Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

157/2016 Hótel Reykjahlíð

Árið 2017, þriðjudaginn 2. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 157/2016, kæra á afgreiðslu Umhverfisstofnunar frá 27. október 2016 vegna tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 fyrir lóð Hótels Reykjahlíðar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Flugleiðahótel ehf., þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 27. október 2016 að „fallast ekki á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 á lóð Hótels Reykjahlíðar“.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 4. janúar 2017. 

Málavextir: Hótel Reykjahlíð er staðsett innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár, á landnotkunarreit 108-M samkvæmt Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023. Fram kemur í skilmálum deiliskipulags Reykjahlíðar að umrætt hótel sé 544 m² að stærð og heimiluð hámarksstærð bygginga á lóðinni 1.180 m². Á árinu 2015 óskaði lóðarhafi hótelsins eftir því við skipulagsyfirvöld að landnotkunarreitur lóðarinnar yrði stækkaður og byggingarmagn á lóðinni aukið. Veitti Umhverfisstofnun umsögn sína um lýsingu skipulagsverkefnisins með bréfi, dags. 13. ágúst 2015.

Hinn 29. júní 2016 samþykkti sveitarstjórn að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps. Fól umrædd breytingartillaga í sér að landnotkunarreitur 108-M yrði stækkaður úr 0,59 ha í 1,29 ha og hámarksbyggingarmagn yrði 3.556 m². Í kjölfar þessa var tillagan send Skipulagsstofnun til athugunar samkvæmt 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í svarbréfi stofnunarinnar til Skútustaðahrepps, dags. 8. ágúst s.á., kom fram að ekki væri unnt að taka afstöðu til breytingartillögunnar fyrr en umsögn Umhverfisstofnunar um hana lægi fyrir. Í framhaldi af því óskaði skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps umsagnar Umhverfisstofnunar og lá hún fyrir 27. október 2016. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að hún, með umsögn sinni, féllist ekki á skipulagstillöguna. Ljóst væri að leyfi Umhverfisstofnunar þyrfti fyrir fyrirhugaðri framkvæmd í samræmi við lög um Mývatn og Laxá. Jafnframt var tekið fram að með vísan til athugasemda í umsögn, og miðað við fyrirliggjandi gögn, gerði stofnunin ekki ráð fyrir að svo mikil uppbygging innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár, aðeins 50 m frá vatninu, yrði heimiluð af hennar hálfu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu skuli leita leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geti áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á landsvæði því sem um geti í 1. mgr. 2. gr. laganna, þ.e. á svokölluðu verndarsvæði laganna. Síðari málsliður sömu málsgreinar kveði á um það að þó skuli heimilar án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um sé að ræða. Í framkvæmd hafi ákvæðið verið túlkað af stjórnvöldum á þá leið að framkvæmdaraðili geti ekki hafið framkvæmdir á verndarsvæðinu nema annað hvort liggi fyrir leyfi Umhverfisstofnunar fyrir þeim eða að hún hafi fallist á tilteknar breytingar á skipulagi sem þörf sé á vegna framkvæmdanna. Lúti hin kærða ákvörðun að veitingu leyfis samkvæmt fyrrgreindu ákvæði og sé því kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 11. gr. sömu laga.

Fyrri og síðari málsliður 2. mgr. 3. gr. laganna séu háðir hvor öðrum. Verði síðari málsliðurinn ekki skilinn öðruvísi en svo að leyfi Umhverfisstofnunar þurfi til breytinga á skipulagsáætlun ef hún varði fyrirhugaðar framkvæmdir sem haft geti áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á verndarsvæði laganna. Mæli lögin fyrir um lögbundna álitsumleitan og sé umsögn stofnunarinnar bindandi um úrlausnarmöguleika sveitarfélagsins. Orðalag ákvæðisins sé á þá leið að stofnunin þurfi að fallast á skipulagsbreytingar. Niðurstaða Umhverfisstofnunar um að fallast ekki á skipulagsbreytingar feli því í sér að stofnunin veiti ekki leyfi fyrir þeim. Sé stjórnsýsluvaldi í raun skipt milli Skútustaðahrepps og Umhverfisstofnunar þegar komi að skipulagstillögum eins og þeirri sem deilt sé um í máli þessu.

Leiði almenn sjónarmið, sem líta beri til við skýringu á kæruheimild, enn fremur til sömu niðurstöðu. Beri að skýra kæruheimildir það rúmt að þær nái því markmiði sem liggi til grundvallar réttarúrræðinu. Sé vísað til úrskurðar umhverfisráðuneytisins frá 13. mars 2006, í máli nr. 05100011, í þessu sambandi, en samræmisályktun á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins ætti að leiða til þess að kæruheimild sé til staðar.

Kærandi bendi jafnframt á að líta þurfi heildstætt til stefnu aðalskipulags Reykjahlíðar. Reykjahlíð sé samkvæmt aðalskipulaginu ætlað að vera þungamiðja byggðar, verslunar og þjónustu. Svæðið sé skilgreindur þéttbýliskjarni. Um sé að ræða viðbyggingu við húsnæði hótels sem hafi verið á lóðinni í áratugi. Í aðalskipulaginu segi að sporna skuli við frekari nýbyggingum vatnsmegin vegar, öðrum en þeim sem tengist bæjar- og húsaþyrpingum sem þar séu fyrir. Hér sé um algert grundvallaratriði að ræða.

Því sé mótmælt að breytingartillagan muni hafa fordæmisgildi hvað varði önnur byggingaráform á svæðinu, vatnsmegin vegar. Mat Umhverfisstofnunar beri þess merki að vera eingöngu byggt á huglægum forsendum. Staðhæfingar um áætluð áhrif fyrirhugaðrar uppbyggingar og að áætluð framkvæmd muni ekki vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu séu bornar fram án þess að baki búi haldbærar röksemdir eða rannsóknir. Lögð hafi verið rík áhersla á það af hálfu forsvarsmanna kæranda að stuðla að því að fyrirhugaðar framkvæmdir og nauðsynleg uppbygging uppfylli það markmið í stefnu sveitarfélagsins að varðveita sem best landslag og ásýnd svæðisins. Jafnframt sé kærandi tilbúinn að vinna að fullnægjandi lausn í fráveitumálum fyrirhugaðra framkvæmda og setja ný viðmið í þessum efnum og séu ýmsar hugmyndir að útfærslu fráveitumála í vinnslu. 

Ákvæði 3. gr. laga nr. 97/2004 veiti Umhverfisstofnun ekki vald til eftirlits með Skútustaðahreppi heldur vald sem leyfisveitanda fyrir skipulagsbreytingum og framkvæmdum. Sé lögð áhersla á að þær valdheimildir sem stofnuninni hafi verið veittar með þeim lögum verði túlkaðar með hliðsjón af 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Þá sé eðlilegt að  Umhverfisstofnun líti til 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 við mat á því hvort fallast skuli á tillögu að breytingu á skipulagsáætlun á verndarsvæðinu.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem umrædd umsögn sé ekki kæranleg til nefndarinnar. Skírskotað sé í því sambandi til 11. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati Umhverfisstofnunar sé umsögn hennar ekki stjórnvaldsákvörðun, enda ekki um endanlega afgreiðslu að ræða. Skýrt sé tekið fram í niðurstöðu umsagnarinnar að ekki sé fallist á skipulagsáætlunina, sem vísi til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004. Hafi stofnunin ekki tekið formlega ákvörðun um það hvort hún muni eða muni ekki gefa leyfi fyrir fyrirhugaðri framkvæmd heldur einungis að undanþáguákvæði ofangreinds ákvæðis eigi ekki við. Ekki hafi verið litið svo á að ákvæðið fæli í sér að gildistaka skipulags væri háð samþykki Umhverfisstofnunar.

Fræðimenn séu almennt sammála um að ekki beri að flokka bindandi umsagnir sem stjórnvaldsákvarðanir þar sem þær bindi ekki enda á stjórnsýslumálið og hafi ekki þau réttaráhrif að vera bindandi úrlausn þess frá því að þær séu birtar aðila. Ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir framkvæmdinni af hálfu framkvæmdaraðila. Þá beinist umsögn stofnunarinnar ekki að kæranda heldur Skútustaðahreppi og sé m.a. leiðbeinandi til þess stjórnvalds um að stofnunin telji framkvæmdina jafnframt vera leyfisskylda hjá henni. Telji Umhverfisstofnun úrskurð umhverfisráðuneytisins frá 13. mars 2006, sem kærandi vísi til, ekki eiga við í máli þessu þrátt fyrir að kærandi eigi hagsmuna að gæta. 

Verndarsvæði Mývatns og Laxár njóti verndar lögum samkvæmt, enda sé náttúra og umhverfi þess einstakt á heimsvísu. Sé sérlögum um Mývatn og Laxá ætlað að stuðla að náttúruvernd á svæðinu í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins sé ekki stefnt í hættu af mannavöldum, sbr. 1. gr. laga nr. 97/2004. Í núgildandi aðalskipulagi Skútustaðahrepps sé lögð áhersla á náttúruvernd og tiltekin þau atriði sem hafa beri að leiðarljósi. Brýnt sé að við útfærslu skipulags sé þess gætt að framkvæmdir samræmist því regluverki sem eigi við um hið verndaða svæði. Skuli uppbygging í Reykjahlíð taka mið m.a. af þeim áherslum sem fram komi í aðalskipulaginu og tengist markmiðum reglna um verndun svæðisins.

Umhverfisstofnun hafi metið ástandið á Mývatni svo slæmt að það hafi verið á rauðum lista stofnunarinnar frá árinu 2012. Í skýrslu samstarfshóps um Mývatn frá júní 2016 komi fram að sterkar vísbendingar séu um að fjölgun ferðamanna auki álag á lífríki Mývatns. Sérstaklega sé tekið fram í núgildandi verndaráætlun Mývatns og Laxár 2011-2016 að nauðsynlegt sé að setja mörk fyrir ásættanlegar breytingar, meðal annars af völdum ferðamanna á verndarsvæðinu.

Telji Umhverfisstofnun fyrirhugaða breytingartillögu ekki samræmast núgildandi aðalskipulagi. Mikilvægt sé að fjalla um fráveitumál framkvæmdarinnar í tillögunni en á skorti að fram komi með ítarlegum hætti hvernig leysa skuli fráveitumál umrædds hótels. Þá muni sú stækkun sem breytingartillagan boði hafa talsverð áhrif á landslag innan verndarsvæðisins en landslag njóti verndar samkvæmt lögum um verndun Mývatns og Laxár. Í þessu tilviki sé um að ræða margfalda stærð þess mannvirkis sem nú þegar sé til staðar.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Umhverfisstofnunar: Kærandi áréttar sjónarmið sín. Jafnframt því skírskotar kærandi meðal annars til þess að inntak kæruheimildar ráðist af sjálfstæðri túlkun á efni hennar til samræmis við önnur ákvæði þeirra laga sem kærunefnd sé ætlað að hafa eftirlit með og óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttarins um kærurétt málsaðila. Kærunefndir geti því í ákveðnum tilvikum tekið mál til meðferðar þótt kærð ákvörðun feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun, enda geti sérstök kæruheimild leitt af sér betri rétt en almenn ákvæði stjórnsýslulaganna. Til frekari rökstuðnings sé vísað til álits umboðsmanns Alþingis nr. 3309/2001 frá 31. júní 2002.

Skipulagstillagan feli beinlínis í sér áform um framkvæmdir sem falli undir ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004. Í niðurstöðu Umhverfisstofnunar um það hvort hún fallist á skipulagsáætlun eða ekki felist sjálfkrafa endanleg niðurstaða stofnunarinnar um leyfisveitingu. Skipti afstaða stofnunarinnar sköpum vegna hlutverks hennar samkvæmt lögum nr. 97/2004. Rökstudd afstaða Umhverfisstofnunar í formi umsagnar sé því ekkert annað en ákvörðun sem lúti að leyfisveitingu og hafi sú ákvörðun að fallast ekki á skipulagstillögu þær afleiðingar að ferlið fari í uppnám. Ferli skipulagstillagna og leyfisveiting Umhverfisstofnunar haldist í hendur. Ákvörðunin hafi verið tekin í formi umsagnar og kynnt Skútustaðahreppi. Þar með hafi henni verið veitt réttaráhrif. Hún sé tekin af Umhverfisstofnun, sem sé lögformlegur aðili leyfisveitinga á grundvelli laga nr. 97/2004, og því tekin í skjóli stjórnsýsluvalds.

Það sé eðlilegt að kærandi, sem verulegra hagsmuna hafi að gæta, geti kært ákvörðun Umhverfisstofnunar, en hún hafi mikla þýðingu fyrir framhald málsins. Hagsmunir kæranda verði ekki nægilega tryggðir að lögum ef niðurstaðan verði sú að ákvörðunin teljist ekki kæranleg, enda hafi málsmeðferðin tekið langan tíma og meðal annars dregist á langinn vegna óvissu viðkomandi stjórnvalda um það hvernig haga beri málsmeðferð í máli sem þessu. Vísi kærandi í þessu sambandi til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4343/2005 frá 29. desember 2006.
                        ———

Færð hafa verið fram ítarlegri sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess.

Niðurstaða: Í máli þessu er m.a. um það deilt hvort að fyrir hendi sé kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka almenna kæruheimild m.a. að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar er þó jafnframt tekið fram að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að staðfesta samkvæmt lögunum sæti ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laganna er aðalskipulag háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Eru breytingar á aðalskipulagi jafnframt háðar slíkri staðfestingu, sbr. ákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna. Verður því ekki byggt á kæruheimild skipulagslaga í máli þessu, sem varðar umsögn Umhverfisstofnunar sem gefin var í tilefni af málsmeðferð breytingartillögu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023.

Breytingartillagan tekur til lóðar Hótels Reykjahlíðar, sem eins og fyrr greinir er staðsett innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár. Um svæðið gilda því lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Fer umhverfis- og auðlindaráðherra með þau lög og setur m.a. reglugerðir á grundvelli þeirra, en Umhverfisstofnun er einnig ætlað hlutverk samkvæmt lögunum.
Almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í nefndum lögum, en sérstaka kæruheimild er að finna í 11. gr. þeirra. Segir þar að ákvarðanir Umhverfisstofnunar er lúti að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfis skv. 3. gr. sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Í 1. mgr. nefndrar 3. gr. er tiltekið að breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna séu óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra, enda komi til sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar. Jafnframt er kveðið á um það í 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna að leita skuli leyfis stofnunarinnar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geti áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag, en í 2. málsl. ákvæðisins er tekið fram að þó skulu heimilaðar án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um sé að ræða. Efnislega sambærileg ákvæði er að finna í 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, sem sett er með stoð í nefndum lögum. Kemur m.a. fram í 3. mgr. 17. gr. að þrátt fyrir 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. séu heimilaðar, án sérstakrar undanþágu eða leyfis Umhverfisstofnunar, framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi Umhverfisstofnun fallist á umrædda skipulagsáætlun.

Óumdeilt er að kærandi hefur ekki sótt um leyfi samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. fyrrgreindra laga eða 17. gr. reglugerðarinnar, en kærandi telur að í umsögn Umhverfisstofnunar hafi falist ákvörðun um að fallast ekki á tillögu að breytingu á aðalskipulagi. Sé sú ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/2004, enda þurfi leyfi stofnunarinnar til skipulagsbreytinga. Felist raunar í ákvörðun Umhverfisstofnunar sjálfkrafa endanleg niðurstaða hennar um leyfisveitingu.

Eins og áður er frá greint var umsagnar Umhverfisstofnunar leitað vegna fyrirhugaðra breytinga á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023. Mælt er fyrir um í 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga að við gerð skipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, viðkomandi stjórnvalda og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu. Þá er kveðið á um það í 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd að leita skuli umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefnda við gerð aðalskipulagsáætlana og verulegra breytinga á þeim. Svarar greint ákvæði til 33. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Segir svo í athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi til þeirra laga að slíkt sé í samræmi við það sem segi í almennum athugasemdum frumvarpsins um nauðsyn þess að náttúruverndaryfirvöld komi að málum þegar á skipulagsstigi. Er sá þáttur sveitarstjórnar að afla umsagnar Umhverfisstofnunar þannig hluti af lögbundinni meðferð málsins hjá sveitarfélaginu í þeim tilgangi að sjónarmið stofnunarinnar komi fram við skipulagsgerðina. Um lögbundna umsögn er að ræða en ekki kemur fram í lögum að sú umsögn sé bindandi. Er þar með ljóst að skipulagsvaldið sem slíkt er eftir sem áður í höndum sveitarstjórnar sem getur samþykkt eða synjað um umbeðna aðalskipulagsbreytingu. Hins vegar getur umsögnin veitt upplýsingar um afstöðu stjórnvaldsins til síðar tilkominna leyfisbeiðna.

Í niðurstöðu fyrrgreindrar umsagnar segir svo: „Umhverfisstofnun, með umsögn þessari, fellst því ekki á skipulagstillöguna. Ljóst er að leyfi Umhverfisstofnunar þarf fyrir fyrirhugaðri framkvæmd í samræmi við lög um Mývatn og Laxá. Með vísan til framangreindra athugasemda og miðað við fyrirliggjandi gögn, gerir Umhverfisstofnun ekki ráð fyrir að svo mikil uppbygging innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár aðeins 50 metra frá vatninu yrði heimiluð af hennar hálfu.“ Í umsögninni er einnig m.a. bent á að hvorki sé rökstutt hvort breytingartillagan sé í samræmi við stefnumál í gildandi aðalskipulagi Skútustaðahrepps né komi fram í greinargerð breytt stefna í skipulagsmálum. Sé fyrirhuguð aðalskipulagsbreyting til þess fallin að auka verulega álag á verndarsvæðið miðað við fyrirliggjandi gögn og samræmist áætluð landnotkun breytingartillögunnar því ekki verndaráætlun fyrir verndarsvæðið. Þá telur Umhverfisstofnun að nauðsynlegt sé að sýna lausn á fráveitumálum, staðsetningu hreinsivirkis og útskýra hvernig komist verði hjá því að næringarefni frá fráveitu fari í vatnið, enda nái breytingartillagan í raun einungis til einnar framkvæmdar. Að mati Umhverfisstofnunar muni þær framkvæmdir sem áætlaðar eru í breytingartillögunni valda mikilli röskun á grónu hrauni á stóru svæði. Þá geti umrætt hótel ekki bætt ásýnd verndarsvæðis Mývatns og Laxár eins og fullyrt sé í breytingartillögunni, þrátt fyrir vandaða hönnun og endurbætur á eldri byggingu. Loks metur stofnunin það svo að áætluð framkvæmd sé ekki í samræmi við markmið reglugerðar nr. 665/2012 vegna umfangs og stærðar.

Af tilvitnuðu orðalagi umsagnarinnar verður ekki talið að það feli annað í sér en afstöðu eða álit Umhverfisstofnunar til umræddrar skipulagsáætlunar miðað við fyrirliggjandi gögn. Er ekki hægt að fallst á að í þeirri afstöðu, þótt neikvæð sé, felist endanleg niðurstaða stofnunarinnar um leyfisveitingu.

Með hliðsjón af öllu því sem rakið hefur verið verður þeirri niðurstöðu Umhverfisstofnunar „að fallast ekki á skipulagstillöguna“ ekki jafnað saman við veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfis skv. 3. gr. laga nr. 97/2004, en samkvæmt 11. gr. laganna er kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar einskorðuð við þær ákvarðanir. Fær sú skýring einnig stoð í athugasemdum með nefndu ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Þar segir að kveðið sé á um að nefndar ákvarðanir Umhverfisstofnunar verði kærðar til úrskurðarnefndarinnar í stað ráðherra. Frekara vald var hins vegar ekki skilið frá ráðherra með þeirri lagasetningu. Þar sem ekki er mælt fyrir um það í lögum, eins og fyrrnefnd 1. gr. laga nr. 130/2011 áskilur, að ágreiningur máls þessa verði borinn undir úrskurðarnefndina, verður því vísað frá nefndinni.

Það athugist að úrskurðarnefndin hefur með framangreindu ekki tekið til þess afstöðu hvort um kæruheimild geti verið um að ræða til ráðherra umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon