Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

118/2012 Þórsgata

Árið 2014, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 118/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr. sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra K og Í, Þórsgötu 13, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 17. október 2012 á umsókn um breytt deiliskipulag lóðar þeirra. 

Kærendur krefjast þess að afgreiðslu skipulagsráðs verði hnekkt og að því verði gert að taka málið til umfjöllunar að nýju á grundvelli fyrri ákvarðana þess og umsagnar fyrrverandi lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur. 

Málsatvik og rök: Kærendur eru búsettir í einbýlishúsi á lóð nr. 13 við Þórsgötu í Reykjavík. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi Þórsgötureits er gert ráð fyrir bílastæðum framan við hús kærenda. Í júní 2007 var á fundi skipulagsráðs tekin fyrir fyrirspurn kærenda um hvort heimilað yrði að leggja niður eitt almenningsbílastæði framan við hús þeirra til að rýma fyrir innkeyrslu inn á lóðina þar sem yrðu þrjú bílastæði. Fyrir lá jákvæð umsögn framkvæmdasviðs um erindið. Var m.a. fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við erindið og að sækja þyrfti um byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 30. september 2008 var lögð fram umsókn um leyfi til að gera innkeyrslu og koma fyrir tveimur bílastæðum á lóð kærenda. Var afgreiðslu málsins frestað og fært til bókar að með vísan til umsagnar skipulagsstjóra væri ekki gerð athugasemd við að umsækjandi gerði breytingu á deiliskipulagi í samræmi við erindið og yrði slík tillaga grenndarkynnt.

Í september 2011 var tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulagsstjóra fyrirspurn kærenda að breyttu deiliskipulagi Þórsgötureits og hún afgreidd neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra. Komu kærendur á framfæri athugasemdum við afgreiðslu skipulagsstjóra og fóru fram á að veittar yrðu leiðbeiningar við gerð nýrrar tillögu til að tryggja að hún yrði í samræmi við fyrri afgreiðslur skipulags- og byggingaryfirvalda. Á fundi skipulagsráðs hinn 22. febrúar 2012 var tekin fyrir tillaga kærenda, dags. 8 desember 2011, um breytt deiliskipulag Þórsgötureits sem fól í sér breyttan byggingarreit á lóð kærenda og tilhögun bílastæða. Jafnframt var lögð fram önnur tillaga þar sem gert var ráð fyrir frávikum frá fyrri tillögu. Tók skipulagsráð erindið fyrir sem fyrirspurn og afgreiddi með neikvæðum hætti.  Erindi kærenda var lagt fram að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 17. október 2012 og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Synjað. Skipulagsráð fellst ekki á að breyta deiliskipulagi á þann hátt sem lagt er til í tillögunni.“ Hinn 18. október 2012 var fundargerð skipulagsráðs lögð fram í borgarráði sem samþykkti B-hluta fundargerðarinnar.    

Kærendur skírskota til þess að hvorki sé í hinni kærðu ákvörðun tilgreind ástæða né gefinn rökstuðningur fyrir synjuninni. Erindinu muni hafa verið hafnað vegna andstöðu við að fjarlægja ætti bílastæði af götu en það hafi þegar verið samþykkt af skipulagsráði.  Hafi skipulagsyfirvöld ítrekað afgreitt málið í mótsögn við afgreiðslu skipulagsráðs frá því í júní 2007, þrátt fyrir að tillagan hafi verið útfærð í samræmi við leiðbeiningar starfsmanna skipulagsyfirvalda.

Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað. Stjórnvald geti breytt afstöðu sinni að vissum skilyrðum uppfylltum og hafi það átt við hér. Skipulagsyfirvöld hafi á grundvelli málefnalegra sjónarmiða komist að annarri niðurstöðu nú. Afgreiðsla erindis kærenda í júní 2007 hafi verið svar við fyrirspurn kærenda en ekki afgreiðsla á umsókn. Fimm árum síðar hafi önnur sjónarmið verið til staðar þegar að endanlegri afgreiðslu hafi komið og því þurfi kærendur að sæta.  

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun skipulagsráðs  Reykjavíkur á beiðni um breytt deiliskipulag fyrir Þórsgötureit. Skipulagsráð afgreiddi beiðnina á fundi 17. október 2012 og var fundargerð ráðsins skipt í tvískiptan A-hluta sem fjallaði um skipulagsmál, B-hluta sem fjallaði um byggingarmál, C-hluta um fyrirspurnir og D-hluta ýmis mál. Mál það sem hér er um deilt var afgreitt í fyrri A-hluta fundargerðarinnar. Fundargerðin var lögð fram á fundi borgarráðs daginn eftir þar sem bókað var að borgarráð samþykkti B-hluta fundargerðarinnar en ekki var fjallað um afgreiðslu skipulagsráðs á áðurgreindri beiðni.

Sveitarstjórnir annast gerð deiliskipulags og breytingu á því, sbr. 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni kynningu á deiliskipulagstillögu skal skv. 4. ml. 4. mgr. 4. gr. laganna leggja hana fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, en sveitarstjórn er heimilt að framselja vald sitt með því að fela skipulagsnefnd eða öðrum í stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. og 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. 

Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skulu í Reykjavík lagðar fyrir borgarráð eða borgastjórn. Innihaldi fundargerðir ályktanir eða tillögur sem þarfnast staðfestingar borgarráðs eða borgarstjórnar ber að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti, sbr. 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og 60 gr. samþykktar nr. 1200/2007. Í 12. gr. samþykktar fyrir Skipulagsráð Reykjavíkurborgar frá 5. apríl 2005, sem gilti þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin, sbr. 1. gr. viðauka 1.1 nefndrar samþykktar nr. 1200/2007, eru talin upp þau verkefni sem skipulagsráði er heimilt að afgreiða án staðfestingar borgarráðs. Verður að skilja tilvitnuð ákvæði á þann veg að skipulagsráði sé ekki heimilt að synja gerð deiliskipulags án staðfestingar borgarráðs enda er slíka afgreiðslu ekki að finna í hópi þeirra verkefna er talin eru í áðurnefndri 12. gr.  Borgarráð þurfti því að staðfesta hina umdeildu ákvörðun skipulagsráðs um að synja beiðni um breytt deiliskipulag fyrir Þórsgötureit.

Fundargerð borgarrráðs frá 18. október 2012 ber með sér samþykki á B-hluta fundargerðar skipulagsráðs frá 17. október 2012 en ekki var fjallað um afgreiðslu skipulagsráðs á beiðni kæranda sem var að finna í fyrri A-hluta fundargerðar skipulagsráðs. Með því að ekki liggur fyrir í málinu að borgarráð hafi tekið hina kærðu afgreiðslu skipulagsráðs fyrir og afgreitt í samræmi við  1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og 60 gr. samþykktar nr. 1200/2007 verður ekki litið svo á að hún hafi falið í sér ákvörðun sem bindi enda á mál og sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærunni því vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________________
Nanna Magnadóttir