Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

119/2012 Garðahverfi

Árið 2014, þriðjudaginn 24. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 119/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 24. október 2012, er barst nefndinni 7. nóvember s.á., kærir G, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. ágúst 2012 um að samþykkja deiliskipulag Garðahverfis í Garðabæ.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar hinn 16. ágúst 2012 var samþykkt deiliskipulag fyrir Garðahverfi sem markast af Aukatjörn, Skógartjörn og fyrrverandi sveitarfélagamörkum Garðabæjar og Álftaness að vestanverðu. Þá er þar að finna skógræktarsvæði á Garðaholti, Grænagarð, norðan af Garðavegi. Austanverð mörk miðast við mörk deiliskipulags Hleina að Langeyrarmölum. Að sunnan markast skipulagssvæðið af strandlínu. 

Kærandi telur að framangreint deiluskipulag Garðahverfis í Garðabæ muni hafa verulega neikvæð áhrif á hverfið. Nú séu 27 húseignir í hverfinu en fjöldi þeirra muni aukast um 58 húseignir með framangreindu deiliskipulagi. Að sögn kæranda munu þær jarðvegs- og byggingaframkvæmdir  sem fylgja slíkri áætlun hafa neikvæð áhrif á friðlýst svæði í hverfinu og raska skráðum náttúruminjum.

Af hálfu Garðabæjar er bent á að umrætt deiliskipulag hafi ekki tekið gildi þar sem það hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. ml. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við efnisþætti deiliskipulagsins á sínum tíma og málið því aftur hlotið meðferð hjá skipulagsyfirvöldum. Jafnframt sé tekið fram að skipulag Garðahverfis hafi nú verið samþykkt og tekið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 144/2014, en útgáfudagur þess hafi verið 11. febrúar 2014. Garðabær telji að kæra frá 24. október 2012 geti ekki varðað deiliskipulag Garðahverfis Garðabæjar frá 11. febrúar 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar ákvörðunar um breytingu á deiliskipulagi Garðahverfis í Garðabæ frá 16. ágúst 2012.

Leitt hefur verið í ljós að umrætt deiliskipulag var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda svo sem áskilið er í 2. ml. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hefur hin kærða ákvörðun af þeim ástæðum ekki lengur réttarverkan að lögum og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir