Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

51/2013 Laugarnesvegur

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 14. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 51/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. maí 2013, sem móttekið var á skrifstofu nefndarinnar 27. s.m., kæra S og I, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2013 um að synja umsókn um leyfi til að breyta áður samþykktum teikningum vegna hússins á lóð nr. 47 við Laugarnesveg, Reykjavík. 

Verður að skilja kröfugerð kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Reykjavíkurborg 20. ágúst 2013 og 11. ágúst 2014.

Málsatvik og rök: Kærendur eru eigendur fasteignarinnar að Laugarnesvegi 47 og lögðu þau hinn 26. febrúar 2013 fram umsókn um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar. Með umsókninni var óskað eftir að breyta áður samþykktum teikningum fyrir nefnda fasteign en greindar teikningar voru samþykktar af byggingarfulltrúa 23. október 2012. Hinar umsóttu breytingar fólu í sér að stækka húsið með því að bæta við kaldri geymslu undir anddyri, innrétta gufubað og sturtu í hluta bílageymslu, breyta glugga og hurð, setja vængjahurð á bílageymslu og breyta stiga í húsinu úr steyptum í timburstiga. Erindinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem skilaði neikvæðri umsögn 2. apríl 2013 þar sem breytingarnar samrýmdust ekki deiliskipulagi. Vísað var til þess að nýtingarhlutfall yrði meira en deiliskipulag gerði ráð fyrir og þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag að breyta hluta bílskúrs í gufubað. Var umsókn kærenda tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. s.m. og synjað með vísan til greindrar umsagnar. Tilkynning um synjun umsóknarinnar var send kærendum með bréfi, dags. 11. apríl 2013.

Kærendur vísa til þess að búið sé að gefa leyfi til þess að bæta einni hæð ofan á húsið og að með þeirri stækkun fari nýtingarhlutfall úr 0,43 í 0,64. Stækkun húss með kaldri geymslu undir útitröppum og anddyri myndi auka heildarnýtingu í 0,67. Umþrætt geymsla stækki ekki grunnflöt hússins á lóðinni heldur sé aðeins verið að fylla upp í rými. Breytingarnar séu óverulegar.

Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að í skilmálum deiliskipulagsins, fyrir það svæði sem umrædd fasteign er staðsett á, sé heimilt að byggja eina hæð ofan á einnar hæðar hús. Einnig komi fram í deiliskipulaginu að viðmiðunarnýtingarhlutfall á einbýlishúsum í hverfinu sé 0,2-0,4. Þó sé heimilt að víkja frá viðmiðunarnýtingar-hlutfalli vegna bílskúra, hækkana húsa, þakhækkana, kvista og viðbygginga sem auki brúttóflatarmál fasteignar. Byggingarfulltrúi hafi samþykkt umsókn um hækkun hússins við Laugarnesveg 47 um eina hæð hinn 23. október 2012 enda hafi slíkt verið í samræmi við gildandi deiliskipulag. Við það hafi nýtingarhlutfall aukist úr 0,43 í 0,64 og sé heildarnýtingarhlutfall því komið vel yfir það hlutfall sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi. Ekki sé fallist á þau rök kærenda að verið sé að fylla upp í rými. Umrædd stækkun myndi auka brúttóflatarmál byggingarinnar en hins vegar sé ljóst að engin aukning myndi verða á nýtanlegu brúttóflatarmáli fasteignarinnar ef fyllt yrði upp í rýmið. Sé því litið svo á að lóðin sé nú þegar fullnýtt og að teknu tilliti til þróunar á svæðinu séu ekki forsendur fyrir því að leyfa hærra nýtingarhlutfall.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Umsókn kæranda var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 9. apríl 2013 og tilkynnt kærendum með bréfi dags. 11. s.m. Kæra barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 27. maí s.á. eða rúmum einum og hálfum mánuði eftir að tilkynnt var um ákvörðun byggingarfulltrúa. Kæran er því of seint fram komin og verður henni vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

38/2013 Múlavirkjun

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 14. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 38/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 5. apríl 2013, sem Skipulagsstofnun framsendi 16. s.m. til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærir G, Fellasneið 14, Grundarfirði, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að framkvæmd Múlavirkjunar skuli ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum. Með hliðsjón af gögnum málsins verður að skilja kröfugerð kæranda svo að kærð sé ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. mars 2013 að hækkun uppsetts afls Múlavirkjunar, í Eyja- og Miklaholtshreppi, úr 1,9 MW í 3,2 MW og á vatnsborði Baulárvallavatns, sem orðið hefur vegna reksturs virkjunarinnar og í samræmi við tillögu um nýtt vatnsborðsskilyrði í virkjunarleyfi, sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þá sé gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Árið 2004 var gefið út virkjanaleyfi vegna framkvæmda við Múlavirkjun  en með ákvörðun 7. nóvember 2003 hafði Skipulagsstofnun komist að þeirri niðurstöðu að virkjunin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 19. desember 2012 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Múlavirkjun ehf., samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b. og lið 13 a í 2. viðauka laganna, um hækkun uppsetts afls Múlavirkjunar. Hinn 1. mars 2013 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að nefnd hækkun uppsetts afls Múlavirkjunar í Eyja- og Miklaholtshreppi úr 1,9 MW í 3,2 MW og á vatnsborði Baulárvallavatns, sem orðið hefði vegna reksturs virkjunarinnar og í samræmi við tillögu um nýtt vatnsborðsskilyrði í virkjunarleyfi, væri ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri þar af leiðandi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi telur að með því að byggja umfangsmeiri virkjun en upphaflega stóð til hafi verið brotið gegn lögum um skipulags- og byggingarmál sem og lögum um mat á umhverfisáhrifum. Af þessum sökum sé hætt við því að virkjunin valdi tjóni á lífríki Straumfjarðarár sem og Baulárvallavatns. Hafi vatnsborð Baulárvallavatns hækkað umtalsvert og ekkert náttúrulegt rennsli sé nú í Straumfjarðará á milli vatnsins og lónsins við stífluna. Silungur sem hrygnt hafi í þessu straumvatni muni búa við breyttar aðstæður í framtíðinni vegna þessa. 

———-

Með bréfi, dags. 3. júní 2014, var athygli kæranda vakin á því að þeir einir gætu kært til úrskurðarnefndarinnar sem hefðu lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis-  og auðlindamála og var kæranda gefinn kostur á að koma skýringum þar um til nefndarinnar. Var frestur veittur til 1. júlí 2014 en engar athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Eins og málið liggur fyrir úrskurðarnefndinni er ekki ljóst með hvaða hætti hækkun uppsetts afls Múlavirkjunar, og eftir atvikum áhrif hennar á lífríki, snerti lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að skapi honum aðild að kærumáli vegna hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Þá eiga undantekningartilvik nefndrar lagagreinar ekki við í málinu. Er því ekki sýnt fram á kæruaðild í málinu og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

35/2013 Einholt – Þverholt

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 24. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 35/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með símbréfi, dags. 7. apríl 2013, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Þ þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 24. janúar 2013 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi fyrir Einholt-Þverholt í Reykjavík. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. mars 2013

Með bréfi, dags. 8. apríl 2013, er barst nefndinni samdægurs, kærir B sömu deiliskipulagsákvörðun. Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður síðara kærumálið sem er nr. 36/2013 sameinað kærumáli þessu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Deiliskipulag fyrir reit 1.244.3, Einholt-Þverholt, var samþykkt í borgarráði Reykjavíkurborgar 24. janúar 2013 og felur það í sér skipulagssvæði sem afmarkast af Einholti, Háteigsvegi, Þverholti og Stórholti. Felur deiliskipulagið í sér í sér uppbyggingu allt að 250 íbúða, með heimild fyrir 177 bílastæðum í bílakjallara, á suðurhluta reitsins.

Kærendur gera athugasemd við að fjöldi bílastæða sé of lág miðað við fjölda íbúða. Bent sé á að Reykjavíkurborg hafi svarað fyrirspurnum kærenda vegna málsins á þann veg að stefnt væri að því að minnka hlutdeild einkabifreiða í Reykjavík en kærendur telji þau rök ekki haldbær. Nýtingarhlutfall á lóðum sé yfir þeim viðmiðum sem gerðar séu og hafi, að þeirra sögn, ekki verið reiknað með hlutfalli bílakjallara. Hámarks nýtingarhlutfall á lóð skuli vera 2,5 skv. lýsingu, en á uppdráttum sé gert ráð fyrir að nýtingarhlutfall verði 3,15 á reit E og 2,78 á reit F. Þá gerir annar kærenda í málinu athugasemd þess efnis að hann dragi í efa skuggvarpsupplýsingar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu fyrir Einholt-Þverholt í Reykjavík sem var samþykkt í borgarráði Reykjavíkurborgar hinn 24. janúar 2013 og síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. mars s.á.

Leitt hefur verið í ljós að deiliskipulagið er ekki lengur í gildi. Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti nýtt deiliskipulag fyrir Einholt-Þverholt hinn 14. nóvember 2013 sem var síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. janúar 2014. Hefur hin kærða ákvörðun að framangreindum ástæðum ekki lengur réttarverkan að lögum og eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

19/2014 Vesturbugt og Nýlendureitur

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 24. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 19/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 2. mars 2014, er barst nefndinni 13. s.m., kæra Íbúasamtök Vesturbæjar þær ákvarðanir umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 20. nóvember 2013 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi Vesturbugtar og á deiliskipulagi Nýlendureits. Þessar samþykktir voru síðan auglýstar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. febrúar 2014.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 29. apríl 2014.

Málsatvik og rök: Tillögur að breyttu deiliskipulagi Vesturbugtar og Nýlendureits voru samþykktar af umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar hinn 20. nóvember 2013. Afmarkast skipulag Vesturbugtar til vesturs af Ánanaustum og að Slippnum til austurs. Skipulag Nýlendureits afmarkast af lóðarmörkum byggðar sunnan megin við Mýrargötu til norðurs, Seljavegar til vesturs, Vesturgötu til suðurs og um Ægisgötu til austurs.

Kærandi telur að kynning Reykjavíkurborgar á deiliskipulagsbreytingum Vesturbugtar hafi verið villandi. Teikningar og tölvumyndir í kynningarefni Reykjavíkurborgar hafi verið rangar og afmyndaðar og af þeim sökum hafi hlutföll og fjarlægðir ekki verið réttar. Hafi Reykjavíkurborg ekki lagfært upplýsingarnar þrátt fyrir ítrekanir af hálfu kæranda. Þá telji kærandi að vegna fjölda og alvarleika þeirra athugasemda sem bárust frá íbúasamtökum sem og öðrum hafi myndast réttmætt krafa um að endurskoða skipulagið í heild sinni. Kynningar Reykjavíkurborgar á deiliskipulagsbreytingum vegna Nýlendureits hafi einnig verið villandi. Telji kærandi að hús hafi verið ranglega númeruð á uppdráttum og því hafi verið ómögulegt að gera sér grein fyrir framlögðum tillögum. Telji kærandi að slíkur ágalli geri það verkum að ekki sé hægt að samþykkja skipulagið.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 4. gr. l. nr. 130/2011. Auglýsing um gildistöku beggja deiliskipulagsbreytinga hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. febrúar 2014, en úrskurðarnefndin móttekið kæruna hinn 13. mars s.á. Kæran sé því of seint fram komin og vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni. Þá telji Reykjavíkurborg að kærandi í máli þessu eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Vísað sé til þess að umræddar ákvarðanir falli ekki undir a.-c. ml. nefndrar 3. mgr. 4. gr., en þar séu með tæmandi hætti taldar upp þær ákvarðanir sem hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geti kært.

Niðurstaða: Í máli þessu er gerð frávísunarkrafa með þeim rökum að á skorti að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna efnis hinna kærðu ákvarðana um breytingar á deiliskipulagi fyrir Vesturbugt og fyrir Nýlendureit í Reykjavík sem samþykktar voru af umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar hinn 20. nóvember 2013.

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er nefndinni markað það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. nefndra laga. Þar er að finna heimild sem veitir samtökum í undantekningartilvikum sjálfstæða kæruaðild á þessu sviði. Nánar tiltekið geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, með minnst 30 félaga, átt aðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, þá með vísan til tilgangs samtakanna. Það á þó einungis um þær ákvarðanir sem taldar eru með tæmandi hætti í a.-c. ml. lagagreinarinnar en hinar kærðu ákvarðanir falla ekki þar undir.

Að öðru leyti geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, sbr. nefnda 3. mgr. 4. gr. Íbúasamtök Vesturbæjar eru frjáls samtök er munu m.a. láta sig varða skipulag Vesturbæjar Reykjavíkurborgar. Virðast samtökin byggja kæru sína á gæslu almannahagsmuna og skoðunum um íbúalýðræði, en m.a. er vísað til þess í kæru að kynningar borgarinnar á deiliskipulagsbreytingunum hafi verið villandi sem og þess að réttmæt krafa sé til að endurskoða skipulag Vesturbugtar í heild sinni vegna alvarleika þeirra fjölmörgu athugasemda er borist hafi. Hins vegar liggur ekki fyrir að samtökin eigi þeirra einstaklegu og lögvarinna hagsmuna að gæta er tengjast hinum kærðu skipulagsákvörðunum og veitt geti samtökunum stöðu málsaðila að stjórnsýslurétti. Þar sem nefnd samtök verða ekki talin eiga aðild að máli þessu ber þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

119/2012 Garðahverfi

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 24. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 119/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 24. október 2012, er barst nefndinni 7. nóvember s.á., kærir G, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. ágúst 2012 um að samþykkja deiliskipulag Garðahverfis í Garðabæ.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar hinn 16. ágúst 2012 var samþykkt deiliskipulag fyrir Garðahverfi sem markast af Aukatjörn, Skógartjörn og fyrrverandi sveitarfélagamörkum Garðabæjar og Álftaness að vestanverðu. Þá er þar að finna skógræktarsvæði á Garðaholti, Grænagarð, norðan af Garðavegi. Austanverð mörk miðast við mörk deiliskipulags Hleina að Langeyrarmölum. Að sunnan markast skipulagssvæðið af strandlínu. 

Kærandi telur að framangreint deiluskipulag Garðahverfis í Garðabæ muni hafa verulega neikvæð áhrif á hverfið. Nú séu 27 húseignir í hverfinu en fjöldi þeirra muni aukast um 58 húseignir með framangreindu deiliskipulagi. Að sögn kæranda munu þær jarðvegs- og byggingaframkvæmdir  sem fylgja slíkri áætlun hafa neikvæð áhrif á friðlýst svæði í hverfinu og raska skráðum náttúruminjum.

Af hálfu Garðabæjar er bent á að umrætt deiliskipulag hafi ekki tekið gildi þar sem það hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. ml. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við efnisþætti deiliskipulagsins á sínum tíma og málið því aftur hlotið meðferð hjá skipulagsyfirvöldum. Jafnframt sé tekið fram að skipulag Garðahverfis hafi nú verið samþykkt og tekið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 144/2014, en útgáfudagur þess hafi verið 11. febrúar 2014. Garðabær telji að kæra frá 24. október 2012 geti ekki varðað deiliskipulag Garðahverfis Garðabæjar frá 11. febrúar 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar ákvörðunar um breytingu á deiliskipulagi Garðahverfis í Garðabæ frá 16. ágúst 2012.

Leitt hefur verið í ljós að umrætt deiliskipulag var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda svo sem áskilið er í 2. ml. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hefur hin kærða ákvörðun af þeim ástæðum ekki lengur réttarverkan að lögum og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

71/2012 Skátafélagið Vífill

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 27. maí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 71/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 11. júlí 2012, stíluðu á innanríkisráðuneytið, er framsent var úrskurðarnefndinni og barst henni 13. s.m., kæra G, Faxatúni 18, S, Faxatúni 20, K, Faxatúni 22, H, Faxatúni 24, og H, Faxatúni 26, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis frá 19. október 2009 að veita Skátafélaginu Vífli starfsleyfi til að starfrækja félagsheimili og samkomusal að Bæjarbraut 7 í Garðabæ.

Verður að skilja kröfur kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá verður kæran skilin svo að einn kærenda,  krefjist þess jafnframt að sú ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 22. nóvember 2011 að hafna kröfu kæranda um afturköllun á starfsleyfinu verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Garðabæ 10. september 2012.

Málsatvik og rök: Hinn 19. október 2009 samþykkti heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis umsókn Skátafélagsins Vífils og gaf út starfsleyfi til að reka félagsheimili og samkomusal í húsnæði skátafélagsins að Bæjarbraut 7 í Garðabæ. Leyfið tekur til reksturs félagsheimilis, samkomusalar og móttökueldhúss.

Einn kærenda fór fram á það í erindi, dags. 11. nóvember 2011, að starfsleyfið yrði afturkallað og útleiga á samkomusal í skátaheimilinu stöðvuð án tafar. Erindinu var hafnað af heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og var kæranda tilkynnt um það með bréfi dags. 22. s.m.

Kærendur telja að veislusalir skuli ekki vera starfræktir 30-40 metrum frá svefnherbergisgluggum íbúðarhúsa. Þá hafi bæjarstjórn verið vanhæf við ákvörðun um skilgreiningu svæðisins í deiliskipulagi. Auk starfsleyfis sé kvartað yfir samþykkt deiliskipulags fyrir. Þá sé tekið fram að samþykkt deiliskipulags hafi verið kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála en kæran barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 11. júlí 2012 og var úrskurður kveðinn upp í því máli 23. maí 2014.

Af hálfu Garðabæjar er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá sem of seint fram kominni.

Niðurstaða: Ekki verður fjallað um kröfur kærenda vegna samþykktar á deiliskipulagi Silfurtúns enda liggur fyrir úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 69/2012 frá 23. maí 2014.

Hið umdeilda starfsleyfi var gefið út í október 2009 og var þá kæranlegt til úrskurðarnefndar skv. þágildandi 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kærufrestur til þeirrar nefndar var þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá var einum kærenda tilkynnt með bréfi 22. nóvember 2011 að erindi hans um afturköllun starfsleyfis og stöðvun á starfsemi væri hafnað og í bréfinu leiðbeint um kæruleið til áðurgreindar nefndar sem og nefndan þriggja mánaða kærufrest.

Áðurnefnd úrskurðarnefnd var lögð niður frá og með 1. janúar 2012 með lögum nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Frá sama tíma eru ákvarðanir samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða II við lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kæran barst rúmlega rúmlega tveimur og hálfu ári eftir að leyfið var gefið út og tæpum átta mánuðum frá því að ákvörðun þess efnis að starfsleyfið yrði ekki afturkallað var tilkynnt þeim kæranda er þess hafði krafist. Kæran er því of seint fram komin og verður vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________
Nanna Magnadóttir

90/2013 Skerjabraut

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 10. júní, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir mál nr. 90/2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Sigmundur Hannesson, hrl. f.h. I og Ó, áður til heimilis að Skerjabraut 3a, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að nýtingarhlutfall á lóðinni að Skerjabraut 3a verði hið sama og á lóðunum nr. 1-3 við Skerjabraut ella að nýtingarhlutfall þeirra lóða verði hið sama og á lóðinni nr. 3a við Skerjabraut. Þá krefjast kærendur stöðvunar réttaráhrifa meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til nefndarinnar, dags. 16. janúar 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. desember 2013 á umsókn um leyfi til að reisa fjölbýlishús á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut. Gera kærendur kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda. Ítrekuðu kærendur kröfu sína um stöðvun framkvæmda með bréfi til nefndarinnar sem móttekið var 3. apríl 2014. Verður síðara kærumálið sem er nr. 3/2014 sameinað kærumáli þessu. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar.

Málsgögn bárust frá Seltjarnarnesbæ 17. janúar 2014, 24. s.m. og 27. febrúar s.á.

Málavextir: Hinn 22. júní 2011 var á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness samþykkt deiliskipulag Lambastaðahverfis og tók skipulagið gildi í október s.á. Var umrætt skipulag kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vísaði málinu frá. Taldi nefndin að hin kærða ákvörðun væri ógild þar sem auglýsing um gildistöku skipulagsins hefði ekki verið birt innan lögboðins tímafrests og því lægi ekki fyrir gild ákvörðun er sætt gæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Í framhaldi af því var ákveðið að hefja skipulagsferlið að nýju. Var skipulagslýsing vegna „endurauglýsingar“ deiliskipulags Lambastaðahverfis kynnt, m.a. á íbúafundi hinn 10. janúar 2013, og veittur nokkurra daga frestur til að koma að athugasemdum. Í nefndri lýsingu var tekið fram að gert væri ráð fyrir að nýtt deiliskipulag Lambastaðahverfis yrði í samræmi við áður samþykkta deiliskipulagstillögu Lambastaðahverfis að því undanskyldu að skipulag fyrir lóðina Skerjabraut 1-3 yrði í samræmi við tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina, dags. 17. júlí 2012. Þá myndi við gildistöku skipulagsins falla úr gildi deiliskipulag lóðarinnar Skerjabraut 1-3 sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn árið 2007 og skipulags- og byggingarskilmálar fyrir Hamarsgötu 2, 4 og 6, samþykktir árið 1973. 

Tillaga að deiliskipulagi Lambastaðahverfis var kynnt á íbúafundi hinn 14. febrúar 2013 og á fundi bæjarstjórnar hinn 27. s.m. var samþykkt að auglýsa téða tillögu. Var tillagan auglýst til kynningar frá 4. mars til 26. apríl 2013 með athugasemdafresti til 26. apríl og bárust 13 bréf og umsagnir með athugasemdum. Bæjarstjórn tók málið fyrir hinn 12. júní 2013 að undangenginni umfjöllun skipulags- og mannvirkjanefndar 4. þ.m. Var svohljóðandi fært til bókar: „Bæjarstjórn samþykkir samhljóða smávægilega breytingu á deiliskipulagstillögum og tillögur um svör frá skipulags- og mannvirkjanefnd vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis. Skipulagsstjóra falið að senda svörin til íbúa og afrit ásamt deiliskipulagstillögu með smávægilegri breytingu til umsagnar Skipulagsstofnunar“. Gerði Skipulagsstofnun ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst 2013.

Nær deiliskipulagið til íbúðarsvæðis sem afmarkast af Nesvegi til norðausturs, bæjarmörkum að Reykjavík til austurs, af sjó til suðvesturs og af Skerjabraut til norðvesturs. Í skipulaginu eru byggingarreitir markaðir og tekin afstaða til nýtingarhlutfalls einstakra lóða. Gerir deiliskipulagið m.a. ráð fyrir að á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut, sem liggur að hluta að lóðinni nr. 3a við Skerjabraut, verði reist fjölbýlishús með samtals 23 íbúðum og 34 bílastæðum á lóð. Er nýtingarhlutfall lóðarinnar með kjallara 1,05 og nýtingarhlutfall lóðar án kjallara 0,95.

Hinn 19. nóvember 2013 var á fundi skipulags- og umferðanefndar tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa fjölbýlishús með 23 íbúðum á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut. Var afgreiðslu málsins frestað, þar eð ákveðin gögn lægju ekki fyrir. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti svo framlagða umsókn hinn 18. desember s.á.

Framangreindum ákvörðunum hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er lýst.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að ójafnræðis gæti í heimiluðu nýtingarhlutfalli lóðar þeirra og Skerjabrautar 1-3 en samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verði nýtingarhlutfall lóðar kærenda 0,7 en nýtingarhlutfall lóðarinnar að Skerjabraut 1-3 verði 1,05. Réttmætt sé að kærendur sitji við sama borð og lóðarhafi Skerjabrautar 1-3 hvað nýtingarhlutfall lóðar varði. Þá sé bent á að skipulags- og umferðanefnd hafi frestað afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi og hafi því líklega ætlað að taka nefnda umsókn aftur fyrir til afgreiðslu. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi hins vegar samþykkt umsóknina þrátt fyrir að kæra vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis væri til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. Hafi hann með því farið á svig við grunnreglur stjórnsýsluréttar. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda um ógildingu verði hafnað og öðrum kröfum mótmælt. Með breytingu á deiliskipulagi sé verið að koma að nokkru til móts við sjónarmið kærenda með því að lækka nýtingarhlutfall úr 1,27 á lóðinni að Skerjabraut 1-3, líkt og það sé nú samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir lóðina, í 1,05. Mismunur á nýtingarhlutfalli byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Einnig sé með deiliskipulaginu komið til móts við sjónarmið kærenda um að þeim verði heimilt að nýta lóð sína betur. Vegna andmæla nágranna, grenndaráhrifa og byggðamynsturs hafi ekki verið talið hægt að leyfa meira byggingarmagn á lóðinni nr. 3a við Skerjabraut.

Þá hafi engin lög eða stjórnsýslureglur verið brotnar við afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar. Málið hafi ekki verið tækt til endanlegrar afgreiðslu fyrr en gögn, m.a. frá eldvarnareftirliti SHS, hafi borist. Engin ástæða hafi verið til að taka málið aftur upp í nefndinni en byggingarfulltrúi skuli lögum samkvæmt afgreiða byggingarmál nema samþykktir sveitarfélags geri ráð fyrir öðru og sé svo ekki hér.  

Málsrök byggingarleyfishafa Skerjabrautar 1-3: Byggingarleyfishafi bendir á að kærendur séu ekki þinglýstir eigendur að Skerjabraut 3a og þegar af þeim sökum eigi þeir engra lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu. Núverandi heimili þeirra sé um 4 km frá fyrirhuguðum framkvæmdum. Verði því ekki séð að hin kærða ákvörðun geti haft áhrif á grenndarhagsmuni þeirra og beri því að vísa kærumálinu frá nefndinni. Geri kærendur engan reka að því að rökstyðja málsaðild sína í kærunni og hafi því ekki sýnt fram á einstaklingsbundna lögmæta hagsmuni af málinu eða hverra hagsmuna þeir hafi að gæta af því að framkvæmdir hefjist ekki. Einnig sé bent á að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá hafi skipulags- og byggingarfulltrúi haft fulla heimild til að samþykkja umsókn um byggingarleyfi. 

Niðurstaða: Samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands seldu kærendur fasteign sína að Skerjabraut 3a hinn 19. desember 2012. Fasteignin var afhent 1. júní 2013, afsal gefið út 1. ágúst s.á. og því þinglýst 8. s.m. Því er áður lýst að hið umdeilda deiliskipulag var samþykkt með ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 og tók það gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst s.á. Þá var umsókn um leyfi til að reisa fjölbýlishús á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut samþykkt af skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarness 18. desember 2013.

Kærendur munu nú vera búsettir að í Reykjavík eða í töluverðri fjarlægð frá því svæði er deiliskipulag Lambastaðahverfis tekur til. Getur deiliskipulagið og byggingar-leyfi gefið út í samræmi við það ekki haft þau áhrif á umhverfi kærenda að snert geti lögvarða hagsmuni þeirra þegar litið er til staðsetningar húss þeirra að og afstöðu þess til heimilaðra bygginga á lóðinni að Skerjabraut 1-3 eða til skipulagssvæðisins í heild sinni. Eiga kærendur því ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, og ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

118/2012 Þórsgata

Með

Árið 2014, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 118/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr. sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra K og Í, Þórsgötu 13, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 17. október 2012 á umsókn um breytt deiliskipulag lóðar þeirra. 

Kærendur krefjast þess að afgreiðslu skipulagsráðs verði hnekkt og að því verði gert að taka málið til umfjöllunar að nýju á grundvelli fyrri ákvarðana þess og umsagnar fyrrverandi lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur. 

Málsatvik og rök: Kærendur eru búsettir í einbýlishúsi á lóð nr. 13 við Þórsgötu í Reykjavík. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi Þórsgötureits er gert ráð fyrir bílastæðum framan við hús kærenda. Í júní 2007 var á fundi skipulagsráðs tekin fyrir fyrirspurn kærenda um hvort heimilað yrði að leggja niður eitt almenningsbílastæði framan við hús þeirra til að rýma fyrir innkeyrslu inn á lóðina þar sem yrðu þrjú bílastæði. Fyrir lá jákvæð umsögn framkvæmdasviðs um erindið. Var m.a. fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við erindið og að sækja þyrfti um byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 30. september 2008 var lögð fram umsókn um leyfi til að gera innkeyrslu og koma fyrir tveimur bílastæðum á lóð kærenda. Var afgreiðslu málsins frestað og fært til bókar að með vísan til umsagnar skipulagsstjóra væri ekki gerð athugasemd við að umsækjandi gerði breytingu á deiliskipulagi í samræmi við erindið og yrði slík tillaga grenndarkynnt.

Í september 2011 var tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulagsstjóra fyrirspurn kærenda að breyttu deiliskipulagi Þórsgötureits og hún afgreidd neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra. Komu kærendur á framfæri athugasemdum við afgreiðslu skipulagsstjóra og fóru fram á að veittar yrðu leiðbeiningar við gerð nýrrar tillögu til að tryggja að hún yrði í samræmi við fyrri afgreiðslur skipulags- og byggingaryfirvalda. Á fundi skipulagsráðs hinn 22. febrúar 2012 var tekin fyrir tillaga kærenda, dags. 8 desember 2011, um breytt deiliskipulag Þórsgötureits sem fól í sér breyttan byggingarreit á lóð kærenda og tilhögun bílastæða. Jafnframt var lögð fram önnur tillaga þar sem gert var ráð fyrir frávikum frá fyrri tillögu. Tók skipulagsráð erindið fyrir sem fyrirspurn og afgreiddi með neikvæðum hætti.  Erindi kærenda var lagt fram að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 17. október 2012 og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Synjað. Skipulagsráð fellst ekki á að breyta deiliskipulagi á þann hátt sem lagt er til í tillögunni.“ Hinn 18. október 2012 var fundargerð skipulagsráðs lögð fram í borgarráði sem samþykkti B-hluta fundargerðarinnar.    

Kærendur skírskota til þess að hvorki sé í hinni kærðu ákvörðun tilgreind ástæða né gefinn rökstuðningur fyrir synjuninni. Erindinu muni hafa verið hafnað vegna andstöðu við að fjarlægja ætti bílastæði af götu en það hafi þegar verið samþykkt af skipulagsráði.  Hafi skipulagsyfirvöld ítrekað afgreitt málið í mótsögn við afgreiðslu skipulagsráðs frá því í júní 2007, þrátt fyrir að tillagan hafi verið útfærð í samræmi við leiðbeiningar starfsmanna skipulagsyfirvalda.

Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað. Stjórnvald geti breytt afstöðu sinni að vissum skilyrðum uppfylltum og hafi það átt við hér. Skipulagsyfirvöld hafi á grundvelli málefnalegra sjónarmiða komist að annarri niðurstöðu nú. Afgreiðsla erindis kærenda í júní 2007 hafi verið svar við fyrirspurn kærenda en ekki afgreiðsla á umsókn. Fimm árum síðar hafi önnur sjónarmið verið til staðar þegar að endanlegri afgreiðslu hafi komið og því þurfi kærendur að sæta.  

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun skipulagsráðs  Reykjavíkur á beiðni um breytt deiliskipulag fyrir Þórsgötureit. Skipulagsráð afgreiddi beiðnina á fundi 17. október 2012 og var fundargerð ráðsins skipt í tvískiptan A-hluta sem fjallaði um skipulagsmál, B-hluta sem fjallaði um byggingarmál, C-hluta um fyrirspurnir og D-hluta ýmis mál. Mál það sem hér er um deilt var afgreitt í fyrri A-hluta fundargerðarinnar. Fundargerðin var lögð fram á fundi borgarráðs daginn eftir þar sem bókað var að borgarráð samþykkti B-hluta fundargerðarinnar en ekki var fjallað um afgreiðslu skipulagsráðs á áðurgreindri beiðni.

Sveitarstjórnir annast gerð deiliskipulags og breytingu á því, sbr. 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni kynningu á deiliskipulagstillögu skal skv. 4. ml. 4. mgr. 4. gr. laganna leggja hana fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, en sveitarstjórn er heimilt að framselja vald sitt með því að fela skipulagsnefnd eða öðrum í stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. og 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. 

Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skulu í Reykjavík lagðar fyrir borgarráð eða borgastjórn. Innihaldi fundargerðir ályktanir eða tillögur sem þarfnast staðfestingar borgarráðs eða borgarstjórnar ber að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti, sbr. 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og 60 gr. samþykktar nr. 1200/2007. Í 12. gr. samþykktar fyrir Skipulagsráð Reykjavíkurborgar frá 5. apríl 2005, sem gilti þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin, sbr. 1. gr. viðauka 1.1 nefndrar samþykktar nr. 1200/2007, eru talin upp þau verkefni sem skipulagsráði er heimilt að afgreiða án staðfestingar borgarráðs. Verður að skilja tilvitnuð ákvæði á þann veg að skipulagsráði sé ekki heimilt að synja gerð deiliskipulags án staðfestingar borgarráðs enda er slíka afgreiðslu ekki að finna í hópi þeirra verkefna er talin eru í áðurnefndri 12. gr.  Borgarráð þurfti því að staðfesta hina umdeildu ákvörðun skipulagsráðs um að synja beiðni um breytt deiliskipulag fyrir Þórsgötureit.

Fundargerð borgarrráðs frá 18. október 2012 ber með sér samþykki á B-hluta fundargerðar skipulagsráðs frá 17. október 2012 en ekki var fjallað um afgreiðslu skipulagsráðs á beiðni kæranda sem var að finna í fyrri A-hluta fundargerðar skipulagsráðs. Með því að ekki liggur fyrir í málinu að borgarráð hafi tekið hina kærðu afgreiðslu skipulagsráðs fyrir og afgreitt í samræmi við  1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og 60 gr. samþykktar nr. 1200/2007 verður ekki litið svo á að hún hafi falið í sér ákvörðun sem bindi enda á mál og sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærunni því vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________________
Nanna Magnadóttir

27/2009 Njálsgata

Með

Árið 2014, miðvikudaginn 5. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. mars 2009 um að samþykkja veitingu byggingarleyfis fyrir gerð sólpalls við einbýlishúsið að Njálsgötu 28 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. apríl 2009, er barst nefndinni 21. s.m., kærir Hvítsól ehf., eigandi fasteignarinnar að Frakkastíg 17, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. mars 2009 að samþykkja veitingu byggingarleyfis fyrir gerð sólpalls við einbýlishúsið að Njálsgötu 28 í Reykjavík með því skilyrði að leyfishafi fjarlægi óleyfisgirðingu og girðingarstaura í lóðarmörkum og að frágangur á lóðarmörkum verði háður samþykki rétthafa aðliggjandi lóðar.  Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu hinn 2. apríl 2009.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 20. febrúar 2009 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort leyft yrði að útbúa sólpall á lóð einbýlishússins að Njálsgötu 28 í samræmi við útlitsteikningu sem erindinu fylgdi.  Málinu var vísað til umsagnar skipulagsstjóra og á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 17. febrúar 2009 var bókað að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið með vísan til umsagnar skipulagsstjóra.  Í kjölfar þess var sótt um byggingarleyfi fyrir sólpallinum sem samþykkt var á fundi byggingarfulltrúa hinn 31. mars 2009 með svofelldri bókun:  „Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.  Skilyrt er að umsækjandi fjarlægi óleyfisgirðingu og girðingarstaura á lóðamörkum.  Frágangur á lóðamörkum er háður samþykki aðliggjandi lóðarhafa.“  Borgarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 2. apríl s.á., eins og að framan greinir.

Kærandi vísar til þess að umdeildum sólpalli með tilheyrandi girðingu sé komið fyrir í það mikilli hæð að skyggi á sól í garði kæranda sem liggi að lóð  byggingarleyfishafa.  Þar að auki hafi leyfishafi reist allt of háa tvöfalda girðingu á lóðamörkunum í óþökk kæranda, sem valdi skuggavarpi á lóð kæranda langt fram yfir hádegi.  Girðingin virki sem fangelsismúr umhverfis lóð hans en kærandi hafi stundað þar ræktun sér til ánægju og notið þar útivistar í mörg ár eða þar til nýbygging að Njálsgötu 28 hafi verið reist.

Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að hið kærða byggingarleyfi snúi einungis að gerð sólpalls á lóð Njálsgötu 28 og verði ekki séð hvernig hann raski möguleikum kæranda til að njóta sólar í garði sínum.  Deilur um hæðarsetningu palls og girðingar stafi af því að yfirborði beggja lóða hafi verið breytt og hafi yfirborð lóðar kæranda verið lækkað á um það bil 8 m kafla um 40-50 cm.  Að óbreyttu lóðaryfirborði hefði umræddur pallur ekki risið hærra en næmi grasflöt á lóð kæranda.

Niðurstaða:  Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í veðbandsyfirliti frá Þjóðskrá Íslands urðu eigendaskipti á fasteignum kæranda í húsinu að Frakkastíg 17 á árinu 2012.

Í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem eiga við í máli þessu, er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Lögvarðir hagsmunir kæranda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu hans sem handhafa fasteignaréttinda í húsinu að Frakkastíg 17.  Eins og fyrr er rakið á kærandi ekki lengur réttindi tengd umræddri fasteign og á hann því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
  

_________________________________________
Ómar Stefánsson

_________________________________                   _________________________________
Ásgeir Magnússon                                                        Hildigunnur Haraldsdóttir

81/2012 Melavellir

Með

Árið 2014, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 81/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 13. ágúst 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Matfugl ehf., Völuteigi 2, Mosfellsbæ, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 11. júlí 2012 á umsókn um breytt deiliskipulag jarðarinnar Melavalla á Kjalarnesi.

Skilja verður kæruna svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Nefndinni bárust gögn frá Reykjavíkurborg 5. október 2012.

Málsatvik og rök: Á jörðinni Melavöllum á Kjalarnesi er starfrækt kjúklingabú og eru þar fimm alifuglahús, þrjú sambyggð og tvö frístandandi, auk íbúðarhúss. Heimilt er samkvæmt gildandi deiliskipulagi Melavalla frá árinu 2006 að reisa eitt frístandandi alifuglahús til viðbótar á jörðinni. Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur 28. mars 2012 var erindi kæranda um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar tekið fyrir. Vildi hann að heimilað yrði að bæta við fjórum frístandandi alifuglahúsum í stað eins. Skipulagsráð samþykkti að auglýsa tillöguna og var sú afgreiðsla samþykkt í borgarráði 12. apríl 2012.

Tillagan var auglýst í Lögbirtingablaði og var til sýnis í þjónustuveri Reykjavíkurborgar og á heimasíðu umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar frá 23. apríl til 6. júní 2012. Athugasemdir bárust frá fimm aðilum. Að loknum kynningartíma tillögunnar var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs sem haldinn var 11. júlí 2012 og var erindinu synjað með vísan til umsagnar skipulagsstjóra dagsettri 9. júlí s.á. Í niðurlagi umsagnarinnar sagði að í ljósi athugasemda og ábendinga frá nágrönnum, íbúasamtökum og hverfaráði Kjalarness væri ekki mælt með því að deiliskipulagið yrði samþykkt óbreytt heldur að tillögunni yrði synjað. Í ljósi umsagnar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. júlí 2012, þar sem tilgreindar væru mögulegar mótvægisaðgerðir, væri þó ekki gerð athugasemd við að umsækjandi skilaði nýrri tillögu að breyttu skipulagi þess efnis að heimilað yrði eitt alifuglahús til viðbótar, en þá yrðu húsin alls fimm í stað sjö.  Hinn 12. júlí 2012 var fundargerð skipulagsráðs lögð fram í borgarráði sem samþykkti B-hluta fundargerðarinnar. 

Kærandi bendir í fyrsta lagi á að skipulagsráð Reykjavíkur hafi áður samþykkt sambærilegar deiliskipulagstillögur vegna Melavalla, eða árin 2009 og 2010, en þær ekki náð í gegnum stjórnkerfi borgarinnar. Kærandi telur í annan stað að rök skipulagsráðs fyrir synjun á erindi hans séu ómálefnaleg og huglæg. Efnislegum athugasemdum sem hafi borist við auglýsingu tillögunnar hafi verið svarað með umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dagsettri 4. júlí 2012. Í þriðja lagi telur kærandi ómálefnalegt að hafna því að jörðin sé nýtt til landbúnaðar þegar hún sé samkvæmt aðalskipulagi á landbúnaðarsvæði og aukið umfang alifuglaeldis muni ekki samkvæmt framlögðum gögnum, þ.e. umhverfismati eða umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, hafa neikvæð áhrif á umhverfið.
   
Reykjavíkurborg krefst þess að hin umdeilda ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur verði staðfest. Í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að það séu sveitarstjórnir sem annist gerð deiliskipulagsáætlana og breytingar á þeim og beri borgaryfirvöldum ekki skylda til að fallast á þær breytingar sem kærandi vilji gera á gildandi skipulagi. Þá sé það oftúlkun á jafnræðisreglu að telja borgaryfirvöld bundin árum saman af fyrri afgreiðslu mála. Borgin mótmæli því að rök skipulagsráðs hafi verið ómálefnaleg en íbúar í næsta nágrenni, íbúasamtök og hverfaráð Kjalarness hafi gert athugasemdir við tillöguna. Þá sé í umsögn skipulagsstjóra bent á það hversu lítil jörðin sé, en hún sé aðeins rúmir 16 ha. Rétt sé að í umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sé bent á mótvægisaðgerðir gegn mengun. Einmitt þess vegna sé að finna yfirlýsingu í umsögn skipulagsstjóra, sem skipulagsráð hafi samþykkt, þess efnis að ekki sé gerð athugasemd við að umsækjandi sendi borginni nýja tillögu að skipulagsbreytingu sem feli í sér heimild til að byggja eitt hús til viðbótar við það sem þegar sé heimilað. Ekki sé rétt að borgaryfirvöld hafni nýtingu jarðarinnar Melavalla sem landbúnaðarsvæðis en hafa verði í huga að um sé að ræða mjög litla jörð í nágrenni við mesta þéttbýli landsins og það séu takmörk fyrir því hvað unnt sé að heimila öflugt alifuglaeldi á slíkum stað. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun skipulagsráðs Reykjavíkur á beiðni um breytt deiliskipulag jarðarinnar Melavalla. Skipulagsráð afgreiddi beiðni kæranda á fundi 11. júlí 2012 og var fundargerð ráðsins skipt í A-hluta sem fjallaði um skipulagsmál, B-hluta sem fjallaði um byggingarmál, C-hluta um fyrirspurnir og D-hluta ýmis mál. Mál það sem hér er um deilt var afgreitt í A-hluta fundargerðarinnar. Fundargerðin var lögð fram á fundi borgarráðs daginn eftir þar sem bókað var að borgarráð samþykkti B-hluta fundargerðarinnar en ekki var fjallað um afgreiðslu skipulagsráðs á beiðni kæranda.

Sveitarstjórnir annast gerð deiliskipulags og breytingu á því, sbr. 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni kynningu á deiliskipulagstillögu skal skv. 4. ml. 4. mgr. 4. gr. laganna leggja hana fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, en sveitarstjórn er heimilt að framselja vald sitt með því að fela skipulagsnefnd eða öðrum í stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. og 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. 

Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skulu í Reykjavík lagðar fyrir borgarráð eða borgastjórn. Innihaldi fundargerðir ályktanir eða tillögur sem þarfnast staðfestingar borgarráðs eða borgarstjórnar ber að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti, sbr. 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og 60 gr. samþykktar nr. 1200/2007. Í 12. gr. samþykktar fyrir Skipulagsráð Reykjavíkurborgar frá 5. apríl 2005, sem gilti þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin, sbr. 1. gr. viðauka 1.1 nefndrar samþykktar nr. 1200/2007, eru talin upp þau verkefni sem skipulagsráði er heimilt að afgreiða án staðfestingar borgarráðs. Verður að skilja tilvitnuð ákvæði á þann veg að skipulagsráði sé ekki heimilt að synja gerð deiliskipulags án staðfestingar borgarráðs enda er slíka afgreiðslu ekki að finna í hópi þeirra verkefna er talin eru í áðurnefndri 12. gr.  Borgarráð þurfti því að staðfesta ákvörðun skipulagsráðs um að synja ósk kæranda.

Fundargerð borgarrráðs frá 12. júlí 2012 ber með sér samþykki á B-hluta fundargerðar skipulagsráðs frá 11. júlí 2012 en ekki var fjallað um afgreiðslu skipulagsráðs á beiðni kæranda sem var að finna í A-hluta fundargerðar skipulagsráðs. Með því að ekki liggur fyrir í málinu að borgarráð hafi tekið hina kærðu afgreiðslu skipulagsráðs fyrir og afgreitt í samræmi við  1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og 60 gr. samþykktar nr. 1200/2007 verður ekki litið svo á að hún hafi falið í sér ákvörðun sem bindi enda á mál og sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærunni því vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir