bréf til heilbrigðisnefndarinnar, dags. 17. apríl 2013, þar sem hann fór þess á leit að nefndin tæki afstöðu til þess hvort starfsleyfi kæranda heimilaði að safnað væri lífrænum heimilisúrgangi til jarðgerðar í sérstakt ílát sem losað væri sérstaklega, þar sem hann hefði ekki enn fengið skýr svör um það í fyrri bréfum nefndarinnar. Tók kærandi jafnframt fram að ef nefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að nefnd söfnun á úrgangi rúmaðist ekki innan starfsleyfis hans þá sækti hann um nýtt starfsleyfi og/eða undanþágu þar sem heimiluð yrði áðurnefnd söfnun á lífrænum heimilisúrgangi til jarðgerðar frá heimilum í borginni.

Umsókn kæranda um nefnda undanþágu til að safna lífrænum heimilisúrgangi var lögð fyrir heilbrigðisnefnd Reykjavíkur á fundi nefndarinnar 25. júní 2013 og var ákveðið að vísa henni til meðferðar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem og til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs og hverfaráða. Á fundi heilbrigðisnefndarinnar 17. september 2013 var lögð fram bókun og umsögn umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 28. ágúst s.á., og umsagnir hverfisráða Miðborgar, Hlíða og Kjalarness.

Samkvæmt bókun umhverfis- og skipulagsráðs samþykkti meirihluti ráðsins þá umsögn um erindið að ráðið teldi að ekki ætti að veita rekstraraðilum undanþágu til söfnunar á lífrænum eldhúsúrgangi frá íbúðarhúsum. Ástæðurnar væru þær helstar að eðli lífræns úrgangs væri annað en þurra endurvinnsluefna sem rekstraraðilar hefðu heimildir til að safna. Úrgangurinn gæti valdið lyktarmengun, skordýr og meindýr sæktu í hann og hann gæti borið með sér sóttkveikjur, líkt og blandaður heimilisúrgangur. Því væri mjög mikilvægt að regluleg hirða væri tryggð og að rétt væri staðið að söfnun úrgangsins. Lífrænan eldhúsúrgang þurfi að hirða á minnst 14 daga fresti en þurr endurvinnsluefni væru hirt á 28 daga fresti. Afleiðing þessa yrði sú að umferð sorpbíla um íbúðargötur myndi aukast verulega, bæði vegna aukinnar hirðutíðni og söfnunar fleiri úrgangsflokka.

Niðurstaða heilbrigðisnefndar á nefndum fundi 17. september 2013 var að synja kæranda um undanþágu til söfnunar á lífrænum heimilisúrgangi og var kæranda tilkynnt sú ákvörðun með bréfi, dags. 24. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann sé með gilt starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fyrir starfsemi sinni í borginni. Einnig sé hann með sérstaka undanþágu, sérstakt starfsleyfi, fyrir söfnun flokkaðs úrgangs í Reykjavík. Hann hafi um áratugaskeið þjónað fjölmörgum fyrirtækjum í Reykjavík á sviði úrgangs og endurvinnslu og annist m.a. söfnun, móttöku og endurvinnslu (jarðgerð) á lífrænum úrgangi frá fjölda fyrirtækja. Þar sé m.a. um að ræða grænmetis- og ávaxtaúrgang frá verslunum og heildsölum, auk eldaðra matarafganga frá mötuneytum. Skólar Reykjavíkurborgar hafi verið þar á meðal. Hafi heilbrigðisnefnd ekki gert við þetta neinar athugasemdir en eftirlitsaðilar á hennar vegum þekki vel til þessarar söfnunar þar sem þeir hafi eftirlit með mörgum fyrirtækjum sem kærandi þjónusti.

Mikil fáfræði og ranghugmyndir séu áberandi innan heilbrigðisnefndar og hjá aðilum innan stjórnkerfis borgarinnar sem henni tengist. Megi t.d. benda á óundirritaða tillögu að umsögn umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur þar sem segi m.a.: „Eðli lífræns úrgangs er annað en þurra endurvinnsluefna sem rekstraraðilar safna í dag. Úrgangurinn getur valdið lyktarmengun, skordýr og meindýr sækja í hann og getur hann borið í sér sóttkveikjur líkt og blandaður heimilisúrgangur. Því er mikilvægt að regluleg hirða sé tryggð og rétt sé staðið að söfnun úrgangsins.“ Þessi málsgrein hafi ásamt lengra máli verið samþykkt sem umsögn meirihluta umhverfis- og skipulagsráðs í málinu. Í þessu sambandi megi spyrja hvers vegna söfnun, flutningur og endurvinnsla þessa úrgangs sé talin góð og gild frá fyrirtækjum en varhugaverð frá heimilum. Hér sé um túlkun að ræða sem hvorki styðjist við lög né reglugerðir, enda engin tilraun gerð til að vísa til slíkra heimilda í synjun heilbrigðisnefndar. Kærandi ítreki að hann hafi gilt starfsleyfi til að annast söfnun á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík. Skilgreiningu á hugtakinu „flokkaður heimilisúrgangur“ sé hvorki að finna í lögum né reglugerðum en þar sé hins vegar að finna skilgreiningu á hugtökunum „heimilisúrgangur“ og „flokkun“.

Kærandi hafi í sjö ár safnað flokkuðum, þurrum endurvinnsluefnum, sem teljist vera hluti af heimilisúrgangi samkvæmt lagaskilgreiningu. Þar sé um að ræða pappír, plast og málma frá heimilum, alls sjö efnisflokka, sem safnað sé í sérstaka endurvinnslutunnu. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi um árabil leyft þessa starfsemi kæranda með sérstakri undanþágu. Ýmis heimili hafi farið þess á leit að kærandi bjóði einnig upp á sérstaka söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi, þ.e. matarleifum. Þegar sá úrgangur sé flokkaður frá öðrum hljóti hann að teljast vera „flokkaður heimilisúrgangur“ í skilningi laga og reglugerða og hafi kærandi talið sig hafa leyfi til að annast þá söfnun á sama grundvelli og söfnun endurvinnsluefna í endurvinnslutunnu. Í ljósi góðra samskipta við heilbrigðisnefnd árum saman hafi þó verið talið rétt að leita eftir sjónarmiðum nefndarinnar og fá staðfestingu á þeim skilningi. Hafi það verið gert með bréfi til heilbrigðisnefndar, dags. 28. desember 2012, sem hafi verið ítrekað með bréfi, dags. 18. febrúar 2013. Í þessum bréfum sé farið fram á að lífræn söfnun kæranda verði samhæfð söfnun á blönduðum heimilisúrgangi því tæknilegar aðferðir kæranda geri það kleift að safna tveimur mismunandi flokkum efnis í sömu tvískiptu tunnuna. Tækni þessari sé lýst nánar í bréfinu. Jafnframt hafi verið óskað eftir leiðbeiningum stjórnvalds, á grundvelli 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um hvaða skilyrði kærandi yrði að uppfylla til að afla slíks starfsleyfis eða fá breytingar á núverandi starfsleyfum. Svar hafi borist frá heilbrigðisnefndinni með bréfi, dags. 20. febrúar 2013, þar sem engin skýr svör séu gefin. Kærandi hafi sent annað bréf, dags. 11. mars s.á., þar sem enn sé spurt um túlkun starfsleyfa og sérstaklega spurt um söfnun á lífrænum úrgangi frá heimilum án þess að söfnun á blönduðum úrgangi sé þar nefnd. Í svari heilbrigðisnefndarinnar, dags. 9. apríl s.á., víki nefndin sér undan að svara fyrirspurninni. Enn hafi nefndinni verið sent bréf, dags. 17. s.m., þar sem sú spurning sé ítrekuð hvort kæranda sé heimilt að safna lífrænum heimilisúrgangi til jarðgerðar í sérstakt ílát sem losað sé sérstaklega. Ekkert svar hafi borist frá heilbrigðisnefndinni fyrr en í september s.á. Túlkun heilbrigðisnefndarinnar á sértækum starfsleyfisskilyrðum kæranda sé allt önnur en túlkun kæranda og afar neikvæð.

Afstaða og viðbrögð heilbrigðisnefndarinnar sé hvorki í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 né lög um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003. Kærandi hafi ávallt starfað innan marka laga og reglugerða en telji að nú sé brugðið fyrir hann fæti af heilbrigðisnefndinni á óverðskuldaðan hátt. Ýmis ákvæði samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg nr. 228/2013, sem heilbrigðisnefndin vitni til, fari langt út fyrir þann lagaramma sem málaflokknum sé settur. Með framkomu sinni brjóti Reykjavíkurborg gegn eigin stefnu í sorpmálum þar sem minnkun á myndun úrgangs og aukin endurvinnsla sé í fyrirrúmi.

Sami aðili, þ.e. Reykjavíkurborg og undirstofnanir hennar, annist bæði útgáfu starfsleyfa og eftirlit með aðilum sem starfi á sviði umhverfismála en gefi á sama tíma út starfsleyfi fyrir eigin starfsemi og annist sjálfur eftirlit með slíkri starfsemi. Þetta eigi bæði við um sorphirðu Reykjavíkur og rekstur svokallaðra endurvinnslustöðva Sorpu, en borgin sé stærsti eignaraðilinn að því fyrirtæki.

Málsrök heilbrigðisnefndar Reykjavíkur: Af hálfu heilbrigðisnefndar er áréttað að skipulag söfnunar og flutningur heimilissorps sé lögbundið hlutverk sveitarfélaga og eitt meginverkefnið í grunnþjónustu íbúunum til handa. Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 sé sveitarstjórnum ætlað að sinna staðbundinni stjórn úrgangsmála. Skuli sveitarstjórn ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í viðkomandi sveitarfélagi. Skilgreiningu á heimilissorpi sé að finna í 1. mgr. 3. gr. laganna en þar segi að heimilissorp sé „úrgangur frá heimilum, t.d. matarleifar, pappír, pappi, plast, garðúrgangur, gler, timbur, málmar og sams konar leifar frá rekstraraðilum o.þ.h.“. Löggjafinn hafi ákveðið að ábyrgðin af því að úrgangsmál séu í samræmi við lög og reglugerðir skuli vera á höndum sveitarfélaga. Sveitarstjórn sé, skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003, ábyrg fyrir flutningi heimilisúrgangs og skuli sjá til þess að móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang séu til staðar í sveitarfélaginu. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um meðferð úrgangs nr. 737/2003 segi að sveitarstjórn skuli ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn beri jafnframt ábyrgð á því að regluleg tæming sorpíláta sé framkvæmd og að heimilisúrgangur sé fluttur frá öllum heimilum á viðkomandi svæði sveitarstjórnar. Af framangreindu megi glögglega sjá að sveitarstjórn hafi ákvörðunarvald um það hvernig standa skuli að söfnun úrgangs frá heimilum í sveitarfélaginu. Þar að auki hafi sveitarstjórn fullt ákvörðunarvald um með hvaða hætti úrgangi sé safnað frá rekstraraðilum innan sveitarfélags.

Heilbrigðisnefndin bendir á að í viðleitni til þess að veita sveitarstjórnum aukið frelsi til að ákveða með ítarlegum hætti hvernig standa skuli að söfnun úrgangs og aðlaga þá söfnun að staðbundnum tilfellum hafi löggjafinn veitt sveitarstjórn heimild til þess að setja sérstaka samþykkt um meðhöndlun úrgangs, þar sem taka megi upp ítarlegri reglur en komi fram í lögum nr. 55/2003 og reglugerðum settum með heimild í þeim. Um setningu og gerð slíkra samþykkta fari eftir 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Nefnt lagaákvæði veiti sveitarstjórnum mjög rúma heimild til að taka upp ákvæði sem sveitarstjórn telji þörf fyrir í samþykkt og nauðsynleg séu til þess að þjónusta íbúa með sem bestum hætti.

Í 2. mgr. 1. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg nr. 228/2013 segi að Reykjavíkurborg sjái um söfnun á heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík. Jafnframt segi að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur sé heimilt að veita öðrum aðilum undanþágu til söfnunar á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík. Skilyrði fyrir slíkri undanþágu af hálfu heilbrigðisnefndar sé að sá sem sæki um undanþágu sé að veita meiri þjónustu en Reykjavíkurborg veiti. Hafi sveitarstjórn rúmar heimildir til að ákveða hvort sveitarfélagið annist sjálft þjónustuna eða hvort það úthýsi henni til annarra aðila. Þar að auki sé það skylda sveitarstjórnar að sjá til þess að heimilissorp sé flokkað. Reykjavíkurborg hafi ákveðið að annast sjálf söfnun heimilisúrgangs í samræmi við heimildir í lögum og hafi ekki í hyggju að úthýsa þjónustunni, enda sé það fyrirkomulag talið heppilegast svo tryggja megi að þjónustan sé veitt í samræmi við gildandi lög og reglur. Áðurnefnd samþykkt veiti borginni heimild til að heimila öðrum aðilum að sinna þjónustunni en þá aðeins að takmörkuðu leyti. Ákvörðunarvald um það hvort heimila eigi öðrum aðilum að sinna söfnun flokkaðs heimilisúrgangs liggi að öllu leyti hjá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, sem hafi eftirlit með því að ákvæði samþykktarinnar séu virt. Mat nefndarinnar byggist fyrst og fremst á faglegum forsendum. Nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu við stjórnsýslulega meðferð umsóknar kæranda að það þjóni ekki hagsmunum borgarinnar að veita heimild til söfnunar á flokkuðum, lífrænum heimilisúrgangi.

Því sé alfarið hafnað að fáfræði og ranghugmyndir hafi stjórnað þeirri ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar að synja kæranda um undanþágu til að safna lífrænum heimilisúrgangi. Nefndin hafi aflað umsagna fjölmargra aðila við undirbúning töku ákvörðunarinnar. Meðal annars hafi verið aflað umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sem sé sérfrótt fjölskipað stjórnvald innan stjórnkerfis borgarinnar og hafi í sínum verkahring umhverfismál, þ. á m. sorphirðu og úrgangsmál. Í umsögn ráðsins sé bent á ýmis atriði sem þurfi að hafa í huga við undirbúning ákvörðunar í málinu.

Varðandi þann hluta kærunnar er snúi að útgáfu heilbrigðisnefndar á starfsleyfum bendi nefndin á að í 11. gr. laga nr. 7/1998 segi að landið skiptist í eftirlitssvæði og skuli sveitarstjórn eftir hverjar kosningar kjósa heilbrigðisnefnd sem starfi á hverju svæði. Samkvæmt 13. gr. laganna skuli heilbrigðisnefnd sjá til þess að lögunum sé framfylgt, sem og reglugerðum settum með stoð í þeim, samþykktum sveitarfélagsins og ákvæðum annarra laga og reglugerða sem nefndinni sé falið að annast framkvæmd á. Heilbrigðisnefndir hafi sjálfstæðan fjárhag og séu ákvarðanir þeirra kæranlegar til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1998. Af þessu megi glögglega ráða að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur sé sjálfstætt stjórnvald sem lúti ekki boðvaldi annarra stjórnvalda. Ákvarðanir nefndarinnar byggi á hlutlægu mati. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 7/1998 skuli allur atvinnurekstur sem hafi í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi. Í 2. mgr. 6. gr. laganna komi fram að heilbrigðisnefndir gefi út starfsleyfi fyrir slíkan atvinnurekstur, sem ekki sé talinn upp í fylgiskjali með lögunum. Samkvæmt þessu sé það heilbrigðisnefndar að gefa út starfsleyfi til þeirra er sinni sorphirðu af einhverju tagi, óháð því hver eigi í hlut. Framangreint fyrirkomulag hafi verið ákveðið af löggjafanum og sé heilbrigðisnefndum óheimilt að haga starfsemi sinni á einhvern annan hátt.

Athugasemdir kæranda við málsrök heilbrigðisnefndar Reykjavíkur: Kærandi mótmælir því að athugasemdir hans við umsögn umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur séu órökstuddar. Kærandi hafi um árabil veitt ýmsum rekstraraðilum í Reykjavík þjónustu varðandi úrgang og endurvinnsluefni og meðal annars safnað lífrænum úrgangi frá stórmörkuðum og verslunum. Við þessa þjónustu hafi aldrei borist kvörtun um ásókn meindýra né skordýra, hvað þá að sóttkveikjur hafi fylgt þjónustunni. Þar sem lífrænum úrgangi sé safnað sé það gert tvisvar í viku og fyllsta hreinlætis gætt. Reykjavíkurborg standi sjálf að söfnun á blönduðum úrgangi frá heimilum í borginni á allt að 20 daga fresti. Ef fullyrðingar um meindýr og sóttkveikjur eigi við rök að styðjast eigi það eins við um þá starfsemi.

Í greinargerð heilbrigðisnefndarinnar sé því haldið fram að í kærunni felist krafa af hálfu kæranda um að úrskurðarnefndin leggi fyrir heilbrigðisnefnd að gefa út starfsleyfi eða að túlka starfsleyfi með tilteknum hætti. Engin slík krafa sé gerð í kærunni en eingöngu kært að sama stjórnvald geti gefið sjálfu sér, sem sjálfstæðum lögaðila, starfsleyfi jafnhliða umfjöllun um starfsleyfisumsóknir annarra aðila, auk þess að hafa eftirlit með öllum rekstraraðilum. Þetta stríði gegn anda stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en einnig gegn ákvæðum laga nr. 7/1998, um hlutverk heilbrigðisnefnda og valdsvið þeirra.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Mál þetta snýst um heimildir til söfnunar á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík.

Kærandi hefur m.a. kært það fyrirkomulag að sama stjórnvald, þ.e. heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, gefi út starfsleyfi til frjálsra óopinberra aðila á markaði, hafi eftirlit með þeim og úrskurði um gildissvið starfsleyfa þeirra á sama tíma og stjórnvaldið gefi út starfsleyfi fyrir eigin starfsemi sem sé í samkeppni við aðila á frjálsum markaði. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum þeirra laga og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. a í lögunum skal allur atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. gefa heilbrigðisnefndir út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og ekki er talinn upp í fylgiskjali, sbr. 1. mgr., eftir því sem mælt er fyrir um í reglugerð, og hefur reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun verið sett. Samkvæmt grein 7.1 í reglugerðinni skal allur atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. fylgiskjal 1, fylgiskjal 2 og I. viðauka með reglugerðinni. Í fylgiskjali 2 eru listar yfir atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi fyrir og kveðið er á um nauðsyn starfsleyfis fyrir sorpflutninga og sorphirðu í tölul. 7.14 í 7. kafla fylgiskjalsins. Samkvæmt framangreindu er ljóst að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur verið veitt það hlutverk samkvæmt lögum að gefa út starfsleyfi til aðila sem sjá um nefnda starfsemi í borginni, þ. á m. sorphirðu Reykjavíkurborgar og kæranda. Fellur það utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að úrskurða um það fyrirkomulag að heilbrigðisnefnd sé falið að veita starfsleyfi vegna sorpflutninga og sorphirðu, sem að framan er rakið, enda hefur löggjafinn tekið til þessa skýra afstöðu.

Meginágreiningur máls þessa er sú ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar frá 17. september 2013 að synja kæranda um undanþágu til að safna lífrænum úrgangi frá heimilum í Reykjavík, en kærandi kærir einnig þá „[niðurstöðu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur] sem tilkynnt var kæranda í bréfi sem dagsett er 9. apríl 2013…“ að ekki rúmist innan starfsleyfis kærða að safna lífrænum og blönduðum heimilisúrgangi í sérstaka tunnu þar sem það geti ekki talist vera söfnun á flokkuðum úrgangi.

Úrskurðarnefndin hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þannig eru aðeins kæranlegar þær ákvarðanir og þau úrlausnaratriði sem afmörkuð eru í lögum og að teknu tilliti til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða aðeins þær ákvarðanir er binda enda á mál bornar undir úrskurðarnefndina.

Svo sem nánar er rakið í málavöxtum snerust bréfleg samskipti kæranda og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um túlkun á sértækum skilyrðum í starfsleyfi kæranda, þar sem honum er veitt heimild til að annast söfnun á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík, en kærandi beindi erindi þess efnis til nefndarinnar fyrst 28. desember 2012. Af svörum heilbrigðisnefndar til kæranda má glögglega ráða að söfnun á lífrænum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum væri ekki talin falla undir nefnd skilyrði og í bréfi nefndarinnar, dags. 9. apríl 2013, er sú túlkun nefndarinnar á starfsleyfinu áréttuð. Verður að líta svo á að með því hafi kæranda verið leiðbeint um réttarstöðu sína. Þau samskipti fólu hins vegar ekki í sér neina þá endanlegu ákvörðun sem kæranleg er til nefndarinnar. Skal og á það bent að í kjölfarið lýsti kærandi því yfir í bréfi sínu til heilbrigðisnefndar 17. s.m. að teldi nefndin títtnefnda söfnun á lífrænum úrgangi ekki falla undir gildandi starfsleyfi hans sækti hann um nýtt „starfsleyfi og/eða undanþágu“ til söfnunar „í sérstakt ílát lífrænum heimilisúrgangi frá heimilum í borginni, til jarðgerðar“. Var málinu þar með markaður ákveðinn farvegur sem lauk með synjun heilbrigðisnefndar á þeirri umsókn á fundi nefndarinnar 17. september 2013. Kærandi hefur kært þá ákvörðun og krafist ógildingar, svo sem áður greinir, og mun lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar einskorðast við þá ákvörðun. Aðrar kröfur kæranda, s.s. um að fá útgefið starfsleyfi ákveðins efnis sér til handa, koma ekki til frekari úrlausnar, enda brestur úrskurðarnefndina vald til þess að mæla svo fyrir um.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta sem sveitarfélögum ber samkvæmt lögum að annast. Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli sama ákvæðis var sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind væru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998. Hefur Reykjavíkurborg sett sér slíka samþykkt, en sú samþykkt sem í gildi var þegar hin kærða ákvörðun var tekin er nr. 228/2013 og var birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. mars 2013.
 
Í 2. mgr. 1. gr. samþykktarinnar kemur fram sú meginregla að Reykjavíkurborg sjái um söfnun á heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík og hafi umsjón með rekstri grenndarstöðva fyrir flokkaðan heimilisúrgang. Heilbrigðisnefnd er heimilt að veita öðrum aðilum undanþágu til söfnunar á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík. Skilyrði undanþágu er að þjónusta sem veitt er sé meiri en þjónusta sem Reykjavíkurborg veiti, þ.e. nái til söfnunar á fleiri úrgangsflokkum. Í undanþágu skal kveðið á um nánari skilyrði hennar, m.a. varðandi skýrslugjöf til Reykjavíkurborgar og heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar um magn úrgangs og flokkun hans, tíðni losunar og meðferð úrgangsins, auk almennra hollustu- og mengunarvarnaákvæða. Undanþágu skal aðeins veita þeim sem hefur starfsleyfi til endurvinnslu og flutnings úrgangs í Reykjavík. Í 2. mgr. 2. gr. samþykktarinnar segir að sérhverjum húsráðanda íbúðarhúsnæðis sé skylt að nota þau ílát og þær aðferðir sem heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar ákveði.

Kærandi hefur starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til að „… starfrækja bifreiða- og vélaverkstæði, handvirka bónstöð, flutning úrgangs og spilliefna að Súðarvogi 2“. Jafnframt hefur kærandi fengið undanþágu samkvæmt tilvitnuðu ákvæði 2. mgr. 1. gr. samþykktar nr. 228/2013. Í sértækum skilyrðum í starfsleyfi kæranda kemur fram í 1. lið að honum sé: „… heimilt að annast söfnun á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík“. Í 2. lið koma síðan fram skilyrði um skýrslugjöf kæranda samkvæmt framangreindum ákvæðum samþykktarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi, í samræmi við nefnd sértæk skilyrði starfsleyfis hans, annast söfnun á ákveðnum tegundum flokkaðs heimilisúrgangs. Hann hefur hins vegar ekki safnað svokölluðum lífrænum heimilisúrgangi frá heimilum, en þar mun fyrst og fremst vera átt við matarleifar. Umsókn kærða frá 17. apríl 2013 snerist um að honum yrði veitt frekari undanþága frá reglu 2. mgr. 1. gr. samþykktar nr. 228/2013 en gildandi starfsleyfisskilyrði hans kveða á um. Ekki er deilt um að sú þjónusta sem kærandi hugðist veita samkvæmt umsókn sinni er meiri en sú þjónusta sem Reykjavíkurborg veitir, en ekki er safnað sérstaklega flokkuðum lífrænum heimilisúrgangi á vegum borgarinnar. Er því ljóst að kærandi uppfyllti þau skilyrði sem sett eru fyrir undanþágu í 2. mgr. 1. gr. Það verður þó ekki hjá því litið að ákvæðið kveður einungis á um heimild til veitingar undanþágu en ekki skyldu. Má og ráða af gögnum málsins að áður en ákvörðun var tekin um umsókn kæranda fór fram mat af hálfu heilbrigðisnefndar á því hvaða hagsmunum það þjónaði að veita kæranda hina títtnefndu undanþágu. Verður jafnan að játa stjórnvöldum ákveðið svigrúm til slíks mats svo framarlega sem það er í samræmi við markmið þeirra laga sem stjórnvöld byggja ákvörðun sína á.

Í máli þessu aflaði nefndin sér gagna um afstöðu umhverfis- og skipulagsráðs til málsins, auk umsagna hverfisráða, svo sem áður hefur verið rakið. Kom fram í umsögn umhverfis- og skipulagsráðs að ráðið legðist gegn því að umsótt undanþága yrði veitt, m.a. á þeim forsendum að lífrænn heimilisúrgangur væri í eðli sínu mun vandmeðfarnari en þurr, endurvinnanlegur úrgangur og hann þurfi að hirða a.m.k. helmingi oftar en annan flokkaðan úrgang. Afleiðing þessa yrði mjög aukin umferð sorpbíla um íbúðarhverfi borgarinnar. Að fengnum framangreindum umsögnum tók heilbrigðisnefnd ákvörðun um að hafna umsókn kæranda um undanþágu og var niðurstaðan kynnt honum með bréfi, dags. 24. september 2013. Verður ekki annað séð en að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum í samræmi við þau markmið laga nr. 7/1998 og nr. 55/2003 að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sem og að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og draga úr þeirri hættu sem förgun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra. Þá hefur málið verið rannsakað og bendir ekkert til annars en að málsmeðferð hafi að öðru leyti verið í samræmi við lög.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem áhrif geta haft á gildi hennar og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um að synja honum um undanþágu til að safna lífrænum eldhúsúrgangi frá heimilum í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon

58/2014 Reykjavíkurflugvöllur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2014, kæra á nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sem auglýst var í B-deild Stjórnatíðinda 6. júní 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2014, er barst nefndinni 4. s.m., kærir eigandi skýlis 35F í Fluggörðum, Reykjavík, nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var í borgarstjórn 1. apríl 2014 og auglýst  í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní s.á. Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi.

Með fimm bréfum, dags. 3. og 4. júlí 2014, er bárust nefndinni 4. og 7. s.m., kæra eigendur skýlis 21 í Fluggörðum, Reykjavík, skýlis 31B, skýlis 31D, skýlis 35A, skýlis 33C, og Guðjón Ármannsson hrl., f.h. áðurnefndra kærenda og eigenda skýla 21, 31B, 31D, 33C, 35A og 35F, auk eigenda og/eða umráðamanna skýla 22A, 22B, 24, 25, 26, 27C, 27E, 28A, 28C, 28D, 28E, 29C, 29D, 29E, 30B, 30E, 31A, 31C, 33A, 33D, 33E, 33F, 34C, 34E, 35B, 35C, 35D, 35E og 36, sem öll eru á sama stað, sömu ákvörðun með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærurnar lúta allar að sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða greind kærumál, sem eru nr. 59/2014, 60/2014, 63/2014, 64/2014 og 67/2014, sameinuð kærumáli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 14. júlí 2014, og í nóvember og desember 2015.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 18. desember 2013 var lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. Samþykkt var að auglýsa tillöguna samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 19. s.m. Tillagan var auglýst frá 23. s.m. til og með 3. febrúar 2014 og bárust athugasemdir við hina kynntu tillögu.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 26. mars 2014 var lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um innsendar athugasemdir, dags. 10. s.m. Var deiliskipulagstillagan samþykkt með vísan til umsagnarinnar. Málið var tekið fyrir á fundi borgarráðs 27. s.m. og samþykkt. Var málinu síðan vísað til staðfestingar borgarstjórnar með vísan til 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. Á fundi borgarstjórnar 1. apríl 2014 var lögð fram fundargerð borgarráðs frá 27. mars 2014 og var 17. liður hennar, tillaga að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar, samþykktur.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2014, var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar, sbr. 42. gr. skipulagslaga. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 28. s.m., kom fram að um væri að ræða endurskoðun á gildandi deiliskipulagi, með síðari breytingum, en upphaflegt deiliskipulag hefði verið samþykkt árið 1986. Með endurskoðuninni væri skipulagssvæði flugvallarins minnkað og nokkur svæði yrðu því utan hinnar nýju afmörkunar án þess að grein væri gerð fyrir skipulagslegri stöðu þeirra eftir breytinguna. Fram kæmi í auglýsingu á tillögunni að gildandi deiliskipulag flugvallarins, með síðari breytingum, m.a. frá 1999, félli úr gildi við gildistöku þessa deiliskipulags. Skipulagsstofnun teldi að ekki væri hægt að fella úr gildi deiliskipulag fyrir lóð eða svæði sem þegar væri byggt samkvæmt skipulaginu án þess að nýtt skipulag kæmi í staðinn. Stofnunin teldi því að upphaflegt deiliskipulag frá 1986, með síðari breytingum, gilti enn fyrir þau svæði sem yrðu utan marka hins nýja deiliskipulags. Reykjavíkurborg þyrfti að útskýra hvernig gerð yrði grein fyrir skipulagi þessara svæða áður en Skipulagsstofnun tæki afstöðu til deiliskipulagsins.

Með bréfi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, dags. 13. maí 2014, var deiliskipulagsuppdráttur sendur Skipulagsstofnun að nýju til yfirferðar. Í bréfinu var gerð grein fyrir breytingum sem gerðar hefðu verið í samræmi við ábendingar Skipulagsstofnunar. Var meðal annars tekinn út texti um að deiliskipulag fyrir flugvöllinn, sem samþykkt hefði verið 15. júní 1999, og breytingar og skilmálar vegna flugvallarsvæðisins féllu úr gildi við gildistöku þessa skipulags. Þá var ákveðið að deiliskipulagið frá 1986, með síðari breytingum, skyldi gilda áfram fyrir svæði í kringum lóð Loftleiðahótels og hluta af Litla Skerjafirði þar til annað deiliskipulag yrði unnið fyrir þessi svæði. Texta um afmörkun deiliskipulagssvæðisins var jafnframt breytt til samræmis við framangreint.

Með bréfi, dags. 26. maí 2014, sendi Reykjavíkurborg Skipulagsstofnun minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. s.m., bréf frá Isavia, dags. 23. apríl s.á., bréf skipulagsfulltrúa til Isavia, dags. 20. maí 2014, og leiðrétta umsögn um athugasemdir sem bárust við auglýsingu deiliskipulagsins. Ástæða þess að umsögnin var leiðrétt var sú að í áðurnefndu bréfi Isavia voru gerðar athugasemdir við efni hennar. Í áðurnefndu minnisblaði, dags. 20. maí 2014, var greint frá meginefni fyrrgreindra bréfa, auk þess sem upplýst var um breytingar á umsögninni.

Í nefndu bréfi Isavia frá 23. apríl 2014 var athygli vakin á staðreyndavillum í umsögninni, nánar tiltekið í svörum við liðum 1c og 1d á blaðsíðu 3, og þess óskað að þær yrðu leiðréttar. Því var lýst að í svari við lið 1c segði: „Samkvæmt niðurstöðu áhættumatsnefndar Isavia „nothæfisstuðull fyrir sjúkraflugvélar á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli“ er stuðullinn fyrir tvær flugbrautir í Reykjavík og tvær í Keflavík fyrir sjúkraflugvélar af tegundinni [Beechcraft] King Air 200 samanlagt 99,5% fyrir allt árið…“ Í svarinu hafi ranglega verið vísað til „áhættumatsnefndar Isavia“ með tilvísun í bréf forstjóra Isavia til innanríkisráðherra í desember 2013, sem hafi falið í sér ábendingu um nothæfisstuðul fyrir sjúkraflugvélar miðað við ákveðnar forsendur, m.a. tvær flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli og tvær á Keflavíkurflugvelli til vara. Áhættumat og nothæfisstuðull séu tveir óskyldir þættir sem þarna hafi verið blandað saman. Segja megi að nothæfisstuðull sé þjónustustig flugvallar en áhættumat sé mat á áhrifum breytinga og lúti fyrst og fremst að mati á öryggi. Áhættumat sé alveg óháð notkunarstuðli þótt stuðullinn geti skipt máli við áhættumat. Unnið sé að gerð áhættumats vegna fyrirhugaðrar lokunar NA/SV-flugbrautar Reykjavíkurflugvallar, sem sent verði Samgöngustofu er taka muni afstöðu til niðurstöðunnar. Réttara væri að segja: „Samkvæmt ábendingu Isavia til innanríkisráðherra er nothæfisstuðull fyrir tvær flugbrautir í Reykjavík og tvær í Keflavík…“ Þá var á það bent að í svari við lið 1d í umsögninni segði: „Stefna um þessa þætti flugstarfseminnar í Vatnsmýri rímar einnig við áform um lokun NA-SV brautar sem hefur verið mikið notuð fyrir æfinga- og kennsluflug á undanförnum áratugum.“ Hér væri ranglega fullyrt að umrædd flugbraut hefði verið mikið notuð fyrir æfinga- og kennsluflug. Staðreyndin væri sú að notkun hennar í þessu skyni hefði ekki verið meiri en annarra flugbrauta á undanförnum áratugum og miklu minni eftir að notkun hennar hefði eingöngu verið miðuð við lendingar í hvössum vindi. Lagt væri til að umrædd setning yrði felld út úr málsgreininni.

Í bréfi Skipulagsstofnunar til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 4. júní 2014, var tiltekið að Isavia hefði gert athugasemdir við tvö atriði í umsögnum Reykjavíkurborgar um athugasemdir sem borist hefðu við auglýsta deiliskipulagstillögu. Reykjavíkurborg hefði leiðrétt þessi atriði. Skipulagsstofnun hefði farið yfir innsend gögn og teldi að Reykjavíkurborg hefði brugðist við ábendingum stofnunarinnar frá 28. apríl 2014. Stofnunin gerði því ekki athugasemd við að Reykjavíkurborg auglýsti samþykkt deiliskipulagsins. Tók deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2014.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að við gerð hins kærða deiliskipulags hafi ekkert samráð verið haft við hagsmunaaðila á Fluggarðasvæðinu, eins og skylt væri samkvæmt 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, þrátt fyrir að skipulagið mæli öðrum þræði fyrir um að leggja skuli Fluggarða niður strax á árinu 2015. Einungis einum aðila Fluggarðasvæðisins hafi verið boðið á hagsmunaaðilakynningu 10. desember 2013. Forsvarsmaður ByggáBIRK, hagsmunafélags eigenda einkabygginga á Reykjavíkurflugvelli, hafi frétt af fundinum og þurft að beita sér sérstaklega til að fá að senda fulltrúa á hann. Byggingar á Fluggarðasvæðinu séu í eigu 63 einstaklinga og lögaðila. Með vísan til ákvæða skipulagsreglugerðar um samráðsskyldu og með tilliti til þess að um veruleg áhrif á hagsmuni fasteignareigenda á svæðinu sé að ræða, hafi Reykjavíkurborg borið að hafa virkt samráð við þá. Skylda borgarinnar til að hafa samráð við hagsmunaaðila sé enn ríkari en ella þar sem deiliskipulagstillagan miði að eignaupptöku og vegi að eignarréttindum sem varin séu af ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Deiliskipulagið mæli meðal annars fyrir um niðurrif flugskólabyggingar við Þorragötu 21. Reykjavíkurborg hafi ekki þinglýsta eignarheimild á umræddu svæði og geti því ekki talist eigandi þess. Borgin hafi því engan rétt til eignaupptöku á svæðinu.

Mótsagna gæti í hinu kærða deiliskipulagi. Á deiliskipulagsuppdrætti komi eftirfarandi fram: „Fluggarðar við Njarðargötu verða innan skipulagssvæðisins þar til gert er ráð fyrir að flugvallarstarfsemi sé víkjandi á svæði Fluggarðanna samkvæmt aðalskipulagi. Ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á því svæði í þessu deiliskipulagi.“ Á skipulagsuppdrætti séu öll mannvirki í Fluggörðum merkt með brúnum lit, sem auðkenna eigi „núverandi byggingar samkvæmt landupplýsingakerfi Reykjavíkur“. Þótt ekki sé gert ráð fyrir breytingum á Fluggarðasvæðinu hafi verið settur inn texti á grunnmynd á uppdrættinum þar sem segi: „Fluggarðar notkun (FV) 2013-2015“. Þar sé vísað til stefnu í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og jafnframt dregin rauð punktalína þétt utan um Fluggarðasvæðið með skýringum: „Framtíðar mörk öryggisgirðingar“ og „Öryggisgirðing eftir niðurlögn Fluggarða“. Samkvæmt framansögðu sé í öðru orðinu sagt að ekki sé gert ráð fyrir neinum breytingum á Fluggarðasvæðinu en í hinu orðinu sé mælt fyrir um að Fluggarða skuli leggja niður og að þeir skuli settir utan öryggisgirðingar. Þessi óskýrleiki deiliskipulagsins sé ótvírætt brot á ákvæði gr. 5.5.2. í skipulagsreglugerð en þar segi að skilmálar skuli vera skýrir og greinargóðir, sbr. einnig gr. 5.5.3. Þá segi í skilmálum skipulagsins að skipulagsreglur flugvallarins séu til fyllingar deiliskipulaginu og að skipulagsreglurnar, er lúti að flugöryggi, séu víðfeðmari en deiliskipulagið. Byggt sé á því að deiliskipulagið sé beinlínis í andstöðu við skipulagsreglurnar og framangreint orðalag í skilmálum deiliskipulagsins sé því villandi. Deiliskipulagið sé haldið þeim alvarlega ágalla að það geri á engan hátt grein fyrir samspili skipulagsreglna flugvallarins og skilmála deiliskipulagsins.

Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar enda liggi ekki fyrir áhættumat vegna áforma í deiliskipulaginu um niðurlagningu NA/SV-flugbrautar. Lokun hennar virðist að auki til þess fallin að Reykjavíkurflugvöllur uppfylli ekki ákvæði reglugerðar um flugvelli nr. 464/2007. Við gerð deiliskipulags sé þó grundvallaratriði að gætt sé að kröfum annarra laga og reglugerða, sbr. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð. Í gr. 3.1.1. í VI. kafla reglugerðar um flugvelli segi að fjöldi og stefna flugbrauta á flugvelli ætti að vera slíkur að notkunarstuðull flugvallarins sé ekki minni en 95% fyrir flugvélarnar sem flugvöllurinn þjóni. Samkvæmt hollenskri rannsókn frá árinu 2006 muni nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar falla langt undir viðmiðunarmörk verði NA/SV-flugbrautin lögð niður. Að þessu sé ekki vikið í deiliskipulagstillögunni, en Reykjavíkurborg hafi borið að kanna sérstaklega hvort flugvöllurinn án NA/SV-flugbrautar uppfyllti ákvæði reglugerðar nr. 464/2007. Niðurstaða athugunar á flugvallarkostum hafi ekki legið fyrir og samgönguyfirvöld hafi ekki markað stefnu um flutning allrar flugvallarstarfsemi úr Vatnsmýri.

Reykjavíkurflugvöllur sé miðstöð innanlandsflugs á Íslandi jafnframt því að bera uppi æfinga- og kennsluflug. Niðurlagning NA/SV-flugbrautar dragi úr öryggi fyrir flugfarþega, sjúkraflug og alla aðra sem noti flugvöllinn. Vísað sé til a-liðar gr. 1.1. í skipulagsreglugerð þar sem fram komi það markmið reglugerðarinnar að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi sé haft að leiðarljósi.

Að lokum er vísað til þess að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu hafi ekki verið í samræmi við lög, sbr. 41. og 42. gr. skipulagslaga. Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins með bréfi, dags. 28. apríl 2014. Athugasemdir stofnunarinnar hafi ekki komið til umræðu í sveitarstjórn heldur hafi skipulagsfulltrúi breytt skipulagsuppdrættinum og sent Skipulagsstofnun bréf, dags. 13. maí s.á., þar sem upplýst hafi verið um þær lagfæringar sem hafi verið gerðar, ásamt leiðréttum uppdrætti. Með bréfi, dags. 26. s.m., hafi umhverfis- og skipulagssvið svo sent Skipulagsstofnun minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréf frá forstjóra Isavia, dags. 23. apríl s.á., bréf skipulagsfulltrúa til Isavia, dags. 20. maí 2014, og breytta umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. mars s.á. Hið kærða deiliskipulag hafi verið samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 10. mars 2014, eins og hún hafi litið upphaflega út, en umsögnin hafi þá innihaldið staðreyndavillur og rangar fullyrðingar. Skipulagsfulltrúi hafi síðar gert breytingar á umsögninni til samræmis við ábendingar Isavia og sent breytta umsögn til Skipulagsstofnunar, en breytingarnar hafi ekki verið lagðar fram, ræddar og samþykktar í sveitarstjórn áður. Þá hafi áðurnefnd gögn, þ.e. minnisblað skipulagsstjóra, bréf forstjóra Isavia og bréf skipulagsfulltrúa til Isavia, ekki heldur verið lögð fram, rædd eða samþykkt í sveitarstjórn.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er á það bent að málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um sé að ræða endurskoðun á eldra deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll frá 1986. Með deiliskipulaginu sé skipulagssvæði flugvallarins minnkað. Deiliskipulagstillagan hafi verið unnin í samvinnu Reykjavíkurborgar og Isavia á grundvelli samkomulags ríkis og borgar frá 19. apríl og 25. október 2013 og Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030.

Málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar hafi verið samkvæmt 41. gr. skipulagslaga. Allar meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og því hafi Reykjavíkurborg ekki borið skylda til að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu eða halda kynningarfund, sbr. 40. gr. skipulagslaga. Engu að síður hafi verið ákveðið að halda kynningarfund með helstu hagsmunaaðilum á flugvellinum 10. desember 2013, þar sem breytingar á deiliskipulaginu hafi verið kynntar. Lengi hafi legið fyrir í aðalskipulagi að starfsemi tengd einkaflugi og flugkennslu væri víkjandi í Vatnsmýrinni og framfylgi hið nýja deiliskipulag einfaldlega þeirri stefnu. Því eigi það ekki að koma á óvart að Fluggarðar séu víkjandi starfsemi í nýju deiliskipulagi. Málsmeðferð deiliskipulagsins og samráð við hagsmunaaðila hafi verið samkvæmt skipulagslögum.

Kærendur hafi vísað til þess að deiliskipulagið sé óskýrt og þversagnakennt. Því til stuðnings virðist þeir vísa í tillögu að deiliskipulagi, en orðalagi hafi verið breytt í hinu samþykkta deiliskipulagi. Nú segi þar: „Fluggarðar við Njarðargötu verða innan skipulagssvæðisins þar til gert er ráð fyrir að flugvallarstarfsemi sé víkjandi á svæði Fluggarðanna samkvæmt aðalskipulagi. Ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu.“ Engin uppbygging muni því eiga sér stað á Fluggörðunum á meðan þeir séu innan skipulagssvæðisins. Reykjavíkurborg telji deiliskipulagið uppfylla kröfur gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð og að ekki gæti mótsagna í skipulaginu.

Hvað varði heimild til niðurrifs flugskólabyggingar við Þorragötu 21 sé vísað til þess að í aðalskipulagi hafi lengi verið ráðgert að æfinga- og kennsluflug og öll starfsemi sem því tengdist viki af flugvellinum fyrr en síðar. Því ætti ekki að koma á óvart að í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að rífa megi bygginguna við Þorragötu 21, þar sem sú starfsemi sem þar fari fram sé víkjandi, líkt og Fluggarðar. Stefnan um þessa þætti flugstarfseminnar í Vatnsmýri rími einnig við áform um lokun NA/SV-flugbrautar, sem hafi verið mikið notuð fyrir æfinga- og kennsluflug undanfarna áratugi. Tímasett markmið aðalskipulags beinist hins vegar fyrst og fremst að breyttri landnotkun á Fluggarðasvæðinu og sé deiliskipulagið í samræmi við það markmið. Samkvæmt sjálfsákvörðunar- og skipulagsvaldi sveitarfélaga geti deiliskipulag lagt á kvöð um niðurrif húsa. Deiliskipulag mæli fyrir um byggingarheimildir og byggðarþróun en taki ekki afstöðu til eignarréttinda. Valdi skipulagsákvörðun tjóni á gildum eignarheimildum reiknist bætur samkvæmt 51. gr. skipulagslaga að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins.

Í reglugerð nr. 464/2007 um flugvelli sé ekki fjallað um gerð áhættumats, hvaða þætti eigi að leggja mat á eða framkvæmd matsins. Ekki komi þar heldur fram hvort framkvæma eigi áhættumat fyrir eða eftir samþykkt deiliskipulags. Hins vegar sé vakin athygli á því að ef framkvæma eigi áhættumat fyrir samþykkt deiliskipulags geti neikvæð niðurstaða slíks mats sett deiliskipulag í uppnám. Með þeirri niðurstöðu væri í raun búið að flytja skipulagsvald yfir til rekstraraðila flugvalla, sem gætu hindrað samþykkt deiliskipulags. Það myndi ganga gegn sjálfsákvörðunarrétti og skipulagsvaldi sveitarfélaga, sem tryggt sé í stjórnarskrá og skipulagslögum. Í 25. gr. reglugerðarinnar sé ekki kveðið á um það hver eigi að eiga frumkvæði að gerð áhættumats, en með vísan til 7., 16. og 22. gr. hennar megi álykta að það sé handhafi rekstrar- og flugvallarskírteinis sem hlutast skuli til um það.

Innanríkisráðuneytið hafi fengið Isavia til að skoða afleiðingar lokunar NA/SV-flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Í bréfi Isavia til ráðuneytisins, dags. 13. desember 2013, hafi komið fram að samkvæmt athugun Veðurstofu Íslands væri nothæfisstuðull fyrir sjúkraflugvélar á Reykjavíkurflugvelli, ef miðað væri við tvær flugbrautir í Reykjavík ásamt óbreyttu flugbrautakerfi í Keflavík, umtalsvert hærri en ef miðað væri við Reykjavíkurflugvöll í núverandi mynd með þremur flugbrautum, eða 99,5%, vegið meðaltal yfir árið. Ef eingöngu væri miðað við lokun NA/SV-flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli yrði notkunarstuðull hans 97,5%, vegið meðaltal yfir árið, sem væri yfir lágmarki samkvæmt gr. 3.1.1. í VI. kafla reglugerðar um flugvelli. Samstarf hafi verið með ríki og borg í aðdraganda deiliskipulagsins sem endurspeglist í samkomulagi þeirra frá 19. apríl og 25. október 2013. Í samkomulaginu frá 19. apríl komi eftirfarandi fram: „Að NA/SV flugbrautin verði lögð af og það land sem við það losnar sunnan vallarins verði skipulagt undir blandaða byggð. Innanríkisráðuneytið auglýsi lokun flugbrautar samhliða auglýsingu deiliskipulags nýrrar flugstöðvar.“ Því sé vísað á bug að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar eða ákvæðum reglugerðar um flugvelli.

Í viðbótargreinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að hið kærða deiliskipulag hafi verið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 28. apríl 2014, hafi ekki verið gerðar athugasemdir heldur einungis óskað eftir leiðréttingum á texta í greinargerð á deiliskipulagsuppdrætti, en gera þyrfti betur grein fyrir skipulagslegri stöðu svæða sem áður hefðu verið innan deiliskipulagsins en væru felld út með nýja deiliskipulaginu. Athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi ekki lotið að form- eða efnisgöllum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, heldur hafi stofnunin einungis óskað eftir betri skýringum frá Reykjavíkurborg á framangreindum atriðum. Því hafi hvorki þurft né verið skylt að fara aftur með málið fyrir borgarráð til samþykktar, en tekið væri fram í nefndu bréfi að ekki yrði tekin afstaða til erindisins fyrr en skýringar lægju fyrir.

Í bréfi Isavia, dags. 23. apríl 2014, hafi aðeins verið gerðar athugasemdir við villur í umsögn um innsendar athugasemdir, dags. 10. mars 2014, sem send hafi verið þeim sem gerðu athugasemdir, en ekki hafi verið gerðar athugasemdir við hina auglýstu deiliskipulagstillögu. Þar að auki hafi bréf Isavia borist 15. maí 2014, eða tveimur mánuðum eftir að lögbundinn athugasemdafrestur hafi runnið út.

Í minnisblaði skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, komi fram að skipulagsfulltrúi hefði ritað bréf til forstjóra Isavia sama dag, þar sem þakkað hefði verið fyrir ábendingarnar er vörðuðu villur í umsögn embættisins. Umsögn skipulagsfulltrúa hafi svo verið leiðrétt til samræmis við ábendingar Isavia og með bréfi, dags. 26. maí 2014, hafi hún verið send Skipulagsstofnun til yfirferðar, sbr. 42. gr. skipulagslaga, ásamt minnisblaði skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréfi frá Isavia, dags. 23. apríl s.á, og bréfi skipulagsfulltrúa til Isavia, dags. 20. maí s.á. Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2014, komi fram að Isavia hafi gert athugasemdir við tvö atriði í umsögn Reykjavíkurborgar um athugasemdir sem borist hafi við auglýsta tillögu og að Reykjavíkurborg hafi leiðrétt þessi atriði. Skipulagsstofnun hafi farið yfir innsend gögn og talið að Reykjavíkurborg hefði brugðist við ábendingum stofnunarinnar frá 28. apríl 2014. Stofnunin hafi ekki gert athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.

Minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, og bréf Isavia, dags. 23. apríl 2014, hafi verið lögð fram til kynningar á fundi borgarráðs 5. júní 2014, ásamt deiliskipulagi Hlíðarenda, en deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar hafi verið samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014 og málinu því lokið af hálfu borgarinnar. Bréfin hafi af þeim sökum verið lögð fram til kynningar með deiliskipulagi Hlíðarenda, þar sem staða flugvallarins hafi m.a. verið mikið til umræðu. Ekki verði séð að lagðar hafi verið fram athugasemdir eða bókanir vegna þessa.

Að lokum er ítrekað að ábendingar Skipulagsstofnunar í bréfi, dags. 28. apríl 2014, hafi ekki verið á þá leið að nauðsynlegt hafi verið að leggja bréf stofnunarinnar fram til samþykktar, hvorki í umhverfis- og skipulagsráði né borgarráði, enda hafi ekki verið um að ræða athugasemdir sem vörðuðu form- eða efnisgalla, sbr. 42. gr. skipulagslaga, heldur einungis ósk um ítarlegri skýringar á skipulagslegri stöðu svæða sem féllu utan deiliskipulagsins en hefðu verið innan þess í eldra skipulagi flugvallarins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi nýs deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar og ber málatilbúnaður kærenda með sér að fyrst og fremst standi ágreiningur um þá ráðagerð borgaryfirvalda að aðstaða þeirra fyrir einkaflugsstarfsemi í svonefndum Fluggörðum á skipulagssvæðinu eigi að víkja.

Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur liggja fyrir allar meginforsendur hins kærða deiliskipulags, svo sem að einkaflugsstarfsemi á svæðinu skuli víkja. Var borgaryfirvöldum því heimilt að falla frá gerð lýsingar á skipulagsverkefninu samkvæmt 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og kynningu tillögunnar fyrir íbúum sveitarfélagsins og hagsmunaaðilum, sbr. 3. mgr. 40. gr. laganna. Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar í samræmi við 41. gr. skipulagslaga og bárust athugasemdir við tillöguna. Að kynningu lokinni var málið til meðferðar hjá umhverfis- og skipulagsráði. Samþykkti ráðið deiliskipulagstillöguna með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagssviðs frá 10. mars 2014, sem hafði að geyma svör við fram komnum athugasemdum. Var sú afgreiðsla samþykkt í borgarráði 27. mars 2014 og staðfest í borgarstjórn hinn 1. apríl s.á. Þess skal getið í tilefni af málatilbúnaði kærenda að ákvörðun um deiliskipulag felur ekki í sér ráðstöfun á beinum eða óbeinum eignarréttindum, en standi slík réttindi í vegi fyrir framkvæmd skipulags getur komið til eignarnáms skv. 50. gr. skipulagslaga eða eftir atvikum til greiðslu bóta í samræmi við 51. gr. laganna. Slík álitaefni heyra ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum undir dómstóla.

Eins og rakið er í málavöxtum voru gerðar breytingar á texta í greinargerð á hinum samþykkta skipulagsuppdrætti og fyrrgreindri umsögn skipulagssviðs, sem umhverfis- og skipulagsráð skírskotaði til við afgreiðslu málsins. Greindar breytingar á skipulagsuppdrætti voru gerðar vegna fyrirspurnar Skipulagsstofnunar í bréfi, dags. 28. apríl 2014. Þá var og breytt umsögn skipulagssviðs í tilefni af ábendingum Isavia, dags. 23. s.m. Voru þessar breytingar allar gerðar eftir lokaafgreiðslu borgarstjórnar á deiliskipulagstillögunni hinn 1. apríl 2014.

Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Eðli máls samkvæmt verður það stjórnvald sem tók upprunalega ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds síns sjálft að standa að breytingum á henni og er það einnig í samræmi við ákvæði VI. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um afturköllun ákvörðunar o.fl. Ekki liggur fyrir að borgarráð eða borgarstjórn hafi tekið málið til umfjöllunar eftir nefndar breytingar og tekið afstöðu til þeirra, en skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga ber sveitarstjórn að taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á skipulagstillögu. Í því sambandi skal áréttað að breytingar þær sem gerðar voru á áðurgreindri umsögn umhverfis- og skipulagssviðs eftir afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar í borgarstjórn lutu að svörum við fram komnum athugasemdum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem títtnefndar breytingar gátu haft áhrif á afgreiðslu málsins, verður að telja að hið kærða deiliskipulag, sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. júní 2014, sé haldið slíkum annmörkum að fella beri það úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hið kærða deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar, er tók gildi með auglýsingu nr. 539/2014 í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2014, er fellt úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                           Ásgeir Magnússon

_____________________________             ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                               Þorsteinn Þorsteinsson