Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

89/2012 Suðurhóp

Árið 2013, föstudaginn 25. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 89/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er  kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2012, er barst nefndinni 14. sama mánaðar, kæra I og Ó, Suðurhópi 8 og 10, Grindavík, þá afgreiðslu Grindavíkurbæjar, sem tilkynnt var í bréfi dags. 10. september 2012, að fjarlægja ekki körfuboltavöll á skólalóð við Suðurhóp í Grindavík.

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá sveitarfélaginu 26. október 2012.

Málsatvik og rök:  Í júlí 2008 var samþykkt byggingarleyfi fyrir grunnskóla á lóðinni nr. 2 við Suðurhóp í Grindavík.  Með bréfi íbúa og eigenda húsanna á lóðunum nr. 8 og 10 við Suðurhóp, dags. 3. febrúar 2010, var þess farið á leit við byggingarfulltrúa Grindavíkurbæjar að hann léti fjarlægja körfuboltavöll, sem staðsettur er norðan við nefndan skóla, vegna ónæðis sem frá honum stafaði.  Var erindið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 8. mars 2010 og fært til bókar að nefndin fæli forstöðumanni tæknideildar ásamt skólastjóra grunnskólans að leita lausna í málinu með  íbúum. 

Með bréfi frá sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs, dags. 10. september 2012, var erindi kærenda svarað.  Í bréfinu segir m.a. svo:  „Í framhaldi af bréfi dagsettu 8. febrúar 2010 og fundar þann 8. mars 2010 þar sem staðsetningu körfuboltavallar á skólalóð við Suðurhóp er mótmælt vill Grindavíkurbær leita leiða til sátta vegna vallarins. Grindarvíkurbær lítur svo á að staðsetning vallarins sé í samræmi við deiliskipulag enda sé hann hluti af leiksvæði barnaskólans. Hinsvegar er sjálfsagt að koma til móts við íbúa sem verða fyrir ónæði vegna vallarins.“  Þá voru kynntar leiðir er að mati sveitarfélagins voru til þess fallnar að takmarka ónæði frá vellinum.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að mikið ónæði stafi frá vellinum vegna óviðunandi hljóð- og ljósmengunar. Körfuboltavöllurinn sé ekki sýndur á deiliskipulagi en gert sé ráð fyrir bílastæði á umræddu svæði.  Þessi breyting sé veruleg og hafi átt að fara í lögbundið ferli sem skipulagsbreyting sbr. 26. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, eða í grenndarkynningu.  Kærendur telja að það hafi átt að veita hagsmunaaðilum kost á að tjá sig.  Sáttatillögur bæjarins séu ekki til þess fallnar að koma í veg fyrir ónæði af vellinum og verði að telja fyrirliggjandi svar bæjarfélagsins lokaákvörðun í málinu enda ljóst að staðsetningu vallarins verði ekki breytt.

Niðurstaða:  Tilefni kærumáls þessa er bréf  sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar frá 10. september 2012 sem ritað var í tilefni af erindi kærenda frá 3. febrúar 2010, þar sem þess var farið á leit að umdeildur körfuboltavöllur yrði fjarlægður.

Leyfi til byggingar skólans að Suðurhópi 2 mun hafa verið veitt árið 2008 og í kjölfar þess hafi skólinn verði reistur og körfuboltavöllurinn lagður á lóð hans.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem í gildi voru á þeim tíma, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. l. nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda var eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra skal.  Lögmæti ákvörðunar um gerð og staðsetningu vallarins verður því ekki endurskoðað af hálfu úrskurðarnefndarinnar þar sem kærufrestur er löngu liðinn.

Í fyrrgreindu bréfi sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs eru sjónarmið bæjaryfirvalda reifuð í tilefni af kröfu kærenda um að títtnefndur völlur yrði fjarlægður.  Ekki verður af orðalagi bréfsins ráðið að tekin hafi verið lokaákvörðun í málinu en í  2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er það áskilið svo ákvörðunin verði borin undir  úrskurðarnefndina.  Þá liggja ekki fyrir í málinu gögn eða bókanir þar til bærra stjórnvalda er bendi til að umrætt erindi kærenda hafi fengið formlega afgreiðslu með töku kæranlegrar stjórnvaldsákvörðunar.

Að öllu framangreindu virtu verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson