Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

4/2012 Lindasmári

Árið 2013, þriðjudaginn 31. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 4/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. janúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir U, Lindasmára 22, Kópavogi þá ákvörðun Bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. nóvember 2011 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kópavogsdals-norðursvæðis þar sem heimiluð var starfræksla hársnyrtistofu í parhúsinu að Lindasmára 20, Kópavogi.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Með bréfi dags. 26. júlí 2012, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, skaut kærandi jafnframt ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 10. júlí 2012, um að veita byggingarleyfi fyrir notkun hluta fasteingarinnar að Lindasmára 20 undir hársnyrtistofu, til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar.  Verður það mál, sem er nr. 77/2012,  sameinað máli þessu enda eru málsatvik beggja mála á sömu lund.    

Úrskurðarnefndinni bárust umbeðin gögn er málið varða frá Kópavogsbæ hinn 10. september 2012.

Málsatvik og rök:  Hinn 19. júlí 2011 tók skipulagsnefnd Kópavogs fyrir umsókn um heimild til að reka hársnyrtistofu að Lindasmára 20.  Var samþykkt að grenndarkynna breytingu á deiliskipulagi í þá veru á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Athugasemdir bárust m.a. frá kæranda á kynningartíma tillögunnar.  Skipulagsnefnd tók málið fyrir hinn 15. nóvember 2011 og samþykkti umrædda skipulagbreytingu með því skilyrði að bætt yrði við einu bifreiðastæði á lóð Lindasmára 20.  Bæjarstjórn samþykkti þá afgreiðslu hinn 22. nóvember s.á. og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. desember 2011.  Hið kærða byggingarleyfi var síðan gefið út með stoð í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hinn 10. júlí eins og að framan greinir.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að umdeild skipulagsbreyting raski hagsmunum hans og með henni sé farið gegn lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 auk þess sem hin kærða ákvörðun sé haldin form- og efnisannmörkum.  Hið kærða byggingarleyfi sé undir sömu sök selt, enda sé farið um sameiginlega lóð að bílastæði því sem þar sé gert ráð fyrir.

Bæjaryfirvöld byggja á því að hin kærða skipulagsbreyting varði séreign eiganda Lindasmára 20.  Farið hafi verið að lögum við málsmeðferð ákvörðunarinnar og sama eigi við um byggingarleyfið.   

Niðurstaða:   Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartiðinda er birtist hinn 15. mars 2013 afturkallaði bæjarstjórn Kópavogs hina kærðu deiliskipulagsbreytingu hinn 12. mars s.á.  Þá liggur fyrir að byggingarfulltrúi samþykkti afturköllun hins kærða byggingarleyfis hinn 22. maí 2013.

Hafa hinar kærðu ákvarðanir að framangreindum ástæðum ekki lengur réttarverkan að lögum og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þeirra ákvarðana.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson