Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

18/2011 Fisfélag Reykjavíkur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 30. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2011, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. desember 2010 um að samþykkja deiliskipulag Hólmsheiðar, svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. febrúar 2011, er barst nefndinni 3. mars s.á., kæra eigendur landspildna nr. 113435, 113443, 113410, 113426 og 113422 á Reynisvatnsheiði, auk Landeigendafélagsins Græðis, ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. desember 2010 um að samþykkja deiliskipulag Hólmsheiðar, svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur. Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 9. desember 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2011.

Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Hið kærða deiliskipulag felur ekki í sér heimild til framkvæmda og var því ekki tilefni til að úrskurða sérstaklega um kröfu um stöðvun framkvæmda í kærumáli þessu.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júní 2011, er barst nefndinni 15. s.m., kæra eigendur landspildna nr. 113435, 113410 og 113426 á Reynisvatnsheiði, auk Landeigendafélagsins Græðis, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2011 um að veita byggingarleyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús sem hýsa eigi vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg, en lóðin er nú skráð undir heitinu Hólmsheiðarvegur 141. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi en með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 27. apríl 2012, var þeirri kröfu hafnað. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og fjórir kærenda fyrra málsins standa að baki síðari kærunni verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 40/2011, sameinað máli þessu.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 26. apríl 2012 og 3. júní 2013.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 30. janúar 2008 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi athafnasvæðis Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði, þar sem gert var ráð fyrir tímabundinni starfsemi Fisfélagsins. Samþykkti borgarráð nefnda afgreiðslu hinn 7. febrúar s.á. Tillagan var auglýst á tímabilinu 13. febrúar til 28. mars 2008. Hinn 16. apríl s.á. var hún samþykkt á fundi skipulagsráðs með vísan til umsagnar skipulags- og byggingarsviðs um fram komnar athugasemdir og samþykkti borgarráð þá afgreiðslu hinn 25. s.m. Í framhaldi af því var deiliskipulagið sent til lögboðinnar afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Taldi stofnunin að deiliskipulagið markaði stefnu um flugbraut sem væri tilkynningarskyld, sbr. b-lið 10. töluliðar 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og þar með félli deiliskipulagstillagan undir lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, sbr. 3. gr. þeirra. Stofnunin lagðist því gegn auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins þar sem form þess og efni uppfylltu ekki ákvæði laga um umhverfismat áætlana. Auk þess þyrfti að skýra nokkur atriði í skipulagsgögnum.

Skipulagsstofnun óskaði jafnframt umsagnar Flugmálastjórnar Íslands um ákveðin atriði, en í umsögninni kom meðal annars fram að fyrirhugaður flugvöllur Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði væri skráningarskyldur í samræmi við 5. gr. reglugerðar nr. 464/2007 um flugvelli og myndi flokkast undir skráðan lendingarstað samkvæmt reglugerðinni. Í bréfi til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 6. ágúst 2008, var umsögn Flugmálastjórnar kynnt og jafnframt upplýst að það væri mat Skipulagsstofnunar að uppbygging athafnasvæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur á Hólmsheiði væri í ósamræmi við gildandi Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 og Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024, þar sem ekki væri í framangreindum áætlunum gert ráð fyrir flugvelli á svæðinu né útivistarstarfsemi tengdri flugi. Ítrekaði Skipulagsstofnun því afstöðu sína til auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 11. mars 2009 og samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi athafnasvæðis Fisfélagsins á Hólmsheiði. Fært var til bókar að þeim aðilum sem áður hefðu gert athugasemdir yrði tilkynnt um nýja málsmeðferð og auglýsingu, en eldri athugasemdir féllu úr gildi við auglýsingu tillögunnar nú. Samþykkti borgarráð þessa afgreiðslu 19. s.m. Tillagan var auglýst á tímabilinu 8. maí til 22. júní 2009 og var frestur til að gera athugasemdir síðar framlengdur til 6. júlí s.á. Nokkrar athugasemdir bárust. Hinn 19. ágúst 2009 var tillagan tekin fyrir á fundi skipulagsráðs og samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra. Borgarráð samþykkti þá afgreiðslu hinn 27. ágúst s.á.

Á fundi skipulagsráðs hinn 5. maí 2010 var áður samþykkt deiliskipulagstillaga lögð fram að nýju og afgreidd með svohljóðandi bókun: „Framlögð tillaga endursamþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra. Vísað til borgarráðs. Tillagan var áður samþykkt á fundi skipulagsráðs þann 19. ágúst sl. og var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs þann 27. ágúst sl. samhliða auglýstri breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna málsins. Með vísan til þess að auglýsing um gildistöku aðalskipulagsbreytingarinnar birtist ekki í B-deild Stjórnartíðinda fyrr en 16. apríl sl. telur skipulagsráð hyggilegt að endursamþykkja tillöguna og vísar afgreiðslunni til borgarráðs að nýju til endanlegrar staðfestingar. Skipulagsráð leggur sérstaka áherslu á að samkvæmt fyrirliggjandi tillögu hefur ætíð verið gert ráð fyrir því að nýting svæðisins fyrir aðstöðu Fisfélags Reykjavíkur sé tímabundin. Í ljósi þess er því beint til Framkvæmda- og eignasviðs að huga að slíkum fyrirvörum við gerð afnotasamnings um svæðið auk þess sem ítreka skal skilmála í deiliskipulagi um útlit og frágang bráðabirgðamannvirkja á svæðinu.“ Afgreiðsla skipulagsráðs var samþykkt á fundi borgarráðs 20. maí s.á. og málið sent Skipulagsstofnun til lögbundinnar yfirferðar. Gerði stofnunin athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku skipulagsins þar sem málsmeðferð og kynning umhverfismats deiliskipulagsins hefði ekki uppfyllt ákvæði laga um umhverfismat áætlana. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. september 2010 var samþykkt að framlengja frest til að gera athugasemdir við tillöguna og endurbirta auglýsingu vegna málsins. Tillagan var auglýst frá 10. september 2010 og frestur til að gera athugasemdir var til 22. október s.á. Fram komnar athugasemdir voru kynntar á fundi skipulagsráðs hinn 24. nóvember s.á. en afgreiðslu málsins frestað. Á fundi ráðsins 1. desember 2010 var deiliskipulagstillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 19. nóvember s.á. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 9. desember 2010. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins, að ákveðnum atriðum í greinargerð leiðréttum. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2011.

Deiliskipulagið nær til svæðis sem staðsett er um 350 m sunnan við Langavatn og er ætlað tímabundið fyrir starfsemi Fisfélags Reykjavíkur. Um er að ræða þrískipt svæði, alls ríflega 16 ha, þar sem gert er ráð fyrir tveimur til þremur tyrfðum flugbrautum með mismunandi stefnum fyrir vélknúin fis, æfingaaðstöðu, bílastæðum og allt að þremur flugskýlum að hámarksstærð 1.800 m² hvert, auk útivistarsvæðis og félagsheimilis að hámarksstærð 250 m².

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 3. maí 2011 var tekin fyrir byggingarleyfisumsókn þar sem sótt var um leyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús sem hýsa átti vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg. Byggingarfulltrúi frestaði málinu og vísaði því til umsagnar skipulagsstjóra. Hinn 17. maí 2011 samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina á afgreiðslufundi og var þá einnig lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 6. s.m.. Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði hinn 19. maí 2011 og byggingarleyfið var gefið út 31. október s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að hið kærða deiliskipulag nái til svæðis í landi Reynisvatns, sem sé jörð og lögbýli og lúti skipulagsskilmálum og öðrum ákvæðum jarðalaga nr. 81/2004. Í 7. gr. þeirra segi að þar sem í skipulagi sé fyrirhugað að breyta landnotkun svæða sem nýtt hafi verið til landbúnaðar skuli leyfi landbúnaðarráðherra til að leysa landið úr landbúnaðarnotum liggja fyrir áður en viðkomandi skipulagsáætlun hljóti endanlega afgreiðslu. Einnig sé vísað til 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis og 13. gr. laganna. Þá komi fram í ákvæðum greindra laga til bráðabirgða að allar jarðir sem skráðar hafi verið í jarðaskrá landbúnaðarráðuneytisins 1. desember 2003 teljist lögbýli eftir gildistöku laganna, án tillits til þess hvort þær uppfylli skilyrði 2. gr. um skilgreiningu á hugtakinu lögbýli. Sé enn fremur kveðið á um það í 3. gr. laganna að ákvæði þeirra gildi um öll lögbýli í þéttbýli án tillits til þess hvaða skipulag gildi um landsvæði þeirra.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sé svæðið skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota og sé það innan græna trefilsins, en markmið hans sé að koma á samfelldu skógræktar- og útivistarsvæði sem nái frá Esjuhlíðum til Hafnarfjarðar. Umrætt deiliskipulag taki hins vegar til starfsemi sem falla eigi undir landnotkunarflokkinn samgöngur í kafla 4.16 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Samkvæmt 9. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli vera innbyrðis samræmi milli skipulagsstiga en svo hátti ekki til hér. Gerð hafi verið breyting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 vegna aðstöðu fyrir fisflug á Hólmsheiði en ekki á Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 samhliða þeirri breytingu. Þá sé ekki samræmi milli þess sem fram komi annars vegar í deiliskipulagi og hins vegar í aðalskipulagi um afnotatíma Fisfélagsins af svæðinu.

Framsetningu deiliskipulagstillögunnar sé ábótavant. Ekkert landnúmer, staðgreinir eða götuheiti sé gefið upp. Ekki sé getið þeirra frístundalóða sem liggi að svæðinu og marki að hluta útlínur þess. Upplýsingar um aðrar frístundalóðir á svæðinu liggi ekki fyrir né upplýsingar um þau áhrif sem starfsemin komi til með að hafa á nýtingu þeirra og aðliggjandi svæða, sbr. reglur um grenndarrétt og nábýlisrétt. Ekki sé gefið upp hámarksnýtingarhlutfall, engin snið og engar teikningar liggi fyrir og því sé óljóst hvort eða hvernig eigi að byggja á svæðinu. Ekki sé vikið að ákvæðum laga um brunavarnir og fráveitu eða vísað til atriða sem fram eigi að koma í deiliskipulagi skv. ákvæðum laga um loftferðir nr. 60/1998 og reglugerðar nr. 464/2007 um flugvelli, s.s. um lengd og breidd flugbrauta, öryggissvæði og fleira.

Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998 skuli setja fram í deiliskipulagi bindandi ákvæði, m.a. um útfærslu skipulagsmarkmiða. Í skipulaginu segi að heimilt sé, en ekki skylt, að reisa flugskýli, leggja bílastæði og fleira, og sé slíkt í algerri mótsögn við ákvæði skipulagsreglugerðar. Sama gildi þar sem segi að gert sé ráð fyrir flugbrautasvæði, en erfitt sé að gera sér grein fyrir því hvort og þá hvað eða hvernig byggja eigi á svæðinu, enda séu takmarkaðri upplýsingar á skipulagsuppdrætti en almennt sé við gerð deiliskipulags og kveðið sé á um í lögum. Þá hafi tengivegur inn á svæðið sem sýndur sé á uppdrætti verið úrskurðaður óleyfisframkvæmd og svæðið sé því ótengt.

Deiliskipulagið gangi gegn markmiðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og reglum um friðhelgi eignarréttar. Við kaup kærenda á frístundalóðum sínum hafi umhverfi svæðisins skipt verulegu máli. Mannvirki þau sem gert sé ráð fyrir að rísi muni sjást víða að og verði mikil lýti á umhverfinu en engin kynning hafi farið fram á sjónrænum áhrifum þeirra. Þá verði mikill hávaði af fisflugvélunum á góðvirðisdögum. Gæta verði að því við skipulagsgerð að sérstökum kröfum í öðrum lögum og reglugerðum, svo sem kröfum um hljóðvist fyrir mismunandi landnotkun og starfsemi, sé unnt að framfylgja.

Í kafla 3.1.4 í skipulagsreglugerð segi að deiliskipulag skuli jafnan ná til svæða sem myndi heildstæða einingu. Um 200 m frá umræddu svæði hafi verið gert deiliskipulag vegna jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði, en bæði svæðin séu skilgreind sem opin svæði til sérstakra nota og ætluð til útivistar, frístundaiðju og skógræktar samkvæmt aðalskipulagi. Brjóti það í bága við fyrrnefnt reglugerðarákvæði að hið kærða deiliskipulag taki ekki til alls þess svæðis sem myndi heildstæða einingu.

Samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 sé beinlínis ætlast til þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram. Þá skuli koma fram staða áætlunar í stigskiptri áætlanagerð sem þýði að ekki verði hjá því komist að fjalla um svæðisskipulag og breytingar á því. Sé umhverfisskýrslan of seint fram komin þar sem Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 geri ekki ráð fyrir flugvelli af neinu tagi eða aðstöðu fyrir flug á þessum stað. Í umhverfisskýrslu þurfi að gera grein fyrir og bera saman raunhæfa valkosti við að ná markmiðum tillögunnar. Allt bendi til þess að niðurstöður hafi verið gefnar fyrir fram. Umhverfisskýrsla sú er liggi fyrir í málinu sé verulega ónákvæm og misvísandi, þar sem ekki hafi verið farið að tilteknum lagareglum við gerð hennar. Vísað sé til 2. mgr. 6. gr. laga um umhverfismat áætlana, þar sem greint sé frá því í stafliðum a-j sem koma skuli fram í umhverfisskýrslu, en þessar upplýsingar sé aðeins að litlu leyti að finna í skýrslunni. Ekkert samráð hafi verið haft við landeigendur í Reynisvatnslandi og ekki leitað leiða til að leysa ágreining eða hugað að mótvægisaðgerðum. Þá hafi skort á að nægjanlegar upplýsingar hafi legið fyrir við gerð skýrslunnar, svo sem um væntanlegan fjölda fisflugvéla og iðkenda, hugsanlega hávaðamengun frá flugumferð og hvernig meðferð eldneytis verði háttað, m.a. með tilliti til mengunarslysa og mengunar grunnvatns. Sé lífríki Langavatns sett í hættu.

Skipulagsbreytingar á austurheiðum Reykjavíkur á umliðnum árum hafi gert það að verkum að skipulagslega séð sé svæðið orðið einn hrærigrautur. Enginn viti með vissu við hverju megi búast og það sé óásættanlegt.

Hvað hið kærða byggingarleyfi varðar vísa kærendur til þess að lagaskilyrði hafi skort til að veita leyfið þar sem deiliskipulagið sem leyfið styðjist við sé ekki í samræmi við aðalskipulag og sé haldið ógildingarannmörkum. Þá eigi Fisfélag Reykjavíkur ekki lögvarinn rétt til að fá útgefið byggingarleyfi á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg þar sem lóðin sé hvorki til í Reynisvatnslandi né á Hólmsheiði. Aðal- og deiliskipulagstillögurnar sem hér um ræði hafi tekið til jarðarinnar Reynisvatns með landnúmerið 113408, sem skráð sé 484 ha í Landskrá fasteigna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kæru vegna samþykktar deiliskipulags svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur á Hólmsheiði verði vísað frá úrskurðarnefndinni ellegar að kröfu kærenda verði hafnað.

Kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi hið kærða deiliskipulag þar sem staðsetning fisflugvallarins hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni þeirra, hvorki í sjónrænu tilliti né öðru, en landspildur fjögurra kærenda séu í meira en eins kílómetra fjarlægð frá aðstöðu Fisfélagsins. Hagmunir þeir sem kærendur beri fyrir sig séu almenns eðlis en þeir varði umferð í lofti og á landi og sjónræn áhrif. Kærendur eigi ekki lögvarða kröfu til þess að engin flugumferð sé yfir höfðum þeirra. Þá verði ekki séð hvaða ófriður sé af starfseminni eða flugi fisa umfram það sem almennt megi búast við á opnu svæði sem ætlað sé til sérstakra nota, þ.m.t. frístundaiðkunar, sem fisflug sé. Starfsemin sé auk þess tímabundin og varla stöðug alla daga vikunnar, enda um tómstundaflug að ræða. Ekki verði heldur ráðið af kæru eða öðrum gögnum málsins hvaða hagsmuni Landeigendafélagið Græðir eigi á svæðinu með tilliti til umferðar fisa eða flugvallaraðstöðunnar.

Verði ekki fallist á kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun sé tekið fram að hið umdeilda deiliskipulag eigi sér fullnægjandi stoð í svæðisskipulagi og aðalskipulagi Reykjavíkur. Deiliskipulagið hafi fengið lögboðna málsmeðferð og fullnægt öllum kröfum þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Ljóst sé að um skýrt afmarkað svæði sé að ræða samkvæmt uppdráttum og sé öllum vangaveltum um annað í kæru hafnað.

Enginn landbúnaður hafi verið stundaður innan skipulagsreitsins og jarðalög nr. 81/2004 eigi ekki við um ákvörðunina, sem sé í samræmi við landnotkun svæðisins. Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé umræddur landnotkunarflokkur mjög opinn og heimili m.a. rallýbrautir og skotvelli. Þótt fisflug kunni að falla undir reglugerð um loftferðir og vera háð eftirliti flugmálayfirvalda sé hæpið að skilgreina flugvöllinn sem samgöngumannvirki í aðal- eða svæðisskipulagi. Benda megi á að flugbrautir á Sandskeiði og Tungubökkum í Mosfellsbæ séu einnig á svæðum sem skilgreind séu sem opin svæði til sérstakra nota í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, enda sé þar einkum um einkaflug að ræða en ekki atvinnuflugstarfsemi. Fisflug og svifflug sé ekki flugáætlanaskylt og því sé ekki þörf á frekari takmörkunum á flugi fisa frá starfssvæði Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði umfram það sem komi fram í flugreglum. Hið umdeilda deiliskipulag samræmist svæðisskipulagi þar sem um skipulagða útivistar- og frístundaiðju sé að ræða, sbr. breytingu á Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 sem staðfest var af ráðherra 23. febrúar 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. mars s.á. Breyting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 vegna aðstöðu fyrir Fisfélagið hafi verið staðfest af ráðherra 25. mars 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. apríl s.á. Í hinni samþykktu deiliskipulagstillögu segi ekkert um leigutíma Fisfélagsins en aðalskipulagið heimili tímabundin afnot í 10 ár og séu afnot Fisfélagsins við það miðuð.

Aðkoma frá svæðinu sé einkum frá Suðurlandsvegi um Hafravatnsveg og aðkomu að jarðvegstipp vestan við athafnasvæði Fisfélagsins. Deiliskipulagið fjalli ekki um gerð Reynisvatnsvegar austan Biskupsgötu og gerð bráðabirgðavegar að athafnasvæði Fisfélagsins. Framlenging á Reynivatnsvegi hafi verið lögleg og rétt hafi verið staðið að málsmeðferð varðandi skipulag og umhverfismat vegarins. Framlenging vegarins byggist á gildandi aðalskipulagi og nái inn að Langavatni þar sem bráðabirgðavegur að jarðvegsfyllingunni taki við. Endanleg lega og útfærsla tengibrautar frá Suðurlandsvegi að Reynisvatnsvegi samkvæmt gildandi aðalskipulagi liggi ekki fyrir. Ákvörðun um endanlega legu þeirrar tengibrautar skv. skipulagi sé háð lögum um mat á umhverfisáhrifum áætlana.

Vísað sé til svara skipulagsstjóra við athugasemdum er lotið hafi að áhrifum starfseminnar. Þar hafi komið fram að ónæði af fyrirhugaðri starfsemi ætti að vera takmarkað en fisflugvélar væru útbúnar hljóðkútum og hávaði frá þeim væri mun dempaðri en frá öðrum flugvélum. Jafnframt væru um 4-500 m frá áætluðu athafnasvæði félagsins að næstu sumarhúsum við Langavatn. Flug yfir sumarhúsabyggð yrði takmarkað verulega og óheimilt væri að fljúga yfir hesthúsahverfið. Landrask vegna aðstöðu fisflugsins yrði einnig mjög takmarkað og eingöngu á svæðum sem ekki hefðu verndargildi. Samkvæmt umhverfismati áætlana sem fylgt hafi deiliskipulaginu væru áhrif breytingarinnar í meginatriðum talin óveruleg en einkum gætu áhrif á aðra útivistariðju orðið neikvæð. Ekki sé hægt að taka undir þá fullyrðingu að skipulagið brjóti í bága við reglur um grenndarkynningu eða mat á umhverfisáhrifum áætlana.

Skipulagsskilmálar feli í sér heimildir til tiltekinna framkvæmda en ekki skyldu til að framkvæma. Heimilt byggingarmagn komi fram í skilmálunum og teljist ekki óeðlilegt á nokkurn hátt með hliðsjón af fyrirhugaðri starfsemi. Engin skylda hvíli á skipulagsyfirvöldum til að leggja fram þrívíddarmyndir eða hafa skoðun á flugstefnu fisa, enda sé slíkt deiliskipulaginu óviðkomandi. Ráðist þetta frekar af því hvernig vindar blási og hvert menn vilji fara. Athugasemdir kærenda um að ekki sé getið landnúmera, staðgreinis eða götuheitis valdi ekki ógildingu en slíkt komi yfirleitt ekki til fyrr en við skráningu eigna í fasteignamati. Öðrum málsástæðum, t.a.m. um heilsufarsvandamál, vatnsleysi og að svæðið myndi ekki heildstæða einingu, sé vísað á bug sem órökstuddum, ósönnum og ósönnuðum. Þá sé öllum hugleiðingum kærenda um að skipulagsyfirvöld séu vísvitandi að brjóta lög eða beita valdníðslu mótmælt sem ósönnum og ósönnuðum. Skipulagsyfirvöld hafi þvert á móti lagt sig fram við að skipuleggja svæðið þannig að sem minnst rask verði og með tilliti til ólíkra hagsmuna og sjónarmiða.

Umhverfisskýrslan sé hluti deiliskipulagsins en niðurstaða hennar hafi verið sú að áhrif breytinganna væru í meginatriðum óveruleg. Kærendur eigi heldur engan rétt á því að umhverfi þeirra verði um aldur og ævi óbreytt enda megi ávallt vænta þess að breytingar verði gerðar með deiliskipulagi sem haft geti í för með sér breytingar á högum hagsmunaaðila. Menn verði almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. Jafnframt sé bent á ákvæði 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Vegna kæru á ákvörðun byggingarfulltrúa, um að veita byggingarleyfi fyrir færanlegu stálgrindarhúsi á athafnasvæði Fisfélagsins, fer Reykjavíkurborg fram á frávísun hvað varðar eigendur landspildna nr. 113435 og 113426 og Landeigendafélagið Græði. Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni öllum kröfum allra kærenda í málinu, en hafni kröfu eiganda landspildu 113410 að öðrum kosti. 

Kærendur, að undanskildum einum, eigi enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ef skoðaðar séu afstöðumyndir af lóðum þessara kærenda m.t.t. aðstöðu Fisfélagsins komi í ljós að u.þ.b. 1,05 km séu milli lóðar eins kæranda og flugvallar Fisfélagsins og sé þar landfylling á milli. Spilda annars kæranda sé enn lengra í burtu, eða u.þ.b. 1,2 km. Sé því ljóst að þessir aðilar eigi enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið, þar sem staðsetning umdeildrar byggingar hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni þeirra, hvorki í sjónrænu tilliti né öðru. Ekki verði heldur ráðið af kæru eða öðrum gögnum málsins hvaða hagsmuni Landeigendafélagið Græðir eigi á svæðinu en engar upplýsingar hafi komið fram um það um hvaða hagsmuni þess félags sé að tefla í málinu og hvaða réttarstöðu það hafi á umræddu svæði.

Í gildi sé deiliskipulag sem taki til umráðasvæðis Fisfélags Reykjavíkur. Sé brúttóflatarmál umrædds stálgrindarhúss 608,4 m2, sem sé innan skilmála deiliskipulagsins. Á skipulagssvæðinu sé heimilt að reisa þrjú skýli, 1.600-1.800 m2 hvert, eða samtals 5.400 m2. Ljóst sé því að byggingin samræmist deiliskipulaginu.

                ———————————————                   
Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um deiliskipulag svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur á Hólmsheiði og byggingarleyfi fyrir vélageymslu á athafnasvæði félagsins. Af málatilbúnaði kærenda verður ráðið að þeir telji ónæði af heimilaðri starfsemi á svæðinu fela í sér ólögmæta röskun á hagsmunum þeirra sem eigenda frístundalóða á svæðinu. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru umræddar frístundalóðir í um eða yfir eins kílómetra fjarlægð frá hinu deiliskipulagða svæði, að undanskilinni landspildu nr. 113410, sem liggur að athafnasvæði Fisfélags Reykjavíkur.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Þá segir í þágildandi 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum eigi umhverfisverndar- og hagsmunasamtök sem varnarþing eigi á Íslandi jafnframt sama rétt, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.

Ekki verður séð með hvaða hætti hinar kærðu ákvarðanir snerta lögvarða hagsmuni Landeigendafélagsins Græðis sem lögpersónu en félagið mun vera hagsmunafélag eigenda frístundalóða við Reynisvatn. Ekki liggur fyrir að það eigi bein eða óbein eignarréttindi sem hinar kærðu ákvarðanir gætu snert. Þá getur félagið ekki talist uppfylla kröfur 5. mgr. 52. gr. um samtök sem veitt er kæruaðild vegna ákvarðana um framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Á félagið af þeim sökum ekki kæruaðild að máli þessu og verður öllum kröfum þess því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Lóðir tveggja kærenda af þremur sem kært hafa umdeilt byggingarleyfi, þ.e. lóðir með landnúmer 113426 og 113435, eru í um eða yfir eins kílómetra fjarlægð frá heimiluðu geymsluhúsi og er land milli fasteignanna hæðótt, m.a. vegna landfyllingar. Miðað við aðstæður á svæðinu og þá fjarlægð sem er milli nefndra fasteigna kærenda og umdeildrar byggingar verður ekki séð að byggingin geti raskað grenndarhagsmunum eða öðrum lögvörðum hagsmunum þeirra sem fasteignaeigenda. Verða þeir því ekki taldir eiga kæruaðild varðandi hið kærða byggingarleyfi samkvæmt fyrrgreindri 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga og verður kröfum þeirra að því marki einnig vísað frá úrskurðarnefndinni. Hins vegar verður fallist á að starfsemi sú sem hið umdeilda deiliskipulag heimilar geti snert hagsmuni kærenda sem eigenda frístundalóða á svæðinu með þeim hætti að játa verði þeim kæruaðild vegna samþykktar þess.

Ekki er með hinni kærðu skipulagsákvörðun verið að ráðstafa landi sem nýtt hefur verið til landbúnaðarnota og stóðu ákvæði jarðalaga nr. 81/2004 því ekki í vegi fyrir þeirri ráðstöfun sem í skipulaginu fólst. Er landnotkun umrædds svæðis ákvörðuð í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, þar sem fram kemur að um sé að ræða opið svæði til sérstakra nota, en svæðið er innan hins svonefnda græna trefils, sem ætlaður er til útivistar og skógræktar.

Samkvæmt Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, eins og því var breytt 23. febrúar 2010, er heimilt að reisa byggingar og mannvirki sem tengjast skipulagðri útivistar- og frístundaiðju innan græna trefilsins, sbr. nánari ákvæði aðalskipulags viðkomandi sveitarfélags. Skilgreina skuli slík svæði sem opin svæði til sérstakra nota, sbr. skipulagsreglugerð nr. 400/1998, í aðalskipulagi og tilgreina skuli sérstaklega hverskonar nýting sé fyrirhuguð á svæðinu. Í greinargerð með Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sbr. breytingu sem gerð var á henni 25. mars 2010, er á afmörkuðum svæðum á Hólmsheiði gert ráð fyrir frístundaiðju, sbr. ákvæði um opin svæði til sérstakra nota. Meðal annars er gert ráð fyrir tímabundinni aðstöðu fyrir fisflug, túni til lendingar og annarri aðstöðu á melum sunnan Langavatns. Landnotkunarflokkurinn „opin svæði til sérstakra nota“ var í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998, gr. 4.12, skilgreindur svo: „Opin svæði til sérstakra nota eru svæði með útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar er stunduð, s.s. tjald- og hjólhýsasvæði, skrúðgarðar, kirkjugarðar, leiksvæði, íþróttasvæði, golfvellir, sleða- og skíðasvæði, skautasvæði, siglingaaðstaða, hesthús og reiðvellir, rallýbrautir og skotvellir. Einnig garðlönd og trjáræktarsvæði.“ Af þessu verður sú ályktun dregin að hið kærða deiliskipulag hafi verði í samræmi við gildandi svæðis- og aðalskipulag hvað landnotkun varðar og fari ekki gegn tilvitnuðu ákvæði skipulagsreglugerðar.

Eins og lýst hefur verið var unnin umhverfisskýrsla þar sem lagt var mat á áhrif hins kærða deiliskipulags. Var skýrsla þessi kynnt ásamt uppdrætti og greinargerð deiliskipulagsins haustið 2010 og ekki liggur annað fyrir en að formleg málsmeðferð umrædds deiliskipulags hafi verið lögum samkvæmt að öðru leyti. Þá verður ráðið af framsetningu skipulagsins hvert efnisinnihald þess er en með því var einungis verið að skipuleggja svæði fyrir fisflug með lendingarbrautum og tilteknum byggingum vegna þeirrar starfsemi.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki talin haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði og verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hennar þótt fallast megi á að umrædd starfsemi geti haft í för með sér ónæði vegna flugs fisvélanna.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi á sér stoð í gildu deiliskipulagi. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku, verður hafnað kröfu eiganda landspildu nr. 113410 um ógildingu leyfisins.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum Landeigendafélagsins Græðis í máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kröfu eigenda landspildna nr. 113435 og 113426 á Reynisvatnsheiði, um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2011 um að veita byggingarleyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús sem hýsa eigi vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu eigenda landspildna nr. 113435, 113442, 113410, 113426 og 113422 á Reynisvatnsheiði um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. desember 2010 um að samþykkja deiliskipulag Hólmsheiðar, svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur.

Hafnað er kröfu eiganda landspildu nr. 113410 á Reynisvatnsheiði um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2011 um að veita byggingarleyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús sem hýsa eigi vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________         _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

28/2015 Ingólfsstræti

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja leyfi til að „byggja veislustofu með þaksvölum við núverandi 3. hæð, koma fyrir útibekkjum og gróðurbelti, framlengja lyftu og flóttaleið frá Bankastræti 7 á þaksvölum, Gamla Bíós“, Ingólfsstræti 2A.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. apríl 2015, sem barst nefndinni 24. s.m., kærir Einar Þór Sverrisson hrl., f.h. 101 Hótel ehf., Hverfisgötu 8-10 og IP-Studium Reykjavík ehf., eiganda fasteignarinnar við Hverfisgötu 8-10, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja leyfi til að „byggja veislustofu með þaksvölum á 3. hæð, koma fyrir útibekkjum og gróðurbelti, framlengja lyftu og flóttaleið frá Bankastræti 7 á þaksvölum, Gamla Bíós“. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 13. maí og 4. júní 2015.

Málavextir: Hinn 10. júní 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til áðurgreindra framkvæmda, m.a. á þaksvölum Gamla Bíós. Málinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og barst hún 16. s.m. Þar var lagt til að grenndarkynna umsóknina, þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi, auk þess sem aukin notkun þaksvala gæti haft áhrif á nærliggjandi byggingar. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 20. s.m. var samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum í nærliggjandi húsum. Erindið var grenndarkynnt frá 26. s.m. til og með 24. júlí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum, og var þeim svarað með umsögn skipulagsfulltrúa. Að lokinni grenndarkynningu var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem tók það fyrir á fundi 27. ágúst s.á. Ráðið gerði engar athugsemdir við erindið, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 25. s.m., og vísaði því til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Erindið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa en afgreiðslu málsins var frestað þar sem afla þurfti frekari gagna, s.s. hljóðvistarskýrslu og umsagnar Minjastofnunar Íslands. Hljóðvistarskýrsla lá fyrir 22. október 2014. Minjastofnun gerði ekki athugasemdir við umræddar breytingar í umsögn sinni, dags. 16. mars 2015. Var erindið tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. mars 2015 og það samþykkt.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að útgáfa byggingarleyfisins sé í andstöðu við lög. Hafi hvorki verið gætt réttra réttarreglna um grennd og hljóðvist né tekið tillit til lögmætra réttinda og væntinga kærenda og hótelstarfsemi þeirra við útgáfu leyfisins. Hótelstarfsemin hafi verið rekin frá því um síðustu aldamót en núverandi rekstaraðili Gamla Bíós sé að breyta starfsemi þess húss í grundvallaratriðum á kostnað kærenda. Sé augljóst að verði leyfi veitt fyrir byggingu svalanna, og þar með gefið út leyfi fyrir veitingarekstri, muni það leiða til aukins ónæðis.

Fyrir liggi yfirlýsing forsvarsmanns húseigenda Gamla Bíós þess efnis að sótt verði um útiveitingaleyfi á svölum hússins þegar fyrirhuguðum framkvæmdum verði lokið. Með því sé verið að koma upp torgi á þaki hússins, við hliðina á hótelinu, með skemmtanaleyfi og tilheyrandi reykingum sem komi til með að raska ró gesta hótelsins. Eigi kærendur réttmæta kröfu til þess að geta tryggt næturró gestanna.

Ekki verði séð af gögnum málsins að húseigandi hafi verið krafinn um snið- og afstöðumyndir, sem sýni áhrif skuggavarps á 101 Hótel og hvernig sjónlína frá fyrirhugaðri þakbyggingu komi til með að hafa áhrif inn í herbergi hótelsins. Þá hafi engar hljóðvistarmælingar farið fram. Sé það brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Grundvallarbreyting á rekstri Gamla Bíós hafi átt sér stað og við það sé starfsemi hótelsins stefnt í tvísýnu. Séu hagsmunir kærenda vegna þessara breytinga mun meiri en leyfishafa. Það sé grundvallarregla stjórnsýsluréttar að minni hagsmunir víki fyrir meiri.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er því hafnað að afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi verið ólögmæt.

Mótmælt sé þeirri staðhæfingu kærenda að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Hvað skuggavarp varði þá tíðkist það ekki við afgreiðslu byggingarleyfisumsókna hjá embættinu að óskað sé eftir skýrslu um skuggavarp vegna byggingaráforma. Að auki sé ekki gerð krafa til þess í kafla 2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarfulltrúi afli slíkra gagna. Þá skuli á það bent að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 25. ágúst 2014, sem gerð hafi verið í kjölfar athugasemda sem borist hafi á grenndarkynningartíma, komi fram að ekki sé þörf á skuggavarpsteikningum þar sem breytingin hafi engin áhrif á birtu, auk þess sem núverandi þak fasteignarinnar varpi skugga á fasteign 101 Hótels ehf. Loks sé því mótmælt að ekki hafi verið framkvæmd almennileg rannsókn á hljóðvist. Lögð hafi verið fram hljóðvistarskýrsla á fundi byggingarfulltrúa 24. mars 2015. Í skýrslunni sé lagt mat á hljóðmengun frá lyftustokki og veislusal/þaksvölum á 3. hæð fasteignarinnar og sé niðurstaða skýrslunnar sú að fyrirhuguð starfsemi uppfylli settar reglugerðarkröfur m.t.t. hávaða. Byggingarfulltrúi hafi lagt efnislegt mat á innihald skýrslunnar við töku ákvörðunar í málinu og hafi ekki talið ástæðu til að draga réttmæti hennar í efa.

Því sé hafnað að við samþykkt erindisins hafi grenndarsjónarmiða ekki verið nægjanlega gætt. Erindið hafi verið grenndarkynnt hagsmunaaðilum og athugasemdum svarað af hálfu skipulagsfulltrúa. Því hafi ekki verið neitað að ónæði kynni að leiða af notkun svalanna og til þess að draga úr því hafi „svalir verið minnkaðar frá því sem áður var með þeim hætti að þær eru minnkaðar til norðurs í átt að hótelinu“. Jafnframt hafi komið fram í umsögn skipulagsfulltrúa að uppsetningu gróðurbelta og skjólgirðinga væri ætlað að minnka innsýn og hljóð.

Kærendur hafi haldið því fram að samþykkt byggingaráforma hafi í raun falið í sér samþykki á leyfi fyrir veitingarekstri á svölunum. Sveitarfélagið bendi hins vegar á að um veitingaleyfi gildi lög nr. 85/2007 en ekki lög um mannvirki nr. 160/2010. Byggingarfulltrúi veiti því ekki leyfi til útiveitinga með því að samþykkja byggingaráform.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að breytingar á húsinu hafi verið gerðar til samræmis við kröfur laga og reglugerða. Séu breytingarnar í fullkomnu samræmi við þá starfsemi sem þegar sé fyrir og feli þær ekki í sér nýja eða breytta starfsemi. Í Gamla Bíói hafi frá öndverðu verið rekið fjölbreytt skemmti- og menningarstarfsemi með tilheyrandi hávaða. Svo virðist sem ekki hafi verið gerðar fullnægjandi ráðstafanir til að tryggja nægjanlega hljóðeinangrun í húsinu sem hýsi starfsemi kærenda og sé það tæplega á ábyrgð leyfishafa. Hann hafi boðist til samvinnu til að leysa þennan vanda og skapa grundvöll til að starfsemi þessara tveggja atvinnubygginga geti þrifist hlið við hlið, en af hálfu kærenda hafi ekki verið áhugi á að vinna málið á þann hátt.

Flestar efnislegar kvartanir kærenda varði ekki byggingarleyfið sem slíkt heldur fyrirhugaðan rekstur á staðnum. Þannig geti athugasemdir um meinta hávaðamengun frá samkomusal leyfishafa ekki varðað það hvort veita beri byggingarleyfi fyrir lagfæringum á svölum hússins. Auk þess sé á það bent að byggingarleyfisumsóknin varði ekki byggingu þaksvala, sem hafi verið á húsinu frá öndverðu, heldur sé tilgangur breytinganna að gera svalirnar betur úr garði til að geta gegnt hlutverki sínu í samræmi við nútímakröfur.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 28. maí 2015.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi fyrir veislustofu á þaksvölum Gamla Bíós. Telja kærendur að hin kærða ákvörðun muni hafa í för með sér neikvæð grenndaráhrif, m.a. með tilliti til rekstrar 101 Hótels.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði en til þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að deiliskipulag liggi fyrir skal fyrirhuguð framkvæmd vera í samræmi við landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem Miðborgarkjarni, M1a. Svæðinu er lýst sem hjarta höfuðborgarinnar þar sem sérstök áhersla sé lögð á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu, sem og þjónustu lykilstofnana í stjórnsýslu, menningu og menntun. Á svæðinu gilda almennar veitingaheimildir, en í því felst að allar tegundir veitingastaða eru heimilaðar þar sem lengst má vera opið til kl. 3.00 um helgar. Að auki sé heimilt að veita leyfi fyrir útiveitingum, þó aldrei lengur en til kl. 23.00. Í miðborgarstefnu aðalskipulagsins er jafnframt lögð áhersla á að miðborgin geti tekið vel á móti öllum sem hana sæki og að hún geti sinnt ólíkum hlutverkum. Loks er fjallað um þá þróun sem átt hafi sér stað í miðborginni á undanförnum áratugum, sem hafi falist í að ólík starfsemi hafi í auknum mæli tengst sömu rekstrar- og húsnæðiseiningum. Er síðan áréttað að mikilvægt sé að stuðla að því að miðborgin haldi áfram að vera ákjósanlegur vettvangur fyrir sem fjölbreyttasta þjónustu. Að teknu tilliti til þessa verður ekki annað séð en að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags.

Ítarleg gögn lágu fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar, þ. á m. hljóðvistarskýrsla, yfirlýsing vegna umsóknar um útiveitingaleyfi og umsögn Minjastofnunar Íslands. Verður ekki annað ráðið en að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið tekin að ígrunduðu máli og er ekki hægt að fallast á að við töku þeirrar ákvörðunar hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er ekki að sjá að málsmeðferðin hafi verið haldin öðrum annmörkum. Þannig fór grenndarkynning fram fyrir hagsmunaraðilum í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga og athugasemdum var svarað, s.s. varðandi skuggavarp. Í kjölfarið var erindið samþykkt. Þá liggur fyrir að Minjastofnun lagðist ekki gegn umræddri framkvæmd í umsögn sinni sem gefin var í samræmi við lög nr. 80/2012 um menningarminjar.

Loks felur hin kærða ákvörðun ekki í sér breytingar á formi þaksvalanna sem eru upprunalegar og hafa verið nýttar í tengslum við þá starfsemi sem hefur verið í húsinu á hverjum tíma. Verður ekki séð að staðsetning umræddrar veislustofu á svölunum muni hafa teljandi áhrif á nærliggjandi hótelrekstur en í hinu kærða leyfi felst m.a. að gerðar verði ráðstafanir til að draga úr mögulegum grenndaráhrifum, t.a.m. með því að takmarka notkunarflöt svalanna, sem og með því að koma fyrir skjólvegg og gróðri. Verður því ekki séð að hin kærða ákvörðun brjóti gegn grenndarhagsmunum kærenda þannig að ógildingu varði.

Af öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja leyfi til að „byggja veislustofu með þaksvölum við núverandi 3. hæð, koma fyrir útibekkjum og gróðurbelti, framlengja lyftu og flóttaleið frá Bankastræti 7 á þaksvölum, Gamla Bíós“, Ingólfsstræti 2A.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

   

44/2011 Rjúpnahæð

Með
Árið 2015, föstudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 24. maí 2011 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. júní 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Austurkór 26 (áður Austurkór 24), Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 24. maí 2011 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 13. febrúar 2012.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs 17. ágúst 2010 var lögð fram tillaga sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs um að veitt yrði heimild til að hefja endurskoðun á gildandi deiliskipulagi á nýbyggingarsvæðum bæjarins. Tillagan var samþykkt og vísað til bæjarráðs, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi hinn 26. ágúst 2010. Í kjölfarið voru tillögur að breytingum á aðalskipulagi Kópavogs og deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta settar fram á uppdráttum, dags. 19. október 2010. Að lokinni auglýsingu var tillaga um breytingu á aðalskipulagi lögð fram á ný og afgreidd í skipulagsnefnd Kópavogs 15. mars 2011 og samþykkt í bæjarstjórn 22. s.m. Umhverfisráðherra staðfesti aðalskipulagsbreytinguna 2. maí 2011 og var auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda 20. s.m.

Tillaga um breytingu á deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta var auglýst til kynningar frá 7. desember 2010 til 11. janúar 2011, með athugasemdafresti til 25. s.m., og bárust m.a. athugasemdir frá kæranda. Haldnir voru samráðsfundir dagana 8. og 9. mars 2011 með lóðarhöfum Austurkórs 22 og 24 og í kjölfarið voru gerðar breytingar á auglýstri deiliskipulagstillögu. Fólust þær m.a. í því að í stað parhúss að Austurkór 64-66 var gert ráð fyrir einbýlishúsi, hæð einbýlishúsanna nr. 28, 60, 62 og 64 við Austurkór var minnkuð um einn metra, ákveðið var að leiksvæði norðan Austurkórs nr. 89 og 90 yrði áfram skilgreint sem boltavöllur og lagt var til að gerðar yrðu ráðstafanir til að minnka umferðarhraða á safngötunni Austurkór. Þá var ákveðið að Kópavogsbær myndi standa straum af kostnaði við breytingar á húsnúmerum á þegar byggðum húsum. Deiliskipulagstillagan, með áorðnum breytingum, var samþykkt í skipulagsnefnd 15. mars 2011. Bæjarráð samþykkti tillöguna á fundi sínum 19. maí s.á. og bæjarstjórn hinn 24. s.m. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní 2011.

Samkvæmt hinu breytta aðalskipulagi er landnotkun íbúðarbyggðar á svæðinu aukin úr 120 íbúðum í liðlega 162 íbúðir í sérbýli og fjölbýli og þéttleiki byggðar aukinn úr 9 íbúðum á ha í 11. Í greinargerð með hinu nýja deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta kemur fram að leitast sé við að byggð á svæðinu fái að stórum hluta yfirbragð sérbýlishúsabyggðar, ný byggð verði lágreist og að hún falli sem best að umhverfi svæðisins svo og fyrirhugaðri og núverandi byggð í Kórahverfi. Skipulag og hönnun gatna taki mið af landslagi, öryggi íbúa og að hljóðmengun verði sem minnst. Gert er ráð fyrir að íbúðum fjölgi um 22 frá gildandi deiliskipulagi frá árinu 2007, með áorðnum breytingum, og að eftir breytingu verði 161 íbúð innan deiliskipulagssvæðisins. Áætlað er að um 500 manns komi til með að búa á svæðinu fullbyggðu og að stærstur hluti fyrirhugaðrar byggðar verði í einnar til tveggja hæða sérbýli. Reiknað er með um 56 íbúðum í einbýli, 20 íbúðum í parhúsum, 66 íbúðum í tveggja og þriggja hæða fjölbýlishúsum ásamt 19 íbúðum í raðhúsum. Aðkoma að Rjúpnahæð verði um Austurkór sem tengist Vatnsendavegi og safngötu sem liggur í landi Garðabæjar. Stefnt er að því að allar húsagötur og safngötur verði með 30 km/klst. hámarkshraða. Gerðar verði ráðstafanir til að minnka umferðarhraða á safngötunni Austurkór, svo sem með hraðahindrunum eða þrengingum. Ekki sé gert ráð fyrir hljóðvistarvandamálum í hverfinu.

Málsrök kæranda: Kærandi telur breytingar á aðalskipulagi Kópavogs og deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta hafa neikvæð áhrif á lögvarða hagsmuni sína. Íbúðum sé fjölgað um 23 á svæðinu og þéttleiki byggðarinnar aukist úr níu íbúðum á ha í ellefu. Áhrif þessara breytinga séu m.a. að byggingarreitir og húsnúmer breytist. Einbýlishúsalóðum sé breytt í raðhúsalóðir og íbúðum í fjölbýlishúsum fjölgað. Breytingarnar hafi verið rökstuddar af skipulags- og umhverfissviði Kópavogs með vísan til þess að fjölda lóða hafi verið skilað. Með þeim sé verið að færa tjón bæjarins að hluta til yfir á núverandi eigendur fasteigna á svæðinu. Sanngjarnari og betri lausn hefði verið að lækka verðið á byggingarréttinum á svæðinu til að örva eftirspurn eftir lóðum. Breytingarnar hafi afgerandi áhrif á skipulag hverfisins, heildaryfirbragð og ásýnd þess. Í upprunalegum deiliskipulagsskilmálum segi að leitast hafi verið við að byggð á svæðinu fengi að stórum hluta yfirbragð sérbýlishúsabyggðar. Einkum hafi verið úthlutað glæsilegum einbýlishúsalóðum sem skapað hafi ákveðið byggðarmynstur og hafi það vegið þungt í ákvörðun kæranda um að kaupa byggingarrétt í Austurkór 24. Vesturhluti Rjúpnahæðar hafi ekki verið skilgreindur sem þéttingarsvæði í upprunalegum skilmálum og núverandi íbúar hafi ekki getað gert ráð fyrir svo róttækum breytingum á skipulagi svæðisins. Verð byggingarréttarins hafi miðast við þær skipulagsforsendur sem gilt hafi við úthlutun lóðanna. Með fyrirhuguðum breytingum sé verðmæti fasteigna á skipulagssvæðinu rýrt og gengið harkalega á eignarétt núverandi íbúa hverfisins.

Þótt óumdeilt sé að Þjóðskrá Íslands skilgreini sérbýli sem bæði einbýlishús og raðhús, þ.e. húsnæði sem hafi sérinngang, sé túlkun skipulagsyfirvalda Kópavogs á því hvað sé sérbýli bæði villandi og röng í skipulagslegu samhengi þar sem rangt sé að leggja raðhús og einbýlishús að jöfnu. Horfa verði til áhrifa breytinganna á heildaryfirbragð hverfisins, þ.e. byggðarmynstrið. Í stað stílhreins einbýlishúsahverfis verði til mjög óstílhreinn bræðingur húsa sem líti klasturslega út. Áhrif breytinganna séu sérstaklega mikil fyrir eigendur Austurkórs 24 því húsið sé staðsett yst í húsagötu þar sem til standi að fjölga lóðum verulega og einnig standi húsið við safngötu sem tengi allt hverfið saman. Sértæk áhrif þessara breytinga á íbúa Austurkórs 24 séu þau að umferð um Austurkór muni aukast verulega þar sem íbúðum í hverfinu fjölgi um 42%, eða úr 120 í 170, og megnið af umferðinni fari fram hjá Austurkór 24. Umferðarhraði í safngötunni sé mikill og leiða megi líkur að því að öryggi íbúanna verði lakara en gera hafi mátt ráð fyrir áður. Breytingarnar hafi væntanlega umtalsverð áhrif á hljóðmengun við hús sem staðsett séu við safngötuna. Þá fjölgi íbúðum við húsagötuna sem Austurkór 24 standi við um 31% eða úr 16 í 21. Breytingin hafi afgerandi áhrif á öryggi og næði þeirra sem búi við götuna, einkum þeirra sem búi fremst í henni, og leiði af sér mun meiri umferð um hana.

Kærandi vísar í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 31/2007 (Fróðaþing), 94/2007 (Vesturhverfi) og 98/2008 (Ármannsreitur) málstað sínum til stuðnings.

Málsrök Kópavogsbæjar:
Kópavogsbær krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá þar sem kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Með skipulagsbreytingunni hafi ekki verið hróflað við fasteign kæranda á nokkurn hátt. Stærð lóðar hans og byggingarskilmálar séu hinir sömu og áður, útsýni sé ekki skert með skipulagsbreytingunni og skuggavarp á lóð hans sé ekki meira en áður hafi verið gert ráð fyrir. Kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni sem tengist almennri ásýnd hverfisins en hún sé raunar mjög svipuð því sem áður hafi verið enda ennþá mikill meirihluti lóða ætlaður fyrir  sérbýlishús. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni sem tengist óverulegri fjölgun íbúða í hverfinu. Einstakir fasteignaeigendur hafi ekki sértæka hagsmuni tengda umferðarmálum í því hverfi sem þeir búi í. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að íbúar verði fleiri í hverfinu vegna breytinganna, enda minnki heildarbyggingarmagn í hverfinu við þær. Áhrif umferðar séu sáralítil í húsagötum eins og Austurkór.

Til vara er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað og að staðfest verði sú breyting sem gerð var á aðalskipulagi og deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta. Málefnalegar ástæður hafi búið að baki breytingu á skipulagi vesturhluta Rjúpnahæðar. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hafi aðstæður á húsnæðis- og byggingarmarkaði gjörbreyst og forsendur brostið fyrir skipulagi sem gerði ráð fyrir fjölda stórra einbýlishúsa og íbúða. Byggingarkostnaður hafi hækkað mjög og almennt hafi fasteignakaupendur og húsbyggjendur haft minna fé til ráðstöfunar. Fljótlega hafi orðið ljóst að breyttar forsendur kölluðu á endurskoðun á skipulagi nýbyggingarsvæða í Kópavogi. Breyttar þarfir byggingarmarkaðarins og almennings hafi legið að baki breytingunni en ekki tjón bæjarins vegna lóðaskila. Endurskoðun á deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta hafi verið liður í almennri endurskoðun deiliskipulags á nýbyggingarsvæðum í Kópavogi, en tiltölulega fá hús hafi þá verið risin á svæðinu.

Íbúðir á svæðinu hafi verið 139 samkvæmt eldra deiliskipulagi. Aðalskipulag hafi upphaflega gert ráð fyrir færri íbúðum og því hafi verið gerð breyting á því til samræmis við hið nýja deiliskipulag og nú sé gert ráð fyrir 161 íbúð í aðal- og deiliskipulagi. Fjölgun íbúða á svæðinu nemi því aðeins 15,8%. Þar sem íbúðir hafi almennt minnkað með nýja skipulaginu sé heildarbyggingarmagn á svæðinu nú minna en það hafi verið eða 37.802 m2 í stað 39.285 m2. Byggð í hverfinu muni áfram hafa yfirbragð sérbýlisbyggðar að stórum hluta enda aukist hlutfall sérbýla um 2%. Bent sé á að raðhús og parhús teljist til sérbýla skv. gr. 4.32 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Ekki sé verið að kollvarpa heildaryfirbragði hverfisins með skipulagsbreytingunni en upphaflegt deiliskipulag hafi einnig gert ráð fyrir blandaðri byggð einbýlishúsa, parhúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa. Engin rök séu færð fyrir því að skipulagsbreytingin rýri verðmæti fasteigna á svæðinu enda séu engar líkur á að slíkt gerist þótt íbúðafjöldi í hverfinu aukist um 15,8%. Áfram verði aðeins einbýlishús í þeim botnlanga sem kærandi búi í, íbúðum í hverfinu fjölgi aðeins um 22 eða 15,8% en ekki 42% eins og kærandi haldi fram. Íbúðum í þeim botnlanga sem kærandi búi við sé fjölgað í 20 en ekki 21 og aukningin þar sé því 25% en ekki 31%. Hámarksstærð húsa í botnlanganum hafi verið minnkuð þannig að heildarbyggingarmagn verði minna og gera megi ráð fyrir að færra fólk muni að jafnaði búa í húsunum fyrir vikið. Kærandi ætti því ekki að verða fyrir ónæði vegna þessara breytinga og óvíst sé hvort þær hafi áhrif á umferð við Austurkór. Samkvæmt úttekt verkfræðistofu aukist umferð óverulega þótt um fjölgun íbúa verði að ræða og breyting á skipulaginu skapi engin hljóðvistarvandamál.

Þeir úrskurðir sem kærandi vísi til hafi ekki fordæmisgildi í málinu þar sem fullkomlega lögmætar ástæður hafi legið að baki skipulagsbreytingu á Rjúpnahæð. Þá sé bent á að úrskurður í máli nr. 31/2007 hafi verið felldur úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 11. desember 2007 og að í úrskurði í máli nr. 94/2007 hafi því verið hafnað að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Þá sagði í þágildandi 5. mgr. 52. gr. sömu laga að ákvarðanir sem ráðherra eða Skipulagsstofnun bæri að staðfesta sættu ekki kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Lögmæti nefndrar aðalskipulagsbreytingar verður því ekki endurskoðað af hálfu úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt fyrrnefndri 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga gátu þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem áttu lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru tilgreind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur kærandi ekki einstaklingsbundna hagsmuni tengda ásýnd og heildaryfirbragði skipulagssvæðisins. Hins vegar má fallast á að hin umdeilda skipulagsbreyting geti haft nokkur grenndaráhrif gagnvart kæranda vegna aukinnar umferðar, sem vænta má að leiði af fjölgun íbúða, og staðsetningar fasteignar hans við Austurkór. Verður hann því talinn eiga kæruaðild að máli þessu.

Sveitarstjórnir í hverju sveitarfélagi fara með skipulagsvaldið, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í því valdi felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Samkvæmt hinu breytta deiliskipulagi verða íbúðirnar 161 talsins, en áður gerði aðalskipulagið ráð fyrir 120 íbúðum og deiliskipulagið 139 íbúðum. Við mat á áhrifum þessa ber þó að líta til þess að hámarkshraði um Austurkór verður 30 km/klst. samkvæmt umferðarskipulagi hverfisins og að aukning umferðar í hverfinu vegna fjölgunar íbúða um tæp 16% verður ekki talin veruleg.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir, og því að hið kærða deiliskipulag er í samræmi við gildandi aðalskipulag með þeirri breytingu sem á því var gerð, eru ekki skilyrði til þess að fallast á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 24. maí 2011  um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta í Kópavogi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

100/2014 Löngubrekka

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2014, sem barst nefndinni 12. s.m., kæra eigendur fasteignar að Löngubrekku 1 þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2015, sem barst nefndinni 16. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 18. desember 2014 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús að Löngubrekku 2. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að baki síðari kærunni verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 7/2015, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 30. október 2014 og 23. janúar 2015.

Málavextir: Hinn 18. mars 2014 var á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar tekin fyrir umsókn frá 13. s.m. um breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2. Í henni fólst bygging tveggja hæða fjölbýlishúss með kjallara. Gert var ráð fyrir fimm íbúðum í húsinu og 10 bílastæðum á lóðinni, tveimur með aðkomu frá Löngubrekku og átta frá Laufbrekku. Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna og var það gert 25. s.m. með athugasemdafresti til og með 2. maí s.á. Bárust athugasemdir frá hagsmunaðilum, þ.á m. frá kærendum. Var þeim svarað af skipulagsnefnd með bréfi, dags. 20. s.m. Sama dag var tillagan tekin fyrir á ný á fundi skipulagsnefndar þar sem henni var hafnað og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Hinn 22. s.m. var erindið tekið fyrir á fundi bæjarráðs og afgreiðslu þess frestað. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi bæjarráðs hinn 5. júní s.á. og því vísað aftur til skipulagsnefndar til úrvinnslu. Hinn 21. júlí s.á. var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar og þá bókað að erindið væri lagt fram að nýju ásamt viðbótargögnum lóðarhafa, þar sem komið væri til móts við innsendar athugasemdir. Var málinu frestað en það tekið fyrir að nýju hinn 28. júlí og þá bókað að heildarbyggingarmagn yrði 512 m², nýtingarhlutfall yrði 0,65 og bílastæði yrðu áfram tíu, líkt og í gildandi deiliskipulagi. Var framlögð tillaga samþykkt með áorðnum breytingum og sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarráðs hinn 14. ágúst s.á. Var hagsmunaaðilum tilkynnt um afgreiðsluna með bréfi, dags. 18. ágúst 2014, og hún síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að forsögu málsins megi rekja til ársins 2006 þegar deiliskipulagsgerð fyrir Löngubrekku 2 hafi hafist. Henni hafi frá upphafi verið mótmælt af hálfu íbúa í nágrenninu. Sé ekki vilji fyrir því að hafa svona stóra byggingu í eins litlum botnlanga og Langabrekka sé, sem hafi aðeins að geyma fasteignir með nýtingarhlutfall í kringum 0,3, en nýtingarhlutfall hins umdeilda fjölbýlishúss sé 0,7. Eldra skipulag, sem samþykkt hafi verið árið 2007, hafi leyft byggingu þríbýlis á lóðinni. Með tillögu að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið sótt um sjö íbúðir. Þeim hafi síðan verið fækkað niður í fimm, en þær séu þó enn of margar. Ekki sé hægt að sættast á fleiri en þrjár íbúðir líkt og áður hafi verið gert ráð fyrir.

Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 sé tekið fram að fyrirhugaðar breytingar á einstökum lóðum eða hluta götureita í eldri hverfum bæjarins skuli ekki raska yfirbragði aðliggjandi byggðar þar sem m.a. sé gætt samræmis hvað varði götumynd, hlutföll bygginga og byggingarlistar. Með hliðsjón af framangreindu sé það óskiljanlegt hvernig hægt sé að heimila fjölbýli í götu þar sem aðeins sé að finna einbýli- og tvíbýli.

Í svari skipulagsnefndar við þeim athugasemdum sem borist hafi vegna breytingartillögunnar sé viðurkennt að hin kærða deiliskipulagsbreyting muni hafa í för með sér aukinn bílastæðavanda. Einnig sé viðurkennt að fyrirhuguð nýbygging sé stærri og meiri en nærliggjandi hús, sem og að nokkrar lóðir á umræddum reit séu stærri að flatarmáli en lóðin við Löngubrekku 2. Geti umrædd bygging því verið fordæmisgefandi. Telji kærendur þetta ekki í samræmi við aðalskipulag bæjarins. Á árinu 2012, þegar kærendur hafi keypt húsið að Löngubrekku 1, hafi þau kannað hvort að framkvæmdir væru fyrirhugaðar á lóðinni Löngubrekku 2. Hafi þeim þá verið tjáð af starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs bæjarins að byggingarleyfi, sem hafi átt stoð í greindu deiliskipulagi frá 2007, væri fallið úr gildi og ef byggja ætti á lóðinni yrði aldrei gert ráð fyrir fleiri en þremur íbúðum, líkt og heimilað væri í deiliskipulaginu.

Að auki megi velta því fyrir sér hvort að um sé að ræða pólitíska ákvörðun þar sem breytingartillögunni hafi verið hafnað fyrir síðustu kosningar en hún hafi svo verið send aftur til úrvinnslu skipulagsnefndar strax að loknum kosningum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að fyrra deiliskipulag hafi heimilað byggingu á tveggja hæða húsi og kjallara með þremur íbúðum. Hið breytta skipulag sé innan þess byggingarreits sem samþykktur hafi verið árið 2007. Sé stærð hússins því í samræmi við skipulag. Að auki hafi umfang hússins verið minnkað frá því sem upphaflega hafi verið lagt til og sé nýtingarhlutfall nú 0,65.

Hafnað sé ályktunum um að um pólitíska ákvörðun hafi verið að ræða. Skipulagsnefnd hafi ekki fullnaðarvald í málum sem varði breytingar á skipulagi heldur sé endanlegt ákvörðunarvald í höndum bæjarstjórnar, eða eftir atvikum bæjarráðs. Sé því mögulegt að mál sé sent á ný til skipulagsnefndar til frekari skoðunar hafi bæjarráð ekki fallist á tillögu nefndarinnar. Við meðferð málsins hjá skipulagsnefnd, eftir að bæjarráð hafi vísað erindinu til baka, hafi verið lögð fram ný gögn með breytingum sem hafi falið í sér minna flatarmál hússins. Hafi greindar breytingar verið forsenda fyrir því að breytingartillagan hafi verið samþykkt. Sé því ekki að sjá að ómálefnaleg eða pólitísk sjónarmið hafi ráðið niðurstöðunni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að við kaup hans á lóðinni Löngubrekku 2 haustið 2013 hafi verið í gildi deiliskipulag fyrir lóðina sem heimilað hafi þriggja hæða 615 m2 byggingu, tvö bílastæði í Löngubrekku og átta bílastæði við Laufbrekku/Bröttubrekku. Hafi samþykkt nýtingarhlutfall verið 0,77 og byggingarreiturinn 276 m2. Deiliskipulagið hafi einnig gert ráð fyrir sléttu þaki, sem ekki hafi samræmst götumyndinni. Upphaflega hafi verið skilað inn breytingartillögu til Kópavogsbæjar sem hafi gert ráð fyrir sjö íbúðum, en endanleg tillaga hafi hljóðað upp á fimm íbúðir. Fyrirhuguð bygging samkvæmt hinni kærðu breytingartillögu sé rúmum 100 m2 minni en gert hafi verið ráð fyrir í eldra deiliskipulagi. Að auki sé nýtingarhlutfallið nú 0,65 og gert sé ráð fyrir hallandi bárujárnsþaki, sem sé í samræmi við götumynd. Muni byggingin því verða minni en eldra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir.

——————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarráðs á breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2 sem gerir ráð fyrir fimm íbúða fjölbýli ásamt 10 bílastæðum á lóð. Er og deilt um gildi byggingarleyfis þess er styðst við hið breytta deiliskipulag.

Á árinu 2007 var samþykkt deiliskipulag fyrir lóðina eina og sér þar sem heimiluð var bygging 615 m2 fjölbýlis, með þremur íbúðum og hámarksnýtingarhlutfalli 0,77, ásamt sex bílastæðum á lóð og fjórum stæðum í bílgeymslu. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er hins vegar veitt heimild fyrir 511,9 m2 fjölbýli með fimm íbúðum, hámarksnýtingarhlutfalli 0,65 og 10 bílastæðum á lóð. Deiliskipulagsbreytingin var grenndarkynnt samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og áttu kærendur þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Að lokinni grenndarkynningu var tekin afstaða til athugasemda kærenda og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð hennar því í samræmi við skipulagslög.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóðar á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er merkt íbúðarsvæði, ÍB2, Digranes. Svæðinu er lýst sem fastmótaðri byggð með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli, og er gert ráð fyrir fjölgun íbúða á svæðinu. Í aðalskipulaginu er lögð áhersla á góða nýtingu lands og landgæða og að mótun byggðarinnar tryggi sjálfbærni og hagkvæma uppbyggingu, sem felist m.a. í þéttingu byggðar. Jafnframt er lögð áhersla á blandaða byggð með fjölbreyttu framboði húsnæðis, þjónustu og útivistar. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Fallast má á að einhver grenndaráhrif geti fylgt heimiluðum framkvæmdum en svo sem áður er rakið er með hinni kærðu ákvörðun dregið úr byggingarmagni og hámarksnýtingarhlutfalli frá gildandi deiliskipulagi. Þá er gert ráð fyrir sama fjölda bílastæða og áður og að þau verði öll ofanjarðar og innan lóðar. Er áfram gert ráð fyrir aðkomu að sama fjölda þeirra frá Löngubrekku. Verður ekki séð að fjölgun íbúða um tvær muni hafa í för með sér teljandi aukningu á umferð eða annað óhagræði fyrir nágranna fjölbýlisins.

Umrædd lóð er deiliskipulögð ein og sér og tekur deiliskipulagið því ekki til svæðis sem myndar heildstæða einingu í skilningi 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Lögun þaks byggingarinnar var breytt við meðferð skipulagstillögunnar og þegar litið er til þess að við sömu götu er að finna annað fjölbýli, bæði þríbýli og fjórbýli, verður ekki á það fallist að umrædd bygging sé í ósamræmi við götumynd.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi á sér stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku, verður kröfu kærenda um ógildingu leyfisins hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2, Kópavogi.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 18. desember 2014 um að samþykkja leyfi til að byggja fjölbýlishús að Löngubrekku 2, Kópavogi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

108/2014 Hleinar

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2014 og á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 29. s.m., í umboði bæjarstjórna greindra sveitarfélaga, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum fyrir lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2014, sem barst nefndinni 10. s.m., kæra íbúar við Drangagötu, Herjólfsgötu, og Klettagötu þá ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2014 og  ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 29. s.m. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum fyrir lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu, Hafnarfirði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Að auki er gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Var kröfu kærenda um að yfirvofandi framkvæmdir yrðu stöðvaðar hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum, 2. desember 2014.

Með bréfi, dags. 9. janúar 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir W Drangagötu 1, Hafnarfirði, ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 5. nóvember 2014 um að veita leyfi til að byggja tvö 16 íbúða fjölbýlishús ásamt sameiginlegri bílgeymslu. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og einn af kærendum fyrra málsins stendur að baki síðari kærunni verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 5/2015, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til síðari stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðabæ 22. október 2014 og 21. janúar 2015.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar hinn 11. mars 2014 og hjá skipulagsnefnd Garðabæjar hinn 10. apríl s.á., var tekin fyrir umsókn um breytingu á sameiginlegu deiliskipulagi Garðabæjar og Hafnarfjarðar fyrir Hleina að Langeyrarmölum vegna lóðanna Herjólfsgötu 30-34. Fólst breytingin í því að lóðirnar Herjólfsgata 30, 32 og 34 yrðu sameinaðar í eina lóð þar sem gert væri ráð fyrir tveimur fjögurra hæða byggingum með 32 íbúðum og bílakjallara. Samþykkt var að auglýsa tillöguna til kynningar og var það gert 6. maí 2014 með fresti til athugasemda til 18. júní s.á. Athugasemdir bárust frá ellefu einstaklingum, þ. á m. frá kærendum. Hin kynnta skipulagstillaga var síðan tekin fyrir og samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar hinn 8. júlí 2014 og í skipulagsnefnd Garðabæjar 28. s.m. Bæjarráð Hafnarfjarðar staðfesti samþykki tillögunnar í umboði bæjarstjórnar 10. júlí 2014 og bæjarráð Garðabæjar gerði slíkt hið sama 29. s.m., einnig í umboði bæjarstjórnar. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2014.

Hinn 5. nóvember 2014 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir áður greindum fjölbýlishúsum við Herjólfsgötu 30-34 á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar og hefur sú ákvörðun jafnframt verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að grenndarréttur nágranna fyrirhugaðra fjölbýlishúsa sé verulega skertur. Muni íbúar Herjólfsgötu 26 og Drangagötu 1 búa í 25 metra fjarlægð frá fyrirhuguðum nýbyggingum og útsýni þeirra muni skerðast. Útsýni muni einnig skerðast hjá íbúum við Klettagötu. Þá muni fjölbýlishúsin varpa skugga á lóðir húsa í 25 m fjarlægð sérstaklega á þeim árstíma þegar sól sé lágt á lofti. Að auki muni innsýn valda óþægindum vegna háreistari nýbygginga í sjónlínu við glugga húsanna og aukið ónæði verði vegna aukinnar umferðar um götu.

Undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi í ýmsu verið ábótavant. Vindálag á núverandi byggingar sé óþekkt en vitað sé að vindasamt geti verið á svæðinu. Nauðsynlegt hafi verið að reikna út hvaða áhrif trekkur geti haft á milli húsa enda geti slíkir vindsveipir valdið húseigendum tjóni. Ekki hafi verið auglýst af hálfu bæjaryfirvalda að eldra deiliskipulag skyldi falla úr gildi og ekki hafi verið leitað umsagna frá viðeigandi stofnunum, s.s. Umhverfisstofnun, sem eigi hagsmuna að gæta vegna breyttrar landnýtingar við friðlýst svæði við Hleina. Þá sé ekki í anda aðalskipulags Hafnarfjarðar að breyta grónu íbúðarhverfi hjá vinsælum friðlýstum útivistarstað í fjölbýlishúsahverfi. Aðalskipulag gangi framar deiliskipulagi og beri að taka fullt tillit til þess við breytingar á deiliskipulagi.

Svör skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar við athugasemdum við deiliskipulagið séu ekki fullnægjandi. Svörin einkennist af huglægu mati og séu án nokkurs rökstuðnings eða rannsókna. Ekki hafi verið komið til móts við athugasemdir íbúa eins og krafa sé um. Tilgangslaust sé að auglýsa eftir athugasemdum ef þeim sé ekki svarað með rökum. Að auki hafi ekki verið sýnt fram á nokkra útreikninga varðandi skuggavarp á svæðinu heldur hafðar uppi órökstuddar staðhæfingar í því efni. Útgáfur umrædds skipulags hafi verið með ýmsu móti undanfarin ár og sé orðið tímabært að Hafnarfjörður haldi sig við útgefið deiliskipulag lengur en nokkur ár í senn svo íbúar viti hverju þeir gangi að þegar þeir flytji í hverfi bæjarins.

Umdeildar fjölbýlishúsabyggingar falli ekki að eldri byggð og óeðlilegt sé að Hafnarfjarðarbær semji eða gefi loforð um breytt deiliskipulag áður en íbúar hafi haft tækifæri til að koma að athugasemdum, en íbúðir í fyrirhuguðum húsum hafi þegar verið auglýstar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að ekki hafi verið farið með deiliskipulagsbreytinguna sem óverulega, heldur hafi málsmeðferðin verið í samræmi við almenn ákvæði 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við gerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið reynt að minnka þau áhrif sem nýbyggingarnar gætu haft, t.d. með því að minnka byggingarmagn frá eldri tillögu sem úrskurðarnefndin á sínum tíma felldi úr gildi. Að auki hafi byggingarnar verið færðar aftar í lóðina og fjær lóðarmörkum en fyrri tillaga hafi gert ráð fyrir til að minnka áhrif skuggavarps á lóð við Drangagötu. Þá hafi þær verið stallaðar til að draga úr skerðingu útsýnis, sem nú teljist óveruleg. Þakform húsanna taki mið af húsum sunnan við lóðina, en hæðin taki mið af húsum við Herjólfsgötu 36-40.

Markmið Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025 sé að þétta núverandi byggð þar sem það eigi við, m.a. með endurskipulagningu vannýttra svæða. Sama markmið hafi verið sett fram í eldra aðalskipulagi. Telji bæjaryfirvöld að lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu séu vannýttar og sé þar kjörið þéttingarsvæði í anda gildandi og eldra aðalskipulags. Að auki sé bent á að athugasemdum kærenda hafi verið svarað skriflega og athugun vegna skuggavarps hafi legið fyrir 8. júlí 2014.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi bendir á að lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu standi utan við friðlýst svæði en mörk þess liggi við ofanverð lóðarmörk þeirra, sbr. auglýsingu nr. 399/2009 sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 3. apríl 2009. Sé lögð áhersla á að hinu friðlýsta svæði verði ekki raskað. Undirbúningur að breytingu á deiliskipulagi svæðisins hafi þegar verið byrjaður þegar leyfishafi hafi tekið við skyldum lóðarleigutaka árið 2014. Breytingarnar hafi miðast við að ná fram aukinni hagkvæmni við uppbyggingu á lóðunum til samræmis við yfirlýst markmið aðalskipulags Hafnarfjarðar um þéttingu byggðar og nýtingu á óbyggðum lóðum innan sveitarfélagsins. Skipulagsbreytingin hafi verið gerð í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og afgreiðsla því verið í samræmi við málsmeðferðarreglur. Þó að breytingarnar séu ekki óverulegar sé ekki gerð krafa um að gert sé nýtt deiliskipulag fyrir allt svæðið og eldra deiliskipulag fellt úr gildi nema fyrirhugað sé að gera grundvallarbreytingar, t.d. varðandi landnotkun, byggðamynstur eða yfirbragð alls svæðisins.

Umtalsverð uppbygging hafi átt sér stað á svæðinu á undanförnum árum og hafi m.a. verið reist 4-5 hæða fjölbýlishús á Herjólfsgötu 36-40. Fyrirhugaðar nýbyggingar samræmist vel þeim fjölbýlishúsum, þrátt fyrir að vera nokkuð lágreistari, og muni húsin mynda samfellda götumynd í jaðri hverfisins. Geti eigendur fasteigna alltaf vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagsáætlunum sem geti leitt til skerðingar á útsýni, aukinnar umferðar eða annars konar breytinga á umhverfi þeirra. Þurfi íbúar að sæta því að slík gæði séu skert með almennum hætti. Þótt eigendur fasteigna í grónum íbúðarhverfum megi almennt reikna með stöðugleika í skipulagi verði ekki hjá því litið að hér sé um að ræða lóðir sem hafi verið verulega vannýttar. Þær hafi ýmist verið óbyggðar um nokkurra ára skeið eða með mannvirkjum í niðurníðslu.

Við útfærslu á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið tekið tillit til hagsmuna kærenda. Byggingarreitir hafi verið færðir fjær eignum kærenda og innar á lóðina og byggingarmagn minnkað frá upphaflegri tillögu. Hafi Hafnarfjarðarbær látið vinna sérstaka athugun á skuggavarpi nýbygginganna og af þeim gögnum sé ljóst að ekkert skuggavarp verði af þeim á nærliggjandi hús á þeim tíma sem sól sé hæst á lofti. Þá sé að sama skapi ljóst að aðeins lítils háttar skuggavarp verði af byggingunum að kvöldlagi sem aðeins hafi áhrif á íbúðarhús eins kæranda að Drangagötu 1. Ekkert skuggavarp verði á fasteignir annarra kærenda. Áhrif skuggavarpsins sé ekki meira en fólk þurfi almennt að búa við í þéttbýli. Eigi fullyrðingar um innsýn ekki við rök að styðjast. Byggingarnar hafi verið færðar eins langt frá mörkum lóða kærenda og kostur hafi verið og hafi einnig verið gert ráð fyrir að hraunklettur yrði látinn óhreyfður til þess að lágmarka áhrif nýbygginganna á hagsmuni kærenda.

——————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum fyrir lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu í Hafnarfirði. Felur skipulagsbreytingin í sér að lóðir við Herjólfsgötu verða sameinaðar og er gert ráð fyrir tveimur fjögurra hæða fjölbýlishúsum. Er einnig deilt um samþykki umsóknar um byggingarleyfi fyrir þeim framkvæmdum.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga nr. 123/2010 um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna, og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Að lokinni auglýsingu var tekin afstaða til athugasemda kærenda og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð tillögunnar þannig í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er merkt íbúðarsvæði, ÍB3, Vesturbær. Svæðinu er lýst sem gömlum bæjarhluta í nábýli við miðbæ Hafnarfjarðar sem fyrirhugað sé að haldi yfirbragði sínu. Í aðalskipulaginu er lögð áhersla á að fullnýta byggingarmöguleika sem eru í nánasta umhverfi við miðbæinn áður en uppbygging hefjist á svæðum sem fjær eru. Að auki er þétting byggðar eitt af markmiðum þess sem og endurnýting vannýttra lóða. Með hinni kærða deiliskipulagsbreytingu er stefnt að þéttingu byggðar á svæði í göngufjarlægð við miðbæ Hafnarfjarðar með uppbyggingu á fyrrgreindum lóðum. Á næstu lóðum, nr. 36-40, við götuna hafa verið reist sambærileg fjölbýlishús og að því leyti falla fyrirhuguð hús að götumynd sem fyrir er. Gefa teikningar af hinum umdeildu framkvæmdum til kynna að húsin verði ekki stærri en fjölbýlishúsin sem fyrir standa við götuna. Með hliðsjón af framangreindu voru hinar umdeildu deiliskipulagsbreytingar í samræmi við stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið og bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Er sveitarstjórnum því veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga markmið þau sem tíunduð eru í a- til c-liðum 1. mgr. 1. gr. laganna um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og að tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Fallast má á að einhver grenndaráhrif geti fylgt heimiluðum framkvæmdum samkvæmt umdeildri skipulagsbreytingu sem felast einkum í útsýnisskerðingu, auknu skuggavarpi og umferð, en við undirbúning skipulagstillögunnar var leitast við að draga úr þeim áhrifum með því að minnka byggingar og breyta staðsetningu þeirra miðað við eldri tillögu frá árinu 2006. Samkvæmt fyrirliggjandi könnun sveitarfélagsins á skuggavarpi mun það ekki verða verulegt gagnvart fasteignum kærenda.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku verður gildi leyfisins ekki raskað.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2014 og á ákvörðun Garðabæjar frá 29. s.m., í umboði bæjarstjórna greindra sveitarfélaga, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum fyrir lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu, Hafnarfirði.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. nóvember 2014 um að samþykkja leyfi til að byggja tvö 16 íbúða fjölbýlishús ásamt sameiginlegri bílgeymslu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

124/2014 Arnargata

Með
Árið 2015, föstudaginn 13. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. október 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureita vegna lóðarinnar nr. 10 við Arnargötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. desember 2014, sem barst nefndinni 12. s.m., kæra G, Fálkagötu 23A, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs frá 2. október 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureita vegna lóðarinnar nr. 10 við Arnargötu. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2015, sem barst nefndinni 13. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. nóvember 2014 um að veita leyfi til að byggja við norðvestur hlið hússins á lóð nr. 10 við Arnargötu, hæð og kjallara og þaksvalir þar ofan á með sólstofu að hluta til. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 6/2015, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 13. og 14. janúar 2015.

Málavextir: Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 19. júní 2014 var felld úr gildi deiliskipulagsbreyting fyrir Fálkagötureiti vegna lóðar nr. 10 við Arnargötu. Taldi nefndin að þar sem um verulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða þyrfti að fara með hana eins og nýtt deiliskipulag, en breytingin hafði aðeins verið grenndarkynnt. Að auki var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi fyrir framkvæmdum á húsinu nr. 10 við Arnargötu, en hún studdist við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Við úrlausn þess máls kynnti úrskurðarnefndin sér staðhætti. 

Í framhaldi af greindum úrskurði var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 9. júlí 2014 tekin fyrir að nýju umsókn um breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureita vegna lóðarinnar nr. 10 við Arnargötu. Var breytingin í megindráttum efnislega samhljóða fyrri deiliskipulagsbreytingu, sem fólst í að byggja við húsið og að nýta þak viðbyggingar sem svalir, en að auki var sótt um heimild til að byggja yfir svalir á norðausturhlið. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu og samþykkti borgarráð erindið til auglýsingar á fundi sínum hinn 10. s.m. Var tillagan auglýst hinn 21. s.m. og athugasemdafrestur veittur til 1. september 2014. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ.m.t. frá kærendum. Var öllum athugasemdum svarað af skipulagsfulltrúa með bréfi, dags. 12. september s.á. Erindið var lagt fyrir umhverfis- og skipulagsráð að nýju hinn 17. s.m. og samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 12. s.m. Var afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs staðfest af borgarráði hinn 2. október s.á. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember s.á.

Hinn 4. nóvember 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt að heimila að byggja viðbyggingu með þaksvölum við hús nr. 10 við Arnargötu. Var byggingarleyfi gefið út 12. s.m. á grundvelli greindrar breytingar á deiliskipulagi Fálkagötureita.

Málsrök kæranda: Kærendur skírskota til þess að húsið að Arnargötu 10 hafi áður verið stækkað verulega, það hækkað og bætt við það á ýmsan hátt. Húsið sé að verða 100 ára gamalt og verði þá sjálfkrafa alfriðað. Íbúðarhverfi Fálkagötureita sé fyrir löngu fullbyggt og fullmótað og umfangsmikil viðbygging með tilheyrandi raski sé ekki til þess fallin að halda festu á skipulagi eða friði og sátt meðal íbúa. Umþrætt viðbygging myndi loka algerlega fyrir sjávarsýn úr íbúð kærenda og hafi þeir ekki haft neina vitneskju um að leyfðar yrðu framkvæmdir sem myndu girða fyrir það útsýni. Að auki myndi viðbyggingin byrgja fyrir sólskin á svalir þeirra á ákveðnum tímum og myndi skuggavarp á glugga, svalir og sameiginlegan garð aukast.

Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi frá 2008 hafi byggingarmagn lóðarinnar verið fullnýtt og nýtingarhlutfallið þá verið 0,51. Með samþykktri deiliskipulagsbreytingu sé veitt leyfi fyrir því að byggingarmagn verði aukið og nýtingarhlutfall fari í 0,8, sem sé 57% aukning. Ekki hafi verið reynt að koma til móts við kærendur. Hafi yfirvöld borgarmála hvorki hlustað á ítrekuð og rökstudd mótmæli íbúa við Fálkagötu 23A né tekið tillit til óska þeirra og tillagna.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að umþrætt skipulagsbreyting sé í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé lóðin á skilgreindu íbúðarsvæði. Í gildi sé deiliskipulag fyrir Fálkagötureiti sem samþykkt hafi verið af borgarráði 28. maí 2008. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu hafi verið auglýst frá 21. júlí til og með 1. september 2014, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Jafnframt hafi verið samþykkt að upplýsa íbúa í nágrenninu sérstaklega um auglýsinguna en að auki hafi erindið verið sent hverfisráði Vesturbæjar til kynningar. Hafi athugasemdir borist, sem og tölvupóstar, þar sem ekki hafi verið gerðar athugasemdir við tillöguna. Hinn 2. október 2014 hafi borgarráð samþykkt tillögu að breytingu á umræddu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 10 við Arnargötu. Breytingin hafi tekið gildi með auglýsingu, dags. 12. september 2014. Með breytingunum sé gert ráð fyrir viðbyggingarmöguleika við norðvesturhlið núverandi byggingar. Miðað sé við tvær hæðir, til samræmis við núverandi byggingu, en án rishæðar. Viðbyggingin skuli taka mið af byggingunni sem fyrir sé hvað varði yfirbragð og hlutföll, en að auki sé heimilt að nýta þakflöt viðbyggingarinnar sem svalir. Miðað sé við að viðbyggingin geti orðið allt að 50 m2 og hámarksnýtingarhlutfall hækki í 0,72.

Muni uppbyggingin hafa í för með sér frekari þéttingu í þegar grónu hverfi. Viðbyggingin sé þó ekki afgerandi stór og falli vel að byggingarstíl hússins. Almennt verði menn að sætta sig við einhver tímabundin óþægindi og rask á byggingartíma en ekki sé leitt í ljós af hálfu kærenda í hverju það sé fólgið. Útsýni innan borgarmarka teljist til gæða en ekki sé fallist á að það sé réttur. Sé á það bent að útsýni frá íbúð kærenda til sjávar milli Arnargötu 10 og 12 sé mjög lítið og því sé skerðingin á þeim gæðum óveruleg. Bent sé á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði gerðar í nánasta umhverfi, þ.e. þegar byggð séu ný hús eða þegar byggt sé við hús sem geti haft í för með sér einhverja skerðingu á hagsmunum, s.s. útsýni. Verði að telja að hagsmunir byggingarleyfishafa, af því að byggja ofan á svalir sínar, séu mun meiri en hagsmunir kærenda vegna lítilsháttar útsýnisskerðingar. Þá sé áréttað að réttur íbúa til óbreytts útsýnis sé ekki bundinn í lög.

Tillagan sé nánast óbreytt frá áður kynntri tillögu. Hafi byggingarmagn verið leiðrétt miðað við ný ákvæði byggingarreglugerðar og því sé húsið við Arnargötu 10 í raun 132 m2 en ekki 120 m2, líkt og áður hafi verið miðað við. Sé aðeins um leiðréttingu á stærðum að ræða. Stærð viðbyggingar sé óbreytt eða allt að 50 m2 á tveimur hæðum. Eina breytingin sé möguleikinn á að byggja yfir 9 m2 flöt á þaksvölunum á austurhlið hússins, sem reiknist til nýtingar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar benda á að þeim hafi verið frjálst að sækja um deiliskipulagsbreytingu að nýju svo fremi sem skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar viðhefðu viðeigandi málsmeðferðarferli. Hafi skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar tekið athugasemdir kærenda til umfjöllunar og ekki talið ástæðu til að fallast á þær. Hafi kærendur aldrei talað við leyfishafa að fyrra bragði eða haft samskipti við þá vegna hinna umþrættu byggingaráforma. Sé því mótmælt að kærendur hafi lagt fram hafi aðrar tillögur að mögulegum viðbyggingum. Skipulagsfulltrúi hafi lagt jákvætt mat á breytingarnar og tekið fram að ekki væri sýnt fram á að verulegt rask eða óþægindi myndi hljótast af þeim. Við útgáfu byggingarleyfisins, dags. 12. nóvember 2014, hafi verið leitað álits Minjastofnunar og hafi það verið mat hennar að breytingartillagan félli ágætlega að húsinu og hefði ekki áhrif á heildarsvip götumyndar Arnargötu. Deiliskipulagstillagan hafi einnig verið samþykkt af Skipulagsstofnun og verið send hverfisráði vesturbæjar, sem hafi ekki séð ástæðu til að bregðast sérstaklega við.

Áður en lagt hafi verið af stað með deiliskipulagstillöguna haustið 2013 hafi verið leitað eftir áliti eigenda aðliggjandi lóða, þ.e. Arnargötu 8 og 12 og þáverandi eiganda Fálkagötu 25. Enginn þeirra hafi sett sig upp á móti framkvæmdunum. Lóðin Fálkagata 23A liggi ekki við lóð Arnargötu 10. Tillagan hafi tvívegis verið grenndarkynnt. Í síðara skiptið hafi jákvæðar athugasemdir borist frá eigendum Arnargötu 8, 12 og 14 og einn eigandi íbúðar Fálkagötu 23A hafi sent bréf þar sem fram komi að ekki séu gerðar athugasemdir við framkvæmdirnar. Sé það óljóst með öllu að umþrættar framkvæmdir muni valda verðmætisrýrnun á eign kærenda. Þá standi hús þeirra langt frá sjó og umrædd takmörkuð sjávarsýn sé í gegnum trjágróður að hluta og á milli húsa. Sé hin raunverulega stækkun vel innan heimildar og nýtingarhlutfallið muni verða 0,78 með umræddri yfirbyggingu svalanna en 0,75 án hennar. Hafi aðrir möguleikar á því að byggja við húsið verið skoðaðir og hafi niðurstaðan verið sú að fyrirliggjandi tillaga kæmi best til móts við þarfir eigenda Arnargötu 10 og félli best að staðháttum og húsagerð á svæðinu. Þótt önnur útfærsla hafi verið mögulegar, sem komi betur til móts við óskir kærenda varðandi óbreytta sjónlínu, þá þjóni það ekki hagsmunum heildarinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar borgarráðs um breytingu á deiliskipulagi fyrir Fálkagötureit vegna lóðarinnar nr. 10 við Arnargötu og um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um samþykkt á byggingaráformum í samræmi við skipulagsbreytinguna. Felur hin kærða skipulagsbreyting í sér heimild til að reisa allt að 50 m2 viðbyggingu á tveimur hæðum með svölum á þakinu. Að auki er heimilað að byggja yfir allt að 9 m2 flöt á þaksvölunum. Við þetta hækkar heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,56 í 0,80.

Hin umdeilda breyting var auglýst til kynningar og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Að lokinni auglýsingu var tekin afstaða til athugasemda kærenda og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð hennar því í samræmi við lög.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið og bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Er sveitarstjórnum því veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga markmið þau sem tíunduð eru í a- til c-liðum 1. mgr. 1. gr. laganna um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og að tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Fallast má á að hin umdeilda skipulagsbreyting geti haft nokkur grenndaráhrif gagnvart kærendum, en þau munu einkum vera fólgin í útsýnisskerðingu. Heimiluð aukning nýtingarhlutfalls lóðarinnar við Arnargötu 10 er töluverð. Hins vegar ber að líta til þess að á skipulagssvæðinu eru ekki í gildi almennir skilmálar um hámarksnýtingarhlutfall og að svipað nýtingarhlutfall og það sem hin umdeilda deiliskipulagsbreyting kveður á um er að finna um aðrar lóðir á svæðinu. Þá er þétting byggðar yfirlýst markmið í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Verður því ekki litið svo á að um sé að ræða óhóflega aukningu nýtingarhlutfalls þrátt fyrir að byggðin sé þétt fyrir.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki raska lögvörðum hagsmunum kærenda með þeim hætti að það leiði til ógildingar hennar, en bent er á að kærendum er tryggður bótaréttur í 51. gr. skipulagslaga sýni þeir fram á að ákvörðunin valdi þeim tjóni. Úrlausn slíks álitaefnis er hins vegar ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar á byggingarleyfið stoð í gildandi deiliskipulag. Þá liggur fyrir að Minjastofnun lagðist ekki gegn umræddri framkvæmd í umsögn sinni sem gefin var í samræmi við lög nr. 80/2012 um menningarminjar. Fyrir liggur að byggingaráform voru samþykkt áður en hin kærða skipulagsbreyting tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Er það ekki í samræmi við þann áskilnað 11. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 að fyrirhugað mannvirki sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Þessi annmarki á málsmeðferð þykir þó ekki þess eðlis að til ógildingar komi, eins og hér stendur á, með hliðsjón af því að byggingarleyfi var gefið út sama dag og hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi, enda var leyfishafa óheimilt að hefja byggingarframkvæmdir fyrr.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 2. október 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureiti vegna lóðarinnar nr. 10 við Arnargötu.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. nóvember 2014 um að samþykkja leyfi til að byggja hæð og kjallara og þaksvalir þar ofan á  með sólstofu að hluta til við norðvestur hlið hússins á lóð nr. 10 við Arnargötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

70/2013 Ægisíða

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 um að veita leyfi til að stækka núverandi þakglugga hússins að Ægisíðu 74, Reykjavík og byggja þar inndregnar þaksvalir, færa útidyr á norðvesturhlið yfir á norðausturhlið, bæta við nýjum útgangi á suðausturhlið og samþykkja ýmsar breytingar á fyrirkomulagi innanhúss.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. júlí 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Ó, Ægisíðu 76, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 að veita leyfi til að stækka núverandi þakglugga hússins að Ægisíðu 74, Reykjavík og byggja þar inndregnar þaksvalir, færa útidyr á norðvesturhlið yfir á norðausturhlið, bæta við nýjum útgangi á suðausturhlið og samþykkja ýmsar breytingar á fyrirkomulagi innanhúss.

Verður að skilja málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar breytingar á þaki með gerð inndreginna þaksvala.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. september 2013.

Málavextir: Hinn 19. mars 2013 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík umsókn um leyfi til að stækka núverandi þakglugga og byggja inndregnar þaksvalir á húsinu að Ægisíðu 74. Jafnframt var í umsókninni óskað samþykkis fyrir þegar framkvæmdum breytingum og endurnýjun sem fólst í að í kjallara hefði verið bætt við stiga upp á 1. hæð, baðherbergi fært, útidyr á norðvesturhlið færðar á norðausturhlið, nýjum útgangi bætt við á suðausturhlið og að á 1. og 2. hæð hefðu tvö herbergi verið sameinuð í eitt og gert innangengt í baðherbergi. Með umsókninni fylgdi samþykki eiganda neðri hæðar, dags. 18. febrúar 2013, og bréf arkitekts, dags. sama dag. Var umsóknin samþykkt með eftirfarandi bókun „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010. Skilyrt er að ný eignaskiptayfirlýsing sé samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfis, henni verður þinglýst eigi síðar en við lokaúttekt. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“

Í gildi er deiliskipulag frá árinu 2006 sem tekur til nefndrar lóðar. Í því segir að markmið þess sé að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum en um leið hlúa að því sem fyrir sé og búa þannig um hnútana að uppbygging geti gerst á forsendum þeirrar byggðar sem þar standi. Þá segir í fyrsta kafla almennra skilmála deiliskipulagsins að heimilt sé að byggja viðbyggingu innan byggingarreits og sé leyfilegt að svalir og þakkantar fari lítillega út fyrir byggingarreiti. Að auki eru í deiliskipulaginu skilmálar fyrir hverja lóð. Í skilmálum fyrir lóðina nr. 74 við Ægisíðu segir að heimilt sé að auka byggingarmagn á lóðinni með því að byggja ris með kvistum sem falli vel að stíl hússins. Skuli lengd þeirra ekki vera meiri en 1/3 af húshliðinni. Mest skuli hæð riss vera 4.400 mm yfir gólfplötu. Að auki sé heimilt að byggja létta viðbyggingu innan byggingarreits en óheimilt að breyta útliti þakkanta.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að heimilaðar þaksvalir séu ekki í samræmi við ákvæði deiliskipulags svæðisins en að auki hafi svalirnar í för með sér meiri röskun á hagsmunum hans en við verði unað. Í skilmálum deiliskipulagsins sé tekið fram að lagt sé til að svip húsa verði sem minnst raskað, t.d. þaki og gluggagerðum, að við endurnýjun og viðgerðir húsa á reitnum skuli taka sérstakt tillit til upphaflegs stíls og að sýna þurfi aðgát við hönnun breytinga og viðbygginga. Sé breytingin á þaki Ægisíðu 74 langt frá því að vera í samræmi við þessa skilmála deiliskipulagsins. Raski hönnun þaksvalanna svip hússins verulega og ekki hafi verið tekið tillit til upphaflegs stíls þess.

Innsýn verði frá þaksvölunum á svalir og inn um stofuglugga kæranda. Þá verði hljóðbært frá þessum svölum en þær séu stórar og henti því til meiri notkunar og viðveru en ella, ekki síst þar sem gert sé þar ráð fyrir heitum potti. Telji kærandi að með heimiluðum svölum sé gengið með óhæfilegum hætti á hagsmuni hans. Séu svalir íbúðar hans stórar og hafi þær verið vel nýttar til útivistar. Hingað til hafi mikilvægur hluti af gæðum svalanna verið sá að þar hafi verið hægt að hafast við án teljandi innsýnar eða hávaða frá Ægisíðu 74. Hafi hann ekki getað gert sér það í hugarlund að nýting á þaki næsta húss myndi breytast með jafn afgerandi hætti á hans kostnað, enda ekki haft ástæðu til að ætla svo með hliðsjón af gildandi deiliskipulagi. Hafi hann mátt búast við litlum þaksvölum en ekki útivistarsvæði á borð við það sem í raun hafi orðið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því hafnað að hin kærða ákvörðun fari í bága við deiliskipulag Ægisíðu. Þar sem lóðir við Ægisíðu séu fullbyggðar sé í skipulaginu tekið fram að byggja megi svalir, þ.e. útistandandi svalir sem megi fara lítillega út fyrir byggingarreit. Hafi það ekki þótt fara húsinu að Ægisíðu 74 vel að vera með útstandandi svalir og af þeim sökum sé ekkert sagt um svalir í skilmálum þess húss í deiliskipulaginu. Inndregnar svalir séu hins vegar í samræmi við skipulag og sé þannig heimilt að byggja kvisti yfir 1/3 af þakfleti hússins. Hinar inndregnu svalir hafi rúmast innan þeirra heimilda en þær séu fjögurra metra breiðar og þakflöturinn 12 metrar. Séu inndregnar svalir á nokkrum öðrum húsum í götunni og raski þetta því ekki götumyndinni. Einnig séu mörg hús í götunni með kvistum. Rúmist svalirnar innan byggingarreits og muni þakkantar haldast óbreyttir. Að auki sé æskilegt að hafa svalir, m.a. með tilliti til brunavarna, en unnt sé að nýta þær sem flóttaleið. Þakgerðir húsa í götunni séu mjög fjölbreyttar og sé því alfarið hafnað að breytingin raski svip hússins á þann hátt að óviðunandi sé.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi skírskotar til þess að samkvæmt deiliskipulagi sé heimilað að reisa léttar viðbyggingar og byggja kvisti á húsið að Ægisíðu 74. Það eina sem sé bannað sé að breyta útliti þakkanta hússins. Kveði deiliskipulagið í heild ekki á um byggingu svala nema í tilfelli Ægisíðu 76 og 96, sem hafi þá verið einu fullbyggðu lóðirnar við götuna. Sé tekið fram að þrátt fyrir að lóðirnar séu fullbyggðar sé þar heimilt að byggja svalir. Slíka sérheimild til byggingar svala á fullbyggðum lóðum sé ekki hægt að túlka á þann hátt að óheimilt sé að byggja svalir á öllum öðrum húsum. Með breytingunni sé þakgerð hússins ekki breytt og aðeins tekið úr burðarviði og sperrum þar sem tekið sé úr fyrir þaksvölunum. Hafi þak Ægisíðu 74 verið, og sé, ósamhverft um miðju sem og grunnflötur hússins í heild. Húsin við Ægisíðu 50-98 hafi mismunandi þakmyndir og sé fjölbreytileikinn það mikill að ekki sé hægt að tala um heildarsvip hvað það varði. Falli inndregnu þaksvalirnar vel að útliti hússins og þakformi, en að auki séu þær mikilvæg flóttaleið. Sé ekki fallist á að notkun svalanna varði nágranna í næsta húsi, svo lengi sem farið sé að lögreglusamþykkt eða öðrum viðeigandi reglum um hegðun og velsæmi. Þá hljóti sjónarmið jafnræðisreglunnar að vega þungt þegar eigandi 15 m² hornsvala í einu húsi sé að agnúast út í 15 m² hornsvalir á því næsta.

Sú hagsmunaskerðing sem kærandi telji sig verða fyrir sé ekki raunveruleg, hvort sem um lífsgæði eða peningaleg verðmæti sé að ræða. Hafi meint verðmætarýrnun átt sér stað við samþykki deiliskipulagsins fyrir Ægisíðu en ekki við framkvæmdina sem hér um ræði. Kærandi hafi haft öll tækifæri til að andmæla þegar deiliskipulagsdrög hafi verið kynnt á sínum tíma.

Niðurstaða: Í málinu liggur fyrir að hin kærða stjórnvaldsákvörðun var tekin 19. mars 2013 og barst kæra í málinu 16. júlí s.á. Kærandi sendi byggingarfulltrúa athugasemdir í tölvupósti 14. júní s.á., vegna framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar, lýsir því að íbúar hússins hafi ekki gert sér grein fyrir breytingunum og áhrifum þeirra fyrr en þann dag og skorar á byggingarfulltrúa að afturkalla ákvörðun sína. Var kæranda svarað með tölvupósti 18. s.m. og frekari tölvupóstsamskipti áttu sér stað sama dag og 19. s.m. án þess að kæranda væri leiðbeint um kæruleiðir og kærufrest vegna greindrar ákvörðunar, svo sem rétt hefði verið að gera með hliðsjón af 1. mgr. 7. gr. og 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður hin umdeilda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars. 2013 því tekin til efnislegrar meðferðar, með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem afsakanlegt þykir í ljósi atvika að kæra hafi borist að liðnum þeim kærufresti sem tiltekinn er í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um leyfi byggingarfulltrúans í Reykjavík fyrir gerð inndreginna svala á þaki húss að Ægisíðu 74. Telur kærandi að nefndar svalir samræmist ekki gildandi deiliskipulagi og að með tilvist þeirra sé gengið á grenndarhagsmuni hans og verðmæti fasteignar hans rýrt. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Í gildi er deiliskipulag fyrir Ægisíðu frá árinu 2006. Í sérskilmálum fyrir lóð nr. 74 við Ægisíðu segir m.a. „Heimilt að auka byggingarmagn á lóðinni með því að byggja ris með kvistum sem falla vel að stíl hússins.“ Hins vegar er ekki tekið fram í greindum lóðarskilmálum að heimilt sé að byggja svalir.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að einhver hækkun hefur orðið á sjónlínu inn á svalir kæranda með tilkomu hinna umdeildu þaksvala. Hins vegar verður að meta umrædd grenndaráhrif með hliðsjón af heimildum þeim sem felast í deiliskipulagi. Líkt og áður greinir er þar að finna heimild fyrir byggingu á risi með kvistum á Ægisíðu 74. Verður að telja að bygging á slíku risi með kvistum myndi hafa svipuð grenndaráhrif og hinar umþrættu þaksvalir hvað innsýn varðar. Þá verður ekki séð að áhrif af byggingu þaksvalanna, með tilliti til hljóðvistar, yrðu umtalsvert meiri en almennt má búast við frá svölum húsa. Að þessu virtu, og þegar hafðar eru í huga heimildir deiliskipulags fyrir byggingu á risi með kvistum á húsið að Ægissíðu 74 og ákvæði almennra skilmála skipulagsins um svalir húsa, verður að telja að bygging umræddra þaksvala rúmist innan heimilda skipulagsins og brjóti ekki gegn grenndarhagsmunum kæranda þannig að ógildingu varði.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 um að veita leyfi til að stækka núverandi þakglugga hússins að Ægisíðu 74, Reykjavík og byggja þar inndregnar þaksvalir, færa útidyr á norðvesturhlið yfir á norðausturhlið, bæta við nýjum útgangi á suðausturhlið og samþykkja ýmsar breytingar á fyrirkomulagi innanhúss.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

104/2014 Öldutún

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnafjarðar frá 17. mars 2003 um að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað að Öldutúni 4, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. september 2014, er barst nefndinni 1. október s.á., kæra J, Öldutúni 2, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 17. mars 2003 að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað að Öldutúni 4, Hafnarfirði. Greind ákvörðun var staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 1. apríl 2003.

Verður að skilja kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og var fallist á þá kröfu í úrskurði 10. október 2014.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 8. október, 10. október og 17. október 2014.

Málavextir: Hinn 30. júlí 2002 var fyrirspurn um hvort rífa mætti bílskúr og byggja annan í hans stað að Öldutúni 4 tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar. Meðfylgjandi var samþykki nágranna og meðeigenda í húsinu. Áður hafði byggingarfulltrúi sent skipulagsdeild fyrirspurnina til umsagnar vegna stækkunar og hækkunar nýs skúrs. Ráðið samþykkti að óska eftir fullnaðarteikningum og að heimila grenndarkynningu erindisins í samræmi við 7. mgr. 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Erindið var kynnt nágrönnum með bréfi, dags. 25. október 2002, og veittur frestur til 25. nóvember s.á. til að gera athugasemdir. Var tekið fram í kynningarbréfinu að í erindinu fælist fyrirspurn „…um að rífa núverandi bílskúr og byggja annan í hans stað. Samkv. teikningum Halldórs Hannessonar, dags. 19. 07. 2002“. Ein athugasemd barst á grenndarkynningartíma og á fundi sínum 3. desember s.á. samþykkti skipulags- og byggingarráð að fallast á erindið með þeim breytingum að byggingarreitur bílskúrs yrði færður upp að lóðarmörkum og atriði sem lytu að frágangi yrðu leyst í samráði við nágranna. Var byggingarfulltrúa heimilað að gefa út byggingarleyfi þegar umsókn þar um lægi fyrir. Hinn 17. mars 2003 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráformin með áritun sinni á teikningar, dags. 14. s.m., sem sýna 3,9 m hæð þess veggjar er snýr að lóð kærenda. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 25. s.m. var erindið lagt fram að nýju og eftirfarandi fært til bókar: „17.03.2003 Samþykkt af byggingarfulltrúa. Umsóknin samræmist lögum nr. 73/1997 og nr. 82/1994.“ Fundargerð ráðsins var svo lögð fyrir og samþykkt af bæjarstjórn á fundi hennar 1. apríl s.á. Botnúttekt fór fram 11. júlí 2003.

Hinn 26. janúar 2005 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja bílskúr að Öldutúni 4 og var bókað að nýjar teikningar hefðu borist 20. s.m. Leyfið var samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 23. febrúar s.á. Samkvæmt nýjum teikningum fól leyfið í sér að heimiluð var breyting á innra fyrirkomulagi bílskúrsins frá fyrra leyfi frá árinu 2003 og heimiluð gerð gryfju undir bíla. Staðfesti skipulags- og byggingarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 14. mars s.á.

Deiliskipulag Öldugötu, Öldutúns 2-6, Ölduslóðar 1-10 og 12 og Hringbrautar 1-15 var samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hinn 25. nóvember 2008 og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní 2009. Hinn 21. október 2009 voru enn samþykktar af byggingarfulltrúa breytingar á innra fyrirkomulagi bílskúrsins. Fór úttekt á plötu yfir kjallara fram 6. júní 2011.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að hið kærða byggingarleyfi brjóti í bága við gildandi deiliskipulag á svæðinu. Leyfi sé veitt fyrir mun hærra bílskýli, með töluvert hærri útvegg sem snúi að lóðarmörkum en gildandi deiliskipulag segi til um og fordæmi séu fyrir á svæðinu. Ákvörðun byggingarfulltrúa snerti hagsmuni kærenda verulega. Þannig skerði útveggur á lóðarmörkum útsýni og varpi miklum skugga á lóð kærenda og rýri þannig lífsgæði þeirra og verðmæti fasteignar þeirra. Muni bygging umrædds bílskýlis hindra að sól skíni á lóð kærenda úr helstu sólarátt. Fyrstu stoðir að útveggjum hafi risið sumarið 2014 og kærendum hafi ekki orðið ljóst hver hæð og áhrif veggjarins yrðu fyrr en steypumótum hafi verið komið fyrir hinn 13. september s.á. og í raun ekki fyrr en fyrsta sólríka dag þar á eftir, eða 16. s.m.

Útveggur bílskýlisins við lóðarmörk kærenda muni verða 3,9 m á hæð en megi ekki vera nema 2,8 m samkvæmt núgildandi deiliskipulagi. Hæðarmunur sé 1,1 m, eða um 40%. Þar sem ekki hafi verið til deiliskipulag fyrir svæðið við leyfisveitingu hafi verið rík ástæða til að fylgja gr. 113.1 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 hvað varði stærð og hæð bílskýlis. Leyfi fyrir hærra bílskýli á þessum stað valdi verulegri röskun á umhverfi og aðstæðum. Þá sé hæðarmunur á lóðum kærenda og byggingarleyfishafa, sem valdi því að steyptur flötur útveggja, séð frá lóð kærenda, verði um 5 m hár. Séu forsendur fyrir frávikum frá þágildandi byggingareglugerð og leyfisveitingu fyrir óvenju háreistu bílskýli því enn veikari. Möl hafi verið borin í lóð byggingarleyfishafa og hún hækkuð þannig að bílskýli standi hærra en ella. Miklir ágallar séu því á samþykktum teikningum þar sem ekki séu gefnir upp hæðarpunktar sem hæð útveggjar gangi út frá, þvert á gr. 18.8 í þágildandi byggingarreglugerð, sem og núgildandi byggingarreglugerð. Þá séu engin dæmi um svo háreist bílskýli á svæðinu, hvorki fyrir né eftir hina umdeildu leyfisveitingu.

Standist leyfisveitingin ekki lög þar sem í 46. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 18. gr. þágildandi byggingarreglugerðar komi fram að aðaluppdráttur skuli sýna hvernig mannvirki falli að nærliggjandi umhverfi og gefa skuli upp hæðarkóta hverrar hæðar og hæsta punkt þakvirkis. Ekkert af þessu sé hins vegar að finna á teikningum fyrir umrætt bílskýli. Þá hafi kærendur ekki fengið gögn um grenndarkynningu skýlisins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hafi grenndarkynning farið fram telji kærendur hana marklausa. Ómögulegt hafi verið fyrir þá sem grenndarkynnt hafi verið fyrir að gera sér grein fyrir umfangi byggingarinnar þar sem ákvæðum laga um aðaluppdrætti hafi ekki verið fylgt og teikningar sýnt bílskýlið eitt og sér með enga stærðarviðmiðun.

Efist kærendur um að undirskriftir nágranna hafi legið fyrir. Hafi svo verið sé hins vegar bent á að samkvæmt fundargerðum Hafnarfjarðabæjar hafi þær legið fyrir 24. júlí 2002 og hafi því liðið um 12 ár frá samþykki nágranna þar til steypumótum bílskýlisins hafi verið komið fyrir. Deiliskipulag svæðisins sé frá árinu 2008 og hafi því sex ár liðið frá samþykkt þess þar til fyrstu steypumótum hafi verið slegið upp. Kærendur veki athygli á framangreindu, telji leyfið útrunnið og óski eftir að ný grenndarkynning fari fram. Þá megi ráða af eigendasögu fasteignarinnar að Öldutúni 2 að líklega hafi verið grenndarkynnt fyrir röngum aðilum þar en milli þess sem undirskriftir nágranna hafi verið fengnar og þar til grenndarkynning hafi farið fram hafi eigendaskipti orðið að íbúð efri hæðar hússins. Réttir eigendur og íbúar að Öldutúni 2 hafi því ekki fengið gögn um grenndarkynningu og sé hún því ómarktæk.

Samþykktar teikningar frá árinu 2009 sýni hvar búið sé að bæta kjallara við teikningar umrædds bílskýlis en sú breyting virðist ekki hafa farið í grenndarkynningu. Telji kærendur að slík kynning hefði átt að fara fram þar sem kjallari í bílskýli Öldutúns 4 fari gegn deiliskipulagi á svæðinu.

Kærendur telji að réttur þeirra til að sjá til sólar á lóð sinni vegi þyngra en réttur byggingarleyfishafa til að geyma t.d. vöruflutningabíla innandyra á lóð sinni.
   
Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til afgreiðslu málsins hjá skipulags- og byggingarsviði Hafnarfjarðar. Erindið hafi verið grenndarkynnt frá 25. október til 25. nóvember 2002, byggingaráform verið samþykkt í mars 2003 og botnúttekt farið fram í júlí s.á. Breytingar á byggingarleyfi hafi verið samþykktar á árinu 2005, þegar gryfja undir bíla hafi verið heimiluð, og á árinu 2009, er aðrar breytingar á innra fyrirkomulagi bílskúrs hafi verið samþykktar. Úttekt á plötu yfir kjallara hafi farið fram 6. júní 2011 og skýringar á byggingartíma hafi borist frá byggingarleyfishafa og byggingarstjóra með bréfi, dags. 22. september 2014.

Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi bendir á að framkvæmdir þær sem hann vinni að við Öldutún 4 séu unnar samkvæmt samþykktu byggingarleyfi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar, dags. 21. og 22. október 2009. Veki hann athygli á að samkvæmt deiliskipulagi sé á lóð kærenda gert ráð fyrir bílskúr sem gæti verið hluti af ófyrirséðu skuggavarpi og útsýnistapi og að tré á lóðinni og nærliggjandi lóðum valdi slíku einnig. Augljóst hafi verið að bílskúr væri í smíðum þar sem sökklar og gryfja hafi verið risin og kærendur því átt að kynna sér málið til hlítar við kaup á fasteign sinni. Gryfja undir gólfi hafi verið samþykkt 23. febrúar 2005 en ekki á árinu 2009 eins og kannski hafi mátt misskilja. Hafi skúrinn verið færður að lóðamörkum að beiðni nágranna og Hafnarfjarðar.

Varðandi möl í stæðið bendi leyfishafi á að almennt sé talað um 80-120 cm þykkt frostfrítt lag ofan á frárennslisrör og að hér sé um 90 cm að ræða. Almennt sé mikill hæðarmunur á húsum á þessu svæði þar sem byggt sé í halla. Enginn hæðarkóti hafi fylgt húsi hans eða eldri bílskúr. Þá sé ljóst að annar tilgreindur bílskúr í Hafnarfirði sé einnig reistur á lóðarmörkum og að hann sé hærri en núgildandi byggingarreglur kveði á um.

Niðurstaða: Hið kærða byggingarleyfi fyrir bílskúr að Öldutúni 4 var samþykkt af byggingarfulltrúa 17. mars 2003 og verður að líta svo á að það hafi verið staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar á fundi hennar 1. apríl s.á. Botnúttekt fór fram í júní 2003, byggingarleyfi voru gefin út 2005 og 2009 vegna breytinga á innra fyrirkomulagi bílskúrsins og fór úttekt á plötu yfir kjallara fram í júní 2011. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 1. október 2014.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar eða mátti af aðstæðum vera það ljóst.

Fyrir liggur af gögnum málsins að framkvæmdir hafa staðið yfir í langan tíma og munu framkvæmdir við útveggi bílskúrsins hafa hafist sumarið 2014. Hins vegar verður ekki ráðið af gögnum málsins að neinar þær framkvæmdir hafi byrjað sem bent gætu til hæðar bílskúrsins fyrr en 13. september 2014 þegar kærendur urðu að eigin sögn þess varir að steypumótum hefði verið komið fyrir til að steypa útveggi. Í kjölfar þess leituðu þeir til skipulagsyfirvalda og fengu upplýsingar um byggingarleyfi vegna bílskúrsins, sem þeir svo kærðu til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður er lýst. Þótt framkvæmdir hafi átt sér stað áður, og kærendum mátt vera það ljóst af aðstæðum að bílskúr myndi rísa, verður að líta til þess að í skilmálum gildandi deiliskipulags frá árinu 2009 kemur fram að á svæðinu skuli byggingarreitur bílageymslna að jafnaði vera 5×7 m og hámarksvegghæð við aðliggjandi lóðarmörk 2,8 m. Var þess ekki að vænta að kærendur gerðu sér grein fyrir því að bílskúr sá er var í byggingu yrði háreistari en deiliskipulag mælti fyrir um. Með hliðsjón af framangreindu verður við það að miða að kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna varð veiting byggingarleyfis að styðjast við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Sú undantekning var gerð í 7. mgr. ákvæðisins, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna, að unnt var að veita byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þótt ekki lægi fyrir deiliskipulag, en þá að undangenginni grenndarkynningu þar sem nágrönnum sem hagsmuna ættu að gæta væri kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig. Við grenndarkynningu var vísað til teikninga, dags. 19. júlí 2002. Þær teikningar sýna flatarmál þáverandi og áformaðs bílskúrs og staðsetningu innan lóðar. Á teikningunum er hins vegar ekki að finna afstöðu bílskúrsins til næstu lóða og gatna, hæðarkóta eða þversnið. Þá er enga textalýsingu að finna á teikningunum. Loks kemur ekkert fram í texta grenndarkynningarbréfs um það hvort eða hvaða breytingar yrðu með nýjum bílskúr. Leiðir af framangreindu að nágrannar gátu engan veginn gert sér grein fyrir hæð áformaðs bílskúrs af grenndarkynningargögnum. Var grenndarkynningunni því verulega ábótavant að þessu leyti og hún ekki í samræmi við tilvitnað lagaákvæði.

Þá skal tekið fram að í gr. 113.1 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 er að finna ákvæði um hámarksstærð ásamt vegg- og mænishæð bílgeymslna fyrir einn bíl og að umdeildur bílskúr er bæði stærri og hærri en þar er tilgreint. Byggingarnefnd gat heimilað frávik frá umræddu ákvæði þar sem það myndi ekki valda verulegri röskun og aðstæður leyfðu að öðru leyti. Ekki liggur fyrir að skipulags- og byggingarráð hafi tekið afstöðu til málsins, þrátt fyrir að ærið tilefni hafi verið til, en fyrir liggur að byggingarfulltrúi sendi skipulagsdeild fyrirspurnina til umsagnar vegna stækkunar og hækkunar skúrsins. Eins og áður er lýst er hvorki á teikningum né í grenndarkynningarbréfi gerð grein fyrir því að um frávik frá áðurgreindu ákvæði sé að ræða og verður að telja að þessa ákvæðis hafi ekki verið gætt við meðferð málsins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var málsmeðferð við töku hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi að því er varðar byggingu nýs bílskúrs að Öldutúni 4.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 17. mars 2003, sem staðfest var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 1. apríl s.á., að því er varðar byggingu bílskúrs í stað annars að Öldutúni 4, Hafnarfirði.

_________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________                             _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Þorsteinn Þorsteinsson

 

94/2012 Hásteinn

Með
Árið 2014, föstudaginn 10. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 94/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 um að heimila breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2012, er barst nefndinni 1. október s.á., kærir Steinberg Finnbogason hdl., f.h. I og A, Áshamri 49, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 að samþykkja tillögu að breytingu að deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum. Öðlaðist breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. ágúst 2012. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ hinn 15. nóvember 2012.

Málsatvik: Hinn 14. mars 2007 tók gildi deiliskipulag fyrir íþrótta- og útivistarsvæði við Hástein. Skipulagssvæðið er í norðvestanverðum jaðri bæjarins og afmarkast af Hamarsvegi í norðri og vestri, íbúðarbyggð við Áshamar og Bessahraun í suðvestri, Hraunvegi í suðri og íbúðarbyggð við Illugagötu og Brekkugötu í austri. Í maí 2007 var staðfest í bæjarstjórn breyting á téðu deiliskipulagi er gerði ráð fyrir að tjaldsvæði yrði staðsett við Þórsheimili, en sú breyting mun ekki hafa tekið gildi. Á árinu 2010 tók gildi breyting á umræddu deiliskipulagi. Fól breytingin í sér að afmarkað var tjaldsvæði frá Þórsheimili og austur í átt að íþróttamiðstöð við Illugagötu. Sætti ákvörðunin kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Bæjarstjórn Vestmannaeyja afturkallaði þá ákvörðun, þar sem ósamræmi væri á milli gildandi aðalskipulags og nefndrar breytingar, en ekki var í aðalskipulagi gert ráð fyrir tjaldsvæði á nefndu svæði. Var málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í kjölfar þessa var unnin tillaga að breytingu á aðalskipulagi Vestmannaeyja er gerði m.a. ráð fyrir að heimilað yrði tjaldsvæði á íþróttasvæði við Hástein. Samhliða því hófst hjá Vestmannaeyjabæ vinna við gerð tillögu að breyttu deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein. Tillaga þess efnis var kynnt á opnum fundi hinn 24. apríl 2012 og sama dag var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagslagsráðs að auglýsa til kynningar tillögu að breyttu deiliskipulagi umrædds svæðis. Samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 26. s.m. Fól tillagan m.a. í sér að afmarkað yrði 7.900 m² svæði sunnan og austan við Þórsheimili fyrir tjaldsvæði sem og byggingarreitur fyrir hótel í Hásteinsgryfju. Bárust tvær athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum.

Deiliskipulagstillagan var tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 27. júní 2012 og var hún samþykkt með breytingum er fólu m.a. í sér að á skipulagsuppdrátt yrði sett inn hljóðmön á mótum tjaldsvæðis og íbúðarbyggðar við Áshamar og jafnframt yrði kveðið á um hljóðvarnir í skilmálum. Þá var skipulagsfulltrúa falið að gera breytingar á skipulagsgögnum og svara innsendum athugasemdum í samræmi við framlagða greinargerð skipulagsráðgjafa. Var málinu vísað til bæjarstjórnar er samþykkti framangreinda afgreiðslu á fundi hinn 28. júní 2012. Var Skipulagsstofnun tilkynnt um afgreiðslu málsins og með bréfi stofnunarinnar, dags. 18. júlí s.á., kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt breytingarinnar að ákveðnum atriðum leiðréttum, s.s. að skilgreina þyrfti göngustíga á uppdrætti og að sparkvöllur væri tilgreindur sem tjaldsvæði, en ekki kæmi fram í greinargerð að svo væri.

Fyrrgreind breyting á aðalskipulagi Vestamanneyja var að kynningu lokinni samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 28. júní 2012 og tók gildi 10. ágúst s.á. Þá öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. ágúst s.á., og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar að því er varðar heimild til staðsetningar tjaldsvæðis við Þórsheimili.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að starfrækt hafi verið tjaldsvæði við mörk lóðar þeirra í andstöðu við aðalskipulag og deiliskipulag í fimm ár. Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið, samþykktu í febrúar 2007, sé svæðið merkt sem leiksvæði. Breyting á nefndu deiliskipulagi, sem samþykkt hafi verið í maí 2007, hafi gert ráð fyrir að tjaldsvæði yrði staðsett við Þórsheimili, á reit U2. Hafi breytingin ekki rúmast innan samþykkts aðalskipulags og því verið ólögmæt. Í júní s.á. hafi umhverfis- og skipulagsráð veitt leyfi til framkvæmda á fyrirhuguðu tjaldsvæði, svo sem lagningu vegar, göngustíga og grindverks. Telji kærendur, með vísan til 11. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, að óheimilt hafi verið að samþykkja ákvörðun þá sem nú sé kærð nema að því undangengnu að þær framkvæmdir sem farið höfðu í bága við eldra skipulag yrðu fjarlægðar.

Með hinni kærðu ákvörðun sé verulega vegið að hagsmunum kærenda. Mikið ónæði stafi frá gestum tjaldsvæðisins og hafi þeir ítrekað raskað nætursvefni kærenda. Óþrifnaður frá svæðinu sé mikill og aukin og óásættanleg umferð fylgi starfseminni. Sé ónæðið langt umfram það sem kærendur hafi mátt vænta er þeir hafi keypt fasteign sína. Gengið sé verulega gegn friðhelgi einkalífs kærenda og hafi þeir orðið fyrir eignaspjöllum vegna þessa. Þá rýri starfsemin verðgildi fasteignar þeirra.

Hafa verði í huga þá meginreglu eignarréttarins, sem byggi m.a. á 72. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944, um að menn eigi ákveðinn rétt til hagnýtingar á eigin eignum. Verði takmörkun á þeim rétti að skýra þröngt og byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Svo hátti ekki hér en margir staðir séu ákjósanlegri fyrir tjaldsvæði í Vestmannaeyjum en umrætt svæði. Jafnframt sé vísað til 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en telja verði að Vestamannaeyjabær hafi við ákvarðanatöku borið að gæta hagsmuna kærenda og annarra íbúa sem ítrekað hafi mótmælt tjaldsvæði svo nærri íbúðarbyggð. Einnig sé bent á 32. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skuli þess gætt að ónæði berist ekki frá tjaldsvæði til nærliggjandi húsa. Muni mótvægisaðgerðir, sem ætlaðar séu til að draga úr hávaða á svæðinu, ekki skila árangri þar sem tjaldsvæðið liggi að lóðarmörkum kærenda. Verði sú skerðing á friðhelgi heimilisins sem þeir þurfi að þola ekki bætt með öðru móti en því að tjaldsvæðið verði flutt fjær íbúðarbyggð.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Vestmannaeyjabær hafnar því að ógilda beri hina kærðu ákvörðun. Framkvæmdir sem vísað sé til séu fyllilega lögmætar. Þær hafi verið gerðar á grundvelli gildandi deiliskipulags og hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi vegna þeirra 2. mars 2011. Leiði breyting á deiliskipulagi ekki til þess að fyrra deiliskipulag hafi verið ólögmætt. Um uppsetningu girðingar og lagningu gönguslóða hafi verið að ræða. Girðingin sé um 1,4 m há og vel innan lóðarmarka íþróttasvæðis og hafi því í raun ekki verið leyfisskyld, sbr. 67. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Vegna lagningu malarslóða sé vísað til þess að gert hafi verið ráð fyrir göngu- og hlaupaslóðum á svæðinu í eldra deiliskipulagi frá mars 2007 og því hafi breyting á umræddu deiliskipulagi er tekið hafi gildi árið 2010 ekki verið forsenda fyrir lagningu malarslóðans.

Í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 1975-1995 hafi umrætt svæði verið skilgreint sem íþrótta- og útivistarsvæði og hafi íbúðarbyggð við svæðið byggst upp eftir þann tíma. Sú notkun sem nú sé á svæðinu geti því ekki komið á óvart. Hvorki hafi verið brotið gegn þeim tilgreindu laga- og reglugerðarákvæðum sem kærendur vísi til né gegn eignarrétti þeirra og séu engin efnisleg rök færð fyrir slíku broti. Við mat á staðsetningu tjaldsvæðis hafi verið færð fram málefnaleg rök á fyrri stigum auk þess sem gætt verði að fremsta megni að ónæði frá svæðinu verði sem minnst, m.a. með gerð hljóðmanar sem búið sé að veita framkvæmdaleyfi fyrir. Í þéttbýli verði aldrei hjá því komist að ónæði hljótist af nábýli við íbúa eða lögmæta starfsemi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 um að heimila þá breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein í Vestmannaeyjum að tjaldsvæði skuli staðsett sunnan og austan við Þórsheimili.

Samkvæmt Aðalskipulagi Vestamannaeyja 2002-2014 er umrætt svæði merkt U2, opin svæði til sérstakra nota, en þau voru skilgreind svo í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að um væri að ræða svæði með útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert væri ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar væri stunduð, s.s. tjald- og hjólhýsasvæði. Í aðalskipulaginu, svo sem því var breytt með samþykkt bæjarstjórnar 28. júní 2012, er nú einnig heimilt að nýta grassvæði innan íþróttasvæðis sem tjaldsvæði og er sérstaklega tilgreint að heimilt verði að nýta grassvæði við Þórsheimili undir tjaldsvæði. Er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana fullnægt með breytingu þessari. Er landnotkun mörkuð í aðalskipulagi og sætir hún ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.

Í málsrökum sínum hafa kærendur vísað til 11. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, sem í gildi var er hin kærða ákvörðun var tekin, en tilvitnað ákvæði kvað á um að óheimilt væri að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefði verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega framkvæmd hefði verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Nefnt ákvæði átti sér stoð í 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Samkvæmt núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010, sem í gildi voru við hina kærðu ákvörðunartöku, getur skipulagsfulltrúi nú krafist þessa, sbr. 3. mgr. 53. gr. laganna, en ber ekki skylda til greindra aðgerða.

Almannahagsmunir, þróun byggðar, skipulagsrök eða önnur málefnaleg sjónarmið geta knúið á um breytingu á gildandi deiliskipulagi, einkum þegar skipulag er komið til ára sinna. Ber sveitarfélaginu m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Eru kröfur í aðalskipulagi um að tryggja þurfi góða hljóðvist í nágrenni við tjaldsvæðið og kvöð um hljóðvörn á mótum tjaldsvæðis og íbúðarbyggð við Áshamars, sem lögð er á í hinu umdeilda deiliskipulagi, til þess fallnar að draga úr áhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar. Þá er og bent á að einstaklingum er tryggður bótaréttur í 51. gr. skipulagslaga sé sýnt fram á að skipulagsáætlanir valdi tjóni.

Að öllu framangreindu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði er kröfu kærenda um ógildingu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:


Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 um að heimila breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum.

___________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________            ___________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

87/2014 Geirsgata

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2014, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 24. september 2013, um að veita leyfi til að breyta nýtingu verbúðar í veitingahús í flokki II, breyta gluggum og dyrum, stækka op í steinsteypta plötu, lagfæra reykháf og gera hann nýtanlegan fyrir arinstæði og útigrill í húsi nr. 3 við Geirsgötu í Reykjavík, sem og leyfi fyrir tímabundna opnun frá 2. hæð inn í hús nr. 3A-B við sömu götu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. ágúst 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hrl., f.h. E og M, Tryggvagötu 4-6, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2013 að veita leyfi til að breyta nýtingu verbúðar í veitingahús í flokki II, breyta gluggum og dyrum, stækka op í steinsteypta plötu, lagfæra reykháf og gera nýtanlegan fyrir arinstæði og útigrill í húsi nr. 3 við Geirsgötu í Reykjavík, sem og fyrir tímabundna opnun frá 2. hæð inn í hús nr. 3A-B við sömu götu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. ágúst og 9. og 10. september 2014.

Málavextir: Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti hinn 26. apríl 2007 deiliskipulag fyrir Slippa- og Ellingsenreit og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. júní s.á. Í deiliskipulaginu var m.a. gert ráð fyrir að hluti Mýrargötu yrði lagður í stokk, Geirsgata yrði breikkuð og hluti verbúða myndi víkja þess vegna. Í skipulagsskilmálum fyrir reit R16, sem tekur til umrædds svæðis, sagði m.a: „Sá hluti verbúðanna sem eftir eru verða varðveittar.“ Enn fremur sagði: „Hér er einungis leyfð hafnarsækin starfsemi.“ Hinn 7. maí 2009 samþykkti borgarráð breytingu á deiliskipulagi fyrir Slippasvæði vegna breyttrar notkunar verbúða við Geirsgötu og tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 16. september s.á. Eftir breytinguna sagði um nýtingu í skilmálum fyrir reit R16: „Á reitnum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir starfsemi sem er í samræmi við starfsemi á miðborgarsvæði, svo sem ferðaþjónusta, verslanir, veitingahús, vinnustofur listamanna og verslanir þeim tengdum.“ Að öðru leyti var deiliskipulagið óbreytt. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 24. september 2013 var lögð fram umsókn um að breyta verbúð að Geirsgötu 3 í veitingahús og um breytingar innanhúss, sem og að breyta gluggum í upprunalega mynd og gera nýja glugga og dyr á suðvesturgafl hússins. Fyrir fundinum lá umsögn skipulagsfulltrúa frá 16. ágúst s.á. þar sem ekki var gerð nein skipulagsleg athugasemd við erindið. Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Hinn 7. apríl 2014 gaf byggingarfulltrúi svo út byggingarleyfi á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að hið umdeilda byggingarleyfi fari bæði gegn eldra deiliskipulagi á svæðinu, sem hafi tekið gildi 11. júní 2007, og yngra deiliskipulagi sem hafi tekið gildi 3. febrúar 2014. Ljóst sé af texta tilvitnaðra deiliskipulaga að ekki hafi þar verið um að ræða heimilaðar breytingar á verbúðunum og útliti þeirra. Fari þær breytingar sem nú sé verið að gera og byggingarleyfi verið veitt fyrir því í bága við deiliskipulag. Með vísan til 1. mgr. 9. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 1. tl. gr. 2.4.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sé byggingarleyfið því ólögmætt enda megi það ekki fara í bága við deiliskipulag. Eina undantekningin frá slíku sé ef um óverulegar breytingar sé að ræða frá deiliskipulagi en þá hvíli fortakslaus skylda á sveitarfélagi að grenndarkynna þær, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Slíkt hafi ekki verið gert og raunar hafni kærendur því að breytingarnar geti talist óverulegar, sbr. gr. 2.3.4. byggingarreglugerðar, þar sem þær skerði hagsmuni nágranna hvað „innsýn“ varði og hafi jafnframt áhrif á götumynd.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er skírskotað til þess að hið kærða byggingarleyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 og deiliskipulag Slippa- og Ellingsenreits R16, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 7. maí 2009 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. september s.á. Í greinargerð deiliskipulagsins segi um „gömlu verbúðirnar“ að á reitnum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir starfsemi sem sé í samræmi við starfsemi á miðborgarsvæði, svo sem ferðaþjónustu, verslunum, veitingahúsum, vinnustofum listamanna og verslunum þeim tengdum. Á undanförnum árum hafi starfsemi verbúðanna færst frá upphaflegri hafnsækni yfir í framreiðslu veitinga og smásölu. Fyrir liggi að starfsemi svæðisins haldi áfram að þróast í þá átt á kostnað hefðbundins handverks, vinnslu og umsýslu er tengist sjávarfangi. Byggingarfulltrúi hafi gefið út leyfi til breytinga á notkun húss sem sé í fullu samræmi við aðal- og deiliskipulag. Hafi málsmeðferð leyfisveitingarinnar að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, mannvirkjalaga nr. 160/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að á hans vegum hafi verið stunduð útgerð og fiskvinnsla um árabil. Hann hafi leigt aðstöðu í Verbúð 10 og eigi Verbúð 11. Áður hafi hafnsækin starfsemi eingöngu átt sér stað í verbúðunum en sú breyting hafi orðið á árinu 2002 að veitingaaðstaða hafi verið sett upp í Verbúð 8. Í verbúðunum sé nú að finna veitinga- og kaffistaði, kvikmyndasýninga- og fundasali, bílaleigu, listmunagallerí og skartgripaverslun, smábátafélag og minjagripaverslun, gallerí og listmunasölu. Með auknum umsvifum þjónustufyrirtækja, verslana og veitingastaða í gömlu verbúðunum hafi sífellt orðið örðugra að reka þar fiskvinnslu og útgerðarstarfsemi og hafi leyfishafi því leitað hófanna með að nýta fasteignina í öðrum tilgangi. Brugðist hafi verið í einu og öllu við ábendingum og athugasemdum byggingarfulltrúa. Byggingarleyfi hafi verið gefið út 7. apríl 2014 og framkvæmdir hafist. Bent sé á að íbúðir kærenda séu í um tveggja metra fjarlægð frá mikilli umferðargötu og ekki þurfi að leita langt aftur í tímann til að fullvissa sig um að verðmæti íbúðarhúsnæðis í næsta nágrenni hafi aukist í kjölfar breyttrar starfsemi í gömlu verbúðunum og nágrenni þeirra. Ef kæra nái fram að ganga sé einsýnt að álykta sem svo að engin atvinnustarfsemi í gömlu verbúðunum sé í samræmi við þá umsögn í skipulagi sem vitnað sé til.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar byggingarleyfis vegna breytinga og nýtingar á húsinu nr. 3 við Geirsgötu þar sem leyfið sé í andstöðu við deiliskipulag og breytingarnar hafi í för með sér neikvæð grenndaráhrif gagnvart kærendum.

Í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það gert að skilyrði fyrir samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfa að efni þeirra sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Hið umþrætta byggingarleyfi styðst við þágildandi deiliskipulag Slippa- og Ellingsenreits, sem tók gildi 11. júní 2007, með þeim breytingum sem tóku gildi 16. september 2009 varðandi reit R16, sem hér á við. Á þeim tíma er hin kærða ákvörðun var tekin var áformað að á reitnum skyldi fyrst og fremst gera ráð fyrir starfsemi sem væri í samræmi við starfsemi á miðborgarsvæði, svo sem ferðaþjónustu, verslunum, veitingahúsum, vinnustofum listamanna og verslunum þeim tengdum. Því er ljóst að hin breytta notkun umrædds húsnæðis samræmist því deiliskipulagi sem í gildi var við veitingu umdeilds byggingarleyfis og þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, en þar kemur fram að á svæðinu sé stefnt að samhæfingu hafnarsvæðis og miðborgar þar sem fram fari fjölbreytt hefðbundin hafnarstarfsemi með áherslu á þjónustu við skemmtiferðaskip, fiskiskip og báta, menningarstarfsemi og ferðaþjónustu. Þá er rétt að taka fram að í núgildandi deiliskipulagi sem tók gildi 3. febrúar 2014, er gert ráð fyrir óbreyttu ástandi á umræddu svæði frá því sem að framan er lýst. Loks verður ekki talið að orðalag fyrirvara í deiliskipulaginu þess efnis að varðveittur verði hluti verbúða að loknum breytingum við umferðarmannvirki girði fyrir þær breytingar á útliti sem heimilaðar voru með hinu umdeilda byggingarleyfi. Í því samhengi er rétt að benda á að umrædd bygging nýtur hvorki þeirrar verndar sem mælt er fyrir um í lögum nr. 80/2012 um menningarminjar né gerð tillaga að varðveislu hennar í húsakönnun fyrir Mýrargötusvæði frá árinu 2003.

Eins og að framan greinir á byggingarleyfið sér stoð í þágildandi deiliskipulagi Slippa- og Ellingsenreits, svo sem því var breytt hinn 16. september 2009. Hefur úrskurðarnefndinni ekki borist kæra vegna þeirrar breytingar og auk þess er kærufrestur vegna hennar liðinn. Kemur deiliskipulagsbreytingin og möguleg áhrif hennar á grenndarhagsmuni kærenda því ekki til álita hér. Þá tekur úrskurðarnefndin fram að ekki var ástæða til að grenndarkynna byggingarleyfið fyrir kærendum eða öðrum skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda var það gefið út með stoð í gildu deiliskipulagi. Þó geta nýir gluggar og dyr á þeim gafli sem staðsettur er gegnt fasteign kærenda og áður var gluggalaus haft í för með sér sjálfstæð grenndaráhrif. Í því samhengi verður hins vegar ekki fram hjá því litið að yfir 20 m eru frá fasteign kærenda að umræddum gafli og að á milli liggur fjölfarin umferðargata. Þá liggur fyrir að við hlið þess húss, er hið kærða leyfi tekur til, og stendur nær kærendum, er veitingahús með útbyggðu glerhýsi, en við hina hlið hússins og fjær kærendum er veitingahús með útisvæði. Með hliðsjón af framangreindum aðstæðum, og einnig því að fasteign kærenda er á svæði sem skilgreint er sem miðborg og miðsvæði í aðalskipulagi, sbr. b-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, verður ekki á það fallist að sú breyting er hér um ræðir sé til þess fallin að breyta götumynd eða skerða hagsmuni kærenda hvað varðar útsýni eða innsýn svo mjög að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar.
 
Í ljósi alls þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggur fyrir að neinir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við samþykki hins kærða byggingarleyfis að ógildingu varði er kröfu kærenda um ógildingu þess hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2013 um að veita leyfi til að breyta nýtingu verbúðar í veitingahús í flokki II, breyta gluggum og dyrum, stækka op í steinsteypta plötu, lagfæra reykháf og gera nýtanlegan fyrir arinstæði og útigrill í húsi nr. 3 við Geirsgötu í Reykjavík, sem og leyfi fyrir tímabundna opnun frá 2. hæð inn í hús nr. 3A-B við sömu götu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson