Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

4/2012 Lindasmári

Með

Árið 2013, þriðjudaginn 31. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 4/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. janúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir U, Lindasmára 22, Kópavogi þá ákvörðun Bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. nóvember 2011 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kópavogsdals-norðursvæðis þar sem heimiluð var starfræksla hársnyrtistofu í parhúsinu að Lindasmára 20, Kópavogi.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Með bréfi dags. 26. júlí 2012, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, skaut kærandi jafnframt ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 10. júlí 2012, um að veita byggingarleyfi fyrir notkun hluta fasteingarinnar að Lindasmára 20 undir hársnyrtistofu, til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar.  Verður það mál, sem er nr. 77/2012,  sameinað máli þessu enda eru málsatvik beggja mála á sömu lund.    

Úrskurðarnefndinni bárust umbeðin gögn er málið varða frá Kópavogsbæ hinn 10. september 2012.

Málsatvik og rök:  Hinn 19. júlí 2011 tók skipulagsnefnd Kópavogs fyrir umsókn um heimild til að reka hársnyrtistofu að Lindasmára 20.  Var samþykkt að grenndarkynna breytingu á deiliskipulagi í þá veru á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Athugasemdir bárust m.a. frá kæranda á kynningartíma tillögunnar.  Skipulagsnefnd tók málið fyrir hinn 15. nóvember 2011 og samþykkti umrædda skipulagbreytingu með því skilyrði að bætt yrði við einu bifreiðastæði á lóð Lindasmára 20.  Bæjarstjórn samþykkti þá afgreiðslu hinn 22. nóvember s.á. og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. desember 2011.  Hið kærða byggingarleyfi var síðan gefið út með stoð í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hinn 10. júlí eins og að framan greinir.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að umdeild skipulagsbreyting raski hagsmunum hans og með henni sé farið gegn lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 auk þess sem hin kærða ákvörðun sé haldin form- og efnisannmörkum.  Hið kærða byggingarleyfi sé undir sömu sök selt, enda sé farið um sameiginlega lóð að bílastæði því sem þar sé gert ráð fyrir.

Bæjaryfirvöld byggja á því að hin kærða skipulagsbreyting varði séreign eiganda Lindasmára 20.  Farið hafi verið að lögum við málsmeðferð ákvörðunarinnar og sama eigi við um byggingarleyfið.   

Niðurstaða:   Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartiðinda er birtist hinn 15. mars 2013 afturkallaði bæjarstjórn Kópavogs hina kærðu deiliskipulagsbreytingu hinn 12. mars s.á.  Þá liggur fyrir að byggingarfulltrúi samþykkti afturköllun hins kærða byggingarleyfis hinn 22. maí 2013.

Hafa hinar kærðu ákvarðanir að framangreindum ástæðum ekki lengur réttarverkan að lögum og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þeirra ákvarðana.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson

66/2012 Meðalfellsvatn

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 21. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 66/2012, kæra vegna byggingar sumarbústaðar við Meðalfellsvatn í Kjósarhreppi. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júní 2012, er barst nefndinni 20. s.m., mótmæla F, Grundargerði 2, Reykjavík og Ý, Svíþjóð, byggingu sumarbústaðar innan við 50 m frá vatnsbakka Meðalfellsvatns.

Málsatvik og rök:  Í erindi, dags. 10. júní 2012, til úrskurðarnefndarinnar mótmæla kærendur byggingu sumarbústaðar innan við 50 m frá vatnsbakka Meðalfellsvatns og falast eftir útskýringum.  Í erindinu kom fram að umræddur bústaður væri í byggingu á milli Flekkudalsvegar og austurenda vatnsins, væntanlega í landi Sands.  Jafnframt var tekið fram að ekki væri vitað hvort fyrir lægi samþykkt byggingarleyfi fyrir bústaðnum.  Kærendur vísuðu í gildandi aðalskipulag Kjósarhrepps og rökstuðning fyrir synjun skipulags- og byggingarnefndar hreppsins hinn 5. nóvember 2008 á umsókn þeirra um byggingarleyfi fyrir bátaskýli tilheyrandi Sandi 1 og 2.  Synjað hafi verið um það byggingarleyfi þrátt fyrir að legið hafi fyrir þinglýst leyfi fyrir byggingu bátaskýlisins á landi milli austurenda Meðalfellsvatns og Sands 20A þegar „leiguleyfi á Sandi 1 og 2 var keypt á sínum tíma“. 

———-

Í ljósi vafa um hvort umrætt erindi ætti undir úrskurðarnefndina var kærendum sent tölvubréf hinn 22. júní 2012 og óskað skýringa.  Bent var á að með erindinu væri ekki verið að kæra tiltekna ákvörðun og ekki hefði verið gerð grein fyrir því hvernig umrædd bygging snerti hagsmuni kærenda.  Úrskurðarnefndin ítrekaði fyrirspurn sína 2. ágúst 2012 og 2. apríl 2013.  Hinn 4. apríl 2013 barst svarbréf frá kærendum.  Þar var tekið fram að kærendur hafi ekki litið á fyrirspurn sína sem kæru en það mætti meðhöndla hana sem svo.  Ástæða fyrirspurnarinnar hafi verið sú að við kaup á bústöðum kærenda hefði legið fyrir þinglýst leyfi fyrir byggingu á bátaskýli við vatnið.  Byggingarnefnd Kjósarhrepps hafi hins vegar hafnað umsókn um byggingarleyfi fyrir bátaskýlinu og vísað í gildandi aðalskipulag um fjarlægð bygginga frá vatnsbakka.  Nú sé verið að byggja sumarbústað um 50 m frá þeim stað þar sem bátaskýlið hefði átt að vera samkvæmt þinglýstum teikningum.  Verði ekki annað séð en að bústaðurinn standi nær vatninu en leyfi sé fyrir samkvæmt aðalskipulagi.  Sé svo, séu kærendur ekki sáttir við afgreiðslu umsóknar sinnar um bátaskýli sem sé lægra og feli í sér minna rask en fullbyggt sumarhús. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. 

Í erindi sínu vísa kærendur til synjunar skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps á umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir bátaskýli, en sú ákvörðun hafi verið tekin á fundi nefndarinnar hinn 5. nóvember 2008.  Ljóst er að kærufrestur varðandi þá ákvörðun eru löngu liðinn og verður því ekki tekin afstaða til lögmætis þeirrar ákvörðunar. 

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. fyrrgreindra laga geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind.  Eins og málið er vaxið liggur ekki fyrir með hvaða hætti bygging umrædds bústaðar við Meðalfellsvatn snertir lögvarða hagsmuni kærenda og skortir því á að sýnt sé fram á kæruaðild í málinu.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

33/2013 Afskráning byggingarstjóra

Með

Árið 2013, þriðjudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 33/2013, kæra á afgreiðslu starfsmanns embættis byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. mars 2013 vegna afskráningar byggingarstjóra að framkvæmdum við Ármúla 6 og Laugaveg 178 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2013, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir S afgreiðslu starfsmanns embættis byggingarfulltrúa frá 25. mars 2013 á erindi kæranda, dags. sama dag, vegna afskráningar hans sem byggingarstjóra að framkvæmdum við Ármúla 6 og Laugaveg 178.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Í október 2012 fór kærandi fram það á við embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík að hann yrði afskráður sem byggingarstjóri að tilteknum framkvæmdum við Álagranda 2A, Höfðatún 2, Ármúla 6 og Laugaveg 178.  Í svarbréfi embættisins var á það bent að væri framkvæmdum lokið skyldi fara fram lokaúttekt á þeim samkvæmt byggingarreglugerð og viðeigandi yfirlýsingum skilað.  Þá kom fram í bréfinu að skoðun hefði leitt í ljós að verkin væru á misjöfnu byggingarstigi, svo sem nánar var tiltekið.  Urðu nokkur bréfaskifti milli kæranda og starfsmanna embættisins í framhaldi af þessu, en hinn 19. október 2012 staðfesti starfsmaður embættisins afskráningu kæranda vegna framkvæmda að Álagranda 2A og Höfðatúns 2. 

Hinn 13. mars 2013 óskaði kærandi á ný eftir staðfestingu á því að hann teldist ekki lengur byggingarstjóri vegna framkvæmda við Ármúla 6 og Laugaveg 178 og ítrekaði kærandi það erindi sitt 19. og 25. s.m.  Með svarbréfi frá starfsmanni embættis byggingarfulltrúa hinn 25. mars 2013 var tilgreint að eins og ítrekað hefði verið þá skyldi verkstaða vera skráð við byggingarstjóraskipti og stöðuúttekt gerð af byggingarfulltrúa.  Greiða skyldi sérstaklega fyrir slíka úttekt.  Tilkynnt hefði verið um afsögn á verkum við Ármúla 6 og Laugaveg 178 og tekið fram að þeim væri lokið.  Samkvæmt skráningarkerfi byggingarfulltrúa hefðu engar áfangaúttektir farið fram á framkvæmdum að Laugavegi 178 og ein áfangaúttekt að Ármúla 6. 

Kærandi vísar til gr. 4.7.8 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem fram komi að byggingarstjóri geti með tilkynningu til leyfisveitanda einhliða hætt sem skráður byggingarstjóri.  Eiganda beri að sjá til þess að framkvæmdir séu stöðvaðar þar til nýr byggingarstjóri með gilt starfsleyfi hafi undirritað ábyrgðaryfirlýsingu.  Skuli leyfisveitandi gera úttekt á stöðu framkvæmda þar sem fráfarandi byggingarstjóri, ef þess sé kostur, og hinn nýi byggingarstjóri undirrita úttektina.  Sé hvergi tiltekið í reglugerðinni að fráfarandi byggingarstjóri skuli hafa forgöngu um að gera úttekt á stöðu framkvæmda.  Þá sé ekki hægt að hafna því að byggingarstjóri fari einhliða frá verki með þeim rökum að t.d. áfangaúttektir hafi ekki verið gerðar eða að greiða þurfi fyrir úttekt. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá.  Að öðrum kosti verði kröfu kæranda hafnað.  Ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun skv. 1. gr. laga nr. 130/2011, sbr. og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verði ekki fallist á frávísun málsins sé á því byggt að ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 eigi ekki við hér heldur byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem í gildi hafi verið þegar skráning byggingarstjóra á þeim verkum sem talin séu upp í kæru hafi farið fram.  Um afskráningu byggingarstjóra hafi verið fjallað í 36. gr. reglugerðarinnar og hafi ávallt verið litið svo á, í samræmi við ákvæðið, að úttekt vegna byggingarstjóraskipta, og þar með byggingarstjóraskipti, færu ekki fram nema stöðuúttektar vegna byggingarstjóraskipta væri óskað af hálfu byggingarstjóra, greitt væri fyrir úttektina og að úttektarbeiðandi væri þá jafnframt viðstaddur. 

Niðurstaða:   Tilefni kærumáls þessa er tölvupóstur starfsmanns embættis byggingarfulltrúa þar sem gerð er grein fyrir afstöðu embættisins til verklags við afskráningu byggingarstjóra í tilefni af tilkynningu kæranda um að hann hafi hætt sem byggingarstjóri að tilteknum framkvæmdum og óski staðfestingar embættisins á því. 

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 úrskurðar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindaréttar, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessum sviði.  Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður þó ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Með hliðsjón af framangreindu liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumálinu af þeim sökum vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________   _______________________
        Ásgeir Magnússon          Þorsteinn Þorsteinsson

53/2013 Gerðarbrunnur

Með

Árið 2013, þriðjudaginn 8. október tók Ómar Stefánsson varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 53/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2013, er barst nefndinni 13. s.m., kærir Kristján S, Gerðarbrunni 20-22, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 6. mars 2008 um leyfi til að reisa steinsteypt parhús á tveimur hæðum með innbyggðum bílgeymslum á lóðinni nr. 24-26 við Gerðarbrunn í Reykjavík.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir sem heimilaðar voru með hinu kærða byggingaleyfi verði stöðvaðar.  Með hliðsjón af því sem liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 24. júní 2013.

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. janúar 2008 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa steinsteypt parhús á tveimur hæðum með innbyggðum bílgeymslum á lóðinni nr. 24-26 við Gerðarbrunn í Reykjavík.  Afgreiðslu málsins var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 26. febrúar s.á.  var málinu á ný frestað og m.a. fært til bókar að málinu væri vísað til umsagnar skipulagsstjóra þar sem farið væri út fyrir byggingarreit.  Skipulagsstjóri vísaði málinu til skipulagsráðs er tók það fyrir á fundi hinn 5. mars 2008 og afgreiddi með svohljóðandi hætti:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997. Frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“  Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu hinn 6. s.m. 

Kærandi tekur fram að á árinu 2007 hafi hann keypt byggingarrétt á lóðinni nr. 20-22 við Gerðarbrunn og hafi þá legið fyrir samþykkt skipulag húsa í götunni þar sem byggingarreitir hafi verið nákvæmlega tilgreindir.  Steyptur hafi verið sökkull húss á næstu lóð, þ.e. við Gerðarbrunn 24-26, á árunum 2007-2008 en frekari byggingarframkvæmdir við húsið hafi hafist fyrir um það bil mánuði.  Af því tilefni hafi kærandi kynnt sér teikningar að húsinu þar sem fram hafi komið að það færi um 1,5 metra út fyrir byggingarreit lóðarinnar.  Nánari skoðun hafi leitt í ljós að byggingarfulltrúi hafi upplýst um þessa staðreynd á fundi 26. febrúar 2008 og að skipulagsráð hafi síðan samþykkt þessa breytingu án nokkurrar kynningar.  Hliðrunin muni hafa í för með sér verulega skerðingu á útsýni frá svölum húss kæranda og skerða sólarljós.  Brjóti þessar síðari tíma breytingar á húsinu gegn rétti kæranda til birtu og útsýnis sbr. gr. 2.3.4 og 6.2.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 en samsvarandi ákvæði hafi verið í eldri lögum.  Sé of seint fyrir kæranda að óska eftir breytingum á húsi sínu til að draga úr þeim óþægindum sem verði af þessum ólöglegu breytingum.

Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Hafi kæranda mátt vera kunnugt um legu hússins að Gerðarbrunni 24-26 þegar framkvæmdir hafi byrjað á árunum 2007-2008.   Honum hafi þá verið í lófa lagið að kynna sér samþykkta uppdrætti.  Kærufrestur í máli þessu sé því liðinn og ekki séu færð rök að því í kæru hvers vegna víkja ætti frá fyrrgreindu ákvæði um kærufrest.  Þá sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Byggingarleyfishafar gera einnig kröfu um frávísun málsins þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Kærandi hafi haft fjölmörg tækifæri og tilefni til að kynna sér hina kærðu ákvörðun.  Ákvörðunin hafi verið tekin að fengnu samþykki kæranda og birt á vef Reykjavíkurborgar og hafi honum frá þeim tíma mátt vera ákvörðunin ljós auk þess sem um birtingu á opinberum vettvangi hafi verið að ræða.  Kærandi hafi auk þess fengið byggingarleyfi fyrir húsi sínu sem háð hafi verið samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Þá hafi hann sótt um leyfi til að gera breytingu á útitröppum sem liggi að húsi byggingarleyfishafa 13. desember 2011 og hafi kærandi þá þurft að kynna sér teikningar og fá leyfi aðliggjandi húseigenda við þær breytingar.  Framkvæmdum við umrædda byggingu hafi verið fram haldið í febrúar 2013 og hafi vinnuskúr verið settur upp í lok mars s.á.  Kærufrestur hafi því einnig verið liðinn í því tilviki.  Beri því að vísa kæru þessari frá skv. 1. og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem í gildi var við töku hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun um að veita byggingarleyfi fyrir húsinu að Gerðarbrunni 24-26 var staðfest í borgarráði hinn 6. mars 2008 og var byggingarleyfi gefið út í kjölfarið og framkvæmdir hafnar.  Samkvæmt fyrirliggjandi byggingarsögu hússins var úttekt gerð á botnplötu þess hinn 16. október 2008.  Af þeim ástæðum verður að ætla að kæranda hafi mátt vera ljós lega umrædds húss þegar á árinu 2008 og var því kærufrestur löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 13. júní 2013.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða um kærufresti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

 

 

18/2013 Vatnsstígur

Með

Árið 2013, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2013, kæra á afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. janúar 2013 er varðar leyfi til hundahalds í íbúð að Vatnsstíg 13, Reykjavík. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. febrúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hrl., f.h. Húsfélagsins 101 Skuggahverfi, Lindargötu 31, Reykjavík, afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. janúar 2013 er varðar hundahald að Vatnsstíg 13, Reykjavík.  Gerir kærandi kröfu um að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hinn 19. mars 2013. 

Málsatvik og rök:  Fyrri hluta árs 2012 sendi umsækjandi umdeilds leyfis stjórnarformanni húsfélagsins að Vatnsstíg 13 undirritað samþykki allra íbúa hússins fyrir því að umsækjandi fengi að hafa hund í íbúð sinni.  Síðar kom í ljós að eigandi einnar íbúðarinnar hafði ekki skrifað undir heldur leigjandi á hans vegum og lagðist sá íbúðareigandi gegn því að hundahald yrði leyft í húsinu.  Hinn 24. maí 2012 veitti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur leigjanda íbúðar í fjöleignarhúsinu að Vatnsstíg 13 leyfi til að halda hund.  Umsókninni fylgdu undirritað samþykki fjögurra af fimm sameigendum hússins.  Húsfélagið leitaði í kjölfarið lögfræðiráðgjafar hjá lögmanni og taldi með hliðsjón af ráðgjöf hans að gilt samþykki íbúa fyrir hundahaldi í húsinu væri ekki til staðar.  Tölvubréf þess efnis var sent leyfishafa 22. ágúst 2012, sem mótmælti efni þess bréfs í tölvubréfum, dags. 4. og 6. nóvember s.á. 

Lögmaður kæranda leitaði hinn 18. desember 2012 skýringa Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á því hvernig eftirlitið túlkaði ákvæði laga um fjöleignarhús varðandi hundahald og nauðsynlegt samþykki meðeigenda í því sambandi.  Með bréfi, dags. 23. janúar 2013, gerði heilbrigðiseftirlitið grein fyrir þeirri afstöðu sinni að ekki hafi þurft að afla samþykkis sameigenda fyrir hundahaldinu á húsfundi þar sem samþykki 2/3 hluta sameigenda nægði enda lægi ekki fyrir að húsfélagið hefði sett sér sérreglur um gæludýrahald.  Í lok bréfsins var vakin athygli viðtakanda á því að honum væri heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar ef hann vildi ekki una ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins.

Kærandi vísar til þess að samþykkis fyrir hundahaldi hafi ekki verið aflað á húsfundi.  Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. a. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sé hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafi sameiginlegan inngang eða stigagang.  Meginregla fjöleignarhúsalaganna um afgreiðslu mála komi fram í 39. gr. en þar segi að allir hlutaðeigandi eigendur eigi óskoraðan rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum er varði sameignina, bæði innan húss og utan, og sameiginleg málefni sem snerti hana beint og óbeint.  Í 4. mgr. sömu greinar segi jafnframt að sameiginlegar ákvarðanir skuli teknar á sameiginlegum fundi eigenda, þ.e. á húsfundi.  Í greinargerð með ákvæðinu sé þess sérstaklega getið að sá háttur, að gengið sé á milli eigenda með plagg eða yfirlýsingu um einhver sameiginleg málefni sem eigendum sé hverjum í sínu lagi ætlað að samþykkja með undirritun sinni eða synja, sé ekki í samræmi við fyrirmæli frumvarpsins sem síðar varð að lögum.  Ákvörðun sem sé tekin með þeim hætti sé ekki lögmæt og skuldbindandi nema fyrir þá sem undirritað hafi og þá samkvæmt almennum reglum um skuldbindingargildi loforða og samninga.  Frá reglunni um að samþykki skuli veitt á húsfundi sé sú eina undantekning að allir eigendur hafi samþykkt með undirskrift sinni en þá teljist kominn á samningur sem sé bindandi.  Það nægi því að einn eigandi skrifi ekki undir til að slíkur listi hafi enga þýðingu.  Af þessu leiði að eigendur 2/3 hluta, bæði miðað við fjölda og eignarhlut, þurfi að samþykkja hunda- eða kattahald á löglega boðuðum húsfundi ef veita eigi slíkt leyfi. 

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er því haldið fram að ekki þurfi að afla samþykkis sameigenda í fjöleignarhúsi fyrir hunda- eða kattahaldi á húsfundi heldur dugi undirskrift 2/3 hluta sameigenda í húsinu.  Bent sé á að í frumvarpi til breytinga á fjöleignahúsalögum varðandi hunda- og kattahald frá árinu 2011 hafi verið gert ráð fyrir að allir sameigendur þyrftu að samþykkja hundahald í fjöleignahúsum.  Sú krafa hafi svo breyst í 2/3 hluta sameigenda í meðförum þingsins og hafi frumvarpið þannig verið samþykkt.  Heilbrigðiseftirlitið hafi haft þann fjölda að lágmarki til hliðsjónar við leyfisveitingar og hafi sá háttur verið á hafður hjá öðrum leyfisveitendum.  Í tilvitnuðum greinum kæranda um ákvörðunartöku á húsfundum sé hvergi minnst á gæludýrahald og sé það mat eftirlitsins að það hvort eigendur samþykki hundahald í húsinu sé ekki ákvörðun er varði sameignina. 

Niðurstaða:  Af málatilbúnaði kæranda verður ráðið að kæra í máli þessu snúist í raun um gildi leyfis þess til hundahalds sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur veitti hinn 24. maí 2012.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. 

Fyrir liggur að tölvupóstsamskipti áttu sér stað í ágústmánuði 2012 milli kæranda og leyfishafa um gildi umdeilds leyfis til hundahalds og er staðfestingu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á að leyfið sé gilt að finna í tölvupósti stofnunarinnar til kæranda, dags. 6. nóvember 2012.  Verður að telja að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun í síðasta lagi frá þeim tíma.  Kæra barst úrskurðarnefndinni rúmum þremur mánuðum eftir greint tímamark, eða 22. febrúar 2013, og var kærufrestur þá liðinn.  Ekki þykja efni til að taka kærumál þetta til meðferðar að liðnum kærufresti.  Fyrrgreind undanþáguákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga, sem heimila að mál sé tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti, ber að túlka þröngt og verða þau ekki talin eiga við hér. 

Þá felur hin kærða afgreiðsla heilbrigðiseftirlitsins frá 23. janúar 2013 aðeins í sér túlkun eftirlitsins á lagaákvæðum um tilhögun samþykkis sameigenda fyrir hundahaldi í fjöleignarhúsi, en ekki stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar skv. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

80/2013 Fiskeldi í Fáskrúðsfirði starfsleyfi

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 19. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2013, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. júlí 2013 um að breyta starfsleyfi fyrir fiskeldi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði úr eldi þorsks í eldi á regnbogasilungi.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Eggert Páll Ólason hdl., f.h. Laxa fiskeldis ehf., þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. júlí 2013 að breyta starfsleyfi Fiskeldis Austfjarða hf. fyrir fiskeldi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði úr eldi þorsks í eldi á regnbogasilungi.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt leyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða, sbr. 1. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök:  Með bréfi til Umhverfisstofnunar, dags. 22. mars 2013, sótti handhafi starfsleyfis fyrir þorskeldi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði eftir breytingum á leyfinu, þannig að í stað þorskeldis yrði heimilað eldi á regnbogasilungi. Umhverfisstofnun féllst á umsóknina og gaf út breytt starfsleyfi 5. júlí 2013 og Fiskistofa breytti í kjölfarið rekstrarleyfi leyfishafa til samræmis við hið breytta starfsleyfi.

Fyrir liggur að kærandi sendi Skipulagsstofnun fyrst upplýsingar um að hann hygðist stofna til laxeldis í Fáskrúðsfirði í desember 2011. Með bréfi, dags. 26. október 2012, sendi hann Skipulagsstofnun tilkynningu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 og með bréfi, dags. 25. júlí 2013, óskaði hann eftir því að stofnunin liti svo á að fyrirhugað laxeldi hans skyldi háð mati á umhverfisáhrifum og féllst stofnunin á það.

Kærandi byggir kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að hún fari gegn hagsmunum hans og gegn lögum. Kærandi hafi undirbúið laxeldi á Austfjarðasvæðinu um margra ára skeið og breytingin á eldisleyfi leyfishafa hafi afgerandi áhrif fyrir fyrirhugað fiskeldi kæranda í Fáskrúðsfirði.  Kærandi hafi beina, sérstaka, verulega og lögvarða hagsmuni af málinu og teljist því aðili máls skv. ákvæðum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar. Hin kærða breyting á starfsleyfi muni raska forsendum tilkynnts fiskeldis kæranda, en þær hafi byggst á opinberum upplýsingum og leyfum sem hafi verið í gildi. Með ákvörðuninni sé hagsmunum kæranda raskað með óafturkræfum hætti og fyrirhugað laxeldi hans í Fáskrúðsfirði hafi verið sett í uppnám.  

Umhverfisstofnun telur kæranda ekki eiga aðild í málinu þar sem hann geti ekki sýnt fram á einstaklega og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Kærandi hafi starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á þremur stöðum í Reyðarfirði en hafi ekki slík leyfi í Fáskrúðsfirði.

Andmæli leyfishafa um réttarstöðu kæranda í máli þessu eru á sömu lund og haldið er fram af hálfu Umhverfisstofnunar.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér, en tekið hefur verið mið af þeim málatilbúnaði við úrlausn málsins. 

Niðurstaða: Þeir einir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun geta borið hana undir úrskurðarnefndina, skv. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærandi er með leyfi fyrir sjókvíaeldi í Reyðarfirði. Hann er ekki með starfs- eða rekstrarleyfi fyrir slíkri starfsemi í Fáskrúðsfirði, en hefur sent Skipulagsstofnun tilkynningu á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs laxeldis þar. Ekkert liggur fyrir um að hið kærða starfsleyfi geti haft áhrif á laxeldi kæranda í Reyðarfirði. Þótt kærandi hafi sent tilkynningu til Skipulagsstofnunar um áform sín um laxeldi í Fáskrúðsfirði leiðir sú tilkynning ekki til þess að hann teljist eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun um breytt leyfi félags, sem þegar er með leyfi fyrir fiskkvíaeldi í firðinum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

53/2012 Svansmerkið

Með

Árið 2013, föstudaginn 12. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 53/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. maí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Geir Gestsson hdl., f.h. Íslensk-Ameríska verslunarfélagsins hf., Tunguhálsi 2, Reykjavík, gjaldtöku Umhverfisstofnunar vegna umhverfismerkisins Svansins og samstarfsverkefni stofnunarinnar „Ágætis byrjun“ sem tengist nefndu umhverfismerki.

Gerir kærandi þær kröfur að innheimta veltutengds árgjalds fyrir Svansvottun skv. 1. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 525/2006 og niðurgreiðsla á markaðskostnaði einkaaðila tengd umhverfismerkinu verði úrskurðuð ólögmæt og að Umhverfisstofnun hafi farið út fyrir valdheimildir sínar með samstarfsverkefninu „Ágætis byrjun“.

Úrskurðarnefndinni bárust umbeðin gögn er málið varða frá Umhverfisstofnun hinn 10. júlí 2012.

Málsatvik og rök:  Umhverfismerkið Svanurinn er norrænt umhverfismerki og sér Umhverfisstofnun um daglegan rekstur og alla umsýslu vegna merkisins samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 525/2006 um umhverfismerki.  Merkið má veita þeirri vörutegund eða þjónustu sem um er sótt og uppfylla settar viðmiðunarreglur, sbr. 8. og 12. gr. nefndrar reglugerðar.   

Af hálfu kæranda er vísað til þess að í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að nefndin hafi það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfismála eftir því sem mælt sé fyrir í lögum á því sviði.  Þá sé kveðið á um það í 24. gr. reglugerðar nr. 525/2006 um umhverfismerki, sem eigi stoð í 5. gr. laga  nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, að rísi ágreiningur um framkvæmd reglugerðarinnar eða um ákvarðanir Umhverfisstofnunar samkvæmt henni, sé heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar, sbr. 31. gr. laganna.  Mál þetta lúti að 1. mgr. 23. gr. fyrrgreindrar reglugerðar um innheimtu veltutengds árgjalds fyrir Svansvottun og að valdheimildum Umhverfisstofnunar að lögum.

Að mati kæranda hafi Umhverfisstofnun farið út fyrir valdheimildir sínar með innheimtu veltutengds árgjalds  fyrir Svansvottun þar sem slík gjaldtaka samræmist ekki lagaskilyrðum um samhengi kostnaðar og gjaldtöku, sbr. 21. gr. laga nr. 7/1998.  Þá sé ráðstöfun árgjaldsins til niðurgreiðslu á einkarekstri í andstöðu við markmið greindra laga og reglugerðar og sama eigi við um samstarfsverkefni við hérlendar heilsugæslustofnanir, sem nefnt hafi verið „Ágætis byrjun“ og  miði að því að auka markaðshlutdeild vara einkaaðila á kostnað annarra.

Umhverfisstofnun bendir á að ekki liggi fyrir í máli þessu stjórnvaldsákvörðun stofnunarinnar gagnvart kæranda og ekki hafi verið tekin afstaða til álitaefnis um greiðsluskyldu hans á annan hátt.  Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á.  Meginreglan um lögvarða hagsmuni hljóti einnig að eiga við um önnur úrlausnarefni sem úrskurðarnefndin kunni að taka til meðferðar.  Þá sé vakin athygli á að sá ágreiningur sem uppi sé í máli þessu varði útgáfu gjaldskrár og reglugerðar sem séu stjórnvaldsathafnir sem staðfestar hafi verið af ráðherra.  Hvað varði kröfur kæranda sem snúi að meintri niðurgreiðslu stofnunarinnar á markaðskostnaði einkaaðila og valdheimildum hennar sé á það bent að þær kröfur séu hafðar uppi í öðru máli kæranda sem sé til umfjöllunar hjá Samkeppniseftirlitinu.  Umhverfisstofnun telji ófært að fjallað sé um sömu kröfur hjá tveimur úrskurðaraðilum samtímis.  Af framangreindum ástæðum beri að vísa kröfum kæranda frá úrskurðarnefndinni.

Gjaldtaka Umhverfisstofnunar vegna lögbundinnar þjónustu, eftirlits, kynningu fræðslu og reksturs Svanmerkisins ásamt þróun viðmiðunarreglna sé í samræmi við þann kostnað sem til falli en gjaldtakan byggi á áætlunum um umfang þeirrar þjónustu sem talið sé að fyrirtæki í hverjum flokki þurfi á að halda.  Ekki hafi myndast sértekjur hjá stofnuninni af þessum sökum og njóti starfsemin vegna umhverfismerkisins opinbers fjárstuðnings.  Verkefnið sem nefnt hafi verið „Ágætis byrjun“ sé í samræmi við hlutverk Umhverfisstofnunar sem umsjónaraðila Svansmerkisins hér á landi og það markmið löggjafans með innleiðingu reglna um umhverfismerki að bæta markaðsstöðu umhverfisvænna vara og auka vitund neytenda um áhrif slíks varnings á umhverfið.  Eigi málatilbúnaður kæranda að efni til því ekki við rök að styðjast.

Málsaðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum og rökum sem ekki verður rakið nánar hér í ljósi niðurstöðu málsins.

Niðurstaða:   Í máli þessu er deilt um lögmæti gjaldtöku Umhverfisstofnunar tengda umhverfismerkinu Svaninum og  ákvörðun stofnunarinnar um að ráðast í verkefni sem fól í sér kynningu á nefndu umhverfismerki. Í málinu er höfð uppi frávísunarkrafa með þeim rökum að ekki liggi fyrir í málinu kæranleg ákvörðun er beinst hafi að kæranda og skorti því á að hann hafi þá lögvörðu hagsmuni tengda ágreiningsefnum málsins sem veiti honum kæruaðild.

Úrskurðarnefndin hefur í úrskurðum sem gengið hafa komist að þeirri niðurstöðu að  úrskurðarvald hennar næði ekki til ákvarðana sem sættu staðfestingu ráðherra að lögum.  Hefur sú niðurstaða stuðst við þau rök að ráðherra er æðsti handhafi stjórnsýsluvalds á sínu sviði að stjórnskipunarrétti og verði lögmæti nefndra ákvarðana því ekki endurskoðað af öðrum stjórnvöldum nema samkvæmt skýrri lagaheimild.  Reglugerð nr. 525/2006 um umhverfismerki og gjaldskrá nr. 480/2012, sem umdeild gjaldtaka byggist á, eru stjórnvaldsfyrirmæli gefin út af umhverfisráðherra með stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Verður lögmæti þeirra fyrirmæla ekki borið undir úrskurðarnefndina af framangreindum ástæðum. 

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er nefndinni markað það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.    Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað um í 3. mgr. 4. gr. nefndra laga.  Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind.  Í 2. mgr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, svo sem henni var breytt með lögum nr. 131/2011, er tekið fram að um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina og verður að túlka kæruheimild 1. mgr. ákvæðisins til samræmis við það.   

Ekki liggur fyrir í máli þessu ákvörðun um álagningu gjalda á hendur kæranda á grundvelli umdeildrar reglugerðar og gjaldskrár vegna umhverfismerkisins Svansins og ákvörðun Umhverfisstofnunar um að ráðast í verkefnið „Ágætis byrjun“ verður ekki talin fela í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar.  Sú ákvörðun er ekki tekin í skjóli stjórnsýsluvalds og kveður ekki á um réttindi og skyldur tiltekins aðila heldur er um að ræða ákvörðun stjórnvalds um hvernig  hlutverki þess að lögum er sinnt.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfum kæranda í máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson

 

 

30/2012 Laxeldi í Reyðarfirði

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2012, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 15. mars 2012 um að gefa út rekstrarleyfi fyrir eldi á laxi í sjókvíum í Reyðarfirði til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. apríl 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Eyvindur Sólnes hrl., f.h. Samherja hf., þá ákvörðun Fiskistofu frá 15. mars 2012 að veita Löxum fiskeldi ehf. rekstrarleyfi til allt að 6.000 tonna ársframleiðslu af laxi í sjókvíum í Reyðarfirði.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Forsaga máls þessa er sú að á árinu 2000 tilkynnti kærandi Skipulagsstofnun um fyrirhugað allt að 6.000 tonna laxeldi í sjókvíum í Reyðarfirði.  Var niðurstaða stofnunarinnar sú að um matskylda framkvæmd væri að ræða og lét kærandi gera mat á umhverfisáhrifum kvíaeldisins.  Var starfsemin og umhverfisáhrif hennar kynnt í matsskýrslu í júlí 2002.  Hinn 14. mars 2003 gaf Umhverfisstofnun síðan út starfsleyfi til kæranda fyrir kvíaeldinu með gildistíma til 1. apríl 2010.  Ekki var hafin starfræksla laxeldis í sjókvíum samkvæmt starfsleyfinu á gildistíma þess.

Hinn 12. apríl 2011 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá handhafa hins kærða leyfis um fyrirhugað laxeldi í sjókvíum í Reyðarfirði með allt að 6.000 tonna ársframleiðslu og taldi stofnunin ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar starfsemi eins og nánar greinir í niðurstöðu stofnunarinnar frá 8. júní s.á.  Í kjölfarið sótti hann um starfsleyfi fyrir laxeldinu til Umhverfisstofnunar 21. júní 2011 og mun kærandi einnig hafa lagt inn til stofnunarinnar umsókn um starfsleyfi fyrir sambærilegu laxeldi í Reyðarfirði 5. ágúst s.á.  Leyfishafi sótti jafnframt um rekstarleyfi Fiskistofu fyrir laxeldinu með bréfi, dags. 24. ágúst 2011.  Umhverfisstofnun veitti leyfishafa starfsleyfi fyrir kvíaeldinu hinn 20. janúar 2012 að undangenginni kynningu á starfsleyfistillögu og skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. febrúar s.á.  Hið kærða rekstarleyfi Fiskistofu var svo gefið út hinn 15. mars s.á. eins og að framan greinir.

Kærandi vísar til þess að hið kærða rekstrarleyfi sé andstætt lögum og brjóti gegn hagsmunum hans.  Hann áformi að reka sjókvíaeldi í Reyðarfirði og hafi í tengslum við það kostað mat á umhverfisáhrifum sem nemi tugum milljóna króna, en slíkt mat sé á kostnað og ábyrgð rekstaraðila, sbr. 1. mgr. 23. gr. rgl. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.  Nýr handhafi rekstrarleyfis til laxeldis í Reyðarfirði hafi við undirbúning að umsókn sinni m.a. stuðst við matsskýrslu kæranda án heimildar, en ótvírætt sé samkvæmt 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 að slíkt mat sé á ábyrgð og kostnað framkvæmdaraðila.  Þessi notkun á matsskýrslu kæranda orki tvímælis en fram komi í 33. gr. rlg. nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum að almennar reglur eigna- og höfundarréttar gildi um gögn þau sem lögð séu fram samkvæmt þeirri reglugerð.  Kærandi hafi sótt um endurnýjun á áður veittu starfsleyfi til laxeldis í Reyðarfirði en Umhverfisstofnun hafi komið því á framfæri að umdeild hagnýting nýs leyfishafa á matsskýrslu kæranda á umhverfisáhrifum hindri að hann geti notað matið við starfsleyfisumsókn sína.  Skipulagsstofnun hafi á sínum tíma komist að þeirri niðurstöðu að umrætt laxeldi í Reyðarfirði væri háð mati á umhverfisáhrifum og verði að gera þá kröfu til nýs leyfishafa að hann láti gera nýtt mat á sinn kostnað og ábyrgð í samræmi við lög.  Þótt stjórnsýslulög og upplýsingalög tryggi almenningi aðgang að gögnum feli það ekki í sér heimild til að nota þau gögn til hagsbóta öðrum en eiganda þeirra.  Ekki verði annað ráðið en að Fiskistofa hafi byggt hina kærðu ákvörðun á gögnum þar sem vísað sé til fyrrgreindar matsskýrslu kæranda, svo sem umsögn Matvælastofnunar, sem Fiskistofa hafi aflað skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi.

Af hálfu Fiskistofu er á því byggt að hin kærða leyfisveiting hafi verið í fullu samræmi við lög.  Ákvörðun um matsskyldu framkvæmda hafi fylgt umsókn leyfishafa, en slík ákvörðun liggi lögum samkvæmt hjá Skipulagsstofnun og geti Fiskistofa ekki vefengt niðurstöðu um matsskyldu við afgreiðslu rekstrarleyfis.  Fiskistofa eigi heldur ekki að taka afstöðu til afnotaréttar á þeim upplýsingum sem Skipulagsstofnun og umsagnaraðilar hafi hugsanlega stuðst við.  Skv. 2. mgr. 7. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008 skuli Fiskistofa við meðferð leyfisumsóknar um fiskeldi afla umsagnar Matvælastofnunar, Veiðimálastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar eftir því sem við eigi.  Umsagnir þessar eigi samkvæmt ákvæðinu að snúast um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til hættu á neikvæðum vistfræði- eða erfðafræðiáhrifum sem leitt geti af leyfisskyldri starfsemi.  Í umsagnarbeiðnum til sveitarfélaga óski Fiskistofa m.a. eftir afstöðu sveitarfélaga til svæðaskiptingar og staðsetningar fiskeldis.  Jafnframt hafi verið leitað umsagna Siglingastofnunar og Landhelgisgæslunnar varðandi staðsetningu mannvirkja (eldiskvía, fóðrunarstöðva o.s.frv.) með tilliti til skipaumferðar.  Niðurstöður umsagnaraðila hafi verið á þá leið að ekki væru til staðar ástæður sem mæltu sérstaklega gegn því að umdeilt leyfi yrði veitt.  Fiskistofa leiti eftir atvikum umsagnar aðila sem geti talist hafa verulegra hagsmuna að gæta, svo sem aðila sem stundi atvinnurekstur eða eigi fasteignir í næsta nágrenni við fyrirhugaða stöð umsækjanda, þrátt fyrir að slíkt sé ekki skylt skv. lögunum.  Kærandi falli ekki í neinn flokk aðila sem leitað sé umsagnar hjá skv. lögum og/eða verklagsreglum Fiskistofu.  Kærandi sé ekki handhafi rekstrarleyfis á umræddu svæði og félagið hafi aldrei hafið starfsemi á umræddu svæði á grundvelli starfsleyfis sem runnið hafi út árið 2010.

Leyfishafi krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfu um ógildingu hins kærða rekstarleyfis verði hafnað.  Málsástæður kæranda lúti allar að því að handhafi hins kærða leyfis hafi notað eða a.m.k. vísað til matsskýrslu sem kærandi hafi látið gera á sínum tíma við undanfara og málsmeðferð umsóknar hans.  Um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining sem komi útgáfu rekstrarleyfisins ekkert við.  Starfsleyfi kæranda fyrir laxeldi í Reyðarfirði hafi runnið út 1. apríl 2010 og sé staða kæranda í málinu því ekki á annan veg en alls almennings varðandi hina kærðu ákvörðun.  Eigi hann því ekki lögvarða hagsmuni tengda ákvörðuninni sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í tilkynningu sinni til Skipulagsstofnunar í tilefni af fyrirhuguðu laxeldi hafi leyfishafi vísað til fjölda gagna, þar á meðal umdeildrar matsskýrslu, og hafi stofnunin ekki talið þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna eldisins.  Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun og niðurstaða stofnunarinnar hafi ekki verið kærð.  Matsskýrsla kæranda sé opinbert gagn og aðgengileg almenningi og hafi leyfishafa verið heimilt að vísa til hennar í fyrrgreindri tilkynningu sbr. 1. mgr. 14. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Matsskýrsla kæranda eða hluti úr henni hafi hins vegar ekki verið notuð sem slík af leyfishafa enda engin þörf á slíkri skýrslu vegna hinnar kærðu leyfisveitingar samkvæmt niðurstöðu Skipulagsstofnunar.  Liggi ekki annað fyrir en að tilkynningarferli samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi verið í samræmi við lög sem og veiting umrædds rekstrarleyfis.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verður rakið nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim málatilbúnaði við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu leyfisveitingu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Kærandi telur hins vegar að hagsmunum hans hafi verið raskað með óheimilaðri notkun á skýrslu hans um mat á umhverfisáhrifum við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og með því hafi verið brotið gegn eigna- og höfundarréttindum hans.  Þá matsskýrslu lét kærandi gera á sínum tíma vegna áforma um sambærilegt laxeldi í Reyðarfirði og hér er til umfjöllunar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er úrskurðarnefndinni ætlað það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir í lögum.  Þá er og tekið fram í 3. mgr. 4. gr. laganna að þeir einir geti borið stjórnvaldsákvarðanir undir nefndina sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á eða að fyrir hendi sé bein kæruheimild i lögum.

Með hinni kærðu leyfisveitingu Fiskistofu var ekki tekin afstaða til þess hvort umrætt laxeldi í sjó væri háð mati á umhverfisáhrifum, en þá lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar í því efni lögum samkvæmt og var niðurstaða hennar sú að fyrirhugað laxeldi væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Ekki var á valdsviði Fiskistofu að taka afstöðu til ágreinings um hvort réttindum kæranda, sem eiganda fyrrgreindrar matsskýrslu, hafi verið raskað við undirbúning málsins á fyrri stigum þess eða hvort skírskotun í téða matsskýrslu í umsögnum er bárust Fiskistofu færi í bága við réttarvernd kæranda sem eiganda nefndrar skýrslu.  Kemur því ekki til álita að úrskurðarnefndin taki afstöðu til réttarágreinings í þessu efni við endurskoðun lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar. Ágreiningur um hvort eigna- eða höfundarréttindum kæranda hafi verið raskað eða um hafi verið að ræða ólögmæta tilvísun í margnefnda matsskýrslu við undirbúning og meðferð málsins á undir dómstóla, sbr. 59. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Getur ágreiningur þessi af framangreindum ástæðum ekki veitt kæranda aðild að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni.

Þegar litið er til þess að kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, aðra en þá er varða kunni fyrrgreind eignaréttindi, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðalheiður Jóhannsdóttir

9/2012 Laxeldi í Reyðarfirði

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2012, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 20. janúar 2012 um að veita starfsleyfi til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Eyvindur Sólnes hrl., f.h. Samherja hf., þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 20. janúar 2012 að veita Löxum fiskeldi ehf. starfsleyfi til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði.

Kærandi telur hina kærðu ákvörðun fara gegn lögvörðum hagsmunum sínum, en honum hafði verið veitt starfsleyfi fyrir sambærilegu sjókvíaeldi í Reyðarfirði með gildistíma til 1. apríl 2010.  Krefst hann þess að hið kærða starfsleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Var þeirri kröfu hafnað með bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar uppkveðnum hinn 14. mars 2012.

Málsatvik og rök:  Á árinu 2000 tilkynnti kærandi Skipulagsstofnun um fyrirhugað allt að 6.000 tonna laxeldi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði.  Var niðurstaða stofnunarinnar sú að um matsskylda framkvæmd væri að ræða og lét kærandi vinna mat á umhverfisáhrifum kvíaeldisins.  Var starfsemin og umhverfisáhrif hennar kynnt í matsskýrslu í júlí 2002.  Hinn 14. mars 2003 gaf Umhverfisstofnun síðan út starfsleyfi til kæranda fyrir kvíaeldinu með gildistíma til 1. apríl 2010.  Á gildistímanum var ekki hafin starfræksla laxeldis í sjókvíum samkvæmt starfsleyfinu.

Í aprílmánuði 2011 tilkynnti handhafi hins kærða leyfis Skipulagsstofnun um fyrirhugað 6.000 tonna laxeldi í sjókvíum í Reyðarfirði og taldi stofnunin ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna rekstrarins.  Umhverfisstofnun veitti síðan starfsleyfi fyrir kvíaeldinu hinn 20. janúar 2012 að undangenginni kynningu á starfsleyfistillögu stofnunarinnar og er það starfsleyfi til umfjöllunar í máli þessu.

Af hálfu kæranda er á það bent að hið kærða starfsleyfi fari gegn lögum og hagsmunum hans.  Kærandi fyrirhugi að reka sjókvíaeldi í Reyðarfirði og hafi í tengslum við það kostað mat á umhverfisáhrifum sem nemi tugum milljóna króna, en slíkt mat sé á kostnað og ábyrgð rekstaraðila, sbr. 1. mgr. 23. gr. rgl. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.  Nýr leyfishafi laxeldis í Reyðarfirði hafi við undirbúning að umsókn sinni m.a. stuðst við matsskýrslu kæranda án heimildar, en ótvírætt sé samkvæmt 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 að slíkt mat sé á ábyrgð og kostnað framkvæmdaraðila.  Þessi notkun á matsskýrslu kæranda orki tvímælis, en fram komi í 33. gr. rgl. nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum að almennar reglur eigna- og höfundarréttar gildi um gögn þau sem lögð séu fram samkvæmt þeirri reglugerð.  Kærandi hafi sótt um endurnýjun fyrra starfsleyfis fyrir laxeldi í Reyðarfirði en Umhverfisstofnun hafi komið því á framfæri að umdeild notkun nýs leyfishafa á mati kæranda á umhverfisáhrifum hindri að hann geti notað matið við starfsleyfisumsókn sína.  Skipulagsstofnun hafi á sínum tíma komist að þeirri niðurstöðu að umrætt laxeldi í Reyðarfirði væri háð mati á umhverfisáhrifum og verði að gera þá kröfu til nýs leyfishafa að hann láti gera nýtt mat á sinn kostnað og ábyrgð í samræmi við lög.  Þótt stjórnsýslulög og upplýsingalög tryggi almenningi aðgang að gögnum feli það ekki í sér heimild til að nota þau gögn til hagsbóta öðrum en eiganda þeirra.

Umhverfisstofnun vísar til þess að umsókn um hið kærða starfsleyfi hafi fylgt afrit af niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsskyldu, dags. 8. júní 2011, um að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Sú ákvörðun hafi verið kæranleg en hafi ekki verið kærð á þeim tíma.  Hið kærða leyfi hafi verið veitt þar sem ákvörðun um matsskyldu hafi legið fyrir og starfsleyfisumsóknin talin uppfylla skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 785/1999 sem sett hafi verið með stoð í þeim lögum.  Deilur um notkun umhverfismats kæranda, sem gert hafi verið á sínum tíma, séu einkaréttarlegs eðlis og ákvörðunarvald um matsskyldu framkvæmda sé hjá Skipulagsstofnun. Sæti þær ákvarðanir ekki endurskoðun Umhverfisstofnunar við meðferð starfsleyfisumsóknar.

Leyfishafi krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfu um ógildingu hins kærða starfsleyfis verði hafnað.  Málsástæður kæranda lúti allar að því að handhafi hins kærða leyfis hafi notað eða a.m.k. vísað til matsskýrslu sem kærandi hafi látið gera á sínum tíma.  Um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining sem komi útgáfu starfsleyfis til leyfishafa ekkert við.  Starfsleyfi kæranda fyrir laxeldi í Reyðarfirði hafi runnið út 1. apríl 2010 og hafi því ekki verið í gildi þegar sótt hafi verið um hið kærða starfsleyfi.  Staða kæranda í málinu sé því ekki á annan veg en alls almennings og eigi hann því ekki lögvarða hagsmuni tengda ákvörðuninni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í tilkynningu sinni til Skipulagsstofnunar í tilefni af fyrirhuguðu laxeldi hafi leyfishafi vísað til fjölda gagna og þar á meðal umdeildrar matsskýrslu. Hafi stofnunin ekki talið þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna eldisins.  Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun.  Matsskýrsla kæranda sé opinbert gagn og aðgengileg almenningi og hafi leyfishafa verið heimilt að vísa til hennar í fyrrgreindri tilkynningu, sbr. 1. mgr. 14. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Matsskýrsla kæranda eða hluti úr henni hafi hins vegar ekki verið notuð sem slík af leyfishafa enda engin þörf á slíkri skýrslu vegna hinnar kærðu leyfisveitingar samkvæmt niðurstöðu Skipulagsstofnunar.  Liggi ekki annað fyrir en að tilkynningarferli skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi verið í samræmi við lög sem og veiting umrædds starfsleyfis.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verður rakið nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim málatilbúnaði við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu leyfisveitingu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Kærandi telur hins vegar að hagsmunum hans hafi verið raskað með óheimilaðri notkun skýrslu hans um mat á umhverfisáhrifum við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og með því hafi verið brotið gegn eigna- og höfundarréttindum hans.  Þá matsskýrslu lét kærandi gera á sínum tíma vegna áforma um sambærilegt laxeldi í Reyðarfirði og hér er til umfjöllunar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er úrskurðarnefndinni ætlað það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og aðlindamála eftir því sem mælt er fyrir í lögum.  Þá er og tekið fram í 3. mgr. 4. gr. laganna að þeir einir geti borið stjórnvaldsákvarðanir undir nefndina sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á eða að fyrir hendi sé bein kæruheimild i lögum.

Með hinni kærðu ákvörðun Umhverfisstofnunar var ekki tekin afstaða til þess hvort fyrirhugað laxeldi í sjó væri háð mati á umhverfisáhrifum, en þá lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar í því efni lögum samkvæmt og var niðurstaða stofnunarinnar sú að umrætt laxeldi væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Var það ekki á valdsviði Umhverfisstofnunar að taka afstöðu til ágreinings um hvort réttindum kæranda, sem eiganda fyrrgreindrar matsskýrslu, hefði verið raskað við undirbúning málsins á fyrri stigum þess og kemur því ekki til álita að úrskurðarnefndin taki afstöðu til réttarágreinings í þessu efni við endurskoðun lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar.  Ágreiningur um röskun eigna- eða höfundarréttinda, sem hér um ræðir, á undir dómstóla, sbr. 59. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Getur ágreiningur þessi af framangreindum ástæðum ekki veitt kæranda aðild að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni.

Þegar litið er til þess að kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, aðra en þá er varða kunni fyrrgreind eignarréttindi, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðalheiður Jóhannsdóttir

89/2012 Suðurhóp

Með

Árið 2013, föstudaginn 25. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 89/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er  kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2012, er barst nefndinni 14. sama mánaðar, kæra I og Ó, Suðurhópi 8 og 10, Grindavík, þá afgreiðslu Grindavíkurbæjar, sem tilkynnt var í bréfi dags. 10. september 2012, að fjarlægja ekki körfuboltavöll á skólalóð við Suðurhóp í Grindavík.

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá sveitarfélaginu 26. október 2012.

Málsatvik og rök:  Í júlí 2008 var samþykkt byggingarleyfi fyrir grunnskóla á lóðinni nr. 2 við Suðurhóp í Grindavík.  Með bréfi íbúa og eigenda húsanna á lóðunum nr. 8 og 10 við Suðurhóp, dags. 3. febrúar 2010, var þess farið á leit við byggingarfulltrúa Grindavíkurbæjar að hann léti fjarlægja körfuboltavöll, sem staðsettur er norðan við nefndan skóla, vegna ónæðis sem frá honum stafaði.  Var erindið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 8. mars 2010 og fært til bókar að nefndin fæli forstöðumanni tæknideildar ásamt skólastjóra grunnskólans að leita lausna í málinu með  íbúum. 

Með bréfi frá sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs, dags. 10. september 2012, var erindi kærenda svarað.  Í bréfinu segir m.a. svo:  „Í framhaldi af bréfi dagsettu 8. febrúar 2010 og fundar þann 8. mars 2010 þar sem staðsetningu körfuboltavallar á skólalóð við Suðurhóp er mótmælt vill Grindavíkurbær leita leiða til sátta vegna vallarins. Grindarvíkurbær lítur svo á að staðsetning vallarins sé í samræmi við deiliskipulag enda sé hann hluti af leiksvæði barnaskólans. Hinsvegar er sjálfsagt að koma til móts við íbúa sem verða fyrir ónæði vegna vallarins.“  Þá voru kynntar leiðir er að mati sveitarfélagins voru til þess fallnar að takmarka ónæði frá vellinum.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að mikið ónæði stafi frá vellinum vegna óviðunandi hljóð- og ljósmengunar. Körfuboltavöllurinn sé ekki sýndur á deiliskipulagi en gert sé ráð fyrir bílastæði á umræddu svæði.  Þessi breyting sé veruleg og hafi átt að fara í lögbundið ferli sem skipulagsbreyting sbr. 26. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, eða í grenndarkynningu.  Kærendur telja að það hafi átt að veita hagsmunaaðilum kost á að tjá sig.  Sáttatillögur bæjarins séu ekki til þess fallnar að koma í veg fyrir ónæði af vellinum og verði að telja fyrirliggjandi svar bæjarfélagsins lokaákvörðun í málinu enda ljóst að staðsetningu vallarins verði ekki breytt.

Niðurstaða:  Tilefni kærumáls þessa er bréf  sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar frá 10. september 2012 sem ritað var í tilefni af erindi kærenda frá 3. febrúar 2010, þar sem þess var farið á leit að umdeildur körfuboltavöllur yrði fjarlægður.

Leyfi til byggingar skólans að Suðurhópi 2 mun hafa verið veitt árið 2008 og í kjölfar þess hafi skólinn verði reistur og körfuboltavöllurinn lagður á lóð hans.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem í gildi voru á þeim tíma, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. l. nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda var eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra skal.  Lögmæti ákvörðunar um gerð og staðsetningu vallarins verður því ekki endurskoðað af hálfu úrskurðarnefndarinnar þar sem kærufrestur er löngu liðinn.

Í fyrrgreindu bréfi sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs eru sjónarmið bæjaryfirvalda reifuð í tilefni af kröfu kærenda um að títtnefndur völlur yrði fjarlægður.  Ekki verður af orðalagi bréfsins ráðið að tekin hafi verið lokaákvörðun í málinu en í  2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er það áskilið svo ákvörðunin verði borin undir  úrskurðarnefndina.  Þá liggja ekki fyrir í málinu gögn eða bókanir þar til bærra stjórnvalda er bendi til að umrætt erindi kærenda hafi fengið formlega afgreiðslu með töku kæranlegrar stjórnvaldsákvörðunar.

Að öllu framangreindu virtu verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson