Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

121/2016 Flýtirein á Keflavíkurflugvelli

Árið 2016, fimmtudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. ágúst 2016 um að bygging flýtireina á Keflavíkurflugvelli skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. september 2016, sem barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Vogagerðis 6, Vogum, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. ágúst 2016 að bygging flýtireina á Keflavíkurflugvelli skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 11. október 2016.

Málsatvik og rök: Í kjölfar samskipta við Skipulagsstofnun vegna framkvæmda við Keflavíkurflugvöll beindi Isavia ohf. fyrirspurn til stofnunarinnar, dags. 20. júní 2016, um matsskyldu fyrirhugaðra framkvæmdar sem fæli í sér byggingu tveggja flýtireina á Keflavíkurflugvelli. Kom fram að flýtireinar myndu stytta brautartímann á milli lendinga og milli lendingar og flugtaks. Með flýtirein væri hægt að stjórna betur umferð flugvéla á jörðu niðri og draga úr þeim tíma sem þær þyrftu að vera á brautarkerfinu eða í bið.

Skipulagsstofnun leitaði eftir umsögnum frá Reykjanesbæ, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, sveitarfélaginu Garði, Samgöngustofu, Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar, Sandgerðisbæ og Umhverfisstofnun. Töldu allir umsagnaraðilar að umræddar framkvæmdir skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum og varð niðurstaða Skipulagsstofnunar 17. ágúst 2016 á sama veg.

Kærandi skírskotar til þess að það sé alþekkt aðferð framkvæmdaraðila, til þess að skjóta sér undan mati á umhverfisáhrifum, að tilkynna aðeins lítinn hluta framkvæmdar og sækja um undanþágu frá mati með þeim rökstuðningi að aðeins sé um sáralitla framkvæmd að ræða. Það sé margdæmt fyrir Evrópudómstólnum að þetta vinnulag standist ekki löggjöf um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Röksemdafærsla Skipulagsstofnunar gangi þvert á kröfur nefndrar löggjafar um mat á heildaráhrifum fyrirhugaðra framkvæmda. Matið eigi að vera heildstætt en ekki bútað niður og taka eigi tillit til umhverfisáhrifa eins fljótt og hægt sé í öllum ferlum við tæknilega áætlanagerð og ákvarðanatöku. Flýtireinarnar séu hluti af stórframkvæmd sem ljóst sé að sæta þurfi mati á umhverfisáhrifum.

Af hálfu Skipulagsstofnunar er vísað til þess að samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem sé kærð. Kærandi eigi lögheimili í Reykjavík og búi þar að jafnaði. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Vegagerðarinnar séu 14 km á milli Keflavíkurflugvallar og Voga, þar sem kærandi á fasteign. Sé fasteign kæranda því ekki skammt frá flugvellinum. Þá verði ekki séð að hann eigi grenndarhagsmuni sem skapi honum kæruaðild vegna flýtireinanna á flugvellinum og annarra framkvæmda sem hafi farið þar fram. Á mynd sem sýni áhrifasvæði í íbúabyggð séu ekki sýnd íbúðasvæði í Vogum. Geti kærandi ekki reist kæruaðild sína á því að hann sem fasteignareigandi verði fyrir óþægindum vegna hávaða frá aukinni flugumferð á flugvellinum. Loks sé bent á að óvissa sé um hvort heildarflugumferð um völlinn muni aukast vegna tilkomu flýtireinanna.

Isavia ohf, sem framkvæmdaraðili, bendir á að bygging flýtireina sé hluti af framkvæmd við endurnýjun yfirlags flugbrautanna, þ.e. notað hafi verið tækifærið þegar fara þurfti í viðhald á brautunum til að byggja flýtireinar. Bygging flýtireina sé sjálfstæð framkvæmd sem ekki sé hluti af stærri matsskyldri framkvæmd. Um sé að ræða einfalda framkvæmd gerða til þess að gera flugvélum mögulegt að beygja af flugbraut fyrr og með einfaldari og fljótlegri hætti. Þetta spari bæði tíma og eldsneyti og dragi úr hávaða og mengun frá hverri lendingu. Þá hafi málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verið í fullu samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. ágúst 2016 um að bygging flýtireina á Keflavíkurflugvelli skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Í kæru sinni vísar kærandi til þess að hann sé fasteignareigandi í Vogum en að öðru leyti er vísað til atriða sem telja verður til almannahagsmuna, s.s. að aukin flugumferð valdi auknum hávaða, aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda, aukinnar umferðar á vegum, aukins álags á ferðamannastöðum og á náttúru landsins. Tilvísun til slíkra almannahagsmuna nægir ekki til kæruaðildar að því undanskildu að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta kært nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en kærandi í máli þessu er ekki slík samtök. Þá er fjarlægð frá mörkum flugvallarsvæðisins að húseign kæranda um 10 km  í beinni loftlínu. Verður því ekki séð að kærandi eigi þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni umfram aðra sökum grenndaráhrifa að það skapi honum kæruaðild.

Með hliðsjón af framangreindu þykir á skorta að kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson