Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

71/2012 Skátafélagið Vífill

Árið 2014, þriðjudaginn 27. maí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 71/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 11. júlí 2012, stíluðu á innanríkisráðuneytið, er framsent var úrskurðarnefndinni og barst henni 13. s.m., kæra G, Faxatúni 18, S, Faxatúni 20, K, Faxatúni 22, H, Faxatúni 24, og H, Faxatúni 26, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis frá 19. október 2009 að veita Skátafélaginu Vífli starfsleyfi til að starfrækja félagsheimili og samkomusal að Bæjarbraut 7 í Garðabæ.

Verður að skilja kröfur kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá verður kæran skilin svo að einn kærenda,  krefjist þess jafnframt að sú ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 22. nóvember 2011 að hafna kröfu kæranda um afturköllun á starfsleyfinu verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Garðabæ 10. september 2012.

Málsatvik og rök: Hinn 19. október 2009 samþykkti heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis umsókn Skátafélagsins Vífils og gaf út starfsleyfi til að reka félagsheimili og samkomusal í húsnæði skátafélagsins að Bæjarbraut 7 í Garðabæ. Leyfið tekur til reksturs félagsheimilis, samkomusalar og móttökueldhúss.

Einn kærenda fór fram á það í erindi, dags. 11. nóvember 2011, að starfsleyfið yrði afturkallað og útleiga á samkomusal í skátaheimilinu stöðvuð án tafar. Erindinu var hafnað af heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og var kæranda tilkynnt um það með bréfi dags. 22. s.m.

Kærendur telja að veislusalir skuli ekki vera starfræktir 30-40 metrum frá svefnherbergisgluggum íbúðarhúsa. Þá hafi bæjarstjórn verið vanhæf við ákvörðun um skilgreiningu svæðisins í deiliskipulagi. Auk starfsleyfis sé kvartað yfir samþykkt deiliskipulags fyrir. Þá sé tekið fram að samþykkt deiliskipulags hafi verið kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála en kæran barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 11. júlí 2012 og var úrskurður kveðinn upp í því máli 23. maí 2014.

Af hálfu Garðabæjar er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá sem of seint fram kominni.

Niðurstaða: Ekki verður fjallað um kröfur kærenda vegna samþykktar á deiliskipulagi Silfurtúns enda liggur fyrir úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 69/2012 frá 23. maí 2014.

Hið umdeilda starfsleyfi var gefið út í október 2009 og var þá kæranlegt til úrskurðarnefndar skv. þágildandi 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kærufrestur til þeirrar nefndar var þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá var einum kærenda tilkynnt með bréfi 22. nóvember 2011 að erindi hans um afturköllun starfsleyfis og stöðvun á starfsemi væri hafnað og í bréfinu leiðbeint um kæruleið til áðurgreindar nefndar sem og nefndan þriggja mánaða kærufrest.

Áðurnefnd úrskurðarnefnd var lögð niður frá og með 1. janúar 2012 með lögum nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Frá sama tíma eru ákvarðanir samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða II við lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kæran barst rúmlega rúmlega tveimur og hálfu ári eftir að leyfið var gefið út og tæpum átta mánuðum frá því að ákvörðun þess efnis að starfsleyfið yrði ekki afturkallað var tilkynnt þeim kæranda er þess hafði krafist. Kæran er því of seint fram komin og verður vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________
Nanna Magnadóttir