Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2013 Einholt – Þverholt

Árið 2014, þriðjudaginn 24. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 35/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með símbréfi, dags. 7. apríl 2013, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Þ þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 24. janúar 2013 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi fyrir Einholt-Þverholt í Reykjavík. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. mars 2013

Með bréfi, dags. 8. apríl 2013, er barst nefndinni samdægurs, kærir B sömu deiliskipulagsákvörðun. Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður síðara kærumálið sem er nr. 36/2013 sameinað kærumáli þessu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Deiliskipulag fyrir reit 1.244.3, Einholt-Þverholt, var samþykkt í borgarráði Reykjavíkurborgar 24. janúar 2013 og felur það í sér skipulagssvæði sem afmarkast af Einholti, Háteigsvegi, Þverholti og Stórholti. Felur deiliskipulagið í sér í sér uppbyggingu allt að 250 íbúða, með heimild fyrir 177 bílastæðum í bílakjallara, á suðurhluta reitsins.

Kærendur gera athugasemd við að fjöldi bílastæða sé of lág miðað við fjölda íbúða. Bent sé á að Reykjavíkurborg hafi svarað fyrirspurnum kærenda vegna málsins á þann veg að stefnt væri að því að minnka hlutdeild einkabifreiða í Reykjavík en kærendur telji þau rök ekki haldbær. Nýtingarhlutfall á lóðum sé yfir þeim viðmiðum sem gerðar séu og hafi, að þeirra sögn, ekki verið reiknað með hlutfalli bílakjallara. Hámarks nýtingarhlutfall á lóð skuli vera 2,5 skv. lýsingu, en á uppdráttum sé gert ráð fyrir að nýtingarhlutfall verði 3,15 á reit E og 2,78 á reit F. Þá gerir annar kærenda í málinu athugasemd þess efnis að hann dragi í efa skuggvarpsupplýsingar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu fyrir Einholt-Þverholt í Reykjavík sem var samþykkt í borgarráði Reykjavíkurborgar hinn 24. janúar 2013 og síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. mars s.á.

Leitt hefur verið í ljós að deiliskipulagið er ekki lengur í gildi. Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti nýtt deiliskipulag fyrir Einholt-Þverholt hinn 14. nóvember 2013 sem var síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. janúar 2014. Hefur hin kærða ákvörðun að framangreindum ástæðum ekki lengur réttarverkan að lögum og eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir