Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2014 Vesturbugt og Nýlendureitur

Árið 2014, þriðjudaginn 24. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 19/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 2. mars 2014, er barst nefndinni 13. s.m., kæra Íbúasamtök Vesturbæjar þær ákvarðanir umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 20. nóvember 2013 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi Vesturbugtar og á deiliskipulagi Nýlendureits. Þessar samþykktir voru síðan auglýstar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. febrúar 2014.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 29. apríl 2014.

Málsatvik og rök: Tillögur að breyttu deiliskipulagi Vesturbugtar og Nýlendureits voru samþykktar af umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar hinn 20. nóvember 2013. Afmarkast skipulag Vesturbugtar til vesturs af Ánanaustum og að Slippnum til austurs. Skipulag Nýlendureits afmarkast af lóðarmörkum byggðar sunnan megin við Mýrargötu til norðurs, Seljavegar til vesturs, Vesturgötu til suðurs og um Ægisgötu til austurs.

Kærandi telur að kynning Reykjavíkurborgar á deiliskipulagsbreytingum Vesturbugtar hafi verið villandi. Teikningar og tölvumyndir í kynningarefni Reykjavíkurborgar hafi verið rangar og afmyndaðar og af þeim sökum hafi hlutföll og fjarlægðir ekki verið réttar. Hafi Reykjavíkurborg ekki lagfært upplýsingarnar þrátt fyrir ítrekanir af hálfu kæranda. Þá telji kærandi að vegna fjölda og alvarleika þeirra athugasemda sem bárust frá íbúasamtökum sem og öðrum hafi myndast réttmætt krafa um að endurskoða skipulagið í heild sinni. Kynningar Reykjavíkurborgar á deiliskipulagsbreytingum vegna Nýlendureits hafi einnig verið villandi. Telji kærandi að hús hafi verið ranglega númeruð á uppdráttum og því hafi verið ómögulegt að gera sér grein fyrir framlögðum tillögum. Telji kærandi að slíkur ágalli geri það verkum að ekki sé hægt að samþykkja skipulagið.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 4. gr. l. nr. 130/2011. Auglýsing um gildistöku beggja deiliskipulagsbreytinga hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. febrúar 2014, en úrskurðarnefndin móttekið kæruna hinn 13. mars s.á. Kæran sé því of seint fram komin og vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni. Þá telji Reykjavíkurborg að kærandi í máli þessu eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Vísað sé til þess að umræddar ákvarðanir falli ekki undir a.-c. ml. nefndrar 3. mgr. 4. gr., en þar séu með tæmandi hætti taldar upp þær ákvarðanir sem hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geti kært.

Niðurstaða: Í máli þessu er gerð frávísunarkrafa með þeim rökum að á skorti að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna efnis hinna kærðu ákvarðana um breytingar á deiliskipulagi fyrir Vesturbugt og fyrir Nýlendureit í Reykjavík sem samþykktar voru af umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar hinn 20. nóvember 2013.

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er nefndinni markað það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. nefndra laga. Þar er að finna heimild sem veitir samtökum í undantekningartilvikum sjálfstæða kæruaðild á þessu sviði. Nánar tiltekið geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, með minnst 30 félaga, átt aðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, þá með vísan til tilgangs samtakanna. Það á þó einungis um þær ákvarðanir sem taldar eru með tæmandi hætti í a.-c. ml. lagagreinarinnar en hinar kærðu ákvarðanir falla ekki þar undir.

Að öðru leyti geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, sbr. nefnda 3. mgr. 4. gr. Íbúasamtök Vesturbæjar eru frjáls samtök er munu m.a. láta sig varða skipulag Vesturbæjar Reykjavíkurborgar. Virðast samtökin byggja kæru sína á gæslu almannahagsmuna og skoðunum um íbúalýðræði, en m.a. er vísað til þess í kæru að kynningar borgarinnar á deiliskipulagsbreytingunum hafi verið villandi sem og þess að réttmæt krafa sé til að endurskoða skipulag Vesturbugtar í heild sinni vegna alvarleika þeirra fjölmörgu athugasemda er borist hafi. Hins vegar liggur ekki fyrir að samtökin eigi þeirra einstaklegu og lögvarinna hagsmuna að gæta er tengjast hinum kærðu skipulagsákvörðunum og veitt geti samtökunum stöðu málsaðila að stjórnsýslurétti. Þar sem nefnd samtök verða ekki talin eiga aðild að máli þessu ber þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir