Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2012 Melavellir

Árið 2014, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 81/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 13. ágúst 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Matfugl ehf., Völuteigi 2, Mosfellsbæ, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 11. júlí 2012 á umsókn um breytt deiliskipulag jarðarinnar Melavalla á Kjalarnesi.

Skilja verður kæruna svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Nefndinni bárust gögn frá Reykjavíkurborg 5. október 2012.

Málsatvik og rök: Á jörðinni Melavöllum á Kjalarnesi er starfrækt kjúklingabú og eru þar fimm alifuglahús, þrjú sambyggð og tvö frístandandi, auk íbúðarhúss. Heimilt er samkvæmt gildandi deiliskipulagi Melavalla frá árinu 2006 að reisa eitt frístandandi alifuglahús til viðbótar á jörðinni. Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur 28. mars 2012 var erindi kæranda um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar tekið fyrir. Vildi hann að heimilað yrði að bæta við fjórum frístandandi alifuglahúsum í stað eins. Skipulagsráð samþykkti að auglýsa tillöguna og var sú afgreiðsla samþykkt í borgarráði 12. apríl 2012.

Tillagan var auglýst í Lögbirtingablaði og var til sýnis í þjónustuveri Reykjavíkurborgar og á heimasíðu umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar frá 23. apríl til 6. júní 2012. Athugasemdir bárust frá fimm aðilum. Að loknum kynningartíma tillögunnar var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs sem haldinn var 11. júlí 2012 og var erindinu synjað með vísan til umsagnar skipulagsstjóra dagsettri 9. júlí s.á. Í niðurlagi umsagnarinnar sagði að í ljósi athugasemda og ábendinga frá nágrönnum, íbúasamtökum og hverfaráði Kjalarness væri ekki mælt með því að deiliskipulagið yrði samþykkt óbreytt heldur að tillögunni yrði synjað. Í ljósi umsagnar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. júlí 2012, þar sem tilgreindar væru mögulegar mótvægisaðgerðir, væri þó ekki gerð athugasemd við að umsækjandi skilaði nýrri tillögu að breyttu skipulagi þess efnis að heimilað yrði eitt alifuglahús til viðbótar, en þá yrðu húsin alls fimm í stað sjö.  Hinn 12. júlí 2012 var fundargerð skipulagsráðs lögð fram í borgarráði sem samþykkti B-hluta fundargerðarinnar. 

Kærandi bendir í fyrsta lagi á að skipulagsráð Reykjavíkur hafi áður samþykkt sambærilegar deiliskipulagstillögur vegna Melavalla, eða árin 2009 og 2010, en þær ekki náð í gegnum stjórnkerfi borgarinnar. Kærandi telur í annan stað að rök skipulagsráðs fyrir synjun á erindi hans séu ómálefnaleg og huglæg. Efnislegum athugasemdum sem hafi borist við auglýsingu tillögunnar hafi verið svarað með umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dagsettri 4. júlí 2012. Í þriðja lagi telur kærandi ómálefnalegt að hafna því að jörðin sé nýtt til landbúnaðar þegar hún sé samkvæmt aðalskipulagi á landbúnaðarsvæði og aukið umfang alifuglaeldis muni ekki samkvæmt framlögðum gögnum, þ.e. umhverfismati eða umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, hafa neikvæð áhrif á umhverfið.
   
Reykjavíkurborg krefst þess að hin umdeilda ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur verði staðfest. Í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að það séu sveitarstjórnir sem annist gerð deiliskipulagsáætlana og breytingar á þeim og beri borgaryfirvöldum ekki skylda til að fallast á þær breytingar sem kærandi vilji gera á gildandi skipulagi. Þá sé það oftúlkun á jafnræðisreglu að telja borgaryfirvöld bundin árum saman af fyrri afgreiðslu mála. Borgin mótmæli því að rök skipulagsráðs hafi verið ómálefnaleg en íbúar í næsta nágrenni, íbúasamtök og hverfaráð Kjalarness hafi gert athugasemdir við tillöguna. Þá sé í umsögn skipulagsstjóra bent á það hversu lítil jörðin sé, en hún sé aðeins rúmir 16 ha. Rétt sé að í umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sé bent á mótvægisaðgerðir gegn mengun. Einmitt þess vegna sé að finna yfirlýsingu í umsögn skipulagsstjóra, sem skipulagsráð hafi samþykkt, þess efnis að ekki sé gerð athugasemd við að umsækjandi sendi borginni nýja tillögu að skipulagsbreytingu sem feli í sér heimild til að byggja eitt hús til viðbótar við það sem þegar sé heimilað. Ekki sé rétt að borgaryfirvöld hafni nýtingu jarðarinnar Melavalla sem landbúnaðarsvæðis en hafa verði í huga að um sé að ræða mjög litla jörð í nágrenni við mesta þéttbýli landsins og það séu takmörk fyrir því hvað unnt sé að heimila öflugt alifuglaeldi á slíkum stað. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun skipulagsráðs Reykjavíkur á beiðni um breytt deiliskipulag jarðarinnar Melavalla. Skipulagsráð afgreiddi beiðni kæranda á fundi 11. júlí 2012 og var fundargerð ráðsins skipt í A-hluta sem fjallaði um skipulagsmál, B-hluta sem fjallaði um byggingarmál, C-hluta um fyrirspurnir og D-hluta ýmis mál. Mál það sem hér er um deilt var afgreitt í A-hluta fundargerðarinnar. Fundargerðin var lögð fram á fundi borgarráðs daginn eftir þar sem bókað var að borgarráð samþykkti B-hluta fundargerðarinnar en ekki var fjallað um afgreiðslu skipulagsráðs á beiðni kæranda.

Sveitarstjórnir annast gerð deiliskipulags og breytingu á því, sbr. 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni kynningu á deiliskipulagstillögu skal skv. 4. ml. 4. mgr. 4. gr. laganna leggja hana fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, en sveitarstjórn er heimilt að framselja vald sitt með því að fela skipulagsnefnd eða öðrum í stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. og 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. 

Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skulu í Reykjavík lagðar fyrir borgarráð eða borgastjórn. Innihaldi fundargerðir ályktanir eða tillögur sem þarfnast staðfestingar borgarráðs eða borgarstjórnar ber að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti, sbr. 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og 60 gr. samþykktar nr. 1200/2007. Í 12. gr. samþykktar fyrir Skipulagsráð Reykjavíkurborgar frá 5. apríl 2005, sem gilti þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin, sbr. 1. gr. viðauka 1.1 nefndrar samþykktar nr. 1200/2007, eru talin upp þau verkefni sem skipulagsráði er heimilt að afgreiða án staðfestingar borgarráðs. Verður að skilja tilvitnuð ákvæði á þann veg að skipulagsráði sé ekki heimilt að synja gerð deiliskipulags án staðfestingar borgarráðs enda er slíka afgreiðslu ekki að finna í hópi þeirra verkefna er talin eru í áðurnefndri 12. gr.  Borgarráð þurfti því að staðfesta ákvörðun skipulagsráðs um að synja ósk kæranda.

Fundargerð borgarrráðs frá 12. júlí 2012 ber með sér samþykki á B-hluta fundargerðar skipulagsráðs frá 11. júlí 2012 en ekki var fjallað um afgreiðslu skipulagsráðs á beiðni kæranda sem var að finna í A-hluta fundargerðar skipulagsráðs. Með því að ekki liggur fyrir í málinu að borgarráð hafi tekið hina kærðu afgreiðslu skipulagsráðs fyrir og afgreitt í samræmi við  1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og 60 gr. samþykktar nr. 1200/2007 verður ekki litið svo á að hún hafi falið í sér ákvörðun sem bindi enda á mál og sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærunni því vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir