Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2017 Háafell – sjókvíaeldi

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2017, kæra Veiðifélags Langadalsár á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. desember 2016, er barst nefndinni 3. janúar 2017, kærir Veiðifélag Langadalsár, Ísafjarðardjúpi, ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir starfsemi Háafells ehf. vegna eldis á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski á ári í sjókvíum í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 13. febrúar 2017.

Málavextir: Með umsókn til Umhverfisstofnunar, er barst stofnuninni 25. maí 2015, sótti Háafell ehf. um starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 27. desember 2013, hafði farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og var matsskýrsla lögð fram í febrúar 2015. Álit Skipulagsstofnunar þar um er frá 1. apríl 2015.

Umhverfisstofnun auglýsti drög að starfsleyfi fyrir Háafell ehf. á tímabilinu 8. apríl til 3. júní 2016. Starfsleyfi fyrir fiskeldisfyrirtækið Háafell ehf. til reksturs sjókvíaeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi var gefið út af Umhverfisstofnun 25. október 2016. Með leyfisveitingunni var heimiluð 6.800 tonna ársframleiðsla af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðsla af þorski. Leyfið var birt á heimasíðu stofnunarinnar 23. nóvember s.á. ásamt ódagsettri greinargerð. Útgáfa starfsleyfisins var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 7. desember 2016.

Málsrök kæranda: Kæru sinni til stuðnings vísar kærandi til kæru Landssambands veiðifélaga, í máli nr. 165/2016, vegna sama starfsleyfis. Athugasemdir kæranda lúta m.a. að því að fyrirhuguð eldissvæði séu í innan við 15 km fjarlægð frá ósum Langadalsár, Hvannadalsár og Þverár, sem eigi sameiginlegan ós að sjó og séu með yfir 500 laxa meðalveiði sl. 10 ár. Það sama gildi og um Laugardalsá. Óheimilt sé því að veita starfsleyfi á svæðinu af þeim sökum, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Stofnunin vísar í greinargerð sína í máli nr. 165/2016 fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna sama starfsleyfis.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var gefinn kostur á koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar komu fram í þessu máli.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski á ári í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 5/2017, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærandi hefur  ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

49/2017 Rauðagerði – Miklubraut

Með
Árið 2017, föstudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2017, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir lagningu akreinar fyrir strætisvagna á Miklubraut, ásamt gerð göngu- og hjólastígs o.fl.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Andrés Fr. Andrésson, Rauðagerði 45, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir lagningu akreinar fyrir strætisvagna á Miklubraut, ásamt gerð göngu- og hjólastígs o.fl.

Með bréfi, dags. 22. maí 2017, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra eigendur, Rauðagerði 53, og Rauðagerði 51, Reykjavík, fyrrgreinda ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík. Verður kærumál það, sem er nr. 50/2017, sameinað máli þessu þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gild og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. maí 2017.

Málsatvik og rök: Með ódagsettu bréfi, sem móttekið var 14. mars 2016, sótti skrifstofa framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu akreinar fyrir strætisvagna á Miklubraut, gerð göngu- og hjólastígs, hljóðmanar o.fl. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. apríl s.á. var umsóknin samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. sama dag. Hinn 10. maí 2016 var framkvæmdaleyfið gefið út með tveggja ára gildistíma.

Kærendur benda á að kærur í máli þessu hafi borist innan kærufrests þar sem ekki sé liðinn mánuður frá því að framkvæmdir hafi hafist um miðjan maí 2017. Reykjavíkurborg hafi við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar gerst brotleg við reglur með margvíslegum hætti. Jafnframt sé hið kærða framkvæmdaleyfi útrunnið. Kærandi að Rauðagerði 45 telji að nýtt skjal sem leyfisveitandi hafi afhent honum, sem heiti framkvæmdaleyfi, sé í ósamræmi við eldra skjal sem honum hafi verið kynnt. Þá hafi gildistími framkvæmdaleyfisins einnig verið framlengdur um eitt ár, eða til ársins 2018, þó framkvæmdum hafi átt að ljúka á haustmánuðum ársins 2016 og gildistími framkvæmdaleyfisins að vera til 8. apríl 2017. Unnt sé að sýna fram á að allt ferlið við útgáfu leyfisins sé ólögmætt. Hvorki hafi farið verið farið eftir ákvæðum reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi né ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010.

Borgaryfirvöld benda á að af gögnum málsins megi vera ljóst að málsmeðferð við útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi verið í samræmi við kröfur 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Leyfið hafi verið gefið út svo fljótt sem unnt hafi verið og innan fjórtán daga frá greiðslu leyfisgjalda í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um afgreiðslu erinda. Samþykkt fyrir útgáfu þess hafi því verið lögum samkvæmt og leyfið sé í gildi.

Í 1. mgr. 14. gr. nefndrar reglugerðar segi að framkvæmdaleyfi falli úr gildi hafi framkvæmd ekki verið hafin innan tólf mánaða frá útgáfu þess. Framkvæmd teljist hafin þegar hreyft hafi verið við yfirborði jarðvegs á framkvæmdastað. Framkvæmdir hafi hafist hinn 5. maí 2017 þegar grafið hafi verið fyrir fráveitu og vatnstengingum vegna vinnuskúrs. Hafi þá ekki verið liðið ár frá útgáfu framkvæmdaleyfisins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, svo sem henni var breytt með 6. gr. laga nr. 59/2014, fellur framkvæmdaleyfi úr gildi hefjist framkvæmdir ekki innan tólf mánaða frá samþykki sveitarstjórnar fyrir veitingu leyfisins. Fyrir þá lagabreytingu hafði nefndur frestur miðast við útgáfu framkvæmdaleyfis. Í samþykkt nr. 1052/2015 um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013 er skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar framselt það vald að samþykkja og gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við skipulag. Er því samþykki umsóknar um framkvæmdaleyfi og útgáfa þess á hendi sama stjórnvalds í þessu tilviki.

Umsókn um hið kærða framkvæmdaleyfi var samþykkt á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. apríl 2016 og leyfið sjálft gefið út hinn 10. maí s.á. Fyrir liggur að framkvæmdir á grundvelli leyfisins hófust ekki innan tólf mánaða frá samþykki leyfisumsóknarinnar. Verður því að telja að framkvæmdaleyfið sé fallið úr gildi skv. 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hins kærða framkvæmdaleyfis. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

165/2016 Háafell – sjókvíaeldi

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 165/2016, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2016, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Landssamband veiðifélaga, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 að veita starfsleyfi fyrir starfsemi Háafells ehf. til ársframleiðslu á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 13. febrúar 2017.

Málavextir: Með umsókn til Umhverfisstofnunar, er barst stofnuninni 25. maí 2015, sótti Háafell ehf. um starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 27. desember 2013, fór fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og var matsskýrsla lögð fram í febrúar 2015, ásamt greinargerð. Álit Skipulagsstofnunar þar um er frá 1. apríl 2015.

Umhverfisstofnun auglýsti drög að starfsleyfi fyrir Háafell ehf. á tímabilinu 8. apríl til 3. júní 2016. Starfsleyfi fyrir fiskeldisfyrirtækið Háafell ehf. til reksturs sjókvíaeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi var gefið út af Umhverfisstofnun 25. október 2016. Með leyfisveitingunni var heimiluð 6.800 tonna ársframleiðsla af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðsla af þorski. Leyfið var birt á heimasíðu stofnunarinnar 23. nóvember s.á. Útgáfa starfsleyfisins var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 7. desember 2016.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að Umhverfisstofnun hafi ekki heimildir að lögum til að víkja frá skýru orðalagi reglugerðar nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og löndun laxastofna, um að við leyfisveitingar skuli miða við að sjókvíaeldisstöðvar skuli ekki vera nær laxveiðiám en 15 km ef um er að ræða 500 laxa meðalveiði í á eða meira. Undanskilið sé ef notaðir séu stofnar af nærliggjandi svæðum eða geldstofnar í eldinu.

Í greinargerð Umhverfisstofnunar með hinu kærða starfsleyfi sé vísað í skýrslur Veiðimálastofnunar og til þess að meðalársveiði í tveimur veiðiám, þ.e. Langadalsá og Hvannadalsá, sé 503 laxar. Umhverfisstofnun hafi borið að rökstyðja að orðalag gr. 4.2. í reglugerðinni tæki aðeins til þeirra tveggja veiðivatna sem nefnd séu í greinargerðinni en ekki til annarra veiðivatna, sem þó séu innan friðunarsvæðis þess sem mælt sé fyrir um í ákvæðinu.

Kærandi telji að Umhverfisstofnun sé skylt að fara eftir fyrirmælum laga um náttúruvernd við ákvarðanir sínar. Í II. kafla náttúruverndarlaga nr. 60/2013 sé kveðið á um meginreglur og sjónarmið er stjórnvöld skuli taka mið af við töku ákvarðana. Kærandi vísi þar sérstaklega til 8. gr., um vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku, og enn fremur til varúðarreglu 9. gr.

Að lokum verði ekki séð að Umhverfisstofnun hafi gætt andmælaréttar kæranda samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 þegar stofnunin hafi tekið ákvörðun um sérstaka túlkun gr. 4.2. í reglugerð nr. 105/2000.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að til að reka fiskeldi þurfi bæði að hafa til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun. Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi vegna eldis sjávar- og ferskvatnslífvera á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það sé nánar útfært í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Þá sé fjallað um aðkomu stofnunarinnar við útgáfu starfsleyfa í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, en stjórnsýsla samkvæmt þeim lögum fjalli um rekstrarleyfi og falli undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Matvælastofnun. Í lögum um fiskeldi segi að gæta skuli samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, sem heyri undir það sama ráðuneyti.

Viðfangsefni starfsleyfa fyrir mengandi starfsemi sé einkum að fjalla um mögulega mengun frá atvinnurekstri, setja losunarmörk vegna mengunar og verklagsreglur í samræmi við viðkomandi lög og reglugerðir og draga með því úr áhrifum þeirrar mengunar sem óhjákvæmilega verði vegna mengandi atvinnustarfsemi, með það að markmiði að tryggja mengunarvarnir með sjálfbærni að leiðarljósi. Starfsleyfin séu því almennt gefin út til að koma í veg fyrir mengun af völdum atvinnurekstrar og setja rekstraraðilanum skilyrði og kröfur sem hann eigi að viðhafa í sínum rekstri.

Kærandi haldi því fram að Umhverfisstofnun hafi ekki gætt að lagaskyldum sínum samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 60/2013 við töku hinnar kærðu ákvörðunar og vísi þar einkum til 8. gr. laganna. Þessu hafni stofnunin. Þær meginreglur sem skrifaðar hafi verið í II. kafla náttúruverndarlaga hafi að geyma leiðarljós sem stjórnvöldum beri að taka almennt mið af við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana. Að baki séu einnig óskráðar meginreglur umhverfisréttar. Vert sé að benda á í því samhengi að ekki hafi verið sett sértæk viðmið um málsmeðferð ákvarðana varðandi framkvæmd nefndra meginreglna.

Starfsleyfistillagan hafi verið auglýst opinberlega og með tryggum hætti, sbr. lög nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999. Umhverfisstofnun hafni því að hafa ekki gætt andmælaréttar varðandi útgáfu starfsleyfis.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig en nýtti sér ekki þann möguleika í máli þessu.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski á ári í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 5/2017, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærandi hefur ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon
 

11/2017 Sel-Hótel

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 20. september 2014 um að samþykkja leyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn, Skútustaðahreppi.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 20. september 2014 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn. Er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Jafnframt er þess krafist að skolphreinsibúnaður, sem tengdur á að vera hóteli, sæti mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Til vara er gerð krafa um að framkvæmdaraðila verði gert að tilkynna framkvæmdina til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. sömu laga. Einnig er þess krafist að ákveðið verði að Umhverfisstofnun skuli fjalla um leyfi fyrir skolphreinsibúnaðinum í samræmi við ákvæði laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Enn fremur að lagt verði fyrir framkvæmdaraðila að skolp „muni undirgangast 100% hreinsun fosfórs og niturs“, eða þannig að sýnt sé fram á að engin næringarefni berist með tímanum í Mývatn.

Loks er þess krafist að réttaráhrifum verði frestað og að skolpi frá hótelinu verði ekið út af verndarsvæðinu á viðurkenndan urðunarstað meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til efnislegrar úrlausnar og verður ekki tekin sérstök afstaða til kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Skútustaðahreppi 20. janúar og 28. apríl 2017. 

Málavextir: Deiliskipulag fyrir Sel-Hótel Mývatn í Skútustaðahreppi tók gildi á árinu 2014. Nær skipulagssvæðið yfir landsvæði í eigu Skútustaða 2 og gerir skipulagið m.a. ráð fyrir stækkun á byggingarreit núverandi hótels og verslunar. Hinn 20. september s.á. samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn, austan og sunnan við núverandi byggingu. Fyrir stækkun hótelsins var fjöldi herbergja 35 en varð 58 eftir stækkun þess. 

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að mál þetta fjalli um leyfi fyrir viðbyggingu eða endurbyggingu hótels nálægt vatnsbakka Mývatns, sem veitt hafi verið án þess að frárennslismál hótelsins væru í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Ákvarðanir um að heimila endurbyggingu hótelsins hafi ekki verið kynntar, birtar opinberlega eða gerðar aðgengilegar almenningi á opnu vefsvæði. Innan við mánuður sé síðan kæranda hafi orðið kunnugt um að veitt hefði verið leyfi fyrir endurbyggingu hótelsins. Kæran sé því sett fram innan kærufrests.

Skilja verði umrætt byggingarleyfi svo að það hafi falið í sér heimild til að reisa skolphreinsun. Skolphreinsistöðvar á verndarsvæðum hafi verið tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr., sbr. þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Því beri að skoða alla framkvæmdina í ljósi kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þrátt fyrir að hótel í dreifbýli hafi fyrst orðið tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000, með breytingarlögum nr. 138/2014. Framkvæmdin hafi ekki verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar. Hafi byggingarfulltrúa verið óheimilt að gefa út byggingarleyfi nema álit stofnunarinnar á matsskýrslu eða ákvörðun hennar um matsskyldu skolphreinsibúnaðar lægi fyrir, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þá hafi rekstraraðila hótelsins borið að leita sérfræðiálits skv. 5. mgr. 13. gr. sömu laga, en það hafi ekki verið gert.

Óheimilt sé að byggja á landsvæði er njóti verndar skv. lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nema í undantekningartilvikum, og þá með sérstakri undanþágu eða leyfi Umhverfisstofnunar. Engin slík undanþága eða leyfi liggi fyrir. Hótelbyggingin sjálf sé undirorpin byggingarbanni skv. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður- Þingeyjarsýslu, svo sem hún verði skýrð.

Ekki hafi verið sýnt fram á að skolphreinsibúnaður sé til staðar sem uppfylli skilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla, sbr. og verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá 2011-2016. Verði að gera þær kröfur þegar um sé að ræða innlent og alþjóðlegt verndarsvæði, svo sem hér um ræði, að gerð sé grein fyrir þessu. Sé í þessu sambandi vísað til 2. og 3. gr. laga nr. 97/2004 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Skútustaðahrepps: Sveitarfélagið krefst þess að öllum kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella hafnað. Byggist krafa um frávísun á því að kæra sé of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ósannað sé og óútskýrt að kærandi hafi ekki haft vitneskju um málið fyrr en í janúar 2017. Í Landvernd séu 4.900 félagar að sögn kæranda. Það sé því ótrúverðugt að samtökunum hafi ekki mátt vera kunnugt um byggingarframkvæmdir í tvö og hálft ár. Þá sé að öðru leyti vísað til eðlis rekstrarins, opinberrar umfjöllunar um hann og auglýsingar um starfsemina, sem og eðlis máls um að undanþága frá mánaðar kærufresti eigi ekki við.

Dregið sé í efa að skolphreinsivirki, með engan vélrænan búnað, sem þjónusti stakar byggingar, teljist skolphreinsistöð í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Takmarkist kæruheimild hans við ákvarðanir sem falli undir þau lög í þeim skilningi að ákvörðun taki til matsskyldrar framkvæmdar. Þá varði umrætt byggingarleyfi hvorki framkvæmd sem hafi verið umhverfismetin né byggingu á skolphreinsivirki. Kæruheimild kæranda geti því með engu móti verið til staðar. Beri að skýra þröngt kæruheimild aðila sem ekki eigi lögvarða hagsmuni. Geti hvorki a- né b-liður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 átt við í máli þessu. Þá falli undirkröfur kæranda ekki undir valdssvið úrskurðarnefndarinnar eða eftirlit með framkvæmd fráveitumála þegar byggingarleyfi sé kært. Ekki verði heldur úrskurðað um að umsækjanda hafi borið að sækja um aðra framkvæmd. Ákvörðun um samþykkt byggingarleyfisins byggi á lögum. Hafi það verið gefið út á grundvelli fullnægjandi gagna og samræmist deiliskipulagi. Skútustaðahreppi sé ekki ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd Umhverfisstofnunar á lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns- og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. 

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir kröfu um frávísun málsins. Undirbúningur og framkvæmd byggingarinnar hafi að öllu leyti verið unnin í samstarfi við byggingarfulltrúa og sé í samræmi við lög, reglur og deiliskipulag fyrir svæðið. Ákveðið hafi verið að tengja frárennsli nýrra herbergja við kerfi sem þegar hafi verið til staðar við hliðina á hótelinu. Hafi kerfið þjónustað lítið kaffihús og getað tekið við aukaálagi án breytinga.

——-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt að kæra nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni.

Kærandi er umhverfisverndarsamtök og byggir kæruaðild sína á greindu ákvæði. Er til þess skírskotað í kæru að þar sem borið hafi að tilkynna skolphreinsibúnað, er tengdur eigi að vera umræddu hóteli, til Skipulagsstofnunar skv. þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum beri að skoða alla framkvæmdina í ljósi kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka samkvæmt lögum nr. 130/2011.

Samkvæmt a-lið fyrrnefndrar 3. mgr. 4. gr. er unnt að kæra til úrskurðarnefndarinnar ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum nr. 106/2000. Þá er samkvæmt b-lið heimilt að kæra ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir þau lög. Hefur a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 nú verið breytt með lögum nr. 138/2014, sem tóku gildi 30. desember 2014, og frá þeim tíma eru ákvarðanir sveitarstjórna um matsskyldu framkvæmda jafnframt kæranlegar til nefndarinnar.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að í 3. mgr. 4. gr. sé afmarkað hverjir eigi kæruaðild. Annars vegar sé um að ræða stjórnvaldsákvarðanir sem lúti almennum reglum stjórnsýsluréttarins og hins vegar stjórnvaldsákvarðanir, þar sem kærendur þurfi ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni, t.d. umhverfisverndarsamtök. Er m.a. tekið fram að undir a-lið ákvæðisins falli ákvarðanir um matsskyldu sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, og að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda sbr. b-lið. Það sé því eðlilegt að kæruaðild vegna ákvarðana sem tilgreindar séu í a- og b-lið haldist í hendur. Undir b-lið falli leyfi vegna framkvæmda sem matsskyldar séu skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum. Hér undir falli framkvæmdir sem alltaf séu matsskyldar, sbr. 5. gr. laganna og 1. viðauka þeirra, tilkynningarskyldar framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laganna og 2. viðauka þeirra, og framkvæmdir sem ákvörðun ráðherra liggur fyrir um, sbr. 7. gr. laganna. Nái þessi töluliður til þeirra ákvarðana sem vísað sé til í a- og b-lið 1. tölul. 6. gr. Árósarsamningsins. Þau leyfi sem um ræði séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum.

Í máli þessu er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 er m.a. tiltekið að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar fyrr en fyrir liggi ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld. Nefnd 6. gr. tekur til framkvæmda sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum og svo sem áður segir heldur kærandi því fram að tilkynna hafi þurft Skipulagsstofnun um skolphreinsivirki í samræmi við þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000. Þar undir féllu m.a. skolphreinsistöðvar á verndarsvæðum, sbr. c-lið 11. tölul. viðaukans, en framkvæmdirnar eru á verndarsvæði Mývatns og Laxár, sbr. lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.  

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað hefur sú framkvæmd sem leyfð var ekki komið til meðferðar Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000. Tekur stofnunin nánar fram í svarbréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. febrúar 2017, að stofnunin hafi ekki fengið til slíkrar meðferðar málefni umræddrar hótelbyggingar og tengd mannvirki. Vekur stofnunin athygli á því að töluliður 12.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 hafi komið inn með breytingarlögum nr. 138/2014, sem birt hafi verið 30. desember 2014. Leyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn hafi hins vegar verið veitt árið 2014.

Upplýst er að Skipulagsstofnun hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort að framkvæmd sú er veitt var leyfi fyrir með hinu kærða byggingarleyfi falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum, enda hefur stofnunin ekki fengið málefni hennar til slíkrar meðferðar. Með hliðsjón af því sem áður er rakið um ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og lögskýringargögnum er ljóst að það er forsenda kæruaðildar skv. b-lið ákvæðisins að slík niðurstaða liggi fyrir. Telst kærandi því ekki eiga aðild að kæru um lögmæti hins umdeilda byggingarleyfis og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum. Að fenginni þessari niðurstöðu verður ekki fjallað frekar um aðrar kröfur kæranda.

Úrskurðarnefndin bendir þó á að ekki verður séð að kærandi hafi neytt þeirrar heimildar, sem ráð er gert fyrir í lögum nr. 106/2000, að bera fram fyrirspurn um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar, sem skal þá taka ákvörðun um hvort framkvæmdin eigi undir 6. gr. laganna og lúta þar með málsmeðferðarreglum þeirrar lagagreinar. Er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

121/2016 Flýtirein á Keflavíkurflugvelli

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. ágúst 2016 um að bygging flýtireina á Keflavíkurflugvelli skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. september 2016, sem barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Vogagerðis 6, Vogum, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. ágúst 2016 að bygging flýtireina á Keflavíkurflugvelli skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 11. október 2016.

Málsatvik og rök: Í kjölfar samskipta við Skipulagsstofnun vegna framkvæmda við Keflavíkurflugvöll beindi Isavia ohf. fyrirspurn til stofnunarinnar, dags. 20. júní 2016, um matsskyldu fyrirhugaðra framkvæmdar sem fæli í sér byggingu tveggja flýtireina á Keflavíkurflugvelli. Kom fram að flýtireinar myndu stytta brautartímann á milli lendinga og milli lendingar og flugtaks. Með flýtirein væri hægt að stjórna betur umferð flugvéla á jörðu niðri og draga úr þeim tíma sem þær þyrftu að vera á brautarkerfinu eða í bið.

Skipulagsstofnun leitaði eftir umsögnum frá Reykjanesbæ, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, sveitarfélaginu Garði, Samgöngustofu, Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar, Sandgerðisbæ og Umhverfisstofnun. Töldu allir umsagnaraðilar að umræddar framkvæmdir skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum og varð niðurstaða Skipulagsstofnunar 17. ágúst 2016 á sama veg.

Kærandi skírskotar til þess að það sé alþekkt aðferð framkvæmdaraðila, til þess að skjóta sér undan mati á umhverfisáhrifum, að tilkynna aðeins lítinn hluta framkvæmdar og sækja um undanþágu frá mati með þeim rökstuðningi að aðeins sé um sáralitla framkvæmd að ræða. Það sé margdæmt fyrir Evrópudómstólnum að þetta vinnulag standist ekki löggjöf um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Röksemdafærsla Skipulagsstofnunar gangi þvert á kröfur nefndrar löggjafar um mat á heildaráhrifum fyrirhugaðra framkvæmda. Matið eigi að vera heildstætt en ekki bútað niður og taka eigi tillit til umhverfisáhrifa eins fljótt og hægt sé í öllum ferlum við tæknilega áætlanagerð og ákvarðanatöku. Flýtireinarnar séu hluti af stórframkvæmd sem ljóst sé að sæta þurfi mati á umhverfisáhrifum.

Af hálfu Skipulagsstofnunar er vísað til þess að samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem sé kærð. Kærandi eigi lögheimili í Reykjavík og búi þar að jafnaði. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Vegagerðarinnar séu 14 km á milli Keflavíkurflugvallar og Voga, þar sem kærandi á fasteign. Sé fasteign kæranda því ekki skammt frá flugvellinum. Þá verði ekki séð að hann eigi grenndarhagsmuni sem skapi honum kæruaðild vegna flýtireinanna á flugvellinum og annarra framkvæmda sem hafi farið þar fram. Á mynd sem sýni áhrifasvæði í íbúabyggð séu ekki sýnd íbúðasvæði í Vogum. Geti kærandi ekki reist kæruaðild sína á því að hann sem fasteignareigandi verði fyrir óþægindum vegna hávaða frá aukinni flugumferð á flugvellinum. Loks sé bent á að óvissa sé um hvort heildarflugumferð um völlinn muni aukast vegna tilkomu flýtireinanna.

Isavia ohf, sem framkvæmdaraðili, bendir á að bygging flýtireina sé hluti af framkvæmd við endurnýjun yfirlags flugbrautanna, þ.e. notað hafi verið tækifærið þegar fara þurfti í viðhald á brautunum til að byggja flýtireinar. Bygging flýtireina sé sjálfstæð framkvæmd sem ekki sé hluti af stærri matsskyldri framkvæmd. Um sé að ræða einfalda framkvæmd gerða til þess að gera flugvélum mögulegt að beygja af flugbraut fyrr og með einfaldari og fljótlegri hætti. Þetta spari bæði tíma og eldsneyti og dragi úr hávaða og mengun frá hverri lendingu. Þá hafi málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verið í fullu samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. ágúst 2016 um að bygging flýtireina á Keflavíkurflugvelli skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Í kæru sinni vísar kærandi til þess að hann sé fasteignareigandi í Vogum en að öðru leyti er vísað til atriða sem telja verður til almannahagsmuna, s.s. að aukin flugumferð valdi auknum hávaða, aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda, aukinnar umferðar á vegum, aukins álags á ferðamannastöðum og á náttúru landsins. Tilvísun til slíkra almannahagsmuna nægir ekki til kæruaðildar að því undanskildu að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta kært nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en kærandi í máli þessu er ekki slík samtök. Þá er fjarlægð frá mörkum flugvallarsvæðisins að húseign kæranda um 10 km  í beinni loftlínu. Verður því ekki séð að kærandi eigi þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni umfram aðra sökum grenndaráhrifa að það skapi honum kæruaðild.

Með hliðsjón af framangreindu þykir á skorta að kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

10/2017 Hótel Laxá

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 15. október 2013 um að samþykkja leyfi fyrir byggingu hótels á lóðinni Olnbogaási 1 í landi Arnarvatns í Skútustaðahreppi. Jafnframt er kærð samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúans frá 12. september 2016 um leyfi fyrir byggingu þriggja starfsmannahúsa á lóðum nr. 2, 3 og 4 við Olnbogaás.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 15. október 2013 að samþykkja leyfi fyrir byggingu hótels á lóðinni Olnbogaási 1 í landi Arnarvatns í Skútustaðahreppi. Einnig er kærð samþykkt hans frá 12. september 2016 um leyfi fyrir byggingu þriggja starfsmannahúsa á lóðum nr. 2, 3, og 4 við Olnbogaás. Gerð er krafa um að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Jafnframt er gerð krafa um að skolphreinsistöð, er tengd verði hóteli og starfsmannahúsum, sæti mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Til vara er þess krafist að framkvæmdaraðila verði gert að tilkynna framkvæmdina til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. sömu laga og að ákveðið verði að Umhverfisstofnun skuli fjalla um leyfi fyrir henni. Enn fremur að lagt verði fyrir framkvæmdaraðila að setja upp skolphreinsistöð í samræmi við 24. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, eða þannig að sýnt sé fram á að engin næringarefni berist með tímanum í Mývatn. Þá er þess krafist að ákveðið verði að skolp frá starfsmannahúsum verði tengt skolphreinsistöð hótelsins.

Loks er gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvarðana að því er varðar skolphreinsistöð og rotþró og að skolpi frá hóteli og starfsmannahúsum verði ekið út af verndarsvæðinu á viðurkenndan urðunarstað og ekki hleypt út í umhverfið meðan kærumálið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir mál þetta nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Skútustaðahreppi 20. janúar og 28. apríl 2017. 

Málavextir: Hinn 15. október 2013 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps leyfi fyrir byggingu 80 herbergja hótels á lóðinni Olnbogaási 1 í landi Arnarvatns. Í tilkynningu til leyfishafa um samþykkt leyfisins var vakin athygli á því að gerð væri krafa um ítarlegri hreinsun skolps en tveggja þrepa skv. 24. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Jafnframt var gerð krafa um að lögð yrði fram áætlun um vöktun á virkni hreinsibúnaðar í samráði við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra. Umsókn um leyfi fyrir byggingu þriggja starfsmannahúsa á lóðum nr. 2, 3 og 4 við Olnbogaás var síðan samþykkt af skipulags- og byggingarfulltrúa 12. september 2016.

Málsrök kæranda:
Kærandi tekur fram að um sé að ræða byggingu hótels með 80 herbergjum, ásamt skolphreinsistöð, og þriggja starfsmannahúsa með rotþró og siturlögn. Tengist hinar kærðu ákvarðanir innbyrðis og varði eina og sömu hótelframkvæmdina. Skolphreinsistöð hafi verið tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Beri því að skoða alla framkvæmdina í ljósi kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þrátt fyrir að hótel í dreifbýli hafi fyrst orðið tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar með lögum nr. 138/2014.

Nefndar ákvarðanir hafi hvorki verið birtar opinberlega né hafi þær verið gerðar aðgengilegar almenningi á opnu vefsvæði. Innan við mánuður sé síðan kæranda hafi orðið kunnugt um leyfisveitingarnar og sé kæran því sett fram innan kærufrests.

Skipulags- og byggingarfulltrúa hafi brostið lagaheimild til töku hinna kærðu ákvarðana. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og 2. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 sama efnis lúti allar framkvæmdir á verndarsvæði Mývatns leyfisveitingu Umhverfisstofnunar. Ekkert slíkt leyfi hafi legið fyrir. Þá séu hótelbyggingin og starfsmannahúsin undirorpin byggingarbanni skv. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012, eins og hún verði skýrð. Engin undanþága hafi verið veitt frá því banni. Fyrrnefnd skolphreinsistöð hafi ekki verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar og því ekki hlotið lögmæta umfjöllun. Hafi skipulags- og byggingarfulltrúa því verið óheimilt að gefa út byggingarleyfi, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Að auki stangist uppsetning rotþróar við starfsmannahús á við ákvæði reglugerðar nr. 665/2012 um ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa. Í gögnum komi ekkert fram um í hverju þriðja þrep skolphreinsisbúnaðarins skuli felast eða hvort búnaðurinn komi sannarlega í veg fyrir röskun á lífríki Mývatns. Ekki hafi verið sýnt fram á að skolphreinsistöðin uppfylli lagaskilyrði og stjórnvaldsfyrirmæli, sbr. og verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá 2011-2016. Gera verði þær kröfur til rökstuðnings fyrir ákvörðunum sem þessum að gerð sé grein fyrir þessum atriðum þegar um sé að ræða innlent og alþjóðlegt verndarsvæði svo sem hér sé. Þá hafi starfsleyfi skolphreinsistöðvar ekki verið gefið út, svo vitað sé.

Gengið hafi verið gegn umsögnum Umhverfisstofnunar, sem veittar hafi verið við gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði, og skort hafi á að leita álits heilbrigðiseftirlits. Ekki séu uppfylltar kröfur um rökstuðning. Séu annmarkar þessir í andstöðu við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt hafi byggingarfulltrúa borið að taka mið af meginreglum 8.-11. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. 

Málsrök Skútustaðahrepps: Sveitarfélagið krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Kæra sé of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun um byggingarleyfi vegna hótelsins hafi verið tekin fyrir um þremur og hálfu ári. Óútskýrt og ósannað sé að kærandi hafi ekki haft vitneskju um málið fyrr en í janúar 2017. Þá sé að öðru leyti vísað til eðlis rekstrarins, opinberrar umfjöllunar um hann, auglýsingar um starfsemina og eðlis máls um að undanþága frá mánaðar kærufresti eigi ekki við.
Kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni vegna hinna kærðu ákvarðana. Takmarkist kæruheimild hans við ákvarðanir sem falli undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, í þeim skilningi að ákvörðun varði matsskylda framkvæmd. Skipulagsstofnun hafi ekki tekið neina matsskylduákvörðun. Þá varði umrædd byggingarleyfi ekki framkvæmd sem hafi verið umhverfismetin. Beri að skýra kæruheimild aðila sem ekki eigi lögvarða hagsmuni þröngt. Geti hvorki a- né b-liður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 átt við í máli þessu.

Þeim sjónarmiðum kæranda að tilkynna hafi átt um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 sé mótmælt. Miðað við löggjöf við veitingu byggingarleyfis frá 2013 liggi ekki fyrir að það hreinsivirki sem sett hafi verið upp við hótelið hafi talist skolphreinsistöð. Þá hafi ekki þýðingu sú breyting sem gerð hafi verið á lögum nr. 106/2000 með lögum nr. 138/2014, enda varði byggingarleyfið frá 2016 ekki byggingu á skolphreinsivirki vegna fleiri en 100 persónueininga. Hefði stöðin ekki heldur verið tilkynningarskyld ef gert hefði verið ráð fyrir flutningi á skolpi að hreinsivirki sem þegar hafi verið til staðar.

Valdsvið úrskurðarnefndarinnar miðist við að fjalla um lögmæti kærðra ákvarðanna. Geti nefndin ekki tekið til umfjöllunar kröfur sem feli í sér nýjar ákvarðanir. Þá byggi kærandi á málsástæðum sem falli undir eftirlit Umhverfisstofnunar, heilbrigðiseftirlits eða Skipulagsstofnunar. Álitamál um að fyrirkomulag skolphreinsivirkja sé ekki í samræmi við reglugerðir um fráveitumál verði kærandi að bera fram við hlutaðeigandi eftirlitsaðila á sviði umhverfis- og fráveitumála.

Ákvarðanir um útgáfu framangreindra byggingarleyfa hvíli á lögum. Leyfin hafi verið gefin út á grundvelli fullnægjandi gagna og samrýmist deiliskipulagi fyrir svæðið. Málefni skolphreinsivirkja hafi fengið ítarlega umfjöllun við útgáfu byggingarleyfanna og séu byggð í samræmi við reglugerðir um fráveitumál. Engar forsendur séu til að fella úr gildi byggingarleyfi er taki til þeirra. Þá sé sérstaklega bent á 6. gr. laga nr. 106/2000 en samkvæmt ákvæðinu sé unnt að beina fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir kröfu um frávísun málsins og byggja athugasemdir hans á svipuðum sjónarmiðum og sveitarfélagsins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar sjónarmið sín og setur fram ítarlegri rök um að kærufrestur hafi ekki verið liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni. Að auki bendi hann m.a. á að umhverfisverndarsamtök þurfi ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni til að mega kæra ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi þegar mál varði framkvæmdir er geti haft umtalsverð áhrif á umhverfið eða þau varði brot á landslögum, sbr. 2. og 3. mgr. 9. gr. Árósarsamnings. Ella verði þá ekki tryggður réttur kæranda að íslenskum lögum til að bera ákvarðanir, athafnir og athafnaleysi, sem þátttökuréttur hans taki til, undir óháðan og sjálfstæðan dómstól eða annan úrskurðaraðila. Væri kæruréttur sá sem umhverfisverndarsamtökum sé tryggður með Árósarsamningi og innleiðingu hans, með lögum nr. 130/2011 og 131/2011, þýðingarlaus ef hann væri ekki til staðar í þeim tilfellum að ágreiningur væri uppi um það hvort framkvæmd, sem byggingarleyfi væri veitt fyrir án umhverfismats, skuli umhverfismetin eða ekki. Beri sveitarfélaginu, m.a. með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kanna hvort framkvæmdaraðili sem sæki um leyfi hyggi á framkvæmd sem kunni að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum í skilningi laga nr. 106/2000.

Þá hafi borið að tilkynna hin umdeildu starfsmannahús til Skipulagsstofnunar skv. tölulið 12.05 í 1. viðauka laga nr. 106/2000, en húsin teljist hluti af hótelinu í skilningi ákvæðisins. Um hafi verið að ræða breytingu á fyrri framkvæmd sem borið hafi að tilkynna skv. 6. gr. laganna til ákvörðunar um matsskyldu. Að auki sé vísað til 13. tölul. 1. viðauka sömu laga, sem fjalli um breytingar og viðbætur við framkvæmdir. 

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt að kæra nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni.

Kærandi er umhverfisverndarsamtök og byggir kæruaðild sína á greindu ákvæði. Er til þess skírskotað í kæru að þar sem borið hafi að tilkynna skolphreinsistöðvar til Skipulagsstofnunar skv. þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum beri að skoða alla framkvæmdina í ljósi kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka samkvæmt lögum nr. 130/2011.

Samkvæmt a-lið fyrrnefndrar 3. mgr. 4. gr. er unnt að kæra til úrskurðarnefndarinnar ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum nr. 106/2000. Þá er samkvæmt b-lið heimilt að kæra ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir þau lög. Hefur a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 nú verið breytt með lögum nr. 138/2014, sem tóku gildi 30. desember 2014, og frá þeim tíma eru ákvarðanir sveitarstjórna um matsskyldu framkvæmda jafnframt kæranlegar til nefndarinnar.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að í 3. mgr. 4. gr. sé afmarkað hverjir eigi kæruaðild. Annars vegar sé um að ræða stjórnvaldsákvarðanir, sem lúti almennum reglum stjórnsýsluréttarins og hins vegar stjórnvaldsákvarðanir þar sem kærendur þurfi ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni, t.d. umhverfisverndarsamtök. Er m.a. tekið fram að undir a-lið ákvæðisins falli ákvarðanir um matsskyldu, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, og að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda, sbr. b-lið. Það sé því eðlilegt að kæruaðild vegna ákvarðana sem tilgreindar séu í a- og b-lið haldist í hendur. Undir b-lið falli leyfi vegna framkvæmda sem matsskyldar séu skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum. Hér undir falli framkvæmdir sem alltaf séu matsskyldar, sbr. 5. gr. laganna og 1. viðauka þeirra, tilkynningarskyldar framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laganna og 2. viðauka þeirra, og framkvæmdir sem ákvörðun ráðherra liggur fyrir um, sbr. 7. gr. laganna. Nái þessi töluliður til þeirra ákvarðana sem vísað sé til í a- og b-lið 1. tölul. 6. gr. Árósarsamningsins. Þau leyfi sem um ræði séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum.

Kærðar eru tvær ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps í máli þessu. Annars vegar er um að ræða samþykkt hans frá 15. október 2013, um leyfi fyrir byggingu hótels á lóðinni Olnbogaási 1 í landi Arnarvatns, og hins vegar ákvörðun frá 12. september 2016, um leyfi fyrir byggingu þriggja starfsmannahúsa fyrir fyrrnefnt hótel. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 er m.a. tiltekið að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar fyrr en fyrir liggi ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld. Nefnd 6. gr. tekur til framkvæmda sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum og svo sem áður segir heldur kærandi því fram að tilkynna hefði þurft Skipulagsstofnun um skolphreinsistöð við hótelið í samræmi við þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000. Þar undir féllu m.a. skolphreinsistöðvar á verndarsvæðum, sbr. c-lið 11. tölul. viðaukans, en framkvæmdirnar eru á verndarsvæði Laxár og Mývatns, sbr. lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað hafa þær framkvæmdir sem leyfðar voru ekki komið til meðferðar Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000. Tekur stofnunin nánar fram í svarbréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. febrúar 2017, að stofnunin hafi ekki fengið til slíkrar meðferðar málefni umræddar hótelbyggingar og tengd mannvirki, þ.e. skolphreinsistöð, starfsmannahús og rotþró með siturlögn. Þá vekur stofnunin athygli á því að töluliður 12.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 hafi komið inn með breytingarlögum nr. 138/2014, sem birt hafi verið 30. desember 2014. Leyfi hafi hins vegar verið veitt fyrir byggingu umrædds hótels á árinu 2013.

Upplýst er að Skipulagsstofnun hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort að framkvæmdir þær er veitt var leyfi fyrir með hinum kærðu byggingarleyfum falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum, enda hefur stofnunin ekki fengið málefni þeirra til slíkrar meðferðar. Með hliðsjón af því sem áður er rakið um ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og lögskýringargögnum er ljóst að það er forsenda kæruaðildar skv. b-lið ákvæðisins að slík niðurstaða liggi fyrir. Telst kærandi því ekki eiga aðild að kæru um lögmæti hinna umdeildu byggingarleyfa og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum. Að fenginni þessari niðurstöðu verður ekki fjallað frekar um aðrar kröfur kæranda.

Úrskurðarnefndin bendir þó á að ekki verður séð að kærandi hafi neytt þeirrar heimildar, sem ráð er gert fyrir í lögum nr. 106/2000, að bera fram fyrirspurn um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar, sem þá skal taka ákvörðun um hvort framkvæmdin eigi undir 6. gr. laganna og lúta þar með málsmeðferðarreglum þeirrar lagagreinar. Er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

157/2016 Hótel Reykjahlíð

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 2. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 157/2016, kæra á afgreiðslu Umhverfisstofnunar frá 27. október 2016 vegna tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 fyrir lóð Hótels Reykjahlíðar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Flugleiðahótel ehf., þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 27. október 2016 að „fallast ekki á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 á lóð Hótels Reykjahlíðar“.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 4. janúar 2017. 

Málavextir: Hótel Reykjahlíð er staðsett innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár, á landnotkunarreit 108-M samkvæmt Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023. Fram kemur í skilmálum deiliskipulags Reykjahlíðar að umrætt hótel sé 544 m² að stærð og heimiluð hámarksstærð bygginga á lóðinni 1.180 m². Á árinu 2015 óskaði lóðarhafi hótelsins eftir því við skipulagsyfirvöld að landnotkunarreitur lóðarinnar yrði stækkaður og byggingarmagn á lóðinni aukið. Veitti Umhverfisstofnun umsögn sína um lýsingu skipulagsverkefnisins með bréfi, dags. 13. ágúst 2015.

Hinn 29. júní 2016 samþykkti sveitarstjórn að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps. Fól umrædd breytingartillaga í sér að landnotkunarreitur 108-M yrði stækkaður úr 0,59 ha í 1,29 ha og hámarksbyggingarmagn yrði 3.556 m². Í kjölfar þessa var tillagan send Skipulagsstofnun til athugunar samkvæmt 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í svarbréfi stofnunarinnar til Skútustaðahrepps, dags. 8. ágúst s.á., kom fram að ekki væri unnt að taka afstöðu til breytingartillögunnar fyrr en umsögn Umhverfisstofnunar um hana lægi fyrir. Í framhaldi af því óskaði skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps umsagnar Umhverfisstofnunar og lá hún fyrir 27. október 2016. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að hún, með umsögn sinni, féllist ekki á skipulagstillöguna. Ljóst væri að leyfi Umhverfisstofnunar þyrfti fyrir fyrirhugaðri framkvæmd í samræmi við lög um Mývatn og Laxá. Jafnframt var tekið fram að með vísan til athugasemda í umsögn, og miðað við fyrirliggjandi gögn, gerði stofnunin ekki ráð fyrir að svo mikil uppbygging innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár, aðeins 50 m frá vatninu, yrði heimiluð af hennar hálfu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu skuli leita leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geti áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á landsvæði því sem um geti í 1. mgr. 2. gr. laganna, þ.e. á svokölluðu verndarsvæði laganna. Síðari málsliður sömu málsgreinar kveði á um það að þó skuli heimilar án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um sé að ræða. Í framkvæmd hafi ákvæðið verið túlkað af stjórnvöldum á þá leið að framkvæmdaraðili geti ekki hafið framkvæmdir á verndarsvæðinu nema annað hvort liggi fyrir leyfi Umhverfisstofnunar fyrir þeim eða að hún hafi fallist á tilteknar breytingar á skipulagi sem þörf sé á vegna framkvæmdanna. Lúti hin kærða ákvörðun að veitingu leyfis samkvæmt fyrrgreindu ákvæði og sé því kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 11. gr. sömu laga.

Fyrri og síðari málsliður 2. mgr. 3. gr. laganna séu háðir hvor öðrum. Verði síðari málsliðurinn ekki skilinn öðruvísi en svo að leyfi Umhverfisstofnunar þurfi til breytinga á skipulagsáætlun ef hún varði fyrirhugaðar framkvæmdir sem haft geti áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á verndarsvæði laganna. Mæli lögin fyrir um lögbundna álitsumleitan og sé umsögn stofnunarinnar bindandi um úrlausnarmöguleika sveitarfélagsins. Orðalag ákvæðisins sé á þá leið að stofnunin þurfi að fallast á skipulagsbreytingar. Niðurstaða Umhverfisstofnunar um að fallast ekki á skipulagsbreytingar feli því í sér að stofnunin veiti ekki leyfi fyrir þeim. Sé stjórnsýsluvaldi í raun skipt milli Skútustaðahrepps og Umhverfisstofnunar þegar komi að skipulagstillögum eins og þeirri sem deilt sé um í máli þessu.

Leiði almenn sjónarmið, sem líta beri til við skýringu á kæruheimild, enn fremur til sömu niðurstöðu. Beri að skýra kæruheimildir það rúmt að þær nái því markmiði sem liggi til grundvallar réttarúrræðinu. Sé vísað til úrskurðar umhverfisráðuneytisins frá 13. mars 2006, í máli nr. 05100011, í þessu sambandi, en samræmisályktun á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins ætti að leiða til þess að kæruheimild sé til staðar.

Kærandi bendi jafnframt á að líta þurfi heildstætt til stefnu aðalskipulags Reykjahlíðar. Reykjahlíð sé samkvæmt aðalskipulaginu ætlað að vera þungamiðja byggðar, verslunar og þjónustu. Svæðið sé skilgreindur þéttbýliskjarni. Um sé að ræða viðbyggingu við húsnæði hótels sem hafi verið á lóðinni í áratugi. Í aðalskipulaginu segi að sporna skuli við frekari nýbyggingum vatnsmegin vegar, öðrum en þeim sem tengist bæjar- og húsaþyrpingum sem þar séu fyrir. Hér sé um algert grundvallaratriði að ræða.

Því sé mótmælt að breytingartillagan muni hafa fordæmisgildi hvað varði önnur byggingaráform á svæðinu, vatnsmegin vegar. Mat Umhverfisstofnunar beri þess merki að vera eingöngu byggt á huglægum forsendum. Staðhæfingar um áætluð áhrif fyrirhugaðrar uppbyggingar og að áætluð framkvæmd muni ekki vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu séu bornar fram án þess að baki búi haldbærar röksemdir eða rannsóknir. Lögð hafi verið rík áhersla á það af hálfu forsvarsmanna kæranda að stuðla að því að fyrirhugaðar framkvæmdir og nauðsynleg uppbygging uppfylli það markmið í stefnu sveitarfélagsins að varðveita sem best landslag og ásýnd svæðisins. Jafnframt sé kærandi tilbúinn að vinna að fullnægjandi lausn í fráveitumálum fyrirhugaðra framkvæmda og setja ný viðmið í þessum efnum og séu ýmsar hugmyndir að útfærslu fráveitumála í vinnslu. 

Ákvæði 3. gr. laga nr. 97/2004 veiti Umhverfisstofnun ekki vald til eftirlits með Skútustaðahreppi heldur vald sem leyfisveitanda fyrir skipulagsbreytingum og framkvæmdum. Sé lögð áhersla á að þær valdheimildir sem stofnuninni hafi verið veittar með þeim lögum verði túlkaðar með hliðsjón af 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Þá sé eðlilegt að  Umhverfisstofnun líti til 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 við mat á því hvort fallast skuli á tillögu að breytingu á skipulagsáætlun á verndarsvæðinu.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem umrædd umsögn sé ekki kæranleg til nefndarinnar. Skírskotað sé í því sambandi til 11. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati Umhverfisstofnunar sé umsögn hennar ekki stjórnvaldsákvörðun, enda ekki um endanlega afgreiðslu að ræða. Skýrt sé tekið fram í niðurstöðu umsagnarinnar að ekki sé fallist á skipulagsáætlunina, sem vísi til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004. Hafi stofnunin ekki tekið formlega ákvörðun um það hvort hún muni eða muni ekki gefa leyfi fyrir fyrirhugaðri framkvæmd heldur einungis að undanþáguákvæði ofangreinds ákvæðis eigi ekki við. Ekki hafi verið litið svo á að ákvæðið fæli í sér að gildistaka skipulags væri háð samþykki Umhverfisstofnunar.

Fræðimenn séu almennt sammála um að ekki beri að flokka bindandi umsagnir sem stjórnvaldsákvarðanir þar sem þær bindi ekki enda á stjórnsýslumálið og hafi ekki þau réttaráhrif að vera bindandi úrlausn þess frá því að þær séu birtar aðila. Ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir framkvæmdinni af hálfu framkvæmdaraðila. Þá beinist umsögn stofnunarinnar ekki að kæranda heldur Skútustaðahreppi og sé m.a. leiðbeinandi til þess stjórnvalds um að stofnunin telji framkvæmdina jafnframt vera leyfisskylda hjá henni. Telji Umhverfisstofnun úrskurð umhverfisráðuneytisins frá 13. mars 2006, sem kærandi vísi til, ekki eiga við í máli þessu þrátt fyrir að kærandi eigi hagsmuna að gæta. 

Verndarsvæði Mývatns og Laxár njóti verndar lögum samkvæmt, enda sé náttúra og umhverfi þess einstakt á heimsvísu. Sé sérlögum um Mývatn og Laxá ætlað að stuðla að náttúruvernd á svæðinu í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins sé ekki stefnt í hættu af mannavöldum, sbr. 1. gr. laga nr. 97/2004. Í núgildandi aðalskipulagi Skútustaðahrepps sé lögð áhersla á náttúruvernd og tiltekin þau atriði sem hafa beri að leiðarljósi. Brýnt sé að við útfærslu skipulags sé þess gætt að framkvæmdir samræmist því regluverki sem eigi við um hið verndaða svæði. Skuli uppbygging í Reykjahlíð taka mið m.a. af þeim áherslum sem fram komi í aðalskipulaginu og tengist markmiðum reglna um verndun svæðisins.

Umhverfisstofnun hafi metið ástandið á Mývatni svo slæmt að það hafi verið á rauðum lista stofnunarinnar frá árinu 2012. Í skýrslu samstarfshóps um Mývatn frá júní 2016 komi fram að sterkar vísbendingar séu um að fjölgun ferðamanna auki álag á lífríki Mývatns. Sérstaklega sé tekið fram í núgildandi verndaráætlun Mývatns og Laxár 2011-2016 að nauðsynlegt sé að setja mörk fyrir ásættanlegar breytingar, meðal annars af völdum ferðamanna á verndarsvæðinu.

Telji Umhverfisstofnun fyrirhugaða breytingartillögu ekki samræmast núgildandi aðalskipulagi. Mikilvægt sé að fjalla um fráveitumál framkvæmdarinnar í tillögunni en á skorti að fram komi með ítarlegum hætti hvernig leysa skuli fráveitumál umrædds hótels. Þá muni sú stækkun sem breytingartillagan boði hafa talsverð áhrif á landslag innan verndarsvæðisins en landslag njóti verndar samkvæmt lögum um verndun Mývatns og Laxár. Í þessu tilviki sé um að ræða margfalda stærð þess mannvirkis sem nú þegar sé til staðar.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Umhverfisstofnunar: Kærandi áréttar sjónarmið sín. Jafnframt því skírskotar kærandi meðal annars til þess að inntak kæruheimildar ráðist af sjálfstæðri túlkun á efni hennar til samræmis við önnur ákvæði þeirra laga sem kærunefnd sé ætlað að hafa eftirlit með og óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttarins um kærurétt málsaðila. Kærunefndir geti því í ákveðnum tilvikum tekið mál til meðferðar þótt kærð ákvörðun feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun, enda geti sérstök kæruheimild leitt af sér betri rétt en almenn ákvæði stjórnsýslulaganna. Til frekari rökstuðnings sé vísað til álits umboðsmanns Alþingis nr. 3309/2001 frá 31. júní 2002.

Skipulagstillagan feli beinlínis í sér áform um framkvæmdir sem falli undir ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004. Í niðurstöðu Umhverfisstofnunar um það hvort hún fallist á skipulagsáætlun eða ekki felist sjálfkrafa endanleg niðurstaða stofnunarinnar um leyfisveitingu. Skipti afstaða stofnunarinnar sköpum vegna hlutverks hennar samkvæmt lögum nr. 97/2004. Rökstudd afstaða Umhverfisstofnunar í formi umsagnar sé því ekkert annað en ákvörðun sem lúti að leyfisveitingu og hafi sú ákvörðun að fallast ekki á skipulagstillögu þær afleiðingar að ferlið fari í uppnám. Ferli skipulagstillagna og leyfisveiting Umhverfisstofnunar haldist í hendur. Ákvörðunin hafi verið tekin í formi umsagnar og kynnt Skútustaðahreppi. Þar með hafi henni verið veitt réttaráhrif. Hún sé tekin af Umhverfisstofnun, sem sé lögformlegur aðili leyfisveitinga á grundvelli laga nr. 97/2004, og því tekin í skjóli stjórnsýsluvalds.

Það sé eðlilegt að kærandi, sem verulegra hagsmuna hafi að gæta, geti kært ákvörðun Umhverfisstofnunar, en hún hafi mikla þýðingu fyrir framhald málsins. Hagsmunir kæranda verði ekki nægilega tryggðir að lögum ef niðurstaðan verði sú að ákvörðunin teljist ekki kæranleg, enda hafi málsmeðferðin tekið langan tíma og meðal annars dregist á langinn vegna óvissu viðkomandi stjórnvalda um það hvernig haga beri málsmeðferð í máli sem þessu. Vísi kærandi í þessu sambandi til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4343/2005 frá 29. desember 2006.
                        ———

Færð hafa verið fram ítarlegri sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess.

Niðurstaða: Í máli þessu er m.a. um það deilt hvort að fyrir hendi sé kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka almenna kæruheimild m.a. að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar er þó jafnframt tekið fram að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að staðfesta samkvæmt lögunum sæti ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laganna er aðalskipulag háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Eru breytingar á aðalskipulagi jafnframt háðar slíkri staðfestingu, sbr. ákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna. Verður því ekki byggt á kæruheimild skipulagslaga í máli þessu, sem varðar umsögn Umhverfisstofnunar sem gefin var í tilefni af málsmeðferð breytingartillögu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023.

Breytingartillagan tekur til lóðar Hótels Reykjahlíðar, sem eins og fyrr greinir er staðsett innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár. Um svæðið gilda því lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Fer umhverfis- og auðlindaráðherra með þau lög og setur m.a. reglugerðir á grundvelli þeirra, en Umhverfisstofnun er einnig ætlað hlutverk samkvæmt lögunum.
Almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í nefndum lögum, en sérstaka kæruheimild er að finna í 11. gr. þeirra. Segir þar að ákvarðanir Umhverfisstofnunar er lúti að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfis skv. 3. gr. sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Í 1. mgr. nefndrar 3. gr. er tiltekið að breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna séu óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra, enda komi til sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar. Jafnframt er kveðið á um það í 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna að leita skuli leyfis stofnunarinnar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geti áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag, en í 2. málsl. ákvæðisins er tekið fram að þó skulu heimilaðar án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um sé að ræða. Efnislega sambærileg ákvæði er að finna í 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, sem sett er með stoð í nefndum lögum. Kemur m.a. fram í 3. mgr. 17. gr. að þrátt fyrir 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. séu heimilaðar, án sérstakrar undanþágu eða leyfis Umhverfisstofnunar, framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi Umhverfisstofnun fallist á umrædda skipulagsáætlun.

Óumdeilt er að kærandi hefur ekki sótt um leyfi samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. fyrrgreindra laga eða 17. gr. reglugerðarinnar, en kærandi telur að í umsögn Umhverfisstofnunar hafi falist ákvörðun um að fallast ekki á tillögu að breytingu á aðalskipulagi. Sé sú ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004, enda þurfi leyfi stofnunarinnar til skipulagsbreytinga. Felist raunar í ákvörðun Umhverfisstofnunar sjálfkrafa endanleg niðurstaða hennar um leyfisveitingu.

Eins og áður er frá greint var umsagnar Umhverfisstofnunar leitað vegna fyrirhugaðra breytinga á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023. Mælt er fyrir um í 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga að við gerð skipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, viðkomandi stjórnvalda og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu. Þá er kveðið á um það í 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd að leita skuli umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefnda við gerð aðalskipulagsáætlana og verulegra breytinga á þeim. Svarar greint ákvæði til 33. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Segir svo í athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi til þeirra laga að slíkt sé í samræmi við það sem segi í almennum athugasemdum frumvarpsins um nauðsyn þess að náttúruverndaryfirvöld komi að málum þegar á skipulagsstigi. Er sá þáttur sveitarstjórnar að afla umsagnar Umhverfisstofnunar þannig hluti af lögbundinni meðferð málsins hjá sveitarfélaginu í þeim tilgangi að sjónarmið stofnunarinnar komi fram við skipulagsgerðina. Um lögbundna umsögn er að ræða en ekki kemur fram í lögum að sú umsögn sé bindandi. Er þar með ljóst að skipulagsvaldið sem slíkt er eftir sem áður í höndum sveitarstjórnar sem getur samþykkt eða synjað um umbeðna aðalskipulagsbreytingu. Hins vegar getur umsögnin veitt upplýsingar um afstöðu stjórnvaldsins til síðar tilkominna leyfisbeiðna.

Í niðurstöðu fyrrgreindrar umsagnar segir svo: „Umhverfisstofnun, með umsögn þessari, fellst því ekki á skipulagstillöguna. Ljóst er að leyfi Umhverfisstofnunar þarf fyrir fyrirhugaðri framkvæmd í samræmi við lög um Mývatn og Laxá. Með vísan til framangreindra athugasemda og miðað við fyrirliggjandi gögn, gerir Umhverfisstofnun ekki ráð fyrir að svo mikil uppbygging innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár aðeins 50 metra frá vatninu yrði heimiluð af hennar hálfu.“ Í umsögninni er einnig m.a. bent á að hvorki sé rökstutt hvort breytingartillagan sé í samræmi við stefnumál í gildandi aðalskipulagi Skútustaðahrepps né komi fram í greinargerð breytt stefna í skipulagsmálum. Sé fyrirhuguð aðalskipulagsbreyting til þess fallin að auka verulega álag á verndarsvæðið miðað við fyrirliggjandi gögn og samræmist áætluð landnotkun breytingartillögunnar því ekki verndaráætlun fyrir verndarsvæðið. Þá telur Umhverfisstofnun að nauðsynlegt sé að sýna lausn á fráveitumálum, staðsetningu hreinsivirkis og útskýra hvernig komist verði hjá því að næringarefni frá fráveitu fari í vatnið, enda nái breytingartillagan í raun einungis til einnar framkvæmdar. Að mati Umhverfisstofnunar muni þær framkvæmdir sem áætlaðar eru í breytingartillögunni valda mikilli röskun á grónu hrauni á stóru svæði. Þá geti umrætt hótel ekki bætt ásýnd verndarsvæðis Mývatns og Laxár eins og fullyrt sé í breytingartillögunni, þrátt fyrir vandaða hönnun og endurbætur á eldri byggingu. Loks metur stofnunin það svo að áætluð framkvæmd sé ekki í samræmi við markmið reglugerðar nr. 665/2012 vegna umfangs og stærðar.

Af tilvitnuðu orðalagi umsagnarinnar verður ekki talið að það feli annað í sér en afstöðu eða álit Umhverfisstofnunar til umræddrar skipulagsáætlunar miðað við fyrirliggjandi gögn. Er ekki hægt að fallst á að í þeirri afstöðu, þótt neikvæð sé, felist endanleg niðurstaða stofnunarinnar um leyfisveitingu.

Með hliðsjón af öllu því sem rakið hefur verið verður þeirri niðurstöðu Umhverfisstofnunar „að fallast ekki á skipulagstillöguna“ ekki jafnað saman við veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfis skv. 3. gr. laga nr. 97/2004, en samkvæmt 11. gr. laganna er kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar einskorðuð við þær ákvarðanir. Fær sú skýring einnig stoð í athugasemdum með nefndu ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Þar segir að kveðið sé á um að nefndar ákvarðanir Umhverfisstofnunar verði kærðar til úrskurðarnefndarinnar í stað ráðherra. Frekara vald var hins vegar ekki skilið frá ráðherra með þeirri lagasetningu. Þar sem ekki er mælt fyrir um það í lögum, eins og fyrrnefnd 1. gr. laga nr. 130/2011 áskilur, að ágreiningur máls þessa verði borinn undir úrskurðarnefndina, verður því vísað frá nefndinni.

Það athugist að úrskurðarnefndin hefur með framangreindu ekki tekið til þess afstöðu hvort um kæruheimild geti verið um að ræða til ráðherra umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

168/2016 Skólavörðustígur

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 6. apríl, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 168/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Vættaborgum 150, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. nóvember 2016 um að veita neikvætt svar við fyrirspurn um hvort samþykkt yrði að skrá bakhús að Skólavörðustíg 2 (Bankastræti 14) sem einstaklingsíbúð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 1. febrúar 2017.

Málsatvik og rök:
Með fyrirspurn, dags. 28. september 2016, var óskað eftir því við byggingarfulltrúa Reykjavíkur „að Skólavörðustígur 2 (Bankastræti 14) bakhús matsluti 04 01 01 verði skráð sem einstaklingsíbúð“. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru fasteignirnar Skólavörðustígur 2 og Bankastræti 14 á viðskipta- og þjónustulóð með landnúmerið 101383. Matshluti 04 sem merktur er 0101 er í fasteignaskrá skráður sem vörugeymsla byggð árið 1910 og mun það vera eign sú sem um ræðir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. nóvember 2016 var bókað um neikvæða niðurstöðu hans þar sem fyrirspurn samræmdist ekki byggingarreglugerð og ekki væri að sjá í gögnum að bakhús hefði verið samþykkt sem íbúð.

Kærandi tekur fram að samkvæmt svari byggingarfulltrúa samræmist húsið ekki byggingarreglugerð, en kærandi telji að taka þyrfti mið af byggingarreglugerð frá þeim tíma er húsið hafi verið byggt en ekki eins og hún sé í dag. Þá hafi bakhúsið verið samþykkt sem einstaklingsíbúð með þinglýstri yfirlýsingu árið 1993 og þinglýstu afsali árið 1976. Ennfremur hafi verið samþykktar teikningar árið 2000 en byggingarleyfi ekki gefið út.

Reykjavíkurborg krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 16. nóvember s.á., hafi eiganda einungis verið tilkynnt niðurstaða í máli vegna fyrirspurnar kvartanda, en ekki hafi verið tekin formleg stjórnvaldsákvörðun.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um neikvæða afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. nóvember 2016 á fyrirspurn um hvort samþykkt yrði að skrá bakhús að Skólavörðustíg 2 (Bankastræti 14) sem einstaklingsíbúð. Kærandi mun vera eigandi umrædds húsnæðis.

Erindi það sem beint var til byggingarfulltrúa var á eyðublaði með árituninni „fyrirspurn“. Þar var óskað eftir að eign sú sem um ræðir yrði skráð sem einstaklingsíbúð og var vísað til meðfylgjandi gagna. Greind gögn varða eigendaskipti að eigninni og í yfirlýsingu sem innfærð var í þinglýsingabækur 5. maí 1993 kemur fram að eign sú sem þar skipti höndum sé einstaklingsíbúð merkt 04-01-01. Af gögnum og efni fyrirspurnarinnar verður því ráðið að beðið hafi verið um skráningu umræddrar eignar sem íbúðarhúsnæðis, en hún er nú skráð sem vörugeymsla á viðskipta- og þjónustulóð. Var því verið að biðja um leyfi fyrir breyttri notkun eignarinnar, en skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er slík notkun háð leyfi byggingarfulltrúa. Samþykkt eða synjun slíks leyfis verður borið undir úrskurðarnefndina. Hönnunargögn skulu fylgja umsókn um byggingarleyfi samkvæmt nánari fyrirmælum í mannvirkjalögum og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Slík gögn fylgdu ekki erindi því sem neitað var og ber málsmeðferð byggingarfulltrúa jafnframt með sér að farið var með erindið og það afgreitt sem fyrirspurn.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu byggingarfulltrúa verður ekki lögð að jöfnu við byggingarleyfisumsókn, einkum þegar á skortir að fyrirspurnin sé studd haldbærum gögnum. Verður og ekki talið að neikvætt svar byggingarfulltrúa við þeirri fyrirspurn hafi falið í sér neina þá stjórnvaldsákvörðun sem skapaði kæranda réttindi eða skyldur. Þar sem ekki er um að ræða lokaákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli, verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

17/2017 Vegamótastígur

Með
Árið 2017, föstudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir flutningi einbýlishúss af lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg yfir á lóðina Grettisgötu 54b í Reykjavík og ákvörðun hans frá 18. október s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. janúar 2017, er barst nefndinni 4. febrúar s.á., kæra eigendur, Grettisgötu 3 og 3a, og eigendur, Grettisgötu 5, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir flutningi einbýlishúss af lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg yfir á lóðina Grettisgötu 54b, Reykjavík, og þá ákvörðun hans frá 18. október s.á. að veita byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 í Reykjavík. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 22. febrúar 2017.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Í kjallara skyldu vera bílastæði, og á lóðunum var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelrýmis eða sambærilegrar starfsemi. Þá var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða til nota fyrir nefndar lóðir.

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. febrúar 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir flutningi friðaðs einbýlishúss frá árinu 1904, af lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg, á steyptan sökkul á lóðinni nr. 54b við Grettisgötu. Þá var hinn 31. maí 2016 tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli á lóðunum nr. 7 og 9 við Vegamótastíg með 39 herbergjum fyrir 78 gesti auk bílageymslu í kjallara fyrir sex bíla. Þeirri umsókn var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn hans frá 1. júlí s.á. var tekið jákvætt í að minnka bílakjallara, en bent var á að lóðarhafi þyrfti að greiða fyrir stæðin sem upp á vantaði samkvæmt kröfum deiliskipulags og tryggja jafnframt stæði fyrir hreyfihamlaða við bygginguna. Á afgreiðslufundi sínum 20. september 2016 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um leyfi fyrir flutningi fyrrgreinds húss og hinn 18. október s.á. var samþykkt byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli auk kjallara á tveimur hæðum. Er gert ráð fyrir 39 herbergjum fyrir 78 gesti og veitingastað í efri kjallara, en ekki er gert ráð fyrir bílastæðum í neðri kjallara á samþykktum teikningum og engin bílastæði á lóð eru merkt á uppdrætti.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir muni rýra verulega lífsgæði þeirra. Heimiluð sé bygging fimm hæða hótels með tveggja hæða bílakjallara og veitingastað með næturopnun. Útsýni frá fasteignum kærenda muni skerðast, birta minnka og ónæði muni skapast vegna hótelgesta, veitingastaðar og bílakjallara. Kærendur hafi komið á framfæri rökstuddum andmælum sem ekki hafi verið tekin gild. Kærendur kæri einnig niðurrif á húsi á sömu lóð. Framkvæmdir séu hafnar en kærendur telji að byggingarleyfi og framkvæmdarleyfi hafi ekki verið gefin út.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld taka fram að byggingaráform hafi verið samþykkt með vísan til gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í ákvæðinu sé fjallað um samþykkt byggingaráforma en slík samþykkt feli það eitt í sér að fyrirhuguð byggingarframkvæmd uppfylli ákvæði laga, reglugerða og skipulags. Með ákvörðun um samþykki byggingaráforma sé umsækjanda veittar réttmætar væntingar til þess að byggingarleyfi fáist útgefið. Samþykkt byggingaráforma heimili umsækjanda aftur á móti ekki að hefja framkvæmdir fyrr en að byggingarleyfi hafi verið gefið út sbr., 1. mgr. gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Óheimilt sé að hefja byggingarframkvæmd fyrr en að leyfi hafi verið gefið út.

Í kærumáli þessu liggi fyrir að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út á grundvelli samþykktra byggingaráforma. Umsækjandi hafi ekki enn uppfyllt skilyrði gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð til þess að fá útgefið byggingarleyfi. Yfirferð séruppdrátta sé enn ekki lokið og ekki hafi enn verið gefið út takmarkað byggingarleyfi á grundvelli fyrrnefndra ákvæða. Á þeim grundvelli sé það mat byggingarfulltrúa að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. gr., sbr. 2. mgr. 4. gr., laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Beri því að vísa kærunni frá nefndinni.

Í kæru sé að finna röksemdafærslu fyrir kröfu kærenda sem byggi á skipulagslegum sjónarmiðum. Við gerð skipulagsáætlunar skuli m.a. litið til hæðar húsa, skuggavarps, starfsemi, birtu o.s.frv., sbr. gr. 5.3.2. og 5.1.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Samkvæmt 1. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð verði byggingarleyfisumsókn ekki samþykkt nema að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlun. Því geti ekki komið til greina að leggja mat á atriði sem taka skuli afstöðu til við skipulagsgerð þegar lagt sé mat á lögmæti byggingarleyfisumsóknar. Öðru máli gegni þegar kæra varði byggingarleyfi sem sé að mati kærenda ekki í samræmi við skipulagsskilmála. Ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir niðurrifi húss á lóðunum en aftur á móti hafi verið samþykkt byggingarleyfi fyrir flutningi húss af annarri lóðinni hinn 20. september s.á.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skuli í kæru koma fram hvaða ákvörðun sé kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Í kærunni sé ekki tiltekið með nákvæmum hætti hvaða stjórnvaldsákvörðun sé verið að kæra, en í upphafi segi að verið sé að kæra „framkvæmdir og byggingarleyfi vegna áætlaðrar byggingar við Vegamótastíg 7-9“. Í niðurlagi kærunnar segi að kærendur telji „að byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út“. Þá sé niðurrif á húsi á sömu lóð einnig kært. Flutningur gamals húss á lóðinni hafi farið fram nokkrum vikum fyrir dagsetningu kærunnar. Vandséð sé að kæra uppfylli almenn skilyrði stjórnvaldskæru.

Þá hafi deiliskipulagi reitsins verið breytt með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 en breytingin hafi tekið til lóðanna Vegamótastígs 7 og 9. Byggingarleyfið sem samþykkt hafi verið í október á síðasta ári sé að öllu leyti í samræmi við hið samþykkta deiliskipulag. Í kærunni sé ekki á nokkurn hátt reynt að sýna fram á að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við deiliskipulag. Aðeins sé verið að endurtaka þær athugasemdir sem gerðar hafi verið við deiliskipulagið á sínum tíma. Til þess að taka megi kæru til efnismeðferðar verði kærendur að tiltaka með skýrum hætti hvað það sé í útgefnu byggingarleyfi sem ekki sé í samræmi við lög eða gildar stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. hvort eða með hvaða hætti byggingarleyfið sé ekki í samræmi við samþykkt og auglýst deiliskipulag. Það sé ekki gert í kærunni. Þegar af þessari ástæðu beri að hafna kærunni.

Niðurstaða: Kveðið er á um það í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á. Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 fól í sér heimild til flutnings mannvirkis af lóð. Kærendur hafa ekki teflt fram réttarhagsmunum sínum sem gætu raskast við flutning hússins, en telja verður að slík framkvæmd sé almennt ekki til þess fallin að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. Skortir því á að fyrir liggi að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda ákvörðun byggingarfulltrúa um flutning hússins af lóð Vegamótastígs 9 sem veiti þeim kæruaðild í þeim þætti málsins. Verður kæru vegna greindrar ákvörðunar byggingarfulltrúa því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kæra í málinu er skrifleg og undirrituð. Þar kemur fram hverjir kærendur eru og má af henni ráða hvaða kröfur þeir geri. Úrskurðarnefndin starfar eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og hefur því bæði leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu um það hvað liggi að baki kæru. Með hliðsjón af framangreindu þykir skilyrðum um form kæru uppfyllt, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var umsókn leyfishafa um byggingarleyfi samþykkt. Sú ákvörðun var tekin í skjóli stjórnsýsluvalds og skapaði rétt til handa leyfishafa með tilteknum skilyrðum sem leyfishafa bar að uppfylla áður en að ráðist yrði í framkvæmdir. Samþykki byggingaráforma er því stjórnvaldsákvörðun sem ekki verður dregin til baka eða afturkölluð nema eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, en útgáfa byggingarleyfis fer fram í skjóli þeirrar ákvörðunar. Hin kærða ákvörðun um samþykki byggingaráforma um nýbyggingu á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 verður því borin undir úrskurðarnefndina skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í skilmálum gildandi deiliskipulags sem tekur til lóðanna Vegamótastígs 7 og 9 segir: „Á lóðunum verða byggingar sem verða alls 5 hæðir, efsta hæð verður inndregin sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð verður undir húsunum“. Þá segir einnig: „Einnar hæðar kjallari verður undir húsunum og verður hann notaður fyrir bílastæði.“ Samkvæmt þeim aðaluppdráttum sem samþykktir voru af byggingarfulltrúa hinn 18. október 2016 verður kjallarinn undir húsunum á tveimur hæðum. Í neðri kjallara er gert ráð fyrir geymslum, þvottaherbergi o.fl. og í efri kjallara er gert ráð fyrir veitingasal. Liggur því fyrir að byggingarleyfið fer í bága við skilmála skipulagsins hvað varðar fjölda hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis. Skortir því á að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi skipulag eins og kveðið er á um í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki.

Í 6. kafla byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er að finna þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við eða á lóðum bygginga sem falla undir skilyrði kaflans um algilda hönnun. Í gr. 6.2.4. segir: „Ef fjöldi bílastæða á lóð annarra bygginga en falla undir 5. og 6. mgr. er ákvarðaður í skipulagi skal lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóð vera skv. töflu 6.03. Þegar um fleiri stæði er að ræða bætist við eitt stæði fyrir hver byrjuð 200 stæði. Ætíð skal að lágmarki gera ráð fyrir einu stæði fyrir hreyfihamlaða.“

Í byggingarlýsingu hins kærða byggingarleyfis fyrir nýbyggingum á fyrrgreindum lóðum kemur fram að samkvæmt deiliskipulagsskilmálum þyrftu að vera 15 bílastæði á lóðunum tveimur og greiða þurfi fyrir þau stæði. Á samþykktum aðaluppdráttum er ekki gert ráð fyrir bílastæðum í kjallara nýbyggingarinnar eða á lóðunum. Hinn 16. september 2016 var undirritað samkomulag milli Eignasjóðs Reykjavíkurborgar og leyfishafa vegna afnotaréttar af bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Samkvæmt samkomulaginu skyldi útvegað eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar. Stæðið skyldi merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða, en það yrði ekki sérmerkt Vegamótastíg 7 og 9. Fyrirhugað er að bílastæðið verði í um 10 m fjarlægð frá inngangi hótelsins, meðfram götu gegnt hótelinu.

Kröfur 6. kafla byggingarreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða og staðsetning þeirra gagnvart byggingum styðst við markmið algildrar hönnunar sem tryggja skal að sem flestir eigi kost á viðunandi aðgengi að tilteknum byggingum. Verður ekki talið að heimild 19. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, til þess að greiða bílastæðagjald ef ekki er hægt að koma bílastæðum fyrir á lóð, geti vikið til hliðar kröfum reglugerðarinnar um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða, handan götu og sem ekki er sérstaklega ætlað að þjóna starfsemi á umræddum lóðum, uppfyllir ekki kröfur byggingarreglugerðar til bílastæða fyrir hreyfihamlaða.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 um að samþykkja flutning á húsi af Vegamótastíg 9.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. október 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

101/2015 Suðurnesjalína 2 Grindavík

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkur frá 16. desember 2014 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júní 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Landakots, Stóru Vatnsleysu, Minni Vatnsleysu, hluti af eigendum Heiðarlands Vogajarða og hluti af eigendum Stóra Knarrarness, Sveitarfélaginu Vogum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkur frá 16. desember 2014 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Grindavík 13. nóvember 2015.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til hennar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á.

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags 26. nóvember 2013, óskuðu eigendur jarðanna Landakots, Hvassahrauns, Stóru og Minni Vatnsleysu, nokkrir eigenda Heiðarlands Vogajarða og tveir eigenda Stóra Knarrarness eftir endurskoðun fyrrnefndrar matsskýrslu Landsnets að því er varðaði Suðurnesjalínu 2. Með ákvörðun sinni 23. júní 2014 hafnaði Skipulagsstofnun þessari beiðni landeigendanna, sem og ósk þeirra til vara um endurskoðun á áliti stofnunarinnar á matsskýrslunni. Nefnd ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar, en kæran var síðar afturkölluð.

Orkustofnun veitti Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Um er að ræða 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði, um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ, að tengivirki við Rauðamel, um 5 km norðan við Svartsengi. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en kærumálinu vísað frá í kjölfar dóms Hæstaréttar 13. október 2016, í máli nr. 796/2015, þar sem ákvörðunin var felld úr gildi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Landsneti heimildir til eignarnáms á jörðum kærenda í febrúar 2014, en þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015, uppkveðnum 13. maí 2015. 

Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkur 16. desember 2014 var tekin fyrir umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2, en um umsóknina hafði verið fjallað á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 10. s.m. Bæjarstjórn samþykkti framkvæmdaleyfið og var það gefið út 22. apríl 2015 og auglýst 5. maí s.á. Auk Grindavíkur veittu sveitarfélögin Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Vogar Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem öll voru kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Kærumáli þessu var frestað á meðan á rekstri dómsmáls stóð vegna framkvæmdaleyfisins sem veitt var af Sveitarfélaginu Vogum, en leyfið var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016. Kærur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar leyfisveitingar hafa verið afturkallaðar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að hin kærða leyfisveiting varði með beinum hætti stjórnarskrárvarin eignarréttindi þeirra, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Hvorki kerfisáætlun Landsnets á árunum 2006-2013 né áform um Suðvesturlínur hafi sætt umhverfismati áætlana skv. lögum nr. 105/2006, sbr. tilskipun 2001/42/EB. Sé hin kærða ákvörðun af þessari ástæðu bæði ólögmæt og ógildanleg.

Matsskýrsla framkvæmdarinnar sé haldin svo verulegum ágöllum að framkvæmdaleyfi geti ekki átt í henni stoð. Leyfisveitanda hafi verið skylt að kynna sér matsskýrsluna og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Af því leiði að ágallar á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar komi einnig til skoðunar, en umfjöllun í matsskýrslu um aðra mögulega valkosti hafi verið verulega ábótavant. Aðrir valkostir fyrir Suðurnesjalínu 2, en lagning 220 kV línu með 690 MVA flutningsgetu, hafi ekki verið lagðir fram, en samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé skylt að gera grein fyrir öllum valkostum og bera þá saman. Ljóst sé að aðrir kostir standi til boða en lagning 220 kV loftlínu. Einkum sé lagning línunnar í jörð álitlegur kostur og hafi kærendur frá upphafi óskað eftir að sá valkostur yrði skoðaður til hlítar. Umfjöllun um jarðstrengi í matsskýrslu sé hins vegar annmörkum háð. Hún sé ófullnægjandi og um margt misvísandi, auk þess sem enginn samanburður liggi fyrir á kostnaði við lagningu línunnar í jörð og í lofti. Einnig sé gerð athugasemd við umfjöllunina hvað varði rekstrar- og afhendingaröryggi jarðstrengja, sem og umhverfisáhrif þeirra.

Í matsskýrslu og tillögu að matsáætlun segi að Landsnet hafi verið með ýmsa valkosti til athugunar, en eftir samráð við sveitarfélög á línuleiðinni hafi einn kostur verið eftir, þ.e. lagning 220 kV loftlínu. Kærendum og öðrum hagsmunaaðilum hafi ekki verið hleypt að borðinu við þetta samráð. Gengið hafi verið á svig við rétt almennings til að hafa áhrif á aðkomu að ákvarðanatöku í umhverfismálum, sbr. 6. gr. Árósasamningsins og tilskipun 2011/92/ESB, einkum 2.-6. mgr. 6. gr. Auk þess veiti 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmálans, kærendum og öðrum landeigendum ríkan rétt til þátttöku í ákvörðunum sem til standi að taka um eignir þeirra, og þá frá upphafi þegar allir valkostir séu opnir og enn mögulegt að hafa áhrif á ákvarðanatöku. Þessa hafi ekki verið gætt.

Það sé meginregla að allar framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir skuli eiga sér stoð í deiliskipulagi. Undantekningu frá henni beri að túlka þröngt. Því fari fjarri að uppfyllt sé það skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 að í aðalskipulagi Grindavíkurbæjar 2010-2030 sé gerð grein fyrir framkvæmdinni Suðurnesjalínu 2 og að fjallað sé á ítarlegan hátt um umfang, frágang, áhrif hennar á umhverfið og annað það sem við eigi.

Loks sé útgáfa framkvæmdaleyfisins í andstöðu við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga, sem og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar.

Málsrök Grindavíkur: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni vegna kærunnar, sbr. m.a. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Beri því að vísa kærunni frá. Að öðru leyti sé vísað til lögfræðilegrar greinargerðar og annarra gagna málsins er legið hafi fyrir við ákvörðunartöku bæjarins.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kærendur hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta tengdri hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeir séu ekki búsettir í Grindavík og séu jarðir þeirra innan Sveitarfélagsins Voga, sem taki ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis innan síns lögsagnarumdæmis. Beri því að vísa kærunni frá.

Leyfisveitandi skuli fjalla um og taka afstöðu til þess hvort tiltekin framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt skuli hann kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu. Þá skuli leyfisveitandi taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Sveitarstjórn Grindavíkurbæjar hafi uppfyllt þessar lögbundnu kröfur við veitingu framkvæmdaleyfisins og séu því engar forsendur til ógildingar þess. Það falli hins vegar utan valdsviðs sveitarfélaga að skera úr um hvort áætlanir leyfishafa skuli sæta umhverfismati áætlana skv. lögum nr. 105/2006 þess efnis, en þó sé bent á að framkvæmdin hafi sætt slíku mati um leið og aðalskipulagstillaga hafi farið í slíkt mat. Þegar mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram hafi engin krafa verið gerð um að kerfisáætlun skyldi sæta umhverfismati áætlana.

Matsskýrsla Suðvesturlína sé ítarleg og í viðauka 6 við hana sé 50 bls. skýrsla um jarðstrengi. Ekki sé gert ráð fyrir því að fjallað sé um aðra framkvæmd en þá sem ráðast eigi í og þá kosti sem raunhæfir séu. Lagning 220 kV jarðstrengs milli Hafnarfjarðar og Suðurnesja sé allt önnur framkvæmd heldur en lagning 220 kV háspennulínu, bæði hvað varði kostnað og tæknilega útfærslu. Horft sé til framtíðar við framkvæmdir í flutningskerfinu og sé það kostur við háspennulínur að flutningsgetu þeirra megi auka með einföldum hætti. Athygli sé vakin á stefnu stjórnvalda hvað varði lagningu jarðstrengja, sbr. þingsályktun þar um. Forræði framkvæmdaraðila á framkvæmdum sé áréttað og að ekki sé á valdsviði sveitarfélaga að fjalla um mögulegar útfærslur framkvæmda. Þá séu ekki ágallar á matsskýrslu Suðvesturlína og álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir. Sveitarstjórnin hafi tekið rökstudda afstöðu til mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og notið við það aðstoðar lögmanna.

Ekki verði af framkvæmd sem Suðurnesjalínu 2 nema ráð sé gert fyrir henni á skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Sé því ljóst að framkvæmdaraðili hafi ávallt samráð við sveitarstjórn þess sveitarfélags sem framkvæmdin liggi um. Að auki hafi kærendur nýtt sér heimildir laga til að koma á framfæri skoðunum sínum.

Suðvesturlínur feli í sér áfangaskiptar framkvæmdir og hafi leyfishafi ekki gert nokkra þá breytingu á framkvæmdinni Suðurnesjalínu 2, sem leitt geti til þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram.

Útgáfa framkvæmdaleyfis sé í samræmi við aðalskipulag og hafi lögbundinn undirbúningur verið til samræmis við stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Ríkir almannahagsmunir krefjist þess að raforkuflutningskerfið verði styrkt frá Hafnarfirði til Suðurnesja. Um sé að ræða veikan hluta flutningskerfisins, bæði með tilliti til flutningsgetu og afhendingaröryggis. Suðurnesjalína 1, sem nú þjóni svæðinu og rekin sé á 132 kV spennu, sé fulllestuð í dag.

——-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu, sem ekki verða rakin nánar hér með hliðsjón af síðar til komnum atvikum málsins.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem samþykkt var af bæjarstjórn Grindavíkur 16. desember 2014. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 42/2015, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 575/2016. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærendur hafa ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna atvika sem nánar eru rakin í málavaxtalýsingu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon