Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

46/2015 Borgartún

Árið 2016, föstudaginn 14. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2015, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 17. mars 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðarinnar nr. 28 við Borgartún.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2015, er barst nefndinni 15. s.m., kæra W og H, íbúar í Sóltúni 11-13, þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 17. mars 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðarinnar nr. 28 við Borgartún. Er þess krafist að hin kærða skipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. september 2015.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 2. apríl 2014 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðar nr. 28 við Borgartún. Í breytingunni fólst að fyrirhugaðri byggingu á lóðinni yrði breytt úr þjónustubyggingu í íbúða- og þjónustubyggingu, hæðum fjölgað um eina og fyrirkomulagi bílastæða breytt. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu til kynningar og var hún auglýst í fjölmiðlum 14. maí með athugasemdarfresti til 25. júní 2014. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum og var þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. júlí s.á. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. ágúst 2014 var deiliskipulagsbreytingin samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Var hún send Skipulagsstofnun til skoðunar og 16. október 2014 bárust með bréfi athugasemdir frá stofnuninni. Á fundi ráðsins 25. febrúar 2015 var greint bréf Skipulagsstofnunar lagt fram ásamt lagfærðum deiliskipulagsuppdrætti í því skyni að bregðast við athugasemdum stofnunarinnar. Var skipulagsuppdrættinum með áorðnum breytingum hafnað með jöfnun atkvæðum nefndarmanna. Á fundi borgarstjórnar 17. mars s.á. var skipulagsbreytingin hins vegar samþykkt og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. maí 2015.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila eins og lög kveði á um. Skipulagsstofnun hafi m.a. bent á að vegna mikillar uppbyggingar á svæðinu hafi verið sérstaklega mikilvægt að samráð yrði haft við íbúa og aðra hagsmunaaðila umfram það sem lágmarkskröfur skipulagslaga um auglýsingu deiliskipulagsbreytinga kveði á um.

Þá sé byggingarmagn og hæð hússins á umræddri lóð aukið og það fært 1-2 m nær lóðarmörkum til suðurs. Jafnframt séu svalir leyfðar einn metra út fyrir byggingarreit en við það endurspegli stærð byggingarreitsins ekki raunverulegt umfang byggingarinnar. Því sé mótmælt að veita eigi leyfi til byggingar húss á lóðinni Borgartún 28a eins og gert sé ráð fyrir heldur eigi að framkvæma í þeim vistvæna anda sem hafður hafi verið að leiðarljósi við nýlegar framkvæmdir í Borgartúni og koma í veg fyrir svipað skipulagsslys og orðið sé með byggingu Mánatúns 7-17.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að hin kærða skipulagsbreyting hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Deiliskipulagstillagan hafi sætt auglýsingu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og grenndarkynnt frá 14. maí til 25. júní 2014. Að lokinni grenndarkynningu hafi tillagan verið send til Skipulagsstofnunar til yfirferðar skv. 1. mgr. 42. gr. laganna.

Í bréfi Skipulagsstofnunar frá 16. október 2014 hafi verið gerð athugasemd við fjögur atriði, þ.e. að Borgartún 28 og 28a sé annað hvort tilgreind sem ein eða tvær lóðir, einnig hafi vantað umfjöllum um hliðrun á byggingarreit nær lóðarmörkum til suðurs, þá hafi vantað skýringu af hverju flatarmál húss aukist um 750 m2 þegar einni hæð sé bætt ofan á og að lokum hafi vantað skilmála um salarhæð hússins. Jafnframt hafi komið fram í bréfi Skipulagsstofnunar ábendingar til skipulagsyfirvalda í Reykjavík um að hafa samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila umfram það sem skipulagslög kveði á um sem og að skipulagsuppdráttur hefði þurft að ná yfir aðliggjandi lóðir til suðurs, þ.e. það svæði sem breytingin gæti haft áhrif á og að heiti Borgartúns sé ranglega skráð Mánatún. Í framhaldi hafi verið brugðist við athugasemdunum og unnið að leiðréttingum á uppdrætti. Hafi síðan verið haldinn fundur með íbúum og hagsmunaaðilum í Borgartúninu sem umhverfis- og skipulagssvið hafi staðið fyrir. Hafi afgreiðsla málsins verið í samræmi við lög og venjubundna málsmeðferð. Skipulagsstofnun hafi yfirfarið gögn málsins að nýju og ekki gert athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem breytt umsögn hafi ekki haft áhrif á fyrri afgreiðslu borgarráðs.

Þó að hæðum fyrirhugaðrar byggingar muni fjölga um eina verði heildarhæð hússins óbreytt þar sem munur sé á salarhæðum skrifstofubygginga og íbúðabygginga. Þá hafi tilfærsla á byggingarreit verið gerð til að hægt hafi verið að koma fyrir grænu svæði á lóð. Við það hafi þurft að breyta uppröðun bílastæða verulega og því fylgt hliðrun byggingarreits um tvo metra. Það að heimilt sé að svalir standi allt að einum metra út fyrir byggingarreit breyti ekki umfangi byggingarinnar þar sem svalir reiknist inn í nýtingarhlutfallið.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að næstu nágrannar hafi ítrekað óskað eftir því að niðurníddar skemmur á baklóðinni 28a við Borgartún yrðu fjarlægðar og nýbygging reist í þeirra stað. Vegna offramboðs á skrifstofuhúsnæði hafi eigendur lóðarinnar talið betra að byggja íbúðabyggingu með verslunar- eða skrifstofuhúsnæði á fyrstu hæð.

Þó svo að hæðum hússins muni fjölga um eina frá núgildandi deiliskipulagi verði heildarhæð hússins óbreytt. Skýrist það af mismikilli lofthæð skrifstofubygginga og íbúðabygginga. Umfang hússins aukist ekki og samkvæmt tillögunni muni byggingin ekki fylla út í byggingarreit. Í raun rúmist svalir innan byggingarreits en við það að veita heimild til að hleypa þeim út fyrir reitinn gefist meira svigrúm í hönnun íbúða. Þegar talað sé um umfang húss sé ekki hægt að leggja að jöfnu svalir og lokaðan húsvegg. Hafi deiliskipulagstillagan verið unnin eftir bestu vitund og í samráði við skipulagssvið Reykjavíkurborgar.
Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarstjórnir með skipulagsvald innan marka sveitarfélags. Jafnframt bera þær ábyrgð á og annast gerð og breytingar á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. nefndra laga. Sveitarstjórnum er því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags en þeim ber þó að fylgja markmiðum 1. gr. skipulagslaga, m.a. um skynsamlega hagnýtingu lands, að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi og um samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana.

Í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sveitarstjórn skuli taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Í gögnum málsins liggur fyrir að Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við auglýsta skipulagstillögu með bréfi, dags. 16. október 2014. Vörðuðu umræddar athugasemdir m.a. að skerpa þyrfti á skilmálum tillögunnar er varðaði tilgreiningu á lóðum, hliðrun á byggingarreit og aukið byggingarmagn, auk þess sem skilmálar um salarhæð hafi vantað. Jafnframt hafi stofnunin talið mikilvægt að samráð yrði haft við íbúa og aðra hagsmunaaðila umfram það sem lágmarkskröfur skipulagslaga um auglýsingu deiliskipulagsbreytinga kveði á um. Var brugðist við þeim athugasemdum með því að skipulagsuppdráttur var lagfærður og haldinn var almennur opinn fundur um framkvæmdir og uppbyggingu í Borgartúni. Fólu greindar breytingar á skipulagsuppdrætti ekki í sér breytingar á efni hins kynnta uppdráttar. Var því ekki þörf á að auglýsa tillöguna að nýju skv. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Loks hafi kærendur komið að athugasemdum á kynningartíma og þeim jafnframt gefið tækifæri á að mæta á opinn fund borgarinnar varðandi uppbyggingu á svæðinu. Verður því að telja að fullnægjandi samráð hafi verið haft við kærendur.

Hið umrædda skipulagssvæði er í aðalskipulagi Reykjavíkur skilgreint sem miðsvæðið M6a Borgartún, en þar er einkum gert ráð fyrir skrifstofum á sviði fjármála, ráðgjafar og stjórnsýslu, sem og stofnunum og þjónustu tengdum þeirri starfsemi. Íbúðir eru þó heimilaðar á efri hæðum bygginga. Meðal markmiða aðalskipulagsins er að þétta byggð, auka fjölbreytni innan núverandi miðkjarna og auka almennt nálægð íbúða og vinnustaða eins og unnt er. Hin kærða skipulagsbreyting er því í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Þá er og fullnægt áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var að öðru leyti í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Skipulagsbreytingin var auglýst til kynningar, fram komnum athugasemdum svarað, brugðist var við athugasemdum Skipulagsstofnunar, breytingin síðan samþykkt og gildistaka hennar auglýst lögum samkvæmt. Þá verður ekki séð að grenndaráhrif fyrirhugaðrar byggingar verði að marki meiri en verið hefði vegna þeirrar byggingar sem heimilt var að reisa á umræddri lóð fyrir hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarstjórnar Reykjavíkur frá 17. mars 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðarinnar nr. 28 við Borgartún.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson