Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

123/2014 Skipasund

Árið 2016, fimmtudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 123/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Skipasundi 43 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2014, er barst nefndinni 4. desember s.á., kærir Á, Skipasundi 41, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 að veita m.a. leyfi til að byggja svalir og stiga niður í garð og færa til kofa við hús á lóð nr. 43 við Skipasund í Reykjavík. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að farið sé fram á ógildingu greindrar ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. janúar 2014.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. júlí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja svalir með tröppum niður í garð við húsið að Skipasundi 43, breyta staðsetningu kofa og færa innkeyrslu og byggingarreit fyrir bílskúr á lóðinni. Var erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem samþykkti á fundi sínum 11. s.m. að grenndarkynna umsóknina. Eftir grenndarkynninguna var málið á dagskrá skipulagsfulltrúa, sem vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs á fundi hinn 5. september 2014. Umhverfis- og skipulagsráð tók málið fyrir á fundi sínum 10. s.m. Á fundinum lá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 4. s.m. þar sem fram komnum athugasemdum var svarað og mælt með því að umsóknin yrði samþykkt með tilgreindum skilyrðum. Engar athugasemdir komu fram á fundinum við umsögnina og var vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa, sem samþykkti umsóttar breytingar á fundi hinn 16. september 2014.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að útfærsla svala með stiga niður í garð, sem heimiluð sé með hinni kærðu ákvörðun, geri það að verkum að þaðan sé horft beint inn í stofu og sólstofu kæranda. Viðbygging við hús kæranda hafi verið hönnuð með stórum gluggum til austurs þar sem ekki hefði verið um innsýn að ræða, en með tilkomu nefndra svala og stiga yrði staðan önnur. Kærandi hafi ekki mótmælt þessum framkvæmdum enda talið einfalt að hindra þessi áhrif með útfærslu mannvirkisins og hækkun skjólveggjar upp í 1,5 m. Raunin hafi hins vegar orðið sú að horft sé frá svölunum og stiganum inn í stofu og sólstofu kæranda. Óbreytt ástand muni verða kæranda til ama og leiða til þess að fasteign hans falli í verði. Loks sé farið fram á að smáhýsi sem standi of nálægt umræddum lóðamörkum verði fært til samræmis við ákvörðun byggingarfulltrúa og ákvæði byggingarreglugerðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að að tekið hafi verið tillit til fram kominna athugasemda kæranda við grenndarkynningu fyrirhugaðra breytinga að Skipasundi 43. Sá hluti skjólveggjar er snúi að fasteign kæranda hafi verið hækkaður í 1,5 m í þeim tilgangi að takmarka innsýn í stofu og borðstofu kæranda. Ekki verði talið að mannvirkið hafi slíka röskun í för með sér gagnvart kæranda að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi  en um 12 m séu milli umræddra svala og húss kæranda. Heimilaðar svalir hafi ekki meiri grenndaráhrif en að jafnaði megi búast við þegar breytingar séu gerðar á húsum í þéttbýli. Skúr sá sem standi á nefndri lóð sé innan við 10 m2 að stærð og sé ekki byggingarleyfisskyldur. Skúrinn beri þó að staðsetja minnst þrjá metra frá lóðamörkum samkvæmt byggingarreglugerð.

Andmæli byggingarleyfishafa: Skírskotað er til þess að framkvæmdir eins lóðarhafa geti ekki takmarkað eða komið í veg fyrir framkvæmdir á nærliggjandi lóðum. Hinar kærðu breytingar séu óverulegar í samanburði við það sem samþykkt hafi verið á lóð kæranda. Vegna athugasemda kæranda hafi byggingarleyfishafi orðið við tilmælum skipulags- og byggingarsviðs um að hækka hluta skjólveggjar, sem snúi að lóð kæranda, í 1,5 m í þeim tilgangi að takmarka beina sýn inn um stofuglugga á húsi kæranda. Sú hlið húss kæranda sem snúi að lóð byggingarleyfishafa sé með glugga er nái frá gólfi til lofts og blasi sú hlið hússins við frá lóð leyfishafa án tillits til umdeildra framkvæmda. Bent sé á að uppbyggð verönd sé á húsi kæranda með sýn yfir á lóð leyfishafa. Smáhýsi á lóð leyfishafa verði fært þrjá metra frá lóðamörkum, í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, og til að jafnræðis verði gætt sé farið fram á það að íverustaður sem kærandi hafi komið fyrir við lóðarmörk leyfishafa verði færður.

Niðurstaða:  Smáhýsi það sem kemur við sögu í máli þessu er ekki byggingarleyfisskylt, sbr. g-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hins vegar verður samkvæmt nefndu ákvæði að liggja fyrir samþykki rétthafa aðliggjandi lóðar fyrir stöðu slíks húss innan þriggja metra frá lóðamörkum. Kærandi hefur lýst sig samþykkan staðsetningu hússins eins og hún er sýnd á fyrirliggjandi uppdrætti, sem staðfestur hefur verið af byggingarfulltrúa, og leyfishafi hefur lýst því yfir að húsið verði ekki staðsett nær lóðarmörkum kæranda en í þriggja metra fjarlægð. Með hliðsjón af þessum málsatvikum, og þar sem ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun varðandi staðsetningu smáhýsisins sem borin verður undir úrskurðarnefndina skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, verður ekki fjallað frekar um þann þátt málsins.

Ágreiningsefni máls þessa lýtur fyrst og fremst að hönnun svala við hús byggingarleyfishafa að Skipasundi 43, sem kærandi telur að muni hafa óæskileg grenndaráhrif gagnvart sinni fasteign að Skipasundi 41 vegna innsýnar.

Húsið að Skipasundi 43 er kjallari, hæð og ris. Samkvæmt fyrirliggjandi uppdráttum eru umræddar svalir 13,6 m2 að flatarmáli og nemur gólfflötur þeirra við gólf fyrstu hæðar hússins, og er í um 2,3 m hæð frá lóðaryfirborði. Snýr skammhlið svalanna, sem er um 2,4 m að breidd, að lóð kæranda og er skjólveggur á þeirri hlið 1,5 m á hæð, en 1,1 m á öðrum hliðum svalanna. Svalirnar og stigi frá þeim niður á lóð eru úr timbri og munu vera í um 12 m fjarlægð frá húsi kæranda. Á árinu 2004 var heimiluð rúmlega 100 m2 viðbygging við hús kæranda, sem liggur í átt að lóðamörkum umræddra lóða. Er hús kæranda nú 181,1 m2 en hús byggingarleyfishafa 144,9 m2. Báðar lóðir eru jafn stórar, eða 549 m2 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár. Nýtingarhlutfall lóðar kæranda er því mun hærra en lóðar byggingarleyfishafa. Fyrrgreindar svalir eru ekki óvenjulegar að gerð og hafa ekki meiri grenndaráhrif en almennt má búast við að fylgi svölum við sambærileg hús. Liggur fyrir að skjólveggur sem snýr að lóð kæranda var hækkaður til að draga úr innsýn í hús kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin slíkum  ágöllum að leitt geti til ógildingu hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að veita m.a. leyfi til að byggja svalir og stiga niður í garð og færa til kofa við hús á lóð nr. 43 við Skipasund í Reykjavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson