Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2014 Álfhólsvegur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. janúar 2014 um að breyta ekki deiliskipulagi lóðarinnar nr. 22a og b við Álfhólsveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. febrúar 2014, er barst nefndinni 28. s.m., kærir Mótandi ehf., lóðarhafi Álfhólsvegar 22a og b í Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. janúar 2014 að synja erindi um óverulega breytingu á deiliskipulagi greindrar lóðar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 13. ágúst 2014 og í mars 2016.

Málavextir: Árið 2008 tók gildi deiliskipulag fyrir lóðina Álfhólsveg 22, er gerði ráð fyrir að bygging á nefndri lóð yrði rifin og að heimilað yrði að reisa í hennar stað tvö tveggja hæða fjölbýlishús, samtengd með bílageymslu neðanjarðar. Mun kærandi hafa eignast lóðarréttindi að umræddri lóð árið 2011 og byggingarfulltrúi samþykkt uppdrætti að húsi á lóðinni í mars og apríl 2013. Á fundi skipulagsnefndar 2. júlí s.á. var lögð fram tillaga kæranda að breytingu á nefndu skipulagi er fól í sér að heimilt yrði að byggja inndregna þakhæð og fjölga íbúðum úr 16 í 18, þ.e. um eina íbúð í hvoru húsi. Samþykkti skipulagsnefnd, með skírskotun til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, að grenndarkynna tillöguna og bárust athugasemdir og ábendingar á kynningartíma.

Erindið var lagt fram að nýju á fundi skipulagsnefndar 5. nóvember 2013, ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. sama dag, þar sem m.a. kom fram það mat að fyrirhuguð viðbygging myndi breyta götumynd Álfhólsvegar 16 til 30 umtalsvert á neikvæðan hátt. Jafnframt þætti sýnt að umrædd breyting myndi valda verulegum umhverfisáhrifum í formi aukins skugga á nánar tilgreindar lóðir og ónæði gæti hlotist af auknum fjölda íbúa sem nota myndu svalir á þriðju hæð Álfhólsvegar 22. Þá var tekið fram að aukning um eina hæð teldist ekki veruleg breyting á heildaryfirbragði byggðarinnar þar sem breyting hefði þegar verið gerð á Álfhólsvegi 32. Hafnaði skipulagsnefnd framlagðri tillögu og vísaði málinu til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 7. s.m. og því vísað til skipulagsnefndar, en fram kemur í bókun að það sé gert í ljósi þess að áhöld séu um að gögn hafi vantað við fyrri afgreiðslu nefndarinnar. Með bréfi kæranda til skipulagsnefndar, dags. 10. s.m., var komið á framfæri athugasemdum við fyrrnefnda umsögn.

Hinn 28. janúar 2014 var málið tekið fyrir í bæjarstjórn og eftirfarandi bókað: „Lagt fram að nýju erindi […] varðandi þakhæð og fjölgun íbúða að Álfhólsvegi 22a og 22b. Á fundi skipulagsnefndar 5.11.2013 var erindinu hafnað. Á fundi bæjarráðs 7.11.2013 var erindinu vísað aftur til skipulagsnefndar. Á fundi skipulagsnefndar 11.11. 2013 var erindið tekið aftur til umfjöllunar og því frestað. Lagt fram að nýju ásamt viðbótargögnum varðandi skuggavarp. Skipulagsnefnd ítrekar bókun sína frá 5. nóvember 2013 um að hafna framlagðri breytingartillögu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Bæjarráð vísaði tillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar. Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar og hafnar tillögunni með 11 atkvæðum.“

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að meðferð málsins hafi ekki verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá hafi við meðferð þess verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo og rannsóknarreglu 10. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Loks sé rökstuðningi í umsögn skipulagsdeildar um erindið verulega áfátt.

Af 44. gr. skipulagslaga verði ráðið að sveitarstjórn skuli afgreiða mál að liðnum kynningartíma tillögu og í gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð komi fram að sveitarstjórn skuli senda hagsmunaaðilum er gert hafi athugasemdir umsögn sína um þær ásamt niðurstöðu. Hvergi komi fram í gögnum málsins eða bókunum um það að bæjarstjórn hafi samþykkt umsögn um málið, eins og áskilið sé. Þá fari skipulagsnefnd ekki með afgreiðsluvald á erindum sem þessum, enda hafi henni ekki verið falið það vald í samþykkt sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga. Hafi nefndin því farið út fyrir valdsvið sitt er hún hafnaði breytingartillögu kæranda. Verði ekki séð að úr þeim annmarka hafi verið bætt þótt bæjarstjórn hafi staðfest afgreiðslu nefndarinnar og hafnað að því búnu tillögunni án umræðu og án þess að afgreidd væri umsögn bæjarstjórnar í málinu. Ljóst megi vera að bæjaryfirvöld líti svo á að fyrir liggi lokaákvörðun í málinu og beri af þeim sökum að ógilda hina kærðu ákvörðun. Þá hafi skipulagsnefnd 21. janúar 2014 horft framhjá nýjum gögnum í málinu, þrátt fyrir að fram komi að slík gögn hafi verið lögð fram. Samræmist það ekki rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að taka ekki afstöðu til fyrirliggjandi gagna.

Samkvæmt deiliskipulagi sé nýtingarhlutfall lóðarinnar að Álfhólsvegi 32 án bílageymslu 1,20, en í raun sé það talsvert hærra. Lóð kæranda að Álfhólsvegi 22 sé 3.039 m² og byggingarmagn án bílageymslu 2.067 m² samkvæmt skipulagi. Sé nýtingarhlutfall lóðarinnar miðað við þær forsendur 0,68. Með umsókn sinni hafi kærandi leitað eftir að fá að auka byggingarmagn lítillega til móts við það sem bæjaryfirvöld höfðu samþykkt á nærliggjandi lóð í sama götureit. Hafi ekki verið gætt sjónarmiða um jafnræði þegar afstaða hafi verið tekin til erindis kæranda.

Misræmis gæti í umsögn skipulagsdeildar um áhrif umbeðinnar breytingar á götumynd og umhverfi. Verði að telja að höfundar umsagnarinnar hafi verið sér meðvitaðir um að við mat á áhrifum umsóttra breytinga hefði borið að líta til þess sem þegar hefði verið heimilað í götureitnum en það samræmist ekki þeirri niðurstöðu sem bæjaryfirvöld hefðu síðar komist að í málinu.

Hin kærða synjun sé jafnframt í andstöðu við stefnu gildandi aðalskipulags og Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 um þéttingu byggðar. Umræddur götureitur sé nærri miðbæjarsvæði og sé eðlilegt að horft sé til slíkra svæða við þéttingu byggðar. Megi íbúar við þær aðstæður ávallt vænta einhverra breytinga á skipulagi og megi um það efni vísa til niðurstöðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 3/1999. Rúmist sú aukning á skuggavarpi, og önnur hugsanleg neikvæð áhrif sem af breytingunni stafi, innan þeirra marka sem nágrannar þurfi að sætta sig við. Þá hafi áhrif vegna aukins skugga og ónæðis sem hlotist geti vegna innsýnar ekki verið rannsökuð sem skyldi, en bent hafi verið á, eftir að bæjarráð vísaði málinu aftur til skipulagsnefndar, að gögn um skuggavarp væru ekki rétt, auk þess sem draga mætti úr mögulegri innsýn með því að færa svalahandrið frá þakbrún og inn á þakflötinn. Samræmist það ekki rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að taka þessar ábendingar ekki til skoðunar auk þess sem það fari gegn meðalhófsreglu sömu laga að taka ekki til athugunar hvort beita mætti vægara úrræði til að koma til móts við sjónarmið nágranna.

Loks sé bent á að umsótt breyting rúmist innan þess nýtingarhlutfalls sem kveðið sé á um í gildandi deiliskipulagi. Umræddar þakíbúðir séu inndregnar og dragi það fyrirkomulag bæði úr sjónrænum áhrifum og skuggavarpi. Geti íbúar á ódeiliskipulögðum svæðum ekki vísað til þess að þeir búi í fastmótuðu umhverfi með jafngildum rökum og íbúar svæða sem hafi verið deiliskipulögð. Megi gera ráð fyrir að með heildstæðu deiliskipulagi fyrir umræddan reit hefði mátt ná betra samræmi og yfirsýn yfir byggingarmöguleika á reitnum í heild og jafnframt betri sátt um skipulagsmál svæðisins. Eigi það hins vegar ekki að bitna á möguleikum kæranda til nýtingar á nefndri lóð að þessa hafi ekki verið gætt.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær telur að málsmeðferð við afgreiðslu á erindi kæranda hafi verið í samræmi við 44. gr. skipulagslaga. Að virtum framlögðum gögnum um skuggavarp hafi skipulagsnefnd talið rétt að synja umsókn kæranda á ný og vísa málinu til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Fyrir liggi að erindið hafi sannanlega verið tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar þar sem tekin hafi verið endanleg ákvörðun af hálfu sveitarfélagsins um synjun.

Bent sé á að við gerð deiliskipulags fyrir umrædda lóð hafi íbúðum verið fækkað um eina og hæð hússins á byggingarreitnum verið lækkuð um eina hæð til að koma til móts við innsendar athugasemdir. Skipulagslegar forsendur í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi hafi ekki breyst í nágrenni skipulagssvæðisins frá þeim tíma. Við mat á því hvort rétt sé að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi beri ekki eingöngu að líta til stefnu um þéttingu byggðar heldur einnig að horfa til grenndaráhrifa. Þá hafi málið verið rannsakað nægilega en í því liggi fyrir teikningar af tillögu um nefnda breytingu, myndir af lóðum og húsum umhverfis Álfhólsveg 22 og ítarleg gögn varðandi skuggavarp.

Hafi skipulagsyfirvöld metið það svo að fyrirhuguð viðbygging myndi breyta götumynd Álfhólsvegar 16 til 30 umtalsvert á neikvæðan hátt, þar sem stærðarhlutföll breyttust um of og nýbyggingin yrði of áberandi í götumyndinni. Gert væri ráð fyrir því að hámarksvegghæð hússins yrði 9,75 m, hæð á stigahúsi 10,25 m og að auki væri aðkomuhæð um 1,5 m yfir götukóta. Vegghæð Álfhólsvegar 24 sé 5,4 m og mænishæð 6,5 m. Vegghæð Álfhólsvegar 18 sé 5,8 m og mænishæð 7,4 m. Grenndaráhrif fyrirhugaðra breytinga væru með þeim hætti að ekki væri stætt á því að fallast á þær. Aukið skuggavarp yrði í görðum tiltekinna húsa við Álfhólsveg og ónæði gæti hlotist af auknum fjölda íbúa sem nota myndu svalir á þriðju hæð í austurhluta Álfhólsvegar 22b. Útsýni myndi skerðast og áhrif af vindi gætu breyst vegna hækkunar byggingarinnar.

Niðurstaða: Í kjölfar beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Álfhólsvegi 22 ákvað bæjarstjórn að gera tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi nefndrar lóðar. Um málsmeðferð þeirrar skipulagsbreytingar gilda ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.     

Í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga er kveðið á um að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða með því fráviki að ekki er skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. laganna. Sú undantekning er gerð í 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis að telji sveitarstjórn að gera skuli breytingar á samþykktu deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr., skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt er þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Í frumvarpi til núgildandi skipulagslaga segir m.a. um greint lagaákvæði: „Lagt er til það nýmæli í 2. mgr. að sett eru fram viðmið í greininni um það hvenær um óverulega breytingu á deiliskipulagi er að ræða, en við mat á því þarf að skoða að hversu miklu leyti deiliskipulagstillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti, formi og svipmóti viðkomandi svæðis. Sem dæmi um óverulegar breytingar af þessu tagi er þegar iðnaðarhúsnæði er breytt í íbúðarhúsnæði, glerjun útisvala, skyggni yfir útidyr, dúkkuhús sem sett eru í garð o.s.frv. Slíkar breytingar á deiliskipulagi skulu þannig grenndarkynntar í stað þess að þær verði auglýstar.“

Heimilað nýtingarhlutfall lóðar kæranda að Álfhólsvegi er 0,68 samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í skipulaginu er lóðin talin vera 3.039 m² og miðað við þær forsendur er heimilað byggingarmagn á lóðinni 2.067 m². Heimilt er að reisa á henni tvö tveggja hæða fjölbýlishús, samtengd með bílageymslu neðanjarðar, og sé hvort hús um sig með fjórum íbúðum á fyrstu og annarri hæð. Húsin eru því samtals með 16 íbúðir. Samkvæmt umsókn kæranda til bæjarskipulags Kópavogs, dags. 1. júlí 2013, er núverandi nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,60 og byggingarmagn 1.833 m². Í tillögu að breytingu deiliskipulagsins er bæjaryfirvöld höfnuðu var gert ráð fyrir að byggja mætti inndregna þakhæð á húsin, þ.e. annars vegar 189 m² íbúð og hins vegar 224 m² íbúð. Við breytinguna myndu húsin hækka um 2,7 m að hluta. Jafnframt yrði bílastæðum fjölgað um þrjú stæði, sem staðsett yrðu ofan á bílakjallara.

Nokkurs misræmis gætir í upplýsingum um stærð umræddrar lóðar, en í þinglýstum lóðarleigusamningi er lóðin sögð vera 2.850 m², en ekki 3.039 m², eins og fram kemur í deiliskipulagi. Byggingarmagn lóðarinnar miðað við þær forsendur mætti því vera 1.938 m², en ekki 2.067 m², sé miðað við forsendur deiliskipulagsins. Í breytingartillögunni er kveðið á um að nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,74 og byggingarmagn 2.245,4 m². Er það aukning á nýtingarhlutfalli um 8,8% frá áður heimiluðu nýtingarhlutfalli. Sé hins vegar lögð til grundvallar stærð lóðarinnar samkvæmt lóðarleigusamningi hækkar nýtingarhlutfallið í 0,79, sem er aukning um 16,2% frá gildandi nýtingarhlutfalli. Sé litið til eðlis breytinganna má ætla að þær geti haft í för með sér grenndaráhrif gagnvart næstu lóðum, m.a. með auknu skuggavarpi, auk þess sem fjölgun íbúða í húsunum úr 16 í 18, sem er 12,5% aukning, fylgir aukin umferð.

Ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga er undantekning frá þeirri meginreglu 43. gr. laganna að með breytingar á deiliskipulagi skuli fara eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Af fyrrgreindum lögskýringargögnum við nefnt ákvæði má ráða að skýra verði þessa heimild þröngt.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að telja umfang og áhrif hinnar kynntu deiliskipulagsbreytingar slík að ekki hafi verið skilyrði til að grenndarkynna hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, heldur hafi borið að fara með hana skv. 1. mgr. ákvæðisins. Sökum þessa annmarka á málsmeðferð verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. janúar 2014 vegna deiliskipulagningar lóðarinnar nr. 22a og b við Álfhólsveg.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

36/2014 Bugðulækur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 um að samþykkja leyfi til að endurnýja handrið á þaki bílskúrs á lóðinni nr. 17 við Bugðulæk í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir K, Rauðalæk 18, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun handriðs á þaki bílskúrs að Bugðulæk 17 í Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að hugsanleg ákvörðun byggingarfulltrúans um að heimila uppsetningu timburpalls og timburhandriðs á fyrrgreindu þaki sé hnekkt.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 22. maí 2014 og í mars 2016.

Málavextir: Á lóðinni Bugðulæk 17 stendur fjölbýlishús, sem samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands var reist árið 1959. Bílskúr, sambyggður húsinu á norðurhlið þess, var reistur árið 1965 og tilheyrir eignarhluta 0101. Er bílskúrinn jafnframt sambyggður bílskúrum á lóðum Rauðalækjar nr. 16 og 18. Í ágúst 2009 tilkynnti byggingarfulltrúi þáverandi eigendum umrædds bílskúrs að Bugðulæk 17 að framkvæmdir við byggingu skjólveggs ofan á hann skyldu stöðvaðar, þar sem ekki lægi fyrir leyfi til framkvæmdanna. Í framhaldi af því kom fram að þáverandi eigendur hefðu haft samband við Reykjavíkurborg til að afla sér upplýsinga um hvort leyfi þyrfti til að endurnýja handrið á bílskúrnum, en því hefði verið neitað. Þá var send inn fyrirspurn til byggingarfulltrúa um hvort heimilt væri að endurnýja handriðið, sem verið hefði á bílskúrnum allt frá byggingu hans. Var erindið lagt fyrir skipulagsstjóra, sem gerði ekki athugasemd við greinda framkvæmd, enda yrði sótt um byggingarleyfi, sem síðan yrði grenndarkynnt.

Í október 2010 var sótt um leyfi til byggingarfulltrúa fyrir endurnýjun fyrrgreinds handriðs. Var erindið grenndarkynnt og bárust athugasemdir frá húsfélaginu Rauðalæk 18. Skipulagsráð tók málið fyrir 24. nóvember s.á. og synjaði erindinu, með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, er taldi að ekki væri æskilegt að samþykkja umsóknina gegn andmælum íbúa að Rauðalæk 18. Þá var umsækjanda bent á að leggja fram sams konar fyrirspurn þar sem dregið yrði úr umfangi afnotaflatar. Í samræmi við það lagði umsækjandi fram nýja fyrirspurn og veitti skipulagsstjóri umsögn um málið 25. febrúar 2011. Niðurstaða hans var sú að í ljósi fyrri umsagnar væri lagt til að umsækjanda yrði heimilt að gera ráð fyrir svölum á þaki sem yrðu 3,5 m að dýpt og inndregnar um 1,5 m frá lóðamörkum. Umsókn um leyfi fyrir endurnýjun á handriði á þaki fyrrnefnds bílskúrs var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. maí 2011. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra, sem tók það fyrir á fundi 20. s.m. og færði til bókar að lagfæra þyrfti uppdrætti þannig að þeir samræmdust þeim skilyrðum er fram hefðu komið í umsögn skipulagsstjóra, dags. 25. febrúar 2011. Byggingarfulltrúi tók málið fyrir að nýju 24. maí s.á. Var afgreiðslu málsins frestað að nýju en m.a. bókað að með vísan til umsagnar skipulagsstjóra væri mögulegt að samþykkja svalir á bílskúrsþaki í samræmi við meðsenda skissu.

Hinn 21. janúar 2014 tók byggingarfulltrúi málið fyrir enn á ný. Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu og á embættisafgreiðslufundi hans 24. s.m. var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Rauðalæk 16 og 18. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 26. mars s.á. var fyrrnefnt erindi tekið fyrir. Var tiltekið í fundargerð að borist hefðu athugasemdir við kynnt erindi frá húsfélaginu Rauðalæk 18 og að lögð væri fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. s.m., en þar var framkomnum athugasemdum svarað og lagt til að umsókn yrði samþykkt. Fært var til bókar að ekki væri gerð athugasemd við nefnda umsögn og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Umrædd umsókn var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. apríl 2014, hún samþykkt og talin samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að bílskúrar á lóðum Rauðalækjar 16 og 18 séu báðir með timburþaki. Á öðrum þeirra sé dúkklæðning en á hinum bárujárnsklæðning. Á þakplötu bílskúrs Bugðulækjar 17 sé settur tjörudúkur og timburpallur auk timburhandriðs. Við ákveðnar aðstæður geti skapast veruleg eldhætta sem einnig geti haft mikið fjárhagslegt tjón í för með sér. Sé vísað til 3. mgr. 23. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, en byggingarfulltrúa hefði verið rétt að framvísa gögnum um samráð við slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins vegna mats á eldhættu áður en hin kærða ákvörðun var samþykkt. Einnig sé hætta á að börn slasist vegna umgangs þeirra um ofangreinda bílskúra og sé þak bílskúrs að Rauðalæk 18 tekið að síga vegna þess. Umrætt handrið valdi skuggavarpi í garði Rauðalækjar 18, notkunargildi hans rýrni og gengið sé á hlut íbúa þess húss um rétt til friðhelgi í garði sínum. Handriðið sé til lýta, efnisval þess sé viðhaldsfrekt og verði það fljótt ljótt ásýndum sé viðhaldi ábótavant, en ólíklegt megi telja að tréverki út að lóðamörkum verði viðhaldið.

Hvorki séu sýnd þrep upp á þak nefnds bílskúrs né þaksvalir á samþykktum teikningum frá árinu 1964. Fyrstu framkvæmdir við bílskúrsþakið hafi hafist í miklum flýti árið 2009. Hafi verið reistur 180 cm hár timburveggur á lóðamörkum, en þakið ekki klætt. Skapi ósamþykktar óleyfisframkvæmdir ekki rétt eða hefð samkvæmt lögum. Þá megi á teikningu, dags. 17. desember 2013, sjá að fyrirhugaður timburpallur á þaki bílskúrsins eigi eingöngu að vera innan afmarkaðs timburhandriðs, en pallurinn nái alveg út að lóðamörkum Rauðalækjar 16 og 18. Einnig séu hæðarhlutföll önnur og mikið lægri á teikningu en raunin sé, einkum á austurhlið hússins. Hafi byggingarfulltrúi ekki fylgt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu. Hagsmunir allra íbúa að Rauðalæk 18 og eigenda bílskúra að Rauðalæk 16 hljóti að vega þyngra en hagsmunir íbúa einnar íbúðar að Bugðulæk 17, sem nú þegar hafi samþykktar svalir á suðurhlið þess húss.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg tekur fram að áður en byggingarleyfi hafi verið samþykkt hafi verið óskað eftir umsögn slökkviliðs, sem ekki hafi gert athugasemd við umsóknina. Framkvæmdin sé ekki áhættusamari m.t.t. eldhættu en sambærileg mannvirki sem ekki séu háð byggingarleyfi, enda sé leyfið bundið við að mannvirkið sé 1,5 m frá lóðamörkum. Skuggavarp muni ekki aukast. Hafi skipulagsfulltrúi gert kröfu um að hið umdeilda handrið færi ekki yfir 1,1 m og væri inndregið. Nái þaksvalir nú yfir mun minni flöt en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Með því móti hafi verið komið til móts við athugasemdir kæranda og tryggt að friðhelgi myndi ekki raskast. Þá megi alltaf gera ráð fyrir að friðhelgi raskist vegna eðlilegrar hagnýtingar á nærliggjandi fasteignum í þéttri borgarbyggð.

Við afgreiðslu umsóknar sé gerð úttekt á framkvæmd og gengið úr skugga um að uppfylltar séu þær öryggiskröfur sem um hana gildi. Verði kærandi að bregðast við meintri slysahættu og koma í veg fyrir að börn komist yfir á bílskúr í hans eigu. Þá hafi verið gerð krafa um að handrið félli vel að húsinu við afgreiðslu umsóknarinnar. Geti byggingarfulltrúi ekki synjað afgreiðslu á þeim forsendum að hugsanlega muni framkvæmdin verða til lýta síðar meir. Jafnframt sé bent á heimild byggingarfulltrúa skv. byggingarreglugerð til að bregðast við ef ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss sé ábótavant.

Ekki hafi verið gert ráð fyrir þaksvölum á bílskúr á upphaflegum byggingarnefndarteikningum frá árinu 1964. Hins vegar hafi borgaryfirvöld látið það óátalið til fjölda ára að svalirnar væru nýttar með þeim hætti. Hafi eigendur haft réttmætar væntingar til þess að fá að nýta þakið áfram með sama hætti. Hafi núverandi eigendur keypt fasteignina með væntingum um að leyfi væri til staðar. Það hafi því verið mat embættisins að ekki væri lögmætt að synja umsókninni þó að um óleyfisframkvæmd hefði verið að ræða frá öndverðu. Ekki virðist leika vafi á því að handrið hafi verið um lengri tíma á bílskúrnum þar sem tími hafi verið kominn á endurnýjun þess. Þá sé bent á að varakrafa kæranda felist í aðalkröfunni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að þegar hann hafi fest kaup á fasteign sinni að Bugðulæk 17 í apríl 2013 hafi komið fram á söluyfirliti að ofan á bílskúr væru stórar svalir með grindverki. Langsótt sé að það geti valdið stórtjóni að grilla innan umrædds handriðs. Handrið til norðurs sé í talsverðri fjarlægð frá þaki bílskúrs að Rauðalæk 18 sem sé einnig einum metra lægra en hið umdeilda þak. Þá hafi tryggingarfélag leyfishafa ekki gert athugasemd við nefnt handrið.

Garður íbúa að Rauðalæk 18 snúi í hásuður og þar af leiðandi komi síðdegissól í garðinn að hluta úr vestri. Verði ekki séð hvernig fyrirhugað handrið muni valda skuggavarpi. Umrætt hverfi sé mjög þéttbýlt og friðsælt og ekki sé langt á milli húsa, garða eða innkeyrsla. Garðurinn að Rauðlæk 18 liggi enn fremur að mjög fjölfarinni gangstétt. Verði handriðið ekki klárað með þeim hætti sem samþykkt sé verði slysahætta líklega viðvarandi. Þá telji leyfishafa enga ástæðu til annars en að viðhalda og ganga vel um eign sína.

Tröppur, sem séu við stigapall við inngang að Bugðulæk 17 og inn á pall bílskúrsins, hafi verið steyptar við byggingu hans. Handrið hafi verið við brún alls þaks bílskúrsins frá þeim tíma og það svæði nýtt af íbúum. Hafi það mátt vera augljóst þegar íbúar að Rauðalæk 18 fjárfestu í sínum eignum. Þá megi finna þess dæmi í hverfinu að handrið séu á þökum bílskúra.

       

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 3. maí 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 að samþykkja endurnýjun á handriði á þaki bílskúrs að Bugðulæk 17. Á samþykktum uppdráttum segir svo: „Við endurnýjun er settur þakdúkur á steypta þakplötu og timburpallur yfir dúk. Nýtt svalahandrið verður timburgrind með lóðréttri borðaklæðningu á báðum hliðum. Hæð handriðs verður 110 cm frá timburpalli.“ Einskorðast athugun úrskurðarnefndarinnar við lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Byggingarfulltrúa er hins vegar að lögum falið að hafa eftirlit með byggingarframkvæmdum og grípa til viðeigandi aðgerða, t.d. ef byggt hefur verið á annan hátt en leyfi stendur til, frágangi eða viðhaldi húss er ábótavant, af því stafi hætta eða ekki hafi verið gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu.

Aðila máls greinir ekki á um að byggingarnefndarteikningar að umræddum bílskúr frá árinu 1964 sýna ekki handrið ofan á honum. Hins vegar kemur fram í gögnum málsins að líklegt sé að handrið hafi verið á þaki bílskúrsins um langt skeið og rennir skoðun úrskurðarnefndarinnar á vettvangi stoðum undir það. Sama á við um steyptar tröppur upp á þak skúrsins. Þrátt fyrir að gögn málsins beri ekki með sér frá hvaða tíma nefnt þak hafi verið nýtt sem svalir má ætla að sá möguleiki hafi verið fyrir hendi í áratugi. Er ekki um það deilt að leyfi byggingarfulltrúa hefur ekki verið fyrir hendi fyrir slíkri nýtingu, en hún virðist hafa átt sér stað án athugasemda borgaryfirvalda. Í framlagðri umsókn er ekki sótt um leyfi til að nýta umrætt svæði sem svalir, en ljóst er þó að með því að heimila hið umdeilda handrið skapast aðstaða til að nýta þakið til útivistar.

Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og var byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndarkynningu. Kom kærandi að athugasemdum af því tilefni. Við yfirferð málsins hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru ekki gerðar athugasemdir vegna hugsanlegrar eldhættu. Þá voru við meðferð málsins gerðar þær breytingar frá fyrri erindum að í stað þess að handrið á þaki nefnds bílskúrs lægi að mörkum lóðar kæranda var það fært innar á þak bílskúrsins, eða um 1,5 m frá lóðamörkum. Er greind breyting til þess fallin að draga úr mögulegum grenndaráhrifum gagnvart kæranda. Verður hvorki séð að umrætt handrið muni auka skuggavarp í garði kæranda né að innsýn muni aukast að marki þegar litið er til staðsetningar útidyra og glugga á húsi leyfishafa, sem snúa að garðinum. Þá verður að líta til þess að almennt má búast við að eitthvert ónæði hljótist af því að búa í þéttbýli og er sú skerðing á friðhelgi einkalífs kæranda sem hann hefur haldið fram ekki umfram það sem búast má við í þéttri byggð.

Þrátt fyrir að nýting þakflatar bílskúrs undir svalir sé óhefðbundin og geti eftir atvikum haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna hljóðvistar og yfirsýnar yfir á næstu lóðir, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að grenndaráhrif í máli þessu, eins og að framan er lýst, séu ekki slík að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Eins og atvikum er hér sérstaklega háttað, og þar sem ekki verður séð að neinir þeir aðrir form- eða efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði, verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 um að samþykkja leyfi til að endurnýja handrið á þaki bílskúrs á lóðinni nr. 17 við Bugðulæk í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

106/2014 Austurbrún

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. október 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás, vegna lóðar nr. 6 við Austurbrún.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Austurbrúnar 14 þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. október 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás, vegna lóðar nr. 6 við Austurbrún.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. desember 2014, er barst nefndinni 15. s.m., kæra 49 íbúar við Austurbrún og Vesturbrún sömu ákvörðun. Gera allir kærendur þá kröfu að ákvörðun borgarráðs verði felld úr gildi. Þar sem kærurnar lúta báðar að sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 126/2014, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 17. október 2014 og 13. janúar 2015.

Málavextir: Hinn 2. apríl 2014 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur samþykkt að auglýsa framlagða tillögu um breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás. Í tillögunni fólst breyting á afmörkun deiliskipulagsreitsins og aukning á byggingarmagni lóðarinnar nr. 6 við Austurbrún. Var gert ráð fyrir nýjum byggingarreit á lóðinni fyrir sambýli með sex íbúðum fyrir fjölfatlaða. Á sama fundi var samþykkt að upplýsa íbúa í nágrenninu sérstaklega um auglýsinguna. Var dreifibréfi, dags. 30. apríl 2014, dreift til íbúa þar sem vakin var athygli á umræddri auglýsingu og fresti til að skila inn athugasemdum. Tillagan var auglýst í fjölmiðlum frá 5. maí  til 16. júní 2014. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum, og var öllum athugasemdum svarað af skipulagsfulltrúa með bréfi, dags. 27. júlí s.á. Að lokinni kynningu var erindið tekið fyrir að nýju og samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 24. september s.á. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 2. október 2014. Tók skipulagsbreytingin gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m.
 
Málsrök kærenda: Kærendur telja að ekki hafi verið heimilt að fara með breytingu á skipulagi vegna lóðarinnar að Austurbrún 6 líkt og um breytingu á deiliskipulagi Laugaráss væri að ræða, þar sem greint skipulag taki ekki til lóðarinnar. Ekki sé hægt að breyta deiliskipulagi svæðis sem aldrei hafi verið deiliskipulagt. Breyting á deiliskipulagi eigi að taka til lóðar eða svæðis innan deiliskipulagssvæðis en ekki utan þess. Í aðalskipulagi sé svæðið skilgreint sem fastmótuð byggð og hafi íbúar því mátt treysta því að ekki kæmi umfangsmikil nýbygging á skipulagssvæðið. Ef gerðar séu breytingar á fullbyggðu og fastmótuðu hverfi þurfi að standa til þess ríkar málefnalegar ástæður. Hin kærða skipulagsbreyting muni hafa áhrif á alla heildarmynd hverfisins, þrengja mjög að og takmarka útsýni.

Að auki samræmist fjöldi bílastæða ekki stefnu aðalskipulags um bílastæði. Ákvæði um fjölda bílastæða hafi lengi verið bundin í skipulags- og byggingarreglugerðum og verði að miða við að a.m.k. eitt stæði eigi að fylgja hverri íbúð auk stæða fyrir fatlaða. Í húsi því sem fyrir sé á umræddri lóð séu 72 íbúðir en 40 bílastæði og sé augljóst að ekki hafi verið farið eftir greindum reglum. Nú þegar sé mikill bílastæðaskortur á lóðinni nr. 6 við Austurbrún og megi gera ráð fyrir að starfsfólk og gestir í nýju sambýli muni nýta sér gestastæði við Austurbrún 8-14. Einnig sé bent á að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé nú 0,7, sem sé yfir nýtingarhlutfalli lóða í nágrenninu. Sé frekari nýting á lóðinni fordæmisgefandi en með fyrirhugaðri breytingu hækki nýtingarhlutfall í 0,81.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagins er ekki fallist á að ólögmætt hafi verið að breyta deiliskipulagi með því að stækka skipulagssvæðið um eina lóð þótt æskilegra hefði verið að deiliskipuleggja reitinn Vesturbrún og Austurbrún í heild sinni. Umrædd lóð liggi alveg að mörkum deiliskipulagsvæðisins og allar meginforsendur liggi fyrir í aðalskipulagi.

Í nýlegu aðalskipulagi sé m.a. lögð áhersla á þéttingu byggðar. Hin kærða skipulagsbreyting sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag. Að auki sé á það bent að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum, eftir því sem ákveðið sé í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Helstu málefnalegu ástæður fyrir hinni kærðu skipulagsbreytingu megi finna í stefnumörkun um þéttingu byggðar í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og bent sé á að mikill skortur sé á húsnæði fyrir hreyfihamlaða einstaklinga í borginni. Með heimilaðri byggingu sé verið að koma til móts við þarfir þessa hóps með framboði á sérhönnuðu húsnæði í gróinni íbúðarbyggð, með lágmarks tilkostnaði, þar sem öll grunnþjónusta sé fyrir hendi. Með þessu sé verið að gæta almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna. 

Heildarmynd hverfisins muni ekki skerðast og sé lögð áhersla á að fyrirhuguð bygging taki mið af aðliggjandi byggingum. Ekki liggi fyrir endanleg útfærsla byggingarinnar heldur sé skýringarmynd með umræddri breytingartillögu aðeins til viðmiðunar. Heildarfjöldi bílastæða á lóðinni fari úr 44 í 49. Um sé að ræða sambýli fyrir fjölfatlaða einstaklinga sem aki almennt ekki bíl og séu því háðir akstursþjónustu. Enn fremur sé bent á að íbúar og gestir að Austurbrún 6 hafi aðgang að bílastæðum meðfram Austurbrún til jafns við aðra íbúa í hverfinu. Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé nú 0,7 en meðalnýtingarhlutfall lóða á öllu svæðinu sé 0,6.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi skírskotar til þess að reynslan sýni að bílastæði við húsið að Austurbrún 6 séu vannýtt. Bendi mælingar til þess að eitt bílastæði dugi fyrir hverja fjórar íbúðir. Samkvæmt því dugi 17 bílastæði fyrir 71 íbúð. Sé fullyrðingu kærenda um bílastæðaskort því hafnað.

Það hafi í för með sér jákvæð samlegðaráhrif að reka fleiri en eina húseign á samliggjandi lóðum. Eigi það m.a. við um viðhald lóða, bílastæða, eftirlit og viðhald með húsum. Jafnframt sé bent á að undanfarin ár hafi það verið haft að leiðarljósi að dreifa og blanda félagslegu húsnæði sem mest um ólík hverfi borgarinnar.

Niðurstaða: Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting felur í sér að deiliskipulagssvæði reits 1.381, Laugarás, er stækkað um eina lóð, þ.e. lóðina nr. 6 við Austurbrún. Á þeirri lóð er gert ráð fyrir nýjum byggingarreit, þar sem fyrirhuguð er bygging sambýlis með sex íbúðum fyrir fjölfatlaða einstaklinga. Húsið verði að hámarki 600 m2 og nýtingarhlutfall hækki úr 0,7 í 0,8. Að auki er gert ráð fyrir sjö bílastæðum, þar af fjórum fyrir hreyfihamlaða. 

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru í deiliskipulagi teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðamynstur. Deiliskipulag skal gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal það að jafnaði taka til svæða sem mynda heildstæða einingu, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Segir síðan í 1. mgr. 43. gr. laganna að sveitarstjórn sé heimilt að gera breytingar á deiliskipulagi telji hún þess þörf. Hin kærða skipulagsbreyting felur m.a. í sér að ódeiliskipulagðri lóð er aukið við svæðið sem gildandi deiliskipulag tekur til. Í greinargerð frumvarps þess er varð að núgildandi skipulagslögum er tekið fram að með því að miða við að deiliskipulag taki til svæða sem mynda heildstæða einingu sé ætlunin að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir. Hins vegar er hvorki að finna í lögum né reglugerðum bann eða takmarkanir á því að stækka svæði gildandi deiliskipulags, líkt og felst í hinni kærðu ákvörðun.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarsvæði ÍB24, Laugarás. Er því lýst sem fullbyggðu og fastmótuðu svæði og að yfirbragð byggðarinnar sé nokkuð fjölbreytt bæði í húsagerð og byggingarstíl. Meðal helstu markmiða aðalskipulagsins er þétting byggðar og verði a.m.k. 90 % nýrra íbúða innan núverandi þéttbýlismarka. Þá sé markmiðið að auka fjölbreytni og blöndun innan núverandi miðkjarna og auka almennt nálægð íbúða og vinnustaða, eins og unnt sé. Jafnframt er tekið fram að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum, eftir því sem ákveðið sé í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Að framangreindu virtu verður ekki annað séð en að hin kærða skipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna, um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana, sé jafnframt fullnægt. 

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Var tillagan kynnt nágrönnum á svæðinu, hún síðan auglýst, athugasemdum svarað, samþykkt tillaga send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er heimilað að byggja einlyft hús að hámarki 600 m2 fyrir sambýli sex fjölfatlaðra einstaklinga. Á sömu lóð er þegar fyrir 13 hæða fjöleignarhús. Umrætt svæði einkennist af fjölbreyttum húsagerðum og er þar m.a. að finna einbýlishús og háreist fjölbýlishús. Í því ljósi verður ekki séð að umdeilt hús breyti nokkru um yfirbragð núverandi byggðar. Málefnalegar ástæður liggja að baki umræddri skipulagsbreytingu, en með henni er að því stefnt að bregðast við húsnæðisskorti fyrir tiltekinn þjóðfélagshóp og auka hagkvæmni í rekstri með samnýtingu þjónustu sem þegar er fyrir hendi í húsi því sem fyrir er á títtnefndri lóð.

Ekki er í núgildandi lögum eða reglugerðum á sviði skipulags- og byggingarmála kveðið á um  lágmarksfjölda almennra bílastæða á lóð, en þar sem eru 5-12 íbúðir eru á lóð þurfa að vera tvö stæði fyrir hreyfihamlaða sbr. gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Er framangreindu skilyrði um lágmarksfjölda stæða fyrir hreyfihamlaða fullnægt í umdeildri skipulagsbreytingu. Jafnframt er tekið fram í b-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að í deiliskipulagi skuli hverju sinni setja skilmála um fjölda bílastæða. Í umræddri skipulagsbreytingu er tilgreindur fjöldi almennra stæða, sem og fjöldi stæða fyrir hreyfihamlaða, og samræmist hún því greindu ákvæði skipulagsreglugerðarinnar.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða skipulagsbreyting sé haldin þeim annmörkum sem raskað geti gildi hennar og verður kröfu um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 2. október 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás, vegna lóðar nr. 6 við Austurbrún.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

123/2014 Skipasund

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 123/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Skipasundi 43 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2014, er barst nefndinni 4. desember s.á., kærir Á, Skipasundi 41, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 að veita m.a. leyfi til að byggja svalir og stiga niður í garð og færa til kofa við hús á lóð nr. 43 við Skipasund í Reykjavík. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að farið sé fram á ógildingu greindrar ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. janúar 2014.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. júlí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja svalir með tröppum niður í garð við húsið að Skipasundi 43, breyta staðsetningu kofa og færa innkeyrslu og byggingarreit fyrir bílskúr á lóðinni. Var erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem samþykkti á fundi sínum 11. s.m. að grenndarkynna umsóknina. Eftir grenndarkynninguna var málið á dagskrá skipulagsfulltrúa, sem vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs á fundi hinn 5. september 2014. Umhverfis- og skipulagsráð tók málið fyrir á fundi sínum 10. s.m. Á fundinum lá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 4. s.m. þar sem fram komnum athugasemdum var svarað og mælt með því að umsóknin yrði samþykkt með tilgreindum skilyrðum. Engar athugasemdir komu fram á fundinum við umsögnina og var vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa, sem samþykkti umsóttar breytingar á fundi hinn 16. september 2014.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að útfærsla svala með stiga niður í garð, sem heimiluð sé með hinni kærðu ákvörðun, geri það að verkum að þaðan sé horft beint inn í stofu og sólstofu kæranda. Viðbygging við hús kæranda hafi verið hönnuð með stórum gluggum til austurs þar sem ekki hefði verið um innsýn að ræða, en með tilkomu nefndra svala og stiga yrði staðan önnur. Kærandi hafi ekki mótmælt þessum framkvæmdum enda talið einfalt að hindra þessi áhrif með útfærslu mannvirkisins og hækkun skjólveggjar upp í 1,5 m. Raunin hafi hins vegar orðið sú að horft sé frá svölunum og stiganum inn í stofu og sólstofu kæranda. Óbreytt ástand muni verða kæranda til ama og leiða til þess að fasteign hans falli í verði. Loks sé farið fram á að smáhýsi sem standi of nálægt umræddum lóðamörkum verði fært til samræmis við ákvörðun byggingarfulltrúa og ákvæði byggingarreglugerðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að að tekið hafi verið tillit til fram kominna athugasemda kæranda við grenndarkynningu fyrirhugaðra breytinga að Skipasundi 43. Sá hluti skjólveggjar er snúi að fasteign kæranda hafi verið hækkaður í 1,5 m í þeim tilgangi að takmarka innsýn í stofu og borðstofu kæranda. Ekki verði talið að mannvirkið hafi slíka röskun í för með sér gagnvart kæranda að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi  en um 12 m séu milli umræddra svala og húss kæranda. Heimilaðar svalir hafi ekki meiri grenndaráhrif en að jafnaði megi búast við þegar breytingar séu gerðar á húsum í þéttbýli. Skúr sá sem standi á nefndri lóð sé innan við 10 m2 að stærð og sé ekki byggingarleyfisskyldur. Skúrinn beri þó að staðsetja minnst þrjá metra frá lóðamörkum samkvæmt byggingarreglugerð.

Andmæli byggingarleyfishafa: Skírskotað er til þess að framkvæmdir eins lóðarhafa geti ekki takmarkað eða komið í veg fyrir framkvæmdir á nærliggjandi lóðum. Hinar kærðu breytingar séu óverulegar í samanburði við það sem samþykkt hafi verið á lóð kæranda. Vegna athugasemda kæranda hafi byggingarleyfishafi orðið við tilmælum skipulags- og byggingarsviðs um að hækka hluta skjólveggjar, sem snúi að lóð kæranda, í 1,5 m í þeim tilgangi að takmarka beina sýn inn um stofuglugga á húsi kæranda. Sú hlið húss kæranda sem snúi að lóð byggingarleyfishafa sé með glugga er nái frá gólfi til lofts og blasi sú hlið hússins við frá lóð leyfishafa án tillits til umdeildra framkvæmda. Bent sé á að uppbyggð verönd sé á húsi kæranda með sýn yfir á lóð leyfishafa. Smáhýsi á lóð leyfishafa verði fært þrjá metra frá lóðamörkum, í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, og til að jafnræðis verði gætt sé farið fram á það að íverustaður sem kærandi hafi komið fyrir við lóðarmörk leyfishafa verði færður.

Niðurstaða:  Smáhýsi það sem kemur við sögu í máli þessu er ekki byggingarleyfisskylt, sbr. g-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hins vegar verður samkvæmt nefndu ákvæði að liggja fyrir samþykki rétthafa aðliggjandi lóðar fyrir stöðu slíks húss innan þriggja metra frá lóðamörkum. Kærandi hefur lýst sig samþykkan staðsetningu hússins eins og hún er sýnd á fyrirliggjandi uppdrætti, sem staðfestur hefur verið af byggingarfulltrúa, og leyfishafi hefur lýst því yfir að húsið verði ekki staðsett nær lóðarmörkum kæranda en í þriggja metra fjarlægð. Með hliðsjón af þessum málsatvikum, og þar sem ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun varðandi staðsetningu smáhýsisins sem borin verður undir úrskurðarnefndina skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, verður ekki fjallað frekar um þann þátt málsins.

Ágreiningsefni máls þessa lýtur fyrst og fremst að hönnun svala við hús byggingarleyfishafa að Skipasundi 43, sem kærandi telur að muni hafa óæskileg grenndaráhrif gagnvart sinni fasteign að Skipasundi 41 vegna innsýnar.

Húsið að Skipasundi 43 er kjallari, hæð og ris. Samkvæmt fyrirliggjandi uppdráttum eru umræddar svalir 13,6 m2 að flatarmáli og nemur gólfflötur þeirra við gólf fyrstu hæðar hússins, og er í um 2,3 m hæð frá lóðaryfirborði. Snýr skammhlið svalanna, sem er um 2,4 m að breidd, að lóð kæranda og er skjólveggur á þeirri hlið 1,5 m á hæð, en 1,1 m á öðrum hliðum svalanna. Svalirnar og stigi frá þeim niður á lóð eru úr timbri og munu vera í um 12 m fjarlægð frá húsi kæranda. Á árinu 2004 var heimiluð rúmlega 100 m2 viðbygging við hús kæranda, sem liggur í átt að lóðamörkum umræddra lóða. Er hús kæranda nú 181,1 m2 en hús byggingarleyfishafa 144,9 m2. Báðar lóðir eru jafn stórar, eða 549 m2 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár. Nýtingarhlutfall lóðar kæranda er því mun hærra en lóðar byggingarleyfishafa. Fyrrgreindar svalir eru ekki óvenjulegar að gerð og hafa ekki meiri grenndaráhrif en almennt má búast við að fylgi svölum við sambærileg hús. Liggur fyrir að skjólveggur sem snýr að lóð kæranda var hækkaður til að draga úr innsýn í hús kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin slíkum  ágöllum að leitt geti til ógildingu hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að veita m.a. leyfi til að byggja svalir og stiga niður í garð og færa til kofa við hús á lóð nr. 43 við Skipasund í Reykjavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

101/2014 Markavegur

Með
Árið 2016, mánudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kjóavalla, hesthúsabyggð, fyrir lóðirnar nr. 2, 3 og 4 við Markaveg í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. september 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra lóðarhafar Markavegar 1, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kjóavalla, hesthúsabyggð, vegna lóðanna nr. 2, 3 og 4 að Markavegi. Er krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar en að auki var farið fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir á nefndum lóðum yrðu stöðvaðar. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 12. nóvember 2014, var kröfu um stöðvun framkvæmda hafnað.

Gögn málsins og greinargerð bárust frá Kópavogsbæ 9. og 22. október 2014.

Málavextir: Kærendur eru lóðarhafar Markavegar nr. 1, en á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Kjóavalla, hesthúsabyggð. Á fundi skipulagsnefndar 15. apríl 2014 var lagt fram erindi lóðarhafa Markavegar nr. 2-3 og nr. 4 þar sem þess var óskað, samkvæmt bókun, að lóðin að Markavegi nr. 4 yrði stækkuð um 5 m og lóð Markavegar nr. 2-3 minnkuð sem því næmi. Þá yrði hæðarkóti lóðar nr. 4 hækkaður um 20 cm og breiddin aukin um 0,25 m. Samþykkt var að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir lóðarhöfum Markavegar 1 og Heimsenda 4, 6 og 8. Tillagan var kynnt með bréfum, dags. 15. maí s.á., og veittur frestur til að koma að athugasemdum til 19. júní 2014.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var ekki staðfest af bæjarstjórn fyrr en 27. maí 2014 og var þá ákveðið að grenndarkynna tillöguna að nýju. Á uppdrætti sem fylgdi tilkynningu um grenndarkynningu, dags. 28. s.m., sagði eftirfarandi: „Í breytingunni felst að lóðin að Markavegi nr. 2-3 minnkar um 5 metra og heitir Markavegur nr. 2 eftir breytingu. Aðkomukóti byggingarreits hækkar úr 101,1 í 101,7 miðað við gildandi hæðarblað og byggingarreitur stækkar til suðurs um 0,25 metra. Við stækkun byggingarreits hækkar mænishæð um 0,13 m og hækkar því byggingarreitur alls um 0,73 metra. Lóðin að Markavegi nr. 4 stækkar um 5 metra til vesturs og heitir Markavegur nr. 3-4 eftir breytingu. Við breytingu minnkar lóð nr. 2 um 5 metra. Aðkomukóti og mænishæð byggingarreits á nýju lóðinni að Markavegi nr. 3-4 hækkar um 0,2 metra. Byggingareitur hesthúss á Markavegi nr. 3-4 stækkar um 5 metra til vesturs.“ Að öðru leyti var vísað í samþykkt deiliskipulag fyrir Kjóavelli, hesthúsabyggð. Veittur var frestur til 1. júlí 2014 til að koma að athugasemdum við tillöguna, sem kærendur og gerðu.

Hinn 28. júlí 2014 var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar. Lögð var fram breytt tillaga, dags. 25. s.m., ásamt greinargerð. Í bókun nefndarinnar um erindið sagði m.a.: „Í tillögunni er fallið frá kynntum breytingum að Markavegi 2 (aðliggjandi lóð við Markaveg 1) að öðru leyti en því að lóðin er stækkuð til austurs þ.e. frá Markavegi 1 og verður liðlega 1000 m² að flatarmáli í stað 675 m². Fyrirhugað hús að Markavegi 3 sem samkvæmt gildandi deiliskipulagi er áfast Markavegi 2 færist austar og verður áfast fyrirhuguðu húsi að Markavegi 4. Fallið er frá kynntri tillögu að hækkun hæðarkóta Markavegar 2 svo [og] breikkun hússins.“

Samþykkti skipulagsnefnd framlagða tillögu, að fenginni umsögn frá lögfræðideild Kópavogs, þar sem komið væri til móts við athugasemdir er borist höfðu á kynningartíma um hæðarkóta og byggingarreit Markavegar 2. Málinu var jafnframt vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 14. ágúst 2014 var greind afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest og tillagan samþykkt. Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að samkvæmt 4. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli gæta að því að í greinargerð deiliskipulags séu settir skipulagsskilmálar sem séu í samræmi við stefnu þess. Stækkun lóðarinnar að Markavegi 2 sé sýnd á uppdrætti deiliskipulagsins en ekki sé í greinargerð þess vikið að stækkun hennar í 1000 m² til austurs, líkt og gert hafi verið í samþykkt skipulagsnefndar 28. júlí 2014. Í greinargerð skipulagsins sé einnig getið breytinga á hæðarkótum og breidd að Markavegi 4 en svo sé ekki í fyrrgreindri samþykkt skipulagsnefndar. Einnig séu lóðir nr. 3 og 4 orðnar að einni í deiliskipulaginu en ekki sé minnst á slíkt í samþykktum skipulagsnefndar eða bæjarráðs. Ekki sé í greinargerð gætt samræmis við þær skipulagsbreytingar sem samþykktar hafi verið af bæjarráði. Hafi skipulagsfulltrúi, sem skrifi undir greinargerðina, ekki heimildir til að breyta samþykktu deiliskipulagi án samþykkis bæjarstjórnar endi beri hún ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga.

Falli umrædd breyting á lóðinni að Markavegi 2 undir 2. mgr. 43. gr. laganna, enda stækki lóðin um tæp 50% að flatarmáli. Hafi borið að grenndarkynna þá breytingu og hafi kærendur ekki fengið að setja fram sjónarmið sín vegna þessarar nýju breytingar á deiliskipulagi. Auk þess hafi þeim ekki verið tilkynnt um hana fyrr en búið hafi verið að samþykkja hana. Kærendur hafi sett fram fjölda athugasemda við tillögu að því breytta deiliskipulagi sem kynnt hafi verið í maí 2014 og hafi ekki verið tekið nægt tillit til þeirra.

Fyrirhugaðar breytingar muni valda kærendum töluverðu óhagræði svo sem vegna vatns- og snjósöfnunar. Hætta sé á að verðmæti fasteignarinnar lækki og nýtingarmöguleikar hennar takmarkist. Bendi deiliskipulagið til þess að hæðarkóti lóðarinnar Markavegur nr. 3-4 muni hækka á tvo vegu. Ekki sé mælt fyrir um hækkun á mænishæð húsanna heldur virðist aðeins vera átt við gólfkóta enda hefði átt að taka annað fram með skýrum hætti. Ef gólfkóti yrði lækkaður þyrftu kærendur að breyta teikningum sínum þannig að mænishæð hússins lækki um 20 cm til samræmis. Þá muni hækkun hesthúsanna að Markavegi 3 og 4 breyta útiliti, yfirbragði og samræmi hesthúsabyggðarinnar við Markaveg og brjóti það gegn 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Muni breikkun á húsi að Markavegi 3-4 úr 12 m í 12,5 m hafa sömu áhrif, en jafnframt geti hún haft fordæmisgildi í hverfinu, þar sem enn séu óbyggðar nokkrar lóðir. Óhagræði kærenda sé mun meira en þörf lóðarhafa að Markavegi 2, 3 og 4 af breytingunni en hvergi sé að finna rökstuðning fyrir þörf á hinni kærðu ákvörðun. Fari nefnd ákvörðun gegn eignarréttindum kærenda, sbr. 72. gr. stjórnarskrár og framkvæmd hennar gegn lögmætisreglu þar sem skilyrði ákvörðunar séu ekki uppfyllt.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær bendir á að heildarstærð lóðanna að Markavegi nr. 2, 3 og 4 sé hin sama nú og fyrir breytingu á deiliskipulagi, þ.e. 2.196 m². Lóð nr. 2 hafi verið 675 m², lóð nr. 3 hafi verið 513 m² og lóð nr. 4 hafi verið 1008 m². Eftir breytingu verði lóð nr. 2 1008 m², lóð nr. 3 verði 675 m² og lóð nr. 4 verði 513 m². Svo þessi breyting næði fram að ganga hafi þurft að breyta lóðamörkum.

Skýrt komi fram í greinargerð með grenndarkynntri tillögu að í breytingunni felist að lóð nr. 2-3 minnki um 5 m og heiti Markavegur nr. 2 eftir breytingu og að lóð nr. 4 stækki um 5 m og heiti Markavegur nr. 3-4 eftir breytingu. Breytinguna megi einnig sjá myndrænt. Í greinargerð með tillögunni sé fjallað um lóð nr. 2-3 sem eina heild og fram komi að lóðin minnki um samtals 5 m. Tekið sé fram í fundargerð skipulagsnefndar að lóð nr. 2 stækki til austurs. Hafa verði í huga að lóð nr. 3 minnki sem því nemi. Ekki sé um misræmi að ræða á milli upplýsinga í fundargerð skipulagsnefndar og í greinargerð með breytingum á deiliskipulagi heldur mis-munandi nálgun. Verði ekki séð að hin samþykkta breyting sé í ósamræmi við samþykkt bæjarráðs.

Breyting á umræddum lóðum hafi verið grenndarkynnt með bréfum, dags. 28. maí 2014. Þar komi skýrt fram í hverju breytingin felist. Hafi kærendur haft tækifæri til að tjá sig um breytingar á lóðunum. Í hækkun hæðarkóta felist að bæði gólfkóti og mænishæð hækki og hefði einungis verið um að ræða hækkun gólfkóta þá hefði slíkt komið fram í greinargerð. Um sé að ræða hækkun sem nemi 20 cm og breikkun sem nemi 25 cm. Hafi skipulagsyfirvöld metið það svo að framangreind stækkun væri það smávægileg að hún hefði í för með sér óveruleg grenndaráhrif.

Athugasemdir lóðarhafa Markavegar 2-3 og 4: Lóðarhafa var tilkynnt um framkomna kæru en hefur ekki látið málið til sín taka.

Athugasemdir kærenda við málsrökum Kópavogsbæjar: Kærendur taka fram að grenndarkynning skv. bréfi, dags. 28. maí 2014, fjalli ekki um þá breytingu á deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið af bæjarráði 14. ágúst 2014. Hafi sú breyting verið ný breyting á deiliskipulagi og því hafi borið að viðhafa nýja grenndarkynningu. Vísað sé til markmiðsákvæða skipulagslaga en ljóst sé að það færi gegn markmiðum og ákvæðum þeirra laga ef bæjaryfirvöld, í kjölfar mótmæla við kynningu á deiliskipulagi, gætu sett fram breytta tillögu að deiliskipulagi og komist hjá því að leita samráðs við borgarana með grenndarkynningu á hinni nýju tillögu.

Ekki sé fallist á að um mismunandi nálgun sé að ræða í fundargerð skipulagsnefndar og greinargerð með breytingu á deiliskipulagi, enda um augljóst misræmi að ræða. Verði bæjaryfirvöld að bera ábyrgð á skýrleika gagna og geti ekki látið almenning bera hallan af misræmi. Fyrir liggi lögregluskýrsla er sýni afdráttarlaust hve mikil vatns- og snjósöfnun sé á svæðinu og þá einkum við Markaveg 1. Þannig sé augljóst að umræddar breytingar á nærliggjandi lóðum geti leitt til þess að ástandið versni til muna, kærendum til tjóns. Þá er áréttað að breytingar geti haft fordæmisgildi og brjóti gegn jafnræðisreglu. Loks sé bent á skylda til að sýna fram á nauðsyn breytinganna leiði af 5.9.2. gr. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

—–

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en tekið hefur verið tillit til við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar vegna lóðanna nr. 2 og nr. 3-4 við Markaveg. Fól breytingin í sér að lóðin Markavegur nr. 2-3 yrði nr. 2 og hún jafnframt minnkuð um 5 m og að lóð nr. 4 við Markaveg stækkaði sem því næmi og yrði nr. 3-4. Þá yrði hæðarkóti þeirrar lóðar 20 cm hærri og breidd byggingarreits aukin um 25 cm.

Sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hið sama á við um breytingar á deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Í deiliskipulagi eru skv. 1. mgr. 37. gr. sömu laga teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðamynstur. Hafa kærendur ekki einstaklingsbundna hagsmuni tengda ásýnd og heildaryfirbragði skipulagssvæðisins, svo sem þeir hafa haldið fram, enda verður að telja slíkt til almannahagsmuna sem skipulagsyfirvöld gæta.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi umræddra lóða var grenndarkynnt með vísan til 43. gr. skipulagslaga sem heimilar að grenndarkynna óverulegar breytingar á samþykktu deiliskipulagi. Bárust athugasemdir frá kærendum á kynningartíma og var tillögunni breytt í kjölfar þess. Var tillagan þannig breytt lögð fyrir á fundi skipulagsnefndar 28. júlí 2014. Samþykki nefndin hina framlögðu tillögu að fenginni umsögn lögfræðideildar og staðfesti bæjarráð greinda afgreiðslu 14. ágúst s.á. Með vísan til þess sem að framan er rakið um breytinguna verður hún að teljast óveruleg í skilningi ákvæðisins og verður ekki séð, eins og atvikum er hér háttað, að hún sé til þess fallin að hafa fordæmisgildi eða með hvaða hætti hún geti falið í sér brot gegn jafnræði lóðarhafa á svæðinu.

Í greinargerð kynntra tillögu, dags. 28. maí 2014, kemur fram að lóðin að Markavegi nr. 2-3 minnki um 5 m og heiti Markavegur 2 eftir breytingu. Jafnframt er sýnt á skipulagsuppdrætti að lóðin nr. 2 sé 1008 m² samkvæmt tillögu að breyttu deiliskipulagi. Er tillaga sú er lögð var fram á fundi skipulagsnefndar 28. júní s.á. samhljóða kynntri tillögu að þessu leyti og stærð lóðarinnar sýnd á skipulagsuppdrætti. Liggur ekki annað fyrir en að greind tillaga hafi jafnframt legið fyrir við samþykkt bæjarráðs. Verður að telja að téðar tillögur beri með sér að lóðin að Markavegi nr. 2 muni verða 1008 m² eftir breytingu deiliskipulags. Jafnframt að lóðir nr. 3 og 4 við Markaveg yrðu sameinaðar og gert væri ráð fyrir því að gerðar yrðu breytingar á hæðarkótum og breidd byggingarreits lóðarinnar Markavegi 4. Að framangreindu virtu er ljóst að allt frá kynningu tillögunnar var gert ráð fyrir að eftir stækkun lóðarinnar að Markavegi 2 yrði hún 1008 m² og var því ekki þörf á að kynna stækkunina að nýju. Þá er ljóst að ekki var gerð breyting á efni deiliskipulagsins frá kynntri og samþykktri tillögu að því undanskyldu að fallið var frá breytingum á hæðarkóta og byggingarreit lóðarinnar Markavegar nr. 2, svo sem lýst er í samþykkt skipulagsnefndar 28. júlí 2014 og rakið er í málavaxtalýsingu.

Í 4. mgr. 37. gr. skipulagslaga kemur m.a. fram að á skipulagsuppdrætti deiliskipulags skuli setja fram þá stefnu sem kynnt sé í skipulagsgreinargerð fyrir skipulagssvæðið að svo miklu leyti sem það geti átt við. Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar er tilgreint að á lóðinni Markavegi 4 verði hæðarkóti hækkaður og hver breidd verði, án þess að tilgreina nánar breidd hvers. Eigi að síður er það mat úrskurðarnefndarinnar að efni deiliskipulagsins hafi legið fyrir með nægilega skýrum hætti og áskilnaði tilvitnaðs ákvæðis um framsetningu verið fullnægt, enda ljóst af skipulagsuppdrættinum að um breidd byggingarreits væri að ræða.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað, enda verður ekki séð að þeir annmarkar séu fyrir hendi er leitt geti til ógildingar hennar.

Rétt er að benda á að sé sýnt fram á að gildistaka skipulags valdi tjóni geta kærendur eftir atvikum leitað réttar síns og krafist skaðabóta í samræmi við 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kjóavalla, hesthúsabyggð, fyrir lóðirnar nr. 2, 3 og 4 við Markaveg í Kópavogi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson
 

110/2013 Reykjanes Grímsnes- Grafningshreppi

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 12. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. september 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykjaness vegna garðyrkjubýlisins Reykjalundar í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. nóvember 2013, er barst nefndinni 15. s.m., kæra tveir eigenda jarðarinnar Reykjaness, Grímsnes- og Grafningshreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. september 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykjaness vegna garðyrkjubýlisins Reykjalundar í Grímsnes- og Grafningshreppi. Skilja verður málskot kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu 20. janúar 2014 og 5. nóvember 2015.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 12. ágúst 2010 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Reykjalundar í Grímsnesi. Í fundarbókun nefndarinnar kemur fram að á landinu sé lögbýlisréttur og til standi að reka þar garðyrkjubýli. Skipulagssvæðið sem breytingin nái til sé 8 ha og gert sé ráð fyrir tveimur íbúðarhúsum, einu stöku gróðurhúsi og fjórum sambyggðum. Auk þess verði byggt við gamalt íbúðarhús sem fyrir sé á svæðinu. Var afgreiðslu málsins frestað.

Tillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26. maí 2011 og samþykkt að auglýsa hana skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps staðfesti þá afgreiðslu 1. júní s.á. Tillagan var auglýst 30. júní 2011, með athugasemdafresti til 12. ágúst s.á., og bárust athugasemdir frá kærendum.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22. nóvember 2012 var lögð fram að nýju tillaga að breytingu á deiliskipulagi Reykjalundar. Í bókun fundarins kom fram að deiliskipulagsbreytingin hefði aldrei öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda og þar sem meira en ár væri liðið frá auglýsingu tillögunnar væri hún lögð fram að nýju. Mælti nefndin með því að sveitarstjórn samþykkti að tillagan yrði auglýst að nýju skv. 41. gr. skipulagslaga og samþykkti sveitarstjórnin hinn 5. desember s.á. að auglýsa tillöguna.

Tillagan var auglýst öðru sinni frá 13. desember 2012 til 25. janúar 2013 og bárust athugasemdir frá kærendum. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 28. febrúar s.á. var tillagan tekin fyrir og mælti nefndin með því að sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagsbreytinguna óbreytta. Var skipulagsfulltrúa falið að útbúa umsögn um fram komnar athugasemdir sem liggja þyrfti fyrir við afgreiðslu sveitarstjórnar. Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi 6. mars 2013 auk tillögu að umsögn um innsendar athugasemdir. Var skipulagsfulltrúa falið að senda málið til afgreiðslu Skipulagsstofnunar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.

Deiliskipulagsbreytingin, ásamt athugasemdum kærenda og umsögn um þær, var send Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 3. apríl 2013. Með bréfi, dags. 22. s.m., gerði stofnunin athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Bent var á að fyrir lægi deiliskipulag Reykjaness sem samþykkt hefði verið í sveitarstjórn 20. september 2000. Þar væri frístundabyggð deiliskipulögð og sett fram á þremur uppdráttum, fyrir lóðir nr. 1-5, 6-10 og 11-14, ásamt yfirlitsmynd. Deiliskipulagsbreytingin varðaði þann hluta svæðisins sem tæki til lóða nr. 1-5, en í henni fælist afmörkun svæðis sem næði yfir lóð nr. 1, ásamt stækkun lóðarinnar. Umrætt deiliskipulagssvæði frístundabyggðarinnar væri hins vegar á landbúnaðarsvæði samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Þá væri svæðið á náttúruminjaskrá. Fyrir lægi umsögn Fornleifaverndar ríkisins, dags. 29. júlí 2011.

Skipulagsstofnun benti og á óljósa stöðu þeirrar lóðar sem breytingin ætti við, aðliggjandi lóðar og annarra lóða frístundabyggðarinnar. Deiliskipulag frístundabyggðarinnar væri ekki lengur í samræmi við gildandi aðalskipulag, en þegar hefði verið byggt samkvæmt því á einhverjum lóðanna. Afstaða og stefna sveitarstjórnar um hvernig fara ætti með þann hluta deiliskipulagsins sem þegar hefði verið byggt eftir lægi ekki fyrir eða hvernig ætti að fara með þær lóðir sem óframkvæmanlegt væri að halda áfram uppbyggingu á vegna ósamræmis við aðalskipulagið. Enn fremur væru réttindi óljós varðandi aðkomu að garðyrkjubýlinu um lóð þá sem væri nr. 3 í deiliskipulagi frístundabyggðarinnar, en aðkoma að lóð nr. 1 hefði áður verið á milli lóða nr. 2 og 3. Þá vantaði umsagnir Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlitsins og athuga þyrfti og lagfæra, eftir því sem við ætti, umfjöllun í greinargerð um stefnu aðalskipulags og niðurstöður fornleifaskráningar, sbr. niðurstöðu í umsögn frá 29. júlí 2011. Breytingardagsetningu þyrfti einnig að bæta við uppdrátt.

Málið var tekið fyrir á ný í skipulagsnefnd 22. ágúst 2013. Í fundargerð þess fundar var m.a. bókað: „Nefndin mælir með að sveitarstjórn feli skipulagsfulltrúa að birta auglýsingu um gildistöku deiliskipulags í b-deild Stjórnartíðinda þar sem deiliskipulagsbreytingin er í samræmi við gildandi aðalskipulag svæðisins. Ekki er talið að réttindi varðandi aðkomu að landinu séu óljós þar sem hún er óbreytt og utan annarra lóða. Ekki er rétt það sem kemur fram í bréfi Skipulagsstofnunar að aðkoma að lóðinni hafi áður verið á milli lóða 2 og 3. Varðandi stöðu annarra lóða innan skipulagssvæðisins að þá mælir nefndin með að sveitarstjórn samþykki að gera breytingu á aðalskipulagi svæðisins sem nær yfir aðrar lóðir á þann veg að skilgreina svæðið aftur sem frístundabyggð. Við endurskoðun aðalskipulagsins virðist hafa verið gerð þau mistök að svæði fyrir frístundabyggð hafi verið fellt út. Að mati nefndarinnar er um óverulega breytingu að ræða þar sem um mistök var að ræða sem verið er að leiðrétta til samræmis við gildandi aðalskipulag.“

Sveitarstjórn tók málið fyrir á fundi 2. september 2013 og bókaði þá eftirfarandi: „Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að birta auglýsingu um gildistöku breytingar á deiliskipulagi Reykjaness – Reykjalundar í B-deild Stjórnartíðinda. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins á þann veg að skilgreina svæði í landi Reykjaness sem svæði fyrir frístundabyggð til samræmis við gildandi deiliskipulag og á sama hátt og var í fyrra aðalskipulagi. Að mati nefndarinnar er breytingin óveruleg þar sem svo virðist sem mistök hafi átt sér stað við endurskoðun aðalskipulagsins.“

Skipulagsstofnun var tilkynnt um afgreiðslu skipulagsnefndar og sveitarstjórnar 7. október 2013 og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. s.m.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er byggt á því að þeir séu réttir eigendur að stærstum hluta þess lands sem um ræðir og mótmæla þeir því að deiliskipulagi á því landi verði breytt. Jörðin Reykjanes, og þær spildur sem teknar hafi verið út úr jörðinni með leigu- eða afsalssamningum, verði ekki skipulagðar án aðkomu kærenda sem séu þinglýstir eigendur jarðarinnar.

Leigulóðin Reykjalundur sé 15 ha landspilda úr landi Reykjaness í Grímsnesi og um hana gildi erfðafestusamningur, dags. 4. janúar 1939. Ágreiningur sé uppi um réttarstöðu erfðafestusamningsins og réttmæti aðgerða núverandi erfðafestuhafa. Á jörðinni hafi ekki verið sjálfstæð búseta eða búskapur auk þess sem engin leiga hafi verið greidd til landeigenda. Því telji kærendur að erfðafestusamningurinn sé riftanlegur á grundvelli brostinna forsendna.

Deiliskipulagsbreytingin geri ráð fyrir allt annarri nýtingu landsins en erfðafestusamningurinn segi til um. Þá hafi hún í för með sér að öll fjallasýn í norðaustur frá lögbýlinu Reykjanesi muni hverfa. Það sé óásættanlegt og feli í sér stórkostlega skerðingu á eignarrétti kærenda. Deiliskipulagsbreytingunni og fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum eigenda Reykjalundar í Grímsnesi sé alfarið mótmælt sem heimildarlausum og ólögmætum.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi ekki veruleg neikvæð áhrif á útsýni frá húsi á aðliggjandi lóð kærenda í landi Reykjaness, enda séu um 250-300 m frá húsinu að nýjum byggingarreit á norðurhluta Reykjalundar. Þá sé ekki hægt að lesa úr fyrirliggjandi erfðafestusamningi að eigendum/leigjendum Reykjalundar sé óheimilt að skipuleggja landið án samráðs við eigendur Reykjaness. Í 2. mgr. erfðafestusamningsins komi m.a. fram að landið sé leigt leigutaka til frjálsra afnota og hvers konar atvinnureksturs. Heimild til að byggja mannvirki megi einnig lesa úr 5. gr. samningsins þar sem fram komi að leiguréttindi að landinu skuli framvegis fylgja húsum þeim eða mannvirkjum, er leigutaki kunni að koma þar upp eða eiga þar á hverjum tíma.

Niðurstaða: Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst afmörkun svæðis, sem nær yfir lóð nr. 1 í fyrirliggjandi deiliskipulagi Reykjaness frá árinu 2000, ásamt stækkun lóðarinnar til austurs og norðurs, úr 1,3 ha í 8 ha.

Fram kemur í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar að til standi að reka á lóðinni garðyrkjubýli. Þá segir að samkvæmt aðalskipulagi sé skipulagssvæðið á skilgreindu frístundasvæði, en samhliða deiliskipulagsbreytingunni hafi verið sótt um breytingu á aðalskipulagi þannig að svæðið verði skilgreint til landbúnaðarnotkunar. Samkvæmt Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 er svæðið þó skilgreint til landbúnaðarnotkunar. Hins vegar gerir deiliskipulag Reykjaness, sem tók gildi 16. október 2001, ráð fyrir frístundabyggð á svæðinu, m.a. á lóð nr. 1 sem deiliskipulagsbreytingin nær til.

Samkvæmt framansögðu er umrætt skipulagssvæði skilgreint í gildandi aðalskipulagi sem landbúnaðarsvæði og samræmist deiliskipulagsbreytingin því aðalskipulaginu hvað landnotkun varðar. Hins vegar verður að telja annmarka á greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem fjallað er um stefnu aðalskipulags um landnotkun svæðisins, eins og fyrr er rakið. Sá annmarki þykir þó ekki þess eðlis að hann raski gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Athugasemdir Skipulagsstofnunar við efni deiliskipulagsbreytingarinnar, sem fram komu í bréfi hennar, dags. 22. apríl 2013, voru teknar til umræðu í sveitarstjórn og var gerð rökstudd grein fyrir ástæðum þess að ekki var fallist á þær, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.

Ágreiningur er í málinu um heimildir sveitarstjórnar til að gera breytingar á deiliskipulagi Reykjaness samkvæmt beiðni erfðafestuhafa án samþykkis landeigenda. Lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar takmarkast við hina kærðu skipulagsákvörðun og er það ekki á færi nefndarinnar að taka afstöðu til álitaefna um bein eða óbein eignarréttindi, svo sem um efni erfðafestusamnings er tekur til umræddrar spildu. Allt að einu liggur fyrir að sá aðili sem fór fram á umdeilda deiliskipulagsbreytingu hefur umráð spildunnar í skjóli þess samnings. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulagsáætlana. Hvergi í lögum er það áskilið að sveitarstjórn afli samþykkis landeigenda vegna skipulagsákvarðana sem varða eignir þeirra, enda verður eignarréttindum ekki ráðstafað með skipulagsáætlunum. Verður hin kærða skipulagsákvörðun því ekki ógilt á þessum forsendum.

Mannvirki þau sem hin kærða deiliskipulagsbreyting heimilar munu vera í nokkurri fjarlægð frá húsi á lóð kærenda. Samkvæmt því og með tilliti til staðhátta að öðru leyti verður ekki talið að heimilaðar byggingar geti dregið úr fjallasýn kærenda að marki.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á meðferð eða efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sem áhrif geta haft á gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. september 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykjaness vegna garðyrkjubýlisins Reykjalundar í Grímsnes- og Grafningshreppi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson
 

66/2013 Miðbraut

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 17. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 12. júní 2013 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna Miðbrautar 34, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júlí 2013, er barst nefndinni 12. s.m., kærir Í, Miðbraut 34, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 12. júní 2012 að synja um breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna Miðbrautar 34, Seltjarnarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 27. nóvember 2014 og í nóvember 2015. 

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Lóðin að Miðbraut 34 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Vesturhverfis, sem markast af Lindarbraut, Melabraut, Valhúsabraut og Hæðarbraut. Tilgreind lóð er staðsett innan svæðis sem merkt er A á deiliskipulaginu. Þar er að finna einbýlishús og er þar hvorki heimilt að fjölga íbúðum né bæta við viðbótarhæð. Heimilað nýtingarhlutfall á svæðinu er 0,3. Nefnt deiliskipulag tók gildi 7. ágúst 2007, en var kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, m.a. af kærendum þessa máls. Kvað nefndin upp úrskurð 28. apríl 2008 í því kærumáli, sem er nr. 94/2007, og hafnaði kröfu um ógildingu samþykktar deiliskipulagsins.

Fyrirspurn kærenda um deiliskipulagsbreytingu vegna hækkunar þaks hússins á nefndri lóð var tekin fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 19. júní 2012. Var bókað að nefndin tæki jákvætt í fyrirspurnina og óskaði eftir frekari gögnum. Umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi, vegna hækkunar á nefndu húsi úr einni hæð í eina og hálfa hæð, var móttekin 2. ágúst s.á. og fylgdu henni uppdrættir, dags. 24. júlí s.á. Á fundi nefndarinnar 21. ágúst 2012 var umsóknin tekin fyrir og hún samþykkt til auglýsingar. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 12. september s.á. Var tillagan auglýst í kjölfarið og tekið fram í auglýsingu að tillagan fæli í sér hækkun þaks og breytingu húss úr einni hæð í eina og hálfa hæð að hámarki. Var gefinn kostur á að koma að athugasemdum til 17. desember s.á. Með bréfi, dags. 11. desember s.á., gerðu íbúar að Melabraut 29, 30, 31, 32, 33 og 34, auk íbúa að Miðbraut 36, athugasemdir við auglýsta tillögu.

Málið var tekið fyrir á ný á fundi bæjarstjórnar 13. febrúar 2013 og samþykkt að tillagan um breytingar á deiliskipulaginu yrði auglýst að nýju í Lögbirtingablaði og með áberandi hætti í dagblaði sem gefið væri út á landsvísu. Skyldi athugasemdafrestur eigi vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingarinnar skv. 1. mgr. 43. skipulagslaga nr. 123/2010. Í auglýsingu var tekið fram að breytingin vegna Miðbrautar 34 væri hækkun um hálfa hæð, þ.e.a.s. valmaþak með mæni 2,7 m yfir núverandi þaki. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 16. apríl s.á. var bókað að athugasemdir hefðu borist frá tilgreindri lögfræðistofu: „… fyrir hönd flestra eigenda á Melabraut 29 til 34 og á Miðbraut 36 um að hækkun yki skuggavarp á lóð og byrgði útsýn“. Frestaði nefndin afgreiðslu þar til aflað hefði verið frekari gagna. Á fundi sömu nefndar 14. maí s.á. var málið enn tekið fyrir og bókað að móttekin væri beiðni umsækjanda: „… um að fá að setja upp létta grind með útlínum þakhækkunar til að skýra erindi sitt betur“. Féllst nefndin á beiðnina og bókaði að hún myndi „… meta grenndaráhrif af uppsetningu á staðnum“.

Tillagan var næst tekin fyrir á fundi nefndarinnar 6. júní s.á. og var bókað að umfang þakhækkunar hefði verið markað með listum og snúrum á húsið til skoðunar fyrir nefndina. Á fundinum var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun: „Nefndin hefur kynnt sér málavexti og hafnar áformum um hálfa efri hæð vegna grenndaráhrifa.“ Var fundargerð nefndarinnar lögð fram á fundi bæjarstjórnar hinn 12. s.m. og staðfest. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að fyrir nokkrum misserum hafi komið í ljós að húsþak á fasteign þeirra að Miðbraut 34 væri ónýtt. Vegna þessa hafi þeir farið fram á breytingu á deiliskipulagi þannig að leyfð yrði hálf hæð undir valmaþaki ofan á hús sitt og yrði það þá ein og hálf hæð. Synjun bæjarstjórnar vegna andmæla nokkurra nágranna brjóti í bága við jafnræðis-, meðalhófs- og réttmætisreglu stjórnsýslulaga. Ákvarðanir um byggingarmagn í deiliskipulagi Vesturhverfis virðist ráðast af geðþótta sem mismuni fasteignareigendum í hverfinu. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins sé heimilt að reisa hús sem séu ein og hálf eða tvær hæðir á lóðum sem standi næst kærendum, vestan, sunnan og suðaustan við lóð þeirra. Þetta skapi talsverða mismunun á milli einstakra eigenda fasteigna á skipulagsreitnum í nýtingarheimildum lóða. Þá hafi enginn rökstuðningur fylgt hinni kærðu ákvörðun.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að fyrir liggi nýlegt skipulag af því svæði þar sem hús kærenda standi. Deiliskipulagið hafi átt sér langan aðdraganda og hafi verið umdeilt, m.a. vegna mismunandi heimilda til uppbyggingar á svæðinu, hæða húsa, byggingarmagns o.fl. Skipulagið hafi áður sætt kæru, m.a. á þeim grunni að það væri andstætt jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Á því álitaefni hafi verið tekið í úrskurði úrskurðanefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 94/2007. Með vísan til þeirra forsendna sem liggi að baki úrskurðinum um skipulagið í heild sinni stangist hin kærða ákvörðun, þ.e. synjun á breytingu á skipulaginu, ekki á við jafnræðisreglu, meðalhófsreglu eða réttmætisreglu stjórnsýslulaga. Lögmæt og málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki synjuninni. Borgarar megi almennt búast við því að nokkur festa sé í skipulagsmálum og ekki séu gerðar breytingar á skipulagi nema þegar nauðsyn krefji, það styðjist við almannaþörf og lögmæt og málefnaleg sjónarmið.

Athugasemdir hafi borist frá nágrönnum í sjö húsum sem mótmælt hafi breytingunni vegna grenndaráhrifa. Að beiðni kærenda hafi verið veittur kostur á að sýna breytinguna með uppsetningu grindar á húsið. Sveitarfélagið hafi hafnað breytingunni eftir að hafa kynnt sér framangreint, þá með hliðsjón af andmælum nágranna og grenndaráhrifum.

Kærendur hafi farið fram á rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar með bréfi, dags. 27. ágúst 2013, og beri að líta á málsrök sveitarfélagsins sem frekari rökstuðning fyrir synjun erindisins. 

Loks hafi tillaga að deiliskipulagsbreytingu verið endurauglýst til að lengja athugasemdafrest og tryggja lögmæti meðferðar málsins, en fyrri auglýsing hafi ekki birst í Lögbirtingablaði. Athugasemdir sem borist hafi við fyrri auglýsingu hafi því verið látnar halda gildi sínu við endurauglýsingu.

Athugasemdir kærenda við umsögn Seltjarnarnesbæjar: Vísað er til þess að sveitarstjórn hafi ákveðið að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við umsókn kærenda. Hefði því samkvæmt skipulagslögum átt að vinna tillöguna eins og um nýtt deiliskipulag væri ræða. Það hafi ekki verið gert og sé hin kærða ákvörðun og málsmeðferð hennar haldin svo verulegum ágöllum að ógildingu hljóti að varða.

Ekki hafi verið gætt að lagaskyldu um samráð við gerð tillögunnar, sbr. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bæjarstjórn hafi samþykkt að auglýsa tillöguna á fundi sínum 13. febrúar 2013 og hefði tillagan þá þegar þurft að fullnægja skilyrðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Hins vegar hafi ekki verið gætt að ákvæði gr. 5.2.1. í reglugerðinni, en þar segi að ef tillaga að deiliskipulagi, eða tillaga að breytingu á því, taki til svæðis sem liggi að lóðamörkum, landamörkum eða sveitarfélagamörkum skuli haft samráð við eiganda þess lands, lóðarhafa eða viðkomandi sveitarfélag áður en tillagan sé samþykkt til auglýsingar. Ákvæðið verði ekki skilið öðruvísi en svo að þegar um sé að ræða breytingartillögu um deiliskipulag einnar lóðar beri að hafa samráð við lóðarhafa aðliggjandi lóða, áður en tillagan sé auglýst.

Ekki hafi heldur verið gætt að ákvæðum í gr. 5.8.5.1. og 5.8.5.2. í sömu skipulagsreglugerð við meðferð málsins, en þar komi m.a. fram að í greinargerð skuli lýsa breytingunni, forsendum hennar, rökstuðningi fyrir henni, samráði við hagsmunaaðila og samræmi við aðalskipulag. Auglýst tillaga sé þegar samþykkt af sveitastjórn og verði ráðið af því að komi ekki fram athugasemdir þurfi ekki að taka tillöguna aftur fyrir í sveitarstjórn heldur nægi þá fyrri samþykkt hennar til auglýsingar, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Leiði af þessu að ljúka þurfi gerð skipulagstillögu fyrir auglýsingu hennar. Allar meginforsendur eigi að liggja fyrir, svo og upplýsingar um grenndaráhrif tillögunnar. Annars skorti á að fullnægt hafi verið rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við undirbúning málsins. Af sömu ástæðu ætti það að heyra til undantekninga að athugasemdir sem fram hafi komið við auglýsta tillögu leiði til þess að frá henni sé fallið.

Bera verði áhrif þeirrar hækkunar á húsi kærenda sem um sé deilt saman við þá hæð sem húsið geti haft miðað við gildandi skipulagsskilmála. Á lóðinni sé jafnframt ónýttur byggingarreitur fyrir viðbyggingu og þótt sú viðbygging megi aðeins vera á einni hæð sé ekkert í skipulaginu um hæðarsetningu gólfplötu eða um þakgerð, en ekki sé kvöð um flöt þök á svæðinu. Þá liggi fyrir að erindi kærenda sé til komið vegna þess að þak á húsi þeirra leki og sé vandséð að mögulegt sé að neita þeim um byggingarleyfi fyrir mænisþaki eða valmaþaki á húsið án nýtanlegs rýmis, enda sé það ekki andstætt skipulagi svæðisins. Engin athugun á þessum mismunandi kostum hafi farið fram og því hafi skort á rannsókn málsins.

Fyrrverandi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi hafnað kröfu um ógildingu á deiliskipulagi Vesturhverfis, þrátt fyrir að í skipulaginu fælist talsverð mismunun milli lóðarhafa á svæðinu. Í ljósi þessa hljóti bæjaryfirvöld að þurfa að taka til skoðunar einstök tilvik á svæðinu þar sem um óeðlilega mismunun sýnist vera að ræða. Augljóst sé að betra væri að fallast á umsókn kærenda og samræma þannig stærðir húsa, yfirbragð og nýtingar-
hlutfall lóða, sbr. markmið skipulagsins.

Athugasemdir sem borist hafi við fyrri auglýsingu tillögunar virðist hafa ráðið úrslitum um afstöðu bæjaryfirvalda. Þær hafi hins vegar legið fyrir þegar bæjarstjórn samþykkti 13. febrúar 2013 að skipulagstillagan yrði auglýst að nýju. Með því að samþykkja að auglýsa tillöguna, þrátt fyrir fram komin mótmæli, hafi bæjarstjórn í raun hafnað mótmælunum. Þegar málið hafi verið tekið fyrir í skipulags- og mannvirkjanefnd 16. apríl 2013 eftir endurtekna auglýsingu hafi verið bókað á þann veg að skilja megi að athugasemdir hafi komið fram við þá auglýsingu. Málsgögn beri með sér að um sömu athugasemdir sé að ræða og bókað hafi verið um 18. desember 2012. Séu þessi vinnubrögð ámælisverð og til þess fallin að villa þeim sýn er komi ókunnugir að málinu. Þá hafi fram komnum mótmælum verið safnað og þeirra aflað með því að gefa ranga mynd af fyrirhugaðri breytingu. Bæjaryfirvöldum hafi borið að kanna uppruna þeirrar myndar og upplýsa hið sanna um umfang stækkunarinnar. Að afla ekki þeirra gagna sé brot á rannsóknarreglu.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 12. júní 2013 að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna lóðar nr. 34 við Miðbraut. Umsótt breyting fól í sér að bæta mætti við hús kærenda á lóðinni hálfri hæð undir valmaþaki þannig að húsið yrði ein og hálf hæð.

Um deiliskipulagsáætlanir er fjallað í VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga, en landeigandi eða framkvæmdaraðili getur m.a. óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað, sbr. 2. mgr. 38. gr. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna skal fara með breytingar á samþykktu deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða að öðru leyti en því að ekki er skylt að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu skv. 1. mgr. 40. gr. Um gerð deiliskipulags, kynningu og samráð er fjallað í 40. gr. og um auglýsingu og samþykkt þess í 41. gr. Þá gilda um skipulagsmál almennt ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, sem tók gildi 31. janúar 2013, en áður gilti skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Kærendur telja þá ágalla vera á meðferð málsins að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, og hafa í því sambandi m.a. vísað til þess að ekki hafi verið gætt að lagaskyldu um samráð við gerð tillögunnar, sbr. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Hafa kærendur um þá samráðsskyldu bent á gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sem kveður á um að ef tillaga að breytingu deiliskipulags tekur til svæðis sem m.a. liggi að lóðamörkum, skuli haft samráð við eiganda þess lands og lóðarhafa áður en tillagan er samþykkt til auglýsingar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Í máli þessu háttar svo til að bæjarstjórn staðfesti á fundi sínum 12. september 2012 að tillagan um deiliskipulagsbreytingarnar væri samþykkt til auglýsingar og var hún auglýst 3. nóvember s.á., hvoru tveggja í gildistíð skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna til auglýsingar að nýju á fundi sínum 13. febrúar 2013 og var hún auglýst 14. s.m. Hafði skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þá tekið gildi. Í 9. kafla þeirrar reglugerðar er að finna ákvæði til bráðabirgða og segir þar í 4. tl. að ákvæði hennar gildi ekki um tillögur að breytingum á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga sem sveitarstjórn hafi fyrir gildistöku hennar samþykkt að auglýsa í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Þá gildi ákvæði eldri skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var ástæða endurauglýsingar umræddrar breytingartillögu til kynningar sú að láðst hafði við fyrri auglýsingu að birta hana í Lögbirtingablaði, svo sem áskilið er í 1. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Var bæjarstjórn því rétt að auglýsa tillöguna að deiliskipulagsbreytingunni að nýju til þess að uppfylla skilyrði um form auglýsingarinnar að lögum. Um lagaskil verður hins vegar að miða við fyrri samþykkt til auglýsingar, enda var endurauglýsing samþykkt vegna framangreindra formskilyrða og var um eina samfellda málsmeðferð að ræða. Þá eru að öðru leyti ekki efni til þess að ætla að ónógt samráð hafi farið fram í skilningi 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Kærendur halda því jafnframt fram að það leiði af 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga að fyrir auglýsingu skipulagstillögu þurfi að ljúka gerð hennar, m.a. í samræmi við gr. 5.8.5.1. og 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þannig að hægt sé að samþykkja hana að óbreyttu. Að öðrum kosti hafi rannsókn ekki verið sinnt nægjanlega, en nefnd reglugerð hafi tekið gildi fyrir ákvörðun sveitarstjórnar um endurauglýsingu tillögunnar. Að sama skapi hafi sveitarfélaginu við endanlega ákvörðun ekki verið heimilt að líta til athugasemda sem fram hefðu komið við fyrri auglýsingu tillögunnar þar sem hún hefði í raun hafnað þeim þegar ákveðið hafi verið að endurauglýsa.

Í 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga segir að sveitarstjórn skuli taka tillögu til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar þegar frestur til athugasemda sé liðinn. Í þeirri umfjöllun skuli taka afstöðu til athugasemda sem borist hafi. Ef engar athugasemdir séu gerðar við tillöguna sé ekki skylt að taka hana aftur til umræðu í sveitarstjórn heldur skuli senda hana Skipulagsstofnun. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni komu fram athugasemdir í kjölfar fyrri auglýsingar deiliskipulagsbreytingartillögunnar, en engar nýjar athugasemdir bárust við endurauglýsingu. Ljóst er af bókun bæjarstjórnar 13. febrúar 2013 að ekki var þá tekin afstaða til þeirra athugasemda sem þá voru fram komnar, heldur sneri afgreiðsla bæjarstjórnar þá eingöngu að því að auglýsa breytinguna á ný. Verður hvorki séð að ákvæði skipulagslaga eða reglugerðar hafi staðið endurauglýsingu í vegi né því að líta til áður fram kominna athugasemda við endanlega afgreiðslu málsins, enda er beinlínis skylt lögum samkvæmt að taka afstöðu til þeirra áður en mál er afgreitt. Þá er ljóst, að gr. 5.8.2.1. og 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um framsetningu breytinga á deiliskipulagi koma ekki til skoðunar, sbr. það sem áður hefur komið fram um skil milli eldri og yngri skipulagsreglugerðar, og þar sem breyting sú sem að var stefnt að beiðni kærenda kom greinilega fram í auglýsingu og kynningargögnum var skilyrðum þar um í skipulagslögum og þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 fullnægt.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Á því svæði sem hér um ræðir hefur bæjarstjórn nýtt sér framangreint skipulagsvald með deiliskipulagi Vesturhverfis, sem úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála tók afstöðu til í kærumáli nr. 97/2007. Þá hefur sveitarstjórn í skjóli skipulagsvalds síns synjað kærendum um breytingu á því skipulagi. Kemur þá til skoðunar hvort að sveitarstjórn hafi beitt valdi sínu á málefnalegan hátt og í samræmi við það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. nefndra laga að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Á svæði merktu A í deiliskipulagi Vesturhverfis sem hér á við, er ekki gert ráð fyrir hækkun húsa í tvær hæðir. Tillaga kærenda að breyttu deiliskipulagi fól í sér hækkun húss um hálfa hæð með gerð valmaþaks á húsið í stað núverandi flats þaks, en við þá breytingu yrði mænishæð 2,7 m. Í breytingartillögunni kemur fram að skuggavarp eykst við breytinguna á nærliggjandi lóðir. Við meðferð málsins komu fram athugasemdir nágranna, sem lutu m.a. að skuggavarpi, og var bókað um þær athugasemdir, svo sem nánar greinir í málavöxtum. Þá liggur fyrir að umfang umbeðinnar þakhækkunar var markað með listum og snúrum til kynningar og skoðunar og kynntu fulltrúar skipulagsyfirvalda bæjarins sér aðstæður á vettvangi. Var það mat sveitarfélagsins að hafna bæri tillögu um hækkun húss kærenda með tilliti til grenndaráhrifa. Þrátt fyrir að fallast megi á að grenndaráhrif hinnar umþrættu breytingar séu ekki mikil er hin kærða ákvörðun studd efnisrökum og verður ekki talið að réttur kærenda hafi verið fyrir borð borinn í skilningi 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þeirrar staðreyndar að íbúum sveitarfélags er almennt ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja fram breytingu á gildandi deiliskipulagi, verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Seltjarnarnesbæjar frá 12. júní 2013 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna Miðbrautar 34, Seltjarnarnesi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

51/2015 Laufásvegur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 5. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi eldri viðbygginga að norðan- og vestanverðu við einbýlishúsið að Laufásvegi 59, lækkun gólfs í kjallara, byggingu anddyris til vesturs og borðstofu til austurs, breytingum á innra skipulagi og gerð svala ofan á viðbyggingar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra G og S, Laufásvegi 61, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi eldri viðbygginga að norðan- og vestanverðu við einbýlishúsið að Laufásvegi 59, lækkun gólfs í kjallara, byggingu anddyris til vesturs og borðstofu til austurs, breytingum á innra skipulagi og gerð svala ofan á viðbyggingar. Með bréfi, dags. 5. október 2015, krefjast sömu aðilar þess jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júlí 2015, er barst nefndinni 10. s.m., kæra Unnur Ingimundardóttir, Sandra S. Einarsdóttir, Sonja Diego og Páll V. Kolka, Bergstaðastræti 64, Reykjavík, ráðgerðar byggingarframkvæmdir samkvæmt fyrrgreindri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík. Þar sem kærurnar lúta að sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður það kærumál, sem er nr. 53/2015, sameinað kærumáli þessu.

Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. ágúst, 7., 16. og 29. október og 2. nóvember 2015.

Málavextir: Með umsókn, dags. 17. febrúar 2015, sótti leyfishafi um byggingarleyfi fyrir niðurrifi eldri viðbygginga við hús hans að Laufásvegi 59, lækkun gólfs í kjallara, byggingu anddyris til vesturs, bogadreginnar viðbyggingar úr stofu til suðurs og borðstofu til austurs, breytingum á innra skipulagi og gerð svala ofan á allar viðbyggingar. Skipulagsfulltrúi samþykkti á embættisafgreiðslufundi sínum 27. s.m. að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Bergstaðastræti 60, 62, 62A og 64 og Laufásvegi 57, 58, 60 og 61.

Umsóknin var grenndarkynnt frá 5. mars til og með 2. apríl 2015 og bárust athugasemdir frá íbúum við Bergstaðastræti 64 og Laufásveg 61. Var þeim svarað með umsögn skipulagsstjóra, dags. 3. maí s.á., en umsögnin var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 6. s.m. og málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 7. s.m. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. s.m. var byggingarleyfisumsóknin tekin fyrir að nýju, nú á grundvelli breyttra teikninga, þar sem horfið var frá því að gera bogadregna viðbyggingu úr stofu til suðurs. Var umsóknin að endingu samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. júní 2015. Fundargerð þess fundar var lögð fram til kynningar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 10. s.m. og samþykkt á fundi borgarráðs 11. s.m.

Húsið við Laufásveg 59 var byggt árið 1924 og fellur því undir 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar, sem kveður á um að eigendum húsa og mannvirkja, sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1925 eða fyrr, sé skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa. Álit Minjastofnunar Íslands, dags. 17. mars 2015, vegna fyrirhugaðra breytinga á húsinu nr. 59 við Laufásveg lá fyrir þegar samþykkt var að veita hið kærða byggingarleyfi.

Málsrök kæranda: Kærendur að Laufásvegi 61 vísa til þess að nái framkvæmdirnar fram að ganga verði fjarlægð milli húsanna að Laufásvegi 59 og 61 allt of lítil og minni en byggingarreglugerð heimili. Hvað brunavarnir varði verði að taka tillit til sólstofu/gróðurhúss með plastþaki, sem áföst sé við húsið nr. 61. Ekki virðist hafa verið tekið tillit til sólstofunnar í umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir sem borist hafi við grenndarkynningu byggingarleyfisins. Ekki sé heldur reiknað með þakskeggi á húsinu nr. 61, sem skagi um 35-40 cm út fyrir gafl hússins.

Svo virðist sem lækka eigi yfirborð lóðar um 40-60 cm eða meira við lóðamörk húsanna, fjarlægja timburskjólvegg á lóðamörkum og steypa nýjan vegg á sama stað. Þessu fylgi verulegt rask vegna jarðvinnu á lóð Laufásvegar 61 ásamt hættu á því að trjágróður næst lóðamörkunum skemmist. Samhliða breytingum á húsinu við Laufásveg 59 virðist einnig gert ráð fyrir að um 80-90 ára gamall hlynur á lóð hússins verði fjarlægður, en hlynurinn setji mikinn svip á lóðina og næsta nágrenni. Þá boði fyrirhugaðar breytingar aukið ónæði fyrir eigendur Laufásvegar 61, en stórar svalir verði nánast samtengdar því húsi og umferð út á bílskúrsþak, sem verði samtengt viðbyggingunni, verði meiri.

Kærendur að Bergstaðastræti 64 skírskota til þess að greinargerð, sem samin hafi verið um athugasemdir sem fram hafi komið við grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknarinnar, hafi ekki borist þeim frá Reykjavíkurborg. Þeim þyki skjóta skökku við að heimiluð skuli vera svo mikil stækkun gamals húss í gömlu og grónu hverfi með mjög óeðlilegri og ágengri nýtingu lóðar á kostnað nágranna, heildarsvips götunnar og hverfisins alls. Í áðurnefndri greinargerð hafi verið látið í veðri vaka að reynt hafi verið að gæta sæmdarréttar arkitekts hússins og hússins sjálfs með því að umturna ekki útliti þess algerlega, en kærendum þyki þó sem hefðarréttur hverfisins í heild og yfirbragðs þess sé fyrir borð borinn.

Lögboðið bil milli húsa sé ekki virt og engar eðlilegar ástæður hafi verið gefnar fyrir því. Með þessu sé gengið á hlut nágranna í næstu húsum og rétt þeirra til friðhelgi einkalífs og hefðbundins útsýnis. Þá eru athugasemdir sem gerðar voru við grenndarkynningu byggingarleyfisins ítrekaðar, en í þeim kom fram að áformaðar framkvæmdir myndu skerða freklega birtu og útsýni, sem verið hefði meðal helstu kosta íbúðanna í húsinu, skerða notagildi lóðar til útivistar með auknu skuggavarpi og verulega færri sólskinsstundum, þrengja að lóð Bergstaðastrætis 64 og rýra stórkostlega verðgildi íbúða í húsinu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg fer fram á að kröfum kærenda í málinu verði hafnað, enda hafi ekkert komið fram sem leitt geti til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Í grein 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé sett fram sú meginregla að bil á milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið til þess að eldur nái ekki að breiðast út á milli þeirra. Umrædd viðbygging standi uppi á bílskúr (sic) og standi því mun hærra en gróðurskáli kærenda við Laufásveg 61. Einn lítill óopnanlegur gluggi sé sýndur á gafli viðbyggingarinnar með E60 brunaþolnu gleri en 6 m séu á milli viðbyggingarinnar og húss kærenda við Laufásveg 61. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi farið yfir uppdrættina og engar athugasemdir gert. Viðbyggingin uppfylli því kröfur byggingarreglugerðar um brunavarnir. Kærendur við Laufásveg 61 geti auk þess ekki vænst þess að gróðurskáli þeirra, sem sé við lóðamörkin, verði til þess að hindra nýtingarmöguleika næstu lóðar um aldur og ævi.

Stækkun og umfang hússins við Laufásveg 59 sé í samræmi við stækkunarmöguleika nærliggjandi lóða, sbr. deiliskipulag Smáragötureita frá 2005, en litið hafi verið til þess deiliskipulags við mat á því hvort byggingarleyfisumsóknin samræmdist byggðamynstri hverfisins. Framkvæmdin sé því í fullu samræmi við það sem gangi og gerist hvað varðar umfang, stærð og nýtingarhlutfall í nágrenninu. Skipulagsyfirvöld hafi talið byggingarleyfisumsóknina í samræmi við byggðamynstur svæðisins og þéttleika byggðarinnar, en ekki sé ljóst hvað kærendur eigi við með orðinu „hefðarréttur“ hverfisins. Horfið hafi verið frá bogabyggingu og framhlið hússins verði því óbreytt. Varðandi bil á milli húsa vísist til umsagnar skipulagsfulltrúa, en þar komi fram að brunavarnir muni samræmast kröfum byggingarreglugerðar.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er skírskotað til þess að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi þegar fjallað um nálægð viðbyggingar við fasteignina að Laufásvegi 61. Um sé að ræða steinsteypta viðbyggingu með föstum glugga úr eldvarnargleri, sem snúi að Laufásvegi 61. Ekki verði séð að fyrirhuguð viðbygging standi of nálægt umræddri fasteign.

Skúr með plastþaki, sem standi á lóð nr. 61 við Laufásveg, sé á samþykktri teikningu frá 1991 og sé hann sambyggður við bílskúr á Laufásvegi 59 og fasteignina við Laufásveg 61. Ljóst sé að þáverandi eigendur Laufásvegar 59 hafi veitt heimild fyrir umræddum skúr, sem standi við lóðamörkin, en með því hafi þeir ekki verið að afsala sér réttindum yfir eignarlóð sinni og veita kærendum rétt til að helga sér svæði langt inn á lóðina Laufásveg 59. Þak bílskúrsins að Laufásvegi 59 sé afmörkuð verönd sem nýtt sé til sólbaða og sem grillaðstaða. Ekki sé um að ræða neina eðlisbreytingu varðandi nálægð fasteignanna heldur einungis aukið byggingarmagn á lóðinni. Þá sé bent á að umræddur skúr á lóð Laufásvegar 61 sé byggður úr ólögmætum byggingarefnum, þ.e. plasti, og ótækt sé að láta hann koma í veg fyrir framkvæmdir sem feli í sér byggingu vandaðrar og glæsilegrar steinsteyptrar byggingar. Jafnframt sé augljós brunahætta af því að hafa skúr með plastþaki sambyggðan timburhúsinu við Laufásveg 61.

Fyrirhuguð viðbygging muni standa langt frá fasteigninni að Bergstaðastræti 64 og ekki verði séð að athugasemdir íbúa þar eigi við rök að styðjast. Hvað sæmdarrétt arkitekts hússins varði hafi erfingjar hans um hann að segja en ekki nágrannar. Minjastofnun Íslands hafi fjallað um ytra útlit viðbyggingarinnar með ítarlegum hætti og ljóst megi vera að hún sé ekki í slíku ósamræmi við ytra útlit hússins að það fari í bága við höfundarrétt arkitekts eða almenna ásýnd hverfisins. Þá liggi fyrir fjölmörg fordæmi um afar áþekkar viðbyggingar í hverfinu.

Erfitt sé að átta sig á tilvísun kærenda til friðhelgi einkalífs og hefðbundins útsýnis. Rétt sé að útsýni yfir þak bílskúrsins að Laufásvegi 59 skerðist eitthvað. Þó beri að hafa í huga að viðbyggingin sem um ræði sé annars vegar kjallari, sem ekkert útsýni taki af nágrönnum, og hins vegar 28 m2 borðstofa á 1. hæð, sem sé 4 m breið og inndregin og geti ekki valdið mikilli skerðingu á útsýni. Þá sé hér um að ræða fasteignir í miðborg Reykjavíkur þar sem útsýni manna sé almennt aðeins yfir í næsta garð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingum og breytingum á einbýlishúsi á lóð nr. 59 við Laufásveg. Ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að grenndarkynning felist í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, þ. á m. svör við framkomnum athugasemdum.

Kærendur við Bergstaðastræti 64 hafa gert athugasemd við að þeim hafi ekki verið send svör skipulagsfulltrúa við athugasemdum sem fram komu við grenndarkynninguna. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að kærendur höfðu fengið svör skipulagsfulltrúa í hendur og var kunnugt um efni þeirra þegar kæra þeirra var útbúin og urðu þeir því ekki fyrir réttarspjöllum af því tilefni.

Eins og rakið er í málavöxtum var það skipulagsfulltrúi sem tók ákvörðun um grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar leyfishafa en ekki skipulagsnefnd, svo sem framangreint lagaákvæði kveður á um. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna. Kemur þar einnig fram að sveitarstjórn sé heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, sbr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Á þeim tíma er hér um ræðir lá ekki fyrir heimild fyrir skipulagsfulltrúa til að taka slíka ákvörðun sem stoð ætti í samþykkt sem birt hefði verið í Stjórnartíðindum. Umhverfis- og skipulagsráð, sem fer með verkefni skipulagsnefndar samkvæmt skipulagslögum, tók hins vegar afstöðu til hinnar grenndarkynntu umsóknar og var sú afgreiðsla ráðsins síðan staðfest í borgarráði.

Af framangreindum ástæðum verða nefndir annmarkar á málsmeðferð ekki taldir þess eðlis að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar og ekki liggur fyrir að aðrir hnökrar hafi verið á formlegri málsmeðferð umsóknarinnar sem áhrif geta haft á gildi hennar.

Um bil á milli bygginga er fjallað í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Er þar sett fram sú meginregla að bil á milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra. Þá eru í greininni settar fram viðmiðunarreglur um bil á milli bygginga og er þar m.a. vísað í töflu um lágmarksfjarlægðir, en þær gilda þó eingöngu við nánar tilgreindar aðstæður og þegar ekki er sýnt fram á að annað sé nægjanlegt til að uppfylla skilyrði meginreglunnar. Í máli þessu er upplýst að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór yfir uppdrættina og gerði ekki athugasemdir. Verður því við það miðað að skilyrði meginreglunnar í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð séu uppfyllt.

Hið kærða byggingarleyfi áskilur að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Er byggingarleyfið þannig skilyrt hvað þetta varðar og byggingarleyfishafa því óheimilt að ráðast í breytingar á lóðamörkum án slíks samráðs. Þá heimilar hið kærða byggingarleyfi ekki að hlynur sá sem stendur á lóð leyfishafa, og kærendur nefna, verði fjarlægður.

Samkvæmt skýringarmyndum um skuggavarp sem liggja fyrir í málinu hefur skuggavarp af umræddum viðbyggingum ekki teljandi grenndaráhrif. Þá verður að telja að útsýnisskerðing sem kærendur kunna að verða fyrir vegna nefndra viðbygginga sé ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli megi almennt búast við.

Laufásvegur 59 er á svæði innan Hringbrautar sem skilgreint er sem sérstakt hverfisverndarsvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þar eru markmið og ákvæði um hverfisvernd á svæðinu skilgreind og kemur þar m.a. fram að stefna sem komi fram í heftinu „Húsvernd í Reykjavík“, ásamt uppfærðu húsverndarkorti, gildi áfram. Samkvæmt þessum gögnum er Laufásvegur 59 á svæði sem lagt er til að vernda. Er lagt til að svip húsa verði sem minnst raskað, t.d. þak- og gluggagerðum. Sýna þurfi sérstaka aðgát við hönnun breytinga og viðbygginga. Breytingar voru gerðar á byggingarleyfisumsókn leyfishafa áður en hún var samþykkt, en með þeim var komið til móts við athugasemdir Minjastofnunar Íslands sem byggðust á framangreindum gögnum. Svo sem áður var rakið var fallið frá breytingum á framhlið hússins, þar sem áður var fyrirhugað að gera bogadregna viðbyggingu. Þá voru gerðar breytingar á útliti glugga á götuhlið hússins. Í ljósi þessa verður ekki séð að umrætt leyfi fari gegn framangreindum markmiðum aðalskipulags.

Eins og fyrr er að vikið að eru skilyrði þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum, án þess að fyrir liggi deiliskipulag, þau að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í máli þessu er um að ræða leyfi til breytinga og viðbygginga við íbúðarhús á lóð í grónu hverfi á svæði sem skilgreint er sem íbúðarsvæði í gildandi aðalskipulagi. Nýtingarhlutfall, sem er mælikvarði á þéttleika byggðar, verður 0,67 eftir breytingar, samkvæmt samþykktum uppdráttum. Er það innan þeirra marka sem Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 tilgreinir, en þar kemur fram að meðalnýtingarhlutfall í Miðborg – borgarhluta 2 hafi verið 0,66 á árinu 2010 og að áætlað sé að það verði 0,88 á árinu 2030. Ekki verður talið að fyrirhugaðar viðbyggingar verði til þess að húsið samræmist ekki byggðamynstri.

Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verða byggðar svalir á 2. hæð hússins ofan á viðbyggingar, nánar tiltekið 22,1 m2 svalir ofan á viðbyggingu til austurs, sem snýr að Laufásvegi 61, og 6,3 m2 svalir ofan á viðbyggingu til vesturs. Jafnframt er gert ráð fyrir veröndum á 1. hæð ofan á viðbyggingu til austurs að hluta, til viðbótar við þá nýtingu sem verið hefur á þaki bílskúrs. 

Notkun þakflatar undir svalir er óhefðbundin og getur eftir atvikum haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna hljóðvistar og yfirsýnar yfir næstu lóðir. Með hinni kærðu ákvörðun er m.a. heimiluð gerð 22,1 m2 svala á 2. hæð á þakfleti viðbyggingar til austurs. Verður að telja að notkun umrædds þakflatar fari gegn grenndarhagsmunum kærenda. Af framangreindum ástæðum er það álit úrskurðarnefndarinnar að leyfi fyrir slíkri notkun þurfi að eiga stoð í deiliskipulagi, en sem áður greinir er ekki til að dreifa deiliskipulagi fyrir umrætt svæði. Ber af þeim sökum að ógilda hið kærða byggingarleyfi, en með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður byggingarleyfið þó eingöngu ógilt að því er varðar heimild til að gera 22,1 m2 svalir á 2. hæð á þakfleti viðbyggingar til austurs.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 um að veita byggingarleyfi til að gera 22,1 m2 svalir á 2. hæð á þakfleti viðbyggingar til austurs við Laufásveg 59. Að öðru leyti skal hin kærða ákvörðun standa óröskuð.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

21/2008 Stóragerði

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2008, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 7. febrúar 2008 er lítur að breyttum mörkum deiliskipulags Espigerðis frá árinu 1971.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. mars 2008, er barst nefndinni 25. s.m., kærir Þorvaldur Emil Jóhannesson hdl., f.h. K, Stóragerði 33, Reykjavík, samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 7. febrúar 2008 er lítur að breyttum mörkum deiliskipulags Espigerðis frá árinu 1971. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Að lokinni grenndarkynningu samþykkti skipulagsráð Reykjavíkur hinn 13. júní 2007 tillögu um „… breytingu á deiliskipulagi og stækkun á afmörkun deiliskipulagssvæðis vegna lóðarinnar nr. 40-46 við Stóragerði“ með vísan til 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og umsagnar skipulagsstjóra. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 31. ágúst 2007, kemur fram að deiliskipulagsbreytingin sé sett fram á uppdrætti, dags. 20. febrúar 2007, í mkv. 1:500 með greinargerð og skýringarmyndum sem sýni útlit, skuggavarp og snið. Gerði stofnunin ekki efnislegar athugasemdir við framlögð gögn en taldi að fara ætti með deiliskipulagsbreytinguna skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Skipulagsráð samþykkti á fundi 3. október 2007, með vísan til bréfs Skipulagsstofnunar, að auglýsa tillöguna og jafnframt að upplýsa þá aðila sem áður gerðu athugasemdir við tillöguna um nýja málsmeðferð. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi hinn 18. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar 24. október til 7. desember 2007.

Á auglýsingartíma komu fram athugasemdir, m.a. frá kæranda, sem svarað var með bréfi skipulagsstjóra, dags. 15. janúar 2008. Í framangreindu bréfi skipulagsstjóra var lagt til að lagfærðir yrðu uppdrættir þannig að byggingarreitur yrði skilgreindur nákvæmar og tæki mið af kynntum skýringarmyndum, sett yrði inn sneiðing, sem sýndi hæðarsetningu nýbyggingar og inndregna efstu hæð, þakform yrði flatt í stað rishæðar eða inndreginnar hæðar, sett yrði kvöð um gróður innan lóðar, til að tryggja að umgjörð hennar félli betur að ásýnd gróinna íbúðarhverfa, og bætt yrði inn tölum sem sýndu fjölda hæða, byggingarmagn, fjölda íbúða og bílastæða.

Tillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs 16. janúar 2008 ásamt m.a. hljóðstigsmælingum, umsögn umhverfissviðs um að beita fráviki II varðandi hljóðvist á reitnum, athugasemdum, greinargerð arkitekts, dags. 30. nóvember 2007, undirskriftalista 97 einstaklinga og framangreindri umsögn skipulagsstjóra, dags. 15. janúar 2008. Hin auglýsta tillaga var samþykkt, með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, og ákveðið að vísa málinu til borgarráðs þegar uppdrættir hefðu verið lagfærðir. Á fundi borgarráðs 7. febrúar 2008 var eftirfarandi bókað: „Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 16. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 40-46 við Stóragerði. R0710088 Samþykkt.“ Í kjölfar þess var málið sent Skipulagsstofnun til lögbundinnar yfirferðar, sem gerði ekki athugasemd við birtingu þess. Öðlaðist breytingin gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 26. febrúar 2008.

Í hinni kærðu breytingu felst að gildandi deiliskipulagssvæði frá árinu 1971 er stækkað þannig að lóðirnar nr. 42-44 og 46 við Stóragerði falla innan marka deiliskipulagsins. Afmarkast hið breytta deiliskipulagssvæði af Álmgerði, Stóragerði, lóðinni Stóragerði 40, Háaleitisbraut, Bústaðavegi og Espigerði. Með breytingunni er veitt heimild til að reisa fjögurra hæða fjölbýlishús, auk kjallara, með allt að 14 íbúðum á lóðinni Stóragerði 42-44. Skal efsta hæðin vera inndregin og gert er ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði neðanjarðar og einu ofanjarðar fyrir hverja íbúð. Nýtingarhlutfall lóðarinnar er 1,0 ofanjarðar. Á lóðinni Stóragerði 46 er heimilt að reisa einnar hæðar þjónustubyggingu (spenni-/dælustöð) með hámarksvegghæð 3 m og hámarksnýtingarhlutfall 0,3. Samkvæmt greinargerð hinnar kærðu skipulagsbreytingar er ekki verið að breyta skilmálum deiliskipulagsins frá árinu 1971 en settir skilmálar fyrir þær lóðir sem felldar eru inn í skipulagið.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin við meðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar. Mikil umferð sé nú þegar um Álmgerði og Stóragerði og hafi verið óskað eftir umferðartalningu áður en hugað yrði að frekari framkvæmdum sem gætu aukið á þennan vanda. Bent hafi verið á að breytingar á umferðarmannvirkjum í nágrenni hverfisins hefðu haft íþyngjandi áhrif á umferð í Álmgerði. Hafi skipulagsyfirvöld talið að þó svo að hlutfall gegnumumferðar væri all nokkuð um Álmgerði væri ekki ástæða til að ætla að hana mætti tengja breytingum á Háaleitisbraut. Íbúar svæðisins sem þekki best til aðstæðna séu á öðru máli. Þeir skynji breytingarnar en ekki sé unnt að byggja þá skoðun á umferðartalningu þar sem óskir þar að lútandi hafi ekki verið virtar.

Samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu hafi verið skráðar 79.260 bifreiðar í Reykjavík í lok árs 2003. Í lok árs 2007 hafi þeim fjölgað í 139.986 og nemi aukningin 77%. Í ljósi þess geti umferðartalning frá 2003 ekki verið góður grundvöllur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Niðurstöður útreikninga sem byggi á röngum forsendum verði alltaf rangar. Það sé ámælisvert að ekki hafi verið framkvæmd umferðartalning þar sem ljóst sé að umferðarþungi hafi aukist stórlega á undanförnum árum. Þau rök að reikna út viðbótarálag við umferðina sem hlutfall af hundraði vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar hafi því enga merkingu.

Þá hafi skýringaruppdrættir sem kynntir hafi verið íbúum verið mjög villandi og ekki gefið rétta mynd af tillögunni. Á skýringarmyndum, sem arkitekt hafi gert að beiðni íbúa og sendar hafi verið skipulagsyfirvöldum, megi glögglega sjá að byggingin, sem fyrirhugað sé að reisa á lóðinni Stóragerði 42-44, kunni að verða mun fyrirferðarmeiri gagnvart nærumhverfi sínu en ætla mætti af þeim skýringarmyndum sem íbúum hafi verið sýndar af hálfu Reykjavíkurborgar. Ónákvæmir skýringaruppdrættir, hvort sem slíkt sé gert af ásetningi eða gáleysi, leiði óhjákvæmilega til þess að villt sé um fyrir íbúum sem hagsmuna eigi að gæta og verði að telja að athugasemdir þeirra hefðu að öðrum kosti orðið mun fleiri en raunin hafi orðið. Hafi hinir villandi skýringaruppdrættir því leitt til þess að jafnframt hafi verið brotið á andmælarétti kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Ekki verði barið í brestina á málsmeðferðinni með því að leiðrétta uppdrættina fyrir endanlega ákvörðun borgarráðs. Þá hafi skipulagsstjóri verið vanhæfur er hann veitti seinni umsögn sína í málinu enda þegar búinn að taka þá ákvörðun að leggja til að tillagan yrði samþykkt.

Öll nærliggjandi hús séu mun minni en fyrirhuguð fjögurra hæða bygging á lóðinni Stóragerði 42-44. Þau séu aðeins á einni eða tveimur hæðum og það sé algjört stílbrot gagnvart þeim að byggja hærra og stærra hús á fyrrgreindri lóð. Þegar þau hús sem fyrir séu í hverfinu hafi verið byggð hafi skipulagsyfirvöld lagt mikla áherslu á að ekki yrði vikið frá sjónarmiði um stærðir húsa og hafnað óskum um hærra hús til að hverfið hefði skýra og fallega ásýnd áþekkra húsa. Þótt finna megi íbúðablokkir við Stóragerði standi þær mun fjær en húsin sem næst standi greindri lóð, eða í rúmlega 100 m fjarlægð. Á milli nefndrar lóðar og blokkanna í Stóragerði sé bensínstöð á einni hæð. Lóðin Stóragerði 42-44 hljóti því að taka mið af þeim húsum sem næst standi. Allt annað sé hrein röskun á heildaráferð hverfisins. Sé því ljóst að svar skipulagstjóra við röksemdum um að byggðamynstur í næsta nágrenni við umrædda lóð sé nokkuð fjölbreytt eigi ekki við rök að styðjast. Þau einbýlishús sem næst standi, og verði í um 40 m fjarlægð frá fyrirhugaðri byggingu, missi að nokkru þá kosti sem einbýlishús hafi og muni rýra verðmæti þeirra og hverfisins í heild. Þá sé engan veginn rökstutt hvers vegna skuggamyndun á lóð kæranda verði að teljast ásættanleg og hvers vegna ekki sé fallist á þau sjónarmið að verðfall verði á eignum í nágrenninu ef af umræddri nýbyggingu verði.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld skírskota til þess að ferðamyndun frá því svæði sem tengist Álmgerði sé um 1300 ferðir á sólarhring. Viðbótarferðir frá 14 íbúðum séu um 80. Samkvæmt tveimur talningum frá árinu 2003 sé um 2000 bíla umferð á sólarhring í Álmgerði. Ekki hafi verið sérstök ástæða til að ætla annað en að talningin hefði verið marktæk þótt hún væri fjögurra ára gömul. Ef borin sé saman ferðamyndun og talin umferð megi ætla að gegnumakstur sé 600-700 bílar, eða um 1/3 af umferðinni. Aukning á umferð um Álmgerði, miðað við talningu og 14 íbúðir, því geti orðið um 4%.

Það standist ekki að orðið hafi 77% aukning bíla í Reykjavík á fjórum árum en þann misskilning megi  skýra með því að sífellt fleiri leigi bíl af fjármögnunarfyrirtækjum sem flest séu staðsett í Reykjavík. Bíll geti því verið skráður í Reykjavík en notaður í öðru sveitarfélagi. Þegar tekið sé mið af fjölda bíla í eigu fjármögnunarfyrirtækja á umræddu tímabili sé aukning bíla í borginni um 15%. Ekki sé hægt að heimfæra aukna bílaeign beint upp á aukna umferð í íbúðarhverfi. Öðrum bíl á heimili sé ekið minna en fyrsta bíl og þá standi mögulega eftir 10% vegna aukinnar bílaeignar, úr 2000 bílum á sólarhring í 2100, sem sé óveruleg leiðrétting á lítilli umferð. Með 4% aukningu bílaumferðar vegna viðbótarbyggðar muni umferð aukast úr 2100 í tæplega 2200 bíla, en sú breyting mælist vart, t.d. ef verið sé að meta hávaða.

Varðandi skýringaruppdrætti hafi verið fallist á að þeir hefðu getað verið nákvæmari en bent hafi verið á að um mögulegt útlit væri að ræða og að hæðarsetning yrði nánar skýrð á deiliskipulagsuppdrætti. Ekkert liggi fyrir í málinu sem valdið gæti vanhæfi skipulagsstjóra og hafi málsmeðferð öll verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997.

Byggðamynstur í næsta nágrenni við lóðina Stóragerði 42-44 sé nokkuð fjölbreytt. Þar séu fimm hæða blokkir við Stóragerði, bensínstöð og tveggja hæða sérbýli. Sérstaða fyrrgreindrar lóðar felist í nálægð hennar við Háaleitisbraut, líkt og eigi við um gafla blokka við Stóragerði. Í ljósi þess sé talið ásættanlegt að byggingin sé fjórar hæðir og efsta hæðin inndregin. Ekki hafi verið leitt í ljós að ákvæði byggingarlaga um samræmi milli húsa og umhverfis hafi verið brotin, enda um almennt matskennt ákvæði að ræða. Íbúar í borg geti ávallt átt von á því að nánasta umhverfi þeirra taki einhverjum breytingum, sem m.a. geti haft í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp og umferðaraukningu. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. Áhrif umræddra breytinga séu ekki svo veruleg að leitt geti til ógildingar hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Telji aðilar sig hins vegar geta sannað að þeir hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt gerist hjá fasteignaeigendum í þéttbýli eigi þeir bótarétt skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, en um bótarétt sé úrskurðarnefndin ekki bær til að fjalla.

——————————

Rétthafa lóðarinnar nr. 42-44 við Stóragerði var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í tilefni af kærumáli þessu en engar athugasemdir hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem í gildi var er hin kærða ákvörðun var tekin, og stendur einbýlishús kæranda nr. 33 við Stóragerði gegnt fyrrgreindum lóðum. Ekki verður fallist á það með kæranda að kynningaruppdráttur hafi verið villandi á þann hátt að reynt hafi verið að draga úr umhverfisáhrifum, en á honum kemur fram að heimilt verði að byggja fjögurra hæða fjölbýlishús með allt að 14 íbúðum, nýtingarhlutafall ofanjarðar verði 1,0 og jafnframt er byggingarreitur sýndur heldur rýmri en hin kærða breyting felur í sér.

Samkvæmt ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 höfðu sveitarstjórnir víðtækt skipulagsvald innan marka sveitarfélags, sbr. 2. mgr. 3. gr., 23. gr. og 26. gr. laganna. Í því fólst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Ekki verður talið að kærandi eigi einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni tengda ásýnd og heildaryfirbragði skipulagssvæðisins, sem fyrst og fremst taka mið af skipulagslegum sjónarmiðum og markmiðum skipulagsyfirvalda við mótun og þróun byggðar. Hið umdeilda fjölbýlishús að Stóragerði 42-44, sem heimilað er með hinni kærðu skipulagsbreytingu, getur hins vegar haft nokkur grenndaráhrif gagnvart kæranda vegna aukinnar umferðar, sem vænta má að leiði af fjölgun íbúða og nálægð fasteignar hans við nefnda lóð. Aukning umferðar í hverfinu vegna fjölgunar íbúða á grundvelli hinnar kærðu skipulagsbreytingar, sem samkvæmt gögnum málsins telst 4% verður þó ekki talin veruleg. Fyrir liggja skýringarmyndir um skuggavarp við sumarsólstöður kl. 13, 16 og 18, og við jafndægur að hausti fyrir sömu tímamörk, og samkvæmt þeim myndum fellur ekki skuggi frá umræddri byggingu inn á lóð kæranda á þeim tímum. Samkvæmt því hefur skuggavarp ekki grenndaráhrif að marki.

Vanhæfisreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998  fjalla um sérstakt hæfi einstaklinga í ljósi persónulegra hagsmuna eða tengsla, sem í krafti starfs síns eða embættis í opinberri stjórnsýslu koma að meðferð máls og töku ákvarðana. Um slík tengsl eða hagsmuni er ekki að ræða hér og kemur því ekki til álita að ógilda hina kærðu ákvörðun á grundvelli reglna um vanhæfi.

Með vísan til þess sem að framan greinir, og þar sem ekki verður annað af fyrirliggjandi gögnum ráðið en að meðferð umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi verið lögum samkvæmt, er kröfu kæranda um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. febrúar 2008 er lítur að breyttum mörkum deiliskipulags Espigerðis frá árinu 1971.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

112/2013 Klettaskóli

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2013, kæra á þeirri ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. nóvember 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. desember 2013, er barst nefndinni 9. s.m., kæra 25 íbúar við Beykihlíð, Birkihlíð, Víðihlíð og Reynihlíð í Reykjavík þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. nóvember 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júlí 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra 34 íbúar við Beykihlíð, Birkihlíð og Víðihlíð í Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2015 að samþykkja umsókn um takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu vegna viðbyggingar við Klettaskóla á lóðinni nr. 9 við Suðurhlíð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 57/2015, sameinað máli þessu. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 18. febrúar 2014 og 30. júlí 2015.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 24. október 2012 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suðurhlíða vegna lóðarinnar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla. Tillagan var auglýst frá 12. nóvember 2012 og var frestur til að gera athugasemdir upphaflega veittur til 24. desember s.á. Kynningartími og athugasemdafrestur var þó framlengdur fjórum sinnum og rann hann út 19. mars 2013. Kynningarfundir voru haldnir 19. desember 2012 og 25. febrúar 2013. Á tímabilinu frá janúar til júlí 2013 var unnið að endurskoðun tillögunnar og voru þá haldnir þrír fundir með fulltrúum hagsmunaaðila/íbúa. Hinn 24. maí 2013 var enn haldinn kynningarfundur og var þar greint frá breyttri tillögu og samráði.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. júlí 2013 var lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu á deiliskipulagi Suðurhlíða vegna lóðarinnar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla, sbr. deiliskipulagsuppdrátt, dags. 30. apríl 2013. Einnig var lagður fram skýringaruppdráttur, dags. sama dag. Í tillögunni var gert ráð fyrir uppbyggingu á lóðinni, m.a. breytingu á byggingarreit og aukningu byggingarmagns, auk þess sem gert var ráð fyrir boltagerði á lóðinni. Hagsmunaaðilar á svæðinu voru upplýstir um tillöguna bréflega og var hún auglýst frá 2. ágúst til og með 13. september 2013. Athugasemdir bárust á kynningartíma, auk yfirlýsingar yfir 200 íbúa í Suðurhlíðum frá 5. mars 2013. Athugasemdirnar voru kynntar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 23. október s.á. og var þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. s.m. Tillagan var lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 30. s.m. og samþykkt með vísan til áðurnefndrar umsagnar skipulagsfulltrúa. Borgarráð samþykkti tillöguna hinn 7. nóvember s.á. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. janúar 2014.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar 11. mars 2014 var tekin fyrir umsókn Reykjavíkurborgar um að byggja við matshluta 01 og 02, viðbyggingu við Klettaskóla, sundlaug, íþróttahús, hátíðarsal, stjórnunarálmu, félagsmiðstöð og nýtt anddyri og breyta fyrirkomulagi í öllu núverandi húsi á lóð nr. 9 við Suðurhlíð. Var umsóknin samþykkt með vísan til þess að hún samræmdist ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Lá þar með fyrir samþykkt byggingaráforma. Hinn 24. mars 2015 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu vegna viðbyggingar við Klettaskóla á lóðinni nr. 9 við Suðurhlíð, einnig með vísan til laga nr. 160/2010.

Klettaskóli, sem stendur á lóð Suðurhlíðar 9, er sérskóli á grunnskólastigi sem tók til starfa árið 2011. Skólinn leysti af hólmi Öskjuhlíðarskóla, sem áður var starfræktur á sama stað, og Safamýrarskóla og þjónar hann öllu landinu. Um svæðið gildir deiliskipulag Suðurhlíða, sem samþykkt var í borgarráði 10. febrúar 1987.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að breytingaráform á lóðinni nr. 9 við Suðurhlíð, eins og þau liggi fyrir í tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar, gangi þvert á ákvæði gildandi aðalskipulags Reykjavíkur um Suðurhlíðahverfi, en þar sé því lýst sem fullbyggðu og fastmótuðu hverfi sem skipulagt hafi verið sem ein heild og hafi heilsteypt yfirbragð. Gert sé ráð fyrir að leyfilegt byggingarmagn verði aukið úr 4.993 m2 í 7.000 m2 eða um ríflega 40%. Þá sé gert ráð fyrir að hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar hækki úr 0,29 í 0,41, eða um 41,4%. Slík aukning á tiltölulega þröngu svæði sé langt umfram það sem eðlilegt geti talist ef gera þurfi smávægilegar breytingar á deiliskipulagi innan þess ramma sem aðalskipulag og grenndarréttur myndi. Hún samræmist ekki yfirlýsingu aðalskipulagsins um fullbyggt og fastmótað hverfi og sé auk þess í andstöðu við þann léttleika og þau opnu rými sem gildandi deiliskipulag geri ráð fyrir að séu ríkjandi á lóðinni. Samkvæmt tillögunni verði hið aukna byggingarmagn að langmestu leyti á nyrðri hluta lóðarinnar, í suðurátt séð frá Beykihlíð og efri hluta Birkihlíðar.

Deiliskipulagsbreytingin uppfylli ekki kröfur og skilyrði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um framsetningu og skilmála. Samkvæmt tillögunni sé gert ráð fyrir um 80 m löngum vegg nálægt lóðarmörkum gagnvart Beykihlíð 2-8 en af sneiðmyndum að dæma sé veggurinn 5,0-7,5 m hár næst aðliggjandi lóðum. Illmögulegt sé þó að gera sér grein fyrir hæðarsetningu og ekki verði séð að gætt hafi verið ákvæðis 3. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð um hæðartölur, sbr. einnig 4. mgr. gr. 5.3.2.2. að því er hæðarsetningu lóðarinnar varði. Eftir sé að gera ráð fyrir loftræsibúnaði ofan á þak þess húss sem veggurinn sé hluti af og samræmist það ekki heldur framangreindu ákvæði skipulagsreglugerðar, en samkvæmt því beri að tilgreina hámarkshæð á þaki og öðrum byggingarhlutum sem nái upp fyrir vegg, svo sem skorsteinum og tæknirýmum. Verði veggurinn reistur muni hann takmarka verulega rýmistilfinningu og útsýni kærenda. Útsýnisskerðing og skuggavarp verði meira en byggingar samkvæmt núgildandi deiliskipulagi myndu valda auk þess sem hljóð- og ljósmengun, sem fylgi sundlaugum, hafi ekki verið könnuð á viðhlítandi hátt við gerð deiliskipulagstillögunnar, sbr. 4. mgr. gr. 5.3.2. og gr. 5.3.2.6. í skipulagsreglugerð.

Í deiliskipulagstillögunni sé á engan hátt gerð grein fyrir því hvernig stefnt sé að framkvæmd skipulagsins, sbr. gr. 5.3.2.20. í skipulagsreglugerð, þrátt fyrir að ráðgert sé að verja 1,7 milljörðum króna í framkvæmdirnar og að þær muni standa yfir árum saman. Þá virðist sem íþróttahúsið og sundlaugin verði ekki eingöngu til afnota fyrir nemendur Klettaskóla heldur standi jafnvel til að leigja húsnæðið út utan hefðbundins skólatíma. Ekkert mat hafi hins vegar farið fram á umferðarálagi og bílastæðaþörf verði íþróttahúsið og sundlaugin nýtt af öðrum en nemendum, svo sem ef haldin verða þar fjölmenn íþróttamót. Ólíklegt sé að fyrirhugaður fjöldi bílastæða dugi við mannmargar samkomur. Þá liggi ekkert fyrir um það hvaða forsendur búi að baki áliti umferðarsérfræðings borgarinnar að því er varði áhrif á umferð og bílastæðaþörf, en álitið hafi ekki verið kynnt. Fara þurfi fram viðhlítandi könnun á áhrifum nýbygginganna og starfsemi í þeim á umferð og bílastæðaþörf, þar á meðal á kvöldin og um helgar.

Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 24. október 2013 hafi verið vísað til þess að þeir húshlutar skólans sem eftir hafi verið að byggja samkvæmt gildandi deiliskipulagi, þ.e. íþróttahús og sundlaug, hafi breyst með tilliti til þarfa samtímans um slíkar byggingar. Ekki sé nánar útskýrt hvað í þessum orðum felist. Útsýnismyndir sem fylgt hafi deiliskipulagstillögunni hafi verið ónákvæmar og umsögn skipulagsfulltrúa hafi ekki fylgt skuggavarpsmynd miðað við gildandi deiliskipulag, en kærendur séu ósammála því að birtuskerðing verði lítil sem engin samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni. Það sé ekki aðeins lengd skugga sem máli skipti heldur einnig birtu- og rýmistilfinning nágranna, en ljóst sé að svo há og löng bygging skapi á öllum árstímum stórt, samfellt, dökkt svæði á norðurhlið, sem snúi að húsunum við Beykihlíð og efri hluta Birkihlíðar.

Heimildir sveitarstjórna til breytinga á gildandi deiliskipulagi samkvæmt 43. gr. skipulagslaga takmarkist meðal annars af réttindum nágranna og réttmætum væntingum þeirra um að yfirbragði og byggðamynstri rótgróins hverfis verði ekki raskað verulega og þrengt að nágrönnum á þann hátt sem tillagan feli í sér. Þær breytingar sem gerðar hafi verið á deiliskipulagstillögunni frá því að hún var fyrst lögð fram hafi ekki dugað til þess að milda áhrifin af hæð húsanna. Þá sé því hafnað að hin kærða tillaga til breytingar á deiliskipulagi hafi verið unnin í samráði við íbúa hverfisins. Tillagan feli í sér víðtækar breytingar á yfirbragði Suðurhlíðahverfis og byggðamynstri sem séu langt umfram það sem íbúar á svæðinu hafi mátt búast við.

Í kæru vegna útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis til framkvæmda á lóð Suðurhlíðar 9 kemur fram að samþykkt hafi verið að veita leyfið hinn 24. mars 2015, en íbúum hafi þó ekki orðið kunnugt um leyfið strax. Raunar hafi starfsmenn Reykjavíkurborgar fullyrt, í lok mars og byrjun apríl 2015, að byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út. Sprengivinna hafi hafist 21. júlí 2015 á grundvelli leyfisins án nokkurs fyrirvara eða aðvörunar til íbúa í nágrenninu og hafi íbúar kallað lögreglu til af þeim sökum.

Undanþáguheimild 2. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga þar sem fjallað sé um heimild til að veita takmarkað byggingarleyfi beri að beita af varúð og, eins og segi í lagaákvæðinu, þegar sérstaklega standi á, en þær aðstæður séu ekki fyrir hendi í þessu máli. Grundvallarágreiningur sé um gildi deiliskipulagsbreytingarinnar sem borgarráð hafi samþykkt 7. nóvember 2013 og sá ágreiningur standi í vegi fyrir því að gefið sé út takmarkað byggingarleyfi sem feli í sér verulega umfangsmiklar, óafturkræfar jarðvegsframkvæmdir, þar á meðal mikla sprengivinnu í bergi. Hið kærða byggingarleyfi hafi því verið veitt á röngum forsendum og án viðhlítandi lagaheimildar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg vísar til þess að á lóð Suðurhlíðar 9 hafi verið rekinn skóli frá árinu 1974, en áætlað hafi verið að byggja hann í þremur áföngum. Annar áfangi skólans hafi verið byggður árið 1985 og áform um þriðja áfangann, sem hafi meðal annars samanstaðið af hátíðarsal, íþróttasal og sundlaug, komi fram á byggingarnefndarteikningum frá árinu 1983. Hinn 9. febrúar 2012 hafi borgarráð ákveðið að ráðast í byggingu þriðja og síðasta áfangans. Breyta hafi þurft deiliskipulagi til þess að koma mætti fyrir nauðsynlegum byggingum, með hliðsjón af breyttum áherslum og kröfum til skólabygginga frá því sem miðað hafi verið við árið 1983. Markmiðið hafi verið að uppfylla þarfir Klettaskóla um nauðsynlegt húsnæði sem hæfði nemendum hans og að tryggja að byggingin félli vel að lóðinni og hefði sem mildasta ásýnd. Skólinn sé ætlaður börnum með sérþarfir og hannaður með það í huga, sbr. m.a. 20. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og reglugerð nr. 657/2009 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða.

Í kjölfar athugasemda, sem gerðar hafi verið við deiliskipulagstillöguna sem borgarráð samþykkti að auglýsa 25. október 2012, hafi verið gerðar breytingar á henni. Meðal annars hafi byggingarreitir verið færðir af eystri hluta lóðarinnar yfir á norðurhluta hennar, en sú staðsetning þjóni þörfum skólans best, leiði til minnstrar röskunar á ásýnd hverfisins og fjölgi opnum rýmum á lóðinni. Þá hafi hönnun húsa verið breytt, fyrirhuguð bílastæði felld brott, aðkomu bíla að skólanum breytt, hús lækkuð og boltagerði fært til. Fyrirhugaðar byggingar á lóðinni séu í samræmi við aðra byggð á svæðinu, meðal annars hæð þeirra. Þá verði hæðarmunur í landslaginu nýttur og einstaka byggingar grafnar inn í landið, sem leiði til mildunar á sjónrænum áhrifum af salarhæð þeirra. Er skírskotað til þess að salarhæð íþróttahúss hafi jafnframt verið lækkuð um 1,0 m og salarhæð sundlaugarhúss um 0,5 m. Ekki séu gerðar breytingar á byggðamynstri með hinni kærðu tillögu og því sé mótmælt að aukið byggingarmagn og hærra nýtingarhlutfall samræmist ekki byggðamynstri hverfisins, sem sé þéttbyggt. Þá sé ekki tekin afstaða til útlits bygginga í deiliskipulagi heldur ráðist það af teikningum sem fylgi byggingarleyfisumsókn. Bent sé á að útsýni í þéttri byggð teljist ekki réttur eigenda fasteigna, en geti talist til lífsgæða.

Því sé með öllu hafnað að deiliskipulagsbreytingin sé í andstöðu við lýsingu á hverfinu í aðalskipulagi. Hvað aukningu á heimiluðu byggingarmagni varði þurfi að hafa í huga að Suðurhlíð 9 sé meðalstór lóð, samtals 17.223 m2. Hámarksnýtingarhlutfall hennar fari úr 0,29 í 0,41 með samþykkt hinnar kærðu tillögu, en það sé í samræmi við almennt nýtingarhlutfall í hverfinu. Auðséð sé að nýtingarhlutfallið sé tiltölulega lágt og að byggingar á lóðinni verði í minnihluta gagnvart opnum svæðum.

Bent sé á að í deiliskipulagi Suðurhlíða frá 1987 hafi verið afmarkaðir byggingarreitir á norðvestanverðri lóðinni og því hafi verið ráðgert að byggja þar áður, þótt byggingarreitum hafi nú verið breytt og gert sé ráð fyrir meiri byggingarmassa. Þá sé vakin athygli á því að við vinnslu hinnar kærðu tillögu hafi byggingarreitir verið færðir til suðurs frá lóðarmörkum og þannig komið til móts við óskir nágranna.

Eins og fram komi í skilmálum hinnar kærðu tillögu hafi byggingarreitum verið skipt í reiti A-F og tilgreind sé hámarksþakhæð bygginga á hverjum reit. Jafnframt segi þar að loftræsimannvirki og þakgluggar megi ná upp fyrir hámarkshæð þakplatna. Með því sé lögð áhersla á að heimilt sé að lítilvæg mannvirki, sem séu í eðlilegum tengslum við starfsemi í byggingunni, nái upp fyrir hámarkshæð. Slíkt sé alvanalegt um umfangslítil tæknirými og skorsteina og í samræmi við almennar venjur um framsetningu deiliskipulags. Ef hins vegar væri tekið tillit til þessa við ákvörðun hámarkshæðar myndi það leiða til þess að hæð byggingarinnar í heild yrði tilgreind meiri en hún væri í raun. Slík framsetning væri ekki í samræmi við kröfur sem gerðar væru til deiliskipulagstillagna um að sýna með skýrum hætti umfang byggingarheimilda.

Athugasemdum um að ekki hafi verið gerð grein fyrir því hvernig stefnt sé að framkvæmd deiliskipulagstillögunnar sé vísað á bug, en Reykjavíkurborg sem framkvæmdaraðili muni ljúka frágangi utanhúss innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis, sbr. samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 1998. Ljóst megi vera að framkvæmdir hefjist um leið og heimildir til verksins hafi fengist. Því sé hafnað að framsetning deiliskipulagstillögunnar sé í ósamræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar, en allar nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt reglugerðinni komi skýrt fram í tillögunni. Þá hafi tillagan verið kynnt íbúum á svæðinu með greinargóðum hætti allt frá því að vinna við deiliskipulagsbreytinguna hófst. Jafnframt hafi umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir við auglýsta tillögu til breytinga á deiliskipulagi Suðurhlíða verið unnin í samræmi við 1. mgr. gr. 5.7.1. í skipulagsreglugerð.

Byggingar þær sem rísi á lóðinni séu fyrst og fremst ætlaðar nemendum Klettaskóla. Hins vegar sé um mikla fjárfestingu að ræða og til greina komi að nýta húsnæðið að einhverju leyti undir aðra starfsemi. Leitast verði við að nýta sérhæfðar byggingar eins vel og mögulegt er. Til að mynda sé ráðgert að sérhæfð íþróttafélög, svo sem Íþróttafélag fatlaðra, og skyld starfsemi geti nýtt aðstöðuna utan skólatíma, enda samrýmist það fyllilega notkun bygginganna og skipulagi að öðru leyti. Því sé hafnað að ekki hafi verið gerð fullnægjandi könnun á áhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar á umferð í hverfinu. Leitað hafi verið óformlegs álits sérfræðinga á samgönguskrifstofu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar en ekki hafi verið talin þörf á sérstakri greiningu á áhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar á umferð. Samþykkt tillögunnar hafi ekki verið talin hafa í för með sér aukna umferð um hverfið enda legðist af sérhæfður akstur, svo sem akstur með skólabörn á skólatíma í íþróttir og félagsstarf, þegar byggingarnar yrðu fullkláraðar. Þá væri ekki gert ráð fyrir fjölgun nemenda eða starfsfólks. Þrátt fyrir að sérstök íþróttafélög geti nýtt aðstöðuna muni heildarumferð ekki aukast. Þá sé það faglegt mat Reykjavíkurborgar að fyrirhugaður fjöldi bílastæða fyrir lóðina sé nægur.

Heimildarákvæði 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sæti ekki öðrum takmörkunum en þeim að fara skuli um deiliskipulagsbreytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Þótt það sé meginregla að deiliskipulag sé bindandi og varanleg samþykkt um skipulag tiltekins svæðis hafi löggjafinn heimilað sveitarstjórn að breyta því, enda geti þróun borga og bæja kallað á slíkar breytingar, meðal annars vegna þarfa íbúa sveitarfélagsins. Hafa verði í huga að skóli hafi staðið við Suðurhlíð 9 frá því áður en deiliskipulag fyrir svæðið tók gildi og að í deiliskipulaginu hafi verið til staðar heimild fyrir auknu byggingarmagni á lóðinni sem ekki hafi enn verið nýtt. Í ljósi breyttra aðstæðna og krafna hafi Reykjavíkurborg talið hagkvæmt að færa rekstur annarra þjónustustofnana á umrædda lóð. Auknar byggingarheimildir séu nátengdar starfsemi sem nú þegar sé á lóðinni og raski ekki yfirbragði svæðisins og byggðamynstri.

Varðandi kæru vegna útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis til framkvæmda á lóð Suðurhlíðar 9 sé vísað til þess að deiliskipulagsbreytingin, sem kærendur vísi til, sé í gildi og hafi ekki verið hnekkt. Á meðan svo standi á sé heimilt að veita leyfi til framkvæmda í samræmi við hana. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga geti leyfisveitandi, þegar sérstaklega standi á, veitt skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkist leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn. Þau hafi legið fyrir vegna verksins þegar hið umþrætta leyfi var samþykkt, en um sé að ræða stóra, flókna og viðamikla framkvæmd. Alvanalegt sé að veita takmörkuð byggingarleyfi fyrir undirbúningi framkvæmda í slíkum tilvikum. Leyfið eigi sér fullnægjandi lagastoð og sé í samræmi við skipulagsheimildir á svæðinu.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 28. ágúst 2015.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Suðurhlíðar 9, Klettaskóla, og byggingarleyfi til framkvæmda á sömu lóð.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Kærendur máls þessa eru íbúar og eigendur tilgreindra húsa við Beykihlíð, Birkihlíð, Víðihlíð og Reynihlíð. Hverfið er gróið og standa hús kærenda við Reynihlíð í töluverðri fjarlægð frá Suðurhlíð 9 og skilja bæði götur og hús þar á milli. Sömu sögu er að segja um húsin að Beykihlíð nr. 1, 3, 5, 9, 11, 13 og 15. Þau hús standa reyndar nær framkvæmdasvæðinu en gróinn lundur skilur einnig á milli hluta þeirra. Telur nefndin ljóst, þegar miðað er við staðsetningu húsa nefndra kærenda og afstöðu til fyrirhugaðra mannvirkja, að hvorki verði um útsýnisskerðingu að ræða né svo verulegar breytingar á umferð að varðað geti hagsmuni þessara kærenda á þann veg að þeir eigi þá einstaklingsbundnu og lögvörðu hagsmuni tengda gildi umdeildra ákvarðana að skapi þeim kæruaðild skv. áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfum þeirra því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kærendur skírskota til þess að fyrirhugaðar breytingar á lóð Suðurhlíðar 9 samræmist ekki aðalskipulagi og vísa máli sínu til stuðnings til umfjöllunar í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þegar hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt var Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 í gildi, en samkvæmt því var Suðurhlíð 9 á svæði fyrir þjónustustofnanir og er lóðin skráð sem viðskipta- og þjónustulóð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Fram kemur í greinargerð aðalskipulagsins að byggingarmagn og nýtingarhlutfall á svæðum fyrir þjónustustofnanir sé ákveðið í deiliskipulagi. Ekki verður annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu þágildandi aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Af gögnum málsins verður ekki séð að fyrirhugaðar byggingar á lóð Suðurhlíðar 9 muni varpa skugga á aðliggjandi lóðir svo nokkru varði. Af skýringaruppdrætti og könnun úrskurðarnefndarinnar á aðstæðum er hins vegar ljóst að byggingarnar munu skerða útsýni frá nágrannalóðum við Beykihlíð og Birkihlíð auk þess sem starfsemi í þeim kann að hafa í för með sér aukningu á umferð utan hefðbundins skólatíma. Þá liggur fyrir að óþægindi geta stafað af lýsingu fyrirhugaðs sundlaugarhúss, að innan sem utan. Á hinn bóginn verður að hafa hugfast að umrædd lóð hefur frá byggingu hverfisins verið ætluð fyrir þjónustu þá sem þar fer fram og að nýting byggingarheimilda að fullu samkvæmt óbreyttu skipulagi hefði einnig haft í för með sér aukin grenndaráhrif miðað við fyrra ástand. Þá var hæð bygginga lækkuð frá því sem í upphafi var auglýst til að koma til móts við athugasemdir íbúa í hverfinu. Að teknu tilliti til framangreinds verður ekki talið að breytingin sé slík að réttur kærenda sé fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Kærendur geta hins vegar eftir atvikum leitað bótaréttar úr hendi sveitarfélagsins í samræmi við 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Hvorki er í lögum né reglugerðum að finna kröfur um lágmarksfjölda bílastæða að öðru leyti en því að fram kemur í 1. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að taka skuli mið af ákvæðum byggingarreglugerðar varðandi fjölda og fyrirkomulag bílastæða fyrir fatlaða. Deiliskipulagsbreytingin gerir ráð fyrir þremur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð Suðurhlíðar 9 og er það í samræmi við kröfur 5. mgr. gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, með þeim breytingum sem þá höfðu verið gerðar á ákvæðinu. Samkvæmt 3. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð skal tilgreina í deiliskipulagi hámarkshæð á þaki og öðrum byggingarhlutum sem ná upp fyrir vegg, svo sem skorsteinum og tæknirýmum. Í skilmálum hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er hámarkshæð þakflata tilgreind en jafnframt tiltekið að loftræsimannvirki og þakgluggar megi ná upp fyrir þá hæð án þess að hámarkshæð þeirra sé tiltekin. Er þessi framsetning ekki í fullu samræmi við framangreint ákvæði skipulagsreglugerðar en þykir þó ekki gefa tilefni til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, enda eru loftræsimannvirki og þakgluggar almennt ekki þeirrar gerðar að um verulega breytingu verði að ræða.

Loks var málsmeðferð í samræmi við skipulagslög. Þannig var hin umdeilda breytingartillaga auglýst til kynningar lögum samkvæmt, fram komnum athugasemdum var svarað, tillagan samþykkt og gildistaka breytingarinnar auglýst í kjölfarið.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafnað.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar liggur fyrir að samþykkt byggingaráforma átti sér stoð í gildandi deiliskipulagi og telur úrskurðarnefndin að skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 hafi verið fyrir hendi til útgáfu hins kærða takmarkaða byggingarleyfis, enda ljóst að um umfangsmikla framkvæmd er að ræða. Ónæði af framkvæmdunum er tímabundið og hefur ekki áhrif á niðurstöðu um lögmæti leyfisins og þurfa íbúar hverfisins, rétt eins og íbúar í þéttbýli almennt, að sæta því. Með vísan til framangreinds, og þar sem ekki liggur fyrir að neinir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við ákvarðanatökuna, verður gildi leyfisins heldur ekki raskað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfum kærenda við Reynihlíð sem og að Beykihlíð nr. 1, 3, 5, 9, 11, 13 og 15.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. nóvember 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2015 um að samþykkja umsókn um takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu vegna viðbyggingar við Klettaskóla á lóðinni nr. 9 við Suðurhlíð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson