Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

90/2013 Skerjabraut

Árið 2014, þriðjudaginn 10. júní, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir mál nr. 90/2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Sigmundur Hannesson, hrl. f.h. I og Ó, áður til heimilis að Skerjabraut 3a, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að nýtingarhlutfall á lóðinni að Skerjabraut 3a verði hið sama og á lóðunum nr. 1-3 við Skerjabraut ella að nýtingarhlutfall þeirra lóða verði hið sama og á lóðinni nr. 3a við Skerjabraut. Þá krefjast kærendur stöðvunar réttaráhrifa meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til nefndarinnar, dags. 16. janúar 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. desember 2013 á umsókn um leyfi til að reisa fjölbýlishús á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut. Gera kærendur kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda. Ítrekuðu kærendur kröfu sína um stöðvun framkvæmda með bréfi til nefndarinnar sem móttekið var 3. apríl 2014. Verður síðara kærumálið sem er nr. 3/2014 sameinað kærumáli þessu. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar.

Málsgögn bárust frá Seltjarnarnesbæ 17. janúar 2014, 24. s.m. og 27. febrúar s.á.

Málavextir: Hinn 22. júní 2011 var á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness samþykkt deiliskipulag Lambastaðahverfis og tók skipulagið gildi í október s.á. Var umrætt skipulag kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vísaði málinu frá. Taldi nefndin að hin kærða ákvörðun væri ógild þar sem auglýsing um gildistöku skipulagsins hefði ekki verið birt innan lögboðins tímafrests og því lægi ekki fyrir gild ákvörðun er sætt gæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Í framhaldi af því var ákveðið að hefja skipulagsferlið að nýju. Var skipulagslýsing vegna „endurauglýsingar“ deiliskipulags Lambastaðahverfis kynnt, m.a. á íbúafundi hinn 10. janúar 2013, og veittur nokkurra daga frestur til að koma að athugasemdum. Í nefndri lýsingu var tekið fram að gert væri ráð fyrir að nýtt deiliskipulag Lambastaðahverfis yrði í samræmi við áður samþykkta deiliskipulagstillögu Lambastaðahverfis að því undanskyldu að skipulag fyrir lóðina Skerjabraut 1-3 yrði í samræmi við tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina, dags. 17. júlí 2012. Þá myndi við gildistöku skipulagsins falla úr gildi deiliskipulag lóðarinnar Skerjabraut 1-3 sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn árið 2007 og skipulags- og byggingarskilmálar fyrir Hamarsgötu 2, 4 og 6, samþykktir árið 1973. 

Tillaga að deiliskipulagi Lambastaðahverfis var kynnt á íbúafundi hinn 14. febrúar 2013 og á fundi bæjarstjórnar hinn 27. s.m. var samþykkt að auglýsa téða tillögu. Var tillagan auglýst til kynningar frá 4. mars til 26. apríl 2013 með athugasemdafresti til 26. apríl og bárust 13 bréf og umsagnir með athugasemdum. Bæjarstjórn tók málið fyrir hinn 12. júní 2013 að undangenginni umfjöllun skipulags- og mannvirkjanefndar 4. þ.m. Var svohljóðandi fært til bókar: „Bæjarstjórn samþykkir samhljóða smávægilega breytingu á deiliskipulagstillögum og tillögur um svör frá skipulags- og mannvirkjanefnd vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis. Skipulagsstjóra falið að senda svörin til íbúa og afrit ásamt deiliskipulagstillögu með smávægilegri breytingu til umsagnar Skipulagsstofnunar“. Gerði Skipulagsstofnun ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst 2013.

Nær deiliskipulagið til íbúðarsvæðis sem afmarkast af Nesvegi til norðausturs, bæjarmörkum að Reykjavík til austurs, af sjó til suðvesturs og af Skerjabraut til norðvesturs. Í skipulaginu eru byggingarreitir markaðir og tekin afstaða til nýtingarhlutfalls einstakra lóða. Gerir deiliskipulagið m.a. ráð fyrir að á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut, sem liggur að hluta að lóðinni nr. 3a við Skerjabraut, verði reist fjölbýlishús með samtals 23 íbúðum og 34 bílastæðum á lóð. Er nýtingarhlutfall lóðarinnar með kjallara 1,05 og nýtingarhlutfall lóðar án kjallara 0,95.

Hinn 19. nóvember 2013 var á fundi skipulags- og umferðanefndar tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa fjölbýlishús með 23 íbúðum á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut. Var afgreiðslu málsins frestað, þar eð ákveðin gögn lægju ekki fyrir. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti svo framlagða umsókn hinn 18. desember s.á.

Framangreindum ákvörðunum hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er lýst.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að ójafnræðis gæti í heimiluðu nýtingarhlutfalli lóðar þeirra og Skerjabrautar 1-3 en samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verði nýtingarhlutfall lóðar kærenda 0,7 en nýtingarhlutfall lóðarinnar að Skerjabraut 1-3 verði 1,05. Réttmætt sé að kærendur sitji við sama borð og lóðarhafi Skerjabrautar 1-3 hvað nýtingarhlutfall lóðar varði. Þá sé bent á að skipulags- og umferðanefnd hafi frestað afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi og hafi því líklega ætlað að taka nefnda umsókn aftur fyrir til afgreiðslu. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi hins vegar samþykkt umsóknina þrátt fyrir að kæra vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis væri til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. Hafi hann með því farið á svig við grunnreglur stjórnsýsluréttar. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda um ógildingu verði hafnað og öðrum kröfum mótmælt. Með breytingu á deiliskipulagi sé verið að koma að nokkru til móts við sjónarmið kærenda með því að lækka nýtingarhlutfall úr 1,27 á lóðinni að Skerjabraut 1-3, líkt og það sé nú samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir lóðina, í 1,05. Mismunur á nýtingarhlutfalli byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Einnig sé með deiliskipulaginu komið til móts við sjónarmið kærenda um að þeim verði heimilt að nýta lóð sína betur. Vegna andmæla nágranna, grenndaráhrifa og byggðamynsturs hafi ekki verið talið hægt að leyfa meira byggingarmagn á lóðinni nr. 3a við Skerjabraut.

Þá hafi engin lög eða stjórnsýslureglur verið brotnar við afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar. Málið hafi ekki verið tækt til endanlegrar afgreiðslu fyrr en gögn, m.a. frá eldvarnareftirliti SHS, hafi borist. Engin ástæða hafi verið til að taka málið aftur upp í nefndinni en byggingarfulltrúi skuli lögum samkvæmt afgreiða byggingarmál nema samþykktir sveitarfélags geri ráð fyrir öðru og sé svo ekki hér.  

Málsrök byggingarleyfishafa Skerjabrautar 1-3: Byggingarleyfishafi bendir á að kærendur séu ekki þinglýstir eigendur að Skerjabraut 3a og þegar af þeim sökum eigi þeir engra lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu. Núverandi heimili þeirra sé um 4 km frá fyrirhuguðum framkvæmdum. Verði því ekki séð að hin kærða ákvörðun geti haft áhrif á grenndarhagsmuni þeirra og beri því að vísa kærumálinu frá nefndinni. Geri kærendur engan reka að því að rökstyðja málsaðild sína í kærunni og hafi því ekki sýnt fram á einstaklingsbundna lögmæta hagsmuni af málinu eða hverra hagsmuna þeir hafi að gæta af því að framkvæmdir hefjist ekki. Einnig sé bent á að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá hafi skipulags- og byggingarfulltrúi haft fulla heimild til að samþykkja umsókn um byggingarleyfi. 

Niðurstaða: Samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands seldu kærendur fasteign sína að Skerjabraut 3a hinn 19. desember 2012. Fasteignin var afhent 1. júní 2013, afsal gefið út 1. ágúst s.á. og því þinglýst 8. s.m. Því er áður lýst að hið umdeilda deiliskipulag var samþykkt með ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 og tók það gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst s.á. Þá var umsókn um leyfi til að reisa fjölbýlishús á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut samþykkt af skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarness 18. desember 2013.

Kærendur munu nú vera búsettir að í Reykjavík eða í töluverðri fjarlægð frá því svæði er deiliskipulag Lambastaðahverfis tekur til. Getur deiliskipulagið og byggingar-leyfi gefið út í samræmi við það ekki haft þau áhrif á umhverfi kærenda að snert geti lögvarða hagsmuni þeirra þegar litið er til staðsetningar húss þeirra að og afstöðu þess til heimilaðra bygginga á lóðinni að Skerjabraut 1-3 eða til skipulagssvæðisins í heild sinni. Eiga kærendur því ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, og ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Nanna Magnadóttir