Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

38/2013 Múlavirkjun

Árið 2014, fimmtudaginn 14. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 38/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 5. apríl 2013, sem Skipulagsstofnun framsendi 16. s.m. til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærir G, Fellasneið 14, Grundarfirði, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að framkvæmd Múlavirkjunar skuli ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum. Með hliðsjón af gögnum málsins verður að skilja kröfugerð kæranda svo að kærð sé ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. mars 2013 að hækkun uppsetts afls Múlavirkjunar, í Eyja- og Miklaholtshreppi, úr 1,9 MW í 3,2 MW og á vatnsborði Baulárvallavatns, sem orðið hefur vegna reksturs virkjunarinnar og í samræmi við tillögu um nýtt vatnsborðsskilyrði í virkjunarleyfi, sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þá sé gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Árið 2004 var gefið út virkjanaleyfi vegna framkvæmda við Múlavirkjun  en með ákvörðun 7. nóvember 2003 hafði Skipulagsstofnun komist að þeirri niðurstöðu að virkjunin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 19. desember 2012 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Múlavirkjun ehf., samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b. og lið 13 a í 2. viðauka laganna, um hækkun uppsetts afls Múlavirkjunar. Hinn 1. mars 2013 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að nefnd hækkun uppsetts afls Múlavirkjunar í Eyja- og Miklaholtshreppi úr 1,9 MW í 3,2 MW og á vatnsborði Baulárvallavatns, sem orðið hefði vegna reksturs virkjunarinnar og í samræmi við tillögu um nýtt vatnsborðsskilyrði í virkjunarleyfi, væri ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri þar af leiðandi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi telur að með því að byggja umfangsmeiri virkjun en upphaflega stóð til hafi verið brotið gegn lögum um skipulags- og byggingarmál sem og lögum um mat á umhverfisáhrifum. Af þessum sökum sé hætt við því að virkjunin valdi tjóni á lífríki Straumfjarðarár sem og Baulárvallavatns. Hafi vatnsborð Baulárvallavatns hækkað umtalsvert og ekkert náttúrulegt rennsli sé nú í Straumfjarðará á milli vatnsins og lónsins við stífluna. Silungur sem hrygnt hafi í þessu straumvatni muni búa við breyttar aðstæður í framtíðinni vegna þessa. 

———-

Með bréfi, dags. 3. júní 2014, var athygli kæranda vakin á því að þeir einir gætu kært til úrskurðarnefndarinnar sem hefðu lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis-  og auðlindamála og var kæranda gefinn kostur á að koma skýringum þar um til nefndarinnar. Var frestur veittur til 1. júlí 2014 en engar athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Eins og málið liggur fyrir úrskurðarnefndinni er ekki ljóst með hvaða hætti hækkun uppsetts afls Múlavirkjunar, og eftir atvikum áhrif hennar á lífríki, snerti lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að skapi honum aðild að kærumáli vegna hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Þá eiga undantekningartilvik nefndrar lagagreinar ekki við í málinu. Er því ekki sýnt fram á kæruaðild í málinu og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir